140. löggjafarþing — 74. fundur
 15. mars 2012.
tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga, fyrri umræða.
þáltill. RR o.fl., 220. mál. — Þskj. 226.

[16:35]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela velferðarráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að setja fram markvissa, heildstæða og tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga og að áætlunin skuli liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2012.

Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lúðvík Geirsson, Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir.

Virðulegur forseti. Þessi tillaga er lögð fram til þess að efla, samhæfa og samræma nærþjónustu við íbúa landsins í heimabyggð sinni. Þegar eru á hendi sveitarfélaga stórir málaflokkar sem teljast til nærþjónustunnar svo sem leikskólinn, sem reyndar er ekki lögbundið verkefni, en einnig lögbundin verkefni eins og grunnskólinn, félagsþjónusta og málefni fatlaðra, sem voru færð voru til sveitarfélaganna um síðastliðin áramót. Fyrirhugað er að færa málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga innan tíðar.

Það er mín skoðun að samþætting nærþjónustu við íbúa muni stuðla að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda í daglegu lífi og ég tel að sveitarfélögin séu betur í stakk búin en ríkið til að laga nærþjónustuna að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum íbúa.

Ráðherra hefur nú þegar samkvæmt lögum heimild til að fela sveitarfélagi eða öðrum aðilum að sjá um framkvæmdir og rekstur tiltekinna þátta þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veita skal. Sem dæmi um samninga af þessu tagi má nefna þjónustusamning við Akureyrarbæ um rekstur Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og þjónustusamning við Sveitarfélagið Hornafjörð um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Ýmis fleiri sveitarfélög hafa óskað eftir áþekkum samningi en af því hefur ekki orðið einhverra hluta vegna.

Ég tel ástæðu til að skoða sérstaklega með hvaða hætti unnt verði að vinna með sveitarfélögum er hafa samvinnu um skipulag og framkvæmd heilsugæslunnar nú, en nú er heimilt að fela einu þeirra skipulag og framkvæmd hennar og tekur þá viðkomandi sveitarfélag ákvarðanir um þjónustuna fyrir hönd annarra sveitarfélaga á svæðinu. Í þeim efnum er vert að horfa til þeirrar útfærslu sem byggt var á við yfirfærslu á málefnum fatlaðra, þ.e. með myndun skilgreindra þjónustusvæða og þjónustusamninga milli einstakra sveitarfélaga.

Það er nauðsynlegt að sjálfstæð gagnaöflun á gæðum heilsugæslunnar, starfsmannamálum og meðferð fasteigna verði sá faglegi og fjárhagslegi grunnur sem er nauðsynlegur svo að yfirfærslan geti orðið árangursrík. Enn fremur verður að gera ráð fyrir eftirliti með þeirri þjónustu sem er áætlað að veita og faglegu og fjárhagslegu endurmati á árangri tilfærslunnar.

Virðulegur forseti. Samhliða yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga tel ég brýnt að fara í endurskoðun á þeim greinum heilbrigðislaga sem snerta heilsugæsluna og þá þjónustu sem þar ber að veita. Skilgreining hugtaksins heilsugæsluþjónusta er nokkuð víðtæk og gera þarf ráð fyrir því, ef um yfirfærslu verður að ræða, að nánar verði mælt fyrir um það í nýrri reglugerð hvaða þjónustu skuli almennt veita á heilsugæslustöðvum og þá hvort tiltekna sérhæfða heilbrigðisþjónustu skuli veita á einstökum heilsugæslustöðvum. Sömuleiðis er ástæða til að fara í heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðra sem og lögum um félagsþjónustu til þess að samþætting nærþjónustu við íbúa verði byggð á traustum grunni.

Virðulegur forseti. Þar sem þegar er áætlað, eins og kom fram í ræðu minni, að færa málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga verða þrír meginþættir, þ.e. félagsþjónusta, málefni aldraðra og málefni fatlaðra, á verksviði sveitarfélaganna. Því er afar skynsamlegt, frú forseti, að heilsugæslan verði sömuleiðis færð frá ríki til sveitarfélaga. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á læknisþjónustu að halda, það eru oft börn, aldraðir og fatlaðir. Þess vegna er brýnt, til að hægt sé að veita heildræna, samfellda nærþjónustu við íbúa sérhvers sveitarfélags, að við færum verkefni heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga. Það ætti ekki að vera ágreiningur, frú forseti, í þeim málum vegna þess að allir tóku undir það í umræðunni um málefni fatlaðra og í velferðarnefnd var rætt um að nærþjónustan væri sú þjónusta sem byggja ætti á, og fyrsti viðkomustaðurinn er heilsugæsluþjónustan. Þess vegna, virðulegur forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu. Það er svo sannarlega von mín að eftir umsagnir og umræðu fái tillagan brautargengi og komi aftur til síðari umr. og atkvæðagreiðslu. Ég tel brýnt að það sé gert áður en við færum málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.



[16:40]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðu hennar sem útskýrði heilmargt og greinilegt að gamlir sveitarstjórnartaktar komu fram, að hlutirnir séu algjörlega á hreinu varðandi hvað verður fært yfir til sveitarfélaganna, og ekki síst skýr skilgreining á því hvaða heilbrigðisþjónustu er um að ræða.

Hv. þingmaður kom aðeins í lokin inn á málaflokk fatlaðra og að hann hefði verið færður yfir til sveitarfélaganna, og ég var eindreginn stuðningsmaður þess. Það er rétt að undirstrika að ég tek undir þessa þingsályktun. Ég held að þetta sé rétt skref til að bæta nærþjónustuna. Tilgangurinn með færslunni á málaflokki fatlaðra yfir til sveitarfélaganna var meðal annars sá að bæta hana, og þess vegna var gunnskólinn á sínum tíma færður yfir til sveitarfélaganna. Við höfum líka snert aðeins á hugsanlegum flutningi framhaldsskóla, sem ég held að sé síðari tíma mál, en það er engu að síður mál sem á að taka í þessu samhengi varðandi nærþjónustuna og ábyrgð sveitarfélaga á skólarekstri.

Ég velti fyrir mér, af því að tiltölulega stutt eða rúmt ár er síðan að við fluttum málaflokk fatlaðra yfir, hann færðist yfir til sveitarfélaganna um áramótin 2010/2011, og nú er kominn ákveðinn reynslutími á það. Hvernig sér hv. þingmaður það tengjast þessu máli? Getur verið að yfirfærslan á heilsugæslunni, að heilsugæslan verði færð sem allra fyrst til sveitarfélaganna, styðji meðal annars verkefni sveitarfélaganna fyrir fatlaða?

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði áðan að ég styð að þessi áætlun liggi fyrir eigi síðar en í árslok, ekki síst í ljósi þess að mörg mál brenna á nærþjónustu sveitarfélaga sem tengjast ekki bara málefnum fatlaðra heldur ýmsum öðrum þáttum, m.a. skólunum. Ég held að með aukinni samvinnu (Forseti hringir.) og samrekstri innan sveitarfélaganna, heilsugæslu og skóla getum við þjónustað fólkið okkar í landinu enn betur. (Forseti hringir.) En mér leikur hugur á að vita um tengslin við fatlaða.



[16:43]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tel að flutningur heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga muni tvímælalaust styðja sveitarfélögin í þjónustu við fatlaða, hvort sem það eru ungir fatlaðir eða eldri fatlaðir, og í heildarþjónustu við íbúa, hvort heldur þeir eru á leikskólastigi, á grunnskólastigi, aldraðir, fatlaðir eða ófatlaðir. Með því, ásamt félagsþjónustunni, geti sveitarfélagið horft heildrænt á þarfir íbúanna og þá þjónustu sem einstaklingarnir eiga rétt á eða þurfa á að halda og metið slíka þjónustu. Menn ætluðu sér að skoða að ári liðnu hvernig til hefði tekist við að flytja málefni fatlaðra yfir og við endurskoðun á því held ég að ekki sé spurning í mínum huga um að heilsugæslan í höndum sveitarfélaganna muni styðja við þann málaflokk á nákvæmlega sama hátt og hún mun sömuleiðis styðja við heilbrigð börn í grunn- og leikskóla og í allri þeirri nærþjónustu sem sveitarfélögin veita.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á það að grunnskólinn hefði verið færður frá ríki til sveitarfélaga. Öllum er ljóst að við þá yfirfærslu hefur verið bætt um betur í allri þjónustu við þá sem stunda nám i grunnskólum. Fleiri aðilar en eingöngu kennarar hafa komið inn í grunnskólann og sveitarfélögin hafa sýnt metnað sinn í að veita þá bestu þjónustu sem þeim er unnt í slíkum málum. Þeim er treystandi fyrir nærþjónustu við íbúa sína og það er okkur til heilla að þessi nærþjónusta sé á öllum sviðum á einni hendi. Það gerir hana skilvirkari og betri.



[16:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði, sveitarfélögin hafa staðið sig vel varðandi öll verkefni sem tengjast grunnskólanum og grunnskólamálum og gert í rauninni allan rekstur þeirra að mínu mati fjölbreyttari en ella hefði verið.

Ég er fegin að heyra og er sammála henni í því að heilsugæsluflutningurinn til sveitarfélaganna mundi styrkja málefni fatlaðra. Í ljósi þess að meðal annars okkar flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur í gegnum tíðina verið á þeirri skoðun að menn eigi að líta til þess að færa málefni aldraðra líka yfir til sveitarfélaganna spyr ég hvort þetta sé þá ekki nauðsynlegt skref eða að minnsta kosti betra skref að taka að færa fyrst heilsugæsluna, sjá hvernig hægt er að nýta hana innan sveitarfélaganna og taka síðan ákvörðun um málefni aldraðra og flutning þess málaflokks yfir til sveitarfélaganna.

Síðan ítreka ég það sem hv. þingmaður sagði áðan, ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta mál verði afgreitt sem ég vona að verði. Ég sé að það er nokkurn veginn þverpólitískur stuðningur við það miðað við flutningsmenn og þá vona ég að menn skilgreini mjög vel hvað heyrir undir heilbrigðisþjónustuna þannig að menn fari ekki að rýra þennan flutning eftir á. Menn geta lært af reynslunni og allt það en menn verða að vera samhentir í að bæta nærþjónustuna svo kraftarnir fari ekki í að röfla um það sem menn hefðu getað komið í veg fyrir strax í upphafi.



[16:47]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég leyfi mér að áætla að það sé skynsamlegra að færa heilsugæsluna til sveitarfélaganna áður en menn færa málefni aldraðra til sveitarfélaga. Til að hvert sveitarfélag sé til þess bært að veita þá nærþjónustu sem aldraðir þurfa oft á að halda verða sveitarfélögin að hafa meðul, ef við getum orðað það svo, til að horfa heildstætt á þá þjónustu sem íbúar hafa þörf fyrir og geta veitt hana. Með því að flytja heilsugæsluna strax eða á undan málefnum aldraðra verða sveitarfélögin betur í stakk búin til að taka við þeim málaflokki.

Ég árétta hins vegar það sem ég sagði í ræðu minni áðan, það þarf að skilgreina hvaða heilbrigðisþjónusta á að vera á heilsugæslustöðvunum og hafa það klárt og kvitt þannig að ekkert fari á milli mála og menn komi ekki með eftiráskýringar um að annaðhvort hafi of lítið farið eða of mikið. Það er forsendan fyrir flutningi og það er líka forsenda fyrir flutningi að sú samvinna sem rætt hefur verið um, sem slík yfirfærsla á að byggja á, verði unnin varðandi fasteignir, starfsfólk og starfsmannamál til að unnt sé að leysa þetta farsællega. Sömuleiðis þarf að gæta að faglegum og fjárhagslegum grunni.

Ég ítreka, virðulegur forseti, að ég tel brýnt að heilsugæslan verði flutt frá ríki til sveitarfélaga áður en við færum málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.



[16:49]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er áhugaverð þingsályktunartillaga með góð markmið og hér hefur orðið ágætisumræða um málið. Í þessu sambandi vil ég hins vegar minna á að í sinni einföldustu mynd gengur heilbrigðisþjónustan út á að það verður að vera samfella í hlutum. Við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á forvarnir þannig að fólk þurfi ekki á heilbrigðisþjónustu að halda. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaðurinn og þarf að vera afskaplega virkur fyrsti viðkomustaður. Síðan erum við með sjúkrahús ef fólk er alvarlega veikt og þegar ljóst er að fólk verður langveikt erum við með hjúkrunarheimili, heimahjúkrun og aðra slíka þjónustu.

Það skiptir ekki öllu máli hver sér um rekstur viðkomandi stofnana, það sem skiptir máli er að það sé samfella í þessu. Einn vandinn er til dæmis sá, hljómar kannski sérkennilega, eitt verkefnið er að halda fólki frá sjúkrahúsum af mörgum ástæðum. Auðvitað viljum við ekki að fólk verði alvarlega veikt, en ef það verður alvarlega veikt verður það auðvitað að fara á sjúkrahús. Sjúkrahús eru hættulegir staðir. Þar er mikil sýkingarhætta og við viljum helst hafa sem allra fæsta þar.

Nú gæti einhver sagt: Bíddu, er það ekki heilbrigð skynsemi og allir sammála um það? Jú, ég held að allir séu sammála um það, en ef ekki er samfella í þessu og ef það er ekki rétti hvatinn í kerfinu er hætta á því að verkefnum sem eiga ekki heima á sjúkrahúsunum sé stýrt þangað. Þó að það tengist ekki þessu máli nema óbeint minni ég á að fyrir nokkrum missirum, það var reyndar þannig þegar ég tók við sem heilbrigðisráðherra, var talað um að hundruð manna væru á göngum Landspítalans. Eftir að reglugerð og lögum um vistunarmat var breytt sem og forgangsröðinni þannig að þeir sem þurftu á mestri þjónustu að halda fóru fyrst inn á hjúkrunarheimilin fór þetta fólk sem var á sjúkrahúsunum að ósekju, þetta var mjög dýrt, inn á hjúkrunarheimili eða fékk heimaþjónustu sem mikil áhersla var lögð á.

Að mínu áliti er ástandið í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu núna ekki nógu gott. Þjónustan er ekki nógu skilvirk og við þurfum í það minnsta að byrja á því, það er hægt að gera samhliða þessu ef menn vilja fara þá leið, að sjá til þess að þjónustan hjá heilsugæslunni sé skilvirkari, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Sama hver sér um reksturinn eða utanumhaldið þurfum við að koma í veg fyrir að verkefni verði send annað en þau eiga heima, t.d. á sjúkrahúsin. Núna sinnir Landspítalinn þjónustu sem ætti að vera hjá heilsugæslunni. Bráðaþjónustan á Landspítalanum er allt of mikið notuð, m.a. af fólki sem finnst kannski einfaldast að fara þangað en það fólk ætti í raun heima hjá heilsugæslunni. Biðlistarnir þar eru hins vegar svo langir að fólk fer frekar í bráðaþjónustuna.

Við verðum að laga þetta áður en við ákveðum að færa heilsugæsluna til sveitarfélaganna. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að það sé erfitt að tala um sveitarfélögin sem eina heild. Sveitarfélögin á Íslandi eru frá því að vera 50 manna hreppar, eins og í Árnesi og Skorradalshreppur, yfir í að vera 116 þús. manna borg eins og Reykjavíkurborg er. Sums staðar hentar mjög vel að sveitarfélögin yfirtaki þjónustu eins og heilsugæslu. Þau gera það á Akureyri og líka á Höfn í Hornafirði. Það gengur mjög vel eftir því sem ég best veit. Ég vissi að á sínum tíma voru í það minnsta flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tilbúin að taka við heilsugæslunni. Hún gat runnið mjög auðveldlega saman við ýmsa þjónustu og verkefni sem sveitarfélögin sinna núna.

Virðulegi forseti. Það er góður hugur og rétt markmið sem koma fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, 1. flutningsmanni málsins. Ég verð hins vegar að leggja áherslu á að þetta er stærsta einstaka málið. Við verðum að sjá til þess að heilsugæslan sinni betur hlutverki sínu en hún gerir núna, sama hver mun reka viðkomandi heilsugæslustöð. Núna rekur ríkið sumar heilsugæslustöðvar en einkaaðilar líka, t.d. í Kópavogi og þar gengur það mjög vel. Samkvæmt könnunum kemur sú heilsugæslustöð best út, bæði fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda og líka kostnaðarlega fyrir ríkið. Þetta er það sem við þurfum að skoða sérstaklega og sjá til þess að sé í lagi, þ.e. að þessi samfella virki. Eins og er vantar þó nokkuð upp á það og það er alveg kjörið þegar menn taka þessa umræðu í hv. velferðarnefnd að menn skoði þessa þætti nákvæmlega. Ef við gerum það ekki er það ávísun á vandræði og jafnvel enn meiri vandræði en eru núna ef þetta verður tog á milli ríkis og sveitarfélaga.

Síðan er ég sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um málefni aldraðra og flutninginn á þeim málaflokki til sveitarfélaganna. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér finnst að menn ættu að byrja á að skilgreina málefni aldraðra. Það hefur verið ótrúlega lítið um það í umræðunni og jafnvel þegar maður hefur spurt þá sem hafa talað um málefni aldraðra: Hvaða málaflokk eruð þið að tala um? vita menn það ekki. Ég vil ekki trúa því að neinn vilji aldursskipta heilbrigðisþjónustunni. Stærsti hluti heilbrigðisþjónustunnar er þjónusta við aldraða eðli málsins samkvæmt og þannig verður það alltaf. Við munum þurfa meiri áherslu á heilbrigðisþjónustuna af því að þjóðin er að eldast og það er það sama og gerist alls staðar annars staðar. Sú umræða er nokkuð grunn. Hún er kannski ekki til umræðu hér en ég vildi vekja athygli á þessu, virðulegi forseti.



[16:56]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa þátttöku í umræðunni. Það kom skýrt fram í máli mínu að það þarf að skilgreina hvaða þjónustu heilsugæslustöðvar eiga að veita svo það fari ekki í neitt tog um það síðar meir hver á að veita hvaða þjónustu.

Þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talar um heildstæða þjónustu innan heilbrigðisgeirans við þá sem þurfa á þeirri þjónustu að halda, get ég verið sammála því. Ég held þó að við getum veitt heildstæða þjónustu og við eigum að beita okkur í því máli að koma hér með samræmdar rafrænar sjúkraskrár þannig að hægt sé að nálgast upplýsingar um sjúklinginn á einum og sama staðnum, hvar sem hann í sjálfu sér leitar eftir þjónustunni. Hvort sem hann er barn, unglingur eða fullorðinn á að vera hægt að skoða það.

Ég er sammála hv. þingmanni um hverju málaflokkur aldraða tilheyrir. Ég veit hins vegar hvaða þjónustu sveitarfélögin veita öldruðum og ég veit hvaða þjónusta öldruðum er veitt á hjúkrunarheimilum. Ég vil hins vegar horfa á að hægt sé að samþætta bæði heimahjúkrunina sem heilsugæslustöðvarnar veita og félagsþjónustuna sem sveitarfélögin sinna betur ef um einn og sama aðilann er að ræða sem rekur heilsugæsluna sem og félagsþjónustuna og að það sé samspil í því. Þannig er hægt að veita heildstæða þjónustu við íbúann eins lengi í heimabyggð, á heimili eða í þjónustuíbúðum og öryggisíbúðum, áður en við tekur vera annaðhvort í hjúkrunarrými eða á sjúkrahúsi.

Grunnurinn við þessa yfirfærslu, ef af henni verður, er hvaða þjónustu á að veita á heilsugæslustöðvum og ég mun koma í síðara andsvari mínu inn á þessa smærri hreppi sem og hin stærri sveitarfélög.



[16:58]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála þessu um samræmdu sjúkraskrána og mér er fullkomlega óskiljanlegt að hún sé ekki komin í gagnið. Við breyttum lögum 2007 til að hægt væri að fara í samræmda sjúkraskrá. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skildi við var kominn hópur sem var að fara í að nýta þá 1,6 milljarða sem á hverju ári eru notaðir í, voru að minnsta kosti, rafræna þætti í heilbrigðisþjónustunni. Af hverju erum við einhvern veginn alltaf á byrjunarreit? Það er kannski bara dæmi um verkleysi þessarar hæstv. ríkisstjórnar.

Það er ekki aðalatriðið hver veitir þjónustuna. Núna er til dæmis heimahjúkrunin á höfuðborgarsvæðinu veitt af sveitarfélögunum. Þar er búið að sameina, (Gripið fram í: Bara í Reykjavík.) í það minnsta í Reykjavík og eftir því sem ég best vissi á fleiri stöðum, heimahjúkrunina og heimaþjónustuna þrátt fyrir að heimaþjónustan sé á hendi sveitarfélaga en heimahjúkrunin sé verkefni ríkisins.

Stóra einstaka málið í mínum huga er að við leitum leiða til að sjá til þess að alltaf sé best þjónusta veitt með sem minnstum tilkostnaði. Við stigum ákveðin skref í því með Sjúkratryggingum Íslands og þeirri hugmyndafræði, þó að núverandi hæstv. ríkisstjórn hafi heykst á að stíga næstu skref sem aðrar þjóðir hafa gert, nota bene Norðurlandaþjóðir. Ef við förum þá leið skiptir ekki máli hver ber ábyrgð á þjónustunni, þetta er hins vegar trygging fyrir því að sem best þjónusta sé veitt á hverjum stað. Ef það er hugað að þessu og heildarskipulaginu, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, munum við ná góðum árangri.



[17:00]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson segir að það skipti ekki máli hver veitir þjónustuna. Ég get tekið undir að það skipti kannski ekki máli hver veitir hana en ég tel hins vegar skipta máli hvort það er einkarekin heilsugæslustöð eða stöð rekin af hinu opinbera. Það yrði þá sveitarfélagið ef farið yrði út í að færa þjónustuna yfir. Þegar um er að ræða nærþjónustu eins og þá sem er á heilsugæslustöðvum, þ.e. fyrsta stig í hjúkrunar- og lækningaþjónustu við íbúana, tel ég að það sé með þeirri hugmyndafræði að á fyrsta stiginu sé sú nærþjónusta betur komin í höndum sveitarfélaga til samþættingar gagnvart börnum, unglingum og fullorðnu fólki og svo öldruðum en ef heilsugæslan væri á vegum ríkisins, eins og nú er, og önnur þjónusta sem tengist íbúunum á hendi sveitarfélags. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ríkið eigi sem minnst að vasast í slíkri þjónustu en það er annar handleggur. Ég held að það sé hægt að færa þetta úr höndum ríkisins yfir til sveitarfélaga og einkaaðila með mun skilvirkari hætti en margt er gert hjá ríkinu.

Af því að hv. þingmaður kom inn á að sums staðar væru hreppir svo smáir að þeir yrðu vart færir um að veita þjónustuna kom það fram í ræðu minni að við færum eins að og með málefni fatlaðra. Þar sem íbúafjöldinn er undir því lágmarki sem svona skipulagsheild kallar á gætu sveitarfélögin tekið sig saman. Við vitnuðum einnig í samninginn frá Akureyri og Höfn í Hornafirði, en einhverra hluta vegna hafa ekki verið gerðir slíkir samningar við fleiri sveitarfélög. Þessi tillaga er meðal annars komin til vegna þess.



[17:02]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samþætting innan nærþjónustu er auðvitað mjög skynsamleg en við getum hins vegar gert þetta allt saman núna ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Heilbrigðisráðherra hefur alveg tök á því að semja við hvaða sveitarfélag sem er til að yfirtaka heilsugæsluna. Ég tel að það sé bara mjög skynsamlegt. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór frá völdum voru komnar í gang viðræður, eins og ég segi. Það var búið að gefa það út við nokkur sveitarfélög að setja það í farveg. Það voru flest sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, ef ekki öll ef undan er skilin Reykjavík. Þetta var Reykjanes og í tengslum við sameininguna á Norðurlandi hafði í það minnsta Húsavík lýst yfir áhuga á að koma að því að yfirtaka heilbrigðisþjónustuna þar. Ýmsar hugmyndir voru uppi sem gátu gert það að verkum að það hefði getað verið skynsamlegt. Hið sama á við um Vestmannaeyjar. Það eru mjög mismunandi aðstæður og ein lausn hentar ekki öllum. Til dæmis eru Vestmannaeyjar eyjar sem þarf ekki taka fram. Á Húsavík erum við með gríðarlega stórt sveitarfélag hvað landflæmi varðar. Heimamenn þekkja mjög vel til hvernig best er að sinna þjónustunni þar. Þetta er allt saman hægt og mikilvægt að menn gangi í þau verk þar sem augljóst er að hægt sé að fara þessa leið.

Ég vara bara við því að þetta verði til þess, eins og oft hefur verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, að annar aðilinn sendi reikninginn á hinn. Núna er þetta hvort tveggja hjá ríkinu en það er ýmislegt sem Landspítalinn er að sinna sem heilsugæslan ætti að sinna. (Forseti hringir.) Við verðum að passa okkur á því að fara ekki lengra inn á þá braut.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.