140. löggjafarþing — 75. fundur
 20. mars 2012.
eldsneytisverð og ferðastyrkir.

[13:49]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Á Íslandi hefur aldrei þróast norrænt velferðarkerfi sem kemur í veg fyrir fátækt meðal þeirra sem verða fyrir áfalli í lífinu. Greiðslur úr almannatryggingakerfinu duga ekki til framfærslu og markmiðið með slíku kerfi er að skapa hvata fyrir fólk til að stunda vinnu á launum sem duga ekki heldur fyrir útgjöldum. Framfærslubilið er síðan brúað hjá þessu fólki með framlögum ættingja og hjálparsamtaka og lánum í bankakerfinu.

Á tímum stöðugt hækkandi eldsneytisverðs verður sífellt erfiðara fyrir fólk að kosta ferðir á milli staða og til og frá vinnu. Þetta á ekki síst við um hreyfihamlað fólk og þá sem búa utan helstu þéttbýlissvæða og þurfa að sækja vinnu þangað. Á árunum 1997–2009 kostaði lítrinn af bensíni að jafnaði 178 kr. á verðlagi dagsins í dag en kostar í dag 255 kr. Hækkunin er til komin vegna verðhækkana á heimsmarkaði og aukinnar skattheimtu ríkisins sem er um fjórðungur af hækkuninni.

Virðulegi forseti. Uppbót á lífeyri til reksturs bifreiðar er í dag aðeins 12.115 kr. á mánuði og nægir þessi upphæð varla til þess að fylla bensíntank á venjulegum fólksbíl. Ég spyr því hæstv. velferðarráðherra hvernig hann hyggst bregðast við stöðu þeirra sem háðir eru bíl vegna hreyfihömlunar sinnar en þurfa engu að síður að sækja vinnu, skóla og ýmiss konar þjálfun á sjúkrastofnunum, oft um langan veg.



[13:51]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli mína þegar hv. þm. Lilja Mósesdóttir byrjar ræðu sína á því að segja að hér hafi aldrei verið norrænt velferðarkerfi. Ég held að það sé kominn tími á að við setjumst hér niður, eða réttara sagt stöndum hér í ræðustól, og ræðum hvað átt er við með norrænu velferðarkerfi. Ég geri ráð fyrir því að við hv. þingmaður séum sammála um margt í því en ég hef áður vakið athygli á því úr ræðustóli að menn nota þetta hugtak ansi misvísandi.

Norrænt velferðarkerfi byggir fyrst og fremst á því að taka háa skatta og endurraða þeim með millifærslukerfi til fólksins aftur þannig að við jöfnum kjör í landinu og tryggjum ákveðið öryggisnet. Það er rétt að það eru veikleikar í almannatryggingakerfinu á Íslandi. Í augnablikinu hefur þó lágmarkstryggingin hækkað frá því sem var á árinu 2007 — af því að hér var nefnt bensínverð — úr 120 þús. kr. fyrir einstakling sem býr einn í yfir 204 þús. kr. á mánuði. Þar er um að ræða gríðarlega lagfæringu, enda held ég að sá hópur hafi í sjálfu sér ekki lent í mestum vandræðum burt séð frá einstökum þáttum eins og varðandi bensínverð og eitthvað slíkt sem hér er nefnt.

Hópurinn sem við erum svo aftur að fylgjast með og erum í miklum vandræðum með er atvinnuleysishópurinn sem er ekki með nema 167 þúsund. Við horfum líka upp á að lægstu laun í landinu eru enn þá einhvers staðar í kringum 190 þúsund. Að vísu eru sem betur fer ekki margir á þeim launum en það er sú tala sem boðið er upp á. Þar erum við að tala um verulega erfiðleika við að ná endum saman.

Bensínverðið er eitt af þessu og menn hafa skoðað framfærsluna og stöðu fólks almennt í landinu. Sem betur fer býr Ísland við það þrátt fyrir allt og þó í samkeppni við Norðurlöndin að fátækt á Íslandi er minni en víðast hvar annars staðar, en það er augljóst að við þurfum að fylgja hlutunum eftir.

Varðandi bensínverðið hækkuðum við bensínstyrki til öryrkja (Forseti hringir.) með fullum þunga á síðasta ári en við höfum ekki getað keppt við þá hækkun sem hefur orðið vegna heimsmarkaðsverðsins, því miður. Við höfum ekki fundið svör við hvernig eigi að mæta nákvæmlega þessum kostnaði hjá einstaklingum því að þó að við hækkuðum það um 50% erum við að tala um 3 þús. kr. (Forseti hringir.) á mánuði.



[13:54]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég hefði ekkert á móti því að ræða norræna velferðarkerfið við hæstv. velferðarráðherra enda hef ég meðal annars skrifað bók um einkenni þessa velferðarkerfis og annarra velferðarkerfa sem íslenska velferðarkerfið líkist meira. Til þess gefst ekki tími núna.

Það sem ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra út í er hvort hann geti stutt frumvarp sem ég er að láta vinna að sem á að fela í sér sérstakan skattafslátt fyrir þá sem þurfa að ferðast um langan veg til að sækja vinnu, líkt og gert er í Danmörku og Noregi. Í Danmörku fá þeir sem keyra umfram 24 kílómetra (Gripið fram í.) skattafslátt sem nemur um 45 íslenskum krónum á kílómetrann. Það væri hægt að innleiða slíkan skattafslátt hér á landi fyrir það fólk sem einmitt býr utan þéttbýlissvæða á stöðum eins og (Forseti hringir.) á Reykjanesi og Selfosssvæðinu þar sem lítið er um vinnu og atvinnuleysi er mikið. Slíkur skattafsláttur mundi gera það að verkum að það borgaði sig fyrir fólk á þessu svæði að sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins (Forseti hringir.) í stað þess að vera á atvinnuleysisbótum.



[13:55]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi sérstaklega þetta frumvarp er þetta gömul umræða sem hefur oft verið tekin upp, þ.e. hvort taka ætti upp skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu. Það hefur verið í skoðun. Ég ætla ekki að tjá mig um það, ég hef ekki séð útfærsluna. Ef ég ætti þær upphæðir sem þyrfti til hugsa ég að ég mundi frekar beina þeim í þann hóp sem hv. málshefjandi hafði í huga í byrjun, þ.e. til þeirra sem eiga hvað erfiðast hér, eru með lægstu tekjurnar og þurfa að lifa af bótum. Ég mundi nýta þá peninga þar sérstaklega.

Það má taka fram um atvinnuleysistryggingarnar á Reykjanesi að þegar er búið að setja inn þann möguleika að fá ferðastyrk til að sækja vinnu innan svæðisins til að tryggja að fólk geti farið á milli staða þar. Það varðar atvinnulausa.

Síðan er það sem ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á núna, sem er valkostur í þessu og skiptir miklu máli, m.a. vegna hækkunar á bensínverði, það að auka almenningssamgöngurnar og tryggja að fólk eigi valkosti, geti komið sér á milli staða með fullnægjandi hætti. (Forseti hringir.) Fyrir fram get ég því ekki svarað því hvort þessi leið komi til greina fyrr en ég sé um hvaða upphæðir er að ræða.