140. löggjafarþing — 75. fundur
 20. mars 2012.
makríldeilan við ESB.

[13:56]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna mánuði hafa vofað yfir okkur hótanir Evrópusambandsins um viðskiptaþvinganir vegna makríldeilunnar svokölluðu. Nú hefur það verið upplýst að á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins í gær hafi verið ákveðið að flýta vinnu við að koma á refsiaðgerðum gegn Íslendingum og Færeyingum. Þær refsiaðgerðir sem rætt hefur verið um í þessu sambandi og hafa komið fram í fjölmiðlum eru annars vegar að setja á bann við innflutningi á uppsjávarfiski, t.d. makríl og afurðum sem framleiddar eru úr honum, og hins vegar að setja á bann við innflutningi á tækjum tengdum sjávarútvegi og skipum.

Hér er stigið mjög stórt skref og boðaðar mjög harðar refsiaðgerðir af hálfu Evrópusambandsins gagnvart Íslandi. Ef þetta verður að veruleika mun það hafa mjög mikil áhrif, annars vegar í sjávarútveginum og hins vegar í ýmsum iðngreinum hér á landi. Núna liggur með öðrum orðum grafalvarleg hótun í loftinu. Þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til hafa kannski verið fremur táknrænar og ekki haft mikil áhrif hérlendis en ef þetta gerist mun það hafa mjög alvarleg áhrif.

Á sama tíma segir sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, að makríldeilan geti líka haft áhrif á viðræður okkar og Evrópusambandsins og geti til dæmis leitt til þess að ekki verði opnaðir kaflar í sjávarútvegsmálum. Mér er kannski nokk sama um það en það sem blasir sem sagt við er að Evrópusambandið tengir með beinum hætti saman makríldeiluna og umsókn okkar að Evrópusambandinu. Hæstv. forsætisráðherra hafnaði því hér í síðustu viku en nú liggur fyrir að viðsemjendur okkar líta þannig á að þetta sé einn og sami hluturinn og tengja þetta beint. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða áhrif hefur þetta á áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið? Mun ekki hæstv. ráðherra lýsa því yfir að ef þetta nái fram að ganga sé viðræðum við Evrópusambandið um aðild (Forseti hringir.) sjálfhætt?



[13:59]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er alvarlegt mál. Í sjálfu sér var hin fræga ályktun Evrópuþingsins þar sem vikið er að þessu ekki afdráttarlaus og skiptir ekki sköpum í þessum efnum, en miklu alvarlegri eru yfirlýsingar írska sjávarútvegsráðherrans í viðtali við írska ríkisútvarpið þar sem hann fjallar um stöðu mála að afloknum fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins og upplýsir þar, sem við reyndar vissum eftir öðrum leiðum, að tillaga Breta og Íra um að flýta því ferli sem í gangi var hjá framkvæmdastjórninni, að undirbúa refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum, hafi verið samþykkt og því miður með stuðningi allmargra ríkja í viðbót. Það er alvarlegt í sjálfu sér en hitt er ekki síður alvarlegt að í sama viðtali upplýsir Coveney, og vísar til þess að til hafi staðið að opna sjávarútvegskaflann á næstu mánuðum, að Evrópusambandið geti ekki byrjað þær viðræður í góðri trú með makríldeiluna óleysta, eins og þar er eftir honum haft.

Ég hlýt að segja á móti að við getum væntanlega sagt hið sama, það er erfitt fyrir okkur að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið í góðri trú ef Evrópusambandið tekur þetta óskylda deilumál og dregur það inn í aðildarviðræðurnar og ætlast til undanlátssemi af okkar hálfu í gríðarlega stóru og miklu hagsmunamáli til þess eins að þeir fáist til að eiga við okkur viðræður um aðskilda kafla í ferlinu með eðlilegum hætti. Það eru ekki boðlegar aðstæður og hljóta að valda uppnámi í þeim viðræðum.

Varðandi hótunina sjálfa ber að aðgreina tvennt, annars vegar er ekkert við því að segja þó að Evrópusambandslönd eða önnur lönd í deilunni setji hafnbann á íslensk skip varðandi makríl, og það ber að gera ef slík deila er uppi, en að færa það yfir í viðskiptaþvinganir gagnvart framleiðsluvörum, svo ekki sé talað um óskyldar vörur, er að (Forseti hringir.) okkar dómi ólöglegt og brot á bæði EES-samningnum og reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þannig að að sjálfsögðu getum við ekki látið slíkt líðast.



[14:01]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Kjarni málsins í þessu öllu saman er að hér er af hálfu Evrópusambandsins verið að tengja beint saman ágreininginn út af makrílveiðunum og aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Það liggur þá bara fyrir.

Ég fagna því hins vegar sem hæstv. ráðherra sagði, að erfitt yrði að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið ef það gengi eftir sem hér er hótað. Hann vakti enn fremur athygli á að með þessu væri auðvitað ekki verið að skapa boðlegar aðstæður til þess að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing og er auðvitað yfirlýsing sem íslensk stjórnvöld eiga hiklaust að koma á framfæri með beinum og formlegum hætti við Evrópusambandið, þó ekki væri nema til þess að reyna að stöðva viðræðurnar.

Aðalatriðið er að hér er um að ræða mjög alvarlegt mál, þessar hótanir eru árás á okkur af hálfu Evrópusambandsins. Þegar ljóst er að ákvörðun hefur verið tekin um þetta á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins með fulltingi fjölmargra þjóða (Forseti hringir.) getum við ekki litið á þetta sem innantóm orð. Þetta eru alvarlegar hótanir, hótanir sem okkur ber að taka mjög alvarlega. Þetta hlýtur að hafa áhrif, bara hótanirnar einar og sér, á framgang viðræðnanna við Evrópusambandið.



[14:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel rétt að öllu sé til haga haldið og við byggjum enn sem komið er fyrst og fremst á upplýsingum í fjölmiðlaviðtölum við til dæmis írska ráðherrann. Þar talar hann við írska ríkisútvarpið til heimabrúks og við þekkjum það, íslenskir stjórnmálamenn, að menn láta oft hvína í sér í málum af slíku tagi. Við þurfum að sjálfsögðu að sjá hver verða hin formlegu viðbrögð, hver verður hinn formlegi framgangur málsins af hálfu Evrópusambandsins, en við þurfum engu að síður að taka málið mjög alvarlega. Ég hef óskað eftir því að það verði á dagskrá ríkisstjórnarfundar á föstudag þegar utanríkisráðherra verður vonandi kominn heim. Ef það gengur eftir sem hér er um rætt, að þeir muni flýta þessum aðgerðum, hlýtur það að bera í sér að þeir ætli að setja þær í framkvæmd fyrir upphaf þessarar makrílvertíðar og þá er ekki langur tími til stefnu til að takast á við það.

Við munum að sjálfsögðu óháð öllu öðru, hvort sem það eru viðræður við Evrópusambandið eða deilur um makríl, aldrei sætta okkur við ólögmætar viðskiptalegar þvingunaraðgerðir. Það er grundvallaratriðið sem við hljótum að berjast gegn, óháð öllu öðru. En samhengið gerir það ekki skemmtilegra að eiga við þetta mál, (Forseti hringir.) ef svo verður sem hér er gefið í skyn, að þarna verði grautað saman óskyldum málum, viðræðum okkar við Evrópusambandið annars vegar, makríldeilunni hins vegar og því sem þar fylgir.