140. löggjafarþing — 79. fundur
 28. mars 2012.
stjórn fiskveiða, 1. umræða.
stjfrv., 657. mál (heildarlög). — Þskj. 1052.

[16:06]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið mun ég mæla hér fyrir frumvarpi á þingskjali 1052, það er gaman að segja frá því. Um er að ræða frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.

Frumvarpið sem ég mæli fyrir felur í sér heildarendurskoðun gildandi laga um stjórn fiskveiða sem sett voru á 112. löggjafarþingi sem stóð veturinn 1989–1990. Eins og hv. þingmenn þekkja mætavel á þetta frumvarp sér langan aðdraganda en það var í júlí 2009 sem hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra skipaði starfshóp stjórnmálamanna og hagsmunaaðila undir forsæti hv. 1. þm. Norðvest., Guðbjarts Hannessonar, til að skilgreina álitaefni sem fyrir hendi væru við stjórn fiskveiða og láta vinna nauðsynlegar greiningar og setja fram valkosti varðandi leiðir til breytinga á stjórn fiskveiða. Í starfshópnum áttu sæti allir helstu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi. Starfshópurinn átti auk þess samráð við fjölmarga aðila og leitaði ráðgjafar sérfræðinga. Í skýrslu starfshópsins frá nóvember 2010 eru rakin helstu álitaefni við breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og lagðar fram hugmyndir og tillögur. Þar var lögð áhersla á gerð samninga um nýtingu aflaheimilda til þess að ganga formlega frá því að auðlindinni væri ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins væri skýr. Jafnframt var lagt til að aflaheimildum yrði skipt í svokallaða potta, þ.e. annars vegar aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, svo sem byggðakvóta, strandveiðar og aðrar sérstakar ráðstafanir. Að auki skyldi úthlutun nýrra heimilda fara fram á opinberum markaði.

Eftir að vinnu þessa starfshóps lauk hófst vinna í sjávarútvegsráðuneytinu við samningu frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða í nánu pólitísku samráði milli stjórnarflokkanna. Frumvarpið kom seint fram á 139. löggjafarþingi veturinn 2010–2011 og var mælt var fyrir því á þingfundi 3. júní 2011. Þá var því frumvarpi vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar eftir 1. umr. Nefndin leitaði umsagna um frumvarpið og bárust fjölmargar umsagnir nefndinni og má segja að í þeim hafi komið fram margvísleg gagnrýni á sum veigamestu ákvæði frumvarpsins.

Haustið 2011 setti hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, á fót starfshóp fjögurra manna sem vann frumvarp til laga um breytingar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða og var það kynnt á vefsíðu ráðuneytisins í nóvember 2011.

Á ríkisstjórnarfundi þann 25. nóvember sl. var samþykkt tillaga forsætisráðherra um að skipuð yrði ráðherranefnd tveggja ráðherra, eins frá hvorum stjórnarflokki, um endurskoðun frumvarps til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Skilaði nefndin stöðuskýrslu til ríkisstjórnar í janúar 2012 þar sem fjallað var um einstök viðfangsefni fiskveiðistjórnar. Í þeirri nefnd sátu sá ráðherra sem hér stendur og hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson. Ríkisstjórnin tók við stöðuskýrslu ráðherranefndarinnar og fól nýjum sjávarútvegsráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, að vinna að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða.

Það frumvarp sem ég mæli núna fyrir hefur verið í undirbúningi í sjávarútvegsráðuneytinu frá miðjum janúar 2012 en sú gagnaöflun og vinna við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem unnin hefur verið á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar hefur komið að miklum notum við undirbúning þess. Þannig hefur verið byggt á niðurstöðum starfshóps sjávarútvegsráðherra frá nóvember 2010. Það hefur verið horft til frumvarpsins sem kom fram á 139. þingi og til þeirrar gagnrýni sem að því beindist. Það hefur enn fremur verið litið til tillagna í frumvarpi vinnuhóps sjávarútvegsráðherra sem kynntar voru í nóvember 2011 og til stöðuskýrslu ráðherranefndar um endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna frá því í janúar. Við gerð þessa frumvarps hefur samráð verið haft við þingmenn stjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd auk þess sem haldnir hafa verið upplýsingafundir með mörgum hagsmunaaðilum. Þetta var stuttlega um aðdraganda þessa máls.

Hæstv. forseti. Þetta er mikilvægt mál sem hér liggur fyrir sem hefur verið lögð mikil áhersla á af báðum stjórnarflokkum að tekið verði til umræðu hér, enda snýst málið um fiskveiðiauðlind þjóðarinnar, eina af okkar dýrmætustu auðlindum. Með frumvarpinu er leitast við að tryggja eignarhald þjóðarinnar að fiskveiðiauðlindinni.

Í 1. gr. gildandi fiskveiðistjórnarlaga er því lýst yfir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þau orð hafa, til samræmis við undirbúningsgögn löggjafarinnar á sínum tíma og hefðbundnar kenningar eignarréttar, jafnan verið túlkuð svo að þjóðin eigi ekki eignarrétt að villtum fiski í sjó í hefðbundnum skilningi. Það hefur einkum ráðist af því að ómögulegt er í reynd að fara með vörslu hans eins og gefur að skilja. Eigi að síður hefur þessi yfirlýsing mikla þýðingu og kemur með öðru í veg fyrir að unnt sé að líta svo á að veiðiheimildin njóti óskoraðrar verndar eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæða stjórnarskrárinnar, sem atvinnuréttindi, ef löggjafinn kýs að gera breytingar á tilhögun þeirra eins og nánar er rakið í athugasemdum með frumvarpinu.

Í 1. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um nokkrar orðalagsbreytingar og lagt til að nytjastofnarnir við Ísland verði lýstir ævarandi sameign þjóðarinnar og að ríkið, fyrir hönd þjóðarinnar, ráðstafi veiðiheimildum með tiltekin markmið að leiðarljósi. Veiting heimilda myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim. Við þessar orðalagsbreytingar er horft til umræðna um auðlindamál á síðustu árum, m.a. er leitast við að taka mið af tillögu stjórnlagaráðs frá árinu 2011 að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem meðal annars á sér rætur í skýrslu auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 sem Jóhannes Nordal veitti forsæti. Þessi umræða á því rætur að rekja til þeirrar umræðu sem hefur staðið í raun og veru allan síðasta áratug um eignarhald auðlinda og hlutverk ríkisins í þeim efnum og hvort unnt sé að tala um eignarhald þjóðar sem við vitum að hefur verið umdeilt en þetta er skýring á því hvernig það ákvæði er hugsað í þessu frumvarpi.

Ég vil líka nefna að við gerð frumvarpsins var að þessu leyti horft til umræðu sem stofnaðist til í Noregi fyrir fáum árum, en við endurskoðun laga um auðlindanýtingu í norskri fiskveiðilögsögu kom fram tillaga um að norska ríkið mundi með lögum lýsa beinu eignarhaldi sínu á nytjastofnum í norskri lögsögu. Að vandlega athuguðu máli og eftir opið samráðsferli var ákveðið að hverfa frá þeirri hugmynd. Þess í stað var því lýst yfir með lögum að villtir sjávarstofnar tilheyri samfélaginu í Noregi og með leyfi forseta ætla ég að hafa þetta eftir á norsku, „dei viltlevande marine ressursane ligg til fellesskapet i Noreg“ sem útleggst „hinar villtu auðlindir sjávar tilheyra samfélaginu í Noregi“.

Samkvæmt skýringu við ákvæðið felur þessi yfirlýsing ekki í sér eignarrétt ríkisins í lögfræðilegum skilningi, heldur er henni ætlað að undirstrika rétt samfélagsins í Noregi til auðlindarinnar gagnstætt því sem gildir um auðlind sem er í einkaeign. Litið er svo á að ríkið sé í hlutverki ráðsmanns eða „forvaltar“ eins og það kallast á norsku og á því hvíli ábyrgð til þess að gæta þess að nytjastofnar og vistkerfi hafsins séu í jafnvægi og séu nýtanleg. Jafnframt segir að ákvæðið gildi ekki um sérhvern fisk, heldur hinn fljótandi massa, þ.e. auðlindina sem er að finna á hverjum tíma í norskri fiskveiðilögsögu.

Að mörgu leyti var mjög nærtækt að horfa til þessara viðhorfa. Með lögum um stjórn fiskveiða og framkvæmd þeirra er leitast við að ná fram margs konar markmiðum til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Það er ákvörðunarefni löggjafa á hverjum tíma að ákveða hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Að því leyti ber löggjafinn ríka skyldu sem ef til vill má jafna til einhvers konar ráðsmannsskyldu.

Með frumvarpinu er lagt til að meginmarkmið þess verði lýst fimm talsins. Í fyrsta lagi að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofna við Ísland. Í öðru lagi að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Í þriðja lagi að treysta atvinnu og byggð í landinu. Í fjórða lagi að hámarka þjóðhagslegan virðisauka af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu. Í fimmta lagi að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi. Með frumvarpinu er reynt að leita jafnvægis milli þessara sjónarmiða sem að hluta til falla saman og geta að mörgu leyti verið samrýmanleg en að sumu leyti eru þau síður samrýmanleg. Þannig að þarna er leitast við að ná jafnvægi sem er úrlausnarefni.

Hæstv. forseti. Í athugasemdum við frumvarpið er ítarleg grein gerð fyrir því hvernig það samrýmist stjórnarskrá lýðveldisins og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Þar er rakið hvernig fyrirkomulag fiskveiða hefur tekið breytingum og gerð grein fyrir helstu dómum sem fallið hafa í Hæstarétti um þá tilhögun sem felst í gildandi lögum. Þá er einnig gerð ítarleg grein fyrir áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2008 í svonefndu Fagramúlamáli.

Í þessu ljósi er fjallað um eðli þeirra réttinda sem felast í handhöfn aflaheimilda. Á það er bent að réttindin njóti sérstöðu þar sem þau eru stofnuð með lögum, þau eru sett í skjóli almannaréttar til fiskveiða og þeim er ætlað að þjóna samfélagslegum markmiðum.

Með frumvarpinu er leitast við að tryggja festu og öryggi í sjávarútvegi með tímabindingu aflahlutdeilda til langs tíma og fyrirsjáanleika um mögulegar breytingar á skipulagi sjávarútvegs. Með þessu er forræði þjóðarinnar yfir auðlindinni með ótvíræðum hætti hafið yfir vafa og leitast er við að koma til móts við þau sjónarmið sem leiða af áliti mannréttindanefndarinnar með tímabindingu réttinda, auknum möguleikum til nýliðunar, stofnun kvótaþings og ráðstöfun aflamarks innan svonefnds flokks 2 sem ég kem nánar að á eftir.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að núverandi handhafar aflaheimilda fái tiltekinn hluta aflaheimilda í formi nýtingarleyfa sem ákveðnar kvaðir eru á. Valin er sú leið að tala um nýtingarleyfi en ekki nýtingarsamninga þar sem talið er eðlilegt og í samræmi við meginreglu stjórnsýslunnar að hafa slíkt skipulag í stað þess að færa stjórn fiskveiða í búning einkaréttarlegra viðskipta milli tveggja aðila. Það má segja að með þessu sé enn fremur verið að undirstrika eignarhald þjóðarinnar og það ráðsmannshlutverk sem ég nefndi áðan sem ríkið fer með en um leið lítum við á nýtingarleyfin sem ígildi samkomulags sem tryggir ákveðinn rétt báðum aðilum sem koma að málinu.

Í þessari tillögu felst því ekki að horfið sé frá niðurstöðum starfshópsins frá árinu 2010, enda verður ekki hjá því litið að við veitingu nýtingarleyfa til 20 ára gangast báðir aðilar, löggjafinn og einstakir handhafar aflahlutdeilda, undir langtímaskuldbindingu um ábyrga nýtingu þeirrar auðlindar sem nytjastofnar Íslendinga eru.

Með frumvarpinu er lagt til að aflahlutdeildum verði skipt í tvo flokka, í fyrsta lagi flokk 1 sem í eru nýtingarleyfi til útgerða, í öðru lagi flokk 2 til ríkisins. Þar verður til nýr leigupottur ríkisins sem selur eða leigir aflamark nokkrum sinnum á hverju fiskveiðiári. Það fyrirkomulag veitir aðilum utan kerfisins möguleika á að kaupa aflamark.

Með frumvarpinu er lagt til að framsal aflahlutdeilda verði bundið við gildistíma upphafsnýtingarleyfa, sem er 20 ár, og takmarkað með margvíslegum hætti. Framlengist nýtingarleyfi umfram þennan tíma breytast þau í svokölluð hrein nýtingarleyfi, þ.e. framsal þeirra verður ekki heimilt. Þá er ég að vísa til þess ef nýtingarleyfi eru framlengd umfram þennan 20 ára tíma. Ef framsal á sér stað á 20 ára tímabilinu verða klipin 3% af aflahlutdeild nýtingarleyfisins og fer sá hluti í flokk 2, þ.e. leigukvótinn sem ég nefndi áðan.

Lagt er til með frumvarpinu að allt framsal aflamarks fari fram á opinberu kvótaþingi. Gildir það bæði um það aflamark sem ríkið leigir út, þ.e. flokk 2, og um framsal útgerða á aflamarki. Framsali útgerða á aflamarki eru settar verulegar skorður með því að skilyrða framsalið við áunna veiðireynslu. Með þessu er reynt að koma í veg fyrir að handhafi nýtingarleyfis fénýti það með útleigu í stað þess að stunda fiskveiðar á grunni þess þannig að framsalið er bundið því að aðili sá sem á leyfið nýti hlutdeild sína.

Verði frumvarpið að lögum verður heimilt að skilyrða ráðstöfun hluta af aflaheimildum ríkisins til útleigu við ákveðin svæði sem standa veikt eða hafa glatað miklu af sínum heimildum. Þar erum við komin að því sem við getum kallað byggðatengingu. Svigrúm ríkisins til að mæta kröfum byggðarlaga sem hafa horft á eftir aflaheimildum úr sinni byggð og veikst verður því verulega aukið.

Lagt er til í frumvarpinu að strandveiðar verði með óbreyttu sniði. Stefnt verður að því að draga úr rækju- og skelbótum og byggðakvóta til þess að geta byrjað með eins stóran leigupott og mögulegt er. Ef forsendur skapast svo til aukningar á aflahlutdeildum stækkar leigupotturinn ört.

Verði þetta frumvarp að lögum verður opnað á þann möguleika að veita nýliðum leyfi. Allir sem eignast aflahlutdeild eiga rétt á nýtingarleyfum.

Til viðbótar við leigupott og strandveiðar opnar þetta kerfið verulega frá því sem var og mætir þannig vel þekktum áhyggjum af mannréttindasjónarmiðum sem við höfum margoft rætt hér á þessum vettvangi.

Lagt er til í frumvarpinu að tekjum af útleigu veiðiheimilda verði deilt með ríkissjóði og sveitarfélögum og að hluti renni í markaðs- og þróunarsjóð fyrir sjávarútveginn. Gert er ráð fyrir að þessi skipting verði svo að 40% renni til ríkissjóðs, 40% til sveitarfélaga og 20% í slíkan markaðs- og þróunarsjóð. Með stækkandi leigupotti aukast þessar tekjur en þó er um að ræða umtalsvert lægri tekjur en veiðigjaldið skilar.

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins við þetta frumvarp er gert ráð fyrir því að heildartekjur af leigu aflamarks geti, miðað við óbreyttan heildarafla frá yfirstandandi fiskveiðiári, numið um 3 milljörðum kr. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnuð verði nefnd með þátttöku sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að taka ákvörðun um hvernig eigi að ráðstafa og nýta þá fjármuni sem muni falla til samkvæmt þessu.

Með frumvarpinu er enn fremur lagt til að lög um stjórn fiskveiða og veiðar utan landhelgi verði sameinuð í ný heildarlög, auk þess sem nokkrar breytingar verði gerðar á öðrum lögum, einkum lögum um umgengni við nytjastofna sjávar.

Lagt er til að Fiskistofa öðlist heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota sem varða nýtingu auðlindarinnar en fyrir því eru skilvirknis- og varnaðarástæður.

Í umsögnum um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem ekki varð útrætt á 139. löggjafarþingi var gagnrýni beint að því að ráðherra væri falin of víðtæk heimild til þess að setja reglugerðir. Við því er reynt að bregðast í því frumvarpi sem hér um ræðir með afmarkaðri reglugerðarheimildum og þeirri samræðu sem sjávarútvegsráðherra hverju sinni verður skylt að eiga við þingið, því að frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra muni á þriggja ára fresti leggja fram skýrslu um meðferð og ráðstöfun aflaheimilda til flokks 2 ásamt þingsályktunartillögu um hlutfallslega skiptingu árlegs aflamarks sem kemur þá til ráðstöfunar innan flokks 2. Þingið mun því hafa mjög mikið að segja um meðferð þessara heimilda sem væntanlega svara þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram að þessu sé að öllu leyti miðstýrt úr sjávarútvegsráðuneytinu.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég vekja athygli á því að það frumvarp sem ég hef nú mælt fyrir er að sjálfsögðu náskylt frumvarpi til laga um veiðigjöld sem er næst á dagskrá en ekki hér til umræðu. Ég nefni það hér að ég hef ekki tæpt á þeim atriðum sem þar eru lögð fram en eru auðvitað nátengd þeim atriðum sem hér eru sett fram.

Ég vísa síðan að sjálfsögðu til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjala sem hafa að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Ég legg til, hæstv. forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu, þessari notalegu næturstund okkar allra, verði vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.



[16:23]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli starfandi sjávarútvegsráðherra á því að allir sem hafa tjáð sig um málið fram til þessa hafa lýst gríðarlega miklum efasemdum um það. Það gerðu líka þeir sem fengu málið til umsagnar úr ráðuneytinu áður en það var lagt fram á Alþingi. Daði Már Kristófersson og Þóroddur Bjarnason gerðu athugasemdir áður en málið var lagt fram, m.a. um að byggðaaðgerðir frumvarpsins væru ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt væri að. Mig langar að bera undir ráðherrann hvort ekki hafi verið talið tilefni til að bregðast við athugasemdum sem fram voru komnar áður en málið var lagt fram á þinginu.

Í annan stað hvort ráðherrann telji eðlilegt að skattur sem lagður er á þá sem nýta takmarkaðar auðlindir sé umfram auðlindarentuna, þ.e. umfram þann hagnað sem myndast á grundvelli nýtingar á takmarkaðri auðlind. (Forseti hringir.)

Ég mun (Forseti hringir.) koma að fleiri spurningum í síðara andsvari.



[16:25]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að menn ræði talsvert um byggðaráðstafanir þessa frumvarps því það liggur fyrir að þær eru með öðrum hætti en hingað til hefur tíðkast og með öðrum hætti en til að mynda í síðasta frumvarpi sem lagt var fram. Gert er ráð fyrir að byggðakvótinn verði minnkaður, en á móti kemur að honum verður vísað í leigupottinn sem ég fór yfir áðan og að ráðherra hafi heimild til að ráðstafa allt að helmingi byggðakvótans til þeirra byggða sem standa veikt eða hafa orðið fyrir áföllum í sjávarútvegi, en fyrirkomulagið er vissulega annað. Þetta er ekki gert með beinhörðum byggðakvóta, heldur með því að beita hugsanlegri svæðisbundinni leigu sem ráðherra hefur svo heimild til að ráðstafa. Það er vissulega annað fyrirkomulag en verið hefur, en við teljum hins vegar að það muni ekki gagnast síður en hið hefðbundna byggðakvótafyrirkomulag sem við höfum nú ekki alltaf verið ánægð með hvernig hefur nýst sem byggðaaðgerð. Þarna er vissulega verið að fara nýjar leiðir og full ástæða til að ræða þær ítarlega.

Hvað síðari spurningu hv. þingmanns varðar sem tengist veiðigjaldinu held (Forseti hringir.) ég að sé rétt að við ræðum það þegar við ræðum það frumvarp.



[16:26]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel reyndar eðlilegt, af því að eitt meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja þjóðinni arð af nýtingu auðlindarinnar, að þetta grundvallaratriði sé rætt við þessa umræðu, þ.e. hvort eðlilegt sé að lagður sé skattur á annað en það sem er umfram venjulegan hagnað í atvinnurekstri á Íslandi. Auðlindarenta myndast þegar menn mynda umframhagnað á grundvelli þess að þeir hafa aðgang að takmarkaðri auðlind, hagnað umfram það sem myndast í öðrum atvinnugreinum. Það er sá hagnaður sem að jafnaði er talað um að skattleggja þegar rætt er um skattlagningu og auðlindarentu. Í þessu frumvarpi og því sem því fylgir hér og verður næst á dagskrá tel ég að verið sé að ganga lengra.

Mig langar að biðja ráðherrann um að tala til þeirra sem hafa keypt sig inn í greinina á undanförnum árum, hafa skuldsett sig til að kaupa aflaheimildir og eru í vandræðum með að standa í skilum með lán sín. Mig langar til að biðja ráðherrann um að tala til þeirra og útskýra fyrir þeim hvers vegna þeir ættu að sætta sig við það að aflahlutdeild þeirra verði núna skert til þess að einhverjir aðrir — aðrir nýliðar — geti komist inn í greinina.



[16:27]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um það sem hv. þingmaður nefndi um veiðigjaldið þá vísaði ég í frumvarpið sem er næst á dagskrá. En, já, ég sem starfandi sjávarútvegsráðherra stend á bak við það frumvarp um veiðigjöld sem lagt hefur verið fram. Við þurfum hins vegar miklu ítarlegri umræðu um hvernig því er fyrir komið. Grundvallarafstaða mín er að eðlilegt sé að fólk greiði ákveðið auðlindagjald. Um það hefur verið rætt á hinum pólitíska vettvangi. Það má hins vegar deila um það, eins og hv. þingmaður spyr um, hvort við séum að mismuna þeim sem fóru á sínum tíma inn í kvótakerfið og þeim sem síðan hafa keypt sig inn í kvótakerfið. Það er oft mjög erfitt að leiðrétta slíka hluti aftur á bak eins og mér finnst hv. þingmaður vera að spyrja um.

Lykilatriðið er hins vegar að við höfum ákveðið að gera ákveðnar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða til að ná fram því mikla grundvallaratriði um sameign þjóðarinnar að greitt verði eðlilegt auðlindagjald af þeim sem nýta auðlindina og í þriðja lagi að opnað verði fyrir ákveðna möguleika á nýliðun, því að við vitum öll að þeir hafa ekki verið miklir.



[16:29]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi mismælt sig þegar hann talaði um að það yrði ævarandi „sameign“ íslensku þjóðarinnar því að í frumvarpinu stendur „eign“ íslensku þjóðarinnar.

Að öðru leyti er spurning mín til hæstv. ráðherra hvort ríki sé sama og þjóð. Mér heyrðist á máli hennar að ríki væri ekki það sama og þjóð, þ.e. að ríkisábyrgð væri ekki með veði í þeim eignum sem við ræðum hér, auðlindum þjóðarinnar. Ég vil bara fá þetta alveg á hreint frá þeim sem er að flytja þetta mál.

Síðan eru hér töluverðar takmarkanir á framsali, bæði eru 80% af hlutdeildinni bundin ákveðnu byggðarlagi og svo kostar 3% í hvert skipti sem framsal er veitt. Það er þekkt að frjálst framsal þýðir arðsemi atvinnugreinarinnar. Þessar takmarkanir munu minnka arðsemi atvinnugreinarinnar og þar með hag þjóðarbúsins.



[16:30]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir áðan er ljóst að þessi umræða um þjóðina annars vegar og ríkið hins vegar er ekki einföld. Hér er lögð til ákveðin leið þar sem við horfum á fiskiauðlindina í sjónum í kringum Ísland sem eign þjóðarinnar en lítum um leið svo á að ríkið ráðstafi fyrir hönd þjóðarinnar veiðiheimildunum með tiltekin markmið að leiðarljósi. Þetta er grundvallaratriði í frumvarpinu, þ.e. að við staðfestum með þessari 1. gr. eign þjóðarinnar, ekki á hverjum og einum fiski eins og ég sagði áðan heldur á auðlindinni sem slíkri. Ríkið sem hinn eðlilegi fulltrúi þjóðarinnar fer samt með eignarhaldið, er nokkurs konar ráðsmaður auðlindarinnar og annast um leið útgáfu nýtingarleyfa til þeirra sem hyggjast nýta hana. Þetta er sá skilningur sem ég legg í þetta og ég vona að hv. þingmaður átti sig betur á þessu þegar ég fer aftur yfir þann skilning sem ég hef á hlutverki ríkisins í þessu sambandi þegar við ræðum um eign þjóðarinnar.



[16:31]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni um framsalið, ég býst við að það komi þá í öðru andsvari. Ég vil bæta við: Hefur hann kynnt sér það frumvarp sem ég hef flutt um sjávarútveg og eignarhald á kvóta þar sem gert er ráð fyrir algjörlega frjálsu framsali og eins miklum hagnaði og arði af greininni og hægt er?



[16:32]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla þá að nýta tækifærið og ræða aðeins um framsalið. Það liggur fyrir að mínu viti að með 20 ára nýtingarleyfum með skýru framlengingarákvæði er útgerðarmönnum gert kleift að skipuleggja rekstur sinn til langs tíma. Þeir hafa rúman tíma til að fjárfesta í skipum, tækjum, tólum og fasteignum fyrir rekstur sinn. Með því að veita handhöfum hlutdeildarinnar framsalsmöguleika til 20 ára hafa þeir líka nægan tíma til að kaupa eða selja hlutdeild til að hámarka nýtingu á fjármunum bundnum í fyrirtækjunum. Það breytist eftir þennan 20 ára tíma, framsalsmöguleikinn hverfur og úthlutaður nýtingarsamningur styttist þá í hvert sinn sem hann er endurnýjaður. Þetta teljum við skipta gríðarlegu máli til þess að koma í veg fyrir það sem stundum hefur verið kallað brask. Við teljum að þessi aðferð sé ekki hamlandi við nauðsynlegar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja í sjávarútvegi, til að mynda með kynslóðaskiptum eða sölu á hlutdeild.



[16:33]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur fram heilmikil gagnrýni á það. Hér hefur verið nefnt að það er talið að byggðaaðgerðin nái ólíklega þeim markmiðum sem lagt er upp með, það séu íþyngjandi vankantar fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, að þetta muni lækka laun sjómanna og draga úr eðlilegri hagræðingu í greininni. Svo virðist sem málið hafi verið unnið á síðustu metrunum. Hvernig sér hæstv. ráðherra þetta fyrir sér, er ekki eðlilegt að hennar mati að í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem hér koma fram láti atvinnuveganefnd þingsins fara fram ítarlega hagfræðiúttekt eins og gert var fyrir tæpu ári á því frumvarpi sem þá var lagt fram þar sem metin eru áhrif frumvarpsins og afleiðingar fyrir sjávarútveginn og samfélagið?



[16:34]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ræddi hér sérstaklega um byggðaáhrifin sem ég kom lítillega að áðan í andsvari og í ræðu minni. Þetta eru breytingar sem verið er að leggja til á þeim vettvangi. Ég ítreka að við höfum oft rætt núverandi fyrirkomulag byggðakvóta og annarra ívilnana í kerfinu og ekki verið á eitt sátt um hvernig til hefur tekist. Þar hefur verið kallað eftir breytingum.

Hér er lögð til leið sem snýst um leigupotta sem hægt er að ráðstafa svæðisbundið. Ég hef sannfæringu fyrir því að þarna geti falist breyting til bóta fyrir byggðirnar en hins vegar tek ég að sjálfsögðu undir með hv. þingmanni í því að nefndin á að gefa sér góðan tíma til að fara yfir þessi mál, kalla til þá sérfræðinga sem hún telur nauðsynlega og kafa ofan í frumvarpið. Til þess er leikurinn gerður, það skiptir miklu máli að þingið gefi sér tíma til að ræða þessi mál.



[16:35]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum þessi svör og er sáttur við að menn sjái að staða málsins býður upp á að það þurfi að fara fram mjög ítarleg skoðun sem verður tímafrek og alveg klárlega kostnaðarsöm miðað við reynslu okkar af fyrri frumvörpum. Það er í mörg horn að líta.

Það eru félagslegir þættir í þessu frumvarpi. Við getum sagt að bent sé á það í þessari greinargerð og gagnrýni á frumvarpið og gagnrýni margra hagsmunaaðila sem fram hefur komið á síðustu dögum að það er heilmikið aukið á þennan félagslega þátt í kerfinu okkar. Á sama tíma segir í markmiðum frumvarpsins að það eigi að hámarka þjóðhagslegan ávinning. Mig langar að heyra örstutt frá hæstv. ráðherra hvort hún telji það samræmast að auka svo mjög þessa félagslegu þætti en á sama tíma hámarka (Forseti hringir.) þjóðhagslegan ávinning af fiskveiðiauðlindinni eins og lagt er upp með. (Forseti hringir.) Erum við ekki að fórna með þessu frumvarpi heilmiklum þjóðhagslegum hagsmunum?



[16:36]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer eftir því hvaða augum maður lítur þetta mál. Ég sem tel að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sé í raun það mikilvægasta sem nokkurt samfélag þurfi að hafa að leiðarljósi við þróun sína til framtíðar legg á það áherslu að hinn efnahagslegi ávinningur sem og hinn þjóðhagslegi ávinningur þurfi að fara saman með umhverfislegum og samfélagslegum ávinningi. Ég lít svo á að þessi markmið geti ekki bara farið saman heldur hljóti að fara saman ef þau eiga að skila raunverulegum ávinningi.

Vissulega má finna þarna samfélagsleg markmið og ég tel það eðlilegt. Þegar við erum komin á 21. öldina og erum að skipuleggja hvernig við högum auðlindamálum okkar hljótum við að gera það með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi þar sem þessir þrír þættir þurfa að vera í ákveðnu jafnvægi.



[16:37]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er spurning, sem hefur aðeins verið komið inn á, um þá staðreynd að árið 2007 voru miklar skerðingar í sjávarútveginum, aflahlutdeildir voru skertar um 30% hjá langflestum, ef ekki öllum. Það er mjög stefnumarkandi að ætla ekki að bæta þeim aðilum sem fengu á sig skerðingar þær með nokkrum hætti heldur auka skerðingar þeirra. Hver er skýringin á því? Hvers vegna er þeim áfram refsað sem unnið hafa innan þeirra lagaramma sem þá voru í gildi? Hver er ástæðan fyrir því að ráðherra ákveður að fara fram með þessum hætti, að bæta ekki þær skerðingar sem verið hafa áður en farið er að skerða að nýju?



[16:38]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil segja um þetta sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson bendir á, annars vegar þær athugasemdir sem mér finnst hann vísa í sem snúa að hinum ólíku útgerðum, þ.e. útgerðum sem veiða ólíkar tegundir og mismunandi afkomu þeirra. Ég hef kannski ekki skilið hv. þingmann rétt en þarna er horft til þess að þeir sem eiga hlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít þurfa að skila ákveðnum prósentum í hliðarráðstafanir og að þeir sem eiga aðrar tegundir skili minna í hliðarráðstafanir, að það sé það ójafnvægi sem þingmaðurinn vísar í. Það er hins vegar verið að jafna hlutfall milli þessara tegunda sem auðvitað hefur áhrif. Þegar menn jafna hlutföllin breytir það stöðunni til bóta fyrir suma en ekki fyrir aðra.

Ef hv. þingmaður er fyrst og fremst að vísa í hina breytilegu afkomu sjávarútvegsins, að hún hafi verið misjöfn í gegnum árin, hafi núna verið góð og síður þegar þurfti að skerða kvótann, er það auðvitað staðreynd að afkoman er sveiflukennd. Þess vegna miðast hugsunin á bak við veiðigjaldafrumvarpið, sem við ræðum ekki núna heldur síðar, við þessar sveiflur, þ.e. að innheimta veiðigjaldanna taki mið af sveiflunum. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort þetta svaraði að einhverju leyti því sem hv. þingmaður spurði um.



[16:40]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta svarar reyndar ekki því sem ég spurði um. Tökum dæmi af aðila sem keypti sér aflaheimildir fyrir 100 milljónir árið 2006. Þær voru skertar um 30% árið 2007. Sá aðili skuldsetti sig fyrir þeim kaupum, starfaði innan þess lagaramma sem þá var í gildi. Hvers vegna í ósköpunum er þessi aðili enn þá skertur í stað þess að bæta í það minnsta hluta af þeirri skerðingu næst þegar kemur til aukningar í aflahlutdeildum í staðinn fyrir að láta viðkomandi áfram taka á sig skerðingar? Þetta er það sem ég var að spyrja um.

Hins vegar væri líka forvitnilegt að fá rök fyrir því hvers vegna þeir sem þurfa að taka þátt í bótapottunum þurfa að láta 9,5% af þorski en eingöngu 5,3% af flestum öðrum tegundum, tegundum sem hingað til hafa ekki tekið neinn þátt í að bæta það?



[16:41]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aflahlutdeildin sveiflast auðvitað en það er alltaf spurning hvenær eigi þá að grípa tækifærið og breyta lögum, hvort það eigi að gera þegar sjávarútvegurinn stendur vel eins og hann gerir núna eða við hvað við eigum að miða hlutfallið. Hv. þingmaður segir að fólk fari inn í einhvern geira út frá ákveðnu lagaumhverfi en það getur eigi að síður alltaf átt von á því að lögum verði breytt. Ég get eiginlega ekki svarað spurningu hv. þingmanns öðruvísi en svo að það hlýtur alltaf að vera til umræðu. Okkur hlýtur alltaf að vera ljóst að við getum átt von á einhverjum breytingum á lagaumhverfi.

Hvað varðar hitt sem hv. þingmaður nefnir og ég ætlaði að nefna í mínu fyrra andsvari liggur hins vegar fyrir að með þessum breytingum þar sem tegundir leggja mismunandi til hliðar er verið að breyta því þannig að hlutfall þeirra sem hafa átt aðrar tegundir en þorsk, ýsu, ufsa og steinbít hækkar úr 1,3% í 5,3%. Það er verið að jafna stöðu einstakra tegunda í þessu frumvarpi þannig að ég lít svo á að það sé verið að jafna stöðu útgerðaraðila að þessu leyti út frá tegundum.



[16:43]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa innleiðingu að málinu og fyrir andsvörin. Ég vil byrja á því að segja að við ræðum hér heildarlöggjöf fyrir okkar mikilvægustu atvinnugrein, nýja heildarlöggjöf, stjórn fiskveiða á Íslandi. Þegar við lítum til baka og skoðum það verklag sem ríkisstjórnir fyrri tíma hafa að jafnaði tileinkað sér við endurskoðun á starfsumhverfi sjávarútvegsins í landinu sjáum við að lögð hefur verið mikil áhersla á þverpólitíska samvinnu og samráð við hagsmunaaðila.

Það er nærtækt að grípa einfaldlega í þessu samhengi frumvörp frá fyrri tímum, eins og frumvarpið sem kom fram á þinginu sem starfaði frá 1989–1990. Í því frumvarpi er langur listi yfir alla þá sem komu að málinu og settu saman nýtt frumvarp fyrir ráðherrann sem hann síðan í framhaldinu lagði fram. Í því frumvarpi er líka að finna bókanir og athugasemdir allra þeirra sem tóku þátt í starfinu og höfðu sínar athugasemdir, en saman varð til frumvarp um nýtt kerfi fyrir stjórn fiskveiða á Íslandi.

Það má svo sem segja þessari ríkisstjórn það til hróss að þannig lagði hún af stað inn í þetta kjörtímabil vegna þess að í september 2010 varð til þessi skýrsla hér, skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Nánast jafnóðum og hún hafði verið gefin út var horfið frá því víðtæka samráði sem þar lá að baki og málið fellt í nýjan farveg.

Það gerðist smám saman. Við sáum frumvörp koma inn í þingið á því haustþingi sem ollu miklum vandræðum í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og loks kom fram frumvarp, vorið eftir að skýrslan kom út, sem gekk í raun algerlega í berhögg við meginniðurstöðu nefndarinnar. Það er frumvarpið sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði um áramótin „bílslys ríkisstjórnarinnar“ frá því í fyrra.

Engu að síður hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á þessu kjörtímabili í smærri frumvörpum sem ég ætla ekki að rekja hér. En nú fáum við sem sagt þessi tvö frumvörp, um veiðigjöld annars vegar og hins vegar það sem er hér á dagskrá um stjórn fiskveiða. Þetta frumvarp er ekki bara langt frá tillögum starfshópsins og skýrslu hans, heldur eru hér kynntar til sögunnar algerlega nýjar hugmyndir að því með hvaða hætti stjórn fiskveiða fari best fram.

Í þessu frumvarpi er gengið lengra en almennt hefur verið rætt um og miklu lengra en starfshópurinn taldi að væri eðlilegt og sanngjarnt í því að skerða aflahlutdeild innan kerfisins til að ráðstafa með öðrum hætti utan þess.

Ég ætla að leyfa mér í því sambandi að vísa til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í starfshópnum þar sem segir að breið samstaða hafi verið um það í starfshópnum að það hlutfall sem hafi farið til byggðakvóta, rækju- og skelbóta, línuívilnunar og strandveiða verði áfram hið sama í framtíðinni. Menn muni hins vegar gera breytingar á stóra kerfinu þannig að í stað varanlegrar úthlutunar ættu í framtíðinni að koma nýtingarsamningar.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er það beinlínis markmiðið með þessu frumvarpi að stórauka úthlutanir sem eru utan almenna kerfisins. Ég hef saknað þess í fyrri umræðum um þetta mál og sakna þess nú frá hæstv. sjávarútvegsráðherra að gerð sé einhver lágmarkstilraun til að útskýra það fyrir þeim sem hafa þurft að þola skerðingar á undanförnum árum, þegar við höfum þurft að draga saman í heildaraflanum, hvers vegna þeir eigi ekki að njóta þess þegar stofnarnir taka við sér. Hvers vegna þurfa þeir sem á undanförnum árum hafa keypt sig inn í greinina núna að þola viðbótarskerðingu ofan á það sem þeir hafa áður þurft að þola vegna minnkandi heildarafla? Og þetta eru engar smátölur.

Við getum tekið dæmi af því sem fram hefur komið í fjölmiðlum frá því frumvarpið kom fram. Ég ætla að leyfa mér að vísa í viðtal við Garðar Ólafsson, útgerðarmann í Grímsey, sem segir að verði frumvörpin samþykkt óbreytt þýði það ekkert annað en eignaupptöku. Hann rekur útgerðina Sigurbjörn ehf. sem gerir út þrjá báta. Hann segir að fyrirtækið hafi keypt 230 tonna kvóta fyrir rúmum fimm árum fyrir hálfan milljarð, en aldrei fengið að veiða hann vegna kvótaskerðinga, aldrei fengið að veiða aflann sem keyptur var, kvótann sem keyptur var.

Hvað þýðir frumvarpið fyrir hans útgerð? Hann segir í viðtali við Morgunblaðið:

„Það verða tugir milljóna sem ríkið ætlar að hirða af þessu litla sveitarfélagi. Hér eru allir eyðilagðir yfir þessu, að það sé verið að leggja algjörlega í rúst þennan atvinnuveg sem hefur haldið þjóðinni uppi í gegnum aldirnar. Ég skil ekki þessa sífelldu umræðu um þjóðarsátt. Við sem höfum verið að berjast á sjónum og reyna að skapa gjaldeyri erum sennilega ekki hluti af þjóðinni.“

Það er ágætt að hafa það í huga í þessu samhengi af því svo gjarnan og svo mjög er vísað til landsbyggðarinnar og að allar þessar hliðarráðstafanir séu hugsaðar til þess að taka tillit til stöðu smærri sjávarbyggða víðs vegar um landið að það er einmitt þar sem aflinn er, og allar heimildirnar, í dag því sem næst. Ég tek auðvitað of stórt upp í mig með því að segja allar, en um það bil 90% af aflaheimildunum eru einmitt úti í hinum smærri byggðum.

Það er mjög mikilvægt að horfa til þeirrar umsagnar sem Daði Már Kristófersson og Þóroddur Bjarnason gefa þessu frumvarpi, reyndar eftir að það hafði verið samið, en ekkert tillit tekið til þess sem þeir segja, að það er ekki raunhæft markmið hjá þeim sem smíða löggjöf fyrir sjávarútveginn og stjórn fiskveiða í landinu að ætla öllum byggðum landsins stóran hlut í sjávarútvegi. Það er ekki raunhæft markmið. Þess vegna draga þeir fram þá meginniðurstöðu sína í umsögninni að það sé ólíklegt að markmiðum frumvarpsins verði náð.

Það er ástæða fyrir því að ekki hefur verið talað til þeirra sem hafa verið að kaupa sig inn í kerfið. Hún er sú: Það er engin réttlæting til, engin sanngirni er til sem réttlætir það að gengið sé svona harkalega fram gegn þeim sem nú þegar eru inni í kerfinu til þess eins að hleypa einhverjum öðrum að. Það er sem sagt verið að segja við suma: Við þurfum að koma ykkur frá, draga úr ykkar hlutdeild, við þurfum að koma öðru fólki að.

Þetta er óaðskiljanlegur hluti umræðunnar um það að auka svona við leigupottana eins og verið er að gera í þessu frumvarpi mjög ákveðið og skerða heimildir annars staðar. Skoðum það aðeins hversu langt er gengið í þessu.

Það er sem sagt þannig að í þorski á að skerða um 9,5%. Í ýsu á að skerða 6,9%. (Gripið fram í.) Í ufsanum á að skerða um 7,2% og í steinbít um 9,8%. Það á að gera 5,3% upptæk í öðrum tegundum.

Þetta eru stórar tölur, sérstaklega fyrir þá sem hafa á undanförnum árum og á grundvelli gildandi laga skuldsett sig til að komast inn í greinina og hafa verið tilbúnir að leggja mikið á sig til að skila þeim afla sem þeir hafa haft rétt á að sækja á sjó til landsins og auka þannig verðmætasköpun í landinu. Þetta eru miklar kvaðir.

Frú forseti. Það er fleira að finna í þessu frumvarpi en skerðingar. Hér er mikið gert úr 1. gr. frumvarpsins sem lýtur að því að tryggja með lögum að þjóðin eigi auðlindina með einhverjum hætti eins og það er orðað í almennri umræðu um þessi mál. En í þeirri umræðu er mjög gagnlegt að hafa í huga að samkvæmt gildandi lögum eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar. Menn eiga ekki að tala um þessa nýju lagagrein sem er að finna í þessu frumvarpi sem einhverja algjöra nýjung. Þetta er bara áframhald á sama ástandi og gilt hefur. Í raun og veru ætti þessi umræða meira heima í umræðunni sem við höfum verið að taka hér undanfarna daga um breytingar á stjórnarskránni en að slá þessu upp sem einhverjum meiri háttar áfanga í tengslum við þetta frumvarp. Mér finnst þetta vera einhvers konar reykbombur, ég verð að segja það alveg eins og er.

Í frumvarpinu er að finna hugmyndir um það að skila betur en gert hefur verið undanfarin ár arðinum til þjóðarinnar á grundvelli þeirrar stefnumörkunar sem hefur verið hér í lögum í langan tíma. Þótt það sé hluti af umræðunni um hitt málið, um veiðigjöldin, get ég ekki látið hjá líða að nefna það í þessari umræðu að menn eru komnir afar langt frá því sem var grundvöllur skýrslu auðlindanefndarinnar á sínum tíma, og hefur almennt verið viðurkennt hvað varðar sérstaka skattlagningu vegna nýtingar auðlinda hvers konar, þegar horft er á þær hugmyndir sem teflt er fram hér. Það er vegna þess að almennt hefur verið talið sanngjarnt og eðlilegt að skattleggja auðlindarentuna, þ.e. þann viðbótarhagnað sem myndast vegna þess að menn hafa sérstakan aðgang að takmarkaðri auðlind.

Sú útfærsla sem kynnt er samhliða þessu frumvarpi gengur miklu lengra og er komin úr öll samhengi við alla umræðu um eðlilega skattlagningu af auðlindarentunni. Það sést til dæmis á því að í þessu samhengi er talað bæði um sérstakt veiðigjald og almennt veiðigjald. Það verður tækifæri til að fara nánar ofan í þessa hluti síðar þegar við ræðum veiðigjaldafrumvarpið sérstaklega, en í stuttu máli hafa menn reiknað sig niður á það að þetta jafngildi í raun og veru 70% skattlagningu á hagnað útgerðarinnar.

Séu þessir útreikningar réttir, standist þeir skoðun, er ekki annað hægt en að komast að þeirri niðurstöðu að menn séu hér á góðri leið með að hanna einhvers konar kerfi fyrir þessa mikilvægustu atvinnugrein okkar sem ekki bara verður líkt við þjóðnýtingu sjávarútvegsins í landinu, heldur er gengið lengra en menn mundu leyfa sér með því að ríkisvæða einfaldlega allan sjávarútvegsrekstur í landinu. Einkaframtakið á nefnilega að sitja uppi með alla áhættuna, sitja uppi með allt tapið þegar illa gengur og líka borga gjald þegar útgerð er rekin með tapi, á að taka alla áhættuna af áhættufjárfestingunum, sitja uppi með hana, en síðan þegar vel gengur er uppistaðan af afrakstrinum tekin í ríkissjóð. Þetta verður ekki nefnt öðrum nöfnum en ríkisvæðing á hagnaðinum og einkavæðing á tapinu. Það er ekki hægt að horfa á þetta öðrum augum. Séu þessir útreikningar réttir er þetta eina einkunnin sem hægt er að gefa þessari hugmyndafræði.

Í því sambandi er ágætt fyrir okkur að rifja það upp hvernig okkur hefur gengið að fá afrakstur af sjávarútvegsauðlindinni hér í gegnum tíðina allt fram til þess að framsal aflaheimilda var leyft hér. Á árunum 1980–1991 var tap af reglulegri starfsemi í sjávarútvegi, það var einfaldlega þannig. Það var tap og það var frjálsa framsalið sem breytti öllu um að hagræðing náðist í greininni, við náðum að draga úr sóknargetu flotans og samræma sóknargetuna að afrakstursgetu stofnanna. Þannig hefur frá þeim tíma verið hagnaður af reglulegri starfsemi. Það byggir á þeirri hagræðingu sem náðst hefur.

Á fyrri tímum var rætt á Alþingi hvað við ættum að setja mikið af peningum almennings til útgerðarinnar. Nú höfum við miklu skemmtilegra viðfangsefni að ræða hér á Alþingi, sem er það hversu miklu getur útgerðin skilað til almennings. (Forseti hringir.) Þessi umpólun hefur orðið vegna þess að við höfum verið hér með skynsamlegt (Forseti hringir.) sjávarútvegskerfi, skynsamlega stefnu. (Forseti hringir.) Við skulum taka höndum saman um það á Alþingi að viðhalda meginkostum þess kerfis en rústa því ekki.



[16:58]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér er mælt fyrir á Alþingi í dag er málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða, annars vegar um það að hafa eigi núverandi kvótakerfi óbreytt, sem ljóst er að hefur verið gríðarlega mikil andstaða við hjá öllum almenningi í landinu, og hins vegar þess að innkalla eigi í einu lagi allar aflaheimildir af útgerðinni. Milli þessara sjónarmiða er farinn meðalvegur sem miðar að því að tryggja stöðugleika í sjávarútveginum, rekstrarskilyrði fyrir þau fyrirtæki sem þar eru, góða hagnaðarvon fyrir þá sem þau fyrirtæki eiga en innsigla um leið að auðlindin sé sameign þjóðarinnar allrar, innsigla að hægt sé að gera breytingar á kerfinu og það hafi ekki verið framselt með neinum ævarandi hætti og tryggja þjóðinni eðlilega hlutdeild í góðum árum þegar mikill umframhagnaður er í greininni.

Við Íslendingar erum gæfusamir í mörgu. Eitt af því sem hefur reynst okkur mikil gæfa er sú staðreynd að hér lætur nærri að landað sé 10 kílóum af fiski á hvern Íslending á hverjum degi allan ársins hring, 10 kílóum á hvern mann á hverjum degi allan ársins hring. Það eru gríðarlegar náttúruauðlindir sem einni þjóð eru þannig gefnar. Það er ástæðan fyrir því að hér er og verður margfalt meiri matvælaframleiðsla en við þurfum okkur til framfæris, forsendur fyrir því að við getum notið gríðarlega mikilla útflutningstekna og sömuleiðis forsendurnar fyrir því, sé gert út á þessar miklu auðlindir með hagkvæmum hætti, að hægt er að stunda hér mjög arðsaman sjávarútveg, sem betur fer. Hann hefur raunar vegna stöðu gengisins hin allra síðustu ár skilað ótrúlega miklum hagnaði og það er ekki nema eðlilegt á þeim erfiðu tímum sem Íslendingar nú lifa, þegar fólkið í landinu og öll venjuleg fyrirtæki þurfa að búa við býsna erfið rekstrarskilyrði og miklar álögur og við þurfum að rétta af sameiginlegan sjóð landsmanna, að gert sé tilkall til þess að nokkur hluti þessa mikla umframhagnaðar skili sér til almennings.

Auðlindanefndin sem hv. þm. Bjarni Benediktsson vísaði til áðan kynnti veiðigjald að sínu leyti. Og hvaða tölur voru það? Hvaða tölur voru það framan af síðasta áratug sem skiluðu sér til almennings með því veiðigjaldi? Ætli það hafi ekki verið einhvers staðar um og innan við 1 kr. fyrir hvert kíló sem veitt var? Ætli allar hinar miklu álögur sem þessi stjórn hefur staðið fyrir í þessu efni geti ekki numið svo sem eins og kannski 5 kr. af þeim 10 kílóum sem landað er á hvern Íslending á hverjum degi? Hér er ekki lagt til að þær álögur verði auknar með neinum hætti. Veiðigjaldið, hið fasta gjald verður ekki aukið. En umframhagnaður, hagnaður umfram 8–10% af arðsemi af allri fjárfestingu og öllum rekstrarkostnaði, er skattlagður.

Fréttabréf Landssambands íslenskra útvegsmanna kallar það að útgerðin sé þjóðnýtt og vegna þess að hér eru milljarðahagsmunir undir eiga eftir að heyrast næstu vikur alls kyns upphrópanir um að hér sé verið að ríða öllu á slig og útgerðin muni ekki lifa af það frumvarp sem hér er á ferðinni. Ég vil segja mönnum að af því þarf ekki að hafa áhyggjur.

Við getum tekið dæmi af fyrirtæki í mínu kjördæmi, HB Granda sem er hér við Faxaflóann og raunar víðar um land og er með á einu rekstrarári hagnað upp á 6,2 milljarða. Hvað greiðir félagið í veiðigjald af 6,2 milljarða hagnaði? Það mundu vera rétt um 400 millj. kr. Af þeim mikla umframhagnaði á þessum sérstöku tímum þegar gengi krónunnar er svo gríðarlega veikt, með öllum þeim mikla kostnaði sem það hefur í för með sér fyrir annað atvinnulíf og heimili í landinu, er gert ráð fyrir að félagið skili kannski um 1,2 milljörðum, þ.e. samanlagt um 1,6 milljörðum. Eftir eru eigi að síður 4,6 milljarðar í hagnað hjá einu fyrirtæki, þrír fjórðu hlutar hagnaðarins. Ég held að þetta dæmi sýni ágætlega að hér er ekki verið að gera neitt óeðlilegt tilkall til arðsins af auðlindinni sem þjóðin sannarlega á tilkall til. Hitt er svo rétt að ef einstök fyrirtæki eru drekkhlaðin skuldum af kröfuhöfum sínum eða lánastofnunum langt umfram eðlilegt eignaverð þeirra fyrirtækja og ef búið er að stilla upp rekstrarreikningi einhverra fyrirtækja þannig að þau eigi bara rétt svo að skrimta árum og áratugum saman getur verið að það að kalla eftir einhverjum arði breyti þeim forsendum og þess verði einhver dæmi. Auðvitað. Slík fyrirtæki munu aldrei þola neinar frekari arðskröfur. Kröfuhafarnir verða þá bara að horfast í augu við að þeir geta ekki gert svo miklar skuldsetningarkröfur á þau fyrirtæki, ellegar að önnur hagkvæmari og betur rekin fyrirtæki munu bara taka að sér að veiða þær heimildir sem um ræðir.

Við skulum ekki gleyma því að kvótakerfið var sett á til að auka hagkvæmni í sjávarútvegi. Auðvitað geta breytingar á kerfi leitt til þess að einstaka fyrirtæki sem eru allt of skuldsett eða ekki hagkvæm í rekstri standist ekki breytingar á fyrirkomulaginu og þurfi annaðhvort að endurskipuleggja sig eða fela öðrum betur reknum fyrirtækjum að annast um verkefnið. Það mun ekki verða til þess að fiskurinn verði ekki veiddur. Það mun ekki verða til þess að fiskurinn verði ekki seldur úr landi eða að þessi þjóðarframleiðsla verði ekki til. Það mun einfaldlega þýða að auknar arðskröfur munu knýja fram aukna hagkvæmni í greininni. En það er auðvitað hlutverk okkar í þinglegri meðferð að fara grannt yfir það hvort í flókinni grein eins og sjávarútvegi geti verið að finna ákveðna hópa fyrirtækja sem stunda sérhæfðar veiðar sem með einhverjum hætti kæmu illa út úr þessu. Þá taka menn auðvitað tillit til þess í umsagnarferlinu. Meginhagsmunir allra á Íslandi og allra í þinginu eru að tryggja stöðugleika fyrir greinina og stöðugleikinn fæst með 20 ára samningum um stóran hluta aflaheimildanna í stað þess óöryggis sem greinin hefur búið við um langt árabil vegna almennrar andstöðu við núverandi kvótafyrirkomulag. Hagsmunir greinarinnar eru stöðugleikinn, það að geta skipulagt sig vel fram í tímann, og hagsmunir almennings eru að tryggja sanngjarnt endurgjald. Um leið er mjög veruleg arðsvon í sjávarútvegi og við núverandi skilyrði gríðarlegur hagnaður eftir sem áður því þau einu gjöld sem hér er verið að leggja á eru skattur á umframhagnað, hagnað umfram þá ávöxtunarkröfu sem eðlileg er. Þetta er mikilvægt að allir hafi í huga.

Það er um leið fagnaðarefni að það tekst að opna nokkuð fyrir nýliðun. Margir hefðu auðvitað viljað ganga miklu lengra í því. Ég hygg að í mínum flokki hafi þau sjónarmið kannski verið hvað sterkust, vegna þess að við höfum meðal annars haft mjög miklar áhyggjur af áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég tel að skemmra hefði alls ekki mátt ganga í því efni en gengið er í þessu frumvarpi. En það munar svo sannarlega um þær veiðiheimildir sem hér er gert ráð fyrir að fari í leigupott og menn hafi aðgang að á jafnræðisgrundvelli. Það er líka fengur að því fyrir byggðirnar hringinn í kringum landið og hin smærri fyrirtæki að hér tekst að treysta í sessi strandveiðikerfið sem þessi stjórnarmeirihluti innleiddi og hefur gefið svo mörgum tækifæri til að sækja björg í bú og nýta miðin við landið til veiða af því tagi.

Kannski ætti það að vera markmiðið með frumvarpi um jafnumdeilt mál og þetta að allir hópar yrðu jafnóánægðir og kannski verður það niðurstaðan. Ég held þó að ekki sé ástæða til þess, hvorki fyrir útgerðina né fyrir hina sem hafa kallað eftir breytingum á kerfinu, að fjalla þannig um málið. Sannarlega er fjölbreytilegur ávinningur í þessu fyrir þá sem kallað hafa eftir skýrri þjóðareign, skýrum rétti Alþingis til að innkalla til lengri tíma veiðiheimildir, hafa kallað eftir leigupottum, strandveiðum og öðrum slíkum hlutum, auk þess sem arður almennings af auðlindinni er auðvitað mikilvægur fyrir þá sem hafa haldið uppi þeim sjónarmiðum. Þeim sem hafa talað fyrir útgerðina og fyrir óbreyttu kerfi hlýtur að vera ljóst að sú mikla óvissa sem verið hefur um greinina og framtíð hennar, ekki vegna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur vegna andstöðu mikils meiri hluta þjóðarinnar við fyrirkomulagið, er slæm og það að létta þeirri óvissu og tryggja framtíðarrekstrarskilyrði greinarinnar, forsendur hennar fyrir því að ráðast í fjárfestingu, sanngjarnt endurgjald til almennings fyrir þau forréttindi sem veiðileyfin eru, eru meginhagsmunir sjávarútvegsins. Sjávarútvegurinn á fyrst og síðast að vera stoltur af því að það koma ár í rekstri hans þar sem hann er aflögufær vegna þess að markaðsaðstæður eru gríðarlega góðar, vegna þess að gengi krónunnar er mjög veikt. Þá er að jafnaði erfitt árferði í flestum öðrum greinum í íslensku samfélagi og mikilvægt að sjávarútvegurinn geti létt undir með róðrinum á þeim tíma. Hitt er ekki síður mikilvægt í útfærslu þeirrar gjaldtöku sem hér hefur verið kynnt að á árum þegar gengið er sterkt, þegar erfitt er að vera í sjávarútvegi eins og til að mynda á árunum 2004–2005, fellur auðlindarentugjaldið algerlega út. Þannig held ég að sé einfaldlega skynsamlegt fyrir Íslendinga að haga gjaldtöku af sjávarútvegi. Ég held að þeir sem hafa kynnt sér hagsögu landsins og þann gríðarlega þrýsting á efnahagslífið sem fylgir því þegar mikill umframhagnaður er í sjávarútvegi með tilheyrandi þrýstingi á launamyndun í öllu landinu og víxlverkanir á áhrifum verðlags og verðtryggingar eigi að sjá að það sé í þágu heildarhagsmuna að þegar þannig árar leggi sjávarútvegurinn aukalega til en sé hlíft þegar verri rekstrarskilyrði eru.



[17:14]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að í frumvarpinu er að finna reiknireglu og hv. þingmaður gerði talsvert að umtalsefni í ræðu sinni veiðigjaldið og rentuna. Í fyrirliggjandi frumvarpi er miðað við 8% í útgerðinni og 10% í fiskvinnslunni þegar fundið er út hvað sé hæfileg arðsemi í greininni áður en til skattlagningar kemur. Telur hv. þingmaður í fyrsta lagi að 70% af því sem út af stendur geti talist hóflegt veiðigjald, eins og rætt var um í skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000, sem sátt geti tekist um? Í annan stað, er það rétt hjá mér að hv. þingmaður láti sér það í réttu rúmi liggja ef einstakar útgerðir eru skuldsettar umfram þessa almennu viðmiðun og þær verði einfaldlega gjaldþrota (Forseti hringir.) vegna gjaldsins?



[17:15]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sem skipti hér meginmáli sé að það hvernig þjóðin og útgerðin skipta umframhagnaðinum sé það sem á ensku er kallað „happy worries“ eða ánægjulegar áhyggjur. Það viðfangsefni er aðeins á dagskrá á þeim árum þegar útgerðin ekki bara á fyrir öllum sínum rekstrargjöldum, heldur þegar hún hefur fengið fyrir fjármagnskostnaði sínum og fyrir hefðbundinni arðsemi á það eigið fé sem bundið er í fyrirtækinu. Og þegar umframhagnaðinum kemur á þeim árum sem svo vel árar gerir almenningur kröfu um 70% af því sem umfram er. Ég held að það sé betra fyrir útgerðina að vera með gjald sem kemur sterkt inn þegar þær eru komnar í umframhagnað en að vera með föst krónutölugjöld eins og hingað til.



[17:16]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að gera athugasemd við notkun hugtaksins „umframhagnaður“ eins og hv. þingmaður notar það í þessari umræðu. Þegar rekstraraðili, í þessu tilviki sjávarútvegsfyrirtæki, hefur notað rekstrarhagnað sinn til þess að standa undir fjármagnskostnaði annars vegar og afskriftum hins vegar hefur enginn hagnaður myndast. Það er fyrst eftir að greiddur hefur verið fjármagnskostnaður og afskriftir hafa verið teknar með í myndina sem hægt er að byrja að mynda hagnað, en áður en sá hagnaður myndast er gengið út frá því í þessum frumvörpum að 70% af öllu því sem umfram er verði skattlagt. Er þetta þess vegna ekki að lágmarki 70% skattlagning á hagnaðinn? Það verður að gera ráð fyrir því að fyrirtæki eigi fyrir afskriftum og fjármagnskostnaði áður en menn taka upp á því að skattleggja það sem þeir kalla þá umframhagnað. Eða má fyrirtæki í sjávarútvegi ekki hafa nokkurn hagnað yfir höfuð og hver er þá eðlilegur hagnaður? Hvað er eðlilegur hagnaður (Forseti hringir.) annars vegar í huga þingmannsins og hvað er hins vegar umframhagnaður?



[17:18]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umframhagnaður er hagnaður umfram það sem almennt gerist í atvinnulífinu. Við getum líka notað kunnuglegri hugtök eins og framlegð og sannarlega er ekki verið að kalla eftir 70% af framlegðinni í greininni. Við núverandi aðstæður gæti ég ímyndað mér að talan sé um þriðjungur af þeirri framlegð sem um er að ræða. (Gripið fram í: 50%, 51%.) Það sem skiptir máli um gjaldtökuna er auðvitað hversu mikill hagnaður verður eftir. Ég held að HB Grandi, sem er vel rekið fyrirtæki, sé ágætt dæmi sem sýnir að þessi gjaldtaka tekur aðeins um einn fjórða hluta af gríðarlega miklum hagnaði. Nú þegar hagnaður í greininni getur hlaupið á 50–60 milljörðum kr. eru menn að tala um svipaðar stærðir af þeirri heildarhagnaðartölu, kannski fjórðung en engin 70%. Finnst hv. þingmanni ósanngjarnt endurgjald til þjóðarinnar að einn fjórði renni til hennar þegar afkoman er svo gríðarlega góð í sjávarútveginum?



[17:19]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er svo sem ekki mikið nýtt í henni, við höfum heyrt skoðanir þingmannsins og flokks hans töluvert lengi.

Það sem vakti athygli mína var að ræðan snerist að mestu leyti um veiðigjaldið sem á að ræða síðar í dagskránni. Engu að síður gerði forseti ekki athugasemd við það þannig að við ræðum það að einhverju leyti. Veiðigjaldið er skattur sem leggst mismikið á landshluta, leggst mest á landsbyggðina og er því landsbyggðarskattur. Annað sem vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns, eða ég gat ekki skilið hana öðruvísi, var að hann mælti fyrir samþjöppun í greininni, að þar þyrfti í raun að verða enn frekari hagræðing þannig að færri sæktu í auðlindina en fleiri. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn hafi talið að besta niðurstaðan í þessu yrði að færri mundu sækja.



[17:20]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gjaldtaka af umframhagnaði er ekki skattlagning á byggðir. Það er skattlagning á eigendur fyrirtækja vegna þess að það er skattlagning á það fé sem við slíkar aðstæður er oftlega tekið út úr fyrirtækjunum og notað til annarra fjárfestinga, t.d. í fjármálafyrirtækjum, bifreiðaumboðum eða öðrum slíkum hlutum. Þetta er þess vegna fyrst og fremst eigendagjaldtaka en enginn byggðaskattur.

Hvað varðar það að hagræða í greininni er ég almennt hlynntur hagræðingu en ég vek þó athygli á því að frumvarpið gerir ráð fyrir að gera minni kröfur til minni báta, undir 30 tonnum og undir 100 tonnum. Sömuleiðis að staðinn sé vörður um strandveiðarnar og nýliðum sköpuð tækifæri í leigupotti. Þannig að ég held ekki að frumvarpið miði að því að færa allar heimildir í eigu fárra aðila ef það er það sem hv. þingmaður var að spyrja um.



[17:21]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi hér fjárfestingar í bílaumboðum og einhverju slíku en ég næ því ekki alveg. Ef þingmaðurinn er að meina að í þessari grein séu einhverjir sem eru að fjárfesta eða nota peningana sem verða til í eitthvað annað og telur eitthvað undarlegt við það vil ég upplýsa þingmanninn um að í flestum atvinnugreinum eru einhverjir sem eflaust er hægt að setja hornin í, hvort sem það er sjávarútvegur, fjármálastarfsemi, bókaútgáfa eða hvað það er.

Auðvitað er þetta landsbyggðarskattur vegna þess að sá arður sem verður til í langflestum þessara fyrirtækja verður eftir heima í héraði. Það er einfaldlega þannig. Ef hv. þingmaður færi til dæmis um í Norðvesturkjördæmi og kynnti sér hvernig staðan er þar mundi þingmaðurinn vita þetta og þekkja þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um annað úr því að við erum að tala um skattlagningu á náttúruauðlindir: Telur þingmaðurinn ekki eðlilegt að sömu aðferðir og reglur sem hér er um að ræða eigi við um nýtingu á öðrum náttúruauðlindum?



[17:23]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er ekki gert ráð fyrir að gera neinar breytingar á því hvernig fyrirtæki greiða sinn kostnað, laun, fjárfestingar og aðra þætti heima í héraði, standa undir sínum lánum eða greiða almennan arð til eigenda sinna. Hér er bara verið að fjalla um það að þegar hagnaður í greininni er gríðarlega mikill renni hluti af honum til almennings. En þegar hagnaður í grein er gríðarlega mikill rennur slíkur umframhagnaður iðulega til eigendanna og eigendurnir búa býsna margir hér í póstnúmeri 101, ef ég þekki rétt.



[17:23]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, hvort honum sé ekki kunnugt um að aukið framsal í kvóta þýði aukna arðsemi í greininni og að þær miklu takmarkanir að binda 80% af kvótanum við byggðir og hafa 3% tap við hvert framsal muni skaða arðsemi greinarinnar.

Þá vil ég spyrja hann hvort honum þyki betra að stjórnmálamenn séu að ráðskast með kvótann í nafni þjóðarinnar en að dreifa kvótanum á íbúa landsins eins og ég geri ráð fyrir í mínu frumvarpi.



[17:24]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það svo að frumvarpið miðar ekki að mestu hagkvæmni sem hugsast getur, það er alveg ljóst. Fyrir okkur sem erum áhugamenn um hagkvæmni er það alltaf áhyggjuefni þegar teknar eru ákvarðanir um að draga úr hagkvæmni. Eins og ég sagði í ræðu minni er hér um að ræða málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Hér eru byggðasjónarmið, félagsleg sjónarmið, sjónarmið um vinnumarkað og margvísleg önnur sjónarmið en hagkvæmnissjónarmið sem þarf að vega saman. Ég tel að niðurstaðan í því sé ásættanleg. En ég hef alltaf verið voða skotinn í hugmyndum Péturs H. Blöndals um að senda þjóðinni bara kvótann og ef við náum ekki að gera þetta frumvarp að lögum er kannski bara rétt að gera það í tengslum við næstu alþingiskosningar.



[17:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir stuðninginn frá hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar við mitt frumvarp og ég bendi á að í því er algjörlega frjálst framsal sem þýðir að það er eins mikil hámörkun á arðsemi greinarinnar og hægt er.

Hér er verið að leggja til að kvótinn fari í strandveiðar, ýmsa potta, línuívilnun, sjóstangamót o.s.frv. Allt er þetta til þess að minnka arðsemi greinarinnar. Þetta eru allt saman félagsleg atriði og leiðir til þess að völd stjórnmálamanna verða mikil og þeir munu halda áfram að ásælast þennan kvóta sem liggur svo létt við höggi. Þetta stefnir náttúrlega í það eftir nokkur ár að við verðum komin með sovétbúskap í sjávarútvegi.



[17:26]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hugmyndir Péturs H. Blöndals um að dreifa kvótanum til þjóðarinnar (PHB: Í botn.) geta verið áminning til útgerðarinnar um að auðvitað er það frumvarp sem hér liggur fyrir málamiðlun milli sjónarmiða, annars vegar um að taka allan kvótann og láta landsmenn hafa hann og hins vegar að hafa algerlega óbreytt fyrirkomulag.

Sovétkerfi, segir þingmaðurinn, það er auðvitað fjarri öllu lagi. Þeir sem vilja stunda handfæraveiðar uppfylla bara þær reglur sem um þær gilda og uppboð munu ráða úthlutun úr leigupottunum.

Af því að ég náði ekki að svara hv. þm. Gunnari Braga áðan þegar hann spurði mig um — nei, nú sé ég að ljósið er farið að blikka aftur, ég reyni að koma því við í seinni andsvörum.



[17:28]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af markmiðum þessa frumvarps er að styrkja byggð í landinu. Ég saknaði þess í máli hv. þingmanns, hann fjallaði mjög lítið um byggðamál og áhrif þessa frumvarps á byggðirnar. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á það áðan að veiðigjaldið væri hreinn og klár landsbyggðarskattur þar sem verið væri að flytja fjármagn frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann og fá hann til að fara betur ofan í það hvernig nákvæmlega hann telji að þetta muni styrkja byggð í landinu, því að greinargerð frumvarpsins og úttekt sem þarna er bendir til þess að það sé alls ekki víst að það frumvarp sem fyrir liggur muni með nokkrum hætti styrkja byggð í landinu. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að áður en lagt er af stað með frumvarp eins og þetta liggi fyrir stærri úttekt á því hver áhrifin kunni að verða á byggðina í landinu þannig að menn séu ekki að slá sig til riddara á fölskum forsendum?



[17:29]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Blómlegur sjávarútvegur stendur sem betur fer undir blómlegri byggð víða í landinu og mun gera það áfram, enda rekstraröryggi hans tryggt og það að hann hefur svigrúm til að greiða allan kostnað og hafa umtalsverðan hagnað áður en hann fer að greiða nokkur frekari gjöld.

En tengt þessari umræðu um byggðirnar get ég svarað hv. þingmanni, og hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni í senn, að það er eindregin skoðun mín að við eigum með sama hætti að haga skattlagningu af orkuauðlindunum sem kannski eru ekki síst hér á suðvesturhorninu þar sem verið er að selja mjög mikið. Tekjurnar kæmu þá héðan. Ég held að það sé eðlilegt næsta skref í málinu og að með þeim hætti munum við gæta jafnvægis í þessu, að taka gjöld af þeim auðlindum sem við eigum öll saman, hvort sem það eru orkuauðlindirnar eða fiskurinn í sjónum, alveg eins og við höfum lagt á olíuauðlindirnar sem við ætlum (Forseti hringir.) að nýta hér norður af landinu.



[17:30]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Veiðigjaldið er klárlega byggðaskattur á meðan verið er að flytja fjármagn frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, ekki nema það sé með einhverjum hætti eyrnamerkt að það renni aftur til byggðanna.

Í greinargerð eða úttekt með frumvarpinu sem fyrir liggur og í umfjöllun um það er því jafnvel slegið upp að þetta kunni að hafa neikvæð áhrif á byggðirnar og þetta sé ekki endilega til þess fallið að styrkja byggð í landinu.

Ég vil enn og aftur spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt að fram hefði farið einhver úttekt á frumvarpinu varðandi áhrifin á byggðirnar í landinu. Það gengur ekki að hv. þingmenn segi okkur að þetta styrki byggð í landinu þegar frumvarpið, með þeim gríðarlega landsbyggðarskatti sem þar er, gerir það á engan hátt. Er ekki eðlilegt að unnin sé einhver stærri úttekt á því hver byggðaáhrifin kunni að verða af þessu frumvarpi?



[17:31]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú einmitt slík úttekt sem menn hafa vitnað til hér í umræðunni. Ég vil kannski fyrst og fremst leggja áherslu á það að sú gjaldtaka sem hér um ræðir er með engum hætti gjaldtaka á byggðirnar í landinu. Það er algjörlega fjarri öllu lagi vegna þess að veiðigjaldið, hið fasta gjald sem greitt er af greininni, hækkar í engu. Í engu er þrengt að því að greiddur sé rekstrarkostnaður, staðið í fjárfestingum, greitt af lánum og umtalsverðum arði skilað til eigendanna. Það er aðeins þegar mjög mikill hagnaður er í greininni, vegna þess að gengi krónunnar er mjög veikt og önnur fyrirtæki í landinu og fólk almennt býr við kröpp kjör, sem greinin þarf að leggja lítið eitt meira af mörkum. Ég tel að það sé sannarlega tilvinnandi fyrir það rekstraröryggi sem málinu fylgir.



[17:32]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta mál hefur svo sem farið yfir í hitt málið líka enda kannski ekki við öðru að búast, þau eru vitanlega nátengd og mikið skyld. Ég vil byrja ræðu mína á því að taka það skýrt fram, vegna þess að ýmsir stjórnarliðar, sérstaklega ráðherrar, hafa gjarnan komið upp og túlkað stefnu annarra flokka í hinum og þessum málum, að það sem er líkt með því frumvarpi sem hér er lagt fram og stefnu Framsóknarflokksins frá síðasta flokksþingi er heildarmyndin, lítið annað á skylt við þá stefnu. Þegar hæstv. utanríkisráðherra, sem gjarnan túlkar stefnu framsóknarmanna, kemur hér er því ágætt að benda honum á þetta. Við töluðum reyndar um samninga en hér er talað um að veita leyfi til 20 ára með framlengingu, halda okkur við aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi, þá er það stóra myndin og það er nokkuð gott samræmi þarna á milli.

Ég vil fyrst nefna það, sem venjan er með mál sem koma frá ríkisstjórninni, að samráð um þetta mál hefur ekki verið neitt, ekki við aðra stjórnmálaflokka hér á þingi — það er nú sjaldnast þannig í málum sem ríkisstjórnin leggur fram að leitað sé samráðs við stjórnarandstöðuna og ekki heldur við hagsmunaaðila, hverju nafni sem þeir kunna að nefnast. Þeir eru margir, hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, þeir eru ekki bara einn, þeir eru margir. Upplýsingafundir hafa verið haldnir, það vitum við.

Vinnubrögðin eru því mjög gagnrýnisverð. Ef ætlunin er að klára svo stórt mál sem hér um ræðir — eða stór mál, þau eru tvö — fyrir sumarleyfi er tíminn býsna naumur, það verður að segjast eins og er. Í raun er vandséð hvernig það á að takast með góðri vinnu. Það verður þó atvinnuveganefndar að reyna að leiða slíka vinnu þannig að vel takist til.

Við einstakar greinar frumvarpsins er ýmislegt að athuga, en margt er bara nokkuð eðlilegt. Til dæmis er 4. gr. heldur til bóta en þar er farið í orðskýringar. Fólk hefur stundum verið að velkjast í vafa um hvað er hvað þegar verið er að tala um sjávarútveginn, svo að ég held að sú grein sé til bóta. Það er hins vegar ýmislegt annað sem maður staldrar við, svo sem reglur um úthlutun á heimildum.

Ég hef hér í andsvörum nefnt það sem mér þykir mikið óréttlæti þegar rætt er um sjávarútveginn. Á síðustu árum hafa fjölmargir einstaklingar, dugmiklir einstaklingar, keypt sig inn í sjávarútveginn og skuldsett sig. Lítil, meðalstór og stór fyrirtæki hafa einnig skuldsett sig með því að kaupa aflaheimildir og jafnvel aðrar útgerðir þar sem sífellt er leitað eftir meiri hagkvæmni, sem er jú eitt af meginmarkmiðum sjávarútvegsfrumvarpsins sem hér er lagt fram og laganna sem nú eru í gildi. Ekki er gerð nein tilraun í frumvarpinu til að mæta þeim skerðingum sem margir þessara aðila hafa orðið fyrir síðastliðin ár og sér í lagi árið 2007, ekki nein, og rökin sem heyrst hafa hér eru að þetta sé sveiflubundin grein og þar af leiðandi verði menn bara að búa við það. En þar sem greinin er sveiflukennd rofar gjarnan til í henni. Það er vonandi það sem við munum sjá í framtíðinni, það er margt sem bendir til þess, og þá er það mín skoðun að það sé eðlileg krafa að þegar sveiflan kemur til baka sé byrjað að laga til og leiðrétta hjá þeim sem höfðu lent í skerðingu og jafnvel miklu tjóni stuttu áður. Hér er ekki verið að gera það, hér er á engan hátt horft til þess, heldur er aukið á álögur á þessa aðila.

Ég vil líka taka fram að þó að það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að verið sé að auka hlutdeild annarra tegunda sem hafa verið teknar í kvótapotta, er ekki verið að gera það með neinu jafnræði, það er enn þá töluverður munur þar á.

Það er líka nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að það sem er lagt til grundvallar í útreikningi af hagnaði, ef ég skil þetta rétt, það á svo sem eftir að koma í ljós, er ekki miðað við hverja útgerð fyrir sig. Útgerðirnar eru ekki skoðaðar hver fyrir sig, t.d. ein á Snæfellsnesi, önnur á Norðurlandi eða fyrir austan, heldur er tekið einhvers konar heildartal, ef ég hef skilið þetta rétt, sem þýðir að sumir aðilar greiða hlutfallslega meira en aðrir. Þeir sem eru til dæmis bara með veiðar en enga vinnslu borga líka fyrir vinnslu. Hins vegar eru þeir sem eru eingöngu í vinnslu ekki að greiða neitt. Þannig er þetta ef þetta er rétt skilið hjá mér.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða réttlæti er í þessu? Aðstaða þeirra sem eru með útgerð og vinnslu til að taka kostnaðinn er vitanlega allt önnur en þeirra sem eru bara í útgerð. Það er ekkert réttlæti í því að þeir sem eru eingöngu í vinnslu þurfi ekki að leggja neitt í þetta, það er að minnsta kosti mín skoðun.

Ég veit um fyrirtæki sem telst líklega meðalstórt eða jafnvel í minni kantinum sem lét reikna þetta út fyrir sig — bara dæmi fyrir það félag — fyrir árin 2008, 2009 og 2010. Þar væri þetta sérstaka veiðigjald um 80–90 kr. á hvert kíló. Það væru 30% af öllum hagnaði sem færu í þetta veiðigjald í þessu fyrirtæki og þetta er fyrirtæki með enga vinnslu, þetta er fyrirtæki sem landar öllu á markað, selur allt á markað og fær væntanlega besta verð á hverjum tíma. Þetta fyrirtæki skuldsetti sig líka fyrir nokkrum árum, keypti aflaheimildir. Nú eru þau ágætu hjón sem eiga þetta fyrirtæki að velta vöngum yfir því hver framtíð þeirra sé í þessari grein. Þetta er það sem þetta frumvarp boðar og býður upp á.

Það er annað sem vekur athygli mína og ég vil velta hér upp: Ef ég skil 1. gr. varðandi ævarandi eign íslensku þjóðarinnar — við þekkjum söguna þar sem risið hafa deilur um það hvort einhvers konar eign eða eignarréttur hafi myndast hjá þeim sem ráða yfir kvóta. Ég velti því upp, og náði nú ekki að spyrjast fyrir um það hér áðan, hvort hér sé ekki verið að taka á því, þ.e. að reyna að leita eftir einhvers konar samningum, og hvort þá 1. gr., eins og hún er orðuð, kalli á málaferli frá þeim sem telja að þarna hafi orðið til eign, hvort við munum horfa fram á langar raðir fyrir dómstólum til að láta reyna á slíkt. Hugmyndin með því að gera undirritaðan samning var að sjálfsögðu sú að koma í veg fyrir þess háttar. En í frumvarpinu er talað um að menn geti mætt í Fiskistofu eða eitthvað slíkt og undirritað — eða „eitthvað sambærilegt“, eitthvað svoleiðis, mjög óljóst að mínu viti.

Frú forseti, það er margt að athuga við þetta.

Í 8 gr. er farið yfir úthlutanir og þykir mér býsna bratt farið í úthlutanir í flokk 2 sem talað er um, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi hér áðan, að ekki er gerð nein tilraun til að bæta þær skerðingar sem orðið hafa undanfarin ár. Það er barnaskapur, ég leyfi mér að segja það, frú forseti, að halda að skerðing á aflaheimildum sem orðið hefur undanfarin ár og aukinn kostnaður þeirra sem eru í útgerð, hvort sem það eru einstaklingar eða stærri fyrirtæki, hafi ekki áhrif á rekstur fyrirtækisins eða þau byggðarlög þar sem fyrirtækin eru. Vitanlega hefur þetta mikil áhrif á þessa aðila.

Allir sem eru í rekstri leitast við að mæta auknum kostnaði með einhverjum aðgerðum og aukinn kostnaður féll á þessi fyrirtæki árið 2007. Hvernig mæta menn slíku? Annaðhvort þurfa þeir að framleiða meira og fá þá að veiða meira eða þurfa að draga saman seglin, sem bitnar þá á þeim sem vinna hjá fyrirtækinu eða þeim sem þjónusta þessa aðila því að þeir þurfa einhvers staðar að skera við nögl. Ég held að þarna sé mikill galli á gjöf Njarðar, ef ég má orða það þannig.

Það er svo sem ýmislegt sem hægt er að fara í varðandi þetta mál og margt sem maður veltir fyrir sér. Ég ætla að nefna hér grein sem ég talaði um áðan, ákvæði til bráðabirgða varðandi aflahlutdeild fiskiskips og það sem mun skerðast frá upphafi veiðiársins 2012/2013. Þarna eru þeir enn að leggja meira til sem það hafa gert undanfarin ár, í þessar svokölluðu bætur. Ekki er gerð tilraun til að jafna þetta, þetta er vitanlega skárra — 5,3% af öllum öðrum tegundum er vitanlega skárra — en ég held að ganga hefði þurft lengra, í það minnsta að jafna þetta og kannski minnka það sem hinum megin er til að ná einhverjum samhljómi í þetta allt.

Mörg okkar sem erum úr sjávarútvegsbæjum eða -þorpum höfum áhyggjur af því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þær tengjast því að hagnaður fyrirtækja hefur runnið til samfélaganna í ýmsu formi, í samfélagsverkefni, í sjúkrahúsin, til atvinnuuppbyggingar — jú, það er kannski óeðlilegt að sjávarútvegurinn sé að taka þátt í annarri atvinnuuppbyggingu, ég kann ekki að skýra það hvort mönnum finnst það eitthvað óeðlilegt. Ég velti því fyrir mér hvort það teljist eðlilegt hér á höfuðborgarsvæðinu að fyrirtæki í verslun og þjónustu séu í óskyldum greinum, það má líkja því saman.

Og úr því að ég fór að nefna það er ágætt að halda því til haga, frú forseti, þegar talað er um afskriftir eftir atvinnugreinum, og þær tölur hafa verið birtar, að fyrir utan landbúnaðinn er sjávarútvegurinn sú atvinnugrein þar sem hvað minnst hefur verið afskrifað. Ef ég man rétt voru það um 12,5 milljarðar hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en 137 milljarðar hjá fyrirtækjum í fjárfestingum og þjónustu. Þau fyrirtæki sem ekki hafa þurft að fá afskriftir eru flest, 80–90% þeirra, stödd utan höfuðborgarsvæðisins.

Frú forseti. Það er mikill blekkingarleikur að halda að þetta frumvarp hafi ekki einhver áhrif á byggðirnar í landinu og þessi fyrirtæki sem eru misjöfn að stærð. Ég hygg að á næstu dögum munum við sjá útreikninga þar sem búið er að reikna þetta niður á einstök fyrirtæki, þar sem búið er að taka alvörudæmi til að sýna fram á áhrifin. Ég hefði kosið að með frumvarpinu fylgdu útreikningar þar sem búið væri að fara í einstök fyrirtæki. Ég veit að aðilar í greininni eru fúsir til að opna bækur sínar til að hægt sé að reikna þessi dæmi til enda. Það er vitanlega það sem hefði þurft að gera til að meta áhrifin en ekki að fara hér í (Forseti hringir.) einhvers konar — ja, ég veit ekki hvað á að kalla það, einhvers konar samninga milli stjórnarflokkanna um hvað eigi að vera inni og hvað ekki.



[17:48]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kvótakerfið, þ.e. stjórn fiskveiða, eins og það hefur verið undanfarna áratugi hefur borið það með sér að skila arði til þjóðarbúsins í heild. Uppbygging kerfisins hefur lotið þeim lögmálum að afraksturinn af þessari mikilvægu auðlind skili sér sem mest til þjóðarinnar í formi skatta og þeirra tekna sem sjávarútvegurinn hefur skilað þjóðarbúinu.

Þetta er ekki fyrsta tilraun þessarar ríkisstjórnar til að breyta lögum um stjórn fiskveiða og nú virðist þetta frumvarp enn og aftur bera það með sér að litið er á sjávarútveginn sem hít sem hægt er að ganga í til að skattleggja að vild, liggur mér við að segja. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum mínum að með þeim kerfisbreytingum sem þarna er verið að leggja til sé gengið býsna langt í því að færa áhættuna af fjárfestingu í sjávarútvegi á herðar einkaaðila en að afraksturinn og hagnaðurinn af því sé nánast eingöngu ríkismegin.

Við skulum nefnilega ekki gleyma því að sjávarútvegurinn lýtur sömu lögmálum og önnur fyrirtæki í landinu, hann borgar skatta og hefur skyldur. Þegar verið er að tala um auðlindarentu umfram það sem eðlilegt er að greiða vegna auðlindarinnar er verið að leggja til verulega skattheimtu á eina atvinnugrein langt umfram aðrar. Mig langar til að heyra hjá virðulegum þingmanni hvaða sjónarmið hann hefur í þessu.



[17:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Sjávarútvegurinn skilar gríðarlegum arði til þjóðarinnar í heild. Þetta er okkar stærsti útflutningsatvinnuvegur. Það er talið, ef ég man rétt, að í svokölluðum sjávarklasa starfi í kringum 30 þús. manns. Að minnsta kosti eru tölurnar gríðarlegar.

Þegar herðir að sjávarútveginum, alveg sama hvar það er gert, hefur það áhrif á heildarmyndina, það hefur áhrif á alla þessa aðila. Það er verið að hvetja til þess að sjávarútvegurinn fjárfesti meira í tækni, nýjum skipum og slíku og því er svolítið sérstakt að hvetja til þess að menn taki áhættu, fjárfesti og skuldsetji sig — og taka hagnaðinn frá þeim á sama tíma. Mér finnst það mjög sérstakt, ekki síst þegar mér sýnist það gert með þessum hætti sem hér virðist eiga að gera, að taka af þessum aðilum einhvern umframhagnað sem er verið að reyna að skilgreina hér í þingstól. Mér finnst það mjög sérstakt og ég held að þarna sé gengið allt of langt í gjaldheimtu á sjávarútveginn og það er í engu samræmi við þær ályktanir sem Framsóknarflokkurinn hefur nokkurn tíma sent frá sér um gjaldtöku í sjávarútvegi.

Ég hef því áhyggjur af því að sú ól sem á að fara að herða að sjávarútveginum muni hafa veruleg áhrif út í greinar sem hanga utan á sjávarútveginum, nýsköpun, framleiðslu á hinu og þessu. Verkefni sem byggjast á þekkingu og reynslu munu áfram flytjast úr landi. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég held að þó að einhverjir aðilar (Forseti hringir.) í sjávarútvegi þoli eflaust aðeins auknar álögur er það alls ekki þannig að greinin þoli það í heild.



[17:52]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er það þá réttur skilningur hjá mér að hv. þingmaður telji að með þessum breytingum sé dregið úr möguleikum sjávarútvegsins til frekari fjárfestinga þvert á það sem hér hefur verið haldið fram, að hér sé verið að eyða óvissu? Er þvert á móti verið að auka enn á óvissuna og draga úr getu útvegsfyrirtækja og aðila í sjávarútvegi til að fjárfesta til framtíðar?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann sérstaklega um nýliðun. Þeir aðilar sem voru í greininni í upphafi, þegar sett var á það kvótakerfi sem hér er undir, eru löngu farnir út úr greininni. Þeir sem nú eru í greininni hafa meira og minna keypt sig inn í hana og á síðustu árum hafa menn verið að kaupa sig inn í greinina. Mér sýnist hætta á því að skuldsett sjávarútvegsfyrirtæki muni, einmitt af því að menn hafa verið að kaupa fyrirtæki og fjárfesta í búnaði, með þessum breytingum fara mjög halloka þegar kemur að þessum vilja ríkisstjórnarinnar til að skipta um nýliða í greininni, eins og ég vil nánast orða það.

Mig langar til að heyra viðhorf virðulegs þingmanns til þessa og jafnframt hvort hann átti sig á því hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi. Þá er ég ekki að tala um allra stærstu fyrirtækin heldur meðalstór fyrirtæki um allt land.



[17:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í vafa um að það mun draga úr möguleikum og hvata til frekari fjárfestinga í greininni. Ég segi það enn og aftur að langstærstur hluti skulda í sjávarútvegi er kominn til vegna fjárfestinga í greininni, í aflaheimildum og slíku. Það eru til dæmi um annað, óheppileg dæmi að mínu viti, en ekkert sem var ekki heimilt samkvæmt lögum, að ég best veit. Ég vil halda því til haga líka.

Það er að sjálfsögðu ekkert vit í því að ætla á 20 ára fresti eða svo að skipta um í greininni þannig að einhver annar eigi að gera þetta, einhver annar sé betri til þess. Hluti af þessu frumvarpi er í þá áttina. Ég skil til dæmis ekki alveg rökin fyrir því að ef aflaheimild skiptir um notanda fari 3% af henni til ríkisins. Það er fyrning að mínu viti, mjög hægfara fyrningarleið.

Kvótakerfið var ekki bara sett á til að auka hagkvæmni. Það var klárlega einn hluti kvótakerfisins því að það þurfti að auka hagkvæmni. Kvótakerfið var ekki síður sett á vegna þess að Íslendingar voru að ganga fram af auðlind sinni, voru að ofveiða fiskinn í kringum landið. Þess vegna fóru menn í að setja kvóta í sjávarútvegi. Og það var, merkilegt nokk, gert í samráði við þá sem þá voru í greininni. Menn ræddu saman og komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert vit í öðru en að fara þessa leið í stað þess að vera með mjög mikla óhagkvæmni og ofveiði á flestum tegundum sem verið var að veiða. Og auðvitað eru komnar margar viðurkenningar á íslenska kvótakerfinu en það er ekki þannig (Forseti hringir.) að það hafi verið eða sé gallalaust. Hér er hins vegar gengið allt of langt í ákveðnum hlutum.