140. löggjafarþing — 80. fundur
 29. mars 2012.
verðtryggð lán Landsbankans.

[10:48]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag er fjallað um svokallaðan verðtryggingarjöfnuð sem er misvægi milli veðtryggðra eigna og verðtryggðra skuldbindinga fjármálastofnana, ef ég má orða það þannig. Þar kemur fram að verðtryggingarjöfnuður þessi hefur aukist á síðustu þrem árum um 132%. Þar kemur líka fram að sá banki sem eykur hvað mest þennan jöfnuð er ríkisbankinn Landsbanki Íslands. Einnig kemur fram að við hvert prósent sem verðbólgan fer upp hagnast þessi ríkisbanki um 1,3 milljarða kr.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þessi staðreynd sem liggur á borðinu sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að draga úr vægi verðtryggingar. Hyggst ríkisstjórnin grípa til aðgerða til að breyta þessu í bankanum sínum sem er ríkisbankinn Landsbankinn?

Það er mjög óeðlilegt og hlýtur að vekja upp spurningar hvort ríkisbankinn Landsbankinn spili með í því ferli öllu saman, heildarmyndinni um verðbólgumarkmið og annað sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin eru að vinna að. Það er nefnilega óeðlilegt að sjá eina lánastofnun skera sig mjög úr gagnvart hinum varðandi þetta og hefur þar af leiðandi varla mikinn hvata til að draga úr verðtryggingarvæginu meðan þetta er svona. Það vekur raunar athygli að bankinn virðist beina viðskiptavinum sínum inn í verðtryggð lán meðan aðrir virðast beina þeim eða bjóða í það minnsta upp á skýra valkosti varðandi (Forseti hringir.) óverðtryggð lán.



[10:50]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég tók þetta verðtryggingarmisvægi sem hv. þingmaður nefnir, sem er einkum í Landsbankanum, upp á síðasta fundi ráðherranefndar um efnahagsmál. Við höfðum kallað til fulltrúa Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans þannig að það var aðeins rætt þar og ég held að það sem við sjáum í Landsbankanum um þetta misvægi í verðtryggingunni sýni okkur mjög ljóslega að það eru sterk rök fyrir því að komast út úr verðtryggingunni. Ég tel einboðið að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn skoði hvort ekki sé ástæða til að leiðrétta þetta með einhverjum hætti þegar það liggur fyrir að það er ójafnvægi á eigna- og skuldahlið þegar um er að ræða verðtryggð lán.

Maður spyr sjálfan sig um þetta verðtryggingarójafnvægi: Hvernig er þá með innlánshliðina og skuldarana? Hvernig er með vaxtamuninn? Þarf ekki að skoða hann? Er bankinn ekki í færum til þess, þegar staðan er svona, að láta eitthvað af þessu ganga betur til skuldaranna og lækka vextina með einhverjum hætti eða þá að skoða innlánsreikningana sem eru með neikvæða vexti? Mér finnst þurfa að skoða ýmislegt í þessu. Ég held að þetta mál ógni ekki stöðugleika í bankanum heldur hjálpar þetta verðtryggingarmisvægi honum frekar. Ég tel að þetta sé þess eðlis og það mikið, og það í þessum eina banka, að það sé full ástæða til þess og mun beita mér fyrir því að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn skoði þetta sérstaklega (Forseti hringir.) og út af fyrir sig einnig samráðsnefnd um fjármálastöðugleika.



[10:53]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að þetta hjálpar bankanum í sínum rekstri. En ef þetta verður að sama skapi til þess að ýta verðbólgunni upp með einhverjum hætti eða að bankinn auki þennan jöfnuð má velta fyrir sér hvort heimilin í landinu beri þá ekki tjónið. Ríkisvaldið heldur á eignarhaldinu á þessum banka og ætti þar af leiðandi að geta lagt honum lífsreglurnar. Stendur það til?

Ég bendi líka hæstv. ráðherra á að í dag verður dreift máli frá þingflokki framsóknarmanna þar sem meðal annars er gerð tillaga um að settar verði reglur um hámarkshlutfall veðlána í viðskiptabönkunum þannig að það sé tryggt að þessi spírall verði ekki með sama hætti og hann er í dag. Við lögðum áherslu á það í gærkvöldi þegar við vorum að ljúka þingfundi að við vonumst til að þetta mál fái afgreiðslu til nefndar þannig að hægt verði að fara (Forseti hringir.) í þessa vinnu. Frumvarpið heitir frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta.



[10:54]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit út af fyrir sig ekki hvort það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að leggja bankanum lífsreglur. Við gefum auðvitað út okkar eigendastefnu en þegar svona mál koma upp hlýtur það að vera verkefni Fjármálaeftirlitsins ekki síst og þá Seðlabankans að skoða þetta mál. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég mundi beita mér fyrir því frekar en ég hef gert að það verði skoðað hvort ekki þurfi að verða einhver leiðrétting á þessu máli og einhverjar leiðbeiningar til bankans til að auka jafnvægi.

Við sjáum líka núna hvað er að gerast í útlánaþróun vegna íbúðarhúsnæðis. Fólk tekur í auknum mæli óverðtryggð lán sem hefur auðvitað bæði kosti og galla. Ég vona að það skili einhverjum árangri ef Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn skoða það að beina því til bankans að ná meira jafnvægi en við höfum séð og hv. þingmaður lýsti að því er varðar verðtryggingarmisvægi sem er (Forseti hringir.) sannarlega í Landsbankanum.