140. löggjafarþing — 88. fundur
 25. apríl 2012.
störf þingsins.

[15:01]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna umræðna sem urðu í síðustu viku um að smábátasjómenn innan Landssambands smábátaeigenda væru kjarasamningslausir. Enn hefur ekki tekist að gera kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda. Ég þekki þetta mál mætavel sem formaður í verkalýðs- og sjómannafélagi í mörg ár.

Í síðustu tilraun sem gerð var til að ná samningum við Landssamband smábátaeigenda af hálfu Sjómannasambands Íslands voru þeir samningar felldir af útgerðarmönnum innan Landssambands smábátaeigenda. Í dag er enn á ný verið að reyna að ná samningum og enn eru samningslausir smábátasjómenn vítt og breitt um landið.

Í vinnu minni við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða hef ég lagt mikla áherslu á að skilyrða eigi úthlutun nýtingarleyfa og aðgengi að sjávarauðlindinni, að viðkomandi útgerðir starfi eftir gildum kjarasamningum og að brot á því geti þýtt riftun á nýtingarleyfi. Ég lagði fram bókun í starfshópi um endurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum sem skilaði af sér skýrslu fyrir tæpum tveim árum, en nú tel ég að það reyni á hvort kjarasamningur náist við Landssamband smábátaeigenda því að ég tel mikið í húfi. Löggjafanum er að mínu mati ekki stætt á öðru en að skilyrða aðgengi að sjávarauðlindinni, m.a. með þeim hætti að útgerðir uppfylli þessi skilyrði og hafi gilda kjarasamninga við áhafnir sínar. Það eru sjálfsögð mannréttindi árið 2012 og ég mun gera hvað ég get til að þetta verði með þeim hætti.



[15:03]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun var afgreitt til 2. umr. þingmannamál flutt af fjölmörgum þingmönnum sem lýtur að birtingu upplýsinga um afskriftir í bankakerfinu eftir það efnahagshrun sem varð hér haustið 2008. Góð samstaða tókst í nefndinni með fulltrúum úr öllum flokkum. Aðeins einn þingmaður lagðist gegn afgreiðslu málsins þó að einstakir fyrirvarar hafi verið settir við afgreiðslu þess.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að birtar verði frá 2009 og eftir það upplýsingar um afskriftir sem nema 100 millj. kr. eða meira og var af flutningsmönnum til þess ætlað að auka gagnsæi í uppgjörinu eftir hrun, hafa opnar upplýsingar um það sem gerst hefur í fjármálakerfinu, fyrst og fremst til að eyða óþarfatortryggni um að þar hafi eitthvað misjafnt verið á ferðinni og sömuleiðis til að gæta jafnræðis meðal þeirra sem hefur verið afskrifað hjá. Það hefur verið talsvert um opinbera umfjöllun um þær afskriftir hjá sumum þeirra sem hafa notið þeirra og eðlilegt að það sé einfaldlega með sambærilegum hætti og haft jafnræði gagnvart þeim sem í hlut eiga og hlotið hafa verulegar afskriftir, 100 milljónir eða meira. Það á einfaldlega að birta upplýsingarnar og hafa aðgengilegar almenningi svo menn geti þá innt eftir ástæðum þess í hvert og eitt sinn.

Ég þakka flutningsmönnum fyrir að taka þetta mál upp. Eitt af mikilvægustu verkefnum okkar eftir hrun er að endurreisa traust á fjármálakerfið. Það gerum við mest og best með því að hafa hlutina uppi á borðum og að mikilvægar upplýsingar sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni séu almenningi aðgengilegar. Ég þakka nefndinni fyrir gott samstarf og þá tiltölulega breiðu samstöðu fulltrúa úr öllum flokkum (Forseti hringir.) sem tókst um málið.



[15:05]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé tímabært að við gerum okkur grein fyrir því að hluti þeirra krafna sem lánastofnanir hafa í bókum sínum vegna skulda fjölskyldna verður ekki innheimtur. Þær kröfur eru tapaðar. Það er sama hvað menn tala mikið um þetta hér, ákveðinn hluti skulda íslenskra heimila í bókum bankanna verður ekki innheimtur.

Í öðru lagi er það viðurkennt, núna síðast af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að langvarandi skuldavandi heimila hægir á efnahagsbatanum, framlengir með öðrum orðum kreppuna. Hann verður þess vegna að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli.

En við skulum ekki heldur gleyma hinu, að hvorki ríkissjóður né fjölskyldur og heimili í landinu eru eyland. Við getum ekki rekið okkar sameiginlega sjóð með halla langt inn í framtíðina. Við þurfum að hafa heilbrigðan ríkissjóð og við þurfum líka að hafa heilbrigð heimili. Þetta er það verkefni sem blasir við okkur hér.

Við sjálfstæðismenn höfum ásamt fleiri þingmönnum bent á að lyklaleiðin svokallaða gæti verið ein þeirra leiða sem gætu hjálpað þessum skuldsettu heimilum út úr vandræðum sínum. Ég kalla eftir því að stjórnarmeirihlutinn í viðkomandi nefndum taki þessi mál á dagskrá. Við höfum rætt þetta núna í þrjú ár og þetta kemst aldrei nokkurn tíma á dagskrá. Ég skil ekki af hverju þetta hefur ekki fengist betur rætt. Við getum ekki talað okkur út úr þessum erfiðleikum undir liðnum um störf þingsins tvisvar sinnum í viku. Við þurfum að gera okkur grein fyrir þessum vanda og taka á honum þannig að við stöndum undir því sem við gerum en sköpum ekki önnur vandamál í leiðinni.



[15:07]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þingstörfin það sem eftir er af þessu þingi. Fyrir liggur gríðarlegur fjöldi þingmála frá ríkisstjórninni sem var um daginn í stöflum hér frammi. Þar er um að ræða mörg gríðarlega stór mál, fiskveiðistjórnarmál ríkisstjórnarinnar, rammaáætlun um virkjanir og verndun, mikilvæg mál um skuldir heimilanna og um stjórnarskrána. Það á að reyna að keyra sem mest af þessum málum í gegn. Forgangsröðunarlisti frá meiri hlutanum fæst ekki skoðaður eða ræddur. Það eru kvöld- og næturfundir fram undan og jafnvel, eins og gert var í gær, greidd atkvæði um að halda fund fram á rauðanótt ef á þyrfti að halda.

Mig langar að minna á það sem stendur í þingsályktunartillögu frá þingmannanefnd þingsins sem Alþingi samþykkti í september 2010 63:0. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Inn í þetta allt saman koma svo mál eins og var verið að ræða í morgun í fjárlaganefnd um Vaðlaheiðargöng sem eru eins og skrattinn úr sauðarleggnum með mjög sérkennilegum umsögnum og algjörlega þvert á öll fagleg vinnubrögð.

Samkvæmt dagskrá þingsins fram undan hefur þingið ekkert lært og vill ekki breyta neinu. Undantekning er þó málið sem ég heyrði af rétt áðan hjá hv. þm. Helga Hjörvar, um gagnsæi í afskriftum. Þar stígur þingið fram með eitt mál sem er af hinu góða en það gengur ekki lengur að vinna öll þessi stóru mál eftir dagskrá þingsins fram undan. (Forseti hringir.) Þingið verður að vinna öðruvísi og við verðum að gera betur með einhverjum hætti.



[15:09]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var ýmislegt rætt í morgun á fundi efnahags- og viðskiptanefndar og meðal annars farið yfir stöðuna í gengislánadómunum. Það eru ekki uppörvandi fréttir. Ef allt gengur eins og best verður á kosið verður hugsanlega komin einhver niðurstaða í málið í haust.

Hæstv. forsætisráðherra hefur farið mikinn bæði í umræðum í þinginu og í greinaskrifum um að formfestan og faglegu vinnubrögðin séu komin til að vera hjá ríkisstjórninni og hafi gengið einstaklega vel með þann þátt mála. Hún talaði sérstaklega um Icesave í því samhengi. Ég vek þess vegna athygli á því sem kemur meðal annars fram í bókinni Icesave-samningarnir – afleikur aldarinnar? að 3. júní 2009 spurði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hæstv. fjármálaráðherra um stöðuna í málunum og fékk eftirfarandi svar frá hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, með leyfi forseta:

„Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Virðulegi forseti. Þetta var 3. júní. 5. júní var skrifað undir samninginn. Það var að vísu einhver fundur í ríkisstjórninni þar sem menn voru ekki sammála í þessu máli og því síður í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég held að það skipti máli að menn skoði þetta í samhengi við það sem hæstv. forsætisráðherra segir núna, að formfestan sé komin til að vera. Hún talar um fagleg vinnubrögð. Það er það sem þetta þýðir. Þetta liggur allt fyrir. Þetta er það sem hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) er að meina og það er ágætt að skoða það í tilefni af umræðu um landsdóm.



[15:12]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að hvetja hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar til að hraða vinnu við lyklafrumvarpið svokallaða sem ég hef lagt fram á hverju ári frá því að ég kom inn á þing fyrir þremur árum. Ástæðan fyrir því að það liggur á að samþykkja þetta frumvarp er sú að þeir sem hafa farið í greiðsluaðlögun og héldu að það úrræði mundi leysa úr skulda- og greiðsluvanda sínum eru enn að bíða eftir úrlausn, frú forseti, og hrópa nú á samþykkt lyklafrumvarpsins.

Ég vil nefna sögu eins aðila sem hefur verið í greiðsluaðlögunarferli í tvö ár. Nýlega fékk viðkomandi bréf um að greiðsluaðlögunarsamningur yrði ekki gerður nema fasteign fjölskyldunnar færi í sölu og bifreiðin sömuleiðis. Bankinn lofaði viðkomandi einhverri skuldaeftirgjöf en vildi ekki tilgreina upphæðina tveimur árum eftir að viðkomandi fór í greiðsluaðlögun.

Greiðsluaðlögunarúrræðið er ekki að virka, heldur tefur það nauðsynlega skuldaleiðréttingu og brýtur jafnframt niður fólk sem gerði ekkert annað af sér en að fjárfesta í fasteign og bifreið. Lyklafrumvarpið mun fyrst og fremst gagnast þeim sem eru í greiðslu- og skuldaerfiðleikum sem eru innan við 10% af skuldsettum heimilum. Þetta vita fjármálastofnanir og sumar hverjar hafa nú þegar afskrifað skuldir þeirra sem hafa látið af hendi fasteign sína. Sem dæmi má nefna að Íbúðalánasjóður innheimtir ekki kröfur sem engin fasteign er (Forseti hringir.) á bak við.

Frú forseti. Ég hvet meiri hluta þingsins til að hraða vinnslu lyklafrumvarpsins (Forseti hringir.) og samþykkja það hið fyrsta.



[15:14]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er það alrangt að greiðsluaðlögunin sé ekki að virka. Hún virkar fyrir fullt af fólki, skilar hundruðum út úr greiðslujöfnun og inn í skil og til miklu betri vegar. Hún virkar ekki fyrir alla, það er alveg rétt, og vel getur komið til greina að bæta þessu úrræði við.

Fyrst er frá því að segja um frumvarp til laga um samningsveð, svokallað lyklafrumvarp sem hv. þingmaður spyr um, að umsagnarfresturinn rennur út á morgun. Þá fyrst getur nefndin tekið það til efnislegrar umfjöllunar.

Nú þegar hafa komið tvær umsagnir, annars vegar frá Fjármálaeftirlitinu sem gerir ekki athugasemdir við efnisatriði frumvarpsins og hins vegar frá Samtökum fjárfesta sem segja að breytt hegðun lánveitenda, hvort heldur er fjármálafyrirtækja eða lífeyrissjóða, sem frumvarpið hefði í för með sér mundi skerða óhóflega aðgengi almennings að lánsfé. Þetta er þeirra mat. Að mínu mati eru bæði kostir og gallar við þessa leið. Þetta styrkir stöðu fólks gagnvart fjármálafyrirtækjunum í samningum og nauðasamningum og er viðbót þar við greiðsluaðlögunina sem á ekki að tala niður. Það á að fagna því frábæra úrræði fyrir fólk í vanda sem hún er. Þótt hún hafi ekki gagnast öllum er hún frábært úrræði og hefur reynst mjög vel mjög mörgu fólki.

Við verðum að vanda til verka og gera okkur grein fyrir afleiðingunum af samþykkt slíks frumvarps. Eins og ég segi getur lyklafrumvarpið annars vegar bætt umtalsvert réttarstöðuna hjá fólki sem er í slíkum samningum en ef afleiðingarnar eru þær að aðgengi venjulegs fólks að lánsfé til húsnæðiskaupa skerðist óhóflega verðum við líka að meta afleiðingarnar af því. Að mínu mati er ekki hægt að útiloka að þetta frumvarp komi inn í þingið aftur og látið verði reyna á það hvort meiri hluti sé fyrir því í þinginu. Það kemur vel til álita að mínu mati og ég bíð spenntur eftir því að hefjast handa í nefndinni eftir morgundaginn þegar umsagnarfrestur er liðinn. Ég vona að það komi fleiri umsagnir en þessar tvær þannig að nefndin geti tekið efnislega afstöðu til frumvarpsins (Forseti hringir.) og mögulegra afleiðinga af samþykkt þess en það á ekki að útiloka það. Þetta úrræði bætist við flóru fjölmargra annarra úrræða fyrir fólk í skulda- og greiðsluvanda.



[15:16]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem komið hefur upp í dag í sambandi við skuldamál heimila las ég í Morgunblaðinu í morgun að mikil áform væru í gangi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að koma með mikil úrræði fyrir vorið í þeim efnum. Ef svo er er það auðvitað fagnaðarefni en ég vildi eiginlega nota tækifærið í þessari umræðu til að biðja hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að upplýsa eitthvað um það hvað er í pípunum í þeim efnum. Það er stutt eftir af þinginu þannig að því fyrr sem slíkar hugmyndir koma fram, þeim mun betur gefst okkur tækifæri til að vinna í þeim. Ef það sem haft er eftir nokkrum hv. þingmönnum stjórnarflokkanna í Morgunblaðinu í morgun á við rök að styðjast skora ég á þá að koma fram með þær hugmyndir þannig að hægt sé að fara að vinna með þær í þinginu.

Það var annað mál sem ég kom fyrst og fremst upp til að ræða, það að þessa dagana, núna í þessari viku, eru töluverðar hræringar á vettvangi Evrópusambandsins út af sjávarútvegsmálum. Við vitum og lesum í blöðum að þar eru í bígerð reglur sem kunna að leiða til þess að reynt verði að beita okkur Íslendinga mjög hörðum refsiaðgerðum vegna þess að við stöndum fast á okkar rétti í makrílmálum. Ég vildi nota þetta tækifæri til að skora á þá þingmenn sem starfa á vettvangi utanríkismálanefndar að taka þetta upp við utanríkisráðherra þar sem svo virðist sem íslensk stjórnvöld taki þetta ekki nægilega alvarlega. (Forseti hringir.) Það lítur út fyrir að þau afgreiði allar svona hræringar sem einhverjar yfirlýsingar sem Evrópumenn nota til heimabrúks en átti sig ekki á þeirri hættu (Forseti hringir.) sem hér getur vofað yfir.



[15:19]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins um stöðu mála í þinginu og þá forgangsröðun sem við beitum á mál. Það er mjög mikilvægt að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og reyna að ná um það víðtækri sátt, en við erum að rífast um það í samfélaginu hvort sjávarútvegurinn eigi að borga 5, 15 eða 20 milljarða í veiðileyfagjald.

Á sama tíma heyrum við ítrekað yfirlýsingar frá fulltrúum Íslandsstofu um mikla eftirspurn hjá erlendum fyrirtækjum með fjölbreytta starfsemi að koma til landsins, fjárfesta hér og byggja upp atvinnurekstur. Þeir geta hins vegar ekki gefið svör vegna þess að þeir geta meðal annars ekki svarað því hvenær hægt er að fá orku fyrir slíka starfsemi.

Við höfum skýrslu um samræmda orkustefnu sem var lögð fram í þinginu og rædd í febrúar, ef ég man rétt, og við höfum framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar frá síðasta ári. Það sem er sameiginlegt með þessum skýrslum er að þær segja okkur að ef við förum í trúverðuga stefnu, nýtum þá virkjunarkosti sem eru í nýtingarflokki samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, megi reikna með því að þegar komið verður til áranna 2025–2030 á þeirri framkvæmdaáætlun muni þessi iðnaður, þ.e. raforkuframleiðslan, skila allt að 200 milljörðum á ári inn í íslenskt þjóðarbú.

Hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir sagði í þinginu að niðurstöður hennar og hæstv. iðnaðarráðherra í rammaáætlun mundu tefja þessar framkvæmdir um fjögur ár. Við getum sett þetta í samhengi við allt annað, á fjórum árum erum við að tala um 800 milljarða ef við viljum nota þá tölu sem kemur fram í þessum skýrslum.

Við getum öll gert okkur grein fyrir því, virðulegi forseti, hvaða áhrif það hefði á íslenskt samfélag, trúverðugleika þess og traust á erlendum vettvangi, t.d. lánshæfismat, ef við settum fram (Forseti hringir.) trúverðuga stefnu til einhverra ára um það hvernig við ætluðum að nýta þessar orkuauðlindir. Allt þetta setur ríkisstjórnin á ís (Forseti hringir.) og ræðir algjör smámál í samanburði við þetta mesta hagsmunamál þjóðarinnar.



[15:21]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð er kunnugt féll dómur í landsdómi í þessari viku, á mánudaginn. Að gefnu tilefni tel ég rétt vegna sögulegs samhengis að vekja hér athygli á því að ég get ekki séð að þær fullyrðingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að 2. liður ákærunnar hafi verið alvarlegasti ákæruliðurinn eigi við rök að styðjast. Ég sat í þingmannanefndinni og kannast ekki við að svo hafi verið.

Þeir sem hafa áhuga á að fá nánari rökstuðning fyrir þessari afstöðu minni geta farið yfir þingræður þeirra þingmanna sem tjáðu sig um þetta mál á sínum tíma og jafnframt þá afstöðu þeirra þingmanna sem hafa tjáð sig um þetta. Ég vakti athygli á þessu í minni ræðu, fjallaði sérstaklega um þennan ákærulið þar sem ég leyfði mér að fullyrða að honum hefði verið kastað inn í púkkið til að fylla upp í ákæruskjalið. Ég tel að allir þeir sem vilja sjá það sjái á niðurstöðu landsdómsins, því að Geir H. Haarde var ekki gerð sérstök refsing fyrir þennan ákærulið, sjái að þessi orð eiga ekki við rök að styðjast. Ég tel einfaldlega rétt að ræða þetta í þinginu til að gæta samhengis í sögunni.



[15:23]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram þeirri umræðu sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hóf og víkja að því sem haldið hefur verið fram í opinberri umræðu á síðasta sólarhring, að 2. ákæruliðurinn hafi verið sá alvarlegasti sem hafi verið borinn fram gagnvart hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Ég fór í það eftir að slíkar fullyrðingar bárust að lesa yfir ræðurnar og málsskjölin og það er hvergi að finna nein ummæli í þá átt að þessi ákæruliður sé talinn hinn alvarlegasti. Hefði það verið álit hv. þingmanna hefði mátt gera ráð fyrir því að það hefði komið fram í málflutningnum, m.a. á Alþingi. Það gerðist hins vegar ekki. Hv. þingmenn þögðu sem fastast um þetta mál en hefðu örugglega ekki gert það ef það hefði verið mat þeirra að þetta væri alvarlegasti ákæruliðurinn.

Síðan sjáum við líka í niðurstöðu dómsins mjög afdráttarlaust kveðið á um þetta. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í málinu er ákærði sýknaður af alvarlegustu brotunum, sem hann var borinn sökum um.“

Þær yfirlýsingar sem við höfum heyrt á síðasta sólarhring eru eftiráskýringar, tilraun til að skrifa upp söguna sjálfum sér í hag. Það vekur síðan sérstaka athygli að það er ekki gerð refsing í þessu máli og ég spyr: Segir það ekki allt sem segja þarf um hvaða augum landsdómur lítur þetta mál? Ég tel þess vegna að orð þeirra hv. þingmanna sem hafa látið falla orð í þessa veru sem ég hef þegar rakið hafi í raun ekkert efnislegt vægi þegar þessi dómur er túlkaður. Það er öllum ljóst að engum heilvita manni hefði dottið í hug að leggja af stað með þetta mál, ákæra og kalla saman landsdóm til að taka afstöðu til þess ákæruatriðis sem sakfellt var fyrir á endanum. Eftiráskýringar breyta engu um þetta. (Gripið fram í: Þetta er allt stjórnar… …)



[15:25]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Á morgunverðarfundi í morgun hjá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins þar sem óskað var eftir fulltrúum þingflokkanna kom fram hjá stjórnarliðum að það væri stjórnarandstöðunni að kenna að ýmis framkvæmdamál, eins og nýbygging Landspítalans og ýmis samgöngumál, hefðu tafist. Það kom reyndar líka fram í Fréttablaðinu í morgun. Heyr á endemi. Ég spyr: Hefur ríkisstjórnin ekki meiri hluta á þinginu? Hvernig getur það verið minni hlutanum að kenna að slík mál hafi dregist úr hömlu? Er það ekki ríkisstjórnin sem, eins og við höfum horft upp á trekk í trekk, þing eftir þing, kemur allt of seint með umdeild mál inn í þingið, umdeild innan stjórnarflokkanna? Það er hin raunverulega ástæða seinkunar á öllum þeim málum sem hér hafa verið borin fram. Eða eru allir búnir að gleyma stöðugleikasáttmálanum?

Nú er lítið eftir af þessu þingi, frú forseti, og það er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana, þingflokka Vinstri grænna og Samfylkingar, að forgangsraða þeim málum sem þeir vilja að þingið geti afgreitt sómasamlega fyrir þinglok í vor. Það verklag gengur einfaldlega ekki lengur að hér eigi að þvinga mál í gegnum þingið með minnsta mögulega meiri hluta og hugsanlegum þvingunum á stjórnarliðið og koma svo út og kenna stjórnarandstöðunni um að það gangi eitthvað hægt. Þetta er algjörlega óboðlegur málflutningur.

Varðandi umræðuna um skuldamál minni ég á að við framsóknarmenn höfum lagt fram frumvarp um verðtryggingu sem ég hygg að verði á dagskrá á föstudaginn og ég hvet stjórnarflokkana til að taka það mál til sín og hafa það eitt af þeim forgangsmálum sem við munum (Forseti hringir.) klára í vor.



[15:27]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hagvísar efnahagslífsins eru margir að færast í rétta átt. Við sjáum að atvinnuleysi fer lækkandi, væntingavísitala almennings hækkar, hagvöxtur er yfir 3% á síðasta ári, kaupmáttur jókst um 5,3% á síðasta ári og fleira mætti telja. En kallað er eftir fjárfestingu í atvinnulífinu. Það er hin vonda ríkisstjórn, eða svo segir stjórnarandstaðan, sem er að drepa allt vegna þess að ekki er ráðist í fjárfestingar.

Eins og þingheimur veit eru ekki miklir peningar til í ríkiskassanum til að fara í umfangsmiklar fjárfestingar af hálfu hins opinbera en hins vegar hafa menn á vettvangi ríkisstjórnar leitað leiða til að koma engu að síður af stað framkvæmdum í þessu landi. Þess vegna var mjög áhugavert að verða vitni að opnum fundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins í morgun þar sem hvorki formaður Sjálfstæðisflokksins né fulltrúi Framsóknarflokksins gátu lýst yfir stuðningi við tvær stórar framkvæmdir sem hið opinbera er að reyna að ráðast í á næstu missirum, annars vegar byggingu Landspítala upp á 44 milljarða kr. og svo byggingu Vaðlaheiðarganga. Það eru framkvæmdir upp á samtals rúma 50 milljarða kr. sem hvort tveggja verður fjármagnað annars vegar í gegnum lífeyrissjóðina og hins vegar í gegnum notendagjöld. Fjármögnun þessara verkefna setur sem sagt rekstur ríkissjóðs ekki í uppnám. Þetta eru framkvæmdir sem nýta sér slaka í atvinnulífinu, auka atvinnu, auka veltu, búa til störf fyrir iðnaðarmenn, hönnunargeirann og byggingargeirann sem veitir ekki af því að fái einhverja veltu inn í samfélagið. Þrátt fyrir það gátu fulltrúar stjórnarandstöðunnar á þessum fundi í morgun ekki lýst yfir stuðningi við þessar framkvæmdir. Ég spyr: Setja menn hér hagsmuni stjórnarandstöðunnar framar hagsmunum iðnaðarmanna í þessu landi? [Kliður í þingsal.] Eru menn í klækjapólitík og að reyna að hindra það að ríkisstjórnin nái (Gripið fram í.) árangri í opinberum framkvæmdum í þessu landi? Hvaða hagsmunir ráða för (Forseti hringir.) hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar? (Gripið fram í.) Ætla þeir að styðja okkur í ríkisstjórninni við að (Forseti hringir.) ráðast í framkvæmdir upp á rúmlega 50 milljarða kr. á næstu missirum eða ætla menn að reyna að stöðva þessi mál á vettvangi Alþingis? [Háreysti í þingsal.]



[15:29]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður um hljóð í þingsal og biður hv. þingmenn að virða tímamörk. Það er tveggja mínútna ræðutími og það ber að virða hann.



[15:30]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í upphafi vil ég segja það við hv. þm. Magnús Orra Schram líkt og aðrir hafa sagt hér að það er meiri hluti í þessu landi, það er meiri hluti á Alþingi. Ef svo er ekki skal hv. þingmaður bara koma og segja það. (Gripið fram í.) Hv. þm. Magnús Orri Schram getur ekki kennt stjórnarandstöðunni um það dugnaðarleysi sem hrjáir hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (SER: Komdu bara aftur í stjórnarliðið.)

Ég vildi hins vegar ræða sama mál og hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á áðan, þ.e. þá staðreynd að Íslendingar verða nú fyrir refsingum og þvingunum af hálfu Evrópusambandsins vegna makrílveiða. Tekjur vegna makrílveiða á síðasta ári námu um 25 milljörðum íslenskra króna. Nú er Evrópusambandið að undirbúa refsiaðgerðir gagnvart Íslendingum fyrir það eitt að vilja krefjast eðlilegrar hlutdeildar í þessum deilistofni. Þessar refsiaðgerðir fela það í sér að jafnvel á að setja löndunarbann á íslensk skip, bann á kaupum og sölu íslenskra skipa til og frá Íslandi, hafnarbann á íslensk skip í höfnum ESB-ríkja og jafnvel viðskiptabann á útgerðarvörur til Íslands.

Síðan kemur hæstv. utanríkisráðherra í ræðustól í byrjun vikunnar og segir að það sé mikilvægast í þessu máli að halda kúlinu. Ég held, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin þurfi að hætta að knékrjúpa fyrir Evrópusambandinu í öllum málum. Við horfum upp á það varðandi makrílinn. Við horfum upp á það í Icesave-málinu. Við horfum upp á það í hverju málinu á fætur öðru að ríkisstjórnin knékrýpur fyrir Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Nú þyrfti ríkisstjórn (Forseti hringir.) Íslands að fara að gera eitthvað meira en einungis að halda kúlinu því að það eru mikilvægir (Forseti hringir.) þjóðarhagsmunir hér undir sem utanríkisráðherra og ríkisstjórnin virðist ekki skilja. (SER: Hlustaðu þá á …)



[15:32]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki talað fyrir hönd annarra flokka í stjórnarandstöðu en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Framsóknarflokkurinn styður þessa ríkisstjórn til góðra verka og hefur alltaf gert, sérstaklega til að leysa skuldavanda heimilanna. Hann er í rauninni eini flokkurinn sem barist hefur fyrir því í heild sinni, heill í afstöðu sinni frá upphafi þessa kjörtímabils, það hafa vissulega fleiri þingmenn úr öðrum flokkum tekið undir en enginn stjórnmálaflokkur hefur tekið sömu afstöðu og Framsóknarflokkurinn.

Mér þykir svolítið súrt að heyra hv. þm. Magnús Orra Schram halda því fram fullum fetum að við séum nú þegar farin að tefja byggingu nýs Landspítala. Málið þarf nú í fyrsta lagi að vera komið inn á þing til þess að við getum gert eitthvað í þá veruna. En ég bendi á það eins og aðrir hafa ítrekað sagt að það er þingmeirihluti á Alþingi. Ég vona að meiri hlutinn sé ekki þar með að segja að við stöndum í vegi fyrir málum, að leggja til að mál fái ekki málefnalega og efnislega umfjöllun hér. Um það snýst þetta mál.

Ég hef miklar efasemdir um að Landspítalinn eða forsendur fyrir honum séu réttar og tel að það þurfi að ræða það. Ég hef svo aðra skoðun á Vaðlaheiðargöngum. Ég er þeirrar skoðunar að Vaðlaheiðargöng eigi að fá málefnalega og vandaða umfjöllun í fjárlaganefnd. Ég vil segja stjórnarliðum það til hróss að mér sýnist það vera reyndin. Það er enginn í stjórnarandstöðunni sem ætlar að tefja málið í nefndinni. Ég hef ekki fundið það.

Ég ætlaði mér að ræða reyndar um Evrópusambandið og það löndunarbann sem ESB hefur lagt grundvöllinn að. Ég get sagt það að lokum, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan mun ekki standa í vegi fyrir því að ríkisstjórnin mótmæli þessum aðgerðum sérstaklega nú þegar við eigum í (Forseti hringir.) viðræðum um aðild að þessu sama sambandi.