140. löggjafarþing — 88. fundur
 25. apríl 2012.
sérstök umræða.

málefni Farice.

[15:35]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt að ræða málefni Farice gagnastrengsins öðruvísi en líta til fortíðar og horfa aðeins á söguna. Þann 26. febrúar árið 2008 voru undirritaðir samningar milli Verne Holdings, fyrirtækis í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og fleiri aðila, Landsvirkjunar, Farice, sem rak þá Farice 1 sæstrenginn, og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar upp á 20 milljarða kr. Inni í þeim samningi var sala og kaup á raforku, gagnaflutningi, húsum og lóð fyrir nýtt, alþjóðlegt gagnaver við Keflavíkurflugvöll. Krafa fyrir þessum samningi og rekstur þess kallaði á aðgang að nýjum sæstreng með mikla flutningsgetu sem fékk nafnið Danice. Þessi samningur var í raun forsenda þess að Danice gagnastrengurinn var lagður á sínum tíma. Hugmyndin var síðan að Verne Holdings gagnaverið mundi tengja saman endapunkta strengjanna Farice og Danice í London og Amsterdam og búa þannig til hringtengingu á milli landanna og þessara tveggja stærstu netmiðstöðva Evrópu.

Í millitíðinni varð bankahrun á Íslandi og íslenska ríkið fékk Farice með Danice sæstrengnum í fangið, með öðrum orðum, reksturinn sem sneri að þessum strengjum var ríkisvæddur. Eftir stendur eftir að búið er að hagræða hjá fyrirtækinu og íslenska ríkið er komið með puttana þar inn. Íslenska ríkið er með 28% í A- og B-hlutum fyrirtækisins, Landsvirkjun með 26,69 í A- og B-hlutum, Arion banki með 43,4% í B-hlutum og Landsbankinn er með 1,05%. En þegar tekið er tillit til mismunandi atkvæðavægis milli A- og B-hlutabréfa skiptist það þannig að íslenska ríkið og Landsvirkjun fara með yfir 80% eignarhalds í fyrirtækinu en Arion banki með tæp 20%.

Ég spurði fjármálaráðherra 9. júní 2011 út í ríkisábyrgðina sem er á sæstrengjunum og hvort afskrifa hefði þurft skuldir vegna þeirra þarna á þessu árabili. Svarið var á þessa leið, frú forseti, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgð er á hluta þeirra verðtryggðu langtímalána Farice ehf. sem til var stofnað vegna lagningar Farice og Danice sæstrengjanna. Alls nema verðtryggðar skuldir með ríkisábyrgð 7 milljörðum kr. en heildarskuldir félagsins voru um 9,3 milljarðar. Í viðskiptaáætlun fyrir lagningu Danice sæstrengsins var gert ráð fyrir að gagnaver mynduðu kjölfestuna í tekjum af þeirri fjárfestingu.“

Það voru því aldrei neinar forsendur fyrir því að fara í Danice sæstrenginn en pólitíkin hagaði því svo til á þessu tímabili, árabili, að viðvörunarorð voru látin sem vind um eyrun þjóta og farið var af stað í þessu jafnvel þótt vitað væri að þetta færi svona.

Fyrir nokkrum dögum barst minnisblað frá fjármálaráðherra til fjárlaganefndar þar sem farið var fram á að virkja þessa ríkisábyrgð sem ríkið lofaði skömmu eftir hrun, sem er mjög alvarlegur hlutur, sérstaklega í ljósi þess að þarna er um fjármálafyrirtæki að ræða með eignarhald sem ætti nú að bera einhverja ábyrgð. Nú þegar vantar inn í reksturinn um 250 milljónir, en búið er að gera samning við fjármálaráðherra um að greiddar verði 350 milljónir af fjáraukalögum. Sú beiðni kom eins og þruma úr heiðskíru lofti í fjárlaganefnd því að allir héldu að allt væri í himnalagi með þennan rekstur, en nú skal þetta tekið af fjáraukalögum. Er samningurinn til fimm ára og er ekki vitað hversu mikið ríkið þarf að borga út í tengslum við hann.

Mig langar því til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver var ástæða ríkisábyrgðar Danice á sínum tíma og hvers vegna var það sameinað Farice svo eftirminnilega í eitt fyrirtæki þegar endurskipulagningin fór fram? Hvers vegna veitti ríkið víkjandi lán og hvers vegna er búið að virkja ríkisábyrgðina með þessum gjörningi? Hvað finnst hæstv. fjármálaráðherra um að fyrirhuguð er (Forseti hringir.) mikil samkeppni á gagnaleiðaramarkaðnum þegar Emerald Network kemur með gagnaflutningastreng til landsins jafnvel í sumar og ekki seinna en næsta vor, sem veldur þá algjöru tapi fyrir ríkið?



[15:40]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2007 var tekin ákvörðun um að leggja nýjan sæstreng til Íslands, annars vegar til að tryggja öryggi fjarskiptatenginga við umheiminn með hringtengingu við Farice 1 sæstrenginn, meðal annars í ljósi óvissu um þjónustu varðandi Cantat strenginn og hins vegar með því að opna ný tækifæri í gagnaversiðnaði. Þessir nýi strengur liggur til Esbjerg í Danmörku og hlaut því nafnið Danice. Eignarhaldsfélagið Farice ehf. tók að sér lagningu þessa nýja strengs og rekstur hans með íslensku eigendum Farice hf. sem hluthafa ásamt nokkrum íslenskum orkufyrirtækjum. Íslenska ríkið átti 32,1% af hlutafé félagsins. Þetta félag var eigandi um 80% alls hlutafjár í Farice ehf., en um 20% voru í eigu Færeyinga. Byrjað var að leggja strenginn 2008 og var hann tekinn í notkun síðla sumars 2009.

Upphafleg fjárfesting í Danice strengnum var áætluð 71 milljón evra og var samningi við gagnaversfyrirtækið Verne ætlað að standa mest undir henni. Þegar til kom reyndist fjárfestingin 20% hærri, meðal annars vegna tæknilegra vandamála við lagningu strengsins og kostnaðar við skammtímafjármögnun og var skuldastaðan komin í 115 milljónir evra. Í kjölfar falls fjármálakerfisins átti félagið í erfiðleikum með að tryggja langtímafjármögnun. Ekki reyndist unnt að fjármagna strenginn á erlendum mörkuðum meðal annars vegna hrunsins og gjaldeyrishafta. Þurfti því félagið að fjármagna strenginn á innlendum markaði, sem á endanum fékkst ekki öðruvísi en með því að ríkið veitti ábyrgð á lánunum. Ljóst var seinni hluta ársins 2009 að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar þar sem forsendur um uppbyggingu gagnavera höfðu ekki gengið eftir. Var því ákveðið að leita eftir fjárhagslegri endurskipulagningu sem miðaði að því að létta á skuldum félagsins og auka eigið fé þess þannig að það yrði rekstrarhæft. Auk þess var eldra hlutafé félagsins fært niður. Á meðan á endurskipulagningu félagsins stóð þurfti að greiða afborganir af láni sem ríkið stóð í ábyrgð fyrir. Var því ákveðið að verja hagsmuni ríkissjóðs með því að veita félaginu skammtímalán svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar. Það lán var síðan greitt upp þegar nýtt hlutafé kom inn.

Lánum félagsins var skipt í tvo flokka og var ótryggðum lánum breytt í hlutafé, en ríkissjóður var í ábyrgð fyrir nær öllum þeim skuldum sem ekki hefur verið breytt í hlutafé með þeim hætti. Samhliða því juku ríkissjóður og Landsvirkjun hlutafé sitt og var endursamið við birgja.

Við þá endurskipulagningu var meðal annars byggt á hófsömum áætlunum gagnaveranna sjálfa um vöxt í flutningsþörf. Mikilvægur hluti þessarar endurskipulagningar var einnig sameining eignarhaldsfélagsins Farice ehf. og Farice hf. í eitt félag. Það var gert til að ná fram rekstrarlegri hagræðingu með því að tengja saman rekstur strengjanna tveggja, sem eykur öryggi gagnaflutninga til og frá Íslandi.

Við sameininguna fóru aðrir hluthafar, þar með talið þeir færeysku, út úr félaginu. Endurskipulagning félagsins tók mun lengri tíma en ætlað var og lauk í byrjun árs 2011. Fljótlega var ljóst að tekjur af gagnaverum mundu ekki skila sér eins og gert hafði verið ráð fyrir í forsendum fyrir endurskipulagningunni. Skýringu þess er fyrst og fremst að leita í ytri aðstæðum og versnandi stöðu efnahagsmála utan Íslands, sem og náttúruhamfara sem töfðu uppbyggingu gagnavera. Hluti af vandamálinu er að í kjölfar hrunsins var samið við innlendu fjarskiptafyrirtækin um að koma til móts við þau varðandi verðlagningu og hefur raunvirði þeirra lækkað um 40% frá árinu 2009. Vonast var eftir því að hægt yrði að semja við þau um að þessi lækkun mundi ganga til baka að hluta, en nú er ljóst að ekki næst að leiðrétta það fyrr en samningar við þau losna í október næstkomandi.

Félagið hefur leitað allra mögulegra leiða til að takast á við lausafjárvanda þess en þær leiðir hafa verið mjög takmarkaðar. Hluti af endurskipulagningu og skilmálar í lánasamningum gera það að verkum að félagið getur ekki skuldsett sig frekar og ríkið getur ekki komið inn með meira hlutafé eða lánað félaginu í ljósi ríkisstyrkjareglna og skilyrða ESA. Á fundi ríkisstjórnar þann 11. apríl var farið yfir málefni Farice ehf. og samþykkt að heimila undirskrift þjónustusamnings til fimm ára ásamt því að samþykkja stuðning við fjármögnun hans.

Í ár er gert ráð fyrir að félagið þurfi 355 millj. kr. í þjónustutekjur, en varfærnar áætlanir gera svo ráð fyrir minni þörf fyrir þessar tekjur á næsta ári og að rekstur félagsins verði sjálfbær á næstu þremur árum. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins með þeim hætti sem gert var og vonast er til þess að þörf félagsins fyrir þennan stuðning ríkisins verði sem minnst á næstu árum og að áframhaldandi uppbygging gagnavera tryggi þær tekjur sem þarf til að standa undir fjárfestingunum.

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi hélt því fram að ríkisábyrgðin hefði verið virkjuð en svo (Forseti hringir.) er ekki.



[15:46]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að allir séu sammála um að það sé afskaplega mikilvægt að hafa örugg og góð fjarskipti milli Íslands og annarra landa og til þess var farið í þessa gerð. Það er hins vegar rétt, sérstaklega í ljósi þess hvernig mál hafa þróast, að skoða það og ég hvet hv. fjárlaganefnd til að fara yfir aðdragandann að þessu máli. Þegar menn fóru þessa leið höfðu aðrir aðilar áhuga á því að fara aðra leið sem þeir töldu ódýrari og yki jafnframt möguleika á hraðari gagnaflutningum til stærsta markaðssvæðisins, til Bandaríkjanna.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt þegar menn fara yfir, sem menn hljóta að gera, allar þær forsendur sem nauðsynlegt er að fara yfir áður en menn setja háar fjárhæðir úr ríkissjóði í slíkt verkefni að fara yfir hvort hér hafi verið rétt að málum staðið og menn gert þetta eins skynsamlega og mögulegt var. Sömuleiðis þarf að fara yfir málflutning þeirra sem vildu fara aðra leið. Það var í það minnsta einn aðili og jafnvel fleiri sem töldu skynsamlegra og ódýrara að fara aðra leið, bæði í ljósi kostnaðar eins og ég nefndi en ekki síður vegna þess að þeir töldu hag okkar best borgið með því að leggja meiri áherslu á tengingarnar vestan hafs.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fella neina dóma í þessari stuttu umræðu en geri ráð fyrir að hv. fjárlaganefnd taki þetta mál fyrir og skoði þennan þátt sérstaklega.



[15:48]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Tilefni þessarar umræðu, eftir því sem mér skilst, er aðkoma ríkissjóðs að málefnum fyrirtækisins Farice á dögunum sem vitnað var hér til í ræðum málshefjanda og hæstv. fjármálaráðherra. Eins og réttilega hefur komið fram er fyrirtækið í meirihlutaeigu ríkisins, þ.e. með beinum hætti í gegnum Landsvirkjun, og því lá að sjálfsögðu beint við að ríkið kæmi að málum í erfiðleikum fyrirtækisins.

Í fyrirtækinu Farice hefur staðið yfir fjárhagsleg endurskipulagning allt frá árinu 2009 og á árinu 2010 sem í raun má segja að hafi lokið með gerð þess þjónustusamnings sem var gerður milli ríkisins og fyrirtækisins á dögunum. Það hefur verið dálítið villandi umræða í fjölmiðlum um hvað hefði gerst ef ríkið hefði ekki gripið til þess bragðs að leggja fyrirtækinu til fé og gera þjónustusamning við það þannig að það gæti staðið við skuldbindingar sínar. Því hefur jafnvel verið haldið fram að samstundis hefði verið lokað fyrir öll samskipti milli Íslands og umheimsins á þessu sviði en það er fjarri lagi. Það hefði ekki gerst. Tjónið sem hefði fyrst og fremst orðið af þessu, í það minnsta til að byrja með, er fjárhagslegs eðlis, hefði bæði sett fyrirtækið í ákveðið uppnám og ekki síst íslenska ríkið sem ábyrgðaraðila sem hefði þá þurft að taka á sig þær greiðslur sem einn af eigendum fyrirtækisins. Við látum það ekki gerast að greiðslur falli á ríkið sem fyrirtæki í þess eigu getur ekki greitt. Ég ætla að vona að við þingmenn séum allir sammála um það.



[15:50]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Ég held að mjög brýnt sé að taka þetta mál upp í sölum Alþingis. Það er mjög alvarlegt þegar við horfum ítrekað upp á dæmi eins og þetta koma upp í samfélaginu. Þá er gripið til eftiráreddinga.

Það er fróðlegt að skoða sögu þessa máls og aðdragandann að því. Öll fjármögnun og allt skipulag í kringum þetta hefur greinilega verið, vill maður segja, rugl frá upphafi til enda. Annað sem er merkilegt við þetta er að svo virðist sem þessi vitleysa öll, fjármögnunin á bak við þetta, samningarnir o.fl., sé algerlega skuldlaust í eigu þingflokks Samfylkingarinnar. Hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller setti þetta af stað hér rétt fyrir hrun. Þarna dúkkar líka upp nafn Vilhjálms Þorsteinssonar, sem er núverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, sem tengist óbeint inn í þetta.

Það vekur óneitanlega furðu þegar við erum að ræða þetta mál sem Samfylkingin á allt saman skuldlaust, þá fjármögnun á þessum hrunstreng, að ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna skuli síðan ganga í lið með Samfylkingunni við að verja aðdragandann í þessu máli.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við girðum fyrir að svona lagað gerist aftur og aftur með ríkisábyrgðum. Það er ljóst áður en menn fara af stað, ef menn kanna það gaumgæfilega, að svona skuldbindingar munu lenda á ríkissjóði fyrir rest. Við horfum upp á að ríkisstjórnin hefur ekki lært neitt af hruninu, í það minnsta er ótrúlegt að Samfylkingin (Forseti hringir.) og þingflokkur hennar sem talar alltaf um að flokkurinn sé búinn að læra af hruninu skuli ítrekað leggja það sama til og við erum að kljást við afleiðingarnar af hér.



[15:52]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í ljósi orða fyrri ræðumanns vil ég ítreka að ég vona að við séum öll í sama liði þegar kemur að því að tryggja almannahagsmuni. Ástæðan fyrir því að til landsins eru tveir fjarskiptastrengir er sú að það er mjög mikilvægt að hafa tvo strengi til að tryggja fjarskiptaöryggi landsins. Ef annar rofnar höfum við hinn upp á að hlaupa til að tryggja fjarskiptasamband við umheiminn. Það á kannski ekki að þurfa að segja það en ég tel rétt í ljósi umræðunnar að segja það hér.

Á fundi fjárlaganefndar í morgun með fjármálaráðuneyti og formanni stjórnar fyrirtækisins kom fram að eiginfjárstaða Farice ehf. er mjög traust, um 50%, en að rekstrarstaða hafi krafist aðkomu ríkisins vegna breyttra forsendna. Fyrirtækið hefur gert varfærnar áætlanir og mun gera þjónustusamning við ríkið til að treysta rekstrargrundvöll sinn. Það kom jafnframt fram í máli stjórnarformannsins að einn stór aðili sem kæmi í viðskipti við fyrirtækið gæti gjörbreytt rekstrargrundvelli fyrirtækisins til batnaðar.

Það er mjög mikilvægt fyrir hagsmuni almennings og hagsmuni ríkissjóðs að fyrirtækið fjölgi öflugum viðskiptavinum sínum, það mun ekki einungis tryggja góðan rekstur fyrirtækisins heldur jafnframt lægra verð á fjarskiptaþjónustu til notenda á íslenskum markaði.



[15:54]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. fjárlaganefnd að skoða forsögu málsins, þ.e. hvers vegna þessi leið var farin en ekki einhver önnur, og þá er ég kannski fyrst og fremst að hugsa um það sem kom fram á þeim tíma. Á þeim tímapunkti var mögulegt að gera samninga við aðra aðila sem voru að mati sumra mun skynsamlegri og ódýrari kostur. (VigH: Rétt.)

Þegar við förum í framkvæmd eins og þessa þar sem gerðar eru áætlanir um það hverjir munu nýta viðkomandi fjárfestingu hlýtur maður að þurfa að spyrja sig hvers vegna ekki eru lagðar fram einhverjar tryggingar af hálfu þeirra félaga sem ætla sér að nýta hana. Það er forsenda þess að fara út í fjárfestinguna.

Það hefur líka komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að ekki var hægt að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækisins öðruvísi en að fá á það ríkisábyrgð. Ég vil líka gera hér að umtalsefni hvernig þetta mál kemur að þinginu. Kannski er enn og aftur ástæða fyrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því að þegar búið er að setja á ríkisábyrgð er hún orðin virk. Það þýðir ekki að vona að hún muni ekki koma til einhverra hluta vegna.

Hv. fjárlaganefnd er upplýst um það tveimur dögum áður en þarf að greiða þessar 355 millj. kr. út úr ríkissjóði að þetta sé í vændum. Það eru algerlega óþolandi vinnubrögð að menn hafi ekki betri og meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast. Það þarf líka að skoða sérstaklega hvenær þetta kemur fram og stjórnvöldum er kunnugt um að þetta gæti hugsanlega orðið. Það getur ekki gerst í sumu vikunni að menn geri sér grein fyrir því að nú þurfi að fara að gera samning um 355 millj. kr. án þess að það hafi einhvern aðdraganda. Það getur ekki (Forseti hringir.) verið.



[15:56]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er samfylkingarblekking að það hafi verið nauðsynlegt að gera þetta því að eins (Gripið fram í.) og fram hefur komið í ræðum þingmanna var Danice ekki eini kosturinn til að tengja okkur við umheiminn. Hér voru aðrir möguleikar. Það varð hins vegar þannig að Farice fór í einkaframkvæmd með einkaaðilum og lagði Danice sæstrenginn sem nú er kominn í fang ríkisins með því að sameina þetta í eitt félag. Nú heitir það að það séu almannahagsmunir Íslendinga að ríkið sé komið með þetta í fangið. Þetta er fullkomlega óeðlilegt vegna þess að nú nema verðtryggðar skuldir með ríkisábyrgð 7 milljörðum kr. en heildarskuldir félagsins eru um 9,3 milljarðar kr.

Það skal og á það bent að lífeyrissjóðirnir eiga hlutafé þarna inni þannig að það var búið að blanda lífeyrissjóðunum inn í þessa einkaframkvæmd á sínum tíma. Á hvað minnir þetta okkur? Jú, t.d. þá kröfu að lífeyrissjóðirnir komi að byggingu Landspítalans. Þarna erum við með fyrir framan okkur akkúrat dæmi um einkaframkvæmd sem misheppnaðist vegna þess að tapið var ríkisvætt og þegar hlutirnir gengu ekki upp mátti ríkið hirða restirnar og skuldirnar.

Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að ekki væri verið að virkja ríkisábyrgð með þessari 350 millj. kr. greiðslu inn í fyrirtækið nú. Það er víst verið að virkja ríkisábyrgðina vegna þess að ríkið er að koma þessu fyrirtæki til hjálpar með peningagreiðslum. Það verður svo næstu fjögur árin því að það er búið að búa til hinn svokallaða þjónustusamning við fyrirtækið. EES bannar nefnilega frekari ríkisaðstoð við fyrirtækið.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í lokin: Óttast hæstv. fjármálaráðherra það ekki (Forseti hringir.) að ríkið sitji uppi með þennan sæstreng sem hefur verðlagt sig út af markaði út frá þjónustu þegar nýr strengur kemur til landsins eins og ég fór yfir (Forseti hringir.) áðan? Hingað getur komið strengur sem hefur verið kallaður Emerald Network.



[15:59]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Farice hf. var stofnað árið 2002 til að leggja og reka Farice 1 sæstrenginn sem liggur milli Íslands, Færeyja og Skotlands og var í sameiginlegri eigu íslenskra og færeyskra aðila, þar með talið íslenska ríkisins. Íslenska ríkið hefur alltaf verið stór hluti félagsins og ég bendi hv. þingmönnum Framsóknarflokksins á að aðrir en Samfylkingin voru í ríkisstjórn þegar þetta ævintýri (VigH: …ráðherra.) fór allt af stað. Ísland byggir nútíð sína sem og framtíð á upplýsingatækni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur og hagkerfi okkar að hafa öruggar tengingar við umheiminn. Það væri mikil áhætta tekin ef landið yrði sambandslaust. Þar eru hagsmunir almennings undir, en þar er einnig undir hlutverk strengsins við að draga að nýja atvinnustarfsemi. Við þurfum ekki aðeins að tryggja samband í gegnum strenginn til Skotlands og Danmerkur, heldur einnig þaðan og áfram. Það er einmitt Evrópa sem er stóra markaðssvæðið fyrir Ísland.

Rekstrarfé vantaði og þjónustusamningurinn gengur út á að sinna lágmarkshagsmunum almennings. Þegar tekjur aukast minnkar framlag til þjónustusamningsins. Ríkisábyrgð er ekki virkjuð nema lánið falli á ríkið. Núna er aðeins verið að nýta brot af flutningsgetu og því minnka tekjumöguleikar án mikilla fjárfestinga.

Emerald strengurinn sem hv. þingmenn hafa nefnt í umræðunni er algjörlega framtak einkaaðila. Ef hann kemur er það eitt og sér fagnaðarefni fyrir fjarskiptaöryggi Íslands. Ljóst má þó vera að hann yrði eingöngu lagður af þeim aðilum sem tekst að tryggja örugga notkun hans, t.d. með nýjum gagnaverum, og slík (Forseti hringir.) gagnaver yrðu að öllum líkindum einnig viðskiptavinir Farice rekstraröryggisins vegna.