140. löggjafarþing — 90. fundur
 27. apríl 2012.
hlutafélög, 1. umræða.
stjfrv., 703. mál (opinber hlutafélög, EES-reglur o.fl.). — Þskj. 1136.

[18:20]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, og varðar þann hluta hlutafélagalagabálksins sem tengist opinberum hlutafélögum.

Í þessu frumvarpi sem samið er í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er lagt til, að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið, að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laga um hlutafélög er varða opinber hlutafélög. Jafnframt er gert ráð fyrir breytingu á ákvæðum um dagskrá og tillögur í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Þótt sett hafi verið í lög ákvæði um opinber hlutafélög í þeim tilgangi að einfalda rekstur slíkra félaga og gefa ríki og sveitarfélögum færi á að stunda rekstur á samkeppnisgrundvelli er mikilvægt að opinber hlutafélög séu gagnsærri en gengur og gerist um hlutafélög í einkaeigu og feti meðalveg milli þess að vera annars vegar opinber stofnun, sem fer meðal annars eftir stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, og hins vegar almennt hlutafélag. Er gert ráð fyrir að unnt sé að ná þessum markmiðum með því að láta slík félög fara að reglum um eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga gagnvart hverju opinberu hlutafélagi fyrir sig. Þá er gert ráð fyrir ákvæðum til að tryggja upplýsingaflæði í þessum félögum, m.a. með því að veita fulltrúum starfsmanna félagsins, sem um ræðir, rétt til að sækja aðalfund félagsins. Þeir fá jafnframt rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir á fundinum eins og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga og þar með möguleika til að hafa enn frekari áhrif á starfsumhverfi sitt. Þá er gert ráð fyrir aðgangi þeirra að fundargerðabók aðalfundar eða staðfestu endurriti fundargerðar aðalfundar.

Ákvæði 3. gr. frumvarpsins um dagskrá og tillögur í hlutafélögum, þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, felur í sér breytingu á innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB frá 11. júlí 2007 um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum. Eru gildandi ákvæði ekki talin nægilega skýr hvað tímafresti snertir. Breytingarnar taka aðeins til aðalfunda í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, muni ekki hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Ég legg svo til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[18:23]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er svo sem ekki stórt mál, í það minnsta ekki í blaðsíðum, og virðist ekki vera stórt mál heldur þegar kemur að efnislegum þáttum. Það virðist sem fyrst og fremst sé um það að ræða að það sé lögbundið að slík félög þurfi að starfa samkvæmt eigendastefnu.

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna — og gott væri að fá sjónarmið hæstv. ráðherra á því: Er það svo að þessi félög séu eitthvað óbundin í því að fara að eigendastefnu eigenda sinna? Það er svolítið sérstakt ef við höfum verið að setja upp opinber hlutafélög og þau séu bara algjörlega óbundin af því hvaða stefnu eigandinn, sem er hið opinbera, annaðhvort ríkið eða sveitarfélög, hefur í málefnum fyrirtækjanna. Ég verð að viðurkenna að mér fyndist áhugavert að vita hvort við séum núna með opinber hlutafélög sem væru eins og fullkomið eyland, og stjórnendur þess fyrirtækis gerðu bara nákvæmlega það sem þeim dytti í hug og kæmi ekkert við hvað kjörin stjórnvöld vildu eða hvaða stefnu viðkomandi fyrirtæki hefði. Mér finnst þetta ótrúlegt og vil inna hæstv. ráðherra eftir því og heyra hvaða áhrif þetta hefur.

Hefur eitthvað verið um það að opinber hlutafélög hafi farið á allt annan stað eða gert einhverja allt aðra hluti en til dæmis núverandi stjórnvöld hafa viljað? Annaðhvort erum við að setja hér lög sem eru fullkominn óþarfi eða menn eru að taka á einhverju sem hefur væntanlega komið upp. Ég held að það væri mjög fróðlegt að heyra hjá hæstv. ráðherra af hverju þessi lagasetning er til komin, sérstaklega varðandi eigendastefnuþáttinn.

Síðan er hitt, að fulltrúar starfsmanna hafa sama rétt og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga til að bera fram skriflega fyrirspurnir á aðalfundum. Þetta virðist sömuleiðis kannski ekki vera mikið eða stórt mál. Eftir því sem ég best veit geta fjölmiðlar mætt á þessa aðalfundi. Maður mundi því ætla að þetta væru ansi opnir fundir og ættu að vera þess eðlis að meiri upplýsingar kæmu frá þeim en flestum öðrum. Ég velti því svona fyrir mér í öllum þeim önnum sem eru núna hjá stjórnkerfinu af margvíslegum ástæðum.

Mig rekur minni til þess að menn hafi talið að efnahags- og viðskiptaráðuneytið væri mjög vanmannað, þess vegna væri verið að skella því inn í önnur ráðuneyti með stjórnarráðsbreytingum. Í það minnsta minnist ég þess að hafa séð eitthvað um slíkt þótt ekki væri mikið um röksemdir. Þær voru helstar að það gæti ekki sinnt hlutverki sínu sökum fámennis og ráðuneytið væri mjög illa burðugt til að takast á við þau verkefni sem til var ætlast af því. Yfir það hefur verið farið í mörgum ræðum hér í þinginu, viðtölum og annars staðar. Það kemur því á óvart að sjá síðan þetta frumvarp ef það á að vera svona, og ég ætla hæstv. ráðherra ekki neitt annað og af því sem kemur fram í umsögnum og athugasemdum en að þetta sé bara nákvæmlega svona. Maður veltir fyrir sér hver sé hin knýjandi þörf að setja það í forgang að lögfesta það að opinber hlutafélög þurfi að fylgja eftir stefnu eigenda og koma með lagafrumvarp um að fulltrúi starfsmanna geti komið fram með skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum.

Mér finnst þetta vera svolítið áhugavert. Látum vera ef menn hefðu komið hér og sagt að komið hefði í ljós að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefði svo lítið að gera að það þyrfti að leita að einhverjum verkefnum. En það eru ekki þau skilaboð sem við höfum fengið fram til þessa.

Ég vil því inna hæstv. ráðherra eftir því hvort þetta sé ekki réttur skilningur sem kemur fram í athugasemdum og kom svo sem fram í ræðu hans áðan. Í fyrsta lagi hvort það sé þannig að þetta sé vandamál. Er það vandamál að opinber hlutafélög eru ekki að fara eftir stefnu eigenda, hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum? Í öðru lagi væri kannski gott að fá að vita í hvaða tilvikum það væri — varla eru menn að fara í þetta til að koma með þá breytingu að fulltrúi starfsmanna geti borið fram skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum, með fullri virðingu fyrir því máli.



[18:29]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ekki stórvægilegt mál og farast ekki himinn og jörð hvort þessi ákvæði verði lögfest fyrr eða síðar, en væri kannski fróðlegt að vita þá á móti hvort hv. þingmaður telji þetta ekki til bóta.

Varðandi eigendastefnuna er staða þess máls, ef ég þekki það rétt sem ég held að ég geri, að mótuð var eigendastefna um fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins, gefin út formlega. Sú eigendastefna hefur stoð í lögum um Bankasýslu ríkisins sem fer með eignarhaldið. Jafnframt var boðað að samhliða og í framhaldinu yrði unnið að mótun almennrar eigendastefnu sem tæki til allra fyrirtækja í eigu ríkisins. Sú stefna hefur verið í vinnslu og er til í drögum, en hefur í sjálfu sér ekki lagastoð í hlutafélagalögum með ákvæðum um opinber hlutafélög og þykir meðal annars ástæða til að setja þetta inn í þann kafla laganna sem fjallar um opinber hlutafélög, að það sé fortakslaust og skýrt að þessi kvöð hvíli á opinberum hlutafélögum vegna þess að þau falla undir hlutafélagalög að öðru leyti þar sem ekki er vikið að slíkum hlutum.

Mótun eigendastefnu er tiltölulega nýtt fyrirbæri hér. Eins og hv. þingmaður ugglaust veit var hún ekki við lýði og ekki til fyrr en á dögum núverandi ríkisstjórnar og þá með því að byrjað var að móta hana hvað varðar eignarhald í fjármálafyrirtækjum.

Að hinu leytinu eru þau ákvæði um að styrkja stöðu starfsmanna og gefa þeim formlegri stöðu á fundum, væntanlega breytir það ekki miklu ef vel er tekið í það á slíkum fundum og þannig að þeim staðið að starfsmönnum er greiður aðgangur að fundinum og upplýsingum. En það sakar ekki að hafa það formlegt og hafa það sem skyldu að umgangast af tilhlýðilegri virðingu rétt starfsmanna til þess að fá upplýsingar á þeim vettvangi um það fyrirtæki sem þeir starfa hjá.



[18:31]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma og veita ágætisandsvar við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Hann fór yfir það að í sjálfu sér er engin þörf á þessu varðandi starfsmennina vegna þess að þeir hafa greiðan aðgang núna. En hæstv. ráðherra nefndi það að opinberu hlutafélögin séu að stærstum hluta undir hlutafélagalögum og eftir því sem ég best veit hefur ekki verið neinn vafi á að hlutafélögum er stjórnað af eigendum og eðli máls samkvæmt verða þau félög eða stjórnir og stjórnendur þeirra félaga að fara að vilja eigenda.

Ég er því enn ekki alveg búinn að átta mig á því af hverju við erum að gera þetta og spurði hæstv. ráðherra — hann hefur kannski ekki tekið eftir því, hann mundi kannski svara því í öðru andsvari — hvort einhver dæmi væru þess að opinber hlutafélög hafi ekki farið að vilja eða stefnu eigenda sinna eða fulltrúa eigenda sinna skulum við segja, þ.e. stjórnvalda. Ég mundi ætla að ef slíkt hefði komið upp væri kannski þörf á þessu. En eru einhver dæmi um það? Hæstv. ráðherra mundi kannski upplýsa okkur um það. Er það tilefni þessa frumvarps eða eitthvað annað? Ef menn eru að vísa í hlutafélagalögin mundi maður ætla að það væri þá ekki neitt vandamál. Þó svo að ekki hafi verið gerð eigendastefna áður þá breytir það því ekki að þetta er mótað af stefnu stjórnvalda. Gott væri að fá að vita af því hvort einhver dæmi séu þess að það hafi verið vandamál að stjórnendur opinberra hlutafélaga hafi ekki farið að vilja (Forseti hringir.) stjórnvalda.



[18:33]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði svo sem ekki að engin þörf væri á því að setja inn þessi ákvæði um réttarstöðu starfsmanna á aðalfundum. Ég sagði hins vegar að í þeim tilvikum þar sem það væri tryggt, án þess að um það væri lagaboð, þá væri það hið æskilega. En það er ekki trygging fyrir því að svo sé alls staðar. Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar að rétt sé að ganga frá þessu með þessum hætti og hafa þetta fortakslaust og væri reyndar ef út í það væri farið tilbúinn til þess að ganga lengra í þá átt að tryggja betur starfsmannalýðræði.

Varðandi opinber hlutafélög og afstöðu, vilja eða stefnu eigenda þeirra þá þekki ég svo sem ekki dæmi þess að ákvarðanir aðalfunda þar sem eigandinn mætir sem slíkur hafi ekki verið virtar, en eigendastefnu er ætlað meira hlutverk en það. Hún gildir og bindur hendur stjórnenda og þeim ber að fara eftir henni, bæði framkvæmdastjórum og stjórnum slíkra félaga ef þær eru til staðar í daglegum rekstri þeirra og leggur þeim ákveðnar skyldur á herðar, svo sem eins og upplýsingagjöf, á sviði jafnréttismála, varðandi kjaramál, hófsemi í kjaramálum, umhverfismálum eða hvað það nú er. Henni er ætlað setja tiltekinn ramma, skýran, sem stjórnendur eiga að taka mið af í störfum sínum árið um kring en ekki bara í sjálfu sér að koma fram sem einskiptisvilji eigandans eins og gerist þegar eigandinn mætir á aðalfund. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.



[18:35]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt hefur þetta ekki verið vandamál. Það hefur ekki komið upp að opinberu hlutafélögin hafi farið gegn vilja eða stefnu eigenda.

Varðandi eigendastefnuna hefur það hins vegar komið upp, og við þekkjum dæmi þess, að eftir að hún kom fram hefur samt sem áður ekki verið farið eftir eigendastefnunni, það hefur nú ekki verið vilji stjórnvalda þó að það hafi verið tekið upp á vettvangi þingsins að fylgja henni eftir þegar slíkt hefur komið upp.

Mig minnir að slíkt hafi komið upp í kringum Vestia-málið svokallaða, við erum enn á þeim stað að vita ekki á hvaða verði þau fyrirtæki voru seld á sínum tíma, eins og hæstv. ráðherra þekkir mjög vel og við tókum mikla umræðu um það á sínum tíma þrátt fyrir að þetta væri allt saman skýrt í eigendastefnunni hvernig ætti að standa að þeim hlutum.

Ég veit því ekki alveg til hvers við erum að fara í þessa vegferð því að ekki virðast vera nein dæmi um að þörf sé á þessum lögum.

Hæstv. ráðherra nefndi að greiður aðgangur hafi verið fyrir starfsmenn á aðalfundina, það hafi ekki verið vandi. Og að ekki hafi komið upp nein mál sem kalli á það að við mundum breyta lögunum með þessum hætti hvað varðar það að ekki væri fylgt eftir stefnu eigenda. Miðað við hvað við höfum verið að ræða hér um mikilvæg málefni, forgangsröðun og annað slíkt er ég enn svolítið hugsi yfir því af hverju við erum að fara (Forseti hringir.) í það að klára þetta mál núna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.