140. löggjafarþing — 90. fundur
 27. apríl 2012.
eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, 1. umræða.
stjfrv., 660. mál (framleiðsla og dreifing áburðar o.fl.). — Þskj. 1060.

[18:54]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lögum nr. 22/1994. Mál þetta er á þskj. 1060, 660. mál.

Frumvarpið er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í samráði við Matvælastofnun, en sú stofnun sinnir fóður-, áburðar- og sáðvörueftirliti samkvæmt lögunum.

Með frumvarpinu er lagt til að lagaheimildir Matvælastofnunar vegna eftirlits með áburði verði styrktar og þær gerðar skýrar og ótvíræðar. Við lögin bætist nýr kafli með fimm nýjum ákvæðum um áburð.

Gert er ráð fyrir skýrri lagaheimild fyrir Matvælastofnun til að krefja áburðarfyrirtæki um vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar. Lagt er til að tekið verði upp nýtt ákvæði í lögin sem geri ráð fyrir skýrri heimild fyrir Matvælastofnun til að afskrá áburð vegna breytinga á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðarins.

Kveðið er skýrt á um að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á tilkynningu til Matvælastofnunar ef áburður samræmist ekki kröfum um efnainnihald, eiginleika áburðarins eða öryggi. Stjórnandinn skal gera ráðstafanir til úrbóta og ef áburðurinn telst ekki öruggur til notkunar skal hann taka umræddan áburð af markaði. Samkvæmt ákvæðinu telst áburður ekki öruggur ef notkun hans getur haft áhrif á heilbrigði dýra eða plantna eða orðið þess valdandi að matjurtir eða dýraafurðir verði óhæfar til manneldis. Stjórnandinn skal jafnframt, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem hafa þegar verið afhentar.

Í frumvarpinu er áréttað að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma og hann skuli sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.

Í frumvarpinu er það nýmæli að áburðareftirlit skuli meðal annars byggjast á áhættugreiningu. Skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna.

Varðandi önnur ákvæði frumvarpsins er jafnframt lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á ákvæðum laganna um fóður-, áburðar- eða sáðvörueftirlit. Þannig er lagt til í frumvarpinu að Matvælastofnun sé heimilt að framselja ákveðin verkefni sem nú eru á verksviði Matvælastofnunar til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Sambærilegt ákvæði um framsal er í lögum um matvæli.

Í frumvarpinu er kveðið skýrt á um að þau fóðurfyrirtæki sem framleiða lyfjablandað fóður skuli hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Núverandi starfsemi hérlendra fóðurfyrirtækja hefur ekki falið í sér þess háttar starfsemi, en þó er nauðsynlegt að gera ráð fyrir að slík starfsemi verði stunduð hérlendis.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að við lögin bætist ein ný málsgrein þar sem áréttuð er ábyrgð fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu. Jafnframt er kveðið skýrt á um upplýsingaskyldu fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis vegna skráningar vörunnar. Lagt er til að fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við sýnatöku, rannsóknir og greiningu á fóðri tilkynni Matvælastofnun ef í umhverfissýnum, sem tekin eru í eða við fóðurfyrirtæki, greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum. Í gildandi ákvæði laganna er einungis kveðið á um fóðursýni en ekki umhverfissýni.

Lögð er til breyting á efnisákvæðum laganna um þvingunarúrræði Matvælastofnunar. Ákvæðið er þannig gert skýrara og tekin af öll tvímæli um heimildir Matvælastofnunar til að afskrá vöru, stöðva inn- og útflutning vöru og innkalla vöru af markaði svo dæmi séu tekin.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að Matvælastofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum laganna. Slík ákvæði eru nú í ýmsum lögum og því eðlilegt að Matvælastofnun fái slíkar heimildir með sama hætti og aðrir eftirlitsaðilar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ákvæði um refsiviðurlög verð gerð skýrari og samræmd sambærilegum ákvæðum í öðrum lögum. Þannig eru tiltekin brot gegn ákvæðum laganna lýst refsiverð og er sú háttsemi tilgreind sérstaklega. Gert er ráð fyrir því að aðeins alvarlegustu brot á lögunum verði gerð refsiverð.

Frú forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum þessa frumvarps sem ég tel að sé allt til bóta og styrki framkvæmd á þessu sviði og er ekki að neita að tengist ákveðnu gefnu tilefni.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.



[18:59]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að kynna þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er sjálfsagt ástæðan fyrir því að þetta kemur fram núna hið margfræga kadmíummál og hér er verið að styrkja eftirlitið og möguleika Matvælastofnunar á því að á fylgja eftir eftirliti sínu á þessu sviði.

Það er rétt að fram komi í þessari umræðu að kadmíuminnihald í áburði á Íslandi er mjög lágt. Sett var sérstakt ákvæði þar að lútandi, ef ég man rétt, í tíð þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar. Var það meðal annars gert til að tryggja hreinleika afurða á Íslandi til frambúðar, hreinleika matvæla, og eins til að tryggja að kadmíum safnaðist ekki upp í náttúrunni. Ísland er eldfjallaland og ýmis aukefni sem koma fram í eldgosajarðvegi hafa gert það að verkum að við verðum að fara varlega með ýmis aukefni sem er ekki að finna í jarðvegi í til að mynda Vestur-Evrópu þar sem er allt önnur samsetning á jarðvegi.

Það verður líka að segjast eins og er að því miður hafa komið upp nokkur tilvik í stjórnsýslunni á liðnum missirum þar sem að því er virðist annaðhvort hefur skort lagastoð eða ekki hefur verið komið inn í regluverk eftirlitsstofnananna ákveðið vinnulag til að fylgja eftir, en hér er komið frumvarp sem tryggir eftirlit með áburði eins og hér stendur, með leyfi forseta:

„Magn af kadmíum í ólífrænum áburði, sem inniheldur fosfór, má ekki fara yfir 50 mg kadmíum (Cd) pr. kg fosfór (P) (eða 22 mg Cd pr. kg P2O5). Sama gildir um ólífrænan áburð í blöndum.“

Samkvæmt því sem hér kemur fram og núgildandi lögum er allur áburður sem fluttur er til landsins skráður hjá Matvælastofnun og jafngildir slík skráning leyfi til markaðssetningar hér á landi eins og fram hefur komið. Það sem hefur skort á er að Matvælastofnun geti fengið að vita fyrir fram hvaða áburður hefur verið tekinn. Síðan hefur verið gerð sýnataka á þeim áburði sem hefur verið kominn til landsins og í því tilfelli þar sem kadmíum var í yfirmagni í áburðinum var hann kominn til landsins síðasta vor. Það var mat Matvælastofnunar að meira tjón hlytist af því að senda þann áburð úr landi aftur, það var kalt vor eins og við munum og því ekki skynsamlegt að senda áburðinn úr landi á þeim tíma. Það tekur jú tíma að koma áburði aftur til landsins og mikilvægt að bændur gætu fengið þessa vöru. Lagt var mat á áhættuna sem væri fólgin í því að nýta þennan áburð og það áhættumat hjá Matvælastofnun leiddi til þess að menn leyfðu að áburðurinn yrði nýttur. Ég held, og hef tjáð mig um það bæði í þessum ræðustól og annars staðar, að það áhættumat hafi verið rétt, ég tel að áhættan hafi verið hverfandi og mikilvægara að nýta áburðinn.

Hins vegar má gagnrýna stofnunina harðlega fyrir að hafa ekki upplýst neytendur um þetta og notendur vörunnar því að í einhverjum tilvikum hefðu menn getað fengið annan áburð og auðvitað líka hvað varðar samkeppni því að einhver önnur innflutningsfyrirtæki með áburð voru með vöru sem stóðst þessa prufu, þ.e. með innihald undir 10 mg af kadmíum.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er einnig lagt til að gerðar séu nokkrar aðrar breytingar að því er varðar fóðurfyrirtæki, það snýst meðal annars um skráningu fóðurs, áburðar og sáðvöru, og það má segja að frumvarpið snúist um að hægt sé að fá þessar vörulýsingar og prufur gerðar áður en varan er komin til landsins.

Í C-kafla frumvarpsins er fjallað um áhrif frumvarpsins varðandi ákvæði um áburð. Ég held að þetta sé hið besta mál og muni leiða til betri stjórnsýslu á þessu sviði. Eins er varðandi ákvæðið um fóður þar sem er ákveðið ákvæði um framsal á fóðureftirliti. Ég held að þetta sé, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, einnig jákvætt ákvæði og það sama má segja um hitt.

Auðvitað munum við í atvinnuveganefnd fara yfir þetta mál og fá athugasemdir frá þeim aðilum sem málið varðar en ég get ekki séð við fyrstu sýn að þetta frumvarp per se sé eitthvað sem muni valda sérstökum áföllum eða sé inngrip í þá starfsemi sem við þekkjum í dag. Hins vegar má segja að gefnu þessu tilefni þar sem við erum að ræða hér um starfsemi Matvælastofnunar og eftirlitsstofnana almennt, ríkisstofnana, að þær hafi, sumar hverjar, kannski þurft að taka sig á í ímyndarvinnu, sérstaklega á það við um Matvælastofnun. Það hefur verið talsverður stormur um þá stofnun og ýmsir leitað eftir því að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á stofnuninni vegna ýmissa starfa, og upp á síðkastið hefur sá sem hér stendur fengið ítrekaðar kvartanir, bæði frá bændum og dýralæknum starfandi um landið, um hvernig Matvælastofnun hagi störfum sínum þessa dagana við að framfylgja eftirliti sínu. Kannski er það vegna þess að stofnunin lenti í stormviðri út af kadmíummálinu og iðnaðarsaltinu að hún bregst við af svona mikilli hörku í öðrum málum. Ég held að það sé yfirleitt best að fara fram með hófsemd og skynsemi og hengja ekki bakara fyrir smið og ganga ekki lengra fram í einu verkefni þó að menn hafi klúðrað einhverju á fyrri tíð.

Við í atvinnuveganefnd munum fara vel yfir frumvarpið og ég sé enga sérstaka annmarka á því og sýnist þetta heldur til bóta en hitt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.