140. löggjafarþing — 91. fundur
 30. apríl 2012.
lengd þingfundar.

[15:00]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 10. gr. þingskapa um lengd þingfunda er það tillaga forseta að þingfundur geti staðið lengur í dag en þingsköp kveða á um.

Óskað er eftir atkvæðagreiðslu um tillögu forseta.



[15:01]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við að óskað sé eftir heimild til lengri þingfundar í dag. Hv. þingmenn treysta í einfeldni sinni á þetta plagg sem er starfsáætlun þingsins. Hæstv. forseti hefur ítrekað lagt sig fram um að telja okkur trú um að hún sé það sem unnið er eftir. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að á fundi þingflokksformanna fyrir viku var lögð fram áætlun um þinghald næstu tveggja vikna, þar á meðal dagsins í dag, og það kom ekkert fram um að settur yrði annar fundur að loknum fyrirspurnafundi. Það var tilkynnt með tölvupósti án alls samráðs við okkur þingmenn í stjórnarandstöðunni seint á föstudaginn, ég held að það hafi verið komið fram á kvöld á föstudaginn þegar tilkynnt var um þetta.

Þetta er algerlega óásættanlegt, frú forseti, þar sem allir vita að á mánudögum er fyrirspurnafundur. (Forseti hringir.) Á þeim þingfundi er ekki mætingarskylda, það er eini þingfundurinn þar sem ekki er mætingarskylda. Síðan er frídagur á morgun (Forseti hringir.) og það er vitað að fjölmargir þingmenn hafa gert áætlanir. Ég geri því athugasemd við þetta, frú forseti, (Forseti hringir.) og mér finnast þessi vinnubrögð ólíðandi.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á mörk ræðutíma og biður hv. þingmenn að virða þau tímamörk.)



[15:03]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú eru tvær vikur síðan lýst var eftir því á fundi þingflokksformanna að fram kæmi einhvers konar listi um forgang þingmála. Það bíða ein 50 eða 60 mál frá ríkisstjórninni meðferðar. Sá listi hefur ekki enn séð dagsins ljós. Við stefnum með þingið enn einu sinni í sama gamla farið þar sem verður unnið á næturnar, löggjöf verður afgreidd á færibandi og þingmenn hafa að stórum hluta ekki hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja. Þetta eru óboðleg vinnubrögð.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar var rækilega tekið á þessu og hvatt mjög til vandaðra og betri vinnubragða en þau tilmæli hafa einfaldlega verið höfð að engu í þinginu. Þangað til að betra skikki verður komið á afgreiðslu þessara mála mun ég ekki samþykkja svona snöggar breytingar á dagskrá þingsins, með fullri virðingu fyrir þeim þingmálum sem eru á dagskrá og þrátt fyrir þá sannfæringu mína að því fleiri mál sem eru afgreidd því betra. En það er betra að sleppa því að afgreiða þau en að afgreiða þau í einhverju hálfkáki.



[15:04]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að mótmæla því að við höldum seinni fundinn fram á kvöld og nótt. Á föstudaginn þegar þingmenn voru að ljúka störfum og fara til síns heima, lá ekki fyrir að það ætti að vera fundur fram á kvöld. Á dagskrá eru mál sem menn vilja gjarnan taka þátt í umræðunni um. Þetta er ekki þinginu til sóma. Þetta er ekki skynsamleg leið til að leysa þann vanda sem ríkisstjórnin hefur sjálf komið sér í, að koma að málum allt of seint inn í þingið. Það er ekki skynsamlegt að tætast hér áfram á þessum degi. Eins og fram hefur komið er ekki skyldumæting, það er frídagur á morgun og menn hafa skipulagt mál sín og störf sín með ýmsum hætti. Ég óttast að þetta sé enn eitt dæmi um að við munum í lok þessa vorþings vera að reyna að afgreiða hálfunnin mál fram á nætur og afleiðingin verður sú, frú forseti, (Forseti hringir.) að á næsta þingi munum við taka öll þau mál upp aftur, eins og hefur margoft gerst.

Ég mun greiða atkvæði gegn því að þessi heimild verði veitt.



[15:05]
Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kom fram á fundi þingflokksformanna nú í morgun að forseti ákvað að hafa annan fund í dag þar sem aðeins fimm fyrirspurnir lágu fyrir fundinum og mikilvægt er að nýta tíma þingsins á lokasprettinum, enda sjáum við að mörg brýn mál eru á dagskrá seinni fundarins í dag, t.d. svokölluð SMS-lán. Hér erum við að fjalla um atvinnutengda starfsendurhæfingu, réttindagæslu fyrir fatlað fólk, hér eru til umræðu aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi, hér verður fjallað um nauðungarsölu, mál frá efnahags- og viðskiptanefnd sem á að styrkja stöðu skuldara sem og mál frá velferðarnefnd um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Hér eru mörg brýn mál, virðulegi forseti, og tel ég því rétt að hafa fund fram eftir til að koma þeim til nefndar til umfjöllunar á faglegan máta.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:06]

Afbrigði um 4. mgr. 10. gr. þingskapa, um lengd þingfundar,  samþ. með 25:17 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁRJ,  BjörgvS,  GuðbH,  GLG,  HHj,  JóhS,  JRG,  KJak,  LGeir,  MN,  MSch,  MÁ,  OH,  ÓÞ,  RM,  SER,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞBack,  ÖS.
nei:  ÁsbÓ,  BjarnB,  EKG,  GÞÞ,  IllG,  KÞJ,  LMós,  PHB,  REÁ,  RR,  SIJ,  SSS,  SF,  TÞH,  UBK,  ÞKG,  ÞSa.
2 þm. (BirgJ,  MT) greiddu ekki atkv.
19 þm. (AtlG,  ÁJ,  ÁÞS,  ÁsmD,  BÁ,  BVG,  EyH,  GStein,  HuldA,  HöskÞ,  JBjarn,  JónG,  KLM,  LRM,  ÓN,  SDG,  VigH,  ÞrB,  ÖJ) fjarstaddir.