140. löggjafarþing — 91. fundur
 30. apríl 2012.
skýrsla um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

[15:20]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í dag var kynnt skýrsla Stefáns Ólafssonar um umfang kreppunnar og afkomu ólíkra tekjuhópa. Skýrslan er um margt áhugaverð og sérstaklega þær tölur sem þar komu fram. Þó er hægt að deila um túlkun Stefáns á þeim tölum.

Helstu niðurstöður eru þær að ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa lækkuðu um 9% milli áranna 2008 og 2010. Þær lækkuðu um 14% hjá millitekjuhópum og um 38% hjá hinum tekjuhæstu. Í skýrslunni er jafnframt að finna það mat höfundar að jöfnuður hafi aukist á Íslandi. Niðurstaða höfundarins af þessu öllu saman er að umtalsverður árangur hafi náðst í því að milda áhrif hrunsins á lágtekju- og millitekjuhópa á meðan þyngri byrðar hafi verið lagðar á þá tekjuhæstu.

Er hæstv. forsætisráðherra sammála þeirri túlkun Stefán Ólafssonar að árangurinn sé fyrst og fremst ríkisstjórninni að þakka eða er ástæðnanna kannski fremur að leita í því að fjármagnstekjur hrundu, bónusar lækkuðu, yfirvinna hvarf og meðallaun lækkuðu hjá hinum tekjumeiri? Er ánægjan með aukinn jöfnuð þá ef til vill frekar fögnuður yfir áhrifum hrunsins á þá tekjuhærri? Hvað vill hæstv. forsætisráðherra segja um það?



[15:22]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þá gagnmerku skýrslu sem birt var í dag. Hún er um margt mjög athyglisverð og sýnir hvernig ríkisstjórninni hefur tekist með aðgerðum sínum að hlífa tekjulægstu hópunum og fólki með meðaltekjur. Þarna kemur meðal annars fram að sex af hverjum tíu heimilum hafa fengið lægri skattbyrði með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur farið í gegnum. Hún hefur farið í aðgerðir í skattamálum, hún hefur farið í aðgerðir að því er varðar bótakerfið, ekki síst vaxtabætur, og hefur það skilað sér í því að við sjáum að það mikla hrun sem við fórum í gegnum hefur bitnað miklu minna á lágtekjuhópunum og fólki með meðaltekjur en fólki með hærri tekjur.

Hvað er átt við þegar talað er um fólk með hærri tekjur sem búið hefur við 38% skerðingu samkvæmt skýrslunni? Það eru þau 10% þjóðarinnar sem hafa mestar tekjur, ætli við séum ekki að tala þar um tekjur upp á 7 milljónir á mánuði, fyrir utan það að þessi hópur græddi langmest í tíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, hann bar langmest úr býtum. Þó að einhver kjaraskerðing komi nú til þessa hóps er það fullkomlega réttlætanlegt þegar við höfum þá getað hlíft fólki með lágar tekjur og meðaltekjur. Þetta er mjög gagnmerk skýrsla sem við ræðum hér. Við náum til baka þeim ójöfnuði sem myndaðist í tíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, við erum búin að ná ójöfnuðinum niður í það sem hann var 1997 og 1998, en hann var orðinn hrikalega mikill í tíð sjálfstæðismanna. Það er afraksturinn af velferðarstjórninni, stjórn jafnaðarmanna, (Forseti hringir.) hann sýnir sig vel í þessari skýrslu.



[15:25]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hreinskilið svar. Það liggur þá fyrir að ánægjan með aukinn jöfnuð er fögnuður yfir áhrifum hrunsins á hina tekjuhærri.

Mig langar til að vekja athygli á öðru. Fram kemur í skýrslunni að skattbyrði hinna tekjulægstu hafi lækkað frá árinu 2007 og það staðfestir þær niðurstöður sem áður hafa komið fram. Vegna samspils persónufrádráttar og skattþrepa er eðli kerfisins þannig að þegar laun lækka lækkar skattbyrðin. Um það er ekki deilt.

Í skýrslunni er sýnt hvernig laun hafa lækkað hjá hinum tekjulægstu. Er þá ekki eðlileg ályktun að vegna þeirrar lækkunar hafi skattbyrðin lækkað og þar af leiðandi sé alls ekki hægt að rekja þá skattalækkun sem talað er um í skýrslunni (Forseti hringir.) til aðgerða ríkisstjórnarinnar heldur fyrst og fremst til þess að laun hinna tekjuminni hafa lækkað um 9% samkvæmt skýrslunni?



[15:26]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er útúrsnúningur hjá hv. þingmanni að segja við gleðjumst yfir því að orðið hafi mikil kjaraskerðing (TÞH: Þú varst að segja það.) hjá þeim (TÞH: Víst varstu að segja það.) sem hæst hafa launin. (Gripið fram í.) Við segjum að við höfum náð fram jöfnuði og það sem skiptir máli er að verið er að leiðrétta þá kjaraskerðingu og hækkun á sköttum sem fólk varð fyrir í tíð sjálfstæðismanna, við erum að ná henni til baka. Við höfum meðal annars náð því með því að skerða ekki persónuafsláttinn sem frystur var í tíð sjálfstæðismanna, það var nú einu sinni þannig.

Við breyttum fjármagnstekjuskattinum í þá veru að þar var sett ákveðið gólf, 100 þús. kr. gólf fyrir einstaklinga og 200 þús. kr. gólf fyrir hjón, sem hlífir fólki sem á lítinn sparnað í bönkum. Það eru sennilega 60 þús. manns sem ekki greiða fjármagnstekjuskatt en sem gerðu það í tíð sjálfstæðismanna. Kaupmáttur launa — ég bið þingmanninn um að athuga (Forseti hringir.) að 5,3% kaupmáttaraukning á launum er mesta kaupmáttaraukning sem orðið hefur í 12 ár. Það er því af mörgu að taka í þessari skýrslu (Gripið fram í.) sem sýnir að það skiptir máli að jafnaðarmenn stjórni hér á landi.