140. löggjafarþing — 91. fundur
 30. apríl 2012.
auðlegðarskattur, eignarnám og skattlagning.
fsp. GÞÞ, 483. mál. — Þskj. 738.

[16:17]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um auðlegðarskatt, eignarnám og skattlagningu var dreift í lok janúar á þessu ári og fagna ég því að nú er runnin upp sú stund að þessari fyrirspurn verði svarað. Eins og ég nefndi er ég meðal annars að spyrjast fyrir um auðlegðarskattinn sem er eignarskattur og hefur þá sérstöðu að hann er ekki lagður á tekjur þannig að viðkomandi einstaklingur þarf að greiða hvort sem hann er með tekjur eða ekki. Fyrstu spurningarnar eru þessar:

1. Hefur ráðherra látið kanna mörk auðlegðarskatts og eignarnáms?

2. Er það eignarnám eða getur það talist eðlileg skattlagning að 2% auðlegðarskattur í þrjú ár er tæp 6% skattlagning á eignir?

Ég hef tekið þetta mál upp áður og spurði hæstv. fjármálaráðherra á sínum tíma um það. Þá kom í ljós í svari frá honum að 387 fjölskyldur voru árið 2009 með heildartekjur upp á minna en 10 millj. kr. Það er fyrst og fremst eldra fólk sem greiðir þetta, en þrátt fyrir að þetta sé skattur á eignir er einum eignum haldið fyrir utan, lífeyrisréttindum. Það er óheppilegt þar sem væntanlega hefðu ráðherrar í ríkisstjórn greitt þennan auðlegðarskatt ef hann hefði náð yfir allt saman.

Þetta er fyrst og fremst fólk sem hefur ekki haft hefðbundin lífeyrisréttindi sem greiðir þennan skatt.

Svo er næsta spurning, virðulegi forseti:

3. Hefur ráðherra hugleitt hversu stór hluti skattstofns við skattlagningu fjáreignatekna er verðleiðrétting, þ.e. verðbætur á verðtryggðum innlánsreikningum og gengismun á innlendum gjaldeyrisreikningum, og vextir?

Það er spurt um þetta vegna þess að eftir að skatturinn hækkaði svona erum við að sjá skuggalega skatta. Ef við bara miðum við 8% verðbólgu og 1% raunvexti eru skattarnir um 168%. Ef við bætum við 2% auðlegðarskatti er þetta komið upp í tæplega 370%.

4. Mun ráðherra halda fast við álagningu afturvirkra skatta við innlausn spariskírteina ríkissjóðs þegar vextir ávinnast þegar fjáreignaskattar eru 10%, 15% 18% og 20%, en spariskírteinin eru innleyst þegar fjáreignatekjuskattur er 20%?

Spurningin er einfaldlega þessi: Er ekki um afturvirkni að ræða þegar fólk er skattlagt með þessari háu skattprósentu en það eru búnir að vera miklu lægri skattar á þeim tíma sem það hefur átt þessi spariskírteini?

Síðan er spurt út í ákvæði stjórnarskrárinnar sem vísar í afturvirka skattlagningu og eignarréttarákvæðið. (Forseti hringir.) Spurningin er hvort ekki eigi að virða stjórnarskrána hvað þetta varðar. Það ætti að vera einfalt að svara því, en miðað við þær forsendur sem eru til staðar, miðað við þá stöðu sem er uppi, er eðlilegt (Forseti hringir.) að spyrja að þessu.



[16:21]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns vil ég svara henni með þessum hætti: Hugtakið eignarnám er að finna í 72. gr. stjórnarskrár Íslands. Þar er fjallað um friðhelgi eignarréttarins og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og skuli koma fullar bætur fyrir. Ekki er kveðið á um tiltekin mörk í viðkomandi ákvæði, hvorki í fjárhæðum né öðrum mælikvörðum. Því er vandséð hvernig kanna eigi þau mörk sem hv. þingmaður spyr um enda um eðlisólíka hluti að ræða. Annars vegar er spurt um eignarskattlagningu og hins vegar skyldu eiganda eignar til að láta hana af hendi að öllu leyti eða hluta gegn eignarnámsbótum sem annaðhvort fara eftir samkomulagi eða mati.

Stjórnvöld hafa orðið að skera niður útgjöld á öllum sviðum. Einnig hefur orðið að grípa til tekjuöflunaraðgerða af margvíslegum toga til að komast í gegnum erfiða tíma. Mat stjórnvalda var einfaldlega það að greiðendur auðlegðarskatts væru aflögufærari um að leggja meira til samfélagsins en þeir sem minna eiga. Því verður ekki á móti mælt að skýr jákvæð tengsl séu á milli tekna og hreinnar eignar og hátt frítekjumark er fyrir einstaklinga vegna skattsins.

Spurningu nr. 2 svara ég með þessum hætti: Hér er greinilega gengið út frá því að sú eign sem skattlögð er gefi engar tekjur af sér. Allt eins má líta á að skatthlutfallið sé álag á fjármagnstekjur. Þessi röksemdafærsla á engan rétt á sér nema um sé að ræða eignir sem ekki gefa af sér neinar tekjur.

Svarið við spurningu nr. 3, ég er að spara mér tíma með að lesa hana ekki upp, er svona: Í árslok 2010, en það er síðasta árið sem upplýsingar eru til um bæði fjármagnseignir og fjármagnstekjur, áttu heimilin í landinu innlán í innlánsstofnunum að upphæð 563,6 milljarða kr. ef undan eru skilin innlán í séreignarlífeyrisreikningum hjá þessum sömu stofnunum. Af þeim voru 126 milljarðar, þ.e. 22%, á verðtryggðum reikningum. Það sama ár töldust vaxtatekjur heimilanna á skattframtölum 28,7 milljarðar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 2,5% yfir árið 2010 og samkvæmt því hefðu verðbætur yfir árið numið 3,1 milljarði kr. miðað við að innstæður hafi verið hinar sömu í upphafi og við lok ársins. Þær drógust hins vegar saman og því er talan eitthvað hærri.

Á gjaldeyrisreikningum í eigu heimilanna voru 23,5 milljarðar kr. um áramótin 2010, en gengi krónunnar hafði hækkað töluvert yfir árið og því er engin tekjufærsla vegna þeirra. Á heildina litið voru því rúmlega 3 milljarðar af 28,6 milljarða vaxtatekjum heimilanna vegna verðbóta á verðtryggðum innlánsreikningum, þ.e. 10,5%. Af þessum tölum verður þó ekki fullyrt að sama hlutfall af fjármagnstekjuskatti sé tilkomið vegna verðtryggingarinnar, enda greiddu einungis 46.800 aðilar fjármagnstekjuskatt samtals en 171.800 aðilar höfðu vaxtatekjur af innstæðum.

Varðandi spurningu 4 frá hv. þingmanni vil ég svara henni þannig að ég get alls ekki tekið undir það sem hv. þingmaður kýs að nefna álagningu afturvirkra skatta. Meginreglan um tímapunkt skattskyldu vaxtatekna hjá einstaklingum utan atvinnurekstrar er að vextir hafi verið greiddir eða greiðslukræfir á tekjuárinu, sbr. 1. málslið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Ávöxtun langtímaskuldabréfa telst almennt óvissar tekjur sem ekki eru skattskyldar fyrr en við innlausn, sbr. og 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga.

Hv. þingmaður spyr að lokum hvort ég hyggist brjóta stjórnarskrána sem bæði hann og ég höfum svarið eið að. Ákvæði hennar um tímasetningu lagasetningar um skattamál eru alveg skýr. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Þær lagabreytingar sem ég stend fyrir munu hér eftir sem hingað til taka mið af þessu.

Þau svör sem ég hef gefið við spurningum hv. þingmanns sýna að svo hefur verið í því erfiða verkefni sem baráttan við afleiðingar efnahagshrunsins hefur staðið.



[16:26]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þessa fyrirspurn. Ég tengist henni næstum því sjálfur þar sem ég innleysti spariskírteini og þarf að borga 18% skatt 13 ár aftur í tímann þó að meginhluta tímans hafi verið 10% skattur. Það er í málaferlum svo ég get ekki tjáð mig meira um það.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sem kemur væntanlega aftur á eftir í stólinn: Hvernig stendur á því að verðmæti lífeyrisréttinda er ekki talið með í auðlegðarskatti sem kom fram í fyrirspurn hv. þingmanns? Þeir sem eiga sennilega mestu lífeyrisréttindin í landinu eru í B-deild LSR og eru ráðherrar, forstöðumenn ráðuneyta, ráðuneytisstjórar og slíkir. Hvernig stendur á því að þetta telst ekki með auðlegðarskattsstofni og getur verið að menn hafi beitt þarna ítökum sínum?



[16:27]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra er á sama stað og sá ráðherra sem var á undan og sem svaraði mér á 138. löggjafarþingi. Þá spurði ég, með leyfi forseta:

„Hefur ráðuneytið kannað hvers vegna auðlegðarskattur hefur verið afnuminn í sumum Evrópulöndum?“

Svarið þá var bara: Nei.

Svör hæstv. ráðherra benda til þess að það sé nákvæmlega sama upp á teningnum hér. Þegar hæstv. ráðherra talar eins og hann gerði um eignarnámið og eignarskattinn eins og þetta sé eðlisólíkt hvet ég hæstv. ráðherra í mestu vinsemd til að kynna sér af hverju til dæmis þýski stjórnsýsludómstóllinn dæmdi sambærilega skattlagningu ólöglega. Ég hvet hann til að skoða hvað er að gerast í öðrum löndum og ef hæstv. ráðherra gerir það er ég sannfærður um að þá komi annað hljóð frá hæstv. ráðherra.

Í 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“

Út á það gengur málið varðandi spariskírteinin. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það í þessu stutta andsvari.

Það eru ekki alltaf tengsl á milli tekna og eigna. Þetta eru ekki sérstaklega há frítekjumörk fyrir fólk sem á til dæmis skuldlaust húsnæði en hefur ekki miklar tekjur. Í svari frá hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra kom fram að 387 fjölskyldur eru með minna en 10 milljónir í heildartekjur en greiða samt sem áður verulega eignarskatta eða auðlegðarskatta.

Það lítur illa út, virðulegi forseti, að það sem var haldið fyrir utan væru lífeyrisréttindi. Það lítur illa út fyrir þessa ríkisstjórn að hún hafi haldið lífeyrisréttindunum fyrir utan (Forseti hringir.) því að það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að ef þau hefðu verið inni þyrftu hæstv. ráðherrar að greiða þennan (Forseti hringir.) skatt.



[16:29]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðgerðir sem gripið var til í þeim tilgangi að stöðva mikla skuldasöfnun ríkissjóðs þurftu að vera róttækar. Fáir voru aflögufærir og verja þurfti þá þjóðfélagshópa sem ekki þoldu frekari álögur. Fréttir dagsins um aukinn jöfnuð í stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sýna að þetta hefur tekist.

Það er mat ráðuneytisins að skattlagningin standist öll ákvæði stjórnarskrárinnar, bæði hvað varðar eignarrétt og afturvirkni skattlagningar.

Í greinargerð með frumvarpi um auðlegðarskattinn sem lagður var á í fyrsta sinn árið 2010 voru færð margvísleg rök fyrir því hvers vegna aftur var tekinn upp skattur á hreina eign einstaklinga. Þar var meðal annars bent á að í ljósi þeirrar miklu eignatilfærslu sem orðið hefði á árunum fyrir hrun og samþjöppunar á eignarhaldi væri lagt til að taka upp skatt á hreina eign, en þá með mjög háu fríeignarmarki fyrir einstaklinga. Jafnframt kom fram það sjónarmið, sem ég get tekið undir, að þeir aðilar sem söfnuðu miklum eignum fyrir hrun hafi notið þess að skattar á fjármagnstekjur voru lágir, auk þess sem aðrar skattareglur voru þeim hagstæðar fyrir hrun. Meðal annars af þeim sökum var talið réttlætanlegt að skattbyrði þessa hóps yrði aukin nokkuð frá því sem áður var sem hluti af bráðnauðsynlegri tekjuöflun ríkissjóðs til að takast á við afleiðingar hrunsins.

Því verður hins vegar ekki á móti mælt að einn af vanköntum eignarskatta, hvort sem um er að ræða skatt á hreina eign eins og auðlegðarskatt eða skatt á brúttóeign eins og fasteignagjöld til sveitarfélaganna, er að ekkert samband er á milli greiðslugetu og skattlagningar. Hin háu eignamörk auðlegðarskattsins eiga hins vegar að koma til móts við það enda má ætla að stærstur hluti þeirra eigna sem er ofan við eignamörk auðlegðarskattsins sé í arðberandi eignum eða að í öllu falli sé eignunum ætlað að skila eigandanum (Forseti hringir.) arði.