140. löggjafarþing — 91. fundur
 30. apríl 2012.
skipulag haf- og strandsvæða.
fsp. EKG, 618. mál. — Þskj. 976.

[17:00]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram á Alþingi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um skipulag haf- og strandsvæða. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

Hvað líður undirbúningi að skipulagi á haf- og strandsvæðum við landið og hver er staða verkefnisins? Hefur verið tekin afstaða til þess hver eigi að fara með skipulagsvaldið, ríki eða sveitarfélög?

Tilefni þess að ég legg fram þessa fyrirspurn er að það eru auðvitað komin upp ný viðhorf varðandi skipulag á haf- og strandsvæðum. Hér fyrr meir var þetta tiltölulega einfalt. Menn reru til fiskjar og þá gilti um það sérstök löggjöf sem menn urðu að fara eftir. Síðar meir var það þannig að nýting hafsvæðanna breyttist mjög mikið. Bæði eru fiskveiðar framkvæmdar með margvíslegri hætti en oft var áður og síðan hefur orðið til alls konar haftengd starfsemi eða starfsemi sem tengist sjávarútvegi en er þó ferðatengdari á margan hátt. Þar á ég við hluti eins og sjóstangveiði, skemmtisiglingar og hvalaskoðun eftir atvikum. Ýmislegt fleira mætti nefna í þessu sambandi.

Við vitum líka að það hefur orðið gríðarlega mikil uppbygging í ferðamennsku víða um landið og ferðamenn nýta sér einmitt tækifærið og möguleikana sem snúa að því að fara ferðir um hafsvæðin, bæði í lengri og styttri siglingar. Komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað mjög mikið. Ég sá áðan að á fjórða tug skipa kemur til dæmis til Ísafjarðar á þessu sumri og gert er ráð fyrir að um 30 þús. farþegar komi með þessum skipum.

Við vitum líka að starfsemi hafna hefur breyst. Það hefur orðið uppbygging á ákveðnum svæðum, t.d. í Arnarfirði, við efnisnám af hafsbotni. Þar er ég að vísa til kalkþörungavinnslunnar sem skiptir orðið mjög miklu máli í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum. Við höfum velt fyrir okkur hvers konar nýrri orkuvinnslu. Þetta vekur líka spurningar um nýtingu og nýtingarrétt sjávarjarða og eigenda þeirra. Þannig gætum við áfram talið.

Þetta gerir að verkum að það þarf að taka til sérstakrar skoðunar ýmsa þætti sem lúta að skipulagi á haf- og strandsvæðum við landið. Fjórðungssamband Vestfirðinga, sérstaklega framkvæmdastjóri þess, Aðalsteinn Óskarsson, hefur haft mjög mikið frumkvæði í þessum efnum og unnið að mínu mati algjört brautryðjendaverk.

Nú er verið að yfirfara þessi mál á vegum hæstv. umhverfisráðherra. Því ákvað ég að leggja fram þessa fyrirspurn vegna þess að það er ástæða til að reyna eftir föngum að hraða þessari vinnu og um leið velta fyrir sér hvar skipulagsvaldið eigi að liggja. Á það að liggja hjá ríkinu eða sveitarfélögum og hvernig á að öðru leyti að standa að þessum málum?



[17:04]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni afar brýna fyrirspurn. Það er rétt sem fram kemur í orðum hans, þetta er málaflokkur sem þarf verulegrar endurskoðunar við og utanumhalds. 27. september 2010 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samráði við þá er hér stendur nefnd um skipulag framkvæmda á hafinu. Hlutverk þeirrar nefndar var tvíþætt, annars vegar að gera úttekt á lögunum og reglunum sem gilda um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni og hins vegar að meta þörf fyrir skýrari reglur þar um og skoða hvort ástæða sé til að setja löggjöf um skipulag strandsvæða.

Í nefndinni var breitt samráð. Þar sátu fulltrúar tilnefndir af ofangreindum ráðuneytum, þar að auki innanríkisráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin taldi nauðsyn að kalla enn fleiri að borðinu og þess vegna var settur á fót vinnuhópur sem í áttu sæti fulltrúar líka frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni, Matvælastofnun, Orkustofnun, Siglingastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Þar að auki áttu fulltrúar Fjórðungssambands Vestfirðinga sæti í hópnum vegna sérstöðu þess landsvæðis. Hópnum var ætla að finna helstu vankanta við núverandi fyrirkomulag og koma með tillögur að því með hvaða hætti þessum málum væri best fyrir komið. Nefndin skilaði niðurstöðu 8. september 2011. Í henni kom fram að ekki væri til heildstæð löggjöf hér á landi um stjórn strandsvæða, en nokkrir lagabálkar tengjast málefninu. Það eru taldir upp 38 lagabálkar sem eru taldir tengjast stjórnun strandsvæða. Á Íslandi fara 11 undirstofnanir fjögurra ráðuneyta með meginábyrgð stjórnsýslu á íslenska strandsvæðinu. Ekkert ráðuneyti fer með yfirstjórn málaflokksins og sveitarfélögin hafa ábyrgð gagnvart framkvæmdum og athöfnum innan netlaga.

Nefndin taldi helstan galla á regluverki um framkvæmdir og athafnir með ströndum og í efnahagslögsögunni skort á heildarsýn yfir starfsemi á umræddu svæði og jafnframt skort á samráði stofnana. Nefndin lagði til að skoðað yrði hvernig væri hægt að samræma reglur betur og setja upp skýrari reglur þar sem heildarsýn og samræmd vinnubrögð væru betur tryggð en nú er. Þar er nefndur sérstaklega sá möguleiki að nota landsskipulagsstefnu eða þá hugmyndafræði sem hún byggir á til að setja fram skipulagsstefnu fyrir hafið af hálfu stjórnvalda.

Nefndin taldi afar mikilvægt að stjórnvöld mörkuðu skýra stefnu um málefni hafsins og færði þá stefnu yfir í áætlanir um einstök þemu með tilliti til nýtingar og verndunar. Nefndin mælti með stofnun starfshóps sem hefði það hlutverk að vinna að stefnumörkun um málefni haf- og strandsvæða. Einnig taldi nefndin mikilvægt að lagt yrði mat á það hvort nauðsynlegt væri að ein stofnun eða nefnd eða hópur færi með skipulagningu strandsvæða og að við skipulagningu væri litið til mismunandi hagsmuna af starfsemi sem fyrirhuguð væri og hún kortlögð.

Við skipulag á hafsvæði í löndunum í kringum okkur er staðið mjög mismunandi að málum. Í Danmörku nær skipulagsvald sveitarfélaganna eingöngu til landsins. Í Noregi geta sveitarfélögin skipulagt eina sjómílu út fyrir grunnlínu, en í Svíþjóð og Finnlandi nær skipulagsvald sveitarfélaganna út í 12 sjómílur en er háð skipulagsstefnu á landsvísu, þ.e. grunnstefnu. Bretar hafa sett sérstök lög um skipulag hafsvæða, Marine and Coastal Access Act frá 2009. Lögsaga sveitarfélaga í Hollandi til að mynda nær hins vegar einn kílómetra á haf út þannig að þetta er með nokkuð mismunandi sniði.

Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar er starfandi vinnuhópur sem vinnur að því að taka saman efni um skipulag hafsvæða á norrænni vísu. Ísland á fulltrúa í þeim hópi. Einnig er að störfum samráðshópur sem vinnur að undirbúningi umfjöllunar um skipulag hafsvæða í landsskipulagsstefnu, þ.e. vinnunni sem nú stendur yfir.

Í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið ákveðið að hefja undirbúning að vinnu við gerð lagafrumvarps þar sem gert verður ráð fyrir að yfirumsjón með skipulagi framkvæmda og athafna á hafinu verði á forræði ríkisins í nánu samráði við viðkomandi sveitarfélag á strandsvæðum. Umhverfisráðuneytið mun hafa forræði á málinu og hafa í þessum undirbúningi náið samráð við viðkomandi ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og ekki síst þau sveitarfélög sem málið snertir eðli málsins samkvæmt frekar en önnur.



[17:08]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir mjög áhugaverða fyrirspurn og eins svör hæstv. ráðherra. Þegar við á þinginu fjölluðum um lög um kræklingarækt sem eiginlega enduðu þannig að það mætti halda að það væru lög um bann við kræklingarækt og eins núna þegar atvinnuveganefnd hefur verið að skoða fiskeldismál virðist sem það sé algjör forsenda fyrir því að menn geti skipulagt starfsemi sem er misjöfn, það getur líka verið ferðaþjónusta, það getur verið svo margt annað sem tengist strandsvæðunum, að það liggi þar fyrir skipulag áður en menn fara af stað, en ekki þessi frumskógur af umsögnum og inngripum ríkisstofnana eins og við erum að byggja upp í dag.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra og bið hana að koma aðeins inn á það ef hún getur í sínu seinna svari að ég hefði talið eðlilegra að þessi skipulagsvinna yrði sett yfir til (Forseti hringir.) landshlutanna sem sífellt er verið að færa meiri verkefni, yrði að frumkvæði ríkisins (Forseti hringir.) en tekið tillit til þeirrar landsskipulagsstefnu sem ríkið eðlilega setur þar.



[17:09]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir fróðlegt svar og hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að taka þátt í umræðunni.

Ég fagna því líka sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að nú sé í undirbúningi frumvarp sem taki sérstaklega á því álitamáli sem ég gerði að umtalsefni. Hér er um að ræða mjög brýnt mál. Við vitum líka að það getur verið býsna viðkvæmt. Nú háttar þannig til að á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga er verið að vinna eins konar haf- og strandsvæðaprufuskipulag í Arnarfirði, nýtingaráætlun sem menn eru að reyna að setja niður fyrir sér. Við skulum aðeins fara eftir minni yfir álitamálin sem geta komið upp.

Arnarfjörður er stór og mikill fjörður með straumakerfi sínu. Hann hefur hins vegar nokkra sérstöðu eins og við vitum sem þekkjum þar til. Þar fara fram hefðbundnar fiskveiðar, með ýmsum veiðarfærum, svo sem snurvoð, línu og færum. Þar fer fram rækjuveiði og núna er að hefjast þar viðurhlutamikið laxeldi. Þar hafa komið upp árekstrar eins og við þekkjum, því miður. Þarna hafa menn líka reynt fyrir sér með kræklingarækt. Þarna eru siglingar með farþega. Þarna er líka umfangsmikil kalkþörungavinnsla af hafsbotni eins og ég nefndi áðan. Það þarf að taka þessi mál alveg sérstökum tökum.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að forræði sveitarfélaga og heimamanna sé sem mest í þessum efnum. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Ég vil þess vegna nefna hér í þessari umræðu að ég tel eðlilegt að þegar verið er að vinna svona frumkvöðulsstarf eins og núna er verið að vinna í Arnarfirði á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga beri ríkinu að leggja því lið, t.d. með fjármagni. Núna liggur fyrir að það vantar rúmlega 2 millj. kr. til að sveitarfélögin á Vestfjörðum geti lokað (Forseti hringir.) þessu dæmi.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ráðherra sé ekki sammála mér um að það sé eðlilegt vegna eðli málsins að ríkissjóður komi þar til skjalanna, a.m.k. að einhverju leyti.



[17:12]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn fyrir góða umræðu og hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þátttöku í henni. Ég held að við séum nokkurn veginn alveg á sömu fjöl hér, því að við erum í raun og veru að tala um að ná böndum yfir aðstæður sem hafa verið óviðunandi og óþægilega flóknar eins og hér kom fram. Allt að 11 stofnanir hafa með einhverju móti um málið að segja og undir fjórum mismunandi ráðuneytum sem bæði eykur flækjustig og gerir það líka að verkum að þeir sem hyggja á framkvæmdir eða atvinnustarfsemi á þessum svæðum mæta hugsanlega mismunandi afstöðu og mismunandi sýn. Það sem við erum að tala um hér er einföldun í grundvallaratriðum og samkvæmni. Þess vegna skiptir aðkoma ríkisins mjög miklu máli.

Ég deili hins vegar algjörlega þeirri sýn að náið samráð við heimamenn er grundvallaratriði í þessum efnum. Þess vegna höfum við lagt upp með þá nálgun að Samband íslenskra sveitarfélaga sé við borðið frá fyrsta degi, þ.e. í því hvernig þessari frumvarpssmíð verður fyrir komið. Þetta verður semsé samstarfsverkefni.

Ég vildi nota tækifærið hér, virðulegi forseti, til að nefna eitt atriði inn í þessa umræðu vegna þess að það hefur ekki fengið mikið rými, áhrif loftslagsbreytinga á mögulega hækkun sjávarborðs og þar með áhrif á strandsvæði. Þetta er algjörlega nýr þáttur sem við verðum að taka með í reikninginn varðandi allt skipulag byggða, vegagerðar og annarra framkvæmda á strandsvæðum vegna þess að við horfum fram á það að við komum til með að sjá verulegar breytingar á sjávarborði á allra næstu áratugum.