140. löggjafarþing — 95. fundur
 4. maí 2012.
dómstólar, 1. umræða.
stjfrv., 683. mál (aðstoðarmenn dómara). — Þskj. 1112.

[17:42]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998. Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum 17. gr. laganna er fjallar um aðstoðarmenn dómara. Í 17. gr. laga um dómstóla er kveðið á um að til aðstoðar dómurum megi ráða lögfræðinga sem fullnægja þeim skilyrðum sem gerð eru til dómara fyrir utan kröfu um lágmarksaldur og starfsreynslu. Ekki er í lögunum kveðið frekar á um hver verkefni þessara aðstoðarmanna eru en í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að löglærðum aðstoðarmönnum sé ekki heimilt að gegna dómstörfum þótt þeir megi veita dómurum margvíslega aðstoð við meðferð og úrlausn dómsmála. Með setningu laga um dómstóla var á sínum tíma stefnt að því að breyta eðli starfa aðstoðarmanna við héraðsdómstólana þannig að þeir yrðu dómurum fremur til hjálpar en að þeir fengjust sjálfstætt við verk. Komu þeir þannig í stað dómarafulltrúa sem samkvæmt eldri lögum gátu sinnt tilteknum dómstörfum í eigin nafni.

Í frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að dómstjóri geti falið aðstoðarmönnum dómara ákveðin störf í eigin nafni. Þannig geti dómstjóri falið aðstoðarmönnum önnur dómstörf en þau að fara með og leysa efnislega úr einkamálum þar sem vörnum er haldið uppi og sakamálum frá því að þau hafa komið til aðalmeðferðar. Þannig geti þeir sinnt ákveðnum atriðum í meðferð dómsmáls, hvort sem um er að ræða einkamál eða sakamál, svo sem eins og ýmsum fyrirtökum í málum fram að aðalmeðferð þeirra og hinum reglulegu dómþingum þar sem mál eru þingfest. Er þessi breyting lögð til í framhaldi af ályktun Félags löglærðra aðstoðarmanna dómara frá 18. nóvember 2011 sem send var innanríkisráðherra sem og áskorun dómstólaráðs til ráðherra um lagabreytingar af sama tilefni. Í ályktun félags aðstoðarmanna kemur fram að í máli nr. 577/2011 hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að ómerkja yrði niðurstöðu héraðsdóms er varðaði synjun á heimild aðila til að leggja fram greinargerð í máli um gjaldþrotaskipti þar sem ákvörðun um synjun var tekin af aðstoðarmanni héraðsdómara.

Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að slík ákvörðun teldist dómsathöfn sem aðstoðarmenn héraðsdómara hefðu ekki heimild til að taka. Mikilvægt er að skýrt liggi fyrir hvaða heimildir aðstoðarmenn dómara hafa til að stjórna þinghöldum. Aðstoðarmenn hafa í seinni tíð sinnt reglulegum dómþingum dómstólanna og létt þannig álagi af dómurum sem hafa þá getað einbeitt sér að flóknari dómsathöfnum. Rétt þykir að svo geti verið áfram.

Þá er í frumvarpinu jafnframt lagt til að aðstoðarmenn dómara verði ráðnir tímabundið til fimm ára en heimilt er að endurnýja þá ráðningu einu sinni. Er það breyting frá því sem er í gildi í dag þar sem aðstoðarmenn eru ráðnir til fimm ára og ekki er fyrir hendi heimild til að endurnýja ráðningu aðstoðarmanna við sama dómstól.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir atriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.