140. löggjafarþing — 98. fundur
 11. maí 2012.
lokafjárlög 2010, 2. umræða.
stjfrv., 188. mál. — Þskj. 192, nál. 1222 og 1281.

[16:07]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2010, frá meiri hluta fjárlaganefndar.

Fjárlaganefnd hefur farið yfir frumvarpið og fengið á sinn fund Lúðvík Guðjónsson og Ingþór Eiríksson frá fjármálaráðuneyti og Jón L. Björnsson, Inga K. Magnússon og Pétur Vilhjálmsson frá Ríkisendurskoðun.

Frumvarpið er vel úr garði gert og hafa verið gerðar ýmsar umbætur á því á síðari árum. Við viljum árétta að lokafjárlög á að leggja fram samhliða staðfestum ríkisreikningi en þó að lokafjárlög hafi nú verið lögð fram fyrr en nokkru sinni þarf að bæta þetta. Rétt er að taka fram að við fögnum því þó að það sé lagt fyrr fram en oft áður en viljum að farið sé að lögum hvað þetta varðar.

Samkvæmt frumvarpinu eru gjöld samkvæmt ríkisreikningi 22,7 milljarðar, tæpir, umfram fjárheimildir og skýrist það fyrst og fremst af gjaldfærslu á 33 milljarða framlagi til Íbúðalánasjóðs. Ef til þess hefði ekki komið hefði lokastaðan verið 10,3 milljarða afgangur miðað við fjárheimildir sem Alþingi hafði þegar samþykkt.

Nefndin hefur farið yfir frumvarpið með mun ítarlegri hætti en oftast áður og er það þáttur í breyttu og bættu vinnulagi fjárlaganefndar við afgreiðslu slíkra mála. Vil ég sérstaklega þakka fulltrúum úr minni hlutanum fyrir mikla og góða vinnu í sambandi við frumvarpið og þann metnað sem þeir hafa sýnt í því að vinna þetta vel og tryggja að fjárlaganefnd geri sér grein fyrir hvað hún er að samþykkja í lokafjárlögum og leggja til við þingið að gera að lögum.

Mjög ítarlega er fjallað um mörkun tekna í frumvarpinu og við erum mjög ánægð í nefndinni með þann texta sem er mjög upplýsandi og fjallar um mikilvægi þess að afmarka megnið af þessum tekjum til að auka fjárstjórnarvaldið. Það kemur fram í nefndaráliti, bæði hjá meiri hluta og minni hluta, að það er vilji til þess og nefndin hyggst flytja frumvarp þar sem dregið er úr mörkun tekjustofna ríkisins.

Fjárlaganefnd hefur gagnrýnt að fylgiskjöl frumvarpsins gefi ekki nægilega skýra mynd af umfangi flutnings fjárheimilda milli ára. Við kölluðum eftir viðbótargögnum frá Ríkisendurskoðun til að bæta úr þessu og í framhaldinu mun fjármálaráðuneytið framvegis birta í frumvarpi til lokafjárlaga skýrara yfirlit um flutning og niðurfellingu fjárheimilda.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið skrifa, auk framsögumanns, Björn Valur Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Geirsson.



[16:11]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir vinnuna við þessi lokafjárlög. Það er margt gott í áliti meiri hlutans en líka margt sem ég er ekki alveg sáttur við og það er kannski meiningarmunur á milli manna eins og gengur.

Í áliti meiri hlutans er nefnt að fjármálaráðuneytið vinni nú að endurskoðun á lögum nr. 88/1997. Í mínum huga er þetta brýnasta verkefni Alþingis. Í rauninni hefði átt að vera búið að vinna þetta fyrr vegna þess að ég held að öllum hafi verið ljóst þegar hrunið varð að ýmsu væri ábótavant í fjárstjórn ríkisins.

Í þessu áliti segir að áætlað sé að frumvarpið verði tilbúið í sumar. Það er í rauninni verið að seinka framlagningu þess vegna þess að í utandagskrárumræðum sem ég hóf rétt eftir jól um aga í ríkisfjármálum var fullyrt að unnið yrði að frumvarpinu strax eftir áramót og það yrði klárað á vormánuðum. Nú er það svo að næsta haust munum við vinna að fjárlögum þessa árs, það verður gríðarlega mikil vinna, og við ætlum að vinna það samhliða þessu. Eftir áramót er bara komið að kosningum.

Ég ætla að ítreka beiðni mína sem ég lagði fram í gær, en formanni fjárlaganefndar hefur kannski ekki gefist tími til að svara henni á þeim stutta tíma sem hún hafði þá: Er ekki ráð að allir flokkar á þingi vinni að þessum fjárreiðulögum (Forseti hringir.) í sameiningu og að frumvarpið verði tilbúið að mestu leyti í haust? Ég lýsi því aftur yfir að ég er reiðubúinn að vinna að þessu (Forseti hringir.) verkefni í allt sumar ef þarf.



[16:14]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég hefði viljað fá þetta frumvarpi inn í þingið á vormánuðum því að þetta eru gríðarlega mikilvægar breytingar. En við vitum það líka að margir aðilar koma að vinnu við frumvarpið og þau tefjast eins og gengur en aðalatriðið er, eins og kom reyndar fram í máli hv. þingmanns, að vinnan sé sem vönduðust. Vinnan fer fram á vegum fjármálaráðherra en Alþingi á áheyrnarfulltrúa í þeirri nefnd. Við höfum líka hitt fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem voru með tæknilega ráðgjöf við verkefnið. Við hittum þá þegar þeir voru að útbúa sína skýrslu með ráðgjöf um hvernig best verði staðið að framkvæmd fjárlaga í ýmsum löndum og hvað þyrfti að bæta á Íslandi. Við höfum fengið kynningar og komum með ábendingar til verkefnisstjórans í þessu verkefni í fjármálaráðuneytinu og síðan hefur nefndin farið og kynnt sér ítarlega með hvaða hætti Svíar tóku á sínum ríkisfjármálum.

Ég lít svo á að fjárlaganefnd sé að undirbúa sig fyrir það að fjalla um frumvarpið og við munum núna fyrir þinglok fá fjármálaráðuneytið á okkar fund, fá kynningu á þeim drögum sem fyrir liggja, og þá munum við líka ræða hvort fjárlaganefnd vilji koma með ábendingar um breytingar eða slíkt.



[16:15]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsi mig reiðubúinn til samstarfs. Það hefur stundum verið sagt um okkur í stjórnarandstöðunni að við séum ekki reiðubúin til samstarfs en ég vil ítreka spurningu mína og hún er mjög skýr: Er formaður fjárlaganefndar reiðubúin að beita sér fyrir því að þetta frumvarp verði lagt fram af öllum flokkum í fjárlaganefnd, ekki af fjármálaráðherra?

Ég held að það mundi gera það að verkum að miklu breiðari sátt næðist um þetta verkefni. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að fjárlaganefnd hefur stigið mörg og góð skref, ferðin til Svíþjóðar var að mínu mati mjög góð, og þau skref sem hafa verið stigin eru í rétta átt en við eigum afar langt í land. Ég tel að þetta verkefni sé í rauninni til þess fallið að koma umræðunni um fjárreiðulögin og fjárlögin yfirleitt á miklu hærra plan en þá þarf líka að liggja fyrir að allir flokkar á Alþingi beri ábyrgð á framlagningu frumvarpsins. Þess vegna segi ég: Er hv. formaður fjárlaganefndar reiðubúin að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd leggi málið fram í heild sinni, taki málið til sín, noti þá vinnu sem fram hefur farið innan ráðuneytisins þannig að hún fari ekki til spillis, og klári málið í sumar?



[16:17]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ánægð með yfirlýsingu hv. þingmanns um að hann vilji vinna þetta í samstarfi enda er það reynsla mín af minni annars stuttri veru í fjárlaganefnd að þar er ákaflega gott samstarf og þó að við séum ekki alltaf sammála um alla hluti er vilji til að mynda samstöðu um þau grundvallarprinsipp sem við viljum leggja til grundvallar meðferð ríkisfjármála.

Varðandi það að ég beiti mér í því að við tökum málið inn til okkar þá vil ég segja þetta: Málið er á forræði fjármálaráðherra og það er sérstakur verkefnisstjóri yfir verkefninu. Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni og ég teldi óráð að nefndin færi eiginlega að taka það út úr ráðuneytinu og til sín. En ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að við þurfum að meðhöndla þetta mál með þeim hætti að allir flokkar vilji standa að því saman og ég endurtek það bara að ég tel að nú sé komið að því að við þurfum að fá frekari kynningu á því hvar málið er statt og ræða með hvaða hætti við viljum sjá þetta til að allir flokkarnir getið staðið að þessu saman. Að einhverju leyti er ég að svara spurningu hv. þingmanns neitandi en ég vonast þó til að hann skilji að það er ekki þvert nei. Ég lýsi yfir miklum vilja til samstarfs og ég tel að til þess að lögin feli í sér raunverulegar breytingar þurfi allir flokkar að koma að vinnunni (Forseti hringir.) og vera sammála þeim áherslum sem þar eru.



[16:20]
Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar vil ég segja að ég held að það sé góð ábending sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom með, að það sé vænlegra til árangurs til lengri tíma litið ef mál sem lögð eru fram eru studd af öllum flokkum. Ég leyfi mér að skilja orð hv. þingmanns á þann hátt.

Það er ekki mikill ágreiningur um það á milli fjármálaráðuneytisins og fjárlaganefndar, eins og klárlega má sjá í lokafjárlögunum og þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í hv. fjárlaganefnd. Ég tel því mikilvægt að við náum skynsamlegri lendingu til að þetta hafi einhverja þýðingu fyrir framtíðina því að markmiðið með þessari vinnu er að við förum að vinna ríkisfjármálin með allt öðrum hætti en gert hefur verið hingað til.

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2010. Nú er maí 2012. Það er mjög sérstakt að vera að ræða lokafjárlög 2010 á miðju ári 2012 þar sem teknar eru stórar og miklar ákvarðanir um stofnanir varðandi með hvaða hætti fara á með fjárheimildir yfir áramótin 2010–2011. Rekstrarárið 2011 er liðið þannig að við erum í raun með tvö ár í hálfgerðu limbói. Þá getur maður spurt sig þeirrar spurningar hvernig það virkar fyrir Alþingi, fyrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra, að gera breytingar á því sem hér er rætt. Það er mjög sérstakt hvernig er að þessu staðið og auðvitað er það eitt af markmiðunum með þessum breytingum á fjárreiðulögum að þetta muni færast í eðlilegra horf þannig að núna mundum við í síðasta lagi vera að ræða til að mynda lokafjárlög fyrir árið 2011. Sennilega eru þetta síðustu lokafjárlögin sem þetta þing samþykkir ef ekki verður breyting á því að það verða kosningar næsta vor og það er ekkert sjálfgefið að lokafjárlög fyrir árið 2011 verði kláruð fyrr en á næsta kjörtímabili sem er auðvitað mjög sérstakt.

Nú mun ég fara yfir nefndarálit minni hlutans.

Í fjárlögum 2010 var gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ársins yrði neikvæður um 98.843 millj. kr. en hann reyndist vera neikvæður um 123.285 millj. kr. samkvæmt ríkisreikningi 2010. Frumjöfnuður samkvæmt ríkisreikningi er neikvæður um 84.437 millj. kr. eða um 5,5%. Í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 var gert ráð fyrir að frumjöfnuður yrði neikvæður um 3% af landsframleiðslu. Árangur við stjórn ríkisfjármálanna er því tæplega helmingi verri en upphaflega var stefnt að.

Fjárheimildir í lok ársins 2010 eru neikvæðar um 22.696,6 millj. kr. Breyting þeirra sundurliðast á eftirfarandi hátt, þ.e. stærstu liðirnir:

18,6 milljarðar eru fluttir frá fyrra ári. Fjárlög ársins 2010 voru upp á 560 milljarða, fjáraukalögin gerðu ráð fyrir afgangi upp á 900 millj. kr., lokafjárlög upp á tæpar 900 millj. kr. þannig að fjárheimildir alls sem gert var ráð fyrir voru 580 milljarðar. Niðurstaða ríkisreiknings er hins vegar 602 milljarðar sem er neikvæð staða miðað við það sem stefnt var að upp á 22,7 milljarða. Ég tel það að sjálfsögðu háalvarlegt mál að stefnt skuli vera að því að reka ríkissjóð fyrir 22,7 milljörðum minna en niðurstaða ríkisreiknings gerir ráð fyrir.

Þessi mikli umsnúningur snýr einkum að 33 milljarða kr. gjaldfærslu á framlagi sem ríkissjóður veitti í fjáraukalögum til að styrkja eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs. Minni hlutinn gagnrýnir hvernig staðið var að kynningu á fjárbeiðninni en í henni var gert ráð fyrir að framlagið yrði eignfært en það var gjaldfært vegna fjárhagsstöðu sjóðsins. Nauðsynlegt er að Alþingi séu veittar réttar upplýsingar um fjárhagsstöðu opinberra aðila þannig að fullt samræmi sé á milli fjárheimilda og reiknings hvað þetta varðar.

Þá vekur athygli að ekki var farið með halla Byggðastofnunar með sambærilegum hætti og Íbúðalánsjóðs þó svo að um sambærileg mál væri að ræða. Fjársýsla ríkisins hefur staðfest að gæta hefði átt samræmis.

Í umframútgjöldunum vegur þyngst gjaldfærsla á framlagi ríkissjóðs á fjáraukalögum 2010 sem var ætlað að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða kr. þannig að hún gæti orðið allt að 5% af áhættugrunni sjóðsins við árslok 2010 og að sjóðnum yrði þar með gert kleift að mæta afskriftaþörf vegna útistandandi lánveitinga og áhrifum af ráðstöfunum sem kynnu að verða gerðar vegna skuldavanda heimilanna. Við uppgjör ríkisreiknings var ákveðið að gjaldfæra framlagið í heild vegna stöðu sjóðsins. Er því ljóst að Alþingi voru ekki veittar réttar upplýsingar um stöðu hans við afgreiðslu laganna. Þá ber einnig að hafa í huga að stofnfjárframlög fela ekki í sér gjaldheimild þar sem markmiðið með því að veita þau er að mynda eign hjá þeim sem fær framlagið. Þegar framlagið var veitt var eiginfjárstaða Íbúðalánasjóðs neikvæð um 25 milljarða kr. og hefði því verið eðlilegt að mati Ríkisendurskoðunar að eignfæra 8 milljarða kr. en það var ekki gert. Þá fékk Byggðastofnun á sama tíma 1 milljarðs kr. framlag á fjáraukalögum til að efla eiginfjárstöðu stofnunarinnar, en eigið fé hennar var neikvætt um 498 millj. kr. Það framlag var eignfært þó að gæta hefði átt samræmis við Íbúðalánasjóð. Það er því mat minni hlutans að vinnubrögð við framsetningu þessara eiginfjárframlaga í ríkisreikningi hafi ekki verið nægilega vönduð.

Staða fjárheimilda í árslok er neikvæð um 22.696,6 millj. kr., eins og ég hef komið að áður, eða sem svarar til 3,9% af heildarfjárheimildum ársins. Hinni neikvæðu stöðu má skipta upp í 30.519 millj. kr. afgangsheimildir og 53.215,6 millj. kr. umframútgjöld. Helstu afgangsheimildir í árslok eru svokölluð ófyrirséð útgjöld upp á 2,9 milljarða, vaxtagjöld ríkissjóðs upp á 2,1 milljarð, ofanflóðasjóður upp á 1,5 milljarða, Framkvæmdasjóður aldraðra upp á 886 millj. kr. og Háskóli Íslands upp á 881 millj. kr. Það gerir samtals 8,4 milljarða.

Af samtals 30,5 millj. kr. afgangsheimildum í árslok eru 8,4 milljarðar eða 27,5% á þessum fimm fjárlagaliðum en helstu umframgjöld skiptast með eftirfarandi hætti: Íbúðalánasjóður, sem áður er getið, upp á 33 milljarða, afskriftir skattkrafna upp á 5 milljarða, Landspítali upp á 2,9 milljarða, lífeyrisskuldbindingar upp á 2,8 milljarða, Sjúkratryggingar upp á 2 milljarða og fjármagnstekjuskattur upp á 1,6 milljarða.

Gert er ráð fyrir að 39.155,7 millj. kr. gjöld umfram fjárheimildir falli niður nettó. Það skiptist þannig að 8.043,1 millj. kr. eru afgangsheimildir og 47.198,8 millj. kr. eru umframgjöld einstakra fjárlagaliða. Þar vegur þyngst 33.000 millj. kr. vegna Íbúðalánasjóðs. Árið 2009 voru hins vegar fluttar nettóafgangsheimildir að fjárhæð 18.603,6 millj. kr. og hefur nettóflutningur fjárheimilda því lækkað á milli ára. Í fylgiskjali 1 í frumvarpinu kemur nánar fram hvernig jákvæðar og neikvæðar stöður skipast á einstaka fjárlagaliði.

Minni hlutinn vekur athygli á eftirfarandi gagnrýni Ríkisendurskoðunar í endurskoðunarskýrslu ríkisreiknings 2010, með leyfi forseta:

„Umframútgjöld Sjúkratrygginga Íslands stafa af því að áform um sparnað sem lágu til grundvallar fjárlögum gengu ekki eftir. Snemma á árinu kom í ljós að hæpið væri að forsendur fyrir áætluðum sparnaði myndu ganga eftir, svo sem að hægt yrði að semja um lækkun á gjaldskrá vegna heilbrigðisþjónustu sem keypt er af sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum. Samt var ekki ráðist í annars konar sparnað til þess að vega upp á móti þessu. Þar sem slíkar ákvarðanir hefðu kallað á reglugerðarbreytingu liggur fyrir að velferðarráðuneytið ber ábyrgð á því að ekki var gripið til ráðstafana til að halda rekstri Sjúkratrygginga innan fjárheimilda. Ekki var heldur sótt um viðbótarfjárveitingar vegna þessa á fjáraukalögum 2010.“

Minni hlutinn telur afar brýnt að ráðuneytið veiti upplýsingar um með hvaða hætti það hyggst taka á fyrrgreindri ábyrgð.

Þá kem ég að kjarna málsins. Þegar verið er að samþykkja fjárlög er spurningin: Er verið að fara eftir fjárlögum eða ekki?

Það var einmitt bent á það við afgreiðslu fjárlaga 2010 og það kom mjög skýrt fram á fundi fjárlaganefndar þegar forstöðumenn Sjúkratrygginga Íslands komu á fund fjárlaganefndar. Þá bentu þeir á að fjárlögin sem lagt var til að yrðu samþykkt fyrir árið 2010 mundu ekki ganga eftir nema farið væri í mjög miklar aðgerðir og breytingar á lögum og reglugerðum til að þeim gæfist tækifæri til að halda fjárlögin og það var vitað. Þetta kom fram í ýmsum ræðum og ég benti á að að það væri tilgangslaust að samþykkja fjárlög sem fyrir fram væri vitað að mundu ekki standast, en samt var það mat ráðuneytisins á þeim tíma að þau ætti að samþykkja. Þess vegna kemur sú harða gagnrýni frá Ríkisendurskoðun um að tilgangslaust sé að samþykkja fjárlög ef ekki eigi að fara eftir þeim. Það er mjög sérkennilegt þegar við ræðum þetta sérstaka mál að þessar upplýsingar lágu fyrir þegar fjárlögin voru samþykkt. Það er mjög mikilvægt fyrir þingið að fara aðeins yfir þetta.

Í frumvarpinu styðst fjármálaráðuneytið við þá vinnureglu að árslokastaða fjárlagaliðar fellur niður ef útgjöld hans ráðast með beinum hætti af öðrum lögum en fjárlögum. Því er litið svo á að lögbundnum eða samningsbundnum framlögum verði ekki stýrt með framlagi fjárlaga en um leið birtist hér veikleiki í fjárlagagerðinni. Fjárlög marka í þessum tilfellum ekki útgjaldarammann heldur sérlögin og eru fjárlög í þeim tilvikum ekki það stjórntæki sem þau þurfa að vera. Að mati minni hlutans þarf að breyta fyrirkomulaginu á þann hátt að ekki sé heimilt að greiða meira úr ríkissjóði en ákveðið hefur verið í fjárlögum og viðbótarfjárheimildum sem samþykktar eru fyrirfram af Alþingi. Því þyrfti að ákveða með hvaða hætti framlög sem sérlög ákvarða hærri en fjárlög skerðast áður en til greiðslu þeirra kemur. Einnig gerir þetta kröfu um aukin gæði áætlana fjárlaga frá því sem nú er þannig að fjárlög gefi sem gleggsta mynd af útgjaldaþörf ríkisins.

Það er gríðarlega mikilvægt að tekið verði til umræðu þegar farið verður að semja ný fjárlög hvar fjárlögin gilda og hvar ekki. Það er algerlega óþolandi að sett séu sérlög trekk í trekk sem ekki er hægt að hafa neina yfirsýn yfir hvað á að ráðstafa miklu fé úr ríkissjóði. Þannig er verið að skuldbinda ríkissjóð um ákveðnar heimildir sem ekki eru í fjárlögum og auðvitað gefur það skakka mynd af rekstri ríkisins.

Að þessu sinni fór fjárlaganefnd mjög ítarlega yfir frumvarpið. Var tekið úr því úrtak og fyrirspurnum beint til viðkomandi ráðuneyta. Þá var aðallega farið yfir þá liði sem sneru að svokallaðri 10% reglu sem á að virka með þeim hætti að maður má ekki færa fjárheimildir umfram 10% á milli ára og safna síðan upp í það á að minnsta kosti þremur árum og mest 4% á ári. Það þarf að koma því í mikið fastari skorður en verið hefur, en eftir þessa yfirferð með fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun fannst mér að það hefði svo sem flest verið útskýrt en auðvitað þarf að reyna að takmarka þetta eins mikið og hægt er og þetta á að heyra til undantekningartilfella.

Það var hins vegar einn liður sem kom fram í þessari yfirferð og skoðun í hv. fjárlaganefnd og vakti athygli okkar en þar var lagt til að auka útgjöld um 28 millj. kr. og við það gerum við alvarlegar athugasemdir. Í raun og veru er það algerlega óþolandi og ólíðandi að búið sé að ráðstafa peningum árið 2010 sem Alþingi er að taka ákvörðun um við afgreiðslu lokafjárlaga í maí 2012. Það eru ekki boðleg vinnubrögð, virðulegi forseti.

Í ljós kemur að gert er ráð fyrir 28 millj. kr. í lokafjárlögum til stuðnings við fiskeldi. Forsaga málsins er sú að í frumvarpi til fjárlaga 2008 segir að myndast hafi sjóður sem nemi 170 millj. kr. og er því lagt til að honum verði öllum varið til rannsókna og þróunar á fiskeldi. Fyrrgreindar 28 millj. kr. eru vaxtatekjur sem safnast hafa fyrir á reikningum. Að fjármálaráðuneytið skuli nú leggja til við Alþingi að heimildir liðarins verði auknar samsvarandi sýnir að Alþingi heimilaði einungis 170 millj. kr. útgjöld á sínum tíma. Að mati minni hlutans hefði átt að skila vaxtatekjum til ríkissjóðs. Fjárheimild var sótt til Alþingis eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf loforð um styrkveitingar út á hana. Minni hlutinn telur ófært að framkvæmdarvaldið sæki um fjárheimild svo löngu eftir að útgjöld hafa verið ákveðin, það feli í sér óeðlileg vinnubrögð að sækja um viðbótarfjárheimild á lokafjárlögum eftir að ríkisreikningur hefur verið áritaður.

Ég verð að segja fyrir mína parta, virðulegi forseti, að mér blöskra svo þessi vinnubrögð að það er best að segja sem minnst. Það er náttúrlega algerlega óþolandi að við skulum standa hér og rífast um fjárlög og fjáraukalög upp á einhverja 100 þúsund kalla eða jafnvel 1 eða 2 millj. kr. Framkvæmdarvaldið kemur þannig fram gagnvart þinginu að það tekur sér heimild til að ráðstafa 28 millj. kr. og gerir um það samninga sem Alþingi á að samþykkja núna. Svörin eru einfaldlega þessi: Það er búið að árita ríkisreikning og þetta eru lokafjárlög. Það er ekki svo gott að eiga við þetta og í raun er búið að taka fjárveitingavaldið af þinginu með þessum hætti.

Mín skoðun er sú að ef vilji Alþingis stæði til að taka á þessu vandamáli tel ég að það væri hægt af því að það er ekki búið að samþykkja þetta í lokafjárlögum þó að þetta sé staðfest í ríkisreikningi, lokafjárlög eru reyndar þingskjalið með ríkisreikningnum. Við slík vinnubrögð gerir minni hlutinn alvarlegar athugasemdir og ég tel að í raun komi framkvæmdarvaldið þarna aftan að þinginu með því að standa svona að málum.

Við fengum yfirlit úr ráðuneytinu yfir hvernig þetta er gert. Ég get ekki lagt mat á hversu mikilvæg verkefnin eru og það kemur verkefnunum sem slíkum ekkert við en eðlilegt hefði verið að tekin væri ákvörðun hjá þinginu áður en gengið var til þessara samninga. Það vekur óneitanlega athygli að einn aðili fær 63 millj. kr. á árinu 2009, 2010 og 2011, það er Landssamband fiskeldisstöðva og það vekur ákveðnar spurningar hjá mér af hverju það er gert á sama tíma og verið er að skera niður á heilbrigðisstofnunum. En eins og ég sagði hef ég engar forsendur til að meta málið til hlítar því að auðvitað hefði það átt að fá eðlilega meðferð í þinginu en ekki að fara með það eins og gert var.

Það kemur líka fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og minni hlutinn tekur undir það sjónarmið að hinn daglegu og lögbundnu verkefni Seðlabankans og rekstur félags um eignasafn fari illa saman. Þeim ábendingum er beint til Seðlabankans að hann íhugi hvort það sé ekki í þágu hagsmuna bankans að selja tilgreindar eignir félagsins eða félagið í heild til aðila sem sérhæfa sig í slíkri eignaumsýslu. Búið er að setja svokallað eignasafn Seðlabankans inn í hlutafélag og menn hafa áhyggjur af því því að það er auðvitað ekki hlutverk Seðlabankans og samræmist ekki starfi hans.

Í frumvarpinu er fjallað ítarlega um kosti og galla markaðra ríkistekna. Minni hlutinn telur að draga eigi úr þessari mörkun eins og kostur er. Minni hlutinn telur að meginstefna skuli vera sú að markaðir tekjustofnar renni í ríkissjóð en síðan eigi að veita fjárframlög öll á fjárlögum enda draga markaðar tekjur mjög úr fjárstjórnarvaldi Alþingis. Hjá fjárlaganefnd er hafin vinna við frumvarp í samstarfi við fjármálaráðuneytið þar sem lagt verður til að markaðar tekjur verði lagðar af. Þrátt fyrir þessa vinnu er enn verið að mæla fyrir frumvörpum sem ganga gegn þessum markmiðum.

Þá kem ég inn á orðaskipti hv. þingmanna Höskuldar Þórhallssonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þar sem fram kom að það væri dálítið sláandi fyrir hv. þingmenn í fjárlaganefnd að sjá að enn skyldi vera mælt fyrir frumvörpum sem gengju þvert á þá vinnu sem samstaða væri um í fjárlaganefnd. Þá hugsar maður með sér hvort hugur fylgi máli hjá framkvæmdarvaldinu að fara í þessa vinnu og smíða þetta frumvarp. Hægt er að lesa mjög ítarlega um það í lokafjárlögunum frá fjármálaráðuneytinu og í því sem kemur frá Ríkisendurskoðun. Það taka allir undir það sem verið er að gera en framkvæmdarvaldið mælir samt enn þann dag í dag fyrir frumvörpum sem ganga gegn þeirri vinnu. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn geri eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson benti á, að menn standi saman að því og það sé þá skuldbinding gagnvart framkvæmdarvaldinu um hvernig þetta skuli gert. Það mundi hafa þau áhrif sem til er ætlast því að markaðar tekjur í dag eru um 100 milljarðar í fjárlögunum, það eru um 20%. Það sem er verst við það og ekki er deilt um í hv. fjárlaganefnd eða fjármálaráðuneytinu (Gripið fram í.) er að staða stofnana er svo misjöfn. Það er mjög óréttlátt að þær stofnanir sem hafa markaðar tekjur fái inn sterka skattstofna og eru jafnvel með meiri útgjöld en gert er ráð fyrir í fjárlögum oft og tíðum á meðan aðrar þurfa að fara í niðurskurð og hafa ekki þessa stofna. Þá blandast sértekjurnar að sjálfsögðu inn í þetta líka. Viðkomandi stofnanir hækka kannski hjá sér gjaldskrána og taka fullt af sértekjum þar inn og þurfa á sama tíma ekki að skera niður á meðan stofnanir eins og til dæmis í heilbrigðisþjónustu geta ekki gert það. Ég get rétt ímyndað mér umræðuna hvort heldur á þinginu eða úti í þjóðfélaginu ef heilbrigðisstofnanir tækju ákvörðun um að hækka innritunargjöld eða komugjöld um kannski 500%, en það hafa ýmsar stofnanir gert. Þær hafa verið að hækka gjöldin allverulega til að skapa tekjur inn í reksturinn og blómstra á sama tíma og skorið er mjög harkalega niður í öðrum stofnunum. Það er auðvitað mjög bagalegt að svo sé.

Þetta fjallar fyrst og fremst um að maður hefur ekki fjárstjórnarvaldið á Alþingi. Maður getur ekki stýrt umfangi stofnananna vegna þess að tekjustofninn er þannig að mörkuðu tekjurnar koma inn og ef eitthvað kemur upp á er ekki hægt að bregðast við þeim áföllum og mun sem hugsanlega gæti orðið, sérstaklega ef munurinn er neikvæður. Ef mörkuðu tekjurnar skaffa ekki það sem ætlast er til fer verkefnið inn í fjáraukalög eða í lokafjárlög um hvernig reisa á viðkomandi stofnun eða rekstur við og það gengur ekki. Fjárstjórnarvald Alþingis er í raun og veru miklu minna og þess vegna er mikilvægt að þetta mál verði klárað í sátt og samstöðu. Það er mjög góður kafli í lokafjárlögunum frá ráðuneytinu um það hvernig standa á að þessu. Það er líka töluvert um það í skýrslu Ríkisendurskoðunar um það sem við höfum verið að ræða, þ.e. óréttlætið á milli stofnana, á milli þeirra sem þurfa að fara að fjárlögum og þeirra sem ekki þurfa þess. Það er kannski ágætt að rifja upp umræðu um Fjármálaeftirlitið við síðustu fjáraukalagagerð þar sem menn sögðu: Við erum með skattstofn sem við viljum fá og það eru 500 millj. kr. til viðbótar og þið hafið ekkert um það að segja. Þá er í raun og veru búið að taka fjárstjórnarvaldið frá Alþingi og auðvitað þarf að breyta því, ég tel ekki vera mikinn ágreining um það. Það sjá allir hversu mikilvægt það er. Það eykur þó ekki trúna á verkefninu þegar enn er verið að mæla fyrir frumvörpum sem gera ráð fyrir því að gengið sé á svig við það markmið sem unnið er að í fjármálaráðuneytinu og í hv. fjárlaganefnd.

Mig langar aðeins að fara yfir framlagningu lokafjárlaga og það þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um að við skulum núna vera að ræða lokafjárlög fyrir árið 2010. Við skulum ekki gleyma því að þegar lokafjárlög eru samþykkt er það í raun og veru upphafið að rekstri viðkomandi stofnana og viðkomandi málaflokka í upphafi árs 2011. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu vonlaus vinnubrögð það eru, eða ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir það, en þetta getur ekki gengið. Það sjá allir að það er vonlaust ef menn reka fyrirtæki og vita ekki stöðuna fyrr en einu og hálfu eða tveimur árum eftir að hún liggur fyrir, það getur ekki gengið.

Síðan þarf auðvitað að breyta meðferðinni. Það þarf að einfalda hana. Eitt af markmiðum þessa frumvarps, sem töluvert hefur verið rætt, er að það þarf að breyta færslu bókhaldsins þannig að menn sjái stöðuna eins og hún er á hverjum tíma og það þurfi ekki að taka allan þennan tíma. Til dæmis þarf að færa markaðar tekjur beint inn í ríkissjóð og síðan að setja allar stofnanir á fjárlagalið, þá verður þetta margfalt einfaldara, miklu skilvísara og gefur þinginu miklu meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast.

Síðan er frumvarp til lokafjárlaga í raun bara þingskjalið með ríkisreikningnum sem slíkum og það þarf auðvitað að taka til alvarlegrar skoðunar að þegar búið er að gera ákveðnar breytingar í lokafjárlögum, þ.e. lokafjárlögin eru í raun og veru farin að virka sem aukafjáraukalög en þau eru oft gerð tveimur árum eftir að búið er að eyða fjárhæðunum. Og þó svo að þingið vilji bregðast við er kannski ekki svo hægt um vik vegna þess að búið er að ráðstafa fjármununum og það vita allir hvað það þýðir.

Ég ætla að aðeins að tala um vinnuumhverfið og yfirsýn hv. fjárlaganefndar og þingsins yfir ríkisfjármálin í heild sinni í ræðu minni um lokafjárlögin. Þar er mikið verk að vinna og sést kannski best á því að hér er verið að ræða lokafjárlög sem þýðir að afkoma ríkissjóðs er í rauninni 23 milljörðum verri en gert var ráð fyrir. Hér eru tveir hv. þingmenn í salnum og forseti þingsins sem situr í sínum stól. Það segir okkur líka kannski töluvert um þau vinnubrögð sem við þurfum að breyta. Meiri hluti hv. fjárlaganefndar fór til Svíþjóðar og skoðaði vinnubrögðin þar. Af því þurfum við að læra, þeim aga sem þar er í ríkisfjármálum því að við erum núna til að mynda að fjalla um veikleikann í fjárlögunum og þar eru töluvert stórar upphæðir á ferð.

Ég vék að því í máli mínu og það hefur komið fram að stærsta breytingin í fjárlögunum og umframkeyrslunni á árinu 2010 voru 32 milljarðar til Íbúðalánasjóðs. Núna liggur fyrir að væntanlega þarf að setja 10, 11, 12 milljarða inn í Íbúðalánasjóð á árinu 2012 til að rétta af eiginfjárhlutfall hans og síðan eigum við eftir að fá úrskurðinn gagnvart yfirfærslunni á SpKef yfir í Landsbankann. Fyrir utan 4,5 milljarða sem eru í útgjaldaukningunni í framkvæmd fjárlaga gætum við hæglega farið í 25–30 milljarða. Afkoma ríkissjóðs á þessu ári útgjaldalega séð gæti orðið þannig. Það er grafalvarlegt mál og er ekki deilt um mikilvægi þess að ná tökum á ríkisfjármálunum til að við þurfum ekki að borga þessa blóðpeninga í vexti. Ég vil líka minna á og það deilir enginn um það að þetta er mikilvægasta verkefni stjórnvalda í þessum efnum. Þá er líka mjög mikilvægt að menn átti sig á því að auðvitað þurfa uppfærðar upplýsingar sem verið er að vinna með að liggja fyrir og að ekki séu teknar ákvarðanir sem ganga þvert á það markmið þingsins að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er auðvitað grafalvarleg staða ef fjárlagahallinn verður mikill. Auðvitað vona ég að það verði ekki en því miður blikka viðvörunarljós yfir okkur og það er mikilvægt að á því sé tekið.

Þegar talað er um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum ætlum við að ná þeim jöfnuði að við eigum fyrir rekstri og vöxtum. En þá gleymist oft í umræðunni eða kemur alla vega ekki nógu oft fram að við eigum eftir að borga af lánum okkar, það er mikilvægt að við höfum afgang til þess að greiða niður lánin. Auðvitað getur maður ekki farið að tala um alvörurekstur á ríkissjóði fyrr en búið er að greiða niður þann stabba af lánunum sem nauðsynlegt er til að hægt sé að nota tekjur ríkissjóðs til að byggja upp þjóðfélagið og standa vörð um velferðarþjónustuna og heilbrigðismálin og þær grunnstoðir samfélagsins.

Ég vil nota síðustu mínútuna, virðulegi forseti, til að þakka öllum hv. þingmönnum í fjárlaganefnd og eins starfsmönnum nefndarinnar fyrir það góða og mikla samstarf unnið hefur verið við gerð þessa frumvarps til lokafjárlaga. Auðvitað blandast þetta saman þar vinnan við ríkisreikninginn, sem er nánast sama plaggið þó að það stemmi kannski ekki alveg, er unnin samhliða. En eins og ég hef áður sagt er frumvarp til lokafjárlaga bara þingskjalið. Þar hefur verið mjög góð samvinna og mikill vilji allra hv. þingmanna til að gera breytingar. Við megum hvergi slaka á í þeim efnum. Auðvitað er mikilvægt að við veitum framkvæmdarvaldinu aðhald og gerum því grein fyrir að þetta sé vilji þingsins ef það verður niðurstaðan. Það er alla vega vilji hv. fjárlaganefndar að framkvæmdarvaldið virði og vinni eftir því sem lagt er fram og hætti að fara gegn yfirlýstri stefnu og vinnu fjárlaganefndar, til að mynda með því að leggja fram frumvörp sem ganga í berhögg við það sem rætt er um og stefnt er að.



[16:50]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessari umræðu. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar að því áðan hvort hún væri reiðubúin að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd mundi öll leggja fram breytingar á fjárreiðulögum og fékk því miður neikvætt svar.

Hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni að í raun væri með nýjum fjárreiðulögum verið að minnka áhrif og völd ráðuneyta og ríkisstofnana, eins og ég skildi ræðu hans, þ.e. það hafa verið misbrestir og margt þyrfti að laga. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann og Sjálfstæðisflokkurinn sé reiðubúinn að taka þátt í samstarfi þar sem allir flokkar mundu leggja fram breytingar á fjárreiðulögum og sú vinna yrði unnin í sumar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði gert og ég held í raun eina ráðið til að styrkja þessa lagagerð til langframa, eins og þingmaðurinn kom að í ræðunni.

Ég óttast líka að í öllu havaríinu næsta haust, þegar ný fjárlög verða lögð fram, muni þessi nýju lög lenda milli stafs og hurðar. Jafnvel þótt við mundum fresta þeim fram yfir áramót tel ég engar líkur á því að ráðist verði í róttækar breytingar korteri fyrir kosningar.



[16:52]
Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það náist sátt og breið samstaða um að breyta fjárreiðulögunum og sérstaklega líka lögum sem snúa að mörkuðum tekjum. En mér hefur ekki fundist skorta á í fjárreiðulögunum — það skortir reyndar á gagnvart mörkuðu tekjunum, það þarf að taka þær út. Við höfum séð fullt af athugasemdum í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem sagt er: Forsætisráðherra gekk gegn fjárreiðulögum. Við höfum fengið slíkar ábendingar í skýrslum Ríkisendurskoðunar. Það þarf auðvitað að láta framkvæmdarvaldið fara eftir lögunum og að það taki ekki þessar ákvarðanir fyrir utan þingið, eins og við hv. þingmaður þekkjum báðir.

Þau vinnubrögð eru því miður ekkert nýmæli. Maður þarf ekki að lesa mörg fjárlög til þess. Ég gerði það fyrst eftir að ég kom inn á þingið 2009, þá las ég nokkur fjárlög aftur í tímann til að reyna að átta mig á þessu og svona hafa vinnubrögðin verið. Það endurspeglast líka oft og tíðum í vinnu hv. fjárlaganefndar. Við þurfum að stíga þetta skref og láta finna meira fyrir okkur. Við þekkjum umræðuna um þingsályktunartillöguna sem hv. fjárlaganefnd flutti öll um aðgang að upplýsingum. Það hefur ekki gengið mjög vel, við fáum að fara inn í einhverjar skýrslur og eitthvað slíkt. Það þarf auðvitað að efla sjálfstæði og starf nefndarinnar svo að við fáum það sem við viljum.

Svo er eitt dæmi um þessi vinnubrögð sem hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég, það er það sem ég hef kallað frystihalameðferð. Þá tekur framkvæmdarvaldið ákvörðun um að frysta hala á einhverri stofnun eða með ákveðnum skilyrðum en sú ákvörðun kemur aldrei á þingskjali inn í þingið. Hún er bara tekin í fjármálaráðuneytinu og viðkomandi fagráðuneyti um að gera það þannig og kemur aldrei fram sem þingskjal. Eitt af því sem við erum að fjalla um í lokafjárlögum núna er til að mynda sá hali sem er á Landspítalanum upp á 2,9 milljarða. Fyrir liggur að þeir hafi staðið sig mjög vel í rekstri á undanförnum árum og þeim er gert að skilyrði að halda sig innan fjárlaga og þá eru ekki dregnir frá þeim þessir 2,9 milljarðar.



[16:54]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skil ég hv. þingmann þá þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé reiðubúinn að leggja í þá vinnu? (ÁsbÓ: Já.) Já, gott. Þá er það staðfest. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það.

Ég held að það sé alveg rétt að þau vinnubrögð sem við viljum breyta eru ekki eitthvað sem aðeins þessi ríkisstjórn hefur stundað heldur hefur þetta viðgengist í mörg ár. Það gerðist hins vegar eitthvað haustið 2008. Hið sama gerðist fyrir 20 árum í Svíþjóð en þá breyttu menn þar fjárreiðulögum sínum og fóru að taka upp þann mikla og harða aga sem nú viðgengst í þeim efnum.

Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar kemur fram að nú séu lokafjárlögin lögð fram miklu fyrr en áður hefur tíðkast. Þau eru engu að síður lögð fram 22 mánuðum eftir að fjárlög eru lögð fram, sem er aðeins tveimur mánuðum betur en á árinu 2003. Það er kannski rétt aðeins fyrr en viðgekkst á árunum frá 2000, fyrir utan árið 2002 þegar það tók þrjú ár að leggja fram lokafjárlög. Það hafa vissulega verið stigin hænuskref og betra en engin þannig að við sjáum fram á þann aga sem við þurfum. Það sem ég óttast virkilega, fyrst þessar breytingar á lögum voru ekki lagðar fram núna í vor og við erum að klára að fjalla um þetta núna á þessu vorþingi, að þetta muni einfaldlega hvorki verða fugl né fiskur. Að mínu mati er útilokað að hægt verði að ræða þessar breytingar samhliða fjárlögum ársins 2013.



[16:56]
Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil alveg áhyggjur hv. þingmanns af því hve hægt þokast og get tekið undir það, mér hefur sjálfum oft fundist mikið talað og lítið gert, eins og stundum er sagt. Ég er þó ekki að deila á forustu hv. fjárlaganefndar, það má ekki skilja mig þannig.

Hv. þingmaður segir: Það kemur fram í meirihlutaálitinu að lokafjárlögin eru lögð fram fyrr nú en áður, en ég held að við eigum ekki að staldra við það. Ég held að við eigum bara að reyna að koma í gagnið þessum breytingum og verklagi sem við höfum rætt í hv. fjárlaganefnd og engar deilur eru um. Og eitt af því sem nú er rætt, nú veit ég ekki hvort það muni ganga eftir, er að stefna að því að árið 2013 verði lögð fram fyrstu rammafjárlögin, taka umræðuna um þau og marka rammana og vera þá ekki í þessum æðibunugangi á haustin.

Hv. þingmaður kom inn á þær breytingar sem urðu í Svíþjóð í kjölfar kreppunnar þar fyrir um 15–18 árum. Það stendur auðvitað upp úr þeirri ferð til Svíþjóðar sem við vorum saman í, ég og hv. þingmaður, þessi agi þar í fjárlögunum. Við erum til dæmis að ræða hluti í lokafjárlögum fyrir árið 2010 sem engum í Svíþjóð dytti í hug að gera eins og gert er í þeim, engum. Ég man eftir því þegar maður var að spyrja þessa ágætu þingmenn, starfsmenn þingsins og starfsfólk stofnana og ráðuneyta, um þessi mál og spurði: Hvernig er staðið að því þegar stofnanir fara fram úr eða þegar lögð eru fram lokafjárlög? Þá skildu menn ekkert um hvað maður var að tala því að þetta þekkist ekki þar. Það er ákveðin „böffer“, ef ég má nota það orð, eða svigrúm í fjárlögunum og því er ekkert breytt, það er bara þannig. Það er auðvitað slíkur agi sem við þurfum til að geta sett okkur langtímamarkmið í ríkisfjármálum í stað þess að vera alltaf með ár fram í tímann. Svo er deilt um afkomu ríkissjóðs en í raun sjáum við hana ekki fyrir löngu seinna, jafnvel ári, einu og hálfu ári eða tveimur árum seinna hver niðurstaðan var (Forseti hringir.) og það er auðvitað algerlega óásættanlegt.



[16:59]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið við gerð þessara lokafjárlaga. Í áliti minni hlutans segir að unnið hafi verið ítarlega að þessu frumvarpi og ég held að það sé rétt. Hins vegar er fullyrt í áliti meiri hlutans að nefndin hafi farið yfir frumvarpið með mun ítarlegri hætti en oftast áður. Ég veit hreinlega ekki hvort sú er raunin vegna þess að þetta er ekkert rökstutt. Ég veit að það hefur verið farið ítarlega yfir það en ég óttast að svona ummæli hjálpi ekki í því verkefni sem er fram undan vegna þess að ég efast ekki um að þeir sem hafa setið í fjárlaganefnd á undan okkur hafa líka staðið sig vel þó að þeir hafi kannski ekki séð hætturnar sem við stöndum frammi fyrir núna. Það gerðist nefnilega haustið 2008 að hér varð hrun og það varð ekki bara bankahrun, það er hinn stóri misskilningur í þessu öllu saman, það varð líka annars konar hrun og það hrun snýr að útgjaldaþenslu ríkissjóðs.

Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem tók til starfa árið 2007 voru ríkisútgjöldin aukin um 20% á mestu þenslutímum í sögu þjóðarinnar. Ég held að það hafi líka átt sinn þátt í því að hér varð mikið hrun og að tekjur ríkissjóðs hafi dregist saman eins og raun ber vitni. En það sem átti að gerast við hrunið var að viðhorfsbreytingin átti að eiga sér stað þá, því ef ekki þá, hvenær?

Við erum sammála um það sem sitjum í fjárlaganefnd að það verklag sem tíðkast nú og hefur viðgengist um árabil er öllum flokkum um að kenna. En núna átti viðhorfsbreytingin að eiga sér stað og að mínu mati átti að vera búið að ráðast í breytingar á fjárreiðulögum. Það var ekki bara Icesave og öll umræðan þar í kring sem gerði það að verkum heldur líka ítrekuð álit frá Ríkisendurskoðun sem benti á að fjárstjórnin væri með þeim hætti að hún þyrfti nauðsynlega að breytast. Lögð hafa verið fram álit, ekki bara frá minni hluta heldur líka meiri hluta, þar sem vandinn er viðurkenndur, tekið er eftir honum og hvatt er til breytinga, en það hefur lítið sem ekkert þokast.

Verst finnst mér í umræðunni þegar þeir sem halda um stjórnvölinn í dag réttlæta núverandi agaleysi með vísun í agaleysi fyrri ára. Það er skref aftur á bak, við komumst ekki upp úr hjólförunum með þeim málflutningi. Ég verð því að viðurkenna að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum þegar fram kom í áliti meiri hlutans að þetta lokafjárlagafrumvarp hafi verið lagt fram mun fyrr en áður hefur verið gert. Í frumvarpinu er tafla sem á að sýna fram á þetta. Það munar tveim mánuðum á árunum 2003 og 2010, þ.e. frá því að frumvarp til fjárlaga er lagt fram og þangað til lokafjárlög liggja fyrir. Þetta eru 22 mánuðir núna en voru 24 árið 2003 og reyndar árið 2005 líka, 27 mánuðir 2009, 26 mánuðir 2008, 29 mánuðir 2007, 2006 27 mánuðir, 24 mánuðir 2005, eins og áður hefur komið fram, og 27 mánuðir 2004. Árin 2002 og 2000 skera sig úr en þar er tímalengdin annars vegar 35 mánuðir og hins vegar 36. Ég held að við komumst ekkert áfram með fullyrðingum um að við stöndum okkur miklu betur en aðrir í fortíðinni. Við ætlum hins vegar að breyta því sem hefur farið aflaga og það er samstaða um það á Alþingi. Ég held hins vegar að ekki sé samstaða um það innan stjórnsýslunnar vegna þess að þá er stjórnsýslan að gefa frá sér vald, vald til að fara aðeins fram úr, taka til sín markaðar tekjur, hækka gjaldskrár örlítið og fleiri hluti sem bent hefur verið á. Ég tel þess vegna mikilvægt að fjárlaganefnd leggi fram nýtt frumvarp til fjárreiðulaga. Það skiptir öllu máli að frumvarpið komi frá Alþingi vegna þess að Alþingi ætlar sér að breyta lögum sem því miður hafa reynst Íslandi til óheilla.

Þetta frumvarp á að leggja fram í haust og fjalla um það samhliða framlagningu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013. Reynsla mín af fjárlagavinnu er sú að þetta er gríðarleg vinna, borgarafundir úti um allt land, það er skorið niður í heilbrigðismálum og umfjöllun og vinna á bak við það hefur þýtt gríðarlega mikla vinnu, fjölda funda, og að ætla sér að fara um leið yfir ný fjárreiðulög er að mínu mati ekki ráðlegt. Það gæti hins vegar farið svo að ekki náist að klára nýtt frumvarp til fjárreiðulaga vegna þess að fjárlögin fyrir árið 2013 verða í fyrirrúmi en hvað gerist næsta vor? Jú, þá verða kosningar og fyrir kosningar vinnast oft ekki stór mál á Alþingi. Það er í rauninni reynsla sem við ættum að læra af en ekki stefna að.

Í gær var utandagskrárumræða um aga í ríkisfjármálum. Ég fagnaði því að hún færi fram vegna þess að ég hafði sjálfur efnt til sambærilegrar utandagskrárumræðu fyrir nokkrum mánuðum. Í umræðunni var fullyrt að lyft hefði verið grettistaki í þessu máli. Ég held að það sé ekki rétt. Ég held hins vegar að það sé rétt að núna sé samhljómur um að breyta hlutunum. Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga þar sem allir flokkar lýsa sig reiðubúna til að breyta vinnubrögðum og koma að þeirri vinnu. Þetta er í rauninni í samræmi við þá skýrslu sem gerð var, rannsóknarskýrsluna eftir hrunið.

Það var líka fullyrt að þingsköpum hefði verið breytt til þess að efla starf fjárlaganefndar. Ég er ekki sannfærður um að það sé reyndin vegna þess að í þingsköpunum var ákvæði sem í raun kvað á um að fjárlaganefnd ætti að veita efnahags- og skattanefnd umsögn um tekjuhluta fjárlaga, ekki öfugt eins og hefur tíðkast í áraraðir. Það leiddi til þess að engin umsögn kom frá efnahags- og skattanefnd og umfjöllunin í fjárlaganefnd um tekjuhlutann, sem er helmingurinn af fjárlögum hvers árs, var nánast enginn. Nú veit ég, vegna þess að ég hef séð drög að breyttum þingsköpum, að þetta ákvæði verður tekið út, menn hafa séð að þetta voru mistök.

Það gerðist líka að safnliðir, svokallaðir, voru teknir úr fjárlaganefnd og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar fullyrti að það væri verið að útrýma kjördæmapoti. Ég held hins vegar að það sé rangt. Ég held að það muni viðgangast áfram en ég hef líka áttað mig á að það eru mismunandi viðhorf til þess hugtaks á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Þegar höfuðborgarþingmenn vinna fyrir sitt kjördæmi er það ekki kallað kjördæmapot en það á hins vegar við þegar við landsbyggðarþingmenn vinnum fyrir umbjóðendur okkar.

Hluti af safnliðunum var færður yfir í ráðuneytin og fullyrt var að þetta yrði unnið með faglegri hætti. Ég hef ekki séð nein rök á bak við þá fullyrðingu. Nú er þetta einfaldlega unnið þannig að starfsmenn ráðuneytisins, embættismenn, ráðstafa þessu fé. En hver ræður á endanum? Jú, það er ráðherra. Ráðherra hefur valdið, embættismenn hafa ekkert raunverulegt vald þannig að þegar allt kemur til alls tókst fjárlaganefnd að auka ráðstöfunarfé ráðherra, margfalda það í sumum tilfellum. Til að mynda hefur ráðstöfunarfé menntamálaráðherra verið nánast tífaldað.

Við ræddum það áðan að við hefðum farið í góða ferð til Svíþjóðar og hún var vissulega góð. Sænskur þingmaður sagði við mig í gamansömum tón: Höskuldur, eftir að við tókum upp aga í ríkisfjármálum fyrir um 20 árum gátu ráðherrar sett fé í ýmsa málaflokka eftir sínum hentugleikum. Þeir höfðu ráðstöfunarfé og gátu deilt því út í ýmis gæluverkefni. Við höfum séð það í gegnum tíðina þegar ráðherrar ljúka störfum eða þegar kemur að þingkosningum að gæluverkefni þeirra fá allt í einu ómælt fé, því miður. Og hann sagði: Hugsaðu þér hvað við vorum á vondum stað þegar þetta var raunin. Ég gat ekki hlegið að þessu, ég var nánast miður mín þegar ég uppgötvaði að þegar við áttum í rauninni að vera að auka aga vorum við á margan hátt að stíga skref í öfuga átt, og mér fannst það með eindæmum sorglegt svo ég taki ekki sterkar til orða.

Núna ríkir samstaða um að minnka hinar mörkuðu tekjur einstakra ríkisstofnana og, eins og ég skil umræðuna, leggja þær af. Framkvæmdarvaldið er hins vegar að leggja fram frumvörp sem miða að því að stofnun eins og RÚV fái sínar mörkuðu tekjur 100% og við deildum um það hér í desember að Fjármálaeftirlitið fengi um 500 millj. kr. aukningu út af mörkuðum tekjum sem áttu að renna í fjárlagaeftirlit.

Þá erum við kannski komin að kjarna málsins. Við komumst ekkert áfram ef núverandi meiri hluti ætlar að fullyrða hér, þvert á staðreyndir, að lyft hafi verið grettistaki hvað varðar aga í ríkisfjármálum. Í áliti meiri hluta fjárlagagnefndar eru nefnilega góðir sprettir. Þar eru góðir sprettir og margt gott og ég finn það á hv. formanni fjárlaganefndar að hún er öll af vilja gerð að breyta því fyrirkomulagi sem hér hefur verið við lýði. Ég held hins vegar að þegar við stöndum fyrir breytingum á fjárreiðulögum næsta haust gerist það sama og gerist oft með formenn nefnda á Alþingi, þeir þora ekki að fara gegn tillögum sem koma frá ráðherra úr eigin flokki og nú er það svo að bæði formaður fjárlaganefndar og fjármálaráðherra eru úr sama flokki.

Við höfum staðið frammi fyrir því ítrekað í fjárlaganefnd að forsvarsmenn stofnana fara fram úr þeim fjárheimildum sem þeir hafa. Ég tók eftir því að ritstjóri Fréttablaðsins, hinn ágæti Ólafur Stephensen, benti á það í leiðara að það væru í rauninni engin viðurlög við því þegar menn færu fram úr. Hann nefndi reyndar aðeins eina stofnun máli sínu til stuðnings en það eru fjölmargar stofnanir þar sem hægt er að sýna fram á hið sama. Nú er staðan þannig að 131 fjárlagaliður er með útgjöld sem eru umfram 4% af fjárheimildum. Það er grafalvarlegt mál.

Það sem ég held að verði að gerast er að við komum okkur saman um forsendurnar, eins og gert er í Svíþjóð. Við verðum að hafa umgjörðina þannig að það sé nánast enginn ágreiningur um þann hagvöxt sem verði á árinu, um verðbólgu, og þær grunnforsendur sem liggja á bak við fjárlagagerð hvers árs. Svíar og Norðurlandaþjóðirnar ræða þessi mál reyndar á vorin. Við ræðum þetta bara um leið og við ræðum útgjöld í fjárlögum. Ég tel algert grundvallaratriði að rammi fjárlaga eða sá peningur sem við ætlum að eyða liggi fyrir á vorin. Þetta skiptir öllu máli, virðulegi forseti.

Í Svíþjóð er þetta þannig að það hvarflar ekki að nokkrum einasta þingmanni að leggja til að settir verði peningar sem ekki eru til í einstök verkefni, hversu gott sem verkefnið er og göfugt. Sá hinn sami væri alltaf spurður að því hvar hann ætlaði að fá peningana. Þetta þýðir í rauninni að Svíar fara ekki í sólarlandaferðir nema þeir viti hvað þeir mega eyða í sólarlandaferðina og þegar þeir koma heim liggur þetta allt fyrir. Við förum í sólarlandaferð, Íslendingar, eins og staðan er núna, og höfum ekki hugmynd um hvað við höfum mikla fjármuni til að eyða, og eins og gengur og gerist fer það stundum úr böndunum og menn fara fram úr sér, eins og hefur kannski tíðkast með Íslendinga í sólarlandaferðum, og svo taka menn á því þegar komið er heim og vinna myrkranna á milli til að láta enda ná saman. Það gerðist hins vegar í október 2008 að þetta var ekki lengur hægt vegna þess að ríkissjóður var tómur. Nú er staðan þannig að skuldastaðan er um 100% af vergri þjóðarframleiðslu, sem er grafalvarlegt mál. Sumir segja reyndar að það sé mun meira og að við höfum ekki tekið til greina atriði sem gera skuldastöðuna enn verri.

Ég læt þetta nægja í bili. Ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir samstarfið við þetta nefndarálit og vona að samstarfið verði áfram gott.



[17:19]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hér áðan var reyndar minnst um dagskrárliðinn lokafjárlög heldur fabúleringar um fjárlög og vinnubrögð og eitthvað sem er að bögglast í kollinum á hv. þingmanni, en aðrir eru ekki alveg með á nótum hvað er að gerast.

Hv. þingmaður sagði þó eitt. Hann sagði að stjórnsýslan streittist á móti, og bætti við síðar í ræðu sinni að formaður fjárlaganefndar mundi ekki standa sig í stykkinu þegar á reyndi. Formaðurinn mundi guggna, hann mundi bogna á endanum undan ráðherra úr eigin flokki þegar kæmi að því að breyta til frekar en gert hefur verið í vinnu við fjárlagagerð, væntanlega vinnu við lokafjárlög og ríkisreikning og annað sem snýr að fjármálum ríkisins. Þetta finnst mér stór orð.

Mér finnst að hv. þingmaður eigi að útskýra hvar í stjórnsýslunni sé verið að streitast á móti því að laga vinnulagið og ná tökum á ríkisfjármálunum. Eru það embættismenn og þá hvaða embættismenn? Ráðuneytisstjórar? Er það fólkið á dekkinu? Hvar í stjórnsýslunni er verið að streitast á móti? Eru að mati hv. þingmanns einhverjir þeirrar skoðunar, sem hann hlýtur að þekkja af eigin raun, að vilja ekki að hlutirnir lagist?

Einnig vil ég biðja hv. þm. Höskuld Þórhallsson að útskýra frekar en hann gerði áðan þá vissu sína að ágætur formaður fjárlaganefndar muni ekki standa sig í stykkinu þegar kemur að gerð fjárlaga í haust og breyttum vinnubrögðum, t.d. varðandi fjárreiðulög o.s.frv. Þar finnst mér ómaklega að formanni fjárlaganefndar vegið.



[17:21]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki að hv. formaður fjárlaganefndar mundi ekki standa sig í stykkinu. Ég sagði ekki að hún mundi bogna eða svigna. Ég sagði hins vegar að reynsla mín úr þinginu væri þannig að formenn nefnda vildu ekki ganga fram gegn þeim tillögum sem ráðherrar, sérstaklega úr þeirra eigin flokki, legðu fram. Það er afar erfitt að svara svona fullyrðingum sérstaklega þegar ekki er rétt með farið.



[17:22]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Formaðurinn mun ekki þora, var orðrétt það sem hv. þingmaður sagði áðan. Ég óska eftir því að hann útskýri betur hvort það eigi við sérstaklega um formann fjárlaganefndar og þá hvers vegna, hvað í fari hv. formanns og hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur bendir til þess að mati þingmannsins að hún muni ekki þora þegar á reynir.

Eins og ég sagði áðan fjallaði hv. þingmaður minnst um lokafjárlögin sem eru þó ágætisniðurstaða og vísbending um hver undirliggjandi rekstur ríkisins var á árinu 2010, mjög góð vísbending um að rúmu ári eftir hrunið „svokallaða“, sem margir vilja nú kalla, hafi undirliggjandi rekstur og raunverulegur rekstur ríkissjóðs verið með ágætum. Hann skilaði yfir 10 milljarða afgangi frá því sem áætlað var. Raunverulegur rekstur ríkisins gerði það. Það sýnir að þær áætlanir sem við settum okkur fyrir fjárlög 2010, eftir að hafa rifið upp gildandi fjárlög á miðju ári 2009, stóðust og gott betur þrátt fyrir stanslausar hrakspár um annað, um að þetta mundi ekki ganga og við mundum ekki standa okkur. Annað hefur komið í ljós. Hv. þingmaður á líka að vera minnugur þess að jafnvel þótt við séum væntanlega nú í síðasta skipti að ræða um fjárlög án þess hafa gildandi rammafjárlög til að miða okkur við, því eins og hv. þingmaður veit mun það vera tekið upp á næsta ári, erum við samt að vinna eftir ákveðinni efnahagsáætlun, ákveðnum ramma sem við settum okkur í samstarfi við aðrar þjóðir. Hann erum við að halda að langstærstum hluta og miklu betur en nokkurn mann óraði fyrir.

Við erum ekki í sólarlandaferð upp á krít í þessum stjórnarmeirihluta. Við erum ekki í þeim hópi sem kemur við afgreiðslu fjárlaga á hverju hausti og hvetur til aukinna útgjalda heldur þvert á móti.



[17:24]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara niður á sama plan og hv. þingmaður er gjarnan og mig langar að segja að það er ekki möguleiki að hann nái að spilla því góða samstarfi sem hefur ríkt á milli mín og formanns fjárlaganefndar. Ég benti á áðan hvernig þetta hefur legið fyrir mér, og ég vil kannski taka það fram að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra átti sér einhvern þann harðasta talsmann sem núverandi varaformaður fjárlaganefndar er. Að mínu mati hefur aldrei fyrr í sögu Alþingis fundist jafnharður talsmaður síns ráðherra og varaformaður fjárlaganefndar.

Mig langar að taka fram að ég sagði ekki að hv. formaður fjárlaganefndar mundi ekki þora. Ég benti hins vegar á þau skref sem þyrfti að hræðast.

Hér er fullyrt að ég hafi hvatt til útgjaldaaukningar. Ég veit ekki betur en ég hafi lagt til minni útgjöld, t.d. hvað heilbrigðismálin snertir. Af hverju fer hv. þingmaður ekki rétt með hvað það snertir? Svo hlær hann eins og þetta sé í lagi. Þetta er bara ekki umræða, hv. þm. Björn Valur Gíslason, sem er þinginu til sóma. Þetta eru einfaldlega rangar fullyrðingar.

Mig langar líka að segja að á árinu 2008 lagði Framsóknarflokkurinn til að það yrði ekki 20% útgjaldaaukning á ríkisfjármálum. Það er svo rangt sem haldið er fram að áætlanir þessarar ríkisstjórnar standist. Við höfum bent á í áliti minni hlutans að frumjöfnuðurinn er um 5,5% verri en áætlanir gerðu ráð fyrir (Forseti hringir.) sem er bara skelfileg niðurstaða, virðulegi forseti.

Ég ætla að segja eitt að lokum, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) ég átta mig á því að tíminn er runninn út, ég hvet til áframhaldandi jákvæðs samstarfs (Forseti hringir.) þótt ég skynji það að ekki séu allir í meiri hlutanum reiðubúnir til þess.



[17:27]
Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Forseti vill brýna fyrir hv. þingmönnum að virða þau tímamörk sem gefin eru í umræðunni.



[17:27]
Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Út af orðaskiptum hv. þingmanna áðan vil ég segja að það er mikilvægt að við tölum af raunsæi og horfum af raunsæi á rekstur ríkissjóðs. Niðurstaðan fyrir árið 2010 er með þeim hætti að í raun og veru er afkoman 22,7 milljörðum verri en gert var ráð fyrir. Það er bara staðreynd. Það var gert ráð fyrir að frumjöfnuður yrði tæpir 100 milljarðar, eða 98,8 milljarðar svo að ég sé nákvæmur, en niðurstaðan er hins vegar 123,3 milljarðar. Það er auðvitað mikilvægt að við ræðum þetta út frá staðreyndum þannig að við áttum okkur á viðfangsefninu, þ.e. hversu mikilvægt það er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Það er ekki vandamál að finna verkefni til að eyða peningum í, séu þeir til, en við megum ekki detta niður í umræðu þar sem menn koma og segja: Við náðum alveg frábærum árangri — þegar tölurnar og staðreyndirnar eru með allt öðrum hætti. Það er mjög mikilvægt að við horfum raunsætt á vandamálið.

Gert var ráð fyrir, eins og kemur fram í minnihlutaálitinu um skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, að fyrir árið 2010 yrði tekjujöfnuður neikvæður um 3% af landsframleiðslu en hann varð hins vegar neikvæður um 5,5%. Við verðum auðvitað að horfast í augu við þetta. Svo getum við greint og rætt það hvað varð í raun og veru þess valdandi að þetta gerðist. En það eru ofboðslega mörg viðvörunarljós sem blikka og við megum ekki og eigum ekki að gera lítið úr þeim.

Aðeins út af umræðu milli hv. þingmanna áðan, ég ætla svo sem ekki að staldra við hana sjálfa, en í allri hv. fjárlaganefnd er sameiginlegur skilningur, samvinna og samstarf við fjármálaráðuneytið og þá starfsmenn sem sinna þessum málum þar. Aðalatriðið að mínu viti er að efla fjárstjórnarvald og fjárstýringarvald þingsins gagnvart verkefninu sem við erum með. Það sem ég var að tala um áðan og fór yfir og kemur fram í minnihlutaálitinu, sem ásamt mér undirrita þrír aðrir hv. þingmenn, Kristján Þór Júlíusson, Höskuldur Þórhallsson og Illugi Gunnarsson, er að gert er ráð fyrir því í fjárlögum að rekstur ríkisins kosti 560 milljarða en niðurstaðan er hins vegar 602, ónýttar fjárheimildir eru færðar á milli ára og síðan er halli upp á tæpa 23 milljarða. Við verðum því að vanda okkur. Það þarf að efla fjárstýringarvaldið, taka mörkuðu tekjurnar inn í ríkissjóð og setja hverja einustu stofnun inn á fjárlagalið. Við höfum nefnilega tækin til að bregðast við þegar viðkomandi stofnanir keyra fram úr. Við erum t.d. nýbúin að fá kynningu frá fjármálaráðuneytinu á þeim ábendingum og mati ráðuneytisins og eins og ég hef sagt er að mínu mati boltinn hjá okkur í hv. fjárlaganefnd. Á næsta fundi nefndarinnar verða einmitt viðkomandi ráðherrar kallaðir inn og spurðir út í það hvers vegna þeir hafi ekki brugðist við með þeim hætti sem til er ætlast. Þetta tvennt er mjög mikilvægt að verði gert, annars vegar að færa mörkuðu tekjurnar í ríkissjóð og að allt fari inn á fjárlagalið og hins vegar að fylgja því eftir og fá betri aðstöðu til að fylgjast með og fara í þá greiningarvinnu á fjárlögum sem við þurfum að gera.

Það sem ég hef vakið athygli á og komst ekki yfir í fyrri ræðu minni áðan og ætla að gera núna er það að mikilvægt er að við áttum okkur á því — auðvitað vil ég þakka bæði Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytinu og þeim sem hafa komið að þessari vinnu og aflað upplýsinga sem óskað var eftir — að í frumvarpi til lokafjárlaga, sem er lagt fram af hæstv. fjármálaráðherra og skrifað af starfsmönnum hans í fjármálaráðuneytinu, er samhljómur þar sem textinn í frumvarpinu tekur algerlega undir skoðanir og vinnu hv. fjárlaganefndar. Ég sé því ekki þær girðingar sem eiga að vera á milli framkvæmdarvaldsins annars vegar og þingsins hins vegar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við höldum þessari vinnu áfram og dettum ekki í þann farveg að pexa og rexa um eitthvað sem gæti hugsanlega truflað það.

Niðurstöður í kaflanum frá fjármálaráðuneytinu, sem er mjög góður og lagður fram af hæstv. fjármálaráðherra, eru nákvæmlega þær sem búið er að ræða um í hv. fjárlaganefnd. Ég ætla ekki að lesa úr frumvarpinu í heild sinni en bendi á að hv. þingmenn geta kynnt sér það vel og eiga að gera það. Þar eru niðurstöður ráðuneytisins með þessum hætti, þá erum við að fjalla um sértekjurnar og það er akkúrat sú umræða sem hefur farið fram í nefnd:

Ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum einungis teknar í fjárlögum og fjáraukalögum.

Eftiráheimildir í lokafjárlögum leggjast af. — Það er ein gagnrýni minni hlutans gagnvart þeim fjárveitingum sem verið er að úthluta í gegnum lokafjárlög, löngu eftir að búið er að ráðstafa þeim. Það er auðvitað algerlega óþolandi.

Óvissu eytt um það hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu. — Það er vitanlega meginmarkmiðið.

Útgjaldavöxtur í gegnum sjálfvirkt streymi ríkistekna til stofnana leggst af.

Einfaldar fjárlagagerð og reikningsskil stofnana, gerð ríkisreiknings og lokafjárlaga.

Styrkir og einfaldar fjármálastjórn ríkisstofnana og ríkisins í heild.

Styður við útgjaldamarkmið rammafjárlagagerðar.

Styður við fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis.

Þetta er skrifað af hálfu starfsmanna fjármálaráðuneytisins í umboði hæstv. ráðherra og þarna erum við algerlega sammála. Ég segi hins vegar aftur að það vekur ákveðnar áhyggjur að enn skuli unnið með öðrum hætti í einstaka ráðuneytum og það er auðvitað okkar verkefni að fylgja því eftir að þessi markmið gangi fram. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi markmið nái fram að ganga og þær breytingar sem verður að gera á rekstri ríkisins og ríkisfjármálunum og yfirsýn þingsins yfir ríkisfjármálin, eins það að hv. fjármálanefnd geti sinnt eftirlitsskyldu og eftirlitshlutverki sínu. Við megum því ekki hvika frá því að koma þessu fram. Samhljómur er milli ráðuneytis og nefndar og það gefur augaleið að við verðum að klára þetta verkefni.



[17:35]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari gefst ekki tími til að svara öllu sem að manni er beint. Mér tókst þó á nokkrum sekúndum að benda á að staða ríkissjóðs væri í rauninni mun verri en þingliðar meiri hlutans vildu vera láta.

Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom að þá var í fjárlögum 2010 gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ársins yrði neikvæður um 98,8 milljarða kr. en hann reyndist neikvæður um 123,3 milljarða samkvæmt ríkisreikningi 2010.

Frumjöfnuður samkvæmt ríkisreikningi er neikvæður um 84 millj. kr. eða 5,5%. Í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 var gert ráð fyrir að frumjöfnuður yrði neikvæður um 3% af landsframleiðslu. Eins og kemur skýrt fram í nefndaráliti okkar sem stöndum að því í minni hlutanum er þessi árangur í rauninni helmingi verri en upphaflega var stefnt að.

Mig langar að vekja athygli á skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum vegna þess að í þeirri skýrslu koma fram þau markmið sem ríkisstjórnin ætlaði sér að ná. Ég man eftir því þegar þessi skýrsla var rædd að sumum fannst markmiðin ekkert sérstaklega háleit. Undirliggjandi grunnur ríkisfjármála, atvinnulífið og íslenska krónan mundu gera það að verkum að við ættum að ná okkur fyrr út úr kreppunni en ríkisstjórnin vonaðist sjálf til. En jafnvel þó að markmiðin hafi verið lágstemmd hefur ríkisstjórninni ekki tekist að ná þeim og þar liggur hundurinn grafinn.

Mig langar að benda á töflu sem Hagstofan lagði fram þar sem verðbólgan átti að vera komin niður í 1,6% á þessu ári. Á síðustu 12 mánuðum hefur hún mælst yfir 6% sem sýnir í rauninni hversu langt ríkisstjórnin er frá því að ná þeim markmiðum sem að var stefnt. Síðasta haust áttaði ríkisstjórnin sig á því að hún mundi ekki ná fram þeim markmiðum sem hún setti sér varðandi heildarjöfnuð vegna þess að hún talaði í sífellu um frumjöfnuð, sem gefur ekki rétta stöðu til kynna því að þar eru fjármagnsliðir ekki teknir með í reikninginn, þá breytti hún markmiðum sínum. Nú eiga þessi markmið að nást á næstu árum og við höfum þá skýrslu einnig til grundvallar. En þegar kemur að því að dæma ríkisstjórnina, hvort hún hafi staðið sig vel eða illa, þá verður einmitt skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 lögð til grundvallar. Þar liggur hundurinn grafinn.

Það er líka ágætt að benda á, af því að við vorum að ræða aga í ríkisfjármálum þó að hv. þm. Björn Valur Gíslason vildi gera lítið úr þeirri umræðu, að agi er einfaldlega meginmálið. Við erum að reyna að koma á aga í ríkisfjármálum og við erum að athuga hvort það hafi tekist. Bæði skýrsla meiri hlutans og minni hlutans fjalla í rauninni um það hvort við höfum náð fram tilætluðum aga. Við verðum að horfast í augu við það þegar við skoðum þær skýrslur sem liggja fyrir að fjárheimildum er ekki alltaf skipt rétt innan ársins og þess vegna sýnir dreifing fjárheimilda ekki útgjaldadreifingu fjárlagaliða. Þetta skekkir umræðuna, virðulegi forseti, og gerir hana því miður ómarkvissari.

Fjármálaráðuneytið nefnir 36 liði á fjárlögum í veikleikamati og í því mati eru 25 með útgjöld umfram heimildir. Þetta veikleikamat er talið endurspegla raunverulega veikleikaþætti í rekstri. Nú hefur fjármálaráðuneytið sjálft sett sér viðmið, hið svokallaða 10% viðmið, sem er því miður ekki alltaf farið eftir. Það sem ég vil hins vegar benda á er að þetta eiga að vera lög frá Alþingi, þetta eiga ekki að vera viðmiðunarreglur sem ráðuneyti setur. Þetta á að liggja kýrskýrt fyrir í lögum.

Þá kem ég að því sem ég hef áður nefnt í umræðunni, að jafnvel þótt eftirlitshlutverkið sé á hendi Alþingis skiptir kannski ekki öllu máli að efla það ef við setjum ekki raunveruleg viðurlög við því að fara fram úr fjárheimildum hvers árs. Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli. Við ræddum það í fjárlaganefnd að þessi tæki vantaði einfaldlega og það að veita áminningu væri kannski það drastísk aðgerð að menn veigruðu sér við að fara þá leið. Þetta eru hlutir sem ég mundi vilja sjá í verðandi fjárreiðulögum og ég tel afar mikilvægt að við náum fram.

Það sem við verðum að horfast í augu við er að ráðuneytin hafa ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við veikleikum í rekstri. — Hv. þm. Björn Valur Gíslason bað mig að persónugera það fólk. Það geri ég aldrei, ég vil ekki persónugera það fólk, að sjálfsögðu ekki. — Ég ítreka að ég tel að framkvæmdarvaldið eða stjórnsýslan hafi allt of mikil völd umfram Alþingi. Það er ekki bara ég sem hef haldið því fram, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur það svart á hvítu að styrkja þurfi Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Samþykkt var þingsályktunartillaga af öllum flokkum um að þau skref yrði að stíga að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að sú styrking fari fram innan fjárreiðulaga vegna þess að hið raunverulega vald liggur, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, í fjárheimildum.

Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta mikið lengra í bili en mun að sjálfsögðu bregðast við fyrirspurnum ef þær koma.



[17:44]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hverju þingi hollt að hafa þingmenn sem eru gagnrýnir á framkvæmdarvaldið og sérstaklega hið fjármálalega vald hverju sinni, þannig að ég fagna þeim ræðum sem hv. þingmenn hafa haldið hér í dag. Það sem þeir eru að ræða um er vandamál sem menn hafa glímt við lengi.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson telur að ekki sé hægt að framfylgja hófstillingu og temprun framkvæmdarvaldsins nema með einhverjum hætti að koma böndum á þá sem fara með framkvæmd fjárheimilda Alþingis og hann talar um viðurlög. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig viðurlög telur hann að dugi til þess að koma böndum á hina bersyndugu, þ.e. þá sem þá væntanlega ár eftir ár fara fram úr sem stjórnendur ríkisstofnana? Ég vildi gjarnan fá að skyggnast ofan í hugardjúp hv. þingmanns um það mál.

Þá mundi hann kannski líka svara þeirri spurningu: Hver er ábyrgur fyrir því, gæti verið, ef allt er skoðað og menn leita aftur til upphafsins, að það kynni að vera Alþingi sem ekki tæki nægilegt tillit til þarfa sumra mjög þýðingarmikilla stofnana? Ég spyr hv. þingmann um það, því að þetta er ekki mjög einfalt mál þó að ég hafi samúð með málflutningi hv. þingmanns.

Svo segi ég honum að það er rangt hjá honum að ríkisstjórninni hafi gengið seint að komast út úr kreppunni, kreppan er frá. Hv. þingmaður hefur væntanlega séð hagspá Arion banka, sem ég veit að hann hefur mikla trú á, sem kom út í gær. Þar les hann það, samkvæmt greiningardeild bankans, að hagvöxtur á þessu ári verður að mati bankans 3%, 4% á næsta ári. Það er það hæsta sem þekkist í Evrópu. Það heitir nú að komast í gegnum kreppu, frú forseti.



[17:46]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Var þetta yfirlýsing frá hæstv. utanríkisráðherra um að kreppunni væri lokið, að ríkisstjórnin hefði náð böndum yfir ástandið í þjóðfélaginu og það væru engin vandamál eftir að leysa? Mig þætti gaman að heyra svar hæstv. ráðherra við þessu. Eins og ég minntist á áðan er verðbólgan í 6,4%, hvorki meira né minna. Það fjölgaði á vanskilaskrá Creditinfo um 1.500 einstaklinga. Þar eru hátt á 30 þúsund manns á vanskilaskrá.

Hæstv. utanríkisráðherra spurði mig hvernig ég vildi sjá heimildum beitt og notaði svo orðin „til að refsa“. Ég notaði ekki orðið „refsa“ í minni ræðu. (Gripið fram í.) Mér hefur þá misheyrst og þér líka. Það eru heimildir til staðar og ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Af hverju er þeim heimildum ekki beitt? Ég spyr sömu spurningar og ritstjóri Fréttablaðsins spurði í leiðara: Af hverju er þeim heimildum ekki beitt eða því áminningarkerfi sem er til staðar í stjórnsýslulögum þegar forsvarsmenn stofnana fara ítrekað fram úr fjárheimildum?

Ég lít ekki á þetta sem léttvægt atriði. Ég lít á þetta sem stórt vandamál vegna þess að agi í ríkisfjármálum endurspeglast þarna. Hann er lítill sem enginn og ítrekað koma fram skýrslur frá ríkisendurskoðanda sem segja að þar sé víða pottur brotinn. Ég veit vel að Alþingi ræður, ég átta mig alveg á því, en ég vil líka minna hæstv. ráðherra á það að þegar kreppan skall á stigu fram tvær þingkonur, sem voru í meiri hluta með hæstv. utanríkisráðherra, og sögðu að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa, þær væru hér (Forseti hringir.) einfaldlega til þess að stimpla gjörðir ríkisstjórnarinnar.



[17:49]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Nú veit hv. þm. Höskuldur Þórhallsson auðvitað að hann er að tala við ráðherra sem er yfir stofnunum sem hlutfallslega fæstar fara fram úr heimildum, af því að ég veit að hann þekkir fjárlögin. En þetta er ekki léttvægt mál fyrir mér, þetta er umræða sem ég hef tekið þátt í mjög lengi — mjög lengi með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem hér var á dögum með okkur einu sinni. Maður veltir því fyrir sér með hvaða hætti er hægt að beita eða afla heimilda til þess að reyna með einhverjum hætti að koma viðurlögum fram gagnvart þeim sem fara fram úr fjárlögum. Á þeim tíma veltu menn fyrir sér áminningu, já, og jafnvel uppsögnum. Það eru kostir og gallar við hvort tveggja.

Það sem mig fýsir að vita, af því að hv. þingmaður talaði af nokkrum þrótti um að það væri nauðsynlegt tæki að hafa viðurlög, hvers konar viðurlög er það sem hann telur að eigi að beita stjórnendur opinberra stofnana sem fara fram úr fjárheimildum? (Gripið fram í.) Ég er að veita andsvar, ég er að notfæra mér þann rétt sem þingsköp leyfa mér til að spyrja hv. þingmann út í ræðu hans. Hv. þingmaður talaði um viðurlög og mig fýsir að vita: Hver eru þau viðurlög sem hv. þingmaður vill beita til þess að ná fram því markmiði sínu eins og hann sagði ekki að refsa, heldur koma aga á ríkisfjármálin? Hver eru þau viðurlög sem hann telur heppileg til að beita gagnvart stjórnendum stofnana? Eru það áminningar? Mér fannst hv. þingmaður svara því játandi. Hvað ef þær duga ekki?



[17:51]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn liggur í því að ráðuneytin beita ekki þeim heimildum sem eru til staðar. Ég held að þar liggi vandinn fyrst og fremst. Það þarf einfaldlega að skýra þau valdboð sem eru nú fyrir hendi þannig að það liggi algerlega kýrskýrt fyrir hvað eigi að gera ef forstöðumaður stofnunar fer ítrekað fram úr fjárlögum. Í dag er staðan þannig að ekki er farið eftir þeim heimildum sem eru til staðar. Ef það er reyndin mun ekkert gerast.

Ef hæstv. utanríkisráðherra hefði komið fyrr og hlustað á ræðu mínu þá viðurkenndi þar ég fúslega að þessi umræða hefur staðið lengi og að vandamálið snýr ekki að einum flokki, það snýr að öllum flokkum. Þess vegna vildi ég að allir flokkar legðu fram breytingar á fjárreiðulögum. En ég ætla að ítreka þau orð mín að ef við breytum þessu ekki á þessu þingi munum við aldrei breyta því. Ég er þeirrar skoðunar.

Ég hef fulla trú á formanni fjárlaganefndar, jafnvel þó að einhver hafi reynt að gera lítið úr þeirri trú minni. (Utanrrh.: Ekki … og ég hef.) Jú, jú, örugglega sömu. Ég benti hins vegar á að reynslan væri sú að þegar frumvörp kæmu frá ráðuneytinu væri tregða til þess að fara gegn því sem ráðherrann hefði lagt til. Það þekkir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég veit að hann talaði um svokallað ráðherraræði þegar hann var hér í stjórnarandstöðu og mundi svo sannarlega vilja breyta því, og ég vona að hann hafi ekki skipt um skoðun þó að hann sitji hinum megin borðsins núna.