140. löggjafarþing — 103. fundur
 21. maí 2012.
öryggi lögreglumanna.

[15:23]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum sem betur fer sammála þjóðinni þegar kemur að mikilvægi lögreglunnar í samfélagi okkar. Lögreglan mælist vera sú stofnun sem Íslendingar treysta hvað best. Við höfum hér á þingi nokkur mál sem lúta í þá átt að styrkja lögregluna enn frekar og starfsumhverfi hennar.

Mig langar því að inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvort samhljómur sé á meðal okkar um að almennt þurfi að auka öryggi lögreglumanna við störf sín. Það sem ég er að velta fyrir mér er að við höfum heyrt af áhyggjum lögreglumanna af því þegar þeir eru jafnvel einir í bílum að sinna erfiðum útköllum eða mjög stórum svæðum. Allt tengist þetta að sjálfsögðu fjármögnun lögregluembættisins. Við sem erum mikið á ferðinni verðum vör við að minna sést til lögreglunnar en oft áður. Við sjáum það á þingmálum sem ég nefndi áðan að þingmenn hafa margir hverjir áhyggjur af þeirri þróun sem hefur orðið varðandi löggæslustörfin. Við höfum lagt fram tillögu um að farið sé í skilgreiningu á mannaflaþörf og fjármagnsþörf lögreglunnar. Því tel ég eðlilegt að inna ráðherra eftir því hvort hann taki undir þessar áhyggjur og hvort ekki sé fullkomin ástæða til að hraða vinnu við að skilgreina betur hver þörfin er fyrir mannafla og þá fjármuni sem þarf til að reka lögregluembættin. Við getum öll verið sammála um að óásættanlegt er að það sé einn lögregluþjónn á stóru svæði þar sem kannski tekur mörg hundruð kílómetra að keyra í útkall eða eitthvað þess háttar.

Að sjálfsögðu skiptir öryggi lögreglumanna líka miklu máli því að lögreglumaður sem er einn á ferð og þarf til dæmis að skakka leikinn (Forseti hringir.) í samkvæmi eða sinna einhverju slíku er kannski illa búinn til þess.



[15:25]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er vissulega verðugt mál að taka upp á Alþingi en við megum aldrei missa sjónar á því að borið saman við það sem gerist í öðrum löndum búa Íslendingar sem betur fer í öruggu og góðu samfélagi. Það er mergurinn málsins.

Hitt er annað mál að það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að lögreglan hefur þurft að sæta aðhaldi og niðurskurði eins og öll önnur opinber starfsemi á undangengnum árum vegna þess efnahagshruns sem reið yfir þjóðina. Það hefur að sönnu bitnað á lögreglunni eins og öðru en við erum sem betur fer að sjá til sólar að nýju. Annað er að við höfum notað tímann undanfarin ár og missiri til að leita leiða til að nýta fjármunina sem við höfum handa á milli á annað borð betur og á markvissari hátt. Út á það ganga þær skipulagsbreytingar sem eru í farvatninu og hafa verið kynntar á Alþingi í tveimur lagafrumvörpum, annars vegar frumvarpi um sýslumenn og hins vegar frumvarpi um lögregluna og skipulagsform lögreglunnar. Þau eru hugsuð þannig að við nýtum fjármuni betur innan stjórnsýslu lögreglunnar með það fyrir augum að geta haft fleiri lögreglumenn á vettvangi til að sinna útköllum og þjónusta borgarana.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að lögreglumenn séu ekki einir á ferð að sinna mjög stórum umdæmum. Það á einnig við á þéttbýlissvæðunum, það er mikilvægt að þeir séu fleiri en einn (Forseti hringir.) á ferð og hafi öryggi hver af öðrum.



[15:28]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við höfum búið og búum vonandi enn þá í frekar afslöppuðu og öruggu samfélagi en því er samt ekki að neita að samfélag okkar líkist sífellt meira og meira þeim samfélögum sem við þekkjum næst okkur. Ég nefni bara Norðurlöndin og önnur lönd varðandi glæpagengi og afbrot og allt sem tengist því. Þar af leiðandi höfum við reynt að leggja áherslu á þessi mál á þingi, t.d. með frumvörpum sem lögð hafa verið fram um auknar rannsóknarheimildir og tillögum um að fara í grundvallarskilgreiningar á mannaflsþörf og hvernig við viljum sjá lögregluna, og við höfum lagt fram tillögu um að banna hreinlega glæpagengi. Allt lýtur þetta að því að reyna að skapa þjóðinni betra umhverfi og lögreglunni betra starfsumhverfi. Við hljótum því að kalla eftir því að í fjárlögum næsta árs, en ég veit að þessa stundina er verið að vinna fjárlagamálið í ráðuneytunum, verði gert ráð fyrir því að hægt verði að veita aukið fjármagn til lögreglunnar (Forseti hringir.) til að hún geti eflst og til að hægt sé að fjölga lögregluþjónum þannig að öryggi þeirra sé ekki stefnt í hættu.



[15:29]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil að nýju taka undir með hv. þingmanni og segja að það er vilji ríkisstjórnarinnar og sem betur fer vilji Alþingis almennt að búa vel að lögreglunni þannig að hún geti sinnt störfum sínum sem best. Ég minni á að fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga frá allsherjarnefnd þingsins, flutt af öllum sem þar eiga sæti að ég hygg, og er þar fremstur í flokki Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, þar sem sérstaklega er lagt til að búið verði í haginn á komandi árum fyrir starf lögreglunnar og sérstaklega gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Þetta finnst mér vera til marks um þann þverpólitíska vilja sem er á þinginu til að taka af festu á þessum málum sérstaklega, þ.e. skipulagðri glæpastarfsemi sem hv. þingmaður vék að áðan.