140. löggjafarþing — 103. fundur
 21. maí 2012.
sérstök lög um fasteignalán.
fsp. EyH, 788. mál. — Þskj. 1326.

[15:40]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ber upp fyrirspurn til hæstv efnahags- og viðskiptaráðherra um hver sé afstaða hans til þess að setja sérstök lög um fasteignalán er skilgreina fjármögnun þessara lána, veðsetningarhlutföll, lengd lánstíma, greiðslumat, upplýsingagjöf til lántakenda og greiðsluerfiðleikaúrræði sem lánveitendur yrðu að veita.

Ástæðan fyrir því að ég vil taka þetta sérstaklega upp við hæstv. ráðherra er sú að ég tel fátt mikilvægara fyrir heimili, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið en að tryggja skynsamlegt og stöðugt umhverfi á fasteignamarkaði hér á landi. Að mínu mati er stór hluti af því að setja sérstök lög um fasteignalán sem taka á þeim þáttum sem ég nefndi. Undir þetta hafa ýmsir tekið eftir reynslu síðustu ára enda mjög margir brenndir eftir firringuna í fjárfestingum í húsnæði á Írlandi, Spáni, undirmálskrísuna í Bandaríkjunum og 100% plús lánveitingar til húsnæðiskaupa hér á landi. Eftir standa gjaldþrota bankar, fyrirtæki, ofskuldsett heimili og ríki.

Ýmsir hafa rætt um þetta, mikilvægi þess að tengja á milli annars vegar fjármálalegs stöðugleika húsnæðismarkaðs og síðan áhrif þess á peninga- og fjármálastefnu. Eitt af því sem menn hafa nefnt, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og á ráðstefnu á vegum sænska seðlabankans og líka í skýrslu sem kom frá okkar eigin seðlabanka, er að taka upp svokölluð þjóðhagsvarúðartæki. Þessum stjórntækjum er ætlað að draga úr ofvexti í fjármálakerfinu og oft í tengslum við aðrar hagstjórnaraðgerðir til að draga úr hagsveiflum. Kjarni þessara tillagna eru beinar takmarkanir á umfangi lánastarfsemi og auknar kröfur um eigið fé og laust fé fjármálafyrirtækja.

Dæmi sem gætu þannig tengst sérlögum um fasteignalán eru til dæmis hámark á hlutfall lána af veðhæfri eign líkt og hér er spurt um, hámark á hlutfall skulda af tekjum bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, hámark skuldsetningarhlutfalls miðað við eignir, hámark á aukningu lánveitinga og sérstaklega á lán tengd erlendri mynt, auknar kröfur um varúðarsjóði vegna lánveitinga, þar með taldar varúðarsjóðskröfur tengdar útlánavexti, takmarkanir á mismun í tímalengd á eignahlið og skuldahlið og síðan takmarkanir á vaxtaáhættu.

Ákveðin fyrirmynd hvað varðar fasteignalánalög gætu verið dönsku fasteignalánin og vona ég að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér þau lög. Þar má finna skýr ákvæði um hverjum megi lána til húsnæðiskaupa, hvernig þau eigi að fjármagna sig samkvæmt hinni svokölluðu jafnvægisreglu þar sem skuldabréfið endurspeglar fullkomlega íbúðabréfið, hvernig standa skal að mati á markaðsvirði viðkomandi fasteignar, hvert er hámarksveðhlutfall út frá markaðsvirðinu og hver er hámarkstímalengd þessara lána.

Því til viðbótar teldi ég eðlilegt að sett yrðu skilyrði um greiðsluerfiðleikaúrræði og upplýsingagjöf til lántakenda. Telur hæstv. ráðherra tímabært að hefja undirbúning að þess háttar löggjöf á Íslandi?



[15:43]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli sem er mjög gilt. Auðvitað er það svo að í kjölfar bankahrunsins hefur mikið verið rætt um endurbætur á regluverki fjármálakerfisins og auðvitað miðar allt að því að tryggja að þau dýrkeyptu mistök, hagstjórnar-, eftirlits- og skipulagsmistök eða hvað við viljum kalla þau, sem hrunið endurspeglar, endurtaki sig ekki. Að sjálfsögðu eru húsnæðislánin eða fasteignalánin og starfsemi Íbúðalánasjóðs mjög gildur hluti af þessu.

Nú er það svo með Íbúðalánasjóð að umgjörðin um hann er nokkuð í deiglunni, m.a. vegna athugasemda frá ESA sem nýlega hefur verið svarað, og það kann að ráða nokkru um hver nákvæmlega staða Íbúðalánasjóðs verður og hvernig honum verður afmarkaður bás í lánakerfinu. Sömuleiðis vil ég vitna í þá ágætu skýrslu sem við ætlum að ræða seinna í dag þar sem fjallað er nokkuð ítarlega um framtíðarskipan fjármálakerfisins og þessi mál reifuð. Það er nákvæmlega hárrétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta er náskylt mál og eiginlega hin hliðin á því sem er undir þegar menn ræða um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja fjármálastöðugleika og þjóðhagsvarúðarreglur.

Ef við horfum á þetta frá þeirri hlið sem snýr að neytendunum má líka minna á að á Íslandi hefur sú skipan mála verið við lýði að fasteignalán eru færð undir lög um neytendalán og hefur verið allt frá 2000. Frumvarp liggur nú fyrir þingi þar sem í raun og veru löggjöfin er útvíkkuð að þessu leyti og gerð fyllri á ýmsan hátt sem yrði að sjálfsögðu neytendum til hagsbóta og verndar að sjálfu sér. Þannig eru til dæmis þær reglur sem eru lagðar fram nú um lánshæfis- og greiðslumat og sú nýbreytni þess frumvarps að aðskilja og gera greinarmun á lánshæfismati og greiðslumati þar sem lánshæfismatið er víðtækara hugtak og tekur til hinna huglægari þátta auk hinna hlutlægu. Það má segja líka að lögin geri ráð fyrir að mótaðar verði samræmdar efnisreglur um hvernig slíkt greiðslumat fer fram. Þær hafa ekki áður verið færðar í laga- eða reglugerðabúning en meiningin er með frumvarpinu að það verði gert. Þó að menn hafi vissulega byggt þar á ákveðnu samkomulagi stjórnvalda og neytendasamtaka o.s.frv. og fjármálafyrirtækjanna, þá held ég að væri tvímælalaust bót að því að formfesta reglur um þetta. Það má nefna upplýsingagjöf í tengslum við auglýsingar og annað í þeim dúr.

Hafandi sagt þetta vil ég þó svara spurningunni alveg skýrt að ég ætla síður en svo að hafna að óathuguðu máli þeirri hugmynd að til viðbótar þessu og jafnvel til viðbótar því, verði það niðurstaðan, að setja rammalöggjöf um alla starfsemi fjármálafyrirtækja en það er ein af hugmyndunum sem reifuð er í skýrslunni og þá hafa menn auðvitað séð fyrir sér að í þeirri rammalöggjöf sem tæki til allra fjármálafyrirtækja, líka Íbúðalánasjóðs, og lánveitinga banka og sparisjóða til íbúðakaupa o.s.frv., gætu komið einhver sérstaklega fjármálastöðugleikaatriði af þessu tagi þar sem hægt væri í þágu þess að tryggja fjármálastöðugleika að setja tilteknar skorður í formi veðsetningarhlutfalla eða lengdar lánstíma, það hversu langur tími þyrfti að líða áður en vaxtakjör væru endurskoðuð á lánum o.s.frv. Slíkt gæti vissulega komið í slíka löggjöf en það breytir ekki hinu að það kann vel að vera ástæða til að fara yfir það og hafa það sem hluta af skoðun þegar menn eru með framtíðarskipan fjármálakerfisins undir í heildstæðri skoðun að hér ætti að setja sérstök lög um fasteignalán.

Eins og ég segi, ég vil svara spurningunni fyrir mitt leyti skýrt að því leyti að ég ætla síður en svo að hafna þeirri hugmynd vegna þess að ég sé alveg kostina við það að ná þannig ákveðnu samræmi á þessum markaði og vonandi hvoru tveggja í senn að tryggja betur stöðu neytenda, jafnvel umfram það sem við sjáum fyrir okkur að við séum að gera með því að fella fasteignalán undir lög um neytendalán, og um leið að innbyggja þjóðhagsvarúðar- og fjármagnsstöðugleikatæki í slíka löggjöf. Ég hef hugsað mér að láta það verða undir í þeirri skoðun sem vonandi verður í gangi í framhaldi af umræðum um þessa skýrslu og störfum sérfræðinganefndar þar um, ég hef ætlað mér að nota sumarið að einhverju leyti í það að sá þáttur málsins sem vakin hefur verið athygli mín á, m.a. af hv. fyrirspyrjanda og reyndar fleiri þingmönnum á undanförnum vikum, verði skoðaður sérstaklega.



[15:49]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það er jákvætt að heyra að ráðherrann vill alls ekki útiloka að þetta verði annaðhvort í þeirri almennu fjármálastöðugleikalöggjöf sem er boðuð í skýrslunni um framtíðarskipan fjármálakerfisins eða sett í sérlög og hann hefji þá vinnu að því.

Ég tel betra að hafa fasteignalán undir neytendalánum en hafa þau ekki þar. Kaup á fasteign er stærsta einstaka fjárfesting langflestra heimila. Ég held þess vegna að það sé mjög brýnt að við setjum skýrari ramma, jafnvel strangari kröfur til þeirra sem veita lán til þessarar stóru fjárfestingar en þeirra sem veita smálán eins og rætt hefur verið um, þ.e. að nýja frumvarpinu sé beint sérstaklega gegn smálánafyrirtækjum. Það skiptir miklu máli. Það skiptir ekki bara máli fyrir heimilin eins og við sáum í hruninu heldur skiptir það miklu máli fyrir fjármálalegan stöðugleika í íslensku efnahagslífi að hafa þetta mjög skýrt.

Þetta tengist að vissu leyti líka umræðunni um þau úrræði sem lífeyrissjóðunum er heimilt að veita þeim sem hafa tekið húsnæðislán hjá þeim. Það má alveg spyrja sig hvort eðlilegt sé að lífeyrissjóðir veiti húsnæðislán beint til sjóðfélaga sinna í ljósi þess að þeir eiga erfitt með að veita sambærileg úrræði og aðrir lánveitendur á fjármálamarkaðnum bjóða. Kannski er eðlilegra að þeir fjármagni eða kaupi frekar skuldabréf tengd þeim lánveitingum sem gætu þá fallið undir þess háttar löggjöf.

Ég nefndi líka að þó að ákveðin ákvæði séu varðandi greiðslumat eru til dæmis engin ákvæði (Forseti hringir.) um markaðsvirði, það eru engin ákvæði um hámarksveðhlutfall í neytendalöggjöfinni, engin lengd er á lánatíma og það eru svo sannarlega engar kvaðir varðandi fjármögnunina sem ég hef verulegar áhyggjur af út af stöðu bankanna núna og lánveitingum Íbúðalánasjóðs.



[15:51]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek eindregið undir að þörf er á því að fara yfir þetta allt, þó ekki væri nema í ljósi reynslunnar.

Auðvitað verður að segja það eins og það er, að við vorum nánast tekin í bólinu í þessum efnum komandi úr tiltölulega stöðugu kerfi þar sem Íbúðalánasjóður, áður Húsnæðisstofnun ríkisins, stýrði þessu í gegnum starfsreglur sínar og lög og var fjármögnunaraðili að uppistöðu til á fasteignamarkaði. Síðan brestur á með samkeppni þegar bankarnir ryðjast inn á þennan markað. Við þekkjum öll þessa sögu.

Nú spyrja margir: Er leikurinn að endurtaka sig með sókn bankanna inn á fasteignalánamarkaðinn með óverðtryggðum lánum? Það er sannarlega ástæða til að ganga þar hægt um gleðinnar dyr. Reyndar veit ég að Fjármálaeftirlitið mun fylgjast mjög grannt með því að bankarnir verði fjármagnaðir í samræmi við það sem þeir bjóða út á þessum markaði.

Ég vil taka það fram að lánasamningar vegna kaupa á fasteignum eru undanþegnir gildissviði tilskipunar Evrópusambandsins um neytendalán þó að við höfum valið aðra leið. Hins vegar er nú í bígerð að setja tilskipun um kaup neytenda á íbúðarhúsnæði og er hún til umfjöllunar innan Evrópusambandsins. Komi slík tilskipun þarf að sjálfsögðu að skoða hvort við ætlum að hafa reglur um kaup neytenda á fasteignum í almennum lögum um neytendalán eða setja sérlög í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir að alltaf verði hægt að velja hvora leiðina sem er. Því fylgdu ýmsir kostir að ná utan um þennan mikilvæga þátt sem er, eins og hv. fyrirspyrjandi nefnir, oftast stærsta einstaka fjárfesting fjölskyldna á ævinni.

Að lokum tek ég undir það að inn í þetta samhengi þarf að taka sjóðfélagalán eða fasteignalán lífeyrissjóðanna. Ég held að ég þurfi ekki að rökstyðja hvers vegna.