140. löggjafarþing — 104. fundur
 21. maí 2012.
ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, frh. síðari umræðu.
þáltill. meiri hl. stjórnsk.- og eftirln., 636. mál. — Þskj. 1019, nál. 1097, 1100 og 1101, brtt. 1028, 1098, 1099, 1102, 1103, 1104, 1105, 1106, 1107, 1110, 1113, 1130, 1248, 1354, 1355, 1356, 1357, 1358, 1359, 1375, 1376 og 1377.

[18:16]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem hefur verið nokkuð rætt í þinginu en þó kannski ekki sérstaklega lengi miðað við stærð málsins. Ótrúlega lítið hefur verið rætt um kjarna þessa máls, eða það sem þetta snýst um, fyrir utan þessar dyr. Ótrúlega lítið hefur í raun verið rætt um það sem er á ferð í þessu frumvarpi, um efnisleg atriði þeirra tillagna sem vera á með skoðanakönnun um.

Ég vil hvetja alla til að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs. Það hefði verið mun eðlilegra að við sjálf, þingheimur, hefðum byrjað á því að kryfja það inn að beini og kynna okkur hvað þær breytingar þýða, að ekki sé talað um að koma þeim upplýsingum til þjóðarinnar. Hvað þýðir 7. gr. í tillögum stjórnlagaráðs, að allir hafi meðfæddan rétt til lífs? Hvað þýðir það? Þýðir það að fóstureyðingar verði bannaðar? Það kæmi mér að minnsta kosti á óvart ef ekki yrði látið á það reyna fyrir dómstólum ef það ákvæði yrði sett inn í stjórnarskrá okkar Íslendinga.

Við erum einnig með ákvæði um heilbrigðisþjónustuna sem ég hvet ykkur til að skoða. Þar segir í 23. gr.:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Ég held að margir geti fært rök fyrir því að þeir fái ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Spurningin er þessi: Er hægt að ná því fram með því að fara í mál á grundvelli þess að þetta standi í stjórnarskrá og fá þá betri þjónustu? Það yrði grundvallarbreyting frá því sem nú er því þrátt fyrir að við Íslendingar séum með mjög háleit markmið í heilbrigðisþjónustu okkar, og þannig viljum við hafa það, þá er í lögum um heilbrigðisþjónustu fyrirvari um að fjármagn verði að vera til staðar hjá hinu opinbera til að hægt sé að uppfylla þær skyldur.

Gera á skoðanakönnun meðal þjóðarinnar og ég fer fram á það, virðulegi forseti, að hv. þingmenn stjórnarliðsins greini frá því hverjir hafa komið að gerð þessa spurningalista. Ekki verður annað séð en þessi spurningalisti geri allt annað en uppfylla þau skilyrði sem þarf að gera til slíkra skoðanakannana. Það er hægt að tína margt til. Það er í raun bara ein spurning sem er skýr. Það er alveg grundvallaratriði ef menn ætla að gera skoðanakönnun að spurningarnar séu skýrar og allir skilji þær með sama hætti. Fyrsta spurningin er til dæmis þessi:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Síðan eru tveir valmöguleikar:

„Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

og:

„Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

Virðulegi forseti. Tillögurnar eru 115. Gefum okkur að einhver hafi náð að kynna sér allar þessar tillögur stjórnlagaráðsins og sé mjög sáttur við 30 þeirra en sé einstaklega ósáttur við 15 — hvað á hann þá að kjósa? (TÞH: Sjálfstæðisflokkinn.) — Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson segir að hann eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er hárrétt en hvernig á hann að kjósa í þessari skoðanakönnun? Hvað þýða úrslitin í þessari skoðanakönnun ef við tökum bara þessa spurningu? Því hefur ekki verið svarað.

Hvað gerist ef 51% segir nei? Má þá ekki vera með neitt úr tillögu stjórnlagaráðs, bara ekki neitt? Og hvað ef 51% segir já? Hvaða tillögur af þessum 115 á þá að taka upp? Allar? Ég fer fram á það við hv. þingmenn stjórnarliðsins að þeir komi hingað upp og útskýri þetta því að þetta er kjarni máls.



[18:21]
Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Sú ræða fletti ofan af þeim blekkingaleik sem ríkisstjórnarflokkarnir standa fyrir ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar. Málið er nefnilega þannig vaxið að það er ekkert að marka þá skoðanakönnun sem á að fara í í haust vegna þess að hún er ráðgefandi og óbindandi fyrir stjórnvöld. Það skiptir því engu máli hvort 51% segi nei eða 51% já, stjórnvöld eru eftir sem áður óbundin af því að fara eftir tillögunum. En væri þetta hins vegar bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla mundu allar þær spurningar sem þingmaðurinn kom fram með skipta máli eins og til dæmis þessar vangaveltur um það hvernig fólk ætti þá að kjósa.

Kannski líkar fólki við einhvern hluta af tillögum stjórnlagaráðs en getur ekki hugsað sér annað og þá er enginn annar möguleiki gefinn en að segja já eða nei. Það er því ekki verið að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs eins og spuninn er keyrður nú í samfélaginu. Fólk getur ekki sagt álit sitt á því vegna þess að tillögur stjórnlagaráðs liggja einfaldlega ekki undir, ekki þessar tillögur sem eru rúmar 110 tillögur að lagagreinum.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kallaði líka eftir hinum svokallaða meiri hluta sem á að vera hér í þinginu. Ég vil benda á að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur gert þetta að baráttumáli sínu, tók sér frí frá þingstörfum á föstudaginn og verður í burtu í tvær vikur, einmitt þegar það mál sem hún hefur vaðið eld og brennistein fyrir, og eytt þúsund milljónum af skattfé landsmanna í, er til umræðu í þinginu. Þetta sýnir á hverju þetta mál er keyrt áfram, á þrjósku hæstv. forsætisráðherra og samnings við Hreyfinguna gegn því gjaldi að styðja ríkisstjórnina.



[18:24]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vek athygli á því að hér er ekki neinn stjórnarliði og ég spyr spurninga sem ég vil fá svör við. Við eigum rétt á að fá svör við þessum spurningum. Það er rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að þetta er skoðanakönnun, ekki bindandi, en það breytir því ekki að þetta er líka aðferðafræðilega rangt. Einhver kynni að segja: Er það ekki eitthvert tæknimál? Nei, spurningar verða að vera skýrar ef þú vilt fá fram vilja fólks.

Dæmi um skýra spurningu er 5. spurning:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Já eða nei — þetta er skýr spurning. Þetta er eina spurningin sem uppfyllir skilyrði um skýrleika og hér ættu allir að standa jafnt hvað það varðar að skilja spurninguna. Þegar við fáum niðurstöðu í þessa spurningu þá vitum við að 48% segja já og 52% nei eða öfugt, eða hvernig sem það verður.

Stóra málið er að það verður að upplýsa hvað liggur til grundvallar, hvernig á að skilja þessar spurningar og hvað verður gert við niðurstöðuna. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að þetta er svona „skuespil“, ef ég leyfi mér að sletta, menn geta gert það sem þeir vilja hver sem niðurstaðan verður. Hv. þm. Illugi Gunnarsson gæti til dæmis komið hingað og sagt: Ég túlka þetta á þann veg að fylgi sé við 18. gr. og 28. gr., hann getur fært rök fyrir því en einhver annar getur sagt allt annað. Þetta er fullkomin markleysa.

Ég var að vonast til þess að þegar hæstv. forsætisráðherra fær sér hlé — og hér kemur hv. þm. Baldur Þórhallsson sem er í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og þekkir þessi mál vel — kæmi hingað inn maður með fagþekkingu. Ég var að vonast til þess að menn mundu kalla til þá sérfræðinga sem eiga að þekkja þetta og þeir mundu útskýra þetta fyrir hv. stjórnarliðum.



[18:26]
Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta skjal virðist vera þannig upp byggt, af þeim sem leggja breytingartillöguna fram, að það er augljóst að þeir hafa ekki treyst sér til að fara einungis fram með eina spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar eða ekki að nýrri stjórnarskrá. Það er nefnilega mikið misræmi í þessum tillögum eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur farið yfir. Fólk getur valið á milli tveggja kosta, já og nei, hvort það vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar, en nú þegar er tekið til starfa sérfræðingateymi sem er að lesa tillögurnar yfir og spurningarnar eru því þegar orðnar úreltar. Sérfræðingateymi skipað lögfræðingum var fengið til að vinna fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og á að gera tillögur að breytingum á drögunum sem komu frá stjórnlagaráði og auk þess að skrifa nýja greinargerð. Um leið og þessi sérfræðingahópur hefur tekið til starfa eru spurningarnar orðnar úreltar, og það mun gerast næstu daga.

Af því að við erum að byrja þessa umræðu aftur á þessum degi langar mig að vekja athygli á því að spurningar nr. 2 og 3 eru teknar beint upp úr stefnuskrá Vinstri grænna, ákvæðin um náttúruauðlindirnar og þjóðkirkjuna. Spurningar 4 og 5 eru teknar beint upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar með persónukjör í kosningum og jafnan rétt atkvæða. Hreyfingin fékk svo að eiga 6. spurninguna þar sem hlutfall kosningabærra manna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki dýpra en svo, virðulegi forseti, en þarna opinberaðist það hvernig þessi ríkisstjórn vinnur.

Ríkisstjórnin þykist vera að fara af stað með eitthvert plagg sem drög að nýrri stjórnarskrá en það er allt tekið upp úr pólitískum stefnuyfirlýsingum ríkisstjórnarflokkanna. Það mætti halda að þau væru að ruglast á þjóðaratkvæðagreiðslu og þingkosningum því að í þingkosningum er kosið um stefnuskrá.



[18:28]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi sérfræðingateymi sem á að fara yfir hvað tillögur stjórnlagaráðs þýða. Þær hafa verið ræddar hér í þinginu og er augljóst að menn skilja þær ekki á sama hátt. Alltaf þegar við erum í lagasetningu, ég tala ekki um þegar lagðar eru fram tillögur um stjórnarskrána, hljóta menn að skoða það mjög vel hvað hver breyting þýðir. Það hefur ekki enn verið gert. Núna er verið að kalla menn saman í þá vinnu. Hefði ekki verið nær að einhver hefði sagt: Heyrðu, eigum við ekki að byrja á því? Þegar við erum búin að vinna þá vinnu þá stígum við næsta skref. Ekki þessi ríkisstjórn. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er búin að sitja yfir þessu máli lon og don í fleiri mánuði og ekki er enn búið að ljúka við þessa grunnvinnu, sem er algerlega fáheyrt.

Hv. þingmaður nefndi fleiri spurningar. Önnur spurningin er:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Sérfræðingar hafa skrifað greinar um mismunandi skilning á hugtakinu þjóðareign. Það er ekki til nein óumdeild skilgreining á því hugtaki, því fer víðs fjarri. Fræðimenn hafa til dæmis skrifað á þann veg að hugtakið þjóðareign megi til dæmis nota um íslenska landsliðið. Er það það sem átt er við? Ég hef ekki hugmynd um það. Ég get ekki ímyndað mér að því sé öðruvísi fyrir komið hjá því fólki sem á að taka afstöðu til þess, sem er þjóðin.

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Hvað þýðir það? Ef menn segja nei við því, hvað á þá að gera? Á þá kannski að setja í stjórnarskrá ákvæði um að þjóðkirkja megi aldrei vera í landinu? Er það það sem á að setja inn? Hægt er að túlka það með ýmsum hætti og í raun allar aðrar spurningar nema spurningu nr. 5.



[18:31]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli þegar Alþingi tekur þá ákvörðun að leita til þjóðarinnar um leiðbeiningu í máli að allur undirbúningur að slíku sé mjög vandaður. Það getur aldrei orðið þannig að slíkt sé gert í bráðræði eða illa undirbúið vegna þess að það má öllum ljóst vera að almenningur lætur ekki bjóða sér það til lengdar að frá Alþingi streymi mál til atkvæðagreiðslu á meðal þjóðarinnar sem ekki eru nægjanlega vel undirbúin.

Þetta mál, virðulegi forseti, er ekki nægjanlega vel undirbúið. Það hefur komið fram í umræðu á þinginu. Smám saman hafa komið fram gallar á undirbúningnum, gallar á málinu sjálfu. Bent hefur verið á að spurningarnar séu ekki nægilega skýrar og það er vegna þess að við höfum gefið okkur tíma til að ræða þetta í þingsal.

Nú kann vel að vera að margir séu óþreyjufullir eftir því að Alþingi klári þetta mál, gott og vel. En það skiptir miklu meira máli að Alþingi vandi vinnu sína og skili frá sér þannig tillögum að hægt sé fyrir þjóðina að taka afstöðu. Það sem meira er þá verður niðurstaða þjóðarinnar að vera þannig þegar þingið fær hana til sín að hægt sé að vinna með hana.

Ég hef meðal annars áhyggjur af því, virðulegi forseti, hvernig við sjáum það fyrir okkur þegar kosið hefur verið um sjálf drögin, þ.e. hvort þau verði lögð til grundvallar, ekki með eða móti þeim í eitt skipti fyrir öll heldur hvort þau verði lögð til grundvallar, hvað sem það þýðir. Hvað ef það verður mjög mjótt á mununum, ef það verður rétt sjónarmunur á milli þeirra sem vilja það og hinna sem vilja það ekki? Hvað þýðir það fyrir okkur alþingismenn þegar við setjumst niður og reynum að klára þá vinnu að breyta stjórnarskránni á þessu kjörtímabili? Hvaða leiðsögn verður fólgin í því, virðulegi forseti? Hvaða leiðsögn verður fólgin í því ef skammt verður á milli fylkinga hvað varðar þær spurningar sem lagðar eru fram, eins og spurninguna sem snýr að því hvort menn vilji persónukjör í meira mæli? Hvað ef það verður stutt þar á milli og við þurfum að túlka hvað átt sé við með „meira mæli“? Svona er hægt að halda áfram.

Það sem er alvarlegt í þessu er að verið er að senda þau skilaboð til almennings að kosið verði með eða á móti stjórnarskránni, það verði kosið um stjórnarskrána. Ég hef áður gert að umtalsefni í ræðustól þingsins þær skeytasendingar sem við þingmenn höfum fengið, bæði í tölvupóstum og í símaskilaboðum, þar sem farið er fram á að fá að kjósa um stjórnarskrána. Mér finnst vont að sjá hversu margir hafa verið blekktir með þessum málflutningi og halda að það standi til að kjósa um stjórnarskrána, með eða á móti henni. Slík kosning er ekkert á leiðinni og það er ekki verið að leggja upp með slíkri kosningu. Það er verið að leggja upp með einhvers konar skoðanakönnun og því miður ekki vel undirbúinni.

Það er eðlilegt að við þingmenn tökum okkur góðan tíma til að kalla fram þá galla sem eru á málinu í þeirri von að brugðist verði við þeim og það verði þannig úr garði gert að þjóðin geti tekið afstöðu til ákveðinna spurninga og til ákveðinna efnisþátta í þessu máli.

Ég hef rætt töluvert um hugtakið þjóðareign, hvað það þýðir og hvað það þýðir ekki, og hef velt því upp hvers vegna í ósköpunum það orðalag er ekki notað í þeim spurningum sem leggja á fyrir þjóðina ef hugmynd stjórnlagaráðs var sú að um væri að ræða ævarandi ríkiseign. Hvers vegna er verið að vinna með hugtak sem hefur svo óljósa merkingu og hvers vegna í ósköpunum á að leggja upp með það í stjórnarskrá, grunnlögum landsins?

Ég ætla mér að ræða það síðar því að tími minn er á þrotum. Ég vildi nefna þetta varðandi atkvæðagreiðsluna því að mér finnst það skipta máli. Síðan eigum við eftir að ræða auðlindahugtakið, hvernig við ætlum að taka það inn í stjórnarskrána, hvað það þýðir og samspil þess við þá ákvörðun ef við Íslendingar ætlum að koma auðlindamálum okkar þannig fyrir að allar auðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði í ævarandi ríkiseign. Þá þurfum við að leggja mat á það og skilja það og leggja fyrir þjóðina (Forseti hringir.) hvað það þýðir efnahagslega fyrir þjóðina og fyrir stjórnmálalíf þjóðarinnar ef allar auðlindir verða komnar á hendur ríkisins og þar með stjórnmálamanna.



[18:36]
Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þetta vandamál hefur komið upp í umræðunni vegna þess að þetta verður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ef munurinn verður lítill, hvernig verður þá farið með úrslitin? Við vitum að ríkjandi meiri hluti í þinginu, ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar, vill sjá þetta mál fara áfram þannig að ef það verður fellt með örlitlum mun getur ríkisstjórnin réttlætt það fyrir sér að halda samt áfram með málið vegna þess þjóðaratkvæðagreiðslan hefði bara verið ráðgefandi.

Ég minni t.d. á tvær atkvæðagreiðslur sem voru ráðgefandi. Það var álverskosningin í Hafnarfirði. Í þeirri atkvæðagreiðslu hjá bæjarbúum var lítill munur. Nei-ið varð ofan á, þeir vildu ekki stækkun en samt standa Hafnfirðingar frammi fyrir því að álverið stækkaði. Svo er það náttúrlega flugvallarkosningin þar sem við Reykvíkingar gengum að kjörborðinu og spurningin var: Vilt þú Reykjavíkurflugvöll burt úr Vatnsmýrinni 2016? — og lítill meiri hluti sagði já, en flugvöllurinn er ekkert að fara. Þetta eru tvö skýr dæmi um það hvernig meiri hluti hjá sveitarfélögum og ríki geta farið með úrslit ráðgefandi atkvæðagreiðslu, þ.e. eins og þeim sýnist. Það er þetta sem við tökumst nú á um og þess vegna er maður hræddur um að meiri hlutinn komi til með að beita valdi sínu þó að nei-ið yrði ofan á og fyrsta spurningin um hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar yrði felld. Ekki fór ríkisstjórnin að bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, svo mikið er víst. Það var varla þornað blekið á þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, (Forseti hringir.) var kominn með nýjan samning inn í þingið. Maður treystir náttúrlega ekki núverandi stjórnvöldum.



[18:38]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefði átt að halda þannig á þessu máli að sú tillaga sem á að senda til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu væri vel undirbúin, t.d. hefði átt að vera búið að vinna þá vinnu sem sérfræðinganefndinni er ætlað að vinna þannig að það lægi nákvæmlega fyrir þegar Alþingi afgreiddi málið frá sér hvað stæði til að senda til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Eftir því sem spurningarnar eru óljósari því meira svigrúm hafa stjórnvöld til að túlka niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki hægt að neita því og ég hef ekki heyrt stjórnarliða, hv. þingmenn, neita því af neinni sannfæringu.

Ýmsar af þeim spurningum sem hér er verið að leggja upp með eru enn býsna loðnar þegar kemur að því að lesa út úr þeim einhver skilaboð til okkar í þessari stjórnarskrárvinnu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að dæmi eru um atkvæðagreiðslur eins og þær sem hún nefndi sérstaklega þar sem niðurstaðan hefur síðan orðið önnur en varð í atkvæðagreiðslunni sjálfri. Það er þetta sem ég á við með því að ekki eigi að fara fram með málið með þessum hætti. Ég tel að verið sé að grafa undan því mikilvæga tæki sem atkvæðagreiðslur hjá almenningi eru, þjóðaratkvæðagreiðslur eða íbúakosningar innan sveitarfélaga, ef það gerist aftur og aftur að sú niðurstaða sem þar fæst skiptir í sjálfu sér litlu sem engu máli. Það er ábyrgðarhlutur fyrir okkur stjórnmálamenn, sem erum að ræða um stjórnarskrána, grunnlög samfélagsins, að verið sé að leggja upp með það að senda til þjóðarinnar — ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, hálfbakaðar hugmyndir og um margt illa fram settar spurningar. Ætlast er til að þjóðin taki afstöðu til allra tillagna sem koma frá stjórnlagaráði, (Forseti hringir.) með eða á móti, alveg óháð því hvort menn geti verið sáttir við hluta þeirra en ósáttir við einhvern annan hluta.



[18:41]
Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar.

Það var hugmyndin hjá fulltrúum stjórnlagaráðs að tillögur þeirra færu óbreyttar til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu og þar með var talið að búið væri að uppfylla það skilyrði að sem flestir kæmu að málinu og komast að hver vilji þjóðarinnar væri. Við skulum átta okkur á því að ríkisstjórnin guggnaði á því að fara með þetta beint í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess meðal annars að þessar tillögur hafa verið gagnrýndar svo mikið, að minnsta kosti hluti þeirra.

Ég er sammála þingmanninum um að það sem verið er að fara af stað með núna er illa unnið og ekki endanlegt plagg. Þess vegna væri svo mikilvægt — ég er að skoða hvort það þýði eitthvað með þann vonlausa meiri hluta sem starfar í þinginu — að fara fram með breytingartillögu á þessu máli sem mundi kveða á um að þegar þingið hefði fjallað um stjórnarskrána samhliða tillögum stjórnlagaráðs og smíðað frumvarp sem eitthvert vit væri í og stæðist þokkalega fyrir dómstólum yrði endanlegt plagg borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu í næstu alþingiskosningum. Eins og þingmaðurinn kom inn á þá útþynnir það þjóðaratkvæðagreiðslur eða íbúakosningar þegar fólk er hálfplatað á kjörstað og útþynnir þær það mikið að fólk hættir fyrir rest að nenna að fara á kjörstað af því að í fyrsta lagi veit það að ekki verður farið eftir niðurstöðunni vegna þess að kosningin er ráðgefandi og í öðru lagi vegna þess að það er ekki verið að kjósa um endanlegt plagg. Það er verið að leika einhvern millileik.

Mig langar að spyrja hv. þm. Illuga Gunnarsson hvað honum finnist um það (Forseti hringir.) að hér sé þetta kappsmál hæstv. forsætisráðherra komið á dagskrá þingsins (Forseti hringir.) þegar hún hefur boðað að hún verði ekki í þinginu næstu tvær vikur. Hvaða gildi hefur þetta mál þá fyrir ríkisstjórnina?



[18:43]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að þeirri spurningu hvaða gildi þetta mál hefur fyrir núverandi ríkisstjórn finnst mér það nokkuð markast af því hvernig staðið hefur verið að öllum undirbúningi þess. Ég verð að segja eins og er að við hljótum að gera kröfu til ríkisstjórnarmeirihlutans á þingi að öll þau verk sem unnin eru og snúa að breytingum á stjórnarskránni séu unnin af aga, festu og nákvæmni og litið sé til allra þeirra þátta sem mögulega geta komið upp hvað þessa hluti varðar og þeir séu unnir í samstarfi og samvinnu til að ekki verði rofin sú þjóðfélagssátt sem stjórnarskráin hvílir á.

Ég hef tekið eftir því í þeirri umræðu sem hefur farið fram um umræðuna á þinginu — maður skoðar hvað er verið að tala um í fjölmiðlum — þá beinist öll athyglin að þeim tíma sem umræðan tekur á þingi. Það er furðulegt að fylgjast með því í ljósi þess máls sem hér er verið að ræða. Ég efast um að víða sé það svo, í það minnsta ekki á Vesturlöndum, að mönnum þyki nauðsyn að keyra í gegnum þjóðþing breytingar á stjórnarskrá og geri athugasemdir við það að þingmenn tjái sig um þær breytingar.

Ég hef ekki lokið yfirferð minni yfir þær spurningar og þau hugtök sem um er að ræða. Ég á ýmislegt ósagt og vil fá að geta sagt það hér þannig að mín sjónarmið hafi komið fram. Til þess var ég kosinn á þing. (Forseti hringir.) Ég verð að segja að óþolinmæði þeirra sem vilja að Alþingi hætti að ræða þetta ber þess vott, hvort sem menn eru hv. þingmenn eða aðrir, að ekki er mikil virðing borin fyrir stjórnarskránni þegar menn tala þannig.



[18:46]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkur álitamál þar sem framkvæmdarvaldið vill fá skorið úr um efni þess sem drög að nýrri stjórnarskrá geyma. Ég nefndi hér í ræðu um helgina í samhengi við það að ég var að tala um að umboð þeirra sem sátu eða voru kosnir á stjórnlagaþing upphaflega væri ekki mjög sterkt og nefndi þar sem dæmi að efsti maður hefði fengið 3% af atkvæðum kosningarbærra manna. Ég verð að biðjast afsökunar á þeirri vitleysu sem ég gerði þarna, þetta var ekki rétt farið með og einhvern veginn hafði þetta stimplast inn í hugann á mér. Það er því rétt að fara aðeins yfir hvernig kosning þetta var.

Það voru um 86 þús. manns sem kusu í þessari kosningu. Hver af þessum 86 þúsundum kaus 25 sinnum þannig að greidd atkvæði í þessari kosningu voru 2 millj. og 150 þúsund. Af þeim atkvæðum sem voru greidd þarna, ekki af öllum atkvæðum sem allir hefðu getað greitt, voru 1,3% greidd þeim efsta, eða hann fékk 1,3% atkvæða frá 28 þús. mönnum, svo þessu sé haldið rétt til haga.

Af kosningarbærum mönnum, ef maður reiknar þetta eins og ég taldi mig vera að tala um vegna þess að ég hafði einfaldlega tekið þessa tölu upp eftir einhverjum öðrum og hafði ekki farið í að reikna það sjálfur, væru þetta samkvæmt þeirri talningaraðferð í kringum 13% atkvæða kosningarbærra manna sem er stigsmunur en ekki eðlismunur á þeirri endurspeglun að þeir sem voru kosnir til stjórnlagaþings höfðu ákaflega veikt umboð.

Þetta var bara til að leiðrétta þessa klaufavillu sem ég gerði hér í ræðu og ég vona að engum hafi orðið alvarlega meint af.

Það sem mig langar að tala um það sem eftir lifir ræðutímans, þó að það sé stutt, mig langar aðeins til að opna á eitt hugðarefni sem ég mun tala ítarlega um síðar í kvöld og það er þetta að snöggbreyta stjórnarskrá eins og hér er verið að gera, þ.e. að taka stjórnarskrá lýðveldisríkis og endurskrifa hana algjörlega frá grunni. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnarskrár eigi að þróast hægt og bítandi með tímanum og að breytingar sem gerðar eru á stjórnarskrá, hvert einasta orð, verði að vera gríðarlega vel ígrundað. Það er algjörlega ljóst að með því að nota þá aðferð sem hér er verið að nota er verið að bjóða heim hættunni á að það séu mistök í grunnlögunum og að stjórnarskráin geti ekki þjónað sem þau grunnlög sem hún á að vera fyrir lýðræðisþjóð eins og Ísland við ákvörðun þess hvort brotið hafi verið á stjórnarskrárbundnum réttindum þegnanna eða ekki.

Ég mun tala betur um þetta í síðari ræðu en ég vara mjög við því að snöggbreyta um stjórnarskrá eins og margir hér virðast vilja og að þetta verði ígrundað mun betur og gert mun hægar. En með því er ég ekki að segja að ekki megi breyta stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að ákvæði um synjunarvald forseta þurfi að endurskoða, það þarf að setja inn einhvers konar auðlindaákvæði í stjórnarskrána o.fl.



[18:51]
Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðuna. Ég tek undir þetta í upphafi ræðunnar þegar hann fór yfir hvað það var dræm kosningaþátttaka í stjórnlagaþingskosningunni. Þetta var sögulegt lágmark í þessu gamla lýðræðisríki að það voru rétt rúm 30% atkvæðisbærra manna sem mættu á kjörstað. Svo fór hann yfir það að dreifnin var svo mikil á atkvæðum því að það voru 525 einstaklingar í framboði. Dreifnin var svo mikil að þeir sem hlutu efstu sætin voru með ótrúlega lítið fylgi á bak við sig. Það er sérstaklega skrýtið að hugsa til þess að þingmenn og Alþingi varð fyrir hótunum frá þessu fólki í þá átt að ef við mundum ekki taka þær tillögur sem var skilað til þingsins og gera þær að okkar mundu þessir sömu aðilar fara í framboð til Alþingis. Ég sagði alltaf gott og vel, maður lætur ekki svona hótanir hafa áhrif á sig. En það gerðist eitthvað þarna, virðist vera, og það virðist hafa hlaupið út svo mikil heift á milli stjórnlagaráðsfulltrúanna og stjórnvalda og síðan Hæstaréttar því að Hæstiréttur úrskurðaði kosningarnar ógildar, eins og við munum. Var ég búin að vara við því löngu áður en Hæstiréttur úrskurðaði það og hafði skrifað blaðagreinar og annað vegna þess að lögin voru flækt svo mikið.

Varðandi 26. gr. sem þingmaðurinn nefndi þá hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verið lengi saman í ríkisstjórn og borið gæfu til þess að fara fram með stjórnarskrárbreytingar í sátt eins og þegar mannréttindakaflinn var settur inn í stjórnarskrána 1995. Það voru nánast komin drög að breytingartillögum fyrir þarsíðustu kosningar undir forustu Jóns Kristjánssonar framsóknarmanns en þá var það Samfylkingin sem stoppaði það og ekki var farið af stað með það vegna þess að ekki var meiri hluti fyrir því á þinginu.

Hvað finnst þingmanninum um þá ósátt sem þetta mál er nú komið í?



[18:53]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnarskrá eigi að endurspegla einhvers konar sáttmála milli borgaranna og að stjórnarskrá eigi að þjóna sem grunnlög í þessum sáttmála. Með því að fara þá leið sem ríkjandi vald hefur kosið, þ.e. að gera þetta í slíkri ósátt sem verið er að gera þetta, er ég hræddur um að sú stjórnarskrá sem út úr því kemur geti ekki orðið langlíf, hún getur ekki orðið eitthvað sem við getum litið á sem sáttmála okkar á milli og sáttmála borgaranna heldur verður hún, þangað til henni verður væntanlega breytt aftur, alltaf bitbein milli ólíkra skoðana. Ég tel að það sé til mjög mikils að vinna að ná einhvers konar sátt um stjórnarskrá og að sem flestir geti sameinast um stjórnarskrá. Mér finnst ríkjandi valdhöfum hafa mistekist hrapallega að ná fram þessu grundvallarmarkmiði sem á að vera með stjórnarskrá. Meðal annars út af því leggst ég svo mjög gegn þessari afgreiðslu og þeim drögum sem liggja eftir stjórnlagaráð.



[18:55]
Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn telur að stjórnarskrá sem er unnin í svona mikilli ósátt við þing og þjóð geti ekki orðið langlíf. Ég tek undir það en það er grunnstef hverrar stjórnarskrár í lýðræðisríki að horft sé til langs tíma og til dæmis að mannréttindi séu tryggð til langs tíma í gegnum stjórnarskrá. Það verður fullkomin upplausn hér á landi ef ríkisstjórninni, með aðstoð ráðherralausrar Hreyfingar og stuðningi hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, tekst að koma í gegnum þingið einhverjum drögum að frumvarpi sem þau ætla svo að láta reyna á í atkvæðagreiðslu eftir kosningar ef þetta fer svona í gegn. Ef þetta verður sett fram með þessum mikla ófriði verður hér mikil upplausn, ég tala nú ekki um ef skoðuð eru þau drög sem stjórnlagaráð skilaði af sér varðandi til dæmis mannréttindin.

Árið 1995, eins og ég nefndi áðan, var settur í stjórnarskrána mannréttindakaflinn sem hefur reynst vel og er komin mjög góð dómaframkvæmd á. Það vita nokkurn veginn allir hvaða rétt þeir hafa og hvaða kröfur þeir geta gert á hendur ríkinu. Til dæmis verður það allt saman sett í uppnám þannig að það er eins og þeir vinstri menn sem eru nú við stjórn landsins átti sig ekki á því hvert hlutverk stjórnarskrár er í lýðræðisríki. Það var farið af stað með hina svokölluðu búsáhaldabyltingu. Hv. þingmenn Vinstri grænna meðal annars stjórnuðu því, það hefur komið á daginn og lögreglan hefur vitnað um það. Ég hef oft sagt að þetta hafi tæpast verið búsáhaldabylting, þetta er langtum líkara valdaráni sem virðist hafa orðið, því að það kapp sem þessi ríkisstjórn hefur lagt (Forseti hringir.) á ófriðinn í þinginu er alveg dæmalaust.



[18:57]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt þarna naglann á höfuðið. Það er eins og margir séu hreint ekki alveg með það í kollinum til hvers stjórnarskrá er og hvaða hlutverki hún gegnir. Ég nefndi áðan í svari við andsvari að stjórnarskrá væri sáttmáli borgaranna, væri grunnlög í lýðræðisríki. Eins og drögin eru, sem við sjáum liggja fyrir núna, er miklu frekar um stefnuyfirlýsingu að ræða, réttindin sem hafa verið skrifuð inn í þau drög eru af þeim toga að þau munu skapa stórkostleg vandræði þegar kemur að dómaframkvæmd. Við verðum að muna að stjórnarskráin er til þess að verja grunnréttindi borgaranna. Þegar við komum að atriðum eins og að allir hafi rétt til lífs, minnir mig að það hljómi, eða að allir hafi rétt til þess að lifa með reisn, og einhverjum finnst hann ekki lifa með reisn, getur hann þá með réttu haldið því fram að um stjórnarskrárbrot sé að ræða og farið til dómstólanna? Nei, ég held ekki. Ég held að það að halda inni almennri lýsingu á einhverjum réttindum sem hafa ekki lagalegan grunn þynni út önnur réttindi sem eru gríðarlega mikilvæg og hefur verið barist fyrir í gegnum aldirnar, frá upplýsingunni getum við sagt. Á þessum grunni er ég á móti því hvernig stjórnarskráin hefur verið endurskrifuð.



[19:00]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns áðan að hann var að fjalla um aðdragandann að stjórnlagaþinginu. Hann fór aðeins yfir það að menn sem þar voru kjörnir hefðu ekki fengið mjög sterkt umboð. Hann fór aðeins yfir atkvæðavægið enda var þetta ákaflega flókið kosningakerfi, ég held að allir hafi verið sammála um það. Svo misfórst ýmislegt í framkvæmdinni, enda var kosningin dæmd ógild, og það má eiginlega segja að í kjölfarið hafi þetta mál farið í afar óheppilegan farveg. Þeir sem vildu svo gjarnan að stjórnlagaþing hefði fengið umboð og að kosningin hefði heppnast vel ákváðu einhvern veginn að ýta því til hliðar að allt hefði farið úrskeiðis og settu meiri þrýsting á að flýta málinu. Vinnubrögðin hafa eiginlega verið með ólíkindum síðan.

Við sáum það á þeim spurningum sem við erum búin að ræða í þessari umræðu, þessum sem meiri hlutinn sendi frá sér, að landskjörstjórn breytti þeim eiginlega öllum. Engu að síður standa eftir mjög umdeilanlegar spurningar sem erfitt er að átta sig á hvað muni þýða.

Þingmaðurinn kom einnig inn á að það væri ekki gáfulegt að fara með svona breytingar á stjórnarskrá í snögga samsuðu, og ég ætla aðeins að koma inn á það á eftir, en í ljósi þess hver staða málsins er í dag langar mig að heyra hvað þingmaðurinn teldi eðlilegast að við gerðum núna við málið. Það er komin þessi tillaga frá meiri hlutanum. Á sama tíma er búið að ráða eina sjö sérfræðinga til að fara yfir málið. Hvert telur þingmaðurinn (Forseti hringir.) eðlilegasta verklagið héðan í frá?



[19:02]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er algjör grundvallarspurning. Ég er þeirrar skoðunar að einhvern veginn verðum við að ná okkur út úr þeim ógöngum sem er búið að koma þessu máli í. Ég er ekki viss um að sú spurningakönnun sem hér er verið að leggja til hjálpi málinu á nokkurn hátt. Við ættum að fá okkar helstu sérfræðinga, jafnvel einhverja sérfræðinga erlendis frá, til að fara yfir stjórnarskrána, merkja við það sem gæti þarfnast breytinga við og annað slíkt, bera það saman við þá miklu vinnu sem stjórnlagaráð hefur þegar farið í gegnum og þá gætum við breytt í samræmi við það þeim hlutum sem þarfnast breytinga við. Það að endurskrifa þetta allt saman, bæta inn öllum þessum óáþreifanlegu réttindum sem ég hef nefnt hérna, rétti til að lifa með reisn og þess háttar, kemur ekki til greina. Slíkt ætti að taka út.

Ég held að það væri hægt að ná ágætissamkomulagi í þinginu um slíka málsmeðferð. Þrátt fyrir að þetta mál sé keyrt áfram af hörku gera margir stjórnarliðar sér grein fyrir því að þessi málsmeðferð gengur ekki upp og það sama á við um þetta mál. Það er ekki okkur á Alþingi til framdráttar hvernig staðið hefur verið að þessu öllu saman.



[19:04]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir að lýsa sýn sinni á málið. Hann kom aðeins inn á það í ræðu sinni um þessa snöggu samsuðu, þ.e. að gjörbreyta stjórnarskránni og skrifa hana upp á nýtt — af því að það hafa verið rifjaðar upp einhverjar kosningaauglýsingar í fjölmiðlum í dag vil ég nefna að það var sannarlega skoðun okkar framsóknarmanna að í kjölfarið á því hruni sem varð og öldurótinu í samfélaginu að skynsamlegt væri að taka málið úr þessum farvegi og kjósa til stjórnlagaþings. Við vorum hins vegar með þær hugmyndir að fólk ætti að fá nægan tíma til þess. Reyndar held ég að talað hafi verið um sex mánuði eða jafnvel eitt ár.

Stjórnlagaráðið sem skipað var fékk engan þann tíma og því varla hægt að ætlast til þess að þaðan hafi komið nægilega íhugað plagg. Margt er þar áhugavert en ég tek undir það sem hefur komið fram hjá hv. þingmanni sem og öðrum að þar er líka ýmislegt sem ég tel alls ekki búið að íhuga nóg. Ég er því sammála hv. þingmanni um að það þurfi einhvern veginn að höggva á þennan hnút og taka málið þá út úr því ferli sem það er í núna.

Ég hef ekki sagst vera á móti því að þjóðin væri spurð einhverra lykilspurninga. Ég er bara ekki viss um að þessar fimm eða sex spurningar sem meiri hlutinn er með séu lykilspurningar. Það vantar til að mynda spurningar um valdsvið forsetans. Það vantar spurningar um samninga við önnur ríki, fullveldisafsal og annað í þeim dúr sem kom til dæmis ekki fram á þjóðfundinum. Ég hefði talið eðlilegt að við færum í að skoða það betur. Það væri áhugavert að þingmaðurinn gæti þá velt því fyrir sér í seinna svari við mig nákvæmlega hvernig þetta gerðist eða hvort við eigum að leyfa (Forseti hringir.) þessum spurningum að fara út og spyrja þjóðina þótt það sé mjög umdeilanlegt hvað við fáum út úr því og hvernig á að dæma stuðning við einstök mál.



[19:07]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum spurningum er spurt um þjóðkirkjuna, jafnt atkvæðavægi og annað slíkt en spurningarnar eru loðnar og mjög opnar þannig að það er alls ekki ljóst hvaða umboð fæst raunverulega frá þjóðinni miðað við þau svör sem hægt er að gefa. Skýrasta spurningin er um þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig menn sjá fyrir sér hvernig kalla eigi til þess að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er kannski skýrasta spurningin en hinar eru mjög opnar og loðnar og það sem ég er ansi hræddur um er að valdhafarnir geti í umboði svara við þessum spurningum gert hvað sem þeir vilja við þessa liði og alltaf vísað í einhvern þjóðarvilja. Ég held að það yrði hrein og klár blekking en eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu og ítreka enn og aftur er sumt sem þarfnast lagfæringa og einhverju þarf að bæta inn í núverandi stjórnarskrá. Þetta verður allt saman að gera í sátt og það verður að vera einhver eiginlegur tilgangur með því. Þetta er ekki stefnuyfirlýsing eins og núverandi drög bera með sér heldur eru þetta grunnlög fyrir lýðveldið Ísland.