140. löggjafarþing — 109. fundur
 30. maí 2012.
samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, frh. síðari umræðu.
stjtill., 373. mál (reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland, IPA). — Þskj. 449, nál. 1243 og 1344.

[15:10]
Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Við ræðum 2. dagskrárliðinn, samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland, IPA).

Ég vil fyrst gera þá athugasemd að ég hefði kosið að í dagskránni hefði þessi skammstöfun, IPA, verið íslenskuð. Þetta er ekki nafn á stofnun eða þess háttar, þetta er ensk skammstöfun og íslenska er auðvitað þingmálið. Það er svolítið misvísandi að tala um fjárhagsaðstoð, þetta er fjárhagsaðstoð en hún er meira. Þetta er „Instrument for Pre-Accession Assistance“ sem þýðir meðöl til aðlögunaraðstoðar eða tæki (ÁÞS: Það er ekki aðlögun.) til aðlögunaraðstoðar, Pre-Accession. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frammíkallið því það hjálpar mér áfram með ræðu mína. Kjarni ræðu minnar er að fjalla um það að hér er í gangi aðlögun og ekkert annað en aðlögun og áfram aðlögun. (Gripið fram í: Rétt.)

Þrátt fyrir skýran tilgang þessara aðlögunarstyrkja þá neita menn blákalt að aðlögun sé í gangi. Ég skora á hv. þm. Árna Þór Sigurðsson að gera nánari grein fyrir þeim fullyrðingum, sem ég kalla blekkingu. Samningar eru í raun ekki í gangi heldur aðlögun að tilskipunum, að reglukerfi ESB. Atkvæðagreiðsla um svonefndan samning eða svonefnt samningsferli fer ekki fram fyrr en við höfum að öllu eða langmestu leyti lögfest regluverk ESB. Það er fróðlegt í þessu samhengi að spyrja ESB-sinna, þar með talda hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, hvað hafi áunnist í samningaviðræðum undanfarin tæp þrjú ár, í samningaviðræðum Íslendinga við ESB, sem felur í sér frávik frá regluverki ESB. Hvaða ávinningum höfum við náð í þessum samningum öðrum en að aðlaga blákalt að regluverki? Getur hv. þingmaður og hæstv. ráðherra nefnt svona fimm, sex til tíu dæmi um það að okkur hafi orðið ágengt í að sveigja eða breyta regluverkinu í þágu íslenskra hagsmuna? Við erum að aðlaga okkur að fjórfrelsinu og halda menn virkilega að við fáum undanþágu frá því? Fáum við undanþágu frá fiskveiðum utan 12 mílna? Nei, það stendur alveg klárt og kvitt í samningsgögnum. Fáum við að viðhalda tollum á matvörum í þágu landbúnaðar? Nei, það er andstætt fjórfrelsinu. Við fáum ekki undanþágur í þágu matvælaöryggis, fæðuöryggis og þar með gagnvart okkar einstæðu húsdýrakynjum sem við búum við, þ.e. gagnvart dýraheilbrigðinu. Hér eru stofnar hesta, kinda, kúa og fleiri dýra sem eru afar viðkvæmir fyrir öllum sjúkdómum sem grassera á Evrópusvæðinu.

Besta dæmið um þetta er þegar við innleiddum matvælafrumvarpið á sínum tíma, árið 2009 hygg ég að það hafi verið eða 2010. Þá var bannaður innflutningur á hráu kjöti vegna dýraheilbrigðis, vegna matvælaöryggis og þar fram eftir götunum og með tilvísun í 13. gr. EES-samningsins. Nú hefur ESA tekið það mál upp vegna þess að innleiðingin á matvælafrumvarpinu var að þeirra mati ekki í samræmi við regluverk ESB. Það er svo kýrskýrt dæmi um að við þurfum að aðlaga okkur að óbreyttu kerfi. Og enn ítreka ég að e.t.v. getur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem hér er í salnum upplýst þingheim um það hvort eitthvað hafi áunnist í tæplega þriggja ára samningaviðræðum sem fer á skjön við regluverk ESB.

Nú herðir ESB áróðurstökin, ekki bara með milljarðaaðlögunarstyrkjum til að kaupa velvild heldur streyma nú út áróðursblöð í landbúnaði og fyrir ungt fólk. Hér hefur verið sett upp Evrópustofa, sendiráð og leikurinn er eins ójafn fjárhagslega og hægt er að hugsa sér. Ég spyr: Af hverju hefur ekki verið gætt jafnræðis þannig að andstæðingarnir njóti sama stuðnings, jafnvel IPA-styrkja og þeir sem styðja aðild? Það liggur fyrir að meginforsendur ESB-umsóknar samkvæmt greinargerð með þingsályktunartillögunni eru brostnar. Reyndar hef ég ávallt talið að það hafi verið blekking allt frá upphafi að við næðum fram þeim grundvallarsamningsforsendum sem kveðið er á um í greinargerð með aðildarumsókninni, hrein blekking.

Nú tæplega þremur árum eftir að aðildarumsókn var lögð fram liggur fyrir að umsóknarferli Íslands að ESB verður ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu. Mér finnst allt í lagi þó að ESB-sinnar komi fram og lýsi yfir stuðningi sínum við sambandið á grundvelli regluverks þess og það sé ekkert feimnismál. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram með aðlögunar- og aðildarvinnu er ekki fyrir hendi. Það hefur komið í ljós, sem reyndar var svo sem vitað eða ég hélt fram á sínum tíma, að umsóknarferlið var með öðrum hætti en haldið hefur verið fram af talsmönnum þess þegar umsóknin var lögð fram. Kröfur ESB eru einhliða og ganga mun lengra en Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að byggja samningsgrundvöll sinn á.

Það er eitt sem blasir við þegar maður talar um aðlögunarferli og það er að sett hafa verið opnunarskilyrði á einstaka kafla og það kann að koma til lokunarskilyrða ef við tökum ekki upp löggjöf Evrópusambandsins. Opnunarskilyrðin eru þannig að við verðum að byrja þá vinnu sem þarf til að aðlaga sjávarútveginn eða landbúnað réttara sagt að regluverki ESB. Meðan við byrjum ekki á því, það liggur fyrir, liggja fyrir hendi opnunarskilyrði. Ef er ekki búið að aðlaga og taka upp regluverkið á samningsferlinu og áður en kaflanum er lokað þá eru sett lokunarskilyrði. Þetta er þekkt í nýrri umsóknarvinnu ESB gagnvart löndum í Austur-Evrópu. Það er krafist fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana að ESB án þess að niðurstaða sé fengin í viðræðum, þ.e. án þess að atkvæðagreiðsla liggi fyrir um samþykkt þjóðarinnar. Og það er hér, akkúrat hér á þessu stigi málsins, sem aðlögunar- og IPA-styrkirnir skipta veigamiklu máli.

Þá hefur hæstv. utanríkisráðherra sjálfur sagt að aðild að sambandinu muni fela í sér umtalsverðan kostnað vegna krafna ESB um uppstokkun. Það hefur komið í ljós að vegna þessara fyrirframaðlögunarkrafna fellur þessi kostnaður strax á umsóknarferlinu. Það er sorglegt til þess að vita að á meðan þjóðin er að vinna sig upp úr verulegri kreppu, heimilin stríða við mikinn skuldavanda, að öll atorka ráðuneytanna eða mikið af atorku ráðuneytanna hefur farið í þessa vinnu. Ég hugsa oft til þess hvar við stæðum í upprisunni fyrir heimilin og hvar skuldsett fyrirtæki stæðu ef þessi atorka hefði farið í þá vinnu og mannvitið hefði verið brúkað til þess.

Það er gerð krafa um framsal á fullveldi og það eru settar fram einhliða kröfur og skilyrði sem eru óásættanleg fyrir íslenska hagsmuni.

Ég verð að nefna það hér að ESB og fulltrúar þess hafa nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, samanber ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi. Efnisleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og eru ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, með peningastyrkjum sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, á afstöðu manna til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu. Það er verið að kaupa velvild með umsókninni, það er verið að því.

Ekki vil ég gleyma í þessu samhengi framgangi ESB í makríldeilunni og hótunum í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Er það ekki glöggt dæmi um það, afar skýrt dæmi um það, að forsenda umsóknarinnar, um veiðar úr deilistofnum, að við fáum að ráða yfir deilistofnum, makrílnum m.a., séu brostnar? Er það ekki? Hvað hefur síðan gerst? Jú, ESB hefur gerst formlegur málsaðili í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum og það segir auðvitað alla sína sögu í því samhengi.

Það var reyndar svo og ég hef haldið því fram að Icesave-samningurinn var skilgetið afkvæmi umsóknarinnar, eineggja tvíburi umsóknarinnar, og að umsóknin hefði verið endursend ríkisstjórninni þá þegar ef ekki hefðu legið fyrir hendi samningsdrög um Icesave í upphafi júní 2009. Ég fullyrði það. Afstaða Evrópusambandsins gagnvart okkur í Icesave-málinu var þá löngu ljós og það var þegar ljóst á útmánuðum árið 2008 þegar við þingmenn Vinstri grænna börðumst hatrammlega gegn ábyrgð á samningnum. Þá blandaði ESB sér strax í málið og hafði uppi hótanir ásamt Bretum, Þjóðverjum, Frökkum, Hollendingum og fleirum, þá þegar. Þá reistum við, þáverandi þingmenn VG, kröftugan varnarmúr undir forustu hv. formanns flokksins, Steingríms J. Sigfússonar.

Nú hafa forsendur á evrusvæðinu breyst verulega frá því að umsóknin var send inn. Evran hefur ekki reynst sú vörn sem menn ætluðu. Hún hefur reynst dragbítur m.a. fyrir Grikki og aðra og þessi lönd eiga í verulegum efnahagserfiðleikum mörg hver og þau geta ekki beitt þeim efnahagslega sveigjanleika sem við getum með íslenskri krónu.

Það er undarlegt, frú forseti, að stjórnarliðar skulu afneita því að aðlögun sé í gangi. Hverja eru þeir að blekkja? Kannski sjálfa sig. Lítum á aðlögunarfrumvörp sem liggja fyrir og hafa legið fyrir þessu þingi. Þau eru hvorki færri né fleiri en 34, 34 aðlögunarfrumvörp sem liggja fyrir og okkur er gert að lögafgreiða þessi frumvörp. Við eigum ekki að hafa neina afstöðu til þess og ég minni aftur á hráa kjötið. Samrýmist það vel 2. gr. stjórnarskrárinnar um að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið? Við höfum ekki aðkomu að þessum málum, við höfum engan breytingarrétt. Við breyttum með erfiðismunum og settum inn bann við hráa kjötinu í matvælafrumvarpinu og nú hljótum við ákúrur fyrir.

Því miður er það svo að við höfum ekki borið gæfu til á þessu þingi að fara eftir ályktun þingmannanefndarinnar sem lagði sérstaka áherslu á að settar yrðu skýrar reglur um innleiðingu EES-gerða sem tryggðu m.a. góð vinnubrögð og vandaðar þýðingar á EES-gerðum. „Ástæða er til að skoða vandlega hvort Alþingi setji á fót sérstaka nefnd sem hefur það hlutverk að rýna allar EES-gerðir ...“ Nei, það ber allt að sama brunni.

Ég vil að endingu víkja, í ljósi alls þess sem ég hef sagt í ræðustól nú, að ummælum hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar í eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi, með leyfi frú forseta. Tilvitnunin er svona:

„En aftur að Stefan Füle stækkunarstjóra. Í fyrsta skipti þótti mér viðurkennt af hálfu talsmanns Evrópusambandsins að hraði viðræðna er háður vilja samningsaðila. Hitt er öllum ljóst og hefur lengi verið að endanlegur frágangur samninga getur tekið miklu lengri tíma með aðlögun, fínsaumi og bróderingum. Það er hins vegar ekki verkefnið.“

Svo vísar hann í hlutskipti Norðmanna fyrir 20 árum og að þeir hafi nánast verið lagðir í einelti af ESB. Hvað gerist þá í okkar tilviki ef við samþykkjum ekki samninginn? Nei, það er rangt hjá hæstv. innanríkisráðherra að við séum ekki í aðlögun, fínsaumi og bróderingum. Það er bara rangt og ég beini því vinsamlega til hæstv. innanríkisráðherra að taka þátt í þessari umræðu og skýra betur ummæli sín. Það má vel vera að hæstv. innanríkisráðherra geti í sömu mund skýrt það fyrir þingheimi hvernig þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs getur varið og stutt þessa aðlögunar-IPA-styrki þvert á samþykktir æðstu stofnana flokksins. Verkefnið er svo greinilega aðlögun, fínsaumur, bródering. Það er ekkert annað. Norðmenn voru ekki að því. Þeir gerðu rammasamningana en þeir aðlöguðu ekki sína löggjöf. Eftir þá reynslu tók ESB upp breytta samningshætti og krafðist innleiðingar og að samningur væri ekki fullgerður, samningsköflum væri ekki lokað fyrr en regluverkið í viðkomandi samningslandi væri hið sama og regluverk ESB.

Svo er það, frú forseti, að þessu þingmáli fylgir annað, frumvarp þar sem hin svokallaða norræna velferðarstjórn vill lögfesta skattfríðindi sem minnir mig á skattfríðindi aðalsins á fyrri öldum. Hér er það hins vegar ESB-umsóknaraðallinn sem á að fá skattfríðindin. Mér finnst það með hreinum ólíkindum og ég hef spurt mig að því: Hvernig má það samrýmast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og samkeppnisreglum að veita þessum verktökum og öðrum skattfríðindi? Eru það ekki hin sömu skattfríðindi og fulltrúar og sendimenn í Brussel njóta eða er það eitthvað svipað? Er hér verið að veita eða búa til ESB-forréttindaaðal? Ég spyr. Þetta finnst mér afar dapurlegt. Eigum við ekki fremur, frú forseti, að hækka skattleysismörkin fyrir einstæða foreldra, ellilífeyrisþega, öryrkja og annað lágtekjufólk á Íslandi? Ég hygg að það væri nær. En fyrir mér er Vinstri hreyfingin – grænt framboð gengin í björg og það eina sem flokkurinn á eftir að segja er að hann styðji ESB-aðildina og það væri heiðarlegasta afstaða hans.



[15:30]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni kærlega fyrir ræðuna. Já, þetta var mikil yfirlýsing sem kom hér fram í lok ræðunnar, að Vinstri grænir væru gengnir í björg. Ég tek undir það miðað við það sem talað var um fyrir kosningar. Það var farið hér yfir það í ræðunni að því er hafnað í ráðuneytunum, sérstaklega utanríkisráðuneytinu, að um aðlögunarferli sé að ræða. Þingmaðurinn upplýsti hins vegar að fyrir þinginu liggja 34 aðlögunarfrumvörp svo við tölum ekki um þau ósköp sem við ræðum í dag þar sem Evrópusambandið ætlast til þess að við tökum inn í landið 5 þús. milljónir íslenskra króna til að aðlaga okkur enn frekar.

Mig langar í ljósi þess að spyrja út í orð hæstv. utanríkisráðherra frá því í morgun þar sem hann segir að ekkert liggi fyrir um það að um aðlögun sé að ræða, heldur þvert á móti segir hann: Við erum ekki að breyta stofnunum (Forseti hringir.) okkar og lögum og því er þetta ekki (Forseti hringir.) aðlögunarferli.



[15:32]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það blasir við öllum sem líta yfir þessi mál að um aðlögun er að ræða. Mér fyndist heiðarlegast og eðlilegast hjá ESB-sinnum að viðurkenna það. Við erum að fara inn í Evrópusambandið á grundvelli reglna Evrópusambandsins. Það er heiðarleg afstaða þeirra sem styðja umsókn. Ég er á móti henni. Menn eiga bara að leggja spilin á borðin og spila nákvæmlega eins og staðreyndirnar liggja fyrir.

Ef þessi 34 aðlögunarmál á síðasta þingi segja ekki sína sögu, (Gripið fram í.) á þessu þingi, þá voru þau (Gripið fram í.) 18, (Gripið fram í.) á fyrra þingi, á þingi undan þessu. Ég verð að segja að mér finnst ESB-aðildarsinnar berja hausnum við steininn. Það er mín bjargfasta skoðun.

Menn eiga bara að koma fram blákalt og opinskátt að málunum og viðurkenna (Forseti hringir.) staðreyndir.



[15:33]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að hv. þm. Atli Gíslason fór hér fyrir þingmannanefnd sem var falið af þinginu að fara yfir hvað mætti betur fara í stjórnsýslunni langar mig til að spyrja hann, af því að hv. þingmaður er lögmaður: Hvað finnst honum um það að hæstv. utanríkisráðherra er raunverulega að leyna þingið upplýsingum eða við skulum við segja frekar blekkja? Þingmaðurinn vísaði hér í 18 aðlögunarfrumvörp á síðasta þingi og 34 aðlögunarfrumvörp að ESB á þessu þingi. Hvernig getur hæstv. utanríkisráðherra komið fram í þjóðþinginu og sagt eða haldið frammi þessum blekkingaleik sem spunameistarar keyra svo áfram?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja þingmanninn út í þau orð að Icesave-samningarnir hafi verið eineggja tvíburi Evrópusambandsumsóknarinnar: Var það raunverulega svo að þingmenn sátu undir hótunum um að ef þeir mundu (Forseti hringir.) ekki samþykkja Icesave mundi ESB draga umsóknina til baka?



[15:34]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég tíðka það ekki í minni pólitík að nota orð eins og leyna eða blekkja, alls ekki blekkja. Það má kannski nota orðið leyna. Mér hefur sjálfum fundist gagnsæið í þessum viðræðum ekki nógsamlegt. Mér hefur fundist vanta á að sagt sé hvaða ávinningur hafi náðst í samningaviðræðum, til að mynda eins og ég nefndi. Hvað hefur áunnist sem gengur á regluverk ESB en er í þágu hagsmuna Íslendinga?

Hótanir eða ekki hótanir, ég vissi að á sínum tíma í atkvæðagreiðslunni um umsóknina var sagt við stjórnarliða að ef þeir ekki samþykktu aðildarumsóknina yrðu stjórnarslit.



[15:35]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ræðuna. Það má skýrt heyra af máli hans að þetta er honum mikið hjartans mál. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því hversu mikil andstaða hans er gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Og ég tek undir það, ég er ósammála því að Ísland eigi að gerast aðildarríki að Evrópusambandinu og greiddi meðal annars atkvæði nýlega um að þjóðin fengi tækifæri til að greiða atkvæði um það hvort halda ætti samningaferlinu áfram eða ekki.

Hins vegar vildi ég gjarnan spyrja hv. þingmann hvenær hann telji að hin svokallaða aðlögun hafi hafist. Hófst hún 1992 eða 2009? Árið 1992 gekk EES-samningurinn í gildi, 2009 sóttum við hins vegar um aðild að Evrópusambandinu. Og sérstaklega í ljósi þess að að hluta til á að nýta þessa IPA-styrki í að styrkja matvælaöryggi á Íslandi, það var að minnsta kosti hugmyndin, og hv. þingmaður stóð einmitt að því, var (Forseti hringir.) þá formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og stóð að breytingum í samræmi við EES-reglur á matvælalöggjöfinni sem (Forseti hringir.) gerir einmitt nauðsynlegt að bæta tækjabúnað og mannauð hjá þeim stofnunum sem eiga að fylgjast með matvælaörygginu.



[15:37]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég náði ekki alveg síðustu spurningu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, en það má endurtaka hana á eftir. Hvenær hófst aðlögun, hvenær hófst hún ekki? Það má færa rök að því að hluti hennar hafi hafist strax með EES-samningum, ég er á því. En ég er á því að við höfum enga aðkomu að þessu í dag og ég hef ekki, satt best að segja, hugmynd um hverjar af þessum gerðum við þurfum að innleiða og hverjar ekki. Það hefur hlaupið mikið kapp í þessar aðlögunarinnleiðingar á síðustu árum, mikið kapp, og ég hef grun um að við höfum ekki samkvæmt EES-samningnum skyldur til að innleiða allt sem hér rekur á fjörurnar og löggjafarvaldið varðandi þær er farið.



[15:38]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ aðeins að fylgja því áfram sem ég nefndi hér og því miður heyrði hv. þingmaður ekki hvað ég var að segja. Þegar hv. þingmaður var formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar tryggði hann að breytingar voru gerðar á lögum um matvæli, sem urðu að lögum nr. 143/2009, sem byggðu fyrst og fremst á EES-samningnum sem varðaði þá matvælalöggjöfina. Það átti að tryggja betur matvælaöryggi hér á landi. Hugmyndin með IPA-styrkjunum var meðal annars sú að Matís gæti fengið allt að 300 milljónir til að geta staðið við þau lög sem hv. þingmaður stóð að að samþykkja hér á þinginu og tryggja matvælaöryggi, sem ég og hv. þingmaður erum mjög sammála um að sé mjög brýnt að sé lagað á Íslandi. Ítrekað hafa komið upp tilfelli þar sem sýnt hefur verið fram á það, m.a. meðan hv. þm. Jón Bjarnason sat í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, að ástand matvælaöryggis hér á landi er (Forseti hringir.) fullkomlega óásættanlegt.



[15:39]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Það er rétt, ég var formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þegar við settum fram þessa undanþágu í blóra við tilskipunina en í þágu matvælaöryggis sem okkur er mjög dýrmætt af því að við erum eyland og í þágu dýraheilbrigðis. Það að þiggja styrki til þessa starfs er svipað og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir benti á í fyrirspurn hér nýlega um Kötlusetrið ef ég man rétt. Þetta er spurning um það að Ísland sé sjálfstætt fullvalda ríki og hafi burði til að standa að brýnum verkefnum eins og matvælaöryggi og þurfi ekki að sækja það til annarra þjóða eða Evrópusambandsins. (EyH: Eigum við ekki að selja fiskinn okkar út?) Við getum fullkomlega gert það með samningum.

Ég vil nefna annað dæmi, það er varðandi fosfat í saltfiski sem Evrópusambandið bannaði. Það var vegna þess að Ísland hafði ekki sinnt hagsmunagæslu sinni erlendis. (Gripið fram í: Já.) Það er það sem ég er að tala um, að við erum ekki (Gripið fram í.) að sinna hagsmunagæslu okkar hér heima og við erum að taka upp hráa löggjöf (Forseti hringir.) og við erum að taka við styrkjum sem frjáls og fullvalda þjóð til verkefna sem frjáls og fullvalda þjóð á að kosta sjálf. (Gripið fram í: En ef við eigum ekki peninginn?)



[15:40]
Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er óhjákvæmilegt að bregðast við allmörgum atriðum sem komu fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar. Því miður leyfir tíminn ekki að gera það í stuttu andsvari þannig að margt af því mun ég geyma mér til síðari ræðu minnar.

Mér fannst því miður ræðan einkennast allt of mikið af hálfsannleik og að þingmaðurinn væri vísvitandi að leiða umræðuna á villigötur. Hann talaði og kallaði eftir viðbrögðum ESB-sinna og nefndi mig sérstaklega í því sambandi. Þingmaðurinn veit (Gripið fram í: Ertu að tala um …?) að ég — (Gripið fram í.) þingmaðurinn veit að ég er þeirrar skoðunar, eins og landsfundur Vinstri grænna hefur ályktað, að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en innan. Ég er líka þeirrar skoðunar að þessa umræðu eigi að taka í samfélaginu, um kosti og galla ESB-aðildar, og það eigi að leiða hana til lykta í gegnum það samningaferli sem Alþingi hefur samþykkt. Þingmaðurinn kann að vera ósammála mér um þetta, ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum hans í þessu máli og ég ætlast til þess að það sé borin virðing fyrir mínum skoðunum.

Ég vil svo bara nefna það að þau dæmi sem þingmaðurinn nefndi hérna, eins og matvælalöggjöfin og fjórfrelsið, alveg sérstaklega, eru EES-mál og það veit þingmaðurinn. Aðlögun sem kann að hafa átt sér stað hvað þau varðar (Forseti hringir.) koma í gegnum EES-samninginn (Forseti hringir.) sem hér hefur verið í gildi í bráðum 20 ár.



[15:42]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er býsna vanur því þegar ég flyt ræður eða tek til máls og hef gert á umliðnum árum, um atriði sem hv. þingmaður er ekki sammála eða aðrir í hans flokki, að þá er farið út í útúrsnúninga. Það er fullyrt að það sé hálfsannleikur í gangi en ekki nefnt eitt einasta dæmi. Ég býst við að hv. þingmaður komi að því í ræðu sinni hér og ég skora á hv. þingmenn stjórnarliðsins að taka þátt í þessum umræðum og upplýsa. Ég geng að því sem vísu og spyr kannski hv. þingmann á móti: Heldur hann að við munum fá einhverjar undanþágur frá fjórfrelsinu? Heldur hann það?



[15:44]
Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt að ég hafi ekki nefnt nein dæmi. Ég nefndi sérstaklega matvælalöggjöfina og fjórfrelsið. Og ég tel að þingmaðurinn hafi verið að gefa það í skyn að aðlögun í þeim málaflokkum væri til komin vegna ESB-umsóknarinnar. Það eru EES-mál og menn verða þá að svara því hvort þeir vilji kannski fara út úr EES. Því miður skortir að mínu viti umræðu um það í þessum sal, um EES-samninginn sjálfan. Þar erum við algerlega áhrifalaus og ég er sammála þingmanninum um það að við komum ekki að löggjafarvaldinu í því efni. Það eru mörg dæmi um það.

Hins vegar vil ég líka segja að það hafa verið gerðar breytingar á þinglegri meðferð EES-mála og í fyrsta skipti núna fyrir stuttu síðan skrifaði utanríkismálanefnd Alþingis utanríkisráðherra bréf og óskaði eftir því að tilskipun um gagnageymd yrði ekki tekin upp í EES-samninginn að svo komnu máli. Það hefur ekki gerst áður. Það var vegna þess að það hafði verið farið í ítarlega skoðun á því máli á vettvangi utanríkismálanefndar.

Varðandi spurninguna um það hvort við getum fengið einhverjar undanþágur vil ég bara nefna að til dæmis í samningsafstöðunni um utanríkismál höfum við sett fram okkar sérstöðu sem herlaus þjóð, við höfum sett fram okkar sérstöðu um að við ætlum ekki að vera þátttakendur í Varnarmálastofnun Evrópu o.s.frv. Þetta hefur Evrópusambandið fallist á, það er dæmi um slíkt. En ég mun fara (Forseti hringir.) ítarlegar í þessi efnisatriði síðar í umræðunni.



[15:44]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að geta verið að minnsta kosti sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um eitt atriði og það er að ég hygg að umræða um EES-aðild okkar sé einnar messu virði í umræðum. Það er alveg öruggt mál. Staðan er orðin þannig að við þurfum að hugleiða það.

Ég er hins vegar gjörsamlega fullviss þess og það eru ekki dæmi þess að menn hafi samið sig undan meginreglum í regluverki ESB. Það er það sem ég segi að sé að berja hausnum við stein. Ég vil líka gjarnan, eins og þingmannanefndin mælti með, taka til rækilegrar endurskoðunar innleiðingarkerfið og aðkomu okkar að því sem er stutt og reyndar ekki þingsins heldur gerist úti í Brussel. Þar vildi ég að aðkoman yrði flutt inn til þingsins og (Forseti hringir.) ég hygg að menn skyldu skoða það að við yrðum verulega áhrifalaus innan ESB (Forseti hringir.) með 430 nefndir sem við getum ekki sinnt.



[15:45]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þetta mál, það var mjög athyglisvert, sérstaklega þau ummæli hv. þingmanns um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri gengin í björg og sá stjórnmálaflokkur ætti að koma hreint fram og viðurkenna að hann styddi aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns, sem er samþingmaður minn úr Suðurkjördæmi, hvort hann hafi orðið var við í síðustu kosningabaráttu að hin einarða afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn ESB-aðild og gegn því að sótt yrði um ESB-aðild hafi komið flokknum mjög til góða í kosningabaráttunni. Í okkar kjördæmi er mikil andstaða við þetta mál og mikilvægt að átta sig á því að maður er stöðugt að hitta kjósendur, fyrrverandi kjósendur Vinstri grænna úr kjördæminu, sem upplifa þessi sinnaskipti flokksins sem svik við það sem sagt var í kosningabaráttunni. (Forseti hringir.) Hvenær telur hv. þingmaður að flokkurinn hafi skipt um skoðun í þessu máli? (Forseti hringir.) Var það þegar aðildarumsóknin var samþykkt eða síðar?



[15:47]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er talsmaður þess að fólk komi einlæglega hreint fram. Hafi það áhuga á ESB-aðild á það að segja það, styðja það og rökstyðja á grundvelli regluverks ESB og segjast bara vita að það sé okkur í hag. (Gripið fram í.)

Einörð afstaða mín í kosningabaráttunni býst ég við að sé kunn hv. þingmanni og ég hygg að flokkurinn hafi haft góða framgöngu þar út á það mál. En síðan hefur mér orðið ljóst að á tímum bráðabirgðastjórnarinnar frá 1. febrúar til kosninga hafa stjórnarflokkarnir sammælst um það á því tímabili að ganga í ríkisstjórnarsamstarf næðu flokkarnir meiri hluti á þingi, undir þeim formerkjum að sækja um aðild að ESB. Mér var það ekki ljóst. Það að Icesave-samningurinn skyldi koma fram svo fljótt benti mjög til þess, (Forseti hringir.) vegna þess að samningaviðræður áttu sér stað um Icesave-samninginn á meðan á stjórnarmynduninni stóð og áður.



[15:48]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér eru mikil tíðindi á ferðinni. Hv. þingmaður staðfestir hér að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi verið búin að ákveða fyrir síðustu kosningar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Að mínu viti fer það algerlega gegn þeim kosningaáróðri og þeim málflutningi sem frambjóðendur og forusta þess flokks fór fram með í síðustu kosningabaráttu.

Þetta eru alvarleg tíðindi, frú forseti, og mjög áhugavert að hv. þingmaður skuli koma þessum upplýsingum á framfæri. Þetta sýnir okkur kannski að þeir hv. þingmenn sem starfa innan þessarar hreyfingar eru stundum sekir um að kasta steinum úr glerhúsi þegar talað er um að hafa allt uppi á borðum og koma hreint fram.



[15:49]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það voru ekki mín orð að flokkurinn sem heild hefði samþykkt afstöðubreytingu í þessum efnum í kosningabaráttunni, hvorki þingflokkurinn né í landsfundarsamþykktum. Það mátti að vísu örla á henni í einni landsfundarsamþykkt eftir á að hyggja vorið 2009, en ekki flokkurinn í heild. Ákveðnir aðilar voru í viðræðum sem ég vissi ekki um. En það var ekki flokkurinn í heild (UBK: Hverjir?) og ekki þingflokkurinn þá.

Það verða þeir að upplýsa sem stóðu að því. (Gripið fram í.) Ég var ekki fluga á vegg þar svo ég veit það ekki, en þannig birtist mér þetta í atburðarásinni í stjórnarmyndunarviðræðunum 2009 í maí og svo með því að fyrsti Icesave-samningurinn kom fram bara eins og blaut tuska (Gripið fram í.) vegna þess að ég studdi það ekki. En ég studdi og gerði fyrirvara við (Forseti hringir.) ESB-umsóknina eins og öllum er kunnugt um og áskildi mér rétt til að (Forseti hringir.) berjast gegn henni innan stjórnar.



[15:51]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA). Um þetta ætlaði ég að tala í þessari tíu mínútna ræðu minni en maður er eiginlega hálflens þar sem maður er með hugann við þá aðferð og aðferðafræði sem núverandi ríkisstjórn viðhafði í sinni bráðabirgðastjórnartíð eins og kom fram í þeim ummælum sem féllu áðan hjá hv. þm. Atla Gíslasyni.

Ég er sammála hv. þm. Atla Gíslasyni um að við sem störfum í pólitík hljótum að gera það til að berjast fyrir sjónarmiðum okkar. Ef menn vilja leyna því hvaða skoðanir þeir hafa á stórum málum skil ég ekki til hvers þeir starfa í pólitík. Af hverju kemur fólk ekki einfaldlega hreint fram? Ef forustumenn Vinstri grænna voru búnir að semja um að sækja um aðild að Evrópusambandinu áður en til kosninga kom árið 2009, hvers vegna kom það ekki fram í málflutningi þeirra fyrir kosningar? Hvers vegna var verið að slá ryki í augu kjósenda og halda því fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri sá stjórnmálaflokkur sem væri hvað mest á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu? Hvernig getur fólk leyft sér að koma svona fram? Það er mér algjörlega hulin ráðgáta. Ég skil ekki til hvers menn og konur eru að berjast fyrir því að fá sæti á Alþingi út á einhvern málflutning sem þeir vita sjálfir að þeir ætla ekki að standa við.

Frú forseti. Ég hef svo margt að segja um málið sem hér liggur fyrir að ég verð að reyna að einbeita mér að því að tjá mig um það og mun nú snúa mér að því. Hér er um að ræða rammasamning sem ríkisstjórn Íslands hefur undirritað. Í þeim samningi sem birtur er sem fylgiskjal er Ísland kallað aðstoðarþegi. Við erum sem sagt aðstoðarþegar, og þegar bara af þeirri ástæðu finnst mér þessi samningur á einhvern hátt vera hálfniðurlægjandi.

Á bls. 7 í þingskjalinu er fjallað um þetta fyrirkomulag og um hvað samningurinn snýst. Hér er vitnað í þær heimildir sem Evrópusambandið hefur til þess að gera samninga sem þessa, en það er reglugerð EB nr. 1085/2006. Sú reglugerð fjallar um að stofna sjóð til að fjármagna aðstoð umsóknarríkja ESB, svokölluð IPA-rammareglugerð. Hún er sem sagt eini lagagrundvöllurinn sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki hvílir á.

Í inngangskafla samningsins segir, með leyfi forseta:

„… fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“

Hér er byggt á þeim lagagrunni að heimilt sé að gera pólitískar umbætur, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur á Íslandi í því skyni að Ísland geti gerst aðili að Evrópusambandinu.

Þetta er skýrt aðeins nánar í 3. tölulið inngangskaflans en þar segir, með leyfi forseta:

„aðstoðarþeginn“ — þ.e. Ísland — „er aðstoðarhæfur samkvæmt reglum IPA eins og kveðið er á um í IPA-rammareglugerðinni og IPA-framkvæmdarreglugerðinni.“

Ég ítreka þetta og vil leggja áherslu á þetta vegna þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur reynt að koma því að hér úr sæti sínu að þessi orð um pólitískar umbætur hafi enga þýðingu, þetta sé bara eitthvert orðalag sem tíðkaðist þegar gerðir voru samningar við austantjaldslöndin sem voru að reyna að komast inn í Evrópusambandið. Það er engu að síður, forseti, algjör markleysa að halda því fram, því að þegar maður les fyrrgreindan 3. tölulið má sjá að þar er vísað sérstaklega í að samningurinn sé grundvallaður á IPA-rammareglugerðinni og aðstoðarþeginn sé aðstoðarhæfur samkvæmt þeirri reglugerð, þ.e. hann getur sótt um aðstoð til þess að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá þessu.

Frú forseti. Í 3. gr. samningsins er fjallað um markmið hans. Þau felast í því að samningsaðilar hafa samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann, þ.e. Ísland, í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins. Íslenska ríkisstjórnin er sem sagt búin að samþykkja að undirbúa Ísland í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins.

Síðan segir hér, frú forseti:

„… þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga …“

Hvernig, frú forseti, er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að hér sé verið að semja um að Ísland heimili og samþykki að aðlaga réttarreglur sínar að réttarreglum ESB? Þetta stendur hér svart á hvítu og ég skil ekki hvernig er hægt að hártoga það. Í ljósi þess sem ég sagði í upphafi ræðu minnar þá skil ég ekki hvers vegna þeir sem styðja þetta aðildarferli viðurkenna ekki að hér er aðlögun í gangi. Hvað er svona hræðilegt við að viðurkenna það ef menn hafa sannfæringu fyrir því að við séum á réttri leið og séum að gera rétt með því að sækja um aðild? Hvers vegna er þá ekki talað skýrt og fólki sagt satt? Ég skil þetta ekki.

Kannski er þetta bara framhald af því sem hv. þm. Atli Gíslason talaði um áðan, þetta byggir allt saman á því að fólk var blekkt í upphafi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var búin að ákveða fyrir fram að fara inn í þetta ferli án þess að tiltaka það sérstaklega í kosningabaráttu sinni, heldur þvert á móti. Næsti áfangi er að segja heldur ekki rétt til um þetta. Mér finnst það einkennileg pólitík og skil ekki hvers vegna fólk tekur þá að sér að vera í svona störfum.

Frú forseti. Í 5. gr. er fjallað um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð. Til að hnykkja enn betur á því að hér stendur svart á hvítu að um aðlögun sé að ræða, segir í b-lið 5. gr.:

„aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB.“

Hvernig getur þetta verið skýrara?

Frú forseti. Það er annar þáttur í þessum samningi sem mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum ítarlega í þessum sal. Í ljósi þess hver markmiðin með samningnum eiga að vera er mjög hollt og gott fyrir okkur öll að kynna okkur þá kröfu Evrópusambandsins samkvæmt samningnum að allir þeirra styrkir séu mjög sýnilegir og alveg ljóst sé hvar Evrópusambandið kemur að málum.

Í e-lið 1. töluliðar 5. gr. samningsins er fjallað um að aðstoðarþeginn eigi að tileinka sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar. Þar segir m.a., frú forseti, með þínu leyfi:

„… tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB,“

Hvers vegna leggur ESB svona mikla áherslu á þetta? Er það til að hafa áhrif á afstöðu manna til Evrópusambandsins? Hver ætti tilgangurinn annars að vera með því að leggja svo mikla áherslu á sýnileikann? Það er ekki nóg með að þetta sé tiltekið í 5. gr. heldur fjallar 10. gr. eingöngu um kynningu og sýnileika. Í 1. tölulið 10. gr. segir m.a., með leyfi forseta:

„Upplýsingunum skal beina til borgaranna og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB og tryggja gagnsæi.“

Það er því alveg augljóst, frú forseti, að Evrópusambandið leggur mikla áherslu á að það sé alveg ljóst að það er sjálft Evrópusambandið sem kemur hér og styður þessi ágætu verkefni.

Í fyrri ræðu minni um þetta mál lenti ég í andsvörum við hv. þingmenn stjórnarliðsins, m.a. Mörð Árnason, um Kötlu jarðvang eða Katla Geopark. Ég var spurð að því hvernig ég, þingmaður Suðurkjördæmis, gæti verið svona mikið á móti verkefni í heimabyggð minni. Það er auðvitað fáránlegt að setja hlutina í það samhengi. Þeir sem vilja vita það geta kynnt sér að við öll sem erum þingmenn Suðurkjördæmis höfum stutt þetta verkefni. Það hafði þegar hlotið styrk á fjárlögum, ekki nærri því jafnmikinn styrk og Evrópusambandið getur lagt inn í gegnum IPA-kerfi sitt, en það hefur reyndar ekki fengist heimild fyrir því á Alþingi að taka inn þetta fé. Mér finnst ósvífið af þingmönnum stjórnarliða að halda því fram að við sem erum á móti IPA-styrkjunum séum þar með á móti öllum þeim verkefnum sem hafa sótt um þessa styrki. (Forseti hringir.) Það er fráleitt að tala um hlutina á þennan hátt (Forseti hringir.) og í raun til hreinnar skammar fyrir Alþingi að menn skuli leggjast leggjast svona lágt í umræðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:01]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Það er ýmislegt sem fólki getur svo sem brugðið við í þessari umræðu. Í dag var nefnt að með IPA-styrkjunum væru menn að kaupa sér velvild og allt að því ýjað að því að verið væri að múta fólki til að samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst þetta sérstaklega áhugavert því að eins og hv. þingmaður veit er ég líka þingmaður Suðurkjördæmis og þar er eitt helsta matvælaframleiðslusvæði landsins. Ætlunin var að setja allt að því 300 millj. kr. af IPA-styrkjum í að styrkja eftirlit með ýmsum efnum og tryggja betur matvælaöryggi á Íslandi. Ég mundi halda að það að styrkja þetta eftirlit og framkvæmd þess væri kannski ekki tilefni til að auka jákvæðnina eða velvildina á Suðurlandi, sérstaklega ef það væri orðið mjög íþyngjandi, eins og menn veltu fyrir sér þegar lög nr. 143/2009 voru samþykkt og þar áður lög sem við erum skyldug að innleiða samkvæmt EES-samningnum.

Ég er alveg sammála þingmanninum um að við erum í aðlögunarferli en ég er ósammála þeim áherslum sem hafa komið fram, kannski sérstaklega í máli sumra hv. þingmanna Vinstri grænna til dæmis, að aðlögun hafi hafist við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að hún hafi byrjað þegar við tókum þátt í EES-samningnum og dæmi um það má benda á dagskrána hér í dag, 55,6% af öllum málum sem eru á dagskrá tengjast með einum eða öðrum hætti EES-samningnum. Ég hefði því áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvort hún sé sammála mér hvað það varðar að aðlögunarferlið hafi í raun og veru hafist 1992 og minn flokkur og hennar flokkur hafi þar með staðið að aðlögun að Evrópusambandinu.



[16:03]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stóri munurinn á þeirri aðlögun sem við erum að horfa upp á hér og nú og þeim breytingum á íslenskum réttarreglum sem áttu sér stað í kjölfar EES-samningsins er sá að Alþingi Íslendinga samþykkti EES-samninginn. Mér vitanlega erum við ekki búin að samþykkja það að ganga í Evrópusambandið. Það er stóri munurinn. Meðan ekki er búið að samþykkja að ganga í Evrópusambandið og í rauninni að taka upp þá þætti sem við höfum ekki þegar samþykkt að innleiða í okkar rétt og ganga að fullu inn í Evrópusambandið, þá er mjög einkennilegt að við séum í aðlögun. Það er eins og verið sé að baktjaldamakkast með þetta hér, sérstaklega af því að menn geta ekki viðurkennt að þetta sé í gangi þó að það standi svart á hvítu í þeim þingskjölum sem við erum með til umræðu í dag og þó að það standi á heimasíðu Evrópusambandsins að umsóknarferlið fari þannig fram að ESB. Hvers vegna geta menn einfaldlega ekki talað um hlutina eins og þeir eru? Ég get ekki skilið hvers vegna farið er fram með þessum hætti nema menn séu með þá aðferðafræði í gangi að ganga það langt og aðlaga okkur það mikið að ekki verði aftur snúið og það verði rökin fyrir því að menn þurfi að samþykkja það að ganga í Evrópusambandið. Í rauninni er tilgangslaust að vera að fabúlera eitthvað um það.

Þeir sem styðja þetta mál eiga að koma hreint fram og segja okkur hvers vegna aðlögun er í gangi og hvers vegna þeir hafa hingað til ekki viljað viðurkenna það þó að það standi svart á hvítu í þingskjali sem er til umræðu núna en þeir virðast ekki ætla að blanda sér í umræðuna í dag, því miður.



[16:06]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að ítreka spurningu mína: Hvenær hófst aðlögunin að mati hv. þingmanns? Var það 1992 eða var það 2009?

Hjá hv. þingmanni kom fram rökstuðningur fyrir því að munurinn á þeirri löggjöf sem flokkur hennar og Framsóknarflokkurinn, þegar við vorum í ríkisstjórn, stóðum að við að innleiða og sem tengdist EES-samningnum væri sá að þar hefði Alþingi samþykkt samninginn. Ég verð að segja að ég á svolítið erfitt með að samþykkja þann rökstuðning vegna þess að ég tel að það hafi falist það mikið fullveldisframsal í EES-samningnum og spurning hvort Alþingi hafi haft heimildir samkvæmt stjórnarskrá landsins til að samþykkja slíkt fullveldisframsal, hvort ekki hefði þurft að setja inn ákvæði í stjórnarskrá til að tryggja það, og ekki fór fram nein þjóðaratkvæðagreiðsla um það, sem ég tel að sé alger forsenda. Það verður endanlega að vera þjóðin sem samþykkir, það getur ekki verið Alþingi sem ætlar að fara að samþykkja það að ganga þarna inn eða ekki.

Hins vegar eru Íslendingar dagsdaglega víðs vegar í samfélaginu að þiggja styrki sem tengjast Evrópusambandinu. Nýlegt dæmi um það núna, frá 28. maí, var þegar Háskóli Íslands fékk einn stærsta styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu í sögu skólans upp á 400 millj. kr. sem eiga að fara í að þróa tölvu sem getur prófað hvaða áhrif lyf hafa á efnaskipti mannsins. Þetta tengist líka EES-samningnum vegna þess að öll lyf sem koma inn í landið þurfa meira og minna að uppfylla skilyrði sem tengjast EES-samningnum og samningssambandi okkar við þá. Ég verð að segja að þarna tel ég að menn sem ætla fyrst og fremst að hugsa um það að þróa tækjabúnað, þróa mannauð í háskólanum með þessum 400 millj. kr. eru svo sannarlega ekki að hugsa um að þeir ætli sér að verða svo ótrúlega meira velviljaðir gagnvart Evrópusambandinu en háskólamenn eru kannski almennt nú þegar.



[16:08]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig hafa svarað spurningunni áðan vegna þess að með því að ganga í EES vorum við ekki að ganga í ESB. (Gripið fram í: … aðlaga okkur.) Við gengum í EES og vorum þá að skuldbinda (Gripið fram í.) okkur til að taka ákveðin réttarsvið inn í okkar rétt en ekki öll, svo við samþykktum ekki þá að aðlaga okkur að fullu leyti að ESB. Ég get engan veginn samþykkt það. Fyrir utan samninginn stóðu á þeim tíma meðal annars sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Og vill hv. þingmaður halda því fram að eftir undirritun EES-samningsins hafi átt að breyta öllu, líka því sem stendur utan EES-samningsins? (Gripið fram í.)

Varðandi styrkina þá er það ekki þannig að þótt ég sé á móti þessu máli hér, sem fjallar um IPA-styrkina, þá sé ég á móti öllum styrkjum í heiminum sem veittir eru, það er ekki svo. Þessir styrkir miðað við þann samning sem fyrir liggur eru veittir með því markmiði að gera meðal annars pólitískar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Ég get ekki fellt mig við það. Í ljósi þess sem ég sagði í ræðu minni, þeirri áherslu sem Evrópusambandið leggur á það að þátttaka og styrkveitingin sé í nafni ESB verði að vera mjög áberandi og sýnileg, þá er alveg augljóst hver tilgangurinn er með þessum samningi. Ég felli mig einfaldlega ekki við þá aðferðafræði og þá hugmynd að aðstoðarþeginn, Ísland, sé að taka við fjármunum til að reyna að auka og bæta ímynd Evrópusambandsins á Íslandi.



[16:10]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Já, hér er deilt um það hvort um aðlögun sé að ræða eða ekki. Það kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra í morgun að við værum ekki að breyta stofnunum og okkar lögum vegna þessarar umsóknar. Ég tel einfaldlega að það sé rangt. Þess vegna skil ég ekki hvernig hæstv. utanríkisráðherra getur farið fram með þetta úr ræðustól þingsins trekk í trekk og ekki nóg með það, heldur hefur hann svarað sambærilega í skriflegu svari til þingsins. Þetta er alveg með ólíkindum, sérstaklega þegar rýnt er í 5. gr. þessa samnings sem nú er til umfjöllunar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi meginreglur gilda um fjárhagslega aðstoð ESB samkvæmt reglum IPA:

a) aðstoð skal vera í fullu samræmi við meginreglurnar um samfellu, heildstæðni, samræmingu, samvinnu og samþjöppun,

b) aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB“.

Hvernig geta menn farið í gegnum slíka heilaþvottastöð eins og samfylkingarþingmenn gera? Hér stendur þetta svart á hvítu og hefur svo verið um langa hríð.

Einnig er verið að fjalla um að aðlögun hafi byrjað þegar við urðum aðilar að EES. Það er einfaldlega rangt því það var að kröfu ESB að við urðum að lögleiða í EES-samninginn til dæmis greiðslur í þróunarsjóð EFTA, sem var samningsbundinn áður. Og svo höfum við þurft að taka upp evrópska loftslagskerfið vegna þess að umsóknin lá inni. Það hefur líka komið fram í þingræðum. Þetta er því alveg með ólíkindum að fólk skuli bæði vera að hafna því að hér sé aðlögun í gangi og jafnframt að aðlögunin hafi hafist 1994 (Gripið fram í.) þegar við urðum aðilar að EES.

Mig langar til að spyrja þingmanninn aðallega út í það hvað henni finnist um orð hæstv. utanríkisráðherra frá því í morgun. (Gripið fram í.)



[16:12]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þau ummæli hæstv. utanríkisráðherra að við séum ekki í aðlögun þá hefur sá ágæti ráðherra sagt það margoft úr þessum stól og annars staðar, en hann verður bara að eiga það við sjálfan sig. Það stendur hér svart á hvítu, það er ekki hægt að skilja þau orð í þessum rammasamningi sem er á milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á annan hátt en að við séum í aðlögun þegar maður les setningu eins og þessa í 3. gr. þar sem fjallað er um markmið, með leyfi forseta:

„Til að stuðla að samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins, þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga, …“

Hvernig á að vera hægt að skilja þetta á annan hátt? Ég get ekki séð hvernig hæstv. utanríkisráðherra nær að búa til þá leikfléttu og þann orðaflaum að reyna að sannfæra menn um að þetta sé ekki aðlögun. Ég skil heldur ekki alveg, frú forseti, tilganginn hjá hæstv. utanríkisráðherra að reyna að afneita þessu. Ég skil ekki tilganginn með því. Ef menn vilja fara í Evrópusambandið þá vita menn og geta lesið um það á heimasíðu Evrópusambandsins hvernig það ferli gengur fyrir sig. Það er um aðlögun að ræða og hefur verið hjá öllum þeim þjóðum sem hafa gengið í Evrópusambandið, þær sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu fara þennan farveg og reyna að aðlaga réttarreglur sínar að Evrópusambandinu vegna þess að það er almennt þannig að þær þjóðir sem sækja um aðild að Evrópusambandinu vilja ganga í Evrópusambandið. Hér erum við hins vegar ekki í þeirri stöðu að ríkisstjórnin hafi sannfæringu fyrir því að þetta sé rétta leiðin, virðist vera, fyrst þeir geta ekki talað hreint út um hlutina og kallað hlutina réttum nöfnum.



[16:14]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það er ágætt í ljósi þess sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fór yfir að mikil umsóknarhrina var að Evrópusambandinu kringum 1990–1994 sem leiddi til þess að Norðurlöndin gengu inn í Evrópusambandið að Noregi undanskildum sem felldi Evrópusambandsumsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sama ár felldi Sviss EES-samninginn og dró þar með umsókn að Evrópusambandinu til baka og hefur ekki reynt á það síðar í Sviss. Eftir hræðilega útkomu Evrópusambandsins í Noregi eftir að þeir voru búnir að dæla miklu fé í auglýsingaherferðir sem samtökin Nei til EU hafa staðfest var farið í það að breyta vinnuferli Evrópusambandsins þannig að það þyrfti að styrkja stoðirnar og þá var þetta aðlögunarferli tekið upp.

Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því í morgun, vegna þess að Malta dró umsókn sína til baka á árunum 1996 til ársins 2000, hvort það hefðu verið einhverjar afleiðingar fyrir Maltverja á þeim tíma eða hvort þeir hefðu þurft að greiða eitthvað til baka af þeim styrkjum sem þeir hefðu þá þegar þegið en hæstv. utanríkisráðherra kaus að svara því ekki, og svo vitum við það að Malta gekk inn árið 2000. Ekki hefur reynt á það vegna þess að ekki er lagabókstafur fyrir því í lögum Evrópusambandsins að umsóknarríki þurfi að greiða styrkina til baka. Í ljósi makríldeilunnar, Icesave-samningsins og fleiri þvingunarúrræða sem Evrópusambandið hefur beitt okkur Íslendinga, þrátt fyrir orð hæstv. utanríkisráðherra að við þurfum ekki að greiða styrkina til baka, segi þjóðin nei í þjóðaratkvæðagreiðslu út frá lögfræðilegum sjónarmiðum þegar ekki eru ákvæði í lögum um tiltekið efni, er þá ekki hægt að gagnálykta og segja sem svo að Evrópusambandið geti sótt rétt sinn vegna þess að ekki eru ákvæði um þetta í lögum?



[16:16]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki séð þess stað í þessum samningi sem varðar umrædda styrki að fjallað sé um það hvað gera skuli ef ekki verður af aðild. (Gripið fram í.) Það er ekki fjallað um það í þessum samningi og athyglisvert að það sé ekki, en í 16. gr. er fjallað um lok áætlana og þess háttar og allar breytingar sem gera skuli, hvernig á að fara fram með þær og svo jafnframt um það hvernig hægt sé að segja upp samningnum sem er ótímabundinn. Það er því spurning þegar Ísland verður búið að fella þá tillögu að ganga í Evrópusambandið hvort ESB muni þá horfa á það að segja þessum samningi upp á grundvelli 23. gr. samningsins. En ég átta mig ekki alveg á því á grundvelli hvaða réttarreglna Evrópusambandið ætti að sækja þessa fjármuni til baka vegna þess að þetta er samningur sem er í gildi og þeir samþykkja það að láta af hendi fjármuni í þessi verkefni. Það verður þá bara að reyna á það þegar þar að kemur vegna þess að ég tel að það muni þar að koma. Ég tel að öllum sé ljóst að Ísland gengur ekki í Evrópusambandið, mun aldrei samþykkja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vek athygli á því að í öllum þeim samningaviðræðum sem staðið hafa yfir núna í um það bil þrjú ár um aðild Íslands að Evrópusambandinu þá hef ég ekki séð þess stað að okkur standi til boða slíkar undanþágur frá reglum ESB varðandi þá kafla sem þegar er byrjað að semja um, að við munum ná gríðarlegum árangri í þeim köflum sem menn hafa ekki þorað að opna hingað til. Af þeirri ástæðu er algerlega ljóst að Íslendingar upp til hópa munu fella það að Ísland gangi í Evrópusambandið.



[16:19]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vildi aðeins víkja að nokkrum atriðum varðandi umsóknir um þessa IPA-styrki, aðlögunarstyrki Evrópusambandsins. Það hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni að þeir styrkir sem þarna er um að ræða standa umsóknarlandi til boða til að aðlaga stjórnsýslu sína, stofnanir og stuðningsverk kröfum Evrópusambandsins. Það er eðlileg krafa hjá Evrópusambandinu sjálfu eftir samningana við Noreg sem voru felldir og að Norðmenn höfðu ekki farið út í neina aðlögun á tímabilinu heldur bara gert samningana sem síðan voru felldir og þá hafði Evrópusambandið að eigin mati lagt verulega í án þess að fá nokkuð til baka. Þegar Austur-Evrópulöndin fóru að sækja um var ljóst að innra kerfi þeirra var í mörgu ábótavant og til þess að geta látið aðildina ganga sem hraðast fyrir sig var stofnaður sérstakur sjóður af hálfu Evrópusambandsins til að styrkja þessi ríki, hjálpa þeim til að uppfylla þær kröfur sem Evrópusambandið gerði í aðlögunarferlinu þannig að þegar svokölluðum samningaviðræðum væri lokið væri líka búið að laga innra kerfi og innri uppbyggingu þessara landa að Evrópusambandinu þannig að strax við atkvæðagreiðsluna, þegar viðkomandi samningar höfðu verið samþykktir, gat landið orðið fullgildur aðili og tekið þátt.

Þetta sama er líka eðlileg krafa af hálfu Evrópusambandsins og ESB-sinna hér, þ.e. að þetta aðlögunarferli sem við erum núna með í gangi þannig að þegar, og ef, samningum lýkur og verða samþykktir geti Ísland orðið fullgildur aðili að Evrópusambandinu strax frá fyrsta degi enda er það sett sem skilyrði.

Ég fékk fyrst að vita af þessum styrkjum þegar til mín kom tölvupóstur úr forsætisráðuneytinu 18. ágúst 2010. Tölvupóstur barst öllum ráðuneytum um að nú þyrftu þau að sækja um þessa styrki. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr þessu bréfi. Þetta var sent á mjög marga aðila og er í sjálfu sér ekkert leyndarmál, enda eiga alls ekki að vera nein leyndarmál í kringum þessa Evrópusambandsumsókn enda var lofað að allt ferlið væri mjög opið. En þá kemur svona bréf til allra ráðuneytisstjóra og ráðherra, frú forseti:

„Kæra samstarfsfólk. Í framhaldi af umfjöllun á ráðuneytisstjórafundi sendi ég þér í viðhengi skipulag í tengslum við stuðningsaðgerðir ESB í umsóknarferlinu sem samþykkt var á síðasta fundi ráðherranefndar um Evrópumál. Gert er ráð fyrir að allar verkefnaumsóknir um IPA-styrki fari til umfjöllunar í sérstökum IPA-stoðhópi sem forsætisráðuneytið leiðir. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðuneytisstjórahópurinn myndi IPA-samráðsnefnd sem fer yfir þau verkefni sem stoðhópur IPA leggur til að fari í umsóknarferli hjá Evrópusambandinu. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því að öll ráðuneyti skili tillögum að verkefnum til IPA-stoðhópsins fyrir lok þessarar viku, þ.e. í síðasta lagi föstudaginn 20. ágúst næstkomandi.“

Ég vek athygli á því, frú forseti, að þetta bréf er dagsett 18. ágúst og þarna fékk ég fyrst formlega að vita af því að þetta væri í gangi. Síðan eru tilgreindir tengiliðir í forsætisráðuneytinu og hvernig með skuli farið. Framkvæmdastjórn ESB, með leyfi forseta, svo ég vitni aftur til bréfsins, „hefur óskað eftir því að tillögur að verkefnum liggi fyrir fyrir 1. september 2010 og í framhaldi af því hefst samráðsferli sem getur tekið nokkurn tíma en leggja ber áherslu á að það er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem ákveður að loknu því samráði hvaða verkefni verða fyrir valinu“.

Það er alveg ljóst að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er með yfirumsjón með þessum verkefnum, vald yfir þeim og síðan að fylgja eftir framkvæmdinni.

Þegar þetta bréf barst varð ég nokkuð hissa. Ég vissi ekki að ferlið væri komið í þann farveg að við ættum að fara að sækja um sérstakt fjármagn sem veitt er umsóknarríkjum til aðlögunar að Evrópusambandinu í umsóknarferlinu. Ég brást við með því að ég lýsti því yfir að ég vildi fá að kanna þetta nánar og teldi að þetta samrýmdist ekki samþykkt Alþingis þegar Alþingi sótti um aðild að Evrópusambandinu og að þetta samrýmdist því ekki að við færum að taka við stuðningsfé beinlínis til aðlögunar í ferlinu.

Ég fékk heldur kaldar kveðjur. Ég minnist þess að hæstv. forsætisráðherra tjáði sig opinberlega um það að Jón Bjarnason ætti að huga að stöðu sinni í ríkisstjórn þegar ég lagði þessa einföldu spurningu fram. Ég vildi fá upp á borðið hvað hér væri á ferðinni. Það var ekki ætlunin að menn veltu því neitt fyrir sér heldur átti bara að sulla sér beint út í díkið svo sem hefur verið hátturinn í þessum efnum.

Ég get svo upplýst að ég óskaði þá eftir því að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tæki þetta mál til skoðunar áður en ég sendi neinar umsóknir um styrkbeiðnir eins og kveðið var á um í þessu bréfi frá forsætisráðuneytinu. Það gekk nokkuð treglega að fá þennan fund en svo var hann haldinn og mig minnir að á þeim fundi hafi verið ákveðið að farið skyldi nánar ofan í þessi mál þannig að frestur til að skila umsóknum var lengdur og óskað eftir því að málið fengi nákvæmari skoðun. Síðan kom þetta mál aftur formlega inn og var greint frá því í ríkisstjórn skömmu fyrir hátíðar þetta sama ár, 2010, og var þá aftur sent til umfjöllunar í þingflokkunum. Hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði kom málið að minnsta kosti aftur til meðferðar í þingflokknum og það verður bara að segjast eins og er að á þeim tíma voru miklar deilur um það. Þeir hv. þingmenn Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason voru mjög virkir í þeirri umræðu og vildu fá nánari skýringar ásamt þeim sem hér stendur og fleirum um hvað væri á ferðinni, hvort þetta samræmdist umsókninni sem send var, hvort Alþingi hefði þegar samþykkt þetta. Málið var aldrei á þeim tíma afgreitt úr þingflokknum vegna mjög skiptra skoðana um það.

Það er athyglisvert að í því bréfi sem sent var af hálfu forsætisráðuneytisins 18. ágúst 2010, um að ráðuneytin ættu að fara að sækja um þessa styrki, er hvergi greint frá neinum fyrirvara um hvort það sé lagaleg stoð fyrir þessu, lagaheimild eða heimild Alþingis til að taka á móti þeim. Þannig fannst mér umræðan ganga fyrst í stað, að menn teldu að það þyrfti ekki að vera. Þegar ég síðan hafnaði því að fara að sækja um styrki á grundvelli aðlögunar á stofnunum ráðuneytisins og bar meðal annars fyrir mig að ég teldi að Alþingi hefði ekki heimilað það fórum enn að velta fyrir okkur hvort nægar heimildir væru fyrir hendi til að ráðast í þessa aðgerð. Síðan þá hefur komið á daginn, ég sé að tími minn er búinn, frú forseti, en ég hefði gjarnan viljað fara nánar inn í þetta ferli, hvernig það kemur síðan eftir á að átta sig á því að þurfa að fara að sækja heimildir Alþingis fyrst til að mega ganga til slíkra samninga og síðan aftur samþykkja lagafrumvarp til að útfylla þá. Þegar Alþingi hefur samþykkt slíka heimild (Forseti hringir.) er eðlilegt að í kjölfarið séu sett lög eða reglugerðir til að uppfylla þá heimild sem Alþingi hefur sett en það kom ekki fyrr en löngu seinna, (Forseti hringir.) eftir að þessi beiðni hefur verið send áfram til ráðuneytanna um að þeir færu að undirbúa umsóknir um þessa aðlögunarstyrki.

(Forseti (ÞBack): Forseti minnir hv. þingmenn á ræðutímann, það er tímamörk.)



[16:30]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni kærlega fyrir ræðu hans. Þingmaðurinn hefur setið á þingi frá 1999 þannig að hann kom eftir að við gengum í gegnum samningaferlið og innleiddum EES-samninginn. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að benda mér á að ég talaði um 1992, en það má segja að EES-samningurinn hafi verið unninn á tímabilinu 1989–1991. Fyrsta greinin tók gildi í byrjun janúar 1993 og afgangurinn af samningnum 1994.

Hvað telur hv. þingmaður að hann hafi samþykkt eða staðið að mörgum ályktunum og frumvörpum á þessum tíma, þ.e. frá 1999, sem hafa falið í sér aðlögun að Evrópusambandinu? Eitt dæmi er einmitt frumvarpið um nýju matvælalöggjöfina sem (Forseti hringir.) þingmaðurinn kom á í stöðu sinni sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, (Forseti hringir.) til að minna hann á eitt stórt mál.



[16:31]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi matvælalöggjöfina er rétt að minna hv. þingmann á að það var líklega í utanríkisráðherratíð þáverandi formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, sem gerður var samningur við EES-ríkin um að fella brott þær undanþáguheimildir sem við höfðum í ákveðnum viðauka og lutu m.a. að dýraheilbrigði o.fl. Það hafði verið gert án þess að setja neinn stjórnskipulegan fyrirvara um það að við mundum ekki innleiða t.d. dýraheilbrigðiskaflann. Vinna okkar í þinginu fólst fyrst og fremst í að bjarga því sem bjargað varð og því sem hægt var að bjarga með íslenskum lögum sem heimiluðu hvorki frjálsan innflutning á lifandi dýrum (Forseti hringir.) né heldur frjálsan innflutning á hráu, ófrosnu (Forseti hringir.) kjöti á forsendum dýraheilbrigðis.



[16:33]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það má þá skilja það svo að hv. þingmaður hafi ekki tölu yfir hversu mörg EES-mál hann hefur annaðhvort sjálfur staðið fyrir að flytja í þinginu eða samþykkt sem almennur þingmaður.

Svo að ég vitni aðeins í orð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, núverandi hv. þm. Jóns Bjarnasonar, við framsögu málsins, með leyfi forseta:

„… mjög mikilvægt er að þetta matvælafrumvarp fái afgreiðslu Alþingis til nefndar svo fljótt sem verða má. Umtalsverðir hagsmunir eru í húfi sem snerta m.a. sjávarútveginn og samskipti okkar innan EES.“ — Ekki ESB, EES.



[16:33]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmann rekur kannski minni til var það sem laut að sjávarútveginum og í þessum samskiptum löngu afgreitt mál. Hins vegar hékk það á sömu spýtunni að verða formlega afgreitt af hálfu Evrópska efnahagssvæðisins. Þegar ekki var búið að innleiða kröfur Evrópusambandsins og EES-ríkjanna um frjálsan flutning dýra og hrárra matvæla hótuðu þau að reglur sem lutu að sjávarútveginum yrðu ekki heldur innleiddar. Viðskiptastríði var því hótað en reglurnar voru í sjálfu sér löngu komnar til framkvæmda í öllum viðskiptum.

Það var gríðarlega mikilvægt á þessum tíma að Alþingi samþykkti að viðhalda banni á innflutningi lifandi dýra og einnig á hráu, ófrosnu kjöti til að (Forseti hringir.) vernda bæði bústofn og ekki síst heilbrigði búfjártegunda okkar. (Forseti hringir.) Það var gríðarlega mikilvægt, (Forseti hringir.) frú forseti.



[16:35]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ræðu hans. Það er einstaklega mikilvægt og dýrmætt fyrir okkur þingmenn að fá þær upplýsingar sem hann sem fyrrverandi hæstv. ráðherra kemur með í þessa umræðu. Þingmanninum til hróss stóð hann í fæturna gegn þessu og eins og hann fór yfir í ræðu sinni spurði hann á ríkisstjórnarfundum hverju þessar styrkumsóknir ættu að byggja á vegna þess að engin lagafrumvörp eða þingsályktunartillögur lægju fyrir sem leyfðu slíkt.

Mig langar að inna hv. þm. Jón Bjarnason í framhaldi af þessum ummælum: Hvernig var þessum spurningum tekið við ríkisstjórnarborðið?

Farið var af stað með mikinn blekkingaleik um leið og sótt var um styrkina. Ég og fleiri þingmenn spurðum t.d. oft um það hvort ætti að taka við þessum Evrópustyrkjum, ekki bara IPA-styrkjunum heldur líka TAIEX-styrkjunum sem ég veit að fyrrverandi ráðherra kynnti sér mjög vel.

Hvernig datt ríkisstjórninni í hug að fara af stað með þetta verkefni áður en nokkur lagaheimild var fyrir því á þingi?

Flestir vita að hv. þingmaður þurfti að gjalda fyrir skoðanir sínar með ráðherrastól. Það hefur nú verið upplýst.

Hvaða spurningar fékk þingmaðurinn þegar hann fullyrti að þetta væru aðlögunarstyrkir en ekki styrkir vegna þess að við værum í umsóknarferli? Vill ekki hv. þm. Jón Bjarnason deila aðeins reynslu sinni með okkur í þessari umræðu? Þetta skiptir gríðarlega miklu máli nú þegar Evrópusambandið ætlar að koma hingað með 5 þús. millj. ísl. króna (Forseti hringir.) og demba yfir íslenska þjóð.



[16:37]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar sem koma beint að kjarna málsins eins og hv. þingmanns er von og vísa í þessu máli.

Alþingi sendir þessa umsókn og hún er skilyrt. Alþingi sendir ríkisstjórninni heimild til að sækja um og umsóknin er skilyrt því að ekki verði vikið frá þeim meginhagsmunum sem þar eru tilgreindir. Þess vegna lagði ég áherslu á það í starfi mínu að ég mætti ekki gera neitt sem gengi á rétt Íslendinga eða gegn ákvörðun Alþingis eða þeim fyrirvörum sem það setti í þessu máli, þar á meðal að þiggja þessa aðlögunarstyrki.

Ég sagði: Ég fer ekki í að sækja um þessa aðlögunarstyrki. Í fyrsta lagi er ég á móti þeim og tel ekki heimild fyrir þeim. Í öðru lagi hefur minn flokkur lýst sig andvígan því að það verði gert og ályktað mjög ákveðið gegn því að við tökum við aðlögunarstyrkjum frá Evrópusambandinu. Í (Forseti hringir.) þriðja lagi tel ég ekki vera heimild fyrir því af hálfu Alþingis. Á meðan svo er get ég ekki haft frumkvæðið að því að sækja um slíka styrki. (Forseti hringir.) Ég sagði stofnunum mínum, sem heyra undir ráðuneytið, að það yrði því ekki gert.



[16:38]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar sem hv. þm. Jón Bjarnason kemur með. Hann var beinlínis að segja að athafnaleysi hans sem ráðherra, að fara að íslenskum landslögum, hafi kostað hann ráðherrasætið. Af þeirri einföldu ástæðu að hann segist ekki taka á móti styrkjunum vegna þess að við Íslendingar höfum ekki lagaheimild fyrir því kostaði það hann ráðherrastólinn. Þetta er athyglisvert, frú forseti. Rökstuðningurinn sem hv. þingmaður hefur jafnframt er akkúrat sú þingsályktunartillaga sem liggur fyrir hér og svo skattleysisfrumvarpið sem við ræðum þegar þessari umræðu lýkur.

Þetta hefur ríkisstjórnin komist upp með allan þennan tíma. Það er ógeðfellt að hugsa til þess að undirbúningur skuli hafinn í stjórnsýslunni að beiðni hæstv. forsætisráðherra að því að sækja um styrki sem ekki er lagaheimild fyrir. (Forseti hringir.) Það verður ekki heimilt fyrr en þessi þingsályktunartillaga er komin í gegnum þingið því að það er beinlínis kveðið á um það í gildistökuákvæði hennar.



[16:40]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli það sé ekki frekar athafnasemi mín sem ráðherra sem gerði að verkum að forustumenn ríkisstjórnarinnar ákváðu og kröfðust þess að ég viki úr ríkisstjórn. Það varð ljóst og birtist í ályktun Evrópuþingsins þegar ráðherraskiptum um áramótin var fagnað eftir að sá sem hér stendur var látinn fara enda talið að hin nýja ríkisstjórn mundi vinna miklu einbeittar að umsóknarferlinu en áður.

Ég lagði mikla áherslu á að fylgja samþykktum Alþingis. Þó að ég væri ekki samþykkur þessari umsókn var lögð rík áhersla á það af hálfu ráðuneytis míns og allra sem þar störfuðu og eins af mér sem ráðherra að fylgja eftir stefnu og ákvörðun Alþingis en ef vafi lék á hvort það væri í samræmi við lög og reglur Alþingis skyldi Alþingi njóta vafans. Þar á meðal voru þessir (Forseti hringir.) umsóknarstyrkir, sem ég kalla mútufé Evrópusambandsins (VigH: Já.) en þeir sem eru (Forseti hringir.) ESB-sinnar kalla þróunarstyrki eða aðstoðarstyrki. (Forseti hringir.) Ég er á móti því að taka á móti fjármagni til að leiða okkur inn í Evrópusambandið.



[16:41]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur bæði í ræðu og fyrri andsvörum rifjað aðeins upp ákveðna þætti sem varða aðdraganda þessa máls, þ.e. málsmeðferð þeirrar ríkisstjórnar sem hann átti aðild að til síðustu áramóta.

Það vakti athygli okkar sem höfum áhuga á þessum málum þegar ákveðin breyting varð á aðkomu ríkisstjórnarinnar að þessum málum í fyrravetur. Ég hygg að það hafi verið nálægt áramótum 2010/2011. Þá minnir mig að gerð hafi verið einhvers konar samþykkt í ríkisstjórn um málsmeðferð varðandi IPA-styrki eða styrki vegna aðildarumsóknarinnar. Í grunninn virðist verkefnið að sækja um styrki hafa flust frá einstökum ráðherrum til annars vegar (Forseti hringir.) ráðherranefndar um Evrópumál og hins vegar til samninganefndarinnar. (Forseti hringir.) Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það hafi hugsanlega verið vegna þess að fleiri (Forseti hringir.) hæstv. ráðherrar VG hafi verið óvissir um hvernig þeir ættu að bregðast við í sambandi við þessa (Forseti hringir.) IPA-styrki en hann sjálfur.



[16:43]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að minnsta kosti alveg ljóst að hörð afstaða mín í þessum efnum, þ.e. að ekki yrði sótt um þessa aðlögunarstyrki að Evrópusambandinu fyrir þær stofnanir sem heyrðu undir ráðuneytið, var ekki vel séð af hálfu ríkisstjórnarinnar, það skal bara sagt hér. Það var illa séð af forustumönnum hennar að ég skyldi ekki hlýða umyrðalaust. Eins og forsætisráðherra sagði í viðtali, að mig minnir, þurfti Jón að íhuga stöðu sína af því að hann vildi spyrja hvort þetta væri í samræmi við lög og reglur. Ákafinn í að komast í Evrópusambandið var slíkur hjá forsætisráðherranum og allt gott um það að segja. Hún er einlæg í því að vilja komast í Evrópusambandið.

Hitt er hárrétt, hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson lýsti því jafnframt yfir í kjölfarið að hann mundi ekki styðja það að stofnanir á vegum hans ráðuneytis mundu sækja um þessa aðlögunarstyrki (Forseti hringir.) og þeir eru síðan að veltast á milli ráðuneyta, utanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis, og hvar þeir eru (Forseti hringir.) nákvæmlega núna get ég ekki svarað hv. þingmanni.



[16:44]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Norðvesturkjördæmis fyrir svarið. Þetta stemmir nokkurn veginn við það sem ég man eftir í umræðum í þinginu um þessi efni, að í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að einstök ráðuneyti sæktu um IPA-styrki fyrir hönd ráðuneyta sinna en einhvers staðar á leiðinni, sennilega haustið 2010, varð breyting á vinnubrögðum innan ríkisstjórnarinnar, trúlega vegna andstöðu hv. þingmanns, hæstv. þáverandi ráðherra, og hugsanlega fleiri ráðherra úr röðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ekki hafa talið við hæfi að sækja um styrki vegna aðildarumsóknar sem þeir höfðu lýst sig andvíga, þannig að það sé sagt. Þeir koma úr flokki þar sem andstaða er mikil við aðildarumsóknarferlið. Ég hef skilið það svo að þarna hafi í rauninni verið skipt um aðferð til þess að (Forseti hringir.) hlífa einstökum ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við því að þurfa að undirrita sjálfir (Forseti hringir.) styrkbeiðnir til Brussel.



[16:46]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt. Ég held að allir sjái vandræðaganginn í þessari umræðu vegna þess að lögformleg staða og heimildir fyrir því að sækja um þessa styrki og taka við þeim var mjög óljós og menn uppgötvuðu síðan að var ekki fyrir hendi. Umræðan um að sækja um milljarðastyrki til Evrópusambandsins án þess að væru fyrir því heimildir Alþingis hlaut að verða mjög vandræðaleg, hvaða skoðun sem við höfðum á styrkjunum út af fyrir sig.

Það er hárrétt að þetta var látið fara — að mig minnir, þetta fór svo marga kollhnísa í stjórnsýslunni, þ.e. að sækja um þessa styrki — í gegnum svokallaða ráðherranefnd um Evrópumál. Ég sat ekki í henni og var ekki talinn verðugur til að sitja í henni. Síðan flaut þetta á milli utanríkisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins, það er hárrétt. Því var velt upp hvort einstakir ráðherrar gætu sloppið við að láta þetta fara í gegnum sín fjárlög (Forseti hringir.) með því að láta það allt fara í gegnum t.d. utanríkisráðuneytið. Þetta var allt til umræðu.

Ég kom (Forseti hringir.) hreint og beint fram og sagði: Ég tek ekki þátt í neinum skollaleik í þessum efnum, (Forseti hringir.) hvorki fyrir hönd ráðuneytisins beint né að önnur ráðuneyti dekki slíka gjörninga (Forseti hringir.) fyrir mína hönd. (Gripið fram í.)



[16:47]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti áréttar að hv. þingmenn virði þann ræðutíma sem þeim er úthlutaður.



[16:47]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það féllu orð hér í þingsalnum af hálfu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem áður var þingmaður Vinstri grænna og í þeim flokki, á þá leið að samið hefði verið um það af hálfu einhverra aðila innan Vinstri grænna fyrir síðustu alþingiskosningar að sótt skyldi um aðild að Evrópusambandinu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um að slíkt samkomulag hafi verið í gangi og ef svo er, hvort það hafi ekki farið fyrir brjóstið á hv. þingmanni að Vinstri grænir fóru fram í þeirri kosningabaráttu undir þeim formerkjum að þeir væru alfarið andsnúnir því að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu og töldu þar af leiðandi kjósendum trú um að þeir mundu ekki vera aðilar að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu.



[16:48]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er skýr í þessum efnum. Við viljum ekki gerast aðilar að Evrópusambandinu. Stefna flokksins fyrir kosningar var sú að við mundum ekki standa fyrir umsókn að Evrópusambandinu og fyrir því talaði ég og miklu fleiri frambjóðendur flokksins. (Gripið fram í.) Það var alveg ljóst. Hins vegar var þetta, eins og hv. þingmaður vék að, eitt af fyrstu málunum sem komu inn á fund þingflokksins varðandi ríkisstjórnarmyndun í maí að loknum kosningum að það væri ófrávíkjanleg krafa að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Ég var ekki sammála því, ég taldi að ríkisstjórnin sem þá átti að mynda ætti fyrst og fremst að taka á aðsteðjandi viðfangsefnum, endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins, efnahagslífsins, í kjölfar bankahrunsins o.s.frv. Það ætti að vera meginmálið en ekki að fara beint inn í stórhættulegt dekurmál annars flokksins, Samfylkingarinnar, sem var að sækja um aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Mér fannst fráleitt að það ætti að vera svona stórt áhersluatriði í þeirri ríkisstjórnarmyndun og þess vegna var ég líka andvígur (Forseti hringir.) því og greiddi atkvæði gegn því að þetta (Forseti hringir.) færi með í þann stjórnarsáttmála.



[16:50]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti áréttar enn að hv. þingmenn virði ræðutímann.



[16:50]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að afstaða hv. þingmanns liggur fyrir. Hún er skýr og hún ætti að vera öllum ljós. En tekur hv. þingmaður undir þau orð hv. þm. Atla Gíslasonar sem féllu fyrr í umræðunni um að búið hafi verið að semja um það á milli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, þ.e. einhverra aðila innan Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, að lagt yrði upp með það að sækja um aðild að Evrópusambandinu strax að loknum kosningum? Telur hv. þingmaður að slíkt samkomulag hafi í rauninni legið fyrir og að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi þar af leiðandi, þ.e. einhverjir forvígismenn þess stjórnmálaflokks, farið inn í kosningabaráttuna undir fölsku flaggi?



[16:51]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það verða aðrir að svara fyrir og svara hver fyrir sig um það hvort siglt hafi verið undir fölskum fána. Öllum var ljóst undir hvaða fána ég gekk alla vegferðina frá stofnun þessa flokks, þetta er ein af grunnstoðum flokksins að berjast gegn aðild að Evrópusambandinu. Í gegnum stofnun flokksins, gegnum baráttu hans undanfarin ár og fram til kosninga barðist sá sem hér stendur gegn því að við tækjum þátt í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það stendur enn. Og eins og ég sagði áðan kom aðildarumsókn að Evrópusambandinu inn á einn fyrsta fundinn sem haldinn var um ríkisstjórnarsamstarf milli flokkanna, hún var býsna föst og kom þarna strax fram.

Hv. þm. Atli Gíslason vék að þessu eins og hv. þingmaður talaði um og hann svarar fyrir það og þeir sem þarna (Forseti hringir.) eiga hlut að máli svara fyrir það en ég legg áherslu á að ég stóð alla tíð gegn því að við blönduðum (Forseti hringir.) Evrópusambandsumsókn inn í stjórnarsamstarfið. Þar voru önnur miklu brýnni verkefni (Forseti hringir.) að takast á við og þetta óþurftargæluverkefni Samfylkingarinnar klýfur þjóðina í tvennt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:53]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir það í þingræðu sem ég fór yfir í andsvari áðan um þróun IPA-styrkjanna. Árið 1994 var mikið stækkunarferli í gangi í Evrópusambandinu þegar meðal annars var gerð hörð hríð að því á Norðurlöndunum að ganga í sambandið. Fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það samhliða á öllum Norðurlöndunum sem endaði með því að Noregur, eitt landanna, hafnaði aðild að Evrópusambandinu. Svipuð hrina umsókna varð árið 2003 þegar Eistland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland gengu í sambandið en þeim þjóðum var öllum þrælað í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál. En á þessum tíma, árið 2003, voru þessir aðlögunarstyrkir komnir til, IPA-styrkirnir sem við ræðum hér og TAIEX-styrkirnir. Við sjáum hvernig Evrópusambandið vinnur, heilu landsvæðin eru tekin og þau gerð háð Evrópusambandinu. Bæði landsvæðin, Norðurlöndin upp úr 1990, gengu í gegnum gríðarlega kreppu á þessum tíma eftir fall Sovétríkjanna og austantjaldslöndin voru nánast tekin og hernumin af peningaflæði Evrópusambandsins sem önnur ríki sambandsins þurfa að standa undir.

Króatía samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári að ganga til liðs við sambandið og var ég svo lánsöm að hitta hér þingmenn frá Króatíu sem töluðu mjög fyrir því, og reyndu að heilaþvo íslenska þingmenn, að það eina sem við gætum gert væri að ganga þarna inn. En við Evrópusambandsandstæðingar spyrnum við fótum vegna þess að hér er um hreina aðlögun er að ræða. Með því að samþykkja að taka við þessum fjármunum Evrópusambandsins finnst mér að ríkisstjórnin sé nokkru leyti að ná ákveðnu máli í gegn, þ.e. að opna á það að stofnanir samfélagsins geti farið að taka við þessum peningum og aðlaga sig að regluverki Evrópusambandsins og því er ég alveg á móti.

En varðandi upphafið þegar Noregur hafnaði þessu svo eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu felldi Sviss á sama ári EES-samninginn og þegar þjóðarviljinn var klár þar gagnvart EES-samningnum sáu stjórnvöld þess tíma sína sæng upp reidda og drógu aðildarumsóknina til baka og hún hefur legið óhreyfð síðan. Þetta hef ég farið yfir en árið 1994 þegar Noregur hafnaði aðild varð mikið uppnám hjá Evrópusambandinu vegna þess að Evrópusambandið ætlar aldrei að tapa kosningum en þarna fékk sambandið það óþvegið, nei-ið frá Norðmönnum, og það skal líka fá það óþvegið frá okkur Íslendingum þegar við fáum að greiða atkvæði um hvort halda eigi áfram eða ekki.

Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því í morgun hvort hann vissi til þess að Evrópusambandið hefði gert kröfu á Möltu þegar Maltverjar hvíldu umsókn sína á árunum 1996–2000 um að endurgreiða styrkina sem þeir höfðu þegar þegið. Að sjálfsögðu var ekkert svar að fá frá hæstv. utanríkisráðherra þannig að við þurfum að leggjast í þá rannsóknarvinnu hvort svo hafi verið, því að það er greinilega málstaðnum ekki til hagsbóta samkvæmt skilningi hæstv. utanríkisráðherra að það verði upplýst. En þetta er grundvallarspurning vegna þess að ef það kemur í ljós er búið að skapa fordæmi fyrir því að ríki í umsóknarferli þurfi að endurgreiða. Ef svo er ekki og ekki eru til upplýsingar um þessi mál þá er samkvæmt hæstv. utanríkisráðherra í mörgum viðtölum engin lagastoð fyrir því að umsóknarríki eigi að endurgreiða IPA-styrkina verði sagt nei í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. forseti. Ég gaf hæstv. utanríkisráðherra tækifæri á því í morgun að koma fram í eitt skipti og segja sannleikann í málinu og út af því lagði ég þessa fyrirspurn fram í fyrirspurnatíma í morgun. Ég er frekar slegin yfir svörum hæstv. utanríkisráðherra þegar hann fullyrðir að ekkert í lögum Evrópusambandsins segi að greiða eigi styrkina til baka segi þjóðin nei. Ég benti á að það er heldur ekkert í lögunum sem segir að við eigum ekki að greiða þá til baka þannig að þarna er lagatæknilegt rúm. En, virðulegi forseti, í 16. gr. samningsins, Lok áætlana undir miðlægri og sameiginlegri stjórn, kemur þetta skýrt fram samþykki Alþingi þessa þingsályktunartillögu og við göngum að þessum samningi. Ég ætla að fá að lesa það sem stendur í greininni vegna þess að þarna er komin lagaheimild fyrir því að Evrópusambandið geti farið fram á endurgreiðslu við Ísland, með leyfi forseta:

„2. Eftir að umsókn um lokagreiðslu hefur verið veitt viðtaka, er samningi eða styrk talið lokið um leið og einn af eftirfarandi atburðum á sér stað:

framkvæmdastjórnin innir af hendi lokagreiðslu,

framkvæmdastjórnin gefur út kröfu um endurgreiðslu eftir viðtöku umsóknar um lokagreiðslu,

lúkning fjárveitingar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.“

Svo kemur aðalatriðið í þessu máli með leyfi forseta:

„3. Lúkning samnings eða styrks rýrir ekki rétt framkvæmdastjórnarinnar til að gera fjárhagslega leiðréttingu síðar.“

Ég ætla að lesa þetta aftur til að leggja áherslu á mál mitt, frú forseti: „Lúkning samnings eða styrks rýrir ekki rétt framkvæmdastjórnarinnar til að gera fjárhagslega leiðréttingu síðar.“

Hér er komin lagastoðin fyrir því að við þurfum að endurgreiða IPA-styrkina segi þjóðin nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að þarna er verið að færa framkvæmdastjórninni rétt til að gera leiðréttingu síðar meir. Mér finnst það mjög alvarlegur hlutur þegar hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki þekkja sinn eigin samning sem hann leggur fyrir þingið, sérstaklega í ljósi þess að samningurinn var undirritaður síðastliðið sumar í Brussel fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar og okkar Íslendinga sem kallast aðstoðarþegi í samningi þessum. Þetta eru grafalvarlegir hlutir og sér í lagi þegar við skoðum dómakaflann í samningnum þar sem kemur fram að Evrópusambandið skuli njóta friðhelgi á íslensku yfirráðasvæði gagnvart málshöfðun og málarekstri að því er varðar deilumál milli Evrópusambandsins og/eða viðkomandi aðstoðarþega og þriðja aðila eða milli þriðju aðila. Síðan segir í 2. tölulið, með leyfi forseta:

„Aðstoðarþeginn skal verja fyrrnefnda friðhelgi í málarekstri eða stjórnsýslumáli fyrir rétti, dómstóli eða á stjórnsýslustigi á Íslandi og taka afstöðu þar sem eðlilegt tillit er tekið til hagsmuna Evrópusambandsins. Aðstoðarþeginn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skulu, ef nauðsyn krefur, halda áfram samráði um þá afstöðu sem skal taka.“

Hér liggur það fyrir hvernig þessum málum er háttað með endurgreiðslu þess fjármagns sem hér er reynt að dæla yfir íslenska þjóð og jafnframt hvernig farið er með dómsmál. Ekki einasta er komin hér heimild fyrir því að Evrópusambandið geti rukkað okkur Íslendinga um þá peninga sem hér verður tekið við. Þó það nú væri, hvers vegna ættu þeir að leggja 5.000 millj. inn í íslenskt þjóðarbú eða íslenska stjórnsýslustofnun og svo þegar það er yfirstaðið segjum við nei í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hverjir mundu skilja slíka peninga eftir verði svarið nei, sérstaklega í ljósi orða hæstv. innanríkisráðherra sem sagði hér í gær að Evrópusambandið hefði beitt Norðmenn þvingunum eftir að þeir sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem var þó ekki um aðlögunarferli eins og hér er um að ræða. Og í öðru lagi er það grafalvarlegt að hér er verið að selja dómsvaldið úr landi, eins og gerðist með Icesave-samningana, og hér er beinlínis ákvæði um að íslenska ríkið taki að sér að verja friðhelgi Evrópusambandsins í málum sem kunni að rísa hér á landi vegna laganna um skattfrelsið. Íslenska ríkið er að framselja dómsvaldið til Evrópusambandsins gegn þegnum sínum og gegn landsmönnum. Það er ömurlegt að horfa upp á vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar, frú forseti. Það er ekki hægt að leggja þetta á okkur.



[17:03]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að skýra þau orð sem hv. þingmaður lét falla: Það er skilningur hv. þingmanns að þegar Íslendingar verða búnir að fella aðildarsamninginn sem ríkisstjórnin mun gera við Evrópusambandið muni Evrópusambandið, á grundvelli 2. töluliðar 16. gr. samningsins, óska eftir endurgreiðslu á öllum þeim styrkjum sem veittir hafa verið á grundvelli þessa samnings. Hefur hv. þingmaður beint fyrirspurnum varðandi þetta mál til þeirra aðila sem bera ábyrgð á því eða bera það fram, til fulltrúa meiri hlutans? Ég hef ekki séð þess stað í umræðunni að þeir hafi svarað spurningum um þetta. Ef svo er hefur hv. þingmaður fengið einhver svör við því hvort þessi skilningur sé sá sem hv. þingmenn stjórnarliða og þeir sem bera ábyrgð á þessu máli leggja í samninginn? Eða er þetta ein af þeim spurningum sem enn er ósvarað vegna þess að stjórnarliðar hafa ekki séð sér fært, nema að mjög litlu leyti, að blanda sér í umræðuna?

Mig langar síðan, frú forseti, að spyrja hv. þingmann, út af þeirri umræðu um aðlögun sem mikið hefur farið fyrir þegar við ræðum um Evrópusambandið, hvort hún geri sér grein fyrir því hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra viðurkennir ekki það sem hann hefur sjálfur skrifað undir í þessum samningi, að aðlögun sé í gangi. Ísland er að aðlaga réttarreglur sínar að réttarreglum Evrópusambandsins.



[17:06]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við fyrstu spurningunni er já. Ég hef þráspurt hæstv. utanríkisráðherra um það, bæði skriflega og munnlega, hér í þinginu hvort við þurfum að greiða til baka IPA-styrkina þegar þjóðin segir nei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svarið hefur alltaf verið nei, að við þurfum ekki að greiða þessa peninga til baka. Síðast sagði hann þetta í fyrirspurnatíma í morgun. Ég var að gefa hæstv. utanríkisráðherra færi á því að leiðrétta þennan misskilning vegna þess að nú liggur þessi þingsályktunartillaga fyrir þinginu.

Vel má vera að hæstv. utanríkisráðherra skýli sér á bak við það að réttarreglur verða ekki settar á Íslandi fyrir því að endurgreiðslan eigi að eiga sér stað fyrr en þetta plagg er samþykkt hér. Gildistakan verður ekki fyrr en Alþingi er búið að samþykkja þennan samning, það er klárt ákvæði um það í gildistökugreininni. En það verða hreinar og klárar réttarreglur til hér á landi þegar búið er að samþykkja þessa þingsályktunartillögu vegna þess að framkvæmdastjórninni er heimilt að gera fjárhagslega leiðréttingu síðar á samningnum og það kemur fram í kaflanum um lok áætlana undir miðlægri og sameiginlegri stjórn.

Og ekki bara það. Í 4. tölulið segir að setja megi ítarlegri reglur um lok áætlananna í fjármögnunarsamningnum eða sviðstengdum samningum. Hér er því jafnframt um lagasetningarframsal að ræða þrátt fyrir að þessi samningur sé undirritaður af báðum aðilum.

Þetta er í stíl við Icesave-samninginn. Ég stórefa að hæstv. utanríkisráðherra hafi lesið þann samning, sérstaklega þegar haft er í huga að hann telur að ekki séu nein lög eða annað um að Evrópusambandið geti krafið okkur um endurgreiðslu og ekki síður í ljósi þess að hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra hefur greinilega farið í gegnum heilaþvottastöð Samfylkingarinnar þar sem fólki er talin trú um að ekki sé um aðlögun að ræða.



[17:08]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi farið yfir reglugerðina nr. 1085/2006, sem heimild ESB til að gera þennan samning við Ísland byggir á. Hefur hv. þingmaður kynnt sér efni þess samnings með það að markmiði að skoða hvort þar sé eitthvað fjallað um endurkröfurétt Evrópusambandsins gagnvart þeim aðstoðarþegum sem síðan verða ekki aðildarríki? Í 2. gr. samningsins er fjallað um hvernig lögskýring skuli fara fram, 2. gr. heitir Ógildingarhluti og óviljandi eyður. Hún er um það þegar vantar upp á og hlutir eru ekki skýrir þá er vísað til þess að hlutirnir verði þá skilgreindir á þann veg að þeir eigi að vera í samræmi við IPA-rammareglugerðina, þ.e. þessa nr. 1085/2006.

Hefur hv. þingmaður kynnt sér efni þessarar reglugerðar með það fyrir augum að reyna að upplýsa hvort okkur ber að endurgreiða ef við göngum ekki í Evrópusambandið og hefur það verið skýrt af hálfu meiri hlutans eða þeirra sem tala fyrir þessari tillögu svo að hv. þingmaður viti til? Ég hef ekki orðið þess vör að menn hafi farið það djúpt ofan í umræðuna en það er ágætt þegar maður er að gera stóra samninga að lesa undirgögnin og sérstaklega þegar þau virðast vera bindandi varðandi skýringu á samningnum líkt og hér er vísað til í 2. gr.



[17:10]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sit ekki í hv. utanríkismálanefnd en raunverulega á vinnan að fara fram þar vilji þingmenn kanna undirgögn þeirra mála sem eru lögð fram hér á landi. En það er klárt að hæstv. utanríkisráðherra á að vera með þessa reglugerð á hreinu — henni var breytt 2007 og þar segir, með leyfi frú forseta:

„… er gerningur þessi sá eini lagagrundvöllur sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvílir á, þ.e. fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“

Ég er nú að ljúka máli mínu í þessari umferð en ég á eftir að fara inn á netið og sækja þessa reglugerð og kanna þetta til hlítar. En það er nú svo að hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessu máli því að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spurði hann að því hér í vetur hvað mundi gerast ef þessi þingsályktunartillaga yrði ekki samþykkt. Þá sagði hæstv. utanríkisráðherra: Þá verður íslenska ríkið að taka á sig þessa upphæð. Fimm þúsund milljónir ætti íslenska ríkið þá að reiða af hendi.

Hæstv. utanríkisráðherra virðist líta á þessa upphæð sem sokkinn kostnað fyrir íslenska ríkið því að hann veit það jafn vel og ég innst í hjarta sínu að íslenska þjóðin er ekki á leið í Evrópusambandið. En hann er eins og lítill krakki sem langar í sleikibrjóstsykur, hann heldur áfram að sleikja brjóstsykurinn þó að hár sé komið á hann. Hann er ógeðfelldur, eins og ég hef reynt að varpa ljósi á í dag, þessi hálfsannleikur hæstv. utanríkisráðherra og skelfilegur fyrir þjóðþingið.



[17:12]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðaskipti við hv. þingmann um framkvæmdina á þessu máli. Fyrst er sett inn í fjárlögin heimild til þess að taka við 496 millj. kr. og eftir á er komið með þessa þingsályktunartillögu og það frumvarp sem er á dagskrá til að uppfylla skilyrði til að geta tekið við þessum peningum.

Í umræðunum í morgun upplýsti hv. þm. Jón Bjarnason, sem var í andsvari við mig, að 20. ágúst hefði verið skrifað bréf til allra fagráðuneytanna 2010 og þau hvött til að sækja um svokallaða IPA-styrki. Það bréf barst frá forsætisráðuneytinu og hæstv. forsætisráðherra og þá virðist hæstv. forsætisráðherra ekki hafa gert sér grein fyrir því að til þess að sækja um þessa IPA-styrki þyrftu menn að gera ákveðna samninga, svokallaðan rammasamning, sem við erum að fjalla um í þessari þingsályktunartillögu, og síðan að gera breytingar samkvæmt því frumvarpi sem er hér næst á dagskrá.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hver er hennar skoðun á því að hæstv. forsætisráðherra hafi sent þetta bréf og þessa áskorun til fagráðuneytanna í ágúst 2010 og ekki er skrifað undir þennan samning fyrr en í júlí 2011 þar sem hvatt er til að sækja um þessa svokölluðu IPA-styrki? Það kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að hann teldi að í þingsályktunartillögunni sem var samþykkt 16. júlí 2009, þegar ákveðið var að sækja um aðild að Evrópusambandinu, væri ekki að finna heimild til að sækja um svokallaða IPA-styrki. Þess vegna hafnaði hann því á sínum tíma að gera það fyrir sitt ráðuneyti.

Ég vil kalla eftir viðbrögðum hv. þingmanns við þessum vinnubrögðum. Í fyrsta lagi virtist hæstv. forsætisráðherra ekki gera sér grein fyrir hvað þyrfti að gera til að geta sótt um þessa styrki og síðan kemur skrifleg beiðni frá forsætisráðuneytinu um að menn sæki um áður en búið er að gera það sem við erum að gera núna.



[17:14]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. ESB-málið hefur verið rekið á blekkingum og spuna frá því að það kom fyrst inn á borð Alþingis — og jú, það var rekið á blekkingum og spuna löngu fyrir kosningarnar því að það hefur nú verið upplýst að nokkrir hv. þingmenn Vinstri grænna hafa viðurkennt að búið var að semja um að ESB færi af stað fyrir kosningarnar 2009. Þar með hefur sá stjórnmálaflokkur gerst uppvís að hinum mestu kosningasvikum sem ég man eftir.

Svo kemur málið hér inn í þingið og Vinstri grænir reka það á þann hátt að það verði að kíkja í pakkann og þetta sé allt eðlilegt og þess vegna verði að hleypa því áfram. Lengi vel var spuninn keyrður á því að evran væri gulrótin því að þá var ástandið á evrusvæðinu betra en það er í dag. Einnig var keyrt á Svíaspunann, eins og ég kalla það, en hann var á þann veg að leggja þyrfti inn umsókn í hvelli vegna þess að Svíar færu með forsætið í Evrópusambandinu. Núna er talað um Danaspunann, þ.e. að við verðum að opna alla kaflana á meðan Danir eru í forsvari fyrir Evrópusambandið.

Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvers vegna hæstv. forsætisráðherra hafi farið af stað með þetta bréf 20. ágúst 2010 inn í fagráðuneytin, þar sem hvatt var til þess að ráðuneytin skilgreindu hvar IPA-aðstoðin ætti heima og stofnanirnar sæktu um IPA-styrkina, en það er einn spuninn í viðbót. Það var alltaf vitað 2009 að sérstaka lagaheimild þyrfti til að taka við þessum styrkjum. Hér eru þingmenn sem voru óþreytandi við að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þessi mál en því var alltaf eytt.

Þetta er spuninn sem þetta mál hefur verið keyrt á og síðasta hneykslið var á þann veg að málið var afgreitt frá hv. utanríkismálanefnd með blekkingum. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var fjarverandi og (Forseti hringir.) nýr meiri hluti myndaðist í nefndinni. ESB nær aldrei í gegn á Íslandi, meðal annars vegna málsmeðferðarinnar.



[17:17]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það var alltaf feluleikur í kringum þessa umsókn. Einstaka hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar fluttu boðskapinn frá Vinstri grænum um að þeir mundu ekki taka við svokölluðum IPA-styrkjum og þar fram eftir götunum, við þekkjum það. Við þekkjum allan blekkingavefinn í kringum þetta mál og krókaleiðirnar, að einstaka ráðherrar mundu ekki sækja um og reynt að koma þessu inn í samninganefndina og þess háttar, það er hárrétt ábending hjá hv. þingmanni.

Ég hef gert alvarlegar athugasemdir við að þessi samningur, sem er undirritaður 8. júlí 2011, skuli koma til umræðu eftir áramót eftir að búið er að samþykkja fjárlögin þar sem gert er ráð fyrir hálfum milljarði af þessum framlögum á þessu ári, þessum 496 milljónum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það að heiðarlegast hefði verið, líka gagnvart Evrópusambandinu, sem gerir þær kröfur að ríki uppfylli þau skilyrði sem rammasamningurinn gerir ráð fyrir, að þessi umræða hefði verið kláruð á haustþinginu 2011 áður en gengið var frá þessum pósitífu ákvæðum inn í fjárlögin. Þá hefðu menn vitað að það yrði niðurstaða Alþingis að sækja um og taka á móti þessum IPA-styrkjum — eða svokölluðum aðlögunarstyrkjum sem þeir eru klárlega, það þarf ekki að deila um það því að það kemur mjög skýrt fram.

Það kemur líka mjög skýrt fram í þessum rammasamningum hvaða skilyrði stjórnvöld þurfa að uppfylla til að geta tekið við þeim. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það sem ég hef gert alvarlegar athugasemdir við að þetta skuli ekki koma inn í þingið fyrr en eftir áramót. Það er veikleiki að hafa tæpar 500 milljónir inni í fjárlögum án þess að það sé klárt hvort niðurstaða þingsins verði sú að taka við þessum aðlögunarstyrkjum.



[17:19]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að upplýsa það í byrjun að þetta eru ekki bara 500 milljónir, þetta eru 596 milljónir. Það eru tæpar 600 milljónir sem voru settar inn í fjárlög eins og hv. þingmaður fór yfir. Ég biðst ég afsökunar á að hafa ekki haft tíma til að svara þessari spurningu í fyrri umferð.

Ég gerði athugasemd við það, því að ég er varamaður í fjárlaganefnd, hvernig stæði á þessum greiðslum frá Evrópusambandinu inn í fjárlög þar sem ekki væri lagastoð fyrir þeim. Ég fékk engin svör þannig að ég sendi skriflega fyrirspurn á hæstv. utanríkisráðherra og spurði að því á hvaða lagastoð þessi heimild væri byggð. Svarið frá hæstv. utanríkisráðherra var: Þetta er nú meiri vitleysan, auðvitað er lagastoðin byggð á fjárlögum ársins 2012. Þannig var nú þekkingin hjá hæstv. utanríkisráðherra eða við skulum segja blekkingaleikurinn, vegna þess að í dag erum við að ræða þessa þingsályktunartillögu sem ein getur aflétt fyrirvörum um að við megum taka við þessum peningum. Þess vegna hefur framkvæmdarvaldið með því að leggja til að þetta verði bókfært inn í fjárlög — og þá hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem þykist vera á móti aðild að Evrópusambandinu, þetta kom þannig úr ráðuneyti hans — jafnvel gerst brotlegt við íslensk lög með því að leggja fram lagafrumvarp með þessu ákvæði inni svo að meiri hluti þingsins samþykkti þetta ákvæði.

Stjórnskipulegi fyrirvarinn er hér. Samningurinn var undirritaður, eins og hv. þingmaður kom inn á, 8. júlí 2011. Við ræðum þetta nú í lok maí árið 2012. Fyrirvaranum er ekki aflétt fyrr en þessi þingsályktunartillaga er samþykkt. Þess vegna er það alvarlegur hlutur að þessar 596 milljónir hafi verið samþykktar í fjárlögum. En það er nú ekki nýtt að þessi ríkisstjórn fari ekki að landslögum, hún virðist meira að segja vera hafin yfir landslög og reglur.



[17:21]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hefur auðvitað verið vikið að því áður en mér finnst þó rétt að árétta það með aðeins nákvæmari upplýsingum en hafa komið áður fram hér í dag hvernig gangur þessara mála hefur verið svona ef við horfum á dagsetningar og hvernig tímanum hefur verið háttað í þessum efnum. Ég held að það sé rétt að halda því til haga samhengisins vegna að allt frá því að aðildarumsókn var send af hálfu ríkisstjórnar Íslands eftir samþykkt Alþingis sumarið 2009 hefur verið auðvitað rætt um það að aðildarumsóknin og aðildarferlið gætu skapað Íslendingum möguleika til þess að sækja um styrki í tiltekna sjóði hjá Evrópusambandinu.

Hv. þm. Jón Bjarnason rifjaði upp áðan að upp úr miðju ári 2010 sendi forsætisráðherra bréf til allra ráðherra með ábendingu — ég vil frekar kalla það ábendingu en fyrirmæli — um að fara nú að hefjast handa við að sækja um styrkina. Það var hins vegar ekki fyrr en næstum því ári síðar að gengið var frá þeim samningi, rammasamningi milli Íslands og Evrópusambandsins um þessa styrki sem hér liggur til umræðu og eftir atvikum staðfestingar, því að samningurinn sem þingsályktunartillagan fjallar um er undirritaður í Brussel 8. júlí 2011, en eins og hv. þm. Jón Bjarnason gat um var forsætisráðherra kominn í það að ýta ráðuneytunum í að sækja um styrki næstum því ári fyrr. Á því kunna að vera einhverjar skýringar en þær hafa ekki komið fram við þessa umræðu.

Samningurinn var, eins og ég segi, undirritaður 8. júlí en þingsályktunartillagan sem hér liggur fyrir birtist þó ekki í þinginu fyrr en 2. desember, fimm mánuðum síðar, þannig að af einhverjum ástæðum tók það utanríkisráðuneytið fimm mánuði að útbúa þingsályktunartillögu upp úr samningi sem undirritaður var 8. júlí. Auðvitað þarf að vanda vel til þýðinga og frágangs svona skjala en eins og hv. þingmenn sjá er samningurinn ekki mikill að vöxtum þannig að hafi töfin eingöngu orðið vegna þýðingar samningsins hefur sú þýðingarvinna gengið venju fremur hægt því að þarna ekki um langan texta að ræða. Vera kann að einhverjar aðrar aðstæður hafi valdið því hversu seint þetta mál kemur inn í þingið.

Á sama tíma vann fjármálaráðuneytið að sérstöku skattafrumvarpi sem tengist þessu máli og við höfum aðeins byrjað að ræða hér á þinginu líka þó að við höfum ekki lokið 2. umr. eins og hæstv. forseti þekkir. Það frumvarp kom um svipað leyti inn í þingið, nánar tiltekið 30. nóvember 2011, en á sama tíma og þessi tvö mál, rammasamningurinn annars vegar og frumvarpið um skattfríðindin hins vegar, voru í einhvers konar vinnu í utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti var unnið með þessar styrkveitingar í fjárlagaferlinu eins og þessi peningur væri bara fastur í hendi og án allra fyrirvara. Í fjárlagafrumvarpi og síðan í endanlegri útgáfu fjárlaga sem var, ef ég man rétt, samþykkt 16. desember, er gert ráð fyrir fjárveitingum inn og út, bæði á tekju- og gjaldahlið. Var það gert á grundvelli þessara samninga þannig að embættismenn og hv. stjórnarliðar í þinginu treystu sér til þess að setja þetta inn í fjárlög, ganga út frá þessu og þá væntanlega skapa væntingar hjá stofnunum, samtökum og öðrum sem hugsanlega geta komið að því að fá þessa styrki löngu áður en búið var að ganga frá samningnum eða staðfestingu hans sem allar þessar styrkveitingar byggja á og því lagafrumvarpi sem er að því er virðist nauðsynleg forsenda þess að styrkirnir verði veittir.

Allt er þetta mjög sérkennilegt eins og fleiri hv. þingmenn hafa bent á. Fyrri umr. um málið fór fram 24. janúar og sama dag var rætt um frumvarpið við 1. umr. Málin fóru til nefnda og bara svo ég haldi mig við þetta mál virðist samkvæmt bókum þingsins hafa átt sér stað nokkur umræða um það í febrúar og mars á vettvangi utanríkismálanefndar. Svo liðu nokkrar vikur og málið datt inn á dagskrá hv. utanríkismálanefndar 26. apríl og var þar afgreitt út við þær sérkennilegu aðstæður eins og menn þekkja, að nánast enginn af aðalmönnum í nefndinni var viðstaddur. Ef ég man rétt var það þannig að minnihlutaálitið sem reynt hefur verið að skapa einhverja stöðu meirihlutaálits en eingöngu fengust fjórir til að skrifa upp á, var undirritað af tveimur af níu aðalmönnum í utanríkismálanefnd og tveimur sem sóttir voru yfir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í tvær mínútur á meðan málið var tekið út úr utanríkismálanefnd. Var það gert jafnvel þó að fundur væri nýhafinn og vitað að fleiri nefndarmenn væru á leiðinni sem látið höfðu berast um það skilaboð.

Það mundi auðvitað ekki sæta neinum tíðindum nema vegna þeirrar staðreyndar sem auðvitað hefur komið ítrekað fram í umræðunum að ef allir aðalmenn í utanríkismálanefnd, þeir níu þingmenn sem kjörnir eru til setu í utanríkismálanefnd, hefðu verið mættir á fundinn á þessum tíma þegar úttektin átti sér stað hefði málið ekki verið tekið út. Þá hefðu fimm af níu nefndarmönnum lagst gegn málinu. En það var greinilega ákveðið af hálfu stjórnarliða og hv. formanns utanríkismálanefndar að nýta tækifærið, einhverja glufu í upphafi fundar til þess að taka málið út sem hafði legið þar óhreyft í nokkrar vikur og menn sættu færis að gera það áður en aðalmennirnir mættu á fundinn. Verður það auðvitað lengi í minnum haft hér í þinginu hvernig staðið var að þessu.

Það sem ég er að benda á með því að rifja upp þessa sögu er að það hefur frá upphafi verið ætlunin að koma þessum málum í gegn á bjöguðum forsendum, á fölskum forsendum, hafa sumir hv. þingmenn sagt hér í dag að ekki hafi verið gengið hreint til verks. Ég held að það megi til sanns vegar færa, sérstaklega þegar horft er á söguna. Byrjað er á að samþykkja hvernig útdeila eigi þessum væntanlegu peningum eða fjárveitingum í fjárlögum til þess að skapa væntingar hjá mörgum ágætum stofnunum, landshlutasamtökum og sveitarfélögum sem sjá þarna von til að peningar fáist í verkefni sem þeir hafa lengi sóst eftir og lengi vonast til að geta ráðist í. Þegar það er búið, þegar búið er að setja þetta inn í fjárlög, búið að ráðstafa peningunum, ef svo má segja, er komið til okkar í þinginu og sagt: Nú verðið þið að samþykkja rammasamninginn, nú verðið þið að samþykkja lagafrumvarpið af því að það er hvort sem er búið að úthluta þessu í fjárlögum.

Þótt ekki væri annað en þetta er hér um að ræða vinnubrögð sem er ekki með nokkrum hætti hægt að sætta sig við. Þegar svo við bætist að styrkirnir eru tengdir órjúfanlegum böndum aðildarumsókninni og aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu, sem trúlega meiri hluti í þinginu er á móti, verður þetta mál allt hið einkennilegasta. Það er einkennilegt hvernig þetta mál hefur verið rekið, bæði aðildarumsóknin sjálf og síðan þetta fylgimál, af því að auðvitað er þetta ekki stóra málið í sambandi við ESB-aðildina, þetta er hliðarmál. En það er mjög einkennilegt í sambandi við þennan málarekstur allan af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig stöðugt er verið að semja sig á meira og minna bjöguðum eða villandi forsendum í gegnum hvern liðinn í ferlinu á fætur öðrum án þess í raun og veru að hin eiginlegi meirihlutavilji í þinginu komi fram. Ég óttast raunar að svo verði einnig í þessu máli að þeim innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem eru í hjarta sínu sammála okkur í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) og eru andvígir aðildarumsókninni verði stillt kirfilega upp við vegg og eins og oft áður hótað stjórnarslitum og ég veit ekki (Forseti hringir.) hvaða hörmungum, nái þetta mál ekki fram að ganga.



[17:32]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður nefndi undir lok ræðu sinnar þau vinnubrögð sem voru viðhöfð þegar þetta mál var kreist í gegnum þingið með hótunum og hinu og þessu, og hafa fyrrverandi þingmenn stjórnarflokkanna, í það minnsta, kannski einhverjir núverandi þingmenn líka, lýst því hvernig hægt var að afla þessari umsókn fylgis. Það er kannski annað mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort það geti talist eðlileg og góð vinnubrögð að setja í fjárlög ráðstöfun fjármuna sem ekki liggur fyrir að muni innheimtast, þ.e. að ríkið hafi aðgang að þeim fjármunum. Það er alveg ljóst að það lá ekki fyrir þegar fjárlög voru samþykkt hvort samþykkt yrði að taka við IPA-styrkjunum. Við hljótum að spyrja okkur hvort eðlilegt sé að ástunda slík vinnubrögð.

Í öðru lagi er ég hér með nefndarálit meiri hlutans um aðildarumsóknina. Ég hef lesið það gaumgæfilega, eins og flestir þingmenn vonandi, og hef meðal annars leitað á vefnum að skammstöfuninni IPA og enska heitinu yfir þessa styrki og finn ekkert. Það er ekki orð um styrkina í nefndaráliti meiri hlutans. Hvernig stendur á því að þeir eru ekki nefndir í nefndaráliti? Hvernig stendur á því að ekki liggur fyrir þegar umsóknin er samþykkt að þetta kerfi bíði okkar og að komið geti upp sá ágreiningur sem uppi er núna um þetta mál? Það er ekki að finna í nefndarálitinu orð um þessa IPA-styrki.



[17:34]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man ekki nákvæmlega hvernig tekið var til orða í nefndaráliti meiri hlutans í utanríkismálanefnd sumarið 2009 en áreiðanlega er það rétt hjá hv. þingmanni að ekki sé vikið að IPA-styrkjunum berum orðum. Ég hygg þó að hv. þingmaður muni eins og ég að þegar við vorum í umræðum um aðildarumsóknina sumarið 2009 var verið að veifa alls konar gulrótum hérna, möguleikum á styrkveitingum og einhverju slíku. Ég hygg þó að það hafi kannski fyrst og fremst verið nefnt í samhengi við þýðingarvinnuna sem tengist aðildar- eða aðlögunarferlinu, að það væri möguleiki að fá styrkveitingar frá Evrópusambandinu til að standa straum af þýðingarvinnunni. Það rifjast helst upp þegar hv. þingmaður spyr um þetta efni.

Það var vissulega sagt og hæstv. utanríkisráðherra, ef ég man rétt, sagði það oftar en einu sinni að menn mættu ekki gera mikið úr þeim kostnaði sem fylgdi umsókninni um Evrópusambandsaðild vegna þess að það fengjust líka peningar á móti, menn ættu ekki að gera lítið úr því. Hitt er annað að þetta mál með IPA-styrkina er trúlega ekki nefnt berum orðum. Ég hugsa að umræðan hafi ekki verið á því stigi sumarið 2009 að menn hafi gert sér almennilega grein fyrir því hvernig þessi mál mundu þróast, hvorki varðandi IPA-styrkina sem við ræðum í dag né aðstoðina sem kölluð er TAIEX og felst í heimsóknum ráðgjafa hingað og boði fyrir ráðgjafa til að fara utan og samstarfi af því taginu sem felur ekki í sér beinar fjárveitingar heldur það sem kallað er aðstoð á sérfræðilegum grundvelli.



[17:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég man líka eftir því að hér í þinginu var veifað alls konar gulrótum þegar þetta var rætt. Meðal annars var minnst á það hversu mikilvægt það væri að hefja ferlið á meðan Svíar væru í fyrirsvari fyrir Evrópusambandið. Hér er búið að veifa evrum framan í þingmenn og landann í heild eins og evran sé sá aur sem eigi að bjarga öllu. Ég held nú að þeir hljóti að vera í einhverri afneitun sem ekki sjá ástandið á evrusvæðinu í dag og hvernig komið er fyrir gjaldmiðli fyrirheitna landsins.

Ég velti því hins vegar fyrir mér, nú þegar við erum komin þetta langt í þessu ferli og ekki er minnst á þessa styrki í upphafi ferlisins í nefndarálitinu, hvort hægt sé að halda því fram að þær forsendur sem lagt var af stað með séu einfaldlega ekki réttar og eigi þar af leiðandi ekki við í dag. Er hugsanlegur forsendubrestur fyrir umsókninni meðal annars sá að seinna er komið aftan að fólki með þessa styrki og þann fjáraustur sem virðist vera frá Evrópusambandinu til þeirra landa sem eru í ferlinu?

Það þarf enginn að segja mér, frú forseti, að þeir sem gengu hvað harðast fram við að koma af stað þessu ferli hafi ekki vitað að Evrópusambandið hefði í mörg ár rekið þetta kerfi sem ætlað er að aðstoða lönd í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Það er því óneitanlega sérkennilegt að finna ekki í nefndaráliti meiri hlutans stafkrók um að IPA-styrkir séu handan við hornið, ef má orða það þannig. Ég hlýt því að setja það á listann yfir þær forsendur sem hafa breyst eða voru ekki leiddar fram þegar umræðan fór fram í þinginu.



[17:39]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi upprifjun hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar er áhugaverð, sérstaklega vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur ítrekað komið í þennan ræðustól og lýst því yfir að álit meiri hluta utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009 sé sín biblía í Evrópusambandsmálum og eftir henni fari hann og líti þannig á að þar sé umboð sitt markað og ekki eigi að víkja frá því. Þetta er athyglisvert í því sambandi.

Ég verð þó að segja við hv. þingmann að mér finnst kannski mörg önnur rök vega þyngra á vogarskálunum þegar kemur að því að hætta aðildarumsóknarferlinu en nákvæmlega þessir IPA-styrkir og málsmeðferð vegna þeirra. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða þetta mál vel í þinginu vegna þess að það endurspeglar m.a. mjög vel þau vinnubrögð og þá tvöfeldni sem hefur verið uppi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í aðildarferlinu öllu, sérstaklega þá tvöfeldni sem forustumenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa sýnt með því að segjast í öðru orðinu vera gallharðir andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu en vinna á hinn kantinn að því hörðum höndum að koma þessari aðlögun í gegn.

Ég verð að nota tækifærið, hæstv. forseti, til að benda á, af því að hér var hv. þm. Jón Bjarnason áðan spurður um starfslok hans í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, að hæstv. utanríkisráðherra svaraði mér í framhjáhlaupi í morgun þannig að það hefðu verið ákveðnar ástæður fyrir því að tafir hefðu orðið á viðræðum í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum en slíkar tafir væru ekki lengur að þvælast fyrir.



[17:41]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom meðal annars inn á þá sérkennilegu uppákomu sem varð í utanríkismálanefnd þegar þetta mál var tekið út. Það er svo sem ekki það eina sem mér finnst sérkennilegt við þetta mál, frú forseti, það er einnig ferill málsins. Það kom fram í ræðu þingmannsins að hér hefðu verið samþykkt fjárlög og við stöndum frammi fyrir því í dag að ef við samþykkjum ekki þessa þingsályktunartillögu getur verið óvissa uppi um afgreiðslu styrkjanna. Hæstv. utanríkisráðherra sagði reyndar við fyrri umr. að þá yrðu þeir bara greiddir úr ríkissjóði og langar mig að heyra álit þingmannsins á því.

Ég ræddi fyrr í dag við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem situr í fjárlaganefnd, um hvernig málið hefði komið inn í fjárlaganefnd og hvort þar hefði orðið umræða um að þetta ferli ætti eftir að fara fram. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að við afgreiðslu fjárlaganna gerði ég mér ekki grein fyrir því að þessi staða væri uppi, að þegar lægi fyrir rammasamningur sem var þá í leyni. Ég hefði haldið og vil spyrja hv. þingmann um álit hans á því, hvort ekki hefði verið eðlilegra að þessi þingsályktunartillaga hefði komið fram fyrst. Ég gat ekki skilið betur af máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar en að ekki hefði farið fram nein umræða í fjárlaganefnd um þetta vegna þess að tekjuhliðin, frumvarpið um ívilnunina, er hjá efnahags- og viðskiptanefnd, og þingsályktunartillagan og rammasamningurinn hjá utanríkismálanefnd. Þetta mál hefur því komið hingað inn í þingið á mjög undarlegan hátt, kannski með sambærilega undarlegum hætti og úttektin í utanríkismálanefnd. Er þetta mál ekki hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórnina, að hún reyni að troða því í gegnum (Forseti hringir.) þingið og blekkja í raun og veru þingmenn? Ég man ekki eftir því að þetta hafi legið ljóst fyrir við fjárlagasamþykktina.



[17:43]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á ekki sæti í fjárlaganefnd en hitt er annað mál að ég fylgdist vel með umræðum í þingsal um fjárlagafrumvarpið, bæði 1., 2. og 3. umr., og tók þátt í þeim öllum. Ég man eftir að IPA-styrkina bar á góma bæði í tengslum við tekjuhlið og gjaldahlið en það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, alla vega man ég ekki til þess og hef ekki fundið um það dæmi, að ekki var nefnt í þeirri umræðu að bæði móttaka þessara styrkja og útdeiling þeirra til ákveðinna verkefna, sem vissulega fer í gegnum fjárlagafrumvarpið, væri á nokkurn hátt bundin því skilyrði að einhver tiltekin þingmál önnur yrðu samþykkt á þingi.

Það er auðvitað athyglisvert eins og ég nefndi áðan hvað þessi mál koma seint fram. Þingsályktunartillagan sem við ræðum í dag um rammasamninginn var komin inn í þingið 2. desember þegar fjárlagaumræðu var að langmestu leyti lokið, fjárlagaferlið eiginlega að enda komið og verið að vinna að síðustu breytingartillögum eins og menn þekkja og gert er að jafnaði í byrjun desember. Sama á við um skattafrumvarpið sem kom inn í lok nóvember, 30. nóvember. Þessi mál koma því inn tveimur mánuðum eftir að lagt er fram fjárlagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að þessum styrkjum sé veitt móttaka og þeim ráðstafað með tilteknum hætti. Öll framsetning þessa máls og allur blær þess er þannig að það er eins og það hafi átt að fá eins litla athygli og hægt var. Mig rennir í grun að ekki hafi síður vakað fyrir mönnum að stilla okkur þingmönnum upp við vegg og segja: Það er búið að ganga frá þessu í fjárlögum, þið eigið ekki annarra kosta völ en að samþykkja þingmál sem snúast um styrkina.



[17:46]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að ég upplifi þetta líka þannig að í raun sé búið að blekkja þingheim og koma þessu máli hérna inn. Við stöndum núna frammi fyrir því að miklar væntingar hafa verið búnar til hjá þeim sem eiga að taka við styrkjunum og nú er allt í einu orðin einhver óvissa um afgreiðsluna, sem ég tel reyndar ekki vera ef marka má orð hæstv. utanríkisráðherra.

Að öðru sem þó tengist þessu og hefur komið fram í fyrri ræðum þingmannsins, en það er siðferðið sem tengist því að taka við þessum styrkjum. Ég get tekið undir það sem kom fram hjá þingmanninum að IPA-styrkirnir eru kannski ekki í sjálfu sér það sem ætti að verða til þess að við mundum slíta viðræðunum við Evrópusambandið, það eru nægar aðrar forsendur fyrir því, en hvað um siðferðið sem fólgið er í því að taka við styrkjum á samningstímanum? Hér voru nefndar einhverjar gulrætur í máli hv. þingmanns áður, hæstv. innanríkisráðherra hefur talað um perlur og eldvatn, og ég minnist þess að í umræðunni þegar var verið að tala fyrir aðildarumsókninni að þeir sem aðhylltust aðild töldu að íslenska krónan mundi styrkjast um leið og menn sæktu um aðild. Ég minnist þess ekki að hafa séð þá þróun gerast. Samfélagið átti að styrkjast, atvinnuleysi minnka og ég veit ekki hvað ekki átti að gerast. Allt hefur þetta einhvern veginn snúist í höndunum á aðildarsinnum.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um það siðferði sem fólgið er í því að svona risi á markaði í samningum við litla þjóð býður slíka styrki fram sem einhvers konar gulrætur, perlur eða eldvatn eða hvað við viljum kalla það, til að reyna að blíðka þá sem eiga síðan að lokum að greiða atkvæði um það hvort (Forseti hringir.) þeir muni þýðast þann stóra samningsaðila sem við eigum í viðræðum við.



[17:48]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað hárrétt athugasemd að málið snýst um margt. Það snýst kannski um ákveðin formsatriði eins og ég kom að í ræðu minni, þ.e. hér er verið að koma með hlutina inn í vitlausri röð, verið að stilla þingmönnum upp við vegg með því að afgreiða fyrst fjárlögin og síðan þau frumvörp sem eru forsenda þess að til þessara greiðslna, bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga, geti komið.

Þetta mál hefur líka skírskotun til siðferðis eins og hv. þingmaður nefnir. Við getum deilt um það og haft mismunandi sjónarmið á það hversu smekklegt það er að þegar tveir aðilar sem eiga í samningum eins og okkur er sagt að eigi við um Ísland og Evrópusambandið, bjóði annar fram styrki. Þessu er alltaf stillt þannig upp að þarna séu tveir jafnsettir aðilar sem setjast niður við samningaborð og semja á jafnréttisgrundvelli. Við vitum auðvitað að það er ekki þannig en þannig er orðræðan af hálfu sumra talsmanna ríkisstjórnarinnar. Ef það væri svo að tveir jafnstæðir, jafnsettir aðilar sætu við samningaborð væri svolítið sérkennilegt ef annar samningsaðilinn væri að — ja, við getum orðað það þannig — bera fé á hinn eða veita honum styrki meðan á samningaviðræðunum stendur. Það er undarlegur blær á því.

Ég verð að segja þó að ég hef ákveðna samúð með sjónarmiðum þeirra hv. þingmanna og ráðherra sem einlæglega trúa því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Ég get ímyndað mér að fyrir þeim sé hinn siðferðislegi vandi í því að taka á móti þessum styrkjum ekkert sérstaklega mikill. Mér finnst hins vegar staða þeirra þingmanna og ráðherra sem segjast vera andvígir aðild að Evrópusambandinu mjög sérkennileg þegar þeir á sama tíma berjast fyrir því að við sækjum um og þiggjum styrki af þessu tagi.



[17:51]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tvö nefndarálit frá hv. utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf. Þetta tengist umsókn Íslands að Evrópusambandinu sem kunnugt er.

Þetta er viðamikið mál sem leynir á sér. Ég ætla að byrja á því að tala um verkstjórnina. Ég hef reyndar gert það áður en ég held að ég komist ekki hjá því af því að hér er verið að tala um málþóf. Skrifað var undir samninginn 8. júlí 2011, það er bráðum að koma árs afmæli, það eru liðnir nærri ellefu mánuðir, og við erum núna að ræða málið í síðari umr. Þetta er náttúrlega ekki góð verkstjórn, frú forseti. Málið hefði mátt koma miklu fyrr inn en raunin varð. Þetta er eins og margt annað sem við erum að ræða á þessum fallegu sumardögum sem hæstv. ríkisstjórn hefði getað unnið skipulegar og haft betri verkstjórn á.

Í eldhúsdagsumræðunum í gær kom hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og fór að ræða um grásleppunet, að menn vitjuðu um grásleppunet sem þeir væru búnir að leggja. Það er akkúrat það sem við erum að ræða hérna. Það er búið að leggja net, það er búið að samþykkja fjárlög og það er búið að egna grásleppuna í netin. Alls konar félagasamtök, sveitarfélög og aðrir hafa farið út í mjög skynsamleg verkefni, sem maður sér kannski ekki endilega hvað tengjast aðild að Evrópusambandinu en engu að síður mörg mjög skynsamleg verkefni, af því að hér er allt í einu fullt af peningum. Frú forseti, það er kannski ljótt að líkja kjósendum við grásleppu en nú spriklar „grásleppan“ í netinu og væntanlega vilja margir að þetta verði samþykkt, því fyrr þeim mun betra, því að þá fá þeir styrkina endanlega og geta haldið starfseminni áfram og víkkað hana út jafnvel. Hagstofan verður t.d. með einhverja skýrslugerð sem er mjög nauðsynleg og hefur setið á hakanum vegna fjárskorts, en allt í einu eru til peningar. Þess vegna fannst mér líkingin við grásleppunetið ekki nógu góð vegna þess að það er búið að leggja net fyrir þá aðila sem vilja fara í verkefni.

Ég ætla rétt aðeins að tæpa á spillingu og skattsvikum. Þegar menn gera svona samning, sérstaklega þar sem skattfrelsi er veifað, fara nokkrir tugir eða hundruð heila í gang og reyna að finna göt á samningnum. Maður sem ætlar til dæmis að hanna bækling fyrir Evrópusambandið til að segja íslenskum ungmennum hve gott sé að vera hluti af Evrópusambandinu ræður til þess áróðursmeistara til að setja upp rétt línurit þar sem stundum eru evrur þegar það hentar og stundum krónur þegar það hentar og vissir þættir gleymast. Þessir aðilar fara strax að spekúlera: Er betra að ég starfi frá Íslandi að þessu verkefni eða einhverju öðru landi innan Evrópusambandsins? Stofna ég hlutafélag í Kaupmannahöfn, Færeyjum eða í einhverju öðru landi og vinn þaðan að því að fá þessa skattfrjálsu styrki? Þetta fer strax í gang. Ég er nærri viss um að fjöldi manns fer ítarlega í gegnum þessar reglur, lærir af reynslu annarra þjóða hvernig menn gátu farið fram hjá reglunum þar og teiknar nú upp möguleikana á því.

Samningurinn tekur á þessu. Það hefur lítið verið rætt um samninginn sjálfan. Mér finnst ekki vansalaust að geta ekki um samninginn. Í einum liðnum er einmitt talað um gegnsæi og varnir gegn spillingu. Íslenska ríkið er kallað aðstoðarþeginn — mér finnst það ekkert voðalega skemmtilegt, frú forseti, að íslenska ríkisstjórnin og íslenska ríkið sé nefnt aðstoðarþegi — en þeir sem veita hins vegar aðstoðina heita framkvæmdastjórn. Það er náttúrlega miklu flottara heiti þannig séð.

Ég ætla að tala almennt um reglurnar. Talað er um að aðstoðin sé ætluð til þess að „mæta þeim þörfum sem í ljós koma í umsóknarferlinu og geta aðstoðarþegans til að veita aðstoðinni viðtöku leiða í ljós. Þá skal taka mið af fenginni reynslu,“ stendur hér. Þetta er einmitt það sem þessum styrkjum er ætlað, þeim er ætlað að gera aðlögunarferlið liprara og liðka sérstaklega fyrir skoðunum almennings á því.

Það sem vekur kannski mesta athygli er 1. töluliður b) í 11. gr. Þar stendur, með leyfi forseta, að:

„b) starfslið, sem tekur þátt í starfsemi sem ESB fjármagnar og nánustu fjölskyldumeðlimir þess, skuli ekki njóta lakari fríðinda, réttinda og undanþága en þau sem alþjóðlegt starfslið á Íslandi nýtur að jafnaði samkvæmt öðrum tvíhliða eða fjölhliða samningum eða samkomulagi um aðstoð og tæknilega samvinnu.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir skattfrelsi á öllum sviðum, ódýrara bensín, það er ekki bensíngjald, það er ekki vörugjald, það er ekki stimpilgjald, það er ekki virðisaukaskattur. Menn fá sem sagt bensínverðið strípað. Þeir fá bíla strípaða og hvað sem er. Launin eru strípuð af sköttum og öðru slíku. Þetta á við um þá sem eru búsettir erlendis. Þá er spurning hvort margir hafi ekki hugsað sér að flytja búferlum til Danmerkur eða annað til að notfæra sér þetta. Auðvitað er tekið á því líka en skarpir heilar finna oft og tíðum lausnir á slíku.

Við ræðum skattfrelsi í 3. máli hér á eftir. Ég fór í gegnum það hvernig þetta myndast allt saman. En hvernig stendur á því, frú forseti, að hluti af fólki sem býr á Íslandi tekur ekki þátt í því að borga heilbrigðisþjónustu, vegi og allt það sem við hin erum að borga? Það borgar sem sagt ekki en þiggur allt hagræðið af velferðarkerfinu. Hvernig stendur á því? Lausnina er að finna í Vínarsamningnum frá 1812, frú forseti, þegar riddaramennska og tolleyjar og annað var í Rínarfljóti. Þá var mikilvægt að erlendum sendimönnum yrði ekki refsað með tollum og sköttum og öðru slíku ef þeir væru óþægir. Þá var þetta sett upp, en þetta er orðið löngu úrelt. Skattar hafa hækkað mjög mikið á almenning og velferðarkerfið hefur blásið út og nú byggir ríkið vegi og flugvelli og … (Utanrrh.: Allir eru glaðir.) Nei, allir eru glaðir þeim megin en hinir sem borga skattana, launþegar á Íslandi og iðnaðarmenn, eru ekki eins glaðir. Þeir borga nefnilega fyrir hina. Það er von að hæstv. utanríkisráðherra segi þetta því að flestallt starfsfólkið hjá honum nýtur þessara hlunninda, þessara fríðinda, þessara forréttinda. Auðvitað eiga menn fyrir löngu síðan að vera búnir að taka þetta af.

Það sem ég ætlaði að ræða — nú er tími minn að verða búinn en ég þarf að ræða þetta enn frekar. Ég ætlaði nefnilega að ræða það sem stendur í 2. lið b) í 12. gr.:

„b) ESB-verktakar skulu undanþegnir virðisaukaskatti vegna þjónustu og/eða vara og/eða verka sem er veitt, eru afhentar eða unnin samkvæmt viðkomandi ESB-samningi.“

Þarna er búið að taka burtu virðisaukaskattinn, áður voru vörugjöldin tekin og tekjuskatturinn og annað slíkt. Það stendur reyndar í sömu grein í 2. lið c):

„c) einstaklingar sem eru ekki búsettir á Íslandi og inna af hendi þjónustu […] skulu undanþegnir tekjuskatti á Íslandi vegna tekna sem samningur af því tagi skapar.“

Þetta býður skörpum heilum (Forseti hringir.) margvísleg tækifæri.



[18:01]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur kynnt sér vel innihald þingsályktunartillögunnar og samningsins sem hér um ræðir og það sem liggur að baki þessu öllu saman. Hv. þingmaður hefur einnig kynnt sér þá þingsályktunartillögu sem á sínum tíma var lögð fram í þinginu um að ganga til þessara viðræðna og nefndarálit meiri hlutans sem hefur verið leiðarljós þeirra sem keyra þetta mál áfram af mikilli eindrægni.

Ég velti því upp áðan við hv. þm. Birgi Ármannsson hvort þingmaðurinn minntist þess að í nefndaráliti meiri hlutans eða einhverjum þeirra gagna — við skulum halda okkur við nefndarálit meiri hlutans því það er sú biblía sem sumir tala um — sé að finna eitthvað yfir IPA-styrki, útlistun á því hvað bíður okkar, hvað er í boði eða til hvers þessir styrkir eru á annað borð. Ég hef leitað að þessu í nefndarálitinu, lesið það vitanlega og flett því upp með orðaleit á netinu en ég finn bara ekki neitt um IPA-styrki í þessari svokölluðu biblíu þeirra sem vilja halda áfram með málið.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort líta megi svo á að þarna sé enn ein ástæðan til að staldra við, þetta sé enn einn forsendubresturinn sem hefur orðið á ferlinu öllu saman, þegar við erum að fara að taka núna við fjármunum frá Evrópusambandinu, við erum farin að aðlaga stjórnsýslu okkar að einhverju leyti að skilyrðum sem þessir peningar lúta að. Og hvort stjórnvöld séu þá ekki komin út fyrir það umboð sem þau fengu á sínum tíma sumarið 2009.



[18:03]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er nefnilega þannig að sá samningur sem við höfum í tillögu til þingsályktunar vísar aftur í samninga sem gilda innan Evrópusambandsins, bæði framkvæmdasamninga og eftirlitssamninga. Við getum í rauninni ekki rætt þetta af einhverju viti en ég geri ráð fyrir að hv. nefnd sem fór yfir þetta hafi kynnt sér þá samninga sem liggja á bak við. En auðvitað var ekki orð um þetta í þeirri þingsályktunartillögu sem meiri hlutinn lagði til.

Það sem er athyglisverðast af öllu, herra forseti, er einmitt umsóknin sjálf. Ég vænti þess að fólk hafi kynnt sér umsóknina. Hún er fjórar línur og hún er gersamlega fyrirvaralaus. Ég skora á hv. þingmenn sem og almenning að skoða umsóknina því þar stendur bara: Ríkisstjórn Íslands sækir um aðild að Evrópusambandinu. Undir skrifa hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Það er ekki orð um ályktun Alþingis, ekki orð um að þetta skuli leggja fyrir utanríkismálanefnd, ekki orð um að þetta skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki orð um að breyta þurfi lögum og öðru slíku og jafnvel stjórnarskrá. Þetta er bara einföld umsókn. Ég hef oft velt fyrir mér, herra forseti, hvað mundi gerast ef þær 27 þjóðir í Evrópusambandinu mundu hreinlega senda bréf til baka og segja já, við samþykkjum.

Allt er þetta gert á grundvelli þess að ríkisstjórnin er tvíklofin í málinu. Hún er með stefnu út og suður. Samfylkingin vill ganga í Evrópusambandið en Vinstri grænir vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Ég veit ekki hvert þeir vilja ganga, en þeir vilja örugglega ekki ganga í Evrópusambandið. Þessi tvístefna í flestöllum málum í þinginu gerir þingstörfin mjög þung og er mjög skaðlegt fyrir þjóðina.



[18:05]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég lít svo á að með því að fara þessa IPA-vegferð séu stjórnvöld komin út fyrir það umboð sem Alþingi veitti þeim á sínum tíma. Með því að samþykkja þetta er Alþingi að víkka út það umboð sem á sínum tíma var veitt.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að tillögugreinin sjálf er ósköp fátækleg og eflaust gætu stjórnvöld á einhverjum tímapunkti sagt: Þarna stendur hvað við megum og megum ekki. Nefndarálit meiri hlutans hefur hins vegar verið kynnt sem leiðarljós þeirra sem leiða þessa vinnu en þar er ekki að finna stafkrók um þessa IPA-styrki. Ekki er stafkrókur um hvað við munum fara í eða um það að taka við þeim fjármunum sem eru gríðarlega háir þegar upp er staðið. Það er heldur ekki stafkrókur um það að svokölluð Evrópustofa, áróðursstofa þessa ferlis, sé fjármögnuð af þessum IPA-sjóðum öllum saman.

Hv. þingmaður nefndi þau fríðindi sem koma fram í samningnum sem fylgir þingsályktunartillögunni sem erlendir aðilar eða þeir aðilar sem munu vinna fyrir Evrópusambandið vinna eftir, þ.e. þessum IPA-styrkjum, og nefndi það ágætlega hvað gæti hugsanlega frestast. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvort hann taki undir þá gagnrýni sem fram hefur komið um að verið sé að mismuna mjög heiftarlega innlendum aðilum sem þurfa að keppa við hliðina á þeim aðilum þarna um einstök verkefni, þ.e. að annar hópurinn njóti mikilla fríðinda, skattfríðinda og guð má vita hvað meðan hinn hópurinn sem kannski vill keppa á sama grunni þurfi hins vegar að borga skatta sína og gjöld til íslenskra stjórnvalda. Ef ég man rétt gagnrýndu endurskoðendur þetta fyrirkomulag.



[18:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur hreinlega í samningnum, í b-lið 2. töluliðar 12. gr., með leyfi forseta:

„ESB-verktakar skulu undanþegnir virðisaukaskatti vegna þjónustu og/eða vara og/eða verka sem er veitt, eru afhentar eða unnin samkvæmt viðkomandi ESB-samningi.“

Síðan stendur í c-lið:

„Einstaklingar sem eru ekki búsettir á Íslandi og inna af hendi þjónustu og/eða vinna verk […] skulu undanþegnir tekjuskatti á Íslandi vegna tekna sem samningur af því tagi skapar.“

Íslendingar þurfa að borga tekjuskatt en útlendingarnir ekki.

Nú veit ég ekki hvað gerist í viðkomandi landi, hvað gerist ef Íslendingur flytur búferlum til Danmerkur og starfar svo þaðan sem starfsmaður á Íslandi. Þetta er það sem ég nefndi áðan að er sennilega í fullum gangi núna í heilum hundraða eða þúsunda manna og kvenna sem er að spekúlera í því hvernig þau geti gert sér mat úr þessum reglum og farið fram hjá þeim. Það er einmitt það sem er hættulegt.

Það sem ég ætlaði að nefna áðan er að í 1. lið 8. gr. stendur, leyfi hæstv. forseta:

„Almennt á miðlæg framkvæmdastjórn, sbr. skilgreiningu í grein 53a í fjárhagsreglugerðinni, við um framkvæmd stuðningsaðgerða IPA á Íslandi. Aðgerðir skal framkvæma samkvæmt þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í a-lið 53. gr., grein 53a og 54. til 57. gr. fjárhagsreglugerðarinnar.“

Þetta eru reglugerðir sem gilda innan Evrópusambandsins og hér er vísað í það að þetta skuli vera verklagið við framkvæmd.

Ég vænti þess að hv. utanríkismálanefnd hafi kynnt sér þessi ákvæði nákvæmlega og viti hvað þau eru að samþykkja.



[18:10]
Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Enn ræðum við þingsályktunartillögu um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um svokallaða IPA-styrki. Ég er ánægð að sjá hæstv. utanríkisráðherra í hliðarsal og vona að hann sperri eyrun og taki niður spurningar vegna þess að ég hef saknað þess við umræðuna að hafa ekki haft tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra og hef nokkrar spurningar sem ég vil varpa til hans.

Þetta mál hefur fengið ágæta umfjöllun núna í maímánuði 2012. En því hefur enn ekki verið svarað af hverju þetta var ekki rætt í samhengi við aðildarumsóknina á sínum tíma, af hverju IPA-tillögurnar voru ekki lagðar fyrir þingið og ræddar við meðferð umsóknarinnar sjálfrar. Þær komu ekkert til tals þá og eins og hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Pétur H. Blöndal nefndu áðan segir ekkert um IPA-styrkina í nefndarálitinu, biblíu hæstv. utanríkisráðherra. [Kliður í þingsal.] Af hverju ekki? Af hverju var þetta ekki tekið með í þeirri viðamiklu umræðu sem þá fór fram um þetta ferli? Hér segir í nefndarálitinu, virðulegi forseti, á bls. 11, í biblíu hæstv. utanríkisráðherra:

„Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Tryggja verður að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu.“

Herra forseti. Það er óneitanlega mikill kliður hér.

(Forseti (SIJ): Forseti vill biðja þingmenn í hliðarsölum að koma inn og taka þátt í umræðunni eða gefa ræðumanni hljóð ella.)

Ég þakka fyrir, herra forseti. Ég mundi kjósa að í stað þess að hafa hljóð kæmi hæstv. utanríkisráðherra hingað inn og tæki þátt í þessari umræðu.

Það segir í þeirri tilvitnun sem ég var að lesa að tryggja verði að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu. Þá blasir þessi spurning við, spurning sem ég hef spurt hæstv. utanríkisráðherra áður og ekki fengið viðunandi svör við: Af hverju voru styrkirnir ekki ræddir við meðferð umsóknarinnar eða í það minnsta í tengslum við fjárlagagerð í haust?

Herra forseti. Það hryggir mig að sjá hurð í hliðarsal hallað aftur og nú skilja þessar dyr á milli mín og hæstv. utanríkisráðherra sem ég hélt að ég væri að eiga orðastað við.

Við vitum að samningurinn var undirritaður 8. júlí 2011, það hefur komið fram. Ég hef margítrekað spurt að því af hverju það var ekki fyrr en 24. janúar 2012 sem þessi þingsályktunartillaga og það frumvarp sem við höfum hafið umræðu um en er á dagskrá að lokinni þessari umræðu, komu ekki á dagskrá þingsins fyrr en í janúar. Mér finnst það hreint óskiljanlegt. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að þessu í fyrri umræðu og hann gaf þá skýringu að málin hefðu tafist í fjármálaráðuneytinu. Nú veit ég að hæstv. utanríkisráðherra hefur haft tíma á milli umræðna til að grafast betur fyrir um þetta og því ítreka ég hvort hann geti gefið mér viðhlítandi skýringar á þessu og í það minnsta skýringar á því hvers vegna þingsályktunartillagan tafðist. Við vitum að það er alvanalegt að fyrir þingið séu lagðar þingsályktunartillögur sem fela í sér að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna EES-samningsins. Við tökum þær tillögur í gegn jafnvel þótt frumvörp liggi ekki fyrir, en fyrirætlunin kemur fram í þingsályktunartillögunni og það er það sem hér um ræðir.

Það lá fyrir 8. júlí þegar samningurinn var gerður að hann mundi krefjast lagabreytinga og þess að Alþingi staðfesti rammasamninginn með þingsályktunartillögu. Þess vegna tel ég algerlega ótækt að það liggi ósvarað af hverju þessi háttur var hafður á. Ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að svara get ég svo sem búið mér til mínar eigin kenningar. Það gæti til dæmis verið að það hentaði ekki umræðunni, hinni óþægilegu aðlögunarumræðu, að þessi mál kæmu inn samtímis, ríkisstjórninni þætti það óþægilegt. Jafnvel þótt við værum að ræða þau í tengslum við fjárlagagerðina væri hægt að fela þau inni í fjárlagaumræðunni og ekki taka um þau sérstaka umræðu. Það er ein skýringin. Önnur skýringin felst í því sem gerðist um áramót. Hvað gerðist þá? Það urðu ráðherraskipti. Hv. þm. Jón Bjarnason, hæstv. fyrrverandi ráðherra, vék úr ríkisstjórn og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra — ég vona að ég sé ekki að gleyma neinu — vék úr stóli fjármálaráðherra. Getur verið að annar hvor þessara einstaklinga, hv. þm. Jón Bjarnason eða hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hafi ekki viljað koma þessu máli í gegn?

Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon kláraði ekki þetta mál í fjármálaráðherratíð sinni. Það var ekki fyrr en núverandi hæstv. fjármálaráðherra Oddný G. Harðardóttir tók við að frumvarpið leit dagsins ljós. Var það hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem tafði fyrir málinu eða hv. þm. Jón Bjarnason? Ég mundi gjarnan vilja fá skýringar á þessu því mér finnst einfaldlega ekki fullnægjandi að málið liggi svona. Mér finnst þessi vinnubrögð bera keim af einhvers konar yfirhylmingu. Það er ekki verið að segja allan sannleikann, það er verið að skammta sannleikann í litlum skömmtum og þannig næst aldrei heildarmynd. Heiðarlegast hefði verið, eins og ég sagði í upphafi, að IPA-styrkirnir hefðu komið fram um leið og aðildarumsóknin var rædd og tekið á því í nefndaráliti. Við vitum hvað hefur gerst síðan. Endalausar ályktanir frá Vinstri grænum sem hafa farið í kringum þetta mál eins og köttur í kringum heitan graut og menn reynt að bera kápuna á báðum öxlum en við vitum að það fer aldrei vel.

Ég verð að ítreka eina ferðina enn að þau verkefni sem liggja hér undir eru góðra gjalda verð og eins og segir í minnihlutaáliti mínu og þingmanna Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar eru þetta verkefni sem að öllum líkindum hefði verið einfalt að ná pólitísku samkomulagi um á Alþingi. Við hefðum getað sameinast um að tryggja þeim fjármagn þegar betur áraði, eða við höfum alla vega haft tækifæri til að forgangsraða takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs eins og við teljum þeim best varið. Það er búið að gera ráð fyrir 596 millj. kr. í fjárlögum yfirstandandi árs vegna þessara verkefna. Ég ítreka að þetta eru fín verkefni en ekki endilega þau sem við hefðum sett á oddinn. Ef ég ætti til dæmis að velja um það hvort Hagstofan ætti að uppfæra tölvukerfin sín eða skatturinn að uppfæra tölvukerfin sín eða halda úti spítalaþjónustu í Vestmannaeyjum þá held ég að spítalaþjónusta í Vestmannaeyjum yrði ofan á. Ef ég ætti að forgangsraða þessum verkefnum yrði að sjálfsögðu að taka heildstæða ákvörðun um þetta.

Þetta er í raun sama umræðan og við erum að fara í gegnum í öðru máli sem er á dagskrá þingsins, um Vaðlaheiðargöng. Vaðlaheiðargöng eru góðra gjalda verð, fín framkvæmd, en eiga þau að vera efst í forgangi þegar um ríkisframkvæmd er að ræða? Um þetta snýst málið. Það er það sem er svo óþolandi við þessa aðildarumsókn og allt þetta ferli, að vegna þeirrar stöðu sem uppi er í ríkisstjórninni þar sem menn eru ósammála og annar stjórnarflokkurinn berst gegn umsókninni, koma menn ekki fram og segja sannleikann um það hvernig málin líta út. IPA-styrkirnir eru styrkir sem er beinlínis ætlað að undirbúa Ísland undir aðild að Evrópusambandinu. Þetta er ekki flóknara en það. Það felst í nafni þeirra, það felst í allri hugmyndafræðinni á bak við þá, það felst í því hvað gert hefur verið við þessa styrki hjá öðrum þjóðum sem hafa farið í gegnum þetta prógramm. Þetta er ekkert flókið. Þess vegna er svo kostulegt að heyra talsmenn ríkisstjórnarinnar halda því fram að styrkirnir komi ekki til vegna aðlögunar heldur vegna þess að þetta séu svo góð verkefni.

Ég minnist orðaskipta hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar við þessa umræðu fyrir nokkrum dögum, þá snerist allt um það hvort þetta væru góð eða slæm verkefni. Auðvitað eru þetta fín verkefni. Málið snýst ekkert um það. Það snýst um að Evrópusambandið er að dæla inn peningum í ýmiss konar verkefni vegna þess að verið er að undirbúa aðild Íslands að Evrópusambandinu. Evrópusambandinu er svo sem ekkert um að kenna vegna þess að við Íslendingar sóttum um aðild. Þeir sóttu ekki um aðild að okkur, við sóttum um aðild að þeim. Þeir átta sig náttúrlega ekkert á stöðunni sem uppi er, að hér sæki land um aðild að Evrópusambandinu sem vill ekkert inn í Evrópusambandið fara. Það er einnig mikilvægt atriði sem ber að hafa í huga í þessu sambandi að með því að samþykkja þessa styrki er verið að gefa þau skilaboð héðan að við viljum endilega ganga inn í Evrópusambandið. En það eru skilaboð sem lýsa ekki þeim raunveruleika sem blasir við í dag.

Hvað hefur gerst síðan þetta kom fram? Hvað hefur gerst bara á síðustu viku eða tíu dögum? Það sem hefur gerst er að (Gripið fram í.) hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur bókað í utanríkismálanefnd andstöðu sína við aðildarumsóknina og lagt til að þjóðin verði að minnsta kosti spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Hæstv. innanríkisráðherra hefur látið sömu skoðun í ljós. Hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir hefur einnig gefið til kynna að hún vilji láta kjósa um hvort halda skuli áfram. Hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Atli Gíslason hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að draga umsóknina til baka. Allt ber að sama brunni, andstaðan við Evrópusambandsaðild hefur vaxið frekar en hitt. Umræðan er öll á þann veg og það að staðfesta þennan samning yrði í hróplegu ósamræmi við það sem er að gerast í landinu.



[18:25]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður velti upp ástæðum fyrir því að þetta mál fylgdi ekki með í pakkanum þegar verið var að koma þessari umsókn í gegnum þingið og lá ekki fyrir þegar fjárlögin voru samþykkt. Það er mjög eðlilegt að velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum þetta IPA-dæmi allt saman kemur ekki strax fram þrátt fyrir að spila augljóslega býsna stóran þátt í aðlöguninni allri, að minnsta kosti ef þeir fjármunir eru notaðir eftir bókinni. Samkvæmt þeim bæklingi sem Olli Rehn gaf út á að nota þá til að styrkja stjórnsýslu og þess háttar. Það væri eðlilegt að upplýsingar um þessa styrki hefðu fylgt með þegar umsóknarferlið hófst en slíkt kemur hvergi fram í nefndaráliti meiri hlutans og ég hef ekki fundið orð um þessa styrki.

Þetta snýst að sjálfsögðu ekki um verkefnin sem beðið hafa þess að fá fjármuni eins og hv. þingmaður benti á. Verkefni eins og atvinnuþróunarverkefni á Suðurlandi og á Suðurnesjum eru að mínu mati alveg ótengd þessu. Þetta eru mjög góð verkefni og eiga skilið fjármuni annars staðar frá en úr þessu kerfi því að þau tengjast ekkert aðlögunarferlinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér eða hvort hann líti svo á að verið sé að nýta þessa peninga á réttan hátt.

Síðan ætla ég í seinna andsvari að spyrja hv. þingmann út í orð forseta framkvæmdastjórnar ESB sem var að láta ljós sitt skína erlendis í dag.



[18:27]
Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð í upphafi máls míns að lýsa vonbrigðum mínum með hæstv. utanríkisráðherra sem er í hliðarsal en kemur ekki hingað og notar tækifærið til að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann í ræðu minni. Nú skal það upplýst að við sitjum hér tveir, þrír stjórnarandstæðingar í þessari umræðu og ég held að ef ég væri hæstv. forsætisráðherra mundi ég gera þá kröfu á hæstv. forseta um að slíta þessum fundi þar til fleiri koma í salinn. Það er til dæmi um það, slík krafa var gerð um daginn.

En ég ætla ekki að láta ergelsi mitt gagnvart hv. stjórnarliðum bitna á hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni vegna þess að spurning hans var athyglisverð, hvort verið væri að nota peningana með réttum hætti. Ef bæklingurinn góði sem þingmaðurinn þreytist ekki á að nefna, sem Olli Rehn gaf út, er lesinn vandlega má sjá að þar segir hreint út að styrkirnir séu til aðlögunar, til að undirbúa aðildarríki fyrir aðild að Evrópusambandinu. Maður getur alveg velt því fyrir sér hvað atvinnuátak á Suðurnesjum eða námsátak um Kötlu jarðvang — ég ítreka enn einu sinni þannig að það misskiljist ekki að þetta eru fín verkefni — hafa með aðild Íslands að Evrópusambandinu að gera. Menn hafa sagt að það gæti verið til að undirbúa Ísland í að vera umsóknarríki með aðgang að öllum þeim sjóðum sem Evrópusambandið hefur upp á að bjóða. Það er sú kenning sem ég hef heyrt. En ég held að með þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu þar sem við erum fullgildir aðilar, borgum inn og fáum til baka, (Forseti hringir.) séum við orðin býsna góð í að fylla út umsóknir þannig að ég kaupi ekki þá skýringu.



[18:30]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. um að það er eðlilegt að gera sömu kröfur til þingmanna og hæstv. forsætisráðherra gerði þegar hún heimtaði að þingmenn yrðu kallaðir í salinn áður en hún hæfi upp raust sína. En við erum kannski miklu liprari við að sýna biðlund en hæstv. forsætisráðherra og verðum bara róleg eitthvað áfram.

Á vefmiðlum í dag mátti lesa yfirlýsingar sem José Manuel Barroso var að senda frá sér og ein yfirlýsingin lýtur að því að þessi ágæti maður og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sér núna pólitískt tækifæri fyrir frekari samruna en verið hefur undanfarið. Hann sér tækifæri til að fara í miklu meiri efnahagslegan samruna en áður hefur verið gert og setja nýjar reglur er lúta að eftirliti með fjárreiðum einstakra ríkja Evrópusambandsins. Á vefmiðlinum euobserver.com er vitnað í herra Barroso þar sem hann segir, og ég ætla að reyna að þýða þetta, að það sé eingöngu framkvæmdastjórnin sjálf sem geti gefið slíkt strangt og óhlutdrægt yfirlit yfir stöðu efnahagsmála í öðrum ríkjum og einungis hún geti í raun hvatt til þess að taka erfiðar ákvarðanir. Hann klykkir svo út með því að segja að það þurfi hugrekki og forustu til að útskýra fyrir Evrópuþjóðunum hvað gerist ef ekki er genginn sá vegur að styrkja Evrópusambandið.

Ég spyr: Gefur þetta ekki enn og aftur tilefni til að staldra við og velta fyrir sér hvert Evrópusambandið er að fara? Er verið að búa til nýtt þjóðríki þarna austur frá eða hvað er í gangi?



[18:32]
Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar þarna í athyglisverð orð Barrosos og von að spurt sé hvert Evrópusambandið stefnir. Við veltum því fyrir okkur á hverjum einasta degi. Við sjáum auðvitað á vandræðunum innan evrusvæðisins að vegna þess að þar er ekki sameiginlegt fjárstjórnarvald er evran að liðast í sundur. Það er rót þess vanda sem evran á við að glíma. Það er því ekki nema eðlilegt að menn eins og Barroso, sem er mikill talsmaður þess að Evrópusambandið þétti og styrki samstarf sitt og samband, tali eins og hv. þingmaður vitnaði til. En það er ekki það sama og við heyrum frá fulltrúum okkar hér sem halda því fram að Evrópusambandið sé eitthvað allt annað. Við sjáum á þeim dæmum sem við höfum núna fyrir framan okkur varðandi EES-samninginn og sameiginlega fjármálaeftirlitið einmitt líka þá tilhneigingu að taka þetta atriði inn í samninginn. Þá þurfum við að berjast fyrir hagsmunum okkar og þeir eru að viðhalda tveggja stoða kerfinu. Ég vil ekki sjá sameiginlegt fjárstjórnarvald í Evrópu. Ég vil ekki þjóðríkið Evrópu. Ég vil vera í góðu samstarfi og í góðu sambandi við Evrópu hér eftir sem hingað til en það sem birtist í þeim orðum sem hv. þingmaður var að vitna til er ekki heillavænleg framtíðarsýn.

Annað var líka í fréttum í dag og það er að 70% breskra íhaldsmanna í systurflokks míns flokks í Bretlandi vilja leyfa Bretum að kjósa um það hvort þeir verða áfram innan Evrópusambandsins eða ekki (Forseti hringir.) Við sjáum að umræðan er í báðar áttir og þess vegna eigum við að staldra við, setja þetta á ís, draga þetta til baka og hugsa um okkar eigin hagsmuni á meðan.



[18:35]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér IPA-styrkina og höfum rætt þá nokkuð mikið. Ég hef haldið nokkrar ræður um þetta mál en ég held að aldrei hafi hv. stjórnarliðar skipst á skoðunum eða svarað þeim spurningum sem ég hef beint til þeirra sem bera þó ábyrgð á þessu máli, koma með málið inn í þingið og bera ábyrgð á því og ættu með réttu að þurfa að svara spurningum sem hafa komið út af þessu máli. Ég ætla þess vegna ekki að reyna að fá svör við því núna af hverju hér er augljóslega um aðlögunarstyrki að ræða og hvernig standi á því þar sem það er þvert á það sem hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa sagt.

Þess í stað ætla ég að fara yfir — þetta snýst jú um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið — nokkrar missagnir hv. stjórnarliða, sérstaklega hv. þingmanna Samfylkingarinnar, sem hafa verið kallaðir í þessum sal sértrúarsöfnuður og þar er verið að vísa til þess að það eina sem þeir hafi fram að færa í þjóðmálaumræðunni séu aðildarviðræður að ESB og skyldi engan undra að þeir hafi verið kallaðir sértrúarsöfnuður í þessum ræðustól. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að núna í júní verða liðnir 36 mánuðir frá því að sótt var um aðild að Evrópusambandinu. Það er algerlega ljóst að aðildarsinnar eru að tefja þessar viðræður. Þeir treysta sér ekki til að sýna á samninginn og ætla þess í stað að reyna að tefja þetta ferli eins lengi og mögulegt er. Af hverju segi ég það? Af því að ég ætla að benda á að þau lönd sem við getum borið okkur saman við í sambandi við þessar aðildarviðræður. Það eru lönd sem voru innan EES og eru nágrannalönd okkar, þ.e. Noregur, Finnland og Svíþjóð. Í síðustu samningalotu þegar Norðmenn sóttu um aðild og felldu síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu tók það þá 16 mánuði að klára samningaviðræðurnar. Núna erum við búin að vera 20 mánuðum lengur en Norðmenn. Finnar kláruðu þetta á 33 mánuðum eða þrem mánuðum fyrr en við sjáum fram á núna í júní. Svíar voru lengst að þessu, það tók þá 42 mánuði. Að því gefnu að við verðum jafnlengi og Svíar mundum við samt sem áður ná að klára þetta fyrir næstu alþingiskosningar og þá væri hægt að kjósa um aðildarsamninginn ef áhugi væri fyrir því af hálfu Íslendinga. Forráðamenn Evrópusambandsins og síðast stækkunarstjórinn, sem hefur komið hingað, hafa sagt berum orðum að hægt sé að klára þetta fyrir næstu alþingiskosningar. Það er engin önnur málefnaleg skýring á því að ekki sé verið að ljúka þessu en sú að aðildarsinnar vilja ekki sýna Íslendingum samninginn. Þeir eru að reyna að tefja þetta eins mikið og þeir mögulega geta og bíða eftir færi þannig að upp komi einhverjar þær aðstæður að hægt sé að keyra samninginn í gegn. Þeir líta á skoðanakannanir, sjá að þetta er fullkomlega vonlaust og koma þá með einhverjar málamyndaskýringar á því af hverju málið er ekki klárað og þetta er tafið von úr viti. Síðan eru menn á einhverjum mjög sérkennilegum leiðum þegar þeir reyna að útskýra af hverju forráðamenn Evrópusambandsins segi að hægt sé að klára þetta fyrir kosningar.

Ég vek athygli á því að málflutningur aðildarsinna gengur ekki út á það að hagsmunum okkar sé best borgið innan Evrópusambandsins, þeir þora ekki að leggja það fram, ekki nema sárafáir, þeir segja aðallega að við eigum að sækja um, sjá hvað er í pakkanum, og síðan muni þeir greiða atkvæði um það sem kemur út úr því. Leiðarahöfundar ákveðins blaðs hafa kallað þetta „kíkið í pakkann kjánar“. Sú lýsing er ekkert fjarri lagi, raunar alls ekki. Evrópusambandið hefur verið til í langan tíma og það er til allra handa litteratúr þar sem menn geta skoðað hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu og almenna reglan er sú, og ég held að eina undantekningin séu Íslendingar, að menn kanna hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. Þegar menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það séu hagsmunir viðkomandi lands að vera í Evrópusambandinu sækja þeir um aðild. Dæmi um þetta er bók Auðuns Arnórssonar, Inni eða úti? Aðildarviðræður við ESB. Önnur bók er Fiskveiðireglur Íslands og Evrópusambandsins: þróun, samanburður og staða Íslands eftir Óttar Pálsson og Stefán Már Stefánsson. Svo ég nefni tvær en auðvitað er til fullt af erlendum litteratúr.

Ég vek athygli á því að í bók Auðuns Arnórssonar, sem seint verður talinn andstæðingur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, segir, með leyfi forseta, á bls. 25:

„Séð frá bæjardyrum Evrópusambandsins snúast aðildarviðræður í raun aðeins um það hvernig hið væntanlega nýja aðildarríki innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins (á vettvangi ESB tíðkast að vísa til þessa alls í heild undir heitinu „acquis“ upp á frönsku). Í reynd er þó alltaf eitthvert svigrúm til að sýna sveigjanleika; oft er samið um sérstaka aðlögun að tilteknum reglum ESB, tímabundnar undanþágur og sérlausnir.“

Svo segir í bók Auðuns Arnórssonar sem gefin er út af Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki. Ef við skoðum hins vegar þennan málflutning í samhengi við þetta, af því að það hefur oft heyrst að við fáum bara undanþágur, það er einhvern veginn lausnin, þegar það er augljóst að allra handa hlutir henta alls ekki Íslandi er það einhvers konar svar að við fáum bara undanþágur, þá segir í bók Stefáns Más og ritum hans, með leyfi forseta:

„Við inngöngu ríkja er því lagalega unnt samkvæmt sambandsréttinum að kveða á um undanþágu fyrir einstök aðildarríki í viðkomandi aðildarlögum. Hins vegar setur sambandið ávallt fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki gangi að öllu regluverki þess óbreyttu, hvort sem um er að ræða bindandi eða óbindandi gerðir eða dóma dómstóls ESB.“

Ég endurtek þetta: „Hins vegar setur sambandið ávallt fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki gangi að öllu regluverki þess óbreyttu, hvort sem um er að ræða bindandi eða óbindandi gerðir eða dóma dómstóls ESB.“

„Ástæðan er einfaldlega sú að öll aðildarríkin eiga að mati Evrópusambandsins að sitja við sama borð. Með öðrum orðum eiga leikreglurnar að vera þær sömu fyrir þau öll. Það á auðvitað alveg sérstaklega við þar sem tekin hefur verið sameiginleg stefna eins og í landbúnaðar- og fiskveiðimálum. Sameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum. Frá þessu eru í grundvallaratriðum aðeins veittar tímabundnar undanþágur. Þær eru einkum hugsaðar sem aðlögunartími fyrir viðkomandi aðildarríki til að laga sig að breyttum aðstæðum en tímabundnir erfiðleikar ESB geta einnig haft áhrif.“

Ég vil endurtaka þetta, virðulegi forseti, að leikreglurnar eiga að vera þær sömu fyrir þau öll og það á sérstaklega við þar sem tekin hefur verið sameiginleg stefna eins og í landbúnaðar- og fiskveiðimálum. Sameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum og frá þessu eru í grundvallaratriðum aðeins veittar tímabundnar undanþágur.

Nú skulum við sjá hvað hefur gerst í aðildarviðræðunum almennt við þau lönd sem samið hefur verið við. Til dæmis Noregur, niðurstaða aðildarviðræðna var sú að Norðmenn fengu í engum greinum varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins, engum. Þetta eru Norðmenn. Það er enginn vafi að það hefði verið mikill hagur fyrir Evrópusambandið að fá þessa ríku þjóð inn en hún fékk enga varanlega undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins.

Síðan er það landbúnaðurinn fyrir norðan 62. breiddargráðu sem átti við um útfærsluna á hinum norræna landbúnaði, sem átti við Svía, Norðmenn og Finna. Þar var stuðningurinn samkvæmt þessari grein bundinn ströngum reglugerðarákvæðum sem framkvæmdastjórnin setur, það stóð þannig í textanum. „Af þessu er ljóst að litið er á ákvæðið sem sérstaka útfærslu ESB-réttar. Það er ESB sem ákveður öll skilyrði fyrir stuðningnum og hann getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins“. — Ég er að endurtaka hér óbreytt úr litteratúr Stefáns Más Stefánssonar, sem við Íslendingar og reyndar Evrópumenn almennt vita að þekkir lagaumhverfi Evrópusambandsins mjög vel og EES-svæðisins.

Ég ætla að endurtaka, með leyfi forseta: „Af þessu er ljóst að litið er á ákvæðið sem sérstaka útfærslu ESB-réttar. Það er ESB sem ákveður öll skilyrði fyrir stuðningnum og hann getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins.“

ESB getur breytt einhliða landbúnaðarreglunum sem eiga við landbúnað fyrir norðan 62. breiddargráðu.

Þá er það Malta og undanþágurnar frá fiskveiðistefnu ESB. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær tilhliðranir sem Malta fékk með þessu er að finna í gerðum Evrópusambandsins. Þeim gerðum getur það auðvitað breytt með þeirri málsmeðferð sem um það gildir innan sambandsins.“

Svo segir í bók Stefáns Más, að Evrópusambandið geti breytt þessum svokölluðu undanþágum sem Malta fékk einhliða.

Virðulegi forseti. Aðildarsinnar víkja algerlega frá þessu. Menn segja bara: Við sjáum hvað við fáum út úr þessu, þ.e. út úr aðildarsamningunum. Eins og það sé bara þannig að aðildarþjóðir sæki um aðild að ríkjabandalagi sem hefur verið til í rúmlega hálfa öld, ef við tökum fyrirrennara þess, og byggir á Rómarsáttmálanum og þar er sérstakt markmið að allir séu settir undir sömu reglur og þannig er það. Svo koma stjórnmálamenn á Íslandi og segja: Við ætlum að sækja um og sjá hvað er í gangi, hvað kemur út úr þessu, eins og þegar Danir sóttu um sem fengu, ja guð má vita hvað, og Svíar sem fengu eitthvað allt annað og Portúgalar þriðju lausnina. En þetta er ekki þannig, virðulegi forseti. Þetta eru sameiginlegar reglur og hinum svokölluðu undanþágum er hægt að breyta einhliða af hálfu sambandsins. Það er algerlega ljóst að við þurfum að vera með í sameiginlegri landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu og það er gersamlega fráleitt að stjórnmálamönnum og jafnvel fræðimönnum sem tjá sig um þessi mál að upplýsa þjóðina ekki um þetta.

Við sjáum líka núna að reynt er að selja Íslendingum þessa hugmynd að ganga í Evrópusambandið á þeirri forsendu að það sé svo gott að vera í sameiginlegu myntbandalagi, evrunni. Maður hlustar á hv. þingmenn Samfylkingarinnar ræða þessi mál og það er eins og þeir hafi ekki aðgang að internetinu, þeir viti bara ekki hvað er í gangi í álfunni. En hver sem vill getur farið á evrópska fréttamiðla, það er svo sem hægt að fara á íslenska líka, sumir sem hafa jafnvel verið mjög fylgjandi Evrópusambandinu neyðast nú til að birta upplýsingar um að virtir hagfræðingar bendi á að það hafi verið mistök að taka upp evruna. Ég hef að vísu ekki séð það í fréttum, það hefur verið birt á þýskum vefmiðlum, Spiegel nánar tiltekið, að það hafi komið í ljós þegar menn hafi verið að gramsa í gögnum að ríkisstjórn Helmuts Kohls vissi að Ítalir gætu ekki uppfyllt þau skilyrði sem voru til staðar til að vera með í evrunni en það var samt sem áður gert. Það sama á auðvitað við um Grikki og þá hefur væntanlega ekki verið sama ríkisstjórn. Í grófum dráttum er þetta bara pólitík, menn fóru ekki í evruna út af efnahagslegum ástæðum heldur pólitískum.

Það hefur margoft komið fram að Þjóðverjar vildu ekki kasta frá sér þýska markinu en hins vegar vildu Frakkar og fleiri fá sameiginlega mynt fyrir Evrópu og síðan voru einhver hrossakaup, þ.e. að Þjóðverjar fengju að sameinast, þ.e. Austur- og Vestur-Þýskaland, gegn því að fórna þýska markinu og taka upp evru fyrir álfuna. Þjóðverjar sneru hins vegar ágætlega á Evrópusambandið og þær reglur sem eru í gildi henta þeim kannski helst. Þeir voru að vísu fyrstir ásamt Frökkum til að brjóta þær reglur sem gilda um evruna og það var sú regla að ef ríki er með of miklar skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu þarf viðkomandi ríki að greiða sekt. Þegar Þjóðverjar og Frakkar fóru yfir þessi mörk var þessu sleppt. Ef ég man rétt þurftu hins vegar Írar að greiða sekt þegar skuldir þeirra voru umfram þau mörk sem sett voru. Sökum þess að sameining Vestur-Þýskalands og Austur-Þýskalands varð mjög dýr var sú leið farin og þá voru lágir vextir á evrunni hjá evrópska seðlabankanum sem gerði það að verkum að það flæddi inn ódýrt fjármagn, bæði fyrir opinbera aðila og líka fyrir einkaaðila í Miðjarðarhafslöndunum og Írlandi. Þetta varð mikið vandamál fyrir þessar þjóðir og er grunnurinn að hinni miklu skuldsetningu þeirra og var þvert á það sem þjóðirnar þurftu á að halda í sinni efnahagsstjórn. Síðan kom að skuldadögum og við horfum upp á að þar er gríðarlega alvarlegt ástand. Auðvitað þekkja menn það helst í Grikklandi en Miðjarðarhafshengjan og jafnvel fleiri landa hangir yfir okkur og þetta gæti leitt af sér enn meiri vanda en nú er.

Í grunninn er það svo að það er erfiðara að leysa vandann vegna evrunnar. Það er einn gjaldmiðill hjá mörgum skuldsettum ríkjum, það eru mismunandi fjármálastefnur í þessum ríkjum, tungumál, skólakerfi, menning, lífeyriskerfi, skattkerfi, uppbygging atvinnulífs. Þetta eru svipaðir fjötrar og gullfóturinn var í í byrjun síðustu aldar. Viðskiptahalli og afgangur er mismunandi eftir ríkjum. Í grófum dráttum erum við ekki að horfa á sambærilega stöðu í Bandaríkjunum þar sem menn horfa alltaf á dollarann. Við erum með eins konar bandaríki Evrópu að því leyti til að við erum með Evrópusambandið sem er ekki lýðræðisríki heldur fyrst og fremst skrifræðisbatterí þar sem ekki einu sinni er einn fjölmiðill fyrir allt ESB-svæðið eða þetta myntsvæði. Þar er enginn einn fjölmiðill sem allir lesa á hverjum degi eða hafa aðgang að. Þetta eru svo gríðarlega mismunandi aðstæður ólíkt því sem er til dæmis í Bandaríkjunum.

Evrópusambandið er fyrst og fremst embættis- og stjórnmálamannabandalag byggt í kringum frið og hefur að stórum hluta tekist það, og sumir hv. þingmenn, þar á meðal þingmenn í mínum flokki, segja að það hafi tryggt frið. Því miður hefur það ekki gert það. Við getum nefnt Norður-Írland, Balkanlönd og síðan hefur forusturíki Evrópusambandsins í rauninni valdið stríðum á seinni hluta síðustu aldar. En stóra málið er hins vegar það að friðarbandalagið er að valda hvað mestum ófriði innan álfunnar. Það er kannski vandinn í þessu, og við sjáum það núna að þegar við ættum að standa saman út af ýmsum málum erum við að takast gríðarlega á í þessum sal. Það er hins vegar smámál miðað við það sem gerist annars staðar í álfunni.

Ég vildi svo nota tækifærið og spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Af hverju er verið að tefja aðildarviðræðurnar?



[18:55]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvers vegna verið sé að tefja aðildarviðræðurnar. Ég get ekki svarað honum með öðrum hætti en þeim að ég reyni alla daga að flýta þeim viðræðum, ég geri og hef gert allt sem ég get til að opna þá kafla sem erfiðastir eru taldir verða í samningunum. Ég nefni þar sérstaklega sjávarútveg, sömuleiðis landbúnað og reyndar aðra kafla líka. Það eru hins vegar ágætar fréttir af aðildarviðræðunum, til dæmis er skammt í það að menn farið að opna byggðakaflann sem er líka mikilvægur. Ég geri mér því vonir um að einnig sé hægt að standa við það sem stækkunarstjórinn sagði í heimsókn sinni í síðustu viku að fyrir kosningar á Íslandi yrði búið að sýna á spilin. En ég geri mér ekki vonir um að búið verði að semja um þessa kafla, að minnsta kosti byggja þær vonir ekki á raunveruleikanum eins og ég met það. Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti, til að svara hv. þingmanni.

Ég er síðan algerlega ósammála hv. þingmanni um að Evrópusambandið sé einhver sérstakur friðarspillir í þeirri góðu álfu, þvert á móti. Sagan sýnir að Evrópusambandið hefur leitt til friðar, þar hefur verið langvarandi og meiri friður en oft áður ef maður skyggnist aftur í söguna. Ég er til dæmis algjörlega ósammála því sem hv. þingmaður nefndi varðandi Balkanlönd, ég er þeirrar skoðunar að sú áhersla sem Evrópusambandið hefur lagt á sjálfsstjórn svæða hafi meðal annars leitt til þess að ófriðurinn sem þar var og hefur að sönnu slotað á síðustu árum, að Evrópusambandið og stefna þess eigi svolítinn þátt í því, kannski meiri en okkur grunar núna.

Síðan langar mig til að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að einn af pólitískum leiðtogum lífs hans, forsætisráðherra Breta, hvetur um þessar mundir til þess að gripið sé til allra þeirra aðgerða sem hægt er að gera til að styrkja Evrópusambandið vegna þess að hann telur að það sé nauðsynlegt fyrir efnahag álfunnar og ekki síst fyrir efnahag Breta.



[18:57]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Það er mjög til fyrirmyndar og ég vek athygli á því að hann er eini stjórnarliðinn sem þorir að mæta og ræða um málið, hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, og fær hann miklar þakkir fyrir.

Við erum með hæft fólk í þeirri nefnd sem semur og sækir um aðild að Evrópusambandinu fyrir okkar hönd. Norðmenn voru 16 mánuði að því, Finnar 33 mánuði, Svíar 42 mánuði og það stemmir ekki að ekki sé hægt að gera það á skemmri tíma hér ef vilji er fyrir því að klára það.

Varðandi friðinn er það barnaskapur að tala um að Evrópusambandið hafi komið á einhverjum frið almennt. Auðvitað var engin hætta á því eftir stríðslok að Vestur-Evrópa færi í stríð innbyrðis. Það var fullkomlega óraunhæft. Hún var byggð upp með Marshall-aðstoð, bæði sigurvegararnir og þeir sem töpuðu fengu slíka aðstoð. Síðan hófst kalda stríðið og hefur NATO átt drjúgan þátt í að halda friðinn á milli austurs og vesturs. Norður-Írlandi var mikið stríðssvæði og stóðu Bretar sjálfir í deilum um hvort það hafi verið Tony Blair eða John Major sem átti mestan þátt í því að stilla til friðar þar. Ég geri ekki lítið úr því að Evrópusambandið hafi reynt að stuðla að friði og gert margt gott í þeim efnum en hins vegar er þetta mikil einföldun. Það er enginn vafi að deilurnar eru til komnar út af samrunanum.

Af því að hæstv. ráðherra nefnir David Cameron hefur hann ekki lagt á það áherslu að menn leysi þann vanda, sem skapast hefur út af samrunanum, með meiri samruna. Þetta er samrunavandi, evran er samrunavandi og það er bara ekki rétt að leggja málið upp með þessum hætti.

En ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju segja menn ekki satt og rétt frá, að undanþágurnar eru tímabundnar? Við þurfum alltaf að vera undir regluverki ESB og eins og á Möltu og (Forseti hringir.) hinum Norðurlöndunum eru undanþágurnar sem þar eru, sem Stefán Már Stefánsson skrifaði um, umbreytanlegar (Forseti hringir.) einhliða af hálfu Evrópusambandsins.



[19:00]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vafalítið mun þess vera freistað í samningum í einstökum tilvikum að fá varanlegar undanþágur. Ég hef þó sagt að það yrði einungis í fáum tilvikum. Eins og siðvenja er í aðildarviðræðum ríkja og Evrópusambandsins reyna menn meðal annars að fá tímabundinn frest þegar þeir telja að þeir þurfi ákveðinn tíma til að geta breytt hugum sínum og þurfa til þess frest. En ég hef líka sagt það alveg ærlega að ég tel að Ísland þurfi sérlausnir í málaflokkum eins og til dæmis á sviði sjávarútvegs og það er mjög auðvelt að færa rök fyrir því að sérstaka Íslands sé slík að þess þurfi og sömuleiðis að benda á að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna sem Evrópa rekur var ekki sniðin að löndum eins og Íslandi.

Sérstaða okkar birtist til dæmis í því, sem er algerlega þveröfugt við það sem Norðmenn bjuggu við á sínum tíma, að það er engin sameiginleg efnahagslögsaga með Íslandi og Evrópusambandslöndum eins og gilti til dæmis varðandi Noreg. Ég held að hægt sé að færa sterk rök fyrir því að sérlausnir á slíkum sviðum séu eðlilegar. Ef hv. þingmaður fer í bókaskápinn sinn mun hann finna þar skýrslu sem unnin var undir forustu annars af leiðtogum lífs hans, fyrrverandi ráðherra Björns Bjarnasonar, Evrópuskýrsluna svokölluðu. Þar er heill kafli um það hvernig ýmis lönd hafa fengið sérlausnir á margvíslegum sviðum. Vissulega er þar einkum að finna sérlausnir á sviði landbúnaðar og það er líka rétt hjá hv. þingmanni að þær eru ýmsar með þeim hætti að það væri hægt að fara þá leið sem hv. þingmaður óttast, að Evrópusambandið taki til baka ákveðnar klæðskerasaumaðar lausnir sem ekki er í gadda slegið í aðildarsamningum viðkomandi þjóða að séu varanlegar. Það er rétt hjá honum. Við þekkjum þessi dæmi (Forseti hringir.) og við munum reyna að varast þau með góðri aðstoð og undir góðu aðhaldi manna eins og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.



[19:02]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er það hreinskilnasta sem ég hef heyrt og vil aftur hrósa hæstv. ráðherra aðildarsinna að tala héðan úr ræðustól þingsins. Hér fór hann yfir það sem menn hafa verið að fela, hann talaði að vísu um „ýmsar“ sérlausnir. Ég vísaði áðan í skrif Stefáns Más Stefánssonar sem er með allra bestu lögfræðingum, ekki bara á Íslandi heldur í álfunni (Utanrrh.: … ráðuneytisins.) um Evrópurétt. Stefán Már Stefánsson segir að allar þessar tilhliðranir séu þess eðlis að ESB geti breytt þeim einhliða. Það er ekkert öðruvísi og menn eiga bara að segja það.

Ég er búinn að taka þessa umræðu hvað eftir annað og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hreint fram ef undan er skilið orðið „ýmsar“ en hann hefur örugglega kynnt sér málin mjög vel, ég er alveg fullkomlega sannfærður um það. Það er hægt að nálgast þetta allt á erlendri tungu en svo sem líka á íslensku af því að Stefán Már Stefánsson hefur skrifað mikinn litteratúr um þessi mál. Það er algerlega séríslenskt að menn tali eins og menn hafa gert hér, ekki eins og hæstv. ráðherra talaði núna heldur almennt, um að þetta komi allt saman í ljós, það sé rosalega spennandi hvað muni gerast.

Ég var í miklum samskiptum við ungliðahreyfingu í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Austurríki þegar þeir sóttu um aðild á sínum tíma. Það hvarflaði ekki að neinum að efast, þessir stjórnmálaflokkar voru allir búnir að gera það upp við sig að þeir vildu að viðkomandi land yrði aðili að Evrópusambandinu. Svo börðust menn fyrir því. En hér segja menn: Við bara sjáum til hvað er í þessu. Þetta er ofsalega spennandi. Það er ekki boðlegt. Og talandi um friðarspilla, ef við vildum hafa frið um þetta mál á Íslandi (Forseti hringir.) ættum við alla vega að koma okkur saman um að klára málið á einhverjum tímapunkti og kjósa síðan um það. Því miður (Forseti hringir.) treysta aðildarsinnar sér ekki í það.