140. löggjafarþing — 111. fundur
 1. júní 2012.
réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 736. mál (heildarlög). — Þskj. 1174, nál. 1418.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:09]

[13:05]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um frumvarp að ræða sem fagnar fjölbreytileika mannanna og leggur áherslu á mannhelgi og mannlega reisn því að með frumvarpinu eru lagðar til tillögur að úrbótum á réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda en þær lúta fyrst og fremst að stjórnsýslu og meðferð mála fólks með kynáttunarvanda og tilhögun kynleiðréttingar og nafnabreytinga.

Nefndin hefur unnið þetta mál í fullri sátt og telur þetta vera mikla réttarbót fyrir þá einstaklinga sem frumvarpið tekur til og leggur því til að það verði samþykkt óbreytt.



 1. gr. samþ. með 40 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BirgJ,  BJJ,  BjörgvS,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GLG,  GStein,  GBS,  HHj,  IllG,  JBjarn,  JRG,  KÞJ,  LRM,  LMós,  MN,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SER,  SII,  SkH,  SJS,  UBK,  VBj,  ÞSa,  ÞBack,  ÖS.
23 þm. (AtlG,  ÁI,  ÁJ,  ÁsmD,  BaldÞ,  BÁ,  BjarnB,  BVG,  GÞÞ,  HöskÞ,  JónG,  KJak,  KLM,  LGeir,  SDG,  SIJ,  SF,  SSv,  TÞH,  VigH,  ÞKG,  ÞrB,  ÖJ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:06]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Já, ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur að hér sé merkilegt mannréttindamál á ferðinni og líka merkilegt framfaraskref í velferðarþjónustu. Ég óska bæði okkur til hamingju með að vera að afgreiða þetta núna og þeim ágætu félögum okkar sem hér eiga helst hlut að máli.

Við erum öll í einhvers konar áttunarvanda, sum í pólitískum áttunarvanda og önnur í persónulegum áttunarvanda og svo eru sumir í kynáttunarvanda og öll erum við í einhvers konar vanda og við skulum bara taka saman um að leysa úr slíkum áttunarvandamálum í eitt skipti fyrir öll. Ég segi já. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:07]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Á 138. þingi lögðum við þingmenn allra flokka fram þingsályktunartillögu einmitt um nauðsyn réttarbóta til handa transfólki. Ég þakka hæstv. ráðherra og velferðarnefnd fyrir þá hröðu, öflugu og góðu vinnu sem við sjáum hér núna. Þetta er mikið framfaraskref en lætur lítið yfir sér og varðar fáa einstaklinga. Það er auðvitað stórt skref fram á við í mannréttindamálum og ég óska okkur öllum til hamingju með það.



[13:08]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér erum við öll saman í velferðarnefnd að leggja til að málið nái fram að ganga. Mér finnst rétt að vekja athygli á því að við erum að lögfesta framkvæmd sem hefur verið stunduð hér á landi í 20 ár. Gestir þeir sem komu fyrir nefndina voru sammála um að góð reynsla væri af þessari framkvæmd og þess vegna væri rétt að skapa henni skýran lagaramma. Það er það sem við erum að gera. Og það hlýtur að teljast áfangi í því að laga íslenska stjórnsýslu að lögfesta atriði sem þegar eru í framkvæmd innan stjórnsýslunnar en hafa ekki verið lögákveðin hingað til. Við erum því aðeins að laga til í stjórnsýslunni um leið og því ber að fagna vegna þess að ég tel að við séum allt of skammt komin á þeirri vegferð sem við ætluðum að ráðast í miðað við allar þær umræður hér á þessu kjörtímabili.



 2.–13. gr. samþ. með 38 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.