140. löggjafarþing — 116. fundur
 8. júní 2012.
veiðigjöld, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 658. mál (heildarlög). — Þskj. 1053, nál. 1432, 1435 og 1436, brtt. 1433, 1434 og 1473.

[13:31]
Ásmundur Einar Daðason (F) (frh.):

Virðulegi forseti. Fyrir matarhlé fór ég aðeins yfir byggðahugsunina og þær tillögur sem hafa komið fram meðal annars hjá fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að veiðigjaldið rynni á einhvern hátt beint til byggða landsins og velti því jafnframt upp hvers vegna vikið hafi verið út frá þessu.

Ég las upp ályktun frá fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var í Bolungarvík 2.–3. september 2011 og mig langar að lesa það aftur, með leyfi forseta:

„56. fjórðungsþing Vestfirðinga haldið í Bolungarvík 2.–3. september 2011 skorar á Alþingi að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess renni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum. Auðlindagjaldið renni til rannsókna, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir.“

Frú forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrir hádegishlé eru áhyggjur margra af veiðigjaldinu þær að það muni virka sem eins konar landsbyggðarskattur. Þetta kemur fram í fjölda umsagna sem hafa borist um málið, meðal annars frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þar sem menn hafa áhyggjur af því að horfið hafi verið frá mikilvægum byggðatengingum. Í þeirri umsögn segir, með leyfi forseta:

„Engum dylst nauðsyn þess að gera verður breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi til að ná betri sátt um einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og tryggja verður þjóðareign á sjávarauðlindum. Sú „sátt“ getur ekki orðið eingöngu á kostnað sjávarbyggða og landsbyggðarinnar.“

Frú forseti. Það eru Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem senda frá sér þessa ályktun. Formaður þeirra samtaka að ég hygg, ef ekki hafa orðið breytingar þar á, kemur úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það er því alveg ljóst að mjög margir hafa verulegar áhyggjur af því að veiðigjöldin eins og þau eru sett upp í dag muni verða þungur baggi fyrir landsbyggðina. Margir hafa fjallað um það í ræðum sínum og hefur mikið verið fjallað um að erfitt verði fyrir mörg fyrirtæki að greiða þennan skatt, hann sé of hár. Og sveitarfélögin hafa einnig verið með slíkar áhyggjur.

Fleiri sveitarfélög hafa sent frá sér umsagnir á svipuðum nótum, Vesturbyggð, Grundarfjörður, Snæfellsbær, Tálknafjörður og áfram mætti telja.

Ef við sem höfum verið að gagnrýna uppsetninguna á þessu verðum sökuð um að vera gæslumenn einhverra þá get ég með góðri samvisku sagt að hlutverk okkar er að vera gæslumenn byggða landsins rétt eins og þeirra sveitarfélaga sem hafa sent umsagnir inn um þetta. Varla eru þessi sveitarfélög öll handbendi LÍÚ eins og látið hefur verið í veðri vaka, fjöldi sveitarfélaga allt í kringum landið. Eru hv. stjórnarliðar að halda því fram að þeim sveitarfélögum sé stýrt úr höfuðstöðvum LÍÚ? Alls ekki. Þetta eru sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn sem eru kjörnir af fólki í byggðarlögunum til að gæta hagsmuna byggðarlaga sinna og það eru þau sveitarfélög sem hafa verið að láta í sér heyra að undanförnu. Á Austurvelli í gær talaði einn sveitarstjóri í litlu sjávarplássi úti á landi. Er sá sveitarstjóri að gæta hagsmuna LÍÚ? Eru þau sveitarfélög að gæta hagsmuna LÍÚ? Nei, þau eru að gæta hagsmuna byggðarlaga sinna. Þau eru að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar og er ekki vanþörf á, frú forseti, því að við höfum orðið vitni að því í tíð núverandi ríkisstjórnar að gengið hefur verið mjög á landsbyggðina eins og ég kom inn á í máli mínu áðan. Þetta snýst á engan hátt um það að etja saman fólki sem búsett er í Reykjavík og fólki sem búsett er á landsbyggðinni. Þetta snýst um það að átta sig á þeim raunveruleika sem blasir við mörgum landsbyggðarsveitarfélögum sem eru komin á þann stað í dag að ekki má mikið undan halla og skort hefur á töluverðan skilning hjá ríkisstjórninni á vanda þessara sveitarfélaga. Við höfum séð það í fjárlagafrumvörpunum sem hafa birst frá ríkisstjórninni. Við höfum séð það líka í viljaleysinu að láta fara fram einhvers konar byggðaúttekt á þessu máli og á fjárlagafrumvörpum undanfarinna ára.

Nú er svo komið, frú forseti, að mörg þessi sveitarfélög, fólkið í byggðum landsins getur ekki búið við þetta lengur. Það er ekki mögulegt að horfa lengur upp á það hvernig málum er stillt upp af hæstv. ríkisstjórn og það er þetta sem er alvarleiki málsins fyrir landsbyggðina.

Eins og ég sagði áðan er mjög sérstakt að fylgjast með þessu. Í umræðum hefur komið fram, meðal annars hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, töluvert mikil gagnrýni á það að horfið hefði verið frá byggðahugsuninni, byggðatengingunum sem birtust í þeim frumvörpum sem voru í vinnslu í ríkisstjórninni á sínum tíma. Og það er mjög sérstakt að verða vitni að því að núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli hafa vikið frá þeim byggðatengingum sem þar voru inni. Þessi ágæti hv. þingmaður hefur flutt breytingartillögu sem felur það í sér að koma byggðatengingum aftur inn í þetta mál, en ótrúlegt að það þurfi að gerast með þeim hætti að ríkisstjórnin skuli ekki gera það sjálf, að tryggja það að þessir fjármunir renni beint til byggða landsins. Það fær mann óneitanlega til að velta því upp.

Ágætur stjórnarliði, hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, sagði fyrr í þessari umræðu að veiðigjaldið væri til þess hugsað að styrkja og efla landsbyggðina. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort það séu svona meira draumórar að menn segi það að þetta styrki á einhvern hátt landsbyggðina. Eins og þetta er sett upp og eins og sveitarfélögin horfa á málin, þ.e. hvort veiðigjaldið muni styrkja byggðarlögin — þau eru búin að kynna sér þessi frumvörp rétt eins og við þingmenn — þá komast þau ekki að þeirri niðurstöðu að þetta muni styrkja landsbyggðina.

Það er erfitt hjá íbúum þessara sveitarfélaga að horfa upp á það aftur og aftur að þurfa að vera í varnarbaráttu gagnvart hæstv. ríkisstjórn. Nýlega bárust fréttir af lokun útibúa Landsbankans sem er að stærstum hluta í eigu íslenska ríkisins. Öll þau sveitarfélög sem hafa sent inn umsagnir um þetta mál hafa miklar efasemdir og hafa miklar áhyggjur af sveitarfélögum sínum. Ég held að það eigi vel við það sem kemur fram í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar og undir það ritar byggðarráð Skagafjarðar 18. apríl 2012. Í niðurlagi þar segir, með leyfi frú forseta:

„Undirritaðir telja að varnaðarorð sem fylgja frumvörpunum séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarútvegi landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkun útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.“

Undir þetta ritar öll sveitarstjórnin. Einn sveitarstjórnarfulltrúi var reyndar með sérbókun en tók jafnframt undir þetta og þar á meðal oddviti byggðarráðs sem kemur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sama flokki og hæstv. sjávarútvegs- landbúnaðarráðherra.

Nú er komið að því, frú forseti, að við verðum að fara að taka höndum saman um þetta mál, koma því í réttan farveg. Það er á engan hátt hægt að túlka það svo að þeir sem tala á þann veg séu mótfallnir því að lögð séu á einhvers konar veiðigjöld.



[13:42]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðunni um þetta mál hefur borið mikið á því að hallað er réttu máli, og það á svo sem við um fleiri mál hér á þingi. Eitt er að takast á um þingmál sem við höfum misjafnar skoðanir á en öllu alvarlegra er þegar þingmenn eru komnir á það plan að þeir eru jafnvel tilbúnir til að reka rýting í bakið á mönnum persónulega, skjóta fyrst og spyrja svo. Þetta er auðvitað mikið níðingsbragð í þeim tilfellum en sérstaklega er það ábyrgðarleysi af hálfu hv. þingmanna sem slíkan málflutning stunda, ábyrgðarleysi gagnvart þingi og þjóð. Mörgum þingmönnum er auðvitað ofboðið og þeir neita jafnvel að eiga orðastað við hv. þingmenn sem koma svona fram.

Af hverju nefni ég þetta, virðulegi forseti? Vegna þess að í umræðunni hefur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verið borið það á brýn að vera taglhnýtingar LÍÚ, gæslumenn sérhagsmuna á kostnað þjóðarhagsmuna. Þetta eru mikil ósannindi.

Mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason hvort hann sé ekki sammála mér í því að þær breytingar sem hafa verið gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu í tíð þeirra flokka hafi einmitt verið smábátaútgerð og byggðunum í landinu til hagsbóta, fyrst og fremst hafi verið horft til þeirra þátta, og að þær breytingar hafi í raun allar verið á kostnað stærri útgerða, þeirra sem skipa sér innan LÍÚ. Aflaheimildir hafi einmitt verið teknar frá þeim útgerðarflokkum og færðar til smábátanna, þannig að ef menn sem kalla okkur (Forseti hringir.) gæslumenn sérhagsmuna vildu nú fara með sannleika málsins þá ættu þeir að kalla okkur (Forseti hringir.) gæslumenn sérhagsmuna smábátaútgerðar í landinu og byggðarlaganna í landinu.



[13:44]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er sérstakt þegar við erum komin á þann stað að umræðan einkennist meira af upphrópunum en því að fjalla um efni málsins. Það er nefnilega mjög auðvelt að draga upp einfalda mynd, að ef þeir sem á einhvern hátt gagnrýna uppsetningu þessa máls eða útfærslu séu taglhnýtingar einhverra sérhagsmunasamtaka þá hlýtur Alþýðusamband Íslands að vera orðið taglhnýtingur sérhagsmunasamtaka því að Alþýðusamband Íslands hefur efasemdir um þetta. Þá hljóta þeir ágætu fræðimenn sem gerðu úttekt á þessu máli og gagnrýndu það gríðarlega, fræðimenn við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, að vera orðnir taglhnýtingar sérhagsmunasamtaka. Þá hljóta sveitarfélög eins og Skagafjörður, Vesturbyggð, Stykkishólmur, Grundarfjörður, Tálknafjörður, Snæfellsbær, Bolungarvík og Fjórðungssamband Vestfirðinga, Samtök sveitarfélaga í Norðurlandi vestra — ég tel aðeins upp sveitarfélög sem eru í mínu kjördæmi — að vera orðin taglhnýtingar sérhagsmunasamtaka því allir þeir aðilar gagnrýna á einn eða annan hátt þessi mál og hvetja til þess að þau verði skoðuð á nýjan leik frá grunni.

Hvað varðar seinni vangaveltur hv. þingmanns um að aðallega hafi verið fært til smábátaútgerðar þá er það hárrétt. Allar aflabreytingar hafa miðað að því að færa á einhvern hátt til smábátaútgerða. Málflutningur sumra á því einfaldlega ekki við rök að styðjast og er frekar til þess fallinn að halda málinu í einhverju pólitísku áróðursstríði af því að það hentar hugsanlega öðrum stjórnarflokknum. Maður hefur ákveðnar áhyggjur af því. Ég held til að mynda að þeim sveitarfélögum sem ég þuldi upp líki ekki málflutningur hv. þingmanna Samfylkingarinnar að vera líkt við einhvers konar taglhnýtinga við LÍÚ. Ég held að þau séu ekki að gæta hagsmuna þar. Þau eru að gæta hagsmuna sinna eigin byggðarlaga.



[13:47]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við finnum til þeirrar ábyrgðar sem við eigum að bera hér á Alþingi á því hvernig við högum málflutningi okkar og hvernig við förum með sannleikann í málum. Við getum haft misjafnar skoðanir á þeim en þegar farið er að halla réttu máli viljandi og reka rýting í bakið á andstæðingum þá erum við komin út á ansi hálan ís.

Nú veit ég að hv. þingmaður er í góðum tengslum við kjördæmi sitt. Hann er bóndi og þekkir vel til á sínu svæði. Fjölmargar umsagnir hafa borist frá mörgum verkalýðsfélögum og sveitarfélögum á hans svæðum. Dregur hann eitthvað í efa að þær áhyggjur séu raunverulegar? Metur hann það ekki þannig að menn séu þarna fyrst og fremst að gæta hagsmuna íbúa þessara svæða, (Forseti hringir.) að reyna að koma á einhverju öryggi sem hjá nefndinni hefur komið fram að sé kannski helsti óvinur landsbyggðarinnar?



[13:48]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg á engan hátt í efa þær umsagnir sem berast frá sveitarfélögum, frá verkalýðsfélögum, frá einstaklingum og þeim sem hafa samband við okkur. Ég dreg ekki í efa áhyggjur manna hvað þetta snertir, að þær áhyggjur séu raunverulegar eins og ég rakti í máli mínu. Það er raunar til skammar að tala um að þeir aðilar og þessi sveitarfélög séu á einhvern hátt taglhnýtingar, af því að hv. þingmaður notaði það orðalag, við Landssamband íslenskra útvegsmanna.

Hins vegar kann það vel að vera hvort sem það er inni á Alþingi eða annars staðar að einhverjir einstaklingar vilji ekki sjá neinar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og vilji ekki sjá neitt veiðigjald. Það kann vel að vera en sá sem hér stendur er ekki í þeim hópi. Hins vegar er mjög mikilvægt að við drögum ekki alla sem gagnrýna þetta mál á málefnalegan hátt í þann hóp að vera á móti slíkum breytingum. Það er rosalega ómálefnalegt og það er því miður það sem er að gerast í allt of ríkum mæli í þessari umræðu og víðar.



[13:50]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ræddi talsvert um veiðigjaldið sem landsbyggðarskatt og að þetta væri aðför að landsbyggðinni, enn ein árásin á landsbyggðina af núverandi ríkisstjórn sem hann er ekki að hæla neitt sérstaklega.

Veiðigjaldafrumvarpið fjallar ekki um þetta. Veiðigjaldafrumvarpið fjallar um að nýta tekjur af veiðigjaldinu til ráðstöfunar á landsbyggðinni. Það stendur berum orðum í frumvarpinu og breytingartillögunum, reyndar í báðum frumvörpunum. Það er sérstaklega tilgreint í frumvarpinu um stjórn fiskveiða hvernig á að skipta tekjum af leigu á aflanum, þ.e. til sveitarfélaga, landshlutasamtaka, til rannsóknar og þróunar í sjávarútvegi sem ég vek athygli á að er alger nýjung og hefur aldrei verið gert í sjávarútvegi áður. Á meðan við erum með rannsóknastarf í öðrum atvinnugreinum höfum við aldrei sett fjármuni til rannsóknar og þróunar í sjávarútvegi þannig að það er verið að fara inn á nýjar brautir þar.

Í öðru lagi er sérstaka veiðigjaldið sem er áætlað að taka af sjávarútvegi á næsta ári einkum ætlað til uppbyggingar á innviðum samfélaganna úti á landi, þá eru sérstaklega tilgreind ýmis samgönguverkefni. Þessir fjármunir eru ekki til ráðstöfunar úti á landi í dag. Þessir fjármunir eru ekki til ráðstöfunar í þessum samfélögum úti á landi í dag. Þetta er nýtt fé sem við erum að taka inn með þessum hætti til að koma í veg fyrir endalaust undanhald sem hefur verið áratugum saman á landsbyggðinni.

Ég bið hv. þingmann að kanna það hvenær hnignun landsbyggðarinnar hófst. Hv. þingmaður veit held ég hvenær hún hófst og hvers vegna það gerðist.

Ég spyr um álit hv. þingmanns á því hvort hann geti ekki verið mér sammála um að það sé nauðsynlegt að auka fjármagn til landsbyggðarinnar og nota veiðigjaldið til þess.



[13:52]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Hv. þingmaður kemur inn á að í frumvarpinu um stjórn fiskveiða sé áætlað að veita þá fjármuni beint til landsbyggðarinnar, en það er einungis lítill hluti, það er einungis lítið brot af því sem ætlunin er að innheimta með veiðigjaldi. Stærstur hluti sem ætlunin er að innheimta er með því frumvarpi sem við erum að ræða nú, veiðigjaldafrumvarpinu. Það er á engan hátt bein tenging við að þeir fjármunir renni sjálfkrafa til landsbyggðarinnar. Ef hv. þingmaður er að vitna til fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar, sem hún er búin að leggja fram án þess að fá þetta mál í gegnum þingið, þá getum við á engan hátt talað um að þar sé með beinum hætti verið að tryggja að þeir fjármunir veiðigjalda renni til landsbyggðarinnar. Það er einfaldlega gullvagn ríkisstjórnarinnar sem hún ætlar að fara með um landið og dreifa fjármunum úr. Það er á engan hátt verið að tryggja það að þeir fjármunir renni til lengri tíma litið til landsbyggðarinnar. Það var það sem ég vitnaði til í ræðu minni áðan þegar ég vísaði til frumvarpa sem flokksfélagi hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, hv. þm. Jón Bjarnason, lagði til þegar hann gegndi embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að fjármunir af veiðigjaldinu rynnu að hluta beint til landsbyggðarinnar. Sá þingmaður ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni hefur reyndar flutt breytingartillögu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tekjum af veiðigjöldum skal ráðstafað þannig:

1. 50% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna í ríkissjóð.

2. 40% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð.

3. 10% tekna af veiðigjöldum skulu renna í rannsóknarsjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS-sjóð, með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.“

Þarna erum við að tala um að beintengja þessa fjármuni við landsbyggðina. Það er ekki gert með beinum hætti í dag þó að ríkisstjórnin sé búin að gefa það út að hún ætli síðan að nota þetta í fjárfestingaráætlun sína. Það er á engan hátt trygging til framtíðar fyrir því að þessir fjármunir verði notaðir í að styrkja landsbyggðina og af reynslu undanfarinna ára, eins og ég og hv. þingmaður þekkjum, er erfitt fyrir landsbyggðina að þurfa alltaf að koma betlandi um fjármuni úr ríkissjóði við að halda einum eða tveimur opinberum störfum úti á landi. (Forseti hringir.) Það höfum við séð bæði í tíð núverandi ríkisstjórnar og í tíð fyrri ríkisstjórna.



[13:55]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega kolrangt hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Það er sérstaklega tekið fram hvernig á að ráðstafa leigutekjunum. Það er sérstaklega farið yfir það hvernig á að ráðstafa sérstöku veiðigjaldi á næstu árum. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar hvernig á að gera það. Önnur ríkisstjórn verður þá að breyta því, það er bara þannig.

Það voru afleiðingar af allt annarri stefnu sem leiddu til hnignunar landsbyggðarinnar eins og þeir sem komu fyrir atvinnuveganefnd, t.d. fyrir hönd Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, lýstu svo vel fyrir nefndinni, þ.e. hvernig hnignun atvinnulífs og íbúaþróunar á Vestfjörðum hófst í því tilfelli og hvenær henni nánast lauk. Þetta höfum við séð um allt land. Í minni gömlu heimabyggð norður við Eyjafjörð höfum við séð þetta gerast sömuleiðis.

Þeir fjármunir sem nú er verið að ná í eru ekki til ráðstöfunar í dag eins og haldið hefur verið fram. Það er ekki verið að ráðstafa þeim til að byggja upp innviði samfélagsins. Það er það sem við ætlum að gera. Það er stefnubreytingin. Með því mun endurreisn og viðreisn landsbyggðarinnar hefjast.



[13:56]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í máli mínu að það væri hárrétt hjá hv. þingmanni að það sem ætlunin er að innheimta, samkvæmt því frumvarpi sem við erum ekki að ræða, er beintengt landsbyggðinni. En ég sagði að það væri einungis lítill hluti.

Það sem verið er að tala um í þessu frumvarpi hérna, veiðigjaldafrumvarpinu, er miklu stærri upphæð og þeir fjármunir eru á engan hátt beintengdir landsbyggðinni eða öruggt að þeir renni þangað. Það snýst allt um pólitískan vilja hverju sinni hvort þeir renna úr ríkissjóði til landsbyggðarinnar.

Draga menn í efa það sem sveitarstjórnarmenn hringinn í kringum landið segja? Sveitarfélagið Skagafjörður, Grindavík, Fjallabyggð, Snæfellsbær, Skagaströnd, Bolungarvík, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Grýtubakkahreppur, Langanesbyggð, Ísafjarðarbær, Rangárþing eystra, Fjarðabyggð, Seyðisfjörður, Skagabyggð, Stykkishólmur, Norðurþing, sveitarfélagið Ölfus, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Grundarfjarðarbær, Akraneskaupstaður, Árborg, Akrahreppur, Borgarbyggð, Hornafjörður, Dalvíkurbyggð, Fljótsdalshérað, Blönduósbær, Vopnafjarðarhreppur, Reykjanesbær, Garður, Akureyrarbær og Vestmannaeyjar. (Forseti hringir.) Þetta eru þau sveitarfélög sem hafa verið að gagnrýna það að ríkisstjórnin ætli að taka þessa fjármuni beint í ríkissjóð án þess að veita til landsbyggðarinnar aftur. Þá hlær hv. þingmaður, sami (Forseti hringir.) þingmaður og lagði til að heilbrigðiskerfinu á landsbyggðinni (Forseti hringir.) yrði rústað. (Gripið fram í.)



[13:57]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill hvetja hv. þingmann til að virða tímamörk í ræðustól og andsvörum.



[13:58]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann fór allnokkrum orðum um byggðamálin, byggðapottinn í ræðu sinni og tengdi það fjárlagagerðinni. (Utanrrh.: Láttu hann heyra það.) Ég ætla ekki að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sjái hluta af andvirði veiðiskattsins renna til utanríkisþjónustunnar en væntanlega geri ég ráð fyrir því að hann taki ágætlega í það (Gripið fram í.) að létta hæstv. utanríkisráðherra lífið við sína vonlausu för áleiðis inn í Evrópusambandið sem stuðningur við virðist óðum vera að hverfa, því miður fyrir hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) en til mikillar ánægju fyrir stóran hluta Framsóknarflokksins og ég treysti á að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sé í þeim hópi.

Ég hefði gjarnan viljað inna hv. þingmann eftir því hvort það mál sem hann hafði forgöngu um þegar við áttum sæti saman í fjárlaganefnd fyrir allnokkru síðan, ekki heybaggamálið til að fóðra einstaka flokkshesta Samfylkingarinnar sem sumir hverjir sitja í salnum (Gripið fram í.) heldur þvert á móti það mál sem hv. þingmaður gekkst fyrir og laut að byggðaúttektum fjárlagafrumvarpsins. Ég vildi gjarnan inna hv. þingmann eftir afdrifum þess máls, hvort hann hefði orðið mikið var við það í umræðunni um veiðigjaldið að ætlunin sé að nýta það til þess að koma í veg fyrir þau stóru slys sem eru fyrirsjáanleg á ýmsum svæðum í grunnþjónustunni sem ríkissjóði er fyrst og fremst ætlað að veita.



[14:00]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór aðeins yfir byggðaáhrifin af þessu máli. Hann rifjaði upp það sem ég og hv. þingmaður urðum vitni að þegar við áttum sæti saman í fjárlaganefnd þegar sitjandi ríkisstjórn lagði til að rústa hreinlega heilbrigðiskerfinu með því að ráðast í gígantískan niðurskurð, niðurskurð upp á tugi prósenta á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, í löggæslumálum og fleira. Þá var lagt til í hv. fjárlaganefnd að fram færi sérstök byggðaúttekt á áhrifum fjárlaganna. Mönnum þótti það eðlileg krafa, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin hefði látið fara fram kynjafræðilega úttekt á fjárlögunum, það væri ekki óeðlilegt að einhver sambærileg úttekt yrði gerð á áhrifum fjárlaganna á landsbyggðina. Það er skemmst frá því að segja að það var ekki mjög mikill vilji til þess meðal meiri hluta fjárlaganefndarinnar að slíkt úttekt færi fram en það var þó samþykkt að lokum með semingi.

Lítið hefur farið fyrir þessari byggðaúttekt. Meðal annars dró hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson það að skila upplýsingum frá ráðuneyti sínu og skilaði þeim ekki fyrr en rúmu ári síðar fyrir þessa byggðaúttekt. Í ljósi þessa hefur maður talsverðar áhyggjur af því að ríkissjóður ætli sér að ná í veiðigjald og taka það inn í ríkissjóð. Við eigum einfaldlega að hafa orð þessa fólks fyrir því að landsbyggðin fái þá fjármuni aftur. Reynslan af stjórnartíð ríkisstjórnarinnar og vinnu hennar við fjárlagagerð og fleira segir okkur því miður að landsbyggðin getur ekki treyst á það að þeir fjármunir muni renna aftur til landsbyggðarinnar. Það kom glögglega í ljós á sínum tíma með niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu og þessa byggðaúttekt að byggðir landsins geta ekki treyst þessari ríkisstjórn þegar kemur að útdeilingu fjármuna.



[14:02]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Það liggur fyrir að ekkert hefur verið unnið í þessu máli, því miður. Ég hefði talið að það hefði orðið til stórs gagns í þeirri umræðu sem menn hafa staðið í undanfarna daga ef áhrif fjárlagagerðarinnar á þennan þátt íslensks þjóðlífs hefðu legið fyrir. En það vakti eftirtekt að þegar þessar tillögur voru kynntar var blásið til nýrrar sóknar á sviði byggðamála og kynnt fjárfestingaráætlun Íslands frá 2013–2015, á næsta kjörtímabili. Ég minnist þess ekki að hafa séð í þeim áformum nokkurn skapaðan hlut um að styrkja þá grunninnviði sem lúta að beinni opinberri þjónustu og þætti vænt um það ef hv. þingmaður gæti leiðrétt mig í þeim efnum. Ekki bólar á neinum tillögum í þeim efnum annars staðar nema síður sé. Þar er boðaður frekari niðurskurður í fjárlagagerðinni, sérstaklega á sviði heilbrigðisþjónustu, eftir því sem maður kemst næst af lestri fjölmiðla í þessari viku, því miður.



[14:03]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt að þegar ríkisstjórnin kynnti þessa fjárfestingaráætlun var hún kynnt sem einhvers konar stórsókn í byggðamálum. Á síðustu þremur árum höfum við séð stórfellt niðurbrot á landsbyggðinni, frú forseti, í grunnþjónustunni, heilbrigðismálunum og fleiru. Svo koma menn ári fyrir kosningar með einhverja áætlun um það hvernig eigi að ráðast í stórsókn á sviði byggðamála. Þegar ríkisstjórnin með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar hefur gengið svo nærri mörgum byggðarlögum landsins og opinberum störfum hefur fækkað gríðarlega á Norðurlandi vestra eins og ég vitnaði til í ræðu minni áðan (Utanrrh.: Verð ég ekki að bera af mér sakir, í broddi fylkingar?) er frekar ódýrt að koma hingað ári fyrir kosningar og tala um að nú eigi að hefja stórsókn í byggðamálum, nú þegar (Utanrrh.: Ég hef fjölgað þýðendum, ég hef fært störf til landsbyggðarinnar.) við erum komin inn í uppbótartíma. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem menn hafa talað fyrir mikilvægi þess að veiðigjaldið renni á einhvern hátt beint út til landsbyggðarinnar ef menn á annað borð ætla að setja það á.



[14:05]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í andsvörum áðan hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni fullyrti hann að með því frumvarpi sem hér lægi fyrir mundi, og ég tel að ég hafi náð þessu nokkurn veginn orðrétt, endurreisn landsbyggðarinnar hefjast af glæstum krafti. Það vekur mann til umhugsunar um það hvaða átök á milli pólitískra sjónarmiða kristallast í raun í umræðum um þetta frumvarp um veiðiskattinn. Óneitanlega tengist það því frumvarpi sem enn þá er fast í atvinnuveganefnd þingsins og lýtur að breytingum á stjórn fiskveiða. Mér þykir vel í lagt af hálfu hv. þingmanns að taka þannig til orða því að mat þeirra sem ætlunin er að byggja upp með er af einhverjum ástæðum allt annað en mat hv. þingmanns sem birtist í andsvörum áðan.

Annar aðilinn, annaðhvort hv. þingmaður og fylgismenn hans á þingi sem mæla fyrir þessu frumvarpi eða forsvarsmenn byggða vítt um land hljóta að hafa rangt fyrir sér eða hvor aðili um sig hefur ekki komið skilningi sínum áfram til hins. Það ber einfaldlega svo mikið á milli þeirra sem tjá sig um áhrifin af þessu að það gæfi öllum skynsömum einstaklingum efni til að setjast yfir málið þó ekki væri nema til að skýra skilning hver annars á því hvað undir lægi.

Það er himinn og haf á milli þeirra sjónarmiða sem birtast hjá þeim hvar svo sem fólk stendur í pólitík. Forsvarsmenn sveitarfélaga landsins hafa lagt allt annan skilning í þetta mál en birtist í málflutningi hv. þingmanna sem mæla fyrir því að þetta frumvarp gangi sem hraðast og best í gegnum þingið. Þetta er verulega slæmt að mínu mati að við skulum þurfa að vera í þeirri stöðu með svo gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir íslenska þjóð að skilningurinn á því virðist vera gjörólíkur í allt of stórum hópum þjóðfélagsins. Þetta er mjög alvarlegt þegar maður hugsar til þess í rauninni og ég vil tengja þetta þeim hugmyndafræðilegu átökum sem eiga sér stað í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir.

Ég skipa mér í flokk sjálfstæðismanna og deili með þeim lífsskoðunum undir merkjum sjálfstæðisstefnunnar sem leggur traust sitt á það að heilbrigður atvinnurekstur sé best kominn í höndum einkaaðila. Við höfum þar af leiðandi skipað okkur undir merki einstaklingshyggju og séreignarskipulagsins á meðan vinstri hliðin í íslenskum stjórnmálum, nú um stundir Vinstri græn, Samfylkingin og raunar hluti Framsóknarflokksins, hefur talað fyrir vaxandi þjóðnýtingu og ríkisforsjá í ýmsum efnum. Þarna liggur þessi hugmyndafræðilegi ágreiningur sem birtist ágætlega í umræðunni um þessi mál hér og sérstaklega í þeirri viðleitni stjórnarliða sem tala fyrir frumvarpinu um að þeir vilji hafa alla forgöngu um að byggja upp byggðir landsins og atvinnulíf og fá meiri stjórn á því. Ég hélt að það væri þokkaleg samstaða meðal Íslendinga og tel það raunar vera þannig að hornsteinn atvinnulífs lægi í því að einstaklingurinn ætti sér von um ávinning af því að stunda atvinnurekstur. Ég trúi því að minnsta kosti að von einstaklinganna um að búa sér betri lífsskilyrði sé fyrsti, heilbrigðasti og besti aflgjafinn til að standa undir framkvæmdum, keyra áfram framtak og atorkusemi og þessi vilji einstaklingsins leiði til aukinnar framleiðslu í þjóðfélaginu. Þetta er gert fyrst og fremst af þeirri trú einstaklingsins að með þessu pjakki sínu hafi hann og geti skapað betri og góða afkomu fyrir sjálfan sig, fjölskyldu sína, afkomendur, byggðarlagið sitt og landið allt. Þetta tel ég að búi í sérhverjum einstaklingi, þetta liggi í mannlegu eðli og sé í rauninni meðfætt afl sérhverrar persónu. Ég tel að þetta afl sem býr í sérhverjum einstaklingi geti öðru fremur orðið til að leysa úr læðingi viljann til að skapa, viljann til að búa til verðmæti. Ég tel þessu einfaldlega betur komið hjá einstaklingum heldur en ríkisvaldinu. Ég tel að ríkisvaldið og stjórnmálamenn eigi fyrst og fremst að skapa einstaklingunum færi til þess að fá vilja sínum framgengt í þessum efnum, einfaldlega vegna þess að flestir munu njóta góðs af því.

Það mál sem hér liggur undir snýst um það af hálfu stjórnarliðanna sem flytja það, þeirra sem tala meira fyrir ríkisforsjá, að þjóðinni, þ.e. ríkissjóði, eigi að skila réttlátari hluta af sjávarauðlindinni en nú er eða þeir vilja meina að sé í kortunum í dag. Þetta er fallegur frasi og ég vænti þess að í hugum þeirra sem mæla fyrir þessu sé auðvelt að „selja“ fólki það. En skoðum þetta nánar. Það er ágætt að líta til greinar sem birtist í Fiskifréttum fimmtudaginn 7. júní þar sem farið er yfir þetta í tiltölulega einföldu, skýru máli. Ef við skoðum tekjurnar sem verða til í útgerðinni ef við höldum okkur við hana fyrst og fremst, er ágætur mælikvarði þar á þorskígildi sem eru ákveðin verðmæti, mælikvarði til að skipta tekjum. Þetta er hins vegar ekki mælikvarði sem hentar við skattlagningu því að að mati Daða Más Kristóferssonar hagfræðings mæla tekjur af hverju þorskígildi ekki afkomu greinarinnar. En ef þetta er skoðað nánar er mat þeirra sem innan greinarinnar starfa að eftir hrun krónunnar séu tekjur á hvert þorskígildiskíló um það bil 350 kr. Hvernig skiptast þær þegar farið er að greina þær?

Jú, þjóðin eða ríkissjóður og sveitarfélögin fá tæp 18% af þessum tekjum, af þessum 350 kr. eða 62 kr. 116 kr. eða rúmur þriðjungur, 33% rúm fara til starfsmanna í formi launa. Hitt eru skattar. Svo er lífeyrissjóðurinn. Fjórðungur fer í efni og aðföng, 90 kr. Það verður að reikna með afskriftum tækja og búnaðar og síðan þarf að sjálfsögðu að greiða vexti af þeim skuldbindingum sem fyrirtækin bera. Allt þetta er greitt af þessum 350 kr. Hvað stendur þá eftir hjá eigandanum svokallaða sem menn vilja heimta meira af? Það eru 9 kr. Það eru 2,6% af þessum 350 kr. sem standa eftir hjá eigandanum. Og hvað á hann eftir að greiða af því? Hann á eftir að greiða sér arð, hann á eftir að leggja fyrir í lífeyrissjóðinn sem við opinberir starfsmenn höfum þokkalega tryggðan o.s.frv. Það kann vel að vera að þessar 9 kr. þyki há fjárhæð en ég held að það sé nánast útilokað að geta sannfært fólk um það með einhverjum skynsamlegum hætti að skattlagningin á þorskígildiskíló þurfi að verða 70% af því sem úr því er hægt að gera.



[14:15]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir málefnalega ræðu. Mig langar að spyrja hann út í það sem er kjarni málsins í mínum huga varðandi þetta frumvarp, þ.e. hvað sé sanngjörn og eðlileg skipting auðlindaarðs milli annars vegar greinarinnar, útgerðarinnar og þeirra sem eiga þar hagsmuna að gæta, og hins vegar eigandans sem er þjóðin.

Í lögbók okkar hefur það verið staðfest í tæp 25 ár, í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, að þjóðin eigi sameiginlega nytjastofnana á Íslandsmiðum og rétt eins og atvinnurekendur í landi gera eðlilega kröfu til þess að fá arð af eigum sínum er eðlilegt að þjóðin geri þá kröfu þegar um er að ræða sameign hennar að fá a.m.k. sanngjarnan hlut í arðinum af auðlindinni.

Við sjáum í gögnum frá síðasta áratug að þar eru mjög merkilegar niðurstöður þegar við skoðum hvað þjóðin fékk í sinn hlut af veiðigjaldi útgerðarinnar. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn frá flokksfélaga hv. þingmanns, Einari K. Guðfinnssyni, sem var sjávarútvegsráðherra hér í eina tíð. Þar kemur fram að veiðigjaldið hefur skilað þjóðinni frá 1,5%, árið 2006, og niður í 0,17% af framlegð útgerðarinnar, árið 2009. Telur hv. þingmaður að þessi hlutdeild þjóðarinnar, 0,17% og upp í 1,5%, af framlegð útgerðarinnar sé sanngjörn hlutdeild í auðlindaarðinum?



[14:17]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Þetta er athyglisverð umræða og ég held að hún kalli á miklu dýpri og meiri umræðu um þær ólíku pólitísku skoðanir sem við höfum.

Ef menn kalla eftir einhverri sanngirni í þessu verða menn að horfa til allra þátta málsins. Ég ætla að minna hv. þingmann á, og þakka honum í leiðinni fyrir andsvarið, afkomu útgerðarinnar, atvinnugreinarinnar, á þeim árum sem hann er að vitna til. Ef við skoðum þetta í aðeins víðara samhengi, af því að oft og tíðum er talað um að kvótakerfið sem er um þriggja áratuga gamalt hafi leitt miklar hörmungar yfir þjóðina, þá virðast menn gleyma því að það var stöðvað af Alþingi Íslendinga að hafa frjálsa sókn í fiskstofna. Þrátt fyrir þá ákvörðun gerði þingið um leið kröfu um meiri arðsemi við minni kostnað, með færri skipum, færri fiskvinnslum.

Allir eru sammála um að arðsemin í greininni hefur aukist jafnt og þétt og það hefur skilað sér út í þjóðfélagið. Það er alveg sama hvernig við reynum að teikna það upp, enginn getur mælt því mót að lífskjarabreyting hefur orðið á Íslandi á síðustu þremur áratugum. Þetta er gott þjóðfélag að búa í að allri grunngerð. Við getum verið sammála um það, allir mælikvarðar vísa til þess. Hluti af þeim arði sem hefur gert það mögulegt að bæta lífsskilyrði Íslendinga á þessum síðustu 30 árum hefur komið frá sjávarútvegi. Þrátt fyrir það tala menn eins og þessi grein hafi ekkert lagt til þjóðfélagsins. Ég er ósammála því. Ég held að sjávarútvegurinn hafi á þessum þremur áratugum lagt mikinn og góðan grunn að þeirri lífskjarasókn sem hér hefur átt sér stað.



[14:19]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hvort skipting auðlindaarðsins hefði verið sanngjörn á milli þjóðarinnar annars vegar og útgerðarinnar hins vegar. Ég spurði ekki um afstöðu hans til kvótakerfisins, við erum alveg sammála um að það sem er gott við kvótakerfið er að það takmarkaði sókn í fiskstofna sem voru ofveiddir á sínum tíma, það hefur gert rekstrarskilyrði betri í þessari grein og að sjálfsögðu leggur sjávarútvegurinn heilmikið til þjóðarbúsins, við erum hjartanlega sammála um það.

Þessi umræða snýst ekkert um það, hún snýst um auðlindaarðinn. Við erum með lög sem segja að þjóðin eigi nytjastofnana sameiginlega. Er þá ekki eðlilegt, rétt eins og í öðrum atvinnurekstri, að eigandinn fái einhvern arð af eign sinni? Það er fest í lög að þjóðin á þessa eign sameiginlega. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að hún fái sanngjarnan hlut í auðlindaarðinum, í þeim arði sem verður til eftir að búið er að borga allan kostnað, búið er að borga laun, búið er að gera ráð fyrir afskriftum o.s.frv.

Þessi skipting hefur verið þannig og var þannig í tíð sjálfstæðismanna í sjávarútvegsráðuneytinu að 0,17% upp í 1,5% skilaði sér til þjóðarinnar í gegnum auðlindaarðinn. Mín spurning var þessi: Er þetta sanngjörn skipting á auðlindaarðinum?



[14:21]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég tel að í grunninn séu það sanngjörn skipti, ef maður getur sagt sem svo. Í mínum huga eru þetta ekki skipti heldur sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar og þeirra sem vilja vinna í tiltekinni atvinnugrein að hún gangi og gangi sem best. Ég er þeirrar skoðunar að drifkrafturinn í þessu dæmi eigi að koma frá einstaklingum sem vilja standa í greininni og þeir eru misjafnir eins og þeir eru margir. Sumum er þetta einfaldlega ekki lagið og hafa aldrei náð neinum tökum á þessu. Það þýðir ekki að þeir reyni ekki að brjótast inn í kerfið, þeir hafa hins vegar aldrei skilað neinu til þjóðarinnar öðru en tapi. Er það sanngjarnt að menn geti farið inn í greinina og lagt síðan byrðar á þjóðina í framhaldinu? Ég segi nei, það er ekki sanngjarnt, en það eiga allir að fá að keppa í greininni.

Skattheimtan, eins og hún birtist mér í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, dregur frekar úr vilja þeirra sem við treystum best til að ná sem mestum verðmætum úr aflanum. Mér finnst ekki rétt — það er mín sannfæring — að nálgast þetta út frá einhverjum sanngirnismælikvarða vegna þess að hann er misjafn, það eru örugglega 63 mismunandi skoðanir í þessum sal á því hvað er sanngjarnt í þessum efnum. Við eigum miklu frekar að leggja þetta niður fyrir okkur í ljósi þeirra staðreynda sem við okkur blasa.

Ég minni á að skattheimta er stundum nýtt til að tempra og draga úr, eins og sykurneyslu eða áfengisneyslu.

Ég óttast að menn séu komnir yfir ákveðin mörk í skattheimtu á þær 9 kr. sem eftir standa af þorskígildiskílóinu gagnvart þeim sem við viljum gefa færi á að vera í atvinnugreininni en ekki síður gagnvart þeim sem við teljum að best séu færir til að starfa í greininni og hámarka arðinn af henni fyrir íslenska þjóð, (Forseti hringir.) eins og margir hverjir hafa gert.



[14:23]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans hér áðan, sem að mörgu leyti var ágæt og efnisleg um málið sjálft. Það hafa því miður verið haldnar allt of margar ræður sem fjalla ekki efnislega um það frumvarp sem hér er til umræðu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í það sem hann kallar þjóðnýtingu í frumvarpinu, að það sé ígildi þess að verið sé að þjóðnýta og ríkisvæða hluta þessarar greinar. Getur hann útskýrt það betur fyrir mér og fært betri rök fyrir því?

Í öðru lagi er ég sammála hv. þingmanni um að það er ríkisins, Alþingis, okkar allra, að skapa öðrum tækifæri til að starfa í sjávarútvegi og öðrum greinum, algjörlega sammála hv. þingmanni um það, enda tel ég að með því frumvarpi sem hér um ræðir sé ekki verið að ganga gegn því markmiði. Það er ekkert í frumvarpinu að mínu mati sem hægt er að draga þá ályktun af að verið sé að þjóðnýta eða ríkisvæða greinina, eins og hv. þingmaður nefndi áðan eða mér fannst hann gefa í skyn.

Ég er hins vegar ósammála honum um að réttlátur hlutur af arði auðlindarinnar sé einfaldlega fallegur frasi sem sé seljanlegur. Þetta eru pólitískar átakalínur, eins og hv. þingmaður nefndi, sem við eigum kannski að takast á um frekar en margt annað.

Mig langar að spyrja, og fara aðeins nær því sem hv. þm. Skúli Helgason fjallaði um, hvort þingmaðurinn telur að við séum komin að endimörkum þess auðlindagjalds sem við getum tekið fyrir sjávarútveginn eða hvort hann sé þeirrar skoðunar að það sé hægt að auka það frá því sem nú er. Þarf að minnka það? Þarf að gera einhverjar breytingar, hugsanlega kerfisbreytingar, eða er hægt að gera þetta með öðrum hætti, t.d. afkomutengdara en gert er í dag? Eða (Forseti hringir.) telur hv. þingmaður að við eigum að halda okkur við það kerfi sem við búum við í dag varðandi auðlindagjald?



[14:26]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst af öllu vil ég gefa þá yfirlýsingu að hv. þm. Björn Valur Gíslason, samþingmaður minn úr Norðausturkjördæmi, kom illa fram við hv. þm. Jón Gunnarsson hér í fyrrakvöld og umræða sú sem ég stend í tekur að nokkru mið af því. Mér finnst sá ágreiningur ekki hafa verið jafnaður nægilega vel og tel að hv. þm. Jón Gunnarsson sitji uppi með ákveðna ásökun sem þinginu og forseta ber að hafa forgöngu um að létta af honum. Þetta vildi ég segja í upphafi máls míns.

(Forseti (ÁI): Það er spurning hvort hv. þingmaður vildi ræða um fundarstjórn forseta eða svara.)

Ég er að svara andsvari, forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður spurði síðan sérstaklega um segi ég það alveg hreint út að ég er í grundvallaratriðum á móti sérstakri skattlagningu á þessa tilteknu atvinnugrein umfram aðrar atvinnugreinar. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þeim áherslum sem hafa sérstaklega komið frá öðrum stjórnarflokknum sem rökstuðningur fyrir álagningu þessa gjalds, að menn græði of mikla peninga í atvinnugreininni. Ég sé engan mun á sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum í þeim efnum.

Það kann vel að vera að sjávarútvegurinn þoli hærri skattlagningu nú um stundir en raun ber vitni en þá er það grundvallaratriði í mínum huga að sú skattlagning sem menn vilja leggja á þessa tilteknu grein gangi líka yfir aðrar atvinnugreinar sem ganga á íslenskar auðlindir. Þetta er mín grundvallarafstaða.



[14:28]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á inngangi andsvars hv. þingmanns. Reyndar gerðist það hér í gær að þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfnuðu því að eiga samræður við mig úr ræðustól utan einn þingmaður. Þetta er þá annar þingmaðurinn í röð sem brýtur væntanlega það samkomulag sem þingmennirnir virðast hafa gert. En hvað um það, ég ætla ekki að skipta mér af því og þakka þá þingmanninum fyrir að taka þá þátt í þessum samræðum við mig hérna. Ég held að það hljóti allir að hafa gott af því hvað sem menn kunna að deila um annað.

Ég er sammála hv. þingmanni enn og aftur um að jafnt eigi yfir alla að ganga varðandi nýtingu á sameiginlegum auðlindum okkar allra, þ.e. varðandi hvaða gjald á að taka fyrir nýtingu af þeim og hvernig á að gera það. Ég held að það sé hugmyndafræðin sem stendur að baki frumvarpinu í dag, þ.e. annars vegar um fast veiðigjald sem á að standa undir ákveðnum kostnaði við þjónustu og rekstur greinarinnar af hálfu hins opinbera og hins vegar sérstakt gjald sem tekur mið af arðseminni þegar greiddur hefur verið rekstur og endurnýjun og tekið tillit til afskrifta og ávöxtunar á eigið fé fyrirtækjanna sem reka þessa sameiginlegu auðlind. Þá erum við komin að því að fara að skipta afrakstrinum á milli okkar. Þetta er ekkert ný aðferð sem hér er verið að leggja til, hún er þekkt um allan heim. Þetta er aðferð sem hefur margoft verið lögð til í þessari umræðu á undanförnum árum og áratugum, eins og ég benti á í inngangsræðu minni við upphaf þessarar umræðu fyrir viku síðan eða svo.

Skil ég hv. þingmann rétt, að hann sé andvígur þessari hugmyndafræði að því gefnu að sams konar gjald verði tekið af öðrum opinberum auðlindum, eins og lagt er til hér? Er hann andvígur því í prinsippinu að gjald með þessari aðferð og þessi aðferðafræði verði notuð varðandi nýtingu annarra auðlinda?



[14:30]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Við erum komnir út um víðan völl þegar við erum farnir að ræða um prinsippmál varðandi skattlagningu í þessum efnum. Ég er í grunninn sammála því að það eigi að skattleggja sama hvort heldur það er sjávarútvegurinn eða aðrar atvinnugreinar eftir afkomu tiltekinna greina.

Við erum hins vegar algjörlega á öndverðum meiði með það, ég og hv. þingmaður sem kemur frá Vinstri grænum, á hvaða forsendum við eigum að nálgast atvinnulífið. Ég er þeirrar skoðunar einlæglega að einstaklingum sé betur treystandi til að búa til verðmæti úr auðlind sem er því miður takmörkuð í þessum atvinnurekstri en nokkurn tíma ríkinu eða stjórnmálamönnum. Þar skilur einfaldlega á milli. Ég hef ekki séð, eins og hefur komið fram í röðum sumra stjórnarliða, þann djöful sem býr í moldríkum útgerðarmanni. Ég tel þvert á móti að við eigum að vera stolt af því að hafa einstaklinga sem hafa þá burði til að bera sama hvort heldur það er í útgerð eða öðrum atvinnurekstri að geta skapað verðmæti úr þeim gögnum og gæðum sem þeir koma að og horfa öðruvísi til en við flest. Það er happ Íslendinga í útgerð og öðrum atvinnurekstri að hafa frumkvöðla, einstaklinga sem horfa á veröldina með öðrum augum en við flest. Við eigum frekar að ýta undir en að draga úr þeim kjarkinn. Þetta er mín grundvallarskoðun og þegar mér er mótmælt með því að segja að þetta sé ekki rétt hjá mér þótt við sjáum það endurspeglast í þeim áformum um skattlagningu sem liggja fyrir í þessu frumvarpi, tillögunum um útdeilingu af væntum tekjum sem af greininni stafa, þá er eitthvað mikið að í vinnslu þessa máls. Við eigum ekki að vinna þetta með þessum hætti. Menn hafa vanist því að draga fyrst fisk um borð í skip áður en þeir fara að éta hann.



[14:32]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér veiðigjaldið og mig langar að ræða það í samhengi við frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Veiðigjaldsfrumvarpið hefur verið til umræðu um nokkra hríð og hefur verið bent á fjölmarga galla á því. Það byrjaði með því að menn lögðu á allt of hátt gjald, það var meðal annars á grundvelli mistaka sem gerð voru við útreikningsgrunninn á gjaldinu.

Nú segja menn að til standi að lækka gjaldið frá því sem upphaflega stóð til, menn tala hér um 15 milljarða eða þar um bil. Það er að vísu meiningarmunur á því hvort um er að ræða 15 milljarða eða hvort þetta er nær 16 milljörðum eins og útgerðarmenn vilja halda fram. En ljóst er að það er mjög blekkjandi að halda því fram að hér sé einungis verið að leggja til 15 milljarða vegna þess að á nokkrum árum er gert ráð fyrir að gjaldið fari upp í allt að 21 milljarð, að ég tel.

Ég sagði í ræðu fyrr í dag að fyrirtæki væru ekki rekin eins og um 12 spora kerfið væri að ræða, þar sem hverjum degi væri látin nægja sín þjáning. Alvöruatvinnurekstur þarf að standa föstum fótum og byggjast á skipulagningu mörg ár fram í tímann og líka á því að fyrirséð sé hvernig hlutirnir verða að eins miklu leyti og hægt er.

Sjávarútvegur býr við þá sérstöðu að þar er mikil óvissa vegna þess að hann byggist á fiskiauðlind sem sveiflast milli ára. Hvergi er á vísan að róa í því sambandi, aflabrestur getur orðið eins og við þekkjum. Við sjáum til dæmis að á þessu ári er loðnuvertíð með allra besta móti og gríðarlega miklar tekjur og afkoma er vegna þess. En ekki er langt síðan engin loðna var veidd. Það skiptast á skin og skúrir í þessu efni.

Hér er alls ekki verið að leggja til 15 milljarða veiðigjald eins og margir vilja vera láta heldur er það nær 21 milljarði með aðlögun sem tekur fjögur eða fimm ár. Mig langar að vekja athygli á því að stofninn sem þessi skattlagning byggist á hvílir á því kerfi sem notað er við fiskveiðistjórnina, þ.e. kvótakerfinu. Frá því að kvótakerfið var innleitt rétt fyrir miðjan níunda áratuginn hefur það leitt til mikillar hagræðingar í greininni, sérstaklega eftir að framsal var leyft árið 1990. Það hefur leitt til þess að fiskiskipum hefur fækkað, sjómönnum hefur fækkað, hagnaður hefur aukist og þegar góð ár koma eins og við erum að upplifa núna er afkoman í greininni gríðarlega góð. Sú góða afkoma bætir upp fyrir lakari tíma, til dæmis loðnubrest eins og varð hér fyrir ekki löngu síðan.

Í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu er þessi grunnur að skattlagningu rýrður með því að verið er að innleiða óhagkvæmni í greinina. Nokkurt skref var stigið þegar strandveiðar voru leyfðar og voru það mikil vonbrigði að þar skyldu ólympískar veiðar innleiddar í hluta íslenskra fiskveiða, enda hefur það sýnt sig að þeir bátar sem gerðir eru út á strandveiðar eru reknir með tapi og standa engan veginn undir þeim fjárfestingarkostnaði og launum sem eðlilegt er að gera kröfu um í atvinnustarfsemi sem þessari.

Breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem lagðar eru til í frumvarpinu, eins og takmarkanir á framsali, að sólarlag sé á framsali eftir 20 ár, að eftir það verði framsal ekki leyft og ýmis ákvæði sem auka vald ráðherra, leiða til óvissu um hvernig farið er með kerfið. Allt þetta leiðir til þess að auðlindarentan minnkar. Auðlindarentan skapast af því að nú um stundir búa útgerðir við einkaleyfi á því að nýta auðlindina, við köllum það kvótakerfi í daglegu tali. Það var innleitt til að losna við það sem kallað er sorgarsaga almenninganna í fiskihagfræðinni. Allir þessir hlutir leiða til þess að auðlindaarðurinn skerðist á altari óhagkvæmni vegna offjárfestingar.

Of mikið fjármagn er notað til að sækja fiskinn og of margir sjómenn stunda fiskveiðar. Það mun einungis leiða til þess að auðlindarentan minnkar. Þar af leiðandi minnkar skattstofninn fyrir þann skatt sem auka á margfalt jafnframt því sem laun sjómanna lækka. Þau lækka beint, ekki vegna aðgerða útgerðanna heldur vegna stjórnvaldsaðgerða þegar fleiri sjómenn sækja í takmarkaða auðlind vegna þess að ljóst er að þessar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu munu ekki leiða til þess að meiri afli komi að landi. Hægt er að færa góð rök fyrir því að með því að innleiða ólympískar veiðar eins og gert er í strandveiðunum og óhagkvæmari veiðar sem byggjast ekki á jafnmiklum langtímasjónarmiðum og nú er, versni meðferð afla og tekjur útgerða lækka þar af leiðandi, sem lækkar enn laun sjómanna.

Hitt er annað mál að ef útgerðirnar búa við vissu í framtíðinni og hafa yfir þeim einkaleyfum að ráða sem nýtingarleyfin eru, ef nýtingarsamningar verða gerðir um það, er óhjákvæmilegt að fallast á þau sjónarmið að hægt sé að krefja útgerðina um veiðileyfagjald. En þá er það spurning hve hátt það gjald eigi að vera. Ég held að gjaldið eigi að endurspegla margvíslega hagsmuni; hagsmuni útgerðarinnar, hagsmuni þeirra byggða þaðan sem aflinn er sóttur, hagsmuni sjómanna, hagsmuni landverkafólksins og hagsmuni þeirra sem eiga auðlindina.

Þarna verður að vera samspil. Ekki er hægt að draga fram einhvern einn þátt og halda því fram að útvegurinn muni ráða við þetta, það er ljóst að þessi tvö frumvörp munu leiða til sólarlags þess kerfis sem við búum við.



[14:43]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans sem var ágæt þó að hún hafi að stórum hluta fjallað um annað mál en við fjöllum um hér. En það er sama, hann lagði skoðanir sínar á málinu fram á málefnalegan hátt þegar hann á annað borð tjáði sig um það, og sérstaklega þá undir lok ræðunnar þar sem hv. þingmaður talaði annars vegar um nýtingarleyfin, sem muni leiða til þess að réttlætanlegt verði að taka frekara gjald en áður. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt var sú hugmyndafræði ekki fjarri huga hans og skoðunum.

Þetta er meginmálið. Þegar okkur tekst að ræða efnislega um frumvörp sem sett eru fram, lið fyrir lið, grein fyrir grein, og átta okkur á því um hvað þau fjalla, hver markmiðin eru, finnst mér oft og tíðum að ekki sé svo langt á milli aðila, hinna pólitísku flokka og einstaklinga hér inni, þó að okkur kunni að greina á um stærðir og útfærslur. Meginlínurnar eru nokkuð skýrar varðandi nýtingarleyfin og gjaldtökuna. Rétt eins og hv. þingmaður sagði áðan er það þá bara spurning um upphæðina, hvað er sanngjarnt og hvað ber að greiða.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hv. þingmaður eðlilegt, sanngjarnt eða mögulegt að greinin greiði í dag í veiðigjald sem hlutfall af afkomu, sem fast gjald? Ég er ekki endilega að tala um krónur og aura í afkomutengda gjaldinu eða sérstaka gjaldinu, fasta gjaldið er nánast það sama og er í dag, ég held við hljótum að vera nokkuð sammála um það. En varðandi sérstaka gjaldið, hvað telur hv. þingmaður eðlilegt að eigandinn fái þá til sín hlutfallslega af afkomunni og tengdri arðsemi greinarinnar?



[14:45]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um nýtingarleyfi, samninga og þess háttar og er ég í grunninn sammála þingmanninum um að það er hægt að hengja á slík leyfi eða samninga ákveðnar reglur eða skyldur. Það er hægt að rökstyðja að þeir sem fái slíkt eigi þá að greiða fyrir þá samninga. Ég kýs að tala um samninga, ég held að það sé betra að gerðir séu samningar en veitt leyfi en að sjálfsögðu getur það farið eftir því hvernig leyfisveitingin er orðuð og allur sá texti. Það getur vel verið að það geti svo sem uppfyllt sömu skilgreiningu ef þar er vandað til verka en ég held að samningur sé betri upp á að takmarka líkur á einhvers konar málaferlum í framhaldinu. Það kann hins vegar að vera einfaldara að setja á veiðileyfi.

Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja segir, með leyfi forseta:

„Núverandi staða efnahagsmála hér á landi mælir ekki með því að gerðar séu grundvallarbreytingar á starfsskilyrðum undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar. Þjóðin glímir enn við afleiðingar efnahagshrunsins og glæfralegt að skapa óvissu um stöðu sjávarútvegs meðan svo stendur á.“

Það er samhljómur í þessu við margar aðrar athugasemdir sem hafa komið fram við þessi frumvörp. Menn vara við því að afleiðingarnar séu óljósar og að mikil óvissa kunni að skapast. Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegra að reyna að skapa einhvers konar vissu um framtíð þessarar greinar þannig að þeir sem í henni starfa geti horft til framtíðar, geti séð að það séu ekki einhver kvik stjórnvöld, ef ég má orða það þannig, sem breyta sífellt umhverfinu sem þessir aðilar starfa í og leggi jafnvel á þá aukaskatta þegar fyrirtækin horfa fram á erfiða tíma.



[14:48]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að hægt er að ná fram meiri vissu í greininni með samningum en leyfum sem hægt er að breyta frá ári til árs, getum við sagt. Samningar þar sem rekstrarumhverfið er fyrirséð þó nokkuð langan árafjölda fram í tímann leiða til þess að ákvarðanir um fjárfestingar í greininni verða mun auðveldari og allur rekstur heilbrigðari. Það er hægt að taka langtímaákvarðanir sem leiða til þess að hagkvæmnin verður meiri í greininni og vissan sömuleiðis.

Við sjáum til dæmis vandamálin við óvissuna í sjávarbyggðunum kringum landið, bæði hvað varðar atvinnu fólks og hugsanir þess um framtíðina, þannig að ég er eindregið sömu skoðunar og þingmaðurinn. Við erum ekki einir um þá skoðun, ég held að það sé almennt viðurkennt að því meiri vissa sem er í atvinnurekstri, því betra sé það upp á langtímahugsun, fjárfestingu og atvinnuöryggi fólks.



[14:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við sáum um daginn kynnta með pompi og prakt fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem hvarf fljótlega í rykið sem þyrlað var upp því að það var svo sem ekki mikið í henni. Þar kemur hins vegar fram að ein af forsendum þess að hægt sé að fjármagna þá áætlun sé annars vegar innheimta á veiðigjaldi og hins vegar sala á hlutum í fjármálafyrirtækjum. Fyrir utan að þessi áætlun á að taka gildi einhvern tímann eftir kosningar, sem undirstrikar að þetta er víxill sem á að reyna selja fólki, hlýtur sú forsenda að afla tekna með sölu á hlut í fjármálafyrirtækjum að vera mjög hæpin, ekki síst í ljósi þess að í umsögnum Samtaka fjármálafyrirtækja, Arion banka og Landsbanka Íslands má sjá áhyggjur þessara fyrirtækja af því að nái frumvörpin fram að ganga með þeim hætti sem þau eru boðuð munu þau rýra eignasöfnin og þar með verðgildi þeirra fyrirtækja sem um ræðir. Því hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Ef þetta verður samþykkt er þá ekki búið að kippa fótunum undan þeirri fjárfestingaráætlun sem hér var kynnt? Erfitt var fyrir að selja fjármálafyrirtæki, og er víðast hvar um heim að ég held, hvað þá þegar búið er að veikja mjög grunn, eignasafn eða rekstrarmöguleika þessara fyrirtækja með beinum hætti eins og hér er gert og fyrirtækin sjálf hafa bent á. Þetta hlýtur að vera eins og að skjóta sig í fótinn eða hvernig sem menn orða það.



[14:52]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti í ræðu fyrr í dag niðurstöður Landsbankans um afleiðingarnar ef þessi frumvörp verða samþykkt eins og þau voru lögð fram upphaflega. Þar kom í ljós að af 124 fyrirtækjum sem ráða yfir 90% kvótans færu 74 í þrot og að bankinn þyrfti að afskrifa um það bil 31 milljarð. Þá yrði ekki mikill arður af bankanum, eigið fé mundi skerðast þar og leiða til þess að virði bankans mundi lækka. Þetta er því hárrétt athugasemd hjá hv. þingmanni, grunnurinn sem fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar byggir á, annars vegar veiðigjöld og hins vegar að selja hlut sinn í fjármálafyrirtækjum og taka þar út arð, er brostinn.

Eins og ég sagði í ræðu fyrr í dag tel ég að allt þetta samhengi lýsi djúpri vanþekkingu á verkan hlutanna. Ég gef mér að það sé vegna vanþekkingar vegna þess að ekki trúi ég því að ríkisstjórn Íslands setji fram hugmyndir til þess eins að slá ryki í augu fólks. Ég mundi aldrei trúa því upp á núverandi stjórnarherra að þeir settu eitthvað fram sem þeir meintu ekki fullkomlega og að þeir væru að reyna að plata fólk. Því mundi ég aldrei trúa.



[14:54]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég ætla að drepa á í þeirri umræðu sem við erum stödd í í dag. Í fyrsta lagi vil ég geta þess að í þessu máli snýst ágreiningurinn auðvitað um mikla hagsmuni. Það er hins vegar rangt sem oft er reynt að halda fram að hér sé eingöngu um að ræða einkahagsmuni útgerðarmanna, einkahagsmuni tiltölulega fámenns hóps í landinu. Það er ekki rétt. Það sem málið snýst um er að sú atvinnugrein sem við erum að fjalla um í þessu frumvarpi og einnig frumvarpinu sem væntanlegt er að því er manni skilst úr atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða, er einhver mikilvægasta atvinnugrein landsins. Afkoman þar, hagkvæmni þar og sá árangur sem næst í þeirri grein skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þjóðarhag.

Ég verð að segja að í þessari umræðu finnst mér margir sem lýst hafa stuðningi við þau frumvörp sem um er að ræða horfa fram hjá því að við nákvæmlega þann þátt, hinn þjóðhagslega þátt, hafa verið gerðar mjög miklar athugasemdir. Það hefur komið fram af hálfu sérfróðra aðila, hagfræðinga, ýmissa hagsmunaaðila, sérfræðinga úr háskólasamfélaginu og víðar að með þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn leggur upp með í þessum frumvörpum er verið að skaða arðsemi og skaða hagkvæmni í atvinnugreininni. Það er áhyggjuefni.

Ég sagði í umræðum í síðustu viku að þó að þessi frumvörp næðu fram að ganga verður auðvitað áfram gert út hér á landi. Það verður veiddur fiskur. Það verður unninn fiskur og fluttur út fiskur. Það efast enginn um það. En eins og margsinnis hefur komið fram þá er hægt að gera það með hagkvæmum hætti en líka óhagkvæmum hætti. Munurinn á því hvort það er gert af hagkvæmni eða óhagkvæmni skiptir töluvert miklu máli fyrir þjóðarhag, fyrir hagsmuni einstakra byggðarlaga og að sjálfsögðu fyrir hagsmuni fyrirtækja.

Áhyggjurnar sem ég hef og margir og allflestir umsagnaraðilar hafa af áhrifum þessara frumvarpa eru einmitt þær að þau leiði til áfalls fyrir atvinnugreinina með þeim afleiðingum að hagur allra versni, ekki bara útgerðarmanna, ekki bara skipstjórnarmanna eða sjómanna, ekki bara þeirra sem starfa í tengslum við sjávarútveg heldur allra landsmanna því það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Íslendinga alla hvernig afkoman er í sjávarútvegi, að það sem gert er í sjávarútvegi sé hagkvæmt og skynsamlegt, að kerfið sem við byggjum á í sjávarútvegi sé þess eðlis að hann skili sem mestri arðsemi. Þar liggja áhyggjurnar. Ég verð að segja, og tel ég mig hafa fylgst allvel með þessum umræðum, að þetta eru röksemdir sem ég tel að hafi ekki verið svarað.

Ég lýsti í umræðum fyrir fáeinum dögum eftir því að mér yrðu sýnd dæmi um það að hagfræðingar eða aðrir sérfræðingar á sviði efnahagsmála hefðu tekið þessi frumvörp og sagt: Þetta er góð hugmynd, þetta er góð lausn, þetta er góð útfærsla. Ég hef ekki heyrt af því enn þá. Ég veit að til eru ýmsir hagfræðingar sem eru andvígir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þeir hafa tjáð sig oft og iðulega opinberlega, fyrir þingnefndum og í ræðu og riti, en þeir sem vilja þessi frumvörp samþykkt hafa ekki getað dregið fram hagfræðinga sem hafa sagt: Þetta er hagfræðilega góð lausn. Þetta eru hagfræðilega sniðugar aðferðir, þetta er vel gert hagfræðilega. Ég kannast ekki við að slík sjónarmið hafi komið fram af hálfu hagfræðinga. Ég játa að það kann að hafa farið fram hjá mér, að hér hafi komið hagfræðingar og sagt: Hér er valin góð þjóðhagsleg og efnahagsleg lausn fyrir Ísland. Hér er valin útfærsla á breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem er hagfræðilega góð. Munið þið eftir einhverjum sem hefur haldið því fram?

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni eru ýmsir hagfræðingar gagnrýnir á núverandi kerfi. Núverandi kerfi er mjög umdeilt meðal hagfræðinga en eru frumvörpin umdeild meðan hagfræðinga? Það vantar að minnsta kosti stuðningsmennina hygg ég og sjáist mér yfir einhver augljós skrif um þau efni bið ég menn að benda mér á þau.

Annað sem skiptir máli í þessu sambandi er líka hin lögfræðilega hlið sem ég drap nokkuð á í ræðu minni um daginn. Í umsögnum við þetta frumvarp koma fram mjög alvarlegar athugasemdir frá hendi virtra og viðurkenndra lögfræðinga sem lagt hafa mikla vinnu í þær, miðað við þann tíma sem hefur verið til stefnu til að koma á framfæri lögfræðilegum athugasemdum við ákveðna þætti í frumvörpunum, m.a. því frumvarpi um veiðigjöld sem við ræðum í dag. Það hafa komið fram alvarlegar athugasemdir við þá aðferð við skattheimtu og útfærslu skattareglna sem er að finna í þessu frumvarpi. Ég minni á að lögfræðilega eru menn ekki í neinum vafa um að það sem hér er um að ræða, þótt það sé kallað veiðigjald, er skattur í skilningi laga, skattur í stjórnskipulegum skilningi. Þetta er ekkert annað. Þetta er skattur, hvað sem menn kalla hann.

En það hafa komið fram alvarlegar athugasemdir og ég og fleiri höfum vitnað til álitsgerðar lögmannsstofunnar Lex, við höfum vitnað til lögmannsstofunnar Mörkinni, lögmanna Bonafide og fleiri lögmanna, Helga Áss Grétarssonar sérfræðings við Lagastofnun Háskóla Íslands og fleiri sem hafa tjáð sig um þetta atriði sérstaklega. Hverjar eru áhyggjur þeirra? Áhyggjur þeirra eru þær að útfærsla skattareglnanna í þessu frumvarpi stangist á við stjórnarskrá, skapi a.m.k. hættu á því að verið sé að fara á svig við ákvæði stjórnarskrár með þeirri aðferð sem hér er valin.

Ég gat þess um daginn að ég teldi afar létt skautað yfir þessar áhyggjur í nefndaráliti hv. meiri hluta atvinnuveganefndar og ég ráðlagði þá og ráðlegg þeim enn sem standa að þeim meiri hluta að láta fara fram miklu betri úttekt og athugun á þessum þætti þannig að menn nái hugsanlega að draga að minnsta kosti úr líkunum á því að lenda í málaferlum út af þessum þáttum, dragi úr líkunum á því að ríkið verði dæmt bótaskylt í þessum efnum vegna þess að þarna er verið að tala um grundvallaratriði sem gilda um skattlagningu, að skattareglur séu skýrar, um að skattlagningarvald sé ekki framselt frá þinginu til stjórnvalda jafnvel þó að stjórnvaldið heiti veiðileyfagjaldsnefnd.

Ég tel, hæstv. forseti, að hv. atvinnuveganefnd verði að fara vandlega yfir þennan þátt. Jafnvel þótt hún ætli að halda sig við frumvörp sem fela í sér þjóðhagslega óhagkvæmni er ekki gott ef hún heldur sig við frumvörp sem fela í sér brot á stjórnarskrá. Ég mundi ráðleggja viðkomandi hv. þingmönnum í mestu vinsemd að láta skoða þennan þátt sérstaklega fyrir sig og leiða fram þau lögfræðilegu rök sem vega á móti álitsgerðum þessara ágætu lögfræðinga. Það dugar ekki að segja: Þetta eru lögfræðingar sem vinna fyrir útgerðarfyrirtæki, þetta eru lögfræðingar sem vinna fyrir LÍÚ. Það svarar ekki hinum lögfræðilegu röksemdum sem er að finna í textum þeirra. Til að svara þeim þurfa menn að koma með lögfræðilegar röksemdir á móti því eins og við þekkjum þá vinnst rökræða ekki með því að fara í manninn heldur í boltann. Menn verða að svara röksemdum með röksemdum. Ef menn ætla að slá á röksemdir eingöngu vegna þess frá hverjum þær eru komnar eru menn að reyna að komast afskaplega ódýrt frá röksemdafærslunni.

Tökum sem dæmi: Í dómsmáli er það svo að báðir aðilar hafa á sínum snærum lögfræðing, lögmann. Lögmaðurinn fær greitt fyrir sína vinnu. Vinnan felst í því að koma á framfæri lögfræðilegum athugasemdum sem dómarinn á að hafa til hliðsjónar þegar hann kemst að niðurstöðu. Auðvitað er staða okkar í þinginu ekki sambærileg. En það að einhverjir lögmenn vinni fyrir tiltekna hagsmunaaðila, umsagnaraðila, gerir ekki að verkum að lögfræðilegar röksemdir þeirra skipti ekki máli. Menn geta ekki komist svo ódýrt frá málum. Satt að segja verð ég að rifja upp af þessu tilefni að það er ekki hægt að halda því fram eins og gert hefur verið ítrekað hér í umræðunni að það sé eiginlega ekkert að marka alla þá aðila sem hafa komið fram með málefnalega gagnrýni á þessi frumvörp, á þeirri forsendu að þeir séu allir undir hælnum á útgerðarmönnum í landinu. Menn komast ekki svo létt fram hjá röksemdafærslum. Menn komast ekki svo létt fram hjá því þegar athugasemdirnar koma frá ekki bara útgerðunum, ekki bara fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja sem tengjast útgerðinni heldur frá svo til öllum þeim aðilum sem gefið hafa umsagnir um þessi frumvörp og eru þeir ekki fáir. Það skiptir engu máli hvort um er að ræða sveitarstjórnir, landshlutasamtök, sérfróða aðila, prófessora í háskólanum eða einhverja slíka. Það er ekki hægt að afgreiða alla þá gagnrýni sem fram hefur komið á þessi frumvörp á þeim grundvelli að gagnrýnendur séu allir einhvers konar leiguþý LÍÚ, eins og það var einhvern tíma orðað. Menn verða að svara þessu. Ef menn efast um hin lögfræðilegu rök sem færð hafa verið fram gegn þessum frumvörpum bið ég menn um að koma með lögfræðileg rök á móti, sama með hin hagfræðilegu rök. Ef menn hafa þau eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma með þau á móti en ekki reyna að afgreiða gagnrýnina á þeirri forsendu að það séu bara leiguliðar, málaliðar á vegum Landssambands íslenskra útvegsmanna þar að verki.

Í lagasetningarferli þurfa menn að vanda sig. Við munum að á síðasta vori voru lögð fram frumvörp til breytinga á skipan sjávarútvegsmála í landinu og stjórn fiskveiða. Annað frumvarpið var kallað litla frumvarpið og hitt var kallað stóra frumvarpið. Litla frumvarpið náði fram að ganga en stóra frumvarpið stoppaði í þinginu eins og menn muna. Telja margir í þessum sal að við hefðum betur klárað stóra frumvarpið í fyrra? Eru margir þeirrar skoðunar að sú lausn, sú útfærsla sem þar var lögð fram hafi verið góð? Það vantaði ekki á fyrstu dögum þeirrar umræðu að hingað kæmu í ræðustól þingmenn sem héldu því fram að þetta væri fín lausn og bæri að samþykkja frumvörpin sem allra fyrst, það vantaði ekki. Það vantaði ekki að það væru færðar fram röksemdir fyrir því að þetta væri óhjákvæmileg, nauðsynleg og góð breyting á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, frumvörpin sem hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi hæstv. ráðherra, flutti í fyrra. Þar var um að ræða frumvörp sem höfðu fengið, eins og fram kom, mikla yfirlegu í þáverandi ríkisstjórn af þingflokkum stjórnarflokkanna, voru samþykkt í ríkisstjórn og samþykkt af stjórnarflokkunum í þeirri ríkisstjórn. Það vantaði ekki. En voru hv. þingmenn síðan ekki tiltölulega fljótir að átta sig á því að frumvörpin voru meingölluð? Stóra frumvarpið sem stoppaði í fyrra var þess eðlis að þingmenn úr stjórnarliðinu treystu sér ekki einu sinni til að styðja það. Var það ekki svo? Er það misskilningur hjá mér? Voru það mistök okkar á þingi að samþykkja ekki frumvarpið hans Jóns Bjarnasonar í fyrra? Hefur það frumvarp fengið góða dóma hjá til dæmis félögum hv. þingmanns í stjórnarflokkunum, sérstaklega eftir að honum var ýtt úr embætti? Hafa hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra eða aðrir hv. talsmenn ríkisstjórnarflokkanna talað þannig að Jón Bjarnason hafi með sjávarútvegsfrumvarpi sínu skilað góðu verki?

Þá spyr ég: Borgar sig ekki stundum að staldra við og reyna að gera betur? Kann ekki að vera að á þeim frumvörpum sem við erum með til umfjöllunar í þinginu núna séu þannig gallar að það borgi sig að staldra við? Það borgi sig að nema staðar, skoða einhverja þætti betur, taka mark á athugasemdum frá sveitarstjórnarfólki vítt og breitt um landið, háskólafólki, taka við athugasemdum m.a. frá þeim sérfræðingum sem meiri hluti atvinnuveganefndar fékk til að skoða þessi mál sérstaklega fyrir sig. Á ekkert að gera með þær athugasemdir? Á ekkert að hlusta á Daða Má Kristófersson hagfræðing eða aðra sem hafa verið atvinnuveganefnd til ráðgjafar í þessum efnum? Stendur það ekki til? Á bara að keyra þessi frumvörp áfram? Á ekki að hlusta á neinn? Er það virkilega þannig, hæstv. forseti, að menn telja að það sé góð reynsla af því? Ég held einmitt að reynslan frá því í fyrravor ætti að vera mönnum umhugsunarefni. Ég held að hv. þingmenn ættu að hugsa eitt ár til baka og velta fyrir sér hvort þeir hefðu verið virkilega sáttir við að keyra í gegn þær breytingar sem þeir ætluðu að keyra í gegn síðasta vor, vorið 2011, keyra í gegn frumvarpið sem lýst hefur verið með mjög dramatískum hætti af einstökum hæstv. ráðherrum og ætla ég ekki að taka mér þeirra orð í munn hér um að um væri að ræða þannig vinnu að ekki væri forsvaranlegt að standa þannig að löggjöf. Eru menn vissir um að þeir séu ekki á sömu slóðum núna? Ég bið hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að hugleiða þetta. Ég bið þá að hugleiða hvort það kunni eitthvað að vera að marka þær athugasemdir sem komið hafa fram af hálfu tuga umsagnaraðila sem koma úr öllum áttum, alls staðar að af landinu. Gæti verið eitthvað að marka þær? Eru menn alveg vissir í sinni sök? Telja menn virkilega að þeir séu á réttri leið? Ég hef alveg skilning á því, þótt ég sé kannski ekki endilega sammála öllum sem þannig tala, að menn vilji gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ekkert vont eða óheiðarlegt við að vilja breytingar á því. En þeir sem ætla sér að gera það verða að gera svo vel að vanda sig og auðvitað hljóta þeir að verða eins og allir að hlusta á ráðleggingar sérfræðinga á hinum mismunandi sviðum þegar þeir standa að þeim breytingum. Það þýðir ekki að setja bara undir sig hausinn og æða áfram án þess að hlusta á athugasemdir aðila sem lagt hafa mikla vinnu af mörkum við að greina þessi frumvörp, benda á ágalla á þeim og gera jafnvel tillögur til breytinga. Góð lagasetning felst ekki í því að loka augum og eyrum og æða áfram til þess eins að uppfylla einhver pólitísk slagorð.



[15:14]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni hans ræðu sem framan af var býsna góð og málefnaleg en svo dró heldur úr því því að ræða hv. þingmanns er annaðhvort flutt á röngum tíma eða hann er í réttum tíma með ranga ræðu. (Gripið fram í.) Það getur ekkert annað verið. Það hefur verið tekið tillit til nánast allra umsagna sem borist hafa varðandi þetta mál og ef þingmanninum er ekki kunnugt um það þá hafa verið fluttar breytingartillögur við frumvarpið á skjali sem má finna frammi í rekkanum sem undirstrika að verið sé að taka tillit til þeirra umsagna.

Atvinnveganefnd réð til sín sérstakan hóp af sérfræðingum til að fara yfir frumvarpið, ekki pólitískan hóp heldur hóp sérfræðinga utan þings, utan stjórnmála, til að rýna það enn betur en áður hefur verið gert. Það hefur verið tekið tillit til allra umsagna þeirra og athugasemda. Það hefur verið tekið tillit til athugasemda sem hafa komið frá útvegsmönnum sjálfum, frá fiskvinnslunni, frá þeim sem eiga að greiða gjaldið. Þær athugasemdir er hægt að finna í rekkanum frammi og ég ætla að skilja þetta blað eftir í ræðustólnum handa þingmanninum sem hefur greinilega ekki orðið var við það eða kynnt sér það hið minnsta því seinni hluti ræðunnar bar því miður ekki vott um það. Er þó þingmaðurinn vanur að kynna sér mál býsna vel sem hann fjallar um í þingsal og í ræðustól.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er afstaða hans til megininntaks frumvarpsins, þ.e. meginsjónarmiðanna, í fyrsta lagi hvort hann telji að innheimta eigi auðlindagjald af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar eins og fiskimiðunum, fiskstofnunum og í öðru lagi afstöðu hans til þeirrar aðferðafræði sem frumvarpið felur í sér, þ.e. gera það með tilteknu föstu gjaldi (Forseti hringir.) til að standa undir rekstri og kostnaði við greinina og síðan afkomutengdu gjaldi miðað við arðsemi greinarinnar.



[15:17]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við ágætri ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar og spyrja sérstaklega um tvennt.

Við höfum búið við þessi lög í um aldarfjórðung, það er 25 ára afmæli þessa ákvæðis um þjóðareign á nytjastofnunum á næsta ári. Ég þarf ekki að fara með það ákvæði orðrétt fyrir hv. þingmann, hann þekkir það vel. Kapítalistar í landi gera þá kröfu að fá arð af eignum sínum.

Hvernig getur hv. þingmaður varið það fyrir sjálfum sér og okkur að þjóðin hafi fengið smánarlegan hlut af auðlindaarðinum undanfarna áratugi? Ég er að tala um hlutdeild í auðlindaarðinum sem var á bilinu 2% um miðjan síðasta áratug niður í það að vera 0,5% síðasta árið sem Sjálfstæðisflokkurinn var með sjávarútvegsráðuneytið. 99,5% af auðlindaarðinum fiskveiðiárið 2008/2009 urðu eftir hjá útgerðarmönnum, þjóðin fékk 0,5%. Er það verjandi skipting á auðlindaarðinum að mati hv. þingmanns?



[15:19]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Skúli Helgason veit geta þjóðir notið arðs af atvinnurekstri með ýmsum hætti. Sértæk skattheimta á borð við þá sem hér liggur fyrir er ekki forsenda þess að þjóðin njóti afraksturs af nýtingu auðlinda. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar verið þeirrar skoðunar að rétt væri að leggja á auðlindagjald og höfum staðið að því frá árinu 2000 að svo væri gert.

Menn hafa deilt um forsendur að baki útreikningi á því og hversu hátt það eigi að vera en menn hafa hins vegar ekki verið í hörðum deilum um það prinsipp að einhvers konar auðlindagjald væri greitt. Það er auðvitað allt annars eðlis en sá auðlindaskattur sem lagður er til í þessu frumvarpi. En varðandi það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við hefur það auðvitað tekið mjög margvíslegum breytingum á þeim tíma sem um er að ræða, eins og hv. þingmaður veit. Stöðugar lagabreytingar hafa átt sér stað, oft til bóta, stundum til hins verra.

Ég skal vera alveg heiðarlegur með það að ég hef ekki verið sáttur við allt sem gert hefur verið í sjávarútvegsmálum síðustu 25 árin, öðru nær, ég hef verið ósáttur við ýmislegt. Ég tel þó að við búum í meginatriðum við tiltölulega gott kerfi miðað við það sem gerist á sviði sjávarútvegsmála. Ég held við búum bara við býsna gott kerfi sem skilar sér vel til þjóðarinnar í samanburði við það sem gerist annars staðar. Ég hef ekki áhyggjur af því að arður úr sjávarútvegi skili sér ekki til íslensku þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti.

Ég spyr: (Forseti hringir.) Í löndum þar sem ekki er lagt sérstakt auðlindagjald á sjávarútveginn nýtur þjóðin þá ekki þess auðs sem hann skapar?



[15:21]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt það væri styttra á milli aðila í þingsal en svo að menn gera ekki einu sinni tilraun til að segja að það geti verið ásættanleg niðurstaða að þjóðin fái 0,5% af auðlindaarðinum. Og ég er eingöngu að tala um auðlindaarðinn í atvinnugreininni.

Að sjálfsögðu skilar sjávarútvegurinn heilmiklu til þjóðarbúsins eins og aðrar atvinnugreinar og meiru en flestar þeirra en það er auðlindaarðurinn sem er kjarninn í umræddu frumvarpi og vegferðin gengur út á að skipta honum með réttlátari hætti á milli útgerðarinnar og greinarinnar annars vegar og þjóðarinnar hins vegar, því að það er þjóðin sem á þessa auðlind samkvæmt gildandi lögum sem okkur ber að fara eftir.

Ég spyr því aftur: Hvað telst sanngjörn og eðlileg skipting á auðlindaarðinum að mati hv. þingmanns?



[15:23]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara því hér hvort skiptingin eigi að vera 30/70, 40/60, 55/45 eða einhvern veginn öðruvísi. Ég held hins vegar að það sé full ástæða til þess fyrir okkur að taka þau frumvörp sem liggja fyrir, bæði það sem við ræðum nú, um veiðileyfagjaldið, og frumvarpið um stjórn fiskveiða, og reyna að ná einhvers konar samkomulagi um þau.

Ég held þó að það sé víðáttuvitlaust að reyna að keyra þessi frumvörp í gegn eins og þau liggja fyrir. Ég held að það sé víðáttuvitlaust að reyna að keyra í gegn frumvörp sem svo til hver einasti sérfræðingur hefur mælt gegn. Hvar eru til dæmis þeir hagfræðingar sem telja að lagt sé upp með góða hagfræðilega lausn í þessu frumvarpi og í frumvarpinu um stjórn fiskveiða? Auðvitað spila þau tvö frumvörp saman, þau eru ekki einingar, þau spila saman. (Forseti hringir.) Hvar eru þeir hagfræðingar?



[15:24]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort vert er að gera sér erindi í ræðustól til að fá hv. þingmann til að svara því sem til hans er beint. Annaðhvort virðir hann menn ekki viðlits og svarar þeim ekki, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur mátt þola, ellegar að hann neitar einfaldlega að svara grundvallarspurningum hv. þingmanna, ég nefni þar hv. þm. Skúla Helgason. Sú grundvallarspurning snerist um það hvernig hv. þingmanni fyndist eðlilegt að skipta auðlindaarðinum á milli almennings annars vegar og LÍÚ hins vegar. Það má kannski halda áfram að reyna.

Það frumvarp sem hér er undir er frekar einfalt. Hér er veiðigjaldið til umfjöllunar. Við höfum sagt að eftir að tekið hefur verið tillit til athugasemda sérfræðinga sé eðlilegt að lækka það í 15 milljarða, sem þýðir þá rétt liðlega 30 kr. á hvert þorskkíló sem veitt verður á næsta fiskveiðiári, meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað um 10–12 milljarða. Það er því bitamunur en ekki fjár á áhersluatriðum í þessu atriði.

Þá heldur hv. þingmaður því fram að við eigum að semja. Mér hlýtur að hafa misheyrst. Lýðræðislega kjörinn meiri hluti í þinginu hefur lagt fram frumvarp sem hann vill fá samþykkt um fjáröflun fyrir ríkissjóð. Neitar hv. þingmaður því að lýðræðislega kjörinn stjórnarmeirihluti fari með fjárstýringarvald í landinu? Telur hv. þingmaður að hann geti, á grundvelli ágreinings um einhverja 3–5 milljarða í skattheimtu, stöðvað mál hér mánuðum saman með málþófi nótt og dag? Ef hann heldur það, þá verði honum að góðu því að hann fær þá að halda því uppi.



[15:26]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar kveðjur í minn garð og góðar óskir um framhald þingstarfa. Það sem ég er að biðja um er að mark sé tekið á þeim athugasemdum sem fram hafa komið, sem ganga meðal annars út á að ekki sé hægt að skoða veiðigjaldafrumvarpið eitt og sér án þess að skoða frumvarpið um stjórn fiskveiða um leið.

Sá sérfræðingur sem meiri hluti atvinnuveganefndar — meiri hlutinn ekki minni hlutinn, ég tek það skýrt fram — fékk til að skoða þetta fyrir sig hefur lagt mjög þunga áherslu á það. Daði Már Kristófersson hagfræðingur hafði uppi mjög harða gagnrýni á bæði frumvörpin. Eftir breytingar sem lagðar voru til af hálfu meiri hlutans í atvinnuveganefnd sagði hann: Verði ekki gerðar breytingar á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu stendur öll mín gagnrýni óbreytt. Það hefur hann ítrekað sagt og sú gagnrýni kom síðast fram í Speglinum í útvarpinu í gærkvöldi.

Það heyrir reyndar til tíðinda að sá ágæti útvarpsþáttur finni einhvern viðmælanda sem er ekki sammála þáttastjórnendunum, eins og hv. þingmenn þekkja. Þórólfur Matthíasson hefur greinilega verið í sumarfríi eða eitthvað þannig að hann komst ekki í þáttinn í gær, hann verður þar ábyggilega í næstu viku.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, sem er nú einn af höfundum veiðigjaldafrumvarpsins, þekkir það úr ýmsum áttum að varað hefur verið við afleiðingum þess fyrir útgerðina, fyrir landsbyggðina, fyrir sveitarfélög, fyrir hina og þessa. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að þær athugasemdir séu allar tilhæfulausar? Er hann þeirrar skoðunar að þeir fjölmörgu aðilar sem sett hafa fram gagnrýni á þetta höfundarverk hans séu á villigötum?



[15:28]
Forseti (Þuríður Backman):

Ég vil biðja hv. þingmann um að gæta orða sinna (Gripið fram í.) um fjarstadda einstaklinga. (Gripið fram í.)



[15:28]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin eins langt og þau náðu. Það er út af fyrir sig rétt að fram komu ýmiss konar sjónarmið um frumvarpið eins og það var lagt fram í þinginu. Það hefur farið um það eins og oft og einatt gerist við þinglega meðferð, að tillit hefur verið tekið til þeirra athugasemda. Þeim hefur verið mætt, gjaldið hefur verið lækkað mjög verulega.

Nú er gjaldið orðið svo sanngjarnt að í raun má halda því fram að það sé orðið býsna lágt. Liðlega 30 kr. á kílóið munu ekki fæla nokkurn mann frá því að gera út á sjó og ef markaðurinn, sem hv. þingmaður trúir að leggi rétt verð á hverja vöru, ætti að skera úr um það með því að aflaheimildirnar væru boðnar upp mætti vænta þess að verðið sem menn greiddu ríkissjóði fyrir þær heimildir yrði ekki tvöfalt hærra en það gjald sem hér er verið að leggja til og ekki þrefalt hærra heldur margfalt hærra.



[15:29]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að grundvallarmisskilningurinn sé fólginn í því að halda að við hér, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar, eigum með einhverjum hætti að rétta puttann upp í loftið og finna út hvað okkur finnst að sé eðlileg afkoma í einhverri atvinnugrein, hvað sé eðlilegur hagnaður, hve miklu venjulegt fyrirtæki í góðum eða sæmilegum rekstri ætti að skila, og leggja síðan skatta út frá því. Ég held að í því felist alveg skelfileg tilhneiging til einhverrar þjóðfélagsverkfræði sem ég hef ekki áhuga á að taka þátt í.

Ég er til í að reyna að finna lausnir til að við getum hugsanlega einhvern tímann í framtíðinni náð saman um þau frumvörp sem hér er um að ræða. En ég held hins vegar að við séum því miður enn þá víðáttulangt frá því og mér finnast orð hv. þm. Helga Hjörvars hér í dag endurspegla það.



[15:30]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti gerði athugasemdir við mál mitt hér áðan og bað mig að gæta orða minna. Til þess að eiga auðveldara með að fóta mig á þessu hála svelli í framtíðinni óska ég eftir að hæstv. forseti tilgreini þau ummæli mín sem gáfu tilefni til athugasemdarinnar.



[15:31]
Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Í upphafi máls míns vil ég gera grein fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um veiðigjöld sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Á eftir 12. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Ráðstöfun veiðigjalda.

Tekjum af veiðigjöldum skal ráðstafað þannig:

1. 50% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna í ríkissjóð.

2. 40% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð.

3. 10% tekna af veiðigjöldum skulu renna í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS-sjóð, með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.

2. Fyrirsögn III. kafla verði: Álagning, innheimta og ráðstöfun.“

Það liggur fyrir, frú forseti, að sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni greiða um 80% af innheimtum veiðigjöldum og tilfærsla þessa fjármagns frá þessum byggðum til höfuðborgarsvæðisins er mjög veruleg. Bráðabirgðaúttektir gefa til kynna að annarri hverri skattkrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Því til stuðnings liggur meðal annars fyrir hagfræðileg úttekt Vífils Karlssonar hagfræðings frá 18. nóvember 2011. Hann segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Því má segja að standi hugur ráðamanna til að hækka veiðigjald í sjávarútvegi sé mikilvægt að hluti þess renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara sem leiddi óhjákvæmilega til frekari brottflutninga íbúa. Beinast liggur við að endurgreiðslan renni til viðkomandi sveitarfélaga. Með því er báðum sjónarmiðum mætt, þ.e. í fyrsta lagi að stuðla að því að ekki verði enn frekari samdráttur á landsbyggðinni og í öðru lagi að veiðigjaldið fari frá þeim sem nýta auðlindina og til þjóðarinnar í gegnum rekstur hins opinbera og almannaþjónustu.“

Sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið verða að fá forgang í að njóta afraksturs auðlinda sinna. Frumvinnslugreinarnar hafa undanfarna áratugi farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Mikilvægt er að bæði aflaheimildir og hluti tekinna veiðigjalda renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara og frekari brottflutnings íbúa.

Ég minni á að á liðnum árum hefur landsbyggðin gengið í gegnum meiri skerðingar hlutfallslega en höfuðborgarsvæðið, vegna efnahagshrunsins, hvað varðar til að mynda heilsugæslu, sjúkrahúsþjónustu, löggæslu og önnur samfélagsleg verkefni. Það sem verra er; sá niðurskurður hefur að langmestu leyti bitnað á konum með uppsögnum kvenna og niðurlagningu kvennastarfa.

Með breytingartillögunni er því lögð til önnur og réttlátari skipting tekna af veiðigjöldum en í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að öll gjöldin renni í ríkissjóðs. Umsagnaraðilar hafa einnig bent á að ólíklegt sé að byggðaaðgerðir frumvarpsins næðu þeim markmiðum sem stefnt er að. Því er mikilvægt að grípa til aðgerða til að rétta af stöðu sjávarbyggða með því að tryggja þeim hlutfall tekna af veiðigjöldum. Breytingin er leið til sátta og tekur mið af þörfum sjávarbyggðanna sem mörg hver hafa lýst yfir áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi frumvarps.

Hér vil ég taka fram að því miður hefur ekki farið fram fagleg og fræðileg úttekt á þessum áhrifum eins og staðan er í dag.

Með frumvarpinu er jafnframt komið til móts við athugasemdir og sjónarmið sem bárust um fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem lagt var fram á síðasta þingi þar sem bent var á mikilvægi þess að horfa til búsetu og byggðasjónarmiða. Áréttað skal að við töku veiðigjalda verður að hafa hliðsjón af áhrifunum af fiskveiðistjórnarlögunum í heild. Það er ekki minna mikilvægt. Jafnframt þarf að horfa til jafnræðissjónarmiða þegar aðgengi að einni náttúruauðlind er skattlagt sértækt umfram aðrar auðlindir okkar lands.

Ákvæðið sem við hv. þm. Jón Bjarnason leggjum til er í samræmi við 28. gr. fiskveiðistjórnarfrumvarps sem lagt var fram á síðasta þingi og ríkisstjórnin hafði þá samþykkt fyrir sitt leyti og þingflokkar afgreitt til nefndar. Eins og fyrr segir er lagt til að tekjum af veiðigjöldum skuli ráðstafað þannig að 50% renni í ríkissjóð og 40% til þess sveitarfélags eða hugsanlega landshlutasamninga þess fjórðungs þar sem skipið er skráð. Til greina kemur að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði milligönguaðili um ráðstöfun fjárins.

Ég beini því til frú forseta að málið gangi til atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. þar sem þessi breytingartillaga verði skoðuð sem og það hvernig best megi ráðstafa þessum 40% hluta í þágu landsbyggðar, sjávarbyggða og sveitarfélaga.

Við leggjum enn fremur til að 10% veiðigjalda renni í rannsóknasjóð, AVS-sjóð, til að auka verðmæti sjávarfangs með það að markmiði að stuðla að nýsköpun, rannsóknum og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi. Drög að frumvarpi um AVS-sjóðinn voru birt á vef sjávarútvegsráðuneytisins í nóvember síðastliðnum og munu flutningsmenn leggja fram frumvarp þessa efnis verði breytingartillagan samþykkt.

Ég vil líka taka fram að það hefur verið gagnrýnt að ekki sé lagaheimild til að ákvarða í frumvarpi um veiðigjald tekjur til sveitarfélaga. Til að mæta þeirri gagnrýni er breytingartillaga í drögum að lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Það er einfalt að leggja slíkt frumvarp fram strax í haust eða jafnvel á þessu þingi.

Ég vil taka fram, frú forseti, að ég er alls ekki andsnúinn hóflegu veiðigjaldi á sjávarauðlindir, því fer fjarri. Grundvallaratriðið er hins vegar það að þegar tekin er ákvörðun um hækkun veiðigjalds verða allar forsendur að liggja fyrir og það verður líka að liggja fyrir hvaða afleiðingar þetta hefur. Þetta er ekki alveg einfalt mál. Hvaða afleiðingar hefur hækkun veiðigjalds á landsbyggðina, á sveitarfélög og ekki síst laun sjómanna og fiskverkafólks? Ég er fyrst og fremst að horfa til hagsmuna sjávarbyggða, sjómanna og landverkafólks í afstöðu minni til málsins.

Ég bendi sérstaklega á að ég hef í höndunum kröfur Landssambands íslenskra útvegsmanna vegna endurnýjunar kjarasamnings við VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna. Þar er fyrsti liðurinn í kröfugerð LÍÚ að ef samið verði um að nýjar og auknar álögur frá stjórnvöldum, svo sem vegna veiðigjalds, tryggingagjalds, raforkugjalds, kolefnisgjalds og olíuskatts, verði þær dregnar frá aflaverðmæti fyrir skipti. Hvað þýðir þetta, og ekki bara fyrir sjómenn? Ef LÍÚ nær fram þessari kröfu eða einhverjum hluta hennar þýðir það verulega tekjuskerðingu. Auðvitað detta þá einnig niður umtalsverðar útsvarstekjur sjávarbyggða.

Mér finnst nóg komið af aðgerðum þessarar meintu norrænu velferðarstjórnar, félagshyggjustjórnar, í aðgerðum gegn sjómönnum. Ég minni á að ríkisstjórnin sem siglir undir þessu flaggi félagshyggju skerti sjómannaafsláttinn um nærri helming nýlega. Sjómenn hafa tekið á sig kjaraskerðingar langt umfram aðra launamenn í landinu. Og sveitarfélögum mun blæða með lækkuðu útsvari. Hefur þetta verið skoðað? Þarf ekki að skoða þessar afleiðingar, þarf ekki að skoða veiðigjaldið heildstætt?

Í framhjáhlaupi minni ég líka á að í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu sem liggur fyrir þingi eru gerðar tillögur um lækkun byggðakvóta. Enn er vegið að sjávarbyggðum. Komi slík lækkun til framkvæmda verður hún afar örlagarík fyrir minni sjávarbyggðir og jafnvel banabiti fiskvinnslu í mörgum þeirra.

Ég nefndi áðan jafnræðissjónarmið um auðlindagjaldið sem ég hef áður komið inn á. Fyrir nokkrum árum flutti hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson frumvarp um hækkun veiðigjalds. Ég talaði gegn því á sínum tíma vegna þess að ég vildi að auðlindagjaldið væri heildstætt, lagt á allar auðlindir en ekki eingöngu fiskinn í sjónum.

Í vetur störfuðu tvær nefndir um auðlindagjald, önnur um auðlindagjöld almennt og hin um auðlindagjöld í sjávarútvegi. Því miður liggja engar niðurstöður fyrir. Þegar hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason lagði fram drög að frumvarpi í nóvember 2011 var því frestað að taka afstöðu til hækkunar þar sem nefndirnar sem ég gat um voru að fjalla um auðlindagjöld á breiðum grunni og ekki bara af sjávarafla heldur líka af raforku, ósnortnum víðernum, ferðamannastöðum og ýmsu öðru sem menn njóta og eru auðlindir okkar lands, dýrmætar auðlindir.

Frú forseti. Auðvitað á að gera faglega og fræðilega úttekt á forsendum og afleiðingum og þar set ég í fyrsta sæti afleiðingar fyrir sjávarbyggðirnar, sveitarfélögin, sjómenn og fiskvinnslufólk áður en lengra verður haldið.

Ég hygg að möguleiki sé á fullri sátt í þessu máli á þeim grunni að mæla fyrir hóflegri hækkun auðlindagjalds fyrir næsta fiskveiðiár en ekki lengra fram í tímann og láta síðan nefnd skoða forsendur og afleiðingar hækkaðs gjalds og taka endanlega ákvörðun þegar það liggur fyrir. Ég hef meðal annars rætt við útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkafólk og ég held að enginn sé andsnúinn því að borga eðlilega rentu af auðlindinni en vilji að allar hliðar verði skoðaðar. Ég hygg að menn geti komist að málamiðlun á þessu þingi um hækkun á næsta fiskveiðiári en fresta svo framhaldinu fram að áramótum og leggja þá fram nýtt frumvarp þegar allar forsendur hafa verið skoðaðar faglega og fræðilega.

Ég vil segja hér, frú forseti, um veiðigjaldið að góð vísa verður ekki of oft kveðin en hef þann fyrirvara að ég er ekki að mæla gegn hækkun eða þessari gjaldtöku af auðlindum okkar. Í fréttabréfi Landssambands íslenskra útvegsmanna, Útvegurinn, í 4. tbl. 6. árg. frá júlí 1997, var eftirfarandi haft eftir hæstv. núverandi landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, þá alþingismanni, með leyfi forseta:

„Veiðigjald yrði íþyngjandi fyrir sjávarútveginn og það yrði íþyngjandi fyrir byggðarlögin. Fyrir mér er málið ekki flókið og það þarf ekki að eyða miklum tíma í að rífast um það fram og aftur. Þessu má með einföldum orðum lýsa á eftirfarandi hátt: Sá hagnaður, í tapárum það eigið fé, fyrirtækjanna sem færi í að greiða gjaldið, færi út úr fyrirtækjunum og út úr byggðarlögunum. Það verður ekki eftir þar til fjárfestingar og uppbyggingar. Það er morgunljóst.“

Þetta sagði hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Tilvitnunin heldur áfram svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í hvað hefur hagnaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað farið undanfarin ár? Hann hefur í meginatriðum farið í endurnýjun loðnubræðslunnar, í að kaupa Blæng, fór í að endurbyggja Beiti og fer í að endurbyggja Börk. Ef þessi hagnaður hefði að stórum hluta til verið gerður upptækur hefði hann ekki farið í þetta. Málið er ekkert flóknara. Það hefur alltaf verið þannig að starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum á sínum heimaslóðum.“

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra virðist vel að merkja hafa skipt um skoðun í þessu máli. Ég nota þessa tilvitnun ekki til að leggjast gegn auðlindagjaldi en vil hins vegar, eins og ég sagði áðan, sjá úttekt á fræðilegum og faglegum forsendum þess og afleiðingum.

Frú forseti. Ég verð einnig að gera málsmeðferðinni í þessu frumvarpi og í frumvarpi til laga um breytta fiskveiðistjórn nokkur skil. Það hefur verið mín reynsla frá því að ég byrjaði í stjórnmálum, þ.e. á Alþingi, að menn hafa verið í skotgröfum hvað varðar sjávarútvegsmálin, deilt mjög harkalega og varla talast við. Þessar skotgrafir virðast því miður, og það harma ég, vera dýpri en nokkru sinni fyrr. Ég hygg að umræðan hér á þingi um þetta frumvarp sýni það afar glöggt.

En á hvaða nótum var lagt af stað í þessa vegferð, frú forseti? Jú, núverandi ríkisstjórn lagði af stað í vegferð sína í maí 2009, eftir kosningar, með það fyrir augum að endurskoða lög um fiskveiðar. Við þá endurskoðun átti meðal annars að efla byggð í landinu. Skapa átti sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. Skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga.“

Trúlega má fullyrða að upphaf þessarar vegferðar um sátt og umræður hafi snúist upp í andhverfu sína. Sjaldan veldur einn þegar tveir deila, vil ég þó segja í þessu samhengi. En þetta var leiðarljós vegferðarinnar, og hvernig hefur tekist til? Ég hygg að rétt sé að gera þessari sögu skil frá stjórnarmyndun vorið 2009 til dagsins í dag.

Vorið 2009 kynnti ríkisstjórnin samstarfsyfirlýsingu sína og markmið varðandi sjávarútvegsmál og þegar í stað hófst mjög hatrömm umræða. Það var hluti af ríkisstjórnarmynduninni og krafa Samfylkingarinnar að settur yrði sérstakur starfshópur um fiskveiðistjórnarmálin og maður frá henni gerður formaður. Frá upphafi hefur sá maður stýrt þessu máli.

Í júnímánuði, eftir að þetta var fastbundið, endaði það þannig að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar beindu þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann skipaði vinnuhóp sem fengi það verkefni að endurskoða stjórn fiskveiða. Hann gekkst inn á það í stað þess að vinna sjálfur frumvarp.

Óvenjulegt er að ráðherrar vinni ekki sjálfir frumvörp sín ásamt starfsmönnum viðkomandi ráðuneyta. Nei, málið var tekið úr höndum fagráðherrans í upphafi.

Gert var ráð fyrir að sá hópur sem skipaður var skyldi skila sjávarútvegsráðherra áliti sínu 1. september 2009. Það var framlengt til 1. nóvember 2009. Reyndin varð hins vegar sú að þessi starfshópur skilaði af sér í byrjun september 2010. Það má svo sem áfellast hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, fyrir að hafa ekki leyst hópinn upp því að skil hans drógust svo mjög á langinn. Hópurinn var síðan skipaður á grundvelli stefnuyfirlýsingar núverandi ríkisstjórnar og verkefnið var að skilgreina helstu álitaefni í löggjöfinni og lýsa þeim. Hópurinn átti að vinna nauðsynlegar greiningar og setja að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni yrðu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar stundaðar með sjálfbærum hætti og — ég hnykki á þessu — að sem víðtækust sátt næðist um fiskveiðistjórnina meðal þjóðarinnar. Starfshópnum var í því skyni gert að hafa víðtækt samráð við aðra aðila með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum.

Starfshópurinn var fjölmennur og hafði breiða skipan. Í honum áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka og fyrir hópnum fór núverandi hæstv. velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, sem var formaður hópsins. Þar voru einnig fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fiskvinnslustöðva, Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjómannasambands Íslands, formaður matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands, formaður VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna og fulltrúi frá Samtökum eigenda sjávarjarða. Ekki verður annað sagt en að hópurinn hafi verið fjölmennur enda mikið talið í húfi. Vilji ráðherra og ríkisstjórnar á þeim tíma stóð til þess að sem flestir kæmu að málum.

Eins og fyrr segir skilaði starfshópurinn af sér skýrslu haustið 2010 og hafði tekið sér meira en ári meira til starfans en upphaflega var ætlast til. Undir álit hans skrifuðu allir fulltrúar í hópnum nema einn en flestir skiluðu hins vegar sérálitum um einstaka þætti. Formaður og varaformaður starfshópsins sendu síðan forsætisráðherra bréf daginn eftir að skýrslan kom fram og lögðu til að skýrslu hópsins yrði komið til nefndar þingmanna til frekari afgreiðslu, væntanlega til að semja frumvarp. Enn var málið tekið úr höndum sjávarútvegsráðherra.

Ég sagði áðan að fyrir hefði legið að flestir þeir sem tóku þátt í störfum vinnuhópsins hefðu talið að farið yrði eftir niðurstöðunni í meginatriðum. Síðar átti því miður, frú forseti, eftir að koma betur í ljós að það var ætlun sumra að gera ekki neitt með þessa skýrslu. Því miður. Í október eða nóvember 2010 voru því þrír þingmenn úr hvorum stjórnarflokknum, sex alls, settir í nefnd til að fylgjast með og vinna að framgangi frumvarps um málið. Sá hópur hélt fjölda funda með og án ráðherra og reynt var að ná samstöðu um meginatriði væntanlegs frumvarps.

Fljótlega kom í ljós í þeirri vinnu, og hana þekki ég býsna vel af því að ég sat í þessum hópi sex þingmanna fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að þessir þingmenn voru hreint ekki sammála um að fara eftir meginniðurstöðum sáttanefndarinnar og var það í reynd stærsta ágreiningsmálið allan tímann. Maður getur auðvitað sagt sér það að innan bæði Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru uppi gagnstæð sjónarmið í þessum málum, bæði um fiskveiðistjórnina og veiðigjaldið. Ég nefni hv. þm. Kristján L. Möller annars vegar og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur hins vegar. Ég nefni hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði annars vegar og hins vegar hv. þm. Björn Val Gíslason sem lagðist að ýmsu leyti gegn frumvarpinu á þeim tíma, í fyrravor.

Það var svo í nóvember eða desember að ráðherra skipaði fimm starfshópa innan ráðuneytisins og fékk hver þeirra fyrirmæli um að vinna sérgreind verkefni, t.d. um framsal og nýtingarsamninga, og skila skýrslum um þau. Fram fór ráðuneytisvinna en allan tíma fylgdist þessi hópur sex þingmanna með. Þessir hópar skiluðu síðan skýrslum sínum í byrjun febrúar og þá skýrslu átti að leggja til grundvallar væntanlegu frumvarpi.

Í janúar og febrúar var síðan unnið af kappi, í nánu samráði við þingmannahópinn, að gerð frumvarps sem átti að leggja fram á þinginu í fyrravor. Hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason lagði ríka áherslu á það í þessari vinnu að það yrði náin upplýsingagjöf til almennings og víðtæk sátt um breytingarnar. Það var hans leiðarljós. Eftir að það frumvarp kom fram kom enn fram krafa um að málinu yrði haldið innan þröngs hóps — það voru forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sem kröfðust þess — og krafðist forsætisráðherra þess að koma beint að málinu til frekari vinnslu ásamt fjármálaráðherra og þeim þingmönnum flokkanna sem höfðu komið að málinu um veturinn.

Eftir að þessi drög lágu fyrir, í febrúar/mars 2011, var málið þarna í raun á forræði hæstv. forsætisráðherra. Í hönd fóru stanslaus fundarhöld í tvo mánuði, allt þar til frumvarpið var lagt fram á síðasta snúningi í maí. Þá hafði það tekið verulegum breytingum og á lokastigum málsins kom einnig hæstv. velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, að því. Frumvarpið var síðan afgreitt úr ríkisstjórn og það lagt fyrir þingflokkana og afgreitt þaðan eftir tvær eða þrjár vikur. Hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, var þeirrar skoðunar að affarasælast væri að kynna frumvarpið fyrir hagsmunaaðilum eins og það lá fyrir og því dreift til þeirra, og ég deildi þeirri skoðun með honum, í ljósi þess að það hafði ekki verið kynnt almenningi og hagsmunaaðilum eða þeim gefinn kostur á athugasemdum. Síðan vildi hann leggja það fram á síðasta haustþingi. Á það var ekki fallist. Ekki var fallist á að halda því grundvallaratriði samstarfsyfirlýsingarinnar að ná sem breiðastri samstöðu.

Allir þingmenn vita hvernig fór í fyrravor. Það gekk svo langt að hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson kallaði frumvarpið slys eins og menn muna. (GÞÞ: Bílslys.) Bílslys var það, væntanlega fremur alvarlegt. Hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra vildi leggja fram minna frumvarp samhliða þessu stóra, fresta því stóra þar til hagsmunaaðilar og almenningur gætu tjáð sig um það og gera þær minni breytingar sem til þurfti til bráðabirgða. Hann lét vinna svokallað litla frumvarp með brýnum aðgerðum sem gætu komið til framkvæmda þá um sumarið. Honum var þá löngu ljóst að stóra frumvarpið mundi lenda í miklum ólgusjó í þinginu og úti í þjóðfélaginu og að alls óvíst væri hvernig því mundi reiða af. Það er sorglegt, frú forseti, að nú ári síðar, í júní 2012, skulum við vera í sömu ógöngum og sama samráðsleysinu.

Mér var það ljóst vorið 2011 að ekki var þingmeirihluti fyrir stóra frumvarpinu. Þingmenn sem höfðu stutt það, höfðu jafnvel tekið þátt í undirbúningi þess og haft veruleg áhrif á gerð þess, fóru að tala gegn því og það jafnvel þó að viðkomandi þingflokkar hefðu samþykkt málið út úr sínum þingflokkum, að vísu einhverjir með fyrirvara. Það varð auðvitað úr að þetta frumvarp hlaut ekki afgreiðslu á vorþingi 2011, en litla frumvarpið var samþykkt með nokkrum breytingum, m.a. aukningu í strandveiðum og byggðatengingum. Kom þá litla frumvarpið í góðar þarfir þó að ekki hefði gengið vel að koma því í gegn.

Frá júní til september 2011 hafði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis forræði yfir málinu. Það var á forræði þingsins. Frumvarpið hafði verið sent til umsagnar og barst á fjórða tug umsagna. Þær voru afhentar hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jóni Bjarnasyni, í október 2011. Því fylgdi sérstök sameiginleg umsögn þáverandi formanns og varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Í þeirri umsögn var þetta stóra frumvarp talið ónothæft. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, hv. formaður nefndarinnar, töldu frumvarpið ónothæft og lögðu til að þær fengju sjálfar það verkefni að semja nýtt frumvarp. Þær hafa væntanlega talið sig hæfastar til að klára það verkefni. Það gerðist að vísu ekki en taka ber fram að fyrrgreindir hv. þingmenn voru meðal þeirra sex sem höndluðu með frumvarpið allt frá haustinu 2010. Á þessum tíma hafði frumvarpið fyrst verið á forræði stóru nefndarinnar, frá júní/júlí 2009 til hausts 2010, síðan á forræði þingmannanefndarinnar og loks á forræði hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, var ekki ráðandi í því ferli.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, komu þessar umsagnir til ráðuneytisins í október 2011. Langflestar umsagnirnar sem bárust um það voru neikvæðar en út frá mismunandi sjónarmiðum. Farið var yfir þessar athugasemdir og umsagnir í ráðuneytinu í október og nóvember 2011. Fékk ráðherra meðal annars til sín þrjá aðila ásamt starfsmanni ráðuneytisins til að fara í gegnum málið í heild og gera tillögur að frumvarpi til breytinga á núgildandi lögum sem tækju mið af skýrslu vinnuhópsins, frumvarpinu frá vorinu 2011 og þeim umsögnum sem fyrir lágu. Vinnuhópurinn fékk algjörlega frjálsar hendur frá ráðherra og vann að tillögunum í fjórar vikur. Þessi hópur ákvað strax að taka að sér það vanþakkláta hlutverk að feta einstigið milli hinna ólíku sjónarmiða þótt hann vissi að enginn yrði ánægður, frekar en fyrri daginn ef til vill, en hópurinn taldi mögulegt að smíða grunnskjal sem hægt yrði að kynna sem drög og leggja fram á netinu til umsagnar og athugasemda frá hagsmunaaðilum og almenningi.

Eftir sjö vikna vinnu í ráðuneytinu þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fór í fyrsta skipti með málið einn, hv. þm. Jón Bjarnason, kynnti hann vinnu hópsins í ríkisstjórn 15. nóvember með þeim orðum að hann mundi kynna vinnuna út á við, í þingflokkunum og meðal hagsmunaaðila og almennings. Hann taldi afar mikilvægt að opna málið með hliðsjón af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og orðum í samstarfsyfirlýsingunni um gagnsæi og lýðræðisumbætur, fá fram umræðu í þeirri von að unnt yrði að leysa málið án ofbeldis, leysa það með samkomulagi. Vinnuhópurinn mælti eindregið með þessu. Eftir að hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason hafði kynnt málið í ríkisstjórn lagði hann þessi drög til umræðu og athugasemda fyrir hagsmunaaðila og almenning á netinu.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar voru ósammála þessari kynningu og satt best að segja vakti það mikla undrun mína á þeim tíma að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir skyldi fullyrða að þessi vinnubrögð hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væru óboðleg eins og hún orðaði það. Það að fara eftir samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var allt í einu orðið óboðlegt. Málinu var sem sagt vísað í lokaðan hóp ráðherra, fyrst tveggja ráðherra, svokallaðra fagráðherra, til að fara yfir skjöl málsins og þeir voru að því fram undir áramótin, allan desember. Ég hef ekkert séð koma út úr þeirri vinnu. Síðan tók hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, við málinu í janúar. Hann hafði lýst því yfir í október eða nóvember 2011 að það mundi ekki taka hann nema þrjár vikur að afgreiða málið en það tók hann samt þrjá mánuði.

Því var síðan haldið fram að vinnubrögð Jóns Bjarnasonar hefðu verið óboðleg, og ekki bara það heldur var hann jafnframt sakaður um að hafa tafið framgang málsins. Hann var einn með forræði þess í sjö vikur, í október og nóvember 2011, og hann var gagnrýndur harkalega. Það má kannski segja að mér hafi sárnað það mest í pólitíkinni að svo virðist sem ýmsir þingmenn ríkisstjórnarinnar hafi hreinlega haft veiðileyfi á hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með ómálefnalegri gagnrýni á hann. Það urðu mér enn meiri vonbrigði að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skyldi aldrei taka upp hanskann fyrir hann.

Þetta er saga málsins og eflaust mætti rekja hana lengra og ítarlegar en ræðutími minn gefur ekki tækifæri til þess. Það var vert og þarft og nauðsynlegt að koma þessari sögu á framfæri svo hún birtist í þingtíðindum. Menn ættu svo að spyrja sig hvort frammistaða ríkisstjórnarinnar sé boðleg, í anda leiðarljóss vegferðarinnar í breytingum á sjávarútvegi. Menn lögðu ríka áherslu á sátt, samræður, gagnsæi — en, nei, því miður gekk það ekki eftir. Enn er jafnmikilvægt að vinna sig til sátta í málinu. Ég hef bent á sáttatillögu sem gengur út á það að ná samkomulagi um að afgreiða hækkað veiðigjald fyrir næsta fiskveiðiár og skipa síðan nefnd sem færi í saumana á þessu faglega og fræðilega, mæti forsendur og hugsanlegar afleiðingar. Þetta er ekki bara spurning um að taka 14 eða 15 milljarða tekjur ef þær eru teknar úr vasa sjómanna og landverkafólks eða úr sjóðum sveitarfélaganna. Þá er bara verið að færa úr einum vasa í annan, það skilar ekki því sem við viljum, að fá arð af þessari auðlind og nýta hann í þágu þjóðfélagsins.

Því miður er niðurstaðan sú, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að gjáin milli aðila hefur ekki verið breiðari og dýpri en nú, og tala ég þá út frá minni reynslu. Allir aðilar sem ég hef átt tal við og allir sem sendu inn umsagnir um frumvarpið kvarta undan því að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi ekki haft samráð, ekki talað við sig við gerð þessa frumvarps frá því í janúar á þessu ári þar til það var lagt fram. Járn í járn, því miður. Sjaldan veldur einn þegar tveir deila, segi ég aftur.

Frú forseti. Ég er þess fullviss að hægt er að ná viðunandi málamiðlun. Þá hef ég til hliðsjónar þá reynslu sem ég hef haft af þessum málaflokki, m.a. sem fulltrúi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd frá árinu 2007 og formaður hennar frá maí/júní 2009 til miðs marsmánaðar 2011. Það er hægt að ná málamiðlun með því að fara faglega og fræðilega í málið, skoða það frá öllum hliðum og meta afleiðingar þess. Það er hægt að ná málamiðlun sem ég tel viðunandi fyrir sjávarbyggðir, sjómenn og landverkafólk. Það er mjög mikið (Forseti hringir.) í húfi fyrir þessa aðila.



[16:11]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ræðu hans. Hann byrjaði á því að kynna breytingartillögu við frumvarp til laga um veiðigjöld sem mig langar að spyrja nánar út í. Þar leggur hann til að tekjum af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs verði ekki ráðstafað öllum í ríkissjóð heldur verði þar um þrískiptingu að ræða, þ.e. að 50% renni í ríkissjóð, 30% renni til þess sveitarfélags þar sem skip er skráð og 20% renni í AVS rannsóknarsjóð sem ætlað er að auka verðmæti sjávarfangs.

Það er hliðstætt aðferðafræði sem var í frumvarpi hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar sem var gagnrýnt mjög af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á þeim forsendum að þar væri um að ræða auðlindagjald fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar allrar þjóðarinnar. Spurning mín er sú hvort ekki sé eðlilegt að þessir fjármunir renni í þann eina sjóð sem þjóðin á sameiginlega og vissulega gætt að því í úthlutun fjármunanna að þar sé fullt og gott jafnræði milli einstakra byggðarlaga, til dæmis milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar.

Sömuleiðis varðandi AVS rannsóknarsjóð, hann hefur einmitt verið gagnrýndur nokkuð fyrir að þar sé ekki fylgt sömu sjónarmiðum og faglegum kröfum um samkeppni milli bestu rannsóknartillagnanna eins og til dæmis Rannsóknarsjóður og Tækniþróunarsjóður eru reistir á. Það má meðal annars benda á að formaður þess sjóðs til skamms tíma (Forseti hringir.) var jafnframt þingmaður á Alþingi.



[16:14]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla að byrja á að leiðrétta mismæli í andsvari hans. þ.e. að skiptingin er 50:40:10. Þarna urðu mistök, þingskjali var dreift með þessari breytingartillögu með þeim tölum sem hv. þingmaður nefndi sem var síðan leiðrétt.

Já, ég kannast vel við þessa gagnrýni frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og hún var svolítið sérstök á þeim tíma því að fjárlagaskrifstofan á að gefa umsagnir um hvað frumvörp kosta ríkissjóð, hver útgjöldin verða fyrir ríkissjóð. Í þessu tilviki gekk fjárlagaskrifstofan mun lengra, ég hafði ekki séð það áður, og kom fram með lögfræðilegan rökstuðning um grundvöll gjaldsins, sem er ekki hlutverk fjárlagaskrifstofunnar að ég best veit. Ég las þá gagnrýni ítarlega og fór vel yfir hana. Meginhluti gagnrýninnar var að sérlög gætu ekki ákvarðað skattamál. Það varð til þess að í drögum hv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar frá því í nóvember var gerð breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að mæta þessari gagnrýni.

Síðan segir hv. þingmaður: Er ekki eðlilegt að þetta fari fyrst til ríkisins og síðan sé því deilt? Ég gæti fallist á allt slíkt ef það væri trygging fyrir því að því væri deilt á rétta staði, að sveitarfélögin og rannsóknarsjóðurinn nytu þess. Ég hef enga tryggingu fyrir því, hvorki í þessu frumvarpi né í greinargerð með því. Varðandi AVS mun ég svara því í seinna svari mínu þar sem ræðutíma mínum er lokið að sinni.



[16:16]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans. Mig langar að víkja að meginatriði þessa frumvarps sem er skiptingin á auðlindaarðinum milli þjóðarinnar annars vegar og útgerðarinnar hins vegar. Við höfum dæmi um það úr fortíðinni að skiptingin hefur verið með hreinum endemum og lengst af höfum við séð að 1–2% af auðlindaarðinum hafa runnið til þjóðarinnar, það fór reyndar niður í einungis hálft prósent síðasta árið sem Sjálfstæðisflokkurinn var með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið en 99,5% af auðlindaarðinum varð eftir í greininni, þrátt fyrir að við séum með lög sem kveða á um að eignarhaldið sé hjá þjóðinni. Ég er ekki viss um að nokkur aðili í atvinnustarfsemi á Íslandi mundi sætta sig við það að fá hálft prósent í arð af eigum sínum.

Hver er sanngjörn skipting á auðlindaarðinum að mati hv. þm. Atla Gíslasonar?



[16:17]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurninguna sem ég náði ekki að svara, varðandi áhrif AVS, þá lá ekki fyrir lagagrundvöllur fyrir þann rannsóknarsjóð þar sem markmið og reglugerð var sett um hann. Við sem sátum í þessum starfshópi og ráðuneytið brugðumst við því í október og sömdum drög að frumvarpi um sjóðinn þar sem tekið var á þeim gagnrýnisatriðum sem hv. þingmaður nefndi.

Skipting milli þjóðar og útgerðar er með hreinum endemum. Ég vil skoða upphaf og endi þessa máls, eins og ég hef margítrekað í ræðu minni: Hverjar eru forsendurnar? Hvað kemur út úr þessu veiðigjaldi? Hverjum blæðir? Og fá faglega og fræðilega úttekt á því. Í dag er prósentutalan 13,7%, held ég. Ég treysti mér ekki til að svara því fyrr en ég er búinn að meta allar afleiðingar og sjá öll hliðaráhrifin. Ég bendi bara á: Hvaða áhrif hefur veiðigjaldið á tekjuskatt útgerða? (Forseti hringir.) Það er fullt af slíkum spurningum sem því miður er ósvarað.



[16:18]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það er ekki laust við að maður sé sleginn yfir þeim upplýsingum sem þar komu fram og voru staðfestar því að meðferðin á hv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóni Bjarnasyni þegar hann sat í ríkisstjórn er með slíkum ólíkindum.

Ég tek undir að það var nauðsynlegt að koma þessu heildstætt inn í ræðu í þinginu svo að þetta yrði varðveitt til frambúðar á þingskjölum. Þarna fékk maður heildarmyndina af atburðarásinni sem fór af stað í stríðinu gegn hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Þetta er ekki til eftirbreytni, virðulegi forseti, en sýnir kannski hvernig landinu er stjórnað í dag. Þetta er ekki eina málið sem fær slíka meðferð undir forustu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, en þetta eru mjög alvarlegar upplýsingar og þakka ég þingmanninum aftur fyrir þær. Ég þakka einnig þau ummæli sem hv. þm. Atli Gíslason hafði hér um að svo virtist að ákveðnum þingmönnum stjórnarflokkanna hefði verið gefið veiðileyfi á hv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Mig langar til að leggja spurningu fyrir hv. þingmann af því að hann er lögmaður. Hún varðar þær alvarlegu athugasemdir sem gerðar eru við frumvarpið varðandi það að þar er talið að þetta séu ekki gjöld eins og fram kemur í frumvarpinu og frumvarpstexta, heldur beinn skattur. Hv. þingmaður veit alveg muninn á sköttum og gjöldum, þar er um tvo aðskilda hluti að ræða. Hver er skoðun hv. þingmanns á því að sú skattheimta sem birtist hér sé kölluð gjöld?



[16:21]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara segja að aðförin, eins og ég hef kallað það, að hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur mér orðið hvað mest vonbrigði í pólitík. Ég kann ekki að meta slíkt, ég verð að segja það alveg eins og er.

Stjórnunin í þessu máli og fiskveiðistjórnarfrumvarpinu er ekki samkvæmt málsmeðferð niðurstöðu þingmannanefndarinnar, það er mín eindregna skoðun. Ég hef líka sagt að það eru ákveðin mál, mikilsverð mál, þar sem maður á að leggja allt kapp á að reyna að ná málamiðlun og sátt. Hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur réttilega nefnt stjórnarskrána, hann hefur réttilega nefnt þingsköp, hann hefur réttilega nefnt skipan Stjórnarráðsins. Þessi mál öll hafa verið í uppnámi í vetur og sérstaklega núna í vor. Sama gildir um þau mikilsverðu mál sem hafa gríðarleg áhrif á afkomu landsbyggðarinnar, þau geta haft veruleg áhrif á tekjustofna sveitarfélaga, þetta svokallaða gjald, laun sjómanna, laun fiskverkafólks o.fl. Þetta vil ég allt skoða í þaula.

Það er álit mitt að hér sé um skatt að ræða en ég vil þó taka það skýrt fram að ég hef ekki farið í saumana á því.



[16:22]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Það er svo sannarlega ekki í anda núverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að fara fram með mál í friði. Það hefur margoft sýnt sig, eins og þingmaðurinn fór hér yfir. Ófriðurinn er sífellt valinn þótt friður sé líka í boði. Við skulum ekki gleyma því að sátt hafði náðst í málinu á milli allra flokka á Alþingi, hagsmunaaðila og þeirra sem láta sig sjávarútvegsmál varða, en það var of gott til þess að vera satt fyrir hæstv. forsætisráðherra þannig að það þurfti að sprengja þá sátt í loft upp. Það sat hæstv. forsætisráðherra uppi með þegar haldinn var fleiri hundruð manna mótmælafundur úti á Austurvelli til þess að mótmæla þessari vanhæfu ríkisstjórn.

Þar sem þingmaðurinn var ekki búinn að athuga eða skoða málið hvort þetta væru skattar eða gjöld — það nefnilega er líka galli á frumvarpinu að þetta (Forseti hringir.) frumvarp, verði það að lögum, er á nokkurn hátt (Forseti hringir.) afturvirkt. Er hv. þingmaður þá kannski ekki heldur búinn að skoða það?



[16:23]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég hef ekki skoðað það síðasta sem hv. þingmaður nefndi. Ég sagði að það væru grundvallarmál í þjóðfélaginu og mikilsverð mál sem yrði að vera bærilegt samkomulag um. Ég er ekki að biðja um neitt stórt meirihlutasamkomulag en það nægir ekki að það sé bærilegt samkomulag innan þings heldur verðum við að vera í bærilegri og þokkalegri sátt við þjóðina. Við erum það varla í þessu máli miðað við þá hagsmunaaðila sem ég nefndi fyrst og fremst, sveitarfélög og sjómenn og fiskverkafólk. Það eru mótmæli við þessu og þeim hefur verið svarað með hætti sem ég tel miður, þ.e. að þetta séu sérhagsmunahópar.

Það sem gerist þegar þessi málsmeðferð er valin er að eftir kosningar (Forseti hringir.) tekur ný stjórn við og breytir öllu til baka og svona frumvörp verða oft einnota.



[16:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð nú að viðurkenna, af því að ég hlustaði líka á andsvörin, að mér þótti kómískt að heyra hv. þm. Skúla Helgason gagnrýna breytingartillögu hv. þm. Atla Gíslasonar fyrir að þar ætti tekjustofninn að fara í ákveðin verkefni. Hv. þm. Skúli Helgason er væntanlega búinn að gleyma því að ríkisstjórnin er komin með plagg þar sem búið er að lofa upphæðum í ákveðin verkefni úr þessu frumvarpi. Það er væntanlega vegna einhverrar gleymsku hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem þeir gagnrýna hv. þm. Atla Gíslason á þessum forsendum, fyrir utan það að það er sérkennilegt framsalsvald á skattheimtu þarna þar sem einhverri fræðinganefnd er falið að útfæra hverjir eigi að fá skatt og hverjir ekki. Ég vil spyrja hv. þm. Atla Gíslason, sem þekkir þessa hluti ágætlega, hvort hann telji að það samræmist stjórnarskrá að einhver fræðinganefnd setjist niður og ákveði: Nei, þessi aðili á ekki að fá skatt heldur þessi.

Ég heyrði í hæstv. efnahags- og sjávarútvegsráðherra, og hvað hann er nú ekki, á fundi í Brimshúsinu segja eftirfarandi þegar menn bentu á að þetta kæmi illa niður á fiskveiðum þar sem aflaverðmæti væri lágt: Fræðinganefndin fer bara yfir þetta og tekur þetta út. Hvernig samrýmist það stjórnarskránni að framselja skattheimtu með þessum hætti? Ég vildi gjarnan vita hvað hv. þingmanni finnst um það.



[16:27]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill biðja hv. þingmann um að nota rétt ávörp.



[16:27]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er stórt spurt. Ég hef löngum gagnrýnt hér á þingi og reyndar áður en ég settist á þing það sem ég hef sagt að væri framsal löggjafarvalds til framkvæmdarvaldsins. Það er hluti af þessum pakka. Þegar ég settist á þing og var í stjórnarandstöðu gáfust mér allmörg tækifæri til þess að setja þessa gagnrýni mína fram. Það er vegna þess að í mörgum frumvörpum segir nánast ekkert um framkvæmd eða annað slíkt heldur bara: Þetta skal ákveðið í (Gripið fram í.) reglugerð. Og þegar fara á að setja einhvern hóp upp til að vega og meta það þar fyrir utan er maður kominn langt inn á gráa svæðið eða það dökka, jafnvel dökksvart. Það stenst ekki.

Það segir í stjórnarskránni að mæla eigi fyrir skattlagningu í lögum, í lögum skuli það ákveðið. Alla óvissu um það á auðvitað að túlka skattgreiðandanum í hag og vera með eitthvert mat á því hver greiði og hver greiði ekki. Það er ávísun á að mál falli fyrir dómstólum að vera með óljósar skattlagningarheimildir. Það eru mörg dæmi þess. Menn byrja á því að finna hvar vafinn á að liggja og ef vafi leikur á þá á að ákveða hver á að njóta góðs af vafanum. Í þessu tilviki er skattlagning íþyngjandi eins og mörg önnur boð og bönn, ekki það að ég mæli gegn skatti og hv. þingmaður gerir það eflaust ekki, en skattlagningin er íþyngjandi, þá túlkar maður reglugerðir, lög og annað bak við það, þröngt og vafa um túlkun skattgreiðandanum í hag.



[16:29]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti mjög áhugavert að heyra hv. þm. Atla Gíslason, sem þekkir vel til vinnubragða á stjórnarheimilinu, ræða vinnubrögðin í þessu máli. Ég hef skoðað þetta mál og hlustað á málflutning hv. stjórnarliða. Ég spyr: Hvernig hvarflar það að hv. stjórnarliðum eftir alla þessa meðgöngu að kanna ekki áhrifin á heimilin, því að við erum að tala hér um efnahagsmál? Þetta er grundvöllur atvinnulífs okkar. Jafnvel þó að við séum með fleiri egg í körfunni en áður er sjávarútvegurinn samt sem áður grundvöllurinn.

Hér koma menn fram með innantóm slagorð, þeir eru búnir að fara í allt þetta ferli, eins og lýst hefur verið og er ekki til fyrirmyndar, og eru ekki búnir að skoða áhrifin á heimilin. Menn hafa ekki skoðað áhrifin á bankana. Skiptir það máli? Já, reyndar, menn ætla að ná í peninga með því að selja bankana en þeir hafa ekki kannað (Forseti hringir.) hvaða áhrif það hefur á efnahag banka og þar af leiðandi söluverðmætið. (Forseti hringir.) Hvernig er þetta hægt, virðulegi forseti?



[16:30]
Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég batt vonir við það að þegar skýrsla þingmannanefndarinnar kæmi út að farið yrði eftir henni um málsmeðferð og annað. Fyrri málsmeðferð var gagnrýnd og við höfum öll tekið undir þá gagnrýni og við samþykktum öll skýrslu þingmannanefndarinnar, við tókum undir það og vildum bæta vinnubrögðin. Því miður hefur það ekki gerst, það er skoðun mín, og það hefur hallað á verri veg vegna þess að hef ég upplifað það bæði í stjórnarandstöðu og stjórn til þessa að það væri eitt erfitt mál undir. Ég minnist fjölmiðlamálsins, það var mjög erfitt mál sem var undir í stjórnarandstöðunni, en nú eru þau mjög mörg. Hvar liggur þá ábyrgðin?

Eftir höfðinu dansa limirnir, segir máltækið. Auðvitað liggur ábyrgðin hjá forustu ríkisstjórnarinnar. Maður verður að spyrja sig varðandi þetta veiðigjald: Hver borgar brúsann þegar upp er staðið?



[16:32]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að fjalla aðeins almennt um fiskveiðistjórnarmál og sjávarútvegsmál, en meginhluta ræðutímans ætla ég að nýta til að fjalla um þetta tiltekna frumvarp og þær athugasemdir og álitamál sem þar eru uppi og mér finnst vert að skoða nánar.

Þessi umræða hefur að sjálfsögðu verið löng. Við erum að tala um mikilvæg mál fyrir íslenskt samfélag og í sjálfu sér er eðlilegt að menn vilji ræða það í þaula. En ég held líka að í slíkri umræðu sé ágætt að velta fyrir sér og ræða það hversu mikilvægt það er að vera með gott fiskveiðistjórnarkerfi, vera með skynsamlega nýtingu auðlindarinnar og haga málum þannig að þjóðin fái sem mest út úr nýtingu auðlindarinnar. Tekist hefur verið á um það hér í þessum sölum og úti í þjóðfélaginu um langa hríð hvort það kerfi sem við höfum núna sé besta kerfið eða hvort gera þurfi á því breytingar og þá hvaða breytingar. Auðvitað er ekkert kerfi fullkomið en mér finnst mikilvægt í þessu að líta á kerfi sem stýrir stjórn fiskveiða út frá heildarhagsmunum, út frá almannahagsmunum.

Ég hafna því þegar því er haldið fram að þau sjónarmið sem ég hef uppi í þessu máli séu vörðuð af sérhagsmunum. Þvert á móti tel ég að með því að hafa fiskveiðistjórnarkerfi þar sem tryggð er skynsamleg nýting auðlindarinnar, þar sem fiskstofnar hafa færi á því að vaxa og endurnýja sig, þar sem veiðarnar ganga vel, þar sem fyrirtækin í sjávarútvegi ganga vel og skila þar með arði til þjóðarinnar, þá séum við með kerfi sem í sjálfu sér er gott að byggja á.

Í nokkra áratugi hefur verið rætt um það hvort tryggja þurfi betur með einhverjum hætti þátt þjóðarinnar í fiskveiðistjórnarkerfinu. Í upphafi þessarar aldar var tekist töluvert á um það hvort ástæða væri til þess, hvort kominn væri tími til þess eða hvort eðlilegt væri að lagt yrði á einhvers konar auðlindagjald. Skiptar skoðanir voru um það á þeim tíma hvort slíkt væri nauðsynlegt, hvort kerfið væri þannig þá að slíkt þyrfti ekki, hvort sá arður sem til þjóðarinnar færi í formi skatttekna og heilbrigðs viðskiptalífs dygði til að mæta þeim þörfum eða hvort hægt væri með einhverjum hætti að bæta þar í með því að setja á sérstakt auðlindagjald.

Niðurstaðan varð síðan sú að það var gert. Sett var á veiðigjald í upphafi aldarinnar og síðan hefur það verið þróað áfram. Hugmyndin var sú, og hefur held ég verið allar götur síðan, að auðlindagjald ætti að vera hóflegt fyrir útgerðina, fyrir útvegsmenn, og skila auknum tekjum af auðlindinni inn í þjóðarbúið.

Auðvitað þarf að greina það á hverju þetta gjald á að byggjast og við höfum hér verið að takast á um auðlindarentuna. Í þessu frumvarpi til dæmis og í skýrslu sem því fylgir er fjallað nokkuð um skattlagningu á auðlindarentu. Það er nefnilega svo að það kemur að því að þetta andlag geti orðið til þess að það breytist í skatt, og þegar það er þarf að líta til þess hvernig skattheimtu er háttað og uppfylla þarf ákveðin skilyrði um skattheimtu. Síðan eru reyndar önnur álitaefni þegar við komum að öðrum gjöldum sem ekki uppfylla það að vera skattar, eins og þjónustugjöld og slíkir hlutir ef við förum aðeins út í það, þá erum við að tala um að það gjald sem reitt er af hendi eigi að standa undir tiltekinni þjónustu og það lýtur ekki sömu lögmálum og væri um skattheimtu er að ræða.

Ég tel upphafspunktinn vera þann þegar kemur að sjávarútvegsmálum að ræða þau út frá almannahagsmunum. Við getum síðan deilt um það, og eins og ég sagði áðan hefur verið deilt um það hvernig þeir almannahagsmunir séu best tryggðir. Mín skoðun er sú að það sé gert með því að koma í veg fyrir ofveiði á stofnunum, með því að koma í veg fyrir offjárfestingu í greininni og með því að fyrirtækin séu heilbrigð og skili tekjum til samfélagsins. Það þýðir auðvitað að þau þurfa þá að geta skilað slíkum tekjum og það sé ásættanlegt að fyrirtækjunum gangi vel af því að þannig skilast tekjur inn í samfélagið. Það getur ekki verið svo að gengið sé svo harkalega gagnvart einni grein að möguleikar hennar til að fjárfesta raskist og að möguleikar hennar til að vaxa og dafna, kaupa ný veiðarfæri og skip raskist. Það hefur þær afleiðingar seinna að koma niður á ábatanum fyrir þjóðfélagið.

Þetta vildi ég segja í upphafi, ég hef reyndar sagt áður hér í ræðustól hversu miklu máli það skiptir í mínum huga að litið sé á fiskveiðistjórnarkerfið með þessu móti. Reyndar á það svo sem við um allar greinar að sjálfsögðu, en ekki síst þessa grein af því að um svo mikið grundvallarmál er að ræða fyrir okkur Íslendinga að það skiptir máli fyrir okkur að kerfið sé með þeim hætti að ábatinn af því verði ásættanlegur.

Ég vil síðan ræða um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Mér þykir dálítið vont að fjalla um málið án þess að hafa almennilegan skilning á því hvernig fiskveiðistjórnarkerfinu verði háttað til lengri tíma litið gangi þær hugmyndir eftir sem er að finna í hinu málinu, þ.e. um stjórn fiskveiða. Ákveðnar röksemdir kunna að vera fyrir því að hafa þessi mál aðskilin, ég skal ekkert um það segja. En hitt er annað mál að það er töluvert erfitt að gera sér grein fyrir afleiðingum þessa frumvarps með þeirri miklu skattheimtu sem mér finnst það fela í sér, sem ég held að sé töluvert þung fyrir greinina, og á sama tíma horfast í augu við það að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru geti raskað umhverfi hennar til lengri tíma litið og þar með standast ekki þær áætlanir sem hér eru uppi um tök greinarinnar á því að standa undir hækkuðu auðlindagjaldi.

Samkvæmt umsögnum um frumvarpið er nú þegar allt of langt gengið í álagningu veiðigjalda. Það sjáum við af þeim umsögnum sem fyrir liggja í málinu, það sjáum við til dæmis af hálfu þeirra sérfræðinga, hagfræðinga sem komu fyrir nefndina og unnu álit fyrir hana. Það sjáum við líka af áliti Landsbanka Íslands og má reyndar geta þess að ef þær tölur eru réttar sem þar koma fram mundi bankinn verða af 31 milljarði vegna þessara mála. Það má alveg setja það í samhengi við þau veiðigjöld sem stjórnvöld telja sig geta fengið út úr þessari grein og velt því fyrir sér hvort við séum ekki að tala um sama eigandann ef við getum orðað það þannig, sama ríkiskassann. Hann ætlar sem sagt að sækja verulega skatta til sjávarútvegsins en á sama tíma rýra gildi eignar sinnar í Landsbankanum. Mér finnst það nokkuð sem gengur frekar illa saman í mínu höfði.

Eftir því hefur verið tekið og um það rætt í þessum umræðum og kemur fram í nefndarálitum 1. minni hluta og 2. minni hluta um þetta mál að þegar þeir aðilar sem komu fyrir nefndina — ég hygg að það hafi komið fram hjá 2. minni hluta atvinnuveganefndar, hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni — og skiluðu umsögnum sínum hafi það verið í fyrsta sinn í ferli málsins sem umsagnar eða álits þeirra var leitað, það hafi sem sagt ekki verið gert á vegum ráðuneytisins á fyrri stigum málsins. Ég hygg að það sé nú mjög gagnrýni vert að ekki hafi verið búið að tryggja aðkomu aðila fyrr að þessu ferli heldur hafi það verið gert fyrst á vegum þingnefndarinnar.

Þá vakna spurningar um þau álit sem liggja fyrir atvinnuveganefnd sem má finna í gögnum málsins og snúa fyrst og fremst að lagalegum þáttum þess. Ef það er ætlun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og meiri hluta atvinnuveganefndar að fá svona mál samþykkt hér á Alþingi og sé það einbeittur vilji ríkisstjórnarflokkanna að leggja verulega auknar byrðar á sjávarútveginn í hækkun veiðileyfagjalda, þá skulum við a.m.k. hafa það þannig að búið sé að kanna hver áhrifin verði og hvort rétt sé á málum haldið, hvort rétt sé gert, hvort hinn lagalegi grundvöllur í frumvarpinu sé traustur. Ég vil beina því til hv. atvinnuveganefndar í fullri vinsemd að líta á þessar umsagnir mun alvarlegri augum en mér finnst hún hafa gert ef marka má álit meiri hluta nefndarinnar.

Hér er að finna umsagnir frá sérfræðingum á sviði lögfræði sem hafa af því verulegar áhyggjur að ekki sé nægilega vel gengið frá gjaldtökugrunninum, og þá er ég ekki að tala um upphæð gjaldsins, það er efni í aðra ræðu, en ég ætla að einbeita mér að þessu atriði. Ég tek það fram, svo að það sé sagt, að í mínum huga er þetta auðvitað allt of hátt gjald. Ég ætla að láta það liggja á milli hluta og einbeita mér heldur að þessu álitamáli sem er hvort hér sé staðið rétt að málum þegar kemur að grundvelli gjaldsins.

Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, virðulegi forseti — það fylgir því nú þegar um svona stórt mál er að ræða að maður er með meira af gögnum í ræðustól en æskilegt væri og þá þarf maður að finna það sem — já, hér kemur það. Fjallað er stuttlega um stjórnskipuleg álitamál í áliti meiri hluta nefndarinnar. Imprað er á þremur atriðum sem finna má sem athugasemdir, til dæmis í áliti frá Bonafide lögmönnum, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi benda lögmannsstofurnar á að lagaheimild til skattlagningar þurfi að vera skýr … Í öðru lagi benda þær á að afturvirk skattlagning sé óheimil … Í þriðja lagi benda þær á að framsal skattlagningarvalds sé óheimilt …“

Þetta eru allt saman þættir sem við þekkjum á sviði lögfræði og skipta verulega miklu máli í þessum efnum. En það sem vekur athygli er að meiri hluti atvinnuveganefndar hafnar nánast öllum þessum athugasemdum lögmannanna án þess að um nógu ríkan rökstuðning fyrir slíku sé að ræða. Ég tel að ekki sé hægt ganga þannig frá málinu að það sé bara afgreitt með öllum þeim athugasemdum sem koma frá lögfræðingunum og málið sé afgreitt með þeim hætti að grunnurinn sé nægilega sterkur og ekki sé ástæða til að athuga það nánar.

Mér finnst það ekki ganga og ég beini þeim eindregnu tilmælum til meiri hluta atvinnuveganefndar að skoða það rækilega milli umræðna hvort þetta standist. Það eru fjöldamörg dæmi í dómasafni Hæstaréttar sem varða skattlagningu og það eru einnig fjöldamörg dæmi um framsal valds í dómasafni Hæstaréttar fyrir utan afturvirkni lagaákvæða. Ég held að til að koma hreinlega í veg fyrir að hér verði mistök í lagasetningu sé það alveg einboðið fyrir meiri hluta atvinnuveganefndar að fara rækilega yfir þessi atriði og kanna það hvort þetta sé gert rétt.

Ég hjó eftir því í andsvari við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, hv. þingmaður sagði að hann hefði löngum haft áhyggjur af framsali reglugerðarvalds í lagasetningu. Ég get tekið undir það með honum, ég hef haft þá skoðun töluvert lengi og það hefur ekkert að gera með sitjandi ríkisstjórn eða fyrri ríkisstjórnir, ég tel að það hafi því miður verið allt of mikið um það að tilteknum þáttum í lagasetningu hafi verið vísað til framkvæmdarvaldsins í reglugerðarákvæðum. Það er ákveðin hætta á ferðum þegar verið er að tala um grundvallarmál, ég er ekki að segja þetta í samhengi við þetta mál heldur einungis benda á það hversu miklu máli það skiptir að ekki sé verið að framselja frá sér grundvallarhlutum.

Í áliti frá Bonafide lögmönnum sem liggur fyrir nefndinni er fjallað stuttlega um veiðileyfafrumvarpið, reyndar er líka verið að fjalla um stóra málið en ekki er ástæða til að ræða það af því að það er ekki til umfjöllunar nú. Þar er vísað til tveggja ákvæða, reyndar er bara vísað í 77. gr. stjórnarskrárinnar en það má reyndar einnig vísa í 40. gr. hennar og það er gert annars staðar í öðru áliti.

Í álitinu segir að veiðigjöldin hafi öll einkenni skattlagningar. Það segir jafnframt að lagaheimild skattlagningar þurfi að vera skýr og ótvíræð. Reikniregla varðandi sérstaka veiðigjaldið sé óljós og matskennd og gjaldstofn afar óskýr. Hér er verið að vísa til tiltekinna ákvæða frumvarpsins, ég er ekki með það hér alveg á hreinu, ég held að það sé 3. gr. sem fjallar um reikniregluna.

Þá er einnig gagnrýnt í álitinu afturvirkni skattlagningar samkvæmt sömu grein stjórnarskrárinnar, í 2. mgr. 77. gr., að það sé ljóst af frumvarpinu að fyrirhugað sé að innheimta skatt á þessu ári á grundvelli upplýsinga um tekjur sem stofnuðust þegar gjaldskylda var ekki til staðar. En samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að byggt sé á gögnum Hagstofunnar sem ekki var aflað í þessum tilgangi og má einnig gagnrýna það og þarf einnig að fara yfir hvort það standist, hvort það séu þær upplýsingar sem hægt er að nýta í þessum tilgangi. Síðan er í þriðja lagi nefnt að óheimilt sé að framselja skattlagningarvald til stjórnvalda.

Allt eru þetta atriði sem við verðum að taka mjög alvarlega. Ítarlegustu umfjöllunina um þessa þætti er að finna í áliti sem kemur frá Lex lögmönnum, það er mjög ítarlegt hvað þetta varðar og jafnframt um ýmis önnur atriði í málinu. Þá eru einnig athugasemdir í þessa veru frá Mörkinni lögmannsstofu og frá Helga Áss Grétarssyni sem er lektor í háskólanum og sérfræðingur á sviði auðlindaréttar.

Ég held að einboðið sé, virðulegi forseti, að taka þurfi þessi tilteknu lagalegu atriði til mjög rækilegrar skoðunar á milli umræðna, alveg án tillits til þess, eins og ég segi, hvað mönnum kann að finnast um það hvernig málið er að öðru leyti í pottinn búið. Það er bara ekki hægt að afgreiða málið þegar svo alvarlegar athugasemdir um þennan þátt málsins liggja fyrir og að ekki sé lengra gengið í meirihlutaálitinu í að rökstyðja það af hverju því hefur ekki verið breytt.

Þær breytingartillögur sem liggja fyrir nefndinni við þetta mál snúa að sjálfsögðu að ýmsum þáttum þess, þær snúa meðal annars að þessari veiðigjaldsnefnd sem frumvarpið fjallar um. Og þar er verið að bæta í verkefni nefndarinnar frá upphaflegu frumvarpi. Það þýðir auðvitað að enn frekari ástæða er til að meta það hvort of langt sé gengið í framsali valds. Samkvæmt breytingartillögu er gert ráð fyrir að:

„Veiðigjaldsnefnd skal viðhafa viðvarandi könnun á því hvort haga megi öflun upplýsinga og úrvinnslu gagna þannig að sérgreina megi útreikning rentu frekar en gert er ráð fyrir í lögum þessum, t.d. eftir fisktegundum, útgerðarformum eða tegund aflaheimilda, og gera tillögur til ráðherra um breytingar á lögum, reglum eða þjónustusamningum telji hún tilefni til.“

Að mínu áliti er þegar um töluvert framsal að ræða í frumvarpinu til veiðigjaldsnefndar. Það er þegar um verulegt framsal að ræða og mér finnst meiri hlutinn vera að ganga lengra hvað þetta varðar og ég held, frú forseti, að fara þurfi rækilega yfir það.

Mig langar líka til að fá upplýsingar um það, ég vonast til þess að ég fái skýringar á því einhvern tíma í umræðunni eða þá milli umræðna, hvort það hafi verið kannað af hálfu ráðuneytisins í vinnslu málsins þeir lagalegu þættir sem hér eru til umfjöllunar. Það hefði nefnilega verið hægt að koma í veg fyrir allar þessar alvarlegu athugasemdir ef menn hefðu unnið þetta í ráðuneytinu frá grunni. Ég hef áhuga á að vita hvort slíkir sérfræðingar voru fengnir til þess.

Í frumvarpinu er talað um nefnd ráðherra, og skýrsla nefndarinnar liggur hérna fyrir, um skattlagningu í sjávarútvegi. Þar sátu tveir menn og ein kona. Ég veit ekki hvort þar er um sérfræðinga í stjórnskipunarrétti að ræða enda skiptir það engu máli, hægt er að leita álits hjá þeim sem gerst þekkja til í málum á hvaða stigi sem er. Ég tel að það hefði verið mjög til bóta ef það hefði verið gert áður en frumvarpið var lagt fram. Og hafi það verið gert vil ég gjarnan fá að vita hvort einhver gögn liggi fyrir um það.

Mig langar til að vita hvort einhver lagaleg gögn séu fyrirliggjandi í aðra átt en finna má í fylgiskjölum með málinu eftir vinnslu nefndarinnar, hvort aðrir lögfræðingar eða sérfræðingar hafi haldið því fram fyrir nefndinni að það hafi verið óhætt, ég ætla ekki að kveða sterkar að orði en það, að ganga þannig frá málinu að það standist þau ákvæði er varða skýrleika skattlagningar.

Það má nefnilega líka ráða það af skýrslu þeirrar nefndar sem ég er að vísa til að hún talar um þetta mál sem skatt, þótt hér sé töluvert talað um auðlindarentu, þá er orðið skattur notað yfir þetta eða skattlagning auðlindarentu. Það kemur fram á nokkrum stöðum í skýrslunni og mér finnst það renna frekari stoðum undir það, og er þá hægt að fá skýringar á því, að fara þurfi sérstaklega varlega þegar kemur að þessum atriðum í meðferð málsins.

Ég er að fara yfir tæknileg atriði sem varða framsetningu málsins. Hægt væri að halda margar ræður, ég gæti haldið margar ræður og fyrirlestra um þá pólitík sem liggur í málinu og hvernig best væri að halda á því til lengri tíma, en vilji menn fara þá leið sem í frumvarpinu felst bið ég nefndina enn og aftur í fullri vinsemd að fara vel yfir þessa þætti.

Síðan þegar kemur að upphæð gjaldsins hef ég ekki fengið skýringar á því, það getur vel verið að þær berist nú síðar í umræðunni, hvernig standi á vilja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hækka gjaldið svona mikið eins og gert var með framlagningu frumvarpsins miðað við það áform sem áður hafði verið uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kom að veiðileyfagjaldi. Nú erum við að tala um það að um 4,5 milljarðar kr. eru innheimtir í veiðileyfagjald. Til viðbótar greiðir greinin auðvitað skatta og ég hygg að þar séum við að tala um 5 milljarða kr. í tekjuskatt. Greinin greiðir því núna um 10 milljarða kr. í samanlögð gjöld. Við þurfum að gæta að því, Íslendingar, þegar við ákveðum að leggja skatt á tilteknar atvinnugreinar eða eins og meiri hlutinn hér heldur fram á tilteknar auðlindir — reyndar hefur það verið rætt hér á fyrri árum og hefur komið fram í skýrslum sem skrifaðar hafa verið að auðlindarentur mætti leggja á fleiri auðlindir, ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því í þessu máli — að gæta þurfi líka að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.

Íslendingum hefur nokkuð verið hrósað fyrir fiskveiðistjórnarkerfi okkar, okkur hefur nokkuð verið hrósað á erlendri grund — og það er nú svolítið skemmtilegt þegar það gerist — fyrir að vel hafi tekist til með veiðarnar, að okkur hafi tekist að koma í veg fyrir óhagkvæmni í sjávarútvegi og að okkur hafi tekist að koma í veg fyrir stórkostlega ríkisstyrki í sjávarútvegi, sem ég vona svo sannarlega að muni ekki vera þörf fyrir að taka upp hér. Við þurfum þá, þegar við lítum til þessara þátta, að gæta að því að íslenskur sjávarútvegur er auðvitað í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum og það er ekki hægt að leggja svo þungar byrðar á hann að það raski þeirri samkeppnisstöðu. Við verðum alltaf að gæta að því þegar við horfum til slíkra hluta að ganga ekki svo langt fram að það raski samkeppnisstöðu.

Ég er ein af þeim sem telja eðlilegt að útgerðin greiði veiðileyfagjöld, ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt. En ég vil líka að það sé hóflegt, að það raski ekki samkeppnisstöðu og það verði ekki til þess að draga úr getu greinarinnar til að fjárfesta og endurnýja sig. Mér finnst það hljóti að vera útgangspunktur. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að við séum sammála um að svo sé. Þegar fyrir liggja umsagnir um þetta mál, í sumum tilvikum smitast umsagnirnar reyndar yfir í hitt málið, þá er því haldið fram af umsagnaraðilum — ég tek fram að ég sit ekki í atvinnuveganefnd og hef ekki getað spurt spurninga þar — og menn hafa sett fram þá skoðun að svo mikil skattheimta muni hafa mjög alvarleg áhrif á stóran hluta útgerðarinnar. Menn hafa verið að mæta því með einhverjum hætti í breytingartillögum, en ég hygg þó, miðað við að hér virðist vera um aðlögun að ræða og gjaldið hækki á næstu árum, að engu að síður sé of langt gengið með þeirri aðferð sem lögð er til.

Í frumvarpi til fjárlaga og reyndar í fjárlögunum sjálfum er gert ráð fyrir um 11 milljörðum í tekjur af veiðileyfagjaldi. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom síðan með frumvarp sem var með mun hærri tölu og enn, þrátt fyrir breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar, erum við hér með tölu sem er langt umfram það sem var í fjárlögunum. Ég held að við verðum að gæta okkar einstaklega vel þegar að þessu kemur. Það er ekki augljóst, hæstv. forseti, og það þekkjum við af reynslunni, að greinum gangi alltaf vel. Ef því er síðan svarað til að það sé breytileg reikniregla í gjaldinu vil ég benda á það að með því að kippa stoðunum undan eðli kerfa getum við lent í þeim vanda sem við lentum í á síðustu öld. Það tók okkur langan tíma að komast út úr honum og olli hér miklum deilum í þjóðfélaginu og í þingsölum og víðar. Menn tókust verulega á um það þegar kvótakerfið var sett á og þegar framsalið var sett á o.s.frv. og ég ætla ekkert að rekja það hvernig á því var haldið.

Það kom hins vegar fram og ég kynnti mér það nú nýlega í þeim þingræðum sem haldnar voru þegar framsalið var lagt á að þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, sagði það beinlínis í þingræðum að það mundi hafa þær afleiðingar að fyrirtækin mundu væntanlega stækka og það hefði auðvitað byggðarlegar afleiðingar líka. Það var því gert með það fyrir augum að auka hagkvæmni í sjávarútveginum. Það var gert með það fyrir augum, eins og ég vil líta á þetta, að gæta að almannahagsmunum, gæta að heildarhagsmunum, og þannig ber okkur skylda til að líta á þetta mál. Þess vegna tel ég að afraksturinn af veiðileyfagjaldinu, sem á að vera hóflegt, eigi að renna í ríkissjóð. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ákveða eigi fyrir fram hvert sá arður á að fara. Ég tel að hann eigi að renna í ríkissjóð og það sé síðan ríkissjóðs að ákveða það hvernig mæta skuli einstökum þáttum í þeim ákvörðunum sem hann tekur á vettvangi fjárlaganna og annars staðar í ríkisrekstrinum. Ég tel það hina eðlilegu gjörð í þessum efnum, það er mín skoðun.

Gætum okkar þegar við förum í þessi mikilvægu mál. Ég verð líka að segja það, hæstv. forseti, af því að mikið er talað um deilur í þinginu í grundvallarmálum, það eru svo sem engar fréttir að við höfum um áratugaskeið tekist á um fiskveiðistjórnarmál í þinginu og við höfum tekist á um þau frá öllum endum ef svo má segja. Einnig hefur verið tekist á um þau á vettvangi stjórnarskrárinnar. Þótt ekki hafi tekist fram til þessa að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá, þá hygg ég nú að um það standi ekki lengur ágreiningur í þingsölum. Ég hygg að það sé á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka, a.m.k. get ég sagt að það hefur lengi verið stefna Sjálfstæðisflokksins að slíkt sé gert og ég hugsa að við þurfum ekki að vera í miklum ágreiningi um það.

Þótt við höfum verið í þessum mikla ágreiningi í sjávarútvegsmálum allan þennan tíma held ég samt sem áður að það sé vont fyrir okkur Íslendinga að vera stöðugt að rífast um grundvallarmál sem skipta okkur svo miklu. Ég held að mjög æskilegt væri fyrir okkur að ná einhvers konar samkomulagi um nokkur grundvallarmál. Ég hef ekkert svar við því núna, hæstv. forseti, hvernig slíku samkomulagi á að ná, ég segi það bara hreint út, ég hef ekki svar við því. En grundvallarþættir í rekstri auðlinda þjóðarinnar, einhvers konar sátt og samkomulag um afnám hafta og þetta grundvallarmál sem varðar umgjörð þjóðfélags okkar, ég held að töluvert sé á sig leggjandi að reyna að ná einhvers konar lágmarkssamkomulagi um það.

Það hefur verið gert á vettvangi sjávarútvegsins á þessu kjörtímabili, það verður að segja það hreint út. Það var gert í þeirri sáttanefnd sem skipuð var og komst að nokkuð sameiginlegri niðurstöðu. Þar gáfu menn eftir og ég býst við að ekki hafi allir verið ánægðir með þær niðurstöður, ekki í mínum flokki, ekki í öðrum flokkum heldur. Það varð samkomulag, menn komust að ákveðnu samkomulagi og skrifuðu undir það. En það hefði verið mun betra, hæstv. forseti, ef við hefðum einhvern veginn getað haldið áfram á þeim nótum. Í stóra málinu sýnist mér að töluvert sé vikið frá þeim niðurstöðum sáttanefndarinnar sem var að finna í því áliti en ég held að betra væri fyrir okkur ef við reyndum að halda áfram að ná einhvers konar lágmarkssamkomulagi.

Þegar við lítum á þetta mál enn og aftur liggur það fyrir að alvarlegar athugasemdir hafa komið fram af hálfu lögfræðinga um hvort það standist hvernig gjaldið er sett fram í frumvarpinu. Ég tel að því hafi ekki verið svarað, alla vega fyrir minn hatt finnst mér þær skýringar í meirihlutaálitinu ekki nægjanlegar, mér finnst ekki nóg að menn segi bara að þetta sé í lagi. Ég tel að menn þurfi að bregðast einhvern veginn við þeim álitaefnum sem þarna koma fram. Ég tel einnig að nauðsynlegt sé að menn fari rækilega yfir þær breytingartillögur sem hér eru kynntar, að sérfræðingar séu líka fengnir til að fara rækilega yfir þær. Það á einnig við um þær hugleiðingar sem hafa verið um hugsanlegar breytingar á málum í heild, að mjög brýnt er að menn fari rækilega yfir þær.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki talað um þær umsagnir sem koma frá einstökum útgerðum eða hagsmunaaðilum, en ég hef einbeitt mér að þeim álitamálum sem sérfræðingar hafa sett fram. Ég hef heyrt það í þessari umræðu, ég hef fylgst náið með henni, að lögmenn hafi verið að vinna fyrir tiltekna aðila. Ég vil bara hafna því. Þegar menn setja fram þykkar álitsgerðir og leggja fram rök á borðið þá er ekki hægt að afgreiða það þannig að þeir séu að vinna fyrir tiltekna aðila, það er bara ekki hægt. Það er alþekkt að lögmenn vinna að sjálfsögðu fyrir umbjóðendur sína en hér erum við að tala um álitamál sem snúa að stjórnskipun, við erum að tala um framsal valds og við erum að tala um grundvallarþætti sem eru settir fram af góðum vilja og til að bæta málin. Mér finnst því æskilegt, hæstv. forseti, að atvinnuveganefnd skoði þetta nákvæmlega.

Ég vil líka segja að miðað við þær umsagnir sem liggja fyrir í málinu — það er frekar erfitt að finna umsagnir sem hrósa þessu máli í þeim pappírum sem ég er með undir höndum — þá sé ég nú enga ástæðu til þess að fara að hraða afgreiðslu málsins. Ég held að það þurfi að fara mun betur yfir þetta. Ég held að það þurfi líka að fá botn í það hvort það sé virkilega vilji meiri hlutans hér að afgreiða þetta stóra mál. Ég hefði viljað að við gætum náð samkomulagi um að láta það liggja, það er bara hreint ekki tilbúið til neinnar meðferðar. Það situr enn þá í atvinnuveganefnd og við hér, aðrir þingmenn, höfum takmarkaðan aðgang að því sem þar fer fram og það mál kom allt of seint inn í þingið. Það hefur hlotið verulega mikla gagnrýni, og mér finnst ekki hægt, hæstv. forseti — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti biður um að hv. þingmenn hafi hljóð í hliðarsal.)

Já, þeir geta líka komið hingað inn í salinn og hlustað á það sem hér fer fram.

Hæstv. forseti. Nú missti ég aðeins taktinn. Ég held að ekki sé hægt að koma með mál af þessum toga svona óskaplega seint hingað, menn þurfa að láta málin þroskast. Við vitum hvernig fór fyrir stóra sjávarútvegsmálinu í fyrra. Það kom líka allt of seint inn til þingsins til afgreiðslu, allt of seint. Við getum ekki verið að afgreiða grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfi á einhverri hraðferð, það er bara ekki hægt, til þess er málið allt of mikilvægt. Við þurfum að bera miklu meiri virðingu fyrir stærð málsins.

Veiðileyfahugmyndin er dálítið annars eðlis. Ég ætla að segja það enn og aftur að ég tel þessi veiðileyfagjöld allt of há, ég hef fyrir því mín rök. En veiðileyfahugmyndin er allt annars eðlis en þessi stórkostlega umbreyting sem verið er að kynna með frumvarpinu um stjórn fiskveiða. Það er annars konar mál. Það gengur auðvitað ekki að koma fram með slíkt mál á síðustu stundu og það gengur heldur ekki, hæstv. forseti, að verið sé að upplýsa það í þingnefndum að menn hafi ekki haft hugmynd um hvað stæði í þessu frumvarpi og væru þá fyrst að fá eitthvert samtal við stjórnvöld um málið.

Það er reyndar miklu eðlilegra að það samtal sé við þann aðila sem leggur málið fram, sem getur með miklu skýrari hætti væntanlega svarað fyrir það, og það er ósköp eðlilegt að hann geri það. Hann hlýtur að hafa þær röksemdir á reiðum höndum til að geta átt slíkt samtal við þá aðila sem vilja leggja gott til málanna. Það er áberandi að víða hafa athugasemdir borist um frumvarpið um stjórn fiskveiða, þannig að ég tel það alveg einboðið að það mál verði lagt til hliðar og menn hætti að tala um það hér á miðju sumri þegar starfsáætlun þingsins er fallin úr gildi, þegar þingið ætti með réttu að vera komið í sumarleyfi, þegar forsetakosningar eru í nánd. Og það væri líka lágmarkskurteisi af hálfu Alþingis að gefa forsetakosningunum rými í þjóðfélaginu en ekki að láta það snúast um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það hlýtur að skipta okkur Íslendinga máli að forsetakosningarnar fái eitthvert svigrúm hér í umræðunni, það hlýtur að vera.

Ég held því að það sé alveg augljóst að ekki verði haldið áfram með það mál. Það mál verður að leggja til hliðar og ég skil bara ekkert í því, hæstv. forseti, hvernig stendur á því að meiri hlutinn vill ekki fallast á það. Það er ekki eins og þetta sé síðasta þingið sem haldið verður. Það er ekki eins og við eigum ekki eftir að koma hér aftur saman síðar. Ég geri ráð fyrir að Alþingi Íslendinga muni starfa hér mörg ár til viðbótar til að fjalla um ýmis mál. Þetta mál er ekki tilbúið og þarf að fara aftur til meðferðar. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf að fara miklu betur yfir það og hann þarf líka að velta fyrir sér hvort allar þessar breytingar séu nauðsynlegar.

Mér hefur heyrst á mörgum þingmönnum stjórnarliða að meginþunginn sé á því að frekari arður fáist úr auðlindinni. Nú er þegar búið að leggja töluvert hærri veiðileyfagjöld á en voru áður. Við þurfum að gæta okkar á því að auðlindin hafi þá tök á því að skila þeim arði sem menn ætlast til að hún geri. Og ekki gleyma því að arður af veiðum er ekki bara í formi veiðileyfagjalda, hann er líka í formi þess að fyrirtæki greiði skatta og skyldur. Hann er í formi þess að veiðarnar séu skynsamlegar. Fiskveiðistjórnarkerfið á að vera þannig að við getum til dæmis fengið þær fréttir sem við fengum í dag að hægt sé að auka þorskkvótann, að stofnarnir séu það heilbrigðir að hægt verði að auka kvótann um 35 þúsund tonn. Við skulum gæta okkar verulega á því þegar við erum í þessari umræðu að ganga ekki svo hart fram að við séum að stefna þessu í einhverja hættu, við skulum ekki gera það.

Ég vil þess vegna — af því ég hef verið að einbeita mér að veiðileyfagjaldinu — enn og aftur beina þeim vinsamlegu tilmælum til meiri hluta atvinnuveganefndar að líta betur til þess þáttar málsins, að líta hreinlega til þess hvort grunnur þessarar lagasetningar sé nógu traustur til þess að forða því að við fáum hér dómsmál um þetta því að það yrði ekki nokkrum einasta manni til góðs.



[17:12]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sérkennilegur málflutningur sem hér er hafður uppi af hálfu hv. þm. Ólafar Nordal. Hún tekur fiskveiðistjórnarmálið til umfjöllunar sem enn er í atvinnuveganefnd þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eindregið lagst gegn því að málin yrðu tekin til umræðu saman. Í öðru lagi kallar hún eftir því að atvinnuveganefnd taki þetta mál á milli umræðna og geri á því úrbætur en á sama tíma standa þingmenn Sjálfstæðisflokksins í ræðustól dag og nótt til að koma í veg fyrir að umræðunni ljúki og málið komist til nefndar þar sem hægt sé að vinna áfram með það. Hér rekst hvað á annars horn enda Sjálfstæðisflokkurinn í hefðbundinni sérhagsmunagæslu fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna. Hann fellst að vísu á það núna að veiðigjald megi vera 10 eða 12 milljarðar. (Gripið fram í.) Sú tillaga sem hér liggur fyrir frá hv. atvinnuveganefnd er upp á 15 milljarða. Sjálfstæðisflokkurinn er því að prútta um einhverja 4 milljarða fyrir LÍÚ og maður hlýtur að spyrja hv. þingmenn hversu marga daga við þingmenn megum vænta þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standi í ræðustól til að prútta um einhverja 4 milljarða frá íslenskum almenningi til LÍÚ.

Í fyrrasumar stóðu þeir býsna marga daga. Þá voru þeir ekki tilbúnir að viðurkenna að leggja mætti 10 til 12 milljarða á greinina. Þá prúttuðu þeir um 6 milljarða tillögu, sem þá lá á borðinu, og náðu upphæðinni niður í 4,5 milljarða af því að þá töldu þeir að gjaldið mætti alls ekki vera hærra en það. Þeir náðu því að prútta um 1,5 milljarða fyrir LÍÚ.

Það er því eðlilegt að við spyrjum, vegna þess að hv. þingmaður vísaði í forsetakosningarnar, í hversu marga daga megi vænta þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standi hér fyrir LÍÚ og biðji um að gjaldið verði lækkað um nokkra milljarða í viðbót þegar gróðinn (Forseti hringir.) í sjávarútvegi er í sögulegum hæðum.



[17:14]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir frekar dapurlegt að hv. þingmaður hafi kosið að hefja þessa sérhagsmunaræðu sína hér. Ég held ég hafi einmitt tekið það sérstaklega fram í ræðu minni og margoft að ég hef ávallt litið á þetta mál út frá almannahagsmunum. Hann getur haft sínar skoðanir á því í hverju slíkir almannahagsmunir felast en ég bið hv. þingmann um að leggja mér ekki orð í munn hvað þetta varðar. Ég bið hann einlæglega að gera það ekki.

Hv. þingmaður veit líka ósköp vel, svo þingreyndur sem hann er, hvers vegna málum er svona háttað í þinginu. Það hefur ekki náðst eitt einasta samkomulag um það við meiri hlutann hvernig ljúka eigi þingstörfum. Menn koma allt of seint fram með mál, illa undirbúin og ætlast til þess að þau séu bara öll afgreidd einn, tveir og þrír. Það er ekki hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að samþykkja mál sísvona.

Ég kem með vinsamlegar ábendingar um hvernig bæta megi úr einstökum þingmálum. Ég held ég hafi líka margoft sagt það, virðulegi forseti, að ég er aldeilis ósammála upphæð veiðigjaldsins. Ég tel að þessir 11 milljarðar séu of há upphæð en ég geri mér hins vegar grein fyrir því að mikill vilji er til þess hér að leggja mun hærri veiðigjöld á. Ég kem bara með þá vinsamlegu ábendingu að gæta að grunni gjaldsins. Ég held ég hafi nefnilega farið nokkuð rækilega yfir það í máli mínu að það verði gert. Ég hafna því algjörlega að með því sé maður að hlaupa út undan sér.

Er það ekki eðli þingstarfsins, frú forseti, að reyna að leggja gott til málanna í umræðum, að leiðbeina meiri hlutanum og hjálpa til við að laga mál? Er það ekki skylda þingmanna? Eða hvað?



[17:16]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilega viðkvæmt að snerta við sannleikanum í öllum þessum málatilbúnaði. Í fyrra voru hér tillögur um það að Landssamband íslenskra útvegsmanna, sem býr við bestu afkomu Íslandssögunnar af einkarétti sínum á aðgangi að auðlindinni, ætti að borga 14 kr. fyrir hvert þorskkíló sem þeir hefðu einkarétt á að draga úr sjó. Þá stóðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér dag og nótt og prúttuðu gjaldið niður í 10 kr. fyrir LÍÚ.

Nú fallast þingmenn Sjálfstæðisflokksins hins vegar á að innheimta megi 25 kr. en ætla að standa hér dag og nótt til að koma í veg fyrir að gjaldið verði liðlega 30 kr. fyrir kíló sem menn leigja, ekki á tvöföldu því verði, ekki á þreföldu því verði, heldur á margföldu því verði á frjálsum markaði.

Þetta er allur galdurinn sem hér fer fram. Það er málþóf til að prútta um nokkra milljarða í aukaafslátt fyrir LÍÚ í boði Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Og ég spyr hv. þingmann enn: Hversu marga daga og hversu margar nætur (Forseti hringir.) ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að standa hér í þessum prúttleiðangri sínum?



[17:17]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er undrandi á þessum málflutningi. Ég kannast ekki við það að sjálfstæðismenn í atvinnuveganefnd séu á neinn hátt aðilar að þeim málum sem hér liggja fyrir, ég kannast ekki við það að við höfum einhvern tíma samþykkt að leggja 10–11 milljarða á útgerð í landinu. Ég hef hins vegar haldið því fram að þegar horft sé til mikilvægi þeirrar greinar sem útgerðin er þurfi að hafa í huga þá hagsmuni sem þjóðin hefur af því að veiðarnar gangi vel og fyrirtækjunum gangi vel.

Hæstv. forseti. Samfylkingin er algjörlega með það á heilanum að stórauka verði skattlagningu á útgerðina. Það er eins og henni sé hreinlega illa við að fiskurinn sé veiddur úr sjónum með skynsamlegum hætti. Það er eins og það sé verra að sjávarútveginum gangi vel og við fáum tekjur fyrir Íslendinga. Það virðist vera einbeittur vilji þessarar ríkisstjórnar, (Forseti hringir.) sérstaklega Samfylkingarinnar, að skattleggja sjávarútveginn þannig að hann fari á hnén.



[17:19]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir ræðu hennar og þá sérstaklega síðasta andsvarið sem hún var í við hv. þm. Helga Hjörvar. Þar kom fram á einni mínútu allur heili sannleikurinn. Það er einkennilegt hvernig ríkisstjórnin hegðar sér og þá sérstaklega þráhyggja Samfylkingarinnar að rústa hér aðalatvinnuvegi og undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sem hefur verið að skila inn þeim skatttekjum til ríkissjóðs sem hafa þó leitt til þess að hér er hægt að halda einhverju gangandi. En þá skal ráðast á það líka.

Mig langar til að spyrja þingmanninn út í ákveðið atriði. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Þessi stjórnarskrárgrein er mjög skýr. Stangast þetta ekki á við 4. gr. þessa frumvarps þar sem fela á sérstakri veiðigjaldsnefnd það að ákvarða þessa skattheimtu? Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar þrjá menn og aðra þrjá til vara í nefnd til fimm ára í senn til að ákvarða sérstakt veiðigjald …“

Það er ekki einasta, frú forseti, að hér sé að mínu mati verið að framselja skattlagningarvaldið út úr þessu húsi til ráðherra, eins og oft er gert með reglugerðarákvæði, heldur á það að fara til þriðja aðila, til nefndar sem ráðherra skipar. Hvað finnst þingmanninum um þá staðreynd?



[17:21]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé ófært að þetta mál sé afgreitt með þeim annmörkum sem eru á því hvað þetta varðar. Fyrir liggja í málinu fjölmörg álit frá lögfræðingum um það að veruleg hætta sé á ferðum í grundvelli þessarar lagasetningar. Hér er talað um framsal valdsins, um óskýrleika skattlagningar og um afturvirkni. Þetta eru þrjú grundvallaratriði. Meiri hluti atvinnuveganefndar afgreiðir þá gagnrýni sem lögmenn og sérfræðingar hafa sett fram mjög léttilega í áliti sínu og raunar út af borðinu. Ég held að það sé ekki hægt að hafa málið með þessum hætti.

Það var mjög áberandi að hv. þm. Helgi Hjörvar kaus að líta algjörlega fram hjá efnisatriðum málsins þegar hann hóf andsvör við mig áðan. Í staðinn var hann með venjulegan pólitískan skæting. Það skiptir auðvitað máli, hvað sem okkur kann að finnast um þessi mál, að þau séu að minnsta kosti þannig úr garði gerð að af þeim hljótist ekki látlaus dómsmál. Við hljótum að geta náð einhverju samkomulagi um það.

Við erum að benda á þetta og ég í ræðu minni, hreinlega að benda á að ekki sé hægt að afgreiða lagasetningu svona, fara þurfi með málið aftur í nefnd. Auðvitað verður ekki hægt að ljúka neinni umræðu um þetta mál fyrr en menn eru búnir að sjá til lands með lok þingstarfa sem eru öll meira eða minna í vanda vegna óbilgirni ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því afgreiða þarf hvert einasta mál sem lagt hefur verið fram, mál sem hafa verið lögð fram á síðustu stundu, mál sem eru ófullburða og ekki tilbúin, og það á bara að halda áfram með þingið langt fram í júní. Ég gæti best trúað því að við verðum hér að störfum á kjördag í forsetakosningunum.



[17:23]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki hvernig ríkisstjórnin hagar sér við frumvarpsgerð og hvernig málin eru öll sem hafa komið hingað inn. Ekki er hlustað á þá sérfræðinga sem að málinu koma, það er ekkert nýtt, en ég bar þá von í brjósti að ríkisstjórnin hefði lært eitthvað af því þegar hin svokölluðu Árna Páls-lög fóru hér í gegn. Það þurfti að höfða dómsmál á grunni þeirra sem endaði með því að Hæstiréttur komst að því að þau lög færu gegn stjórnarskránni.

Hér er ekkert verið að hugsa um faglega hluti enda kannski ekki margir vinstri menn í hópi lögfræðinga og lögmanna landsins. Ég veit ekki hvort þetta er vegna þess að ríkisstjórnin getur ekki fengið færa lögfræðinga eða hlustað á ráðgjöf þeirra hreinlega vegna pólitískra skoðana. (Forseti hringir.) Ég er jafnvel farin að halda það því að það er ekki nokkur einasta leið að fá ríkisstjórnina til að hlusta á (Forseti hringir.) þá færu lögmenn sem við eigum.



[17:24]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt og gerði að meginmáli ræðu minnar, að ég held að ekki sé hægt annað en taka alvarlega þær athugasemdir sem komið hafa fram. Ég held að ekki sé nægilega farið yfir þær í þessu meirihlutaáliti.

Til viðbótar tel ég að með þeim breytingartillögum sem fyrir liggja þegar kemur að veiðigjaldsnefndinni — dálítill tungubrjótur þetta nafn — þurfi einnig að fá álit á því hvort jafnvel sé gengið enn lengra en sú gagnrýni miðast við sem þegar hefur verið sett fram á grundvelli þessarar lagasetningar. Mér finnst eðlilegt að það sé gert og meiri hlutinn hlýtur að taka undir það. (Gripið fram í.) Afleiðingarnar geta hreinlega orðið þær að af hljótist allt of mörg dómsmál og við þekkjum alveg hvaða afleiðingar slíkt getur haft á málið sjálft.



[17:25]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrðist á máli hv. þingmanns — ég bið þingmanninn að leiðrétta mig ef mér hefur misheyrst eða ef ég hef misskilið það sem fram kom — að hún væri því ekki fylgjandi, ef menn ætluðu að leggja á veiðigjald eins og þetta, að það rynni beint til viðkomandi byggðarlaga eða til einhverra verkefna.

Varðandi þær hugmyndir að veiðigjaldið renni beint til einstakra byggðarlaga langar mig að minnast á ályktun frá fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem haldið var í Bolungarvík 2.–3. september 2011, en þar var skorað á Alþingi að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess rynni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum, þ.e. „auðlindagjaldið renni til rannsókna, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir“.

Spurningar mínar til hv. þingmanns snúa að því hvort ég hafi heyrt rétt, að þingmaðurinn sé mótfallin því að gjaldið sé beintengt með þeim hætti að fjármagnið renni í ákveðna sjóði. Ef þingmaðurinn er mótfallin því, eins og mér heyrðist, má þá ekki túlka það sem svo að ef það rennur beint í ríkissjóð sé það hreinn og klár landsbyggðarskattur eins og margir hafa verið að tala um? Það er þá skattur sem leggst á fyrirtæki á landsbyggðinni og er greiddur í ríkissjóð og fjármunir flytjast þá af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Ef við tengjum þetta ekki með einhverjum hætti, er þetta þá ekki hreinn og klár landsbyggðarskattur? Það var þetta sem mig langaði að fá upplýsingar um hjá hv. þingmanni.



[17:27]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að slík gjöld — reyndar vil ég meina að þetta sé skattur, að verið sé að leggja skatt á — eigi að renna beint í ríkissjóð. Ég tel hins vegar að það þýði ekki að ekki sé hægt að bæta þeim byggðarlögum sem halloka hafa farið þetta upp með öðrum hætti. Það höfum við reyndar gert í gegnum tíðina. Ég tel eðlilegt að það sé gert og menn tryggi að byggðirnar njóti þess að útgerðin hjá þeim gangi vel. En ég tel rétt að þegar um er að ræða skatta eigi þeir að renna beint í ríkissjóð.

Ég vil benda á að þessi skattur leggst fyrst og fremst á útgerð og hún er ástunduð um allt land. Það vill svo til að í Reykjavík er líka rekin blómleg útgerð og mér finnst við Reykvíkingar stundum gleyma því hve vel hefur gengið að reka útgerð hér. Við erum með glæsilega höfn, Reykjavíkurhöfn, sem glóði reyndar í gær, full af fiskveiðiskipum, og var mjög glæsilegt á að horfa.

Í frumvarpi fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, var gert ráð fyrir því að Reykjavík ætti til dæmis ekki að fá neinn ágóða af útgerð sinni. Ég tel að menn séu ekki á réttri leið með þetta. Það er langeðlilegast að ríkið fái þessar tekjur í ríkissjóð og síðan verði mótvægisaðgerðir kynntar með öðrum hætti af ríkisstjórn.



[17:29]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þarna erum ég og hv. þingmaður ekki alls kostar sammála. Landsbyggðin hefur mátt glíma við mikinn vanda og það er ljóst að stærstur hluti útgerðarinnar er á landsbyggðinni þannig að þessi nýi skattstofn mun að stærstum hluta lenda á landsbyggðinni.

Mig langar í seinna andsvari mínu að spyrja hv. þingmann aðeins út í greinargerð sem unnin er af Daða Má Kristóferssyni, dósent við Háskóla Íslands, og Stefáni B. Gunnlaugssyni, lektor við Háskólann á Akureyri, sem gagnrýna mjög þetta frumvarp. Skýrslunni var dreift með frumvarpinu á sínum tíma og er óháð úttekt. Í henni er frumvarpið gagnrýnt efnislega á mjög sambærilegan hátt og flest sveitarfélög hringinn í kringum landið og fleiri hafa gert.

Hvað finnst hv. þingmanni um að hv. stjórnarliðar tali um að þessir hv. fræðimenn séu taglhnýtingar (Forseti hringir.) einhverra hagsmunasamtaka? Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að þessi skýrsla sé runnin undan rifjum einhverra hagsmunasamtaka líkt og (Forseti hringir.) hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa haldið fram?



[17:30]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef lesið þessa skýrslu frá Daða Má Kristóferssyni og Stefáni B. Gunnlaugssyni og mér fannst hún mjög áhugaverð. Ég hef reyndar litið allar athugasemdir sérfræðinga þeim augum að þær séu lagðar fram til að bæta málið. Ég er allsendis ósammála því, ef spurt er að því, að það rýri gildi þeirra álita að þau séu unnin fyrir tiltekna aðila. Ég er mjög andsnúin slíkum málflutningi. Þá getum við alveg eins sagt að það eigi ekki að leggja nein mál til umsagnar yfirleitt, það eru alltaf einhverjir sem skrifa umsagnirnar og það er alltaf út frá einhverjum lagalegum sjónarmiðum eða hagfræðilegum sjónarmiðum sem menn leggja slíkar upplýsingar fram.

Í þessu máli erum við með mjög greinargóðar skýrslur frá færum sérfræðingum í landinu, frá þeim aðilum sem hv. þingmaður nefndi og einnig frá mjög virtum lögfræðingum sem færa reyndar allir — og það er mjög áhugavert — fram sömu röksemdirnar gegn frumvarpinu. Það eru alltaf þessir þrír þættir sem snúa að grundvelli skattlagningar. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu eigum við að taka það alvarlega og taka það til greina og breyta þessum frumvörpum.



[17:32]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjöld. Umræðan í dag hefur farið um víðan völl enda margt hægt að segja um þetta frumvarp, aðdraganda þess og vinnubrögðin sem viðhöfð hafa verið við vinnslu þess.

Frú forseti. Flestir tóku eftir því að mikill fundur var haldinn úti á Austurvelli í gær. Þeir sem lögðu við hlustir, hlustuðu á það sem ræðumenn sem þar töluðu sögðu, heyrðu að þar komu fram sjónarmið úr öllum áttum, frá fólki alls staðar að úr greininni, alls staðar að af landinu, og þau voru öll á einn veg. Menn höfðu miklar áhyggjur af því að þetta frumvarp sem og stóra frumvarpið um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem enn er fast í atvinnuveganefnd, verði lögfest óbreytt á Alþingi.

Þeir sem þarna töluðu kölluðu einfaldlega eftir því að við sem störfum hér á Alþingi hlustuðum á þær athugasemdir sem komið hafa fram um þessi mál. Það voru þær óskir og beiðnir sem fram komu í máli þeirra sem þar töluðu. Mér finnst því leiðinlegt að sjá viðbrögðin sem birtast okkur undir liðnum störf þingsins hér í dag, meðal annars hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, þar sem augljóst er að þingmenn hafa ekki hlustað á það sem fram fór í gær. Það finnst mér leiðinlegt og sérstaklega í ljósi þess að Samfylkingin, annar stjórnarflokkanna og annar þeirra flokka sem bera þetta mál fram í þinginu, talaði fyrir því á sínum tíma að mikið samráð skyldi viðhaft og vildi innleiða samræðustjórnmál. Maður taldi þá að menn mundu að minnsta kosti vilja ræða hlutina, fara yfir athugasemdir og reyna að taka eitthvert mið af því sem fólk væri að segja. En því miður virðist svo ekki vera.

Það kom meðal annars fram í máli eins ræðumanns í gær að tilfinningin væri eiginlega sú að höfuðborgarsvæðið hefði notið góðs af hagvextinum fyrir fall íslensku bankanna en landsbyggðin hefði vart fundið fyrir þeim hagvexti. En nú þegar vel gangi á landsbyggðinni, þar sem stærstur hluti íslensks sjávarútvegs er, vilji menn gera þann hagvöxt upptækan með allt of þungum sköttum. Þessar áhyggjur birtust okkur í gær og ég tek undir þær og mælist til þess að hv. þingmenn í atvinnuveganefnd fari enn og aftur yfir málið með það í huga að lækka þá skatta sem þessi veiðigjöld eru. Þar sem meiri hluti þeirra sem starfa í þessari grein er úti á landi, því eins og fram kemur í álitsgerðum og þeim nefndarálitum sem hér birtast okkur eru 80–90% þeirra á landsbyggðinni, er réttnefni þessa skatts einfaldlega landsbyggðarskattur. Þannig er það, þannig eigum við að tala um hlutina.

Frú forseti. Í gær talaði einn fulltrúi frá þeim fyrirtækjum sem þjónusta fyrirtæki í sjávarútvegi og hafði miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þær miklu breytingar sem boðaðar eru, og þessi mikli skattur sem tillaga liggur fyrir um að leggja á sjávarútvegsfyrirtækin, muni hafa á fyrirtæki sem hafa sitt lifibrauð af því að þjónusta útgerðina. Mörg þessara fyrirtækja treysta alfarið á viðskipti við þá sem stunda sjóinn. Auðvitað hafði þessi fulltrúi þessara litlu og meðalstóru fyrirtækja miklar áhyggjur af því hvað væri fram undan og þær áhyggjur eru skiljanlegar.

Ef maður les þær álitsgerðir sem birtar hafa verið með þessu máli skilur maður vel að það eru ekki eingöngu þeir sem reka útgerðarfyrirtækin og ekki eingöngu sjómennirnir eða landverkafólkið sem hefur áhyggjur. Maður skilur vel að þau fyrirtæki sem þjónusta útgerðina hafi áhyggjur. Ég tel að atvinnuveganefnd ætti að hlusta á þessar raddir og skoða hvort ekki sé rétt að setjast niður, fara yfir málið aftur og reikna það út hvað breytingarnar sem gerðar hafa verið á umræddu frumvarpi milli umræðna kosta.

Í nefndaráliti 1. minni hluta kemur fram að slíkir útreikningar liggi ekki fyrir. Talað er um og hefur komið fram við umræðuna hér að veiðigjaldið eða landsbyggðarskatturinn verði eftir breytingar að fjárhæð um 15 milljarðar kr., sem muni koma í ríkiskassann. Aðrir hafa fullyrt að þetta sé rangt, að um verði að ræða 21 milljarð kr. eftir breytingar. Hvað er rétt í þessu? Hvers vegna liggja ekki fyrir formleg gögn eða útreikningar sem styðja þessa tölu, 15 milljarða?

Þá á jafnframt eftir að styðja það frekari gögnum að sú ívilnun, sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði II, nemi 2–2,5 milljörðum. Það kemur fram í þessu nefndaráliti að engin úttekt hafi verið gerð á því hvort þessi ívilnun nægi til að afstýra þeirri hættu sem frumvarpið óbreytt hefði í för með sér. Ég tel því að þó nokkur vinna sé eftir við það að rökstyðja það fyrir okkur, sem eigum svo að taka ákvarðanir hér á Alþingi, að þetta sé allt í lagi.

Frú forseti. Það er frekar sjaldgæft, tel ég, að jafnalvarlegar athugasemdir berist við þingmál frá ríkisstjórn og maður sér í þessu máli. Ég vísa þar sérstaklega til niðurstöðu hagfræðinganna Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar sem liggur hér frammi. Ég tel farsælast fyrir okkur öll að taka þetta mál einfaldlega til baka, að nefndin setjist yfir það og skoði hvort ekki sé hægt að setja fram skýrari leið, einhverja útreikninga á því hvað hún muni þýða, í staðinn fyrir að renna svona blint í sjóinn eins og manni sýnist vera gert í þessu máli.

Frú forseti. Ég ætlaði í ræðu minni að fara aðeins yfir stjórnarskrána en borist hafa ábendingar um það að frumvarpið um veiðigjöld stangist mögulega á við hana þar sem um sé að ræða skýrt framsal á skattlagningarvaldi og ekki er heimilt að framselja það. Ég vísa meðal annars í greinargerð frá Mörkinni lögmannsstofu hf. sem unnin var fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum. Þar eru athyglisverðar vangaveltur um ýmislegt, t.d. um eignarréttinn, en jafnframt er bent á að þessi aðferð standist ekki gagnvart stjórnarskránni. Almenna veiðigjaldið sé flatur skattur og sérstaka veiðigjaldið lagt á með flóknum útreikningsaðferðum og það þýði jafnframt að réttarheimildin sem skatturinn byggir á sé ekki nægilega skýr. Ég tel að við eigum að hlusta á þessar athugasemdir.

Mig langar að vita hvort nefndin hefur farið yfir þetta, af nefndarálitinu að dæma er eins og sagt sé bara: Nei, við teljum að þetta sé ekki rétt. En það er ekki rökstutt hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu þrátt fyrir að fyrir liggi álitsgerðir frá aðilum eins og til dæmis Mörkinni lögmannsstofu. Ég óttast, frú forseti, að þeim spurningum sem óneitanlega vakna um leið og maður les þetta frumvarp yfir hafi einfaldlega ekki verið svarað í nefndinni. Ég tel að það sé þess vegna sem menn sem hafa skilað athugasemdum og umsögnum um málið telja að ekkert sé á þá hlustað. Þannig lítur þetta einfaldlega út.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég hélt að við ætluðum að bæta vinnubrögðin í þinginu, ég bar miklar vonir í brjósti um það. En ég get ekki séð af þessu máli að svo sé.



[17:42]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir um margt málefnalega ræðu.

Mig langar að gera að umtalsefni það sem hún sagði um mótmælafundinn á Austurvelli í gær. Hv. þingmaður sagði að sér fyndist sem þingmenn Samfylkingarinnar hefðu ekki heyrt það sem þar var sagt. Það mættust auðvitað tveir hópar á Austurvelli í gær, hvor með sína skoðunina. Mér heyrðist sem hv. þingmaður hefði bara heyrt í öðrum hópnum.

Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri að hlusta á bæði sjónarmið í þessum efnum og það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera á síðustu þremur árum með mjög ólíkum útfærslum á breytingum á lögum um stjórn fiskveiða. Málið er nú komið á þann stað þar sem það er nú og kannski hefði mátt viðhafa meira samráð. En það hefur að minnsta kosti töluvert verið lagt í þá vinnu, annars hefðu menn klárað málið á fyrsta starfsári þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvernig hún geti réttlætt það að segja að veiðigjöldin séu landsbyggðarskattur. Er það þá svo að sjávarútvegsfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu borgi ekki veiðigjöld? Þá ber nýrra við ef svo er. Hvernig er hægt að halda því fram að veiðigjaldið sé fyrst og fremst landsbyggðarskattur? Ég mundi gjarnan vilja heyra rökstuðning fyrir því.



[17:45]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Ég fagna því ef hv. þingmaður hefur hlustað á mótmælin í gær, á það sem menn höfðu þar að segja og fram að færa. Það er gott ef einhver gerði það, mér fannst það nefnilega ekki koma fram hjá þeim hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem kvöddu sér hljóðs undir liðnum störf þingsins fyrr í dag.

Á mótmælafundinum í gær flutti annar hópurinn ávörp og kom skoðunum sínum á framfæri. Hinn hópurinn púaði á þann sem talaði hverju sinni. Það var í sjálfu sér ekkert sem kom fram frá þeirri hlið mótmælanna annað en sú afstaða að vilja ekki leyfa þeim sem voru á annarri skoðun að koma sinni hlið á framfæri, það leit þannig út fyrir mér. Hrópin hækkuðu í takti við það sem fólkið sem flutti ávörpin var að segja. Í flestum þeim erindum sem haldin voru voru alþingismenn ávarpaðir sérstaklega og í lokin var skorað á okkur að gera ákveðna hluti. Það var skorað á okkur að hlusta og kynna okkur málin, flóknara var það nú ekki. Ég tel að við eigum að gera það.

Varðandi það mikla samráð sem almennt hefur verið viðhaft þá settust menn vissulega niður og reyndu að finna lausn. Út úr því kom sú sáttaleið sem menn ætluðu að fara. En það þýðir ekkert að tala um að hún hafi verið farin þar sem allri þeirri vinnu var kastað fyrir róða daginn eftir að henni lauk í staðinn fyrir að reyna að halda áfram á sömu braut og klára málið í sátt. Það var afskaplega dapurlegt að horfa upp á það.

Ég næ því miður ekki að svara öllum spurningum en vonast til að ná því í síðara andsvari.



[17:47]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætt fyrir sitt leyti en hv. þingmaður svaraði ekki meginspurningu minni, hún hefur þó tækifæri til þess að gera það á eftir: Hvernig er þetta landsbyggðarskattur frekar en höfuðborgarskattur? Það er það sem ég kem ekki heim og saman.

Skilur hv. þingmaður það sem svo að sjávarútvegsfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, sem eru stór og burðug, muni ekki greiða veiðigjöld?



[17:48]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni hvers vegna rétt væri að kalla þetta landsbyggðarskatt. Það er vegna þess að 80–90% þeirra sem greiða munu þennan skatt eru á landsbyggðinni. Við vitum að sjávarútvegsplássin hringinn í kringum landið standa og falla með því hvernig grundvallaratvinnugreininni gengur, sem og þjóðin öll að sjálfsögðu.

Við sjáum það í þeim athugasemdum sem borist hafa frá sveitarstjórnum hringinn í kringum landið um málið að það eru heimamenn, sveitarstjórnirnar heima fyrir, sem líta þannig á að hér sé sérstaklega verið að leggja auknar byrðar á landsbyggðina. Þetta er grundvallaratvinnugreinin okkar og hún er enn sterkari þar sem þessi fyrirtæki eru stærstu atvinnurekendurnir og halda í raun uppi byggð.



[17:49]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því hvort það sé ekki mjög sérstakt og mjög óskynsamlegt að standa í því nú að breyta okkar góða fiskveiðistjórnarkerfi sem er meira að segja tilnefnt til verðlauna á heimsvísu. Það er tilnefnt vegna stefnumótunar sem er til þess fallin að skapa meiri lífsgæði fyrir núverandi kynslóðir og kynslóðir framtíðarinnar. Þetta eru mjög merk verðlaun og það eru stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna sem tilnefndu Íslendinga til þeirra. Tilnefningarnar koma frá sérfræðingum á sviði sjávarútvegsmála hjá alþjóðastofnunum, háskólastofnunum og sjálfstæðum rannsóknarstofnunum og það á að afhenda þessi verðlaun í september. Það er sem sagt horft til gæða okkar hér á landi og þess kerfis sem búið er að byggja upp.

Þá kemur það fram á sama tíma að Samfylkingin lagði inn umsókn til Evrópusambandsins. Er ekki óeðlilegt að hafa þessi tvö mál opin á sama tíma? Er ekki mjög óeðlilegt að hjá Evrópusambandinu liggi umsókn frá okkur Íslendingum þegar við erum með þetta stóra, sterka og flotta kerfi sem meira að segja Evrópusambandið lítur til? Af hverju á þá að rústa þessu kerfi núna og leggja þetta til? Hvaða pólitík á heimsvísu er í þessu að mati hv. þingmanns? Er verið að brjóta niður kerfi til þess að ef til vill verði betra að semja um sjávarútvegskaflann hjá Evrópusambandinu? Hvernig er samhengi hlutanna á milli þessara tveggja þátta?



[17:51]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir það í fyrri ræðum mínum hversu gott fiskveiðistjórnarkerfið okkar er. Það er ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk en aðrar þjóðir horfa til þess með mikilli velþóknun og kannski örlítilli öfund yfir því að við Íslendingar getum rekið sterkan og öflugan sjávarútveg án ríkisstyrkja. Það er það fallega og flotta við kerfið okkar sem aðrir hafa talað um að þeir vilji taka sér til fyrirmyndar.

Oft er vísað til þess að Evrópusambandið, sem ætlar sér einhvern tímann í framtíðinni að endurskoða sjávarútvegskerfi sitt, hafi horft mjög til Íslands, til þess hvernig við gerum hlutina hér. Við þekkjum hvernig breytingar ganga fyrir sig þar á bæ, það tekur langan tíma þegar verið er að breyta stórum kerfum. Við sjáum það því ekki fyrir okkur að Evrópusambandið innleiði íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hjá sér, enda er þarna mjög mikill munur á, sérstaklega varðandi ríkisstyrkina. En hvort og hvernig þessi tvö mál tengjast, þ.e. breytingarnar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu og umsóknin að Evrópusambandinu, ætla ég ekki að fabúlera um, ég sé ekki tenginguna þar á milli.

Það er í raun hrópleg mótsögn að við skulum annars vegar eiga þetta kerfi, sem meðal annars Evrópusambandið horfir á sem fyrirmynd að góðu fiskveiðistjórnarkerfi, og hins vegar sú afstaða alþingismanna úr stjórnarliðinu að vilja kippa fótunum undan því kerfi. Ég sé ekki rökin fyrir því. Sagt var af hálfu þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn að breyta þyrfti kerfinu. Skiptir þá engu hvaða athugasemdir eru gerðar við það. Sumar eru meira að segja það alvarlegar að nánast er fullyrt að sjávarútvegsfyrirtækin okkar muni fæst komast í gegnum þær breytingar. Ég get ekki svarað því hvers vegna menn fara af stað í þessar breytingar.



[17:53]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Spurning mín sneri líka að því hvort ekki væri óskynsamlegt að hafa þessi mál opin á sama tíma. (RM: Nei.) Það er mjög óskynsamlegt þó að hv. þm. Róbert Marshall svari því neitandi. Auðvitað er það óskynsamlegt en ríkisstjórnin tók þá ákvörðun um að umbylta okkar góða samfélagi eftir að hún komst til valda. Það finnst mér örlítið óhuggulegt og ég skil ekki markmiðið með því hjá ríkisstjórninni að ráðast inn í grunnþætti lífs okkar hér á landi. Það er alveg sama hvar gripið er niður, öllu þarf að breyta.

Samfylkingin segir að það hafi verið stjórnarskráin sem leiddi til bankahrunsins. Þannig er spuninn, fram og til baka, og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir segir með hnefann á lofti: Það verður að breyta kvótakerfinu. Þetta hugarfóstur hæstv. forsætisráðherra er farið að skaða íslenskt þjóðarbú og almannahagsmuni.

Þess vegna vildi ég fá álit hv. þingmanns á því hvort henni þyki ekki mjög óráðlegt að á sama tíma og verið er að rústa fiskveiðistjórnarkerfinu, sem fengið hefur tilnefningu til verðlauna fyrir gott gæðakerfi, á sama tíma og Evrópusambandsumsóknin er inni. Það er mjög einföld spurning. Ég finn því allt til foráttu því að einhver festa og stöðugleiki verður að vera fyrir okkur sem búum hér á landi þannig að við höfum eitthvert öryggi og getum horft til framtíðar, þannig að við getum treyst því að einhvers staðar komi inn stabílar tekjur í stað þess að henda öllu samfélaginu eins og spilastokk upp í loftið og enginn veit hvar kóngarnir og ásarnir lenda.



[17:55]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt að nú á að breyta ansi mörgu í samfélagi okkar. Ég tel að það sé ekki góður tími til að fara í þessar gríðarlegu breytingar á grundvallaratvinnugrein okkar nú þegar við þurfum að treysta svo mikið á þá grein og stóla á að hún standi sig og skili gjaldeyristekjum í ríkiskassann sem er galtómur þessa stundina.

En þegar efnahagsþrengingar og miklar breytingar eru — sumir tala um að þetta sé mesta kreppa sem skekið hefur ekki bara Ísland heldur heimsbyggðina — þá er tími nýrra hugmynda. Það er oft þannig að hugmyndir sem alla jafnan þættu frekar hættulegar fá brautargengi einmitt vegna þess ástands sem ríkir í samfélaginu.

Ég verð að segja, frú forseti, að það er afskaplega skrýtið að velja sér þennan tíma til að róta upp í grundvallaratvinnugrein okkar einmitt þegar við þurfum svo mikið að treysta á hana. En varðandi Evrópusambandið er ég á þeirri skoðun að við eigum ekki að vera að sækja um aðild að því, hvorki vegna stöðu sjávarútvegsins né annars. Þetta er ekki rétti tíminn, hagsmunum okkar er betur borgið utan sambandsins en innan, út frá hagsmunum sjávarútvegsins sem og vegna annarra auðlinda sem við eigum, en ekki síst út af efnahagsástandi þjóðanna almennt.

Við vitum ekki hvernig hlutirnir enda, þetta er ekki rétti tíminn til að sækja um. Ég hef reyndar ekki séð á hvaða rökum við byggjum umsókn okkar enda virðast afskaplega fáir hafa sannfæringu fyrir þeirri umsögn og vilja fylgja henni eftir.



[17:58]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert orð sem kom fram í seinna andsvari hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um Evrópusambandið og að okkar hag sé best borgið fyrir utan það, sér í lagi í ljósi þess hvað er að gerast þar. Það er að færast í þá átt að verða eitt sambandsríki og þangað eigum við ekki erindi. Það hefur líka komið í ljós hversu eðlisólíkt það er að verða frá því sem það var þegar Samfylkingin lagði inn aðildarumsóknina sumarið 2009. Síðast í gær bárust til dæmis fréttir af því að Evrópusambandsleiðtogarnir séu að undirbúa lagasetningu um að stjórnvöld í ríkjum þess fái að taka upp eigið vegabréfaeftirlit. Það sýnir að þeir eru búnir að missa tökin á ástandinu því að frjálst flæði fólks er ein af fjórum grunnstoðum EES-samningsins. Mér finnst þetta mjög merkilegar fréttir. Um þetta á að leggja fram frumvarp á Evrópuþinginu. Ég tek þetta sem eitt dæmi um það breytingaferli sem Evrópusambandið stendur í.

Ég ítreka að mér finnst mjög undarlegt að hér sé verið að umbylta sjávarútvegskerfinu sem við höfum byggt á frá 1990 á sama tíma og Evrópusambandsumsóknin liggur á borði Evrópusambandsins. Mér finnst mjög óeðlilegt að hafa þessi tvö stóru mál opin á sama tíma, en ég ítreka að Framsóknarflokkurinn er tilbúinn til þess að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni. Framsóknarflokkurinn er líka tilbúinn að skoða það að útgerðin greiði hærra veiðigjald en nú er en það þýðir ekki að ég sé sammála þessu frumvarpi, alls ekki. Í því er um of miklar álögur að ræða og hér er ekki um að ræða gjald eins og frumvarpið gefur fyrirheit um heldur er þetta beinn skattur. Þá skal það líka heita skattur því að framkvæmdarvaldið getur ráðstafað skatti en gjöldunum getur það ekki ráðstafað á þann hátt sem það hugsar sér í frumvarpi þessu.

Allir þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram þingsályktunartillögu um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum en hún var að sjálfsögðu svæfð í nefnd eins og önnur góð mál frá okkur framsóknarmönnum. Ég nefni til dæmis frumvarp mitt um lagaskrifstofu Alþingis sem ég hef lagt fram á hverju þingi. Við værum líklega á öðrum stað nú hefði lagaskrifstofa Alþingis verið stofnuð. Þá væri ekki þessi óvissa hér, þá værum við ekki að reyna að túlka lögin og lesa út úr þeim hvað raunverulega er átt við.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem við framsóknarmenn lögðum fram segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa samráðshóp til að leita leiðar til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka. Hópurinn leggi tillögur fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. janúar 2012 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög. Við vinnu hópsins verði áhersla lögð á eftirfarandi:

1. Sjávarauðlindin verði tryggð sameign þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá.

2. Stjórn fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og nýliðun. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta, annars vegar pott með nýtingarsamningum og hins vegar pott þar sem veiðileyfum verði úthlutað til ákveðinna aðila. Frístundaveiðar verði kallaðar ferðaþjónustuveiðar til að atvinnugreinin geti dafnað á eigin forsendum ferðaþjónustunnar.

3. Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðssetningar innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til landsvæða þar sem auðlindarentan verður til og hluti í ríkissjóð.

4. Hlúð verði að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi.

5. Tryggt verði að auðlindin verði nýtt á sem skynsamlegastan hátt og nýtingin verði byggð á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins.

6. Áhersla verði lögð á að sjávarútvegur sé ekki einungis veiðar heldur einnig hátæknivæddur matvælaiðnaður.

7. Sjónum verði í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins til að tryggja áframhaldandi forustu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins.“

Hvað getur verið betra, herra forseti, en þetta fyrirkomulag? Þetta var líklega of gott til að vera satt fyrir ríkisstjórnina því að hæstv. forsætisráðherra vill öðrum fremur fara fram með mál í ófriði þegar friður er í boði. Við höfum lagt fram þessa þingsályktunartillögu og rétt ríkisstjórninni sáttarhönd með þessari góðu tillögu um að allir aðilar komi að borðinu. Það er of gott til að vera satt því að Samfylkingin og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir leggja til breytingar breytinganna einna vegna. Jú, þau lofuðu því í kosningabaráttunni að hér ætti að fara fyrningarleiðina svokölluðu, innkalla allar aflaheimildir, en þau kosningaloforð virðast nú þvælast eitthvað fyrir ríkisstjórninni.

Ég man eftir því úr kosningabaráttunni, herra forseti, að það var eins og Samfylkingin ætlaði að breyta kvótakerfinu fyrir hádegi strax eftir kosningar. Þetta átti að vera svo einfalt mál. En hvað stöndum við uppi með rúmum þremur árum eftir síðustu kosningar? Jú, það er komið sumar, forsetakosningar í nánd, þrjú ár liðin frá kosningum og öll mál í upplausn. Er þetta ekki kunnuglegt frá þessari ríkisstjórn, herra forseti, svipað og stjórnlagaþingsklúðrið sem hefur nú þegar kostað 1.300 milljónir? Þá er ég með þjóðaratkvæðagreiðsluna inni í þeirri tölu. Svona eru vinnubrögðin.

Mig minnir líka að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók við því starfi, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hafi hann ætlað sér tvær til þrjár vikur í að klára þau mál sem hv. þm. Jón Bjarnason, sem hefur verið níddur niður af þessari ríkisstjórn, hafði setið einn uppi með og reynt að breyta áður en hann var rekinn úr ríkisstjórninni. En það var lengri tíma hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og málið kom allt of seint inn í þingið.

Hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn tala nefnilega meira en þeir framkvæma, það er meiru lofað en hægt er að standa við. Þessi sjálfumglaða ríkisstjórn hefur ekki stjórn á hlutunum. Þetta er minnihlutaríkisstjórn, hæstv. forseti, það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Ríkisstjórnin þarf að sækja sér stuðning út fyrir eigin þingflokka, ekki síst til Hreyfingarinnar sem átti að vera hreyfiaflið á þingi, eins og menn muna, hreyfiaflið sem spratt upp úr búsáhaldabyltingunni. Það tók þá ágætu þingmenn ekki nema rúm tvö ár að ganga ríkisstjórninni beinlínis á hönd, beint upp í fangið á henni.

Ég hef farið nokkuð yfir lögfræðiþáttinn í þessu máli og tenginguna við stjórnarskrána í fyrri ræðum, en ég verð að nefna enn á ný að það sem fer mjög illa í mig í þessu frumvarpi er framsal skattlagningarvaldsins frá Alþingi. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Í frumvarpinu er ekki aðeins lagt til að framselja þetta vald til ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála heldur á að fara niður á næsta stig, skipa þriggja manna nefnd sérfræðinga úti í samfélaginu og í raun eiga þeir að véla um það hve mikill skattur verður lagður á þessa atvinnugrein. Þetta er stórhættulegt ákvæði. Nokkrir þingmenn hafa bent á að verði þetta óbreytt að lögum, ef stjórnarþingmenn átta sig ekki á því, á það eftir að leiða til margra dómsmála vegna þess að samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er algjörlega harðbannað að framselja skattlagningarvaldið með þessum hætti. Raunverulega skil ég ekki á hvaða leið ríkisstjórnin er með því að hafa þetta svona.



[18:08]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom aðeins inn á stjórnarskrána og hvort frumvarpið brjóti gegn ákvæðum hennar. Það hafa borist fjölmargar athugasemdir og umsagnir um þetta mál og í mörgum þeirra er tæpt á þessu atriði. Þar er meðal annars rætt um hvort skýrleiki réttarheimildarinnar fyrir gjaldtökunni sé nægjanlegur. Eins og hv. þingmaður kom inn á verður skattlagningarvaldið ekki framselt til framkvæmdarvaldsins og þess vegna þurfa allar álagningarforsendurnar að vera skýrar.

Mig langar að vita hvort hv. þingmaður hafi fengið skýringar á þessu í umræðunni, einhver svör frá þeim sem bera málið fram við spurningunni hvort þetta atriði hafi verið skoðað í nefndinni. Ég fékk einn hv. þingmann stjórnarliðsins, Helga Hjörvar, í andsvar við mig í gær þar sem ég spurði þessarar spurningar. Hv. þingmaður taldi þessar athugasemdir áhugaverðar og sagði að það þyrfti að skoða þær.

Þá er önnur spurning mín til hv. þingmanns: Hvenær er rétti tíminn til að skoða alvarlegar athugasemdir sem þessar, um að frumvarpið brjóti hugsanlega gegn stjórnarskrá, og þá bregðast við þeim eftir atvikum? Er það eftir að frumvarpið hefur verið samþykkt og gert að lögum og lagður hefur verið á þessi landsbyggðarskattur eða er það áður en Alþingi afgreiðir málið, þá væntanlega núna? Væri ekki rétt að nefndin tæki málið til sín og færi yfir þessi atriði?



[18:10]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Ég ætla að byrja á því sem einn þingmaður stjórnarliðsins sagði í morgun úr þessum ræðustól, að um tilraun væri að ræða. Mér finnst þetta merki um að þingmenn séu ekki nægilega með það á hreinu til hvers Alþingi er. Ég get á engan hátt tekið þátt í þessari tilraun, þeirri umbyltingu sem felst í þessum tveimur frumvörpum, en ef stjórnarmeirihlutinn lítur svo á að þetta sé tilraun er það mjög alvarlegt. Það finnst mér einmitt hafa komið fram í svari hv. þm. Helga Hjörvars, sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ámálgaði, um að þetta þyrfti að skoða. Þegar þingmaðurinn spyr hvenær eigi að skoða þetta, þá er það núna. Nú er málið komið til 2. umr., og á milli 2. og 3. umr. er hægt að koma að breytingartillögum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa enn tækifæri til þess að leiðrétta þetta og koma málinu í þann farveg að það standist stjórnarskrá. Því miður er bara enginn vilji til þess.

Þingið ver óþarflega miklum tíma í að ræða lagatæknilegar hliðar á frumvörpum frá þessari ríkisstjórn. Það er mjög sorglegt vegna þess að við þingmenn ættum náttúrlega fyrst og fremst að tala efnislega um málin. Ég minntist á lagaskrifstofu Alþingis áðan í ræðu minni og ég segi aftur að ef það væri vilji til þess hjá stjórnvöldum að styrkja þingið, bæði fjárhagslega og faglega, væri löngu búið að því. Viljinn er ekki til staðar, þess vegna er farið fram með svona mál sem standast ekki stjórnarskrá, þau gerð að lögum og þá rísa af því dómsmál. Við höfum dæmi um nokkra dóma sem hafa fallið hjá Hæstarétti um slík mál, gegn þessari ríkisstjórn.



[18:12]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég sé sammála hv. þingmanni um að sú aðferðafræði að stunda einhverjar tilraunir í skattlagningu sé ekki það sem Alþingi Íslendinga eigi að gera. Það er tæpast til þess fallið að efla virðingu þingsins eins og fjölmörgum þingmönnum er tamt að vísa til. Af lestri umsagna má sjá að það eru einna helst fjórar greinar stjórnarskrárinnar sem vísað er til að frumvarpið brjóti hugsanlega gegn: 40. gr., 72. gr., 75. gr. og 77. gr. Það að svo fjölþættar athugasemdir séu gerðar hlýtur eitt og sér að vera ástæða til að minnast á það og fara ítarlega yfir það í nefndinni.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um afturvirknina. Í stjórnarskránni er lagt bann við því að lög séu afturvirk. Skattlagning á ekki heldur að vera afturvirk, það er einfaldlega ekki heimilt. Þetta atriði tel ég óútskýrt og þeim athugasemdum hefur að mínu viti ekki verið svarað fullnægjandi af hv. þingmönnum meiri hlutans sem bera þetta mál fram. Það hefur hins vegar verið rökstutt að reglan í þessu frumvarpi varðandi skattheimtuna byggist á afturvirkni. Hvað segir hv. þingmaður um það? Telur hv. þingmaður þetta í lagi og að það standist stjórnarskrá?



[18:14]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísaði til þess í fyrra andsvari mínu að ríkisstjórnin hefði nú þegar fengið á sig dóma Hæstaréttar. Gengislánadómurinn svokallaði sem er byggður á hinum svokölluðu Árna Páls-lögum fjallaði akkúrat um afturvirkni laga. Í því frumvarpi sem síðar varð að lögum voru lagðir á vextir aftur í tímann. Það er bara nýjasta dæmið. Mig minnir að þessi dómur hafi fallið í mars. Sú afturvirkni sem er verið að benda á hér í þessu, að Hagstofan eigi að búa til eitthvert reiknilíkan og byggja á afturvirkni, er hreinlega óheimil.

Verði þetta frumvarp að lögum get ég fullyrt að þessi ríkisstjórn á eftir að verða landsmönnum dýr vegna þeirra ágreiningsmála sem kunna að rísa af því. Það gefur augaleið að afturvirk lög eiga eftir að lenda fyrir dómstólum og ekki síður að þau brjóti gegn bæði 40. gr. sem er skattagrein, 77. gr. sem er líka skattagrein og svo eignarréttarákvæðinu í 72. gr. og atvinnuréttindunum í 75. gr. Það ónýtir frumvarpið.

Þarna erum við að tala um að það er farið gegn grundvallaratriðum í lagasetningu. Það er svo ótrúlegt að ekki skuli vera hægt að draga gardínurnar frá á stjórnarheimilinu og sjá í hvað farvegi þetta er. Ekki er hlustað á stjórnarandstöðuna, ekki á ráðgjafa og ekki á lögfræðinga. Þetta er bara sorglegt.



[18:16]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom aðeins inn á það sem ég held að skýri margt í aðdraganda þessa máls. Það eru þau innbyrðis átök sem blasað hafa við okkur um þessi mál innan ríkisstjórnarflokkanna. Við skulum ekki gleyma því að í september 2010 kom hin fræga sáttanefnd fram með álit sitt og allir hefðu búist við því þá að verkið yrði tiltölulega fljótunnið eftir það, en í staðinn hófst mikil togstreita. Sú togstreita var innan stjórnarflokkanna því að þar var málið unnið, það var ekki unnið af neinum öðrum, það var ekki togstreita við hagsmunaaðila eða við stjórnarandstöðuna heldur var þetta togstreita milli stjórnarflokkanna og hefur birst okkur í mismunandi áherslum innan þeirra eins og við vitum öll.

Svo kom sjávarútvegsfrumvarpið fram í fyrra, í byrjun júní að ég hygg, og við tókum 1. umr. um málið. Því máli var vísað til nefndar og nefndin vísaði því til umsagna. Það mál var síðan drepið vegna þess að það hafði engan pólitískan stuðning í ríkisstjórnarflokkunum þrátt fyrir að það hefði verið borið fram sem stjórnarfrumvarp í upphafi. Nákvæmlega það sama virðist mér vera með þetta frumvarp núna, það eru mikil innbyrðis átök á bak við það. Við skynjum að það var auðvitað ástæðan fyrir því að málið dróst og var ekki lagt fram fyrr en í lok mars á þessu ári þrátt fyrir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segði að það væri ekki mikið verk að ljúka því.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki þeirrar skoðunar að þetta frumvarp hafi goldið þessara átaka. Er ekki ein skýringin á því að efni þess er svona mótsagnakennt og stangast á við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar að mati ýmissa lögmanna og við ýmsa aðra þætti og það er svona innbyrðis mótsagnakennt, skattlagningaraðferðin svona galin eins og allir vita, af því að ríkisstjórnarflokkarnir gátu ekki almennilega einbeitt sér að efni málsins vegna þess að það var svo mikið tog innan þeirra (Forseti hringir.) um hina pólitísku stefnu?



[18:19]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það hljóti að vera að frumvarpið sé svo illa unnið vegna innbyrðis átaka á ríkisstjórnarheimilinu. Það getur ekki verið með öðrum hætti. Hafi hv. þingmaður ekki heyrt ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar í dag bendi ég honum á að fá hana útprentaða því að þar rekur hv. þingmaður ferlið frá því að hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason settist á ráðherrastól þar til hann hann fór úr honum og varð óbreyttur þingmaður. Það var rosalegt átakatímabil í ríkisstjórninni og hv. þm. Atli Gíslason sagði að það hefði engu verið líkara en að þingmönnum stjórnarliðsins hafi verið veitt skotleyfi á þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér þessa ræðu til að fá yfirsýn yfir átökin á stjórnarheimilinu.

Sáttanefndin sem skipuð var skilaði mjög góðu starfi en ég ímyndað mér að sú nefnd hafi bara verið stofnuð upp á punt því að þegar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur var ljóst að komin var sátt innan nefndarinnar á milli allra aðila varð allt vitlaust. Það var bara of gott til að vera satt að komin væri sátt í sjávarútvegsmálin, hugsið ykkur. Og þetta er forsætisráðherra landsins. Þar með setti hún málið allt upp í loft á nýjan leik, eins og hún vinnur alltaf, því miður.

Ég segi nú bara: Hvers á þjóðin bara að gjalda í þessu máli sem og öðrum að hafa hér forsætisráðherra sem fer fram með öll mál í ófriði en ekki friði?



[18:21]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeirri kenningu hefur oft verið fleygt að það sé markmið einhverra innan stjórnarliðsins að halda þessum málum í átakaferli. Ég hef aldrei viljað trúa því að það gæti verið markmið nokkurs manns að halda þessu máli af pólitískum ástæðum í átakaferli vegna þess að það hentaði að hafa átök um sjávarútvegsmálin, við vissum að uppi væri gagnrýni á núgildandi löggjöf og þess vegna hentaði það einhverjum í pólitísku skyni að hafa átök um málið.

Hafi einhver hugsað þannig, sem ég ætla ekki neinum í rauninni, held ég að flestum hafi orðið það ljóst eftir að frumvarp fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra var lagt fram á síðasta ári að þetta var ekki mjög þénugt í pólitísku skyni vegna þess að sú útreið sem stefna ríkisstjórnarflokkanna fékk í sjávarútvegsmálum eftir að það frumvarp hafði verið lagt fram, var auðvitað slæm. Við fundum að umræðan í þjóðfélaginu snerist við og menn áttuðu sig á ýmsum hlutum sem ekki höfðu legið jafnljósir fyrir áður. Segja má að hæstv. utanríkisráðherra hafi síðan rekið rothöggið á feril þess máls með fleygri setningu sinni um að frumvarpið væri bílslys. Það má síðan hafa ýmis orð um það mál.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á framsal skattlagningarvaldsins og það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur sem margir hafa nefnt í umsögnum og í umræðunni um málið. En hvað segir þá hv. þingmaður um það að þegar fyrir liggur frumvarp sem gagnrýnt er fyrir að fela í sér mikið framsal á skattlagningarvaldi? Þá bregst meiri hluti atvinnuveganefndar þannig við að hann eykur vald þessarar tilteknu þriggja manna nefndar, veiðigjaldsnefndar, sem menn hafa verið að vísa til að fái skattlagningarvald í hendur með einum eða öðrum hætti. Það sem vekur mér nokkra undrun er að brugðist er þannig við gagnrýni sem fram kom um málið frá virtum lögfræðingum, þ.e. að þarna sé of mikið framsal skattlagningarvalds, að verkefni (Forseti hringir.) nefndarinnar er aukið frá því sem það er í frumvarpinu sem liggur þó undir mikilli gagnrýni vegna hugsanlegt brot á stjórnarskrá.



[18:23]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Já, það er búið að vera mikið átakaferli innan ríkisstjórnarinnar eins og hv. þingmaður rakti. Eins og hv. þingmaður fór yfir birtist þessi hörmung í því frumvarpi sem þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason var látinn sitja uppi með. Frumvarpið var lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar en þegar það fékk svo mikla andstöðu sem raun bar vitni og var svona mikið klúður hættu ráðherrarnir einn af öðrum að styðja hv. þm. Jón Bjarnason, núverandi þingmann.

Meira að segja kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar í dag að honum hefði sárnað það mjög að ekki einu sinni formaður Vinstri grænna, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hefði staðið upp og varið félaga sinn. Það var alveg með ólíkindum hvernig farið var með fyrrverandi ráðherra en það sýnir vel átökin innan ríkisstjórnarinnar sem enduðu með því að hæstv. þáverandi ráðherra Jón Bjarnason var látinn fara úr ríkisstjórninni. Þá var byrjað upp á nýtt og þá tók hæstv. núverandi ráðherra Steingrímur J. Sigfússon við málinu og ætlaði bara að ljúka því á tveimur til þremur vikum, en það tók nú marga mánuði og hér sitjum við uppi með þetta mál. Já, þetta er sorgleg atburðarás, herra forseti.

Framsalið á skattlagningarvaldinu, að meiri hlutinn í atvinnuveganefnd skuli auka enn vald veiðigjaldsnefndar þó að lögfræðingar hafi bent á að framsalsvaldið sé of mikið og að það sé óheimilt samkvæmt stjórnarskrá, er mér bara algjörlega óskiljanlegt. Ég skil ekki hvers vegna fólk getur ekki tekið ábendingum frá okkar færustu lögfræðingum. Þessi ríkisstjórn hefur svo sem aldrei hlustað á ráðgjöf frá fólki úti í bæ eða frá sérfræðingum en það er illa komið fyrir henni fyrst hún telur sig ekki (Forseti hringir.) þurfa að fara eftir því.



[18:26]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar ég kem upp í annað sinn í þessari umræðu um frumvarp til laga um veiðigjöld langar mig að setja málið í aðeins annað samhengi en ég gerði í fyrri ræðu minni og fjalla um þá ósk eða kröfu sem mikið hefur verið haldið á lofti í þessari umræðu og reyndar almennt í umræðu um sjávarútvegsmál undanfarin ár, að þjóðin fái sanngjarnan hlut í arðinum af veiðunum við Íslandsstrendur.

Mikið er rætt um það í þingsölum af stjórnarliðum að þessi ríkisstjórn muni loksins tryggja þjóðinni sanngjarnan hlut í arði fiskveiða á Íslandi. Til þess að hægt sé að ræða þessi mál af einhverri yfirvegun og af mátulegri hlutlægni er bráðnauðsynlegt að skoða aðeins sögu fiskveiða við Ísland undanfarna örfáa áratugi.

Í haust kom út skýrsla frá Arion banka, ég hygg að hún hafi komið út í októbermánuði, sem fyrir margra hluta sakir er fróðleg lesning. Hún heitir Íslenskur sjávarútvegur og er í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum er talað um þróun undirstöðuatvinnugreinar Íslands og í seinni hlutanum er fjallað um möguleg áhrif nýrrar fiskveiðilöggjafar. Þar er reyndar fjallað um fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, sem er ekki á dagskrá hér en tengist óneitanlega frumvarpi þessu um veiðigjöld. Það eru nokkur atriði í þessari skýrslu Arion banka sem mér finnst ástæða til að minna á þegar rætt er um þetta mál sem sagt er vera lagt fram á þingi til að tryggja þjóðinni arð af nýtingu auðlindarinnar. Á bls. 16 í þessari skýrslu er til að mynda dregin upp tafla af hagnaði sjávarútvegsgreinarinnar undanfarna áratugi og kemur skýrt fram að á árunum á milli 1980 og 1990 var íslenskur sjávarútvegur einfaldlega rekinn með tapi. Tap sem hlutfall af tekjum sjávarútvegsfyrirtækjanna var á þessum tíu árum, árabilinu 1980–1990, frá 1% og upp í 9% — tap af veltunni var allt upp í 9%. Þannig var þetta hér á níunda áratugnum. Það er líka áratugurinn þar sem tekin var ákvörðun á Alþingi um að kvótasetja réttinn til fiskveiða. Þá var kvótakerfið tekið upp og við höfum byggt á því frá árinu 1984.

Næstu stóru tíðindi á myndinni sem er á bls. 16 í skýrslunni verða frá árinu 1991 þegar framsalið er gefið frjálst. Það verða mjög skörp skil bæði við kvótasetninguna og við það að framsal aflaheimilda er gefið frjálst vegna þess að frá þeim tíma, frá árinu 1991, verður til hagnaður af reglulegri starfsemi í rekstri íslenskrar útgerðar. Hann var ekki mikill í fyrstu og þann áratug sem tók við, þ.e. upp frá svona 1990 til ársins 2000, var hagnaðurinn í útgerð mjög takmarkaður. Hann náði hámarki í um 5% en var annars á bilinu 0 til 2–3% af reglulegri starfsemi.

Það skyldi því engan undra að á níunda áratugnum og á fyrsta áratug þessarar aldar var ekki hávær umræða um að innheimta veiðigjald. Öllum var ljóst að útgerðin risi ekki undir háu veiðigjaldi. Arður af útgerð sem á að skila sér til þjóðarinnar hefur hins vegar beinlínis orðið til vegna kerfisbreytinganna. Þegar við horfum á þessa mynd og lítum lengra eftir tímaásnum sjáum við hvað gerist í framhaldi af því að heimildirnar leita til þeirra sem hæfastir eru til að gera út. Sumir hætta, það er dregið úr offjárfestingu, sóknargeta skipaflotans er aðlöguð að afrakstursgetu stofnanna og þá fara hlutirnir að lagast.

Í þessu samhengi er það þess vegna fullkomlega eðlilegt þegar við horfum til baka að auðlindanefndinni skyldi hafa verið komið á einmitt þegar hlutirnir eru að komast í mjög gott lag. Það er skiljanlegt að í kringum árið 2000 hafi menn farið að velta fyrir: Ja, þar sem við höfum takmarkað svo mjög aðganginn að auðlindinni og útgerðin er farin að ganga betur, er þá ekki kominn tími til að ræða hvort við þurfum ekki að skipta auðlindarentunni, umframhagnaðinum, sem verður til sérstaklega vegna þess að aðgangurinn að auðlindinni hefur verið takmarkaður?

Það var gert. Skýrsla auðlindanefndarinnar kom fram og færðar voru reglur í lög sem kváðu á um skyldu til að greiða þetta sérstaka gjald. Málið sem við erum að ræða hér byggir á þessari þróun, það byggir á ákvörðunum sem voru teknar fyrir löngu síðan. Að öðrum kosti væri enginn að ræða um að taka neitt veiðigjald yfir höfuð, ef ekki hefði komið til kvótasetningarinnar og ef ekki hefði komið til þess að framsal aflaheimilda var gefið frjálst á sínum tíma.

Ég dreg þetta hér fram, eins og ég sagði í upphafi, því að ég vil taka þetta með í umræðuna um það hvernig hægt er að tryggja þjóðinni hæfilegan eða sanngjarnan hlut í afrakstri greinarinnar. Það sem ég er að segja er þetta: Við gerum það best með því að skapa greininni sem hagkvæmust skilyrði þannig að við tryggjum að það sé hagkvæmt og skilvirkt að gera út á Íslandi. Reyndar hefur okkur tekist svo vel með kvótakerfinu og með framsalsreglunum sem gilt hafa að við erum orðin fyrirmynd annarra þjóða.

Hvers vegna skyldu aðrar þjóðir öfunda okkur Íslendinga af fiskveiðistjórnarkerfinu hér á landi? Ætli það sé fyrst og fremst vegna þess að þær sjá að við höfum svo mikið upp úr veiðigjaldinu sem lagt var á hér á sínum tíma? Nei, allir sem horfa hingað vita að þegar útgerðinni gengur vel mun arðurinn af veiðunum skila sér víðs vegar út í samfélagið í tekjuskatti útgerðarinnar sjálfrar.

Það er farið ágætlega yfir það í skýrslu Arion banka hvernig tekjuskattur útgerðarinnar hefur verið. Það er t.d. mjög athyglisvert að á árunum 2003–2005 voru greiddir tekju- og eignarskattar sjávarútvegsins hærri en alls iðnaðar í landinu fyrir utan fiskvinnsluna. Ef við skoðum lengra tímabil greiddi sjávarútvegurinn að meðaltali um 1,5 milljarða á ári í skatta, þ.e. á tímabilinu frá 1999–2008, sem var auðvitað gríðarleg breyting frá þeim tíma sem ég vísaði til áðan, fyrir árið 1990, þegar útgerðarfyrirtækin voru meira eða minna upp á opinbera styrki komin. Þannig er það því miður enn í svo mörgum öðrum löndum, t.d. í Evrópusambandinu.

Nú er ríkisstjórnin í viðræðum við Evrópusambandið um að við undirgöngumst fiskveiðistjórnarstefnu þess. Þar er málum svo fyrir komið í dag að Evrópusambandið setur ekki 1 milljarð í sjávarútvegsfyrirtækin í styrki á ári, ekki 5 og ekki 10 milljarða — nei, það fara 100 milljarðar á ári í styrki frá Evrópusambandinu til útgerðarinnar og umræða um veiðigjald er lítil. Það er ekkert svigrúm fyrir veiðigjald. Það er vegna þess, eins og tölurnar bera með sér, að peningar streyma úr opinberum sjóðum til útgerðarinnar.

Er ekki rétt að taka þetta með í myndina þegar við tölum um það hvernig við með lögum og reglum getum tryggt þjóðinni arð af útgerð? Ég tel að minnsta kosti að það sé nauðsynlegt. Þess vegna tel ég að það sé mjög erfitt að taka umræðu um þetta mál án þess að ræða um fyrirhugaðar breytingar á stjórn fiskveiða, en frumvarp um það efni er nú í atvinnuveganefnd. Það er í raun og veru fráleitt að við séum að ræða um hugmyndir á borð við þær sem hér liggja frammi, þ.e. að stórauka gjaldtöku af greininni, án þess að það liggi fyrir með hvaða hætti umhverfi greinarinnar verður næstu árin. Það mun m.a. skýrast af afdrifum þess frumvarps. Í skýrslunni sem ég hef hér vitnað til frá Arion banka og reyndar í umsögnum allflestra aðila sem hafa skilað hingað til þingsins áliti sínu kemur mjög skýrt fram að það er verið að draga úr arðsemi veiðanna í því frumvarpi, sem mun aftur bitna á getu greinarinnar til að skila arði af veiðum til þjóðarinnar, sem menn segjast þó í hinu orðinu vera að einblína á.

Ég rakti það áðan að á sínum tíma hefði starfað auðlindanefnd og í kjölfar vinnu nefndarinnar hefði verið komið á veiðigjaldi. Í svari til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, sem er frá því í fyrra, frá sjávarútvegsráðherra kom fram hvernig það gjald hefði þróast undanfarin ár og hvernig það hefði skipst eftir byggðarlögum. Það er nokkuð fróðlegt svar og er að finna á þskj. 380 frá þessu löggjafarþingi, 223. mál. Eins og sjá má í fyrsta lið svarsins hefur veiðigjaldið í sjálfu sér ekki verið mjög hátt framan af, það hefur verið á bilinu 600 milljónir upp í 1 milljarð, árin 2010–2011 3 milljarðar, og svo er áætlað í svarinu að það verði aftur um 3 milljarðar. Miðað við þær hugmyndir sem við erum að ræða eru þetta kannski ekki mjög háar tölur. Ég vil þó taka það fram að nokkuð breið samstaða var um það í upphafi að hefja töku veiðigjalds með hóflegu gjaldi.

Nú er þetta mál sem sagt lagt fram, sem leit þannig út í upphafi að gera mátti ráð fyrir að hið nýja gjald yrði upp undir 25 milljarðar. Það kemur nú breytt inn í þingið og er dregið úr því og menn segja: Ja, ætli það verði ekki svona 15 milljarðar eða eitthvað svoleiðis. 15 milljarðar eru um það bil þrjátíuföldun frá árinu 2005, sem er um það bil fimmtánföldun frá 2009–2010 og um það bil fimmföldun á gjaldinu frá 2010–2011. Menn segja að þetta sé auðlindarenta.

Ég tók upp við hv. þm. Skúla Helgason hér í andsvari í gær hvenær hann teldi að auðlindarenta myndaðist, hvenær útgerðin hefði hagnast svo mikið á rekstri sínum að við gætum farið að ræða um auðlindarentu sem bæri að skipta með einhverjum tilteknum hætti. Þingmaðurinn sagði það ekki áhugaverða spurningu. Hann taldi að menn ættu bara að greiða fyrir aðganginn sjálfan, sem fékk mig aftur til að hugsa: Ja, kannski erum við ekki að ræða um sama málið. En málinu var í upphafi teflt fram sem máli um auðlindarentu. Nú er gjaldið svo sem tvískipt, annars vegar fast gjald en bróðurparturinn af þessari háu tölu kemur af því sem menn segja vera auðlindarentu. Gallinn við þennan málflutning stjórnarliða og meiri hluta nefndarinnar, sem kemur nú með málið inn í þingið, er sá að menn viðurkenna um leið að það eigi eftir að finna út hvernig eigi að reikna auðlindarentuna. Því er vísað áfram í veiðigjaldsnefnd að fínstilla það allt saman, sem dregur fram eins skýrt og hægt er í raun og veru að málið var algjörlega vanbúið þegar það kom til þingsins. Allt er þetta vinna sem sjálfsagt og eðlilegt er að gera kröfu til að unnin sé í ráðuneytinu áður en málið er lagt fram.

15 milljarðar, segja menn núna. Í október sl. kom fram skýrsla frá ríkisstjórninni, fjármálaráðuneytinu, Ríkisbúskapurinn 2012–2015. Þá var kynnt til sögunnar hvernig menn hygðust með annars vegar aðhaldsaðgerðum og hins vegar tekjuaukandi aðgerðum ná frekari jöfnuði í ríkisfjármálum. Í hinum sérstöku tekjuaðgerðum var veiðigjaldið einn undirliðurinn. Í október sögðu menn að þeir ætluðu að taka 4,5 milljarða umfram það sem við höfum hingað til séð tekið í veiðigjald. Það hefði þýtt að á árunum 2013, 2014 og 2015 hefði veiðigjaldið legið einhvers staðar í kringum 10 milljarða. Síðan líða nokkrir mánuðir og þetta frumvarp kemur inn í þingið. Þá segja menn: Ja, núna erum við að hugsa um að taka 25 milljarða. Svo fer málið til nefndar, það kemur í þingið og þá er sagt: Ja, ætli það sé ekki hæfilegt að það séu 15 milljarðar? Sjónarmið okkar í Sjálfstæðisflokknum og fjölmargra umsagnaraðila, einnig sjónarmið sem heyrist sterkt í umræðunni hér frá Framsóknarflokknum er: Þetta enn of hátt. Þá er viðkvæðið: Já, en við erum búin að lækka þetta svo mikið, við erum búin að lækka þetta úr 25 niður í 15.

Má ég vekja athygli á því að 15 milljarðar eru um það bil 50% hærri tala en er í fjárlögunum og í þessari skýrslu um ríkisbúskapinn frá árinu 2012 til 2015. Það er því fráleitur málflutningur að ræða um að ríkisstjórnarflokkarnir hafi tekið eitthvert sérstakt tillit eða hafi gefið eftir. Talan er einungis komin úr 25 niður í 15 vegna þess að það er það minnsta sem ríkisstjórnin treystir sér til að mæla með, stjórnarflokkarnir og nefndin sem kom með málið hingað inn, án þess að ógna stöðugleika í greininni. Hefðu menn haldið sig við hærri töluna lá fyrir að þeir gerðu fjöldann allan af fyrirtækjum í greininni gjaldþrota, sendu menn í greiðsluþrot. Það hefði kallað yfir okkur gríðarleg vandræði á erfiðum tímum þegar greinin er að rétta úr kútnum og skila okkur þeim mikilvægu gjaldeyristekjum sem raun ber vitni.

Ég ætla að nota síðustu mínútuna í ræðu minni til að vekja athygli á því að það þarf ekki að vera sá ágreiningur um þessi mál sem ríkisstjórnin hefur komið þeim í. Það er ágætissamhljómur milli flokka um að hægt sé að hækka veiðigjaldið. Ég tel að það sé grundvöllur fyrir ágætri sátt við greinina sjálfa um að taka aukna auðlindarentu af henni. Lykillinn liggur í því að komast að samkomulagi um hvernig auðlindarentan verður reiknuð og síðan hvernig henni eigi að skipta í framhaldinu. Auðlindarenta í þessum skilningi er hinn svokallaði umframhagnaður vegna forgangs að nýtingu auðlindarinnar sem sjávarútvegsfyrirtækin í landinu hafa. Um þetta á ekki að þurfa að vera svo mikill ágreiningur. Hann er fyrst og fremst vegna þess að menn koma með vanbúið mál inn í þingið og reyna að þrýsta því í gegn án þess að hlusta á sjónarmið sem fram koma í umræðunni og eru málefnaleg. (Forseti hringir.) Ég ætla að segja að lokum að það þarf heldur ekki að vera ágreiningur um stjórn fiskveiða (Forseti hringir.) vegna þess að sáttanefndin lagði grunn að sátt í því máli á sínum tíma.



[18:46]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans. Mjög gagnlegt er að fara yfir það sem hann fór yfir til upprifjunar.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því, þar sem Samfylkingin og nokkur hluti Vinstri grænna lagði inn umsókn að Evrópusambandinu sumarið 2009, hver skoðun hans er á því að hafa þessi tvö mál opin bæði í einu, þ.e. nú liggur allt undir í sjávarútvegsmálunum á Alþingi hjá ríkisstjórninni og svo er umsóknin að Evrópusambandinu opin líka. Er ekki óskynsamlegt að hafa tvö svo stór mál í óvissu, sérstaklega í ljósi þess að það er verið að rústa hér kerfi sem er tilnefnt til verðlauna á alþjóðavísu? Margir horfa til okkar ágæta fiskveiðistjórnarkerfis sem á rætur að rekja til ársins 1990. Hefur þetta einhver áhrif á umsóknina eða sér þingmaðurinn einhverjar hættur samfara því að þessi tvö mál séu bæði opin í einu? Við eigum náttúrlega mikið undir að verja hagsmuni okkar í sjávarútvegi komi til aðildar að Evrópusambandinu.

Hin spurningin sem ég ætla að leggja fyrir þingmanninn er hvað honum finnist um það skattlagningarframsal sem lagt er til í frumvarpi þessu, ekki einasta er gefin út reglugerðarheimild í frumvarpinu til ráðherra heldur er beinlínis farið niður í embættismannakerfið þar sem þrír aðilar verða fengir til að ákveða þá skattlagningu sem boðuð er í frumvarpinu. Telur þingmaðurinn þetta ekki skýrt brot á stjórnarskránni?



[18:48]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tel að það valdi mikilli óvissu um framtíð íslensks sjávarútvegs að vera með bæði þessi mál á dagskrá í þinginu og þau átök sem hafa ríkt um framtíð íslensks sjávarútvegs allt þetta kjörtímabil og hafa síðan til viðbótar umsókn í gangi um aðild að Evrópusambandinu. Í því sambandi hefur komið í ljós að Evrópusambandið hefur ekkert viljað sýna á spilin í bráðum þrjú ár í viðræðunum þannig að við erum enn í mikilli óvissu um hvað mögulegt er að semja um.

Það er reyndar ágætt að þetta skuli koma upp hér vegna þess að það var einmitt í dag sem Hafrannsóknastofnun lagði til eða kom með ráðgjöf um veiðar fyrir næsta fiskveiðiár og voru bæði góðar og slæmar fréttir í þeim upplýsingum sem komu frá Hafrannsóknastofnun. Það er kannski ágætt að rifja það þá upp að um leið og við gleðjumst yfir aukningu þorskstofnsins og hörmum að ýsustofninn er að gefa eftir að ef við værum í Evrópusambandinu mundum við bíða eftir því að heyra hvað Evrópusambandið ætlaði að gera með upplýsingarnar vegna þess að það væri úr okkar höndum að taka ákvörðun um heildarafla hvers árs.

Varðandi stöðuna hér heima að öðru leyti og það sem ég nefndi um arðsemi greinarinnar þá er það mjög athyglisvert sem kemur fram í skýrslu Arion banka, að það eru ekki nema sex ár síðan Norðmenn drógu að mestu leyti úr framlögum og styrkjum til sjávarútvegs og árið 1992 voru styrkir til greinarinnar í Noregi tæplega 30% af tekjum hennar. Svo eftir að menn drógu úr styrkjunum byrjaði arðsemi að aukast í greininni.



[18:51]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þetta svar. Það er akkúrat mergurinn málsins að íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur en sjávarútvegur Evrópusambandsins er það. Þingmaðurinn vísaði í upplýsingar frá Noregi sem eru mjög mikilvægar fyrir okkur, að um leið og dregið er úr ríkisstyrkjum eflist atvinnugreinin. Þetta er afar mikilvægt.

Varðandi spurningarnar sem ég lagði fram sá ég að þingmaðurinn féll á tíma í seinni spurningunni þannig að ég ætla að bera hana fram aftur. Telur þingmaðurinn að skattlagningarframsalið sem á sér stað í frumvarpinu brjóti ekki gegn 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að Alþingi eitt megi leggja á skatt í gegnum lagafrumvörp? Mig langar að fá álit þingmannsins á þessu atriði.



[18:52]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mikið álitamál og þarfnist nákvæmrar skoðunar. Ég sé það af gögnum málsins að ráðuneytið telur sig hafa girt fyrir þessa hættu með því að nefndin, sem málinu er vísað til, hafi ekki úrslitaáhrif um gjaldlagninguna en þar sem tilvitnað stjórnarskrárákvæði er mjög afdráttarlaust um að þessu skuli skipað með lögum tel ég að menn verði að fara mjög varlega í að setja lög sem vísa þessu valdi eða mati áfram. Þess vegna er það gilt sjónarmið sem þingmaðurinn hreyfir hér.



[18:53]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ágæta ræðu hér áðan, sérstaklega þó undir lokin þegar hv. þingmaður sagði að ágætur samhljómur væri um meginsjónarmiðin í þessum málum. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ágætur samhljómur um meginsjónarmiðin. Ég hef haft það á tilfinningunni í þessari umræðu, sem er búin að standa yfir í tæpa viku núna, að við séum að leggja dálítið á okkur í að finna ágreining um meginsjónarmiðin. Mér finnst þau liggja fyrir vegna þess að það liggur mikil vinna að baki, ekki bara þessu eina máli heldur hafa menn í áratugi unnið að þessu og í grófum dráttum komist að sömu niðurstöðu.

Niðurstaða auðlindanefndarinnar, sem hv. þingmaður nefndi áðan, svo að ég vitni til hennar, með leyfi forseta, er að „rétt sé að stefna að greiðslu fyrir afnotarétt af öllum auðlindum sem eru í eigu ríkis eða þjóðar af tvennum ástæðum: annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti með viðkomandi auðlind, hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting hennar skapar“.

Um það snýst þetta mál. Þetta er sama niðurstaða og endurskoðunarhópurinn 2010 komst að þegar hann skilaði gögnum sínum af sér sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson notar sem röksemdafærslu í bókun sinni með skýrslunni. Það er ekki verið að gera aðrar breytingar á heildarstjórnarkerfi sjávarútvegs. Það á að halda sig við aflahlutdeildarkerfið, aflamarkskerfið, og litið er til lengri tíma með nýtingarsamningum til 20 ára, úthluta yfir 90% af aflaheimildum til 20 ára o.s.frv. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Er hann andvígur þeim meginsjónarmiðum að auðlindagjald taki mið af arðsemi í greininni annars vegar, sé nátengt arðsemi í greininni, (Forseti hringir.) og hins vegar af þeim hluta sem er fastur til að standa undir rekstri greinarinnar af hálfu hins opinbera?



[18:55]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þegar bátarnir voru allir bundnir við bryggju í gær fór ég ásamt fleiri þingmönnum í göngutúr niður að höfn. Þar hittum við tvo menn sem selja net og þjónusta meðal annars Granda. Þeir eru á litlum vinnustað, þriggja manna vinnustað, og sagði annar mannanna að Grandi verslaði við fyrirtækið fyrir um 700 milljónir á ári. Það fær mann óneitanlega til að velta því fyrir sér, þegar við leggjum á skatt eins og þennan, hversu mikið skatttekjur muni dragast saman á öðrum sviðum sjávarútvegs, hjá þjónustuaðilum, launaskattur og annað.

Í skýrslu sem unnin var af Daða Má Kristóferssyni og Stefáni B. Gunnlaugssyni, sem fylgir með þessu frumvarpi, er einmitt fjallað um þetta. Þar segir, með leyfi herra forseta:

„Beinu áhrifin verða minni skatttekjur vegna minni arðsemi, samdráttar í framkvæmdum á vegum fyrirtækja, minni kaup á þjónustu og aukin hætta á gjaldþrotum. Til lengri tíma mun rými fyrirtækja til að gera vel við starfsfólk minnka og líklegt er að launaþróun í sjávarútvegi verði neikvæð.“ — Það hefur áhrif á arðsemi og umfang annarrar skyldrar atvinnustarfsemi við sjávarútveg.

Mig langaði að velta því upp við hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað skoðað það hversu miklar tekjur eru af þessum afleiddu, óbeinu störfum sem verða til í kringum sjávarútveginn. Nái þetta frumvarp fram að ganga, eins og það er, og til að mynda 17 af 24 útgerðum í Snæfellsbæ færu á hausinn, hvað mundi það draga mikið úr tekjum ríkissjóðs af þessum afleiddu störfum? Það væri fróðlegt ef hv. þingmaður, af því að hann var á þessum nótum í ræðu sinni, gæti aðeins komið inn á þetta í andsvari.



[18:57]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki bara að það frumvarp sem við ræðum í dag kunni mögulega að draga úr tekjum annars staðar í kerfinu heldur hefur óvissan, sem hefur ríkt frá því að nýja ríkisstjórnin tók við, líka haft mikil áhrif í þessu efni. Beinu áhrifin af þessu frumvarpi, þ.e. af því að stórauka svo gjaldtökuna upp í 15 milljarða, kannski 20, það er ekki auðvelt að reikna það nákvæmlega fyrir fram, munu augljóslega vera þau að það dregur úr möguleikum útgerðarinnar til þess að fara í nýfjárfestingar og það dregur úr krafti og getu útgerðarinnar til að sækja fram. Henni verður einfaldlega skömmtuð ákveðin framlegð og allt sem umfram verður verður sniðið af af stjórnvöldum.

Ég tel að þetta sé í raun og veru besta leiðin til að lýsa því hversu langt á að ganga með þeim hugmyndum sem hér eru kynntar til sögunnar. Ég held að hægt sé að gera þetta með miklu hóflegri hætti þannig að við séum í raun og veru að skipta auðlindarentunni.

Nú er ég bara að lýsa áhrifum þess frumvarps sem við ræðum hér, þ.e. frumvarp um veiðigjöld. Önnur óbein áhrif sem hafa haft gríðarlega mikil áhrif á umsvif og fjárfestingar í sjávarútvegi eru pólitísk óvissa, frumvarpið um stjórn fiskveiða og fyrri hugmyndir sem hafa komið fram á þessu kjörtímabili. Allt þetta hefur valdið því að fjárfestingar í sjávarútvegi, sem áður voru að meðaltali um 20 milljarðar á ári, hafa hrokkið niður í um 5 milljarða. Við erum með um ¼ af fjárfestingu í greininni miðað við það sem áður var, aðallega út af pólitískri óvissu.



[19:00]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er í rauninni efnislega að segja það sama og segir í skýrslu fræðimannanna Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvert tekjutapið verður fyrir íslenskan sjávarútveg ef þetta nær fram að ganga.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort það sé ekki mikilvægt, í ljósi þess að það er ekki búið að slá neinum tölum á það hvaða neikvæðu áhrif þetta frumvarp eitt og sér mun hafa á öðrum sviðum, að reyna að gera einhverja úttekt á því áður en þetta frumvarp nær fram að ganga.

Síðan langar mig að spyrja í ljósi þess sem hv. þingmaður benti á í ræðu sinni og kemur fram í skýrslunni frá þessum óháðu fræðimönnum: Hvað finnst hv. þingmanni um það að þeir sem gagnrýna frumvarpið málefnalega, eins og þessir ágætu fræðimenn og margir þingmenn hafa gert, sveitarfélög og aðrir, (Forseti hringir.) séu titlaðir taglhnýtingar Landssambands íslenskra útvegsmanna af hv. stjórnarliðum þingflokks Samfylkingarinnar þegar þeir tala um þá?



[19:01]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðari spurninguna finnst mér slík ummæli dæma sig sjálf, ég efast um að þau nái vel í gegn hjá þeim sem þau hafa uppi.

Varðandi fyrra atriðið er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka undir með þingmanninum og svara því játandi. Ég tel nauðsynlegt að fara mjög vandlega yfir áhrifin af þeim breytingum sem við erum að ræða á alla þá aðila sem þjónusta sjávarútveginn, á sjávarútvegsklasann á Íslandi í heild sinni. Það eru líka vinnubrögðin sem almennt hafa verið viðhöfð á fyrri árum þegar við höfum rætt mál af þessum toga. Við vorum t.d. með frumvarp um stjórn fiskveiða árið 1990 til umræðu í þinginu og þeir sem lesa það frumvarp sjá hversu margir voru kallaðir til til að meta þörfina fyrir breytingar og (Forseti hringir.) afleiðingar þess að gera þær breytingar sem um var rætt. Það tekur engu tali að þessi mál skuli hafa verið lögð fram í þinginu án samráðs við nokkurn mann.