140. löggjafarþing — 117. fundur
 9. júní 2012.
um fundarstjórn.

viðvera ráðherra og nefndarmanna við umræðuna.

[13:41]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Í upphafi þingfundar í morgun fór ég fram á það að vegna ræðu minnar sem ég mun flytja á eftir, strax eftir hádegisverðarhléið, yrðu kallaðir til þingfundarins í dag hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra sem hafa báðir með sveitarfélögin og tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga að gera. Ég fer eiginlega fram á það, frú forseti, að hlé verði gert á þingfundi þangað til þessir hæstv. ráðherrar, sem nú hafa haft um þrjá klukkutíma til að koma sér til fundarins, mæta til að hlusta á ræðu mína og bregðast við þeim fyrirspurnum sem ég er með.

Þá ítreka ég líka beiðni sem ég bar fram strax í morgun, og þó nokkrir þingmenn hafa tekið undir, um að þeir þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd þingsins og skrifuðu undir meirihlutaálitið verði jafnframt boðaðar til fundarins, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem eru ekki hér en hafa haft sig mikið í frammi um sjávarútvegsmál. Ég ítreka, frú forseti, (Forseti hringir.) að ég fer fram á að hlé verði gert á fundi þangað til hæstv. ráðherrar sem ég nefndi mæta til þingfundarins.



[13:42]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Það skal upplýst að hæstv. fjármálaráðherra er skráður í hús og forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að kalla hæstv. innanríkisráðherra til fundarins.



[13:42]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég kem hingað til að ræða um fundarstjórn forseta. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum haldið ræður í morgun þar sem við höfum beint fjölmörgum fyrirspurnum til þeirra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra sem málið varðar. Ég óskaði sérstaklega eftir því að hæstv. fjármálaráðherra kæmi hingað og svaraði tilteknum spurningum. Hæstv. ráðherra kom reyndar í salinn en svaraði ekki þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hana og ég óska eftir því að henni verði gerð grein fyrir því að við óskum eftir upplýsingum um aðkomu hennar að þessum málum.

Í annan stað óskaði ég eftir því að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kæmi í salinn vegna þess að hún hefur verið með fullyrðingar um fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi sem hafa verið hraktar og ég vildi ræða þau ummæli hennar á Alþingi við þessa umræðu. Ég fer fram á það við frú forseta að hún láti hv. þingmann vita að nærveru hennar sé óskað.

Síðan er náttúrlega miður að ég skuli ekki geta sinnt störfum mínum sem þingmaður í Norðausturkjördæmi. Ég var boðaður á fund um atvinnuuppbyggingu í Fjarðabyggð hjá fyrirtækinu Alcoa en (Forseti hringir.) vegna þess að þing er að störfum í dag get ég ekki sótt þann fund. Okkur þingmönnum ber skylda til að vera á Alþingi (Forseti hringir.) þegar þing er að störfum.



[13:44]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutíma og taka eftir því þegar rautt ljós kviknar í borðinu þótt forseti sé annars hugar við að skrifa niður óskir og beiðnir hv. þingmanna.



[13:44]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá sanngjörnu kröfu að hæstv. ráðherrar sem hér hafa verið nefndir séu viðstaddir. Það er auðvitað skiljanlegt að hæstv. ráðherrar þurfi að sinna öðrum skyldum einmitt á laugardegi því að enginn hafði gert ráð fyrir því að hér yrði þingfundur í dag og menn hafa örugglega meðal annars verið að skipuleggja sig í samræmi við það. Það er auðvitað einn gallinn sem við stöndum núna frammi fyrir, dagskrá þingsins er ekki ljós og í raun er búið að afnema starfsáætlunina, við erum komin langt fram yfir þann tíma sem gert var ráð fyrir að þingið starfaði, og þá koma óhjákvæmilega upp svona árekstrar. Úr því að ákveðið er að halda þingstörfum áfram inn í júnímánuð verður þingið með einhverjum hætti að bregðast við þannig að hægt sé að skipuleggja þingið þannig að það rekist ekki á við aðrar skuldbindingar hæstv. ráðherra og hv. þingmanna.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur til dæmis tjáð sig um það að þetta veiðigjald sé bara hið besta mál og mætti þess vegna jafnvel hækka það. Það stangast á við allar þær upplýsingar sem við höfum fengið, m.a. í atvinnuveganefnd og hefur komið fram í umræðunni, þannig að það hefði verið gott að geta heyrt hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) rökstyðja sjónarmið sitt.



[13:45]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að ræða um fundarstjórn forseta þegar lítið hefur reynt á hana enda fundur ekki hafinn að nýju eftir matarhlé. Ég verð þó að gera athugasemdir við það að þingmenn komi hingað upp annað slagið til að kvarta yfir því að framkvæmdarvaldið sé að valta yfir löggjafann, þingið og á hinn bóginn að kvarta yfir því að framkvæmdarvaldið og ráðherrar séu ekki á staðnum til að fara í málið. Málið er í höndum þingsins, það er þingið sem ræður örlögum þess hér inni. Þingmenn eiga að vera vel í stakk búnir til að ræða það, ég tala ekki um eftir alla þá vinnu sem hefur verið lögð í málið af hálfu atvinnuveganefndar á 25 fundum og sjö daga ræðuhöld í þinginu. Ég held því að menn séu vel heitir til að halda áfram umræðunni og eigi allra síst að vera að kvarta yfir því að þurfa að vera á þingi að sinna skyldustörfum sínum. (Gripið fram í.)



[13:46]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vil ítreka þá ósk mína sem ég setti fram í upphafi fundar um viðveru ráðherra vegna þess að ég er fyrstur á mælendaskrá. Mér þætti miður að ég þyrfti að halda ræðu mína án þess að hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. innanríkisráðherra væru til staðar vegna þess að ég þarf að spyrja þá ágætu ráðherra ákveðinna spurninga sem ekki hefur verið svarað í meðförum atvinnuveganefndar og ekki í umræðunni til þessa í þinginu. Það hefur ekkert með að gera það sjónarmið hv. þm. Björns Vals Gíslasonar að við séum ýmist að kvarta yfir afskiptum framkvæmdarvalds eða skorti á afskiptum. Framkvæmdarvaldið er til þess að svara fyrirspurnum okkar og veita upplýsingar um málið sem hugsanlega gætu hjálpað til við að leysa það.

Þess vegna ítreka ég þá beiðni mína, frú forseti, að hlé verði gert á fundi þangað til þessir hæstv. ráðherrar eru mættir til fundarins.



[13:47]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill upplýsa að það var rangt skráð í tölvu í viðveruskrá. Hæstv. fjármálaráðherra er ekki í húsi, hún var hér í morgun en hvarf frá fundi nú í hádeginu til annarra skyldustarfa. Einnig vill forseti upplýsa að hæstv. innanríkisráðherra mun vera á leið í hús og vekja athygli hv þingmanna á því að hér eru þingmenn og formaður hv. atvinnuveganefndar sem og hæstv. sjávarútvegsráðherra.



[13:48]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svo ekkert fari á milli mála þá er ég ekki að kvarta undan því að við séum hér daga langa og fram á nætur að ræða þessi mál ef talin er þörf á því. En þá hljótum við líka að gera sams konar kröfur til þeirra sem þurfa að láta þetta mál sig varða, t.d. fulltrúa í atvinnuveganefnd sem hafa verið nefndir og eru fjarstaddir, örugglega af ástæðum sem þeir hafa talið brýnar og ég geri enga athugasemd við. En það sem hv. þingmenn hafa verið að segja er að það er eðlilegt að við óskum eftir því að menn geti verið viðstaddir þessa umræðu. Það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna þegar við erum komin svona langt fram yfir það sem ætlað var í störfum þingsins. Menn hafa gert sínar ráðstafanir og tekist á hendur skuldbindingar sem þeir eiga kannski erfitt með að víkja frá og það á væntanlega við um þá hæstv. ráðherra og þingmenn sem hér hafa verið nefndir. Við erum einfaldlega að benda á þetta þegar við hvetjum til þess að skipulagi þingsins verði breytt svo að umræðan geti farið fram þannig að allir geti verið viðstaddir sem láta sig þetta mál varða.



[13:49]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill vekja athygli hv. þingmanna á því að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sem óskað var eftir að væri í salnum er nú sest í sæti sitt og mun geta hlýtt á mál þeirra sem hafa óskað nærveru hennar, þar á meðal hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar sem nú ræðir fundarstjórn forseta.



[13:49]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sé komin í salinn og vonandi munum við geta átt skoðanaskipti í dag um þetta frumvarp sem við ræðum um veiðigjöld. Hins vegar spurði ég hæstv. fjármálaráðherra efnislega út í grunnforsendur frumvarpsins er snerta framtíðarrekstrarfyrirkomulag sjávarútvegsins, spurði hana mjög skýrra spurninga í morgun og nú hefur það komið í ljós, eins og hæstv. forseti nefndi, að hæstv. ráðherra er ekki við þessa umræðu. Það er til lítils að halda umræðunni áfram ef við sem tökum þátt í henni fáum ekki svör við grundvallarspurningum sem tengjast frumvarpinu. Ég tek þess vegna undir með félögum mínum að ég held að það sé ráð að fresta umræðunni þangað til hæstv. ráðherra getur komið hingað og verið viðstödd og svarað þeim fyrirspurnum sem við höfum margítrekað lagt fram í þessari umræðu.



[13:50]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill vekja athygli á því að umræðunni er langt í frá að ljúka. Enn eru að minnsta kosti ellefu hv. þingmenn á mælendaskrá þannig að væntanlega munu gefast næg tækifæri fyrir hv. þingmenn að koma skoðunum sínum og fyrirspurnum til ráðherra og annarra á framfæri í umræðunni.

Nú er genginn í salinn hæstv. innanríkisráðherra sem óskað var eftir.



[13:51]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það gleður mig að stjórnarandstæðingar skuli sakna mín svo mjög þá sjaldan sem ég vík úr þingsal undir þessari umræðu, og alveg hafði það farið fram hjá mér að kallað væri eftir nærveru minni hér. Sú ósk hlýtur að hafa komið fram meðan ég gekk frá skrifstofu minni og hingað inn. En ég velti hins vegar fyrir mér, frú forseti, þeirri áráttu þingmanna að kalla eftir viðveru einstakra þingmanna hér í sal. Við höfum hljóðnema og sjónvarpstæki í vinnuaðstöðu okkar og getum fylgst með umræðum um allt þinghúsið og í húsakynnum þingsins við Austurvöll og ég hélt að það væri réttur þingmanna að ákveða það sjálfir hvar þeir fylgdust með umræðu, svo framarlega sem þeir væru staddir við störf meðan þingfundur stendur yfir. Ég vil svolítið bera á móti þessum hvimleiða ávana að vera alltaf að vekja athygli á því hverjir sitja í sætum í þingsal því það vita þingmenn manna best að við fylgjumst með umræðum þó við séum ekki í líkamlegri nærveru í þessum sal.



[13:52]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Allt er þetta satt og rétt sem hv. þingmaður segir og forseti vill ítreka að hæstv. fjármálaráðherra kom hingað til fundar og var við þessa umræðu í morgun og hefur væntanlega hlýtt á orð og fyrirspurnir hv. þingmanna. Eins og forseti tók fram áðan lifir enn talsvert af þessari umræðu og munu þá væntanlega gefast tækifæri til að sinna þeim svörum.