140. löggjafarþing — 118. fundur
 11. júní 2012.
atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, 2. umræða.
stjfrv., 735. mál (heildarlög). — Þskj. 1509, nál. 1464, brtt. 1465.

[17:41]
Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1464 og breytingartillögum á þskj. 1465 frá meiri hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Markmið þessa frumvarps, herra forseti, er að draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði, draga úr örorkubyrði og draga úr nýgengi örorku. Menn þekkja aðdragandann að þessari lagasetningu. Tilurð frumvarpsins má rekja til kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 2008. Vilji ríkisstjórnar var ítrekaður í stöðugleikasáttmálanum á árinu 2009 og í yfirlýsingu hennar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí 2011 kemur fram að stefna ríkisstjórnar sé að lögfesta skyldu allra launagreiðenda til að greiða 0,13% iðgjald til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og á móti komi samsvarandi greiðsla frá lífeyrissjóðunum og ríkinu. Með þessu frumvarpi er ætlunin að standa við þær yfirlýsingar sem rekja má aftur til ársins 2008.

Í þessari rammalöggjöf er tekið utan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem bjóða atvinnutengda starfsendurhæfingu. Í fyrsta lagi er fjallað um það hverjir það eru sem eiga rétt á þjónustunni, hverjir eru tryggðir. Almennt má segja að þeir sem eru á vinnumarkaði séu tryggðir með greiðslu iðgjalds frá vinnuveitendum, auk þeirra sem líka eru tryggðir sem fá greiðslur úr nánar tilgreindum sjóðum, svo sem sjúkrasjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. Einnig hefur verið gert ráð fyrir því að með sérstökum samningi við ráðherra verði aðilar utan vinnumarkaðarins tryggðir.

Að þessu sögðu er rétt að vekja athygli á því að sett eru nokkur skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóða í frumvarpinu almennt hvað lýtur að heilsubresti og þátttöku á vinnumarkaði en einnig þau skilyrði að starfsendurhæfingin sé líkleg til að skila árangri á þeim tíma sem hún er veitt og að einstaklingurinn sem nýtur hennar hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í endurhæfingunni og fylgja eftir áætlun sem sett er fram þar um.

Í öðru lagi er með frumvarpinu kveðið á um framlag til starfsendurhæfingarsjóða og það verði þrískipt, eins og menn þekkja, á milli atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkissjóðs. Framlag ríkisins verði 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds og framlag atvinnurekenda verði 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ríkið skal greiða sitt framlag eftir á í október ár hvert og það skal skiptast á milli starfsendurhæfingarsjóða á grundvelli hlutdeildar hvers sjóðs í heildarútgjöldum næstliðins árs. Miðað við tryggingagjaldsstofn sem var til grundvallar í fjárlögum ársins 2012 er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs verði tæplega 1.200 millj. kr. á ársgrundvelli.

Í þriðja lagi er fjallað um það hvernig þessir starfsendurhæfingarsjóðir skuli starfa. Þeir skulu vera sjálfseignarstofnanir og að baki þeim standi að lágmarki 10.000 manns.

Í fjórða lagi er fjallað um framlag lífeyrissjóðanna, herra forseti, og tekið fram að á árunum 2012–2015 skuli framlag þeirra ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhæð sjóðanna sem framkvæmd er lögum samkvæmt einu sinni á ári. Með þessu er átt við að þegar slík athugun fer fram sé ekki gert ráð fyrir því að framlögin verði til frambúðar. Ef gert væri ráð fyrir því mundu lífeyrisskuldbindingar sjóðanna aukast umtalsvert sem gæti leitt til skerðingar lífeyrisréttinda. Reynt er að draga úr þeirri hættu með bráðabirgðaákvæði þess efnis að framlög atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins, þessara þriggja aðila sem standa að fjármögnun sjóðanna, verði endurskoðuð fyrir árslok 2014 og þá verði meðal annars kannað hver áhrifin af starfsemi sjóðanna hafi verið á örorkubyrði lífeyrissjóðanna og almannatryggingar og hvort framlög til sjóðanna hafi skilað tilætluðum árangri. Við þetta bráðabirgðaákvæði gerir meiri hluti nefndarinnar breytingartillögu sem ég kem nánar að á eftir og hún felst í því að framlögin skulu vera endurskoðuð fyrir árslok 2014 en áhrifin af starfsemi sjóðanna skuli könnuð fyrir árslok 2016.

Það kemur fram í upphafi nefndarálitsins að á fund nefndarinnar komu fjölmargir gestir og margar umsagnir bárust. Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingartillögur eins og ég nefndi áðan, meðal annars til að mæta gagnrýni sem fram kom á frumvarpið. Ég vil fyrst nefna að gerð var athugasemd við það að líklegt væri að með þessu frumvarpi væri komið á tvöföldu kerfi endurhæfingar í landinu. Annars vegar læknisfræðilegri endurhæfingu á vegum heilbrigðisþjónustunnar og hins vegar atvinnutengdri starfsendurhæfingu sem við ræðum hér á vegum starfsendurhæfingarsjóða. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við það að tilteknir hópar sjúklinga sem þyrftu á endurhæfingu að halda ættu ekki rétt til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á grundvelli frumvarpsins.

Ég minni aftur á að í 11. gr. frumvarpsins kemur fram hverjir eru tryggðir og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að njóta þjónustu starfsendurhæfingarsjóðanna. Meðal annars er skilyrði fyrir þjónustu þeirra að viðkomandi stefni að endurkomu á vinnumarkað, en ekki sjúkdómsgreiningin sem slík. Það þýðir að almennt skiptir ekki máli hvað hrjáir viðkomandi við mat á því hvort hann eigi rétt á þjónustu sjóðanna. Aftur á móti eiga þeir einstaklingar sem ekki hyggja á endurkomu á vinnumarkað eða mjög ólíklegt er að snúi aftur á vinnumarkað almennt ekki rétt á þjónustu sjóðanna. Þeir eiga hins vegar hér eftir sem hingað til rétt á viðeigandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og svo er um hnúta búið að þeim sem leita til starfsendurhæfingarsjóðanna og eiga ekki rétt þar verður vísað til viðeigandi aðila í heilbrigðiskerfinu. Ég ítreka aftur að þeir sem standa utan vinnumarkaðar, þar á meðal þeir sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri og þeir sem fá fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustu sveitarfélaga, uppfylli þeir að öðru leyti almenn skilyrði, munu geta notið þjónustu sjóðanna, þar sem þeir sem hyggjast standa að stofnun starfsendurhæfingarsjóðs skulu gera samning við ráðherra um þjónustu sjóðsins við þessa einstaklinga.

Herra forseti. Við umfjöllun í nefndinni kom fram sá misskilningur að það væru starfsendurhæfingarsjóðirnir sjálfir sem ættu að veita þessa þjónustu í formi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Í nefndaráliti er áréttað að svo er ekki heldur muni sjóðirnir kaupa þá þjónustu frá þriðja aðila og að á vegum þeirra muni verða starfandi ráðgjafar og sérfræðiteymi til þess að meta þörf einstaklings fyrir starfsendurhæfingu og hvort hann uppfylli skilyrði laganna.

Í athugasemdum var bent á að í 13. gr. frumvarpsins segir að að baki hverjum sjóði skuli standa minnst 10.000 launamenn eða þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þessi lágmarksstærð sjóðanna gerir það að verkum að almennt verður ekki hægt að starfrækja sérstaka sjóði sem starfa aðeins í tilteknum landshlutum, talan er það há. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta og meiri hlutinn telur að þessi lágmarksstærð, 10.000 manns að baki hverjum sjóði, sé nauðsynleg svo hagkvæmt sé að hafa þá yfirbyggingu, fjölda ráðgjafa og fagþekkingu sem er nauðsynleg til þess að starfsendurhæfingarsjóðirnir geti starfað eðlilega.

Herra forseti. Nefndin fékk til sín gesti sem sögðu frá hinni miklu uppbyggingu sem orðið hefur í starfsemi starfsendurhæfingarstöðva úti um land og fjallaði mikið um þetta. Auk starfsendurhæfingarstöðva sem hafa sprottið upp víðs vegar um landið eru starfandi endurhæfingarstöðvar sem sinna læknisfræðilegri endurhæfingu, starfa á gömlum grunni, svo sem Reykjalundur, og eru reknar fyrir fjárveitingar frá ríkinu og eru sjálfseignarstofnanir eins og menn þekkja. Að mati nefndarinnar er afar mikilvægt að samþykkt þessa frumvarps hafi ekki neikvæð áhrif á starfsskilyrði starfandi endurhæfingarstöðva, hvort sem um læknisfræðilega endurhæfingu er að ræða eða starfsendurhæfingu.

Þá er einnig mikilvægt að tryggt sé að starfsendurhæfingarstöðvar verði starfræktar á landsbyggðinni svo að þeir sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda geti sótt þjónustuna í sinni heimabyggð. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu á 10. gr. frumvarpsins þess efnis og áréttar að það er afar mikilvægt að gott samstarf verði milli starfsendurhæfingarsjóða og ráðgjafa og sérfræðinga þeirra og starfsendurhæfingarstöðva. Með samstarfi þeirra aðila sem starfa við atvinnutengda starfsendurhæfingu og þeirra sem borga fyrir þjónustuna má tryggja góða og fjölbreytta þjónustu og jafnframt að fjármunir nýtist sem best.

Herra forseti. Í gildi eru þjónustusamningar milli velferðarráðuneytisins og starfsendurhæfingarstöðva víðs vegar um landið. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að VIRK Starfsendurhæfingarsjóður taki að mestu leyti yfir þá samninga vegna þeirra einstaklinga sem uppfylla skilyrði samkvæmt lögum þessum. Það er ljóst að ekki munu allir sem í dag njóta starfsendurhæfingar á vegum stöðvanna uppfylla þessi skilyrði. Því er fyrirhugað að setja á laggirnar sérstakt teymi til þess að fara yfir stöðu þeirra og einnig til að taka um það ákvörðun hvort þeir fá þjónustu á grundvelli samninga sem velferðarráðuneytið mun halda áfram að vera með við þjónustuaðila.

Eins og ég nefndi áðan er reiknað með að framlög til starfsendurhæfingarsjóðanna verði þrískipt og framlag ríkisins geti numið tæplega 1.200 millj. kr. á ársgrundvelli á verðlagi þessa árs. Þetta þýðir, herra forseti, að verði frumvarpið óbreytt að lögum munu framlög til starfsendurhæfingarsjóða á árinu 2013 nema 3,5 milljörðum kr. Samkvæmt áætlun fyrir árið 2012 munu útgjöld VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs nema 750 millj. kr. Auk þess kom fram fyrir nefndinni að VIRK á nú tæpan milljarð í varasjóði. Meiri hlutinn telur að til þess að sjóðurinn geti nýtt þetta mikla fjármagn á markvissan hátt þurfi að liggja fyrir áætlun um starfsemi sjóðsins. Því leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar hvað varðar greiðsluskyldu ríkissjóðs. Greiðsluskyldan komi inn í þremur áföngum en ekki tveimur, og það er gert með því í fyrsta lagi að fresta gildistökunni til 1. október nk. sem hefur þau áhrif að ríkissjóður mun í október 2013 greiða fyrir sem nemur einum fjórða hluta af framlagi á ársgrundvelli fyrir árið 2012. Samkvæmt tillögu meiri hlutans mun greiðsluskyldan fyrir árið 2013 nema þremur fjórðu hlutum. Fyrir árið 2014 mun ríkissjóður greiða fullt framlag og verður kerfið frá og með þeim tíma fullfjármagnað, en ég vek athygli á því að framlag ríkissjóðs greiðist alltaf í október árið eftir.

Þessi breyting er sett fram, herra forseti, til þess að að skapa VIRK Starfsendurhæfingarsjóði ákveðið svigrúm til áætlanagerðar svo nýta megi fjármagnið sem best.

Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu starfsendurhæfingarsjóða til að halda nauðsynlegan varasjóð til þess að mæta sveiflum í rekstri og í athugasemdum kemur fram að varasjóður geti að jafnaði svarað til sex til tólf mánaða útgjalda hlutaðeigandi sjóðs. Eins og ég nefndi áðan hefur VIRK nú þegar um einn milljarð í varasjóði. Árleg velta starfsendurhæfingarsjóðanna getur orðið veruleg og varasjóður gæti því hæglega hlaupið á milljörðum króna. Í athugasemdum, meðal annars frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, kom fram að það samrýmdist ekki hlutverki sjóðanna að safna svo miklum varasjóði og hafa af honum vaxtatekjur. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og leggur til þá breytingu að 3. mgr. 15. gr., sem fjallar um þessa skyldu til að halda varasjóð, verði felld úr frumvarpinu.

Að lokum, herra forseti, leggur meiri hlutinn til, eins og ég nefndi áðan, breytingar sem varða endurskoðun á framlögum og mati á áhrifum eða árangri sjóðsins. Byggjast tillögurnar á því að með því að kerfið verður ekki fullfjármagnað fyrr en á árinu 2015 sé eðlilegt að fyrir árslok 2016, þegar kerfið hefur verið fullfjármagnað í tvö ár, skuli fara fram mat á árangri, þ.e. hvað varðar örorkubyrði og nýgengi örorku. Óbreytt verði að fyrir árslok 2014 muni framlög aðila sem kveðið er á um í 5.–7. gr. frumvarpsins verða endurskoðuð en sú endurskoðun tekur aðeins til fjárhags sjóðanna sjálfra og hvernig framlögum til þeirra hefur verið varið, ekki örorkubyrðinni eða þeim árangri sem ég nefndi áðan.

Herra forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem er að finna á þskj. 1465 og ég hef hér fjallað um.

Undir þetta álit skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson og Guðmundur Steingrímsson.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 3. umr.



[17:57]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um í 1. umr. er þetta mjög jákvætt mál og er afleiðingin af löngu starfi meðal annars í Bollanefnd sem ég átti sæti í, ég vildi undirstrika það fyrst.

En ég vil spyrja af hverju menn fóru þá leið að nota tvenns konar gjaldstofn við greiðslurnar. Af hverju var ekki notaður annaðhvort gjaldstofn iðgjalda í lífeyrissjóð eða tryggingagjald? Það er á þessu eilítill munur og ég vil fá svar við því.

Þegar talað er um að þetta eigi ekki að trufla framtíðarskuldbindingar lífeyrissjóðanna þá er það náttúrlega hugsað þannig að þetta spari lífeyrissjóðunum fé því að öryrkjum fækki og fleiri verði virkir og haldi þá áfram að greiða í lífeyrissjóðina, það ætti nú að koma fram.

Síðan er spurningin með það orðalag að þeir einstaklingar sem er þannig ástatt um að þeir hyggja ekki á endurkomu. Er þetta algjörlega sjálfvalið hjá einstaklingum hvort þeir hyggi á endurkomu á vinnumarkað eða ekki? Væri ekki meira atriði að athuga hvort þeir geti komist á vinnumarkað frekar en að það sé eitthvert val einstaklingsins um verða öryrki til æviloka en ekki hvað hann getur?

Svo er það spurningin: Er eitthvað í kortunum um að fleiri en einn sjóður verði, því að talað er um tvo? En ég veit að það er ákveðin ástæða fyrir því.

Svo er dálítið merkilegt að segja: „Til að koma í veg fyrir óþarfa sjóðsöfnun“ ætli menn að fresta gildistöku. Er eitthvað að uppbyggingunni, er þetta ekki nógu skilvirkt eða ekki nógu skipulagt eða hvað er það? Ég tel að mjög mikilvægt sé að þetta fari í gang þannig að við förum að sjá lægri tíðni nýgengis í örorku og eins að menn endurhæfist í meira mæli en hingað til.



[17:59]
Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég er honum hjartanlega sammála í því að það er gott að þetta fari að komast vel af stað fyrir alvöru á grunni laga. Við væntum þess greinilega bæði að það muni hafa þann árangur að nýgengi örorku muni minnka.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um af hverju miðað er við mismunandi gjaldstofn þegar 0,13% eru reiknuð, þá get ég ekki svarað öðru til en því að útreikningurinn sem slíkur er sá sami. Ég hygg að skýringar sé að leita í lögum um lífeyrissjóðina fyrst og fremst, en fram hefur komið að þetta er nokkurn veginn sama greiðsla frá hverjum hinna þriggja aðila. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en svo, en ég mun sannarlega kynna mér það á milli umræðna.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um þá sem ekki hyggja á endurkomu, já, þá er það svo að það getur verið mat viðkomandi einstaklings að hann einfaldlega treysti sér ekki til þess að fara út á vinnumarkað að nýju.

Að lokum: Verða fleiri en einn sjóður? Já, vonandi, því að samkvæmt því ef tíu þúsund manns, launþegar eða sjálfstæðir atvinnurekendur geta verið að baki hvers sjóðs og við erum með um 170 þús. manns á vinnumarkaði þá gætu faktískt orðið 17 sjóðir. En kannski verða þeir nú eitthvað færri.



[18:01]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú gerist það ekki þannig að svona sjóðir spretti bara upp allt í einu, án þess að menn átti sig á því. Ég var að spyrja framsögumann málsins hvort nefndinni hafi borist til eyrna að þeir yrðu fleiri en tveir. Verður einn opinber sjóður og annar ekki opinber o.s.frv.? Ég geri ekki ráð fyrir að svona sjóðir myndist bara allt í einu.

Ég vil spyrja um þá sem ekki treysta sér til að vera á vinnumarkaði. Nú er mjög mikill eða nokkuð stór hluti ungs fólks öryrkjar, miklu meira en gengur og gerist annars staðar. Ég hef það stundum á tilfinningunni að það sé allt að því lífsstíll og spurningin er því sú: Á fólk að geta valið það, ungur maður nítján ára eða tvítugur, að vera öryrki? Hann væri með ákveðin einkenni þess og fengi örorkumat, en ætti hann svo bara að geta valið það að hann stefni ekki á endurkomu á vinnumarkað, af því að það er bara ágætislífsstíll að vera í þeirri stöðu?

Þetta er hlutur sem menn þekkja mjög vel erlendis þar sem talað er um öryrkja í þriðju og jafnvel fjórðu kynslóð.

Ég vil því spyrja hvort menn eigi ekki að skoða það frekar að setja inn í lögin að þeir sem geti skuli stefna á að fara á vinnumarkað.



[18:02]
Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að væntanlega spretta þessir sjóðir ekki upp og nei, það var ekki um það fjallað fyrir nefndinni hvernig sjóðir mundu myndast eða spretta upp. Og það kom ekkert það fram fyrir nefndinni sem benti til þess að sérstakur sjóður mundi verða fyrir opinbera starfsmenn og annar fyrir menn á almennum vinnumarkaði. Ég get ekki svarað því öðruvísi.

Ljóst er að allt frá árinu 2008 hafa hugmyndir um það kerfi sem við erum hér að lögfesta og starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs haft veruleg áhrif, því að eins og ég nefndi áðan og kom fram fyrir nefndinni hafa sprottið upp margar missterkar starfsendurhæfingarstöðvar úti um land og það er áreiðanlegt að það er á grunni þeirra væntinga og í þeim sama tilgangi sem þessar áætlanir nú byggjast á.

Það er einn stór og öflugur sjóður, VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, sem veltir milli 700 og 800 milljónum á þessu ári og velti milli 400 og 500 milljónum á síðasta ári. Ég vænti þess að hann muni eflast og aðrir sjóðir jafnsterkir geti sprottið upp við hlið hans því að þegar kerfið er fullfjármagnað mun það verða með 3,5 milljarða kr. í tekjur á ársgrundvelli miðað við fjárlög ársins 2012.

Hvað varðar ungt fólk sem er öryrkjar og ekki er á vinnumarkaði er auðvitað bara tvennt til í því. Það er annars vegar að hjálpa því fólki í nám og inn í skólana og unnið hefur verið sleitulaust að því, vil ég segja, frá hruni að virkja þann hóp. En einnig er í 9. gr. ákvæði um að það skuli samið við ráðherra eða ráðuneytið um þjónustu (Forseti hringir.) við þá sem eru utan vinnumarkaðar til þess að koma þeim á vinnumarkað ef þeir vilja og það tel ég að (Forseti hringir.) taki til þessa hóps líka.



[18:05]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Tilurð þessa frumvarps, að leggja til rammalöggjöf utan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem bjóða atvinnutengda starfsendurhæfingu, má rekja til kjarasamninga eins og fram kom hér áðan.

Ég ætla í upphafi, virðulegur forseti, að nefna að það er eiginlega svolítið skondið og sérstakt á Íslandi að menn skuli semja í frjálsum samningum einhvers staðar úti í bæ um það að skuldbinda Alþingi til þess annaðhvort að setja lög eða breyta lögum svo að hægt sé að uppfylla samningana sem gerðir eru. Ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum verulega að skoða og hvort rétt sé að gera það í þeim mæli sem gert er.

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er stefnt að uppbyggingu á atvinnutengdri starfsendurhæfingu til að draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði og sömuleiðis til að draga megi úr örorkubyrði og nýgengi örorku. Þetta er þarft markmið svo að það sé sagt. Markmiðið er líka að tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa atvinnutengda starfsendurhæfingu og að skapa heildstætt kerfi endurhæfingar. Þetta eru markmið laganna.

Það vakti hins vegar undrun mína og örugglega fleiri að í umsögnum kom fram að fagfélögum og stofnunum, hverra aðalstarfsvettvangur er innan endurhæfingar þar sem fagþekking er mikil, hafði ekki verið boðið sæti í nefndinni sem bjó til þetta frumvarp né heldur að gera athugasemdir áður en frumvarpið var lagt fram. Þarna held ég að við hefðum getað gert betur og vonandi verður svo þegar til lengri tíma er litið og endurskoða þarf þessi lög, eins og fram hefur komið, og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Nokkrir umsagnaraðilar gerðu líka athugasemdir við að með frumvarpi þessu væri hugsanlega verið að koma á tvískiptu kerfi endurhæfingar, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi hér áðan. Annars vegar værum við með læknisfræðilega endurhæfingu og hins vegar atvinnutengda starfsendurhæfingu. Ég veit að hugmyndir eru uppi um að horfa frekar til starfsorku en örorku og horfa frekar til þess sem við köllum bætur í almannakerfinu þannig að tekið sé tillit til starfsorku einstaklingsins en ekki örorku. Það er af hinu góða. Ég hef hins vegar áhyggjur af þessu kerfi og þeim athugasemdum sem fram komu um að kerfið yrði hugsanlega tvískipt því að ég er á þeirri skoðun, virðulegur forseti, að við höfum hvorki fjárhagslega né félagslega efni á því að vera með tvískipt kerfi læknisfræðilegrar endurhæfingar, starfsendurhæfingar hvers konar og atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Menn þurfa að horfa á öll þessi hugtök og velta fyrir sér hvar skörun verður og hvernig við getum sem best komið fólki til starfa eftir veikindi eða slys og metið starfsorku þess í stað örorku.

Virðulegur forseti. Ljóst er að með þessu frumvarpi og þeim samningum sem gerðir voru að verið er að færa gífurlegt fjármagn úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóða. Ég óttast að hætta sé á því að fjármagn vegna læknisfræðilegrar endurhæfingar, eins og til Reykjalundar, Grensáss, Náttúrulækningastofnunar í Hveragerði og fleiri sjálfstæðra starfsendurhæfingarstöðva, verði skert og þá finnst mér verr af stað farið en heima setið. Það fer ekkert á milli mála að árangur stofnana eins og Grensáss og Reykjalundar er ótvíræður og þær ber að styrkja miklu frekar en að veikja. Þessi tvö kerfi, læknisfræðilega endurhæfingin og atvinnutengda endurhæfingin, verða að vinna saman ef meginmarkmið frumvarpsins um heildstætt kerfi endurhæfingar á að nást.

Virðulegur forseti. Það hefur líka komið fram að áhersla umsagnaraðila innan endurhæfingargeirans var að nauðsynlegt væri að setja skilyrði um fagmenntun þeirra sem vinna sem ráðgjafar hjá VIRK eða starfsendurhæfingarsjóðum almennt, þeir væru félagsráðgjafar, náms- og/eða starfsráðgjafar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfarar, þ.e. úr öllum þeim stéttum sem hafa fagmenntun sem gæti komið til góða. Ég tek undir, virðulegur forseti, að það er afar mikilvægt að við leggjum ríka áherslu á fagmenntun því að ljóst er að með þessu frumvarpi, eins og málum háttar nú verði það að lögum, er allri atvinnutengdri starfsendurhæfingu í upphafi stýrt af starfsendurhæfingarsjóði VIRK.

Ég verð líka að segja, frú forseti, vegna þess að það er mín skoðun að ég tel hættu á því að með slíkri miðstýringu verði ferlið bæði langt og þunglamalegt, einkum fyrir skjólstæðinga sem falla hugsanlega ekki undir starfsendurhæfingarsjóðinn um þá þjónustu en sækja þangað engu að síður.

Virðulegur forseti. Þetta eru þeir skjólstæðingar sem geta hugsanlega ekki tekið þátt í athöfnum daglegs lífs vegna veikinda og þurfa á annars konar aðstoð að halda, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á áðan í ræðu sinni, innan félagslegs kerfis sveitarfélaganna eða innan heilbrigðiskerfisins áður en þeir geta í raun og veru hafið atvinnutengda starfsendurhæfingu á vegum starfsendurhæfingarsjóðs. Þó að þessi hópur falli í það minnsta að hluta undir læknisfræðilega endurhæfingu er afar mikilvægt að ríkissjóður tryggi á fjárlögum fjármagn til endurhæfingar sem þessir aðilar þurfa á að halda. Það er samfélagslega nauðsynlegt. Falli þeir ekki undir þá þjónustu sem starfsendurhæfingarsjóður getur veitt er nauðsynlegt að ríkið tryggi fjármagn til þess að efla þá starfsendurhæfingu.

Það var líka sagt hér áðan að margir sem þannig er ástatt um og ljóst er að endurkoma þeirra á vinnumarkaði gæti verið ólíkleg í náinni framtíð eiga rétt á viðeigandi þjónustu og þarf að gæta þess að þeir týnist ekki í því miðstýrða kerfi, virðulegur forseti, sem ég tel að hér sé verið að setja á laggirnar.

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að tryggja góða samvinnu starfsendurhæfingarsjóða og þeirra stofnana og fagaðila sem sinna starfsendurhæfingu. Meginmarkmið allra er að koma einstaklingum alla jafna aftur út í samfélagið eftir slys og/eða veikindi og stuðla að því að þeir sem verða fyrir slysum eða veikjast geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu að nýju og þar með í starfi. Ég tel því að mörkin á milli læknisfræðilegrar endurhæfingar innan og utan stofnana og eiginlegrar atvinnutengdrar endurhæfingar séu ekki alltaf skýr og verði ekki alltaf skýr og því verði að tryggja að þeir sem falla á milli kerfa njóti þjónustunnar.

Það verður alltaf ákveðin skörun því að læknisfræðilegri endurhæfingu lokinni er oft en ekki alltaf ljóst hvort raunhæft sé að stefna að atvinnuþátttöku. Þess vegna legg ég áherslu á það sem lagt er til og þarfnast endurskoðunar í kringum 2016 að samstarf verði milli þeirra aðila sem veita einstaklingum þjónustu innan stofnunar sem utan til að tryggja stöðu þeirra sem eiga rétt á þjónustu atvinnutengdrar starfsendurhæfingar hjá VIRK, eins og málin standa í dag, og þeirra sem með einum eða öðrum hætti falla á milli skips og bryggju og þurfa á þjónustu að halda en eru einhvers staðar utan við kerfin.



[18:15]
Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en mig langar að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir umfjöllun hennar. Ég get tekið undir varnaðarorð hennar um það kerfi sem við erum hér að koma á.

Vinna nefndarinnar snerist í raun mikið um viðbrögð við þeim áhyggjum sem menn höfðu, ekki endilega vegna kerfisins sem slíks heldur vegna þess hversu stórt það stefnir í að verða og hversu hratt það átti að gerast. Breytingartillögurnar sem við leggjum hér fram miða að því að draga úr þeim stökkum sem ella hefðu orðið í stærð kerfisins og tryggja að það vaxi hægar og í ákveðnum þrepum þannig að unnt verði að gera áætlanir um þjónustu þess og það hvernig nýir aðilar koma inn í það. Þannig mun framlag ríkisins á næsta ári verða 300 millj. kr. í stað 600, og alltaf er ég að tala um verðlag ársins 2012 í fjárlögum, á árinu 2013 verður það 900 milljónir og á árinu 2014 1.200 milljónir. Þá er það fullfjármagnað af hálfu ríkisins.

Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir, ég get tekið undir það með hv. þingmönnum. Það er okkar hér í þessum sal, fjárveitingavaldsins, að tryggja að þessi útgjöld ríkisins komi ekki niður á þeim stofnunum sem hv. þingmaður nefndi, Reykjalundi og Grensás — ég get nefnt fleiri staði, ég get nefnt Kristnes — þannig að tryggt verði að ekki verði dregið úr þjónustu við þá sem þurfa á læknisfræðilegri endurhæfingu vegna örorku að halda.

Eftir að hafa farið allvel yfir þetta mál með nefndinni og þeim sem þar komu að verð ég að segja að við getum lítið gert annað en að treysta á samhæfingu og samvinnu milli þessara tveggja kerfa. Það er auðvitað ráðuneytisins að tryggja það, þar er bæði sambandið við vinnumarkaðinn, við starfsendurhæfinguna og við heilbrigðisþjónustuna og síðan er fjárveitingavaldið alltaf hér hjá Alþingi.

Ég get líka tekið undir það sem hv. þingmaður sagði að það er stundum önugt fyrir fjárveitingavaldið og fyrir þingmenn þegar samið er um útgjöld úti í bæ. En þannig er þetta nú einu sinni að til þess að ná árangri á tilteknum sviðum, til að mynda að halda hér uppi atvinnu, leggur það á ríkið að leggja sitthvað af mörkum og ná samkomulagi. Þannig er það líka í þessum sal að ef menn greinir á um eitthvað þá endar á því að menn verða að setjast niður og ná samkomulagi hvað sem tautar og raular. En ég þakka ekki aðeins hv. þingmanni heldur einnig öðrum nefndarmönnum, sem voru drjúgir við setu hér í þingsal yfir þessu, kærlega fyrir þá vinnu sem allir hafa lagt til þessa máls.



[18:18]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar bara örstutt að taka undir með hv. þingmanni um þakkir til velferðarnefndar fyrir störf hennar. Af því að ég gleymdi því í ræðu minni að geta þess sem vel er gert tel ég að þær breytingartillögur sem velferðarnefnd hefur gert á frumvarpinu séu flestar eða allar til bóta. Ég mun styðja þær í komandi atkvæðagreiðslu þó að ég sé ekki búin að gera upp hug minn um það hvort ég sit endanlega hjá við ákvörðun við afgreiðslu frumvarpsins. En ég mun styðja þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir.