140. löggjafarþing — 126. fundur
 19. júní 2012.
þingsköp Alþingis, 1. umræða.
frv. BÁ o.fl., 852. mál (starfstími, fjárlagafrumvarp, varamenn o.fl.). — Þskj. 1606.

[16:25]
Flm. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið er samið af þingmönnum í þingskapanefnd en málið hefur verið í vinnslu og til meðferðar í nefndinni á yfirstandandi löggjafarþingi. Flutningsmenn eru auk mín nokkrir þeirra þingmanna sem sátu í nefndinni en rétt er að taka fram strax í upphafi að það sem hér í birtist í frumvarpsformi er sá partur af vinnu nefndarinnar sem tilbúinn var nú í vor og samkomulag var um milli nefndarmanna og þingflokka.

Til að rekja forsögu málsins er rétt að geta þess að með bréfi til forsætisnefndar Alþingis frá 29. júní 2011 óskaði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi formaður þingskapanefndar, eftir því að á 140. löggjafarþingi yrði kosin ný þingskapanefnd til að fjalla um frekari breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Á þingfundi 11. október síðastliðinn var nefndin síðan kosin. Í nefndina voru kosnir eftirtaldir alþingismenn: Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller og Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingunni, Árni Þór Sigurðsson og Þuríður Backman frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Ragnheiður E. Árnadóttir og Birgir Ármannsson frá Sjálfstæðisflokknum, Gunnar Bragi Sveinsson frá Framsóknarflokknum og Birgitta Jónsdóttir frá Hreyfingunni. Magnús Orri Schram tók sæti Oddnýjar G. Harðardóttur í nefndinni í janúar 2012. Á fyrsta fundi nefndarinnar var Árni Þór Sigurðsson kosinn formaður. Í framhaldi af því var Birgir Ármannsson kosinn fyrsti varaformaður og Ásta R. Jóhannesdóttir annar varaformaður. Á fyrstu fundum nefndarinnar var farið yfir helstu verkefni hennar. Nefndin skipti síðan fljótlega með sér verkum til að hægt væri að vinna að þeim málum sem þingskapanefndin, sem starfaði á 139. löggjafarþingi, lagði til í nefndaráliti, eins og getið er um í þskj. 1794, 596. máli, að unnið yrði að.

Verkaskiptingin á milli nefndarmanna var með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi var undirhópur um skipulag þingstarfa og reglur um ræðutíma og í honum sátu Birgir Ármannsson og Þuríður Backman. Í annan stað var nefnd um fjárlagaferlið ásamt umgjörð og aðbúnaði fjárlaganefndar og þar sátu Magnús Orri Schram og Ragnheiður E. Árnadóttir. Í þriðja lagi var starfshópur um vef Alþingis, umgjörð þingflokka, lagaskrifstofu og aðbúnað þingmanna og sátu þar Kristján L. Möller og Birgitta Jónsdóttir. Í fjórða lagi var nefnd um skiptingu málaflokka á milli fastanefnda og starfshætti nefnda og í þeim hópi sátu Ásta R. Jóhannesdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Samhliða þessari vinnu var unnið að ýmsum lagfæringum á þingsköpum, flestum tæknilegum, af nokkrum starfsmönnum skrifstofu Alþingis sem lögðu margt gott til málanna í þeim efnum. Þegar leið á veturinn urðu nefndarmenn sammála um að forgangsraða verkefnum og því er í frumvarpi þessu aðallega horft til þess að gera ýmsar lagfæringar á þingsköpum Alþingis sem eru flestar tæknilegar.

Næsta haust ráðgerir þingskapanefnd að leggja fram annað frumvarp sem tekur á öðrum þeim þáttum sem nefndin hefur fjallað um í vetur varðandi breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Þar verður meðal annars horft til þess að taka á skipulagi þingstarfanna með ýmsum hætti, til dæmis með því að fjalla um reglur um ræðutíma. Einnig verður þar fjallað frekar um skiptingu málaflokka á milli fastanefnda og starfshætti nefnda en þá verður heilt löggjafarþing liðið frá því að veigamiklar breytingar voru gerðar á nefndaskipaninni og starfsháttum fastanefnda og því komin nokkur reynsla á það starf. Loks er ráðgert að þar verði lagðar til aðrar þær breytingar sem þingskapanefndin telur að þá eigi enn eftir að gera og nauðsynlegar eru til að ljúka þeim verkefnum sem nefnd eru hér að framan. Umfangsmeiri breytingar á þingsköpum en þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og koma til kasta næsta löggjafarþings tækju þá gildi við upphaf nýs kjörtímabils. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir eru lagðar til nokkrar óhjákvæmilegar breytingar á þingsköpum sem sú breyting að flytja samkomudag Alþingis frá 1. október til annars þriðjudags í september kallar á. Rétt er að rifja upp að í þeirri breytingu sem átti sér stað á síðasta ári, með lagabreytingu á síðasta löggjafarþingi, var hinn svokallaði septemberstubbur í þingstörfunum, fyrsti hálfi mánuðurinn í september, lagður af. Í stað þess var samkomudegi Alþingis flýtt. Þrátt fyrir fréttir í fjölmiðlum í dag, sem hafa að einhverju leyti verið misvísandi, er því ekki verið að taka þá ákvörðun núna heldur var sú ákvörðun tekin á síðasta ári. Breytingarnar sem hér eru lagðar til taka hins vegar sumar hverjar mið af þeirri breytingu sem gerð var á síðasta ári, þær eru með öðrum orðum til þess að fylgja þeirri breytingu eftir og laga aðra þætti þingskapanna að þeirri breytingu sem þá var ákveðin.

Rétt er að nefna að í frumvarpinu eru líka lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum þingskapa sem fjalla um fjárlagafrumvarp og meðferð þess í þinginu, sérstaklega í ljósi breytinga sem verða óhjákvæmilega á meðferð frumvarpsins hér á Alþingi frá og með næsta löggjafarþingi, svo og fjárlagaramma sem ætlunin er að leggja fram á vorin. Það eru líka breytingar sem koma í kjölfar breytinga sem ákveðnar voru á síðasta ári.

Samhliða þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir eru líka lagðar til breytingar á nokkrum öðrum lögum, meðal annars lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, einkum hvað varðar innköllun varamanna, greiðslur til aðalmanna og starfskjör varamanna, og byggja þær breytingar á reynslu sem er af núverandi fyrirkomulagi og eru í sanngirnisátt. Nefndin beinir því til forsætisnefndar að gerðar verði breytingar á reglum um greiðslu þingfararkostnaðar sem lúta meðal annars að útborgun fæðingarstyrks í fæðingarorlofi, ákvörðun launa í alvarlegum veikindum maka eða barns, ákvörðun fastra greiðslna í forföllum þingflokksformanns, formanna og varaformanna þingnefnda og heimild til að byggja á ákvörðun kjararáðs um almenn starfskjör embættismanna og reglum um slysa- og ferðatryggingar alþingismanna. Má segja að þær breytingar sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og reiknað er með að forsætisnefnd fylgi eftir með útfærslu í frekari reglusetningu séu til þess fallnar að færa starfskjör þingmanna nær því sem gerist með embættismenn í Stjórnarráði og ekki er ætlunin að ganga lengra eða veita þingmönnum meiri réttindi en þar er samningsbundið en í ljós hefur komið að réttindi eru ekki að öllu leyti samræmd að þessu leyti. En forsætisnefnd er sem sagt falið að setja reglur um útfærslu ákvæða af þessu tagi og gert er ráð fyrir að þær reglur taki mið af því sem gerist með embættismenn í Stjórnarráðinu en gangi ekki lengra en þær hvað þessi réttindamál varðar.

Ég vil að lokum nefna að á fundum sínum í vetur hefur þingskapanefnd líka fjallað um nokkur önnur frumvörp sem lögð hafa verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi og vísað hefur verið til umfjöllunar nefndarinnar af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og varða breytingar á starfsemi Alþingis og á þingsköpum Alþingis. Í fyrsta lagi er um að ræða 27. mál, umræðutíma þingmála. Það mál var rætt í nefndinni og var meðal annars til skoðunar hjá þeim nefndarmönnum sem sérstaklega fjölluðu um þann þátt. Í öðru lagi var fjallað um 28. mál, afnám sérstakra álagsgreiðslna, á þessu löggjafarþingi. Nefndin var ekki sammála þeirri leið sem þar er lögð til en leggur hins vegar til í frumvarpinu nokkrar breytingar á lögum um þingfararkaupið en sú breyting er ekki endilega í samræmi við þá tillögu sem fram kemur í 28. máli. Í þriðja lagi er um að ræða 57. mál, um lagaskrifstofu Alþingis. Það mál var rætt í þingskapanefnd og hefur einnig verið til skoðunar hjá þeim nefndarmönnum sem fjallað hafa um vef Alþingis, umgjörð þingflokka og fleiri slíka þætti. Í fjórða lagi var fjallað nokkuð um 565. mál, um meðferð fjárlagafrumvarps. Má segja að þingskapanefnd hafi í meginatriðum verið samþykk efni þess. Nefndin beinir því til forseta Alþingis að hann leiti eftir því við þingflokksformenn við upphaf næsta löggjafarþings að við skipulagningu umræðna um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 verði horft til efnis þess frumvarps. Þingskapanefnd leggur síðan áherslu á að í kjölfarið verði lagt mat á það hvernig til hafi tekist með það í huga að þá verði hægt að ráðast í breytingar ef vel tekst til.

Að lokum vil ég nefna það, hæstv. forseti, að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gegndi embætti formanns þingskapanefndar á þessu löggjafarþingi og stýrði því starfi nefndarinnar sem birtist í þessu frumvarpi. Vil ég fyrir hönd nefndarmanna færa honum þakkir fyrir. Hann er þessa dagana fjarverandi í öðrum störfum og hefur tekið inn varamann og getur því af tæknilegum ástæðum ekki verið flutningsmaður málsins eins og ella hefði verið en er engu að síður, ásamt okkur hinum, samþykkur efni þessa máls enda var frá því gengið fyrir allnokkrum vikum innan nefndarinnar og var góð sátt um þá niðurstöðu sem hér birtist.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka Ingvari Þór Sigurðssyni, lögfræðingi á þingfundaskrifstofu Alþingis, fyrir störf hans en hann hefur gegnt störfum ritara þingskapanefndar og unnið gott starf við útfærslu þeirra breytinga sem hér eru lagðar til.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að hér er um að ræða ákveðinn áfanga í breytingum á þingsköpum Alþingis. Margar af þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru afleiðing eða eftirfylgni vegna breytinga sem samþykktar voru á síðasta sumri. Þingskapanefndin tók þá afstöðu að vinna lengur í ákveðnum atriðum sem ég held að þingmenn séu sammála um að þurfi að taka til endurskoðunar, til dæmis varðandi nefndaskipan, málaflokka nefnda og þess háttar og síðan varðandi ræðutíma og skylda þætti. Það er ekki yfirlýsing um að ekki eigi eða að menn vilji ekki gera breytingar í þá átt að ákvæði um þau atriði skuli ekki birtast í þessu frumvarpi heldur eingöngu það að þingskapanefnd taldi að nota þyrfti meiri tíma til að vinna að undirbúningi þeirra breytinga þannig að hægt væri að koma þeim í framkvæmd í sem allra bestri sátt enda eru nefndarmenn sammála um að mikilvægt sé að þingsköpin séu í öllum meginatriðum afgreidd í samkomulagi en ekki í ágreiningi.

Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. Ég tel ekki þörf á að óska eftir því að málinu verði vísað til nefndar en vil geta þess að ég mun flytja litla breytingartillögu við 2. umr. vegna ábendinga sem fram komu fyrr í dag um orðalag ákvæðis um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem felur það efnislega í sér að tekinn sé af allur vafi um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli skila áliti til þingsins vegna þeirra skýrslna sem til hennar er vísað þannig að orðalagið verði með þeim hætti að ekki þurfi að leika vafi á um túlkun þess.

Að svo stöddu lýk ég máli mínu og vona að hv. þingmenn geti sameinast um afgreiðslu þessa máls í dag.



[16:40]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsögu hans. Ég hefði áhuga á að heyra það frá hv. þingmanni hvort rætt hafi verið í vinnu nefndarinnar um mikilvægi þess að styrkja starfsemi Alþingis á þann veg sem ég hef lagt til, með því meðal annars að setja á stofn Þjóðhagsstofu sem heyrði undir Alþingi. Alþingi ályktaði sérstaklega um mikilvægi slíkrar stofnunar í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en sú stofnun mundi afla upplýsinga um íslenskt efnahagslíf og rannsaka hagræn áhrif einstakra frumvarpa sem þingið samþykkir.

Vigdís Hauksdóttir hefur líka lagt fram tillögu um að sett verði á stofn svokölluð lagaskrifstofa Alþingis. Við höfum fengið ábendingar um að með því að sameina þessar tvær hugmyndir þeirri upplýsingaþjónustu sem þegar er til staðar á Alþingi værum við komin með mjög svipaða þjónustu og kallast rannsóknaþjónusta norska þingsins. Í umræðum í gær komu fram þær ábendingar frá hæstv. innanríkisráðherra að mikilvægt væri að fram kæmi kostnaðarmat á þau frumvörp sem bæði nefndir og þingmenn leggja hér fram. Hingað til hefur Alþingi einfaldlega ekki haft burði til að fara í þess háttar úttekt en rannsóknaþjónusta af þessu tagi gæti gert það.

Í þessu frumvarpi er verið að ræða minni háttar breytingar, eins og hv. þingmaður nefndi, sem snerta tæknileg atriði en ég held að breyting eins og sú sem ég tala fyrir mundi virkilega styrkja Alþingi sem löggjafarstofnun.



[16:42]
Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur að þau atriði sem hún nefnir hafa verið rædd í samhengi við breytingar á þingsköpum. Innan þingskapanefndar hefur verið jákvæður andi gagnvart breytingum sem miða að því að styrkja faglega aðstoð við þingið á forsendum eins og hún nefnir en hins vegar hafa menn ekki sett niður eða komið sér saman um útfærslu í þeim efnum og skoðanir kunna að vera skiptar um það nákvæmlega hvort ganga beri svo langt að setja á fót sérstaka stofnun um þennan þjóðhagslega þátt eða hvort menn láta nægja að efla hinn hagfræðilega, og eftir atvikum hinn lögfræðilega, þátt í skrifstofuhaldi Alþingis. En ég get alveg staðfest að þessar hugmyndir hafa verið ræddar á jákvæðum nótum innan þingskapanefndarinnar þó að hér sé ekki um að ræða tillögur um breytingar á þingsköpum í þá veru.

Þess má geta, og ég segi það frá eigin brjósti frekar en fyrir hönd nefndarinnar, að margt af því sem nefnt hefur verið í sambandi við að styrkja skrifstofu þingsins út frá þjóðhagslegum og lögfræðilegum forsendum er hægt að gera án nokkurra sérstakra lagabreytinga. Það eru atriði sem hægt væri að taka inn og taka ákvarðanir um hér innan húss að því gefnu að fjárveiting fáist á fjárlögum.



[16:44]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þingmenn að hafa í huga þegar kemur að gerð fjárlaga í haust að við treystum okkur til að styrkja nauðsynlega stoðstarfsemi fyrir Alþingi því að ég held að það hafi kannski aldrei verið brýnna en núna.

Við sjáum í mun meira mæli en áður að nefndir flytja frumvörp eða gera mjög veigamiklar breytingar á frumvörpum sem koma frá framkvæmdarvaldinu, frá ráðherrunum. Það er því mjög brýnt að við styrkjum þá þekkingu sem til staðar er hér innan dyra.

Þegar þessi hugmynd frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kom fram, um stofnun lagaskrifstofu Alþingis, var það dæmigert að niðurstaðan varð sú á endanum að stofna lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins til að fara yfir þau frumvörp sem ráðherra leggur fram frekar en að styðja við starfsemina hér eins og hugmynd þingmannsins gekk út á.

Við höfum fengið ábendingar um að í öðrum þjóðþingum á Norðurlöndunum hafi stjórnarandstöðuflokkar fengið hærri fjárveitingar til að reyna að jafna aðstöðumun á milli stjórnarflokka og þingflokka í stjórnarandstöðu, til að geta keypt sér sérfræðiaðstoð og ráðið fólk til að starfa fyrir þingflokka stjórnarandstöðunnar. Við sjáum þennan aðstöðumun meðal annars í því að ráðherrar eru með aðstoðarmenn og hafa aðgang að því sérfræðimenntaða starfsfólki sem starfar innan ráðuneytanna. Hefur nefndin eitthvað rætt það í starfi sínu að stíga þetta skref í átt að því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum?



[16:46]
Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get staðfest að umræður af þessu tagi hafa átt sér stað innan nefndarinnar en eins og hv. þingmaður veitir athygli eru ekki tillögur um það hér. Ég geri þó ráð fyrir að umræður um atriði af þessu tagi muni halda áfram á vettvangi þingskapanefndar eftir því sem um slík atriði þarf að kveða á í þingsköpum.



[16:47]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Margt er ágætt í þessu frumvarpi, þetta er eins konar prófarkalestur og auðvitað hafa nauðsynlegar breytingar verið gerðar miðað við breyttan starfstíma og bættan umbúnað um fjárlaganefnd. Það vekur hins vegar athygli að töluverður hluti af ræðu hv. framsögumanns og textanum í athugasemdum varðar allt önnur lög en þau sem þingskapanefnd var kosin til að sinna, nefnilega ekki lögin um þingsköp Alþingis heldur lögin um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

Þarna eru margvíslegar umbætur, leiðréttingar mundi þetta vera kallað ef um væri að ræða kjarasamninga og stéttarfélög. Margt af því er alveg ágætt, hljómar vel í eyrum alþingismanns og væntanlega fjölskyldu hans líka. Annað er frekar óljóst. Í athugasemdunum er til dæmis talað um að auk þeirra breytinga sem gerð er bein tillaga um sé forsætisnefnd hvött til að gera aðrar breytingar á ýmsum reglum sem í gildi eru. Hvaða kostnaðarmat leggur nefndin fram við þær breytingar sem felast í 29. gr. og breytingarnar sem forsætisnefnd er hvött til að gera? Hvað kostar það ríkissjóð og hvernig kemur það fram á alþingisreikningunum? Hvert er mat manna á því í nefndinni og aðstoðarmanna hennar, sem sérstaklega voru þökkuð góð störf, hvað hverjum alþingismanni muni vera mikill hagur af þessu í krónum og aurum sem við erum sett til að ráðstafa af skattfé almennings?



[16:49]
Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að fyrir flesta alþingismenn á flestum tímum þýði þetta nákvæmlega 0 kr. í auknar tekjur eða eitthvað slíkt. Ég held að í ákveðnum tilvikum geti verið um að ræða samræmingu á réttindum sem varða fæðingarorlof, rétt til leyfis í veikindum eða vegna slysa til dæmis hjá maka eða barni. Ég hygg að þá geti verið um einhverja peninga að ræða í tilviki einhverra þingmanna en vonandi verður það sem allra sjaldnast þannig að fyrir hinn almenna þingmann sem ekki lendir í aðstæðum af því tagi held ég að þessi breyting muni engu breyta.

Þarna er hins vegar um að ræða ákveðna rýmkun sem varðar inntöku varamanna sem kann að kosta einhverja peninga, en eins og gildir að jafnaði um inntöku varamanna er það háð miklum óvissuþáttum þannig að nefndin hafði ekki fyrir augunum kostnaðarmat af því tagi. En ég hygg að í samhengi rekstrarkostnaðar Alþingis verði það óverulegt miðað við það sem nú er þótt ég geti fallist á, miðað við umfjöllunina í nefndinni, að þegar kemur að spurningunni um inntöku varamanna og þá hugsanlega um launagreiðslur til þingmanna í einhverjum tilvikum þar sem þeir hafa misst laun þegar þeir taka inn varamann í hálfan mánuð en eru hugsanlega bara hluta þess tíma í opinberum störfum geti það leitt að einhverju leyti til aukins kostnaðar. En ég held að það sé sameiginlegt mat innan nefndarinnar að það sé óverulegt þegar kemur að uppgjöri reikninga þingsins.



[16:51]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. framsögumaður þingskapanefndar heldur að það sé sameiginlegt mat manna innan nefndarinnar að kostnaðurinn sé óverulegur. Þetta er ekki þannig frásögn að hægt sé að sætta sig við hana í salnum, einkum ekki frá þingskapanefnd sem leggur til breytingar á mörgum greinum þingskapa en á ekki 30. gr. þingskapa sem kveður sérstaklega á um að frumvörpum og þingmálum skuli fylgja sérstakt kostnaðarmat.

Það er að vísu þannig, forseti, að þá er ekki talað um 1. umr. Þingmenn eru því ekki skyldir til þess í þingmannamálum að leggja fram kostnaðarmat sjálfir heldur er átt við að sú nefnd sem um málið hefur fjallað skuli leggja fram kostnaðarmat í 2. umr., mæli hún með málinu, en nú erum við í 1. umr. Vegna þess að svona háttar til, og við hljótum að gera meiri kröfur til þingskapanefndarinnar en annarra nefnda þegar um þingsköp er fjallað án þess að þingskapanefndin leggi til breytingar á 30. gr., fer ég fram á að málið verði kallað til nefndar, að vísu ekki þingskapanefndar vegna þess að hún tekur ekki við málum milli umræðna, heldur væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég geri það að tillögu minni að nefndin fari yfir málið milli 2. og 3. umr. og einnig þær athugasemdir sem við það eru gerðar í þessari umræðu og leggi síðan fram kostnaðarmat það sem hér er rætt um. Ég geri ekki ráð fyrir að tæknibreytingarnar í fyrri hluta frumvarpsins leiði til mikils kostnaðar, en ég vil fá að vita hvert mat manna er á þeim kostnaði sem 29. gr. veldur og ekki síður þær breytingar, sem vísað er til forsætisnefndar með heldur losaralegum og óþinglegum hætti, sem gera á á hinum og þessum reglum. Það er mikilvægt að fá það fram vegna þess að formið er mikilvægt. Ef ekkert form er þá er heldur ekkert efni.



[16:53]
Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ræð því ekki um hvað hv. þm. Mörður Árnason biður. Hann getur lagt fram tillögu um að vísa málinu til allsherjar- og menntamálanefndar ef hann kýs svo. Það reynir síðan á það í þingsal hvort stuðningur er við tillögu hv. þingmanns, ég tel það óþarfa.

Mér var bent á það meðan hv. þingmaður talaði að rekstrarskrifstofa Alþingis teldi að sú breyting sem hér er á ferðinni muni þegar allt kemur til alls sennilega koma út á núlli og jafnvel séu þarna þættir sem geta sparað. Ég treysti mér ekki til að fullyrða um það. Ég vek eingöngu athygli á því að þær breytingar sem hér um ræðir hafa að jafnaði engin áhrif á starfskjör flestra þingmanna en í ákveðnum tilvikum, svo sem ef veikindi koma upp eða í tilviki fæðingarorlofs, kann að vera um að ræða um aukinn kostnað. Það sama á við um varamannaregluna en þar kann að vera bæði plús og mínus, eitthvað sparar, annað eykur kostnað.

Ef hv. þingmaður er ósáttur við þau svör verður bara við það að lifa.



[16:55]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil gera að umtalsefni 3. gr. þessa frumvarps sem lýtur að meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á ýmsum skýrslum og samspil málsins við verkefni fjárlaganefndar. Í merkri niðurstöðu sem fjárlaganefnd komst að haustið 2011, þar sem allir nefndarmennirnir níu voru sammála um álit sem við gáfum til þingsins um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009, fjölluðum við sérstaklega um hlutverk fjárlaganefndar. Við undirstrikuðum í samhljóða áliti nefndarinnar að með nýjum þingskapalögum sem samþykkt voru í júní 2011 hefði verið lögð áhersla á eftirlitshlutverk fjárlaganefndar með framkvæmd fjárlaga. Markmiðið með þessum breytingum var að stuðla að auknum aga í fjárlagaferlinu öllu.

Í ljósi þeirra breytinga og þeirrar stuttu reynslu sem fengist hafði á þessi nýju þingskapalög gerði fjárlaganefndin svohljóðandi bókun í áliti sínu sem ég vil fá að vitna til, með leyfi forseta. Það hljóðar svo:

„Fjárlaganefnd leggur áherslu á skýra verkaskiptingu milli fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Eins og fram kemur í nýjum þingskapalögum hefur fjárlaganefnd eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Nefndin leggur til að komi upp mál sem stangast á við lög og reglugerðir og eru alvarlegs eðlis þá verði þeim vísað eftir umfjöllun fjárlaganefndar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar. Önnur mál er varða eftirlit með framkvæmd fjárlaga verði fullnustuð af fjárlaganefnd.“

Því hefur hvorki verið breytt í meðförum stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar í vinnunni né heldur er það frumvarp til laga að nýjum þingsköpum mjög afdráttarlaust í þessum efnum, þ.e. með þessi skýru skil, þó svo að í greinargerðinni með frumvarpinu segi um 3. gr., þar sem reynt er að skipa þessum verkefnum með þeim hætti sem þar greinir, að við yfirferð nefndarinnar hafi komið í ljós að margar af skýrslum Ríkisendurskoðunar eigi betur heima í umfjöllun í öðrum nefndum, ekki síst í fjárlaganefnd, en í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sú breyting sem hér er kveðið á um af hálfu þingskapanefndar heimilar í raun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ef henni sýnist svo, að vísa málinu til fjárlaganefndar eða eftir atvikum til annarra nefnda. Það er sem sagt lagt í mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvort það skuli gert. Rökstuðningurinn fyrir því er sá að það fyrirkomulag tryggir, eins og sagt er í greinargerðinni, hin beinu tengsl stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við Ríkisendurskoðun og gerir henni fært að hafa yfirlit yfir eftirlitsstörf Ríkisendurskoðunar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé í rauninni betra að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hagi eftirlitinu með Ríkisendurskoðun þannig að kalla eftir yfirliti um störf hennar fremur en að skikka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara í gegnum allar hinar mismunandi skýrslur á hinum mismunandi fagsviðum viðkomandi fagnefnda þingsins. Ég held að eftirlitinu sé betur sinnt með þessum grunnþáttum í úttekt Ríkisendurskoðunar í viðkomandi fagnefndum og síðan geri þær stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni viðvart eftir atvikum ef þær rekast á einhver atriði. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að Ríkisendurskoðun eigi að geta gert stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni beint aðvart ef eitthvað er athugavert í störfum þeirra stofnana sem Ríkisendurskoðun rekst á í vinnu sinni.

Ég vildi nefna það sérstaklega vegna þess að um þessar áherslur hefur verið alger samhljómur innan fjárlaganefndarinnar. Ég met það svo að þeim sjónarmiðum sem fjárlaganefndin hefur sett fram í þessum efnum hafi ekki verið mætt til fulls. Ég vænti þess þó að þegar málið verður rætt frekar muni menn reyna að mæta þeim sjónarmiðum sem fjárlaganefndin telur nauðsynleg til að tryggja að hún hafi meira inngrip í það eftirlitshlutverk sem henni er falið að lögum.

Vegna þess sem upp kom í umræðu áðan um 29. gr. þess frumvarps sem hér liggur fyrir varðandi lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað hefði ég álitið nauðsynlegt í þeirri vinnu sem fram undan er varðandi þær breytingar sem rætt er um í þeim efnum að taka á þeim mun sem orðinn er á starfskjörum alþingismanna þegar við horfum upp á að 13–14 alþingismenn af þeim 63 vinna við allt önnur kjör en þeir 49 eða 50 sem út af standa. Það er með öðrum orðum megnið af þingheimi, hátt í 50 þingmenn, sem er með álag ofan á þingfararkaup en hinir sem út af standa, 13 eða 14 þingmenn, vinna sína vinnu eðlilega, ég fullyrði að þeir vinni til jafns við alla hina. Þessi launamunur og munur á viðurkenningu starfa þingmanna í heild er gersamlega ólíðandi og Alþingi til skammar að mínu mati.



[17:02]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að bæta við nokkrum orðum í framhaldi af því sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi um 3. gr. og verksvið, þá annars vegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hins vegar fjárlaganefndar, um þær skýrslur sem koma frá Ríkisendurskoðun. Það hefur reynt á þetta á þeim vetri sem nú er liðinn. Skýrslur sem koma frá Ríkisendurskoðun skipta tugum á hverjum vetri og þar er mikið verk unnið. Vandinn sem hefur verið uppi, a.m.k. að mínu mati, er sá að þessar skýrslur hafa ekki fengið þinglega meðferð. Ég tel mjög brýnt að verk og úttektir þeirra eftirlitsstofnana sem starfa undir þinginu fái þinglega meðferð. Þó að þetta hafi tekið drjúgan tíma af störfum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tel ég að þeim tíma hafi verið vel varið. Vandinn er hins vegar sá að á okkar borð í þeirri nefnd hafa komið einstakar skýrslur sem við höfum talið rétt að fengju fyllri og ítarlegri meðferð og frekari umræðu í öðrum nefndum, svo sem fjárlaganefnd. Ég skildi orð þingmannsins á þann veg að hann teldi að það væri ástæðulaust að taka efnislega fyrir allar þessar skýrslur heldur ætti bara að liggja fyrir eitthvert yfirlit um hvað væri uppi á borðum hjá Ríkisendurskoðun og að menn hefðu sýn á það. Ef svo er ekki heldur hafi hann aðrar meiningar náði ég ekki alveg hugsun hans um það hvernig á að sortera fyrir fram hvaða skýrslur ættu að fara undir fjárlaganefnd, hvaða skýrslur undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hvaða skýrslur þá jafnvel undir einhverjar aðrar nefndir.



[17:04]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður og félagi, Lúðvík Geirsson, hefur misskilið það sem ég var að reyna að segja. Hugsun mín var alls ekki sú að það ætti ekki að fara yfir þær skýrslur eða úttektir sem Ríkisendurskoðun gerir. Ég var að benda á að í ýmsum málum sem Ríkisendurskoðun tekur út og lúta að fagsviðum nefnda, hvort heldur er fjárlaganefnd, velferðarnefnd eða önnur, er oft og tíðum um að ræða stofnanir eða verkefni sem viðkomandi fagnefndir hafa verið að fást við. Ég nefni bara dæmi úr þeim málaflokki sem ég hef mestu innsýn í, fjárlagagerðinni. Í því efni kallar fjárlaganefnd fyrir stofnanir, vinnur með hluti og hefur eðli málsins samkvæmt miklu betri innsýn í það sem er að gerast en nokkurn tíma stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi allt frá því að þessi breyting var gerð en það hefur ekki verið nógu góð regla á þessu. Það kann að stafa af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur einfaldlega haft nóg á sinni könnu. Ég nefni þjóðaratkvæði eða stjórnarskrármálið og stjórnarráðsbreytingar. Meðan einstakar fagnefndir eru á kafi í stórum málum njóta þau eðlilega forgangs en annað situr á hakanum. Þá hefði ég talið betra fyrirkomulag til að koma einhverjum skikk á þetta að vísa úttektum, skýrslum og álitum sem Ríkisendurskoðun er að taka út beint í faglega umfjöllun í viðkomandi fagnefndum. Þar með er ég ekki að segja að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi ekki að taka á þessu, alls ekki, en það hlýtur að vera bráðnauðsynlegt fyrir þá nefnd að fá meiri aðstoð frá viðkomandi fagnefndum við sitt verkefni en raun ber vitni samkvæmt þeirri reynslu sem við höfum af núverandi verklagi.



[17:07]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er gott að við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson erum sammála um að það sé nauðsynlegt að þessar skýrslur fái alla efnislega umfjöllun. Vissulega hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd haft ærinn starfa á nýliðnum vetri og mun hafa það líka á komandi vetri.

Ég held hins vegar að meðan við erum að fóta okkur í þessu breytta umhverfi nefndaskipulags og því að taka betur og skipulegar utan um þær skýrslur sem eftirlitsstofnanir þingsins vinna, sem hefur ekki verið í nógu góðu horfi fram til þessa, sé rétt að þær renni allar í einn og sama farveginn. Ég hef ekki orðið annars áskynja í starfi og umræðu innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á nýliðnum vetri en að það sé fullur skilningur og vilji allra nefndarmanna að koma einstaka skýrslum í réttan farveg, þ.e. til þeirra fagnefnda sem við teljum að málin eigi helst heima hjá. Ég held að það skipti hins vegar máli upp á heildarmyndina að þær berist allar á sama stað og að þá sé þetta svigrúm til staðar, heimild til að geta vísað skýrslunum áfram til viðkomandi nefnda. Sú umræða hefur komið upp oftar en einu sinni á nýliðnum vetri að við hefðum gjarnan viljað koma skýrslum til frekari umfjöllunar, sérstaklega hjá fjárlaganefnd. Þessar skýrslur snúa að stjórnsýslulegum þáttum annars vegar og fjárhagslegum þáttum hins vegar. Það er hárrétt sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi áðan, margar þessar skýrslur lúta beint að þeim eftirlitsþáttum og verkefnum sem fjárlaganefnd fjallar um en ég ítreka að ég tel að minnsta kosti rétt að láta reyna á þennan hátt og þetta verklag. Við getum þá metið það eftir næsta þing hvort ástæða sé til að breyta þessu.



[17:09]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að heyra hjá hv. þingmanni að hann telji ástæðu til að endurmeta þetta verklag. Ég fagna því. Ég nefni bara sem dæmi, hv. þm. Lúðvík Geirsson, að við vorum að fá tilkynningu frá Ríkisendurskoðun um nýja úttekt. Það er ánægjulegt að sjá hversu samtaka samflokksmennirnir voru við það að rétta úr dreglinum, (Gripið fram í: Ég hlakka til.) við vorum að fá tilkynningu frá Ríkisendurskoðun um nýja úttekt á málefnum safna og fjárveitingum til þeirra. Þessi skýrsla mun að öllu óbreyttu sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þangað til nefndin kemst í gegnum þann stabba sem fyrir henni liggur, eðlilega, í stað þess að þetta fari inn til menntamálanefndar eða fjárlaganefndar í einhverja umræðu og úrvinnslu sem ég hefði talið eðlilegra. Það tengist meðal annars þeirri vinnu og breytingum sem gerðar hafa verið á meðferð fjárveitinga til þessa málaflokks sem ég tel nauðsynlegt að fara yfir. Með þessu fyrirkomulagi, þetta er bara eitt lítið dæmi, tel ég að við tefjum þingið í að grípa inn í. Kerfið sem við höfum sett upp er með innbyggðar hindranir. Það er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður nefndi, að verkefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á komandi hausti eru gríðarlega mikil og flókin. Ég hef enga trú á því að með þeim verkefnum sem þar bíða muni létta á þeirri pressu sem hefur verið á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd varðandi þær skýrslur sem heyra undir hana. Eðlilegra hefði mér þótt að beina þessum athugunum í þann farveg að fara jafnvel beint í gegnum forsætisnefnd í viðkomandi fagnefndir í stað þess að stöðva þetta í einni af (Forseti hringir.) nefndum þingsins.



[17:11]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eins og ég sagði áðan er þetta mál tvískipt, annars vegar eru breytingar á sjálfum þingsköpunum og hins vegar á öðrum lögum, þá einkum lögunum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

Um breytingarnar á þingsköpunum sjálfum er kannski lítið að segja. Þær eru óhjákvæmilegar á einn veg vegna þess að það er verið að breyta tempóinu í þinginu og síðan er töluverður bálkur um fjárlaganefnd sem mér sýnist að sé allur við hæfi og nokkrar aðrar tæknilegar breytingar sem eru eins konar prófarkalestur á þingsköpunum sem samþykkt voru fyrir skömmu. Það sem vekur auðvitað mesta athygli og nánast stingur í augun er það að þingskapanefndin sem nú hefur starfað í þennan heila vetur og tekið að sér ýmis aukaverkefni hefur ekki treyst sér til að ráðast í mat og breytingartillögur á þeim helstu þáttum sem fólust í breytingu þingskapanna þegar þær voru gerðar síðast og næstsíðast, svo sem um ræðutíma. Það hefur komið í ljós í þingstörfunum í vetur, og reyndar áður, að það sem átti að vera mikið framfaraskref, það sem átti að minnka málþóf og rétta þá af stöðu stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, hefur orðið til þess að búa til eilífðarmálþófsvél þar sem stjórnarandstaðan getur með fjögurra eða fimm manna sveitum haldið uppi umræðu um ekki neitt langtímum saman, sólarhringum saman, og knúið í gegn síðan sinn vilja með þeirri hótun sem í því felst. Við erum að ræða málin, það er 19. júní, þ.e. kvenréttindadagurinn, það er komið sumar fyrir löngu og kominn þessi kafli í íslensku dagatali sem mætti kalla hundadaga ef þeir væru ekki seinna á ferðinni, þ.e. tíminn milli 17. júní og verslunarmannahelgarinnar, aðalsumarleyfistíminn, sá tími sem kallaður er í blaðamennskunni gúrkutími.

Í öðru lagi eru breytingarnar sem gerðar voru á þingsköpunum um nefndastörfin. Það er ekki orð um þau, það er ekkert í þeim gert, þ.e. því að búa til þrjá formenn, sem sagt formann og svo 1. og 2. varaformann sem átti, ef ég man rétt, að vera lítil stjórn í nefndinni og fá stjórnarandstöðuna til að vera með. Það er aðeins eitt um þessa breytingu að segja, hún er fullkomlega misheppnuð. Stjórnarandstaðan vildi í fyrsta lagi ekki taka þátt í þessu þegar til kom þó að hún hafi setið í þingskapanefnd á sínum tíma og tekið þátt í ákvörðuninni og síðan veit ég ekki til þess, a.m.k. ekki í þeim nefndum sem ég starfa í, að það sé virk stjórn, ekki einu sinni virkt samráð milli þessara þriggja sem þar áttu að vera. Það kann að vera í öðrum nefndum. Ég hygg að það sé ekki svo með neinum skipulegum hætti, ekki frekar en var í gömlu nefndunum þar sem formaðurinn hafði auðvitað ákveðið samstarf við einhvern stjórnarandstæðinginn sem þar var í forustu og síðan við bandamenn sína í stjórninni.

Þessi tvö atriði hafa sem sé ekki fengið neins konar umfjöllun og ekki heldur þau önnur sem fólust í þessum miklu breytingum á þingsköpunum. Þá stendur eftir hin ágæta kjarasókn þingmanna sem einnig var innifalin í breytingunum á þingsköpunum síðast þegar bætt var við sérstakri 5% þóknun til 2. varaformanns í nefndunum án þess að sérstakt kostnaðarmat fylgdi þá frekar en nú. Það hefur sem sé enn aukið á misrétti í þinginu, á leiðinlegt ójafnræði, sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson minntist einmitt á, þannig að það eru nánast allir með einhvern bónus sem menn fara heldur í felur með, sumir meira að segja með 30%. Það er hægt að vinna sig upp í 30% bónus með því að vera bæði varaforseti í þinginu og nefndarformaður eða þingflokksformaður sem er kannski ekki stundað en það eru dæmi um að menn séu bæði nefndarformenn og varaforsetar í þinginu og fái 30% meira en venjulegir óbreyttir þingmenn, starfsmenn á plani.

Ég geri engar athugasemdir við það í sjálfu sér en tel að ef þetta er svona eigi það að vera með almennum hætti. Við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir höfum flutt um það tillögur og nú í síðara skiptið tillögu sem kom til þingskapanefndarinnar, ekki í þetta sinn um að það sé afnumið heldur að því verði vísað til Kjaradóms, að Kjaradómur ákveði öll kjör alþingismanna. Það er sérkennilegt að sjá að þingskapanefnd hefur athugað það mál og segir kurteislega að hún sé ekki sammála þeirri leið. Síðan kemur í greinargerð nefndarinnar, í athugasemdunum, að hún leggi til nokkrar breytingar á lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað, svo sem eins og að það stefni í sömu átt, komi í staðinn eða sé að minnsta kosti umfjöllun á sama parti.

Þegar lesnar eru þær breytingar sem nefndin leggur til á þessum lögum eru þær ýmsar ákaflega þarfar og gagnlegar, sumar hjartnæmar, þær sem varða til dæmis umönnun veikra barna og ættingja, og vonandi í samræmi við það sem tíðkast í öðrum kjarasamningum. Engar eru hins vegar þannig að það sé á einhvern hátt snert á þeim vanda eða þeim atriðum sem fjallað var um í tillögu okkar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Það er satt að segja furðulegt að nefndin skuli láta sér detta í hug að halda því fram að hún hafi í raun og veru skoðað þetta frumvarp og haft um það eitthvað að segja þegar hún tekur svo til orða að hún leggi hins vegar til nokkrar breytingar í þeim lögum sem þarna um ræðir.

Hv. framsögumaður málsins rakti, og tók í það ágætan tíma, í hverju þetta felst án þess þó að geta lagt á það neitt kostnaðarmat nema að það væri óverulegur kostnaður. Nefndin hefur sem sé ekki haft fyrir því að reyna að finna út kostnaðinn við þetta mál, við 29. gr., hversu jákvæðar, hjartnæmar og elskulegar sem þær breytingar eru fyrir alþingismenn og fjölskyldur þeirra, hvort sem það eru 30% alþingismenn eða 0% alþingismenn, 30% fjölskyldur eða 0% fjölskyldur. Hv. framsögumaður fjallaði hins vegar ekki um ákveðinn lið, hvorki kostnaðarmatið né það í þessum almennu og elskulegu breytingum sem felst í c-lið 6. töluliðar og þá er rétt að ég geri það. Auk þeirra breytinga sem lagðar eru beinlínis til á lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað er því beint til forsætisnefndar að hún geri ákveðnar breytingar á reglum um sérkjör alþingismanna en það er þannig að forsætisnefnd á, án þess að fyrir liggi kostnaðarmat, að ákveða að alþingismenn eigi rétt á að fá greiddan ýmsan kostnað, með leyfi forseta, „svo sem við kaup á gleraugum eða heyrnartækjum, krabbameinsleit, líkamsrækt o.fl.“.

Það er alkunna á vinnumarkaði að stéttarfélög gangist fyrir því að menn fái greiddan þennan kostnað. Það er þá mjög oft í gegnum sérstakan sjóð sem stofnaður er þar sem atvinnurekandinn leggur sitt til og starfsmennirnir sitt. Hér hefur verið ákveðið að fara ekki þá leið að stofna sérstakan fjölskyldu- eða styrktarsjóð fyrir alþingismenn heldur fari um rétt alþingismanna í þessum efnum, með leyfi forseta, „með sambærilegum hætti og um rétt embættismanna“.

Nú er rétt að framsögumaðurinn svari því hvernig sá sambærilegi háttur er. Hvernig er réttur embættismanna í þessu? Greiðir ríkið þeim heyrnartæki, gleraugu, krabbameinsleit og líkamsrækt samkvæmt reikningi eða er kannski einhver sjóður sem stendur á bak við það mál sem embættismennirnir borga þá hluta af launum sínum í?

Forseti. Því rek ég þetta að þessi hluti frumvarpsins ber þess merki að vera framhald af þeim ákveðna yfirdrepsskap, að ég segi ekki hræsni, sem hefur einkennt umfjöllun alþingismanna um eigin kjör. Það sást best á því að þegar sú breyting var gerð sem varðar það atriði sem við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir viljum vísa til Kjaradóms fór sú breyting órædd í gegnum þingið. Það er mjög erfitt að finna heimildir um þá breytingu, hver studdi hana og með hvaða rökum þeirri breytingu var komið á vegna þess að þingmenn vildu ekki láta þetta koma í ljós í ræðustólnum, vildu ekki að umbjóðendur þeirra og kjósendur sæju að þeir voru að hækka laun sín og búa til einhvern skrýtinn tröppugang í þinginu, vildu ekki að menn fyndu í Alþingistíðindum eða annars staðar hver stæði á bak við þetta. Samtrygging þingmannahópanna olli þessu og það hefur síðan verið feimnismál í þinginu sem sést best á afdrifum þeirra tillagna sem við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir höfum flutt, fyrst um að þingið sæi um að jafna þessi kjör og í öðru lagi þegar því var tekið illa, um að þingið gæfi þetta frá sér og fæli Kjaradómi að fjalla um öll kjör þingmanna. Ég spyr framsögumann málsins: Hver var umræðan? Hver var umræðan í nefndinni um þessa tillögu? Hver var afstaða nefndarinnar og einstakra nefndarmanna og einstakra flokka í nefndinni til þessarar leiðar sem við leggjum til, að Kjaradómur ákveði öll kjör alþingismanna, ekki bara sum heldur öll nema þá þau sem eru svo smávægileg, sem skipta svo litlu máli, annars vegar fyrir ríkissjóð og hins vegar þá kannski fyrir venjulega alþingismenn, að rétt sé að skrifstofan fjalli um þau?

Ég vil líka spyrja framsögumann hvaða gestir hafi komið fyrir nefndina við umfjöllun um síðasta hluta frumvarpsins. Hvaða álitsgjafar komu frá til dæmis verkalýðsfélögum og atvinnurekendum, sérfræðingum á vinnumarkaði og stéttarfélagi embættismanna? Hverju skiluðu þeir? Var leitað munnlegs álits þeirra eða komu fram skriflegar umsagnir? Ef þetta var ekki gert hlýtur sú nefnd sem við málinu tekur fyrir 2. umr. að reyna að afla sér álits hinna sérfróðu á því hvernig þessu er best hagað. Ekki síður er forvitnilegt að vita hvar nefndin bar niður í leit að samanburði á kjörum íslenskra þingmanna og erlendra, hvar hægt sé að nálgast þá skýrslu sem nefndin hlýtur að hafa tekið saman eða látið taka saman fyrir sig um kjör norskra, sænskra, danskra og finnskra þingmanna þannig að nefnd séu þau ríki sem við leitum oftast til um samanburð með þessum hætti.

Ég veit að vísu ágætlega að kjör þeirra eru yfirleitt betri en íslenskra þingmanna enda er íslenska þingið þannig, hversu stolt sem við erum af því, að það jafnast helst á við fylkisþing í þessum löndum. Ég er ekki að tala niður kjör alþingismanna á Íslandi þó að menn hafi reynt að halda það eins og þeir geta. Ég tel að þau eigi hins vegar að vera öllum ljós, að öll mál í kringum þessi kjör þingmanna eigi að vera algerlega gagnsæ. Það á ekki að vera nein samtrygging í þessum efnum, menn eiga ekki að bindast neins konar samtökum heldur leggja fram öll gögn í þessu máli eins og þau eru og taka þá annaðhvort þá stefnu að gera þetta allt sjálfir eins og var fyrrum í þingsögunni þegar alþingismenn ákváðu þetta sjálfir. Þá lögðu þeir sjálfir allt fram fyrir kjósendur sína. Hinn kosturinn væri að þetta yrði allt lagt í hendur hinna sérfróðu, annars vegar kjaradómsmanna og hins vegar þá skrifstofunnar á þinginu í smávægilegum málum. Ég tel að þingmenn skuldi þjóðinni það eftir þann vanda sem þeir eiga þátt í, allir, þó að sumir beri þar meiri ábyrgð en aðrir eftir hrunið, að gera þetta með opnum, heiðarlegum og gagnsæjum hætti. Ég spyr hv. framsögumann málsins: Af hverju er það ekki gert?



[17:25]
Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara því sem kemur fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar vil ég ítreka það sem ég sagði í framsöguræðu minni, hér er ekki verið að ganga lengra en eingöngu svo að verið er að lagfæra ákveðin minni háttar réttindi þingmanna og samræma þau því sem tíðkast með embættismenn. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, hér er um að ræða breytingar sem munu að jafnaði ekki snerta stöðu þingmanna þannig að fyrir flesta verður engin breyting, þetta mun ekki auka réttindi manna nema í algjörum undantekningartilfellum. Það sem flesta varðar sennilega er leiðrétting varðandi reglur um inntöku varamanna. Við sáum dæmi um það í vor að þingmenn sem sannanlega voru í störfum á vegum þingsins erlendis misstu laun af því að þeir þurftu að kalla inn varamenn fyrir sig en voru þó ekki nægilega lengi að störfum erlendis til að eiga rétt á greiðslu þegar varamaðurinn kom inn. Sú staða getur komið upp ef maður er í störfum á vegum þingsins í þrjá daga erlendis, það er ekki nægilega langur tími til að menn geti kallað inn varamann sér að kostnaðarlausu, ef svo má segja. Það eru svona breytingar sem munu væntanlega snerta flesta.

Aðrar breytingar sem þarna er um að ræða eru óverulegar og hafa ekki veruleg áhrif. (Forseti hringir.) Hins vegar var nefndin ekki að fjalla almennt um kjaramál þingmanna nema að því leyti sem fram kom í tillögu hv. þm. Marðar Árnasonar og hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur (Forseti hringir.) og það var ekki niðurstaða í því sem birtist í þessu frumvarpi, jafnvel þó að það hafi talsvert verið rætt innan nefndarinnar.



[17:28]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er vel kunnugt úr sögu kjarabaráttu á síðari tímum á Íslandi að þar eru aldrei bætt kjör, hækkuð laun eða almenn framför á kjörum stétta heldur er alltaf um að ræða leiðréttingar, smávægilegar leiðréttingar, sagt að í samanburði við aðra hópa sé það réttlætismál og sanngirnismál. Það er ekki lengur sótt fram á þessu sviði til bættra kjara fyrir einstakar starfsstéttir heldur eru sífelldar leiðréttingar á ferðinni. Mér heyrist þessi ágæti forustumaður í kjarabaráttu alþingismanna, hv. þm. Birgir Ármannsson, hafa numið þetta orðfæri úr stéttabaráttu samtímans og ég óska honum til hamingju með það.

Hann talar um varamannareglur og það er auðvitað margt rétt sem hann segir um það. Hann minnist ekki á það sem er auðvitað algjörlega sanngjarnt að með þessum lögum er varamönnunum sjálfum færð sérstök ávinnsla orlofsréttinda. Það hefur væntanlega óverulegan kostnað í för með sér að mati nefndarinnar sem hefur rætt þetta mál sérstaklega og farið í gegnum það með sérfræðingum sínum við kostnaðarmat sem nefndinni er að vísu ekki skylt að gera en væri æskilegt að þingskapanefnd stæði fyrir vegna 30. gr. þingskapa um kostnaðarmat með málum af þessu tagi. Það vekur athygli, og ég spyr um það aftur, að þingmaðurinn vill ekki fjalla um þessar reglur sem forsætisnefnd á að bæta, reglur um gleraugu, heyrnartæki, krabbameinsleit, líkamsrækt og fleira, en þó ekki stofna sérstakan fjölskyldu- og styrktarsjóð. Ég spurði: Kostar þetta ekki neitt? Er enginn kostnaður af þessari „leiðréttingu“ á kjörum þingmanna?



[17:30]
Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé ljóst þegar við skoðum þetta mál, og það varð niðurstaða okkar í nefndinni, að sá kostnaður er eins og ég sagði í fyrri ræðu minni óverulegur í samanburði við það sem við erum hér um að fjalla og háður ýmsum óvissuþáttum þannig að ég held að við komumst ekki lengra í þeirri umræðu. Ef hv. þingmaður metur það svo að hér sé um að ræða svo alvarlega og stórfellda hluti að hann geti ekki stutt þetta mál verður svo að vera, en þetta var sameiginleg niðurstaða okkar sem sátum í þessari þingmannanefnd um þingsköpin. Við komumst að þessari niðurstöðu. Við fengum ekki álitsgjafa eða umsagnir þegar við gerðum þessar tillögur en við áttum hins vegar fundi með lögfræðingum þingsins um þetta mál sem kynntu okkur þær reglur sem giltu á vettvangi embættismanna Stjórnarráðsins. Við leggjum þessar breytingar til í fullri vissu um að ekki sé verið að ganga á neinn hátt lengra en gert er á þeim vettvangi og forsætisnefnd er falið að útfæra þessar reglur þannig að þær séu skilgreindar þröngt, séu takmarkandi og feli ekki í sér neinar kjarabætur umfram það sem til dæmis deildarstjórar eða skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu eiga rétt á.



Frumvarpið gengur til 2. umr.