141. löggjafarþing — 5. fundur
 18. september 2012.
barnaverndarlög, 1. umræða.
stjfrv., 65. mál (frestun tilfærslu vistheimila). — Þskj. 65.

[15:49]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum. Í fyrra var samþykkt breyting á barnaverndarlögunum með lögum nr. 80/2011 þar sem ákveðið var að ríkið yfirtæki ábyrgð á að byggja upp og reka öll heimili og stofnanir fyrir börn en sveitarfélögin bera ábyrgð á öðrum úrræðum í nærumhverfi barns. Samkvæmt lögunum skyldi þessi breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga taka gildi 1. janúar 2013. Í raun er Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið sem rekur heimili fyrir börn eins og hér um ræðir þannig að við núverandi aðstæður ná lög nr. 80/2011 eingöngu til tilfærslu heimila fyrir börn frá Reykjavíkurborg til ríkisins.

Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins frá í fyrra vegna lagabreytingarinnar um þessa breyttu verkaskiptingu er áætlað að útgjöld sem nema á bilinu 262–312 millj. kr. færist frá sveitarfélögum til ríkisins og að þeim verði mætt að fullu með gjaldi sem sveitarfélögin greiði þegar þau senda börn í vistun á þeim stofnunum sem ríkið yfirtekur. Er þá jafnframt gert ráð fyrir að velferðarráðuneytið setji reglugerð um gjaldskrá vegna innheimtu þessara gjalda.

Starfshópur á vegum velferðarráðuneytisins, Barnaverndarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar hefur að undanförnu unnið að undirbúningi þessarar breytingar og meðal annars fjallað um rekstur þeirra stofnana sem nú eru á vegum Reykjavíkurborgar og færast eiga til ríkisins. Þann 14. maí sl. barst starfshópnum bréf frá Reykjavíkurborg þar sem bent er á að við undirbúning frumvarpsins sem varð að lögum nr. 80/2011 hafi ætíð verið gengið út frá því að til kæmi viðbótarfjármagn frá ríkinu til uppbyggingar á úrræðum þannig að Reykjavíkurborg þyrfti ekki að skerða þá þjónustu sem nú er veitt á þeim heimilum og stofnunum fyrir börn sem borgin rekur. Þannig telji Reykjavíkurborg forsendubrest fyrir því að færa heimilin frá borginni þar sem ekki liggi fyrir nein fyrirheit um aukið fjármagn frá ríkinu. Með öðrum orðum er verið að gagnrýna að ef ekki verði bætt við nýjum heimilum sé verið að hleypa öðrum sveitarfélögum með sín börn inn á þessi heimili sem eru í Reykjavíkurborg. Einhver dæmi eru um það en þarna virðist það formgert sérstaklega. Þess vegna kemur athugasemd frá Reykjavíkurborg um að hún vilji ekki skerða sína þjónustu og telji ekki ástæðu til að fara yfir þetta nema það komi uppbygging á nýjum heimilum.

Starfshópurinn hefur einnig fengið bókun frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsetta 25. maí 2012 þar sem tekið er undir afstöðu Reykjavíkurborgar. Telur stjórnin skynsamlegast að fresta gildistöku umræddrar breytingar um eitt til tvö ár og að á þeim tíma verði unnið betur að undirbúningi málsins. Starfshópurinn hefur fallist á sjónarmið Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að lengri tími sé nauðsynlegur til að breyta umræddri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að hæfilegur frestur sé til 1. janúar 2014.

Í ljósi þessa mæli ég fyrir þessu frumvarpi um frestun á gildistöku laganna til 1. janúar 2014 og að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til meðferðar hv. velferðarnefndar.



[15:53]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera okkur grein fyrir efni þessa frumvarps. Það er í sjálfu sér ekki mjög flókið, það gengur út á áform um að ríkið yfirtaki tiltekna starfsemi á stofnunum fyrir börn sem vistuð eru utan heimila, að þessi verkefni flytjist frá Reykjavíkurborg til ríkisins. Má segja að þau séu hjá sveitarfélögunum almennt talað en eins og hæstv. ráðherra vakti athygli á er þessi starfsemi eins og sakir standa eingöngu í Reykjavíkurborg.

Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt má segja að hnífurinn standi þar í kúnni að Reykjavíkurborg er með þessi tilteknu heimili. Verði þau síðan flutt til ríkisins eru það í raun ekki bara börn úr Reykjavík sem geta notið dvalar á þessum heimilum heldur eiga þá börn úr öðrum sveitarfélögum sama rétt. Sveitarfélögin benda á að ef menn ætla að yfirtaka þetta með þessum hætti þurfi að fylgja því aukið framlag sem ríkið verði að leggja fram.

Ég geri mér ekki grein fyrir stærðargráðunni í þessum efnum. Í fyrsta lagi kemur fram að heildarrekstrarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna þessara heimila hafi í fyrra numið rúmlega 219 millj. kr., en eins og hæstv. ráðherra greindi frá eru hugmyndir sveitarfélaganna þær að til að hægt sé að flytja þessi verkefni frá sveitarfélögunum til ríkisins án þess að skerða þjónustu þurfi ríkið að leggja fram viðbótarfjármagn, í fyrsta lagi í formi stofnkostnaðar og í öðru lagi þá væntanlega rekstrarkostnaðar sem leiðir af því.

Ég geri mér ekki grein fyrir og get ekki séð af þessum málsskjölum hvað þarna gæti verið um að ræða. Eru menn að ræða um að þessi kostnaðarauki gæti þá orðið svipaður og rekstrarkostnaður Reykjavíkurborgar er eða hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Hafa menn reynt að meta þá þörf sem mögulega kann að vera fyrir hendi á þessum vistunarúrræðum sem hér er um að ræða sem ríkið tekur við frá Reykjavíkurborg og þá í rauninni frá sveitarfélögum almennt? Teoretískt gæti það verið þannig að fleiri sveitarfélög væru með þessi úrræði og ef hæstv. ráðherra hefur á takteinum einhverjar upplýsingar um það væri fróðlegt að fá þær fram. Þegar sveitarfélögin koma ella til að ræða þessi mál við okkur í velferðarnefnd getum við leitað eftir þessum upplýsingum sem ég tel að þurfi að liggja fyrir. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að auðvitað verða menn að ljúka því máli með einhverjum hætti sem báðir aðilar eru sammála um.

Úr því að ég er farinn að tala um þessi heimili sem tryggja börnum vistun utan sinna eiginlegu heimila vil ég aðeins leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra um málefni sem bar á góma í fjárlagaumræðunni í síðustu viku þegar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spurði hæstv. ráðherra um stöðu eins slíks heimilis sem er af öðru tagi en þetta, vistheimilið í Háholti í Skagafirði. Nú hefur það komið fram að hæstv. ráðherra framlengdi á sínum tíma samning við það heimili um eins árs skeið og tryggði þar með rekstur þess sem ella hefði verið í fullkomnu uppnámi. Þetta gerðist á síðasta ári og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir atbeina hans að því máli. Hins vegar er þessi samningur bara til eins árs og rennur út í lok júní á næsta ári. Þannig er staðan að um mitt ár 2012 mun þessi samningur renna út og ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að það séu fjármunir til þessa heimilis á fjárlögum sem bendir þá til þess, eins og sakir standa, að það séu allar líkur á því að starfsemi þess heimilis leggist af. Eftir því sem ég hef upplýsingar um mun Barnaverndarstofa ekki hafa óskað eftir viðbótarframlagi til þessa heimilis, hafði sem sagt ekki gert neina tillögu um það til hæstv. velferðarráðherra og velferðarráðuneytisins að það væri nauðsynlegt að tryggja fjármuni til þessa heimilis umfram það sem gert er með þeim samningi sem hæstv ráðherra undirritaði og auðvitað var fyrirséð í fjárlögum. Það finnst mér mjög mikið áhyggjuefni. Ég veit að þetta er átakamál. Það er umdeilt hvernig eigi að standa að þessum rekstri en það er þá náttúrlega nokkuð sem þarf að koma upp á borðið. Ef það er orðin stefnan að leggja af starfsemi heimila á borð við þá sem er í Háholti í Skagafirði þurfa menn að segja það. Það þarf að vera einhvers konar stefnumótun á bak við það. Mér er hins vegar ekki kunnugt um neina stefnumótun en ég hygg að við hæstv. ráðherra séum ekki ósammála um mikilvægi starfseminnar í Háholti.

Ef hæstv. ráðherra getur með einhverjum hætti upplýst okkur um það hvernig staðið verður að þessu máli sem þetta frumvarp gaf mér tilefni til að vekja máls á væri það mjög gott. Ég er þeirrar skoðunar að starfsemin í Háholti eigi að halda áfram. Ég held að hún hafi í meginatriðum reynst vel. Fyrir utan það að vera mikilvæg starfsemi í héraðinu skiptir mestu máli að hún er mikilvæg sem þjónustustarfsemi við þau börn sem þurfa af margvíslegum ástæðum á þessari vistun að halda.

Virðulegi forseti. Það eru þessi tvö atriði sem mig langaði sem sagt að spyrja hæstv. velferðarráðherra um. Ég er að reyna að átta mig á þessu umfangi sem við erum að tala um varðandi þessi mál sérstaklega sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Þar er sem sagt kveðið á um að lengja þann tíma áður en ríkið yfirtekur starfsemi þessara heimila sem kveðið er á um í frumvarpinu. Svo vil ég fá botn í það hvaða fjármuni gæti verið um að tefla og hvort ríkið hafi eitthvað áttað sig á því hvort setja þurfi á laggirnar fleiri slík heimili en þau sem Reykjavíkurborg nú þegar rekur og ætlunin er að ríkið yfirtaki reksturinn á. Loks er þessi spurning um Háholt sérstaklega, þá í rauninni stefnumótandi spurning um rekstur heimila á borð við Háholt sem eru rekin úti um landið.



[16:00]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, þetta snýst einmitt um að greina betur hver þörfin er til viðbótar við þá þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir núna og tryggja að það framboð sé til staðar.

Nú er þetta þannig sett upp í lögunum að reiknað er með því að sveitarfélögin greiði fyrir þessa þjónustu, þ.e. þau kaupa aðgang að heimilunum. Maður veit svo sem aldrei fyrir fram hver eftirspurnin verður nákvæmlega þegar þetta er gert svona, það er öðruvísi þegar menn hafa aðgang án þess að þurfa að greiða fyrir. Þetta er að vísu þekkt frá eldri tíma, ég kannast við það sem sveitarstjórnarmaður, að börn voru áður fyrr vistuð á heimilum á kostnað sveitarfélaganna. Oft var þetta stór baggi og mönnum fannst þetta dýrt og það var mismunandi hvernig sveitarfélögin gerðu þetta.

Hér voru það Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga sem tóku af skarið og töldu að það væri ekki ástæða til að breyta þessari þjónustu að svo stöddu vegna þess að það þyrfti að greina þetta betur og tryggja fleiri rými til að þjónustan yrði viðunandi.

Hv. þingmaður nefndi annað mál, Háholt í Skagafirði sem er eitt af þeim vistheimilum sem rekin eru á vegum Barnaverndarstofu. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að sá samningur er aðeins til miðs næsta árs, þ.e. til loka júní. Það er þó þannig í fjárlögum 2012 að fjárveiting er fyrir þessum sex mánuðum og til viðbótar er fjármagn sem annars hefði farið í að reka heimilið seinni hlutann en það er ekki merkt stofnuninni af því að samningurinn liggur ekki fyrir. Ég vona að ég fari rétt með þetta, ég held að það sé þannig. Peningarnir eru þarna en ekki merktir stofnuninni af því að samningurinn er til þessa takmarkaða tíma.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að það hefur verið töluverð umræða um Háholt í tengslum við öryggismál og mönnun á fagfólki, en það er engin launung á því að ég tel að starfsemin eigi að vera þar áfram. Húsnæðið er byggt af, ef ég veit rétt, Sveitarfélaginu Skagafirði og þetta er auðvitað stór vinnustaður í héraðinu. Þó að það eigi í sjálfu sér ekki að vera aðalatriði skiptir það auðvitað máli og líka að spurt sé af hverju þjónustan geti ekki verið þar, ef það á að veita hana. Það er sú afstaða sem ég hef haft í þessu máli, en það hafa auðvitað verið að koma fram ný úrræði. Það eru fleiri unglingar sem fá nú þjónustu þar sem þeir búa, þeir búa áfram heima í stað þess að fara á vistheimili eða stofnanir. Þessu er fylgt eftir af þjónustuaðilum í viðkomandi umhverfi. En með því að þessir einstaklingar fara ekki lengur inn á stofnun verða þyngri einstaklingar, ef svo má segja, á stofnunum sem krefjast meiri þjónustu og meiri fagþekkingar. Það er kannski sú umræða sem á sér stað í sambandi við Háholt.

Sjálfur hef ég talið að starfsemin eigi að vera þar áfram eins og hv. þingmaður. Ég held að það sé alveg rétt að þetta fari fyrir hv. velferðarnefnd og þessi mál verða líka rædd í tengslum við fjárlögin vegna þess að það hefur einmitt komið fram sú gagnrýni, m.a. frá Ríkisendurskoðun, að þegar menn gera svona breytingar, leggja niður heimili eða eitthvað slíkt, taka nýja stefnu í málunum, eigi að gera það eftir mótaðri stefnu, hún þurfi að liggja fyrir og aðdragandinn sé á forsendum hennar. Þetta er staðan á málinu.

Ég vona að þetta fari til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd og tel óhjákvæmilegt að verða við þessum óskum — þess vegna er frumvarpið flutt — frá sveitarfélögunum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég þakka fyrir umræðuna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.