141. löggjafarþing — 8. fundur
 24. september 2012.
atvinnumál.

[15:18]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fátt hefur verið talað meira um frá því að efnahagsósköpin dundu yfir hér á landi en fækkun starfa og atvinnuleysi. Hér í liðinni viku átti ég sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra um atvinnumál og í þeirri umræðu beindi ég þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort hún hefði ekki áhyggjur af því að miðað við tölfræði Hagstofunnar er störfum hér á landi ekki að fjölga, þvert á móti. Þegar maður rýnir í tölur Hagstofunnar blasir það við svart á hvítu.

Mig langar því að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessar niðurstöður sýni að ríkisstjórninni er ekki að takast að skapa þau skilyrði að hér fjölgi störfum þrátt fyrir fjölmargar og ítrekaðar yfirlýsingar um að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum um 4 þúsund, um 15 þúsund og ég man eftir yfirlýsingu frá hæstv. forsætisráðherra um að hér skyldi fjölga störfum um 24 þúsund.

Nú hafa fleiri en ég áhyggjur af þessu. Í dag skrifar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, mikla grein sem birtist á Pressunni þar sem farið er yfir þá tölfræði sem Hagstofan birtir okkur. Þar kemur fram sú afstaða sjálfs forseta ASÍ að samkvæmt þessum tölum sé ljóst að störfum sé hvorki að fjölga á Íslandi né sé að draga úr atvinnuleysi heldur þvert á móti. Úr þessum tölum sé hægt að lesa að atvinnuleysisskráin sé að breytast vegna þess að fólk sé að flytja úr landi eða eigi ekki lengur rétt til bóta vegna þess að það hafi verið það lengi á atvinnuleysisskrá.

Mig langar því að beina þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Er atvinnuleysi að minnka og störfum að fjölga eður ei? Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessa? Deilir hann ekki þessum áhyggjum með mér?



[15:20]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að störfum fækkaði og vinnumagnið á Íslandi dróst mjög skarpt saman með hruninu og reyndar var sú þróun farin af stað mánuðina þar á undan, enda hafði verið hér mjög ofspenntur vinnumarkaður sem hafði þanist út árin þar á undan, m.a. með miklu innstreymi erlends vinnuafls. Það lætur því nærri að störfum hafi fækkað um 12–15 þúsund á tiltölulega skömmum tíma, úr rúmlega 180 þúsundum niður í 167–168 þúsund. En sú þróun stöðvaðist á árinu 2009 og eftir það hefur störfum ekki fækkað heldur fjölgað, en það sem þarf að mæla hér líka er ekki bara fjöldi starfandi á vinnumarkaði heldur vinnumagnið og vinnustundirnar og bera í þeim efnum saman rétta hluti. Það er alveg ljóst að vinnumagnið er tekið að aukast umtalsvert í landinu á nýjan leik. Það sýna líka óhrekjanlegar tölur.

Það er vel þekkt fyrirbæri þegar hagkerfi er að reisa sig upp úr samdrætti og lægð að þá er ákveðin tímatöf í því að störfum sem slíkum fari að fjölga vegna þess að það sem fyllist fyrst í eru hlutastörfin og þar sem yfirvinna hefur verið skorin út o.s.frv. Oft má búast við hálfs til eins og hálfs árs töf í því að störfum fari að fjölga að fullu í samræmi við hagvöxt eftir að hann verður. Þetta tímabil erum við Íslendingar búnir að ganga í gegnum frá síðari hluta árs 2010 út árið 2011 og inn á þetta ár. Margir aðrir mælikvarðar sýna það að undirliggjandi styrkur hagkerfisins er að aukast, sem er ávísun á fleiri störf í framtíðinni.

Ég bendi hv. þingmanni á að skoða hvernig beinu skattarnir hafa verið að gefa meira af sér á þessu ári. Tekjuskattur, útsvar og tryggingagjald eru að sjálfsögðu til marks um það. Umtalsverður tekjuauki ríkis og sveitarfélaga er til marks um það að vinnumagnið er að aukast. Sömu vísbendingar gefa veltutöluaukningar í mörgum atvinnugreinum, svo sem ferðaþjónustu, sjávarútvegi, hönnun, störfum arkitekta, (Forseti hringir.) verkfræðinga o.s.frv. Batinn er því hafinn. Hversu kraftmikill hann er má lengi deila um (Forseti hringir.) en ég held að það eigi sér tiltölulega augljósar skýringar að fjölgun starfa er hægari en sem nemur hagvexti (Forseti hringir.) og aukningu vinnumagns í upphafi svona tímabils.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á tímamörkin.)



[15:23]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég spyr aftur hæstv. ráðherra: Hvar í tölum Hagstofunnar sér hann rök sem geta stutt málstað hans hér? Hvar eru þær tölur? Tölur Hagstofunnar sýna okkur, svo að ég vitni orðrétt í grein Gylfa Arnbjörnssonar, með leyfi forseta: „að langtíma leitni á vinnumarkaði bendir til þess að atvinnuástandið er að versna fremur en batna og að gera megi ráð fyrir slæmu ástandi þegar líða tekur á veturinn“.

Jafnframt er ég algjörlega ósammála hæstv. ráðherra um að hér séu merki um að vinnustundum sé að fjölga. Ég sé ekki annað en að þeim sé einfaldlega að fækka. Fólki er að fækka á atvinnuleysisskrá vegna þess að það er annaðhvort að detta út af henni út af tíma eða það er að flytja úr landi. Heildarniðurstaðan, skoði maður tölur Hagstofunnar, sýnir okkur að ríkisstjórnin er ekki að ná árangri í baráttunni við (Forseti hringir.) atvinnuleysið heldur þvert á móti, hér er ástandið að versna og meira að segja sjálfur forseti ASÍ hefur lýst því yfir, sem ætti að vera hugmyndafræðilegur skoðanabróðir ríkisstjórnarflokkanna.



[15:24]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef hv. fyrirspyrjanda, flokkssystkinum hennar eða öðrum líður betur með því að trúa að allt sé á niðurleið á Íslandi (Gripið fram í.) fæ ég lítið við því gert.

Það er algjörlega á hreinu að þegar hagvöxtur er upp á 2,5–3% tvö ár í röð og því spáð á hinu þriðja þá segir það líka sína sögu. Það er ávísun á aukin umsvif í hagkerfinu samkvæmt öllum náttúrulögmálum, og samkvæmt öllu sem menn þekkja fyrr úr sambærilegum tilvikum er það ávísun á fjölgun starfa. Það getur átt sér eðlilegar skýringar að sú fjölgun kemur ekki fyrr en komið er svolítið inn í þessa hagsveiflu. Ég fór yfir það hér áðan.

Það er merkilegt að heyra fólk tala til dæmis enn um þetta tvennt, að hér sé bara stórfelldur fólksflótti sem skýri það að skráð atvinnuleysi hafi minnkað eða þá að menn séu búnir að missa bótarétt í stórum stíl. Hvorugt er rétt. Það er einfaldlega þannig að frá og með árinu 2009 hefur jafnt og þétt dregið úr tapi (Forseti hringir.) í fólksjöfnuði milli Íslands og erlendra landa, m.a. vegna atvinnuátaksins sem farið var í hafa sárafáir dottið út af fjórða árinu og yfir á framfærslu (Forseti hringir.) sveitarfélaga. Það mælist í mesta (Forseti hringir.) falli í fáeinum hundruðum. (Gripið fram í.)