141. löggjafarþing — 8. fundur
 24. september 2012.
sérstök umræða.

staða mála á Landspítalanum.

[15:33]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held við getum öll verið sammála um að starfsfólk Landspítalans hafi sýnt mikinn dugnað og fórnfýsi við erfiðar aðstæður frá hruni. Spítalinn og heilbrigðiskerfi okkar sem hann er grunnstoðin í hefur verið í fremstu röð og það er óásættanlegt fyrir okkur sem þjóð að það breytist. Hjá spítalanum hefur öryggi sjúklinga verið í fyrirrúmi. Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, sagði í nýlegu útvarpsviðtali að öryggi sjúklinga væri ekki í hættu en spítalinn væri á mjög fínni línu hvað það varðaði. Aðalhlutverk spítalans sé að öryggi sjúklinga sé ekki ógnað. Það geti hins vegar farið svo að örygginu verði ógnað og þá verði frá því sagt.

Tækjakostur Landspítalans er orðinn að miklu vandamáli sem hefur hlaðist upp núna síðustu ár. Í ályktun læknaráðs spítalans segir að niðurskurðarkrafan á Landspítala hafi verið mikil síðustu ár og starfsemin líði fyrir hið skerta fjármagn. Eðlilegt viðhald og endurnýjun á tækjabúnaði spítalans hafi setið á hakanum og stefni í óefni í þeim málum. Bæði sé þörf á nýjum tækjabúnaði til að mæta eðlilegri þróun læknavísindanna og endurnýjun á gömlum tækjum sem ekki séu lengur nothæf.

Afleiðingar málsins, virðulegi forseti, eru mjög alvarlegar í mörgu tilliti. Ein birtingarmynd þess er að erfiðara er en áður að manna stöður sérfræðinga. Hæstv. velferðarráðherra sagði á almennum læknaráðsfundi hjá Landspítalanum í vor að hann hefði ekki áhyggjur af því að læknar sem búsettir væru erlendis komi ekki til Íslands og þannig verði yngt upp í stétt lækna. Ég held að hæstv. ráðherra meti stöðuna ekki rétt. Stjórn læknaráðs Landspítalans hefur ályktað sérstaklega um málið og telur það mikið áhyggjuefni að eðlileg endurnýjun eigi sér ekki stað meðal sérfræðinga spítalans. Það endurspeglist meðal annars í færri umsóknum um stöður, og er þá verið að vitna í sérfræðistöður þar sem fjöldi umsókna hefur breyst mjög.

Tækjakostur Landspítalans spilar stórt hlutverk í þessu. Ungt fólk sem lokið hefur sérfræðinámi erlendis verður að geta komið heim til starfa í sama umhverfi og það hefur þjálfast upp í í námi sínu erlendis. Sem dæmi um þetta má nefna þvagfæraskurðlækningar þar sem svokallaðar robotlækningar hafa verið að ryðja sér til rúms. Þeir sem hafa verið að stunda nám í þeim fræðum erlendis stunda það nám í því umhverfi. Hér er ekki boðið upp á það umhverfi fyrir þá ef þeir vilja koma heim. Það er eins og að fá til landsins góðan hljóðfæraleikara sem hefur ekkert hljóðfæri til að spila á.

Til er svokallaður bráðalisti yfir þau tæki sem nauðsynlegt er að kaupa strax. Hann hljóðar upp á um milljarð. Þetta er vandamál sem við ýtum ekki á undan okkur. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar birtist í fjárfestingaráætlun hennar frá því í vor og mér finnst með ólíkindum að ekkert skuli fyrirfinnast þar um auknar fjárfestingar í þennan brýna málaflokk. Ég vil spyrja ráðherra hvort hann hafi við afgreiðslu áætlunarinnar ekki lagt áherslu á að tekið yrði tillit til þessa alvarlega ástands.

Það vantar 3 milljarða í brýnar fjárfestingar og ef litið er á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar getum við séð að að hennar mati virðist vera nægt fé til að fara í ýmis verkefni. Sem dæmi má nefna Kvikmyndasjóð upp á 488 milljónir, verkefnasjóð skapandi greina upp á 200 milljónir, netríkið Ísland upp á 200 milljónir, grænan fjárfestingarsjóð upp á 1.000 milljónir, grænar fjárfestingar upp á 50 milljónir, grænkun fyrirtækja upp á 500 milljónir, vistvæn innkaup upp á 200 milljónir, Náttúruminjasafn – sýning upp á 500 milljónir, Hús íslenskra fræða upp á 800 milljónir og Húsafriðunarsjóð upp á 200 milljónir.

Þetta eru samtals 4.388 milljónir sem ríkisstjórnin ætlar, samkvæmt fjárfestingaráætlun, að setja í þessi gæluverkefni á næsta ári en horfir algerlega fram hjá þeirri brýnu þörf sem er í heilbrigðiskerfi landsins. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum hugmyndum en arfavitlaus er þessi forgangsröðun. Ekki satt?

Er þetta sú forgangsröðun sem hæstv. ráðherra vill sjá eða varð hann undir með sjónarmið sín í ríkisstjórninni? Hvað átti hann við þegar hann sagði í þættinum Á Sprengisandi nú um helgina að það væri Alþingis að breyta þessu? Ég vil fá svör ráðherrans við því. Það ætti ekki að vera vandamál, þegar þessi forgangsröð er skoðuð, að leysa þessi mál með myndarlegum hætti ef einhver vilji væri til þess.



[15:38]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka þetta mál upp og benda á að um er að ræða brýnt hagsmunamál. Ég tek líka undir það með honum að starfsfólk Landspítalans hefur sýnt mikinn dugnað og fært fórnir í sambandi við þann mikla niðurskurð sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Mikilvægt er að þar sé unnið áfram með öryggi í fyrirrúmi. Hlutverk okkar er að tryggja áframhald þeirrar hágæðaþjónustu sem er á Íslandi í heilbrigðismálum.

Það er mjög forvitnilegt að skoða hvernig hlutirnir hafa þróast varðandi framlög til tækjakaupa á undanförnum árum. Ég hef verið mjög hugsi yfir því. Þó að það megi gagnrýna að ekki séu nægilega háar tölur í fjárlagafrumvarpinu í ár og á næsta ári er ég mjög hugsi yfir því hve tölurnar voru lágar í góðærinu. Þar var ár eftir ár frá 2004–2008, raunar með einni undantekningu þar sem talan var lægri, 201 milljón á verðlagi þess árs ráðstafað í tækjakaup.

Við þurftum að endurstilla allan rekstur okkar og endurskoða allt heilbrigðiskerfið vegna þess að hér varð stórt allsherjarhrun. Það hefur ekki verið átakalaust. Nú erum við aftur komin í þá stöðu að stöðva þann hallarekstur sem fyrir var en líka búin að núllstilla þannig að við ætlum ekki að beita meira aðhaldi. Nú förum við að reyna að byggja upp að nýju og finna þá nákvæmlega hvar þarf að bæta við, hvar er brýnast að koma inn með ný atriði. Tækjabúnaðurinn er þar mjög framarlega og það er einmitt þess vegna sem við höfum óskað eftir og höfum fengið fjárfestingaráætlun frá Landspítalanum þar sem settur er fram sá forgangur sem hv. þingmaður nefndi. Þar er annars vegar talað um 155 milljónir í smærri tækjum, sem þyrfti að koma til strax á þessu ári, og um 860–890 milljónir á næsta ári, mjög vandaður listi sem lagður er fram til að sýna fram á hver brýnustu verkefnin eru.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er verkefni okkar í sameiningu að meta hvort við getum forgangsraðað með öðrum hætti og tryggt að þessi framlög komi. Sú vinna er þegar í gangi og búið að fara vel yfir það.

Það er líka rétt sem hefur komið fram hér, og það dylst engum, að tækjabúnaður er, vegna fjárveitinga undanfarinna ára, í sumum tilvikum orðinn tæpur og úreltur og í öðrum tilvikum vantar varahluti. Við þurfum að vinda ofan af þessu. Í drögum að heilbrigðisáætlun, eða tillögu sem verið hefur til umsagnar á netinu, er lögð mikil áhersla á að fara þurfi yfir þetta heildstætt yfir landið, vinna þarfagreiningu vegna endurnýjunar tækjabúnaðar, bæði fyrir sérgreinasjúkrahúsin og aðrar stofnanir. Þá þurfum við hugsanlega að setja okkur þau markmið að á hverju ári sé ákveðið hlutfall af rekstri, eins og hjá fyrirtæki, notað í tæki vegna þess að þannig þarf þetta að vera. Maður þarf að átta sig á því hvert er hlutfallið af rekstrinum en ekki vera með sérstakar fjárveitingar og sérstakt átak í hvert og eitt skipti.

Það verður að viðurkennast að það er gjafafé sem hefur bjargað þessu á undanförnum árum, það er jafnvel yfir helmingurinn af því sem verið er að fjárfesta fyrir. Um 50–60% af þeim fjárveitingum sem hafa komið til tækjakaupa eru í gegnum gjafafé. Að vísu verður að hafa í huga að ef tæki eru keypt af viðurkenndum félögum fellur virðisaukaskatturinn niður. Það hjálpar líka til í sambandi við tækjakaupin.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki væri ástæða til að vinna sérstaka fjárfestingaráætlun í kringum þetta. Eins og ég segi þá eru komin drög að henni, það þarf að vinna hana áfram til lengri tíma. Umræðan er þegar hafin um hvernig hægt sé að bregðast við og þá hvernig hægt væri að fjármagna þetta. Þegar ég segi að það sé Alþingis að breyta þessu þá er það bara sú almenna fullyrðing að fjárveitingavald er í höndum Alþingis þegar að lokasprettinum kemur. Við verðum að skoða hvernig okkur reiðir af núna inn í haustið og fram að lokaafgreiðslu fjárlaga, hvaða svigrúm við getum búið til, en ég tek undir að verkefnið er brýnt og þarf að leysast.

Ekki vinnst tími til að ræða aðra þætti sem full ástæða væri til að ræða varðandi heilbrigðiskerfið í þessari stuttu umræðu. Ég held að það sé ágætt að við fókuserum á tækjabúnaðinn. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir líka, að það skiptir máli að við búum vel að starfsfólki, bjóðum því rétt tæki og búnað þannig að það vilji vinna hér. Fólk er orðið góðu vant þar sem það sérmenntar sig erlendis.

Kærar þakkir fyrir umræðuna. Ég er spenntur að heyra það sem fram kemur í henni á eftir.



[15:43]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt, sem komið hefur fram í máli hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra, að forgangsröðunin er mjög mikilvæg til að geta nýtt fjármagn til að kaupa tæki. Að mínu mati geta tvö verkefni stuðlað að mikilli hagræðingu og sparað pening sem þá væri hægt að nota til tækjakaupa og annarra góðra verka. Ég ætla að nefna þau verkefni.

Það er í fyrsta lagi valfrjálst tilvísunarkerfi í heilbrigðisþjónustunni sem er nokkuð óumdeilt í dag að fara þurfi út í. Margir flokkar hafa gefið út yfirlýsingar um það á þinginu að fara verði í slíka kerfisbreytingu, Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir og Samfylkingin. En fara þarf í það sem fyrst að koma á valfrjálsu tilvísunarkerfi. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvar það verkefni er statt.

Hitt verkefnið er talsvert umdeildara en það er nýr Landspítali. Að mínu mati mundi sparast gríðarlegt fé með því að byggja nýjan spítala. Það er vegna þess að með nýjum spítala mundu sparast um 10–15% í rekstri. Þegar upp er staðið er reksturinn aðalútgjaldaliður spítalans, ekki byggingarkostnaðurinn. Það er ekki skelin, það er ekki steypan, hún skiptir nánast engu máli í heildarsamhenginu. Það er reksturinn sem kostar mest. Með því að hagræða um 10–15% með nýjum Landspítala væri hægt að nota það fjármagn á betri veg í heilbrigðiskerfinu.

Þetta er miklu umdeildara verkefni en það sem ég nefndi hér á undan. En þetta var ekki svona umdeilt. Allir flokkar voru meira eða minna á því að byggja ætti nýjan Landspítala. Menn tókust á um staðsetningu. Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrum heilbrigðisráðherra, lét endurskoða staðsetninguna en komst að sömu niðurstöðu og menn höfðu komist að fyrr, að best væri að byggja þar sem ráðgert er að byggja. Menn minnkuðu bygginguna og héldu að málið væri í höfn en síðan hafa blossað upp deilur um þetta verkefni. Það væri þarft að spyrja hæstv. ráðherra um næstu skref í sambandi við nýjan Landspítala.



[15:45]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í pistli á heimasíðu Landspítalans, sem forstjóri Landspítalans skrifaði 24. ágúst sl., segir, með leyfi forseta:

„Töluvert hefur verið fjallað um tækjaþörf spítalans á síðustu vikum en fyrir okkur sem vinnum á spítalanum er það ekkert nýtt, við höfum varað við þessu í langan tíma og þetta er uppsafnaður vandi til fjölmargra ára. Vandinn hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin 10 ár, hann var til staðar löngu fyrir bankahrunið og áður en niðurskurðurinn varð svona mikill. Um leið og frekari fregnir berast af fjármálum spítalans verðið þið,“ — gott starfsfólk — „eins og venjulega, fyrst til að vita af þeim.“

Auðvitað er verið að skoða þessi mál. Það er verið að gera það í ríkisstjórn og það verður gert í fjárlaganefnd við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Þau vekja hins vegar athygli, þessi orð forstjóra Landspítalans um hversu langvarandi vandi þetta er. Ef litið er til útgjalda á föstu verðlagi ársins 2012 til tækjakaupa Landspítalans undanfarin 10 ár þá lækkuðu þau frá árinu 2002 fram að hruni um 44%. Útgjöld á fjárlögum til tækjakaupa lækkuðu á Landspítalanum um 24% á þeim tíma sem við sögðumst hafa úr nógu að moða og hafa nóga peninga til að gera hvaðeina sem við vildum. Hvað var það þá sem skorti? Það voru ekki fjármunirnir, það var viljinn. Það var pólitísk stefna fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra sem þá stjórnuðu landinu og ríkisstjórnar að setja ekki fjármuni til tækjakaupa. Peningarnir voru til en viljinn var ekki fyrir hendi.

Nú, þegar við stöndum í hruninu upp fyrir haus, kemur þetta sama fólk og segir við okkur: Hver er viljinn hjá ykkur? Hann er til staðar. Þessi mál verða endurskoðuð. Það verður fjallað um þau í fjárlaganefnd eins og ég sagði áðan. Það er verið að fjalla um þau núna í velferðarráðuneytinu og á vettvangi ríkisstjórnarinnar og það verður (Forseti hringir.) brugðist við þeim vanda sem þar er við að etja, bæði á Landspítalanum og á öðrum sjúkrahúsum á landinu.



[15:48]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þessi umræða um Landspítalann er bæði þörf og mikilvæg. Sú staða sem er á Landspítalanum í dag er alls ekki boðleg og ég fagna því að við erum að ræða það mál hér. Það er einfaldlega búið að skera of mikið niður í fjárveitingum til Landspítalans og það er óásættanlegt að halda áfram á sömu braut. Þetta er í rauninni bara birtingarmynd þeirrar forgangsröðunar sem núverandi ríkisstjórn hefur og hefur haft undanfarin ár við skipan fjárlaga. Hér eru fjármagnseigendur teknir fram fyrir veikt fólk og heilbrigðiskerfið. Það fara 90 milljarðar á næsta ári í vaxtagreiðslur til fjármagnseigenda.

Hér þarf að forgangsraða í réttri röð og með hagsmuni almennings í huga. Það bætir ekkert þá hagsmuni neitt að ræða hér hvað gerðist árin 2002–2007. Vissulega eiga menn sem réðu hér ríkjum þá einhverja sök á máli en þeir sem ráða hér ríkjum í dag eru þeir sem eiga að taka ákvarðanir um næsta ár, ekki heilbrigðisráðherrann sem var hér fyrir sjö árum. Það skiptir einfaldlega máli að sá heilbrigðisráðherra sem nú situr sýni kjark ásamt hæstv. fjármálaráðherra til þess að semja við fjármagnseigendur með góðu eða illu um frestun á einhverjum af þessum vaxtagreiðslum. Hófleg frestun á þessum vaxtagreiðslum upp á 90 milljarða, upp á kannski 5 milljarða á næsta ári er einungis rétt rúmlega 5% af fjármagnstekjum þeirra. Að setja þá upphæð í Landspítalann mundi bæta stöðu spítalans til mikilla muna og senda rétt skilaboð til spítalans, til starfsfólksins og til þjóðarinnar um nýja og réttlátari forgangsröðun fjármuna í heilbrigðismálum.

Mórall starfsfólks á Landspítalanum er orðinn mjög slæmur og þegar slík staða er komin upp á sjúkrahúsi mun það fyrr eða síðar hafa áhrif á þjónustuna. Við megum ekki láta það gerast. Ég skora einfaldlega á báða hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að grípa til aðgerða í þessu máli.



[15:50]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að vekja máls á því mikilvæga máli sem við ræðum hér. Öll viljum við, sama hvar í flokki við erum, góða heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa landsins og eigum að sjálfsögðu að hafa metnaðarfull markmið í þeim efnum. Mér heyrist miðað við yfirlýsingarnar og umræðuna í salnum flestallir hér, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, vera sammála um að það þurfi að grípa til aðgerða vegna ástandsins á Landspítalanum. Við þekkjum öll, og það hefur komið fram hér í umræðunni, hversu mikill niðurskurður hefur verið á stofnuninni og sérstaklega ber að hrósa starfsfólki Landspítalans fyrir það með hvaða hætti þeim hefur tekist þrátt fyrir allt að viðhalda góðri þjónustu og tryggja öryggi þeirra sjúklinga sem inn á spítalann þurfa að koma. Því má aldrei gleyma.

Ég fagna því, ef það er rétt sem hér kemur fram, að sett verði fram áætlun um það með hvaða hætti þurfi að ráðast í endurnýjun tækjakaupa. En ég skil einfaldlega ekki vinnubrögðin, frú forseti, ef þetta er stefnan og ef þetta er áhugi manna, hvers vegna sú áætlun var ekki lögð fram fyrir löngu og þá tekin fyrir í fjárlagavinnunni og hvers vegna það kemur ekki fram í fjárlögum, ef þetta er viljinn og stefnan, að setja eigi aukið fé í að fjármagna tækjakaup fyrir Landspítalann. Hvers vegna kom það ekki fram í fjárlögum þegar þau voru lögð fram hér um daginn? Það væri ágætt að fá svör við því frá hæstv. ráðherra.

Síðan aðeins vegna stóra verkefnisins um hvort, hvernig og með hvaða hætti eigi að byggja og þá fjármagna nýjan Landspítala. Það er alveg ljóst að það verkefni sem við höfum haft til skoðunar kostar mikið fé og til stendur að ný úttekt komi á öllum rekstraráætlunum og öðrum áætlunum varðandi þá nýbyggingu núna í októbermánuði og við munum að sjálfsögðu skoða hana af athygli. En auðvitað snýst starfsemi, (Forseti hringir.) hvort sem það er starfsemi Landspítalans eða annarra stofnana, ekki öll um skelina heldur um innra starfið. Við eigum auðvitað að reyna að tryggja starfsfólki okkar þar eins gott starfsumhverfi og hægt er og (Forseti hringir.) við getum byrjað með tækjakaupum.



[15:52]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við vitum öll að mikil þörf er á endurnýjun tækja á Landspítalanum. Því miður var ástandið ekki gott fyrir hrun og ég tel mikilvægt að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn skar framlög til tækjakaupa á Landspítalanum niður um fjórðung á árunum 2002–2007. Um 25% niðurskurður Sjálfstæðisflokksins til tækjakaupa á Landspítalanum í mesta góðæri Íslandssögunnar og hv. þm. Jón Gunnarsson leyfir sér að tala um að lítið mál sé að taka á þessu máli ef vilji sé til þess. Það er hjákátlegur málflutningur.

Nú liggja fyrir drög hæstv. velferðarráðherra að nýrri heilbrigðisáætlun til ársins 2020 með markmiðum, mælikvörðum og aðgerðum. Í liðnum C.4 Sjúkrahúsþjónusta er lagt til að í maí annað hvert ár liggi fyrir áætlun um endurnýjun og kaup á tækjabúnaði til tveggja ára fyrir sérhæfðu sjúkrahúsin okkar, Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri.

Stjórnarmeirihlutinn er meðvitaður um brýna þörf fyrir endurnýjun tækja en við teljum mikilvægt að viðbótarfjárveitingar vegna tækjakaupa taki mið af heildstæðri áætlun. Þannig tryggjum við rétta forgangsröðun við kaup á mikilvægum tækjum til sérhæfðu sjúkrahúsanna okkar.

Frú forseti. Viljinn er til staðar hjá hæstv. ríkisstjórn en fjárhagsstaða ríkissjóðs er með þeim hætti að ákvarðanir verður að taka heildstætt og með skýrri forgangsröðun til þess að fjármunirnir renni þangað sem þörfin er brýnust.



[15:54]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að við getum öll verið sammála um að staðan á Landspítalanum og ekki raunar bara Landspítalanum heldur á heilbrigðisstofnunum hringinn í kring um landið hvað varðar tæki og tól sé verulegt áhyggjuefni.

Við getum svo sem staðið hér og bent á ýmis tímabil og ásakað hvert annað um að þessi hafi skorið niður eða hinn en ég hef samt meiri áhuga á því að leggja eitthvað til málanna sem getur hugsanlega hjálpað við að leysa þennan vanda. Ég held að við höfum öll áhyggjur af þessu og að við viljum bæta úr.

Við, þrír þingmenn Framsóknarflokksins, höfum lagt fram frumvarp til laga um skattaívilnanir í þágu tilgreindra félagasamtaka. Það kom einmitt fram í máli hæstv. ráðherra að um 50% af þeim tækjakaupum sem eru á Landspítalanum eru vegna gjafafjár. Ég held að það geti myndast mikil samstaða á þingi um að gera breytingar til að styðja við tilgreind félagasamtök og góðgerðasamtök hvað varðar að tryggja þeim aukið fé þannig að þau geti þá stutt betur við Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir. Í frumvarpi mínu, en meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson og Siv Friðleifsdóttir, er einmitt bent á það að íslensk félagasamtök njóta ekki sömu skattaívilnana og sambærileg samtök í nágrannalöndunum. Þá er sérstaklega bent á að einstaklingum hér á landi er ekki leyfilegt að draga gjafir til góðgerðafélaga frá skattskyldum tekjum sínum líkt og almennt er heimilt í löndum annar staðar í Evrópu og í Norður-Ameríku. Einnig hafa frjáls félagasamtök þurft að greiða fullan erfðafjárskatt af dánargjöfum sem þeim hefur verið ánafnað. Ég held að það gæti verið mjög jákvætt skref að samþykkja þessa breytingu (Forseti hringir.) til að styðja þessi frábæru samtök. Ég vil til dæmis nefna kvenfélög sem hafa gefið um 500 milljónir á undanförnum 10 árum og þar með er ekki talið framlag Kvenfélagsins Hringsins sem (Forseti hringir.) hefur eins og þekkt er meira og minna stutt við rekstur Barnaspítala Hringsins.



[15:57]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka upp þessa umræðu og tel að hún verði ekki sú síðasta á þessum vetri. Ég held að við munum eiga nokkrar sérstakar umræður um heilbrigðisþjónustuna og hvert við stefnum í þeim málum á komandi árum. Umræðan verður hluti af þeim pólitísku kosningamálum sem við munum takast á um í vetur.

Hæstv. forseti. Áratuga uppsafnaður vandi var það sem sprakk framan í okkur strax eftir hrun þegar tvennt lagðist saman, þ.e. niðurskurður í opinberum rekstri og þar með í heilbrigðisþjónustunni og fjárskortur hjá líknar- og frjálsum félagasamtökum sem treyst hafði verið á og er treyst á sem styrktaraðila til að stuðla að tækjakaupum.

Það er treyst á gjafafé til valinna lækningatækja. Það má segja að það sé í anda frjálshyggjustefnunnar að báknið skuli burt og treyst sé á að fjármagn komi annars staðar frá. En þörf á endurnýjun tækjabúnaðar Landspítala – háskólasjúkrahúss og annarra heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið er komin á alvarlegt stig. Þetta á ekki bara við um Landspítalann heldur allar heilbrigðisstofnanir eftir áralanga vanrækslu. Það er kostnaðarsamt að trassa eðlilegt viðhald og endurnýjun á fasteignum og tækjum. Það var gert í áratug fyrir hrun og því þarf sérstakt átak á komandi árum. Það þarf að setja upp forgangslista sem verið er að gera. Það þarf að setja upp fjárfestingaráætlun sem verið er að gera til kaupa á tækjabúnaði á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Það er nauðsynlegt að vinna upp vanrækslu liðinna ára.

Sérfræðingar á einkastofum geta endurnýjað tæki sín því að (Forseti hringir.) kaupverðið kemur fram í gjaldskrá sem hluti af (Forseti hringir.) gjaldskrárkostnaði.



[15:59]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er svolítið lýsandi fyrir afstöðu stjórnarflokkanna í þessu máli að hér stóð áðan formaður fjárlaganefndar og talaði um að yfir þessi mál yrði farið ítarlega í fjárlaganefnd við fjárlagagerðina og hverfur svo úr salnum og hlustar ekki á umræðuna um Landspítalann. Það er dapurlegt að verða vitni að þessu.

Hér hafa menn staðið og sagt: Það þarf að gera áætlun til langs tíma. Það hafa alltaf verið til áætlanir til tækjakaupa á Landspítalanum og alls staðar í heilbrigðiskerfinu. Þær hafa kannski ekki verið til mjög langs tíma en þær hafa alltaf verið til. Það hefur alltaf verið vitað hvaða tæki vantaði á hvern spítala. Það er bara undansláttur og flótti þegar menn segja að það verði ekkert gert í málunum fyrr en þessar áætlanir liggi fyrir. Við höfum ekki langan tíma. Ástandið er nú þegar mjög alvarlegt.

Núverandi stjórnvöld verða að sýna ábyrgð og taka af skarið og breyta forgangsröðuninni í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi en koma sér ekki alltaf undan ákvörðunum með vísan í fortíðina eða einhverjar heildaráætlanir. Slíkt er einfaldlega flótti frá ákvarðanatöku.

Svo kemur fólk hingað upp og segir að sjálfstæðismenn séu óheiðarlegir í málflutningi vegna þess að þeir hafi skorið niður til tækjakaupa árin 2002–2007 og heimti nú eitthvað annað. Búast menn við einhverju öðru úr þeirri átt? spyr ég bara. En þetta snýst ekki um það, hæstv. forseti, þetta snýst um að núverandi stjórnvöld bregðist við vandanum og lagi hann og hafi kjark til þess að forgangsraða heilbrigðiskerfinu hér á landi fram fyrir fjármagnseigendur. 90 milljarðar á fjárlögum í vaxtagreiðslur til fjármagnseigenda er óásættanlegt þegar ekki er til fyrir teipi til að líma saman tækin á Landspítalanum.



[16:02]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Björn Valur Gíslason og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir voru alveg föst í gamla tímanum varðandi það hvernig staðan hafi verið hér fyrir nokkrum árum. Ég er gagnrýndur fyrir að tala um að auðvelt sé að leysa þetta mál. Ég vitna þar í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á þingi síðastliðið vor. Hæstv. ráðherra kaus að svara ekki spurningum mínum um það hvort hann hefði orðið undir við vinnslu hennar, eða hvort það var viljandi sem ekkert var sett inn í heilbrigðiskerfið í þeirri fjárfestingaráætlun. Hæstv. ráðherra vísar því nú til þingsins á þeirri forsendu. Það mætti til dæmis hætta við stofnun á grænum fjárfestingarsjóði samkvæmt áætluninni á næsta ári til að leysa bráðavandann, það eru 1.000 millj. kr. Svo mætti hætta við náttúruminjasafnssýningu og grænkun fyrirtækja samtals upp á 1 milljarð til að bæta um betur. Ég spyr um forgangsröðunina. Ég spyr ráðherra hvort hann sé sáttur við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar þessi brýnu málefni liggja undir.

Fyrrverandi yfirlæknir Landspítalans telur að tækjamál séu orðin helsti veikleiki spítalans. Forstjóri hans orðar það svo að Landspítalinn sé kominn í gjaldþrot hvað tækjakaup varðar. Ólafur Baldursson lækningaforstjóri sagði í viðtali um daginn að skurðlæknir nokkur, sem stóð til að kæmi til Íslands að vinna, hikaði við að koma vegna þess að nýjustu tæki væru ekki til staðar.

Starfsfólkið spyr sig áleitinna og krefjandi spurninga. Í skrifum um þau mál hefur komið fram að þar læknar fólk og líknar, þar er mjög hæft dýrmætt starfsfólk. Kraftaverk lítur dagsins ljós á hverjum degi. En stundum verða starfsmennirnir að játa sig sigraða og sætta sig við orðinn hlut. Þannig er lífið á sjúkrahúsi. Eftir standa spurningarnar: Hvernig á að reka sjúkrahús sem veitir svona mikilvæga og dýra þjónustu fyrir æ minni fjármuni? Hvernig á að tryggja öryggi sjúklinga á yfirfullum deildum? Hvernig á starfsfólkið að stuðla að framþróun (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustunnar?

Það verður að leita allra leiða í þessu. Það verður að vera sameiginlegt átak okkar allra að vinda ofan af þessu og augljóst er að breyta þarf þeirri fjárfestingaráætlun og þeim áherslum sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur sett fram og gera eitthvað skynsamlegra, til dæmis að nota fjármunina í það sem við ræðum hér um.



[16:04]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir umræðuna. Ég þakka áskoranir og hvatningu til að gera betur.

Varðandi fjárfestingaráætlunina sem hv. þingmaður og málshefjandi bendir á þá er hún ekki í fjárlagafrumvarpinu (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður gerði ráð fyrir. Aftur á móti hefur verið lögð fram áætlun miðað við ákveðna tekjumöguleika. Sumt af því er ekki komið í framkvæmd, eins og fjárfestingarfé af tekjum af leigumarkaði í sambandi við kvótann, þannig að þar er margt óleyst.

Ég fagna því mjög að Sjálfstæðisflokkurinn skuli tala fyrir auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu eftir að hafa boðað frekari niðurskurð í ræðum sínum undanfarið og sagt að taka þurfi miklu harðar á ríkisfjármálunum og skera miklu meira niður.

Góður rekstur sem náðst hefur á spítalanum skapar okkur auðvitað svigrúm til lengri tíma og það þurfum við að nýta okkur. Ég tek heils hugar undir að þar á frábært starfsfólk stærstan hlut og árangurinn hefur verið verulegur.

Komið hafa fram nokkrar hugmyndir. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði til dæmis um valfrjálst tilvísunarkerfi. Þar er verið að vinna að því sem við köllum þjónustustýringu. Sá hópur átti að vera búinn að skila niðurstöðu en skilar henni vonandi á næstu tveimur, þremur vikum. Þá tökum við það mál til umræðu.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að nýi Landspítalinn er mjög stórt og mikilvægt skref í að bæta allan aðbúnað og alla umgjörð og að mæta þeim vandamálum sem við eigum við að glíma á spítalanum þó að það muni ekki leysa vandann akkúrat á þessu ári.

Ekki liggur fyrir fjárfestingaráætlun til langs tíma um tækjakaup. Ég kallaði eftir því að það yrði kannað og það skiptir miklu máli að við förum vandlega yfir það mál. Það var ekki til að fresta málinu, það var til þess að geta forgangsraðað þannig að það gagnaðist strax sem þar kemur fram.

Ástæðurnar fyrir því að það er ekki inni í fjárlagafrumvarpinu eru svo sem margar og ólíkar, en við lögðum megináherslu (Forseti hringir.) á að stoppa niðurskurðinn á rekstrinum og reyna að gæta þess að þar yrði alls ekki gengið lengra. Það hefur tekist og því ber að fagna.

Kærar þakkir fyrir umræðuna. Það veit á (Forseti hringir.) gott að samstaða er um að vinna hér betur að málum.