141. löggjafarþing — 8. fundur
 24. september 2012.
málstefna Stjórnarráðsins.
fsp. MÁ, 75. mál. — Þskj. 75.

[16:19]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í lögum nr. 115/2011, frá 23. september 2011 — þessi lög eru því rétt rúmlega ársgömul — er grein, reyndar kafli sem fjallar um málstefnu og í þeim kafla er ein grein, 26. gr. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra mótar Stjórnarráðinu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi Stjórnarráðsins. Enn fremur skal koma fram hver gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt manna af erlendum uppruna til samskipta við Stjórnarráðið á annarri tungu en íslensku.“

Þetta var fyrri málsgreinin en síðari málsgreinin hljóðar svo, og er það í samræmi við önnur lög sem sett voru nokkru áður, með leyfi forseta:

„Mál það sem er notað í starfsemi Stjórnarráðsins eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt.“

Til þess er þingið að setja lög og fylgjast með því að eftir þeim sé farið, til þess eru ráðherrarnir að framkvæma það sem þeim er falið í lögum og nú er spurt: Hvernig hefur gengið á því ári sem liðið er að móta Stjórnarráðinu málstefnu í samræmi við þessa grein hinna tilteknu laga?



[16:21]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi og þann áhuga sem hv. þingmaður hefur sýnt mótun málstefnu í Stjórnarráðinu.

Í kjölfar gildistöku nýrra laga um Stjórnarráð Íslands fól forsætisráðuneytið mennta- og menningarmálaráðuneytinu að vinna að málstefnu fyrir Stjórnarráðið í samráði við Íslenska málnefnd og forsætisráðuneytið en mennta- og menningarmálaráðuneytið fer samkvæmt forsetaúrskurði með málefni íslenskra fræða, þar með talið íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Íslenskri málnefnd og málnefnd um íslenskt táknmál að vinna sameiginleg drög að málstefnu fyrir Stjórnarráðið og voru drögin afhent forsætisráðuneytinu í lok ágústmánaðar og eru nú til umfjöllunar í forsætisráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í drögunum kemur mjög margt gott fram. Þar er að finna margvíslegar tillögur um það hvernig kappkosta megi að tryggja rétt fólks til að geta kynnt sér á íslensku það efni sem frá íslenskum stjórnvöldum kemur og öll helstu gögn er varða meiri háttar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda. Sérstaklega þurfi að huga að því hvernig tryggja megi þennan rétt fyrir þá sem nota íslenskt táknmál. Fjallað er um það að íslenska skuli vera mál Stjórnarráðs Íslands og öll vinnugögn skuli vera á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála og jafnframt er í drögunum fjallað um það hvernig hátta megi málfarsráðgjöf innan Stjórnarráðsins. Gert er ráð fyrir því að vefur Stjórnarráðs Íslands skuli vera aðgengilegur fötluðu fólki og standast alþjóðlegar viðmiðunarreglur.

Fjallað er um margvísleg atriði önnur í fyrirliggjandi drögum og nefna má eftirfarandi:

Að lög, reglugerðir, dómsmál, auglýsingar og önnur stjórnvaldsfyrirmæli skuli birt á íslensku,

að útgefið efni á vegum Stjórnarráðs Íslands, svo sem skýrslur, greinar og fréttir skuli vera á íslensku,

að málnotkun í Stjórnarráði Íslands skuli vera til fyrirmyndar, vandað, einfalt og skýrt,

að starfsmenn Stjórnarráðsins skuli hafa greiðan aðgang að öllum helstu handbókum um íslenskt mál og gefinn kostur á hagnýtum námskeiðum um málnotkun og stafsetningu,

að tryggja skuli réttindi manna af erlendum uppruna í samskiptum við Stjórnarráð Íslands með því að bjóða þeim eftir föngum túlkaþjónustu.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði sem felast í drögum að nýrri málstefnu fyrir Stjórnarráð Íslands samkvæmt ákvæði þess efnis í nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands. Eins og ég sagði hér í upphafi eru drögin nú til skoðunar hjá ráðuneytunum og verið er að meta tillögurnar, meðal annars með tilliti til kostnaðar. Stefnt er að því að ljúka við gerð málstefnunnar nú á næstunni og ég sé fyrir mér að hrinda megi mörgum af þeim atriðum sem fram koma í drögunum fljótt í framkvæmd.



[16:24]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég fagna einlæglega þessu svari, þótt það sé sjálfsagt að farið hafi verið að lögum. Verið er að móta Stjórnarráðinu málstefnu í samræmi við þessa samþykkt Alþingis sem fólst í 26. gr., sem varð reyndar til hér á þingi að því leyti að hún var ekki í hinu upphaflega frumvarpi að lögunum. Mér sýnist að verið sé að gera það sem þurfti að gera og tekið sé mark á þeim atriðum sem nefnd eru einmitt í lagagreininni.

Ég held að þessu þurfi ekki að fylgja mikill kostnaður þótt eitthvert stofnfé þurfi ef til vill að leggja fram og ég tel að sá kostnaður muni fljótlega skila sér aftur í skilvirkari afgreiðslu og betri skilningi þeirra sem vinna í Stjórnarráðinu og þeirra sem því er ætlað að þjóna. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að standa fullkomlega á eigin fótum að þessu leytinu, að hafa það markmið og fullnægja því markmiði að íslensk tunga sé raunverulega notuð alls staðar þar sem þarf í Stjórnarráðinu, en tekið sé tillit til þeirra, bæði Íslendinga og annarra, sem ekki hafa fullt vald á tungunni og þurfa að eiga við Stjórnarráðið, að þeim sé gefinn kostur á skilningi eins og hægt er.

Ég vil því þakka þetta og hvetja til þess að þetta komist sem fyrst í gagnið þannig að Stjórnarráðið geti orðið öðrum fyrirmynd, þar á meðal sveitarfélögunum, í þessu efni.