141. löggjafarþing — 8. fundur
 24. september 2012.
samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.
fsp. KLM, 104. mál. — Þskj. 104.

[16:39]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í kynningu forseta hef ég lagt fram fyrirspurn á þskj. 104 sem er einfaldlega þannig:

Hver er staða undirbúnings að byggingu og rekstri samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri í Reykjavík?

Virðulegi forseti. Saga samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni er mjög löng. Ég hygg að hún byrji alla vega 2005 með samkomulagi þáverandi borgarstjóra og þáverandi samgönguráðherra. Ef ég man rétt er saga þessarar samgöngumiðstöðvar einir sjö borgarstjórar og að minnsta kosti þrír ráðherrar. Í tíð minni sem samgönguráðherra gerði ég samkomulag 2008 við þáverandi borgarstjóra, Ólaf F. Magnússon. Þá var talað um að framkvæmdir hæfust það haustið. Það gekk ekki eftir. Sá meiri hluti sprakk. Þann 8. apríl 2009 var gert samkomulag við þáverandi borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og átti það að vera mikilvægt innlegg opinberra aðila, m.a. til að skapa atvinnu, hluti af stöðugleikasáttmála. Þar var áfram talað um austurvalkostinn, þ.e. norðan við Loftleiðahótelið. Fyrsti áfangi átti að hefjast 2009 en við vitum hvernig farið hefur.

Í nóvember 2010 og árið þar á eftir, rétt eftir ráðherraskipti, kom fram í fréttum að hætt væri við byggingu samgöngumiðstöðvar sem undirbúin hafði verið í ein sex eða sjö ár. Þar er talað um drög að samningi milli ráðuneytis og borgarinnar, þ.e. á milli núverandi innanríkisráðherra og þeirra sem nú stjórna borginni.

Ég spyr einfaldlega: Hvar eru þau drög? Hvað stóð í þeim drögum? Hver eru áformin?

Virðulegi forseti. Eins og ég hef rakið hér er þetta ein sorgarsaga. Hæstv. ráðherra, sem er einlægur stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar og vill að miðstöð innanlandsflugs verði þar áfram, eins og ég vil líka og fjölmargir aðrir, hefur orðað það þannig að núverandi flugstöð, sem er ekkert annað en skúrar, hafi verið að drabbast niður undanfarin ár eins og hæstv. ráðherra orðaði það svo vel. Ég er alveg sammála honum í því.

Hæstv. ráðherra sagði um leið og hætt var við þessa samgöngumiðstöð norðan við Loftleiðahótelið að fara ætti af fullum krafti í að byggja ódýrari samgöngumiðstöð sem ríki og borg hafi verið sammála um á svokölluðu vestursvæði, á núverandi svæði Flugfélags Íslands. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, ég get stutt þá hugmynd mjög vel.

Ég spyr því þeirra spurninga sem ég hef sett fram og lesið upp um það hver sé staða undirbúnings að byggingu og rekstri samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri í Reykjavík eftir það samkomulag sem núverandi hæstv. ráðherra og borgarstjóri og núverandi borgaryfirvöld gerðu. Hvenær má reikna með að byrjað verði á framkvæmdum?



[16:43]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi setti málin í sögulegt samhengi. Ég ætla að gera það líka í upphafi míns máls og vísa til athugasemda við tillögu mína til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 þar sem vikið er að innanlandsfluginu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurflugvöllur er sem kunnugt er stærsti flugvöllurinn í innanlandskerfinu og er skilgreindur sem miðstöð innanlandsflugs á landinu. Ekki liggur fyrir sameiginleg niðurstaða skipulags- og samgönguyfirvalda um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í þessu óvissuástandi eru miklir erfiðleikar í allri þróun á mannvirkjum sem nauðsynleg eru vegna flugstarfseminnar á Reykjavíkurflugvelli. Fyrir liggur að ekki verður ráðist í gerð samgöngumiðstöðvar við Öskjuhlíð en stefnt er að því að bæta aðstöðu til að þjóna innanlandsfluginu.“

Í samræmi við það sem fram kemur í samgönguáætlun hefur verið hætt við að reisa samgöngumiðstöð. Þess í stað á að bæta aðstöðu innanlandsflugs með því að reisa flugstöð sem síðan yrði tengd við aðra samgöngumáta. Umræður um málið eru tvíþættar, annars vegar milli innanríkisráðuneytis og Reykjavíkurborgar um ýmis atriði í starfsemi flugvallarins, meðal annars almenningssamgöngur, og hins vegar milli Reykjavíkurborgar og fjármálaráðuneytis um lóðamál. Þær viðræður standa yfir, en ekki er vitað hvenær þeim lýkur. Reykjavíkurborg gerir kröfu um að báðum þessum þáttum verði lokið á sama tíma.

Ég held að ég og hv. fyrirspyrjandi séum mjög á einu máli um þessi mál eins og reyndar kom fram í áherslum hans. Ég tel mjög mikilvægt að flugvöllurinn verði á því svæði þar sem hann er núna og tel það reyndar vera stórkostlegt öryggisatriði. Við skulum ekki gleyma því að þau hraun sem runnið hafa nærri helstu samgönguæðum sem liggja inn á höfuðborgarsvæðið eru frá því eftir landnám. Það á við um hraunin á Reykjanesskaganum sem runnu á 12. öld. Síðan höfum við Hellisheiðina eins og frægt varð — hverju reiddust goðin? Það voru hraun sem runnu þá árið 1000. Þannig að það er öryggisatriði fyrir landsmenn að hafa flugvöll á því svæði sem hann er núna. Þarna erum við sammála.

Við erum líka sammála um hitt, að flugið þarf að hafa sem besta aðstöðu til að þjóna þeim sem nýta sér flugvöllinn. Ég hef margoft lagt áherslu á það í viðræðum við Reykjavíkurborg að þessu verði hraðað sem fyrst. En ég vil jafnframt að það komi fram að ég hef einnig sagt að í samningum um landsvæðið, sem að hluta til heyrir undir ríkið, megi ekki halda svo á málum að öryggi flugvallarins verði skert og þjónustumöguleikar hans. Þessir samningar um lóðamálin eru á hendi fjármálaráðuneytisins við Reykjavíkurborg. Staðreyndin er sú að ríkið hefur ekki skipulagsvald. Ríkið hefur hins vegar eignarhald, eins og ég segi, á hluta landsins.

Síðan minni ég á það, sem margoft hefur verið sagt í þessum sal, af þeim sem eru fylgjandi því að flugvöllurinn verði á sínum stað, að það kemur landsmönnum öllum við hvar flugvöllurinn er staðsettur. Þetta er flugvöllurinn okkar allra. Þetta er höfuðborgin okkar allra. Allir landsmenn eiga að hafa aðkomu að ákvörðun í þessum efnum þótt því sé að sjálfsögðu haldið til haga að skipulagsvaldið er síðan hjá borginni.



[16:47]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er brýn umræða. Hana þarf að taka á breiddina. Þau mannvirki sem hýsa flugþjónustuna á Reykjavíkurflugvelli eru einfaldlega til skammar og hafa verið um árabil. Þetta er líklega ljótasta flugstöð í höfuðborg í allri Evrópu. Þetta þarf að laga, en með sátt milli Reykjavíkuryfirvalda og ríkisins. Ég hvet ráðherra til aðgerða.

Það er einfaldlega svo að fólk sem flýgur til dæmis frá Akureyri til Reykjavíkur og áfram til Vestmannaeyja þarf að taka sér leigubíl við flugstöðina í Reykjavík til að keyra um Hringbraut og yfir á svæði flugfélagsins Ernis, til að komast til Vestmannaeyja. Það er með ólíkindum að flugsamgöngur innan lands séu þannig að menn þurfi að taka leigubíl á kafla leiðarinnar. Það er til marks um í hvaða ógöngum þetta mál er.

En (Forseti hringir.) aðalatriðið er þetta: Burðugt innanlandsflug á Íslandi verður ekki rekið öðruvísi en með flugvelli í Reykjavík.



[16:49]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Samgöngumiðstöð í Vatnsmýri er óþörf vegna þess að flugvöllurinn mun fara úr Vatnsmýrinni eins og gildandi aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir. Ég held að þingmenn allra kjördæma ættu að sammælast um það og reyna að ná samkomulagi um flutning flugvallarins úr því umhverfi sem hann er í núna vegna þess að það eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. (Gripið fram í.) Staðsetning hans þar stendur algjörlega í vegi fyrir allri framþróun í skipulagningu byggðar á höfuðborgarsvæðinu um ókomna tíð ef hann verður ekki færður. (Gripið fram í: Hvert á hann að fara?) Hvort hann fer til Keflavíkur eða upp á Hólmsheiði er annað mál, en úr Vatnsmýrinni þarf hann að fara.

Skipulagsvaldið liggur hjá Reykjavíkurborg. Það þarf að virða með sama hætti og við sem ætlum að keyra hringveginn þurfum að virða það að Blönduósbær kemur í veg fyrir að við getum farið nýjan hringveg fram hjá Blönduósi. Lög um landsskipulag eru að þessu leyti um margt gölluð. Þau þarf að endurskoða með hliðsjón af fleiru en Vatnsmýrinni, (Forseti hringir.) en flugvöllurinn þarf að fara þaðan, það er alveg ljóst.



[16:50]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég harma það hversu það hefur dregist að koma á hreint staðsetningu á flugvellinum í Reykjavík til framtíðar. Það hefur verið svo að menn þykjast stöðugt vera að reyna ná einhverri sátt af annars hálfu um að hann fari og af hálfu hins að hann verði kyrr.

Höfuðborgin okkar, Reykjavík, er miðstöð stjórnsýslunnar. Hún er miðstöð opinberrar þjónustu á svo margvíslegan hátt. Hér eru háskólarnir. Hér eru höfuðsjúkrahúsin. Hér er Stjórnarráðið. Að mínu viti er það hrein höfuðborgarskylda og ætti ekki að þurfa að ræða að flugvellinum verði um ókomin ár tryggður staður í Reykjavík. Ef það þarf núna (Forseti hringir.) að setja lög á Alþingi um að svo skuli vera og höfuðborginni gert skylt að bregðast við skipulagslega til að svo verði, (Forseti hringir.) á að gera það.



[16:51]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa hressilegu umræðu sem hér fer fram um þarft málefni. Ég man eftir að ég lærði það í landafræðinni í grunnskóla að höfuðborgir vítt og breitt um heiminn væru miðstöðvar stjórnsýslu og samgangna. Þess vegna finnst mér vart þurfa að ræða það að við þurfum að byggja upp samgöngumiðstöð í kringum flugvöllinn okkar í Vatnsmýrinni og það þarf að ná sátt allra landsmanna og þingmanna allra kjördæma um að hann verði þar kyrr. Það er nefnilega málið.

Í sambandi við flugstöðina er hún að sjálfsögðu barn síns tíma og var algjört bráðabirgðahúsnæði þegar henni var komið upp. Það er náttúrlega fráleitt að við skulum enn þá vera með þetta bráðabirgðahúsnæði. Fjölgun farþega um þessa flugstöð hefur verið viðvarandi og aðstaðan algjörlega óviðunandi. Ég vona svo sannarlega að við náum sátt um að fara af stað í uppbyggingu þarna hið allra fyrsta. Það er verkefni sem ekki má bíða.



[16:53]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Þetta er málefni sem varðar okkur öll og alla þjóðina. Það er gríðarlega mikilvægt þegar við fjöllum um Reykjavíkurflugvöll að halda því til haga að það er grundvallaratriði að flugvöllurinn verði áfram þar sem hann er.

Það er með mikilli ánægju sem ég get sagt að Framsóknarflokkurinn er fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, hann styður það heils hugar og um það eru ekki skiptar skoðanir.

Þá sem gagnrýna þetta vil ég hvetja til þess að fara vítt og breitt um landið og kynna sér samgöngurnar, heyra hvað fólkið er að segja víða um land. Það leggur gríðarlega áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni vegna þess að hann tengir hinar dreifðu byggðir landsins við höfuðborgina.

Ég vil ítreka að Framsóknarflokkurinn styður það heils hugar að flugvöllurinn verði áfram (Forseti hringir.) í Vatnsmýrinni og mun stuðla að því eins og hægt er að svo verði áfram, hvort sem er (Forseti hringir.) í gegnum Alþingi eða á annan hátt.



[16:54]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka bæði þingmönnum og ráðherra sem tóku þátt í þessari umræðu, ráðherra fyrir skelegga ræðu um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem við erum algjörlega sammála um. Það er alltaf gott þegar við getum verið 100% sammála um hlutina.

Virðulegi forseti. Í framhaldi af samkomulagi hæstv. ráðherra og borgaryfirvalda 10. nóvember 2010 sagði hæstv. ráðherra eftirfarandi á Alþingi, með leyfi forseta:

„Það varð sameiginleg niðurstaða af þeim fundi að ráðist yrði hið allra fyrsta“ — ég endurtek, hið allra fyrsta — „í að bæta aðstöðuna fyrir innanlandsflugið.“

Í framhaldi af þessu er mér kunnugt um að Flugfélag Íslands sendi drög að nýju húsi, nýrri flugstöð, til borgarinnar í nóvember 2010. Það var beðið um frekari útfærslur. Þær voru sendar formlega inn í mars 2011. Í maí 2011 var þetta rætt hjá borgaryfirvöldum en síðan ekki söguna meir. Eitt og hálft ár. Það eru bráðum tvö ár, virðulegi forseti, síðan þetta samkomulag var gert milli hæstv. ráðherra og borgaryfirvalda, en ekkert hefur gerst.

Nú geri ég mér grein fyrir því sem hér hefur verið rætt um, að skipulagsmálin eru Reykjavíkurborgar. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til ráðherra: Hvað hefur innanríkisráðuneytið sem þarf að leiða þessa vinnu, í samvinnu við fjármálaráðuneytið auðvitað vegna eignarhalds á landinu, gert? Hvenær má vænta þess að hægt verði að byrja? Vegna þess að allar teikningar og útfærslur eru til.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Er Isavia sammála þessari útfærslu, að gera þetta á þennan hátt? Styðja þeir þetta?

Virðulegi forseti. Það er mjög brýnt að bæta þessa aðstöðu. Ef það er ekki akkúrat tíminn núna og hefur ekki verið síðustu fjögur ár frá hruni, til að standa að svona framkvæmdum, spyr ég: Hvenær er þá tíminn með tilliti til atvinnusköpunar og annars slíks? Svo er það þetta sjálfsagða atriði að byggja upp aðstöðu sem er okkur til sóma, vegna þess að hún er núna engan veginn til sóma. Ég veit að þingmenn sem (Forseti hringir.) hér eru og hafa tekið þátt í umræðum hafa verið þarna þegar til dæmis millilandaflug til Færeyja eða Grænlands er á sama tíma. Þetta er ófremdarástand (Forseti hringir.) sem má ekki standa lengur.



[16:56]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sem mestu máli skiptir sé að við vöndum til þeirra verka sem við ráðumst í. Það er staðreynd að margir voru því fylgjandi að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, annaðhvort á nýjan stað í borgarlandinu eða jafnvel leggja hann niður og færa allt flugið til Keflavíkurflugvallar. Það verður horfið frá þeirri hugsun sem reyndar var nú aldrei við lýði í samgönguráðuneytinu, vegna þess að ráðherrar þar hafa verið á einu máli um ágæti þess að hafa flugvöllinn í Reykjavík. Síðan hafa margir ráðherrar reynt að fá úrbætur um þjónustu í fluginu, það á við um hv. fyrirspyrjanda líka, en seint hefur þokast í því efni.

Ég var nokkuð vongóður um að við værum að stíga einhver skref haustið 2010, en síðan hefur staðið á samningum borgarinnar við fjármálaráðuneytið. Það er ástæðan.

Hvað Isavia og Flugfélag Íslands varðar komu hugmyndir frá Flugfélagi Íslands sem gjarnan vildi sjálft reisa flugskýli. Það tel ég vera fráleitt. Það er fráleitt að einn rekstraraðili öðrum fremur eigi flugstöðina. Það er að sjálfsögðu Isavia sem á að hafa hana og það verk allt saman með höndum, ekki Flugfélag Íslands og ekki Ernir eða neitt annað flugfélag. Það er Isavia sem kemur til með að bera ábyrgðina af verkinu. Öðrum er frjálst að koma með hugmyndir um hvernig eigi að standa að verki, en það verk verður hjá Isavia, ekki einstökum rekstraraðilum.

Að lokum þetta: Ég vona að úr þessu leysist sem fyrst. En ég vil ekki óðagot sem yrði þess valdandi að við skerðum á einhvern hátt stöðu flugsins, öryggi flugsins, miðað við það sem nú er. Ég vil ekki samninga hvað sem það kostar. (Forseti hringir.) Ég vil samninga sem eru hagfelldir fyrir flugið og öryggi flugsins.