141. löggjafarþing — 8. fundur
 24. september 2012.
fæðuöryggi.
fsp. ÁsmD, 139. mál. — Þskj. 139.

[17:13]
Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út að gert er ráð fyrir að matvælaþörf heimsins muni aukast um 70% til ársins 2050. Aðalástæða þess er aukinn fólksfjöldi í heiminum og aukin neysla matvæla. Þetta mun gerast samhliða því að hefðbundin fæðuframleiðslusvæði verða fyrir slæmum áhrifum loftslagsbreytinga vegna hnattrænnar hlýnunar. Þá munu að öllum líkindum hin köldu strjálbýlu lönd í norðri og verða góð landbúnaðarlönd, þar á meðal Ísland. Fólksfjölgun og vaxandi matvælaverð og óstöðugleiki á matvæla- og hráefnismörkuðum mun leiða af sér minnkandi fæðuöryggi. Það er því ljóst að fæðuöryggi er á meðal mikilvægustu málefna sem ríkisstjórnir þurfa að glíma við á komandi árum og áratugum. Þessi mál hafa komið til skoðunar víða í nágrannalöndum okkar, en þrátt fyrir efnahagshrun og náttúruhamfarir er engin opinber stefna til í þessum málaflokki hér á landi og hefur ekki verið mótuð af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Það eru margir þættir sem geta stefnt fæðuöryggi Íslendinga í hættu. Þar má til að mynda nefna náttúruhamfarir sem geta skaðað dreifikerfi þau sem byggt er á, ekki síst dreifikerfi sem að stórum hluta tengja höfuðborgarsvæði við landsbyggðina. Búfjárstofnar hér á landi eru afar viðkvæmir fyrir mögulegum utanaðkomandi sýkingum. Skortur á olíu og orkugjöfum, rafmagnsbilanir og fleira geta skert fæðuöryggi. Einnig er hætta fólgin í því hversu íslensk framleiðsla er háð innflutningi. Ef lokast fyrir innflutning takmarkar það matvælaframleiðslu á Íslandi gríðarlega. Auk þess eru litlar sem engar matarbirgðir að staðaldri til á Íslandi og því nær ómögulegt að bregðast við skyndilegu neyðarástandi sem kann að skapast.

Í ljósi þessa langar mig að spyrja hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra tveggja spurninga sem þessu tengjast:

1. Telur ráðherra að Ísland búi við nægilegt fæðuöryggi, og þá einnig í samanburði við aðrar þjóðir?

2. Er í vinnslu langtímaáætlun með það að markmiði að auka fæðuöryggi Íslands?



[17:16]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa við þessu mikilvæga máli og fagna því að fá um þetta fyrirspurn. Þetta er mikilvægt umfjöllunarefni. Ég gerði það til dæmis að umtalsefni við setningu búnaðarþings síðastliðinn vetur og ef ég man rétt hefur þetta stef gjarnan verið kveðið þar og víðar, ekki síst frá hruni ef svo má að orði komast, því að þá vöknuðu auðvitað umræður um það hvar við værum á vegi stödd ef óvæntir og miklir atburðir gerðust hvað varðaði hluti eins og fæðuöryggi.

Ef við veltum aðeins fyrir okkur skilgreiningum í þessum efnum má segja að fæðuöryggi snúist um að hafa á hverjum tíma tryggan og aðgengilegan nægan mat, þ.e. orku, prótein og bætiefni og annað það sem við þurfum til að búa við fjölbreytt fæðuframboð og af nægum gæðum.

Hins vegar má segja að matvælaöryggið sem slíkt sé nær því að snúa að heilnæmi matvörunnar og að hún sé á hverjum tíma góð til neyslu.

Ísland er í athyglisverðri stöðu að þessu leyti því við erum mikið fæðuútflutningsland. Einstaka mikilvægasta útflutningsafurð okkar er auðvitað fæða, fiskur. Landbúnaðurinn er líka í vaxandi mæli útflutningsgrein þótt vægi hans sé miklu meira hvað varðar framleiðslu fyrir innlendan markað. En um leið og Ísland er fæðuútflutningsland er það líka mikið innflutningsland. Gamla viðmiðunin helst nokkurn veginn í gildi, við flytjum inn um 50% af því sem þarf til að svala fæðuþörf þjóðarinnar. Það helgast af því að við flytjum inn bæði korn til manneldis og líka umtalsvert fóður til matvælaframleiðslu, suðræna ávexti og annað í þeim dúr.

Hugtakið fæðuöryggi má nálgast úr tveimur áttum. Annars vegar er það langtímaöryggi sem snýst um að tryggja stöðugt framleiðsluumhverfi, tryggja að framleiðslan sé til staðar og traust í sessi og að til langs tíma búi landið sig þannig út að það sé sjálfu sér nægt í þeim mæli sem það er mögulegt og tryggi síðan aðföng sín sem þarf að flytja inn.

Hins vegar má segja að fæðuöryggi geti snúist um viðbrögð við óvæntum atburðum svo sem fuglaflensu, skyndilegu rofi í samgöngum, náttúruhamförum og öðru í þeim dúr. Það liggur þá nær samræmdum viðbrögðum við einhvers konar almannavarnaástandi eða vá af því tagi.

Það er augljóst mál að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Það mun taka það hlutverk alvarlega. Ég hyggst beita mér fyrir því að á þessum málum verði tekið og kannski markvissar en gert hefur verið að undanförnu, þar á meðal að hefja undirbúning að langtímaáætlun eins og hv. fyrirspyrjandi spyr um. Ég held að það sé skynsamlegt að við leggjum niður fyrir okkur áherslur sem snúa að langtímastefnumótun á þessu sviði, fæðuöryggi, út frá langtímaöryggi.

Í grunninn þurfum við auðvitað að standa vörð um matvælaframleiðslu okkar. Það gerum við meðal annars með því að varðveita uppspretturnar, með því að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna og stöðugt starfsumhverfi í sjávarútvegi, tryggja varðveislu beitarlands, ræktarlands, framleiðslutækja og tóla og afkomu í landbúnaði og matvælaiðnaði og öllu því tengdu.

Við rekum þá stefnu að landbúnaðurinn fullnægi þörfum okkar fyrir þær afurðir sem náttúra landsins yfirleitt býður upp á að raunhæft sé að framleiða. Þessarar stefnu sér auðvitað stað í opinberum stuðningi, bæði í formi ríkisframlaga og innflutningsverndar. Liður í því sama er öflugt rannsókna- og þróunarstarf sem er líka hluti af því að tryggja fæðuöryggi.

Í því liggja líka sóknarfæri okkar, t.d. möguleikar til að stórefla kornrækt. Ég tel að það sé einboðið að fara þá leið sem skýrslur hafa mælt með, að styðja betur við möguleika okkar til þess að verða meira sjálfum okkur næg á sviði kornræktar, bæði til manneldis og til fóðurgerðar. Ég nefni sem dæmi búgrein eins og svínaræktina sem á þar heilmikla möguleika. Ég vona að þessa muni sjá stað í þeim viðræðum sem nú standa yfir milli Bændasamtakanna og ríkisins um endurskoðun búnaðarlagasamnings.

Möguleikar okkar eru þarna umtalsverðir. Þetta kemur inn á það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um það sem fram undan er hjá mannkyninu, að þurfa hátt í að tvöfalda fæðuframleiðslu næstu hálfa öldina eða svo. Við eigum möguleika á sviði kornræktar, grænmetisræktar, bæði úti- og inniræktunar, jafnvel ávaxtaræktar, (Forseti hringir.) þar sem epla- og plómurækt er ekki eins fjarlægur kostur og áður var.

Þannig að svörin við spurningunum eru:

Já, ég tel að við búum við viðunandi fæðuöryggi, en við getum gert betur og eigum að geta betur. (Forseti hringir.)

Já, við eigum að leggja niður fyrir okkur langtímaáætlun í þessum efnum.



[17:21]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Íslendingar eru að hlutfalli einhverjir mestu fæðuframleiðendur í heimi og er það vel. Við verðum að standast þar samanburð í gæðum og verði. Auðvitað þurfum við á einhverjum innflutningi að halda inn í framtíðina, en okkur ber að standa vörð um fæðuöryggi. Ég fagna þessari umræðu sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur hér á Alþingi. Þetta er efni sem við þurfum að skoða mjög rækilega og spannar víðfeðmt svið. Við höfum staðið okkur vel hvað fiskinn varðar og hinn hefðbundna landbúnað.

Ég er mjög hugsi yfir því hvernig við getum sótt frekar fram þegar kemur að grænmeti og eftir atvikum ávöxtum, og vil beina spurningu til hæstv. ráðherra um það. Við erum ekki sjálfbær í þeim efnum. Við framleiðum um það bil 40% af því grænmeti sem við neytum árlega, en 60% er flutt inn. (Forseti hringir.)

Hér má spyrja: Er hæstv. ráðherra með einhverja ákveðna stefnu um framleiðslu á grænmeti? Þar eru tækifærin (Forseti hringir.) mikil og þar þurfum við að huga að raforkusölu svo dæmi sé nefnt.



[17:23]
Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni sem kom inn í þessa umræðu.

Ég vil fagna því að hæstv. ráðherra hyggst setja í gang vinnu við að móta langtímastefnu um fæðuöryggi því samanburður á Íslandi og nágrannalöndum okkar hefur sýnt að við stöndum að einhverju leyti á dálítið veikum fótum hvað það snertir. Það kann að stýrast að hluta til af legu landsins og hversu háð við erum innflutningi, en engu að síður er full ástæða til að taka þetta mál til mjög ítarlegrar skoðunar. Þetta er mál sem ætti að vera hægt að vinna á þverpólitískum grunni og ættu ekki að vera neinar deilur um það meðal Íslendinga að það er mikilvægt að efla fæðuöryggi þjóðarinnar.

Við sáum til að mynda þegar efnahagshrunið varð að menn höfðu áhyggjur af því að það væru einungis til kornbirgðir í landinu til nokkurra vikna. Svona spurninga mætti spyrja um fleiri þætti. Það geta komið upp áföll í heiminum. Við þekkjum það úr heimssögunni að það geta komið upp áföll, hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar vegna sem kalla á mikilvægi þess að skoða þennan málaflokk.

Ég vil hvetja ráðherra til að flýta þessari vinnu. Ég veit að sett var inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á sínum tíma að mótuð yrði stefna um fæðuöryggi og matvælaöryggi. Ég vil hvetja ráðherrann til að flýta þeirri vinnu og kalla sem flesta að henni, bæði úr greinum landbúnaðarins, sjávarútvegsins, úr hinum pólitísku flokkum og fleiri aðila. Um þetta á að geta ríkt full sátt meðal okkar Íslendinga, að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og gera það sem í okkar valdi stendur til að það megi vera sem best.



[17:25]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg ljóst, ég kom því ekki að í fyrra svari mínu, að fæðuöryggisþátturinn tengist að sjálfsögðu þeim viðbúnaði sem við höfum á ýmsum öðrum sviðum, t.d. varðandi orkuforða, olíu, lyf, fóður og annað sem kann að vera óaðskiljanlegur hluti af því að viðbúnaður okkar að þessu leyti sé fullnægjandi. Svo getum við farið yfir í sjúkdómavarnir og margt fleira. Allt spilar þetta saman. Upp að vissu marki þarf að taka fæðuöryggis- og matvælaöryggismálin einfaldlega með sem lið í almennum viðbúnaði landsins til að mæta óvæntum aðstæðum.

Það er ýmislegt hægt að gera til þess. Ég tek aftur sem dæmi aukna kornrækt og framleiðslu. Ef við náum því upp á tíu, fimmtán árum, sem margir telja raunhæft, að verða í þó nokkrum mæli sjálfum okkur næg í þeim efnum, vex fæðuöryggi þjóðarinnar augljóslega með því, að því tilskildu að við höfum það sem til þarf. Svo verða einhver áföll og uppskera verður ekki alltaf góð eins og gengur, en að breyttu breytanda yrði hér væntanlega í birgðum miklu meira korn, við værum fær um að framleiða svín og annað án þess að vera háð innflutningi nánast dag frá degi eða viku frá viku eða mánuð frá mánuði.

Já, ég tel að það liggi líka miklir möguleikar í grænu greinunum, og svara þar með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni. Við höfum séð ágæta þróun í stóraukinni útiræktun á ýmsu grænmeti, að vísu aðallega yfir afmarkaðan tíma ársins. Gróðurhúsaframleiðslan hefur færst meira yfir í heilsársframleiðslu með lýsingu og súrefnisgjöf o.s.frv. Við erum meira að segja að sjá ávaxtarækt koma upp. Sá sem hér stendur hefur séð pínulítil epli og pínulitlar plómur á eigin ávaxtatrjám. Þetta er eitthvað sem hefði þótt fjarlægur möguleiki fyrir ekki löngu síðan. En kannski eigum við eftir að upplifa að það verði ekki eins fjarlægt og áður var talið að það svið breikki verulega (Forseti hringir.) þar sem Ísland geti farið í einhverjum mæli að verða sjálfu sér nægt í þessum efnum.