141. löggjafarþing — 10. fundur
 25. september 2012.
fjáraukalög 2012, 1. umræða.
stjfrv., 153. mál. — Þskj. 153.

[14:41]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga en með því er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð áætlun, bæði tekjuáætlun og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða á yfirstandandi ári. Fram hefur farið endurmat á helstu forsendum fjárlaganna og framvindu ríkisfjármála það sem af er árinu. Tillögurnar í frumvarpinu taka einnig eftir atvikum mið af nýrri lagasetningu á árinu, óvissum og ófyrirséðum útgjöldum sem og sjálfstæðum ákvörðunum um ný útgjöld.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2012 var áætlað að um 20,7 milljarða kr. halli yrði á rekstri ríkissjóðs á árinu en að frumjöfnuður yrði jákvæður um 35,9 milljarða kr. Sú áætlun hefur nú verið endurskoðuð með hliðsjón af þjóðhagsspá sem Hagstofan birti í byrjun júlí og í ljósi nýrra upplýsinga um þróun tekjustofna og útgjalda málaflokka frá þeim tíma. Það endurmat felur í sér breytingar á nokkrum helstu stærðum ríkisfjármálanna frá fyrri áætlun. Breytingarnar vegast á tekju- og gjaldamegin og er heildarjöfnuður eftir sem áður nálægt því sem áætlað var í fjárlögum 2012 en þó heldur lakari og nemur 22,7 milljörðum kr. samkvæmt frumvarpinu. Einnig er gert ráð fyrir að frumjöfnuður verði nærri fyrri áætlun og nemi 34,9 milljörðum kr.

Ég vek athygli á því að í þessu frumvarpi er fjallað um breytingar á fjárheimildum fremur en áætlaða útkomu ársins eins og gert er í kafla um útgjaldahorfur ársins 2012 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013. Útgjaldatölur ársins 2012 í frumvörpunum eru því ekki að öllu leyti þær sömu. Á rekstrargrunni er áætlað að heildargjöld ársins verði 3,2 milljarðar kr. umfram þær fjárheimildir sem sótt er um í frumvarpinu. Er af þessum sökum talið að heildarjöfnuður verði neikvæður um 25,8 milljarða kr. miðað við áætlaða útkomu ársins í stað um 22,7 milljarða kr. miðað við fjárheimildir sem sótt er um í þessu frumvarpinu. Í umfjöllun um frumvarpið er almennt gengið út frá niðurstöðum miðað við fjárheimildir sem í því felast fremur en endurmetinni áætlun um útkomu ársins nema annað sé tekið fram.

Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er nú útlit fyrir að frumjöfnuður á rekstrargrunni verði jákvæður um 34,9 milljarða kr. eins og áður var nefnt, sem er nálægt því sem gert var ráð fyrir. Verða þá komin fram mikil umskipti í stöðu ríkisfjármálanna frá árinu 2009 þegar halli á frumjöfnuði ríkisstarfseminnar var um 100 milljarðar kr., sem svarar til 6,6% af landsframleiðslu. Á greiðslugrunni er afkoman yfirleitt nokkru lakari, einkum sökum mismunar á álögðum og innheimtum ríkistekjum, og er reiknað með að frumjöfnuður verði neikvæður um 17,2 milljarða kr. á þann mælikvarða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir talsverðum breytingum á tekjuáætlun gildandi fjárlaga og byggist það að mestu leyti á því að endurskoðuð þjóðhagsspá og efnahagsþróunin það sem af er árinu er orðin heldur hagfelldari en áætlað var í fjárlögum 2012. Sú þróun birtist meðal annars í því að innheimtar tekjur á fyrri helmingi ársins eru meiri en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun ársins.

Þeim forsendum sem byggt er á við endurmat tekjuáætlunar fjárlaga má skipta í þrjá þætti: Í fyrsta lagi er útkoma ársins 2011, í öðru lagi endurskoðuð þjóðhagsspá og í þriðja lagi upplýsingar um álagningu og innheimtu skatta og annarra tekna á fyrri helmingi ársins. Rétt er að vekja athygli á því að endurskoðuð tekjuáætlun fyrir árið 2012 og fyrir fjárlagafrumvarpið 2013 er nú unnin í júnímánuði, þ.e. fyrr en venjulega sökum þess að þingsetning er fyrr að hausti nú en venja er. Því er ekki byggt á jafnnýjum upplýsingum og venjan hefur verið undanfarin ár þegar áætlunin hefur verið unnin í ágúst.

Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2012 var spáð 2,4% hagvexti og verðbólgu upp á 4,2% að meðaltali milli áranna 2011 og 2012. Í júlíspá Hagstofunnar kemur fram aðeins bjartari mynd af hagþróun ársins en jafnframt meiri verðbólga því að þar er spáð 5,4% verðbólgu að jafnaði á árinu.

Laun í mörgum atvinnugreinum hafa hækkað ríflega og launaskrið hefur verið talsvert umfram það sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Sú þróun endurspeglast vel í tveimur af þremur stærstu tekjustofnum ríkissjóðs, tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi sem skilað hafa tekjum umfram áætlun allt frá upphafi ársins. Jákvætt endurmat á skatttekjum ársins liggur fyrst og fremst í þessum liðum. Þrátt fyrir meiri verðbólgu er kaupmáttur ráðstöfunartekna nú talinn verða talsvert meiri en í forsendum fjárlaga.

Af tekjuáætlun fjárlaga ársins 2012 voru 20,7 milljarðar kr. vegna áforma um nýja tekjuöflun. Þær breytingar gengu þó ekki að fullu eftir. Útfærsla fjársýsluskatts breyttist verulega í meðförum Alþingis en tekjuáhrif hans eru þó áætluð þau sömu. Tekjuáhrif nýrra laga um veiðigjald á árinu 2012 eru 4,2 milljörðum kr. meiri en í áætlun fjárlaga. Sérstaka umfjöllun um fjársýsluskatt og veiðigjald er að finna í kafla 3 í fyrri hluta fjárlagafrumvarps 2013.

Ljóst er orðið að meiri háttar eignasölu í tekjuöflunarskyni verður frestað en jafnframt að arður í ríkissjóð verður meiri en gengið var út frá.

Í frumvarpi til fjáraukalaga er sótt um heimild fyrir auknum útgjaldaskuldbindingum sem orsakast að stærstum hluta af hærri vaxtagjöldum og hærri bótagreiðslum en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Má rekja hærri vaxtagjöld til fyrirframgreiðslu í júní af lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum. Sú fyrirframgreiðsla var að mestu fjármögnuð með skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs á alþjóðlegum mörkuðum í maí síðastliðnum en vaxtakostnaður af því skuldabréfi er hærri en af neyðarlánunum sem greitt var upp í.

Á árinu urðu Seðlabanki og fjármálaráðuneyti ásátt um að setja á fót vinnuhóp sem skyldi fara yfir fjárhagsleg samskipti sín á milli og um verklag við stýringu á erlendum lánum ríkissjóðs. Hluti þessa verkefnis snýr að kostnaði við fjármögnun á gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Takmarkaðir möguleikar Íslands á erlendri fjármögnun eftir hrun lagði meiri kröfur á styrkingu gjaldeyrisforða þjóðarinnar en áður hafði verið. Fjármögnun hans færðist jafnframt að stærstum hluta yfir á ríkissjóð. Varðveisla gjaldeyrisforðans er hins vegar hjá Seðlabankanum sem jafnframt ber ábyrgð á fjármögnun hans. Viðræður fjármálaráðuneytis og Seðlabanka hvað þennan þátt varðar snúast því um með hvaða hætti kostnaði og tekjum af ávöxtun gjaldeyrisforðans er skipt milli aðila. Miðað hefur verið við að ákveðnar tillögur um þennan þátt viðræðnanna verði lagðar fram í fyrri hluta næsta mánaðar og má þá gera ráð fyrir að upphæð vaxtagjalda breytist hjá ríkissjóði, væntanlega til lækkunar.

Hærri bótagreiðslur falla til vegna vinnumarkaðsúrræða á vegum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ekki var gert ráð fyrir við setningu fjárlaga. Þá hækkar einnig áætlun um útgjöld vegna bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og vegur þar þyngst sérstök uppbót lífeyrisþega og heimilisuppbót. Jafnframt hækkaði áætlun um tekjutryggingu ellilífeyrisþega við endurmat miðað við útkomu fyrstu sjö mánuði ársins og skýrist það af því að tekjur lífeyrisþega sem koma til skerðingar á bótarétti reyndust hafa verið ofáætlaðar þegar gögn samkvæmt skattálagningu ársins lágu fyrir.

Í frumvarpinu er einnig gerð sú breyting að styrkir vegna útborganlegs skattfrádráttar nýsköpunar- og þróunarverkefna samkvæmt nýlegum lögum eru færðir á gjaldahlið ríkissjóðs en þeir hafa fram að þessu verið færðir á tekjuhlið. Ekki var gert ráð fyrir fjárveitingu vegna þeirra í fjárlögum 2012 og hækkar útgjaldahlið ríkissjóðs sem því nemur. Þá eru horfur á að hækkanir á lífeyri ríkisstarfsmanna sem hafið hafa töku lífeyris og ríkissjóður stendur skil á til Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna hafi verið vanáætlaðar.

Ýmis önnur ófyrirsjáanleg útgjöld hafa fallið til á árinu sem nánar verður gerð grein fyrir á eftir. Lækkun ýmissa annarra útgjaldaliða frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 2012 vegur á móti auknum útgjöldum. Vegur þar þyngst endurmat vaxtabóta en þær voru ofáætlaðar í fjárlögum miðað við fyrirliggjandi niðurstöður í skattálagningu ársins. Þá hefur fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs einnig verið ofmetin í fjárlögum, einkum vegna færri barnsfæðinga og minni orlofstöku.

Í frumvarpinu er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs á árinu 2012 verði hækkaðar um 12,5 milljarða kr. en það svarar til 2% hækkunar á heildarútgjöldum gildandi fjárlaga. Þar vegast á ýmis tilefni til hækkunar og lækkunar á útgjöldum, eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu.

Eins og ég vék að áður fara fjárheimildir sem sótt er um í þessu frumvarpi ekki að öllu leyti saman við áætlaða útgjaldaútkomu ársins því að gert er ráð fyrir að hún verði í reynd um 3,2 milljörðum kr. hærri.

Í frumvarpinu eru fjárheimildir á rekstrargrunni 1,3 milljörðum kr. hærri en greiðsluheimildir og skýrist það af mismun áfallinna og greiddra vaxta.

Miðað við talnagrunn frumvarpsins er reiknað með að handbært fé frá rekstri verði neikvætt um 39,5 milljarða kr. og að hreinn lánsfjárjöfnuður verði neikvæður um rúmlega 48 milljarða kr. Helstu breytingar frá fjárlögum eru þær að reiknað er með 10,6 milljarða kr. vexti í tekjum ríkissjóðs á móti 12,5 milljarða kr. aukningu gjalda. Verður þá heildarjöfnuður á rekstri ríkissjóðs tæplega 1,9 milljörðum kr. lakari en fjárlög gera ráð fyrir. Þar af er frumjöfnuður neikvæður um 1 milljarð kr. umfram áætlanir og vaxtajöfnuður 0,9 milljörðum kr. lakari. Þá er reiknað með að handbært fé frá rekstri verði 2,3 milljarðar kr. umfram áætlanir við afgreiðslu fjárlaga. Aftur á móti er gert ráð fyrir að fjármunahreyfingar skili 7,3 milljörðum kr. minna í ríkissjóð en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga og verður hreinn lánsfjárjöfnuður þá 5 milljörðum kr. lakari en áður var reiknað með. Gert er ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkissjóðs verði mætt með lántökum og með því að draga á innstæður í Seðlabanka Íslands.

Frú forseti. Ég mun nú gera grein fyrir breytingum á lánsfjármálum ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og sjóða sem fram koma í 3. gr. frumvarpsins.

Í fyrsta lagi er lagt til að lántökuheimild fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, hækki úr 115 milljörðum kr. í 217 milljarða kr. Reiknað er með að heildarlántökur ríkissjóðs á þessu ári verði 217 milljarðar kr., þar af 92 milljarðar í íslenskum krónum, en jafngildi 125 milljarða kr. í erlendri mynt. Skýrist það að mestu leyti af 1 milljarðs dala skuldabréfaútboði ríkissjóðs á erlendum mörkuðum sem nýtt var til fyrirframgreiðslu á lánum í tengslum við samstarfsáætlunina við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Í öðru lagi er lögð til lítils háttar breyting á endurlánaheimildum ríkissjóðs til samræmis við horfur fyrir árið í ár. Lögð er til 200 millj. kr. lækkun þessara heimilda.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á heimildum til að veita ríkisábyrgð á lántökum aðila sem heimild hafa til lántöku í sérlögum. Breytingarnar eru fjórar og samanlagt er lögð til tæplega 79 milljarða kr. lækkun heimilda frá fjárlögum. Vega þar þyngst breytt áform Landsvirkjunar um erlenda skuldabréfaútgáfu á árinu.

Sótt er um þrjár heimildir í frumvarpinu og er gerð grein fyrir þeim í 4. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er sótt um heimild til sölu á sprengiefnageymslum ríkisins á Hólmsheiði. Í öðru lagi er sótt um heimild til afhendingar á lóð eða lóðarréttindum ríkisins sem tilheyrðu gömlu síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn. Í þriðja lagi er sótt um heimild vegna óska Landsvirkjunar um að fá að sameinast Þeistareykjum ehf. sem nú eru að öllu leyti í eigu Landsvirkjunar.

Að síðustu vek ég athygli á því að frumvarpið er lagt fram miðað við óbreytta skipan og verkaskiptingu ráðuneyta þrátt fyrir að skipulagsbreytingar hafi orðið á Stjórnarráði Íslands þann 1. september sl. Gert er ráð fyrir að við 3. umr. frumvarpsins verði fluttar tillögur til samræmis við nýja verkaskiptingu og verða verkefni og fjárveitingar þeim tilheyrandi þá færðar á milli ráðuneyta.

Meginniðurstaðan er sú að eins og lög gera ráð fyrir er í frumvarpinu brugðist við ófyrirséðum atvikum og nýjum lögum en öðrum nýjum útgjaldabeiðnum vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lagt fram skýra stefnumörkun um bætt vinnubrögð við gerð fjárlaga og fjáraukalaga sem er hluti af umbótum í ríkisfjármálum. Í samræmi við takmarkað hlutverk fjáraukalaga samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins eru ekki veitt framlög til nýrra verkefna, aukins umfangs eða rekstrarhalla stofnana umfram settan ramma. Í frumvarpinu eru ekki heldur fjárveitingar til stofnana eða verkefna sem starfrækt eru með rekstrarhalla, eins og mörg dæmi eru um í fjáraukalögum áranna fyrir bankahrunið.

Langflestar stofnanir ríkisins hafa haldið rekstri sínum vel innan heimilda. Þó er það svo að nokkrar þeirra glíma við gamla drauga í þessum efnum og hefur uppsafnaður hallarekstur þeirra færst á milli ára. Um er að ræða 28 stofnanir, sumar þeirra hafa gert samning við viðkomandi fagráðuneyti sem fjármálaráðuneytið hefur staðfest. Samningarnir kveða á um að ríkissjóður muni fjármagna halla þeirra til að þær komist hjá greiðslu dráttarvaxta á meðan þær eru að vinna að því að færa rekstur þeirra að forsendum fjárlaga. Takist þeim að halda rekstri innan heimilda í ákveðinn tíma kveður samningurinn á um að viðkomandi fagráðuneyti beiti sér fyrir því að leita heimilda til greiðslu á skuld viðkomandi stofnunar. Sumar stofnanir hafa náð slíkum markmiðum án samnings. Skipulagt átak í endurskipulagningu þessara mála stendur nú yfir og eftir atvikum munu beiðnir um viðbótarheimildir fyrir niðurfellingu slíkra skulda koma fram fyrir afgreiðslu frumvarpsins. Slík aðgerð mun ekki hafa áhrif á jöfnuð ríkissjóðs þar sem að í öllum tilfellum er um A-hluta stofnanir að ræða.

Ég legg svo til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar sem fær málið til skoðunar ásamt fjárlagafrumvarpi því sem er nú þegar til meðhöndlunar þar.



[14:57]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir framsögu hennar hér áðan. Ég vil gera að umtalsefni þau nýju vinnubrögð sem hún fjallaði um varðandi meðferð á fjárheimildum og hallarekstri stofnana því að í frumvarpinu segir að þegar við lítum til endurskoðaðrar áætlunar um afkomu ársins 2012 sjáum við að hún er umtalsvert hærri en sú tillaga sem liggur fyrir í fjáraukalagatillögunni. Þar segir að þar sé gert ráð fyrir því að reiknað sé með umframútgjöldum hér og þar en segir jafnframt á einum stað, með leyfi forseta: „umframútgjöldum sem ekki er mætt með auknum fjárheimildum“.

Í mínum huga er þetta ávísun á það til stofnana að þær fái heimild til að fara fram úr fjárheimildum fjárlaga hverju sinni. Ég bið hæstv. ráðherra að skýra það betur en fram kom í máli hennar áðan, hvort verið sé að opna á þetta með þeim hætti sem getur í textanum.



[14:58]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil spurningu hv. þingmanns rétt spurði hann af hverju ekki væri sama niðurstaða í fjárlagafrumvarpi 2013 og svo fjáraukalagafrumvarpi 2012. Það er vegna þess að með fjáraukalögunum er verið að óska eftir útgjaldaheimildum en til dæmis útgjöld sem byggja á afgangsheimildum fyrri ára eru heimildir sem þegar eru fengnar og ekki er verið að biðja um þær. (KÞJ: Næsta atriði.)

Næsta atriði, segir hv. þingmaður. Ég hef greinilega ekki áttað mig alveg á spurningunni og bið hv. þingmann að skýra mál sitt betur í næsta andsvari.



[14:59]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Setningin sem ég geri athugasemd við hljóðar á þá leið að gert sé ráð fyrir umframútgjöldum hjá stofnunum sem ekki er mætt með auknum fjárheimildum. Samkvæmt fjárreiðulögum er það ekki heimilt. Ef maður tekur þetta bókstaflega er verið að boða lögbrot að þessu leyti, sem ég er ekki að væna hæstv. ráðherra um.

Mér finnst þetta bera vitni um að þarna sé verið að safna saman á einn stað heimildum í orðum sem munu réttlæta umframkeyrslu á ýmsum fjárlagaliðum sem við vitum að stefna fram úr heimildum þrátt fyrir fjáraukalögin.

En ég bið um útskýringu á þessu atriði, hvort ráðherra muni ekki grípa fram fyrir hendur þeirra sem ætla að fara fram úr þeim heimildum sem úthlutað verður á fjáraukalögum og þar með fjárlögum ársins.



[15:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er ekki verið að hvetja til lögbrota með þeim texta sem hv. þingmaður vitnar í heldur er þvert á móti með fjáraukalögum verið að fara nákvæmlega eftir því sem stendur í fjárreiðulögunum. Tilgangur fjáraukalaga er að bregðast við einhverju sem er ófyrirséð, hugsanlega kjarasamningum eða nýjum lögum. Við það er staðið. Ekki á með fjáraukalögum að bregðast við hallarekstri eða á nokkurn hátt að hvetja til framúrkeyrslu stofnana. Það er náttúrlega þvert á móti. Það má alls ekki skilja þennan texta á þann veg.



[15:01]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og yfirferðina á fjáraukalagafrumvarpinu. Ég hef eina spurningu til hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra kunnugt um að hugsanlega muni falla ríkisábyrgð á ríkissjóð, t.d. vegna Arion banka eða forvera hans?



[15:02]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að svara spurningu hv. þingmanns neitandi. Mér er ekki kunnugt um það. Að minnsta kosti hefur ekki verið farið yfir þau mál með mér.



[15:02]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og skil það þannig að hann hafi ekki heyrt neitt á þetta minnst. En mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það sem snýr að því þegar farið var í svokallað skuldabréfaútboð í bandaríkjadölum í maí, upp á 1 milljarð bandaríkjadala, og í framhaldi af því greiddar upp skuldir inn á lán frá Norðurlöndunum sem voru með gjalddaga 2016, 2017 og 2018. Nýja skuldabréfið ber mun hærri vexti en þau lán sem greitt var inn á sem eru þó þetta langt fram í tímann.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé sannfærð um að þetta hafi verið skynsamleg ákvörðun. Þetta er stór þáttur og eykur vaxtaútgjöld ríkisins um rúma 3 milljarða í fjáraukalagafrumvarpinu.

Mig langar síðan að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað sérstaklega í hans tíð í ráðuneytinu hversu skynsamlegt það sé að hafa svona stóran gjaldeyrisvarasjóð allan að láni.



[15:03]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort mér hafi fundist þessi aðgerð skynsamleg, að fara út á lánsfjármarkað og greiða niður neyðarlán frá nágrannaþjóðum og alþjóðastofnunum. Ég verð að svara því játandi. Það hefur verið afar skynsamlegt að gera það og þó ekki væri nema bara fyrir það að sýna fram á að Ísland hefur endurheimt lánstraust sitt á lánsfjármörkuðum sem skiptir mjög miklu máli fyrir stærri fyrirtæki og stofnanir og ég tala ekki um fyrir orkufyrirtækin okkar.

Já, vissulega leggst þannig aukinn vaxtakostnaður á A-hluta ríkissjóðs en ef við horfum á þjóðarbúið sem heild þá lækkuðu þjóðarskuldirnar með þessum aðgerðum vegna þess að við notuðum hluta af gjaldeyrisvaraforðanum sem hv. þingmaður bendir á að er stór. Það er kostnaðarsamt fyrir okkur að halda honum úti en við tókum hluta af honum í þessari aðgerð til að greiða niður lánin.

Í þeim viðræðum sem nú fara fram milli Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins erum við einmitt að ræða þessa vaxtabyrði og hvar vaxtakostnaðurinn á að liggja af gjaldeyrisvaraforðanum.



[15:05]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig eigi að koma til móts við fjárhagsvanda landbúnaðarháskólanna, annars vegar á Hólum og hins vegar á Hvanneyri. Þeir hafa búið við uppsafnaðan halla allt frá því að þeir voru gerðir að háskólum. Leysa átti úr því þegar þeir voru færðir á milli ráðuneyta en það hefur ekki verið gert.

Mér er kunnugt um að gefin hafa verið loforð um að þessi uppsafnaði halli yrði leystur á fjáraukalögunum á síðasta ári. Ég veit að einnig var búið að gefa fyrirheit um að hann yrði líka leystur á þessu ári. Nú sér þess hvergi stað heldur í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Þó að ráðherrann sé að tala um að taka eigi almennt á stofnunum hvað þetta varðar þá er um að ræða áralangan uppsafnaðan halla sem margoft er búið að lofa að verði greiddur upp þannig að stofnanirnar beri hann ekki. En þess sér ekki stað.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað veldur og hvernig á málum verði tekið af ráðherrans hálfu.



[15:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að sú sem hér stendur hefur ekki lofað einhverjum stofnunum, hvorki landbúnaðarháskólunum né öðrum, að klippa af þeim hala að óathuguðu máli. Eins og kom fram í ræðu minni eiga um 28 stofnanir við svipaðan vanda að stríða og landbúnaðarháskólarnir. Hallareksturinn er frá mismunandi tímum og mér finnst réttlátt og sanngjarnt að horfa á allar stofnanirnar sem eru með hallarekstur og fara yfir það skipulega hvernig hægt er að koma til móts við þær. En það er frumskilyrði að stofnanirnar séu í góðu lagi rekstrarlega séð og þær sýni fram á að þær geti haldið sig innan ramma fjárlaga og safni ekki viðbótarhalla ár frá ári.



[15:07]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra veit að þessar stofnanir hafa í öllum megindráttum haldið sig innan þeirra fjárlaga sem þeim voru sett. Þegar Alþingi samþykkti hins vegar að breyta þeim í háskóla var það hluti af þeirri samþykkt að það kostaði meira fé. Alþingi getur ekki verið að samþykkja lög sem hafa fyrirsjáanlega í för með sér kostnað án þess að standa við það. Þetta hefur verið viðurkennt þannig að það gengur einfaldlega ekki upp lagalega að ráðherra ætli að víkja sér undan ábyrgð í þessum efnum.

Uppsafnaðan vanda þessara stofnana ber að leysa og hefði átt að vera búið að leysa fyrir löngu. Legið hafa fyrir loforð frá ráðherrum sem setið hafa á undan núverandi fjármálaráðherra um að leysa þessi mál en ekki hefur verið staðið við þau. Það skýtur skökku við að þessar stofnanir halda einmitt utan um verkefni sem ríkisstjórnin leggur áherslu á, þ.e. græn verkefni, fæðuframleiðslu, ferðaþjónustu o.s.frv. Ég skora á hæstv. ráðherra að koma með afdráttarlausar og jákvæðar yfirlýsingar í þá átt að úr þessu verði leyst eins og fyrirheit hafa verið gefin um á undanförnum árum en ekki hefur verið staðið við.



[15:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst gera athugasemdir við það þegar hv. þingmaður talar til mín með þessum hætti og talar um að ég sé að víkja mér undan ábyrgð. Það er af og frá. En almennt séð bera stofnanir og ráðuneyti fulla ábyrgð á fjárreiðum sínum og ef um hallarekstur er að ræða á einu ári skulu þær bera þann halla af fjárveitingu næstu ára á eftir.

Í nokkrum tilfellum eiga stofnanir við gamlan rekstrarvanda að glíma og þá er það á ábyrgð fagráðuneytisins, og þá með samþykki fjármálaráðuneytisins, að gera við þá samning um hvernig skuli fara með bæði rekstrarvanda, ef einhver er, og eins með halaklippingar þegar stofnanir hafa sýnt að þær geti vel haldið sér innan marka.

Mér finnst skynsamlegt að taka á þessu heildstætt. Ég vona svo sannarlega að rekstur landbúnaðarháskólanna gangi vel en það þarf að skoða hallareksturinn heildstætt og taka með réttlátum hætti og sambærilegum hætti á öllum stofnunum landsins.



[15:10]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjárlögum og fjáraukalögum birtast áherslur ríkisstjórnar. Kannski er dæmi um það í forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar þegar maður skoðar aukafjárveitingar til innanríkisráðuneytisins. Það er 1. liður, 240 milljónir til kosninga, sem voru til umræðu áður, en síðan eru ýmsar aukafjárveitingar til löggæslumála og þær eru fáar og smáar. Mig langaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort til standi að gera eitthvað í löggæslumálum á Suðurlandi.

Hæstv. ráðherra er þingmaður þess kjördæmis eins og ég og hefur því fengið sömu bréfasendingar og upphringingar frá löggæslumönnum á Suðurlandi og ljóst er að þar er ófremdarástand. Ég sakna þess að sjá ekki minnst á það embætti í þessu fjáraukalagafrumvarpi og spyr hæstv. ráðherra hvort til standi að gera bragarbót þar á.



[15:11]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fjárreiðulögum kemur mjög skýrt fram hvert er hlutverk fjáraukalaga. Í fjáraukalögum koma ekki fram áherslumál ríkisstjórnarinnar heldur er þvert á móti verið að bregðast við ófyrirséðum atvikum, kjarasamningum eða nýrri löggjöf. Það er hlutverk fjáraukalaga og við því er verið að bregðast í fjáraukalögunum.

Sakni hv. þingmaður nýrra verkefna eða breyttra verkefna, hvort sem það er hjá lögreglunni á Suðurlandi eða á öðrum stöðum, þá á sú umræða að eiga sér stað varðandi fjárlög 2013. Fjáraukalögin eru með skýrt hlutverk og það er að bregðast við því sem er algerlega ófyrirséð en ekki til að bregðast við nýjum eða breyttum verkefnum eða taka til baka aðhaldsaðgerðir fyrri ára.



[15:12]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að fá að mótmæla hæstv. fjármálaráðherra, þeirri fullyrðingu að í fjáraukalögum birtist ekki áherslur ríkisstjórnar. Hvað eru 240 milljónir til kosningar um tillögur stjórnlagaráðs annað en áherslur ríkisstjórnar? Þótt verið sé að bókfæra þær með þessum hætti þá er þetta ekkert annað en forgangsmál ríkisstjórnar sem birtist með þessum hætti í þessu frumvarpi til fjáraukalaga.

Varðandi það sem ég spurði um í sambandi við löggæslumál á Suðurlandi þá hefði tilefnið verið ærið vegna þess að það er einmitt ófyrirséð. Það embætti hefur verið að glíma við margs konar rekstrarvanda og hefur þurft að bregðast við því með að fækka á vöktum þannig að menn óttast að öryggi borgaranna sé ekki tryggt. Fregnir hafa borist þess efnis að lögreglumenn hafa þurft að keyra fram hjá slysum vegna þess að annað alvarlegra slys hefur orðið annars staðar. Ef þetta er ekki ófyrirséð og brýnt úrlausnarefni sem á að sjást í fjáraukalagafrumvarpi þá veit ég ekki hvað það er, hæstv. fjármálaráðherra.



[15:14]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá er það alveg ótvírætt tilgreint í 44. gr. fjárreiðulaganna, þar sem fjallað er um frumvarp til fjáraukalaga innan fjárhagsárs, hvert hlutverkið er. Vissulega geta áherslumálin komið í gegn í nýrri löggjöf en ef taka þarf upp sérstök mál, eins og hv. þingmaður nefnir, er rétt að það sé flokkað undir viðfangsefni sem fjallað verður um fyrir fjárlög 2013. Þar þarf auðvitað að taka á því hvernig stofnanir eiga að starfa og eiga að fá umfang til að starfa á næsta ári. Fjáraukalögin hafa sem sagt annan tilgang.

Varðandi kosningarnar var það þannig, ef ég man rétt, að stjórnarþingmennirnir vildu sameina þessar kosningar öðrum kosningum. Það var hins vegar flokkur hv. þingmanns sem vildi ekki gera það og þess vegna eru þessi fjárútlát núna.



[15:15]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum hér árlegt verkefni og sígilt viðfangsefni, þ.e. fjáraukalög, og nú fyrir árið 2012. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert ágæta grein fyrir innihaldi frumvarpsins og helstu stærðum þess í krónutölum, það er enn þá gert í krónum þó að einhverjir vildu gera það í einhverjum öðrum gjaldmiðli, en við skulum láta það liggja á milli hluta.

Fjáraukalagagerð vekur mann eilíflega til ákveðinnar umhugsunar um það hvernig við viljum sjá þennan margumrædda aga koma með fastari, stífari og betri hætti inn í allt fjárlagaferlið, alla vinnuna við þetta o.s.frv.

Ég staldra aðeins við þær vangaveltur mínar á hvaða vegferð við erum með ríkissjóðinn þegar við sjáum þess stað í fjáraukalagafrumvarpinu, og eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að lánsfjárhluti samkvæmt 3. gr. hækkar úr 115 milljörðum í 217 milljarða kr. Þetta er 112 milljarða hækkun á milli ára. Á móti er að sjálfsögðu líka viðbótin í afborganir lána upp á 118 milljarða, en það er alveg ljóst af þeirri samantekt sem maður sér í frumvarpinu að við erum enn þá að auka skuldir ríkissjóðs og enn meira með því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Eins og kemur fram á bls. 48 í greinargerðinni með frumvarpinu liggur fyrir að hreinn lánsfjárjöfnuður verður neikvæður um rúma 48 milljarða, þ.e. nettóskuldir munu aukast um tæpa 50 milljarða kr. á árinu 2012 að því gefnu að þessar tillögur gangi eftir og áhrif þeirra tillagna sem hér eru kynntar og lagðar fram af hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar kalla á það að skuldaaukningin nettó verði 5 milljörðum lakari en var í fjárlögum ársins sem samþykkt voru í desember. Við erum því enn á þeirri leið að bæta í skuldasúpuna og virðumst ekki, að mínu mati, ná þeim ákveðnu tökum á því sem flestir vonast eftir.

Við sjáum það í þeirri töflu sem birt er á bls. 46 og greinargerðinni með henni, og eins og kom fram í andsvörum áðan milli mín og hæstv. ráðherra, að gert er ráð fyrir að endurskoðuð áætlun um afkomu fjárlagaársins 2012 verði hærri í krónutölum en fjáraukalagafrumvarpið sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir. Með öðrum orðum, afkoman er áætluð verða að minnsta kosti 3 milljörðum verri þegar reynt er að leggja mat á áætlaða útkomu en sú tillaga sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir. Það vekur manni upp spurningar hvers vegna þetta er gert með þessum hætti. Það er reynt að skýra þetta í greinargerðinni með frumvarpinu. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa upp þann texta sem þar um ræðir. Hann hljóðar svo:

„Á rekstrargrunni er áætlað að heildargjöld ársins verði 3,2 milljarða umfram þær fjárheimildir sem hér er sótt um. Skýrist það einkum af því að í mati á endanlegri útkomu ársins getur verið reiknað með umframgjöldum sem ekki eru gerðar tillögur um í frumvarpinu, t.d. útgjöldum sem byggja á afgangsheimildum fyrri ára,“ — og svo kemur þessi setning — „umframútgjöldum sem ekki er mætt með auknum fjárheimildum …“

Það er þessi kafli greinargerðarinnar sem vekur mér nokkurn ugg, sérstaklega ef maður lítur til reynslu liðinna ára. Nærtækt er í því efni að horfa til árangursins á árinu 2011. Ef við skoðum frammistöðu stjórnvalda þess árs, við framfylgd þeirra fjárheimilda og fjárlaga sem samþykkt voru, þá er það eitthvað sem vekur manni ugg vegna þess einfaldlega að þar er verið að vinna með tillögur sem birtar voru og samþykktar í fjárlögum fyrir árið 2011, fjáraukalögum fyrir það sama ár og jafnframt svokallaðar fyrningar eða afgangsheimildir sem eru fluttar á milli ára. Hvernig lítur þetta út í rauninni?

Gert var ráð fyrir að hallinn á fjárlögum fyrir árið 2011 yrði 37 milljarðar. Niðurstaðan varð allt önnur. Hún varð eftir fjáraukalögin 62 milljarðar og síðan þegar ríkisreikningurinn fyrir árið 2011 var birtur um mitt þetta ár var niðurstaðan neikvæð upp á 89 milljarða, þ.e. halli í raun upp á hátt í 40 milljarða umfram þær heimildir sem samþykktar voru eftir fjáraukalögin. Reynt er að skýra þetta út með einhverjum einskiptisaðgerðum, svo sem eins og með Sparisjóð Keflavíkur og framlag inn í Byggðastofnun. Það skýrir ekki allan þennan þátt, það er langur vegur frá því. Þar er um að ræða 20 milljarða, rétt rúmlega það. Þetta segir mér að utanumhaldið okkar um þessi mál er ekki í nægilega góðu fari og það þarf einfaldlega að vera miklu ríkari vilji til þess eða árangur sem við sýnum en raun ber vitni um síðustu ár.

Þetta hefur verið viðvarandi vandamál. Munurinn hins vegar að kljást við þetta núna er sá að við erum að reyna að keyra og höfum keyrt frá árinu 2009, fjárlögum þess árs, fjárlögin eftir útgjaldamarkmiðum, en meðan allt var hér á blússandi ferð var reynt að stýra þessu eftir afkomumarkmiðum sem er allt annar þáttur.

Útgjaldastýringin sem við tókum upp á árinu 2009 og höfum reynt að halda síðan gerir einfaldlega miklu stífari kröfur til stjórnkerfisins alls og okkar sjálfra um það hvernig við höldum utan um þessa þætti til muna betur en við ætluðum að gera. Það liggur fyrir á því ári sem ég tek hér til samanburðar við árið 2012 að á fjáraukalögum lágu fyrir samþykktar heimildir upp á rétt rúmlega 17 milljarða í lokin þegar gert var ráð fyrir því í fyrstu útgáfu fjáraukalagafrumvarpsins sem kom frá ríkisstjórninni það haust að þetta yrðu um um 12 milljarðar.

Það er segin saga að fjáraukalögin hækka alltaf í meðförum þingsins frá því ríkisstjórnin kemur fram með það fyrst til lokaafgreiðslu. Það má alveg gera ráð fyrir að svo verði einnig nú. Ég vil undirstrika það að flestar þeirra tillagna sem koma inn í fjáraukalögin á milli umræðna og í fjárlögin stafa frá ríkisstjórninni sjálfri. Til viðbótar voru afgangsheimildir síðan nýttar sem stofnanir áttu og fluttu á milli ára, þ.e. rúmir 16 milljarðar kr. Það er nokkuð ljóst að á árinu 2012 eru þær stofnanir enn að ganga á umframheimildir og ekki er gerð nein tilraun til þess í fjáraukalagafrumvarpinu að nálgast þá stærð með nokkrum hætti, heldur látið liggja á milli hluta, og þá gengur þetta þannig að þetta kemur fram í lokafjárlögum á ríkisreikningi um mitt næsta ár. Þetta eru vinnubrögð sem við þurfum að breyta. Við þurfum í fjáraukalagagerðinni að reyna að taka inn þessar afgangsheimildir eða umframfjárheimildir sem ætlunin er að nota frá fyrra ári og merkja þær inn í fjárlögin sjálf með þeim hætti að taka þau í gegnum fjáraukalög.

Ég vil nefna það líka að í frumvarpinu er verið að ræða framlag til Íbúðalánasjóðs, hugsanlega, og ef það komi fram hafi það ekki áhrif á rekstur ríkissjóðsins. Það er hins vegar alveg ljóst að það framlag sem vantar inn í það dæmi mun kalla á aukna skuldsetningu ríkissjóðs sem nemur því framlagi sem sett verður inn í Íbúðalánasjóð, því að ríkissjóður er ekki aflögufær til að taka það af eigin fé og setja inn í stofnunina ef ætlunin er sú að styrkja hana með þeim hætti sem vilji virðist benda til í fjáraukalagafrumvarpinu.

Það er líka sérstakt atriði sem ég vil gera að umtalsefni í tengslum við þá vinnu sem við erum að vinna með í fjárlögum og fjáraukalögum eða þeim frumvörpum sem við fáum til þingsins og til fjárlaganefndar frá hæstv. ríkisstjórn. Fjárlögin eru unnin þannig að við fáum fjárlögin, þingskjal 1, við upphaf hvers þings strax til fjárlaganefndar, byrjum að rýna það, rannsaka, kalla eftir upplýsingum og vinnum með það allt til að geta lagt sjálfstætt mat þingsins á þær tillögur sem frá ríkisstjórninni koma. Þetta er gott, sjálfsagt og skynsamlegt. Það gefur þinginu færi á að nálgast þær upplýsingar og spyrja þeirra spurninga sem nauðsynlegt er varðandi fjárlagagerð hvers árs.

Það bregður hins vegar svo við núna við fjáraukalagagerðina að litið er á það sem trúnaðarmál af forustu fjárlaganefndarinnar. Það hef ég ekki upplifað áður þó að ég hafi setið í fjárlaganefnd frá því ég tók sæti fyrst hér á þingi árið 2007, en nú er litið svo á að fjáraukalagabeiðnir frá ráðuneytum eða stofnunum sem sendar eru inn í fjárlagakerfið og berast síðan ríkisstjórn sem hún eðlilega vinnur úr, séu trúnaðarmál. Það á ég mjög illt með að sætta mig við. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. fjármálaráðherra að hlutast til um að þau erindi sem ráðuneytin senda inn, að fjárlaganefndarmenn fái í það minnsta aðgang að þeim til að geta lagt sjálfstætt mat á það hvernig ríkisreksturinn er að þróast, hvernig afkoma einstakra stofnana er o.s.frv.

Ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum ef menn vilja halda slíkum upplýsingum frá þinginu að ég tel fjárlaganefndarmönnum ekki fært að inna starfsskyldur sínar af hendi ef þeir hafa ekki þau gögn undir höndum. Það er eitt ráðuneyti sem afhenti fjárlaganefnd þetta plagg, innanríkisráðuneytið. Það var ekki vel séð af forustu fjárlaganefndar að svo væri, en það gefur manni hins vegar fyllri upplýsingar um það frammi fyrir hverju við stöndum sem þingmenn, berandi ábyrgð á fjárlagagerðinni og fjárlögum hvers ár. Einnig ber maður líka betra skynbragð á það frammi fyrir hverju forstöðumenn þessara stofnana standa þegar þeir takast á við þann veruleika sem þeim er uppálagt að halda úti samkvæmt þeim lögum sem þingið hefur sett þeim að fara eftir.

Ég ítreka þá ósk mína til hæstv. ráðherra að hlutast til um það að fjárlaganefnd berist þau gögn sem ég hef gert hér að umtalsefni. Annað er gjörsamlega óásættanlegt. Í ljósi okkar fyrri starfa saman í fjárlaganefnd þar sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra þekkir mjög vel til hvernig við vinnum þar, þá trúi ég ekki öðru en að á þessu verði gerð bragarbót. Ég treysti því, forseti, að svo verði gert.

Það er annað atriði sem ég vil að lokum gera að umtalsefni í þessari stuttu ræðu minni einfaldlega vegna þess að fram kom hjá hæstv. ráðherra að 28 stofnanir eru með uppsafnaðan halla sem ætlunin er að vinna á með einhverjum hætti. Sjálfum þykir mér ekki nægilega skilmerkilegt eða greinargott með hvaða hætti stofnunum gefst færi á því að fá einhvers konar uppgjör á þennan hallarekstur sinn. Enn fremur skortir heimildir í skriflegu formi eða samþykkt frá Alþingi fyrir því verklagi sem lýtur að uppgjöri halla með þeim hætti sem hér um ræðir. Við höfum til dæmis ekki séð fullnustu þeirra fyrirheita sem gefin voru um svokallaða frystingu halla nokkurra ríkisstofnana. Þetta var gert við fjárlagagerðina fyrir árið 2012. Mér finnst það eðlilegt, vegna þess að að sjálfsögðu mun viðkomandi fagráðuneyti, hvort heldur það er velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið eða fjármálaráðuneytið, lenda í vandræðum með að fullnusta slík fyrirheit ef hvergi eru heimildir í fjárlögum til að vinna það með þeim hætti.

Því er alveg ljóst að taka þarf á þeim þáttum. Við höfum nýlegt dæmi úr ríkisrekstrinum sem er ekki til neinnar eftirbreytni þar sem við erum með ríkisstofnanir sem reka sig með halla og fjármagna hann á yfirdrætti. Það er með fullri vitneskju fjármálaskrifstofa sem í hverju ráðuneyti starfa. Þetta er atriði sem er mjög brýnt að taka á. Ég veit dæmi þess af einni heilbrigðisstofnun að þessi yfirdráttur kostar þá stofnun 5 milljónir á ári sem er jafnvirði stöðugildis eins hjúkrunarfræðings. Það eru ýmsir svona þættir sem klárlega þarf að taka á og lagfæra. Ég treysti því að svo verði gert.



[15:31]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir prýðilega yfirferð yfir frumvarp til fjáraukalaga sem ráðuneytið hefur nú þegar kynnt fyrir okkur í fjárlaganefndinni og við munum fjalla formlega um eftir þessa umræðu. Það er ekki ástæða til að hafa langt mál um megindrætti málsins en hæstv. ráðherra og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson röktu þá prýðilega áðan út frá vinnubrögðum, endurmati forsendna og ýmsu. Ég vildi bara tæpa á nokkrum atriðum sem er mikilsvert að séu hér inni og öðrum sem ég tel að þurfi að skoða á milli umræðna, í ljósi þess sem hæstv. ráðherra nefndi áðan um að verið væri að endurmeta stöðu fjárlaga út frá nýrri lagasetningu og ýmsu sem breytist á milli mánaða og missira.

Eitt af því sem breyttist í vor var að Alþingi setti í fyrsta skipti sérstaka heildarlöggjöf um heiðurslaun listamanna. Þar var annars vegar sett ákveðið þak á fjölda þeirra þannig að þeir geta ekki verið fleiri en 25 þó að tímabundið séu þeir fleiri af því að það eru 28 á listanum núna.

Í öðru lagi var laununum breytt. Þau miðast nú við starfslaun þannig að þau hækka lítillega. Það kallar á aukin fjárútlát fyrir þetta ár vegna þess að lögin tóku fyrst gildi 1. september á þessu ári. Það eru um það bil 40 millj. kr. sem þyrftu að renna til þeirra þannig að fjárhæðin stemmi við lagasetninguna á Alþingi í vor þegar sett voru lög um heiðurslaun listamanna. Þetta þarf auðvitað að ríma saman og ég ætla ekki að meta það af hverju þetta kom ekki inn í skoðun ráðuneytanna á breyttum forsendum. Kannski af því að þetta er ákvörðun Alþingis hverju sinni. Þetta lýtur sérstökum vinnureglum sem eru þær að fjárlaganefnd sjálf gerir tillögur fyrir 3. umr. fjárlaga hverju sinni um listann um heiðurslaun listamanna, núna eftir ákveðnum „kríteríum“, ábendingum og faglegu mati frá fleiri aðilum o.s.frv. Þetta hefur einhvern veginn orðið út undan í þessari skoðun. En til að þetta gangi allt upp og lög standi sem samþykkt voru í vor þarf að bæta þessum fjárheimildum við. Ég legg þetta því inn í umræðuna og við munum að sjálfsögðu kalla eftir því í fjárlaganefnd að þetta verði skoðað.

Það er mjög ánægjulegt að málefnum Íslenskrar ættleiðingar er mætt hérna. Innanríkisráðuneytið óskar eftir 15 millj. kr. fjárheimild til að tryggja rekstrargrundvöll Íslenskrar ættleiðingar. Það kemur fram að fjárveitingin er hugsuð sem viðbót við þær 9,2 millj. kr. sem veittar eru í fjárlögum 2012 til að unnt verði að tryggja þá grunnþjónustu sem félaginu er ætlað að sinna. Félagið hefur mjög mikilsverðar skyldur og skuldbindingar. Það er ekki eingöngu félag fyrir þá sem ætla að ættleiða börn eða hafa gert það heldur hefur það heilmiklar stjórnskipulegar skyldur hvað varðar aðdragandann að því að pör ættleiði barn.

Fyrir liggja drög að þjónustusamningi á milli ráðuneytisins og félagsins sem hafa verið lengi til umræðu og við tókum þau sérstaklega upp í allsherjar- og menntamálanefnd fyrr á þessu ári til að fjalla um málið og ýta á eftir því. Það hefur ekki verið unnt að ljúka samningnum sem skiptir auðvitað mjög miklu máli. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra hefur mikinn metnað til að gera það og auðvitað aðrir sem að þessu koma. Að mati félagsins hefur vantað rekstrarfé og menn hefur greint á um hve mikla fjármuni þurfi til að félagið geti staðið skil á sínum mikilsverðu verkefnum.

Ég fagna því að hér eru lagðar til auknar fjárheimildir til Íslenskrar ættleiðingar af því að það er mjög mikilvægt að starfsemin gangi hnökralaust fyrir sig. Þetta eru viðkvæm mál og einkar mikilvægt að þau gangi vel fyrir sig. Þetta er langt ferli frá því að fólk sækir um að fá að ættleiða og þar til það verður þeirrar gæfu aðnjótandi að fá barn til ættleiðingar og við þurfum að standa vel við bakið á því. Auðvitað þyrfti að styðja meira en við höfum gert á síðustu árum og áratugum við þá sem ættleiða börn til að jafna stöðu þeirra á við þá sem eignast börn með hefðbundnum hætti. Ég fagna því að hér er skref stigið í þá átt og er mjög ánægður að sjá það og vona að þetta sé vísir að lausn og þjónustusamningi á milli Íslenskrar ættleiðingar og innanríkisráðuneytisins.

Þá vil ég nefna að það er gott að sjá fjárveitingar undir nokkrum liðum til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórans á Suðurnesjum og ýmissa löggæslu- og öryggismála þar sem er viðbótartrygging til lögreglumanna. Þetta er gert út frá þingsályktunartillögu sem allsherjar- og menntamálanefnd öll saman flutti síðastliðinn vetur og fékk samþykkta í þinginu um framhald á sérstöku verkefni sem laut að skipulagðri glæpastarfsemi. Lögreglan hafði verið með sérstakt teymi í þessari vinnu í eitt ár sem hafði gengið feikilega vel og náð miklum árangri. Við höfum bara á síðustu dögum og vikum horft á enn meiri árangur í baráttu lögreglunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem er því að þakka að hæstv. innanríkisráðherra hleypti því af stokkunum að sérstakt teymi var sett í þetta verkefni sem vinnur að því og engu öðru. Þingsályktunartillaga nefndarinnar var samþykkt á Alþingi í júní og til þess að hún gangi upp, á sama hátt og með breytingar á heiðurslaunum, þarf að samþykkja aukafjárveitingu á fjáraukalögum. Hér er lagt til 35 millj. kr. aukaframlag til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu út af átaki gegn skipulagðri glæpastarfsemi og lagt er til 15 millj. kr. aukaframlag til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna sérstaks átaksverkefnis sem lögreglan þar syðra er þátttakandi í með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fleirum.

Þetta eru nokkur atriði af mörgum sem er mjög ánægjulegt að sjá að gangi fram. Eitt enn kom inn á borð hinnar nefndarinnar sem ég á sæti í og stýri, sem er allsherjar- og menntamálanefnd, en það er málefni Útlendingastofnunar og hælisleitenda. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þann málaflokk en það er mjög mikilvægt að gera Útlendingastofnun kleift að vinna mikið hraðar og mikið betur úr þeim málum en verið hefur. Þar hefur myndast ákveðinn tappi og það er óviðunandi að hælisleitendur þurfi að bíða mánuðum, missirum, jafnvel árum saman í bráðabirgðaaðstæðum áður en þeir fái að vita hvort þeir fái hæli hér á landi eða ekki. Sjálfur er ég á þeirri skoðun að það þurfi að ganga mjög langt til að greiða úr þessu en mér sýnist það vera gert hér og vona að það dugi til að höggva á hnútinn.

Óskað er eftir 100 millj. kr. viðbótarframlagi á liðnum Útlendingastofnun. Í skýringum segir að vegna verulegrar fjölgunar hælisleitenda umfram forsendur fjárlaga og út af fjárskorti stofnunarinnar hafi ekki verið unnt að afgreiða umsóknir um hæli hér á landi eins og æskilegt væri. Því er fyrirséð að þessi liður muni fara verulega fram úr fjárveitingum ársins. Lagt er til að veitt verði 6,6 millj. kr. fjárheimild til Útlendingastofnunar þannig að hægt verði að ráða tvo lögfræðinga í fullt starf í haust til að afgreiða umsóknir frá erlendum einstaklingum um hæli hér á landi.

Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli. Það þarf að standa miklu betur að málefnum Útlendingastofnunar og hælisleitenda þannig að málin fái afgreiðslu miklu fyrr. Það er líka kostnaðarsamt fyrir samfélagið að koma hlutum svo fyrir að fólk búi um lengri tíma í algjörri óvissu um örlög sín og framtíð út af því að fjármagn skortir til að vinna úr umsóknum. Hvort sem fólki er hleypt inn í landið eða sent eitthvað annað þarf að vinna mikið hraðar úr þessu. Þessi fjárveiting er lögð til hér og ég held að það séu mjög góðar fréttir. Þetta var töluvert í umræðunni á síðastliðnum vetri og tekið upp í þingnefndum og hér í þingsal. Ég fagna því sérstaklega að þessi mikilvægi og viðkvæmi málaflokkur fái framgang.

Þá var eitt enn sem ég vildi nefna sem lýtur að öryggis- og fangelsismálum. Sú ánægjulega ákvörðun var tekin af fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti á síðasta vetri að færa opið fangelsi að Sogni í Ölfusi þar sem áður var réttargeðdeild en Landspítali hafði ákveðið að færa starfsemina þaðan og á spítalann í Reykjavík. Sú ákvörðun var tekin af yfirvöldum að nýta þetta ágæta húsnæði undir opið fangelsi. Það held ég að hafi verið afar farsæl ákvörðun enda vel að verki staðið og var mjög ánægjulegur atburður í vor þegar fangelsið var tekið í notkun. En þær breytingar sem þurfti nauðsynlega að gera á húsnæðinu til að breyta því úr réttargeðdeild í opið fangelsi fólu í sér nokkurn kostnað enda þurfti að endurbæta eitt og annað til að húsnæðið væri viðunandi og gott. Þetta var þó allt mjög hóflegur kostnaður enda verkið unnið af fangavörðum og föngum sjálfum að miklu leyti, endurbætur og ýmislegt slíkt. Það sparaði ríkinu stórfé en þó varð til kostnaður sem féll á fasteignir ríkissjóðs og einnig umtalsverður kostnaður sem stofnunin þarf að bera sjálf. Eru stærstu liðirnir, eins og talið er hér upp, jarðvegsvinna, uppsetning á eftirlits- og fjarskiptabúnaði, veghlið og kaup á öryggiskerfi. Þetta eru sjálfsagðir grunnþættir sem verða að vera í hverju fangelsi hvort sem það er öryggisfangelsi eða opið. Hér er óskað eftir 17,6 millj. kr. til að standa straum af flutningi á fangavistun frá Bitru að Sogni. Þarna er meðal annars verið að steypa yfir garð þannig að hægt sé að nýta hann sem líkamsræktaraðstöðu og fleira gert til að bæta aðstöðuna og fagna ég því að hér er svo gengið að málum.

Eitt vil ég nefna sem ég tel að þurfi að skoða sérstaklega. Ef við skoðum löggæslumálin almennt hafa víðast hvar á landinu ekki verið háværar raddir um það að fjölga þurfi í lögreglu á einstökum stöðum, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, nema á Suðurlandi þar sem lögreglumenn hafa ályktað mjög afdráttarlaust um að þar sé fjöldi lögreglumanna, sem á nokkrum árum hefur farið úr 26 í 20, kominn niður fyrir þolmörk, niður fyrir öryggismörk. Það er algjörlega óviðunandi. Þarna búa 15 þús. manns og um helgar fjölgar þarna um 20–35 þús. manns eftir vikum og mánuðum og árstíma vegna þess að á þessu svæði eru flest sumarhús á Íslandi. Heilsárshúsin og sumarhúsin á þessu svæði skipta tugum þúsunda fyrir utan að nánast allir af hinum 600 þús. erlendu gestum sem sækja Ísland heim fara í gegnum þetta svæði, mest frá vori til hausts. Þetta er alvarlegt mál sem snertir stóran hluta landsmanna, það þarf að gera lögreglunni þar, í Árnessýslu kleift að fjölga í liði sínu þannig að ástandið verði viðunandi. Hún hefur ályktað um það sérstaklega og við þingmenn kjördæmisins allir munum funda með þeim í næstu viku um málið. Þetta þarf að skoða annaðhvort með hliðsjón af fjáraukalögum eða fjárlögum fyrir næsta ár af því að ástandið er óviðunandi og gengur ekki lengur.

Hér eru mörg brýn mál og góð sem hægt er að nefna. Ég vildi tæpa sérstaklega á þessum á þeim fáu mínútum sem okkur gefast í umræðunni. Svo munum við fjalla um frumvarpið í heild sinni og önnur einstök atriði í vinnu fjárlaganefndar sem fram undan er.



[15:43]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem vekja athygli í þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 15 millj. kr. framlagi til Íslenskrar ættleiðingar. Það er ljóst að málefni Íslenskrar ættleiðingar hafa verið í talsverðri óvissu undanfarin missiri vegna þess að samningar hafa verið lausir og menn hafa ekki náð saman um það hvernig Íslensk ættleiðing ætti að sinna verkefnum sínum og fyrir hvaða fé. Það hefði verið mun heppilegra að ráða því máli til lykta fyrr þannig að sá kostnaður sem allir áttu í raun að geta sagt sér sjálfir að mundi falla til og á ríkið hefði farið inn í fjárlagafrumvarpið á sínum tíma.

Eins er rétt að lýsa yfir áhyggjum af því að enn hefur ekki verið undirritaður samningur við Íslenska ættleiðingu. Í fyrirspurnatíma í þinginu í gær kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra að það stæði vonandi til bóta og maður verður bara að treysta því og trúa að ráðist verði í það. Það er mikilvægt að öryggi sé í því fólgið hvernig við högum ættleiðingarmálum hér á landi.

Þá vekur athygli liður nr. 6.41 Göngubrú yfir Markarfljót við Þórsmörk undir Skógrækt ríkisins. Í samræmi við þingsályktunartillögu, sem við þingmenn Suðurkjördæmis með hv. þm. Róbert Marshall í fararbroddi lögðum fram í þinginu og var samþykkt, eru hér áætlaðar 5 millj. kr. til undirbúnings-, umsjónar- og hönnunarkostnaðar verkefnisins. Það verður athyglisvert að sjá hvort þetta muni allt ganga fram vegna þess að göngubrúin mun að sjálfsögðu auka mjög aðgengi almennings inn í Þórsmörk því að þá þarf ekki að aka yfir jafnvatnsmiklar ár til að komast þangað. Því ber í sjálfu sér að fagna og er ágætt.

Það sem vekur áhyggjur er sá kafli sem fjallar um vaxtagjöld ríkissjóðs en þar er lagt til að fjárheimild vegna þeirra verði aukin um 3.106 millj. kr. Þetta er enginn smápeningur, miklir fjármunir sem þarna er verið að tala um. Af þessu hljótum við öll að hafa miklar áhyggjur. Það er blóðugt að greiða þetta mikið í vexti og í rauninni leitt að sjá að þetta þurfi allt að koma inn í fjáraukalög. Þá vakna spurningar um það hvernig við högum fjárlagagerðinni hér á landi, hvort við séum á réttri leið eða hvort við þurfum einfaldlega ekki að endurskoða verkefnið í heild sinni.

Nú liggja fyrir fjárlög fyrir næsta ár og hafa verið til umræðu í þinginu og eru nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Það er þegar ljóst að þar vantar fjölmarga liði. Einhverjir þeirra munu væntanlega koma inn í 2. umr. um frumvarpið í þinginu og svo munu enn aðrir bíða fjáraukalaga næsta árs. Talað hefur verið um það í þinginu, nú síðast í gær eða rétt fyrir helgi, að nauðsynlegt sé að auka aga í efnahagsstjórninni. Um það hljótum við öll að vera sammála. Í ljósi þess hvernig fjárlagafrumvarpið og fjáraukalögin líta út tel ég að við eigum talsvert langt í land með að bæta vinnubrögð okkar í þessum málum. Auðvitað væri gott ef við legðum meiri áherslu í þinginu á það sameiginlega verkefni okkar allra að grynnka á skuldastöðu ríkissjóðs en manni sýnist að það sé ekki aðalmálið, sérstaklega ekki í ljósi fjárlagafrumvarpsins sem lagt hefur verið fram. Þar er um mikið kosningaplagg að ræða eins og ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi sjálf lýst yfir, að þetta væri kosningafrumvarp þar sem fjölmörg verkefni verði sett af stað og kostuð með aukinni skattheimtu. Settir eru sérstakir aukaskattar á atvinnulífið til að fjármagna kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna fyrir komandi kosningar.

Ég verð að segja, frú forseti, að auðvitað verður maður fyrir vonbrigðum að sjá þessi vinnubrögð þegar næsta dag er lofað auknum aga í efnahagsstjórninni og við fjárlagagerðina.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fjáraukalögin. Ég vonast til að fjárlaganefnd muni fara vandlega yfir þetta mál og hvet hæstv. ráðherra til dáða í því að innleiða aukinn aga í fjármálastjórnunina og hvet fjárlaganefnd til að taka til skoðunar hvernig við getum endurskoðað þetta ferli.



[15:48]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012 og ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég verð þó að segja í upphafi máls míns að áhuginn fyrir stærsta vandamáli ríkissjóðs, þ.e. skuldastöðunni, er alltaf jafnmikill eða hitt þó heldur. Hér er hægt að telja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra með fingrum annarrar handar. Það kannski lýsir skilningnum á verkefninu.

Áður en ég fer að fjalla efnislega um einstaka atriði í þessu frumvarpi vil ég byrja á að segja að það sem hrópar hæst á mann og er mest áberandi í þessu fjáraukalagafrumvarpi er að ekki er gert ráð fyrir auknu eiginfjárframlagi til Íbúðalánasjóðs. Það er mjög sérkennilegt í ljósi þess að nú hefur hv. fjárlaganefnd borist formlegt bréf frá Íbúðalánasjóði þar sem meðal annars er upplýst að alveg frá haustmánuðum 2011 hafi forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs verið að ræða við hæstv. velferðarráðherra.

Þetta bréf frá forstjóra Íbúðalánasjóðs er mjög afdráttarlaust. Þar kemur fram að það sé mjög mikilvægt að auka eigið fé um að lágmarki 11–12 milljarða strax í fjáraukalögum til að ná eiginfjárhlutfalli sjóðsins upp fyrir 5%. Það er komið undir 4% þegar þetta bréf er skrifað 20. júlí. Hver er afleiðingin? Hún er sú að lánshæfismat sjóðsins mun lækka og í þessu bréfi er meira að segja vísað til þess að lánshæfismatsfyrirtækin geri skýra kröfu um að sjóðurinn uppfylli reglugerðarmarkmið um eiginfjárhlutfall. Það var staðfest af hálfu matsfyrirtækjanna 28. júlí 2012.

Í þessu fjáraukalagafrumvarpi er hins vegar gert ráð fyrir því að ekki muni liggja fyrir endanlegt uppgjör í ríkisreikningi fyrr en um mitt næsta ár, þ.e. hér er boðað að ekki verði brugðist við þessum vanda Íbúðalánasjóðs. Hvað þýðir það? Það þýðir á mæltu máli að lánshæfismatið mun lækka. Og hvaða afleiðingar hefur það? Það hefur þær afleiðingar að vaxtakjör verða verri sem á endanum mun lenda sem kostnaður á ríkissjóði. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að ekki skuli vera tekið tillit til þess að það þurfi að bæta eiginfjárhlutfall Íbúalánasjóðs. Textinn í frumvarpinu um að það verði skoðað um mitt næsta ár þegar ríkisreikningur liggur fyrir er algjörlega óviðunandi að mínu mati. Þetta mun bara hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar tala nú um breytt vinnubrögð en það er búið að tala nóg um það. Það er búið að tala um það allt þetta kjörtímabil að breyta vinnubrögðum og taka upp meiri aga en síðan er alltaf farið út af sporinu. Það er alltaf litið fram hjá og hugmyndafræðin hér er að setja þetta inn í ríkisreikning ársins 2012 sem kemur út á miðju ári 2013. Hv. stjórnarliðar hafa ekki legið á því að tala um hinn mikla árangur sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur náð (Gripið fram í.) og ætla sér væntanlega að hafa til hliðsjónar að þessi kostnaður falli til eftir að búið er að kjósa til Alþingis. Það eru öll þessi breyttu vinnubrögð. Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög varhugavert. Þetta kallar á aukin útgjöld hjá ríkissjóði.

Þá ætla ég aðeins að fjalla um nokkur atriði frumvarpsins sem maður getur bara farið hratt yfir á þeim stutta tíma sem manni er gefinn og síðan á auðvitað eftir að fara yfir frumvarpið í hv. fjárlaganefnd. Sú umræða hefur ekki farið þar fram, heldur einungis með tveimur ráðuneytum. Það er búið að fara yfir fjáraukalagabeiðnir þeirra og við eigum eftir að fara yfir frumvarpið með hæstv. ráðherra og fjármálaráðuneytinu.

Það sem kemur skýrt fram í þessu frumvarpi er að tekjurnar aukast um 10,6 milljarða og síðan eru útskýringar á því sem eru kannski að stærstum hluta þær að þær tekjur sem snúa að skatttekjum einstaklinga aukast um 2,5 milljarða. Þar af eru um 800 milljónir vegna úttektar á séreignarsparnaði, lögaðild 2,5 milljarðar og svo koll af kolli.

Það sem ég staldra fyrst og fremst við er að það eru aukin útgjöld upp á 12,5 milljarða sem er umhugsunarefni. Ég er ekki að fella þann dóm að sum þessara útgjalda séu ekki réttlætanleg, heldur að þó að það standi til að ná tökum á rekstri ríkissjóðs verður alltaf sjálfkrafa einhver útgjaldaaukning. Það er mjög alvarlegt mál. Einn af þessum þáttum sem hér vegur mjög þungt er aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs upp á rúmlega 3,1 milljarð.

Ég vil rifja það upp líka í þessari umræðu að á undanförnum árum hafa einmitt vaxtagjöld ríkisins verið vanáætluð í fjáraukalagafrumvarpinu þannig að þau hafa verið leiðrétt í fjáraukalögunum á viðkomandi árum, 2011, 2010 og 2009, þar sem vaxtakostnaður ríkisins var lægri en gert var ráð fyrir. Það hefur að mörgu leyti verið stór þáttur í að vega upp þá útgjaldaaukningu sem hefur orðið á ríkissjóði á öðrum liðum. Þetta þýðir að á þessu ári munu vaxtagjöld ríkisins verða um 81 milljarður sem er mjög umhugsunarvert. Ég held að það séu ekki miklar deilur um það á þingi að eitt mikilvægasta verkefnið sé að greiða niður skuldir ríkissjóðs en við munum á næstu fjórum árum greiða 370 milljarða í vaxtakostnað.

Ég vil líka minna á það eina ferðina enn að við erum í skjóli gjaldeyrishafta gagnvart vaxtastigi hjá ríkissjóði, ef ég má orða það þannig. Það þýðir á mæltu máli að til að mynda lífeyrissjóðirnir sem eru stærstu aðilarnir sem eru að fjárfesta á markaðnum og mega ekki fjárfesta erlendis eru að kaupa ríkisskuldabréfin í stórum stíl með mjög lágri ávöxtunarkröfu í skjóli gjaldeyrishaftanna. Ef gjaldeyrishöftin hyrfu mundi vaxtastig ríkissjóðs hækka mjög mikið. Þetta er verkefni sem við verðum að taka mjög alvarlega og hvorki í fjárlagafrumvarpinu 2013 né í fjáraukalögunum er að mínu mati sýndur skilningur á því að það þurfi að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt til að ná tökum á rekstrinum.

Ég var aðeins búinn að hlaupa á helstu þáttum sem útskýra tekjuaukann sem snýr að þessum skatttekjum af einstaklingum og lögaðilum og svo öðrum ótengdum liðum. Það eru smáviðvik hér og þar sem ég ætla ekki að dvelja lengi við og síðan eru það veiðigjöldin sem hækka um 4,2 milljarða. Þetta er það helsta sem snýr að tekjuaukanum og síðan snýr stærsta talan að útgjaldaaukningunni sem er 3,1 milljarður í vaxtagjöldum.

Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra áðan og tel mjög mikilvægt að við tökum þá umræðu í þinginu. Þó að hæstv. ráðherra hafi farið yfir það í andsvari að það sé rætt í ráðuneytinu og við Seðlabankann þurfum við að skoða það mjög vandlega. Ég man eftir þessari umræðu í fyrra þegar ég átti orðastað við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra sem deildi efasemdum um að við þyrftum stóran gjaldeyrisvarasjóð af því að hann er allur að láni. Það kostar gríðarlega fjármuni að hafa þennan varasjóð og það er umræða sem við þurfum að fara í gegnum og skoða hversu skynsamlegt það er. Það kostar gríðarlega mikið að hafa svona stóran gjaldeyrisvarasjóð sem er allur tekinn að láni.

Eins og ég kom inn á líka áðan í andsvörum við hæstv. ráðherra í sambandi við skuldabréfaútgáfuna sem var farið í er ég mjög hugsi yfir því að bjóða út 1 milljarð bandaríkjadollara á um 6% vöxtum, ef ég veit rétt, til að greiða niður lán frá Norðurlöndunum, öllu heldur greiða inn á lán, með gjalddaga 2016, 2017 eða 2018. Hæstv. ráðherra taldi mikilvægt að sýna fram á að ríkissjóður hefði aðgang að lánsfjármörkuðum og það hefði líka mikla þýðingu fyrir önnur fyrirtæki eins og til að mynda orkufyrirtæki sem hæstv. ráðherra nefndi í sínu svari. Það getur vel verið að svo sé og ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar um annað en það er umhugsunarefni þegar við erum að taka lán með hærri vöxtum til að greiða niður önnur sem eru með lægri vexti og á gjalddögum 2016, 2017 og 2018. Þetta kostar gríðarlega mikla peninga og er meginástæða þess að við erum að auka vaxtaútgjöld ríkisins um 3,1 milljarð á þessu ári.

Markmiðið með fjáraukalögunum á að vera að bregðast við ófyrirséðum fjárútlátum á árinu þegar fjárlögin hafa verið samþykkt. Þetta á auðvitað að virka svona en oft og tíðum hef ég á tilfinningunni að það virki ekki svona. Því til upprifjunar langar mig að fara aðeins yfir það sem snýr að því sem við erum að vinna í hv. fjárlaganefnd. Þar er samstaðan ágæt og fín. Fjármálaráðuneytið vann í vor fyrir okkur stöðuskjal um framkvæmd fjárlaga árið 2012. Það var mjög fín vinna og ráðuneytið á miklar þakkir skildar fyrir hana. Í framhaldi af því ákvað hv. fjárlaganefnd að kalla til sín þrjá hæstv. ráðherra til að fara yfir stöðuna í ráðuneytum þeirra sem keyrðu fram úr á mörgum stöðum.

Ég skildi svör ráðherranna þannig, og ég held að það hafi margir gert, að þeir hafi eiginlega bara komið til fjárlaganefndar til að segja að fjárlögin væru vitlaus, þau væru bara ekki rétt. Það væri engin vitglóra í því að hafa þessa fjármuni með þessum hætti, þeir yrðu að vera miklu meiri.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á það sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan í andsvari og snýr að því sem ég hef kallað frystibrúsaaðferð, þ.e. þar sem halarnir eru frystir. Ef rekstrarhalli er á einhverri stofnun er gert samkomulag á milli fagráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins um að viðkomandi stofnun fái að frysta svokallaðan halla gegn því skilyrði að hún haldi sig innan ramma fjárlaga ársins. Ég held að þetta eigi við í flestöllum tilfellum þó að ég viti það ekki alveg. Það getur vel verið að þetta sé skynsamleg ákvörðun en ég er hins vegar hugsi yfir henni og hvet hæstv. ráðherra til að taka það upp með hvaða hætti þetta er gert. Hvaða heimildir hefur framkvæmdarvaldið til að taka þessar ákvarðanir? Þetta er ekki gert með formlegum hætti í fjárlögum eða fjáraukalögum. Hvar eru heimildirnar? Er það bara komið undir ákvarðanatöku hæstvirtra ráðherra, fagráðherra eða fjármálaráðherra, hvaða stofnanir fá frystingu á halla án þess að gerðar verði kröfur um að þær dragi skarpt úr niðurskurði á því ári sem er að hefjast? Það er mikilvægt að gera það rétt.

Það kom líka fram á fundi fjárlaganefndar frá einu fagráðuneytinu að það hefði úthlutað úr svokölluðum óvissusjóði, þ.e. sjóði innan ráðuneytisins, og skýringin var sú að ein ákveðin stofnun sem fékk fjárframlag úr þeim sjóði hafði ekki getað staðið við það skilyrði gagnvart fjármálaráðuneytinu að halda sig innan fjárlaga til að halda samninginn. Þá sjáum við hvað er að gerast, það er kannski verið að reka jafnmarga ríkissjóði og ráðuneytin eru mörg í raun.

Maður staldrar við fullt af hlutum sem ég held að þurfi að ræða nánar í hv. fjárlaganefnd. Þarna er til dæmis 35 millj. kr. framlag til að mæta kostnaði við flutning á hönnunar- og arkitektúradeild Listaháskóla Íslands í nýtt leiguhúsnæði. Þetta verkefni hefur verið vitað um alveg síðan 1999. Síðan kemur þessi beiðni hér inn og þar kemur fram að nú sé þessi deild í þessum skóla komin í 1.000 fermetra stærra húsnæði og mér finnst þetta ekki eðlilegt viðbragð. Þetta hefði átt að koma fram öðruvísi.

Síðan kemur texti um tónlistarnám á vegum sveitarfélaga. Það var gerður samningur vegna tónlistarnáms á vegum sveitarfélaga og þá er gerð tillaga um aukafjármagn upp á 40 milljónir. Það var farið yfir þetta með ráðuneytinu á sínum tíma og ég geri athugasemdir við skýringartextann, þ.e. að í kjölfar samkomulagsins hafi tónlistarskólarnir tekið mun fleiri nemendur í fyrravetur og fjölgað kennurum umfram það sem gert var ráð fyrir í samkomulaginu. Það er það sem okkur var sagt í hv. fjárlaganefnd og þess vegna skil ég ekki hvers vegna lagt er til að þessi fjárheimild verði samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég kemst því miður ekki yfir alla þá punkta sem ég ætlaði að fjalla um þannig að ég óska eftir því að vera settur (Forseti hringir.) aftur á mælendaskrá ef einhver annar fer á milli.



[16:04]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við tökum hér til umfjöllunar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012 og er svo sem margt um það að segja.

Fyrst að hinu almenna, frú forseti:

Það er sjálfsagt að beita ríkisfjármálin meiri aga en gert hefur verið á mörgum undanliðnum árum og líklega áratugum. Verða þar allir flokkar að horfa í eigin barm. Það er eðlilegt að gera þá kröfu til þeirra sem fara með fjárveitingavaldið á Alþingi og jafnframt eftirlitsvaldið að sinna störfum sínum í þaula og eyða ekki um efni fram. Meginvandi í íslenskri fjárlagagerð og eftirliti með henni hefur verið sá viðvarandi vandi að eyða um efni fram á undanliðnum árum. Þar hefur báknið, sem sumir kalla svo, orðið æ stærra og nægir að nefna í þeim efnum að opinberum starfsmönnum fjölgaði um 37% tíu ár fyrir hrun. Það var umfram efni. Við verðum að fara að með gát. Það er eðlilegt að við beitum sama aga og aðrar þjóðir gera í þessum efnum. Nægir þar að horfa til Dana sem eru með 2% aðhaldskröfu í fjárlögum hvers árs. Það er ekki sjálfgefið að hin opinbera þjónusta af hálfu ríkisvaldsins þenjist út á hverju ári, heldur má beita hagræðingarkröfunni hverju sinni með eðlilegum hætti, bæta þjónustuna en þenja hana ekki endilega út. Eins má í þessu efni velta fyrir sér hvar þessi þjónusta eigi að vera veitt, hverjir hafi aðgang að henni og hvort þeir sem borga hlutfallslega það sama til hins opinbera hafi jafngreiðan aðgang að henni og aðrir, en það er önnur saga og lýtur að byggðajöfnuði sem heyrir ef til vill undir aðra umræðu.

Sá sem hér stendur hefur verið fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd frá kosningunum 2009 og hefur oft verið hugsi yfir því hvernig farið er með opinbert fé þegar kemur að innviðum kerfisins. Við leggjum fram fjárlagafrumvarp fyrir hvert ár þar sem sumpart er erfitt að spá fyrir um tekjur og eftir atvikum gjöld. Þar af leiðandi þurfum við á fjáraukalögum að halda til að mæta öðru tveggja, ófyrirséðum útgjöldum af völdum náttúruhamfara eða ýmislegs annars og eins nýrri lagasetningu sem kallar á aukin útgjöld. Í þeim fjáraukalögum sem hér eru til umfjöllunar er verið að gera það.

Ég vil fara að með gát þegar kemur að fjáraukalögum. Mér hefur sýnst á undanliðnum árum og áratugum fjáraukalögin vera misnotuð að einhverju leyti sökum þess verklags sem hefur tíðkast og fest í sessi innan ríkisstofnana. Hver og ein þeirra vill fá meiri fjármuni til sín, það er sumpart mannlegt. Eftir að hafa lesið þetta rit um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012 tel ég að í meginatriðum sé farið að með gát. Verið var að bregðast við óvæntum aðstæðum eins og auknum snjómokstri upp á 420 milljónir, ef ég man rétt, og eins var tekið á afleiðingum náttúruhamfaranna á Suðurlandi fyrir tveimur árum og svo mætti áfram telja. Eins var náttúrlega brugðist með lagasetningu við átaki löggæslunnar er varðar stórglæpamenn og má þar líka nefna þann samning sem er yfirvofandi um Íslenska ættleiðingu. Gott og vel.

Það ánægjulega við þessi fjáraukalög er að þau sýna að skatttekjur eru að aukast, en að sama skapi er verið að bæta í útgjöld á rekstrargrunni upp á 12,5 milljarða, ef ég man rétt, á móti 10 milljarða kr. auknum skatttekjum. Ef farið er yfir þessa þætti er hægt að staldra víða við. Auðvitað er freistandi að líta svo á fjáraukalögin að þau geti komið til móts við mjög sterkar óskir, t.d. frá löggæslunni sem hefur verið hart leikin og er að mínu viti ein af meginstoðum íslensks velferðarkerfis og þarf að vera mjög vakandi í samfélaginu yfir aðstæðum sem koma skyndilega upp og eru af margvíslegu tagi og í flestum tilvikum ófyrirséðar. Það er mjög freistandi að leggja til meiri fjármuni í þau málefni. Hér er verið að gera það í einhverjum mæli en klárlega er ekki komið til móts við allar þarfir eins og verða vill þegar illa árar í ríkisfjárbúskapnum. En ég gleðst sérstaklega yfir því að í fjáraukalögum sé að sumu leyti mætt þeim ófyrirséðu aðstæðum sem hafa komið upp í viðureign lögreglunnar, þar með talið ríkislögreglustjóra, við skipulögð glæpagengi sem hafa verið að ryðja sér hér til rúms á undanliðnum missirum. Það er auðvitað krafa almennings að ríkisvaldið, framkvæmdarvaldið, bregðist fljótt við slíkum aðstæðum. Að því leyti er eðlilegt að nota fjáraukalögin til að mæta aðstæðum sem upp koma ef þörfin er vel rökstudd af hálfu löggæslunnar.

Ég fagna líka þeim fáu milljónum en mikilvægu sem borist hafa Íslenskri ættleiðingu og get auðveldlega samsamað mig þeim hjónum og öðru fólki sem á erfitt með að eignast börn og berst fyrir þeim sumpart sjálfsögðu mannréttindum að geta alið upp barn eða börn. Það er gott að ríkisvaldið liðsinni fólki í þeim efnum. Eins og fram kemur í frumvarpinu er innanríkisráðuneytið að vinna að samningi við Íslenska ættleiðingu og kemur þeim félagsskap nú til hjálpar svo að hann geti rækt sínar skyldur og er það vel.

Frú forseti. Almennt vil ég segja að við eigum að fara að með gát þegar kemur að óskum um auknar fjárheimildir í fjárlagagerðinni. Það er hætt við því að á milli umræðna í fjárlagagerð næsta árs komi háværar óskir frá mörgum stofnunum undir ráðuneytunum um frekari útgjöld. Við þurfum að vanda þar til verka og meta hverja ósk fyrir sig. Það er í sjálfu sér pólitík og snýr að þeim forgangsverkefnum sem við viljum standa fyrir í litrófi stjórnmálanna. Það er hætt við því að slíkar óskir séu langt fram úr getu ríkissjóðs. Það er að því leyti eðlilegt að við skoðum hvert og eitt mál fyrir sig með það fyrir augum að eyða ekki um efni fram.

Annar stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs er vaxtakostnaður. Við þurfum að vinda ofan af þeim vanda og breyta vöxtum í velferð. Það er meginverkefni í ríkisfjármálum nú um stundir.

Eins vil ég gjalda varhuga við því að fjáraukalögin séu notuð eins og stundum í fyrri tíð til að fela áætluð útgjöld og menn hafi svo að segja áskrift að þessum lið í rekstri ríkisstofnana sinna. Jafnframt tek ég undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að ríkisreikningurinn sjálfur þarf að vera með þeim hætti að hann sé í anda fjárlaganna og fjáraukalaganna en ekki sjálfstæð heimild til að fela einhver útgjöld sem kunna að vera í reikningum ríkisins. Ríkisreikningur hlýtur að vera andlag þessara tveggja þátta fjárlaga og fjáraukalaga og má ekki lifa sjálfstæðu lífi ef svo má segja óháð eftirliti Alþingis og undirstofnana þess.

Eftir að hafa lesið fjáraukalögin vil ég segja að í þeim er farið að með gát. Hér er ekki endilega verið að fara fram úr efnum sem við ráðum við. Auknar skatttekjur eru upp á 10 milljarða, en útgjöldin um 12,5 milljarðar á rekstrargrunni. Í þeim er verið að bregðast við aðstæðum, bæði er varðar nýja lagasetningu og ófyrirséðar aðstæður. Það ánægjulega er að fjáraukalögin eru að lækka að upphæð frá síðustu árum og hafa í fyrri tíð verið allt of há. Ef ég man rétt námu þau um 17 milljörðum á árinu á undan, en eru nú komin niður í 12 milljarða þannig að við erum á réttri leið. Eins og ég segi almennt séð erum við að fara að með gát þegar kemur að ríkisfjármálunum. Það er vel. Auðvitað eru uppi óskir um að eyða meiru fé, en það er ekki til. Við þurfum að forgangsraða í komandi fjárlagagerð og deila þeim litlu fjárhæðum sem til eru í brýnustu verkefni. Þar hef ég nefnt löggæsluna sem er partur af velferðarþjónustunni. Eins vil ég nefna sérstaklega framhaldsskólana sem ég tel vera komna að mörkum hins þolanlega í rekstri og annað mætti telja.

Almennt vil ég segja að ég hlakka til umræðunnar um fjáraukalögin í hv. fjárlaganefnd á komandi dögum. Við eigum að horfa á þetta plagg gagnrýnum augum. Við eigum að fylgjast vel með því hvernig ríkisvaldið ver fjármunum sínum. Þar eiga allir flokkar að sameinast um að fara eins vel með fjármuni ríkisins, skattborgaranna, og hugsast getur hverju sinni.



[16:16]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég vil þó spyrja hann nokkurra spurninga um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Hv. þingmanni verður tíðrætt um að fjáraukalögin eigi eingöngu að mæta ófyrirséðum útgjöldum að meginstofni til, en þegar maður lítur yfir þær tillögur eða óskir frá ríkisstjórninni til þingsins um aukafjárveitingar þarf ekki að leita lengi til að sjá fjölda þátta sem í raun eru ekkert ófyrirsjáanlegir en kalla engu að síður á útgjöld. Nægir í því sambandi að nefna framlög til heilbrigðisstofnana, 50,3 millj. kr., sem eru húsaleiga til fjögurra heilbrigðisstofnana. Þetta er mál sem við ræddum í fyrrahaust í tengslum við fjárlagagerðina. Menn treystu sér ekki þá til þess að koma því inn í fjárlög en koma núna þessa leiðina með beiðnina, sem mismunar í raun heilbrigðisstofnunum um allt land. Við hljótum að kalla eftir frekari upplýsingum um á hvaða grunni þetta er gert.

Ég rek líka augun í útgjöld til Hagstofunnar og er tiltekin á bls. 90 30,6 millj. kr. hækkun. Hún stafar af IPA-styrkjum sem sú stofnun hefur fengið. Ég hélt raunar að það væri ekki búið að úthluta þeim en engu að síður er ætlunin að koma á fót 25 starfsstöðvum. Hefur hv. þingmaður hugmyndir um það hvar þessi 25 störf verða? Hv. þingmaður hefur talað mjög fyrir því að störf á vegum hins opinbera verði sett niður einhvers staðar annars staðar en akkúrat í miðju Stjórnarráðsins sjálfs í Reykjavík. Það væri fróðlegt að heyra afstöðu hv. varaformanns fjárlaganefndar til þessara þátta.



[16:18]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég met þessa gagnrýni sem kemur úr munni hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, félaga míns í hv. fjárlaganefnd. Auðvitað er það svo að ef maður lúsles fjáraukalagafrumvarpið er enn þá að finna þar ýmis atriði, við getum sagt smávægileg, sem eiga ef til vill ekkert endilega heima í því og fjárlaganefnd hlýtur að taka til umfjöllunar. Ég rak til dæmis augun í 20 millj. kr. kostnað af gjöf Listasafns Sigurjóns Ólafssonar til Listasafns Íslands. Það má vel velta því fyrir sér af hverju það er þarna inni. Er það ófyrirséð? Algjörlega. Er það á mörkunum? Þegar þetta er lesið yfir finnur maður auðvitað nokkur dæmi sem eru á mörkum þess ófyrirséða og eiga að heita afleiðingar af nýrri lagasetningu, þar á meðal þingsályktunum sem við samþykkjum hverju sinni.

Ég tel það verkefni fjárlaganefndar að skoða þetta af heilindum og málefnalega. Það á að vera verkefni fjárlaganefndar að sækjast eftir röksemdum í þessa veru. Hv. þingmaður nefndi nokkur dæmi og ég nefndi eitt dæmi til viðbótar sem þarf að færa rök fyrir. Ef út í það er farið má líka nefna þær rösku 9 millj. kr. sem er verið að leggja fram til Íslenskrar ættleiðingar. Eru þar um ófyrirséð útgjöld að ræða? Auðvitað er það líka á mörkunum, en þar er verið að bregðast við samningi sem hefur ekki náðst að klára. Þegar fjáraukalagafrumvarpið er lúslesið er þar vitaskuld að finna nokkur dæmi sem við þurfum að skoða betur og fjalla um í fjárlaganefnd, en það er einmitt hlutverk hennar.



[16:20]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svör hv. þingmanns svo langt sem þau ná. Ég vil fylgja þessu aðeins betur eftir. Ég held að við dettum oft niður í baunatalningu í þessum málum. Öll þessi mál sem maður hefur verið að nefna eru ekki stóru dæmin. Þetta eru tiltölulega lágar fjárhæðir sem koma sér mjög vel víða og eru bráðnauðsynlegar sums staðar. Stóru dæmin eru allt annars staðar. Ég nefni dæmi af hækkun á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins um rúm 5% á milli ára. Ég nefni vaxtakostnaðinn sem er tekinn á grunni ákvörðunar um að endurfjármagna tiltekin lán og hefði að mínu mati mátt bíða, en látum það liggja milli hluta. Það eru ýmsir svona þættir sem lúta meðal annars að ákveðnum gildum í grunnþjónustu landsins sem við eigum að sjálfsögðu að reyna að greiða fyrir. Það skilur ekki á milli feigs og ófeigs þótt orðið sé við þeim beiðnum. Ég nefni bara dæmi sem ég veit að hv. þingmanni er mjög hugleikið sem er rekstur öldrunarþjónustu á Vopnafirði. Hvernig ætla menn að fara í það? Sú stofnun sem heldur utan um þann rekstur er sett í þá stöðu, á grundvelli vilyrða sem gefin voru af ráðuneytinu um svokallaðan frystan halla, að fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti. Þetta er glórulaust. Það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir alla að taka á þáttum eins og þessum og henda þeim ekki eilíflega á undan sér. Menn verða þá að taka ákvörðun um að leggja bara niður stofnunina ef vilji stendur til þess.

Mér finnst oft og tíðum vanta fyrirmæli frá stjórnvaldinu sem hefur yfirumsjón og yfirábyrgðina á tiltekinni þjónustu, til þeirra stjórnenda sem engjast um vegna skertra fjárveitinga, eðlilega. Það verða að koma fyrirmæli vegna þess að þeir eru bundnir af lögum um að framfylgja tilteknum þjónustuþáttum. Þannig að ég inni hv. þingmann eftir því hvernig menn ætla að taka þótt ekki væri nema á þeim vilyrðum sem gefin voru um að frysta hallann.



[16:22]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta verða viðfangsefni fjárlaganefndar á næstu dögum eftir því sem við fjöllum meira um fjáraukalagafrumvarpið.

Almennt vil ég segja að það er ákveðinn kerfisleikur, mér liggur við að kalla það því nafni, í gangi þegar framkvæmdarvaldið beinir þeim tilmælum til löggjafans að hann hagi sér á ákveðinn hátt svo það gagnist stofnunum hringinn í kringum landið. Ég hef stundum nefnt það Sundabúðarheilkennið þegar þingmönnum er komið í þá stöðu að þeir eigi að redda ágreiningi forstöðumanna stofnana við framkvæmdarvaldið í Reykjavík.

Ég hef talað fyrir þeirri heildarlausn, ef heildarlausn má kalla, að betur sé farið með opinbert fé nær viðskiptavininum eða skjólstæðingnum í nærsamfélaginu. Ég er mjög gáttaður á því, eftir setu mína á þingi, hvernig fjármunum ríkisins er í mörgum tilvikum miðstýrt úr einu póstnúmeri í stað þess að verkefnum sé útvistað og þau færð nær heim í hérað. Ég nefni til dæmis málaflokk fatlaðs fólks sem ég tel ótvírætt að hafi verið betur komið fyrir hjá sveitarfélögunum en ríkinu. Þar er farið betur með fé og fólk. Ég tel að þegar þessar einingar, sem er á margan hátt stýrt af framkvæmdarvaldinu í Reykjavík, fá að reka sig sjálfar að öllu leyti án afskipta hins miðlæga og miðstýrða (Forseti hringir.) ríkisvalds sé almennt betur farið með ríkisfé og opinbert fé. Þá þurfum við ekki að stinga ýmsum tillögum inn í plagg eins og þessi til að redda hlutunum afturvirkt og framvirkt.



[16:24]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns deilum við þeirri skoðun að æskilegt sé að hafa öll útgjöld í fjárlögum eða fjáraukalögum og breytingarnar séu sem minnstar sem koma inn í ríkisreikning í lokafjárlögum.

Til að árétta það vil ég nefna að á árinu 2011 var gert ráð fyrir því í fjárlögum og fjáraukalögum að hallinn á ríkissjóði væri rúmir 60 milljarðar. Niðurstaða ríkisreiknings varð hins vegar 90 milljarðar, eða 27 milljörðum meiri. Á árinu 2010 var munurinn 23 milljarðar. Það er mikilvægt að forðast þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem er varaformaður hv. fjárlaganefndar, út í bréf sem við fengum frá Íbúðalánasjóði. Í því benda forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs á mikilvægi þess að auka eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs um 11–12 milljarða að lágmarki til þess að Íbúðalánasjóður uppfylli 5% viðmiðið eins og lög og reglur Fjármálaeftirlitsins gera ráð fyrir. Ef þetta verður ekki gert í fjáraukalögum fyrir árið 2012 eins og beiðni hefur komið um þýðir það að lánshæfismat sjóðsins mun lækka. Þetta kemur fram í bréfinu og forsvarsmenn sjóðsins ítreka þetta með því að vitna í lánshæfisfyrirtækin sem gáfu út nýtt lánshæfismat, dagsett 28. júlí. Þá sögðu þau að ef viðmiðið yrði ekki uppfyllt mundi lánshæfismat sjóðsins lækka. Það þýðir í raun og veru að fjárhagsþörf Íbúðalánasjóðs mun aukast ef ekki verður brugðist við núna. Að bregðast ekki við núna heldur setja þetta hugsanlega inn í lokafjárlög eins og gert er ráð fyrir í fjáraukalögunum er að mínu mati mjög vafasöm aðferðafræði.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann um afstöðu hans til þessa máls.



[16:27]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem við þurfum að taka fyrir í hv. fjárlaganefnd. Vandi Íbúðalánasjóðs er mikill. Við höfum verið upplýst um hann í hv. fjárlaganefnd og þar sér ekki fyrir endann á. Íbúðalánasjóður er í eðli sínu félagsleg aðgerð. Það er mjög umhugsunarvert að ríkið skuli halda úti sjóði nú um stundir sem getur ef til vill ekki keppt við viðskiptabankana í húsnæðislánum. Þá er hann ekki mjög félagslegur. Málefni Íbúðalánasjóðs hljóta því að koma til rækilegrar umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd og á Alþingi á komandi vikum.

Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar hvað varðar lánshæfismatið sem getur verið keðjuverkandi og haft alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Það er málefni sem við hljótum að taka til umfjöllunar. Það má spyrja sig og ég spurði mig að því við lestur þessa frumvarps til fjáraukalaga hvort einhvers konar aukafjárveiting til Íbúðalánasjóðs ætti heima í fjáraukalögum. Það finnst mér koma til greina, vegna þess að ef maður á að vera fullkomlega ærlegur erum við að ýta vandanum á undan okkur, það verður bara að segjast eins og er. Auðvitað er það afleiðing af einu stóru efnahagshruni. Við höfum átt í erfiðleikum með að taka á öllum þáttum þess, en hlutur Íbúðalánasjóðs liggur óbættur hjá garði og það er ekki tekið á vanda hans í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég spyr mig hvort við séum að ýta vandanum á undan okkur. Ég svara þeirri spurningu játandi.



[16:29]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og virði það mikils þegar menn svara hreint og beint eins og hv. þingmaður gerði. Ég held að það sé nefnilega þannig að vandi Íbúðalánasjóðs hafi bara aukist síðan þetta bréf var skrifað í júlí. Í raun er hallarekstur og fjárhagsstaða sjóðsins verri en þegar þetta bréf var skrifað. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að bregðast við enda kemur þessi beiðni Íbúðalánasjóðs til hv. fjárlaganefndar og við tökum hana auðvitað til umfjöllunar. Ég set spurningarmerki við það að alveg frá haustmánuðum 2011 hefur sjóðurinn bent hæstv. velferðarráðherra á þann vanda sem steðjar að sjóðnum.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann um eitt atriði til viðbótar sem kom fram á fundi með innanríkisráðuneytinu í hv. fjárlaganefnd fyrir helgina. Það er sú leiðrétting sem gerð er gagnvart Vegagerðinni og er vegna aukins kostnaðar við snjómokstur og hálkuvarnir og í þeim pakka er einnig kostnaður vegna reksturs Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og fleira. Leiðréttingin sem snýr beint að snjómokstri og hálkuvörnum hljóðar upp á 420 millj. kr. Það kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar að sú fjárveiting er einungis til að núllstilla þann halla sem þegar hefur orðið á árinu 2012. Það þýðir að þegar við förum núna inn í haustið hefur Vegagerðin enga fjármuni til að fara í snjómokstur eða hálkueyðingu. Ég tel nú fullmikla bjartsýni að gera ráð fyrir svo góðu tíðarfari alveg til 1. janúar 2013, það er mjög óraunhæft. Ég tel að það þurfi að bæta Vegagerðinni við á þennan fjárlagalið til að bregðast við þeim aðstæðum sem væntanlega koma upp í haust.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þetta sé ekki skynsamlegt og að í raun sé ekki horfst í augu við ástandið með því að hafa þennan lið á núlli hjá Vegagerðinni í haust.



[16:31]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einmitt verið hugsi vegna þessa liðar í fjárlagagerð hvers tíma, auðvitað hafa menn skorið inn að beini hjá Vegagerðinni rétt eins og öðrum ríkisstofnunum og þá er auðvelt að taka á þessum þætti og láta svo þingmenn kjördæmanna um að væla í fjárlaganefnd og fyrir framkvæmdarvaldinu um að auka hann. Þetta er þessi kerfisleikur sem ég nefndi áðan og hefur verið iðkaður afskaplega lengi. Lausnin er kannski sú að færa þessi verkefni heim í hérað þannig að hver landshluti geti tekið á honum með viðeigandi fjárveitingu og samningi milli ríkis og sveitarfélaga. Það er vonandi framtíðin.

Er þetta ófyrirséður kostnaður? Það má spyrja sig hvort árstíðir Íslands, vetur, vor, sumar og haust, séu ófyrirséðar. Svo er klárlega ekki, þessar árstíðir koma yfir okkur með eðlilegu og reglulegu millibili og við verðum að gera ráð fyrir því að það snjói að vetri til á Íslandi. Það er sumpart ekki gert ráð fyrir því í fjárlagagerð hins opinbera nú um stundir og við sitjum uppi með afleiðingar þess í fjáraukalögum. Auðvitað er þetta eitt dæmi og ágætt að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson taki það út úr vegna þess að við verðum að gera ráð fyrir því í fjárlagagerðinni sjálfri að fé sé varið til snjómoksturs og þeirra innviða sem við gerum ráð fyrir að séu til staðar í samfélagi okkar. Það er jafneðlilegt að leggja vegi og ryðja vegi. Þetta er gagnrýnispunktur sem eðlilegt er að taka á og benda innanríkisráðuneytinu (Forseti hringir.) og stofnunum þess á að laga vegna þess að þetta á ekki heima í fjáraukalögum nema upp komi (Forseti hringir.) einstaklega sérstakar aðstæður. (Gripið fram í.)



[16:33]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil í nokkrum orðum bregðast við því sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson nefndi áðan, fyrst varðandi það í hvaða stöðu þingmenn eru settir um að koma fram með athugasemdir við einstaka liði í fjáraukalögum eða fjárlögum. Það er ekkert óeðlilegt við það að þingmenn kjördæma, hvar svo sem þau eru, hvort heldur það eru Reykjavíkurkjördæmi norður eða suður, Norðausturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi eða Suðurkjördæmi, beri inn við fjárlagagerð eða fjáraukalagagerð athugasemdir sem koma frá þeim sem gerst þekkja til á vettvangi. Ég sé ekkert athugavert við það, ég tel það þvert á móti skyldu þingmanna að vakta slíka umræðu alla þannig að landsmenn njóti sem mests jafnræðis í þeirri þjónustu sem ríkinu er ætlað að sinna.

Við verðum hins vegar að vera fólk til að gæta þess að týna okkur ekki í umræðunni um þessa þætti þegar við erum að ræða fjárlög eða fjáraukalög íslenska ríkisins. Það vill hins vegar oft verða þannig að menn detta í þann forarpytt að fara að nudda hver öðrum upp úr kjördæmapoti og því um líku í stað þess að horfa til heildarmyndarinnar. Þessir þættir eru vissulega þess virði að skoða en við megum ekki gleyma okkur algjörlega við þá.

Ég vek hins vegar athygli á því hversu illa og lélega er mætt við umræðu um þessi fjáraukalög. Hæstv. ráðherra hefur ræktað þessa umræðu mjög vel, ég vil taka það strax fram, en ég nefni sem dæmi að hér hefur ekki sést einn einasti framsóknarmaður í dag. Þeir eru kannski allir að skipta um kjördæmi. [Hlátur í þingsal.] Þessi viðvera ber ekki vott um mikinn áhuga á efninu, það er næstum engin þátttaka í umræðunni. Ég virði hæstv. forseta, hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson, mjög mikils, hann er með eindæmum samviskusamur þingmaður þannig að ég geri engar athugasemdir við hann enda er hann bundinn í forsetastól.

Almennt séð er þátttaka þingmanna í umræðu um fjárlög íslenska ríkisins fremur dapurleg. Það er synd, sérstaklega þegar þess er gætt hversu mikið er undir í þessum efnum. Ég nefndi til dæmis í ræðu minni áðan skuldsetningu ríkissjóðs og við sjáum það ágætlega í greinargerðinni sem liggur fyrir um frumjöfnuðinn og áætlanir um hann að hann er vissulega áætlaður jákvæður á rekstrargrunni upp á 34–35 milljarða. Hann er neikvæður á greiðslugrunni upp á rúma 17 milljarða. Þarna er sveifla á milli sem þarf að fjármagna með einhverjum hætti. Þetta er stóra myndin sem okkur ber að ræða. Okkur ber að takast á við hana. Ég skal fyrstur manna viðurkenna að við erum ekki mjög vel í stakk búin til að greina alla þá þætti í fjárlaganefnd. Um hina þættina sem oftar en ekki verða svo ríkjandi í umræðunni, hvort heldur þeir lúta að snjómokstri hjá Vegagerðinni, heilbrigðisþjónustunni, rekstri einstakra stofnana eða öðru, er full ástæða til að ræða en undir þeim formerkjum að landsmenn allir eigi sama rétt til þjónustu, hvar svo sem þeir búa á landinu, og þess gætt að það sé gert sambærilega. Þess vegna tók ég þetta dæmi sem ég nefndi í andsvari við hv. þingmann áðan, það er verið að bæta fjórum heilbrigðisstofnunum tiltekinn rekstrarþátt, en fjöldi annarra liggur óbættur hjá garði og ég geri athugasemdir við það.

Það liggur fyrir að það er búið að gefa tilteknum stofnunum á sviði heilbrigðisþjónustu vilyrði um að frysta hallann en aðrar hafa fengið skuldabréf sem enginn veit hvar liggur. Svo eru ekki efnd fyrirheitin um að frysta hallann og þá eru stjórnendurnir settir í þá stöðu að þurfa að reka stofnunina með halla og svo standa öll ráðuneytin upp og benda bara á hæstv. fjármálaráðherra. Þau segja að þetta sé allt honum að kenna. En það er ekkert allt honum að kenna, heldur okkur vegna þess að við eigum að taka þessi mál hér upp og gera bragarbót á þeim. Af þeirri ástæðu hef ég kallað eftir þeim upplýsingum sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, varaformaður fjárlaganefndar, þekkir í fjárlaganefnd. Ég veit vegna fyrri starfa að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa aðgang að öllum þessum upplýsingum og vita vel hvað er á ferðinni. Við hinir nefndarmennirnir höfum eðlilega ekki sama greiða aðganginn og þeir hafa og þurfa að hafa í ljósi stöðu sinnar. Það er þó lágmarkskrafa að okkur sé gefið færi á að sinna störfum okkar með sama hætti og hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar eiga kost á.



[16:39]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir aðkomu hans að þeirri málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um fjáraukalögin á háu Alþingi í dag. Ég get tekið undir mörg gagnrýnisatriði sem hann hefur sett fram og auðvitað er enginn sérstakur ágreiningur um þau atriði sem hægt er að laga í fjárlagagerðinni og þegar kemur að fjáraukalögunum. Á margan hátt erum við í grunninn sammála um margar þær leiðir sem hægt er að fara út úr þeim vanda sem við okkur hefur blasað á undanliðnum árum. Við þurfum að taka til í ríkisrekstrinum af skilvirkni og við þurfum að beita stofnanir ríkisins, ráðuneyti og framkvæmdarvaldið í heild sinni miklu meira aðhaldi.

Ég kom að því í ræðu minni fyrr í dag að ef til vill væri hægt að taka á þessum vanda til framtíðar með því að færa aukin verkefni frá hinu miðstýrða og miðlæga ríkiskerfi í Reykjavíkurborg út til sveitarfélaganna með samningum. Það má vera valkvætt hvað suma þætti snertir, svo sem þegar kemur að samlegðaráhrifum heilsugæslunnar og öldrunarþjónustu. Það má skilgreina ákveðin þjónustusvæði eins og gert er í málaflokki fatlaðs fólks þegar kemur að 8 þús. íbúa markinu.

Almennt séð langar mig að heyra frá hv. þingmanni og liðsmanni hv. fjárlaganefndar hvort hann deili með mér þeirri sýn á lausn þessa efnis að þessum fjármunum sem því miður eru af skornum skammti sé að mörgu leyti betur komið meðal landshlutasamtakanna, sveitarfélaga og skilgreindra þjónustusvæða og að þar geti menn (Forseti hringir.) ákveðið betur í nærþjónustuhlutverkinu hvernig eigi að deila fjármunum til íbúa.



[16:41]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Ég get í grunninn alveg tekið undir þá hugsun sem felst í því að á tilteknum sviðum sé vel gerlegt og jafnvel vænlegra til árangurs að flytja hluta af ráðstöfunarfé sem næst vettvangi. Það er afstaða sem ég hef haft lengi varðandi tiltekna þætti. Í því sambandi vil ég nefna færslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Ég hef verið mjög hallur undir það sem þar hefur verið gert, en það eru líka takmörk fyrir því hvað hægt er að gera í þeim efnum, einfaldlega vegna þess að möguleikar svæða, eða sveitarfélaga eftir því hvernig við horfum til þeirra, eru mismiklir til að annast tiltekna þjónustuþætti.

Ef við eigum að gera þetta svona hljótum við fyrst að taka spurninguna um það hvort við eigum að fara að gera upp á milli svæða eða sveitarfélaga. Það er allt önnur umræða, hvernig svo sem við viljum fara til hennar. Það er vel gerlegt að nálgast hana en ég bendi á að stjórnkerfi minni sveitarfélaga er oft og tíðum vanmáttugra til að takast á við mjög flókið regluverk en stærri sveitarfélaga þó að skilvirknin sé oft meiri í smærri sveitarfélögum en stærri. Þetta eru atriði sem yrði að horfa til þegar horft er til þess hvort færa eigi fjárveitingavald þarna út, en grundvallaratriðið varðandi þá spurningu sem hv. þingmaður varpar upp er hvernig skammtað er í fyrstu. Hvaða þjónustuþætti á að dekka með hvaða fjárveitingum? Þar liggur átakapunkturinn og þar verður erfiðast við að eiga. Það hefur aldrei vafist fyrir Íslendingum að eyða þeim krónum sem þeir hafa úr að spila.



[16:43]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar. Við höfum aldrei verið í vandræðum með að eyða krónunni. Þetta er umræða sem við eigum að taka undir þessum lið vegna þess að við þurfum stundum að líta upp úr einstökum skýrslum og skrifum um ríkisfjármálin og horfa til framtíðar og mögulegra lausna í sjónmáli. Ég tek undir með hv. þingmanni, auðvitað er engin einföld lausn á því að flytja stór verkefni frá hinu opinbera, ríkinu í þessu tilviki, til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru mjög misjafnlega í stakk búin til að taka við þeim og þar komum við að kröfunni um sameiningu sveitarfélaga sem sumir eru hallir undir. Kannski erum við samt einfaldlega að tala um samvinnu og aukið samráð milli byggðasvæða. Ég er mjög hallur undir þá skoðun að við eigum að horfa til þeirra byggðasvæða sem eru möguleg hér á landi og færa þeim aukin völd.

Þá kem ég að seinni lið þessarar umræðu sem mig langar að taka aðeins upp úr skýrslum og fjáraukalagafarinu. Í vinnu minni í hv. fjárlaganefnd hefur mér sýnst að þennan margumrædda lýðræðishalla sem oft ber á góma í íslenskum stjórnmálum sé kannski einna mest að finna í þeirri staðreynd að völdin hafa safnast í allt of miklum mæli í miðstýrt bákn á tiltölulega litlu svæði sem hefur miklu meiri völd en hið lýðræðislega umboð. Ég vil einfaldlega segja á mannamáli að hið lokaða embættismannakerfi hefur langtum meiri völd til að úthluta fjármunum og leika stofnanir misjafnlega (Forseti hringir.) milli landshluta og höfuðborgarsvæðisins en endilega hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar sem tala í sölum Alþingis. (Forseti hringir.) Ég bið um örlítil viðbrögð við þessu.



[16:46]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Við erum komin kannski út í aðra umræðu en beinlínis um það frumvarp sem liggur hér fyrir, þó má alveg undir ákveðnu sjónarhorni nálgast málið með þessum hætti. Ég ætla samt að færa svar mitt aðeins inn í umræðuna að því leytinu til að það er rétt að völdum hættir til að þjappast saman. Það er í rauninni eitt sem ræður því öðru fremur — við þekkjum það ágætlega úr íslensku stjórnkerfi og þetta þekkist alls staðar annars staðar — og það er aðgengi og yfirráð yfir upplýsingum. Þeir sem hafa mestu færin til að höndla upplýsingar hafa bestu færin til að ráðstafa og grípa til ráðstafana.

Í þessum efnum varðandi fjáraukalagafrumvarpið gildir alveg nákvæmlega það sama. Meiri hluti fjárlaganefndar hverju sinni hefur betra aðgengi að upplýsingum en stjórnarandstaðan. Þetta er hlutur sem ég vil gjarnan breyta þannig að við stöndum jafnfætis í því hvernig við fjöllum um þessa þætti. Ég heiti á hv. þingmann að leggja sig fram um það að gera breytingar á þessu vegna þess að ég held að það verði öllum til bóta, öllum, ekki bara stjórnarandstöðu eða stjórnarliðum heldur þeim sem þjónustunnar eiga að njóta og ekki síður þeim sem eiga að standa undir þessu með skattgreiðslum sínum í ríkissjóð, að við verðum betur í færum til að greina það hvernig þeim skattpeningum er ráðstafað.

Þetta er hið almenna svar mitt við þeim vangaveltum í andsvari hv. þingmanns sem hann beindi til mín. Ég held að við gætum alveg lagt saman í þetta en það verður samt að verða ákveðin breyting á. Meðan við erum að höndla þessa þætti í svona almennri umræðu ættum við að einbeita okkur að því að byrja fremur smátt og taka til verka varðandi fjáraukalagafrumvarpið og þar sem við vitum að eru brotalamir í þeim tillögum sem þar liggja fyrir frá ríkisstjórn og beita þá afli Alþingis í ljósi þeirra upplýsinga sem það getur sótt sér til að breyta (Forseti hringir.) þeim áherslum sem þar koma fram.



[16:48]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja að fjalla um það sem ég endaði á áðan í ræðu minni þar sem ég náði ekki að fara yfir það vegna tímaskorts en ég var að tala um þá beiðni sem kemur inn í fjáraukalagafrumvarpið og snýr að tónlistarnámi á vegum sveitarfélaga. Í frumvarpinu kemur fram tillaga um að fjármagn verði aukið um 40 milljónir. Það er mjög sérkennilegt því að farið var mjög vandlega yfir það mál. Fulltrúar menntamálaráðuneytisins mættu á fund hjá hv. fjárlaganefnd og svöruðu þar, að mati okkar allra held ég, mjög skilmerkilega þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar. Síðan kemur eftirfarandi texti í frumvarpinu, sem er umhugsunarefni, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Í kjölfar samkomulagsins tóku tónlistarskólarnir mun fleiri nemendur í nám sl. vetur og fjölguðu kennurum umfram það sem gert var ráð fyrir í samkomulaginu.“

Samt sem áður á að bregðast við hallarekstri þessara skóla með því að auka útgjöld ríkisins vegna þess að einhverjir aðrir fara ekki eftir samkomulaginu. Við þetta vakna auðvitað margar spurningar og farið verður yfir það í hv. fjárlaganefnd.

Hér er svo sem hægt að fara yfir marga aðra þætti. Ég fór í andsvörum yfir þá þætti sem ég hef áhyggjur af og snúa til dæmis að snjómokstri og hálkueyðingu Vegagerðarinnar, svokallaðri vetrarþjónustu. Þar er gert ráð fyrir 420 millj. kr. hækkun, sem er í raun og veru bara til þess að núlla ástandið eins og liðurinn er í dag. Það er ekkert svigrúm fyrir Vegagerðina að fara í snjómokstur og hálkueyðingu eða vetrarþjónustu gagnvart fjárlögunum á komandi hausti. Ég held að það sé mjög óraunhæft og óskynsamlegt að gera þetta á þennan hátt.

Síðan er hægt að taka margt til viðbótar. Ég geri athugasemdir við að gert er ráð fyrir 90 millj. kr. fjárveitingu vegna umframútgjalda við byggingu á gestastofu í Vatnajökulsþjóðgarði. Í þeirri beiðni kemur fram að fjárhagsstaða vegna framkvæmda í þjóðgarðinum hafi verið neikvæð um 184 milljónir. Hér er gert ráð fyrir að rétta þurfi þetta af um 90 milljónir en láta síðan þjóðgarðinn að öðru leyti hagræða til þess að ná niður höfuðstólnum, neikvæðum, á næstu tveimur árum.

Nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu 2013 að fara eigi í framkvæmdir fyrir á annað hundrað milljónir í þjóðgarðinum. Þá vaknar sú spurning hvort draga eigi þetta frá með þeim hætti sem hér er gert. Ég er mjög ósáttur við hvernig staðið er að úthlutun fjármagns til einstakra þjóðgarða, en eins og við vitum eru þeir þrír. Það er gert með þeim hætti, og ég sagði það í umræðunni um fjárlagafrumvarpið, að mér finnst eins og sé verið að verðlauna skussana. Þeir sem fara fram úr fá aukið fjármagn en það litla sem er hjá hinum er sogað af þeim.

Ég nefndi sérstaklega þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem hafði fengið í gegnum Umhverfisstofnun, í gegnum svokallaðan gistináttaskatt, smámuni miðað við aðra, þó að það vigti vissulega þungt í uppbyggingunni sem þar hefur átt sér stað. Þá er það þannig að Umhverfisstofnun hefur fengið 22 milljónir af svokölluðum gistináttaskatti til sín. Núna í fjárlögunum fyrir árið 2013 eru teknar 20 milljónir af 22 og færðar beint inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Slík mismunun er náttúrlega algjörlega óþolandi og ólíðandi.

Þess vegna kemur mér það verulega á óvart að lögð skuli vera til 90 millj. kr. fjárveiting vegna umframútgjalda. Í rauninni er kannski ekkert annað hægt að gera. Ég er ekki að segja að raunhæft sé að þjóðgarðurinn nái að vinna þennan halla niður, en það sem endurspeglast síðan í fjárlögum ársins 2013 er auðvitað alveg hreint með ólíkindum.

Síðan vil ég í lokin koma inn á svokallaða endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar sem er 545 milljónir, þar af 400 milljónir miðað við árið 2012. Það staðfestir enn og aftur það sem við höfum rætt í hv. fjárlaganefnd hversu mikilvægt það er að sérlögin gangi ekki framar fjárlögum. Ef við ætlum að halda áfram á þennan hátt, eins og staðfest dæmi blasir hér við, þá munum við aldrei ná tökum á ríkisfjármálunum, það er mitt mat. Ef sérlögin ganga framar fjárlögum er þetta verkefni miklu, miklu erfiðara. Þess vegna er mikilvægt að unnið verði að því í ráðuneytinu í samstarfi við hv. fjárlaganefnd að flytja frumvarp um að færa allar sértekjur og markaðar tekjur inn í ríkissjóð og hafa viðkomandi stofnanir beint á fjárlögum.



[16:53]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til fjáraukalaga. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hversu snemma á ferðinni þetta frumvarp er. Ég man ekki til þess að það hafi nokkurn tímann gerst áður að frumvarp til fjáraukalaga hafi komið svo snemma. Reyndar hef ég margoft lagt það til, hef reyndar sjálfur lagt fram fjáraukalagafrumvarp, að í hvert skipti sem útgjöld ríkisins eru aukin með lögum eða þingsályktunum Alþingis fylgi því jafnframt fjáraukalög, þannig að það liggi strax fyrir hvaða kostnað menn eru að fara út í en það komi svo ekki allt í einni bendu í lok ársins. Sömuleiðis ef eitthvað óvænt gerist, það er að gerast allt árið, það verða eldgos, jarðskjálftar og slíkt, þá sé það metið strax og sett í fjáraukalög. Ég mundi segja að fjáraukalög ættu að koma fjórum sinnum á ári til að menn viti betur.

Það ætti náttúrlega að vera sameiginlegt verkefni allra þingmanna að búa svo um hnútana að fjárlög standist. Það á að vera markmið okkar allra að það gerist. Þess vegna væri ágætt að fá — ég hef ekki séð það í þessu frumvarpi, það má vel vera að það sé einhvers staðar, en ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það hvernig fjárlög síðustu tíu ára hafa þróast í gegnum fjáraukalög og á endanum í ríkisreikningi, hvernig fjárlög hvers árs hafa breyst, hvað hefur aukist og af hverju? Ég hef einhvern veginn grun um það að í vaxandi mæli sé verið að fela ákveðinn vanda og það minnir dálítið á Grikkland. Ég minni til dæmis á að 47 milljarða halli í A-deild LSR er ekki að fara neitt frá okkur. Þeir 47 milljarðar eru þarna, þeir fara ekki neitt, en það þarf að greiða þá einhvern tímann. Og það er alveg eins gott að gera bara grein fyrir því strax að þessi halli er þarna.

Ég vil benda á gífurlegar lánveitingar þar sem ríkið er að taka lán og verið er að veita heimild til þess hérna. Það er mjög gott að það skuli alla vegana vera gert, að veita heimild til lánveitinga. En þetta eru yfir 200 milljarðar, 217 milljarðar nákvæmlega, herra forseti, svo ég sé nú ekki að slengja hérna 17 milljörðum og sleppa þeim. En þetta er meira en milljón á hvern einasta vinnandi mann á landinu og vandanum því velt yfir á framtíðarskattgreiðendur, börnin okkar o.s.frv. Ég vil að menn viti af því og viti til þess.

Svo eru náttúrlega skuldbindingar sem menn hafa lýst yfir að séu tryggar, ég nefni innstæður í bönkum, rúma 2.000 milljarða. Íbúðalánasjóður til dæmis, þar sem menn hafa lýst yfir að hann sé með ríkisábyrgð, á honum er engin ríkisábyrgð vegna þess að geta þarf um það í fjárlögum eða fjáraukalögum að ábyrgð sé á þeim skuldbindingum. Það gerist ekki þegar til stykkisins kemur, þegar einhver ætlar að fara að innheimta hjá hæstv. framtíðarfjármálaráðherra, þá getur hann neitað ef aðstæður eru þannig í þjóðfélaginu, atvinnuleysi mikið og hörmungar, hann getur neitað og sagt: Þetta stendur ekki í fjárlögum eða fjáraukalögum, þess vegna má ég ekki greiða þetta út.

Hæstv. fjármálaráðherra má ekki greiða neitt úr ríkissjóði samkvæmt stjórnarskrá nema það liggi fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég ætla að biðja hæstv. fjármálaráðherra að fara í gegnum það í huga sér hvort hún hafi verið að greiða eitthvað úr ríkissjóði sem ekki er í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það er nefnilega andstætt stjórnarskránni, bara svo hún viti það. Ég hef þá sagt það.

Hér er ýmislegt áhugavert. Ég ætla nú ekki að taka neitt sérstakt fyrir en nefni eftirfarandi: „Í 3. tölulið 3. gr. eru lagðar til breytingar á heimildum til að veita ríkisábyrgð á lántökum aðila sem heimild hafa til lántöku í sérlögum.“ — Ekki sem sagt í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þarna er verið að aðlaga, og það er í sjálfu sér ágætt, en mætti gjarnan gera fyrr, það mætti koma um leið og þessi sérlög væru samþykkt og það liggi fyrir hvernig þetta er. Í fyrsta lagi er lögð til 30 milljarða kr. lækkun vegna Landsvirkjunar en fyrirtækið hefur 60 milljarða lántökuheimild í fjárlögum. Þarna er verið að lækka heimild, það er ágætt, en svo er verið að hækka þessar heimildir mjög víða.

Í 5. gr. er heimild vegna óska Landsvirkjunar um að fá að sameinast Þeistareykjum ehf. Landsvirkjun kaupir sem sagt Þeistareyki ehf. Hér er eftir á verið að fallast á að sameina megi þessi tvö fyrirtæki, annars vegar hlutafélag og hins vegar sameignarfélag. Merkilegt fyrirbæri, Landsvirkjun er ekki hf., er sameignarfélag eins aðila, sem á þá þetta væntanlega með sjálfum sér, sem heitir ríkissjóður.

Á síðu 65 stendur um orlof kennara: „Annars vegar er um að ræða hækkun vegna fjölgunar […] sem mennta- og menningarmálaráðuneytinu láðist að gera ráð fyrir í fjárlögum ársins 2012 í samræmi við samkomulag með kjarasamningi.“ Þar er verið að auka orlof kennara. Það á náttúrlega ekki að líðast að menn gleymi svona hlutum. Þetta er eitt af því sem við hv. þingmenn þurfum að vekja athygli hv. Alþingis á að við fjárlög eiga menn að vera búnir að fara í gegnum allar skuldbindingar sem gætu hugsanlega komið upp vegna kjarasamninga og annars slíks.

Ég nefni af tilviljun Matvælastofnun. Óskað er eftir 38 millj. kr. fjárveitingu vegna biðlauna fimm héraðsdýralækna. Það hlýtur að hafa legið fyrir þegar menn fóru í fjárlögin á sínum tíma, það er nú ekki langt síðan. Reyndar var gerð breyting á lögum og þá ætti að fylgja þeim lögum fjáraukalög ef leiðir af lögum ákveðin útgjöld.

Svo er verið að auka fjárveitingar til innanríkisráðuneytisins um ríflega 2 milljarða. Þar er óskað eftir 240 millj. kr. fjárheimild til að standa undir útgjöldum við framkvæmd kosningar vegna tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, sem á að greiða atkvæði um eftir 25 daga. Ég var ekki búinn að fá bæklinginn minn til að ræða það í sérstakri umræðu. En um leið og samþykkt var að fara í þá kosningu átti að liggja fyrir að mínu mati breyting á fjárlögum eða fjáraukalögum þar sem þetta hefði komið fram, 240 milljónir. Þetta er nokkuð dýr skoðanakönnun, herra forseti, bara til að geta þess.

Svo er talað um títtnefnda Íslenska ættleiðingu. Það eru útgjöld sem hljóta að hafa legið fyrir að þyrfti.

Svo er hérna undarleg beiðni undir liðnum Ýmis framlög innanríkisráðuneytis. „Óskað er eftir 7 millj. kr. fjárheimild vegna uppgjörs á aðkeyptri þjónustu frá Saga Capital vegna verkefna sem lutu að fjármögnun vegaframkvæmda við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Vaðlaheiðargöng.“ Þarna er sem sagt einhver aðili — ég bendi á Vaðlaheiðargöng, það er stikkorð — sem hefur verið að aðstoða Vaðlaheiðargöng ehf., held ég það heiti, við að fá fjármögnun til vegaframkvæmdanna eða ganganna. Ég hugsa að þetta sé meginhluti þess. Hér er verið að óska eftir fjárheimild til að greiða reikninginn upp á 7 millj. kr. Það væri nú gaman að fá að vita eitthvað meira um þetta af því að það tengist Vaðlaheiðargöngunum og hver það var sem fór út í þennan kostnað og hvort það hafi þá ekki átt að greiðast með hlutafé. Það er yfirleitt þannig þegar verið er að stofna fyrirtæki.

Svo eru hælisleitendur. Ég fellst hins vegar á að það eru óviss og óvænt útgjöld. Menn geta ekki vitað hversu margir hælisleitendur koma og þeir kosta töluvert. Hér er farið út í aukafjárveitingu vegna þess.

Fjáraukalög eiga að byggjast á tvennu, annars vegar á óvæntum útgjöldum sem koma allt í einu, jarðskjálftar, eldgos, óveður, fjárskaði eða eitthvað slíkt, eða vegna lagasetningar Alþingis. Þá ætti að fylgja þeim lögum breyting á fjárlögum, þ.e. fjáraukalög.

Svo er gert ráð fyrir um 6,5 milljarða kr. lækkun á rekstrarumfangi hjá Vegagerðinni. Mér skilst að þetta sé einhver tilflutningur.

Hjá velferðarráðuneytinu — ég fer nú hratt yfir sögu af því að tími minn er naumur — er gert ráð fyrir að fjárheimildir verði auknar um 3,1 milljarð. Þar er fjölgun bótaþega umfram forsendur fjárlaga, eitthvað sem menn kannski eiga erfitt með að meta í byrjun árs og hefði kannski mátt koma fyrr, ég segi það ekki, en er kannski eðlilegur þáttur í fjáraukalögum.

Gert er ráð fyrir að útgjöld lífeyristrygginga hækki um 1,5 milljarða og byggir tillagan á endurmati á ætluðum útgjöldum ársins. Þarna hafa menn sem sagt misreiknað sig í áætlun. Svo langt sem minni mitt nær eru svoleiðis misreikningar yfirleitt alltaf til aukningar á gjöldum, ekki í hina áttina eins og ætti að geta gerst einstaka sinnum ef þetta væri metið á raunhæfan hátt, þá gæti það sveiflast í báðar áttir. En bótaþegum fjölgar yfirleitt alltaf umfram forsendur fjárlaga.

Tími minn líður hratt. Vinnumálastofnun. Þar er verkefnið Vinnandi vegur sem ég held að sé ágætt verkefni en þar er farið fram á aukafjárveitingu. Um leið og ríkisstjórnin samþykkti það 13. desember 2011, sem sagt áður en fjárlögin voru samþykkt fyrir 2012, hefði þetta átt að liggja fyrir. Greinilega er um vanmat á því að ræða.

Svo er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 1,8 milljarða þrátt fyrir allt tal um minnkandi atvinnuleysi, þannig að ég held að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar þurfi að skoða þetta sérstaklega.

Farið er fram á „hækkun á fjárframlögum til að mæta kostnaði vegna vinnumarkaðsúrræða. Í forsendum fjárlaga 2012“ — og nú kemur aftur sama setningin — „láðist velferðarráðuneytinu að gera ráð fyrir útgjöldum vegna almennra starfsþjálfunarsamninga, reynsluráðninga, átaksverkefna o.fl. en áætlað er að þau verði um 300 millj. kr. á árinu“. Þetta gleymdist. Við, bæði þingmenn og ráðuneyti, ættum að reyna að vanda okkur enn meira við þetta svo við þurfum ekki að horfa upp á slíkar setningar.

Það er fleira hérna. Ábyrgðasjóður launa. Þar er gert ráð fyrir að fjárheimild lækki, sem er líka ánægjulegt að sjá einstaka sinnum.

Hjá fjármálaráðuneytinu er gert ráð fyrir að fjárheimild hækki um 1,7 milljarða. Þar er til dæmis talað um eftirlaunarétt starfsmanna B-deildar LSR og LH sem hafa hafið töku lífeyris. Þarna er ríkið að greiða verðbætur á lífeyri hjá þeim sem eru komnir á lífeyri hjá B-deildinni og ekkert tekið á því. Ég gleymdi því áðan, herra forseti, þegar ég talaði um stóru skuldbindingarnar, að það vantar að sjálfsögðu 400 milljarða hjá B-deild LSR. Það er heldur ekki ríkisábyrgð á því, bara svo ég hafi sagt það.

Ég held að menn ættu að fara að vinda sér í það að fara að taka á öllum þessum skuldbindingum svo við verðum ekki voðalega hissa þegar við lendum í sömu stöðu og Grikkir eftir einhverja áratugi, nema náttúrlega að hagvöxtur vænkist og blómgist og Sjálfstæðisflokkurinn taki við, þá gæti verið að þetta lagaðist allt saman.

Hjá iðnaðarráðuneytinu er gert ráð fyrir að fjárheimild verði aukin um 1,6 milljarða. Þar er stærsti hlutinn vegna endurgreiðslu kvikmyndagerðar og í sjálfu sér er það óvænt en kemur báðum megin hryggjar, þannig að það skiptir ekki stóru máli í niðurstöðu fjáraukalaganna.

Lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði aukin. Það er kannski eðlilegt að einhverju leyti vegna þess að menn geta ekki metið gengið fram í tímann. En aftur mætti maður búast við því að þetta kæmi oftar í fjáraukalögum, þ.e. að fjáraukalög yrðu flutt oftar.

Svo er göngubrú yfir Markarfljót í samræmi við þingsályktun. Sá kostnaðarauki, 5 millj. kr., hefði átt að fylgja með þeirri þingsályktun.

Ég held ég sé búinn að fara í gegnum flestallt. Ég kemst ekki yfir mikið meira, ég held að þetta sé orðið gott. En meginmarkmiðið er að ég þakka fyrir frumvarp sem er snemma komið fram og líka það að (Forseti hringir.) menn reyni að halda sig við fjárlögin alveg til enda.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.