141. löggjafarþing — 10. fundur
 25. september 2012.
skattar og gjöld, 1. umræða.
stjfrv., 101. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 101.

[17:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Um er að ræða tillögur að breytingum á skattalögum sem eru af ólíkum toga en flestar varða framkvæmdaleg atriði. Frumvarpið var lagt fram á vorþingi 2012 en hlaut ekki afgreiðslu þá. Nú er það lagt fram að nýju með tveimur breytingum. Annars vegar hefur ákvæði um varanlega álagningu umhverfis- og auðlindaskatta (kolefnisgjald, raforkuskattur, skattur á heitt vatn) verið fellt brott í þessu frumvarpi, en samkvæmt forsendum komandi fjárlagafrumvarps verður það ákvæði hluti af frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hins vegar hefur ákvæði um breytta skilgreiningu á tóbaki verið bætt við frumvarpið með það að markmiði að tóbaksgjald verði einungis lagt á vörur sem innihalda í raun tóbak en ekki tóbakslíki.

Þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu má skipta í sex meginflokka.

Í fyrsta lagi eru breytingar á tekjuskattslögum sem skipta má í fjóra þætti. Í fyrsta þætti eru lagðar til breytingar á ákvæði vaxtabóta í þá veru að bætt er við ákvæði er kveður á um það að þegar einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skuli ákvarða því vaxtabætur hér á landi eftir þeim reglum sem gilda um hjón, enda liggi fyrir upplýsingar um tekjur beggja. Í öðrum þætti er lögð til frádráttarheimild til handa þeim sem hafa tekjur af leigu á íbúðarhúsnæði og bera takmarkaða skattskyldu hér á landi til samræmis við þá sem hafa ótakmarkaða skattskyldu. Í þriðja þætti er um að ræða tillögu er varðar skýrari tilvísun til ákvæða laganna vegna fyrirframgreiðslu sérstaks fjársýsluskatts. Loks er með breytingum á bráðabirgðaákvæði XL lagt til að endurreikningur á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga utan atvinnurekstrar, í kjölfar dóms Hæstaréttar, hafi engin skattaleg áhrif og leiði ekki til endurákvörðunar vaxtabóta.

Í öðru lagi er um að ræða breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem lagt er til að skýrar verði kveðið á um skyldu milligönguaðila til að halda eftir staðgreiðslu.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, þannig að skylt verði að skila sundurliðuðum skilagreinum við skil á staðgreiðslu skatts frá og með 1. janúar 2013.

Í fjórða lagi er lögð til sú breyting á lögum um tryggingagjald að gjalddaga gjaldsins verði breytt úr 1. ágúst í 1. nóvember í tilviki lögaðila, en það er í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur.

Í fimmta lagi er lögð til sú breyting á lögum um erfðafjárskatt að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að tilkynna erfingjum um lok yfirferðar á erfðafjárskattsskýrslu.

Í sjötta lagi er lagt til að skilgreiningu tóbaks í lögum um gjald af áfengi og tóbaki verði breytt þannig að tóbaksgjald falli einungis á vörur sem innihalda í raun tóbak en ekki tóbakslíki.

Þá er rétt að fara nokkrum orðum um áhrif tillagna frumvarpsins á útgjöld og tekjur ríkissjóðs. Gera má ráð fyrir því að með breytingu á bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga, bráðabirgðaákvæði XL, kunni ríkissjóður að verða af lækkun vaxtabóta sem að óbreyttum lögum yrðu ákvarðaðar. Upplýsingar um líklegar fjárhæðir liggja þó ekki fyrir.

Að öðru leyti er ekki talið að breytingarnar muni hafa teljandi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum, umfram það sem þegar hefur verið gerð grein fyrir.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[17:13]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir frumvarpið. Ég er með tvær spurningar:

Segjum að hjón séu skattskyld í tveimur löndum og þau lönd séu með sambærilegar reglur og við um vaxtabætur og barnabætur. Mundu hjónin fá barnabætur í báðum löndunum? Mundu þau fá vaxtabætur í báðum löndunum? Ef hjónin hafa til dæmis vaxtagjöld í Þýskalandi, telja þeir vextir til vaxtabóta hér á Íslandi?

Í 3. gr. er athyglisvert atriði. Hæstiréttur felldi þann dóm að gengistryggð lán væru ólögmæt og að miða ætti við krónur. Síðan felldi Hæstiréttur þann dóm að ekki skyldi bara miða við krónur heldur skyldi miða vextina við upprunalegu vexti sem miðuðust við allt aðra mynt. Maður sem tók lán í svissneskum frönkum, með 1 eða 2% vöxtum, á að borga 1 eða 2% vexti ofan á krónur. Mjög athyglisvert. Þetta þýðir að þessi lán eru að meginhluta til gefin miðað við sambærileg lán sem fólk er með á íbúðunum sínum.

Til viðbótar við þessa gjöf eiga menn nú að geta haldið vaxtabótunum sem þeir fengu þegar þeir greiddu verðbætur eða gengismun á þessi lán sem var umtalsverður. Það á sem sagt að bæta um betur og ekki bara gefa þeim lánið sjálft, heldur fá þeir líka vaxtafrádráttinn sem þeir fengu út af óheyrilega háu gengisálagi á lánin sem þeir fá endurgreitt.



[17:15]
fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessar breytingar hafa allar verið bornar saman við það sem gerist í öðrum löndum og ég geri ráð fyrir að tvísköttunarsamningar séu þarna undir þó að ég hafi ekki sjálf unnið þessar tillögur. Sérfræðingar ráðuneytisins unnu þær og þarna undir eru tvísköttunarsamningar sem Ísland er aðili að. Einnig er EES-samningurinn undir þegar það á við.

Hv. þingmaður talar um gjöf. Það má auðvitað túlka það þannig í einhverjum tilfellum en það sem hér er lagt til varðandi vaxtabætur er svipað og var gert þegar endurmatið var gert hér áður. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt var hann að fjalla um það. Hins vegar geri ég ráð fyrir því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd ígrundi þetta allt saman, kalli til sín sérfræðingana og fari betur yfir þau atriði sem hv. þingmaður nefndi hér og ég hef ekki getað svarað nægilega vel.



[17:17]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Óvíða eru bótalög sett inn í skattalög en það er gert hér á landi með þeim furðulega hætti að skattstjóri borgar barnabætur. Ég hygg að tvísköttunarsamningar taki ekki á svona fyrirbæri. Sömuleiðis eru vaxtabætur húsnæðisbætur, það er sambærilegt, og þær eru settar inn í skattalög. Þess vegna hygg ég að tvísköttunarsamningar taki ekki á þessu en það verður athyglisvert þegar við förum að ræða þetta í hv. nefnd.

Það sem ég átti við um 3. gr. var að fólk sem tók lán í svissneskum frönkum með 1–2% vöxtum, við skulum segja 2% vöxtum, færði væntanlega gengiskostnaðinn til gjalda. Afborganirnar hækkuðu um helming vegna falls krónunnar og fólk borgaði kannski 200 þús. kr. í afborgun, vexti og gengishækkun. Þar af voru kannski 100 þús. kr. í gengishækkun og það kom til frádráttar inn í vaxtabætur. Síðan er það alveg fellt niður og eftir standa mjög lágir vextir sem ég held að þekkist ekki í Íslandssögunni. Þeir eru til í útlöndum náttúrlega þar sem er mikið framboð af fjármagni og mikill sparnaður. Þeir hafa ekki þekkst á Íslandi þar sem er mikil eftirspurn eftir lánum en lítið framboð af sparnaði. Hér er lagt til að þessar vaxtabætur haldist af greiðslu sem menn höfðu greitt en áttu ekki að greiða og fá endurgreitt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.