141. löggjafarþing — 10. fundur
 25. september 2012.
sjúkratryggingar og lyfjalög, 2. umræða.
stjfrv., 145. mál (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði, frestun). — Þskj. 145, nál. 171.

[18:32]
Frsm. velfn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, frá meiri hluta velferðarnefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur, Einar Magnússon og Hrönn Ottósdóttur frá velferðarráðuneytinu og Benedikt Benediktsson og Katrínu Hjörleifsdóttur frá Sjúkratryggingum Íslands.

Hinn 1. júní 2012 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum með síðari breytingum. Með lögunum er kveðið á um nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði auk þess sem gerðar voru breytingar á lyfjalögum til að skjóta styrkari lagastoðum undir starfrækslu Sjúkratrygginga Íslands á lyfjagreiðslugrunni.

Þá voru einnig gerðar breytingar á ákvæðum um lyfjagagnagrunn landlæknis til að tryggja læknum aðgang að lyfjaupplýsingum um sjúklinga sína til að geta rakið lyfjasögu þeirra og einnig til að tryggja sjúklingum aðgang að upplýsingum um sjálfa sig í lyfjagagnagrunni. Lögin öðlast gildi 1. október næstkomandi.

Með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er lagt til að þeim hluta laganna sem varðar nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði og lyfjagreiðslugrunn Sjúkratrygginga Íslands verði frestað til 1. janúar 2013. Önnur ákvæði laganna taki eftir sem áður gildi 1. október næstkomandi.

Fyrir nefndinni kom fram að þegar frumvarpið varð að lögum hófst vinna í velferðarráðuneytinu við undirbúning að innleiðingu nýja kerfisins og var sérstakur stýrihópur settur á laggirnar vegna málsins. Fljótlega varð þó ljóst að um nauman tíma væri að ræða fyrir svo umfangsmikla kerfisbreytingu. Tímafrekasti hlutinn er greiningar- og hönnunarvinna vegna tölvukerfa Sjúkratrygginga Íslands og prófanir á nýja kerfinu en ætla má að þær taki allt að þrjá mánuði. Þó kom fram að hægt sé að áfangaskipta vinnunni þannig að mögulegt verði að taka kerfið í notkun um næstu áramót en þá væru aðeins allra nauðsynlegustu verkþættir teknir fyrir þangað til. Þá er einnig fram undan viðamikið kynningarstarf en kynna þarf nýja kerfið og breytingar á reglugerðum sem það hefur í för með sér fyrir heilbrigðisstarfsfólki og almenningi og þá er einnig töluverð vinna fyrir höndum í apótekum landsins við að tengjast nýja greiðslugrunninum og uppfæra kerfi vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins.

Við umfjöllun velferðarnefndar um frumvarp það er varð að lögum nr. 45/2012 var lögð til sú breyting á gildistöku frumvarpsins að henni yrði frestað til 1. október 2012, en upphafleg gildistaka var 1. janúar 2012. Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar kom fram að gefa þyrfti nægilegt rými til að undirbúa nýtt greiðsluþátttökukerfi og að nýta þyrfti tímann vel fram að gildistöku til undirbúnings og kynningarstarfs. Meiri hluti nefndarinnar telur það miður að vinna vegna kerfisbreytingarinnar hafi ekki gengið hraðar en telur þó að mikilvægt sé að kerfisbreytingin gangi því aðeins í gegn að hið nýja kerfi verði tilbúið til notkunar. Þar sem samkomulag er um það hjá velferðarráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands að taka kerfið í notkun 1. janúar og að nauðsynlegri vinnu til þess verði þá lokið leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit rita auk þeirrar sem hér stendur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Amal Tamimi og Árni Þór Sigurðsson.

Hæstv. forseti. Auk þessa tel ég mikilvægt að reglugerðir þær sem frumvarpinu og lögunum fylgja séu uppfærðar og þannig búið um hnútana að starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands geti hafið kynningu á lögunum eins og þau verða 1. janúar og hvernig áætlað er að taka hið nýja kerfi í gagnið. Það er töluverð vinna, eins og hér hefur komið fram, að innleiða þetta nýja, breytta lyfjagreiðslukerfi en það er mikið í húfi fyrir alla að vinnan gangi vel og að innleiðing nýja kerfisins gangi vel fyrir sig.

Það er til mikilla hagsbóta fyrir sjúklinga að af þessum breytingum verði og eftir þeim er beðið. Því tel ég að velferðarráðuneytið verði líka að leggja sitt af mörkum þannig að það efni sem þarf til kynningar og liggur hjá ráðuneytinu verði sem fyrst tilbúið þannig að starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands geti hafið þá kynningarvinnu sem þarf og að kynningarefni verði sem fyrst tilbúið.

Um þetta mætti hafa fleiri orð og lengri ræðu og fara frekar inn í efnið en hér er verið að fresta hluta af þeim lögum sem voru sett í lög 1. júní á þessu ári.



[18:39]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir framsöguna á þessu nefndaráliti. Í 1. umr. var þetta mál rætt lítillega. Hér er eingöngu um að ræða breytingu á dagsetningu og menn gefa því kannski ekki mikið vægi, en við 1. umr. var, að ég held, bara einn nefndarmaður viðstaddur og ég saknaði þess að þeir voru ekki fleiri. Mér finnst að nefndarmenn eigi að fylgja þeim málum sem fara til nefndarinnar þannig að umræðan rati inn í nefndina.

Nú vill svo til að sú umræða sem hér fór fram endurspeglast ekkert í nefndarálitinu. Í þeirri umræðu ræddi ég um að fyrstu mánuðina eftir að kerfið tekur gildi 1. janúar mun ríkið greiða mjög lítið, og eiginlega ekki neitt í mörgum tilfellum. Það þýðir að sjúklingarnir munu borga mikið, allir sem einn, jafnvel fólk sem er nýbúið að borga mikið í október, nóvember og desember. Fólk sem er búið að bera tiltölulega þunga byrði af lyfjakostnaði, til dæmis langveikt fólk, fyrir utan náttúrlega lækniskostnað, kemur inn í janúarmánuð og þá er bara ekkert greitt af lyfjunum, fólk borgar þau að fullu upp að ákveðnu marki: 44 þús. kr. fyrir öryrkja, aldraða og börn og 66 þús. kr. fyrir aðra og svo er lítill hluti af verðinu umfram þessi mörk. Ég sakna þess að nefndin skuli ekki hafa tekið neitt mið af þeirri umræðu. Maður veltir því fyrir sér, hæstv. forseti, hvort einhver þörf sé á 1. umr. þegar þetta er svona, það fer fram ákveðin umræða, nefndarmenn eru ekki mættir, síðan kemur nefndarálit og umræðan endurspeglast ekki í einni einustu setningu í því.

Ég legg til að hæstv. forseti beri þetta upp í forsætisnefnd og brýni fyrir nefndum að nefndarmenn sitji þau mál sem fara til nefndanna.



[18:41]
Frsm. velfn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg réttmæt ábending hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, hér var engin eða mjög lítil umræða við framlagningu frumvarpsins. Ég tel að ástæðan hafi verið sú að nefndarmönnum, ekki bara á síðastliðnu vori heldur á fyrri stigum í vinnu nefndarinnar, hafi verið mjög vel kunnugt um það hvernig þetta nýja kerfi verður innleitt.

Það er alveg sama á hvaða tímapunkti kerfið verður innleitt, fyrsta tímabilið verður greiðslubyrði upp að ákveðnu marki hjá öllum, með þeim undantekningum sem eru þó í lögunum sem taka gildi 1. janúar næstkomandi. Það verða eftir sem áður ákveðin lyf undanþegin og kostnaðurinn mun ekki lenda á sjúklingum. En það er undantekning. Í raun og veru er alveg sama hvenær kerfið verður innleitt; það er miðað við ákveðnar dagsetningar frá því að einstaklingur byrjar að kaupa lyf, hvort sem það er í janúar eða febrúar eða hvenær sem það er og eftir það tikka tólf mánuðir. Hjá öryrkjum, öldruðum og börnum er ákveðið hámark, 44 þús. kr. og 66 þús. kr. sem á eftir að uppfæra, hjá þeim sem eru fullorðnir og frískir að því leytinu til að þeir hafa ekki örorkuskírteini. Við þessar upphæðir miðast hámarksgreiðsla og eftir það lækkar þátttakan.

Það er í rauninni alveg sama hvenær kerfið byrjar, (Forseti hringir.) ég tel að nefndarmönnum hafi verið kunnugt um það og því hafi umræðan verið lítil sem engin.



[18:43]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þátttöku þingmanna í umræðum þá vorum við að ræða áðan fjáraukalagafrumvarpið, eins og herra forseti veit. Það var sáralítil umræða um það. Þar var verið að ræða um að auka skuldir ríkisins um 100 milljarða og þótti nú ekki umræðu vert.

Hér er nefndarálit sem tekur á þessum vanda. Auðvitað hefðu menn getað tekið inn síðustu þrjá mánuðina og reynslu af þeim þegar kerfið fer í gang. Það getur vel verið að hv. nefnd geti rætt það í 3. umr. að tekið sé inn í myndina það sem fólk hefur borið af lyfjakostnaði, t.d. í október, nóvember og desember, og greiðslurnar sem koma í janúar og febrúar mildaðar út frá því. Sumt fólk er með stöðugan og mikinn lyfjakostnað en aðrir sleppa alveg. Fyrir utan það sem ég hef líka nefnt í þessu sambandi, að fyrst að hér er ekki verið að taka á öllum kostnaði við heilbrigðisþjónustu geta sumir verið í dag með lítinn og engan lyfjakostnað en hins vegar mjög háan kostnað vegna sérfræðinga og út af alls kyns myndatökum og slíku. Enn aðrir eru bara með lyfjakostnað og þeir eru betur settir með þetta frumvarp.

Ég er ansi hræddur um að meðan menn taka ekki allt heilbrigðiskerfið undir í kostnaði verði kostnaðinum alltaf misskipt og illa misskipt. Ég fellst á þetta frumvarp en mér finnst að í upphafi ætti að taka mið af kostnaði fólks áður en kerfið byrjar þannig að ríkissjóður sé ekki alveg stikkfrír í janúar og febrúar.



[18:45]
Frsm. velfn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ábending frá hv. þingmanni sem vert er að hafa í huga. Með þessari kerfisbreytingu er ekki í heildina verið að auka greiðsluþátttöku sjúklinga heldur er verið að breyta dreifingunni. Það er verið að stuðla að því að greiðsluþátttaka ríkisins sé meiri hjá þeim sem hafa þungan og mikinn lyfjakostnað en þeim sem eru tiltölulega frískir. Þannig er verið að breyta kerfinu.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri mjög æskilegt að við hefðum á sama tíma getað komið þessu kerfi yfir á alla heilbrigðisþjónustu. Það verður vonandi fljótlega. Þessi frestun á gildistökunni er vegna tæknilegra örðugleika. Það er flókið að koma þessu á og því er gefinn þriggja mánaða frestur til viðbótar til að undirbúa yfirtökuna á nýja kerfinu, aðallega vegna vinnu við hugbúnað og kynningu.

Það er mín trú að þegar búið verður að slípa þetta til og reyna og kerfið farið að virka vel og menn sjá til hvaða þátta þarf að taka tillit varðandi lyfin verði auðveldara að yfirfæra kerfið á aðra heilbrigðisþjónustu með svipuðum hætti. En það er framtíðin og það er pólitíkin og um það munum við hugsanlega takast á í vetur eða á næstu þingum.