141. löggjafarþing — 11. fundur
 26. september 2012.
störf þingsins.

[15:01]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. „Quis custodiet ipsos custodes?“ spurðu Rómverjar í gamla daga. „Hver gætir gæslumannanna?“

Þeir sem eiga að passa, hver passar þá? spurðu þeir og ekki vanþörf á því, að þótt stjórnkerfið í Róm hafi verið gott fyrir sinn tíma, skilvirkt og traust, var það ekki alveg laust við klíentisma, spillingu og skyldleikaáhrif af ýmsu tagi.

Nú er svo komið á þinginu að við hljótum að spyrja sömu spurningar, „Quis custodiet ipsos custodes?“, vegna þess hvernig Ríkisendurskoðun hefur hegðað sér, hún sem við erum vön að treysta til þeirra verka sem henni eru falin og hún tekur að sér. Það vakna spurningar um trúverðugleika hennar í því máli sem hér hefur verið til umræðu undanfarna daga. Annars vegar vegna þess að hún lýkur ekki málinu. Hún er árum saman með málið í vörslu sinni. Svo er hitt að bæði fyrrverandi og núverandi ríkisendurskoðendur hafa ákveðin tengsl við lykilmenn í málinu, því miður.

Það þýðir ekki að það eigi að fara með hörku og skammast yfir því, en það býr auðvitað til spurningu um vanhæfi. Þá er að minna á að í máli sem upp kom fyrir tæpu ári, í nóvember í fyrra, kom líka upp spurning um vanhæfi ríkisendurskoðanda þegar nefnd í þessu þingi fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún skilaði skýrslu um Vaðlaheiðargöng. Þá svaraði Ríkisendurskoðun svo að fyrir utan að hún væri ekki lögskyld að gera það tengdist Sveinn Arason ríkisendurskoðandi alþingismanni og stjórnarmanni í Vaðlaheiðargöngum ehf. fjölskylduböndum og væri því vanhæfur til að sinna verkefninu. Þá vöknuðu einnig spurningar um áhrif vanhæfis Sveins á hæfi annarra starfsmanna stofnunarinnar og sagði í frétt Ríkisútvarpsins um málið 21. nóvember, með leyfi forseta, „í ljósi reglna um undirmannsvanhæfi“. (Forseti hringir.)

Forseti þarf að kanna þetta og svara okkur því hvað hann ætlar að gera, hvernig hann ætlar að leiðbeina ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðun því að sá eini (Forseti hringir.) sem getur gætt þessa gæslumanns er forseti Alþingis.



[15:04]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og aðrir þingmenn er ég sleginn af þeim fréttum sem við höfum fengið af endurskoðun ríkisendurskoðanda á þeim tölvukerfum sem um er að ræða og menn þekkja. Þetta er tvennt, annars vegar er það endurskoðunin sjálf sem hefur brugðist og það þarf að taka á henni og hins vegar eru það tölvukerfin sem landsmenn treysta. Mjög margir fá greidd launin sín, bætur og annað með þessum tölvukerfum, tollar og skattar eru innheimtir með þessum kerfum og það er mjög slæmt ef menn bera ekki fyllsta traust til þeirra.

Þess vegna skora ég á alla hv. þingmenn að líta til framtíðar, vinna saman að átaki í því að koma þessum kerfum í það horf að ekki séu á þeim neinir annmarkar. Auðvitað eru alltaf gallar í tölvukerfum, annað er útilokað, en við þurfum að fækka þeim eins og hægt er og koma á þannig kerfum að landsmenn geti treyst þeim. Ég skora á alla þingmenn að vinna saman að því að þessi kerfi verði löguð.

Svo er það með traust okkar á ríkisendurskoðanda. Fyrri ræðumaður spurði: Hver gætir hliðanna ef menn geta ekki treyst vörðunum? Við þurfum að vinna vel og vandlega að því að byggja aftur upp traust milli okkar og varðanna og svo milli okkar og þjóðarinnar þannig að ég skora á alla hv. þingmenn að taka höndum saman um að vinna að þessum tveim verkefnum, koma með almennilegt tölvukerfi sem allir geta treyst, jafnt þeir sem borga skatta og tolla og fá laun greidd og annað slíkt, og síðan að bæta eftirlitið. Þar treysti ég á frú forseta Alþingis.



[15:06]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er margt í máli Ríkisendurskoðunar og innleiðingar Oracle-kerfisins sem vekur áhyggjur og undrun. Okkur í Samfylkingunni er málið skylt vegna þess að skýrsluna sem hér um ræðir má rekja til fyrirspurnar sem hæstv. forsætisráðherra, þáverandi óbreyttur alþingismaður, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði fram árið 2003. Í framhaldi af því kom fram skýrslubeiðni frá Samfylkingunni og nú virðist afrakstur þeirrar fyrirspurnar vera að koma fram í dagsljósið, níu árum síðar, vonum seinna.

Það sem vekur áhyggjur í þessu máli eru annars vegar skýrslan sjálf og hins vegar viðbrögð ríkisendurskoðanda. Viðbrögðin við uppljóstruninni, það að ætla að snúa sér til lögreglu með málið, eru áhyggjuefni. Það hvernig vísað er til almannaheilla er áhyggjuefni því að auðvitað er það leyndin sjálf og inntak skýrslunnar sem er ógnun við almannaheill en ekki það að sagt sé frá því. Það er ósamkvæmni í yfirlýsingum og afstöðu ríkisendurskoðanda nú og áður, t.d. varðandi vanhæfi eins og hér var farið yfir áðan, og ekki síst það að skýrsludrögin sjálf, ófullbúin og óhæf til birtingar eins og því er lýst af Ríkisendurskoðun, skuli liggja hjá Fjársýslunni til óformlegrar umsagnar áður en gengið er frá skýrslunni. Það vekur verulegar spurningar og áhyggjur í mínum huga.

Eftirlitshlutverk Alþingis er líka mikið umhugsunarefni í þessu því að lögum samkvæmt er Alþingi eini sanni eftirlitsaðilinn með Ríkisendurskoðun. Við hljótum að spyrja okkur núna hvaða áhöld og tæki við höfum raunverulega til að rækja það eftirlitshlutverk. (Forseti hringir.) Við þurfum augljóslega að bæta úr því eins og sakir standa og (Forseti hringir.) það hlýtur að vera sjálfsögð krafa, eins og sakir standa, að við fáum þessa skýrslu núna fullbúna á (Forseti hringir.) skömmum tíma til að Alþingi geti fjallað um hana með málefnalegum hætti og brugðist við í framhaldinu.



[15:09]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.



[15:09]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því og vil vekja athygli á að í gær var opnaður vefur sem heitir thjodaratkvaedi.is og að nú er kominn út kynningarbæklingur sá sem Alþingi gefur út til að fólk geti búið sig undir hin merku tímamót sem verða 20. október þegar fólkið í landinu getur greitt atkvæði um það hvort það vilji að frumvarp sem lagt verður fram á Alþingi um breytingar á nýrri stjórnarskrá verði byggt á tillögum stjórnlagaráðs.

Þetta eru tímamót og vissulega hafa margir allt á hornum sér varðandi þá aðferð sem hér er notuð, en ég held að það sé vegna þess að í gegnum árin hefur orðið til í landinu hópur fólks sem telur sig einhverra hluta vegna betur til þess fallinn að ráða ráðum okkar og hafa vit fyrir okkur en við getum gert öll í sameiningu — eins og við gerum 20. október. Vel má vera að fólk hafi þessar hugmyndir vegna embætta sinna, starfa eða einhverra annarra eiginleika sem það telur sig hafa í meira mæli en annað fólk. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt í kjölfar þeirra þjóðfélagslegu hamfara sem við höfum gengið í gegnum að hrista ærlega upp í þessum valdahlutföllum í þjóðfélaginu. Nú er tækifærið fyrir fólk að sýna hug sinn til tillagnanna sem stjórnlagaráðið leggur til sem byggðar eru á tillögum þjóðfundarins sem 950 manns tóku þátt í. Allt fólk hefur nú tækifæri, ekki einungis einhverjir útvaldir og sjálfskipaðir.

Spurningarnar fimm sem fylgja meginspurningunni fela í sér mjög róttækar breytingar á stjórnarháttum okkar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður því hvort þessar róttæku breytingar verða lagðar fram í frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi um breytingu á stjórnarskrá. Þeir sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni (Forseti hringir.) segja hug sinn, þeir sem ekki mæta láta aðra ákveða fyrir sig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:11]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil enn gera að umfjöllunarefni ástandið á lækningatækjum á Landspítalanum og vitna í orð Björns Zoëga forstjóra þegar hann talar um að það þurfi að endurnýja tæki fyrir 2–3 milljarða á næstu tveimur árum til að sleppa fyrir horn. Bráðalistinn sem þarf að kaupa eftir er upp á 1 milljarð.

Öryggi sjúklinga er ógnað. Björn Zoëga sagði að spítalinn væri á mjög fínni línu hvað öryggi varðar en það væri stutt í að öryggi væri ógnað.

Líftími tækja er almennt talinn vera um sex ár en hann er nær tíu árum hjá okkur núna. Ég sagði í umræðunni um þetta mál sem var til sérstakrar umræðu við hæstv. velferðarráðherra á mánudaginn að það ætti ekki að vera mikið vandamál að leysa þetta. Nú vil ég beina orðum mínum til hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur sem er í velferðarnefnd og fyrrverandi varaformaður þar. Ég sagði í ræðu minni að það ætti ekki að vera vandamál að leysa þetta miðað við það sem þessi ríkisstjórn hefur sett fram um fjárfestingarhugmyndir sínar fyrir næsta ár. Það er undarlegt að sjá að í þessari fjárfestingaráætlun er ekki stafkrókur um fjárfestingu í þessum mikilvæga málaflokki og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála þeim áherslum sem þar koma fram, hvort ekki megi til dæmis fyrir næsta ár fresta atriðum eins og grænum fjárfestingarsjóði upp á 1 milljarð, netríkinu Íslandi upp á 200 milljónir, grænkun fyrirtækja, því að mála öll fyrirtæki græn, 500 milljónir, Húsi íslenskra fræða upp á 800 milljónir. Þetta eru samtals 2.500 milljónir og eru þó bara teknir út liðir sem eru á þessari fjárfestingaráætlun á næsta ári. Væri okkur ekki nær að taka þær upphæðir sem ríkisstjórnin ætlar að setja í þessi verkefni og setja þær í að vinna bragarbót á (Forseti hringir.) þessum alvarlegu málum?

Ábyrgð Alþingis er mikil í þessu máli. Hæstv. ráðherra sagði í umræðunni að nú væri málið í höndum þingsins. (Forseti hringir.) Það var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að hann hafi orðið undir í ríkisstjórninni með áherslur sínar við gerð fjárfestingaráætlunarinnar (Forseti hringir.) og nú langar mig að fá að heyra viðbrögð hv. þingmanns.



[15:14]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Auðvitað vildum við gjarnan geta uppfyllt þarfir Landspítala – Háskólasjúkrahúss fyrir nýjungar og tæki en við vitum að það er ekki til fjármagn til þess. Við erum nefnilega að glíma við gamlan vanda og nýjan, þannig er staðan.

Að frumkvæði velferðarráðherra hefur nú verið kallað eftir áætlun um endurnýjun tækjabúnaðar til margra ára og hún sett inn í heilbrigðisáætlun sem á að endurskoða á tveggja ára fresti þannig að búið er að setja málið í markvisst og faglegt ferli sem ég held að sé mjög til hins góða. Að sjálfsögðu vantar fjármagn og þingmaðurinn hefur greinilega lagt sig fram um að leita að öllu sem hefur lýsingarorðið „grænt“ í fjárfestingaráætluninni og vill gjarnan fella það út — (Gripið fram í.) og eitt og eitt verkefni þar fyrir utan. Við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að mörg þau verkefni sem hv. þingmaður nefndi eru atvinnuskapandi og ég veit að þingmanninum eru þau mál mjög hugstæð. Því megum við ekki gleyma.

Ég held að það sem skipti nú máli sé að við tökum öll höndum saman um að afla fjármagns og finna fjármagn til að við getum endurnýjað tækjabúnað, ekki bara á Landspítalanum heldur einnig á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og öðrum heilbrigðisstofnunum. Það er víðar en á Landspítalanum sem þarf að fara að endurnýja búnað.

Það er dýrt að vera fátækur, við vitum það alveg, en mér finnst að við megum ekki gleyma því að það er enn dýrara að vera ríkur og nískur á velferðarmál í mörg ár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:16]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil fjalla hér um í tengslum við nýlega uppljóstrun um skýrslu Ríkisendurskoðunar um mannauðs- og fjárhaldskerfi ríkisins og þarf að huga að sérstaklega, þ.e. útboðið sjálft, framúrkeyrslan og þeir fjármunir sem um ræðir. Svo er auðvitað staða uppljóstrara sem hefur komist í hámæli í þessari umræðu allri, rannsókn Ríkisendurskoðunar og svo kerfið sjálft sem var keypt og tekið í notkun, öryggi þess og gæði. Ég hóf í morgun undirbúning að tillögugerð um sjálfstæða rannsókn þessa máls en það veltur auðvitað á því hvernig tekið verður á því innan Ríkisendurskoðunar hversu langt sú tillögugerð nær og að sjálfsögðu ákvörðunum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem þarf að fjalla frekar um þetta mál.

Ég vil líka geta þess að frá síðasta vetri hef ég unnið ásamt sjálfstæðri rannsóknastofnun við Háskólann í Melbourne í Ástralíu að tillögu að lögum um vernd uppljóstrara sem byggir á rannsóknum á því hvernig þeirri lagasetningu er háttað víðs vegar um heiminn og í ólíkum löndum. Það er gríðarlega mikilvægt að menn séu með sérstaklega tiltekið ákvæði í lögum um vernd þeirra. Í fjölmiðlalögum sem við samþykktum á síðasta ári, 25. gr. ef ég man rétt, var fjallað um vernd heimildarmanna, sem er mikilvægt ákvæði, en það þarf líka sérstaklega að geta þess og taka til þess að í kerfinu þarf að gera ráð fyrir uppljóstrurum sem á ensku hafa verið kallaðir „whistle blowers“. Það er eðlilegt að starfsmenn opinberra stofnana geri grein fyrir því þegar eitthvað óeðlilegt á sér stað innan stofnunar. (Forseti hringir.) Það þarf að tryggja réttarstöðu þeirra í lögum. (Gripið fram í.)



[15:18]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í umræðuna um þessi drög að skýrslu frá Ríkisendurskoðun um Oracle-fjárhags- og mannauðskerfið. Þessi drög draga upp svarta mynd af þeim vinnubrögðum sem tíðkuðust við fjárlagagerðina á þessum árum og hvernig Alþingi var í raun og veru markvisst haldið í myrkri um raunverulegt umfang þessa verks. Ef marka má þessi skýrsludrög og reyndar svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur virðist sem Alþingi hafi í raun verið blekkt í vinnu við fjárlögin 2001 í því skyni að villa um fyrir væntanlegum þátttakendum í útboði um umrætt hugbúnaðarkerfi.

Þetta mál er mjög margslungið og þáttur Ríkisendurskoðunar í því afar viðkvæmur og alvarlegur í ljósi þess mikla trúnaðarsambands sem þarf að vera milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar í því að tryggja að Alþingi hafi þarna sterkt tæki til að rækja eftirlitshlutverk sitt. Það er algjörlega óskiljanlegt í ljósi þeirra alvarlegu ávirðinga um framgöngu Fjársýslunnar og fjármálaráðuneytisins sem koma fram í skýrsludrögunum að skýrslan sé ekki enn komin fram tæpum áratug síðar. Vinnan við hana hófst árið 2003. Það er með hreinum ólíkindum að þær ávirðingar sem þarna koma fram gefi stofnuninni ekki tilefni til flöggunar gagnvart þinginu því að þetta er mikilvægasta tækið sem Alþingi hefur til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Ég tek sömuleiðis undir með hv. þm. Róberti Marshall og vara við því að menn falli í þá gryfju að fara að skjóta sendiboðann í þessu máli. Þeir sendiboðar gæta ríkra almannahagsmuna í að tryggja að mikilvægar upplýsingar um meðferð opinbers fjár komist til almennings. (Forseti hringir.) Við þurfum þvert á móti að tryggja að vernd heimildarmanna og vernd uppljóstrara verði enn þá ríkari í framtíðinni (Forseti hringir.) en núna er. (Gripið fram í: Akkúrat.)



[15:20]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á stöðu mála í milliríkjadeilunni við Norðmenn og Evrópusambandið vegna makrílveiðanna. Þau merku tíðindi áttu sér stað í gær á fundi ráðherraráðs um refsireglur vegna markrílveiða að hvorki Danir né Þjóðverjar treystu sér til að styðja tillögu um almennar refsiaðgerðir vegna deilunnar. Aukinheldur skiluðu Danir inn ítarlegri bókun þar sem þeir áskilja sér rétt til að vísa aðgerðum sem snúa að Færeyjum, og þær gilda að sjálfsögðu um Ísland líka, til Evrópudómstólsins komi til þess að þeim verði beitt í þessari deilu.

Þetta eru mikilsverð tíðindi og mikið vopn í hendur Íslendinga og Færeyinga í þeirri hörðu milliríkjadeilu sem nú er uppi við Norðmenn og Evrópusambandið. Núna er að sjálfsögðu eitthvert mikilvægasta og stærsta verkefni stjórnvalda að leysa þá deilu enda skipta hagsmunirnir milljarðatugum og miklu meiri fjármunum lengra inn í framtíðina litið. Auðvitað er mjög brýnt að Norðmenn og Evrópusambandið slái af óraunhæfum og fráleitum kröfum sínum og mæti réttmætum kröfum Íslendinga og Færeyinga í þessu máli.

Reglurnar sem voru samþykktar, og Danir og Þjóðverjar sátu hjá og Danir bókuðu sérstaklega við þær, eru vissulega almenns eðlis og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á eftir að ákveða hvort og með hvaða hætti þeim verður nokkurn tímann beitt. Það er talið að einu heimildirnar sem þeir geti beitt án þess að brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindingar, þar á meðal viðskiptareglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sé að beita löndunarbanni á makrílveiðiskip, lengra sé ekki hægt að ganga. Það er hins vegar mjög mikilvægt að Danir hafi lagt fram þessa bókun og slær mjög á samstöðu þjóðanna sem við eigum í þessari deilu við um að beita Íslendinga hörðum refsiaðgerðum. Þetta bætir mjög stöðu (Forseti hringir.) Íslendinga og Færeyinga í þessari hörðu og mikilvægu milliríkjadeilu.



[15:23]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég ætla að bæta aðeins í umræðuna um það mál sem hefur verið mikið til umræðu í fjölmiðlum síðustu tvo sólarhringana, þ.e. skýrsludrög Ríkisendurskoðunar um upplýsingakerfi ríkisins. Menn hafa farið mikinn í þessari umræðu, eðlilega, vegna þess að þetta er mjög alvarlegt mál og hægt að nálgast það með ýmsum hætti en ég vil þó leggja áherslu á að ef ég leita eftir samhljómi í því hvernig alþingismenn hafa tjáð sig um þetta heyrist mér við vera nokkuð sammála um að vinnubrögðin séu til mikils skaða, bæði fyrir stjórnsýsluna hjá okkur og einnig fyrir Alþingi.

Í sumum ræðum er talað um að Alþingi hafi verið blekkt. Það kann vel að vera. Ég vil þó nefna að oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa þingmenn bent á það og hvatt til þess að framkvæmdarvaldið taki þessi mál til athugunar. Það er ekki lengra síðan en í nefndaráliti sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd í desember 2009, sem við lögðum fram með fjárlögum ársins 2010, sem við lögðum fram tillögu um að heildarkostnaður við upplýsingakerfin yrði tekinn út og gerðar ráðstafanir til að lækka þetta. Ég bendi á að núverandi stjórnvöld hafa farið með lyklavöldin í fjármálaráðuneytinu í hartnær fjögur ár, frá 1. febrúar 2009. Fýsískur yfirmaður þessara mála úti í stjórnsýslunni er fjársýslustjóri. Hans næsti yfirmaður er fjármálaráðherra Íslands.



[15:24]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna orða hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar áðan um að menn hefðu verið handvaldir og útvaldir í að semja hér stjórnarskrá er það einmitt þannig að örfáir handvaldir og útvaldir sömdu þær spurningar sem á að leggja fyrir 20. október. Það voru nokkrir handvaldir og útvaldir sem ákváðu um hvað ætti að spyrja, það komu ekki allir að því.

Frú forseti. Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar undanfarið kjörtímabil hafa að sjálfsögðu verið mjög skaðlegar eins og flestir viðurkenna nema kannski fulltrúar stjórnarflokkanna. Nú á að hækka skatta á ferðaþjónustu og rjúfa samkomulag sem gert var við stóriðjuna um raforkuskatt, a.m.k. samkvæmt fjárlögum, og áhrifin af því að ætla að hækka skatta á ferðaþjónustuna eru strax farin að gera vart við sig.

Ég er með í höndum tölvupóst frá fyrirtæki sem var að aðstoða einstaklinga við hótelbyggingu norður í landi og þar segir, með leyfi forseta:

„Sæll og takk fyrir þetta. Þetta er góð kynning hjá ykkur að mörgu leyti en meðan óvissa ríkir um þau rekstrarskilyrði sem hótelinu eru sett með nýjasta útspili fjármálaráðherra eru öll svona verkefni í biðstöðu. Þeir fjárfestar sem þarna var um að ræða og þeir sjóðir sem að þessu koma halda að sér höndum vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið eða stjórnarflokkarnir að setja þessa atvinnugrein og vaxtarmöguleika hennar í fullkomið uppnám þannig að þeir sem ætluðu sér að framkvæma, byggja ný gistiheimili eða stækka við eða breyta“ — ég sé að einhverjum þingmönnum þykir sárt að sitja undir þessu en þetta er samt svona — „þá er það þannig að þeir hafa ekki þá kosti og möguleika sem þeir höfðu fyrir nokkrum mánuðum til þess að byggja sig upp.“

Annað sem skiptir máli, frú forseti, er að ef þetta verður ekki tekið út eða gefin yfirlýsing á næstu vikum verða þessir aðilar (Forseti hringir.) í vanda með að bóka og ná utan um rekstur sinn fyrir næsta ár.



[15:27]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu Ríkisendurskoðunar og innleiðingu á fjárhagskerfi fyrir ríkið. Þáttur þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið ræddur hér en vert er að hafa líka í huga að árið 2003 lögðu þingmenn Samfylkingar fram frumvarp þar sem fjallað var um vernd til handa starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almennings. Þetta mál snertir það beint. Ég tel hins vegar að með svörunum um að þann þátt eigi að skoða sérstaklega sé verið að drepa málinu á dreif. Í raun og veru snýst þetta um eftirfarandi:

Hvernig var staðið að útboðinu og þarfagreiningu í framhaldi af því? Hvernig var staðið að innleiðingu og gæðum kerfisins sjálfs? Hver er ábyrgð fjármálaráðuneytisins og fjárveitingavaldsins frá árinu 2001? Hver er skýringin á vinnulagi Ríkisendurskoðunar frá því að fyrirspurn barst úr Alþingi? Hver er staða eftirlitshlutverks Alþingis gagnvart stofnuninni sjálfri?

Ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að tvennt verði gert, í fyrsta lagi að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kalli hið fyrsta eftir skýrslunni sem er til í drögum og að málið verði tekið fyrir hvað snertir efnisþætti málsins, innleiðinguna, fjárveitingavaldið o.s.frv. á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Hitt sem þarf einnig að skoða á vettvangi sömu nefndar er: Hver er staða Ríkisendurskoðunar? Af hverju stóð Ríkisendurskoðun svona að málum? Hver er trúverðugleiki stofnunarinnar, mundi ég vilja sagt hafa, og hver er staða hennar heilt yfir?

Svo um leið: Hver eiga samskipti stofnunarinnar og Alþingis að vera í framhaldinu?

Það eru tvö atriði sem þarf að fara í hið allra fyrsta, klára skýrsluna og ljúka efnisskoðun á málinu og skoða svo í heild samskipti og stöðu Ríkisendurskoðunar.



[15:29]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í framhaldi af þeim orðum sem hér hafa fallið um stöðu Ríkisendurskoðunar og fjárhags- og bókhaldskerfi ríkisins segja að ég er fyllilega sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram um þá meginþætti sem þetta mál snýst um. Ég vara mjög við því að menn geri það að höfuðefni í umræðunni að upplýsingunum hafi verið komið á framfæri við almenning. Þær áttu sannarlega erindi við þjóðina þótt vitaskuld þurfi Ríkisendurskoðun að hugleiða það í sínum innri ferli hvernig á því stendur að hlutir geti farið út með þessum hætti. Það er samt ekki aðalatriði þessa máls.

Ég vil líka segja að ég tek eftir því í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæði í Kastljósi og eins hér í dag, að hann reynir — ég verð að segja eins og ég skil það — að velta málinu yfir á núverandi stjórnvöld með því að vísa í orð í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd frá árinu 2009 eða 2010. Ég tel að það sé ekki ferð til fjár að gera það vegna þess að þetta mál á sér miklu lengri aðdraganda og snýst um grundvallarþætti, m.a. samskipti Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Hér reynir auðvitað á Alþingi og ekki síst forseta og forsætisnefnd með hvaða hætti verður brugðist við gagnvart Ríkisendurskoðun.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að ljúka rannsókn á þessu máli en ég er ekki sannfærður um að það sé trúverðugt að hún haldi áfram í höndum Ríkisendurskoðunar. Ég vil þess vegna velta upp þeirri hugmynd að málið verði tekið úr höndum Ríkisendurskoðunar og sett til óháðra aðila til að ljúka rannsókn á því og skila skýrslu til Alþingis. Síðan þarf Alþingi að sjálfsögðu að velta fyrir sér hvort sá trúverðugleiki og trúnaður sem þarf að vera á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar sé enn til staðar.



[15:31]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil gera að umtalsefni nýútkomna skýrslu KPMG um innanlandsflug á Íslandi. Mjög sláandi upplýsingar koma fram í skýrslunni sem rétt er að Alþingi taki til umfjöllunar, til að mynda það að fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni til Keflavíkur yrði það neikvætt fyrir útflutningsfyrirtæki landsins sem starfa á landsbyggðinni. Það mundi hækka umtalsvert rekstrarkostnað margra fyrirtækja þar. Það yrði erfiðara að reka menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir og annað á landsbyggðinni vegna þess að nánd flugvallarins við Reykjavík auðveldar þessum stofnunum að sækja fagmenn, hún auðveldar líka fólki að koma suður til rannsókna o.fl. Í ljós kom að 85% þeirra sem spurðir voru í könnun um málið mundu fljúga mun sjaldnar en þeir gera í dag fari flugvöllurinn af höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur.

Það sem er mest sláandi er þegar komið er inn á heilbrigðismál og sjúkraflug. Á síðasta ári voru um 500 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur, eða um 460 flug á ári. Haft er eftir lækni í skýrslunni að í nokkrum tilfellum hefði það kostað mannslíf ef Reykjavíkurflugvöllur hefði ekki verið þar sem hann er og ef flytja hefði þurft fólk með sjúkraflugi til Keflavíkur. Sá ágæti læknir endar mál sitt á þessum nótum: Þetta er ekki bara tölfræði heldur líka fólk.

Ég held að sé brýnt í þessu máli að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni, Framsóknarflokkurinn hefur lagt það til og staðið mjög fast á því. Ég held að það sé mjög brýnt að Alþingi taki þetta mál til umfjöllunar og höggvi á hnútinn, að við tryggjum það sameiginlega að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Þetta er mál allra (Forseti hringir.) en ekki einstakra sveitarfélaga.



[15:33]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir sagði að það væri dýrt að vera fátækur. Það er alveg rétt og verið er að búa til áætlun sem síðan á að fara að skoða, það kom fram hjá hæstv. velferðarráðherra í umræðunni fyrr í vikunni. Áætlunin er til, það er til bráðalisti hjá Landspítalanum sem er upp á um 1 milljarð. Það er bráðalisti, tæki sem þarf að kaupa strax til að hættuástand skapist ekki. Síðan er farið yfir í hefðbundna gagnrýni og sagt að ég sé á móti öllu grænu af því að ég taldi upp þætti í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og fjallaði um forgangsröðun hennar, þessarar norrænu velferðarstjórnar, í fjárfestingu á næstu þremur árum. Ég taldi upp grænan fjárfestingarsjóð upp á 1 milljarð og grænkun fyrirtækja, sem ég hef ekki fengið skýringu á hvað þýðir, upp á 500 milljónir og netríkið Ísland, 200 milljónir. Hv. þingmaður taldi þetta vera atvinnuskapandi fjárfestingar. Það er líka hægt að tala um Hús íslenskra fræða upp á vel á annan milljarð, það er hægt að nefna fjölmörg verkefni í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu þrjú árin sem ég vil flokka mörg hver sem gæluverkefni. (Gripið fram í.) Ég er ekki að gera lítið úr þessum verkefnum en þau eru gæluverkefni.

Ég spurði hvort hér væri forgangsraðað rétt og hvort hv. þingmaður væri sammála forgangsröðuninni. Já, það er ekki hægt að skilja annað en að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna telji þetta vera rétta forgangsröðun (Forseti hringir.) á fjármunum ríkisins. Ég taldi upp í ræðu minni fyrr í vikunni bara (Forseti hringir.) fjárfestingar í liði sem allir mega bíða við erfiðar aðstæður, upp á 4,4 milljarða, (Forseti hringir.) 4.400 millj. kr. Hér erum við að tala um að setja þurfi inn (Forseti hringir.) 2–3 milljarða á næstu tveimur árum til að sæmilega gott öryggi geti verið á helstu heilbrigðisstofnun landsins.