141. löggjafarþing — 13. fundur
 27. september 2012.
fækkun starfa.

[10:31]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Að undanförnu hefur verið rætt um stöðuna á vinnumarkaði hér á þinginu og virðulegur forsætisráðherra hefur talað um að störfum hafi fjölgað. Undir stefnuræðu forsætisráðherra var til dæmis talað um að störfum hefði fjölgað um 4.600 á þessu ári. Því miður kemur þetta ekki heim og saman við þær opinberu tölur sem við höfum úr að spila til að meta stöðuna á vinnumarkaði. Samkvæmt opinberum tölum sjáum við ekki að störfum sé að fjölga í landinu. Það sem meira er, þessar ítrekuðu yfirlýsingar forsætisráðherra hafa kallað fram viðbrögð aðila vinnumarkaðarins. Þannig hafa til dæmis Samtök atvinnulífsins talað um dapurlegar niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar og bent á að störf hafi ekki verið færri síðan 2005. Þau hjá samtökunum tala um langan lista vanefnda stjórnvalda vegna kjarasamninga.

Hið sama gildir um ASÍ. Forseti ASÍ ítrekaði nýlega að störfum á Íslandi væri ekki að fjölga og miðstjórn ASÍ krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi standi við gefin loforð. Samiðn hefur líka nýlega ályktað um þessi mál og harmar vanefndir ríkisstjórnarinnar varðandi fjárfestingar en þær eru auðvitað grundvöllur þess að hér fari hagvöxtur af stað og að ný störf verði til.

Mig langar til að biðja hæstv. forsætisráðherra að bregðast við þessum ályktunum og þeim ábendingum sem borist hafa frá þeim sem treyst hafa á samstarf við ríkisstjórnina um sköpun nýrra starfa. Úr þeirra röðum heyrðist bara ein rödd og hún er þessi: Nýju störfin hafa ekki orðið til og ríkisstjórnin hefur ekki staðið við sinn hlut í því að efla fjárfestingu í landinu sem er grundvöllur þess að ný störf verði til. Hvernig vill hæstv. forsætisráðherra bregðast við þessari umræðu og þeirri staðreynd að samkvæmt mælingum hafa störf ekki verið færri síðan 2005?



[10:34]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að aðilar vinnumarkaðarins byggja allan sinn málflutning á slæmum niðurstöðum könnunar Hagstofunnar frá því í ágúst. Það gefur ekki rétta mynd af stöðunni vegna þess að sú könnun, ágústkönnunin, sker sig mjög úr og þarf að skoða með tilliti til skekkjumarka. Ef litið væri til dæmis á mánuðinn á undan, júlí, voru tölurnar allt aðrar, þá var talan 4.600 í nýjum störfum.

Staðreyndin er sú að allar vísbendingar gefa til kynna að atvinnulífið sé að taka við sér og störfum að fjölga — nema ágústniðurstaða Hagstofunnar. Ég held að í stað þess að við deilum um þetta í ræðustól eða í blöðum ættum við að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins og fara yfir þessar tölur til að menn séu ekki að tala út og suður í þessu máli. Á því eru skýringar eins og ég nefni varðandi þessar ágústtölur.

Rauntölur Vinnumálastofnunar um fjölda atvinnulausra eru viðvarandi, þ.e. atvinnuleysið er 1,5–1,9 prósentustigum minna í ár en í fyrra. Allar vísbendingar um aukin umsvif í hagkerfinu, auknar skatttekjur vegna aukinnar veltu og viðvarandi hagvöxtur benda til hins sama. Ég bendi á skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka sem er nýkomin út þar sem því er lýst hvernig hagkerfið er komið út úr kreppunni, hvernig vöxtur sé á flestum sviðum atvinnulífsins, markverður árangur í að vinna á kerfisvandamálum o.fl. Ef ágústtölur Hagstofunnar reynast hins vegar gefa raunsanna mynd af ástandinu núna og sambærileg mynd birtist okkur í september og október er ástæða til að staldra við og hafa áhyggjur. Við eigum að horfa á heildarmyndina og viðurkenna sveiflur sem eru í tölum Hagstofunnar frá mánuði til mánaðar þannig að það þarf að líta yfir miklu stærra tímabil til að fá raunsanna (Forseti hringir.) mynd af stöðunni.



[10:36]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég á dálítið erfitt með að trúa því að auk þess að vera komin upp á kant við ASÍ, SA og Samiðn um staðreyndir þessa máls ætli forsætisráðherra sér líka að gagnrýna Hagstofuna. Ef það á að nota ágústtölurnar og segja að skekkjumörkin þar hafi verið slík að taka verði tillit til þeirra getur maður allt eins sagt það um júlítölurnar. Það eru nákvæmlega sömu skekkjumörk. Aðalatriðið er að það er verið að bera saman sambærilegar tölur. Tölurnar í júlí á þessu ári sýna að störfum hefur ekki fjölgað frá því í júlí á síðasta ári þannig að það er óskaplega dapurlegt ef menn vilja ekki horfast í augu við opinberar tölur og grípa frekar til þess ráðs að gera tortryggilegt það eina tól sem við höfum til að mæla stöðuna í þessum efnum.

Ég kalla eftir því að menn í ríkisstjórn fari að horfa raunsætt á ástandið og átti sig á því að ef ekki verður (Forseti hringir.) nein nýfjárfesting í landinu verða engin ný störf og það er vegna skorts á fjárfestingunni sem staðan er eins slæm og tölurnar sýna.



[10:37]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fer fram á það sama við hv. þingmann, að hann horfi raunsætt á stöðuna. Ég var bara að vitna til þess sem fram kemur hjá Hagstofunni, sagði að það væri varhugavert að miða bara við ágústmánuð og draga ályktanir út frá því eins og hv. þingmaður gerir. Hann verður að líta á sveiflurnar til að meta stöðuna rétt. Ég sagði að það væri áhyggjuefni ef þessi þróun sem er í ágúst sýndi sig áfram næstu tvo mánuðina og þá hljótum við að hafa verulegar áhyggjur af stöðunni. Það er þó ekki ástæða til þess í augnablikinu.

Af því að talað er um hagvöxt ætla ég að vitna aftur í greiningardeildina þar sem hún talar um að hagvöxtur geti orðið eitthvað meiri en við höfum þó verið að tala um, hann gæti verið 3%. Miklar fjárfestingar eru í gangi eins og hv. þingmaður veit, bæði á suðvesturhorninu og norðausturhorninu. Fjárfestingarsamningar í gangi eru einir sex og mjög mikið í gangi á vegum stjórnvalda, eins og hv. þingmaður þekkir, í fjárfestingaráætlun (Forseti hringir.) og það sem við sjáum í fjárlögum. Ég segi enn og aftur að það er óþarfi að draga upp svarta mynd af stöðunni.