141. löggjafarþing — 13. fundur
 27. september 2012.
mál skilanefnda og slitastjórna.

[10:53]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Það vita allir að fjölmiðlar gegna eða eiga að gegna mjög mikilvægu eftirlitshlutverki í þjóðfélagi okkar. Þegar ég skoðaði Fréttablaðið í dag, blaðið sem Bragi frændi minn kallar Stubbablaðið, rakst ég á leiðara. Leiðarar eru yfirleitt heldur ómerkileg bókmenntagrein en einstöku sinnum er þó í þeim að finna setningar sem eru skrifaðar af þvílíkri snilld að maður hrekkur í kút. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í þennan leiðara eftir Þórð Snæ Júlíusson þar sem hann fjallar um gróða nýrrar yfirstéttar vegna hrunsins mikla. Leiðarinn heitir „Íslenskur veruleiki“ og í honum stendur:

„Sömu aðilar og lögðu til hráefnið í djöflatertuna sem bökuð var fyrir hrun græða nú á að moka flórinn eftir að henni var skitið.“

Þetta er vel skrifuð setning. Tilefni þessa leiðara er framferði slitastjórna og skilanefnda sem er almennt hneykslunarefni, eftir því sem ég hef samband við íslensku þjóðina. Ég tek starf mitt á þinginu mjög alvarlega. Ég tek mjög alvarlega þá eftirlitsskyldu sem þingið hefur en ég veit ekki nákvæmlega hvar valdmörkin liggja. Ég veit að ég hef engin tök á því að hringja inn í stofnanir, heimta bókhald og skoða nákvæmlega hvað þar er á ferðinni. Ég hef heldur ekki getu til þess, ég er ekki endurskoðandi og nú síðast hafa fjölmiðlar ljóstrað því upp að þau augu sem þingheimur hefur til að rannsaka þessa hluti (Forseti hringir.) hafa verið á mjög hálum ís.

Ég spyr því forsætisráðherra: Eru slitastjórnir og skilanefndir ríki í ríkinu (Forseti hringir.) sem ráða sér sjálfar og við höfum ekkert yfir að segja?



[10:55]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta ofur eðlilegar spurningar hjá hv. þingmanni og eðlilegt að hv. þingmaður taki þetta mál upp. Mér ofbjóða þessi kjör slitastjórna líkt og öðrum og þær eru vissulega hneykslunarefni, eins og hv. þingmaður orðaði það. Við höfum rætt þetta oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í ríkisstjórninni, en staðan er bara þannig að kröfuhafarnir greiða þessum slitastjórnum og stjórnvöld hafa ekki vald til að grípa inn í þessi mál. Slitastjórnir eru skipaðar af héraðsdómara og hann einn hefur til dæmis heimild til að víkja þeim frá störfum. Samningar um greiðslur til slitastjórnarmanna eru á milli þeirra og kröfuhafanna.

Síðast ræddum við þetta í ríkisstjórninni þegar þetta kom upp fyrir stuttu. Þá fjölluðum við um málið og ákváðum að fjármálaráðherra færi þess á leit við Seðlabankann að hann nýtti rétt sinn sem kröfuhafi til að gera athugasemdir við þessi yfirgengilegu ofurlaun slitastjórna. Mér finnst eðlilegt að Seðlabankinn sem er þarna með kröfur geri það.

Ég hef ekki leitað svara hjá fjármálaráðherra um hver viðbrögð Seðlabankans við þessari fyrirspurn hafi verið en það er auðvitað alveg yfirgengilegt hvernig þessi laun eru. Því miður er þetta í höndum kröfuhafanna og þykja víst ekki há laun á mælikvarða erlendis þó að okkur þyki þetta algjörlega yfirgengilegt. Það er líka rétt að taka alveg skýrt fram að það eru ekki skattgreiðendur sem greiða þessi laun en því miður hafa stjórnvöld ekki vald á þessu máli eins og ég lýsti. Það eru kröfuhafarnir fyrst og fremst.



[10:57]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið og efast fyrir mitt leyti ekki um hennar góða vilja í þessu efni. Það sem ég efast meira um er geta Alþingis Íslendinga til að sinna verkefnum sem eru nauðsynleg að mati alls almennings, sem sé þeim að koma í veg fyrir að svona svínarí og siðleysi eins og við horfum upp á daglega í kringum okkur fái að blómstra og viðgangast.

Þingreynsla mín er lítil og því spyr ég forsætisráðherra sem býr yfir mikilli reynslu og hefur ráð undir rifi hverju: Hvernig getum við bætt þetta ástand?



[10:58]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði áðan. Ég hef fullan vilja til þess, ekki síður en fyrirspyrjandi, að bæta þetta ástand og gera það sem í okkar valdi stendur til þess en úrræðin eru því miður takmörkuð eins og ég sagði. Ég lýsti af hverju það væri. Ég tel því mikilvægt, eins og ég lýsti áðan, að Seðlabankinn sem hefur einu færu leiðina eins og við sáum þegar við fórum yfir það nýti rétt sinn sem kröfuhafi til að gera athugasemdir við þessi yfirgengilegu ofurlaun slitastjórnar. Hvort það hefur svo einhverja þýðingu eða breytir nokkru er hins vegar önnur saga.