141. löggjafarþing — 13. fundur
 27. september 2012.
verndar- og orkunýtingaráætlun, frh. 1. umræðu.
frv. BjarnB o.fl., 3. mál (flokkun virkjunarkosta og gerð orkunýtingaráætlunar). — Þskj. 3.

[13:32]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Rammaáætlun, þingsályktunartillaga hæstv. umhverfisráðherra, var til umræðu og umfjöllunar í atvinnuveganefnd í vor. Það er nauðsynlegt að fram komi að þar fór fram ágæt vinna. Málið var sent til umsagnar og nokkur samstaða var í nefndinni um málsmeðferðina. Í sjálfu sér hefði nefndinni verið ekkert að vanbúnaði að ljúka við og vinna þingsályktunartillöguna aftur inn til þingsins. En síðustu þrjár vikurnar, jafnvel fjórar, sem liðu af þinginu í vor og sumar var aldrei fundað í atvinnuveganefnd. Málið var ekki tekið til umfjöllunar. Ástæðan var auðvitað sá ágreiningur sem er innan stjórnarflokkanna, milli þeirra og innan þeirra, um þá tillögu sem fyrir liggur. Hann er augljós. Kattasmölun hæstv. forsætisráðherra hafði greinilega ekki gengið nægilega vel til þess að hafa áhrif inn í atvinnuveganefndina. Því kaus hæstv. ríkisstjórn að atvinnuveganefnd skyldi ekki ljúka störfum við rammaáætlun síðastliðið vor.

Við sjáum þetta síðan endurspeglast í þeirri ákvörðun þingsins að vísa málinu til umhverfis- og samgöngunefndar þrátt fyrir að óyggjandi sé og eðlilegt, ef málið er skoðað samkvæmt þingsköpum og samkvæmt því markmiði sem ætlað er að ná með rammaáætlun, að það ætti að ganga áfram til atvinnuveganefndar.

Það segir í erindisbréfi til verkefnisstjórnar frá ágúst 2007 að henni sé ætlað að ákveða hvernig haga eigi mati á virkjunarkostum í þeim áfanga sem og að vinna samræmt heildarmat fyrir alla virkjunarkosti. Málið fjallar um þessa virkjunarkosti og það er í sjálfu sér ekkert hægt að deila um það. Vegna hins augljósa ágreinings í ríkisstjórnarflokkunum var þessi leið valin.

Það markmið sem menn settu sér með því að fara í þá miklu vinnu sem unnin hefur verið við rammaáætlun liggur fyrir. Það var að reyna að ná málamiðlun um þennan mikilvæga málaflokk og þann djúpstæða ágreining sem hefur verið í samfélaginu um forgangsröðunina þegar kemur að hinni fínu línu milli verndunar og nýtingar.

Eins og fram hefur komið var með skipun verkefnisstjórnar 2007 lögð aukin áhersla á verndunarþáttinn í vinnu við rammaáætlun. Það var í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þar sem þessi aukna áhersla á umhverfismál var lögð.

Það er ljóst að þegar hæstv. umhverfisráðherra lætur þau orð falla í þingræðu áðan að innan Sjálfstæðisflokksins séu engir talsmenn fyrir verndun og nýtingu náttúrunnar stenst það ekki nánari skoðun. Þetta eru sleggjudómar sem eru í raun bara ómerkilegt innlegg í umræðuna. Það sést af öllum okkar verkum að slíkt fær ekki staðist neina skoðun. Það má í því sambandi minna á áherslur flokksins við friðlýsingu landsins, fjölgun þjóðgarða o.s.frv. Það hefur engin þjóð gengið lengra í því að vernda jafnstóran hluta lands síns og við Íslendingar. Lengst af hefur það verið gert undir forustu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Við tökum því ekki mikið mark á slíkum athugasemdum sem eru frekar ómerkilegt innlegg í umræðuna.

Spurt hefur verið hvaða áhrif rammaáætlun hefur á efnahagsumhverfi okkar. Það er eðlilegt að spurt sé, en auðvitað leikur rammaáætlun og framgangur hennar lykilhlutverk. Það þarf ekki annað en horfa á þær áherslur sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa lagt og ákall þeirra eftir frekari fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Það sýnir hversu mikilvægt er að þær fari af stað og um það eru allir sammála. Það hefur ekki verið minna fjárfest í íslensku atvinnulífi í áratugi en nú eða jafnvel nokkru sinni á lýðveldistímanum.

Því hefur verið haldið fram, meðal annars af forustu Alþýðusambands Íslands, að ríkisstjórnin hafi staðið í vegi fyrir fjárfestingum. Sú málsmeðferð sem rammaáætlun fær hjá ríkisstjórnarflokkunum er í raun hluti af því púsli vegna þess að eins og þingsályktunartillaga hæstv. umhverfisráðherra ber með sér verður ekkert haldið áfram á þeim vettvangi sem að gagni kemur á næstu árum. Það má því segja að það bætist á þann lista svikinna loforða sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.

Það var mikil sátt og almennt talað af virðingu um þá vinnu sem fór fram í verkefnisstjórninni og innan faghópa sem unnu rammaáætlun. Það er auðvitað grundvallaratriði að sú vinna og það verklag sem þar var viðhaft njóti trausts. Það var lagt upp með það á sínum tíma af þeim sem áttu hugmyndina um að koma þessu ferli af stað, að áætlunin yrði unnin af fagmennsku og án þess að pólitísk sjónarmið réðu í þeirri vinnu. Það er ekki fyrr en á lokametrum vinnunnar sem hin pólitísku fingraför, eins og það hefur verið kallað, koma inn í málið. Þá er farið að túlka hluti eins og gert er í þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir frá hæstv. umhverfisráðherra.

Það vinnulag ráðherrans að setja málið í umsagnarferli er ekki dregið í efa. Það var ákveðið í lögum að slík skyldi málsmeðferðin vera. Það kom fram áðan hjá hæstv. ráðherra í ræðu að þær breytingar sem þá voru gerðar hefðu verið vel rökstuddar og tekið hefði verið tillit til þeirra fjölmörgu umsagna sem bárust, jafnvel þótt þær hafi nú áður verið komnar fram hjá verkefnisstjórninni. Þessar breytingar hafi verið mjög vel rökstuddar. En í athugasemdum sem bárust um málið frá fjölmörgum aðilum síðastliðið vor kom ítrekað fram að þær breytingar sem hæstv. ráðherrar gerðu á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, ef við getum orðað það þannig eða niðurstöðu rammaáætlunar, væru illa rökstuddar. Um þetta eru menn því ekki sammála.

Ég held að ef þetta er skoðað geti menn fallist á að sú er staðan, breytingarnar eru illa rökstuddar. Þetta ber með sér allt of mikinn pólitískan blæ. Það eru til að mynda hlutir í áætluninni sem hvorki standast skoðun um flokkun í nýtingarflokk né biðflokk, jafnvel kostir sem eiga augljóslega að fara í verndarflokk, eins og ég fór yfir í ræðu minni í gær. Það vantar heilmikið upp á rökstuðninginn. Ég ætla ekki að fara yfir einstaka virkjunarkosti í því samhengi aftur.

Allt þetta verður sennilega til þess að þessi mikla vinna er því miður fyrir bí. Ég óttast það. Málið er komið í þann farveg að sú málamiðlun sem var vonast til að við gætum unnið þetta mál eftir er sennilega fyrir bí. Það má segja að ágreiningurinn kristallist mjög í þeirri ákvörðun að setja málið til umhverfis- og samgöngunefndar í stað atvinnuveganefndar. Það opinberar hinn djúpstæða ágreining innan stjórnarflokkanna og hverjir urðu ofan á innan þeirra raða við áframhaldandi vinnu við málið.

Í öllu því ferli frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér og þar til málinu var skilað til þingsins hefur aðkoma stjórnarandstöðunnar verið engin. Engin tilraun hefur verið gerð til að ná sátt um það hvernig þetta megi líta út, heldur er þetta unnið í mjög þröngum hópi ráðherra og innan ríkisstjórnarflokkanna. Ef við ætlum okkur til framtíðar í fullri alvöru að ná að vinna þetta sem málamiðlun á milli mismunandi skoðana sem ríkja getum við ekki unnið þannig.

Vilji okkar sjálfstæðismanna stendur vissulega til málamiðlunar og ég fór í gær meðal annars yfir virkjunarkosti sem mér finnst augljóslega að eiga að fara í vernd. Við höfum nefnt virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár og forgangsröðun þeirra. Ef horft er á þetta má sjá að í málflutningi okkar er mjög mikill sáttahugur. Við gerum okkur grein fyrir því að hinir ýtrustu valkostir gagnvart virkjunum verða ekki ofan á, en að sama skapi gerum við þá kröfu að við getum haldið áfram á þessum mikilvæga vettvangi. Þá getum við mætt vilja fólksins í landinu og aðila vinnumarkaðarins til að byggja áfram upp öflugt atvinnulíf.

Yfirlýsingar ákveðinna stjórnarliða um að menn vilji reyna að vinna að sátt um málið virðast því vera marklausar og innihaldslitlar. Aðra ályktun getur maður ekki dregið af þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í málinu.

Áðan var sagt að tillögur okkar sjálfstæðismanna, sem við fjöllum hér um, séu til þess fallnar að draga úr opnu samráði, Sjálfstæðisflokkurinn vilji forðast opið samráð. Ég vil bara minna á hið mikla opna samráð verkefnisstjórnarinnar. Meira en 30 samráðsfundir voru haldnir úti um allt land með hagsmunaaðilum. Allir í samfélaginu, hvar sem þeir stóðu, gátu komið að þeirri vinnu á hverjum tíma og komið athugasemdum sínum á framfæri. Það er það verklag sem við lögðum upp með og vildum að yrði viðhaft í þessari vinnu. Við lögðum áherslu á það. Þannig að þegar við erum vændir um að náttúruverndarsjónarmið og opið samráð og eitthvað slíkt eigi enga málsvara innan Sjálfstæðisflokksins er það ómerkilegur málflutningur og síst til þess fallinn að reyna að ná sátt og einhverjum umræðugrundvelli um þetta mikilvæga mál.

Allt í þessari vinnu fjallar um náttúruvernd. Allt í vinnu við rammaáætlun fjallar um náttúruvernd og hina fínu línu milli nýtingar náttúrunnar og verndunar hennar. Þrátt fyrir að við séum með tillögu okkar að opna fyrir ákveðna hluti varðandi rannsóknir er alveg ljóst að ef við ætlum að geta metið virkjunarkosti, til dæmis í biðflokki, verður að vera hægt að gera einhverjar grundvallarrannsóknir.

Von mín, virðulegi forseti, er að við getum komið málinu til baka í það faglega ferli (Forseti hringir.) sem það var í. Það er tillaga okkar sjálfstæðismanna. Þannig komi málið til þingsins aftur og geti orðið grundvöllur (Forseti hringir.) að vinnu til að ljúka því í vetur.



[13:47]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins leggjum hér fram öll sem eitt.

Ég er afskaplega ánægð með að sjá þetta frumvarp koma frá þingflokki sjálfstæðismanna, enda lýsir það í hnotskurn þeirri stefnu sem flokkurinn hefur gagnvart rammaáætlun, þ.e. flokkurinn telur mikilvægt að rammaáætlun verði sett og hún verði gerð á þeim faglega grunni sem lagt var upp með. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart, enda var Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með Samfylkingunni þegar verkefnisstjórn yfir 2. áfanga rammaáætlunar tók til starfa og var skipuð. Í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur einsett sér að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða og leggur því mikla áherslu á að ljúka sem fyrst rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar, með sérstaka áherslu á mat á verndargildi háhitasvæða landsins og flokkun þeirra með tilliti til verndar og orkunýtingar.“

Þessi vinna tók langan tíma og lengri tími fór í þetta verkefni en þurfti vegna þess að Alþingi var ekki búið að klára lagarammann utan um það með hvaða hætti verkefnisstjórnin skyldi skila af sér til þingsins og hvernig málið kæmi inn í þingið. Nú er það allt saman komið fram.

Frumvarpið er í rauninni svar við þeim mikla vanda og þeim ógöngum sem málið er því miður komið í. Þingmenn allra flokka hafa lýst því yfir hér í þessum stól núna og á fyrra kjörtímabili hversu ánægðir þeir eru með að setja málið í þetta faglega ferli. Tilgangurinn með þessu öllu saman var sá að reyna að skapa sátt milli þeirra ólíku sjónarmiða sem uppi eru í samfélaginu og hafa verið á undanförnum missirum varðandi vernd og nýtingu. Mér finnst þessi hugmyndafræði afskaplega mikilvæg og finnst afskaplega gott að hún varð ofan á og að þessi vinna færi fram.

Málið sem við ræðum í dag undirstrikar það að sú vinna verður að ná allt til enda þess að rammaáætlun verði lögð fram, að öðrum kosti erum við því miður að horfa fram á ósætti en ekki sátt. Það er ekki það sem átti að gerast með fyrirkomulaginu um skipun verkefnisstjórnar.

Úr því að aðrir þingmenn úr mínum flokki sem hafa tjáð sig hér fóru ekki sérstaklega í sérstök ákvæði frumvarpsins þá langar mig til að gera það, svo það liggi nú fyrir hér í þingsögunni.

Í fyrsta lagi leggjum við til breytingu á 3. gr. laganna. Það er sú grein sem fjallar um það að þeir kostir sem þegar eru á friðlýstum svæðum komi ekki til mats, fari ekki gegnum þetta ferli sem rammaáætlunin er. Hér er einfaldlega tillaga sem byggir í rauninni á því sjónarmiði að engin ástæða er til að vera feiminn við það að láta þá virkjunarkosti sem eru inni á friðlýstum svæðum fara í gegnum þetta mat verkefnisstjórnar. Ef við trúum á aðferðafræðina eigum við ekkert að vera hrædd við það að setja hvaða kost sem er þar í gegn. Virkjunarkostur sem er á slíku svæði og augljóst að hann væri mikilvægur með tilliti til náttúruverndar mundi alltaf fara í gegnum þessa aðferðafræði og mælingar verkefnisstjórnarinnar og lenda í verndarflokki. Það er augljóst. Og til að jafnt gangi yfir alla og að við höfum einfaldlega samanburð á þeim kostum sem virkilega eru verndarinnar virði, þá á fólk ekkert að vera feimið við að láta þá fara þarna í gegn.

Ég kallaði hér eftir tölum í máli hæstv. ráðherra í gær, en þær komu ekki, um þá kosti sem detta úr út matinu vegna þessa lagaákvæðis — sérfræðingum okkar hefur talist svo til að áætluð raforkugeta í vatnsafli og jarðhita innan friðlýstra svæða sé 14.081 gígavattstund, þannig að það komi fram í þingtíðindum, vegna þess að það gerði það ekki hér í gær þrátt fyrir að kallað hefði verið eftir því.

Þá er það 2. gr. frumvarpsins. Þar erum við að fjalla um breytingar á hinum svokallaða biðflokki. Biðflokkurinn og ákvæðið um hann í 5. gr. í lögunum hefur verið skilgreint mjög þröngt, þ.e. að enginn kostur megi falla í biðflokk ef vantar einhverjar upplýsingar. Nú getum við deilt um það hvort þetta orðalag þýði það í raun og veru, en gott og vel. Ef það er viljinn að hafa biðflokkinn þannig að hann sé þröngur, þá þarf jafnframt að tryggja að það sé alveg skýrt hvers vegna kostur lendi í biðflokki. Þess vegna er hér tillaga um að verkefnisstjórnin skuli tiltaka sérstaklega hvaða upplýsingar nákvæmlega það eru sem vantar þannig að hægt sé að ljúka flokkun orkunýtingarkostsins annaðhvort í vernd eða nýtingu. Það er afskaplega mikilvægt, þannig að girt sé fyrir það að verið sé að setja kosti í biðflokk af því að óþægilegt er að taka ákvörðun um það.

Ég held að þetta væri mjög til bóta og verði að vera mjög skýrt, jafnframt fyrir þá sem velta því fyrir sér að fara í að nýta þennan kost, að þeir séu með algjörlega á hreinu hvað það er sem upp á vantar og þeir standi þá á traustum grunni, vegna þess að bara það að virkjunarkostir lendi í biðflokki þýðir auðvitað að það yrði örugglega mjög erfitt að halda áfram rannsóknum á þeim kosti. Hver á að fjármagna slíkar rannsóknir þegar mikil óvissa er um hvort hann verði nokkurn tímann virkjaður? Þau sjónarmið komu fram í meðförum frumvarpsins á sínum tíma hér í þinginu.

Þá komum við að b-liðnum þar sem fjallað er um heimildir til að veita rannsóknarleyfi á kostum sem eru í biðflokki. Núna er staðan sú að lendi kostur í biðflokki er í rauninni ekkert hægt að gera annað en það að fara í yfirborðsrannsóknir. Í mörgum þeim kostum sem eru núna í þeirri tillögu sem liggur frammi og lögð er fram af ráðherra hafa slíkar rannsóknir farið fram nú þegar. Það er kannski erfitt, sérstaklega varðandi háhitann, því að í rauninni verður kosturinn um aldur og ævi væntanlega bara fastur í biðflokki. Hvernig á að afla upplýsinganna ef ekkert má gera? Ég veit að það er mjög erfitt að finna línuna þarna á milli, hvað það er sem á að heimila og hvað ekki, en það að heimila engar rannsóknir þýðir að verið er að segja að ekki verði hægt að afla upplýsinga varðandi orkugetu o.s.frv. á háhitasvæðum. Einhvern veginn þarf að ná að koma því þannig fyrir að það sé hægt. Þessi b-liður er viðleitni í þá átt að tryggja að það verði hægt.

Þá er gert ráð fyrir að 4. mgr. 5. gr. falli brott.

Síðan erum við að tala um í 3. gr. breytingu á 6. gr. þar sem fjallað er um óflokkaða virkjunarkosti. Þá erum við að tala um nýja kosti sem koma til og hvaða heimildir eigi að vera til staðar til að hægt sé að leggja fram einhver gögn til verkefnisstjórnar um hvaða kost væri um að ræða. Ef það væri einungis hugmynd og ekkert hefði verið rannsakað og engin gögn liggja fyrir yrði afskaplega erfitt fyrir verkefnisstjórn að taka einhverja afstöðu til þess kosts. Einhvern veginn þarf að vera hægt að leggja fram gögn og safna þeim saman.

Síðan er það 4. gr. Þar fjöllum við um breytingu á 5. mgr. 10. gr. laganna þar sem fjallað er um verklag og málsmeðferð. Hér leggjum við til að ráðherra muni leggja tillögur verkefnisstjórnar óbreyttar fram á Alþingi og það verði reglan. Þar með erum við að ítreka þann vilja okkar, og allra þeirra að því er ég held sem hafa tjáð sig um þessi mál fyrr og síðar, að hin faglega niðurstaða komist alla leið hingað inn í þingið. Þá tekur að sjálfsögðu við þingleg meðferð eins og við þekkjum hana og menn geta þá tjáð sig um þessa tillögu verkefnisstjórnar.

Við erum hér að reyna að segja að það sé óeðlilegt að ráðherra taki hina faglegu niðurstöðu verkefnisstjórnar og breyti henni eftir sínu höfði og eftir sínum pólitísku áherslum, eins og ég tel því miður að núverandi tillaga hæstv. ráðherra umhverfismála beri með sér. Mér fannst það einfaldlega kristallast í umræðunni í gær þegar reynt var að rökstyðja það að ákveðnir kostir væru færðir niður í biðflokk úr nýtingarflokki á grundvelli þess að ekki hefði verið fjallað um víðerni af hálfu verkefnisstjórnar þegar það er augljóst af lestri skýrslunnar að bæði faghópur 1 og faghópur 2 fjölluðu sérstaklega, og var eiginlega þungamiðjan að mörgu leyti í þeirri umfjöllun, um víðerni og hvaða áhrif hugsanlegir virkjunarkostir mundu hafa á ósnortin víðerni.

Í 5. gr. fjöllum við um breytingu á ákvæði til bráðabirgða í lögunum, sem ég held að þurfi ekki sérstakrar skýringar við. En í 6. gr. tölum við um nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem við leggjum til að ráðherra skuli við gildistöku þessara laga kalla saman að nýju verkefnisstjórnina sem skilaði þessari skýrslu í 2. áfanga rammaáætlunar og fela verkefnisstjórninni að flokka þá virkjunarkosti sem hún hefur fjallað um og á að gera samkvæmt lögunum eins og þau líta út eftir samþykkt þessa frumvarps.

Verkefnisstjórnin á að byggja flokkun sína á grundvelli þeirrar röðunar og þeirra gagna sem hún aflaði sér við vinnu sína. Mig langar að gefnu tilefni að taka það fram að verkefnisstjórn hafði víðtækt samráð og stóð fyrir víðtæku og mjög umfangsmiklu kynningarferli á niðurstöðum sínum. Ég vísa því til föðurhúsanna að við séum hér að reyna að hindra það að almenningur og allir þeir sem hafa skoðanir á þessum málum komist að til að láta hugmyndir sínar í ljós. Það hefur margoft gefist tilefni til þess. Verkefnisstjórnin hefur tekið á móti athugasemdum, verkefnisstjórnin hefur farið yfir þær athugasemdir og verkefnisstjórnin brást við þeim athugasemdum.

Ég leyfi mér einfaldlega að fullyrða að þetta samráð og þetta opna ferli eigi sér fáar hliðstæður í stjórnsýslu okkar og áætlanagerð. Það var mjög gott að efna til þess. Það byggðist allt saman á þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með þegar verkefnisstjórnin var skipuð í október 2007.

Að mörgu leyti rímar þessi tillaga við þá stefnu sem birtist okkur í erindisbréfi verkefnisstjórnarinnar þar sem fram kemur að gert sé ráð fyrir að verkefnisstjórnin flokki virkjunarkosti með tilliti til þeirra sjónarmiða sem tiltekin eru í erindisbréfinu, þ.e. með tilliti til verndar og nýtingar.

Ágætar umræður hafa verið í dag um þessa áætlun. Ég verð að segja að ég er afskaplega stolt af því að sjá þessa samheldni þingflokks sjálfstæðismanna í málinu í ljósi þess hvernig fólk brást við þeirri tillögu sem ráðherrann lagði fram eftir að augljóst var að verið er að koma pólitískum áherslum inn í þá tillögu sem ráðherrann lagði fram. Það hefði verið hægt og umræða varð um það, bæði í þinginu og í samfélaginu, að það yrði bara þannig að þegar skipt yrði um ríkisstjórn yrði rammaáætlun öll tekin upp og nýjar áherslur kæmu þar inn. Það væri það versta sem mundi gerast að mínu mati. Þá værum við búin að henda þessu ferli hér sem hefur staðið yfir í mörg ár og taka upp einhvers konar allt önnur og verri vinnubrögð.

Þess vegna finnst mér gott að sjá þá áherslu hjá þingflokknum í heild að fylgja eigi því ferli sem sett var af stað fyrir mörgum árum allt til enda þannig að við horfum á hina faglegu vinnu og láta hana ráða þeirri niðurstöðu sem kemur til meðferðar í þinginu. Mér finnst það í rauninni algjörlega frábært, ef ég má taka svo til orða.

Herra forseti. Auðvitað verður það þannig að þegar svo niðurstaða verkefnisstjórnar kemur verða ekkert allir hoppandi kátir með öll atriði sem munu birtast okkur í þeirri tillögu, alls ekki. Hvert okkar hér inni hefur sínar sérstöku skoðanir á hinum einstöku virkjunarkostum sem byggðar eru á hinum og þessum sjónarmiðum, þeirra eigin tilfinningum, tengslum þeirra við einhver ákveðin landsvæði, afstöðu þeirra til atvinnumála, afstöðu þeirra til ferðaþjónustu o.s.frv.

Ef við hugsum aðeins út fyrir okkar eigin pólitísku framtíð og pólitísku stöðu eigum við stjórnmálamenn að hafa þroska til að taka hinum faglegu niðurstöðum og fylgja þeim. Ég hef þá trú að það sé hægt. Ég trúi því virkilega að Alþingi og alþingismenn geti sýnt þann þroska að gera það.

Þess vegna hef ég sannfæringu fyrir því að ef málið verði unnið á þann hátt eins og við leggjum til muni þetta allt saman koma vel út og vera okkur öllum til sóma. Ég skora á þingmenn að reyna að tileinka sér það hugarfar. Náttúran á það skilið af okkur.



[14:03]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í það frumvarp sem hér er lagt til af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokksins, ég gerði fyrr í dag alvarlegar athugasemdir við það. Það hnígur allt í átt að nýtingu og því að loka á opið samráð sem ég tel nauðsynlegt, auk þess sem hér eru auðvitað í gildi lög, eins og hér hefur komið fram og kom líka fram í máli mínu, sem þingheimur samþykkti fyrir ekki svo löngu með afar miklum meiri hluta, m.a. atkvæðum sjálfstæðismanna, sem hér er verið að fara eftir. En nóg um það.

Ég vil þó segja aftur að mér finnst viðhorf hv. þingmanns jákvætt og virðingarvert, og það sem hefur komið fram í umræðunni að fólk þvert á flokka vilji reyna að hafa í heiðri fagleg og vönduð vinnubrögð í þessu ferli og halda því til haga.

Þá kemur að spurningu minni. Það bárust ýmsar umsagnir frá mjög sterkum fagaðilum sem gagnrýndu mjög hversu margir kostir voru settir í nýtingarflokk og sögðu að það þyrfti mun meiri rannsóknir og upplýsingar áður en teknar væru svo afdrifaríkar ákvarðanir. Það komu líka umsagnir frá öðrum sem sátu í verkefnisstjórninni með hv. þingmanni og sögðu að það hefði alltaf verið útgangspunkturinn, það hefði alltaf verið gert ráð fyrir því innan verkefnisstjórnarinnar að biðflokkurinn væri mjög stór en hinir flokkarnir mun minni. Því hefði komið öllum á óvart að niðurstaðan varð allt önnur innan þessa litla hóps sem var skipaður.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, þar sem hún sat í verkefnisstjórninni, hvort þetta hefði einnig verið upplifun hennar og hvort hún telji það frekar til sátta (Forseti hringir.) að biðflokkurinn stækki.



[14:05]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég verð að viðurkenna að þegar ég sá fyrstu drögin frá hópnum sem ráðherra fól að búa til fyrstu drögin að þingsályktunartillögu um rammaáætlun brá manni við að sjá hversu stór hluti fór í afgerandi niðurstöðu. Við vinnslu málsins hélt maður að fleiri kostir yrðu settir í bið.

Þá kom einfaldlega til sú skoðun að biðflokkurinn hefði verið skýrður það þröngt í þinginu og að það bæri að túlka lögskýringargögn með þeim hætti að ekki mætti setja kost í biðflokk nema algjörlega ljóst væri að ákveðnar upplýsingar vantaði. Ég held að það sé ekkert leyndarmál að ýmsir innan verkefnisstjórnarinnar voru svolítið hissa á þessu, þeim kom svolítið á óvart að þetta yrði niðurstaðan. En eins og ég segi, verkefnisstjórninni var ekki falið að flokka á endanum þannig að við höfðum svo sem ekkert um þetta að segja.

Hér er auðvitað verið að taka ákvarðanir til lengri framtíðar, afskaplega stórar ákvarðanir, eins og ein sem sat með mér í verkefnisstjórninni sagði. Hvað biðflokkinn varðar þá takast á tvö sjónarmið, annars vegar að hafa fleiri kosti í biðflokki til að menn taki ekki svona stórar ákvarðanir um svo marga kosti langt fram í tímann og hins vegar að nota ekki biðflokkinn sem þægilegt undanskot til þess að menn þurfi ekki að taka ákvörðun í erfiðum málum, og ég skil og virði það sjónarmið. Ég vil heldur ekki að allir kostir sem við eigum erfitt með út af tilfinningalegum rökum að taka ákvarðanir um (Forseti hringir.) lendi í biðflokki af því að það er miklu þægilegra. Auðvitað á hann ekki að vera þannig og ég skil það sjónarmið.



[14:07]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að dýpka umræðuna um hvað felst í þessu ferli og hvernig við sjáum það fyrir okkur til lengri tíma og hvað við meinum með faglegum vinnubrögðum og vísindalegri vinnu ef fólk vill skilja tilfinningar alveg frá. Fjöldi umsagna hefur borist frá málsmetandi fólki sem bendir einmitt á að afgerandi upplýsingar vanti á tilteknum sviðum og þess vegna sé betri ákvörðun vís síðar þegar rannsóknir hafa leitt okkur betur á leið.

Við höfum náttúrlega rætt hér, því miður innan þröngs tímaramma, alla þá óvissu sem fylgir virkjunum á háhitasvæðum sem er gríðarlega mikil, og allir eru sammála um það og enginn getur afneitað því. Hverju tapa menn með því að bíða þar og vísa þeirri ákvörðun inn í framtíðina?

Annar þáttur sem hefur ekki verið mikið nefndur en ætti að vera það — það er hægt er að benda á marga þætti þar sem rannsóknir vantar enn þá — er sá þáttur sem er ein stoðin undir hugmyndinni um sjálfbæra þróun og sjálfbærni, þ.e. samfélagsáhrif. Þar verður að segjast eins og er að vinna verkefnisstjórnar í faghópi III sem hafði þetta á sinni könnu stóð ekki undir væntingum. Það eru mikil göt í skilningi okkar á samfélagslegum og hagrænum áhrifum. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þarna séu stór göt og hvað henni finnst að gera eigi í því.



[14:09]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þótt ég hafi trú á þeirri aðferðafræði sem beitt var og því sem verkefnisstjórnin var að gera og vinnu faghópanna sem var afskaplega vönduð — menn gerðu allt sem þeir gátu til að þróa aðferðafræðina þannig að hún væri sem best — þá er hún auðvitað mannanna verk. Hana þarf að þróa áfram, sérstaklega varðandi faghóp III. Þetta er auðvitað viðfangsefni sem er svolítið nýtt, að menn setjist yfir þessi mál á þennan hátt, og þetta mun vonandi þróast frekar í framtíðinni þannig að við ráðum betur við viðfangsefnið. Engu að síður var mikilvægt að reyna að komast að niðurstöðu og að verkefnisstjórnin skilaði af sér, það var óumflýjanlegt.

Hvað framtíðin ber í skauti sér er mjög erfitt að segja til um, sérstaklega þá tækni sem hægt er að nota til þess að virkja á háhitasvæðum til dæmis, varðandi skáboranir o.s.frv. Það má hugsa sér að hægt verði í framtíðinni að virkja á svæði innan friðlands án þess að nokkur merki sjáist á yfirborði. Þetta er svo erfitt, maður getur ekki séð fyrir hvernig tæknin mun þróast. Þess vegna er ágætt að horfa á ákvæðið í lögunum sem fjallar um að verkefnisstjórn geti endurmetið kosti, hvort heldur sem er til að færa þá úr nýtingarflokki eða í verndarflokk. Það að taka kosti úr vernd þýddi að það þyrfti að „affriðlýsa“ einhver svæði, ef svo má segja, breyta þeirri ákvörðun sem tekin er í rammaáætlun, og fara öfuga leið með þá kosti sem eru í nýtingu. Það er því hægt en hvort það verði algengt eða auðvelt getur maður ómögulega sagt til um. Ákvæðið verður að minnsta kosti í lögunum, sama hvernig því verður beitt.

Varðandi upplýsingaskortinn og þá kosti sem voru metnir langar mig örstutt að tala um friðlýstu kostina vegna þess að í friðlýsingarferlinu á þeim kostum (Forseti hringir.) sem komu ekki til mats var ekkert endilega fjallað um virkjanir. Það hefur því ekki verið fjallað um þessar friðlýsingar, til dæmis í heimabyggð, (Forseti hringir.) út frá þeim sjónarmiðum. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér mikilvægt að þær komi til mats.



[14:12]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sem allir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytja og ég þar á meðal. Ég er mjög ánægður með þetta frumvarp og stoltur af því og tel það gott framlag í umhverfisvernd.

Ég man langt aftur og alla tíð hafa verið miklar deilur um virkjanir, hverja einustu. Það hefur komið fram fólk sem segir: Við verðum að virkja, við verðum að nýta auðlindir þjóðarinnar til að byggja upp gott og sterkt velferðarkerfi, til að skapa atvinnu og byggja upp sterkt efnahagslíf. Svo koma aðrir og segja: Við þurfum að vernda náttúruna og gæta þess að skemma ekki eitthvað sem börnin okkar munu erfa o.s.frv. Þessar deilur standa endalaust og kosta mjög mikla orku.

Þess vegna varð ég mjög ánægður þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði frumkvæði að því að koma að rammaáætlun, gera áætlun um hvaða kosti við ætlum að virkja, hvaða kosti við ætlum að setja í verndarflokk, kosti sem allir eru sammála um að ekki eigi að virkja, t.d. Gullfoss, Geysi og ekki má ég gleyma Dettifossi. Í áætluninni á að koma fram hvað við ætlum að virkja og hvað á að vera óráðið, þó sem minnst óráðið þannig að ekki skapist deilur um það.

Í gang fór mjög viðamikil og fagleg vinna og hún hefur verið ótrúlega fagleg. Tekið er tillit til alls konar sjónarmiða, jafnvel fegurðar, sem er mjög matskennt. Það er tekið tillit til atvinnuvega og atvinnumála o.s.frv. Þetta er alltaf slagurinn á milli þess að búa til atvinnu og vernda náttúruna. Mannkynið hefur undirokað náttúruna mjög víða og það illilega sums staðar. Ég hef séð umhverfisslys í útlöndum sem eru öldungis skelfileg. Í dag er einmitt, herra forseti, verið að byggja álver um allan heim, sérstaklega í Kína, þar sem álið í þeim verksmiðjum er rafgreint með rafmagni frá orkuverum sem brenna kolum og olíu. Það hefur í för með sér gífurlega mengun fyrir mannkynið og hitnun jarðar. Mér finnst því ákveðin skylda Íslendinga gagnvart mannkyninu að nýta orkuauðlindir okkar eins mikið og við teljum að sé hóflegt gagnvart náttúrunni. Þess vegna er þessi rammaáætlun svo mikilvæg fyrir sátt í þjóðfélaginu.

Nú gerist það að þegar málið kemur inn í ríkisstjórn kemur ráðherrann að málinu og hann ætlar að beita ráðherravaldi sínu og breyta þessari sátt. Um leið og hann hnikar sáttinni gefur hann færi á því að fólk sem er öndvert hugsandi og gæti komist í ríkisstjórn sem ráðherrar fari að breyta því til baka. Öll lög sem Alþingi hefur sett getur Alþingi afnumið, öll nema stjórnarskrána. Þetta finnst mér gefa hættulegt fordæmi og jafnvel mjög skaðlegt fyrir þá sem vilja vernda náttúruna. Þetta er ákveðið ofbeldi minni hlutans, því að það er talað um að deilur séu innan ríkisstjórnarinnar, innan stjórnarflokkanna en þar innan borðs er þó ekki nema rúmlega helmingur Alþingis. Það er því greinilegt að minni hluti Alþingis er að kúga meiri hlutann til að ná fram sínum sjónarmiðum. Þetta slær náttúrlega til baka þegar stjórnarskipti verða og nýtt fólk kemur inn.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en hér hefur nokkuð verið rætt um víðerni. Mér finnst það alltaf jafnfáránleg umræða. Ósnortin víðerni, hvers lags er nú það? Eigum við þá ekki bara að banna ferðamenn? Hver einasti maður sem stígur fæti sínum á ósnortið víðerni gerir að verkum að það er ekki lengur ósnortið. Um leið og fótsporið er komið er víðernið ekki lengur ósnortið. Menn geta ekki farið yfir svæði, ósnortin víðerni, nema helst í flugvél eða loftbelg. Loftbelgir eru ekki kannski heppilegur ferðamáti á Íslandi vegna sviptivinda og annars slíks en flugvélar menga. Það er í raun mótsögn í sjálfu sér að tala um ósnortin víðerni, enda tel ég, herra forseti, að hvergi á Íslandi sé að finna ósnortin víðerni, ekki lengur. Ef einhver getur bent mér á þau, einhvern ferkílómetra sem ekki hefur verið klifinn af fjallgöngumönnum eða ferðamenn hafa trítlað í gegnum í löngum röðum í skrautlegum klæðnaði — sem er líka sjónmengun — þætti mér vænt um að vita hvar hann er, því að ég ætla þá að fara inn á hann og gera hann ekki lengur ósnortinn. Þetta er nefnilega mótsögn í sjálfu sér.

Mér finnst að fólk ætti að skoða hvað ferðaþjónustan mengar mikið. Ég hef grun um að af hverri vinnustund sem ferðaþjónustan skapar, og hún skapar vissulega mikla atvinnu, verði meiri mengun, sérstaklega sjónmengun og alls konar önnur mengun, en af vinnustund í álveri. Þetta þurfa menn að skoða. Það er svo mikið af innantómum slagorðum í þessari umræðu að mér finnst að menn þurfi að tala um þetta vitrænt.

Varðandi afstöðu Sjálfstæðisflokksins til umhverfismála held ég að flestir kjósendur Sjálfstæðisflokksins, þeir sem eru í Sjálfstæðisflokknum og þingmenn hans og sveitarstjórnarmenn, séu mjög áfram um umhverfisvernd. Menn eru löngu búnir að átta sig á því að ganga þarf af nærgætni um náttúruna, gæta þess hvernig hún er meðhöndluð. Það þarf að finna hinn fína milliveg á milli þess að skapa atvinnu og vernda náttúruna. Rammaáætlun er einmitt til þess gerð. Það er merki um umhverfisáhuga sjálfstæðismanna að þeir skuli hafa haft frumkvæði að því að vinna við rammaáætlun fór af stað. Ég mótmæli því að sjálfstæðismenn séu á einhvern hátt á móti náttúrunni eða umhverfissóðar eins og kallað hefur verið. Ég held að þeir séu ekkert síður umhverfissinnaðir en heitustu umhverfissinnar nema að því leyti að þeir taka inn í dæmið að fólk þarf að lifa á þessari jörð.

Ef við lítum á Reykjavík ofan af Esjunni, sem ég hef gert nokkrum sinnum, sér maður þvílíkar óskaplegar umhverfisskemmdir Íslendingar hafa unnið á nágrenni Reykjavíkur og í Reykjavík sjálfri með til dæmis hraðbrautum og vegalagningu. Það er engin ósnortin strönd um Reykjavík lengur, ekki ein einasta nema smáskiki við Ægisíðuna, sem af einhverjum undarlegum ástæðum hefur orðið eftir þegar byggðir hafa verið grjótgarðar í kringum Reykjavík. Og það gerðist án þess að nokkur mótmælti. Svo er því mótmælt að byggja falleg uppistöðulón á öræfunum, sem gera ekkert annað en að bæta og fegra umhverfið og það sem er kannski mest um vert, gera umhverfið aðgengilegt almenningi og ferðamönnum. Enda er svo komið að virkjanir og stöðvarhús og annað slíkt er orðið hið merkilegasta mál að heimsækja fyrir ferðamenn.

Ég styð þetta frumvarp, mér finnst það mikið til bóta, það er mikil hugsun á bak við það. Ég vona að hv. Alþingi samþykki það og vinni áfram að sátt. Þetta er nefnilega frumvarp í átt til frekari sáttar þó að reynt hafi verið að valta yfir meiri hluta Alþingis af greinilegum minni hluta.



[14:21]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil gera athugasemd við ákveðið þema sem mér finnst koma fram ítrekað í máli hv. þm. Péturs Blöndals, það er að fullkomin skil séu á milli verndar og atvinnusköpunar, þau séu eins og svart og hvítt. Að með því að ákveða að vernda tiltekið svæði frá virkjunum séum við þar með að hamla algjörlega gegn atvinnusköpun.

Þá langar mig að benda hv. þingmanni á að eins og kemur til dæmis fram í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar leggja þau gríðarlega mikla áherslu á vernd tiltekinna svæða, sem skapa einmitt atvinnu og verðmæti með því að fá að vera til óbreytt og með því að vera ekki áreitt með virkjanaframkvæmdum, línulögnum og þeirri mengun sem því fylgir. Mig langar að vekja athygli hv. þingmanns á umsögnum frá kvikmyndagerðarmönnum sem tala í sama dúr. Þeir segja: Náttúra landsins okkar er gríðarlegt aðdráttarafl fyrir kvikmyndir, fyrir kvikmyndagerðarfólk.

Það að vernda landsvæði nýtist fólki líka til yndisauka, til útivistar, það er annars konar nýting á landi. Rithöfundar, myndlistarmenn og fleiri nýta það sér til sköpunar og eflingar andans og svo mætti lengi áfram telja.

Það að vernda svæði er annars konar nýting á landi, það er annars konar nýting í þágu samfélagsins, okkar mannanna, (Forseti hringir.) náttúrunnar og lífríkisins alls.



[14:23]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög undarlegt ef hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir segir að ég hugsi þetta sem svart og hvítt vegna þess að ég fór einmitt í gegnum öll þau mjög gráu, dökku, hvítu og ljósgráu svæði sem náttúruvernd fjallar um. Sumir segja að virkja megi nánast hverja einustu sprænu, hvern einasta foss, hvern einasta hver. Það er kannski dekksta hliðin frá sjónarhorni hv. þingmanns og kannski ljósasta frá sjónarhorni einhvers annars, ekki þó mínu. Síðan er það algjörlega hvíta hliðin, þar er fólk sem vill bara ekki virkja neitt, vill meira að segja banna umferð um ákveðin svæði til þess að vernda þau, vill algjörlega ósnortin víðerni. Þarna er því ekkert svart og hvítt, þarna eru einmitt mjög mörg sjónarmið.

Rammaáætlun reynir að samræma öll þessi sjónarmið. Þess vegna finnst mér rammaáætlun vera góð. Mér finnst sú vinna sem lagt hefur verið í vera mjög góð. Hún átti að gefa faglega niðurstöðu, ég fellst á hana þó að ég kannski hefði viljað virkja pínulítið meira og hafi haft aðeins önnur sjónarmið. Ég fellst samt á hana en það gerir hæstv. ríkisstjórn ekki. Hún víkur frá því faglega mati af því að henni finnst að eitthvað ætti að vera öðruvísi og þar með er sáttin farin, þ.e. sáttin á milli hinna ýmsu litbrigða í afstöðu manna til náttúru sem ég hef lagt áherslu á að þurfi að nást og megi ekki raska. Einn einstakur ráðherra, stjórnarflokkur eða þingmaður má ekki segja: Ef þið samþykkið ekki það sem ég segi fellur ríkisstjórnin, eða eitthvað slíkt. Þá kúgar minni hlutinn, pínulítill minni hluti, meiri hlutann.



[14:25]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vísa þeirri staðhæfingu algjörlega til föðurhúsanna að hér sé einhver minni hluti að kúga meiri hlutann. Meirihlutavilji Alþingis á eftir að koma í ljós. Þetta er bara ekki rétt og umsagnir fjölda fólks og samtaka í samfélaginu skipta hér mestu máli. Hvað er það sem þörf er á í samfélaginu til framtíðar, en ekki bara hvað okkur finnst hér og nú?

Ég ætlaði alls ekki að saka hv. þingmann um að hugsa almennt svart og hvítt. Ég var að reyna að benda á að þegar kæmi að þessum skilum milli verndar og atvinnusköpunar varðandi þetta tiltekna atriði hljómaði það þannig.

Ég vil þá inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé ekki sammála mér um að það séu í raun ekki svarthvít skil, eins og mér hefur stundum fundist koma fram í máli hv. þingmanns, hvort ekki felist mikil atvinnusköpun og verðmætasköpun í vernd, eins og Samtök ferðaþjónustunnar, kvikmyndagerðarmenn og fleiri hafa bent á í umsögnum sínum.

Ég var á Höfn í Hornafirði fyrir stuttu. Þar var fólk úr öllum flokkum að tala um atvinnumöguleikana og uppbyggingarmöguleikana sem tengjast Vatnajökulsþjóðgarði. Það er það sem ég er að reyna að segja, við verðum að líta á fjölda möguleika en ekki bara að virkja svæði eins og það sé eini atvinnuskapandi möguleikinn í stöðunni og sé hann ekki samþykktur séu allir aðrir atvinnuskapandi möguleikar ómögulegir. Það er ekki þannig.

Ég held að á alþjóðavísu sé það (Forseti hringir.) mál manna að ósnortin víðerni úti í heimi verði sífellt meiri verðmæti því að þeim fari ört fækkandi á heimsvísu. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir skilgreining á þeim.



[14:28]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega rétt að ég hafi ekki svarað þessu með kvikmyndagerðarmennina og alla atvinnusköpun í kringum þjóðgarðana, en þeir menga líka. Ég vildi gjarnan að menn færu í hlutlaust mat á því hvaða tekjur kvikmyndagerð gefur. Kvikmyndagerðarmenn fá heilmikla eftirgjöf af sköttum sem önnur fyrirtæki fá ekki, þess vegna koma þeir hingað og út af náttúrunni að einhverju leyti, og síðan menga þeir heilmikið.

Sama er með ferðamenn. Ferðamenn menga alveg óhemjumikið. Ég vildi gjarnan að það yrði skoðað hlutlaust: Hvað mengar álver? Hvað mengar túristi? Hvaða tekjur gefur álver og hvaða tekjur gefur túristi? Á hvaða verði seljum við náttúruna, vegna þess að túristi eyðileggur náttúruna? Ég hef gengið Laugaveginn, almáttugur, það er ekki í líkingu við það sem það var upphaflega. Ég hef gengið Fimmvörðuháls, það liggur við að ég sé hættur að ganga þar því að ég vil ekki eiga þátt í því að eyðileggja hann, Kattahryggi o.s.frv. Ferðaþjónustan og ferðamaðurinn menga líka og skemma alveg helling, þannig að það er ekki rétt að verndun búi til atvinnu án mengunar.

Málið er ekki svart eða hvítt. Það hafa allir sína skoðun á því, sumir leggja áherslu á atvinnu, sérstaklega þeir sem eru að flytja til útlanda, sérstaklega þeir sem eru að missa vinnuna, geta ekki borgað af lánunum sínum o.s.frv., þeir vilja fá atvinnu. Aðrir sem sitja í góðum stöðum og þurfa ekki að óttast um afkomu heimila sinna horfa kannski meira á verndun. Svona skiptist þjóðin í hluta, í mörg litbrigði í afstöðu sinni til umhverfismála. Rammaáætlun reynir að sætta öll þessi sjónarmið og segja: Þetta ætlum við að virkja, þetta ætlum við ekki að virkja og þarna er eitthvað pínulítið í biðflokki. Það gerir rammaáætlun og ég styð þetta frumvarp.



[14:30]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Tvær tillögur um nefnd hafa borist og er því frestað atkvæðagreiðslu um til hvaða nefndar frumvarpið gengur.



Frumvarpið gengur til 2. umr.