141. löggjafarþing — 14. fundur
 8. október 2012.
gengistryggð lán.

[15:25]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú eru fjögur ár frá hruni og eiginlega enn lengra síðan krónan fór af stað og féll mikið. Mig langar að spyrja ráðherra atvinnu og nýsköpunar, sem er nefnilega líka ráðherra bankamála en hefur lítið svarað fyrir þessi mál, um stöðu þeirra sem tóku gengistryggð lán.

Það er ekki hægt að rekja alla þessa sorgarsögu á tveimur mínútum en 15. febrúar sl. féll dómur sem fjármálafyrirtækin segja að hafi skapað enn meiri óvissu, en það er þó eitt lán í landinu sem engin óvissa er um og það er lánið sem dæmt var um. Þetta fólk hefur ekki enn fengið úrlausn sinna mála, það er ekki búið að endurreikna lán þeirra sem þó er engin óvissa um.

Nú eru ellefu mál í gangi og mig langar að spyrja ráðherrann: Telur hann að málið sé í góðum farvegi og að við fáum einhverja lausn eða niðurstöðu í þessi mál þegar þessi ellefu dómsmál hafa gengið sinn veg?

Mig langar líka að spyrja ráðherrann um samráðið sem Samtök fjármálafyrirtækja fengu að gera með leyfi Samkeppniseftirlitsins, sem nú hefur sent þeim fyrirspurnir um framkvæmd ýmissa atriða, hvort hann hafi fylgst með þessu og hvort honum sýnist þetta vera í lagi.

Þessi mál eru ekkert grín. Líf fólks sem er með gengistryggð húsnæðislán er nánast í herkví. Fólk getur ekki skipt um húsnæði, fólk getur ekki skilið að skiptum og enginn veit hvað hann á eða hvað hann skuldar. Úr þessu verður að leysa. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[15:27]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála fyrirspyrjanda, það er afar brýnt að fá botn í þessi mál. Það var sameiginlegt mat þeirra sem skoðuðu þetta að vænlegasta leiðin til þess væri sú sem farin var, að velja út öll þau prófmál sem menn töldu að kynnu að hafa gildi til þess að fá endanlegar og efnislegar niðurstöður í öllum tilvikum sem ættu við. Það endaði í ellefu stykkjum eins og kunnugt er. Heimilað var ákveðið samstarf um það til að hraða þeim málum til þingfestingar. Við vorum síðast þessa dagana að fara yfir það og athuga hvar þau væru á vegi stödd í gegnum Samtök fjármálafyrirtækja. Reyndar verður að segja eins og er að því miður hafa nokkur þeirra tafist, það er mjög slæmt. Ég hafði meira að segja samband við bankastjóra sem í hlut eiga og þeir fullvissuðu mig um að allt væri gert sem hægt væri til að þau næðu þingfestingu á næstu vikum, tíu dögum eða svo. Það voru vonbrigði fyrir mig að heyra að sum þeirra væru ekki enn komin til dómsins en staðan er bara þannig. Nokkur þeirra eru lögð af stað og munu þau vonandi öll fara þá leið á allra næstu vikum en því miður ekki fyrr.

Ég held að allir sem að málinu koma og dómstólarnir þar með taldir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að fá botn í þetta sem allra fyrst þannig að tryggt verði að málin fái algera flýtimeðferð og forgang eins hratt og þau eru tilbúin. Sum þeirra eru tafsöm, einhver voru sett í hendur lögmanna úti í bæ til vinnslu fyrir viðkomandi aðila og það hefur tekið sinn tíma o.s.frv. Við höfum fylgst grannt með þessu og gerum allt sem við getum til að þrýsta á um að þessu verði hraðað.



[15:28]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar aðeins að fylgja þessu eftir. Er ráðherrann sannfærður um að þessi ellefu mál svari öllum þeim spurningum sem þarf að svara? Ég vil einnig benda á að ekki munu allir fá leiðréttingu því að þeir sem tóku lán hjá Íslandsbanka eru í annarri stöðu en þeir sem voru hjá hinum viðskiptabönkunum því að nýlega dæmdi Hæstiréttur þau lán lögleg, engu að síður fengu þau þá meðferð sem lög nr. 158/2010 skelltu á öll lán og sumir eru jafnvel í verri stöðu en ef þeir hefðu enga leiðréttingu fengið.

Nýlega skoðaði ég lán frá 2004 hjá Íslandsbanka sem stóð í 17 milljónum í ársbyrjun 2008 en það stendur nú í 37 milljónum þrátt fyrir að greitt hafi verið af því alla tíð. Þetta er því meira en 100% hækkun. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann muni beita sér fyrir því eftir þessi ellefu dómsmál að þetta fólk (Forseti hringir.) fái einhverja sanngjarna niðurstöðu í sín mál.



[15:30]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna hvort þessi 11 mál sem menn völdu út sem prófmál svari öllum spurningum, ég get í raun ósköp lítið gert annað en treyst á það fagfólk og þá sérfræðinga sem mátu þetta og komust að þeirri niðurstöðu að með þeim 11 málum teldu menn sig vera búna að tæma allar þær spurningar sem dómstólar gætu þurft að taka afstöðu til. Í ljósi reynslunnar treystir maður því að þar hafi menn vandað sig eins og þeir hafa getað.

Það hefur út af fyrir sig alltaf legið fyrir að niðurstöðurnar gætu orðið á báða vegu. Í einhverjum tilvikum yrðu lán dæmd lögleg og sérstaklega kannski hefur það legið í loftinu að í tilviki lögaðila yrði það niðurstaðan í einhverjum mæli og þeir fái þá ekki í gegnum dómstólana leiðréttingu eða lækkun sinna skulda. Það þýðir ekki að þeir geti ekki náð einhverju slíku fram í samskiptum við lánardrottna sína og/eða geti átt rétt á því eftir öðrum úrræðum sem fyrirtækjum og/eða heimilum hefur verið boðið upp á. Ég nefni til dæmis beinu brautina. Þó að fyrirtæki hafi tekið erlent lán og það sé dæmt löglegt þá standa þau úrræði eftir sem áður til boða til skuldaendurskipulagningar sem öðrum hafa staðið til boða með til dæmis innlend lán.