141. löggjafarþing — 14. fundur
 8. október 2012.
kennsla í næringarfræði.
fsp. SER, 157. mál. — Þskj. 157.

[17:07]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að vekja athygli þings og þjóðar á mikilvægi þess að efla til muna kennslu í næringarfræði í grunnskólum landsins. Á hinu háa Alþingi eru grunnskólalögin til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þær breytingar sem þar þarf að gera teknar fyrir á þeim vettvangi og það er löggjafans að breyta grunnskólalögunum ef með þarf. Þeim hefur verið breytt oft og tíðum í gegnum árin. Rifja ég þar upp ágæt orð míns ágæta skólameistara norður í landi, Tryggva Gíslasonar, sem sagði einhverju sinni að það eina sem vantaði í grunnskólalögin væri að börnum ætti að líða vel, sem væri ágæt viðbót við annars ágæt grunnskólalög. Partur af því að manni líði vel er að maður nærist vel og þekki vel til þess matar sem maður setur ofan í sig. Ég tel að nú um stundir sé mjög rík þörf á að efla áhuga alls almennings, sérstaklega unga fólksins allt niður í sex, sjö ára aldur, á því hvaða mat best er að neyta og hvernig menn geta stælt sinn skrokk með því að neyta bestu fáanlegrar fæðu á hverjum tíma.

Grunnskólinn á auðvitað ekki að sinna öllum atriðum í uppeldi og að einhverju leyti eiga foreldrar vitaskuld og forráðamenn barna að sjá til þess að börnin hafi aðgang að góðum mat, en þetta málefni lýtur engu að síður að fræðslu og fræðsluskyldu ef svo ber undir. Þar á skólinn að taka við. Þess vegna vekur það í sjálfu sér sérstaka athygli þess sem hér stendur að næringarfræði er kennd af mjög skornum skammti í skóla sem við kennum við grunn þjóðarinnar. Þar höfum við verið að sækja fram á margvíslegum sviðum á undanförnum árum, t.d. er varðar lífsleikni og umhverfisvitund og annað í þeim dúr sem er allt af hinu góða. En þegar kemur að skrokknum sjálfum, að nærast, er eins og það sé eitthvert atriði sem megi vera óbætt hjá garði. Ég tel að svo eigi ekki að vera. Við kennum krökkum hvernig þeir eiga að hreyfa sig í leikfimi og fimleikum en við eigum líka að kenna þeim hvernig eigi að nota skrokkinn að innanverðu með því að borða vel og borða rétt. (Forseti hringir.) Þess vegna hvet ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til að (Forseti hringir.) huga að þessum málum og efla kennslu í næringarfræði í skólum landsins, börnum til heilla.



[17:11]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Af því að hann gerði að umtalsefni grunnskólalögin þá byggjum við núna á lögum sem sett voru árið 2008 og var unnið að þeim í breiðu samráði við skólasamfélagið, foreldrasamfélagið og þótt víðar væri leitað, og líka hér á Alþingi á sínum tíma. Þar er nemandinn í forgrunni. Segja má að orðið hafi ákveðin breyting á löggjöfinni þannig að nemandinn fór í raun og veru í miðdepil löggjafarinnar. Hv. þingmaður nefndi velferð og vellíðan, það er mál sem kemur fram í þeim lögum. Við sjáum líka í alþjóðlegum rannsóknum þegar við berum okkur saman við önnur ríki að íslenskum nemendum líður almennt vel í skóla. Það er auðvitað eitthvað sem er ánægjulegt og skiptir máli að nefna.

Segja má að eitt af meginstefjum í starfi grunnskóla, í samvinnu við heimilin að sjálfsögðu, sé velferð barna. Þar skiptir máli heilbrigði og hollar lífsvenjur. Aukna áherslu er að finna í lögum og reglugerðum á mikilvægi heilbrigðis og hollar lífsvenjur, mun meiri áherslu en verið hefur.

Ég vil nefna nýja aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem var birt í fyrra. Þá var birtur sameiginlegur hluti A-námskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem eru dregnir fram grunnþættir menntunar ásamt áhersluþáttum þeim sem eru tilgreindir í 24. gr. grunnskólalaganna. Þeir afmarka þá hæfni sem nemendur eiga að tileinka sér í grunnskóla. Svo eru í aðalnámskrá útfærð nánar ákvæði laga um námsgreinar og námssvið og sagt til um áherslur á vægi. Viðmiðunarstundaskrá sem sýnir hlutfallslegt vægi milli námsgreina og námssviða er svo hluti af aðalnámskrá. Það er síðan í valdi hvers grunnskóla að ákveða hvort námsgreinar og námssvið séu kennd aðgreint eða samþætt en um leið þarf að gæta að því að námið sé sem heildstæðast.

Einn af þeim grunnþáttum sem ég nefni er heilbrigði og velferð. Þar er lögð aukin áhersla á að allt skólastarf þurfi að efla; heilbrigði og stuðlað sé markvisst að velferð og vellíðan enda verja nemendur stórum hluta dagsins í skóla. Þeim grunnþætti er ætlað að ganga í gegnum aðrar námsgreinar, þ.e. ætlunin er að samþætta hann inn í námsgreinar.

Af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega næringarfræðina er nærtækt að líta á námskrá fyrir list- og verkgreinar þar sem námsgreinin heimilisfræði tilheyrir þeim kjarna. Í þeim drögum sem nú liggja fyrir kemur fram að þekking og leikni í heimilisstörfum sé kjarni heimilisfræðinnar. Honum tengjast allir þættir námsins, fræðilegir sem verklegir. Þetta er að upplagi verkleg grein en í henni eru hins vegar órjúfanleg tengsl á milli næringarfræði og matreiðslu. Hún tengist ekki aðeins grunnþættinum heilbrigði og velferð heldur líka sjálfbærni í grunnþættinum sem er nátengdur næringarfræðinni. Það er öllum orðið æ ljósara að miklu máli skiptir hvernig staðið er að matvælaframleiðslu og hvernig matvælin eru sem við látum inn fyrir okkar varir. Það er lykilatriði í hollustunni líka, þarna koma tveir grunnþættir mjög sterkt inn í.

Gert er ráð fyrir samþættri kennslu í matreiðslu og næringarfræði þannig að nemendum sé gert kleift að átta sig á því hvaða næring er í matnum, hvernig er best að matreiða hann til að varðveita næringarefnin sem best, hvaðan maturinn kemur, átta sig á þessu alltumlykjandi hlutverki sjálfbærninnar og að sjálfsögðu er slík þekking nauðsynlegur undirbúningur fyrir lífið og seinni tíma hlutverk barna og ungmenna sem foreldrar.

Gert er ráð fyrir að opinberar ráðleggingar landlæknisembættis um mataræði og næringu séu nýttar til hliðsjónar. Hins vegar er auðvitað hægt að koma kennslu og námi um næringarfræði við innan fleiri námssviða. Hv. þingmaður nefndi lífsleikni, það hefur verið hluti af henni líka, kannski meira út frá hinum fræðilega grunni, ekki hinum verklega. Það sama má segja um kennslu í ýmsum samfélagsgreinum þar sem skiptir máli að nemendur átti sig á þeirri ábyrgð sem þeir taka með því að velja tiltekna kosti, til að mynda þegar kemur að þessum málum.

Við lítum svo á að stefnt sé að því að efla kennslu og menntun sem lýtur að næringarfræði í grunnskólum. Við horfum á það í gegnum þessa grunnþætti og teljum mikilvægt að það sé samþætt, ekki aðeins inn í heimilisfræðina sem er kannski fasta kjarnagreinin í þessum efnum, heldur komi líka við sögu í öðrum námsgreinum.



[17:16]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar ágætu svör við þessari fyrirspurn og lifandi áhuga á málefninu. Það er brýnt að við hugum að grunnskólastarfinu og eftir atvikum leikskólastarfinu líka með þetta í huga vegna þess að vandinn blasir víða við okkur í hinum vestræna heimi.

Offita er að verða að einu helsta heilbrigðisvandamáli hverrar þjóðar og mjög erfitt að taka á þeim málum þegar helftin af þjóðinni er komin í yfirvigt. Börn eru ekki undanskilin í þessu efni. Aðgangur alls almennings, þar á meðal barna, að hvers kyns mat hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum með fjölgun vörutegunda og verslana. Því er brýnt að halda uppi málefnalegum áróðri, vil ég segja, til að börnin viti það frá fyrstu hendi, frá þeim sem gerst þekkja og frá fræðunum hvernig þau eiga að umgangast mat.

Ég hvet hæstv. ráðherra í þessum efnum og vænti þess að hún muni beina því til ráðamanna innan síns ráðuneytis að sérstakur gaumur verði gefinn að þessu máli því að við erum einfaldlega að fjárfesta í velsæld barna okkar og það er vel. Vána þekkjum við. Vandamálið þekkjum við, það blasir við. Það er að aukast og þess vegna er eðlilegt að boðið verði upp á næringarfræði um það hvernig krakkarnir okkar geta varast offituvandamálið í auknum mæli innan skólakerfisins sem er jú skylda.



[17:18]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni brýningu hans. Ég vil nefna að ég ræddi sérstaklega um námskrá og þennan formlega ramma skólastarfsins en þau verkefni sem skólarnir hafa ráðist í skipta líka máli. Í gangi hafa verið heilsueflingarverkefni á ólíkum skólastigum. Í heilsueflandi framhaldsskólum höfum við til dæmis verið með fjögurra ára verkefni sem skólarnir ganga í gegnum. Lögð er áhersla á hreyfingu eitt árið, næringu annað árið og svo er unnið koll af kolli með geðheilbrigði og fleiri þætti.

Við höfum séð gríðarlegan árangur þar sem fræðsla fer fram. Þá getum við talað um hina teoretísku fræðslu en síðan hefur líka verið tekinn upp nýr praxís þar sem tekið er í gegn það sem haft er á boðstólum í skólunum. Víða hafa nemendur og kennarar tekið mjög vel við breyttu framboði á matvælum í skólum.

Þetta er frábært verkefni sem nýtur mikilla vinsælda í skólunum af því að það er byggt upp á lýðræðislegan hátt, nemendurnir taka sjálfir þátt í því að móta áherslurnar og finna leiðirnar. Ég held að það sé lykillinn að því.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það skiptir máli að við upplýsum unga fólkið okkar um mikilvægi þess sem við látum ofan í okkur. Það skiptir máli að við gerum það ekki bara með því að messa yfir því heldur leyfum því líka að taka þátt og finna það í eigin anda og á sínum skrokki hversu miklu máli þetta skiptir.

Ég held að þarna sé unnið að góðum verkefnum en að sjálfsögðu má gera betur. Ég þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna.