141. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2012.
störf þingsins.

[15:02]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli þingmanna á nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsástandið í heiminum. Í skýrslunni er viðurkennt að efnahagsáætlun eins og sú sem AGS keyrði í gegn með stuðningi ríkisstjórnarflokkanna og Sjálfstæðisflokksins sé kreppudýpkandi.

Efnahagsáætlun AGS sem ég varaði við strax í október 2008 fól í sér allt of hátt vaxtastig og of hraðan niðurskurð á 200 milljarða halla. Sultarólina átti ekki að herða jafnmikið og gert var eftir hrun þar sem illa gekk að fá bankana til að afskrifa tapaðar skuldir heimila og fyrirtækja. Kreppudýpkandi efnahagsstefna dregur úr efnahagsbatanum sem fylgir í kjölfar bankahruns og lífskjör verða því verri og skuldir hins opinbera hærri en ella.

Frú forseti. Þessum skilaboðum reyndum við hv. þingmenn Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason að koma á framfæri þegar við sátum hjá við afgreiðslu fjárlaga í desember 2010 en vorum sökuð um að gera lítið úr fjárlaganefnd og beðin um að íhuga stöðu okkar í stjórnarliðinu.

AGS ráðleggur núna lausbeislaða peningamálastefnu sem mundi krefjast vaxtalækkunar og afnáms verðtryggingar hér á landi. Auk þess leggur AGS áherslu á að tapaðar skuldir í bankakerfinu verði afskrifaðar en ríkisstjórnin kaus frekar langdregið dómsmálaferli.

Að lokum varar AGS við of hröðum niðurskurði ef vextir eru of háir og tapaðar skuldir í bankakerfinu eru ekki afskrifaðar. Við eigum að taka upp efnahagsstefnu sem tryggir velferð allra, ekki bara velferð fjármagnseigenda.



[15:04]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að taka til máls um nokkuð sem mér finnst vera talsverður misskilningur um í þinginu; þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram undan er um drög að nýrri stjórnarskrá. Umræðan um þetta í gær var mjög sérkennileg.

Ritun nýrrar stjórnarskrár var útvistað af Alþingi til þjóðarinnar á sínum tíma með lögum frá Alþingi og það var ekki eitt einasta mótatkvæði greitt gegn þeim lögum. Ef ég man rétt voru 50 fylgjandi, einn sat hjá og tólf voru fjarverandi. Annað var ekki við hæfi enda hafði hér orðið hrun og það er mjög óeðlilegt að það séu eingöngu alþingismenn sjálfir sem setji sér eigin valdsmörk. Haldinn var þjóðfundur með 1 þús. manna slembiúrtaki úr þjóðskrá sem lagði fram þau gildi sem við verðum að viðurkenna að þjóðin vill að séu í stjórnarskrá því slembiúrtak úr þjóðskrá er fullkomið þversnið af íbúum landsins og þar með hugmyndum þeirra.

Skipuð var stjórnlaganefnd að tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd á sínum tíma og ákveðið að kjósa stjórnlagaráð. Sú kosning var síðan dæmd ógild af Hæstarétti. Það var mjög umdeildur úrskurður — ekki dómur heldur úrskurður — vegna þess að það er óheyrt í sögu vestrænna lýðræðisríkja að kosningar séu dæmdar ógildar ef ekki er hægt að sýna fram á að eitthvað hafi haft áhrif á úrslitin. Síðan fer málið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu til þjóðarinnar vegna þess að Alþingi þarf að fá álit þjóðarinnar á þeim drögum sem búið er að semja.

Það er athyglisvert að hvorki sjálfstæðismenn né framsóknarmenn hafa komið fram með efnislega gagnrýni á innihald stjórnarskrárinnar, (Gripið fram í: Hvað?) þeir gera það vonandi þegar hún kemur til þingsins. Þeir hafa eingöngu verið að gagnrýna ferlið við ritun hennar. (Forseti hringir.) Ég hef ekki heyrt neina efnislega gagnrýni um eina einustu grein. Mig langar að þetta komi fram vegna þess að umræðan um þetta, sérstaklega af hálfu Sjálfstæðisflokksins, hefur verið mjög einkennileg og (Forseti hringir.) það væri meiri sómi að því ef þeir gerðu þetta af virðingu við þjóðina.



[15:07]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það ber vel í veiði að geta andmælt síðustu orðum síðasta ræðumanns hástöfum því ég hef gert verulegar efnislegar athugasemdir við flestar greinar frumvarpsins. Ég skilaði 40 síðna umsögn sem hv. þingmaður hefur vafalaust lesið.

Eftir tíu daga gengur þjóðin til atkvæða um tillögur um nýja stjórnarskrá og hún hefur ekki fengið neina efnislega umræðu á Alþingi, enga. Ég vil spyrja hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem hefur haldið eina ræðu og sex andsvör um þetta mál — andsvörin voru svona og svona, svör við einhverju, spurt um uppáhaldsgreinina — en ræða hennar fjallaði ekkert efnislega um frumvarpið. Ég vil spyrja hana hvort ekki sé mál til komið að ræða frumvarpið efnislega.

Hv. þingmaður situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég vil spyrja hana út í eitt atriði sem er Lögrétta. Hvernig líst henni á tillögur stjórnlagaráðs um Lögréttu og hvernig líst henni á þá hugmynd um Lögréttu sem ég gerði til hv. nefndar? Hvor hugmyndin er betri? Og þá er spurningin hvort breytingin sem ég gerði falli innan þess ramma sem fyrsta spurning í kosningunni eftir tíu daga segir til um, að tillögurnar verði lagðar til grundvallar. Hvað felst eiginlega í því? Má gera svona breytingu á frumvarpinu?

Til að það komi alveg skýrt fram þá mun ég mæta á kjörstað og nýta kosningarrétt minn sem borgari þessa lands, en þrátt fyrir mikla kosti þessa frumvarps eru gallarnir þyngri og alvarlegri þannig að ég mun segja nei við fyrstu spurningunni um hvort leggja skuli tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá.



[15:09]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vissi ekki að reglan væri að taka fólk í munnlegt próf eins og í stúdentsprófunum (Gripið fram í.) þar sem það er yfirheyrt um málið. Þjóðin er ekki að fara í munnlegt próf. Þjóðin ætlar að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla fjallar um tillögur stjórnlagaráðs, ekki tillögur Péturs H. Blöndals. Ég hef reyndar þegar greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að ég verð í burtu á kjördag.

Því var haldið fram að ég hefði ekkert fjallað efnislega um málið. Það er ekki rétt. Ég hélt ræðu þegar skýrslan var flutt í fyrra. Ég hef fjallað vítt og breitt um tillögur stjórnlagaráðs í ræðu og riti síðan þær voru birtar. (Gripið fram í.)



[15:10]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég veit að það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að hún hefur skrifað töluvert og talað mikið um tillögur stjórnlagaráðs og um stjórnarskrárbreytingarnar og ég held að ekki sé vitlegt að draga neitt úr því.

Það sem hér kemur fram í umræðunni er hins vegar merkilegt og það er hið mikla 40 síðna plagg Péturs H. Blöndals um þessar breytingar. Það er það fyrsta sem maður heyrir frá Sjálfstæðisflokknum efnislega um málið. Nú hef ég ekki séð þessar 40 síður en ég vona að hann hafi dreift þeim í þingflokknum vegna þess að það sem okkur hefur hingað til vantað sem skýringu á nei-i hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við atkvæðagreiðslunni og við tillögum stjórnlagaráðsins er hvaða efnislegar athugasemdir eða andmæli (Gripið fram í.) formaður Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn í heild hefur við stjórnarskrártillögurnar eins og þær eru. Ef það eru 40 síður Péturs Blöndals og hann hefur verið útnefndur foringi Sjálfstæðisflokksins í þessum málum er gott að vita það.

Hér situr hv. þm. Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það væri gott að vita þetta vegna þess að við vitum ekki á hvaða grunni andmælin eru. Við höfum verið að geta okkur þess til á hvaða grunni þau kunni að vera. Ég held til dæmis að það kunni að vera auðlindaákvæðið, hið sérstaka auðlindaákvæði sem stendur í Sjálfstæðisflokknum. Þá hristir Pétur H. Blöndal höfuðið og þá er rétt að skýra það.

Ég horfi aftur fram á annan bekk þar sem situr Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og spyr beinlínis: Ef það er ekki auðlindaákvæðið, hvaða efnisatriði eru það þá í tillögum stjórnlagaráðsins sem Sjálfstæðisflokkurinn er svo mikið á móti? Ég spyr hvað það er sem hann leggst svo mikið gegn að hann hvetur stuðningsmenn sína, í gegnum munn formanns síns, til að segja nei við allri þeirri vinnu og öllu því ferli sem hefur verið í gangi frá því hruni sem Sjálfstæðisflokkurinn einkum stóð fyrir.



[15:12]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru fjölmargar greinar þessara draga sem gera má athugasemdir við. Ég ætla að nota tíma minn og taka til eina grein, 87. gr. til að nefna dæmi um það hvers vegna ég hef verulegar efasemdir um allt þetta mál.

Í henni er lagt til, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin taki ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánara ákvæði í lögum.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að við ákveðnar aðstæður, þ.e. þegar um er að ræða mikilvæg eða stefnumarkandi mál, skal ríkisstjórnin breyta um eðli og verða svokallað fjölskipað stjórnvald. Af því að við erum að tala um stjórnarskrá þá skiptir miklu máli hvað hlutirnir þýða. Hvenær eru mál stefnumarkandi og hvaða mál eru mikilvæg? Það þarf að skilgreina það þannig að hægt sé að framfylgja þessu ákvæði. Þegar litið er til greinargerðarinnar sem fylgir er því miður ekki mikið að græða á henni, þar stendur, með leyfi forseta:

„Afmörkun á því hvað telst mikilvægt eða stefnumarkandi getur verið að hluta í lögum“ — og virðulegi forseti, það er þá okkar þingmannanna að skilgreina það — „og, með heimild í lögum, að hluta eftir forsætisráðherra, eftir atvikum í samráði við aðra ráðherra. Þau mál sem ekki falla undir þessa afmörkun eru áfram á forræði og ábyrgð þess ráðherra sem málefnið heyrir undir. Afmörkunin getur jafnframt breyst í tímans rás eftir því sem löggjafinn ákveður, reynsla gefur tilefni til og samfélagið þróast.“

Þetta er það sem lagt er upp með hvað varðar fyrirkomulag mála hjá ríkisstjórninni. Stundum á hún að vera fjölskipað stjórnvald, stundum ekki. Hvernig það er afmarkað hvort mál séu mikilvæg eða stefnumarkandi las ég upp áðan. Sér nú hver maður hvers lags vitleysa þetta er. Hvernig í ósköpunum á að standa að stjórn landsins ef þetta á að verða fyrirkomulagið sem lagt er til grundvallar fyrir störf ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Það er ekki furða þótt margir hafi verulegar áhyggjur af því að málið sé ekki nægilega vel rætt og (Forseti hringir.) rangt að fara með það fram með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn hefur gert.



[15:14]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna málefna grunnskólans á Tálknafirði. Þar stóð sveitarfélagið og sveitarstjórnarmenn frammi fyrir því að þurfa að halda uppi skólahaldi en skólastjórinn var farinn og tveir kennarar höfðu hætt um miðjan síðasta vetur. Leitað var ráða hjá menntamálaráðuneytinu meðal annars á fundi í byrjun maí, fundi sem tók reyndar sex vikur að ná vegna máls sem síðar var svo mikilvægt að fara þurfti með það fyrir innanríkisráðuneytið. Gott og vel.

Þau sem standa að sveitarstjórninni í Tálknafirði bera ábyrgð á því að standa fyrir öflugu skólastarfi. Þau stóðu frammi fyrir því að vera með lágmarksmannafla eða að leita til fagaðila á sviði menntamála til að gera það kleift að halda uppi öflugu skólastarfi á Tálknafirði. Það er með ólíkindum að sjá að það virðist skipta ráðuneytið mestu á hvaða kennitölu laun kennara koma í, staðinn fyrir að hugsa um faglegt starf.

Ábyrgð sveitarstjórnarmanna er nefnilega mikil. Þeir þurfa að halda uppi öflugu skólastarfi hvar sem er á landinu. Þau í stjórninni ákváðu, í ljósi þeirra hremminga sem hafa verið í skólastarfinu á Tálknafirði, að leita aðstoðar fagaðila með áratugareynslu á sviði menntamála. Ráðuneytið gerir ekkert í margar vikur þar til þau fá afsvar í bréfi sem var móttekið 2. október og málið var sent til innanríkisráðuneytisins. Þetta er með ólíkindum. Það er með ólíkindum að það virðist skipta ráðuneytið meira máli hverjir það eru sem borga laun kennara í staðinn fyrir að hugsa um metnaðinn sem slíkan í skólastarfinu á Tálknafirði.

Ég tel mikilvægt að sveitarfélögin á landsbyggðinni rétt eins og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi tækifæri til að þróa skólastarf sitt. Hér er ekki verið að borga skólagjöld. Hér er ekki um að ræða einkafjármagn til greiðslu fyrir skólastarfið (Forseti hringir.) heldur er það sveitarstjórnin á Tálknafirði sem sinnir og ber ábyrgð á skólastarfinu. Hún fær aðila annars staðar að til að standa undir faglegu og metnaðarfullu skólastarfi. (Forseti hringir.) Gegn því er ráðuneyti menntamála í dag að vinna og mér finnst það miður.



[15:17]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á vordögum boðaði Sjálfstæðisflokkurinn að þegar þing kæmi saman í haust mundi hann kynna stjórnarskrártillögur sínar. Nú er að verða liðinn mánuður síðan þing kom saman og ekkert bólar á tillögunum og ég kalla því eftir tillögum Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálum. Nú eru aðeins tíu dagar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og það væri fengur að því að fá tillögur sjálfstæðismanna fyrir þær kosningar til að menn geti tekið efnislega afstöðu til þeirra valkosta sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja fram gegn tillögu stjórnlagaráðsins. (Gripið fram í: Á að kjósa um þær?)

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað dvelur orminn langa? Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn ekki kominn með þær tillögur sem hann boðaði að hann mundi kynna hér í byrjun september?

Ég sé að hér á eftir mér talar þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir. Hún getur kannski upplýst okkur um það hvort við eigum von á þessum tillögum sem boðaðar voru eða hvort Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki komið sér saman um tillögur í stjórnarskrármálum eða hvort flokkurinn ætli bara að skila auðu í einu stærsta málefni sem til umfjöllunar er á vettvangi stjórnmálanna í dag, stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Ég vil ekki trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn með sína löngu sögu í íslenskum stjórnmálum ætli að skila auðu í stjórnarskrármálunum. Ég trúi ekki öðru en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhverja sameiginlega afstöðu í þessum málefnum. En það vekur auðvitað ákveðnar spurningar þegar einn og einn þingmaður er farinn að leggja fram sína eigin stefnuskrá í stjórnarskrármálum af þeirra hálfu.



[15:19]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er í hæsta máta óvenjulegt að bornar séu fram spurningar undir þessum lið án þess að láta fólk vita. Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að ræða um allt annað málefni, en til að svara hv. þm. Helga Hjörvar get ég upplýst að það stóð aldrei annað til en að tillögur Sjálfstæðisflokksins yrðu lagðar fram og kæmu til umræðu þegar við ræddum og tækjum fyrir stjórnarskrána og tillögur um breytingar á henni á Alþingi. Ég veit ekki til þess að við höfum séð þá umræðu líta dagsins ljós á þinginu. Til að upplýsa þingmanninn frekar er því miður ekki verið að kjósa um tillögur Sjálfstæðisflokksins í þeirri skoðanakönnun sem fram fer 20. október. Það var ekki í boði að Sjálfstæðisflokkurinn legði fram sínar spurningar eins og við vitum.

Það sem ég ætlaði að ræða hér er Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Hv. formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, kom hingað í gær og sagði að tímabært væri að fara yfir og endurskoða kosti og galla EES-samningsins. Mér þykir það í sjálfu sér í fínu lagi og fagna því að formaður utanríkismálanefndar sé nú farinn að horfa meira til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en til Evrópusambandsins. Það tel ég vera gott. Hann vísaði einnig í nýlega skýrslu Norðmanna sem tóku þetta mál fyrir á vordögum og að Íslendingar ættu að gera sambærilega úttekt á samningnum. Ég spyr: Af hverju þurfum við að gera það, getum við ekki notfært okkur það starf sem Norðmennirnir fóru í? Þetta er sama EES-svæðið sem við erum í með Norðmönnum.

Ég las þessa skýrslu á sínum tíma og rauði þráðurinn þar er að framkvæmdin á samningnum hafi gengið vel, að vandamál honum tengd séu meira í prinsippinu en í praxís og að Norðmenn sætti sig við (Forseti hringir.) lýðræðishallann vegna annarra hagsmuna og gilda sem meiri hluti Norðmanna telur að EES-samningurinn verji og varðveiti. Niðurstaða Norðmanna var því sú að EES-samningurinn fullnægði þeirra þörfum. (Forseti hringir.) Á honum má gera lagfæringar og ég held að við ættum að taka skýrslu Norðmanna sem fyrst til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á tímamörkin. Ræðutími er tvær mínútur undir þessum lið.)



[15:21]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. 20. október nk. er merkisdagur í sögu þjóðarinnar. Þá hefur almenningur tækifæri til að setja mark sitt á gerð þeirrar stjórnarskrár sem þjóðin er að skrifa um þessar mundir. Það unga fólk sem setið hefur á pöllum Alþingis og fylgst með þeirri umræðu sem hér hefur farið fram hefur til dæmis stórkostlegt tækifæri til að koma að gerð nýrrar stjórnarskrár. Það er mikilvægt að allir mæti á kjörstað vegna þess að þeir sem sitja heima munu eftirláta öðrum að taka afstöðu til stjórnarskrárinnar. Þess vegna fagna ég því að Sjálfstæðisflokkurinn, síðastur flokka, ætli að hvetja sitt fólk til þess að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að Alþingi virði ferli málsins allt til enda. Það er þjóðin sem er að skrifa þessa stjórnarskrá en ekki alþingismenn. Það verðum við í þessum sal að virða. Þjóðin sjálf hefur fengið einstakt tækifæri í hendur til að koma að ákveðnum efnisatriðum við gerð stjórnarskrárinnar. Þegar þingið fær svo málið efnislega til meðferðar mun það væntanlega gera tæknilegar breytingar, orðalagsbreytingar og greinargerðarbreytingar en það mun ekki breyta efnisatriðum málsins vegna þess að þjóðin sjálf er að skrifa stjórnarskrá sína. Við alþingismenn verðum að virða það ferli allt til enda. Sem og tel ég skynsamlegt að þegar Alþingi hefur lokið umfjöllun sinni um málið verði fullbúin stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina að nýju samhliða alþingiskosningum næsta vor og þá fái þjóðin öll að segja álit sitt á endanlegu plaggi.

Gætum að því að 20. október er merkisdagur vegna þess að við erum að upplifa sögulega tíma hér. Þjóðin öll — einn maður, eitt atkvæði — fær að taka afstöðu til efnisatriða í nýrri stjórnarskrá. Þetta eru sögulegir tímar og við eigum öll að fagna þeim stóra degi sem fram undan er. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[15:23]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á miklu réttlætismáli sem varðar misgengi á fyrirframgreiðslu námslána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Eins og allir vita eru þau eftirágreidd en ekki um samtímagreiðslur að ræða og geta fyrsta missiris nemendur í háskólum lent í því — eins og sá er við mig hafði samband og ég hef fylgst með í þessu máli — að fá höfnun frá fjármálafyrirtæki um fyrirframgreiðsluna á þeim forsendum að viðkomandi sé í samþykktu greiðsluaðlögunarferli hjá umboðsmanni skuldara. Bankarnir telja að ekki sé hægt að lána þeim fyrir fram.

Í þessu tilfelli er um að ræða unga einstæða móður með tvö börn á framfæri á fyrsta missiri í Háskóla Íslands. Hún hefur fengið höfnun í öllum bönkunum og þó að aðstoðarmaður hennar hjá umboðsmanni skuldara hafi beitt sér líka af miklu afli hefur það engu breytt. Var því þrautaráðið að leita til sveitarfélagsins um framfærslustyrk þangað til námslánið fengist greitt en það tókst því miður ekki heldur. Viðkomandi sveitarfélag sá sér ekki fært að verða við því.

Ég vil vekja athygli á þessu því að þetta er mjög alvarlegt mál. Viðkomanda eru allar dyr lokaðar og ekkert annað blasir við en að hrökklast úr námi. Þetta er fullkomlega óskiljanleg framkoma hjá fjármálafyrirtækjunum og auðvitað sveitarfélaginu líka og til mikillar vansæmdar hvernig gengið hefur verið fram og það bitnar á þeim sem síst skyldi. Þeir sem aflið hafa og úrræðin hrekja þessa einstaklinga úr námi, dæmin eru nokkur, og skilja eftir á köldum klaka.

Ég nota tækifærið og skora á fjármálafyrirtækin og viðkomandi sveitarfélög að bregðast við þessu þannig að þeir fáeinu einstaklingar sem um ræðir þurfi ekki að hrökklast úr námi af þessum sökum. Það er mjög ósanngjarnt og ekki hægt að sætta sig við það.

Við munum við fylgja þessu eftir í viðkomandi þingnefnd og sjá til þess að þetta gangi fram eins og (Forseti hringir.) úrræði umboðsmanns gerðu ráð fyrir, þ.e. að bankarnir mundu bjarga þessu fólki um fyrirframgreiðslu þangað til eftirágreidd námslán fengjust greidd. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[15:26]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið nokkur umræða um atkvæðagreiðsluna 20. október. Það er mikilvægur dagur og stór í eflingu lýðræðis á Íslandi.

Hæstv. forseti. Það er líka mikilvægt fyrir Alþingi að vekja athygli á alþjóðlegum dögum sem tileinkaðir eru lýðræði, mannréttindum og forvörnum eða ákveðnum sjúkdómum og að þingmenn leggi við hlustir og heyri boðskapinn á hverjum tíma.

1. október var tileinkaður baráttunni gegn krabbameini og októbermánuður allur er undir kjörorðunum: Sýnum árvekni, tilgangurinn er augljós, sinnum krabbameinsleit, hugum að forvörnum, eflum rannsóknir og meðferðir.

Dagurinn í dag, 10. október, er alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur. Hann er mikilvægur fyrir okkur öll til þess að efla geðheilbrigði. Fyrsta skrefið er að eyða fordómum gegn geðsjúkdómum. Þá þurfum við að efla forvarnir, geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni, þverfaglega vinnu, félagsleg úrræði og við þurfum að efla sérfræðiþjónustu um allt land. Þetta vitum við að við þurfum að gera. Það er stórt átak fyrir íslenska þjóð að breyta þeim hugsunarhætti, bæði meðal almennings og ekki síður innan heilbrigðisþjónustunnar, að líta á geðheilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðismál sem alveg sérstakt verkefni og líkamleg mein, kvilla og meðferð sem aðgreind verkefni. Maðurinn er líkami og sál, þetta samþættist og við þurfum að huga að hvoru tveggja. Þess vegna er mikilvægt að hafa dag sem þennan til að minna okkur á að við þurfum að huga heildstætt að geðheilbrigðismálum. (Forseti hringir.) Ég fagna því að blaðinu Geðhjálp hafi nú verið dreift inn á öll heimili og vona að við tökum boðskap þessa dags til okkar.



[15:28]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Frá því að fjármálakerfið hér á landi hrundi haustið 2008 hefur ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar unnið ötullega að því að reisa við efnahag landsins. Hrunið hafði í för með sér gríðarlegar afleiðingar fyrir efnahag og afkomu í samfélaginu, fyrir heimili, atvinnulíf, ríkissjóð og sveitarfélög. Það var tröllaukið verkefni sem ríkisstjórnin tók að sér í ársbyrjun 2009.

Hvernig hefur tekist til, frú forseti? Erum við betur sett nú en við vorum haustið 2008 og í ársbyrjun 2009? Um það velkist væntanlega enginn í vafa að okkur hefur skilað vel áleiðis þó að margt sé að sjálfsögðu fram undan í þeim efnum. Nýlegar tölur sem Hagstofan hefur birt sýna að ráðstöfunartekjur heimilanna á árinu 2011 hafa aukist um 9,6% frá árinu 2010 og þar með snýst við sú þróun sem heimilin hafa búið við frá hruni en ráðstöfunartekjur heimilanna lækkuðu bæði árin 2009 og 2010. Þessi aukning ráðstöfunartekna heimilanna í fyrra þýðir að kaupmáttur þeirra jókst um 5,1%. Það sem hér veldur er að heildartekjur heimilanna, þ.e. laun, bætur o.fl., hafa hækkað frá árinu 2010 til 2011 en fleira skiptir máli eins og að eignaútgjöld heimilanna hafa lækkað um 20%, þar með talin vaxtagjöld sem greidd eru af eignum í kjölfar margvíslegra ráðstafana sem ríkisstjórnin greip til. Allt vinnur þetta saman að því að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og kaupmáttinn.

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að við höfum þetta í huga, að við gerum okkur grein fyrir því að margt hefur áunnist. Við megum ekki láta bölmóðinn í dofrahöllum villa okkur sýn. Núverandi ríkisstjórnarflokkar geta gengið hnarreistir til kosninga næsta vor. Valkostirnir verða skýrir: (Forseti hringir.) Viljum við búa áfram að uppbyggingu eins og núverandi ríkisstjórn hefur lagt grunninn að eða ætlum við að treysta á þau öfl undir forustu Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem fór hér með völdin árum og áratugum saman fyrir hrun og leiddi ógæfuna yfir þjóðina?



[15:31]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þuríði Backman og óska okkur til hamingju með alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn sem er í dag. Megináherslan hvað þennan dag varðar er baráttan við þunglyndi. Áætlað er að 350 milljónir manna í heiminum séu að fást við þann erfiða sjúkdóm.

En ég kem hins vegar hingað upp til að ræða nokkuð sem ég held að valdi mjög mörgum erfiðleikum og vanlíðan þó að það sé ekki skilgreint sem geðsjúkdómur. Það er verðtryggingin og áhrifin á skuldir heimilanna.

Við framsóknarmenn mæltum fyrir máli okkar varðandi þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta í gær. Þar ræddi ég sérstaklega þá umfjöllun sem verið hefur að undanförnu um að bankarnir séu að hagnast óeðlilega á hárri verðbólgu. Það er vegna þess að ójafnvægi er á milli verðtryggðra eigna og skulda hjá bönkunum sem gerir það að verkum að gífurlega mikill hagnaður er að myndast hjá bönkunum.

Einnig er bent á í Hagsjá frá hagfræðideild Landsbankans að það eru ekki bara bankarnir sem hagnast á þessu misvægi, það er líka ríkissjóður. Þetta endurspeglast aftur og aftur. Eins og fyrirkomulagið er varðandi verðtrygginguna á Íslandi þá er það þannig að enginn er í rauninni að takast á við baráttuna við verðbólguna með heimilunum nema Seðlabankinn. En Seðlabankinn hefur ekki þau tæki og þau gögn til að geta virkilega tekið á. Því er svo mikilvægt að við förum öll að róa í sömu átt hvað þetta varðar.

Í frumvarpi okkar leggjum við til að Seðlabanka Íslands verði skylt að setja fjármálafyrirtækjum reglur varðandi verðtryggingarjöfnuð, þannig að það verði jafnvægi þarna (Forseti hringir.) á milli og það sé ekki þannig að fjármálafyrirtækin geti verið að græða á verðbólgunni og jafnvel hvetja (Forseti hringir.) til hennar, hagnist á því að hér sé verðbólga sem skaðar síðan heimili landsins.



[15:33]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í þessum sal fáum við trekk í trekk að heyra stjórnarandstöðuna fjalla um eymdarástand, atvinnuleysi, vonleysi og svartnættið. Vissulega var staðan vond þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin tóku við völdum í kjölfar þess að frjálshyggjan, einkavæðingin, skattalækkanir, ívilnanir til hinnar efnameiri keyrði samfélagið í kaldakol og skildi ríkissjóð eftir með veikan tekjugrunn.

En nú er hins vegar annað upp á teningnum eins og fram hefur komið í gögnum frá Hagstofunni og fjallað er um í Hagfréttum í dag. Ráðstöfunartekjur heimilanna hækkuðu um 9,6% á síðasta ári eftir að hafa dregist saman á milli ára frá hruni. Samdrátturinn var óhjákvæmilegur og viðsnúningurinn sem við nú sjáum er uppskera af ábyrgri og traustri efnahagsstjórn.

Kjörorð sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar 2007 var: Traust efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið. Það er vinstri stjórn sem er að efna kosningaloforð sjálfstæðismanna, gætið að því. En Sjálfstæðisflokkurinn bar þó ekki gæfu til að láta efndir fylgja þeim loforðum. Enda fór sem fór.

Fleiri góð teikn eru á lofti. Vísar og tölur sýna svo ekki verður um villst að staðan fer batnandi. Í Hagfréttum dagsins kemur fram að á síðasta ári hækkuðu laun um 9,2%, kaupmáttur launa jókst um 2,6%, eignaverð hækkaði, atvinnulausum fækkaði og skuldir heimila héldu áfram að lækka.

Við verðum að leyfa okkur að gleðjast yfir því sem gott er og við skulum fagna því að rauðgræn ríkisstjórn skuli við erfiðar aðstæður hafa náð þeim árangri sem raun ber vitni. Við erum svo sannarlega að uppskera eftir erfiða tíma og þjóðin á það skilið að við varðveitum þann árangur og fáum tækifæri til að byggja áfram á þeim grunni.

Ef við tökumst á við vandann með jákvæðu hugarfari verður allt auðveldara.