141. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2012.
aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun, síðari umræða.
þáltill. MÁ o.fl., 44. mál. — Þskj. 44, nál. 186.

[15:54]
Frsm. um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hinnar háu umhverfis- og samgöngunefndar um þá tillögu til þingsályktunar sem forseti hefur þegar getið um, um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun. Þingsályktunartillöguna flytja 11 þingmenn, sá sem hér stendur og auk hans hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Siv Friðleifsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Álfheiður Ingadóttir og Lúðvík Geirsson.

Meginefni tillögunnar er eiginlega að koma upp starfshópi á vegum forsætisráðherra með þátttöku annarra ráðherra og ýmissa samtaka og stofnana sem hafi það verkefni meðal annars að öðlast yfirsýn um sögu póstverslunar á Íslandi síðustu áratugi með samanburði við stöðu og þróun í grannlöndum, að meta líklega þróunarhneigð í póstverslun á næstunni og gera grein fyrir áhrifum aukinnar póstverslunar á stöðu neytenda annars vegar og stöðu íslenskra kaupmanna og þjónustufyrirtækja hins vegar.

Verði þetta samþykkt er honum er falið að gera það í ljósi níu rannsóknaratriða sem talin eru upp í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Tillagan kom fyrst fram á fyrra þingi og kom til umfjöllunar í sömu nefnd og fjallaði um hana núna. Óskað var eftir umsögnum nokkurra aðila um málið og þær bárust. Það voru Íslandspóstur, Neytendasamtökin og Samtök verslunar og þjónustu sem sendu umsagnir og í öllum þeim umsögnum var mælt með samþykkt tillögunnar. Nefndin afgreiddi hana jákvætt á fyrra þingi í nefndaráliti en málið komst aldrei til síðari umr. vegna þrengsla í þinglok, eins og menn muna.

Nú hefur umhverfis- og samgöngunefnd tekið fyrir hina nýju tillögu og samið um hana nefndarálit sem ég les nú úr, með leyfi forseta:

„Meginefni tillögunnar lýtur að því að fela forsætisráðherra að setja á fót starfshóp sem kanni þróun og regluverk í póstverslun og geri tillögur að lagabreytingum og öðrum ráðstöfunum í því skyni að skapa póstverslun samkeppnisstöðu sem væri til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Afstaða nefndarinnar á síðasta þingi kom fram í nefndaráliti (þskj. 1236) og sagði þar m.a. að póstverslun hefði farið vaxandi undanfarin ár, eins og fram kæmi í greinargerð, og þörf aukist fyrir bætt lagaumhverfi á þessu sviði. Nefndin tók heilshugar undir þingsályktunartillöguna og fagnaði því að settur yrði á fót starfshópur í því skyni að efla og auðvelda póstverslun. Nefndarálitinu var dreift 26. apríl en málið komst ekki til síðari umræðu áður en þingi var frestað í júní. Nefndin hefur nú athugað málið að nýju, er á sama máli og lýst er í nefndarálitinu frá því í vor, og leggur til að tillagan verði samþykkt.“

Undir þetta rita allir nefndarmenn sem komust á þann fund þegar málið var tekið fyrir, nefnilega hv. þingmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og Atli Gíslason auk mín sem var tilnefndur framsögumaður málsins.

Þá er ekki annað eftir í þessu, nema fram komi fyrirspurnir um málið, en að þakka nefndarmönnum, bæði nú og á síðasta þingi, fyrir góða samvinnu og viðbrögð í þessu efni og þeim sem skiluðu umsögnum um tillöguna. Þetta er ekki stórt mál og hefur verið afgreitt í samkomulagi hingað til og verður það áfram, hygg ég. Það gæti átt eftir að auðvelda mönnum frjálsa verslun á landinu og stuðla að bættum verslunarháttum, bæði fyrir neytendur og verslunarmenn, innlenda og erlenda.



[15:58]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þessa þingsályktunartillögu. Ég er henni mjög hlynntur, tel hana vera af hinu góða. Ég furða mig hins vegar á því að hún skuli hafa farið í umhverfis- og samgöngunefnd. Flest atriði sem um er rætt í greinargerðinni falla undir efnahags- og viðskiptanefnd. Spurningin er þessi: Hvers vegna fór þetta í umhverfis- og samgöngunefnd en ekki til efnahags- og viðskiptanefndar?

Það er verið að tala um að fella niður virðisaukaskatt ef hann er ekki mikill. Það er líka talað um að setja gjaldskrá fyrir umsýslugjöld vegna tollafgreiðslna o.s.frv., allt meira og minna mál sem falla undir fjármálaráðuneytið eða viðskiptaráðuneytið og ættu þar af leiðandi að heyra undir efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég endurtek að ég tel þetta vera góða hugmynd. Reyndar er eingöngu verið að fela forsætisráðherra að setja á fót starfshóp þannig að þetta er enn ein nefndin. Það getur vel verið að eitthvað gott komi úr því og út úr því komi eitthvað sem geri þessa verslun liprari. Þarna er um að ræða virkilega samkeppni við aðra verslun og ef vel tekst til mun sú samkeppni lækka verð til neytanda eins og alla jafna gerist með samkeppni. En svo vill til að samkeppnismál heyrir líka undir efnahags- og viðskiptanefnd.



[16:00]
Frsm. um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðning hans við málið og get tekið undir athugasemd hans. Það vafðist aðeins fyrir mér á fyrra þingi hvaða nefnd ég ætti að mæla með að sæi um þetta mál. Efnahags- og viðskiptanefnd kom vissulega mjög til greina, en af því þetta fjallaði meðal annars um póstinn, Íslandspóst, lagði ég þetta til og ekki bárust um það athugasemdir.

Ég held að það skipti kannski ekki öllu máli. Það er alveg ljóst að þegar tillögur um breytingar koma frá þessari nefnd verða mjög margar þeirra ræddar í hinni háu efnahags- og viðskiptanefnd þannig að nefndarmenn þar geta byrjað að hlakka til þeirra umbóta sem við komum á þegar nefndin hefur lokið störfum.

Það sést nú líka á því að í nefndinni eiga að vera, fyrir utan fulltrúa frá samtökum kaupmanna, flutnings fyrirtækja og neytenda, starfsmenn eða fulltrúar ráðamanna í fjármála- og efnahagsráðuneyti, innanríkisráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, auk fulltrúa forsætisráðherra sem verður formaður nefndarinnar. Þannig að hér þarf að koma víða við.

Það var ekki allt sem benti til að þetta ætti að fara í eina nefnd öðrum fremur á þinginu. En athugasemdin er fullkomlega við hæfi og alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta hefði alveg eins og ekkert síður átt að fara í þessa nefnd.