141. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2012.
menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 1. umræða.
frv. allsh.- og menntmn., 190. mál (afnám frests til að sækja um leyfisbréf). — Þskj. 193.

[16:02]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, með síðari breytingum (afnám umsóknarfrests til að sækja um leyfisbréf). Það er öll allsherjar- og menntamálanefnd sem flytur þetta mál.

Kjarninn er sá að við ætlum að leggja undir breytingu á 3. mgr. 23. gr. laganna, að hún orðist svo, með leyfi forseta:

„Þeir sem innrituðust í fullgilt 180 eininga kennaranám, bakkalárnám, til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum á grundvelli laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, og luku náminu fyrir 1. júlí 2012 eiga rétt á útgáfu leyfisbréfs til kennslu í leikskólum, grunnskólum og/eða framhaldsskólum. Sama gildir um þá sem innrituðust í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum og luku náminu fyrir 1. júlí 2012.“

Kjarninn er sá að okkur bárust ábendingar frá hópi nemenda í námi til B.Ed.-gráðu sem luku námi sínu fyrir 1. júlí 2012, líkt og markmiðið var, en gættu þess ekki að sækja um leyfisbréf samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir þann tíma, sóttu sem sagt ekki um áður en sá frestur rann út.

Um er að ræða á annan tug nemenda sem svo er ástatt um og eiga þeir það eina úrræði í stöðunni að bæta við sig tveimur árum í námi til meistaragráðu á sviði menntunarfræða. Því er lagt til í frumvarpinu, eftir viðræður við þennan hóp og eindregnar óskir frá þeim, að felldur verði brott frestur til að sækja um leyfisbréf en þess í stað lagt til grundvallar að þeir sem byrjað hafi fullgilt kennaranám samkvæmt námsskipulagi eldri laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara eigi rétt á útgáfu leyfisbréfs og sé sá réttur ótímabundinn þannig að ekki sé verið að mismuna nemendum eftir því hvort þeir sóttu um þennan frest eða ekki, þetta er bara út frá því. Þetta er bara út frá því hverjir höfðu hafið námið með gamla fyrirkomulaginu ef svo má segja eða fyrra fyrirkomulagi. Með sambærilegum hætti er lagt til að þeim sem innritast hafi í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum á grundvelli laga og lokið hafa náminu fyrir 1. júlí 2012 veitist ótímabundinn réttur til útgáfu leyfisbréfs.

Við erum að ræða jafnræðismál og mikilvægt sanngirnismál fyrir þann hóp sem lendir í þessari stöðu, er á þessum skilum þegar verið er að breyta svo mjög fyrirkomulagi námsins, m.a. þannig að námið lengist og tekur breytingum, að þeir njóti jafnstöðu við aðra þá sem hófu námið fyrir þann tíma en sóttu um frestinn.

Eftir 1. júlí 2011 kom í ljós að stór hópur nemenda í bakkalárnámi og uppeldis- og kennslufræðinámi hafði ýmist lokið námi fyrir 1. júlí 2011 en lét hjá líða að sækja um leyfisbréf fyrir þann tíma og náði því ekki að ljúka náminu. Fulltrúar þessara nemenda leituðu ásjár menntamálanefndar Alþingis á síðasta löggjafarþingi, sem útbjó frumvarp til breytinga á áðurnefndri málsgrein.

Í nefndaráliti menntamálanefndar við afgreiðslu þess frumvarps sem varð að lögum sagði eftirfarandi:

„Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu var við samþykkt laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, nr. 87/2008, ákveðið að þeim sem byrjað hefðu kennaranám fyrir gildistöku laganna yrði veittur frestur til 1. júlí 2011 til að fá leyfisbréf til kennslu að loknu bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum. […] Við meðferð málsins skoðaði nefndin sérstaklega hvort þessi frestur væri nægjanlega langur. Bent var á að umsagnarfrestur um grunnnám á háskólaárinu 2011–2012 var til 5. júní 2011 og þar af leiðandi gætu þeir nemendur sem frumvarpið lýtur að ekki nýtt sér þennan frest.“

Áfram segir:

„Niðurstaðan var sú að eftirfarandi breyting varð á 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2008 á 139. löggjafarþingi: „Þeim sem innrituðust í 180 eininga bakkalárnám til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum fyrir 1. júlí 2008 og áttu við lok vormissiris 2011 þrjátíu eða færri einingum ólokið til prófs veitist frestur til að sækja um útgáfu leyfisbréfs til kennslu í leik-, grunn- og/eða framhaldsskóla til 1. júlí 2012.“

Eins og ég rakti hér áðan var ákveðinn hópur sem brann inni með þetta, hafði ekki sótt um frestinn en uppfyllti svo sannarlega öll skilyrðin og markmiðin sem þáverandi menntamálanefnd hafði lagt upp með. Ég tel því mjög mikilvægt að við bregðumst við þessu og jöfnum þannig stöðu þeirra við aðra nemendur og blöndum þessu að öðru leyti ekki saman við umræðu sem er uppi um kennaramenntun, hvort það hafi verið heillaskref eða ekki að lengja námið. Ég held að það hafi verið í sjálfu sér.

Verið er að ræða hvort skoða eigi að nám leikskólakennara verði áfangaskipt þannig að þeir geti hafið störf með tiltekin réttindi eftir þrjú ár, en ljúki áfram fimm ára námi til fullnustu. Þetta er til skoðunar eins og ég nefndi í þingræðu í gær, sveitarfélög og fleiri hafa verið með ákall um það. Það verður að sjálfsögðu aldrei gert nema í nánu samráði við greinina sjálfa sem vill ekki bakka og stytta námið en er tilbúin til að skoða áfangaskiptingu. Ég held að það eigi bara að ræða þetta í rólegheitum og af yfirvegun í vetur. Við getum gert það í framhaldi af þessu en annars ætlaði ég ekki að flétta því saman við þetta mál.

Ég þakka nefndarmönnum úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi fyrir að bregðast skjótt við og taka þátt í því að flytja þetta mál. Nefndin flytur þetta öll þannig að þetta ætti að geta gengið greitt í gegnum þingið þó að við höfum ákveðið að taka þetta inn í nefndina og fá umsagnir og fjalla um það til að gæta ýtrustu nákvæmni í meðferð málsins. Ég efast ekki um að þetta geti gengið hratt fram hér.



[16:09]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þetta frumvarp fyrir hönd og með hv. allsherjarnefnd og hv. menntamálanefnd.

Mér finnst vera of áberandi, frú forseti, að verið sé að leiðrétta og laga lög stuttu eftir að þau hafa verið sett. Hér er enn eitt dæmið um að menn hafi ekki farið í gegnum þá möguleika sem gætu komið upp í raunveruleikanum, því að raunveruleikinn er ekki alltaf sléttur og felldur. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem mælti fyrir þessu máli, hvort ekki hafi verið fyrirséð, þegar lögin voru sett, að lengri tímafrest þyrfti.

Ég vil líka spyrja hvort eðlilegt sé að þessi tími sé ótakmarkaður þannig að menn geti komið eftir 30 ár og sagt: Heyrðu, ég lauk þarna prófi, nú ætla ég að fá skírteinið eða réttindin. Ég spyr hvort ekki sé eðlilegt að hafa einhver mörk eða að menn geti einhvern veginn látið þetta fjara út með sólarlagsákvæði. Mér finnst mjög slæmt að hafa svona ákvæði frá 2008 í lögum og að menn geti komið löngu seinna og vísað í eitthvert ákvæði um að þeim hafi nú verið breytt 2012, lögunum frá 2008, og þeir ætli að nota sér þann rétt sem gefinn var 2012. Þetta gerir lagabókina afskaplega flókna og leiðinlega yfirlestrar og undirstrikar þær villur sem menn hafa gert í lagasetningunni.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé rétt að hafa einhver mörk á þessu þegar þetta verður rætt frekar.



[16:11]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Hann er nú með þingreyndari mönnum hér á Alþingi og hefur í gegnum marga lagagjörðina gengið. Þess vegna mælir hann af reynslu þegar hann kemur með þessa ábendingu. Við munum að sjálfsögðu skoða það.

Hvort þetta var fyrirsjáanlegt? Í sjálfu sér kannski ekki en af því að þetta var tiltekinn hópur var skýrt að sækja þyrfti um frestinn, en svo kom í ljós að ekki höfðu allir áttað sig á því. Það er alla vega miklu betra að bregðast við með því að breyta lögunum en láta það ógert og láta þá lítinn hóp gjalda fyrir svona takmörkun eins og þann tímasetta frest. Ég held að það sé alltaf til bóta. Þó það flæki kannski hlutina er það hlutverk okkar að bregðast við og breyta lögum ef svona hnökrar eru uppi. Þetta er ekki stórbrotið í stóra samhenginu, en snertir grundvallarhagsmuni þessa hóps.

Ég var ekki í neinum vafa um það, þegar málið rak á mínar fjörur, að við ættum að fara þessa leið og breyta þessu fyrirkomulagi með frestinn. Það er svo augljóst við hvaða hóp þetta á, þá sem höfðu hafið nám samkvæmt fyrra fyrirkomulagi kennaramenntunar, að þeir gætu lokið á réttu tempói og innan þess ramma sem þar er settur upp, af því breytingin var umtalsverð eins og blasir við.



[16:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var engan veginn að gagnrýna lagasetninguna, þessa breytingu, ég var engan veginn að gera það. Ég tel nauðsynlegt að bregðast við þegar svona agnúar koma upp. En ég var að benda á veiluna í lagasetningunni á sínum tíma, að gera ekki ráð fyrir lengri fresti þannig að fólk þyrfti ekki að bregðast svona hratt og skyndilega við. Ég vildi líka ræða það hvort ekki þurfi, í þeim lagatexta sem við nú ræðum, að setja inn einhver tímamörk, segjum árið 2014 eða 2015 eða eitthvað slíkt, þannig að þetta vofi ekki endalaust yfir, sé ekki endalaust ákvæði í lagasafninu — breyting á lögum frá 2012 sem var breyting á lögum frá 2008 — þannig að lagasafnið verði einhvern tímann pínulítið einfaldara.



[16:13]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var það sem nefndin gerði í yfirferð sinni yfir málið í hittiðfyrra, hún lengdi frestinn en sá ekki fyrir að þetta með umsóknina um leyfið mundi standa í vegi fyrir einhverjum. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekki verið fyrirsjáanlegt, en það reyndist svo.

Hvað hitt atriðið varðar munum við að sjálfsögðu skoða það í nefndinni. Við munum senda málið til umsagnar og fara yfir alla fleti sem upp koma á því. Það skiptir mestu máli að lagagjörð hvað þetta varðar sé vönduð og endanleg. Þetta snýr að einföldu atriði en miklu sanngirnismáli fyrir þann hóp sem í hlut á.



[16:14]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Fyrir það fyrsta er ánægjulegt að þetta allt skuli nú vera í einum lagabálki.

Ég ætla að byrja á því að þakka formanni nefndarinnar fyrir frumkvæðið sem er að mínu mati gott og ég styð heils hugar. Þrátt fyrir að allur þingheimur hafi á sínum tíma samþykkt þá miklu breytingu sem varð á skólalöggjöfinni, hvort sem það var á leik-, grunn- og framhaldsskóla eða á menntun og ráðningu kennara o.fl., þá sáu menn ekki fyrir endann á námsskipulagi þeirra sem höfðu hafið nám og voru kannski með réttmætar væntingar, eins og það er kallað, til að klára námið á ákveðnum tíma og öðlast um leið þau réttindi sem því fylgir.

Ég vil draga það fram hér að mér finnst þingið bregðast réttilega við og á skynsaman hátt um leið og það setur ákveðinn ramma um þá sem teljast vera í vanda eða í ákveðinni óvissu eftir að hafa hafið nám samkvæmt gamla fyrirkomulaginu um kennslu og menntun einstaklinga til að sinna hinu mikilvæga kennarastarfi frá leikskóla upp í framhaldsskóla.

Að þessu sögðu hafði ég ætlað að ljúka máli mínu, en hv. formaður nefndarinnar kom inn á mikilvægt málefni sem var meðal annars hreyft við í gær þegar nefndin fór góðu heilli í heimsókn til Háskóla Íslands. Það er margt hægt að ræða um þá heimsókn alla en ég mun koma að henni í máli sem snertir vísindarannsóknir og sameiningu samkeppnissjóða á sviði rannsókna og vísinda. Ég mun koma inn á ákveðna þætti þar í ræðu minni á eftir. En við ræddum líka kennaranámið. Ég vil aðeins rifja það upp að á sínum tíma gafst okkur einstakt tækifæri sem við vorum búin að vinna að — ég vil draga það fram að allir flokkar komu að því, allir sem einn höfðu metnað til að gera ágætt skólakerfi betra. Við einbeittum okkur að heildstæðri breytingu á leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það var öllum, ég man ekki til þess að neinn hafi sagt að eitt skólastigið væri eitthvað síðra eða æðra en annað, heldur ræddum við það að við ættum að horfa á skólakerfið sem eina heild frá leikskóla upp í framhaldsskóla og ef til vill háskóla, þess vegna hefur leikskólastigið nokkuð lengi verið flokkað sem fyrsta skólastigið.

Ég hef ekki alltaf verið sammála því sem forsvarsmenn Kennarasambands Íslands hafa sagt í hinum ýmsum málum, m.a. kjaramálum og um fyrirkomulag varðandi kennslu, kennsluskyldu og fleira. Það er gott og blessað. Við höfum átt opinskáar umræður um það í gegnum tíðina og eðlilega sýnist sitt hverjum.

Hitt er þó annað að einmitt í því máli sem formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, hreyfði við hér áðan varðandi leikskólakennaranámið þá var það í hugum flestra sem hér voru inni að með lengingu leikskólakennaranámsins værum við að undirstrika mikilvægi leikskólans sem fyrsta skólastigs. Við sáum líka fram á það sem hefur enn ekki litið dagsins ljós, að eftir fyrstu þrjú árin yrðu væntanlega sett fram ákveðin réttindi sem hver og einn sem mundi sækja og stunda leikskólakennaranám mundi öðlast eftir fyrstu þrjú árin af því við gerðum okkur grein fyrir því að hugsanlega þætti mönnum mikið í lagt. Við bentum meðal annars á útlönd sem við erum iðulega hvött til að gera, bentum á Finnland og aðrar þjóðir, og sögðum: Við viljum undirstrika mikilvægi kennaramenntunar. Samhliða því sameinuðum við reyndar Kennaraháskólann og Háskóla Íslands til þess að byggja upp kennaramenntunina. Við sögðum að við vildum gera sömu kröfu til allra skólastiga. Ég tel enn að það sé rétt, en ef það er mikil hindrun að leikskólakennaranámið er fimm ár þá verðum við að fara yfir það.

Ég er hins vegar á því að við eigum að finna aðrar leiðir en að stytta námið sem slíkt því að ég tel mikilvægt að við höldum áfram því meginprinsippi sem ég tel, eins og ég sagði áðan, að flestir hér inni hafi verið sammála um, þ.e. að líta á skólastigin sem eina heild. Ég sá fyrir mér og hef margoft bent á merkilega skólatilraun og nýjung sem er í hinum yndislega Mosfellsbæ sem er Krikaskóli, frá eins til tíu ára, þar sem við sýnum fram á sveigjanleika og samfellu á milli skólastiga. Þá er mikilvægt að við höfum kennara sem hafa þekkingu, reynslu og grundvöll af kennaranáminu til að geta sinnt slíkum skóla og báðum skólastigum, þ.e. neðri bekkjum grunnskóla og leikskólastiginu. Það sama sáum við fyrir okkur með efri stig, þ.e. að grunnskólakennarar gætu kennt í efri stigum grunnskóla og framhaldsskóla, hægt yrði að samtvinna það. Þetta var allt saman langtímaplan. Ef það plan hikstar eitthvað ber okkur að sjálfsögðu að fara yfir það.

Ég fagna því sérstaklega sem hæstv. ráðherra hefur sagt hvað þetta varðar, en hvet hana til að fara varlega í yfirlýsingum um að beinlínis eigi að stytta leikskólakennaranámið í þrjú ár. Ég held að hún hafi ekki gert það fram til þessa og fagna nálgun hennar við að leysa þessi mál. Ég held að málið sé miklu stærra en hvað leikskólakennarafjöldann og námið varðar. Námið er að mínu mati ekki sú fyrirstaða að við fáum ekki nægilega marga í leikskólakennaranámið heldur er það ekki síður launaumgjörðin. Það verður aldrei of oft sagt að laun kennara eru ekki há, en á móti kemur að Kennarasambandið verður líka, og um það greinir mig og Kennarasambandið á, að slaka á kröfum sínum hvað varðar umgjörð og svigrúm sveitarfélaga til að reka skólakerfið af metnaði. Ef þetta færi saman sæjum við betri kjör til handa kennurum því að þá sæju sveitarfélögin tækifæri í auknum sveigjanleika varðandi rekstur leik-, grunn- og hugsanlega framhaldsskóla eins og sumir hv. þingmenn hafa verið að ræða um, að færa framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna. Það er seinni tíma mál, en er þess virði að verða rætt líka og kannski í samræmi við það sem ég hef sagt hér, að líta á skólakerfið sem eina heild. Þess vegna vildi ég taka þetta upp.

Ég er enn þeirrar skoðunar að við eigum að gera kröfur til þeirra sem eru kennaramenntaðir. Þó að það sé að sjálfsögðu kennaramenntunarstofnananna að setja fram þær kröfur með ákveðnum hætti þá eigum við að gera svipaðar kröfur til allra leikskólastiga og ekkert að gefa afslátt af því. Ég hvet fólk og helst þverpólitíska hópa til samvinnu við helstu hagsmunaaðila, fjölskyldurnar, heimilin í landinu, Kennarasambandið og sveitarfélögin til að fara yfir þessi mál til þess að leita leiða og lausna þannig að við sjáum fleiri menntaða leikskólakennara í framtíðinni. Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að því verkefni.

Aðeins aftur varðandi heimsókn okkar til Háskóla Íslands af því ég veit það að hv. formaður nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, hefur ljáð máls á því að við tökum upp sérstaka umræðu um kennaramenntunina og framtíð kennaramenntunar sem slíkrar. Nú eru tæplega fimm ár síðan við samþykktum lögin. Ég held að það væri afar fróðlegt og hugsanlega gott aðhald fyrir kennaramenntunarstofnanirnar, eins og hina merkilegu stofnun Háskóla Íslands, að sjá mótun kennaramenntunar undir nýrri regnhlíf, bæði regnhlíf sameinaðs háskóla og ekki síður undir nýjum formerkjum sem ný skólalöggjöf hefur sett og markað.

Ég tel mikilvæga tíma vera fram undan. Ég hef sagt að eitt mikilvægasta hlutverk Háskóla Íslands í dag sé ekki bara að stunda rannsóknir, sem hann gerir reyndar með stórkostlegum árangri og nær m.a. merkilegu skori í Times Higher Education þar sem hann nær hærra en síðast og voru þó margir svartsýnir á það og gerðu góðlátlegt grín að því að háskólinn skyldi á sínum tíma setja sér háleit markmið, heldur um leið og hann stuðlar að og heldur áfram að efla rannsóknir og vísindi hvar sem er í samfélaginu en ekki síst í grundvallarstofnuninni, sem er í háskólanum sjálfum, verðum við að vita nákvæmlega hvað Háskóli Íslands ætlar sér að gera með kennaramenntunina. Ég ætla með engu móti að fara inn á hið akademíska frelsi Háskóla Íslands sem ég undirstrika að er afar mikilvægt fyrir hvert samfélag sem vill vera þekkt fyrir að vera rannsóknar-, vísinda- og menntasamfélag. Við eigum engu að síður að hafa skoðun á hlutverki Háskóla Íslands varðandi mótun kennaramenntunar með tilliti til nýrra laga, sem allt Alþingi samþykkti og stóð að í gegnum margra ára hópavinnu, margra ára samstarf í gegnum árin, gegnum margar ríkisstjórnir, og því hvernig kennaramenntun við viljum sjá, hvort sem við erum að tala um kennaramenntun á sviði leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla og hvernig sveitarfélögin geta meðal annars komið inn í þá þróun og haft skoðanir á því hvernig slík menntun eigi að vera uppbyggð.

Að þessu sögðu og eftir að hafa rammað þetta inn ítreka ég enn og aftur ég styð þetta mál. Við munum að sjálfsögðu fara vel yfir það aftur og fá einhverjar umsagnir um málið sem við erum að ræða, þ.e. um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda. Þetta er að vissu leyti tæknilegt mál, en það skiptir ákveðna einstaklinga máli, þótt þeir séu ekki margir, og því fagna ég því að við á þinginu höfum burði, snerpu og ákveðið svigrúm til þess að bregðast við þegar fólkið kallar.



[16:25]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir stuðningi mínum við það frumvarp sem hér er lagt fram af hv. allsherjar- og menntamálanefnd og tek undir að mikilvægt er að löggjafinn bregðist við þegar koma fram réttmætar ábendingar hvað varðar þá löggjöf sem sett var fyrr á þessu kjörtímabili, þannig að ég styð þetta frumvarp.

Mér finnst hins vegar ástæða til að blanda mér aðeins í þessa umræðu um kennaramenntunina. Mín skoðun er sú að það hafi verið rétt skref að lengja námið í fimm ár. Ég rökstyð þá skoðun út frá þeim faglegu rökum sem voru færð fram á þeim tíma þegar sú umræða fór fram í þinginu, en líka út frá þeirri umræðu sem hefur farið fram síðan á hinum alþjóðlega vettvangi þar sem verið er að ræða um menntamál. Fólk hefur horft til þróunar á kennaramenntun hér á landi og fundist það mjög merkilegt skref að setja niður jafnlanga menntun fyrir ólík skólastig. Ég held að þetta sé nokkuð sem við eigum að halda áfram með. Mér finnst mikilvægt að það komi fram nú þegar þessi umræða er uppi.

Hins vegar vil ég vekja athygli hv. þingmanna á skýrslu sem unnin var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið nýlega og er á heimasíðu ráðuneytisins, um aðgerðir til eflingar leikskólastiginu. Saman komu Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara og þær háskólastofnanir sem standa að kennaramenntun og lögðu til ákveðnar tillögur í þessari skýrslu um þá áfangaskiptingu sem hér var nefnd af hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar og hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þar sem horft er til þess að hægt sé að þrepaskipta náminu rétt eins og við gerum almennt þegar við lítum til háskólanáms sem við skipuleggjum samkvæmt Bologna-ferlinu í þrjú þrep. Það er gert í ákveðnum áföngum sem skilar sér svo inn í það hvernig störfin eru metin. Ég held að það sé ekki rétt leið að hvika frá fimm ára leikskólakennaranámi. Ég held hins vegar að það sé áhugavert að skoða þessa áfangaskiptingu fyrir námið. Það er það sem háskólarnir vilja gera. Þeir eru líka að skipuleggja námið út frá þeirri hugmyndafræði að skapa þá samfellu milli skólastiga sem stefnt var að á sínum tíma, til að mynda með því að mennta kennara sem eru ekki eingöngu að mennta sig til að kenna í leikskólum heldur líka á lengri stigum grunnskóla, kennara sem kenna á miðstigi, kennara sem kenna á gamla gagnfræðastiginu og í framhaldsskólum. Þetta flæði má sjá í uppbyggingu námsins. Þar hefur til að mynda Háskólinn á Akureyri verið með mjög áhugaverðar hugmyndir. Ég fagna því ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætlar að taka þessi mál til skoðunar.

Ráðuneytið hefur átt í mjög virku samráði við menntavísindastofnanirnar, þ.e. HÍ, HA og Listaháskólann sem hefur verið með kennaranám fyrir þá sem ætla sér að verða listmenntakennarar, þannig að þarna er mikil gerjun í gangi. Ég fagna því ef hv. þingmenn vilja taka þá umræðu upp í þessum sal eða í nefndinni því að ég tel að við stefnum í mjög spennandi átt með kennaranámið. Það vildi ég fyrst og fremst nefna.

Það er hins vegar áhyggjuefni hve fáir sækja núna um leikskólakennaranámið. Ég held að þar dugi ekki að horfa bara á lengd námsins. Þar þarf að skoða kjörin eins og hér var nefnt. Það þarf líka að skoða hvaða leiðir aðrar þjóðir hafa farið til að fjölga nemendum í kennaranámi. Það er ekkert launungarmál og kemur fram í umræddri skýrslu að hugsanlega þarf hreinlega að fara í átak til að kynna þetta nám til að laða fleiri nemendur að. Það hefur til dæmis verið gert í Noregi. Það hefur verið gert í tengslum við kennaramenntun almennt í Bretlandi. Bæði þau átök skiluðu miklum árangri þannig að ég held að þarna þurfi að skoða ýmsar fleiri leiðir.



[16:29]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mikilvægt innlegg af hálfu ráðherra að mínu mati til menntamála og þróunar menntamála og framvindu þeirra til lengri og skemmri tíma litið. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi orð. Ég verð að segja og mér er það ekkert þungt í skauti að ég er nokkurn veginn sammála hæstv. ráðherra í þessum efnum. Ég fagna því sérstaklega að ekki eigi að gefa eftir þessa kröfu, engu að síður er það er rétt sem kom fram í skýrslunni um aðgerðir til að efla meðal annars leikskólastigið að hugmyndir voru uppi um að áfangaskipta náminu. Ég tel það vel.

Ég held hins vegar að það væri forvitnilegt fyrir okkur — við höfum nokkrar aðallega verið að ræða um kennaramenntunina í þessum sal í fyrra og í hittiðfyrra — og mikilvægt fyrir þingið að átta sig á hvernig kennaramenntunin og stofnanirnar þróa kennaramenntunina sem slíka undir þessari nýju regnhlíf nýrra laga.

Ég tek undir og fagna orðum hæstv. ráðherra. Þetta eru spennandi tímar varðandi þróun kennaramenntunar og skólakerfið sem slíkt. Ef við sjáum að nemendum er almennt að fækka í kennaranámi, þeim sem sækja í háskólana til að öðlast kennaramenntun, þá þurfum við einfaldlega að huga að því hvort við förum í átak eða eitthvað annað og sameinast um það. Ég vona að við berum gæfu til að sameinast um það eins og við höfum gert í gegnum tíðina almennt um breytingar á skólakerfinu, hvort sem snertir kennaramenntunina eða annað, þótt það séu reyndar ákveðnir þættir í skólakerfinu sem við höfum ekki verið sammála um og snertir til dæmis samkeppni á sviði skólamála og hverjir geti komið að rekstri skólanna en það er önnur ella.

Þetta mál sýnir að við höfum bæði metnað og ákveðnar og skýrar kröfur varðandi kennaramenntun. Það er mikilvægt að við höldum áfram og sameinumst um að leita úrbóta til að fjölga í kennarastéttinni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.