141. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2012.
Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, 1. umræða.
stjfrv., 194. mál (heildarlög). — Þskj. 197.

[16:32]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Hér er um að ræða sama frumvarp og ég mælti fyrir á 140. löggjafarþingi en hins vegar hafa verið gerðar á því breytingar í samræmi við nefndarálit meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar frá 13. júní síðastliðnum. Ég vonast til þess, í ljósi þess að þá var bent á að frumvarpið hefði komið fram á síðasta degi sem leyfilegt var að leggja fram mál, að þar sem þetta frumvarp kemur fram fyrr núna muni hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafa tíma til að vinna áfram að þessu máli.

Það liggur fyrir að fjölmiðlar eru að sjálfsögðu í stöðugri þróun og stjórnvöld verða að taka mið af því á hverjum tíma og búa þeim lagalega umgjörð við hæfi, það á ekki síst við um fjölmiðla í almannaþágu.

Árið 2007 voru sett ný lög um Ríkisútvarpið sem fólu í sér breytt rekstrarform, auk þess sem tekjustofni þess var breytt. Lögbundin afnotagjöld voru afnumin. Í stað þess var lagt á sérstakt gjald, svokallað útvarpsgjald, á skattgreiðendur.

Um mitt ár 2009 þegar rúmlega tveggja ára reynsla var fengin á ný lög ákvað ég að skipa starfshóp um almannaútvarp á Íslandi með það verkefni að meta áhrif nýrra laga og gera tillögur að úrbótum. Skilaði starfshópurinn tillögum sínum í byrjun árs 2010. Þær kynnti ég fyrir stjórn og stjórnendum Ríkisútvarpsins með ósk um að þær tillögur, sem ekki kölluðu á lagabreytingar, yrðu teknar til greina og var brugðist vel við því. Hins vegar kölluðu margar af tillögum starfshópsins um úrbætur á Ríkisútvarpinu á breytingar á gildandi lögum, auk þess sem athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um tilhögun ríkisaðstoðar til Ríkisútvarpsins voru tilefni lagabreytinga.

Af því leiddi að ég skipaði nefnd um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið ohf. sem var ætlað að taka mið af tillögum starfshópsins og athugasemdum ESA, auk þess að líta til löggjafar nágrannalanda okkar um almannaþjónustuútvarp, sérstaklega löggjafar Norðurlandanna. Nefndinni var ætlað að fjalla um hvort auka þyrfti sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem fjölmiðils í almannaþágu, hvort stofna þyrfti sérstakt dótturfélag utan um starfsemi Ríkisútvarpsins sem ekki félli undir útvarpsþjónustu í almannaþágu, hvort finna mætti leiðir til að auka gagnsæi í rekstri og lýðræði í stjórnunarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins. Nefndinni var einnig ætlað að leita leiða til að auka og tryggja sjálfstæði og starfsöryggi starfsmanna Ríkisútvarpsins við fréttir og tengda dagskrárgerð. Nefndinni var ætlað að taka tillit til þess og taka til skoðunar hver ætti að vera ábyrgð mennta- og menningarmálaráðherra á hlutafélaginu Ríkisútvarpið ohf. Enn fremur að skoða tilhögun á hlutverki stjórnar og skipunar hennar og fjalla um kosti og galla þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins.

Nefndin skilaði niðurstöðu sinni í formi frumvarpsdraga í febrúar síðastliðnum. Þessi drög voru svo sett í opið samráðsferli þar sem öllum gafst kostur á að skila inn athugasemdum. Barst fjöldi athugasemda, bæði frá hagsmunaaðilum og líka frá einstaklingum um allt land, enda má í raun og veru segja að allir séu hagsmunaaðilar þegar kemur að Ríkisútvarpinu.

Við lokafrágang frumvarpsins var leitast við að taka tillit til athugasemdanna og var frumvarpið svo lagt fram í fyrra, en í framhaldinu skilaði meiri hluti hv. allsherjar- og menntamálanefndar nefndaráliti og hefur frumvarpinu verið breytt í samræmi við þær breytingar sem þar voru lagðar til.

Með frumvarpinu er mörkuð sú stefna að Ríkisútvarpið leggi megináherslu á það hlutverk sitt að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Af því leiðir að lýðræðis-, menningar- og samfélagslegt hlutverk Ríkisútvarpsins er í forgrunni en viðskiptasjónarmið í starfseminni verða víkjandi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerð verði skýr aðgreining á milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarrar starfsemi, m.a. til að varna því að viðskiptaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvarðanir um dagskrárefni. Þetta er í samræmi við það grundvallarsjónarmið sem hefur ríkt í starfsemi ríkisrekinna fjölmiðla á Norðurlöndum og víðar, ég nefni Bretland sem dæmi, og hefur skapað þeim sérstöðu meðal ljósvakamiðla. Sú sérstaða er meðal annars talin helsta ástæðan fyrir því almenna trausti sem ríkir hjá almenningi á fréttaflutningi opinberra fjölmiðla.

Margir telja að tilveruréttur ríkisfjölmiðla í framtíðinni muni byggjast á því að þeir tryggi almenningi hlutlæga og áreiðanlega fjölmiðlaþjónustu. Þetta á sérstaklega við þegar framboð misáreiðanlegra upplýsinga á netinu eykst sífellt. Skilin milli hlutdrægra upplýsinga og frétta verða óljósari og þar sem upplýsingar og fréttir eru beinlínis taldar vera verslunarvara.

Frumvarpið leggur þá skyldu á herðar Ríkisútvarpinu að það sjái til þess að útsendingar þess nái til allra landsmanna án tillits til búsetu og efnahags og er það eini fjölmiðillinn sem býr við þá kvöð. Þá er kveðið á um að dagskrárefni þess skuli vera fjölbreytt og að stjórn Ríkisútvarpsins móti dagskrárstefnu til lengri tíma. Í því felst að hún taki í stórum dráttum afstöðu til þess hvernig eigi að koma til móts við þarfir og óskir notenda um fjölbreytt og gott efnisframboð en — ég legg áherslu á það — ekki að hún hafi afskipti af einstökum dagskrárliðum.

Í þessu efni er rétt að leggja áherslu á kröfur almennings um gæði og fjölbreytni, því ef efnisframboðið er of einhæft er hætta á að fjölmiðlaþjónustan nái ekki til fjöldans og missi af þeim sökum gildi sitt og sérstöðu.

Í frumvarpinu er líka tekin sú afstaða að Ríkisútvarpið sé ein af helstu stoðum lýðræðissamfélagsins. Því er ætlað að sinna því hlutverki sínu með því að veita landsmönnum upplýsingar sem þeir geta treyst að dragi hvorki taum sérstakra sjónarmiða né hagsmunahópa, stjórnmálasamtaka eða einstaklinga. Með því móti gegnir Ríkisútvarpið lykilhlutverki við að gera fólki kleift að móta sér skoðanir og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum að því marki sem það er nokkurn tíma mögulegt.

Hér er miðað við þá grundvallarforsendu að hverju lýðræðissamfélagi sé nauðsynlegt að reka fjölmiðil sem á engan hátt þarf að gæta neinna annarra hagsmuna en þeirra að stuðla að upplýstri umræðu með hlutlægum hætti. Hér undir fellur einnig skylda Ríkisútvarpsins til að kynna með vönduðum og hlutlægum hætti framboð og stefnur stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga. Sama gildir einnig um forsetakjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira þess háttar. Ein af forsendum virks lýðræðis er að fólki gefist færi á að kynna sér sjónarmið framboða, frambjóðenda o.s.frv. með tilstuðlan óháðra aðila en ekki aðeins í gegnum miðlun sem er greitt til að mynda fyrir eins og auglýsingum eða öðru slíku.

Með frumvarpi þessu er einnig mælt fyrir um innri starfsemi Ríkisútvarpsins til að efla lýðræðislega starfshætti þess, enda er gefin sú forsenda að opinbert félag sem á að gegna veigamiklu hlutverki við að efla og viðhalda lýðræði í landinu verði að starfa með lýðræðislegum hætti. Í því felst eðlileg dreifing ábyrgðar og víðtækt samráð um dagskrána með aðkomu starfsmanna og notenda.

Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins snýr einkum að rækt við íslenska tungu, menningu þjóðarinnar, listir, íþróttir og því að vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð. Hér er megininntakið annars vegar að koma til móts við eðlilegar óskir almennings um íslenskt efni og hins vegar að styðja við framleiðslu á slíku efni, listsköpun og störf listamanna. Með ákvæðum frumvarpsins um starfshætti er staðfest að vönduð vinnubrögð séu óaðskiljanlegur hluti af fjölmiðlun í almannaþágu. Vönduð vinnubrögð fela meðal annars í sér að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast. Hjá nágrannaþjóðum okkar er þessi krafa mjög rík og virk í almennri umræðu um fjölmiðla og talað um hlutlægniskröfu þegar rætt er um almannaþjónustu fjölmiðla sem þýðir í raun og veru að þær upplýsingar og staðhæfingar sem fjölmiðillinn framreiðir séu réttar og allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram.

Ég þykist vita að einhverjir hv. þingmenn vilji ræða um þá tilhögun á fjárhagsumhverfi Ríkisútvarpsins sem lögð er til hér og hefur verið endurmetin í þessu frumvarpi. Talið er mikilvægt að Ríkisútvarpið hafi vel skilgreindan tekjustofn og því verði tryggð fjárveiting samkvæmt áætlaðri innheimtu útvarpsgjalds. Það er mikilvægt að tekjustofn Ríkisútvarpsins sé skýr, fyrirsjáanlegur og samsvari innheimtu útvarpsgjaldsins til að það geti gert raunhæfar fjárhagsáætlanir til lengri tíma. Ég tel að fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé mjög mikilvæg forsenda fyrir sjálfstæði þess gagnvart hinu pólitíska og efnahagslega valdi. Verði sjálfstæði Ríkisútvarpsins ekki tryggt er vegið að getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sem á að vera fær um að veita nauðsynlegt aðhald stjórnvöldum á hverjum tíma, vera vettvangur skoðanaskipta, vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum mislíkar.

Miðað við þessar forsendur er það eitt af markmiðum frumvarpsins að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi. Því er lagt til að við útfærslu á útvarpsgjaldinu verði horfið til upphaflegs fyrirkomulags þess eins og það var lagt fram í lögunum sem voru samþykkt 2007 og lagt til að frá og með janúar 2014 verði tekjustofnar Ríkisútvarpsins eftirfarandi:

1. Sérstakt gjald sem lagt verði á einstaklinga og lögaðila, þ.e. útvarpsgjaldið títtnefnt.

2. Rekstrarafgangur vegna starfsemi sem fellur undir 4. gr. frumvarpsins, sem er önnur starfsemi sem lagt er til að stofnuð sé af dótturfélögum. Ég gæti nefnt sem dæmi sölu á efni eða eitthvað slíkt.

3. Tekjur af þjónustu sem fellur undir 3. gr. frumvarpsins.

4. Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.

Í þeim tilgangi að tryggja stöðugleika í rekstri og það sjálfstæði sem ég hef hér gert að umræðuefni er mælt fyrir um að tekjur þess verði gerðar fyrirsjáanlegar, þær ákvarðaðar með sérstöku gjaldi sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra, en tekjutenging gjaldsins þýðir að tekjulausir eða tekjulágir einstaklingar greiða ekkert gjald samanber lög nr. 125 frá árinu 1999.

Ríkisútvarpinu eru tryggðar mánaðarlegar tekjur af gjaldinu samkvæmt áætlaðri innheimtu. Með því er horft til þess fyrirkomulags sem lagt var til þegar rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins var breytt í opinbert hlutafélag, en því ákvæði var svo breytt með lögum nr. 174/2008 eins og menn rekur hér minni til. Þetta hefur verið talsvert í umræðunni síðan.

Ég vil segja um það mál, sem ég veit að hv. þingmenn gerðu að umræðuefni hér síðast þegar ég mælti fyrir frumvarpinu, að sá leiðangur sem farið var í 2008 þegar þessi mörkun var afnumin hefur vakið athygli víðar en á Íslandi. Til þessa hefur verið horft, m.a. annars staðar á Norðurlöndunum. Eins og ég hef skilið söguna þegar ákveðið var á sínum tíma að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins í opinbert hlutafélag, sem var gagnrýnt af mörgum, var að sumu leyti horft til norsku löggjafarinnar þar sem NRK er opinbert hlutafélag. Sama gildir um SVT sem er opinbert hlutafélag. Eftir að hafa átt fundi til að mynda með forsvarsmönnum NRK, sem starfa þar í stjórnendahópnum, þá finnst þeim það fyrirkomulag að breyta því og setja Ríkisútvarpið á fjárlög, þrátt fyrir að í tekjuhlið fjárlaga sé kveðið á um að útvarpsgjaldið sé ætlað til þess að reka Ríkisútvarpið ohf. og upplifun almennings sem greiðir þetta sama útvarpsgjald sé auðvitað sú að það sé að greiða fyrir Ríkisútvarpið ohf., það var mat til að mynda stjórnenda NRK að þetta hlyti að hafa áhrif á sjálfstæði Ríkisútvarpsins að þessi tenging hefur verið tekin úr sambandi. Ég tel þetta mjög mikilvægt ákvæði.

Ég vík þá að skipan og hlutverki stjórnar. Meðal tillagna starfshópsins sem ég nefndi áðan um almannaútvarp á Íslandi var að skipan og hlutverk stjórnar yrði tekið til athugunar. Það er gert í þessu frumvarpi einkum hvað varðar skipan og fyrirkomulag við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra menningarmála tilnefni einn fulltrúa sem verði formaður stjórnar. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn fulltrúa í stjórn en aðrir stjórnarmenn, fimm að tölu, verði tilnefndir af svokallaðri valnefnd sem er skipuð fulltrúum Alþingis, Bandalags íslenskra listamanna og samstarfsnefnd háskólastigsins.

Hugsunin á bak við þetta er að samsetning valnefndar og hlutverk hennar samkvæmt frumvarpinu tryggi að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varðar rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins og ekki síst meginmarkmiðum þess. Þessi hugmynd er að sumu leyti dregin líka frá þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá stjórnendum NRK sem bentu á að mjög mikilvægt væri að í stjórn almannaþjónustumiðilsins sæti góð samsetning af fólki þar sem ekki væri einhæf reynsla undir, heldur kæmi saman ólík þekking og ólík hæfni sem mundi nýtast til þess að skipa stjórn eins og best yrði á kosið.

Mér finnst þetta gilt sjónarmið en ég hef áttað mig á því að ýmsum hv. þingmönnum hefur þótt þetta kannski óþarflega flókið, en þarna er hugsunin sem sagt sú að safna saman ólíkum hæfileikum, ólíkri reynslu og þekkingu þannig að sem best samsetning fáist.

Ég vek athygli hv. þingmanna á því að samkvæmt tillögu meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar hefur verið gerð sú breyting að fulltrúi starfsmanna hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins.

Ég nefndi það áðan að eitt af markmiðum frumvarpsins er að skilgreina betur almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins og þá um leið að draga úr vægi viðskiptalegra sjónarmiða. Til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins gagnvart viðskiptalegum sjónarmiðum er lagt til að stofnað verði sérstakt dótturfélag um þá starfsemi Ríkisútvarpsins sem fellur utan fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Í greinargerðinni eru talin upp nokkur dæmi um starfsemi sem eðlilegt er að fari fram í dótturfélagi. Þar ber hæst sala auglýsinga- og kostunarrýmis í dagskrá móðurfélagsins, sala á dagskrárefni og sýningarrétti á eigin framleiðslu, samframleiðsla á efni með erlendum sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum, sala á dagskrárefni til almennings o.fl. Ég vísa aftur til Noregs þar sem sú leið hefur verið farin að stofna dótturfélag um slíkan samkeppnisrekstur. Þetta þekkist í fleiri nágrannaríkjum okkar. Hugsunin er sú að auðvelda fjárhagslega og ritstjórnarlega aðgreiningu milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og samkeppnisrekstrar. Ég get nefnt dótturfélagið NRK Aktivum sem er rekið af NRK í Noregi og BBC Worldwide sem er rekið af BBC í Bretlandi.

Með því að birta verðskrár og tryggja jafnræði allra viðskiptavina er komið í veg fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Síðast en ekki síst eru settar takmarkanir á lengd auglýsingatíma og auglýsingar í miðjum dagskrárliðum. En staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hefur verið ágreiningsefni um árabil. Með þessu er reynt að koma til móts við þau sjónarmið að draga eigi úr vægi þess á því sviði.

Ég tel að það sé þó ekki ágreiningur um að ríkið sé ekki í aðstöðu til þess að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins að fullu, fyrir utan að ólíkar skoðanir eru um þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. En ég tel að sú málamiðlun sem hér er lögð fram komi til móts við ólík sjónarmið í þessu máli að svo miklu leyti sem það er hægt. Í öllu falli er þetta mikilvægt skref sem sýnir þá hugmynd að viðskiptaleg sjónarmið eigi að hafa minna vægi en hin almannaþjónustulegu í rekstri Ríkisútvarpsins. Ég tel að þetta sé mikilvægt skref í þá átt og þar með að draga úr þátttöku þess á auglýsingamarkaði.

Á þeim fimm árum sem liðin eru frá gildistöku laga um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, hafa komið í ljós nokkrir annmarkar á framkvæmd þeirra sem snúa að framkvæmd viðmiðunarreglna ESA um ríkisaðstoð til útvarpsþjónustu í almannaþágu og hefur ESA komið á framfæri við íslensk stjórnvöld ábendingum þar að lútandi. Meðal þeirra ráðstafana sem ESA hefur lagt til að gerðar verði af hálfu íslenskra stjórnvalda er að nánar verði skýrt hvernig ákvarðanir um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu verði teknar. Þá leggur ESA til að sett verði leiðbeinandi viðmið fyrir gjaldskrár vegna þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir gegn gjaldi og telst vera hluti af fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þar má nefna til að mynda afritun efnis fyrir einstaklinga. Enn fremur telur ESA að setja verði skýrar reglur um meðferð hugsanlegrar ofgreiðslu til Ríkisútvarpsins. Þá hefur ESA lagt til að skilið verði milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarrar starfsemi. Því til samræmis er gerð krafa um fullkominn aðskilnað í bókhaldi vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annars rekstrar.

Af framangreindu leiðir meðal annars að nauðsynlegt er að afmarka almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins með mun nákvæmari hætti en gert er í gildandi lögum. Þeim kröfum er mætt í frumvarpinu með ýmsum hætti.

Í 16. gr. er kveðið á um hvernig skuli staðið að ákvörðun um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, samanber 3. gr. frumvarpsins. Ég hef þegar greint frá nýrri og nákvæmari skilgreiningu á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, stofnun sérstaks dótturfélags sem kemur til móts við kröfuna um fjárhagslegan aðskilnað. Með þeim hætti sem ég hef farið yfir teljum við að við komum til móts við ábendingar ESA.

Ég vil minna á að brýnt er að frumvarp þetta nái fram að ganga, því að með ákvörðun sinni 9. febrúar 2011 lagði ESA formlega til við íslensk stjórnvöld að þau breyttu fyrirkomulagi á fjármögnun Ríkisútvarpsins til samræmis við viðmiðunarreglur ESA um ríkisstyrki til fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem voru samþykktar árið 2010. Fresturinn sem ESA gaf til að orðið yrði við þeim tilmælum rann út um síðustu mánaðamót, þannig að búast má við að stofnunin stefni íslenskum stjórnvöldum ef frumvarp þetta nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Gaman að því.

Hæstv. forseti. Ég hef greint frá helstu atriðum frumvarpsins en eigi að síður er ástæða til að vekja athygli á nokkrum atriðum til viðbótar sem er ætlað að skapa betri grunn fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.

Í fyrsta lagi er mælt fyrir um aukið aðgengi sjón- og heyrnarskertra að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Gert er ráð fyrir sérstökum aðgerðum til að gera heyrnarlausum fært að fylgjast með tilkynningum um og lýsingum á atburðum sem hugsanlega ógna öryggi almennings, til að mynda náttúruhamförum.

Í öðru lagi er lagt til að umsjón með eignarhlut ríkisins í Ríkisútvarpinu — tengist þetta því sem var tekið til skoðunar í starfshópi um almannaútvarp þar sem var einmitt horft til þess hver ætti að vera ábyrgð mennta- og menningarmálaráðherra á hverjum tíma á Ríkisútvarpinu — færist frá fjármála- og efnahagsráðherra til mennta- og menningarmálaráðherra, þ.e. að eignarhald Ríkisútvarpsins færist aftur til þess ráðherra sem að öllu jöfnu ber ábyrgð á fjölmiðlum, samanber I-lið 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 100/2012.

Nú kann að vera að einhverjir hv. þingmenn vilji benda mér á að það sé hin almenna stefna og hafi verið að eignarhlutir opinberra fyrirtækja liggi hjá fjármálaráðherra. Það er að sjálfsögðu hárrétt, en eftir að hafa skoðað þau mál mjög ítarlega — og nú nefni ég aftur Noreg sem fór þá leið að reka sitt almannaþjónustuútvarp sem opinbert hlutafélag og hefur líka fylgt þeirri stefnu að eignarhlutir í opinberum félögum liggi almennt hjá fjármálaráðherra. Þar var einmitt gerð sérstök undantekning með NRK, norska ríkisútvarpið, á þeirri forsendu að þar væri ekki um hefðbundið opinbert hlutafélag að ræða heldur menningarstofnun að einhverju leyti sem ætti fyrst og fremst heima hjá menningarráðherranum. Við fórum vandlega yfir þetta með fulltrúum þeirra og þar lá fyrir að menn töldu það orðið allflókið stjórnskipulag að hafa sjálfstæða stjórn yfir almannaþjónustumiðlinum, hafa menningarmálaráðherra sem færi með, við getum sagt stefnumörkun stjórnvalda sem við gerum í gegnum samning um útvarpsþjónustu í almannaþágu og síðan lægi eignarhluturinn á þriðja staðnum. Ég held að sú breyting sem Ríkisútvarpið sjálft hefur mælt með verði hreinlega til að skýra þessa stjórnsýslu og vekja kannski athygli manna á því að hér er ekki eins og ég segi um að ræða hefðbundið fyrirtæki eins og við þekkjum sem er eingöngu í rekstri, heldur menningarstofnun undir þessu formi.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um sérstaka vernd í starfi fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn, samanber 12. gr. frumvarpsins. Þetta snýr að því sem víða er gert í kjarasamningum en er ekki gert hér á landi, en snýr að því að það þurfi sérstaklega að vernda þá sem eru að taka upp umdeild málefni í gegnum fréttir og dagskrárgerð.

Í fjórða lagi er lagt til að Ríkisútvarpið taki upp innra gæðaeftirlit. Meðal annars er mælt fyrir um að það setji sér reglur með skilgreindum ferlum um meðferð athugasemda og kvartana sem berst frá almenningi.

Í fimmta lagi er ráðgert að mat á frammistöðu Ríkisútvarpsins á sviði fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu verði í höndum fjölmiðlanefndar, enda nauðsynlegt að óháður eftirlitsaðili leggi mat á það hvort Ríkisútvarpið veiti í raun þá fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem er kveðið á um í 3. gr. frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Markmið frumvarpsins er að skapa Ríkisútvarpinu lagalega umgjörð með tilliti til þeirrar reynslu sem hefur fengist af lögum nr. 6/2007, og bregðast við athugasemdum ESA. Með frumvarpinu er ráðgert að festa í sessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda um hvað felist í fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, skapa þannig traustari starfsgrundvöll fyrir Ríkisútvarpið. En að auki er það markmið frumvarpsins að gera Ríkisútvarpinu kleift að styrkja starfsemi sína á þeim sviðum þar sem það skarar fram úr og hefur skapað því traust á meðal þjóðarinnar. Markmiðið er einnig að efla lýðræðislega starfshætti, ábyrgðardreifingu og þátttöku starfsmanna auk notenda við mótun dagskrárstefnu og dagskrárval enda er það órjúfanlegur hluti af lýðræðishlutverkinu. Það sama má segja að birtist í nýju fyrirkomulagi við skipan stjórnar. Hún á að endurspegla lýðræðis- og menningarhlutverk Ríkisútvarpsins.

Ákvæði um eftirlit með því hvernig Ríkisútvarpið stendur að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er annars vegar að koma til móts við kröfur ESA í því efni og hins vegar að leggja áherslu á að stjórnvöldum ber að fylgja því eftir að starfað sé í samræmi við lög og markmið með fjölmiðlun í almannaþágu. Það er mat mitt að þeim markmiðum verði náð með samþykkt frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.



[16:57]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og fyrir að hafa, þótt ég hafi ekki staðið að áliti meiri hluta allsherjarnefndar, tekið tilliti til þeirra ábendinga og breytingartillagna sem gerðar voru í vor. Það er ekki alltaf svo að slíkar ábendingar og samþykktir frá nefndum séu teknar inn. Ég tel að þær séu til bóta þó að ég sé allsendis ósátt við margt í frumvarpinu enn þá. Ég mun koma inn á það í ræðu minni á eftir.

Ég vil fyrir það fyrsta spyrja um hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég held að það mundi taka mig um tíu mínútur að lesa hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er, eins og það kemur fram í 3. gr. frumvarpsins, ef ég ætti að lesa þá grein hægt og skýrt til þess að allir skildu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað fellur ekki undir hlutverk Ríkisútvarpsins? Getur hún bent mér á eitthvað sem fellur ekki undir starfsemi sem Ríkisútvarpið á að skipta sér af? Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin er: Telur ráðherra að þær takmarkanir sem settar eru í frumvarpið skipti einhverju máli? Ég sé í áliti frá fjárlagaskrifstofunni, þar sem greinilega er stuðst við álit frá menntamálaráðuneytinu, að menn telja að auglýsingatakmarkanirnar muni hafa í för með sér einhverja skerðingu fyrir stofnunina. Í umsögnum sem bárust nefndinni og á fundi nefndarinnar síðastliðið vor bentu samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins á það og studdu með rökum að þær takmarkanir sem er verið að setja í frumvarpið mundu ekki skipta Ríkisútvarpið neinu máli af því að þær væru langt undir þeim mörkum sem miðað væri við. Skipta þessar takmarkanir einhverju máli? Eða telur ráðherra einfaldlega rétt að hafa Ríkisútvarpið í þeim mæli sem það er á auglýsingamarkaði í dag?

Ég mun síðar koma í ræðu minni að áliti fjárlagaskrifstofunnar sem er stórmerkilegt og þar er gefið í skyn að menn séu ekki sáttir á þeim bænum, í fjármálaráðuneytinu, um aðferðafræðina (Forseti hringir.) varðandi nefskattinn.



[16:59]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvað falli ekki undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Það er ljóst að við höfum ekki skilgreint það nægilega vel hingað til, það er mat ESA. Hér er gerð atlaga að því að gera það og það hefur verið gert í samráði við sérfræðinga ESA, enda leggja þeir til leiðbeinandi reglur. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að þær reglur um útvarpsþjónustu í almannaþágu snúast um að uppfylla lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, auk menningarlegs og tungumálalegs fjölræðis, eins og það er orðað í leiðbeinandi reglum. Það fellur því gríðarlega margt undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. ESA hefur gert athugasemd við það að ekki sé reynt að skilgreina þessa fjölmiðlaþjónustu í gildandi lögum. Hv. þingmaður getur haft þá skoðun að skilgreining ESA sé allt of víðtæk og nái yfir allt of breitt svið. Það er eitthvað sem hægt er að ræða. Ég tel hins vegar að 3. gr. snúi að því að reyna að skilgreina hvernig við teljum að hægt sé að uppfylla lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, auk menningarlegs og tungumálalegs fjölræðis, eins og það er orðað.

Það er ljóst að slík dagskrá þarf að hafa mjög víðtæka skírskotun. En við getum bara litið til þeirra almannaþjónustumiðla sem við berum okkur saman við í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, sem reka auðvitað mjög öfluga og fjölbreytta dagskrá, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Þar hefur augljóslega verið farin sú leið að skilgreina þetta víðtækt, en hins vegar, og það snertir hina spurningu hv. þingmanns, eru þeir miðlar ekki á auglýsingamarkaði.

Nú liggur fyrir að skerðingin á tekjum Ríkisútvarpsins með þeim tillögum sem hér eru lagðar til og byggja ekki aðeins á útreikningum Ríkisútvarpsins heldur hefur einnig verið ráðist í sjálfstæða útreikninga á því, (Forseti hringir.) sé upp á 365 milljónir. Ég mundi telja að það munaði um það þótt vafalaust finnist einhverjum ekki nógu langt gengið.



[17:01]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi bara að mér er til efs að svona skilgreining sé til að mynda í norsku lögunum um NRK, hvað þá að ESA hafi sett fram þessar skilgreiningar. Það er oft hægt að skýla sér á bak við ESA, en ekki það að menn geti ekki á góðri, hnitmiðaðri íslensku skilgreint nákvæmlega hvert almannaþjónustuhlutverk og öryggishlutverk Ríkisútvarpsins er. Ég held að þetta sé alveg með ólíkindum. Ég held miklu frekar að aðrir hafi reynt að koma inn sínum skilgreiningum eins og oft vill verða þegar hagsmunaaðilar fá tækifæri til að breyta frumvörpum. Það er alveg ljóst að menn eru að reyna að ná yfir allt. Þetta var meðal annars eitt af þeim atriðum sem við ræddum um í vor.

Ef eitthvað er vafamál þá sagði víst góður maður að það væri ekki alltaf hægt að skilgreina klám, þú bara þekkir það þegar þú sérð það. Það er nákvæmlega þannig með almannaþjónustuhlutverkið — ég er ekki að tala um að það sé klám heldur að menn átti sig á því að það þurfi ekki svona víðtæka skilgreiningu eins og í þessu frumvarpi. Það má miklu frekar fara hina leiðina. Ef ég væri til dæmis samkeppnisaðili Ríkisútvarpsins mundi ég segja: Bíddu, samþykkið þið hjá ESA þetta? Það fellur bara allt hér undir. Þeir mega gera hvað sem er. Ég vil því mótmæla þessari skýringu en virði engu að síður svörin.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé einlægt þeirrar skoðunar að best sé að hafa stjórn Ríkisútvarpsins skipaða eins og lagt er til í frumvarpinu, þ.e. að skipuð verði valnefnd, það verði eftir sem áður ráðherra sem ber ábyrgð á stjórninni, hann skipar hana, og að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi að hafa aðgang að stjórn og seturétt í stjórninni.

Ég vil hins vegar fagna því að tekið hefur verið tillit til álits meiri hluta allsherjarnefndar frá því í vor. En eftir situr spurningin: Mun þetta vera hin almenna stefna ríkisstjórnar Íslands að hafa (Forseti hringir.) starfsmenn ríkisstofnana í stjórnum þeirra stofnana þar sem enn þá eru stjórnir?



[17:04]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um almannaþjónustuhlutverkið því að það er aðeins flóknara en klámið og tengist því ekki. Þegar hv. þingmaður spyr hvað Ríkisútvarpið eigi ekki að gera, þá skulum við horfa á það sem hér er sagt. Hér er verið að leggja miklar kvaðir á almannaþjónustufjölmiðil okkar sem við getum ekki lagt á aðra fjölmiðla. Hér er nefnt varðveisluhlutverk og að þjóna landinu öllu til að mynda. (Gripið fram í.) Það er talað um hið lýðræðislega fréttahlutverk, að flytja lýðræðislegar fréttir þannig að fólk geti mótað sér eigin skoðanir. Þetta getum við í raun kallað kvaðirnar sem við leggjum á almannaþjónustumiðilinn. Það má nefna öryggisþjónustuna. Það er margbreytileiki lífsskilyrða í landinu því fréttaþjónusta til landsins alls snýst ekki bara um fréttaþjónustu til landsins heldur af landinu öllu fyrir alla landsmenn, svo dæmi sé tekið. Það er menningarhlutverkið sem snýr líka að því hvernig ESA skilgreinir almannaþjónustuhlutverkið; þar er átt við bæði menningararfleifð þessarar þjóðar en líka að fylgjast með samtímamenningu og að þetta efni hafi skírskotun til ýmissa ólíkra menningarheima.

Þannig að ég segi við hv. þingmann þegar hún spyr hvað Ríkisútvarpið megi ekki gera, að hér eru lagðar mjög ríkar kvaðir á Ríkisútvarpið. Þess vegna höfum við almannaþjónustumiðla. Það er af því við leggjum á þá tilteknar kvaðir sem við leggjum ekki á alla aðra fjölmiðla.

Hv. þingmaður spurði líka út í stjórnarfyrirkomulagið. Þar er horft til þess að ná þeim markmiðum að það veljist sem best saman ólík þekking og ólík hæfni í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er mjög mikilvægt. Þetta er vissulega nýbreytni og breyting en ég tel að með þessum hætti náum við því markmiði.

Hvað varðar aðkomu starfsmanna í stjórn ætla ég ekki (Forseti hringir.) að svara fyrir stefnu allra ráðherra í þeim málum, en ég tel að í stofnun sem á að tryggja lýðræðislega stjórnar- og starfshætti (Forseti hringir.) sé ekkert að því að starfsmenn eigi þar fulltrúa, þótt ég hafi fallist á sjónarmið meiri hluta nefndarinnar um að hann hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.



[17:07]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir framlag hennar og ræðu um Ríkisútvarpið.

Það kemur fram í 2. gr. að Ríkisútvarpið er sjálfstætt, opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Ég veit ekki hvað það þýðir að vera sjálfstætt hlutafélag, en opinbert hlutafélag skal það vera. En síðan stendur hvergi í frumvarpinu ohf. á eftir orðinu Ríkisútvarp til merkis um að átt sé við opinbert hlutafélag eða hlutafélag yfirleitt eins og venjan er.

Svo er dálítið merkilegt að í frumvarpinu segir að ráðherra fari með eignarhlut íslenska ríkisins. Ég reikna með því að lögskýringarmenn segi að það sé menntamálaráðherra, en sumir telja að fjármálaráðherra eigi að hafa með þetta að gera, hann sé handhafi hlutabréfsins eða gæti þess. Ég mundi vilja að þetta yrði skýrt dálítið betur, að eigandi eða handhafi bréfsins sé menntamálaráðherra.

Svo stendur hér að valnefnd tilnefni fimm fulltrúa í stjórn og jafnmarga til vara. Síðan tilnefnir ráðherra einn og starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefna einn. Þá er ég kominn upp í sjö fulltrúa, en þá gerist það merkilega að einn af þessum sjö hefur ekki atkvæðisrétt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það samrýmist lögum um hlutafélög og opinber hlutafélög að í fyrsta lagi sé kosin stjórn en það er í raun engin kosning því að það er búið að tilnefna stjórnina. Hvernig samrýmist það lögum um hlutafélög, sem opinber hlutafélög falla undir, að það sé í raun engin kosning? Þetta er ekki kosning, það er búið að velja þetta fólk, það gerist sjálfkrafa fyrir aðalfund.

Ég vil spyrja hvernig þetta samrýmist reglum um hlutafélög og sérstaklega það að einn af stjórnarmönnum njóti ekki þeirra réttinda (Forseti hringir.) að hafa atkvæðisrétt.



[17:09]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um stjórnina og ég þakka hv. þingmanni athugasemdina um hana. Ég tel að það þurfi kannski að skoðast betur hvort það samrýmist lögunum að einn fulltrúi eigi ekki atkvæðisrétt. Eins og ég nefndi áðan var þetta tillaga frá meiri hluta nefndarinnar og ég taldi víst að svo væri, en ég tel kannski rétt að nefndin fari yfir það.

Hvað varðar kosningu stjórnar er fyrirkomulagið auðvitað núna þannig að Alþingi kýs stjórn sem síðan er kosin á aðalfundi. Þar er í raun og veru líka tvöfalt kerfi í gangi með því fyrirkomulagi, þ.e. það er búið að kjósa stjórnina á Alþingi áður en hún er kosin á aðalfundi. Mig rekur ekki minni til þess að neitt nýtt hafi gerst þegar stjórn er kosin á aðalfundi heldur er alltaf kosin sama stjórnin og Alþingi hefur kosið áður.

Hv. þingmaður spyr út í ohf. Það er rétt, þetta er opinbert hlutafélag. Það er ekki tiltekið í hvert einasta skipti að þetta opinbera hlutafélag heitir Ríkisútvarpið. Við reiknum með að það sé ohf., þannig að ég tel ekki ástæðu til að tilgreina það sérstaklega í lagatexta, enda kemur mjög skýrt fram í 2. gr. að svo sé.

Hv. þingmaður nefndi einnig eignarhlutinn. Ég tel að það hafi komið skýrt fram í máli mínu áðan að hér er lagt til að eignarhlutur þessa opinbera hlutafélags sé hjá menntamálaráðherra á hverjum tíma.



[17:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér gafst ekki tími til að fara í hlutafélagalögin og fletta upp um opinber hlutafélög. En mig minnir að þar standi að ávallt skuli tilgreina félög með ohf., hf. eða ehf. eftir því sem við á. Hér ætti þar af leiðandi alls staðar að standa ohf. á eftir Ríkisútvarpinu ef það ætti að vera í samræmi við hlutafélagalögin.

Hvort það sé í samræmi við hlutafélagalögin að kjósa fulltrúa sem þegar er búið að kjósa þá stendur í hlutafélagalögum að stjórn skuli kosin á aðalfundi. Þá skal hún kosin og hvergi nokkurs staðar annars staðar. Þannig að ef venjan hingað til hefur verið sú að búið er að tilnefna hana áður er ekki þar með sagt að það sé í lagi. Við frekari umræðu hefur ýmislegt komið í ljós sem sýnir að framkvæmdin er bara ekkert í lagi.

Síðan um fulltrúa starfsmanna í stjórn. Það kemur upp mjög skrítin staða þegar starfsmenn eru í stjórn hlutafélaga vegna þess að starfsmaðurinn er í stjórn, stjórn ræður forstjóra, forstjóri ræður starfsmann, og starfsmaðurinn ræður yfir forstjóranum. Þetta eru hringavöld sem urðu Sambandinu á sínum tíma að aldurtila af því kaupfélagsstjórarnir voru bæði yfir og undir stjórn Sambandsins. Það er talið mjög skaðlegt í öllu stjórnskipulagi að hringur sé í valdastrúktúrnum.

Ég legg til að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar kalli til sín sérfræðinga í stjórnskipun fyrirtækja til að kanna hvort þetta fái staðist. Þetta fær staðist ef aðilinn hefur ekki atkvæðisrétt, en þá þarf að undanskilja hann, hann er þá ekki í stjórn heldur einhvers konar ráðgjafi stjórnar.



[17:13]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kveðið er á um það í 9. gr. að falli atkvæði jöfn ráði atkvæði formanns úrslitum. Það er gert ráð fyrir því að fallið geti sex atkvæði og að þau geti fallið jöfn. Það er þannig (PHB: … að þeir mæti.) gert ráð fyrir því. — Ég reikna nú með því að stjórnarmenn mæti á stjórnarfundi, hv. þingmaður.

Ég tel að þetta sé liður í því að efla lýðræðislega starfshætti eins og ég fór yfir áðan, að starfsmenn hafi með þessum hætti tillögurétt og málfrelsi á stjórnarfundum, og þótt þeir fáist ekki við mál sem beinlínis varða kjör eða annað slíkt komi þeir að stefnumótun Ríkisútvarpsins þegar um er að ræða fagleg málefni. Ég tel að það sé framfaraskref.



[17:14]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar um málið. Ég kalla í fyrsta lagi eftir því hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi gert athugasemd í ríkisstjórn þegar frumvarpið var lagt fram.

Ég átta mig ekki alveg á hvaða vegferð við erum. Fjármálaráðuneytið vinnur að frumvarpi í samvinnu og samstarfi við hv. fjárlaganefnd þar sem gert er ráð fyrir að allar markaðar tekjur og það sem hægt er að taka af sértekjum fari beint í ríkissjóð og að allar stofnanir sem fá úthlutað af fjárlagaliðum fari beint inn á fjárlagaliði.

Hver er tilgangurinn? Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að auka aga í ríkisfjármálum, til þess að ná tökum á fjármálunum. Ég átta mig því ekki á því á hvaða vegferð við erum. Ég spyr: Á hv. fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytið yfirleitt að fara í þessa vinnu eða eru allir að róa í sömu átt? Það lítur þannig út fyrir mér þannig að sumum virðist bara ekki koma þetta verkefni við. Það er enginn pólitískur ágreiningur um verkefnið í hv. fjárlaganefnd. Það eru allir sammála um markmiðið og að það eigi að gera þetta með þessum hætti.

Nei, nei, enn og aftur eru lögð fram ný frumvörp sem ganga þvert á þá vinnu. Ég velti fyrir mér á hvaða vegferð við erum. Ég skil það bara ekki. Í þessu tilfelli er gert ráð fyrir að á árinu 2014 eigi að auka útgjöld til Ríkisútvarpsins um 875 millj. kr., þ.e. um 27%, en á sama tíma heyrum við fréttir dag eftir dag, kvöld eftir kvöld í Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum um grafalvarlegt ástand á heilbrigðisstofnunum landsins, til að mynda á Landspítalanum. Við heyrum fréttir af því sem er að gerast, um aðbúnað krabbameinssjúklinga og fleira. Á að auka framlag til Ríkisútvarpsins til þess að það geti flutt fleiri fréttir? Hvers konar vitleysa er það eiginlega? Það gengur svo fram af mér að ég á ekki til eitt aukatekið orð. Hver er staða ríkissjóðs í raun?

Ég verð að viðurkenna að mér er algjörlega misboðið, sama hversu góð stofnun Ríkisútvarpið er, mér algjörlega ofviða að skilja hvers vegna menn forgangsraða svona í fjármálum ríkisins.

Við skulum setja málin í samhengi. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við ræðum af hreinskilni hvernig við ætlum að forgangsraða í ríkisfjármálum. Ætlum við að gera það með því að auka útgjöld til þessarar stofnunar eða einhverrar annarrar? Um það finnst mér spurningin snúast. Svo geta hæstv. ráðherra og hv. þingmenn flutt hér einhverjar ræður um mikilvægi þess að þessi stofnun þurfi að vera eitthvað sér og fyrir utan annað. Það er bara algjör vitleysa. Á sama tíma og við fáum fréttir af ástandinu á heilbrigðisstofnunum landsins víðs vegar um landið, um að við höfum ekki efni á að kaupa tæki, skal auka útgjöld til Ríkisútvarpsins um 27% bara sisvona, 875 millj. kr. Það er algjörlega yfirgengilegt og gengur þvert á þau markmið sem unnið er að í hv. fjárlaganefnd í góðri samvinnu og sátt við fjármálaráðuneytið. Ég verð að viðurkenna að ég er verulega svekktur yfir þessu.

Síðan vil ég benda á það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins: Gerði hæstv. fjármálaráðherra athugasemd við framlagningu þessa frumvarps? Verið er að vinna það í sátt við nefndina, ráðuneytið og hæstv. ráðherra en samt er haldið áfram á þessari braut. Það er algjörlega yfirgengilegt. Ég hvet hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að taka alvarlega athugasemdir sem koma frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Þær hafa að mínu mati margar hverjar verið beittari en ég hef átt að venjast á þeim stutta tíma sem ég hef setið á þingi. Ég hef velt því fyrir mér og sagt það á fundum hv. fjárlaganefndar að þarna sé akkúrat fólkið sem sýsli mest um fjármál ríkisins. Er þetta ágæta fólk að reyna að vekja okkur til umhugsunar, að reyna að gera okkur grein fyrir því hvert við erum að stefna? Ég velti því alvarlega fyrir mér.

Ef við skoðum niðurstöðu og síðustu setningarnar í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir þar orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

„Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur sett fram stefnumörkun í ríkisfjármálaáætlun sinni um að ríkissjóður verði orðinn hallalaus árið 2014 hlýtur að þurfa að bregðast við til að afstýra svo verulegu fráviki frá settum markmiðum.“

Það er í rauninni ekki hægt að kveða skýrar að orði og þeir sem segjast ekki skilja þennan texta vilja bara ekki skilja hann. Svo einfalt er það í mínum huga.

Ég sagði áðan að við þyrftum að taka mjög alvarlega þær ábendingar sem hér koma fram og við þurfum að taka heiðarlega umræðu um hvernig við ætlum að forgangsraða í ríkisrekstrinum. Hver er tilgangurinn með þeirri vinnu sem ég fór yfir áðan? Jú, hann var fyrst og fremst að reyna að taka á agaleysinu í ríkisfjármálunum. Það ríkir algjört agaleysi í ríkisfjármálum, algjört.

Það er eins og hver og einn hæstv. ráðherra lifi sjálfstæðu lífi, þó að ég sé ekki að saka hæstv. menntamálaráðherra um það í þessu tilfelli, að því leyti að heildarstabbinn í hinum sameiginlega ríkissjóði er ekki viðfangsefni viðkomandi ráðherra. Til þess að rökstyðja það var gerð breyting í vor undir forustu hv. fjárlaganefndar þar sem fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun, sem við höfum átt gott samstarf við, komu saman til að reyna að sjá hvernig framkvæmd fjárlaga gengi fyrir sig. Strax í vor komu í ljós mjög miklir annmarkar. Og hvað gerði hv. fjárlaganefnd? Hún kallaði viðkomandi ráðherra, alls þrjá, á fund hv. fjárlaganefndar til þess að fara yfir hvernig þeir ætluðu að gera til að fara eftir fjárlögum. Slíkt er nýlunda, alla vega á þessu kjörtímabili. Ég ætla ekki að fullyrða um að það hafi ekki verið gert áður en ég held að svo sé ekki. Þá voru ekki liðnir nema fjórir mánuðir af árinu. Skilaboðin til ráðherranna voru mjög skýr. Þau voru þessi: Fjárlögin eru að sjálfsögðu vitlaus. Það vita allir að þau ganga ekki upp. Auðvitað þarf að bæta við þó svo að ekki hafi verið gerðar athugasemdir þegar fjárlögin voru samþykkt. Þetta er bara því miður svona og ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að ég hef það á tilfinningunni að endalaust sé verið að ýta vandamálum á undan sér yfir á komandi kynslóðir. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég er ansi hræddur um að það séu mjög margir hv. þingmenn sem ekki hafa nægilegan áhuga á því hvernig bregðast verður við og greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Við heyrðum það í störfum þingsins í dag þegar tveir stjórnarliðar töluðu um að allt fagurt væri fram undan. En hver er raunverulega staðan? Hún er sú að ríkissjóður skuldar um 2.000 milljarða. Vaxtagreiðslur á næstu fjórum árum eru tæpir 400 milljarðar, bara vextir. Þá er reiknuð og sett umgjörð í kringum það, það kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu að það er gert á meðan við erum í skjóli gjaldeyrishafta þannig að vaxtastigið á ríkissjóði er miklu lægra en ef engin gjaldeyrishöft væru.

Þetta eru viðfangsefnin. Á síðasta ári, árið 2011, jukust skuldir ríkissjóðs um 100 milljarða nettó en í heildina um 200 milljarða. Þetta er verkefnið. Þess vegna segi ég að það verður auðvitað að fara að forgangsraða í ríkisfjármálum til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, annars erum við bara í nákvæmlega sömu afneitun og við höfum verið í allt of lengi. Við stefnum fram af bjargbrúninni og enginn virðist spá í það. Svo bara förum við fram af. Ég hef af því verulegar áhyggjur.

Hvað er verið að gera núna og hver eru viðbrögðin? Það er nokkuð merkilegt. Viðbrögðin eru þau að þegar farið er í framkvæmdir þá eru þær bara teknar út fyrir ríkisreikning. Skýrasta dæmið er nýjasta samþykkt þingsins á svokölluðum Vaðlaheiðargöngum síðasta vor. Það er einmitt gríska leiðin. Þess vegna segi ég: Erum við í algjörri afneitun eða meiri hluti hv. þingmanna? Þetta er grafalvarlegt mál.

Síðan erum við væntanlega að fara að fjalla um nýjan Landspítala á næstu vikum, ekki nema afgreiða eigi það mál á einni viku eða tveimur, þremur dögum í krampakasti fyrir jólin eða áramótin. Það verður kannski ekki hægt að afgreiða það mál nema á handahlaupum í tímaþröng hér í lokin.

Það þarf að fara hreinskilnislega yfir stöðu mála. Það veldur mér mestum vonbrigðum að það skuli vera gengið þvert á þá vinnu sem ég tel að hv. fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytið séu að vinna einmitt til að koma í veg fyrir agaleysið. Það er svo margt sem spilar inn í. Ef við komum til að mynda að ríkisreikningi frá árinu 2011 þá er ekki einu sinni komin skýrsla um hann. Hann verður væntanlega ekki samþykktur fyrr en á næsta kjörtímabili og því þurfum við að breyta. Í ríkisreikningi 2011 er hallinn tæpir 30 milljarðar, þ.e. það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og fjáraukalögum og samþykkt frá Alþingi. Það hlýtur að þurfa að taka afstöðu til þess þegar við eigum ekki til fyrir tækjum á heilbrigðisstofnanir. Löggæslan er eitt dæmi um það sem blasir við okkur þessa dagana og svo margt fleira.

Skoðun mín er sú, og ég vil að hún komi skýrt fram, að ég tel þetta vera bruðl og vitleysu og ekkert annað. Þetta er röng forgangsröðun. Ég gef ekki mikið fyrir það, það getur vel verið að ég taki stórt upp í mig sem er svo sem ekkert nýtt, þegar menn tala um að taka þurfi pólitískt vald frá fjárveitingavaldinu og færa til Ríkisútvarpsins með því að úthluta fé með þessum hætti.

Það er nefnilega fullt af breytum í útvarpsgjaldinu sem þingið getur sett, hvort sem það er tekjutenging, aldur eða annað, þannig að ég sé ekki sterk rök fyrir þessu. Ef menn teldu hættu á því að stjórnvöld vildu fara í herför gegn Ríkisútvarpinu í þessu tilviki, gegn einhverjum hlutum með því að taka pólitískt vald frá fjárveitingavaldinu, gæti Alþingi ákveðið að hækka bara tekjumörkin.

Þá mundu minni tekjur renna til Ríkisútvarpsins, þannig að það eru ekki nægilega sterk rök til að fara í þessa vegferð að mínu viti. Það veldur mér miklum áhyggjum og vonbrigðum að farið skuli fram með þetta mál þannig að markaðar tekjur fari beint til viðkomandi stofnunar. Við getum tekið endalausa umræðu um það.

Við getum skoðað Fjármálaeftirlitið. Við getum líka skoðað Hæstarétt. Hann fær framlög beint frá Alþingi. Af hverju þurfa hérðaðsdómstólar ekki að hafa sérmarkaða tekjustofna til að klippa á strenginn á milli fjárveitingavaldsins og viðkomandi stofnana? Það er endalaust hægt að ræða það. (SF: Forseti Íslands.) Til dæmis, já. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefnir forseta Íslands. Alveg rétt. Við getum endalaust rætt þetta. En það veldur mér miklum áhyggjum og miklum vonbrigðum að menn ætli að bæta við tæpum 900 milljörðum til Ríkisútvarpsins árið 2014 í því ástandi sem nú er í heilbrigðismálum, löggæslumálum og fleiri málum. Ég ítreka það sem ég hef sagt: Þetta er ekki rétt forgangsröðun, nema það verði það mikið að gera hjá Ríkisútvarpinu að flytja fréttir af bágri stöðu lögreglunnar eða heilbrigðisstofnana að hækka þurfi fjárveitingar þess vegna.



[17:28]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig hafa fært fyrir því rök og vil ítreka þau að við byggjum samfélag okkar á þrískiptingu valds, en hv. þingmaður ræddi um dómstóla, löggjafarvald og framkvæmdarvald og af hverju við þurfum ekki að tryggja það sérstaklega með mörkuðum tekjum.

Ég bendi hv. þingmanni á að við byggjum samfélagið á þessari þrískiptingu, hún er skráð í stjórnarskrá, en lagalegt hlutverk þess sem við höfum kallað fjórða valdið, fjölmiðlana, er hvergi afmarkað með sama hætti. Ég hvet hv. þingmann til að skoða þetta því að þetta er ekki eitthvert fordæmi sem ég er að finna upp, þetta er ekki hjól sem verið er að finna upp hér í fyrsta sinn. Horfum á almannaþjónustumiðlana í löndunum í kringum okkur og skoðum orðræðuna sem þar hefur farið fram um af hverju talið hefur verið nauðsynlegt að þeir miðlar hafi markaðan tekjustofn til að tryggja sjálfstæði sitt.

Ég held að allir hv. þingmenn vilji tryggja fjórða valdið í sessi. Við teljum mikilvægt, að minnsta kosti flest okkar, að það séu til öflugir almannaþjónustumiðlar, þeir séu ein af undirstöðum í fjórða valdinu og mikilvægt að þeir njóti þessa sjálfstæðis og hafi þennan fyrirsjáanleika í tekjustofni sínum.

Ég spyr líka hv. þingmann sem gagnrýnir þetta fyrirkomulag hver hans hugmynd er þá um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Er hugmynd hans sú að Ríkisútvarpið sé þá á fjárlögum eins og hver önnur stofnun? Telur hann að ekki eigi að gilda um það neinar sérstakar reglur í ljósi þess að þetta er almannaþjónustufjölmiðill okkar sem hefur mikilvægu lýðræðishlutverki að gegna og er ekki stjórnarskrárbundinn með sama hætti og þær stofnanir sem hann nefndi?

Ég minni líka á það að hér er ekki verið, að mínu viti, að auka útgjöld ríkisins. Hér er talað um að það sem við, almenningur í landinu, borgum, gjaldið vegna Ríkisútvarpsins ohf. eins og það stendur í fjárlagafrumvarpinu, renni til Ríkisútvarpsins ohf. Ef við ætlum að hafa slíkt sérstakt (Forseti hringir.) gjald er þá ekki rétt að það sé gagnsætt hvert það renni eða er hv. þingmaður ósammála því?



[17:31]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvort ég sjái fyrir mér að Ríkisútvarpið verði á fjárlögum. Ég vil að það fái beint framlag og engar markaðar tekjur. Það er algjörlega skýr skoðun mín og ég held að ég hafi komið vel inn á það í ræðu minni.

Ég nefndi því til stuðnings að ef menn eru að slíta þessi tengsl — ég geri mér grein fyrir því að þau geta auðvitað myndast, ég er ekki að halda öðru fram — hvers vegna þarf þá ekki að slíta til dæmis tengslin við Hæstarétt eða forsetaembættið eða Fjármálaeftirlitið? Við munum eftir þeirri deilu sem varð um Fjármálaeftirlitið á sínum tíma þegar við hækkuðum útgjöldin til þess. Það var út af því að þeir sögðu: Við erum sú stofnun sem á að fá lögum samkvæmt — og þeir voru með lögfræðiálit upp á það — algjörlega óskipt framlagið úr sérstaka tekjustofninum.

Ég benti líka á annað í ræðu minni að Alþingi getur gripið inn í þennan sérstaka tekjustofn af því það eru ákveðnir annmarkar á honum. Bæði er það tekjutengingin og auk þess aldurinn, 16 ára og 70 ára. Alþingi getur auðvitað óbeint gripið inn í og breytt þessum atriðum ef því sýnist svo.

Hæstv. ráðherra hefur sagt að hún líti ekki á þetta sem aukin útgjöld vegna þess að hluti af útvarpsgjaldinu renni í ríkissjóð. Það er auðvitað hægt að hártoga þetta á ýmsan hátt en við vitum, og það kemur auðvitað skýrt fram og er markmiðið, að þegar og ef þessi lög taka gildi munu útgjöldin til Ríkisútvarpsins hækka um 875 milljónir. Hvort það gerist með því að allt gjaldið renni til þess eða hvort menn vilja túlka það þannig að mismunurinn renni ekki í ríkissjóð þá munu útgjöldin engu að síður aukast.

Þess vegna tók ég fyrir forgangsröðunina í ríkisfjármálum og þess vegna getum við líka tekið svo margt annað inn í þessa umræðu. Það væri auðvitað æskilegt að gera það og lengur en í stuttum andsvörum.



[17:33]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fór vítt yfir sviðið í ræðu sinni og nefndi að það væri mikilvægt að hæstv. ráðherrar hefðu heildarsýn á ríkisútgjöldin. Ég er sammála hv. þingmanni um það en ég tel að það hafi nú verið ákveðin einföldun þegar hv. þingmaður vísaði í fundi hv. fjárlaganefndar með ráðherrum. Að sjálfsögðu eiga ráðherrar að bera ábyrgð á því að fjárlögum sé fylgt en á móti kemur að hæstv. ráðherrar á hverjum tíma eiga rétt á að benda á þá veikleika sem þeir telja vera á fjárlögum. Ég tel því ekki að þetta snúist bara um að benda á að fjárlögin séu vitlaus, eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég tel mig að minnsta kosti ekki hafa gert það á þeim fundi heldur bent á að veikleikarnir yrðu skoðaðir.

En í þessu máli vil ég segja að Ríkisútvarpið á að njóta ákveðinnar sérstöðu. Það var upphaflega hugmyndin með upptöku þessarar gjaldtöku á sínum tíma. Hún kom í kjölfar afnotagjalda sem voru auðvitað líka markaður tekjustofn. Þetta eru þær aðferðir sem nágrannaþjóðir okkar hafa notað til að tryggja sjálfstæði ríkisfjölmiðla sinna. Það að beintengja framlögin við fjárlögin er sú leið sem Finnar fóru og þeir eru núna að snúa ofan af henni því þeir telja að hún hafi gefist illa.

Þótt ég sé sammála hv. þingmanni um nauðsyn þess að viðhalda aga í ríkisfjármálum og hafa kerfið sem gagnsæjast tel ég líka mikilvægt að við skoðum almannaþjónustumiðlana sérstaklega. Ég tel mig hafa rökstutt það að þeir séu á annan hátt hluti af ríkisvaldinu en hið þrískipta vald sem ég nefndi áðan.

Ég kom reyndar aðallega upp til að svara því sem hv. þingmaður spurði mig um og ég gleymdi í fyrra andsvari mínu, en það var að hæstv. fjármálaráðherra gerði ekki sérstaka athugasemd við framlagningu frumvarpsins, en auðvitað vísa ég til hæstv. fjármálaráðherra og að hann svari fyrir afstöðu sína sjálfur.



[17:35]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Förum aðeins yfir þessa hluti aftur, og það sem snýr að mörkuðum tekjustofnum. Hver er reynslan undanfarin ár eða áratugi? Það er mjög einfalt, hún er þessi: Þegar markaðir tekjustofnar fara hátt upp vex stofnunin. Þegar markaðir tekjustofnar lækka síðan aftur eykst ríkisframlagið. Þetta eru staðreyndir sem blasa við okkur hjá hverri stofnun á fætur annarri. Ekki bara einni eða tveimur, þetta eru mál sem eru á borði hv. fjárlaganefndar og hafa verið þar á þeim stutta tíma sem ég hef setið í henni.

Þetta er bara staðreyndin. Þess vegna getum við líka tekið svo mörg önnur dæmi til viðbótar, það er svo mikið óréttlæti í þessu kerfi þó að það snúi kannski ekki beint að þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið. Við hæstv. ráðherra erum bara sammála um að vera ósammála um hvort ekki væri mjög æskilegt að setja þessar tæpu 900 milljónir í heilbrigðisstarfsemina en ekki til Ríkisútvarpsins. Við gætum tekið dæmi um fullt af öðrum stofnunum og ég hef tekið það margsinnis fram í mínum ræðum.

Það eru ekki deilur um það þvert á stjórnmálaflokka hvort hlífa eigi grunnþjónustunni. Það eru engar deilur um það hvort hlífa eigi heilbrigðisþjónustunni. En á sama tíma og við erum að skera þar niður, og höfum gengið dálítið bratt fram í því og mjög langt — við heyrum lýsingar á því meðal annars í þessum tiltekna fjölmiðli — hafa sumar stofnanir með markaða tekjustofna og sumar með sértekjur sem koma jafnvel beint úr ríkissjóði eða í gegnum ráðuneytin verið að blása út, jafnvel um 15%–20%. Það er auðvitað mjög óeðlileg stjórn á fjármálum ríkisins þegar engar deilur eru um hvernig eigi að gera þetta. Þegar fjárveitingar eru afmarkaðar í fjárlögum til viðkomandi stofnana er niðurstaða ríkisreiknings allt önnur en ráða mætti af umræðunni hér og ákvarðanatöku.

Hér ræðum við fram og til baka hvort setja eigi 1 milljón eða 2 milljónir í þessa stofnun eða hina, bara til þess að hlífa lágmarksþjónustu, líknardeildum og svoleiðis. En svo renna hundruð milljóna til annarra stofnana með markaðar tekjur. Við verðum að ná tökum á þessari vitleysu. (Forseti hringir.)



[17:37]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er gaman að fylgjast með umræðunni um Ríkisútvarpið, sérstaklega þessum síðustu orðaskiptum sem voru auðvitað mjög sérhæfð og um alveg afmarkaðan þátt en mjög mikilvægan, um tekjustofnana. En mig langaði að koma að nokkrum sjónarmiðum. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að þetta frumvarp er endurflutt en þó með breytingum. Þær breytingar lúta að ábendingum frá allsherjar- og menntamálanefnd frá síðasta þingi og ég fagna því að tekið hefur verið tillit til þeirra.

Ég vil segja að í heildina er ég nokkuð ánægð með þetta frumvarp. Ég held að hér sé ótvírætt verið að stíga skref í rétta átt. Það getur vel verið að nefndin geri einhverjar frekari breytingar, ég ætla ekki að útiloka það, en ég er að minnsta kosti frekar jákvæð gagnvart frumvarpinu. Ég veit að hæstv. ráðherra leggur áherslu á að það klárist núna á þessu þingi. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í að reyna að liðka fyrir að af því verði vegna þess að ég tel að þessi lög verði til bóta fyrir rekstur Ríkisútvarpsins og árangurinn sem mun nást í framtíðinni.

Það er ágætt að minnast á að það hefur reyndar náðst gríðarlega góður árangur í rekstri Ríkisútvarpsins. Það hljómaði kannski þannig í umræðunni áðan að þetta væri bara allt í voða og svakalegir peningar sem rynnu þangað en það er nú ekki þannig. Þar hefur þurft að spara mjög háar upphæðir og segja upp fólki sem er erfitt en ég held að ástæða sé til að undirstrika að góður árangur hefur náðst í rekstrinum. Það má lesa í ársskýrslum Ríkisútvarpsins og hefur verið kynnt á aðalfundum Ríkisútvarpsins. Sumir gera það að leik sínum að bíta alltaf í hælana á Ríkisútvarpinu og Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, en ég leyfi mér frekar að hæla bæði honum og starfsmönnum almennt fyrir góðan árangur í rekstri. Því að þrátt fyrir þennan mikla sparnað hefur Ríkisútvarpið ekki laskast, ekki svo verulega sé eftir takandi að minnsta kosti.

Í þessu sambandi er ágætt að minnast á skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á trausti til stofnana. Það eru nokkrar stofnanir sem hafa risið hæst hvað varðar traust í samfélaginu. Þar er hægt að nefna lögregluna og Landhelgisgæsluna, Háskóla Íslands, heilbrigðiskerfið og svo fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er ekkert mjög langt síðan að gerð var könnun á trausti til fjölmiðla og þar kom fréttastofa Ríkisútvarpsins áberandi sterkust út með um 80% traust á meðan næsti fjölmiðill þar á eftir var með 50% og aðrir þar fyrir neðan.

Landsmenn treysta því fréttastofu Ríkisútvarpsins mjög vel og það er auðvitað ánægjulegt af því að Ríkisútvarpið hefur svo gríðarlega miklu hlutverki að gegna, er svo mikilvægt. Það væri mikið áfall ef traustið til þeirrar stofnunar og til dæmis til fréttastofunnar væri á svipuðum slóðum og traust til þingsins, það væri mikið áhyggjuefni. Enda er sannarlega mikið áhyggjuefni hvað þingið mælist lágt í trausti.

En mig langar líka til að rifja upp, áður en ég fer yfir nokkur efnisatriði þessa máls, hvað framsóknarmenn hafa sagt um Ríkisútvarpið. Við erum með alveg sérstaka stefnu um það eða höfum ályktað um það eins og önnur stór mál á flokksþingi okkar. Á síðasta flokksþingi ályktuðum við á þessa leið, virðulegur forseti:

„Fjölmiðlar eru mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. Auka þarf gagnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt og til að koma í veg fyrir samþjöppun. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og á því hvílir rík skylda að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður að renna óskipt til RÚV. Stefnt skal að því að auka hlutdeild norræns dagskrárefnis í ríkissjónvarpinu þegar samningur við RÚV verður næst endurnýjaður en það er nú 7,5%.“

Þingheimur getur hér heyrt og aðrir sem á þetta hlusta að framsóknarmenn telja að útvarpsgjaldið eigi að renna óskipt til RÚV en umræðan um einmitt þetta hefur verið mjög áberandi í þingsal.

Ég vil koma aðeins inn á þá umræðu. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og þeir sem lesa umsögn fjárlagaráðuneytisins geta séð það að ráðuneytið gerir verulegar athugasemdir við að líta eigi á innkomuna sem markaðan tekjustofn sem eigi að renna til RÚV. Ráðuneytið tekur þar með meira eða minna undir málflutning hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar áðan. Ráðuneytið bendir á að sá aðskilnaður sem við höfum á tilfinningunni að við séum að framkvæma með þessu frumvarpi sé í reynd minni en maður heldur. Þingið hefur áfram tak á fjárveitingunum. Það getur sett inn til dæmis „þrátt fyrir ákvæði“ svokölluð. Þrátt fyrir að innkoman sé þessi ætli þingið ekki að skila henni allri inn eða að það ætli til dæmis að ákveða hvenær gjaldið renni yfir til útvarpsins. Þannig skil ég að minnsta kosti umsögn ráðuneytisins. Það má beita alls kyns trixum og gera ýmsar breytingar til að láta gjaldið ekki renna á þann stað sem við teljum að það renni til. Þannig að ef til vill er þetta ekki svo mikil breyting.

Fjármálaráðuneytið nefnir Hæstarétt og forseta Íslands og veltir upp, eins og hér hefur verið gert, af hverju það eigi ekki að gilda sama hugmyndafræði um sjálfstæði þeirra og af hverju þessar stofnanir eigi að vera háðar fjárveitingavaldinu en ekki Ríkisútvarpið. Af því tilefni vil ég taka fram, ég veit ekki hvort það eru mjög góð rök í þessu máli, en það kom fram í nefndinni að dæmi eru um að það hafi verið samband á milli forustu RÚV og aðila í þinginu og þar sem kom fram undir rós að ef menn á fréttastofu RÚV hefðu sig ekki sæmilega hæga væri þeim bent á að bráðlega yrði farið að fjalla um upphæðir sem ættu að renna til RÚV í fjárlögum. Hvernig ber að skilja svona orðræðu?

Þarna var verið að koma því á framfæri að ekki ætti að trufla viðkomandi þingmann væntanlega, með einhverjum fréttaflutningi af því það gæti haft slæmar afleiðingar á fjárveitingar til RÚV. Það getur verið að þetta séu ákveðin rök í þessu máli varðandi Hæstarétt og forsetaembættið, það eru miklu minni snertifletir á milli þingmanna og þessara stofnana en við Ríkisútvarpið. Það eru talsvert margir snertifletir við Ríkisútvarpið, sérstaklega við fréttamennina auðvitað og því kannski ríkari ástæða til að hafa þetta eins aðskilið og unnt er, fjárveitingarnar frá þingi og hvernig þær renna til Ríkisútvarpsins.

Eins og kom fram áðan hafa framsóknarmenn líka fjallað um norrænt sjónvarpsefni og ég ætla að skjóta því að að hæstv. menntamálaráðherra hefur einmitt svarað fyrirspurn um það atriði. Það eru ákvæði um norrænt sjónvarpsefni í þjónustusamningnum við RÚV og sú sem hér stendur hefur skorað á hæstv. ráðherra að reyna að hækka hlutfall þess. Einn fjórði alls efnis sem sýnt er á RÚV er frá Bandaríkjunum en einungis 7,5% frá Norðurlöndunum, að Íslandi undanskildu. Það þyrfti að fjórfalda kaup frá öllum Norðurlöndunum ef það ætti að nást upp í allt bandaríska efnið sem er sýnt.

Þetta er svolítið sérstakt af því að á sama tíma sýna neyslukannanir á sjónvarpsefni að landsmenn horfa almennt meira á norrænu þættina en þá bandarísku. Bestu norrænu þættirnir fá í kringum 20% áhorf sem er talsvert meira en áhorfið á bandarísku þættina. Þannig að fólk vill sjá þetta efni og mér skilst að það sé heldur ekki dýrara. Ég ætla því að nýta ferðina og skora á hæstv. ráðherra að tryggja meira af norrænu sjónvarpsefni af því að það hefur miklu menningarlegu hlutverki að gegna fyrir okkur, að mínu mati.

Það er hægt að drepa á ýmislegt í þessu frumvarpi. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í það en vil bara undirstrika það sem kom fram í nefndaráliti meiri hlutans frá síðasta þingi. Það eru kannski ekki allir sem átta sig á því en þar er dregið fram að frumvarpið er að hluta til svar við kröfum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert til okkar varðandi ríkisaðstoð.

Það er full heimild að veita ríkisaðstoð til almannamiðils. Það kemur fram í svokallaðri Amsterdam-bókun um stöðu ríkisrekinnar útvarpsþjónustu, en hún er einróma yfirlýsing aðildarríkjanna um að standa vörð um fjárhagslegan grundvöll útvarpsþjónustu sem kostuð er af almannafé en jafnframt skuli tekið tillit til sérstakra hagsmuna sjálfstætt starfandi fyrirtækja. Í bókuninni er heimiluð undanþága frá samkeppnisreglum ESB um bann við ríkisaðstoð þannig að aðildarríki geti fjármagnað fjölmiðla í almannaþágu með álagningu sérstakra gjalda eða með skattfé. Það er því alveg ljóst að þetta má. Það þurfa samt að gilda ákveðnar reglur um hvernig þetta er gert og við fengum athugasemdir. Nú er því verið að reyna að skilja að almannaþjónustuhlutann og samkeppnishlutann og setja samkeppnishlutann hjá RÚV í dótturfélög og hann á allur að lúta samkeppnisreglum.

Varðandi önnur mál sem við framsóknarmenn höfum skoðað líka væri hægt að setja á langt mál um það að nú er verið að takmarka auglýsingar í RÚV frá því sem nú er til að veita samkeppnisaðilum meira svigrúm á markaðnum. RÚV hefur verið mjög vinsælt til auglýsinga þannig að þetta eru allt skref í átt að því að jafna samkeppnisstöðuna frá því sem nú er.

Virðulegur forseti. Ég vil líka nefna, af því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði í ræðu sinni um forgangsröðun, að mér finnst svolítið óréttlátt að stilla upp tækjakaupum til heilbrigðisþjónustu á móti rekstri Ríkisútvarpsins. Það er hins vegar ljóst að hægt er að gera mjög margt til að forgangsraða innan heilbrigðisgeirans ef maður lítur bara þröngt á hann. Ég ætla að leyfa mér að benda hv. þingmanni og Sjálfstæðisflokknum í heild á að mjög brýnt væri að gera eina kerfisbreytingu í heilbrigðisþjónustunni og mér finnst ekki hafa náðst nógu mikill stuðningur um þá breytingu hjá Sjálfstæðisflokknum miðað við stuðning annarra flokka við það mál, og það er að koma á valfrjálsu tilvísunarkerfi. Það er talsverð sóun á almannafé í heilbrigðiskerfinu þegar fólk getur farið eftir eigin sjúkdómsgreiningu, sem það er ekki fært um að gera, beint til sérfræðings.

Þannig er þetta ekki annars staðar á Norðurlöndunum. Fyrst sækir fólk á lægra stig þjónustunnar, fyrsta stigið er heilsugæslan eða heilsugæslulæknar og síðan fer það til sérfræðinga ef á þarf að halda en fer ekki beint til þeirra og ríkið er látið borga meira eða minna reikninginn eins og hér er gert. Það væri gott ef við næðum að forgangsraða þar betur með aðstoð Sjálfstæðisflokksins. Það tekur mikinn tíma að koma þessu kerfi í gagnið en það verður að byrja á því sem fyrst.

En þegar á heildina er litið vil ég bara segja að ég er jákvæð gagnvart þessu frumvarpi. Ég tel að nefndin hafi skoðað það nokkuð ítarlega á síðasta þingi og okkur sé ekki mikið að vanbúnaði að afgreiða það. Við gætum alveg klárað það að mínu mati á nokkuð skömmum tíma og ég lýsi mig jákvæða gagnvart því almennt séð. Ég tel að það sé jákvætt skref.



[17:51]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt. Það voru tilmæli frá einhverjum stjórnmálamönnum til fréttastofunnar um að þeir viti hvaðan fjárveitingarnar koma. Fyrsta spurningin er hvort það séu þarna einhver bein tengsl og hvort þau helgist þá af eignarhaldi RÚV. Síðan er önnur spurning hvort aðrir peningar fari í að kaupa heilbrigðisþjónustu eða renni til RÚV.



[17:51]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég var að segja hér um tengsl á milli forustu RÚV og þingsins kom fram í nefndinni, að það hefðu verið samtöl þar á milli í tengslum við erfitt mál sem ég veit ekkert hvað var þar sem forusta RÚV gat ekki skilið samtalið öðruvísi en svo að ef fréttaflutningur yrði erfiður um málið gæti það haft áhrif á fjárveitingar til RÚV. Það kom fram í nefndinni þegar við vorum að fara yfir þetta mál á fyrri stigum.

Varðandi fjármagn sem fer til heilbrigðismála og til annarra mála hjá ríkinu erum við auðvitað ekki almennt með markaða tekjustofna, en við viljum gjarnan í þessu tilviki vera með markaðan tekjustofn til RÚV vegna þess að við teljum að þá sé það sjálfstæðara. Hins vegar er alveg rétt sem stendur í umsögn fjármálaráðuneytisins að það er ekki fullur aðskilnaður. Þá er spurning: Á að ganga lengra í því með einhverjum hætti, er það hægt? Ég get ekki svarað því. Alla vega er ég tilbúin til þess að skoða þetta ákvæði eins og það liggur fyrir núna og mundi samþykkja að útvarpsgjaldið rynni til RÚV.



[17:53]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þetta er frumvarp sem við fjölluðum ítarlega um í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi og ég fagna því sérstaklega hve vel hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra tekur í þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar lagði til í nefndaráliti sínu á þeim tíma. Nefndin fjallaði ítarlega um málið og gerði allmargar tillögur til breytinga sem hafa verið teknar inn í það frumvarp sem hér er lagt fram.

Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins og hefur sérstöku hlutverki að gegna varðandi lýðræðishlutverkið, óháða fréttaumfjöllun, miðlun íslenskrar menningar af fjölbreytilegu tagi og forustu á sviði innlendrar dagskrárgerðar. Þetta hlutverk hefur alltaf verið fyrir hendi en það má færa rök fyrir því að lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins sé þýðingarmeira fyrir íslenskt samfélag núna en nokkru sinni eftir hrun. Við þurfum ekki að gera annað en að líta til nýlegs dæmis um umfjöllun Kastljóss um bókhaldskerfi ríkisins og aðkomu Ríkisendurskoðunar að því máli til að sannfærast um það hve mikilvæg þessi stofnun er fyrir aðhald að stjórnvöldum og fyrir umfjöllun um mikilvæg samfélagsmál á hverjum tíma.

Það er mín skoðun að meginverkefni löggjafans, þegar kemur að fjölmiðlamarkaðnum og Ríkisútvarpinu, sé að tryggja fjölræði og fjölbreytni á þessum markaði. Það krefst þess að við tökum mjög alvarlega það hlutverk að standa vörð um Ríkisútvarpið en sömuleiðis að tryggja gott jafnvægi á þessum markaði, þ.e. milli Ríkisútvarpsins annars vegar og annarra fjölmiðla hins vegar, og að freista þess að tryggja að Ríkisútvarpið sé á hverjum tíma í sinni fréttaumfjöllun og dagskrárgerð óháð allri pólitískri íhlutun stjórnvalda. Á þeim grunni er ég sammála hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um það grundvallaratriði að við þurfum að standa vörð um fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins á hverjum tíma. Ég tel að það sé engin tilviljun að frændur okkar annars staðar á Norðurlöndum hafa farið þá leið að vera með sérstakan markaðan tekjustofn sem er settur upp til þess að tryggja að ekki sé hægt með einföldum ákvörðunum í fjárlögum hvers árs að vega að sjálfstæði stofnunarinnar.

Ég vil hins vegar nefna það í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram að auðvitað má finna því stað að upp hafi komið tilvik sem eru sérkennileg. Gefum okkur til dæmis það að í ljósi batnandi efnahagsástands aukist verulega skil einstaklinga á útvarpsgjaldinu þannig að skyndilega komi verulega auknar fjárhæðir við innheimtu útvarpsgjaldsins sem renni þá beint til Ríkisútvarpsins og standi ekki í neinum tengslum við fjárþörf þess til að sinna almannaþjónustuhlutverki sínu. Þetta er atriði sem við ræddum nokkuð í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi og settum inn í nefndarálit okkar að það væri eðlilegt að líta til þess hvort setja þyrfti inn einhvers konar sveiflujafnara til að koma í veg fyrir mjög verulegt frávik til hækkunar eða lækkunar vegna ytri áhrifa sem tengjast ekki beint starfsemi Ríkisútvarpsins eða fjárþörf þess til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Þetta er ákveðið jafnvægi sem ég tel eðlilegt að nefndin fari betur yfir um leið og ég dreg ekkert úr því að við verðum fyrst og fremst að standa vörð um efnahagslegt og fjárhagslegt sjálfstæði þessarar mikilvægu stofnunar.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur farið vel yfir einstök atriði frumvarpsins og ekki er þörf á að endurtaka þau. Ég vil þó hnykkja á örfáum atriðum í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar sem eru nú í frumvarpinu. Þar má nefna að við hnykkjum á því í tengslum við 6. gr. frumvarpsins að inn komi sérstakur nýr málsliður sem fjalli um og geri ráð fyrir því að í þjónustusamningi ráðherra við Ríkisútvarpið sé kveðið á um það hvernig megi tryggja best aðgengi og þjónustu við þá sem búa við fötlun eða eru af öðrum ástæðum ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ég held að þetta sé afar mikilvægt atriði til að tryggja að allir landsmenn geti raunverulega notið þeirrar mikilvægu dagskrár sem Ríkisútvarpið býður upp á.

Í samhengi við það sem ég nefndi fyrr í ræðu minni um jafnvægið sem þarf að vera á milli Ríkisútvarpsins annars vegar og einkaaðila á fjölmiðlamarkaði hins vegar þá tók meiri hluti nefndarinnar stærra skref en lagt var upp með í upphaflegu frumvarpi í þá átt að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði með því að leggja til að Ríkisútvarpinu væri óheimilt að afla tekna með kostun. Þetta hefur verið þyrnir í augum margra í gegnum árin, þessi aukna kostun í Ríkisútvarpinu á dagskrárefni, og ég held að þarna sé mikilvægt skref stigið í þá átt að takmarka það verulega. Nokkurra undanþágutilvika er getið í greinargerð frumvarpsins, svo sem þegar um alþjóðlega stórviðburði er að ræða eins og Ólympíuleika, heimsmeistaramót í knattspyrnu og handknattleik o.s.frv., en meginreglan er skýr.

Hnykkt er á því að í tengslum við stjórnarfyrirkomulagið eigi stjórn Ríkisútvarpsins að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma og afar mikilvægt atriði er breytingartillaga við 12. gr. um að útvarpsstjóri skuli hafa samráð við starfsmenn og samtök starfsmanna Ríkisútvarpsins varðandi starfsreglur sem eru settar fréttamönnum og dagskrárgerðarmönnum Ríkisútvarpsins svo og skilyrði áminningar og starfsloka.

Ég læt þetta duga af þeim áhersluatriðum sem komu fram í vinnu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á sl. þingi. Ég tek undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hér áðan þess efnis að nefndin hafi farið allítarlega yfir frumvarpið og hægt sé að byggja mjög á þeirri vinnu í framhaldinu. Ef vilji er fyrir hendi ætti að vera hægt að klára frumvarpið á þessu hausti.



[18:01]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að taka undir eitt og annað sem kom fram í máli hv. þm. Skúla Helgasonar. Það er rétt að draga það fram að frumvarpið tók, að mínu mati, jákvæðum framförum í meðförum nefndarinnar. Ég verð þó að benda á að mælt var fyrir frumvarpinu í apríl en það var lagt fram í lok mars. Nefndin sendi það út til umsagnar 2. maí. Umsagnarfresturinn var óvenjuskammur miðað við svona stór heildarlög, hann var vika. Það átti greinilega að keyra þetta mál í gegn. En eins og við þekkjum var málið afgreitt af hálfu nefndarinnar og ég tel að við þurfum að fara betur yfir ákveðna þætti sem við fengum ekki tækifæri til að gera í vor. Það er önnur saga. Ég ætla ekki að fara að hóta miklum málalengingum, ég vil bara fá tækifæri til að fjalla um málið og ég held að það sé réttmæt krafa.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um dreifileiðir Ríkisútvarpsins. Menn hafa verið að benda á að Ríkisútvarpið er án nokkurs kostnaðar að senda út efni á dreifileiðum sem einkaaðilar á markaði sinna. Ríkisútvarpið fær það ókeypis í raun. Það eru einkaaðilar á markaði sem sjá um að sinna þessum flutningi á dreifileiðum fyrir hönd Ríkisútvarpsins. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji það réttmætt og hvort þetta geti hugsanlega raskað samkeppnisstöðu Ríkisútvarpsins.

Ég vil gjarnan fá viðhorf hans til breytinga sem tengjast fjölmiðlanefnd, hvort hann styðji það, sem mér sýnist enn inni, að gert sé ráð fyrir viðbótarstarfsmanni við fjölmiðlanefnd vegna eftirlits út af þessu nýja frumvarpi. Það kom alveg skýrt fram í máli forstöðumanns fjölmiðlanefndar, Elfu Ýr Gylfadóttur, að hún teldi að frumvarpið þýði aukin verkefni fyrir fjölmiðlanefnd. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji það rétt og hvort hann styðji það.

Ég mun geyma þriðju spurninguna til hv. þingmanns þar til ég kem í seinna andsvar.



[18:03]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessar fyrirspurnir. Það er rétt að við ræddum talsvert um dreifileiðirnar og dreifikerfið og þá uppbyggingu sem fram undan er á stafrænni þjónustu Ríkisútvarpsins í nefndinni í vor. Ég get staðfest að ég er þeirrar skoðunar að við eigum fyrst og fremst að horfa til þess hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi milli Ríkisútvarpsins og einkaaðila á markaðnum um samnýtingu á dreifikerfi fyrir landið allt í stað þess að dreifikerfi hjá Ríkisútvarpinu annars vegar og hins vegar þeim einkaaðilum sem eru á markaðnum verði byggt upp hlið við hlið. Ég held að það eigi að vera leiðarljósið í þessari vinnu og auðvitað er eðlilegt að skoða hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á því að Ríkisútvarpið geti nýtt sér það dreifikerfi sem einkaaðilar eru með án þess að greiða fyrir það. Mér finnst það vera ákveðið sanngirnismál sem þurfi að líta á opnum huga.

Varðandi fjölmiðlanefndina tel ég mjög mikilvægt að slíkur aðili sé til, og fjölmiðlanefndin er augljós valkostur í þeim efnum, sem hafi eftirlit með því að Ríkisútvarpið sé raunverulega að sinna almannaþjónustuhlutverkinu með sóma og í samræmi við löggjöfina. Ég styð það upplegg sem kemur fram í þessu frumvarpi hvað þetta varðar og tel reyndar að það sé ákveðinn ljóður á okkar ráði, og hafi kannski verið allt of lengi, að við erum dugleg við að setja nýja starfsemi á fót en ekki endilega sérstaklega dugleg við að fylgja því eftir að árangurinn sé í samræmi við fyrirheitin í upphafi. Ég gæti nefnt óþægilega mörg dæmi um það.



[18:05]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir einlæg og heiðarleg svör. Ég er honum sammála varðandi dreifileiðirnar sem eru í raun risastórt mál. Þetta er gríðarlega stórt mál sem við eigum eftir að fara betur yfir og þá hvernig fyrirkomulaginu verður háttað. Er það svo til dæmis að stór hluti af nefsköttunum eigi að fara í uppbyggingu á alveg sjálfstæðu dreifikerfi sem er þá ríkisrekið við hliðinu á hinu einkarekna? Ég held að þetta séu þættir sem við þurfum að fara betur yfir í meðförum nefndarinnar. Ég fagna því að menn séu alla vega reiðubúnir til að fara aðrar leiðir, og sjáum hvað setur hvað það varðar.

Það er ekkert launungarmál að ég var andsnúin fjölmiðlastofunni sem slíkri en þegar ég var ráðherra var oft þrýst á mig að koma fram með hana. Ef við hefðum átt að auka eftirlit með fjölmiðlum þá hefðum við getað gert það á öðrum forsendum eins og í gegnum Samkeppnisstofnun og farið aðrar leiðir í stað þess að setja á laggirnar nýja ríkisstofnun.

Eftir stendur að það sem skiptir mestu máli, hvort sem það er í gegnum fjölmiðlastofu eða Samkeppnisstofnun, er eftirlitið og þá sérstaklega með þeim þætti sem snertir samkeppni af hálfu RÚV gagnvart einkaaðilum. Það verður að fara að taka til hendinni og hefði mátt gera það fyrr. Ég ætla ekki að draga dul á það. Ég hefði gjarnan viljað sjá það fyrr, meðal annars þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórnvölinn.

Ég velti fyrir mér, og þá er ég komin að síðustu spurningunni, því sem varðar kostunina. Það er ljóst að skoðanir voru skiptar í nefndinni, bæði innan meiri hluta og minni hluta. Er hv. þingmaður á því að þessar undanþágur séu nægilega skýrar þannig að menn fari ekki út í það að kosta allt og allt. Í því sambandi spyr ég: Sér hv. þingmaður fram á að allir landsleikir Íslands í handbolta eða í fótbolta verði kostaðir? Sér hann fram á það, af því að hann nefndi ólympíuleika og heimsmeistarakeppni, ef við snúum okkur að menningarviðburðunum, að stórviðburður eins og það þegar Kristinn Sigmundsson, helsti barítónsöngvari heims, syngur í Metrópólitanóperunni, verði sýndur í beinni útsendingu? Er það dæmi um viðburð sem verður kostaður? Hvar liggja mörkin? Ég er svo hrædd um að menn sjái ekki fyrir hvar mörkin liggja og að Ríkisútvarpinu verði gefnar frjálsar hendur. Þess vegna tel ég best að kostun verði algjörlega bönnuð.



[18:08]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar varðandi kostunina. Ég skal játa að ég hef verið hugsi yfir því sama atriði, hvort undanþáguheimildin sé nægilega skýr eða hvort hún gefi of mikil færi til að víkja frá meginreglunni um að kostun sé óheimil. Ég held að þetta sé hlutur sem við eigum að gefa okkur tíma til að fara betur yfir í nefndinni. Við eigum auðvitað að standa þannig að löggjöfinni, hvort sem er í þessu máli eða öðrum, að þau ákvæði sem við erum að leggja af stað með, sérstaklega ef um er að ræða takmarkanir eða bann af þessu tagi, haldi og við séum ekki með neina sýndarmennsku í þeim efnum.

Nefnd eru þessi skýru dæmi um alþjóðlega stórviðburði. Það sem lýtur að innlendu dagskrárgerðinni er hins vegar síður útfært og það mundi vera það sem ég teldi ástæðu til að skoða betur í nefndinni. Er þörf fyrir að vera með þessa sérstöku heimild varðandi innlendu dagskrárgerðina sem þar kemur fram? Eða er hægt að ná sömu áhrifum með því að beina einfaldlega þeim auglýsingatekjum sem þar væru á ferðinni inn í hina hefðbundnu auglýsingatíma? Ég lýsi mig reiðubúinn til að skoða málið út frá þeim forsendum í nefndinni og tel rétt að við gerum það.



[18:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann að því sama og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom að hér áðan um peninga hér og peninga þar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði fastar, þ.e. ákveðið nefgjald á alla Íslendinga sem er náttúrlega mjög ófélagslegt og slæmt en er ákveðið og undir engum áhrifum frá fjárlaganefnd eða fjárveitingavaldi Alþingis. Telur hv. þingmaður eðlilegt að gera þetta á sama tíma og verið er að skera niður út um allt? Það vantar tæki á Landspítalann, það vantar í löggæsluna og það vantar alls staðar pening og alls staðar er verið að skera niður, en þá á Ríkisútvarpið að fá sína peninga á silfurfati og þarf ekkert að hugsa um samdrátt eða eitthvað slíkt. Ég spyr hvort þeir peningar séu þá ekki teknir frá hinum. Það er eitthvað takmarkað sem hægt er að lesta skattgreiðendur í landinu.

Síðan er spurningin um hitt sem kom fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, reyndar ekki beint. Er það ekki útópía að halda að einhver fyrirtæki geti verið óháð? Er það ekki alltaf einhver sem greiðir laun fréttamannsins? Og hann veit hver greiðir launin hans, hver ákvarðar fjárveitinguna. Getur það annað en litað afstöðu þess fréttamanns þegar hann fjallar um viðkvæm mál sem snerta til dæmis fjármálaráðherra eða fjárlaganefnd eða eitthvað slíkt þegar hann veit þetta? Og er það ekki líka öfugt? Gætu þingmenn eða ráðherrar, sem eru í þeirri aðstöðu að geta skammtað fé til Fréttastofunnar, ekki gefið í skyn að þeir muni hugsanlega skerða fjárveitingar ef fréttaflutningur er þeim ekki að skapi?



[18:12]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans fyrirspurn. Hún kemur inn á svið sem hefur verið talsvert rætt í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi vil ég segja að ég er á því að stíga þurfi ákveðið skref til að freista þess að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og það er ekki hjól sem er verið að finna upp hér á Íslandi heldur sú leið sem Norðurlandaþjóðirnar hafa verið að fara. Þær eru að komast að þeirri niðurstöðu að það sé farsælasta leiðin sem í boði er.

Ég nefndi það hins vegar í ræðu minni, og ég tel bara að við eigum að viðurkenna það, að annmarkar kunni að vera á þessari leið, sérstaklega eins og ég nefndi ef efnahagslífið er að taka verulega við sér. Við sjáum að innheimtur á útvarpsgjaldinu aukast. Þær voru á síðasta ári innan við 70%. Segjum að þær fari upp í 85 eða 90%, þá hækka skyndilega þær tekjur sem renna til Ríkisútvarpsins verulega að óbreyttu. Það kann að vera sérkennilegt í ástandi þar sem ekkert hefur breyst í starfsemi Ríkisútvarpsins og fjárþörf þess til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar um almannaþjónustu eru kannski óbreyttar. Það var á þeim forsendum sem við ræddum það í meiri hluta nefndarinnar, og settum inn í okkar nefndarálit í vor, að hugsanlega þyrfti að setja þarna inn ákveðinn sveiflujafnara til að tryggja að ekki séu óeðlilegar sveiflur í tekjum til stofnunarinnar til hækkunar eða lækkunar vegna ytri aðstæðna sem tengjast ekkert rekstrinum.

Það er mitt svar. Ég tel að við verðum að reyna að tryggja að ekki sé með einfaldri ákvörðun hér á þinginu hægt að hafa óeðlileg afskipti af fjárhag stofnunarinnar, til dæmis ef meiri hlutanum líkar ekki fréttaumfjöllun Ríkisútvarpsins. Ég tel að meginreglan eigi að vera sú að virða fjárhagslegt sjálfstæði en skoða hugsanlegan sveiflujafnara í útfærslu.



[18:14]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði eiginlega hvorugri spurningunni hvort eðlilegt sé að veita stóraukið fé til Ríkisútvarpsins á sama tíma og það vantar tæki og verið er að segja upp fólki og láta fólk vinna meira á sjúkrastofnunum landsins, lögreglunni og mjög víða annars staðar, hvort þetta sé rétti tíminn til að fara út í að gusa út peningum.

Hv. þingmaður svaraði heldur ekki spurningunni um það hvort fólk getur fræðilega séð nokkurn tíma verið óháð þeim sem skammtar því peninga og salt í grautinn.



[18:15]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það hvort þetta sé rétti tíminn er rétt að svara því til að það ákvæði um markaða tekjustofna kemur reyndar ekki til framkvæmda strax, það kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2014. Það mun því ekki verða þannig að verið sé að taka peninga núna sem við gætum verið nota til tækjakaupa á Landspítalanum á næsta ári og láta þá renna til Ríkisútvarpsins.

Önnur spurningin: Er fræðilega séð nokkurn tíma hægt að fullyrða það að menn séu algerlega óháðir fjárveitingavaldinu? Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni að segja já við því. Ég held að það sé því miður þannig að við getum alltaf fundið einhver tilvik sem ganga gegn meginreglunni en þetta er a.m.k. viðleitni til að skera á þau tengsl. Það er gert bæði með þessu ákvæði um markaðan tekjustofn sem renni þá að fullu til útvarpsins ólíkt því sem verið hefur og í öðru lagi með því að skorið er á það að flokkarnir á þingi skipi sína fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er veruleg breyting, sem við höfum reyndar lítið sem ekkert rætt í umræðunni í dag, sem ég tel hins vegar að sé mjög til bóta.

Nú verður fyrirkomulagið með þeim hætti að allsherjar- og menntamálanefnd skipar þrjá fulltrúa í valnefnd sem síðan velur stjórnina saman og þar með er búið að auka þá fjarlægð á milli hins pólitíska valds og stjórnar útvarpsins.



[18:17]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið enn einu sinni og það er ekkert að því, svo það sé strax sagt, að menn séu með lög, eins og um Ríkisútvarpið, stöðugt til endurskoðunar ef menn hafa það að markmiði að reyna að skýra og skerpa hlutverk þess, átta sig á hvert markmiðið er að hafa það sem stofnun í samfélaginu o.s.frv.

Ég vil byrja á að fagna því sem var rifist um mest á sínum tíma, þ.e. formbreytingin yfir í opinbert hlutafélag, að vinstri flokkarnir sem sett hafa á langar ræður nótt eftir nótt, ár eftir ár, leggja ekki til að frá því fyrirkomulagi verði horfið og það var nú reyndar langstærsta umræðan, frú forseti, á sínum tíma. Ég held að það sé rétt sem fram hefur komið í máli ekki síst stjórnarliða að Ríkisútvarpið er betur rekið en áður hefur verið. Það er jákvætt að Ríkisútvarpið hefur skilað á umliðnum árum jákvæðum rekstrarafgangi og því má auðvitað fagna sem vel er gert og klappa þeim á bakið sem forustu og ábyrgð hefur í því máli, það er Páll Magnússon. Hins vegar er ekki þar með sagt að við séum gagnrýnislaus á þá starfsemi sem á sér stað innan Ríkisútvarpsins. Ég hef iðulega í gegnum tíðina verið mjög gagnrýnin á Ríkisútvarpið. Mér finnst hlutverk þess orðið mjög umfangsmikið. Það er líka rétt að draga það fram að við innan Sjálfstæðisflokksins — oft er talað um að það sé bara eitt mál innan flokksins sem er deiluefni, þ.e. Evrópusambandið og umsóknarferlið varðandi það, það er ekki rétt. Hægt er að tala um landbúnaðarmál, tollamál og síðan er hægt að tala um Ríkisútvarpið sem hefur oft og tíðum verið mjög skemmtilegt umræðuefni á hinum ýmsu fundum innan flokksins sem utan. Það áhugaverða er að fólk hefur ákveðnar skoðanir og hefur haft ákveðna skoðun á Ríkisútvarpinu í gegnum tíðina, það er fínt og það er vel.

Varðandi þetta frumvarp vil ég draga fram að ég tel að það hafi verið heillaspor að breyta því í opinbert hlutafélag, eins og Norðmenn og Svíar gerðu á sínum tíma, ekki síst með tilliti til þess að lögin til að mynda um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafa ekki verið endurskoðuð, ekki að neinu marki og ljóst er að núverandi ríkisstjórn mun heldur ekki fara í endurskoðun á þeim lögum. Það var líka lykillinn að því og ein ástæðan fyrir því að menn fóru í formbreytingar á sínum tíma.

Fyrst ráðherra er hér í salnum hefði ég kosið og það hefði verið áhugavert varðandi formið á frumvarpinu sem slíku, því að ekki átta sig allir á mikilvægi samningsins sem gerður er sem þjónustusamningur við Ríkisútvarpið, að hann hefði verið sem fylgiskjal með frumvarpinu. Í þjónustusamningnum, sem ég veit að núverandi ráðherra hefur líka beitt sér fyrir að taki ákveðnum breytingum, markast mjög ákveðið hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég hef gagnrýnt það í þessu frumvarpi að mér finnst hlutverk Ríkisútvarpsins vera gríðarlega víðtækt. Vissulega erum við að setja ákveðnar skuldbindingar og ákveðna ábyrgð á herðar Ríkisútvarpinu en eftir stendur að Ríkisútvarpið getur spilað frítt spil á fjölmiðlamarkaði að mínu mati eftir þetta frumvarp og getur tekið sér nánast hvað sem er fyrir hendur.

Hlutverk þjónustusamningsins var einmitt — það má kannski segja að það sé ákveðin reglugerð, þ.e. þjónustusamningurinn, að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins og reyna að forgangsraða. Menn hafa til dæmis talað um norrænt efni. Tekin var fram sérstök prósentutala um norrænt efni og hefði verið hægt að hækka hana. Ákveðnir skýrir rammar voru settir fram um barnaefnið, auglýsingar í kringum barnaefni o.s.frv. Mér hefur alltaf þótt þjónustusamningurinn vera merkilegt tæki og merkileg tilraun til að skerpa enn frekar á hlutverki Ríkisútvarpsins og það er tæki sem er kannski sveigjanlegra en að leggja fram frumvörp í sífellu um Ríkisútvarpið, bæði nú og á árum áður.

Þetta frumvarp er ákveðið svar við ESA, já, en ég held að miklu meira sé sett með frumvarpinu en tilefni er til. Má kannski segja að ferðin sé notuð í því tilefni og það nokkuð vel og ítarlega. Til dæmis er ekki krafa ESA um algera uppstokkun á stjórn Ríkisútvarpsins. Hér er sem betur fer farin mildari leið varðandi breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins. Ég þakka ráðherra fyrir það að hafa tekið tillit til meiri hluta allsherjarnefndar og til þeirrar tillögu sem þar er um aðild starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins, sem eiga nú aðild að stjórninni. Fulltrúi þeirra hefur málfrelsi og tillögurétt samkvæmt þeirri tillögu og þessu frumvarpi en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins. Fyrst verið er að hafa starfsmannasamtökin þarna inni þá er það þó betri leið en farin var með upphaflega frumvarpinu.

Ég velti enn fyrir mér hlutverki valnefndarinnar. Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Við tilnefningu á fulltrúum í stjórn skal valnefnd hafa hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé m.a. þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja.“

Er það rétt skilið hjá mér með tilliti til þess sem stendur í 10. gr. frumvarpsins að við séum að víkka verulega út starfssvið stjórnarinnar, að við séum að fara úr því að hafa hana sem hreina og klára rekstrarstjórn, eins og hún hefur verið á umliðnum árum, í það að hún muni fara að skipta sér meira af dagskrá Ríkisútvarpsins en gert var?

Ein af ástæðunum líka fyrir breytingunum á sínum tíma var að klippa á það að stjórn og þá pólitískt vald væri með puttana í dagskrá og dagskrárvaldi Ríkisútvarpsins. Er verið að breyta því? Mér er spurn og væri ágætt að fá svar við því frá ráðherra á eftir.

Ég velti því líka fyrir mér með tilliti til þess sem kemur fram í 3. gr. að lögð er mikil áhersla á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, talað er um þjónustu í almannaþágu og annað. Og með tilliti til almannaöryggis og hugsanlegrar hættu hefði þá ekki verið lag að skoða í valnefnd reynslu manna af almannavörnum, af öryggismálum? Hefði ekki verið rétt að hafa einn slíkan fulltrúa í slíkri valnefnd en ekki eingöngu frá Bandalagi íslenskra listamanna, eins og ávallt er, sem hefur reynslu af nýjum miðlum og fjölmiðlum? Hefði ekki verið rétt — í ljósi hlutverks Ríkisútvarpsins sem stendur ekki bara fyrir menningarhlutverki, það á að gera það, hér er verið að ýta enn frekar undir það sem er fagnaðarefni — að setja inn í valnefndina fólk sem hefur þekkingu á almannavörnum ef við eigum að ýta undir almannavarnahlutverk Ríkisútvarpsins og undirstrika það? Þetta er það sem ég vil velta upp og við munum eflaust fara yfir það í meðförum nefndarinnar.

Það hefur verið talað nokkuð mikið um útvarpsgjaldið. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð eins langa umsögn um frumvarp frá fjárlagaskrifstofunni og þessa. Hún hefur lengst ef eitthvað er frá síðustu framlagningu. Það eru greinilega einhverjir hnökrar á samskiptum og skoðunum milli ráðuneyta. Það er svo sem ekkert nýtt en það er greinilegt að sumarið og haustið hefur ekki verið notað til að reyna að setja niður þá deilu milli menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis um það hvernig fyrirkomulagið á að vera á útvarpsgjaldinu og hvert það á að renna, hvað þá að haft hafi verið samband við fjárlaganefnd þingsins í millitíðinni. Ég held að þetta hljóti að vekja menn til ákveðinnar umhugsunar.

Varðandi síðan fyrirkomulagið sem slíkt undirstrikar það kannski að við erum ekki alltaf sammála innan stjórnar og innan stjórnarandstöðu. Ég hlustaði með athygli á það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hafði fram að færa og hann er ötull liðsmaður okkar í fjárlaganefnd. Hann kom með mjög skýra punkta varðandi það hvert útvarpsgjaldið á að renna, sjónarmið sem mér fannst þess virði að hlusta á. Af hverjum þurfum við að hafa svona afmarkaðan fjárlagalið sem útvarpsgjaldið er og láta það renna eingöngu til Ríkisútvarpsins meðan við erum í þinginu að láta fjárlagaliði sem eru ákveðnir af fjárlaganefnd og síðan þinginu renna beint til stofnana sem við viljum að séu óháðar og sjálfstæðar frá þinginu eins og dómstólarnir, hvort sem væri um að ræða Hæstarétt, héraðsdómara, lögregluna o.s.frv.? Mér fannst hann setja fram mjög sterk sjónarmið hvað það varðar þó að ég hafi í gegnum tíðina verið frekar hlynnt því sem hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt, að reyna að hafa tekjustofninn afmarkaðan og hann renni þá beint til Ríkisútvarpsins. Af hverju hef ég frekar verið hlynnt þeirri nálgun en því sem fjárlaganefndarmenn hafa sett fram? Það er meðal annars vegna reynslunnar í öðrum löndum, t.d. í Noregi. Þar er þetta fyrirkomulag með þeim hætti. Við litum til Noregs þegar kom að opinberu hlutafélagi. Ég held að ekki sé óeðlilegt að við lítum til annarra landa líka hvað þetta varðar. Það sama gildir með Finnland. Mér skilst að verið að sé breyta úr því að þetta renni til ríkisins og síðan verði úthlutað, það er verið að hverfa frá því fyrirkomulagi í Finnlandi. Ég held að við eigum að líta til reynslu annarra þjóða hvað þetta varðar. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að hægt sé að marka þetta Ríkisútvarpinu en þó með því fororði og þeim fyrirvara að það útvarpsgjald sem um ræðir núna er allt of hátt. Ég hefði viljað undirstrika meginsjónarmiðin varðandi Ríkisútvarpið, ég vil hafa Ríkisútvarp en ég vil hafa hlutverk þess mjög skýrt og afmarkað og það sé ekki jafnumfangsmikið á markaði eins og það er í dag.

Þess vegna hefði ég viljað sjá samhliða þessu hlutverkið skýrara, skarpara og bein tillaga hefði verið um það fyrst verið er að tala um að útvarpsgjaldið eigi að renna beint til Ríkisútvarpsins, það hefði einfaldlega verið hrein og klár tillaga til lækkunar í þessu frumvarpi og þá samhliða í fjárlagafrumvarpinu. Það er hins vegar ekki gert. Ég er því ekki alveg fullkomlega sátt við þá leið sem hæstv. menntamálaráðherra er að fara þó að ég sýni aðferðafræðinni skilning.

Varðandi auglýsingarnar — tíminn líður hratt á gervihnattaöld, sé ég — þá finnst mér tækifærin ekki vera notuð núna. Kannski hafa þau heldur ekki verið notuð í gegnum tíðina, það er rétt að undirstrika það. Skoðun mín hefur verið sú, líka þegar ég var í ríkisstjórn en fékk ekki stuðning við það hjá samstarfsflokki mínum og jafnvel ekki innan þingflokksins heldur, að það hefði átt að takmarka Ríkisútvarpið verulega á auglýsingamarkaði og banna kostun. Ég heyri það hins vegar núna að menn eru meira að ljá máls á því að reyna að banna kostun, ekki bara í gegnum þær undanþágur sem eru í frumvarpinu heldur að menn verði að fara vel yfir sviðið því að eins mikilvægt og það er að hafa Ríkisútvarp, þá er líka mikilvægt að hér þrífist frjálsir fjölmiðlar. Frjálsir fjölmiðlar þrífast ekki á neinu nema auglýsingatekjum og kostun. Þá getum við ekki leyft okkur að fara þá leið sem hæstv. ráðherra er að fara í frumvarpinu. Ég get ekki séð að menn séu að gera það að neinu marki, menn eru að setja Ríkisútvarpið langt undir það þak sem er verið að setja þannig að það ógnar ekki Ríkisútvarpinu. Það þarf ekkert að draga saman seglin að vera með svona stórt og mikið Ríkisútvarp um leið og við ætlumst til þess að hafa fjölbreytta flóru í fjölmiðlum. Það kemur einfaldlega ekki heim og saman ef við höfum metnað til hvors tveggja.

Það er margt athyglisvert í frumvarpinu, það er ekki allt vont, síður en svo, það er alls ekki þannig, en engu að síður eru mörg viðvörunarmerki sem við verðum að hlusta á, viðvörunarmerki sem segja mér að Ríkisútvarpið er enn þá og verður í gegnum þetta frumvarp allt of stórt. Það verður á kostnað frjálsrar fjölmiðlunar og ekki síst þeirra sem eru að hasla sér völl, ekki í gegnum útvarpsbylgjur heldur í gegnum vefinn og vefmiðlana. Þó að verið sé að banna kostun á veraldarvefnum sjáum við alls konar undanþágur sem munu stuðla að því að þeir frjálsu miðlar sem sækja í sig veðrið á netinu munu eiga undir högg að sækja.

Þess vegna þurfum við að fara vel yfir málið í nefndinni nú sem áður, gefa okkur tíma til að fá álit þeirra mörgu aðila sem starfa á markaði og annarra þannig að við getum skilað af okkur góðri afurð sem verður til þess að við höfum gott Ríkisútvarp með skýrt hlutverk en um leið fjölbreytta flóru á fjölmiðlamarkaði.



[18:33]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að kvarta undan því eins og áður að nefndarmenn í hv. nefnd sem fær þetta mál til umsagnar eru ekki viðstaddir umræðuna. Ég hef margoft bent á að það eru níu nefndarmenn í þeirri nefnd sem fær málið til umsagnar. Það er skylda í lögum að þingmenn sæki þingfundi en mér finnst það líka vera sérstök skylda nefndarmanna að hlýða á umræður til að geta flutt umræðuna inn í nefndina. Það er dálítið ankannalegt þegar búið er að ræða mál í þingsal þar sem komið hafa fram ýmis sjónarmið að þau sjónarmið koma oft og tíðum alls ekki fram í umræðum nefndar eða í nefndaráliti. Ég skora því á frú forseta að taka það upp í forsætisnefnd og ræða hvort ekki ætti að herða á því að þingmenn sem sæti eiga í nefndum sæki þá fundi þar sem rætt er um þau mál sem vísað er til viðkomandi nefnda.

Ég ætla að byrja á því að ræða um ohf. Í hlutafélagalögunum stendur:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, á að öllu leyti, beint eða óbeint.“

Öll hlutafélög sem ríkið á beint eða óbeint eru ohf. en ekki hefur verið farið eftir því, frú forseti. Bankarnir sem voru stofnaðir eftir hrun og voru alfarið í eigu ríkisins voru ekki ohf. Þingmenn og aðrir gátu ekki sótt aðalfundi þeirra félaga. Hér er þetta kallað ohf. í einni grein en þá vantar tilvísun í þessa sömu grein:

„Slíkum félögum einum er rétt og skylt að hafa orðin opinbert hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina ohf. og má tengja orðin eða skammstöfunina heiti eða skammstöfun á hlutafélagi.“

Það þýðir að samkvæmt hlutafélagalögum á alls staðar að standa Ríkisútvarpið ohf. Það er skilningur minn og ég vildi gjarnan að hv. nefnd sem fær málið til umsagnar fjalli um það. Nú eru tveir nefndarmenn viðstaddir þannig að þeir gauka því kannski að félögum sínum í nefndinni sem ekki eru mættir, sjö hv. þingmenn eru ekki mættir á þennan fund.

Svo er einn óvirkur aðili í stjórninni. Það skulu vera sjö manns í stjórn og einn þeirra er óvirkur, þ.e. hann hefur ekki atkvæðisrétt. Ég legg til að nefndin skoði hlutafélagalögin og kanni hvort það sé heimilt og hvort ekki sé betra að valnefndin, sú góða nefnd sem stjórnmálamennirnir kjósa — og það er ekkert sem segir að þeir skuli ekki sjálfir kosnir í stjórn, þeir meta sjálfa sig mjög hæfa og allt slíkt — kjósi sex manns í stjórn og síðan hafi starfsmenn áheyrnarfulltrúa í stjórn, ekki stjórnarmann heldur áheyrnarfulltrúa á stjórnarfundum. Það mætti orða það þannig. Þeir hafi málfrelsi, geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri en hafi ekki atkvæðisrétt og séu ekki yfir sjálfum sér, eins og ég benti á áður í andsvari.

Þetta var um stjórnskipunina.

Í lögunum stendur að valnefndin skuli tilnefna fimm manns til tveggja ára, með leyfi forseta:

„Áður en stjórn er kosin á aðalfundi skal hún tilnefnd til tveggja ára í senn …“

Getur maður ályktað út frá þessu að stjórnin sjálf sé kosin til tveggja ára? Er ekki rétt að taka það fram í lögunum að stjórnin sjálf sé kjörin til tveggja ára? Það er nefnilega ekkert í frumvarpinu sem segir hversu lengi stjórnin skuli vera kosin. Það er ekki boðlegt að hafa þannig lagasetningu að menn þurfi að draga ályktanir út frá því hvað valnefndin tilnefnir þá lengi. Ég dreg þá ályktun að það sé til tveggja ára, það getur vel verið að það sé til eins árs, ég veit það ekki.

Svo er það draumurinn um óhæði, eins og ég gat um áðan í andsvari. Auðvitað vita starfsmenn hlutafélaga alltaf hverjir skipa stjórn, þeir vita hverjir eiga félagið. Það vill svo til að í þessu tilfelli fara stjórnmálamenn með hlutverk eigandans. Þeir skipa stjórn, þeir ráða fjárveitingum og öllu slíku, þeir geta breytt lögum og ég veit ekki hvað. Einstakir fréttamenn vita þetta nákvæmlega. Þeir vita nákvæmlega hver borgar saltið í grautinn þeirra og þeir vita nákvæmlega hverjum þeir eiga að þóknast. Að láta sig dreyma um að fólk geti verið óháð í svona stöðu er bara draumur vinstri manna. Auðvitað er það ríkisvaldið sem ræður þessu alfarið og stjórnar þessu. Það setur lög, breytir lögum og ræður fjárveitingum alla vega til ársins 2014.

Það er eitt sem ég ætla að koma inn á, frú forseti, sem er mjög athyglisvert.

Hverjir skyldu ráða fram til 2014 eða alla vega fram að kosningum? Hverjir skyldu ráða fjárveitingum þangað til? Það er núverandi ríkisstjórn, hún skal hafa tangarhaldið. Svo óttast hún kannski að hún missi völdin og þá skal hið sjálfvirka kerfi koma inn til að skaffa, gera Ríkisútvarpið að einhverju leyti óháð eigandanum. Ég vona að það sé ekki sett upp kerfisbundið eða að það sé á bak við þetta en þetta er hluti af drauminum um óhæði. En ég er alveg sammála því að það gerir það að einhverju leyti óháðara fjárveitingavaldinu að gera þetta að ákveðnum mörkuðum tekjustofni. En það þarf að breyta þessari tölu, 18 þús. kr., á hverju ári, væntanlega í takt við verðbólgu og annað slíkt. Þar kemur svo aftur vald meiri hlutans sem segir: Nú ætlum við að hafa þetta 16 þús. kr. og vegna þess að fréttastofan fjallaði svo illa um hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um daginn. Eða: Við ætlum hafa þetta 50 þús. kr. á hvern íbúa vegna þess að það var svo velviljuð umfjöllun um mennta- og menningarmálaráðherra eða fjármálaráðherra, sem er enn þá betra, eða formann fjárlaganefndar. Það er vandinn í hnotskurn.

Svo er það spurningin um fjármálin yfirleitt og markaða tekjustofna. Á það er bent í umsögn fjármálaráðuneytisins að þetta eyðileggi í rauninni fjárveitingavald Alþingis nema náttúrlega 18 þúsund kallinn, það er hægt að hækka þá upphæð eða lækka árlega á Alþingi eftir þörfum og það verður væntanlega gert. Það þýðir að menn eru núna að negla niður ákveðna tölu í fjárveitingum til Ríkisútvarpsins. Ég veit ekki hvað fólkið á spítölunum segir við því. Ég veit ekki hvað þeir segja sem þurfa allt að því límbönd til að líma saman geislatækin á spítölunum af því að þau eru svo fjörgömul og hrörleg. Ég veit ekki hvað lögreglan segir við því sem þarf að sinna sífellt stærri og stærri svæðum o.s.frv. Ég veit ekki hvað allt velferðarkerfið segir við því þegar einn þáttur eins og Ríkisútvarpið fær svona markaða stofna. Getur ekki verið að það fari að koma upp vaxandi krafa um það til dæmis hjá heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu að þetta sé sett allt saman í markaða stofna, þ.e. að heilbrigðiskerfið fái til dæmis 2% af launum landsmanna? Ég veit ekki hvað það verður hátt en ég er viss um að það yrði dægilegt og þeim mundi líka það ágætlega. Þá þyrftu þeir ekki að standa í þessum leiðindaslag um peningana.

Vandi okkar er sá að við eigum bara ekki nógu mikið af peningum. Skatttekjur hafa lækkað, það er ekkert fjör í atvinnulífinu og litlar fjárfestingar, það er allt í stöðnun. Þess vegna eru mjög takmarkaðir fjármunir. Vinstri grænir mundu að sjálfsögðu segja: Það er náttúrlega hruninu og Sjálfstæðisflokknum að kenna, það er venjulega tuggan þeirra. En ég ætla sem sagt að benda á að það vantar pening á sama tíma og negla á niður útgjöldin til Ríkisútvarpsins.

Draumurinn um óhæði Ríkisútvarpsins og markmiðin sem fylgja í kjölfarið ollu því að ég lagði fram frumvarp árið 2004 um að selja Ríkisútvarpið. Ég held að það væri ágætislausn. Haft yrði útvarpsráð sem fengi fjárveitingar. Það mundi bjóða út fréttir, öryggisútsendingar og allt það sem þarf að gera, til almennra fjölmiðla. Þá mundi aldeilis myndast fjör á þeim markaði sem framleiðir efni fyrir fjölmiðlun, menn stæðu ekki í vonlausri samkeppni við Ríkisútvarpið sem fær alltaf sína peninga. Ég veit ekki hvernig fólki líður hjá þeim fjölmiðlum sem keppa við Ríkisútvarpið sem fær 3 milljarða sisvona áður en hinir byrja. Ég veit ekki hvernig fólki líður í slíkri samkeppni, hún er algerlega glötuð. Allt er þetta draumur um óháða fjölmiðlun og öll hin fögru orð um að menn gæti sjónarmiða minni hlutans o.s.frv. Ég verð að segja eins og er að ég er farinn að horfa miklu meira á erlenda miðla, mér er farinn að gefast kostur á því með netinu. Ég horfi á þýskt og að litlu leyti breskt sjónvarpsefni og ég fæ allt aðra sýn á heiminn, frú forseti. Ég sé bara heiminn í allt öðru ljósi, til dæmis vandamálin í Evrópusambandinu. Þau eru allt önnur og miklu alvarlegri í þýska sjónvarpinu en hinu íslenska.

Það má vel vera að þetta sé hverfandi vandamál vegna þess að netið muni taka yfir alla fjölmiðlun á ekki löngum tíma. Við getum horft á fjölmiðla um allan heim, lesið blöð og gert hvað sem er kostnaðarlaust. Ég þarf ekki að borga 18 þúsund kall þegar ég horfi á þýska sjónvarpið en því miður get ég ekki sloppið við að borga til þess íslenska. Þó að ég horfi ekkert á íslenska sjónvarpið þarf ég að borga engu að síður, það er bara nefskattur sem ég ber ágætlega en lágtekjufólkið illa. Hann er mjög þungur fyrir lágtekjufólkið.

Þetta er það sem ég vildi geta um í þessu sambandi. Það er mjög margt í frumvarpinu sem mér finnst áhugavert og tel að þyrfti að skoða. Sumt af því er gott. Markaðir tekjustofnar eru góðir ef við ætlum að reyna að halda okkur við að hafa útvarpið að einhverju leyti óháð stjórnmálamönnum, en það verður það aldrei vegna þess að á hverju ári þarf að breyta þessum 18 þús. kr. sem allir þurfa að borga óháð tekjum, gjöldum og eignum o.s.frv. Það er sem sagt mjög ófélagslegt og dálítið skemmtilegt að flokkar sem kenna sig við félagshyggju skuli leggja slíkt til og ekki breyta því.



[18:45]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er áhugasöm um að vita hvernig hv. þingmaður greiddi atkvæði á sínum tíma þegar hið ófélagslega útvarpsgjald var tekið upp 2007 og lögin um Ríkisútvarpið ohf. voru samþykkt, ég reikna með að hv. þm. geti svarað mér því. Ég er líka áhugasöm um að vita hvort það geti verið að þeir erlendu fjölmiðlar sem hv. þingmaður horfir á með hjálp nýjustu tækni séu almannaþjónustumiðlar í Bretlandi og Þýskalandi. Þeir eru væntanlega fjármagnaðir af skattgreiðendum þar og eru afskaplega góðir miðlar og jákvætt að hv. þingmaður fylgist með. Ég vil spyrja hv. þingmann þessara spurninga.

Hv. þingmaður nefndi stjórnarskipun. Ég vil benda honum á að í frumvarpinu kemur fram að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna eru ekki kjörgengir í stjórn Ríkisútvarpsins. Það kemur líka fram að þó að tilnefning valnefnda sé til tveggja ára verður aðalfundur að sjálfsögðu haldinn árlega og stjórn kosin árlega á aðalfundi. Hv. þingmaður gerði þetta að umtalsefni áðan en ég fór einmitt yfir það og það er kannski ástæða til að ítreka að eins og fyrirkomulagið er núna er aðalfundur haldinn árlega þó að þegar hafi verið kosin stjórn af þingi. En þetta gerist að sjálfsögðu árlega í samræmi við hlutafélagalög.

Hv. þingmaður nefndi líka óhæði og ég vil að lokum segja að við hljótum öll, svo fremi sem við viljum hafa almannaþjónustumiðla, að vilja tryggja gagnsæi. Það væri kannski ágætt að vita hvort hv. þingmaður vill yfir höfuð hafa almannaþjónustumiðla. Hann nefnir að réttast væri að bjóða út Ríkisútvarpið, en vilji maður hafa almannaþjónustumiðil hlýtur hið opinbera, löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, að stefna að því að byggt sé á sem faglegustum grunni. Hv. þingmaður hlýtur að geta sett sig í þau spor að ef hann vill almannaþjónustumiðil hljóti hann líka að vilja tryggja fagmennsku þar innan húss og sem mestan aðskilnað frá hinu pólitíska valdi. Eða hvað?



[18:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn geta meira að segja deilt um þetta síðasta, faglegt þetta og faglegt hitt. Þegar hagfræðingar eru kallaðir til hafa þeir svo mismunandi skoðanir á landsmálum að þeir eru nánast alltaf pólitískir. Þeir flagga fána fagmennskunnar þótt þeir hafi í raun pólitískar skoðanir. Auðvitað vill maður að þetta sé faglegt en ég ætla ekki að gefa því allt of mikið vægi.

Varðandi aðalfundinn til eins árs þá þarf ég að skoða hlutafélagalögin en ég held að það megi kjósa stjórn til allt að fimm ára. Ég geri ráð fyrir að hv. nefnd, hér eru tveir nefndarmenn viðstaddir, fari í gegnum þetta og skoði. Ef meiningin er að stjórnin sé kosin til eins árs finnst mér alveg sjálfsagt að um það sé getið í lögunum, ekki bara tilgreint að valnefndin tilnefni til tveggja ára. Þá kemur reyndar upp dálítið skemmtileg staða vegna þess að valnefndin tilnefnir til tveggja ára og ráðherrann sem mætir væntanlega sem eini hluthafinn á aðalfundi sem hann heldur heima hjá sér í stofunni eða eldhúsinu því að hann heldur bara fundi hvar sem honum dettur í hug, hann er einn og ekkert meira ... (Menntmrh: Það verður að vera pláss fyrir alla hina.) Nei. (Menntmrh: Jú, þetta er opinbert fyrirtæki.) Ókei, það er opinbert, (Gripið fram í.) það er rétt, þingmenn eiga rétt á að mæta þannig að það þarf stofuna, ráðherra þarf að bjóða mér inn í stofu en hann hefur einn atkvæðisrétt.

Þeir fjölmiðlar sem ég horfi mikið á eru reyndar almennir fjölmiðlar, (Menntmrh: Já.) borgaðir af þýskum skattgreiðendum að mestu leyti og breskum, en ég horfi líka töluvert á erlenda einkafjölmiðla og les erlend tímarit og fæ þar aðra hlið á málinu. Ég held að ég fái nokkuð góða mynd af heiminum þannig. (Gripið fram í.)



[18:49]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það var eitt atriði í ræðunni sem ég hnaut sérstaklega um og það var í umræðunni um starfsmenn Ríkisútvarpsins, fréttamenn og dagskrárgerðarmenn. Hv. þingmaður nefndi að þeir vissu nákvæmlega hverjir borguðu saltið í grautinn þeirra, hvaðan framlögin kæmu til Ríkisútvarpsins.

Ekki ætla ég að gera ágreining við hv þingmann um það atriði en ég vil kalla eftir nánari útleggingu á hinu atriðinu sem kom fram í máli þingmannsins. Það voru þau orð að þeir viti nákvæmlega hverjum þeir eigi að þóknast. Mín spurning til hv. þingmanns er þessi: Heldur þingmaðurinn því fram að starfsmenn Ríkisútvarpsins, fréttamenn á fréttastofu Ríkisútvarpsins, hagi fréttaumfjöllun sinni þannig að þeir séu að reyna að þóknast stjórnvöldum, meiri hluta á Alþingi á hverjum tíma?



[18:51]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ræddi þetta meira fræðilega séð, en það er alveg á hreinu að 18 þúsund kallinn verður ákveðinn á hinu háa Alþingi, sennilega einu sinni á ári. Það þarf að hækka gjaldið í takt við verðbólgu, verðlag og slíkt og þar með er afkoma Ríkisútvarpsins ákveðin. Þar með er starfsmannafjöldinn ákveðinn og þar með er ákveðið hvort skera þarf niður eða ekki, þar með er ákveðið hvort starfsmönnum verður sagt upp eða ekki eða nýir ráðnir. Þetta vita náttúrlega allir. Ég reikna með því að fréttamenn séu frekar siðlegir og siðlegri en flestir en ég ætla þeim ekki ofurmannlega eiginleika. Þeir vita þetta. Sérstaklega skiptir þetta máli í hörðu ári eins og núna þegar fjöldi manns flyst til útlanda og atvinnu skortir. Meðan verið er að skera niður á spítölunum, segja upp fólki og auka kröfur á fólkið, láta það vinna meira o.s.frv., getur verið ágætt að fá bara peninga með hækkuðu útvarpsgjaldi úr 18 þús. kr. upp í 22 þús. kr. eða eitthvað slíkt. Þetta vita menn og þeir vita hver tekur ákvörðun um þetta.

Svo getur vel verið að menn hafi draum um að til sé fólk í heiminum, og það er eflaust til, sem kallast hugsjónamenn. Þeir ganga jafnvel mjög langt í því, í hugsjónum sínum, að fara gegn eigin hagsmunum. Það getur vel verið að fréttamenn hjá RÚV séu slíkir hugsjónamenn að þeir láti þetta ekki trufla sig í störfum sínum og þó að ráðherra segi í viðtölum að hann þurfi hugsanlega að lækka þennan 18 þúsund kall hafi það ekki áhrif á starfsmennina í gagnrýni á ráðherrann.



[18:53]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en hann svaraði þó ekki spurningunni. Ég tel mjög mikilvægt að fá fram í þessari umræðu hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal sé að halda því fram að fréttamenn hjá Ríkisútvarpinu hagi fréttaumfjöllun sinni með tilliti til þess að ríkisframlagið stendur undir verulegum hluta af tekjum Ríkisútvarpsins. Með öðrum orðum að fréttaumfjöllun þeirra sé lituð af því að persónulegir hagsmunir þeirra séu að fjárveitingavaldið á Alþingi líti með velþóknun á umfjöllun Ríkisútvarpsins. Ég vona að hv. þingmaður átti sig á því að hann vegur mjög alvarlega að starfsheiðri fréttamanna hjá þessari stofnun ef þetta er hans skoðun.



[18:54]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var einmitt ekki að vega að starfsmönnum sem slíkum. Ég sagði þá jafnvel siðlegri en flesta aðra og þeir mundu hugsanlega standast þessa freistingu, en þeir vita þetta og það er það sem ég er að tala um. Þetta er bara hluti af mannlegri hegðun og þegar byggt er upp kerfi þar sem menn vita að þeir eru háðir einum aðila eða meiri hluta einhvers staðar breytist hegðun þeirra. Þeir hafa gífurleg völd í þjóðfélaginu, við sjáum það til dæmis á þáttunum um stjórnarskrána, þeir taka saman fólk sem er sammála um málið og hafa gert trekk í trekk (SkH: Og ósammála.) Einn sem ég hef hlustað á, það getur vel verið að þeir hafi verið fleiri. En þeir hafa gífurleg völd hvað almenningsálitið snertir og þess vegna er freistingin mjög stór hjá þeim sem ráða að reyna að hafa áhrif.

Nú er ég ekki að segja að starfsfólk Ríkisútvarpsins standist ekki þá pressu en þeir vita hver borgar brúsann. Þetta er bara ákveðið vandamál sem við glímum við. Ég held að tillögur sem komu fram um að gera þetta að mörkuðum tekjustofni sé einmitt tilraun til að komast fram hjá þessum vanda. En eftir stendur 18 þúsund kall sem þingmenn og meiri hlutinn á Alþingi hverju sinni tekur ákvörðun um og þar með er aftur komið tangarhald á starfsmönnunum.