141. löggjafarþing — 17. fundur
 11. október 2012.
samkomulag ríkisstjórnarinnar við orkufyrirtæki.

[10:34]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er alþekkt að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gert skriflegt samkomulag við ótal aðila á starfstíma sínum. Að flestra mati hefur hún illa staðið við það en á Alþingi var í gær upplýst um alveg nýja nálgun í þessum efnum, þ.e. að nú eru einhverjir farnir að svíkja samkomulag við ríkisstjórnina og svo virðist sem ríkisstofnanir séu farnar að svíkja þegjandi samkomulag sem ríkisstjórnin hefur gert við þær. Maður spyr sig hvers lags samkomulag þetta sé, hvort hægt sé að nálgast það og hvort það séu einhver fleiri atriði þar inni en þau er varða orkunýtingu.

Það er ekki eins og upplýsingarnar séu komnar frá einhverjum almennum stjórnarþingmanni, það er hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður annars stjórnarflokksins, sem upplýsir að framkvæmdir Landsvirkjunar í Bjarnarflagi séu orðrétt, með leyfi forseta, „brigð á þegjandi samkomulagi um að ríkisfyrirtækin að minnsta kosti haldi að sér höndum í virkjanaæði meðan rammaáætlun hafi ekki verið afgreidd úr þinginu“.

Þetta er ekki nein smáræðisyfirlýsing þannig að það er von að spurt sé um málið. Ég inni hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort það sé rétt að ríkisstjórn Íslands hafi gert þegjandi samkomulag við eigin orkufyrirtæki um að þau haldi að sér höndum í þessum efnum meðan rammaáætlun hefur ekki verið afgreidd. Ef svo er, er þá viljayfirlýsing á milli ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslu sem undirrituð var 25. maí 2011 um samstarf aðila á þessu sviði marklaust plagg, undirritað af þáverandi iðnaðarráðherra? Var það gert gegn betri vitund? Á hvaða vegferð eru menn í þessum efnum?

Ég vænti þess að hæstv. forsætisráðherra gefi skýr svör um þetta (Forseti hringir.) samkomulag sem gert hefur verið og kallað er þegjandi.



[10:36]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að það hefði verið æskilegra að við stæðum frammi fyrir því núna að rammaáætlun hefði þegar verið afgreidd frá þinginu þannig að hægt hefði verið að halda eðlilegum hraða á þeim framkvæmdum sem hv. þingmaður nefnir, framkvæmdum sem alltaf voru fyrirhugaðar og eru í virkjanaflokki. Samkvæmt mínum upplýsingum eru umræddar framkvæmdir hvorki óafturkræfar né á óröskuðum svæðum og í þær er ráðist í fullu samráði við sveitarfélögin á svæðinu og það skipulag sem þar gildir.

Því get ég ekki séð að við þessum framkvæmdum þurfi að amast á þessu stigi jafnvel þótt enn hafi ekki verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir virkjun á svæðinu. Það er líka vert að hafa í huga að hingað til hefur í starfi rammaáætlunar verið gert ráð fyrir að þarna yrði virkjað. Það er mikilvægt en það segir sig hins vegar sjálft að óafturkræfar framkvæmdir verða að bíða endanlegrar samþykktar rammaáætlunar og þess að tilskilið leyfi verði samþykkt. Ekkert í núverandi framkvæmdum stríðir gegn þessu eftir því sem ég best veit þannig að ég tel alveg óþarft að amast við þessu. Auðvitað hefði samt verið æskilegra og betra að rammaáætlun hefði verið afgreidd frá þinginu og lægi þá fyrir.



[10:38]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er ekkert þegjandi samkomulag á þinginu um að fyrirspurnum sé ekki svarað. Það var ekki spurt hvort þetta væri eðlileg framkvæmd, það eru flestir sammála um það. Það var spurt hvort það væri þegjandi samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna um að ekki yrði af þessum framkvæmdum.

Síðast í gær upplýsti hæstv. umhverfisráðherra þá skoðun sína að það væri æskilegt í ljósi samkomulags stjórnarflokkanna að þetta fyrirtæki biði með framkvæmdir sínar. Hvers má þá vænta í öðrum efnum? Er ætlast til þess að ríkisfyrirtæki, þótt þau séu bundin af lögum, ekki bara Landsvirkjun heldur önnur, vinni á grundvelli einhvers þegjandi samkomulags sem hæstv. forsætisráðherra vill ekki upplýsa um? Út á hvað gengur þetta þegjandi samkomulag? Er það til? Er eitthvert slíkt samkomulag milli stjórnarflokkanna? Ef svo er væri lágmark að hæstv. forsætisráðherra upplýsti Alþingi (Forseti hringir.) um það þannig að menn gætu gripið til ráðstafana. (Gripið fram í.)



[10:39]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef alveg lýst minni skoðun í þessu máli. Ég hef sagt að það hefði verið æskilegra að rammaáætlun hefði legið fyrir áður en farið yrði í þessar framkvæmdir, en ég tel samt að það sé ekkert við þeim að amast miðað við það sem ég sagði hér. Ég kannast ekki við að gert hafi verið þegjandi samkomulag. Menn hafa að vísu rætt að það væri eðlilegt að fara ekki af stað með neinar framkvæmdir meðan ekki væri búið að afgreiða rammaáætlun en það er ekkert við þessari framkvæmd sem slíkri að amast miðað við þær forsendur sem ég lagði upp með.