141. löggjafarþing — 17. fundur
 11. október 2012.
launamunur kynjanna.

[10:40]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt launamun kynjanna óþolandi og ótrúlegt að ekki hafi náðst meiri árangur í að berjast gegn honum. Því spyr ég: Hvar hefur hæstv. forsætisráðherra verið? Staðreyndin er að enginn hefur verið í betri aðstöðu til að gera eitthvað í þessu en einmitt hæstv. forsætisráðherra, þetta eru nefnilega engar nýjar fréttir.

Árið 2008 lýsti SFR áhyggjum sínum af auknum launamun. Um leið útskýrði félagið tryggilega fyrir hverjum þeim sem vildi hlusta á hverju þessi launamunur byggði, í fyrsta lagi á launamun milli svokallaðra kvennastarfa og karlastarfa þar sem konur með sambærilega ábyrgð og kröfur og karlar fengu hreinlega lægri grunnlaun og í öðru lagi launamun milli einstaklinga þar sem körlum er umbunað í formi aukagreiðslna á borð við fasta yfirvinnu umfram konur í sambærilegum störfum.

Niðurskurður ríkisstjórnarinnar á árunum 2009 og 2010 opinberar þetta vandamál þar sem opinberar stofnanir skáru fyrst og fremst niður aukagreiðslur og yfirvinnu umfram grunnlaun. Í kjölfarið minnkaði launamunur kynjanna, karlarnir misstu sporslurnar. Um leið og hægt var að réttlæta það var svo farið í að leiðrétta laun karlanna ef marka má kannanir bæði SFR og BSRB á árunum 2011 og 2012 sem sýna að launamunur hefur aftur aukist og er nú rúm 13%, jafnvel meiri í ákveðnum landshlutum.

Hæstv. velferðarráðherra sýndi eftirminnilega um daginn hvernig þetta er gert þó að hann hafi þurft að draga í land þegar fólki ofbauð. Á síðasta þingi bentu síðan konur sem gegna stöðum æðstu yfirmanna opinberra stofnana á þetta og jafnvel kjararáð virðist telja að konur geti unnið sömu störf fyrir lægri laun.

Fyrir um 30 árum kom móðir mín, þá einstæð móðir með þrjú börn, nánast orðlaus af reiði heim úr vinnunni. Ástæðan fyrir því var að í upphafi skólaársins hafði skólastjóri hennar útskýrt vinsamlega fyrir henni af hverju hún fengi ekki þá yfirvinnu (Forseti hringir.) sem hún hafði óskað eftir. Ástæðan var sú að karlkyns samkennari hennar þyrfti meira á yfirvinnutímunum að halda enda væri hann fyrirvinna fjölskyldunnar. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvað hún hyggist eiginlega gera (Forseti hringir.) í þessu á síðustu mánuðum þingsetu sinnar.



[10:43]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í þau 50 ár sem í gildi hafa verið lög í landinu um að ekki megi mismuna körlum og konum í launum hafa allir flokkar verið í ríkisstjórn og haft tækifæri til að fara í aðgerðir og taka á þessum málum. Ég hygg að vilji allra flokka hafi staðið til þess á þessum 50 árum. Flokkarnir hafa beitt sér með mismunandi afgerandi hætti í þessu máli en það er alveg sama hvað gert hefur verið hjá flokkunum í samráði við Jafnréttisstofu og aðila vinnumarkaðarins, það hafa alltaf verið fundnar leiðir til að fara fram hjá því og greiða körlum hærri laun en konum. (Gripið fram í: Ertu …?) Ég harma það mjög.

Óútskýrður launamunur er núna 13%. Ég man að þegar ég var í félagsmálaráðuneytinu var hann 16% þannig að eitthvað hefur þokast í rétta átt í þessum málum. Þingið taldi sig fyrir nokkrum árum vera að leggja til aðgerð sem mundi skila árangri þegar hér var samþykkt af öllum flokkum að fara út í að koma á jafnlaunastaðli. Það hefur tekið nokkur ár að smíða þennan jafnlaunastaðal og á næstu mánuðum verður hann tekinn í notkun. Við höfum unnið að aðgerðaáætlun með aðilum vinnumarkaðarins og væntanlega verður hún birt fljótlega. Það sem við höfum samþykkt að gera er að ríkisstjórnin muni í þessum mánuði fara í aðgerðir þar sem hvert ráðuneyti fyrir sig fer ofan í laun karla og kvenna í sínu ráðuneyti og leiðréttir launamuninn. Í kjölfarið verður farið í allar opinberar stofnanir og gerð áætlun um að leiðrétta muninn.

Síðan hef ég áhyggjur af því að það virðist mjög erfitt að taka á þessu þótt ég hafi margreynt það. Ég er enn að gera tilraun til að taka á þessum viðbótarlaunum hjá hinu opinbera sem í miklu meiri mæli hafa runnið til karla en kvenna. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar hér og með aðilum vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) og að því erum við að vinna. Það er ekki hægt að brigsla einum eða neinum, hvorki þessari ríkisstjórn né öðrum, um að hafa ekki gert tilraunir til að leiðrétta muninn. Atvinnurekendur komast hjá þessu með einum eða öðrum hætti og fara fram hjá lögum og aðgerðum sem Alþingi og ríkisstjórnarflokkar beita sér fyrir.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann.)



[10:45]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég rifjaði upp áðan fékk móðir mín að upplifa það fyrir 30 árum að yfirmaður hennar taldi ekki ástæðu til að hún fengi einhverja aukayfirvinnutíma umfram karlkyns samkennara sinn þar sem hún þyrfti ekki að sjá fyrir fjölskyldu, einstæð móðir með þrjú börn, en þá sat einmitt núverandi hæstv. forsætisráðherra á þingi. Hæstv. forsætisráðherra hefur verið ráðherra í 14 ár yfir þessum málaflokki, hún hefur verið forsætisráðherra í fjögur ár. Hvað hefur hún eiginlega verið að gera öll þessi ár? (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra segir að hún ætli að fara að skoða þetta núna, einmitt á þessum síðustu mánuðum fyrir kosningar. Nú á að fara að taka á málunum.

Í fréttum hefur verið sagt frá ýmsum sveitarfélögum sem hafa staðið sig ágætlega í því að útrýma kynbundnum launamun. Það væri því kannski ástæða fyrir hæstv. forsætisráðherra að setjast niður með stjórnendum þessara sveitarfélaga. Hún gæti til dæmis skottast suður í Reykjanesbæ og sest niður með bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Árna Sigfússyni, og spurt hann um hvernig hann hefur farið að því að lækka kynbundinn launamun (Forseti hringir.) á þeim stutta tíma, í samanburði við hæstv. forsætisráðherra, sem hann hefur verið bæjarstjóri. Það er óþolandi og (Forseti hringir.) ólíðandi að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki hafa tekið á þessu vandamáli í forsætisráðherratíð sinni.



[10:47]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti minnir enn á ræðutímann og biður hv. þingmenn um að virða hann.



[10:47]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg óþarfi að ég fari að leita ráða eða fara í lærdóm hjá Árna Sigfússyni í jafnréttismálum. Hv. þingmaður hefði alveg eins getað bent á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem fór í borgarstjóratíð sinni í aðgerðir til þess að jafna kjör kynjanna hjá borginni og varð vel ágengt í þeim efnum. Það er einmitt það sem við höfum talað um, hvort ekki eigi að taka upp jafnlaunapott í tengslum við kjarasamninga til að reyna að vinna á þessum launamun, alveg eins og hún gerði. Það er eitt af þeim málum sem við höfum verið að fara yfir.

Af því að hér er bent á mig og sagt: Hvað hefur þú gert í þessu efni? spyr ég: Hvað hefur Alþingi sjálft gert í því að koma í veg fyrir kynbundinn launamun? Það hefur sett lög, (Forseti hringir.) þau hafa ekki dugað. Það hafa verið settar jafnlaunaáætlanir, þær hafa ekki dugað. Ég er tilbúin að setjast niður með hv. þingmanni og hlusta á hvaða leiðir hún vill (Forseti hringir.) fara í þessu efni vegna þess að þetta er ekki auðvelt verk og það veit hv. þingmaður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)