141. löggjafarþing — 17. fundur
 11. október 2012.
framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra, ein umræða.

[11:07]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Samkomulag er um skiptingu ræðutíma og er hún sem hér segir: Menntamálaráðherra hefur 15 mínútur í upphafi fyrri umferðar. Aðrir þingflokkar en þingflokkur ráðherrans hafa 6 mínútur fyrir talsmenn sína í fyrri umferð.

Í seinni umferð hefur hver þingflokkur 4 mínútur, ráðherra hefur 5 mínútur í lokin. Þingmenn utan flokka hafa 3 mínútur hver. Andsvör eru ekki leyfð.



[11:08]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þann 16. júní 2010 var samþykkt þingsályktun á Alþingi þess efnis að Ísland mundi skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. Í greinargerð með tillögunni er lýst framtíðarsýn fyrir Ísland sem framsæknum vettvangi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja, enn fremur að leitað verði leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hér á landi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur verið falið að vinna að framgangi þingsályktunarinnar og samkvæmt henni á ráðherra að upplýsa Alþingi um stöðu verkefnisins innan Stjórnarráðsins. Um meðferð þingsályktunarinnar er það að segja að fljótlega eftir að hún barst ráðuneytinu með bréfi forseta Alþingis, þann 28. júní 2010, var hafist handa við greiningu á efni hennar og skyldum ráðuneytisins í því efni. Þá var jafnframt skoðuð löggjöf í nágrannaríkjunum og farið yfir þau álitaefni sem þingsályktunin tekur til. Í kjölfarið voru haldnir fundir með öðrum ráðuneytum og þeim stofnunum sem málið varðar, eins og Alþingi hefur áður verið gerð grein fyrir.

Áður var sem sagt farið yfir stöðu málsins á þingi. Þá þegar lá fyrir að hluti þingsályktunarinnar varðaði beint vinnu frumvarps um fjölmiðla sem þá stóð yfir í mennta- og menningarmálaráðuneytinu en frumvarpið varð að lögum á fyrstu mánuðum ársins 2011 og við vinnslu þess var því breytt til samræmis við þær áherslur sem fram komu í þingsályktuninni. Á ríkisstjórnarfundi þann 14. janúar 2011 var jafnframt gerð grein fyrir tilteknum álitaefnum sem höfðu komið upp við úrvinnslu þingsályktunarinnar. Gerð var grein fyrir því að þrátt fyrir sérþekkingu embættismanna Stjórnarráðsins á þeim álitaefnum sem fylgdu framfylgd ályktunarinnar væri verkefnið svo umfangsmikið að ekki yrði unnið að því frekar með sérfræðingum innan Stjórnarráðsins og undirstofnana þess nema til kæmi verkefnaráðning starfsmanna við tiltekna þætti þess. Því óskaði ég eftir sérstakri fjárveitingu og það var svo í fjárlögum ársins 2012 sem veitt var fjárheimild að upphæð 6 millj. kr. sem voru ætlaðar sem tímabundið framlag til að fylgja eftir þingsályktuninni.

Ég vil nefna í upphafi að ég ítrekaði síðast þegar ég gerði grein fyrir þessu máli mikilvægi þess þegar þingsályktunartillögur eru samþykktar að þær séu kostnaðarmetnar því að þeim fylgi ekki sjálfkrafa fjárveiting í fjárlögum sem getur skapað erfiðleika, ekki síst þegar tillagan, eins og umrædd tillaga, fellur undir málefnasvið margra ráðuneyta. Ég tel fyrirsjáanlegt að einhverja fjármuni þurfi til að ljúka þeirri vinnu sem stendur yfir núna og að mikilvægt sé að fjárlaganefnd þingsins skoði það sérstaklega, þar er ekki um háar fjárhæðir að ræða en til þess að þessari vinnu ljúki finnst mér mikilvægt að fjárlaganefnd skoði stöðu verkefnisins. Ég mun gera bæði hæstv. fjármálaráðherra og fjárlaganefnd grein fyrir því.

Ég hef þegar kynnt þetta mál fyrir ríkisstjórn. Ég tel hins vegar að við þurfum til lengri tíma að taka þessi vinnubrögð til endurskoðunar. Þau snúa að því, eins og hv. þingmenn þekkja og við höfum rætt nokkrum sinnum en ég ætla að ítreka hér enn og aftur, að bæði þingsályktunartillögur og þingmannafrumvörp þarf að kostnaðarmeta. Mér finnst það ekki góð vinnubrögð að stjórnarfrumvörp séu kostnaðarmetin en síðan einhvern veginn þegar þingmannafrumvörp eru tekin fyrir eða þingsályktunartillögur, hvort sem er frá stjórn eða þingmönnum, sé kostnaðurinn ekki metinn og þar af leiðandi fylgi engir fjármunir og í raun beri enginn ábyrgð á því að fjármunir fylgi vilja þingsins.

Það sem gert var í framhaldi af því að fjármunir fengust: Hugsunin var upphaflega að fela Lagastofnun Háskóla Íslands að vinna úttekt á a- og b-liðum þingsályktunarinnar en til að þær 6 milljónir sem fengust nýttust sem best var ákveðið að skipa stýrihóp um verkefnið sem var skipaður undir forustu Ásu Ólafsdóttur, lektors við lagadeild Háskóla Íslands, sem var ætlað að leiða vinnu ráðuneytisins við greiningu og úttekt á lagaumhverfinu hér á landi og erlendis með tilliti til efnis þingsályktunarinnar, einkum stafliði a og b, og með hliðsjón af þjóðréttarskuldbindingum Íslands. Stýrihópnum er ætlað að skila tillögum sínum í formi skýrslu sem á að geyma umfjöllun um helstu álitaefni og stefnumörkun á þessu sviði og fjalla um nauðsynlegar lagabreytingar ef þörf þykir á. Jafnframt er kveðið á um það í skipunarbréfinu að á grundvelli niðurstöðu stýrihópsins verði svo samið heildstætt lagafrumvarp. Hann á að ljúka störfum eigi síðar en 1. maí 2013.

Ég átti fund með formanni stýrihópsins þann 11. júní sl. og hann lagði fram þá tillögu að stýrihópurinn mundi leggja til eða undirbúa jafnóðum nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf ef stýrihópurinn teldi það falla vel að tilgangi þingsályktunarinnar. Í tengslum við þetta yrði nauðsynlegt að tryggja góða samvinnu innan Stjórnarráðsins þar sem slíkar tillögur gætu að sjálfsögðu átt heima undir málefnasviði annarra ráðuneyta og því mikilvægt að þeim yrði komið í réttan farveg innan Stjórnarráðsins.

Ég vek athygli á því að þessi stýrihópur er skipaður sérfræðingum úr mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

Þá væri mikilvægt að verkefnið yrði sem sýnilegast almenningi. Í tengslum við það var þingsályktunin sérstaklega kynnt með birtingu á heimasíðu ráðuneytisins og almenningi veittur kostur á að kynna sér efni hennar og senda athugasemdir og ábendingar til stýrihópsins. Talsvert hefur borist af skriflegum og munnlegum ábendingum og þar að auki hefur verið kallað eftir afstöðu ýmissa aðila sem málið varðar.

Stýrihópurinn hefur nú þegar lagt mat á fjóra þætti af þeim sem koma fram í greinargerð tillögunnar um það hvað nauðsynlegt sé að skoða til að hrinda efni hennar í framkvæmd.

Í fyrsta lagi hefur stýrihópurinn kannað hvort rétt sé að hefja vinnu við endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 26. gr. skaðabótalaga en í því skyni óskaði stýrihópurinn eftir því í júní sl. að refsiréttarnefnd innanríkisráðuneytisins veitti honum formlegt álit á því hvort afnema ætti refsingar vegna ærumeiðinga í XXV. kafla hegningarlaganna og jafnframt hvort rétt væri að réttarúrræði vegna ærumeiðinga yrðu alfarið færð af sviði refsiréttar yfir á svið einkaréttar, eftir atvikum með nánari útfærslu á 26. gr. skaðabótalaga. Hvatann að þessu má rekja til þess að ákvæði XXV. kafla hegningarlaganna hafa staðið nánast óbreytt frá því að þau voru sett árið 1940 þó að auðvitað hafi verið gerðar miklar umbætur á sviði mannréttindamála síðan þá. Til að mynda hefur Ísland undirgengist fjölmarga alþjóðlega mannréttindasáttmála, þar á meðal Mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem mannréttindakafli íslensku stjórnarskrárinnar hefur verið endurskoðaður. Í ljósi þessa hefur sprottið upp umræða um hvort efnisatriði XXV. kafla hegningarlaganna fái staðist nýrri viðhorf til mannréttinda, m.a. með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Aukinheldur ber að nefna breytt viðhorf í dómum Hæstaréttar Íslands sem má rekja til áhrifa frá dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þó að Mannréttindadómstóllinn hafi ekki lýst því yfir að refsiákvæði vegna ærumeiðinga séu sem slík ósamrýmanleg ákvæðum Mannréttindasáttmálans gagnrýnir dómstóllinn í auknum mæli notkun refsinga sem úrræðis á þessu sviði. Þing Evrópuráðsins hefur hvatt aðildarríki til að fella úr gildi eða endurskoða refsiákvæði sín um ærumeiðingar. Formlegs álits refsiréttarnefndar, sem ég vonaðist til að yrði komið fyrir þessa umræðu, er að vænta á allra næstu dögum þannig að það liggur ekki fyrir en verður notað sem grundvöllur fyrir áframhaldinu á þeirri vinnu sem ég tel mikilvæga við framgang þessarar þingsályktunar.

Hv. þingmenn þekkja umræðuna sem við höfum átt hér um þá þróun sem hefur orðið í ríkjum Evrópu. Ég nefni sérstaklega Bretland sem hefur mikið verið til umræðu innan Evrópu út frá því hvernig dómsmálum þar hefur, má segja, verið beitt til þöggunar blaðamanna og annarra álitsgjafa. Þar viðra ég í raun skoðun sem virðist mjög almenn í öðrum ríkjum Evrópu.

Í öðru lagi má nefna — ég held sem sagt áfram að fara yfir þau atriði sem stýrihópurinn er búinn að taka til skoðunar — vernd afhjúpenda. Fyrirmynd að slíkri löggjöf er að finna í ýmsum nágrannaríkjum Íslands en með slíkri vernd er reynt að vernda réttarstöðu afhjúpenda, hvort heldur hjá hinu opinbera eða í einkageiranum, þegar þeir koma fram með upplýsingar sem eiga erindi til alls almennings. Í greinargerð þingsályktunarinnar kemur fram að til greina komi að breyta ákvæðum um þagnarskyldu í lögum sem eiga við um opinbera starfsmenn. Stýrihópurinn hefur haft þetta atriði til skoðunar. Sú skoðun hefur leitt í ljós að eitt einkenni þeirra lagaákvæða sem taka til opinberra starfsmanna er að þau eru mörg og matskennd. Mikil réttarbót væri í því ef við stjórnsýslulögin yrði bætt skýrum ákvæðum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Sú leið hefur verið farin í Danmörku og Noregi þar sem reglur um þagnarskyldu hafa verið afmarkaðar og tengdar betur við þá brýnu hagsmuni sem þurfa að fara leynt, svo sem vegna persónulegra upplýsinga, þannig að það liggur skýrt fyrir í löggjöf við hvað þagnarskyldan á og hvenær hún á ekki við. Stýrihópurinn hefur lagt til að framangreind leið verði farin í íslenskum rétti og hæstv. forsætisráðherra hefur fallist á að hafin verði vinna í samræmi við framangreint með það fyrir augum að leggja fram frumvarp þessa efnis síðar í vetur.

Enn fremur verður unnið áfram að nýjum reglum um vernd afhjúpenda — þetta er sama atriði. Þar er um að ræða tiltölulega flókið viðfangsefni og mjög mikilvægt er að dregin verði fram sem flest sjónarmið. Á vegum stýrihópsins er verið að undirbúa málþing um vernd afhjúpenda og þar verður leitast við að tæpa á sem flestum málaflokkum tengdum viðfangsefninu, fá fræðimenn til að taka þátt, fjölmiðla og aðila úr stjórnsýslunni. Þar verður varpað ljósi á þær tillögur sem liggja fyrir í þingsályktuninni og hvert beri að stefna í tengslum við lagasmíð um uppljóstrara og afhjúpendur á Íslandi og hvernig málum skuli þá háttað út frá persónuverndarsjónarmiðum í þeim tilvikum. Ég held að þetta sé líka jákvætt í — kannski skorti enn að þessi umræða fari út í samfélagið. Stýrihópurinn lítur svo á að það sé mjög nauðsynlegt að þessi umræða verði tekin á vettvangi áður en við ákveðum nákvæmlega hvert beri að stefna með lagasmíðinni.

Í þriðja lagi hefur stýrihópurinn beint sjónum sínum að ákvæðum fjarskiptalaga sem taka til varðveislu fjarskiptagagna. Í fjarskiptalögunum, nánar tiltekið 3. mgr. 42. gr. laganna, er krafist varðveislu fjarskiptagagna í sex mánuði í þágu rannsóknar sakamála eða almannaöryggis. Fjarskiptagögn eru til að mynda upplýsingar um samskipti milli síma og annarra rafrænna miðla sem þau skilja eftir. Í greinargerð með þingsályktuninni var bent á að nauðsynlegt kynni að vera að endurskoða framangreint ákvæði fjarskiptalaga um varðveislu þessara rafrænu upplýsinga. Þetta ákvæði, til upprifjunar, var tekið upp innan Evrópusambandsins með tilskipun frá árinu 2006. Það hefur verið gagnrýnt, m.a. fyrir þær sakir að erfitt er að vernda til að mynda samskipti lögmanna við skjólstæðinga sína eða samskipti blaðamanna og heimildarmanna þeirra ef upplýsingar um samskiptin eru vistuð hjá þriðja aðila. Þá má einnig nefna í þessu sambandi að innleiðingu tilskipunarinnar var hnekkt með dómi þýska stjórnlagadómstólsins 2. mars 2010 þar sem hún var talin fara gegn ákvæðum þýsku stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Þetta atriði hefur í framhaldinu verið til sérstakrar athugunar í Svíþjóð og á Írlandi. Írland hefur óskað eftir forúrskurði Evrópudómstólsins um lögmæti tilskipunarinnar, m.a. út frá meðalhófsreglu og vísun í innri markaði. Á móti vega að sjálfsögðu löggæsluhagsmunir. Enn sem komið er hafa ekki verið gerðar breytingar á tilskipuninni innan Evrópusambandsins til að koma móts við þessa gagnrýni. Stýrihópurinn er fyrst og fremst í greiningarvinnu um hvaða áhrif þetta hefur á alþjóðlegar skuldbindingar okkar út frá þessari umræðu.

Í fjórða lagi er í þingsályktuninni vakin athygli á að hömlur á tjáningarfrelsi séu sérhver lagaleg aðgerð sem hægt er að nota til að hindra að efni sé gefið út áður en til útgáfu kemur, þ.e. að leita þurfi leiða til að lög verði ekki misnotuð í því skyni að takmarka eða tálma stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi. Eitt af verkefnum stýrihópsins er að athuga hvernig lögbann getur komið í veg fyrir fyrirhugaða útgáfu efnis í því skyni hvort rétt sé að takmarka með einhverjum hætti möguleikann á því að leggja lögbann við væntanlegri birtingu. Til að meta þetta ákvæði hefur verið aflað upplýsinga um framkvæmd lögbanns í þessu skyni og hvernig þessu úrræði hefur verið beitt. Því hefur verið safnað upplýsingum um þær lögbannsbeiðnir sem borist hafa sýslumannsembættunum á höfuðborgarsvæðinu vegna væntanlegrar birtingar efnis. Á síðastliðnum tíu árum hafa 12 lögbannsbeiðnir borist sýslumannsembættunum sem gætu fallið undir lögbann gegn birtingu efnis. Við sjáum svo sem að þetta eru ekki mörg dæmi en stýrihópurinn vill skoða þessi dæmi því að þessar lögbannsbeiðnir geta verið af ólíkum toga sprottnar. Það sem hefur verið mikilvægast í því samhengi er að ræða hvenær birting efnis varðar almannahagsmuni. Það tel ég sjálf að skipti mestu máli. Það geta komið upp dæmi þar sem þessi mál varða eingöngu einkahagsmuni. Ég ætla ekkert að nefna dæmi um það en hv. þingmenn geta alveg ímyndað sér hvers lags dæmi það eru, þ.e. afhjúpanir sem tengjast einkalífi tveggja einstaklinga þó að þeir séu þjóðþekktir. Þess eru líka dæmi, sem við þekkjum, ekki síst frá löndunum í kringum okkur en líka hér á landi, að upplýsingar geta varðað almannahagsmuni. Þá er spurning hvort umræða um slíkar heimildir í lögum um lögbann eigi að vera ólíkar út frá þeim sjónarmiðum.

Stýrihópurinn vinnur að þessu máli og ég vonast til þess að frumvörp því tengd líti dagsins ljós núna í vetur. Hér rétt í lokin vil ég nefna, eins og hefur kannski komið fram, að þar sem verkefnið er umfangsmikið og spannar vítt svið liggur fyrir að þau frumvörp eru helst á verkefnasviði hæstv. forsætisráðherra og svo hæstv. innanríkisráðherra. Ég á von á því að þau mál eigi bæði eftir að koma inn í vetur og síðan tel ég að verkefnið eigi eftir að halda áfram. (Forseti hringir.) Þetta er gríðarlega mikilvægt og umfangsmikið verkefni.



[11:23]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir afar yfirgripsmikla og nákvæma skýrslu um stöðu þessa verkefnis. Hún gerði vel grein fyrir stöðunni eins og hún er í dag.

Rétt eins og hæstv. ráðherra lýsti áðan skiptist þessi þingsályktun í meginatriðum í fjóra hluta, þ.e. í fyrsta lagi þætti er varða ærumeiðingar, í öðru lagi vernd afhjúpenda, í þriðja lagi hluti sem snúa að fjarskiptalögum og í fjórða lagi hömlur á tjáningarfrelsi.

Ég ætla að fara yfir þetta í þessum fjórum liðum þrátt fyrir að ég muni einblína á einn þeirra. Ljóst er að lög um refsingar vegna ærumeiðinga eru orðin gamall lagabálkur sem þarfnast þess tvímælalaust að vera endurskoðaður. Jafnframt hefur nútímatækni og breytingar á lögum í öðrum löndum leitt til þess að staðan hefur breyst og lögin eru ófullkomin. Mér dettur sérstaklega í hug eitt atriði sem er mér þyrnir í augum, þ.e. það sem kallað er á ensku „libel tourism“ og fjallar um að hægt sé að lögsækja mann í öðru landi fyrir til dæmis birtingu á internetinu. Við höfum dæmi hérna á Íslandi þar sem maður var dæmdur í Bretlandi fyrir meiðyrði sem hann skrifaði á vef Háskóla Íslands.

Þróunin í Evrópu virðist vera sú að jafnvel verði hægt að framfylgja þessum dómum hér á landi, þ.e. maður getur skrifað eitthvað ærumeiðandi á vefinn sinn á ensku, er dæmdur í Bretlandi og síðan kemur sýslumaðurinn á Íslandi með stefnu til manns. Þetta er afar óheppileg þróun og ég vara mjög við því að Ísland undirgangist þá þróun sem er í Evrópu.

Í öðru lagi er vernd afhjúpenda. Hvað hana varðar getur vissulega verið gagnlegt og þjóðhagslega hagkvæmt í mörgum tilfellum að hlutir séu afhjúpaðir en það er mjög þarft fyrir þá sem berjast hvað harðast fyrir þessu að gera sér grein fyrir því að almannahagsmunir og þjóðaröryggi geta oft krafist þess að hlutir séu leynilegir. Við höfum séð dæmi um það, t.d. upplýsingavefinn Wikileaks, sem hefur tvímælalaust leitt til þess að almannahagsmunir hafa verið skertir. Það þarf að huga mjög vel að því hvernig staðið verður að þessu ákvæði.

Síðan er þriðja atriðið, sem er ég hef kannski mestan hug á, um fjarskiptalögin, varðveislu rafrænna upplýsinga og annað slíkt. Ég tel að það þurfi að útvíkka vinnu stýrihópsins til að taka til fleiri hluta. Nýleg þróun í Bandaríkjunum til dæmis sem kallast á bandarísku „intermediate liability“ — það er mjög mikilvægt að við Íslendingar tökum á engan hátt þátt í þeirri þróun, þ.e. að gera geymsluaðila upplýsinga ábyrga fyrir því sem þar er geymt. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt. Í framhaldi af því þarf að skoða í tengslum við fjarskiptalögin hluti eins og höfundarrétt, sem ég tel mjög mikilvægt að varðveita ólíkt sumum hér í salnum, upplýsingalög hvers konar og síðan persónuvernd þeirra sem geyma upplýsingar á miðlægum gagnagrunnum. Þetta tel ég mikilvægt að skoða því að ég held að í því liggi gott tækifæri fyrir Ísland, þ.e. ef þetta lagaumhverfi verður þróað þannig að persónuvernd sé virt og við búum ekki til einhvers konar afland fyrir upplýsingar, getum við sagt, þá liggja mikil tækifæri hérna. Þróunin í Evrópu hefur verið í þveröfuga átt við það sem ætti að vera og virðist vera í Bandaríkjunum líka.

Síðan eru hömlur á tjáningarfrelsi. Ég tel að almannahagsmunir og þjóðaröryggi eigi tvímælalaust að geta leitt til einhvers konar hamla á tjáningarfrelsi, t.d. lögbann við væntanlegri birtingu. Jafnframt, eins og hæstv. ráðherra benti á áðan, er hægt að setja stórt spurningarmerki við (Forseti hringir.) hvernig hægt er miðað við núverandi löggjöf að birta einkamál tveggja þjóðþekktra persóna næstum því án athugasemda þar sem upplýsingarnar koma málinu ekkert við.



[11:30]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir vinnu hennar við að tryggja að þingsályktuninni verði framfylgt og fagna því mjög að settur hafi verið á fót stýrihópur. Við fengum formann stýrihópsins og fleiri úr ráðuneytinu til fundar við okkur í allsherjar- og menntamálanefnd til að fara yfir málið með okkur, sérstaklega með tilliti til réttarstöðu afhjúpenda. Kom þar fram að vinnu nefndarinnar miðar vel áfram.

Mig langar að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra. Ein er sú að skil nefndarinnar eru 13. maí á næsta ári, sem er þá væntanlega á tímabili nýrrar ríkisstjórnar.

Hvernig verður tryggt að haldið verði áfram með vinnuna? Er það hægt og væri ekki skynsamlegt að reyna að hraða henni sem mest? Eru miklir möguleikar á að verkefnið verði klárað á þessu þingi? Hvað mun ekki verða klárað? Er hægt að fá upplýsingar um það?

Fram kom fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar með stýrihópnum að ef til vill væri gagnlegt að stýrihópurinn kæmi reglulega á fund nefndarinnar til þess að við, þingið, værum betur upplýst um framgang mála. Stýrihópurinn gæti komið á fund nefndarinnar kannski á þriggja mánaða fresti eða jafnvel oftar, ef til tíðinda drægi í nefndinni, til dæmis ef setja ætti lög og þess háttar.

Ég fagna því mjög að að halda eigi ráðstefnu þar sem afhjúpendur eru meginþemað. Mig langar að vita hvenær til stendur að halda þá ráðstefnu þannig að maður geti nú fylgst með og mætt á hana.

Mig langaði líka að fjalla aðeins um meiðyrðamálin eða meiðyrðamálaflakkið sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á, þ.e. „libel tourism“. Gerð var beiðni um undanþágu í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Mér skilst að erfitt geti verið að fá þá undanþágu.

Ég er ekki alveg með það á hreinu en það væri gott að fá frekari útskýringar á því hvort það sé hægt og hvort einhver möguleiki sé þá á að fyrirbyggja að við þurfum að vera undir ægivaldi breskra dómstóla. Málin hafa nefnilega þróast á þann veg að skrifi til dæmis einhver bók á pólsku sem gefin er út í Póllandi og aldrei þýdd á enska tungu, svo kaupir einhver tíu eintök í Bretlandi og þá er hægt að höfða mál gegn útgefanda og höfundi bókarinnar þó að viðkomandi sé ekki einu sinni með efnið á ensku sem verið er að fjalla um.

Meiðyrðadómstóllinn nær út fyrir Evrópu. Ég veit til dæmis um kanadískan rithöfund, konu, sem fjallaði um námufyrirtæki í Kanada. Bók hennar var stoppuð, því miður, og rithöfundurinn og útgefandi gáfust hreinlega upp vegna þess að málið reyndist mjög kostnaðarsamt. Sá dómstóll er miklu dýrari en okkar.

Þetta er allt of stuttur tími til að fara yfir svo gríðarlega stórt mál sem þetta er en mig langar aðeins að fara yfir það sem nefnt er á vefsíðunni hjá stýrihópnum. Það er atriði nr. 5, um málskostnað í málum er varða tjáningarfrelsi og hvort rétt sé að setja reglur um opinbera réttaraðstoð vegna málskostnaðar.

Það er tilvísun í nokkuð sem kallast „anti-SLAPP“. Mér finnst að við þurfum að skoða það mjög vel í ljósi fjölmargra meiðyrðamála sem átt hafa sér stað hérlendis. Þá langar mig líka að heyra meira um samskiptaverndina og vernd milliliða og jafnframt að benda á að við tökum nú upp upplýsingalögin í þriðja skipti. Ég vonast til þess að þingið beri gæfa til að tryggja að upplýsingalögin verði í anda þingsályktunartillögu þessarar. Mjög mikilvægt er, burt séð frá því hverjir sitja við stjórnvölinn, að þingsályktuninni verði fylgt eftir, að við tryggjum að við höfum alltaf bestu mögulegu löggjöf á þessu sviði og að tryggt sé að lögin séu uppfærð reglulega. Kanadamenn voru með bestu mögulegu upplýsingalöggjöf fyrir 15 árum en nú eru þeir með eina þá verstu í heiminum.

Mig langar líka að benda á að það er mjög mikilvægt að við tryggjum góða löggjöf í þessum efnum. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að vinna að þessari þingsályktunartillögu á sínum tíma var tilraun Kaupþings til að setja lögbann á frétt RÚV um lánabók bankans. Það vakti mig til meðvitundar. Sem betur fer fjallaði Kastljós nýverið um málefni sem tengist afhjúpendum og varð það til þess að fólk í samfélaginu vaknaði til meðvitundar um þessi mál og það gerðist líka hér á Alþingi, sem er ekki síður mikilvægt. (Forseti hringir.) Ég hefði gjarnan viljað fá hæstv. innanríkis- og utanríkisráðherra, sem málið heyrir undir, til að sitja undir þessum umræðum. Ég bendi forseta á að það væri gagnlegt að (Forseti hringir.) fá ráðherra til að vera viðstaddir þegar verið er að fjalla um mál sem heyra beinlínis undir þá.



[11:37]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir yfirferðina. Ég sit sem varamaður í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar óskaði ég eftir því að fundað væri um tjáningar- og upplýsingafrelsi, sérstaklega hvað varðar málefni uppljóstrara eða þær tillögur sem fram koma í þingsályktunartillögunni um þá í framhaldi af viðbrögðum Ríkisendurskoðunar og Fjársýslu ríkisins við leka varðandi skýrslu frá Ríkisendurskoðun.

Fulltrúar frá starfshópnum og ráðuneytinu mættu á fund nefndarinnar og fóru aðeins í gegnum þessi mál, sem var mjög hjálplegt og gott. Ég lagði þar til að komið yrði á reglulegum fundum með starfshópnum og allsherjar- og menntamálanefnd um þingsályktunartillöguna þar sem við mundum reyna að tryggja þá eftirfylgni sem talað er um í tillögunni, það verði haldnir fundir á þriggja mánaða fresti þegar dregist hefur að upplýsa þingið um gang mála, og að það verði líka á vegum nefndanna. Málefnið fellur auðvitað undir verkefni allsherjar- og menntamálanefndar.

Í máli þeirra komu fram nokkur atriði sem ég ætlaði að fá að nefna. Í fyrsta lagi var talað um allan þann fjölda ákvæða sem er varðandi þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Menn sögðu að það væru milli 100 og 200 ákvæði í lögum sem tryggja eiga þessa þagnarskyldu.

Mat þeirra var að það þyrfti að einfalda þetta og draga úr öllum þessum gífurlegu kvöðum hvað þagnarskylduna varðar. Síðan komu fram áhyggjur af aðildarumsókninni að Evrópusambandinu, eins og komið hefur fram hér, til dæmis í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og fleiri. Sagt var að aðildarumsóknin mundi gera það að verkum að við yrðum að fylgja eftir dómum sem falla í öðrum löndum, að það væri nánast skilyrði fyrir aðildinni.

Ég held að það sé mjög brýnt að við fáum það á hreint, og ég hef ekki fengið skýr svör við því, hvort þetta sé eitt af þeim atriðum sem búið er að ræða við samninganefndina og eins við utanríkismálanefnd og hæstv. utanríkisráðherra, um að gæta þurfi að þessu atriði við samningagerðina því að þetta er stórhættulegt. Ég er sannfærð um að fleiri þjóðir en við Íslendingar höfum áhyggjur af þessu, til dæmis hvað varðar meiðyrðalöggjöfina í Bretlandi.

Mér heyrist reyndar að bresk stjórnvöld séu að endurskoða ýmislegt varðandi lagaumhverfi fjölmiðla í Bretlandi. Ég veit ekki hvort það muni auka upplýsinga- og tjáningarfrelsi í því landi en ég held að það væri kannski ástæða til að taka það upp við bresk stjórnvöld hvort þau þurfi ekki að endurskoða meiðyrðalöggjöfina hjá sér og þau áhrif sem þau hafa á tjáningarfrelsi ríkisborgara annarra landa.

Síðan nefndi hæstv. ráðherra líka að það hefði valdið henni ákveðnum örðugleikum að verkefninu skyldi ekki fylgja neinn peningur, það væri skoðun hennar að kostnaðarmeta ætti frumvörp eða tillögur þingmanna alveg eins og gert er varðandi stjórnarfrumvörpin. Ég get svo sannarlega tekið undir það. Við þingmenn Framsóknarflokksins höfum lagt fram tvær tillögur sem við vonumst til að geti bætt vinnubrögðin hér innan dyra, annars vegar að sett verði á stofn lagaskrifstofa Alþingis, það var mjög leitt að núverandi ríkisstjórn skyldi stofna slíka skrifstofu hjá forsætisráðuneytinu í staðinn fyrir að hafa hana á þinginu eins og við töluðum um, og hins vegar Þjóðhagstofu. Í framhaldi af því hafa menn bent á að það sé eins með hana og stofnun rannsóknarþjónustu þingsins sem gæti þá stutt við starfsemina.

Að þeirri tillögu stóð meiri hluti þingmanna Framsóknarflokksins, fimm af níu. Tillagan er í fullu samræmi við grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins. Þar segir að við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífsins og að við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

Ég held að tillagan gangi nákvæmlega út á þessa þætti. Það hafa að vísu verið tekin jákvæð skref nú þegar sem koma til móts við þessar athugasemdir. Gerðar hafa verið breytingar á lögum um fjölmiðla, en eins og bent er á í þingsályktunartillögunni þarf hugsanlega að ganga enn lengra, að dómarar hafi í dag of mikinn sveigjanleika til að aflétta vernd heimildarmanna blaðamanna.

Við höfum kallað eftir því, og ég tel að það sé mjög brýnt, að tekið sé á þagnarskylduákvæðum og að vernd uppljóstrara tryggð, ekki bara hjá starfsmönnum hins opinbera heldur líka í einkageiranum. Síðan hefði verið ánægjulegt ef hæstv. ráðherra hefði minnst á að ákvæði varðandi gjafsókn í fordæmisgefandi málum var samþykkt á þingi og er það stórt skref í að tryggja raunverulega réttarfarsvernd. Þó að komið hafi ábending um að ekki væru nægilegir fjármunir tryggðir frá hendi innanríkisráðuneytisins hlýtur það að vera okkar sem sitjum á þingi að tryggja að fjárveitingar til þessara mála komi í gegnum fjárlög þegar við samþykkjum mál sem eru brýn og skipta máli fyrir grundvallarmannréttindi eins og tjáningarfrelsið. (Forseti hringir.) Alþingi hefur náttúrlega fjárveitingavaldið.



[11:43]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er með ánægju sem við fjöllum um svo mikilvægt mál sem upplýsinga- og tjáningarfrelsi er. Ég vil reyndar ganga svo langt að tala hér um einn af hornsteinum lýðræðissamfélags okkar.

Ég vil nota tækifærið og þakka frumkvæði þingmanna Hreyfingarinnar í þessu efni. Nefni ég þar sérstaklega hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem unnið hefur mikilvægt starf í þá veru, sem á að vera leiðarljós okkar þegar kemur að upplýstu samfélagi og því tjáningarfrelsi sem þar á að ríkja.

Þar eigum við Íslendingar vitaskuld að vera í fararbroddi vegna þess að við höfum státað af tiltölulega opnu kerfi en höfum engu að síður brennt okkur margsinnis á leyndinni sem umlukið hefur samfélag okkar. Af því þurfum við að læra. Við lesum um það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og einnig í nýrri skýrslu um ófarir Orkuveitu Reykjavíkur, að upplýsingin þarf að eiga vinninginn þegar við fjöllum um samfélag okkar í bráð og lengd.

Leynd, klíka, drottnun og þöggun. Þessi fjögur orð hafa á margan hátt verið áberandi í íslensku samfélagi lengi framan af. Af leyndinni sprettur klíkuskapur, af klíkuskapnum sprettur drottnun og af drottnuninni sprettur þöggun. Það þekkjum við allt úr nýliðinni sögu Íslendinga þegar heilu og hálfu sérfræðideildir háskólanna treystu sér ekki lengur til að tjá sig um eðlilegustu hluti sem fram fóru í íslenskri orðræðu og umræðu hér á landi.

Við það viljum við ekki búa. Þess vegna þarf að aflétta þeirri þöggunaráráttu sem er eilíflega til staðar í hverju samfélagi og þeirri drottnunaráráttu sem er sömuleiðis til staðar í samfélögum sem ekki hafa upplýsingu og tjáningarfrelsi að leiðarljósi.

Það hefur verið athyglisvert að horfa á viðbrögð manna á undanförnum vikum við því þegar svokallaður leki á sér stað í samfélaginu. Við þekkjum nýleg dæmi þess efnis, nú síðast þegar ófullgerðri skýrslu Ríkisendurskoðunar var lekið úr þeirri ágætu stofnun og viðbrögðin voru með þeim hætti að hengja ætti sendiboðann. Reyndar vakti það sérstaka athygli þess sem hér stendur að undir það var tekið af ákveðnum þingmönnum í pontu Alþingis eftir að það mál kom upp og er það umhugsunarvert.

Sá sem hér stendur vann við fjölmiðla í 28 ár samfellt og þekkir ágætlega hversu algengt það er að þöggun innan stjórnsýslunnar, innan fyrirtækja, þar á meðal innan ríkisfyrirtækja, eigi sér stað. Fyrir vikið komast ekki nauðsynlegar upplýsingar um vandamál eða hneykslismál til skila til upplýstrar umræðu.

Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umfjöllunar er vel unnin. Hún er á margan hátt róttæk og sumir ætla að þar sé gengið of langt fram. Ég held ekki. Ég held að menn gleymi því í þessu efni að fjölmiðlar sinna starfi sínu af fagmennsku og fjölmiðlar munu alltaf skilja á milli einkalífs annars vegar, þess sem ekki á erindi við almenning og þess sem sannarlega á erindi við almenning.

Þar vinnur fagfólk og það velur þar á milli. Fjölmiðlar munu alltaf gera greinarmun á því sem tilheyrir einkalífi hvers og eins og á ekkert erindi í fjölmiðla og þess sem sannarlega getur bætt samfélagið, ég þekki það ágætlega. Auðvitað höfum við undantekningar á því en við eigum ekki að næra umræðu okkar á þeim undantekningum. Þeir fjölmiðlar eru dæmdir illa af almenningi. Við eigum mikið frekar að næra umræðuna á því sem oftast er gert og vel.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þingsályktunartillagan fái rækilega meðferð hjá framkvæmdarvaldinu og eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gat um er stýrihópur við vinnu við málið sem mun skila af sér niðurstöðu á útmánuðum. Er það vel, enda ber framkvæmdarvaldinu að fara að vilja Alþingis sem var skýr í júnímánuði 2010 þegar málið var afgreitt frá Alþingi.

Ég tel að það þurfi hins vegar að skoða margt áfram. Þetta getur verið upptaktur að frekari opnun samfélagsins. Ég held að það þurfi að skoða margt í þessu máli enn frekar og nefni þar sérstaklega nafnlausan óhróður sem geymdur er á vefjum og tölvum til langrar framtíðar og situr þar eftir sem hver önnur staðreynd. Á því þarf að taka með einhverjum hætti. En þetta mál er vissulega upptaktur að því að opna samfélagið enn betur og verja þá sem vilja benda á misfellurnar sem iðulega eru til staðar í hverju samfélagi.



[11:50]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil eins og aðrir hér byrja á að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir yfirgripsmikla skýrslu. Ég þakka jafnframt fyrir það að undir forustu hæstv. ráðherra virðist manni að fram fari mjög vönduð vinna og eftirfylgni við þetta umfangsmikla og mikilvæga mál. Svo virðist sem leggja eigi allan metnað í að vanda til verka og nýta þetta spennandi tækifæri til að reisa til langrar framtíðar stoðir sem við getum byggt á.

Mig langar líka að nota tækifærið til að þakka og hrósa sérstaklega hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, sem hefur verið merkisberi þessa máls frá upphafi, ekki bara hér heima heldur líka erlendis. Þetta hefur víða vakið eftirtekt og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur málsvari í þessum efnum fyrir hönd okkar Íslendinga erlendis, og hægt að þakka fyrir það.

Það er margt mikilvægt í þessum efnum sem enginn tími er til að fara yfir, en ekki er hægt að draga úr mikilvægi þess að fjárveiting fylgi metnaðarfullum málum. Hæstv. ráðherra kom inn á þetta í máli sínu en þetta er gríðarlegt vandamál, auðvitað ekki bara í þessu máli heldur á svo mörgum vígstöðvum í okkar starfi hér. Við erum að samþykkja góða og metnaðarfulla hluti en í praxís og í veruleikanum fylgir ekki það sem til þarf. Hér voru til dæmis nefnd gjafsókn og önnur brýn og góð mál. Ég get nefnt eitt lítið lýðræðismál sem er lýðræðisumbætur í umhverfismálum. Ef þeim fylgja ekki fjárveitingar til frjálsra félagasamtaka og þeirra sem dag frá degi eiga að fylgja því eftir þá eru þetta bara orðin tóm í reynd. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem við þurfum einhvern veginn að setja í öflugri farveg hér innan þingsins.

Aðrir þingmenn hafa farið vel í gegnum þá fjóra meginþætti sem hér eru til umræðu, þ.e. endurskoðun varðandi refsingu, ærumeiðingar, vernd afhjúpanda, varðveislu fjarskiptagagna og hömlur á tjáningarfrelsi, þ.e. lögbann gegn birtingu efnis. Ég ætla ekki að fara frekar í það heldur hvetja til þess að áfram verði haldið uppi vandvirkri vinnu í þessum efnum svo að sem flest og fjölbreyttust sjónarmið fái að koma fram og komi inn í þessa vinnu, að þetta sé opið lýðræðislegt ferli, þar sem tjáning ólíkra skoðana fær að njóta sín til að tryggja að þetta sé eitthvað sem stendur til frambúðar, óháð pólitískum veðrum og vindum eða hagsmunum augnabliksins.

Að lokum, herra forseti. Við ræðum hér í grunninn mál sem varðar tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlum og útgáfufrelsi. Þetta eru í grunninn mál sem fólk lætur lífið fyrir víða um heim. Það er þörf á umræðu, finnst mér, ekki bara um lagasetningu heldur um kúltúr. Hvernig kúltúr búum við til í samfélagi og bara hér innan þings til dæmis, innan flokka og milli flokka? Getum við stuðlað að kúltúr þar sem ólík viðhorf og ólík sjónarmið eru metin og þeim fagnað en þau ekki þögguð niður eða jörðuð eða fólk gert áhrifalaust eða hrætt um stöðu sína vegna þess að það vogar sér að tjá skoðun sína?

Sjálfsritskoðun er ef til vill okkar stærsta vandamál í þessum efnum (Forseti hringir.) innan stjórnsýslunnar, innan stjórnmálanna og innan samfélagsins yfir höfuð. Fólk er einfaldlega hrætt við að það fái refsingu, (Forseti hringir.) ekki endilega lagalega heldur menningarlega, kúltúrlega, stöðu sinnar vegna o.s.frv., (Forseti hringir.) fyrir það að tjá sig. Um þetta þyrftum við líka að taka veglega umræðu hér í þingsal.



[11:54]
Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að koma með þessa skýrslu hingað inn í þingið og ræða þetta mikilvæga mál. Ég þakka jafnframt sérstaklega félaga mínum, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrir framgöngu hennar í þessu máli sem hefur verið virkilega aðdáunarverð. Það er ótrúlegt hve langt hefur tekist að koma þessu máli. Ég vil líka þakka öllu því IMMI-fólki sem hefur unnið að þessu máli utan þingsins, lagt af mörkum ómetanlegt starf við að koma þessu á koppinn og kynna þetta á alþjóðavettvangi þar sem málið hefur vakið mjög mikla athygli og miklu meiri athygli en hér á landi. Það er aðdáunarvert hvernig hægt er að hóa saman fólki í grasrótarsamtökum og koma mikilvægum málum á dagskrá þjóðþings. Þetta er skýrt dæmi um það.

Það sem ég mundi helst vilja tala um í þessu sambandi er réttarfarsverndin. Jafnt aðgengi að dómstólum og réttlát málsmeðferð er mikilvægur þáttur réttarríkis og lýðræðis. Í ýmsum löndum þar sem lagavernd er sterk er aðgangur að dómstólum erfiður því að jafnvel þó að lögin veiti vernd getur verið fjárhagslega erfitt fyrir almenna borgara að verjast málsóknum hvers tilgangur er jafnvel annar og meiri en að hreinsa meint mannorð kæranda. Nýlegt dæmi í þessu er málshöfðun gegn bloggaranum Teiti Atlasyni, tilhæfulaus málsókn sem eingöngu virðist vera stofnað til með það í huga að gera honum erfitt fyrir fjárhagslega. Nú hefur því máli verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Það sem Teitur gerði var að hann var að endurflytja frétt sem áður hafði verið flutt í fjölmiðli á Íslandi og það hefur kostað hann hundruð þúsunda. Ég gæti nefnt nærtækara dæmi af nákvæmlega sama meiði þar sem slíkt fyrirkomulag hefur viðgengist. Það er ófremdarástand ef hægt er að bjóða upp á þetta og þarf með einhverjum hætti að skoða. Það ætti alltaf að borga sig fyrir borgarann að verja sig gegn vel fjármögnuðum kæranda sem ætlar sér fyrst og fremst að valda kærða fjárhagstjóni og finna þarf leiðir til að tryggja að það sé hægt.

Ein leið til þess að ná þessu marki eru ákvæði laga í anda löggjafar í Kaliforníu, svokallaðrar anti-SLAPP löggjafar, sem mælir fyrir um möguleika almennings á gagnsókn við málaferlum. Í krafti slíkra laga getur sakborningur farið fram á að litið verði svo á að mál hans snúist um tjáningarfrelsið. Ef fallist er á það taka ýmis verndarákvæði í þágu sakborningsins gildi á meðan á málaferlunum stendur og ef dæmt er sakborningi í hag er tryggt að allur málskostnaður fellur á þann sem kærði. Slík ákvæði, hæstv. forseti, væru mjög mikilvæg í þessum málum.

Töluliður 5 í upptalningu þeirra atriða sem stýrihópurinn á að sinna tekur aðeins á þessu þar sem fjallað er um málskostnað í málum sem varða tjáningarfrelsi og jafnframt hvort rétt sé að setja reglur um opinbera réttaraðstoð vegna málskostnaðar o.s.frv. Mig langar að spyrja ráðherra hvort til standi, og þá með hvaða hætti, að taka tillit til þessara sjónarmiða í fyrirhuguðum tillögum stýrihópsins og hver afstaða hæstv. ráðherra til þessa máls er.

Mig langar líka í lokin að minna á tvo dóma Mannréttindadómstóls Evrópu frá því síðasta sumar gegn íslenska ríkinu og ákvörðun þess dómstóls nýverið að taka á dagskrá tvö önnur mál frá Íslandi. Þessi atriði vekja upp alvarlegar spurningar um íslenska dómaframkvæmd og réttarvernd og það er mjög brýnt að þetta atriði verði þegar í stað rætt ítarlega við ráðherra dómsmála og kannað rækilega (Forseti hringir.) hvar meinbugir í íslenskri löggjöf og dómaframkvæmd liggja. Ég sakna þess, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði, að ráðherra dómsmála skuli ekki (Forseti hringir.) vera hér í salnum við þessa umræðu. Að lokum vil ég þakka fyrir hana.



[11:59]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þá munnlegu skýrslu sem hún hefur birt okkur um þetta mikilvæga mál.

Eitt af sérkennum íslensks samfélags fyrir hrun var þöggun og meðvirkni. Það var grundvallarafstaða og viðbragð stjórnvalda gagnvart fjármálakerfinu sem komst upp með það í kyrrþey að hanna glæpsamlega svikamyllu gagnvart almannahagsmunum í kjölfar einkavæðingar bankanna á síðasta áratug, að það kerfi ætti að fara sínu fram. Það hefur líka verið grundvallarafstaða stjórnkerfisins gagnvart íslenskum fjölmiðlum að upplýsa frekar um minna en meira, beita fyrir sig trúnaðarskyldu og freista þess að halda upplýsingum frá almenningi ef þess væri kostur. Þetta var ráðandi viðbragð fyrir hrun en við skulum viðurkenna að þessi tilhneiging lifir enn góðu lífi í íslenska stjórnkerfinu eftir hrun.

Það eru of mörg dæmi um það að til dæmis þingmenn hér á Alþingi hafi þurft að ganga eyðimerkurgöngu til að fá út úr stjórnkerfinu upplýsingar sem þeir telja sig þurfa að hafa til að geta gegnt skyldu sinni og veitt framkvæmdarvaldinu aðhald. Í þessu ljósi verður til dæmis að skoða málefni tengd bókhaldskerfi ríkisins og viðbrögð Ríkisendurskoðunar sem árum saman lét hjá líða að upplýsa löggjafarþingið um miklar misfellur í framkvæmd máls sem tengdist grundvallarhagsmunum ríkisins og almennings.

Þingsályktunartillaga Birgittu Jónsdóttur og fleiri þingmanna var mjög merkilegt skref í þá átt að snúa af þeirri braut og treysta upplýsingastreymi til almennings. Þar réði för eftirtektarverður metnaður til þess að Ísland tæki ósvikna forustu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis í alþjóðlegu samhengi. Þetta framtak er því mikilvægur liður í því að efla lýðræðið í landinu og styrkja stöðu almennings í því að veita stjórnvöldum á hverjum tíma nauðsynlegt aðhald. Þetta mál er mikilvægt frá sjónarhóli lýðræðis og verndar almannahagsmuna en það er líka öðrum þræði athyglisvert innlegg í nýja atvinnustefnu fyrir Ísland því að eitt af markmiðum tillögunnar er að skapa framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufyrirtækja, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja á Íslandi. Það er atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á því að fyrir liggur mat á ótvíræðri samkeppnishæfni Íslands varðandi uppbyggingu gagnavera. Það er hins vegar ljóst að hún mun ekki ná miklu flugi, sú uppbygging, nema fyrir liggi vandaður lagarammi um málaflokkinn þar sem tryggð er vernd upplýsinga, heimildarmanna og afhjúpenda.

Það er rétt að minna á að ákveðin mikilvæg skref voru stigin hér í þinginu varðandi vernd heimildarmanna með samþykkt fjölmiðlalaga hér á Alþingi á síðasta ári. Þar var til dæmis stigið það skref að ábyrgð á ummælum sem höfð eru rétt eftir viðmælanda liggi hjá viðmælandanum sjálfum en ekki fréttamanninum sem hefur ummælin eftir. Þetta hefur beina skírskotun í þau mál sem hv. þm. Þór Saari nefndi hér fyrr í umræðunni og tók beint á veilu í löggjöf okkar og leiðrétti hana, sem hafði leitt til dóma gegn íslenskum blaðamönnum sem Mannréttindadómstóll Evrópu sneri góðu heilli við í nýlegum dómum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga sem er kveikjan að þessari umræðu hafi verið í hópi merkustu þingmála sem flutt hafa verið á þessu kjörtímabili. Ég vil þakka 1. flutningsmanni hennar, Birgittu Jónsdóttur, fyrir hennar forustu í þessu máli. Ég vil líka þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir það hve snöfurmannlega hún hefur tekið á þessu máli í ráðuneytinu með skipan starfshóps sem greinilega er að vinna gott starf í þessu máli. Viðbrögð hæstv. ráðherra bera vott um breytt viðhorf til upplýsingamála meðal stjórnvalda og það eru mikil og góð tíðindi fyrir almenning í landinu.



[12:03]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Mjög góð sjónarmið hafa komið fram. Ég ætla að leitast við að svara á þessum stutta tíma þeim athugasemdum sem var beint til mín. Mig langar þó fyrst að byrja á því að þakka, eins og margir hafa gert, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir frumkvæði hennar í málinu og mjög gott samstarf. Ég held að það hvernig við höfum reynt að standa að þessu máli. sé til marks um gott samstarf löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.

Ég vil nefna líka, því að ég tók það ekki fram áðan, að starfshópurinn sem skipaður var er skipaður fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjölmiðlanefndar og IMMI-stofnunarinnar. Ég tel að þarna hafi komið saman sérfræðingar á sviði tjáningarfrelsis og lagarammans í kringum það en líka á sviði tækni og alþjóðlegra skuldbindinga. Það hefur verið reynt að horfa á málið út frá ólíkum hliðum.

Spurt var um nokkra hluti sem ég ætla að leitast við að svara. Fyrst um ráðstefnu sem ætlunin er að halda og ég greindi frá áðan sem snýr að uppljóstraramálum og vernd afhjúpanda. Hún verður haldin í nóvember og verður auglýst bráðlega. Ég hvet hv. þingmenn til að taka þátt í þeirri umræðu því þar er einmitt ætlunin að draga fram ólík sjónarmið.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spurði líka um hvernig ætti að halda áfram þessari vinnu. Ég lít svo á að þingsályktunartillaga sem er samþykkt hér gildi þrátt fyrir kosningar og það komi ný ríkisstjórn. Ég lít svo á að það eigi ekki að breyta neinu. Við teljum hins vegar auðvitað mjög gagnlegt að ljúka sem mestu af vinnunni á þeim tíma sem það þing sem samþykkti tillöguna starfar. Þess vegna vonumst við til að sjá fleiri frumvörp en það sem ég nefndi áðan og forsætisráðherra hyggst leggja fram sem snýr að opinberum starfsmönnum. Hv. þingmaður Eygló Harðardóttir gerði að sérstöku umtalsefni áðan nauðsyn þess að skýra ákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Ég á von á því að fleiri lagafrumvörp komi fram og ég vísa þar til þess sem ég nefndi áðan sem liggur hjá réttarfarsnefnd og snýr að hegningarlagaákvæðunum. Ég á von á því að þegar það álit liggur fyrir ætti að vera hægt að hafa hraðari hendur og vinna frumvarp þess efnis sem snýr að hegningarlögum og meiðyrðamálum svo það sé sagt.

Hér var spurt um það sem kallað er upp á enska tungu „libel tourism“ og snýr að þeim reglum sem hafa verið í gildi innan Evrópusambandsins. Ég vil bara taka það fram að ég hef vakið athygli ráðherranefndar um Evrópumál á þessu sem og samninganefndar Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Enn fremur verður það gert með formlegum hætti með bréfi til innanríkisráðherra. Það er því búið að flagga þessu máli, ef svo má að orði komast, í samningaviðræðunum.

Ég hef spurst fyrir um það hjá þeim sem gerst þekkja til í málefnum Evrópusambandsins hvernig þeir meta stöðuna þar. Það liggur fyrir að á vettvangi Evrópuþingsins hefur þetta verið mjög til umræðu og mikill vilji til breytinga en við sjáum ekki framan í þær breytingar enn þá. Það er ekki hægt að treysta á neitt í þeim efnum. En gerjunin er að minnsta kosti mikil og vonandi verða breytingar í góða átt í þessa veru innan Evrópusambandsins af því að þetta snýr ekki bara að okkur hér.

Hér var rætt aðeins um meiðyrðalöggjöfina og hv. þm. Þór Saari nefndi „anti-SLAPP“ löggjöfina svokölluðu, svo aftur sé notuð ensk tunga, sem er í gildi í Kaliforníu. Mér fannst gott að hv. þingmaður nefndi það. Það er á dagskrá stýrihópsins að skoða hvort þau ákvæði sem hafa verið sett inn um gjafsókn, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi, dugi í þessum málum eða hvort þurfi að ganga lengra og taka til að mynda til skoðunar þetta fordæmi frá Kaliforníu, svo því sé svarað.

Ég vil líka nefna af því að hv. þm. Þór Saari nefndi dóma Mannréttindadómstólsins í Evrópu að þeir íslensku dómar sem voru þar til umfjöllunar byggðu á eldri löggjöf. Ný fjölmiðlalög voru sett eftir þá löggjöf sem snýr að rétti blaðamanna til að hafa eftir þriðja aðila. Hv. þm. Skúli Helgason kom inn á þetta. Þar höfum við þegar fengið allmiklar réttarbætur og ég vildi bara ítreka það.

Tími minn er á þrotum. Ég vil að lokum segja að ég tel mjög jákvætt (Forseti hringir.) að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fundi reglulega með stýrihópnum og það mun ég að sjálfsögðu gera líka. Ég vonast til að við sjáum sem mest framfaraskref á þessu sviði í vetur.