141. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2012.
opinber stuðningur við vísindarannsóknir, 1. umræða.
stjfrv., 198. mál (sameining og skipulag sjóða, markáætlun o.fl.). — Þskj. 201.

[14:24]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Forsögu frumvarps þessa má rekja til stefnu Vísinda- og tækniráðs sem gilti fyrir árin 2010–2012 sem bar yfirskriftina „Byggt á styrkum stoðum“. Þar var sérstök áhersla lögð á aukið samstarf háskólastofnana og fyrirtækja við rannsóknir og nýsköpun. Enn fremur er mælt fyrir um sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs, breytingu á nafni og starfssviði Tækjasjóðs með vísan í skýrslu innviðanefndar Vísinda- og tækniráðs um gerð vegvísis um uppbyggingu innviða og rannsókna á Íslandi frá árinu 2009. Í stefnunni er jafnframt lagt til að markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð. Með endurskoðun laga nr. 3/2003 er því verið að mæta þeim áherslumálum sem koma meðal annars fram í framangreindri stefnu. Þar að auki er lagt til að lögin verði samhliða þessu tekin til heildstæðrar endurskoðunar og er í frumvarpinu mælt fyrir um tillögur að breytingum á nokkrum þáttum laganna, sem þykir brýnt að bætt verði úr.

Þrír sjóðir starfa samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og þeir heyra allir undir mennta- og menningarmálaráðherra og eru allir í umsýslu Rannís. Það eru Rannsóknasjóður, Rannsóknarnámssjóður og Tækjasjóður. Rannsóknasjóður styrkir vísindarannsóknir, Rannsóknarnámssjóður styrkir nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og Tækjasjóður styrkir kaup á dýrum tækjum og búnaði. Þessir sjóðir ásamt Tækniþróunarsjóði, sem kveðið er á um í lögum nr. 75/2007 og heyrir undir nýstofnað atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mynda kjarna hins opinbera sjóðakerfis fyrir rannsóknir og nýsköpun hér á landi.

Að auki ber að nefna markáætlun á sviði vísinda og tækni en í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum markáætlunar á sviði vísinda og tækni.

Markáætlanir á sviði vísinda og tækni eru samkeppnissjóðir sem styrkja tímabundið átaksverkefni á tilteknum sviðum. Hingað til hafa þrjár markáætlanir verið starfræktar á Íslandi. Sú fyrsta, frá 1999 til 2003, um umhverfisvísindi og upplýsingatækni, sú næsta, frá 2005 til 2009, um erfðafræði í þágu heilbrigðis og örtækni, og sú nýjasta, frá 2009 til 2015, um öndvegissetur og klasa. Hafa þær eðlilega verið á ólíkum sviðum. Þessar þrjár markáætlanir hafa styrkt verkefni í opinni samkeppni á þeim sviðum sem markáætlanirnar starfa. Meðal hlutverka markáætlana er að styrkja verkefni sem spanna svið vísinda, tækni og nýsköpunar, allt í senn, og eiga því ekki heima undir öðrum sjóðum. Markáætlun hefur verið fastur liður á fjárlögum frá 1999 en ekki haft stoð í lögum.

Virðulegi forseti. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru: Í fyrsta lagi er lagt til að Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir undir nafni Rannsóknasjóðs. Með því má fá betri yfirsýn yfir sjóðina og þau verkefni sem styrkt eru. Helstu kostir eru þeir að með sameiningu getum við átt von á að hún leiði til meiri samfellu og yfirsýnar í úthlutunum styrkja til nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Faglegt mat umsókna til rannsóknartengds framhaldsnáms mun styrkjast en ekkert fagráð starfar nú við Rannsóknarnámssjóð. Ég held að þetta sé lykilatriði, ég held að þetta geti í raun og veru verið liður í að efla gæði í því hvernig við metum umsóknir um rannsóknarstyrki. Fyrir utan það ætti sameining að leiða til minni umsýslu.

Í öðru lagi er lagt til að heiti Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, svo sem gagnagrunna og hugbúnað sem ekki teljast beinlínis til tækja.

Talið er mikilvægt að útvíkka hlutverk sjóðsins og að hann takmarkist ekki eingöngu við tæki enda er þróun í þessum málum mjög hröð og menn sjá fram á sívaxandi vægi ýmiss konar sameiginlegra gagnagrunna í rannsóknum á mjög ólíkum sviðum. Einnig er lagt til að skipað verði sérstakt fagráð fyrir Innviðasjóð sem meti umsóknir um styrki úr sjóðnum. Ég held að það sé líka mikilvægt atriði.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð en markáætlun fellur ekki undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Hún er samt sem áður á forræði mennta- og menningarmálaráðherra á hverjum tíma. Ég held að allir geti verið sammála um að það sé til bóta að verkefni af þessari stærðargráðu sem er með hundruð milljóna á fjárlögum fái sérstaka stoð í lögum. Því er í frumvarpinu mælt fyrir um að hún verði sett undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og að sérstakri stjórn verði falið að fara með málefni markáætlunar á sviði vísinda og tækni.

Í fjórða lagi er lagt til að formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Samkvæmt gildandi lögum stýrir formaður vísindanefndar þeirri nefnd sem tilnefnir fagráðsmenn fyrir Rannsóknasjóð. Á sama tíma gegnir formaður vísindanefndar jafnframt formennsku í stjórn Rannsóknasjóðs en hann ber ábyrgð á úthlutunum úr sjóðnum. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur jafnframt við öllum athugasemdum sem umsækjendur gera við úthlutun sjóðsins en samkvæmt gildandi lögum sæta ákvarðanir stjórnar ekki stjórnsýslukæru. Þarna er verið að horfa á það að dreifa þessum hlutverkum.

Síðan vil ég nefna tvennt. Þetta frumvarp var kynnt í opnu ferli á netinu og bárust við það ýmsar athugasemdir. Ein athugasemd sem barst, og mig langar að segja þingmönnum frá, varðar ekki efni frumvarpsins sem slíks. Sjálfstætt starfandi fræðimenn hafa bent á að Rannsóknasjóður í núverandi mynd gagnist ekki mikið nema fyrir þá sem eru í stöðum til að mynda hjá rannsóknarstofnunum eða háskólum og hafi þar af leiðandi aukið bakland fyrir rannsóknir sínar.

Mitt mat er það eftir að hafa legið yfir málinu og skoðað þetta frumvarp að réttari leið til þess að efla stuðning við sjálfstætt starfandi fræðimenn sé að efla Launasjóð fræðiritahöfunda sem starfar samkvæmt reglugerð, endurskoða hlutverk hans þannig að hugsanlega sé hægt að efla hann og styrkja hann í sessi.

Jafnvel mætti hugsa sér að nýta þá aukningu sem nú er fyrirhuguð í fjárlögum að einhverju leyti og það þarf ekki háar fjárhæðir til til að efla þann launasjóð. Ég tala bara opið um þessa hugmynd því ég held að hún geti hreinlega nýst mjög vel til að styrkja þá fræðimenn sem eru að vinna til að mynda að efni á eigin vegum. Ég nefni sem dæmi athugasemdir sem bárust frá Reykjavíkurakademíunni sem sendi inn athugasemdir við frumvarpið. Ég held að þarna gætum við náð þéttara og heildstæðara kerfi með því móti og skal ég glöð ræða þessi mál við hv. allsherjar- og menntamálanefnd ef hún óskar þess.

Hitt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir vakti athygli mína á áðan varðar 5. gr. frumvarpsins og opinn aðgang. Ég get skýrt það nánar á eftir en ég sé að því miður hefur ekki verið greint frá þessu með fullnægjandi hætti í greinargerð, að þarna er verið að leggja til nýmæli og mér finnst rétt að ég skýri frá því að þetta byggir líka á sömu stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf gott aðgengi að rannsóknaniðurstöðum sem hið opinbera styrkir, en þannig má stuðla að skilvirkri nýtingu rannsókna. Nauðsynlegt er að skoða nánar lagalegar og efnahagslegar hliðar á opnum aðgangi að rannsóknaniðurstöðum og verndun hugverkaréttinda.“

Vísinda- og tækniráð leggur sem sagt til að þetta verði gert að kröfu. Í raun og veru hafa margir háskólar og rannsóknarstofnanir margar hverjar gert þessa kröfu nú þegar.

Vísinda- og tækniráð lagði síðan til að Ísland yrði aðili að Berlínaryfirlýsingunni frá 2003 sem 274 ríkisstjórnir, háskólar og stofnanir hafa undirritað frá því að hún var samin og hún snýr að þessu sama. En ég skal með glöðu geði svara fyrirspurnum um þetta. En það eru auðvitað leið mistök að þetta sé ekki skýrt í greinargerðinni.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er reynt að stuðla að heildstæðara og gagnsærra styrkjakerfi í opinberum stuðningi við vísindarannsóknir sem jafnframt taki mið af þeirri þróun sem hefur verið innan vísindakerfisins. Lagt er til að starfandi verði þrír sjóðir, Rannsóknasjóður, Innviðasjóður og markáætlun, allir í umsýslu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Ég lít líka á þetta sem lið í einföldun sjóðakerfisins sem lengi hefur verið á dagskrá Vísinda- og tækniráðs þannig að þeir fjármunir sem við höfum úr að spila til rannsókna og þróunar nýtist sem best. Ég tel að æskilegt væri, svo fremi sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd sjái ekki mikla meinbugi á frumvarpinu, að við ljúkum þessu máli samhliða því að við ljúkum því að auka og efla þá sjóði sem vonandi næst sátt um við fjárlagagerðina í vor. Ég held að það sé mjög brýnt að við eflum með þessum hætti samkeppnissjóði á sviði rannsókna og nýsköpunar.



[14:33]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar. Það er þrennt sem ég mundi vilja spyrja ráðherrann um varðandi efni frumvarpsins.

Ráðherra hefur þegar komið inn á þann þátt sem ég nefndi við hana varðandi breytingar á grein sem koma fram í 5. gr., e-lið, þar sem sagt er: „Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið.“

Hefur ráðherrann velt nákvæmlega fyrir sér hvernig hægt er að útfæra þetta? Ég held að við séum öll — ég hef heyrt það í umræðunni í allsherjar- og menntamálanefnd af því ég hef tekið það upp þar — sammála um að við viljum sjá þetta gerast og mér skilst að það sé sama afstaða hjá stjórnmálamönnum alls staðar í Evrópu, þ.e. að leggja áherslu á að þetta sé í opnum aðgangi. En þeir sem þekkja til hafa bent á að ef það yrði raunar kvöðin þá værum við að útiloka okkar færustu vísindamenn frá því að geta birt greinar sínar í virtustu tímaritum heims. Má nefna Nature Genetics sem dæmi um þess háttar tímarit.

Ein hugmyndin sem hefur verið nefnd er hvort möguleiki sé á því að þetta færi inn í það samkomulag sem er nú til staðar í gegnum hvar.is. Þetta væri í opnum aðgangi gagnvart þeim sem eru með IP tölur frá Íslandi og þá væri samið um það við viðkomandi tímarit.

Síðan mundi ég nefna aðeins markáætlunina. Talað er um „í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla“. Hvernig mundi þetta til dæmis koma niður á þeim sem stunda rannsóknir á sviði félagsvísinda, þar sem oft er ekki endilega verið að koma með einhverjar afurðir sem hægt er að vinna með fyrirtækjum?

Og síðan er þriðji þátturinn sem ég ætlaði að nefna við ráðherrann. Ég sé ekki hvort einhver niðurstaða er komin varðandi þá vinnu (Forseti hringir.) að tryggja betur hlut kynjanna í hlutdeild í úthlutun við að styrkja vísindarannsóknir.



[14:36]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Fyrst að því síðasta sem hún nefndi. Þess sér ekki stað í frumvarpinu enda mátum við það ekki að það ætti heima í þessu frumvarpi. Hins vegar vinnum við núna áfram á vettvangi Vísinda- og tækniráðs að því. Heilmikil vinna hefur verið unnin við greiningu á hlut kynjanna í rannsóknum og rannsóknarstyrkjum og það höfum við þingmaður rætt áður hvað varðar til dæmis bágan hlut kvenna í stöðum verkefnastjóra. Þar er sem sagt verið að vinna að því að leggja fram áætlun um það svið, en hún er að minnsta kosti ekki komin á það stig að hún eigi heima í lagafrumvarpi. Það getur vel verið að svo verði síðar. Ég held að það kalli kannski á aðra umræðu.

Hvað varðar markáætlanir þá hafa þær vissulega verið líka á sviði félags- og hugvísinda. Ég nefni nýlega markáætlun um jafnréttisrannsóknir þar sem kallaðir voru til hugvísindamenn og félagsvísindamenn. Og ef ég man rétt hafa verið öndvegisstyrkir á sviði miðaldafræða. Það gæti hafa verið öndvegisstyrkur eða eitthvert öndvegissetur. Ég held því að mikil færi séu á því að gera þverfræðilegar rannsóknir á sviði félagsvísinda og hugvísinda eins og í lífvísindum eða öðrum greinum, svo ég nefni það, og jafnréttismálin eru þar bara gott dæmi.

Ég nefni síðan útfærsluna. Ein leið sem hefur verið farin í þessu og mörg virt tímarit gera núna kröfu um er að greitt sé gjald fyrir opinn aðgang. Þá hefur verið farin sú leið af hálfu Rannís að styrkja viðkomandi vísindamenn um það gjald. Krafan er sett um að greinin sé birt í opnum aðgangi en ef tímaritið setur gjald á það er það greitt af styrki Rannís, svo dæmi sé tekið.

Að þessu hefur verið hugað og í raun og veru hefur þessi krafa verið uppi af hálfu Rannís nú um nokkurt skeið en hún hefur ekki verið lögbundin nema þetta frumvarp verði að lögum. Það hefur því þegar verið unnið talsvert mikið í útfærslu á þeim efnum. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta áhugaverðar hugmyndir sem hv. þingmaður nefnir því að þetta er að breytast mjög hratt hjá virtustu fræðitímaritunum. Þau eru flest að færa sig (Forseti hringir.) yfir í einhverjar slíkar leiðir eins og ég nefni hér, en það má hugsa sér einhverja aðlögun að því.



[14:38]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé einmitt mjög brýnt, í ljósi þess að ekki er fjallað nægilega vel um þetta með opna aðganginn í greinargerð með frumvarpinu, að komið verði á framfæri við nefndina sem allra fyrst minnisblaði og upplýsingum um raunverulega hvað er í gangi hjá ráðuneytinu og hjá Rannís varðandi þetta.

Þegar ég var að reyna að kynna mér þetta fann ég markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál 1999–2004. Sú sem tók við var markáætlun um erfðafræði í þágu heilbrigðis og örtækni. Og sú sem við erum að starfa eftir núna er um öndvegissetur og klasa. Samkvæmt vefsíðu Rannís hefur verið úthlutað úr þeim sjóði verkefnum vegna jarðhita, vitvélaseturs og svo jafnréttis- og margbreytileikarannsókna.

Í rauninni er bara eitt verkefni sem maður getur sagt að flokkist undir félagsvísindi. Þá vil ég einmitt benda sérstaklega á varðandi markáætlanirnar að mér finnst skorta svolítið á það í frumvarpinu að sagt sé meira um hvað það er sem við ætlum að leggja áherslu á. Og þá minni ég á þá vinnu sem þáverandi menntamálaráðherra setti af stað í framhaldinu af hruninu með erlendum sérfræðingum um framtíðarstefnumörkun varðandi menntakerfið okkar. Þar tala þeir um að við eigum að leggja áherslu á þrjú meginsvið, þ.e. heilbrigðis- og lífvísindi, þau töluðu um jarðvísindi eða náttúruvísindi og svo töluðu þau um skapandi greinar og þau horfðu líka til tækni í skapandi greinum, eins og Háskóli Reykjavíkur hefur verið að vinna með. Ég held því að það sé mjög brýnt og við verðum að læra af reynslunni hvað varðar markáætlun að við getum ekki verið að setja peninga í einhver ný verkefni, dreifa þeim eins og mér hefur fundist við hafa verið að gera varðandi markáætlanir. Það þarf að koma skarpari fókus.

Annað sem ég vildi líka spyrja ráðherrann um. Telur ráðherrann eðlilegt að stjórnarmenn sem mundu sitja í stjórn markáætlunar geti síðan verið að úthluta sínum stofnunum styrkjum á vegum markáætlunar.



[14:41]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætlunin með því að setja markáætlun lagastoð er einmitt, eins og ég sagði hérna áðan, að þarna er um verulega fjármuni að ræða og það skiptir mjög miklu að ferlið sé í lagi. Þess vegna er lagt til að skipuð sé stjórn markáætlunar þremur einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs, þremur úr stjórn Tækniþróunarsjóðs sem síðan starfi samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs og auðvitað hefur þetta verið gert þó að það hafi ekki verið bundið í lög.

Þannig má nefna að síðustu markáætlanir byggja á heilmiklu opnu samráði úti í geiranum þar sem kallað var eftir áherslum vísinda- og tæknigeirans hvað ætti að setja í öndvegi. Auðvitað hefur þessi vinna ekki farið þannig fram að hún hafi bara verið ákveðin af handahófi. Ég tel að menn hafi í raun og veru verið að setja mjög skarpar áherslur og við sjáum árangurinn. Við sjáum árangurinn til að mynda í lífvísindunum svo dæmi sé tekið, mjög góðan árangur. En ég tel hins vegar mikilvægt eigi að síður, því að þetta er stór liður, að það sé lögbundið og að áherslur komi frá Vísinda- og tækniráði sem væntanlega leggur þá línurnar um hvaða áherslur eigi að taka. Hv. þingmaður nefnir réttilega áherslur úr erlendu sérfræðinganefndinni sem ég tel að komi þar sterkar inn. En þarna finnst mér einhvern veginn rétti ferillinn vera við ákvarðanatökuna sjálfa. Þegar kemur hins vegar að úthlutun styrkja þá gilda þar auðvitað bara eðlilegar reglur um hæfi og vanhæfi, og ættu að gilda.



[14:42]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég mun koma inn á það í máli mínu á eftir að ég tel þetta vera í heildina rétt skref. En að mörgu er að hyggja og í rauninni kom hv. þm. Eygló Harðardóttir inn á þær spurningar helstar sem ég hafði ætlað mér að færa fram í þessu andsvari en engu að síður er ein eftir. Hér er lagt upp með ákveðna heildarsýn, verið er að skerpa hlutina, það er verið að sameina og ég tel að það sé rétt að farið.

Hins vegar finnst mér standa eftir heildarsýn ríkisstjórnarinnar á rannsóknar- og vísindamálum á grundvelli samkeppni. Og ég held að ráðherra viti alveg hvert ég er að fara, ég er að fara að tala um aukið virði sjávarfangs, þann sjóð sem er að verða, held ég, að mínu mati einn stærsti rannsóknasjóðurinn. En þar gilda ekki sömu reglur að mínu mati og gilda um Rannsóknasjóðinn og vísindasjóðina hjá okkur sem falla undir ráðuneyti menntamála. Þó að það séu einhverjar viðmiðanir við alþjóðlegar reglur þá eru þær að mínu mati ekki fullnægjandi. Það eru ekki bestu niðurstöður, bestu rannsóknir sem fá úthlutað. Og við sjáum að það er engin tilviljun þegar ákveðinn þingmaður var ráðherra þá einhverra hluta vegna fóru flestar úthlutanir um aukið virði sjávarfangs í það kjördæmi. Það var fyrir tveimur eða þremur árum.

Ég spyr: Hvaða umræða hefur átt sér stað innan ríkisstjórnarinnar? Af því að það eru nú menn sem hafa haft metnað í þá veru að ýta undir rannsóknar- og þróunarstarf og hafa talað um það í fyrri ríkisstjórnum líka að sameina þessa sjóði og gera eitthvað í því, hefur sú umræða átt sér stað í þessari ríkisstjórn og hvernig hefur ráðherra þá nálgast hlutina?



[14:44]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, sú umræða hefur átt sér stað í ríkisstjórninni og í Vísinda- og tækniráði sem situr nú og þar liggur auðvitað fyrir mjög skýr stefna um einföldun sjóðakerfisins. Ég persónulega hef þá skoðun að með þessu frumvarpi sé verið að stíga skref í átt til einföldunar grunnrannsóknamegin og ég tel að stíga eigi sambærilegt skref hinum megin. Ég tel að við eigum að horfa á málefni samkeppnissjóða á sviði nýsköpunar hvort sem þeir heyra undir tækniþróun, sjávarfang eða landbúnað eða hvað annað undir einum hatti. Það er því mín skoðun að þar mætti fara í sambærilega einföldun.



[14:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Formaður Vísinda- og tækniráðs er forsætisráðherra Íslands. Það er sá aðili sem á að hafa forustu um að leiða vinnu af þessu tagi til að hafa heildarhagsmuni vísinda- og rannsóknasamfélagsins, og þar með talið samfélagsins alls, í huga. Mér finnst því vont að heyra, um leið og ég fagna áherslum ráðherra, að forsætisráðherra skuli þá ekki beita sér enn frekar fyrir uppstokkun í þessu máli. Vel má vera að það sé pólitískt viðkvæmt á milli stjórnarflokkanna en ef við hugsum eingöngu um heildarhagsmuni vísinda og rannsókna í landinu, á hvaða sviði sem er, hvort sem það er á sviði grunnrannsókna eða hagnýtra rannsókna — og það eru líka hagnýtar rannsóknir innan rannsóknasjóðsins, þó að meginhlutinn sé grunnrannsóknir — þá tel ég miklu máli skipta að stokkað sé upp í kerfinu. Ég tel hagsmunaaðila úti samfélaginu enn hafa of sterk ítök í því hvernig úthlutanir eru, sem getur verið jákvætt en er líka neikvætt. Þær eru ekki gerðar á þeim faglegu forsendum, alþjóðlega viðurkenndum forsendum, sem við gerum meðal annars kröfu um gagnvart þeim sjóðum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Um leið og ég fagna afstöðu ráðherra í þessu máli hvet ég hana til dáða við að ýta við forsætisráðherra þannig að hún taki keflið og stokki upp í þessu þó að það sé erfitt og viðkvæmt á kosningaári. Það skiptir máli fyrir okkur til lengri tíma litið að úthlutanir úr vísindasjóðum séu trúverðugar og byggðar á samkeppnisgrundvelli þannig að við vitum að þær fari til bestu rannsókna, bestu umsókna, en ekki í einhver gæluverkefni tiltekinna manna.



[14:47]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á von á því að hæstv. forsætisráðherra sé með á dagskrá sinni endurskoðun laga um Vísinda- og tækniráð. Ég tel mig vita að unnið sé að þessum málum af því að þessir sjóðir heyra núna allir undir hið nýsameinaða atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti. Ég tel því lag að fara í þá uppstokkun sem hv. þingmaður nefndi hér. Ég á ekki von á öðru en forsætisráðherra taki sköruglega á því máli.



[14:47]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í andsvari við hæstv. ráðherra nefndi ég þau þrjú atriði sem ég hafði einna helst hugsað mér að ræða. Ég ætla samt í upphafi að fá að taka undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði. Ég sit í stjórn félags sem hefur ítrekað fengið styrki í gegnum AVS-sjóðinn og ég tel að þeir fjármunir hafi farið í ágætisverkefni. En ég tek undir þær ábendingar sem koma hér fram, að sjálfsögðu á að gera sömu kröfur til þeirra verkefna sem verið er að úthluta til í gegnum þann sjóð og gerðar eru til rannsóknarverkefna hér. Það fyrirtæki sem ég hef setið í stjórn í hefur lagt mjög mikla áherslu á að vera mjög framarlega í þeim rannsóknum sem það hefur fengið styrki til að gera.

Ég held að við ættum að horfa til þessa, eins og ég tel að hæstv. ráðherra hafi verið að taka undir, og taka þetta raunar enn lengra. Undir ráðuneyti hæstv. ráðherra er fjöldinn allur af litlum sjóðum sem hafa verið að styrkja hinar svokölluðu skapandi greinar. Ef við ætlum að gera það af alvöru, eins og erlendir sérfræðingar ráðlögðu okkur í framhaldi af vinnu sem þáverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, setti af stað, þá eigum við að segja að þessar greinar, þessi fög, skipti jafnmiklu máli og eigi þá að sjálfsögðu að hlíta sömu úthlutunarreglum og áherslum og önnur fög.

Við erum komin með Listaháskóla. Við sjáum mjög spennandi verkefni frá Háskólanum í Reykjavík varðandi tækniþróun í tengslum við skapandi greinar. Við erum með metnaðarfullt framhaldsskólanám á sviði tækni sem hægt væri að tengja við hinar ýmsu skapandi greinar. Ég held að það sé eitt af því sem ráðherrann ætti að íhuga, hvort ekki sé mögulegt að setja þá sjóði líka undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

Eins og hæstv. ráðherra sagði er umtalsverður munur á því að tala um hvort birta eigi eitthvað opinberlega, eins og er í gildandi lögum, eða í opnum aðgangi. Spurt er: Hvað er opinn aðgangur? Ráðherrann vísaði í Berlínaryfirlýsinguna en þar er talað um tvíþætta skilgreiningu á framlagi í opnum aðgangi. Annars vegar verða rétthafar þess að hafa veitt óafturkræfa og almenna heimild til frjálsrar notkunar, afritunar, dreifingar, opinberrar birtingar og gerðar afleiddra verka svo lengi sem uppruna er rétt getið. Hins vegar þarf framlagið í heild að vera geymt í almennt aðgengilegum gagnagrunni sem er haldið við af stofnun sem hefur opinn aðgang og langtímavarðveislu að markmiði sínu. Því má eiginlega segja að þetta falli líka að vissu leyti undir það sem við ræddum fyrr í dag, sem var þingsályktunartillagan um tjáningar- og upplýsingafrelsi eða hin svokallaða IMMI-tillaga.

Þetta er sem sagt ein skilgreiningin en önnur skilgreining hefur líka gjarnan komið við sögu, sem í raun stangast á við þá hugmynd sem ráðherrann kom inn á, þ.e. að hægt væri að samþykkja að borga fyrir það að tryggja opna aðganginn. Þá erum við að segja að margir skilji opinn aðgang þannig að um gjaldfrjálsan aðgang sé að ræða þannig að einungis eigi að birta það sem ekki er rukkað fyrir. Dæmi um það gætu verið þau tímarit sem háskólar hafa verið að gefa út, þau eru opin á vefnum hjá þeim og þeir rukka ekki neitt fyrir aðganginn. Það er það sem fólk á við þegar það talar um opinn aðgang, að því sé frjálst að lesa framlag á netinu án endurgjalds. Ég gat ekki skilið orð ráðherrans öðruvísi en svo að hún væri að segja að þetta væri ekki endilega hennar skilningur heldur frekar sá sem kemur fram í Berlínaryfirlýsingunni.

Einnig hefur verið talað um fleiri leiðir eða útfærslur varðandi þennan opna aðgang. Ég held að allsherjar- og menntamálanefnd þurfi að fara virkilega vel yfir þetta og í samstarfi við ráðuneytið því að þetta er eitthvað sem við viljum sjá gerast. Að sjálfsögðu viljum við ekki að það hefti færustu vísindamenn okkar í því að geta komið niðurstöðum sínum á framfæri.

Varðandi markáætlunina þá er í 5. gr., b-lið, talað um að verkefni skuli unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Ég vil leggja mjög mikla áherslu á að hér þarf að gæta að því að hugvísindin og félagsvísindin — jafnvel rannsóknir sem við teljum skipta mjög miklu máli, eins og til dæmis á íslenskri tungu, sögu, menningu — séu ekki útilokuð frá markáætluninni.

Ég tel líka mjög mikilvægt að gæta að því, þegar við horfum á þennan texta, að við séum heldur ekki að útiloka konur frá því að stjórna verkefnum á vegum markáætlunar. Þau þrjú verkefni sem voru styrkt núna, í tengslum við öndvegissetur og klasa — það var jarðhiti, vitvélasetur og svo voru jafnréttis- og margbreytileikarannsóknir. Af þessum verkefnum fór lægsta upphæðin einmitt til jafnréttis- og margbreytileikarannsókna. Það hefur sýnt sig varðandi vísindarannsóknirnar að við erum ekki bara að tala um að færri konur séu verkefnisstjórar í stórum og viðamiklum verkefnum heldur hafa styrkirnir sem konur hafa fengið verið lægri í krónum talið. Þetta er eitthvað sem ég held að við þurfum að gæta mjög vel að.

Við þurfum líka að gæta mjög vel að því að í markáætlununum hafa verið einu rannsóknarstyrkirnir þar sem um raunverulegar upphæðir er að ræða, fyrir utan það þegar menn taka þátt í Evrópusambandsverkefnum og öðru slíku, á einhverju nýju vísindasviði. Þar sem jafnvel er viðurkennt í fréttatilkynningum frá menntamálaráðuneytinu að einungis örfáir vísindamenn hafi þá þekkingu sem til þarf. Ég horfi hér sérstaklega til markáætlunar um örtækni, sem var algjört uppbyggingarstarf. Það er spurning hversu miklu það hefur skilað ef horft er til þeirra áherslusviða sem erlendu sérfræðingarnir höfðu.

Það er eins og hæstv. ráðherra talaði hér um. Þegar kom að markáætlun 2007–2015 kom fjöldi manns að því að móta stefnumörkun hvað það varðaði. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að leggja áherslu á að þannig þarf að nálgast þetta, að það séu margir sem koma að þessu og að í einhverjum tilvikum séu það jafnvel ekki bara íslenskir aðilar, Íslendingar, sem vinni þá undirbúningsvinnu, þ.e. að því hvert áherslusviðið eigi að vera, heldur fái líka utanaðkomandi aðilar, sem hafi kannski ekki sömu hagsmuni hvað það varðar, að leita eftir styrkjum hjá Rannís.

Þá er ég komin að öðrum þætti varðandi markáætlunina. Í d-lið í 5. gr. er í síðustu setningunni talað um að ákvarðanir stjórnar um veitingu styrkja úr markáætlun séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Ég hef skilning á því, því að það eru náttúrlega ákveðin matsatriði sem koma að því að meta þessar umsóknir. En þá er líka mjög mikilvægt að í lagatextanum sjálfum komi fram hvaða kröfur við viljum gera varðandi þetta ferli. Sem dæmi vil ég nefna að hugsanlega þyrfti að setja inn ákvæði um að stjórnarmenn, sem sitja þá í stjórn markáætlunar og taka ákvörðun um hvernig úthluta eigi þessum fjármunum, séu búnir að taka sig út af listanum sjálfir, þ.e. að þeir séu ekki að fara að úthluta sjálfum sér styrkjum og að sjálfsögðu ekki sinni eigin stofnun eða stofnun sem þeir eru í forsvari fyrir. Það getur verið mjög erfitt að tryggja að menn séu þá hlutlausir varðandi matið, og eins og hér kemur fram hafa menn enga möguleika á að vísa ákvörðun stjórnar um veitingu styrkja eitthvert annað. Það þarf að tryggja hæfið hér í lagatextanum.

Ég vil síðan fagna því sem ráðherrann talaði hér um varðandi kynjahlutföllin í tengslum við stuðning við vísindarannsóknir. Ég tel mjög brýnt að við veltum því fyrir okkur hvernig hægt sé að taka á því. Það virðist vera nákvæmlega það sem ráðuneytið hefur verið að gera í samstarfi við Rannís og á grundvelli þeirra stofnana sem hér eru undir. Ég held að þar sé til staðar raunverulegur vilji til að tryggja jafnræði kynjanna. Ég held að við getum jafnvel verið ákveðin fyrirmynd, ef við höldum áfram að vinna í því, gagnvart öðrum löndum. Þetta er ekki bara áhyggjuefni hér á Íslandi heldur raunar í vísindasamfélaginu á heimsvísu, að hugsanlega sé einhver kynjahalli hvað varðar úthlutun styrkja.

Þetta eru sem sagt mínar helstu athugasemdir. Ég vonast til þess að allsherjar- og menntamálanefnd fari mjög vel yfir þetta frumvarp og átti sig á því að það skiptir gífurlega miklu máli að þetta sé í lagi. Þetta eru þeir fjármunir sem vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi byggir á og byggir raunar upp það samfélag og þau störf sem við viljum sjá í framtíðinni. Það skiptir því verulega miklu máli hvernig við stöndum að þessum lagaramma.



[14:59]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka þolinmæðina. Ég vil rétt upplýsa hvað maður gerir hérna, ég var niðri að borða smá afmælisköku. Það var afmæli hjá einni í flokknum og við vorum aðeins að fagna og njóta afraksturs íslensks landbúnaðar, ég veit að það gleður hæstv. forseta.

Ég er komin hér til að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Ég fagna frumvarpinu, ég tel það vera rétt skref. Góðir hlutir gerast hægt en þeir eru þó að gerast. Ég tel þetta vera mikilvægt skref. Það styrkir þá lagaumgjörð sem við settum á árum áður sem byggir á grundvelli vísinda- og tækniráðs og var fyrirmynda leitað víða. Ég man að á sínum tíma þegar ég og fleiri í allsherjar- og menntamálanefnd og iðnaðarnefnd fórum til Finnlands þar sem leitað var í smiðju annarra landa. Ég fagna því að vel hefur tekist til.

Ég vil líka benda á að þrátt fyrir ákveðnar efasemdir þáverandi stjórnarandstöðu er það engu að síður þannig að stjórnmálin hafa náð að sameinast um þessa þætti, að halda áfram að byggja upp vísindi og rannsóknir. Það er kannski eitt af því sem háir okkur hér inni að við tölum allt of lítið um það sem sameinar okkur. Við höfum verið dugleg að koma áfram mörgum góðum málum þó að áherslurnar geti verið mismunandi, og síðan er náttúrlega gargandi ósamkomulag í öðrum málum, eins og menn þekkja.

Ég fagna sérstaklega því að menn haldi áfram að reyna að finna rétta fyrirkomulagið, rétta sjóðafyrirkomulagið þannig að skilvirknin verði sem mest með því fjármagni sem við höfum. Fjármagnið er þó takmarkað, það verður að segjast eins og er, en verið er að reyna að finna leiðir til þess að það fari beint inn í rannsóknirnar þannig að yfirbyggingin verði minnkuð en um leið verði skilvirkt aðhald og gegnsæi. Gegnsæi kemur í gegnum samkeppni og samkeppnisreglur þar um varðandi hvaða vísindatilraunir, rannsóknir o.fl. eiga að hljóta styrki og hverjar ekki.

Ég tel rétt að fara þá leið sem hér er farin en ég gat um það í andsvari mínu áðan við hæstv. ráðherra að ég hefði viljað sjá heildstæðari stefnu varðandi vísindi og tæknimál almennt í landinu. Það hefur oft og tíðum verið barátta á milli ráðuneyta, við skulum bara segja eins og er. Það hefur verið togstreita á milli ráðuneyta um hver heldur hverju o.s.frv. og oft og tíðum hefur það verið á kostnað málefnisins sem slíks. Ég sé að það er ekki nein áherslubreyting hvað það varðar og bíð því spennt eftir því hvað kemur úr ranni hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að því að endurskoða vísinda- og tækniráð síðar í vetur.

Ég tel að það væri farsælla að sameina þessa vísindasjóði. Ég kom áðan inn á aukið virði sjávarfangs. Það er alveg hárrétt sem fram kom í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur að það er mjög merkilegur sjóður og hefur styrkt margar frábærar rannsóknir, en engu að síður eigum við ekki að gefa neinn afslátt af því hvernig úthlutunarreglum er háttað eða aðkomunni allri. Það segi ég með fullri virðingu fyrir þeim sem að þessu standa. Regluverkið af hálfu þingsins verður að vera skýrt og klárt og það þarf að vera stuðningur við málefnið sem slíkt en ekki vera til þess fallið að auka tortryggni.

Ég velti líka fyrir mér hvert hlutfall styrkja sé í grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Ég hefði gjarnan viljað sjá þróunina þar. Ég get líka séð þróunina í skýrslu vísinda- og tækniráðs sem verið hefur í fjárframlögum til grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna.

Það tengist því risamáli sem okkur er öllum umhugað um, það er hvernig vísinda- og rannsóknarsamfélag við viljum hafa hér og hvort við viljum ekki örugglega hafa það. Ég held að allir stjórnmálaflokkar og allir stjórnmálamenn hafi sagt já við því. Við í allsherjar- og menntamálanefnd heimsóttum Háskóla Íslands í fyrradag. Það er mikið fagnaðarefni hvernig Háskóli Íslands hefur náð að efla sig og styrkja og hefur stefnt hátt þrátt fyrir margar úrtöluraddir á sínum tíma. Menn töldu það ekki vera raunhæft og jarí, jarí, jarí, ég fékk að heyra það bæði innan og utan ríkisstjórnar, en Háskóli Íslands hefur engu að síður náð merkilegum árangri og heldur áfram að bæta sig. Það sem kemur hins vegar í ljós þegar við skoðum tölur, rannsóknir og fjármagn á árunum 2006–2010 er að færri vísindagreinar eru birtar en áður. Það er einn af þeim stóru mælikvörðum sem segir okkur hvar við stöndum í samfélagi þjóðanna, í því vísindasamfélagi sem við viljum vera fullir þátttakendur í. Það er mikið áhyggjuefni. Þó að ríkisstjórnin segi að hún hafi forgangsraðað í þágu rannsókna og vísinda sjáum við samt að verulega hefur verið skorið niður í þeim málum á árunum sem vinstri ríkisstjórnin hefur verið við völd. Hún hefur að mínu mati ekki forgangsraðað nægilega í þágu rannsókna og vísinda. Það getur vel verið að menn séu að reyna að bæta í, en fyrirgefið, það er bara ekki trúverðugt þegar kosningaárið er fram undan, það er ekki trúverðugt að koma með svona korteri fyrir kosningar.

Það sama gildir um fæðingarorlofið sem við ræddum fyrr í dag. Sama hvað menn segja þá er fylgni á milli aðgerða og stefnu ríkisstjórnarinnar, á milli ákvarðana og stefnu hennar í jafnréttismálum til dæmis hvað varðar fæðingarorlof, og aukins launamunar kynjanna. Fæðingarorlofið er eitt af þeim tækjum sem vinna áttu gegn launamun kynjanna. Ég fullyrði að það sé eitt af þeim málum sem haft hefur vond áhrif á þróunina.

Hvers vegna tek ég það fram? Jú, það sama gildir um rannsóknirnar. Þó að menn hafi haft góðan og ríkan vilja til að passa upp á ákveðna rannsóknarsjóði og þá sjóði sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og núna atvinnuvegaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, hefur engu að síður dregið úr þessum framlögum á síðustu þremur, fjórum árum. Ég hefði viljað sjá forgangsraðað í þágu vísinda og rannsókna og í þágu heilbrigðismála og menntamála og látið þá önnur verkefni, sem eru að mínu mati ekki eins mikilvæg, frekar sitja á hakanum. Allt fjallar þetta um pólitískar áherslur (Gripið fram í.) og ég veit að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur svo sannarlega þurft að berjast fyrir því fjármagni sem runnið hefur í rannsóknar- og vísindasjóðinn. Ég veit að hún hefur verið dyggur talsmaður og baráttumaður þess. En ég sakna þess að skynja ekki aukinn skilning af hálfu annarra ráðherra, ekki síst þeirra ráðherra sem voru í þeirri stjórn sem sat á undan þessari. Þar var talað með öðrum hætti. Ég kalla þess vegna eftir því varðandi frumvarp sem þetta, um breytingar á lögum vegna vísinda og rannsókna, að við fáum að sjá stærri mynd en eingöngu uppstokkun á stjórnsýslu og skipulagi sjóðanna þó svo að það sé gert af góðum hug.

Við í Sjálfstæðisflokknum munum að sjálfsögðu nýta tækifærið til að fara gaumgæfilega yfir málið í allsherjar- og menntamálanefnd með það í huga að styrkja kerfið, gera það gegnsærra og markvissara í þágu vísinda og rannsókna. Við viljum gjarnan fá að sjá það hvort fylgni sé á milli fjárframlaga til vísinda og rannsókna og þess hvað við stöndum okkur vel á því sviði á alþjóðavísu. Við sjáum að ýmis verkefni fá stuðning frá útlöndum, sem er vel. Síðast í dag fengum við milljarð frá hinu alræmda Evrópusambandi til að setja í jarðskjálftarannsóknir, það fer að miklu leyti til íslenskra rannsóknar- og vísindamanna. Hér á að vera ofurrannsóknarstöð jarðskjálftarannsókna. Ég held að það sé gott og ég vona að menn fari nú ekki að fjargviðrast yfir því að stuðningurinn komi þaðan. Það er rétt að benda á að við fáum mikinn stuðning í ýmsar menntarannsóknir og vísindarannsóknir á grundvelli EES-samningsins en við fáum líka gríðarlega mikið til baka á sviði mennta, menningar, nýsköpunar og skapandi greina, eins og hv. þm Eygló Harðardóttir kom inn á í máli sínu.

Tækifærin eru mörg en það tekur mörg ár að byggja upp samfellu í vísindum og rannsóknum. Það þarf ekki að taka nema nokkrar vitlausar ákvarðanir í hasti eða í pólitísku orðaskaki eða skiptimyntarleik til að rífa niður það sem byggt hefur verið upp í vísindum og rannsóknum. Þess vegna hvet ég til þess að menn hugsi um stóru myndina, hugsi til lengri tíma í vísindum og rannsóknum og að við tökum alvarlega þær ábendingar sem við höfum fengið frá virtustu rannsóknar- og kennslustofnun okkar, Háskóla Íslands.

Það eru hlutir sem við munum fara yfir í nefndinni. Að öðru leyti vil ég vekja athygli á því sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem undirstrikar að mér finnst ekki vera forgangsraðað í þágu rannsókna og vísinda. Í lok umsagnar ráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.“

Þetta sjáum við í hverju frumvarpinu á fætur öðru sem snertir vísindi, rannsóknir og háskóla.

Við munum engu að síður leggja okkur fram eins og alltaf við að fara málefnalega yfir frumvarpið, athugasemdir og þær athugasemdir sem okkur berast. Það skiptir öllu að við verðum áfram nokkuð samhent á þingi í uppbyggingu vísinda og rannsókna. Ég vona að svo verði. En þá verða menn líka að átta sig á því innan ríkisstjórnarinnar að ákveðnir ráðherrar þurfa aukinn stuðning í verkefnum sínum sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir okkur til lengri tíma litið. Það eru ráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokki vísinda og rannsókna, í þessu tilviki mennta- og menningarmálaráðherra. Það þarf að styðja við rannsóknir og vísindi með öflugri hætti en gert hefur verið á umliðnum árum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.