141. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2012.
vopn, sprengiefni og skoteldar, 1. umræða.
stjfrv., 183. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 184.

[17:17]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vopn, sprengiefni og skotelda. Hér er um að ræða heildarendurskoðun á gildandi vopnalögum sem verið hafa við lýði í 14 ár. Reynt hefur á ýmis atriði í túlkun laganna og tækni hefur fleygt fram, þjóðfélagið hefur tekið margvíslegum breytingum, jafnframt alþjóðlegt samstarf sem þessu tengist, þannig að það er ærið tilefni til að taka lagabálkinn til endurskoðunar.

Frumvarpið á sér langa sögu. Árið 2008 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra nefnd til að endurskoða vopnalögin og skilaði nefndin frumvarpi árið 2009 í hendur dómsmálaráðuneytisins. Það frumvarp sem ég mæli fyrir hér er að uppistöðu afurð þeirrar vinnu. Það er ástæða til að rekja söguna, en frumvarpið sem nú er mælt fyrir er talsvert ítarlegra en gildandi löggjöf.

Í II. kafla lagafrumvarpsins er gerð grein fyrir reglum er varða skotvopn og skotfæri, en með frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á skilyrðum fyrir veitingu leyfis til framleiðslu, innflutnings og verslunar með skotvopn og skotfæri. Í frumvarpinu er mælt fyrir um ákvæði um skotvopn og skotfæri sem miða að því að koma til móts við bókun Sameinuðu þjóðanna um ólöglega framleiðslu og dreifingu á skotvopnum, aukahlutum þeirra og skotfærum. Nefna má sem dæmi að framleiðanda verður skylt að setja auðkennisstafi, framleiðslunúmer, framleiðsluár o.fl. á skotvopnin.

Ekki eru lagðar til breytingar á þeim skotvopnum, skotfærum og búnaði sem bannaður er á hinu borgaralega sviði, ef svo má að orði komast, í gildandi lögum. Þannig verður áfram bannað að framleiða, flytja inn eða selja sjálfvirk vopn og hálfsjálfvirka riffla og skammbyssur, svo dæmi sé tekið. Undanþáguheimildir fyrir bönnuð vopn verða eftir sem áður áfram fyrir hendi og eru þær sambærilegar þeim undanþágum sem finna má í gildandi löggjöf en þó eru þær nokkuð þrengdar á ýmsum sviðum. Reynt er að sjá til þess að í þessum undanþáguheimildum séu skotveiðimönnum sem stunda skotfimi með hálfsjálfvirk vopn veittar heimildir til slíks. Frá því að frumvarpið kom upphaflega fram bárust okkur athugasemdir frá þessum aðilum og verður reynt að koma til móts við þá. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að aldurstakmark skotvopnaleyfis verði 20 ár eins og verið hefur og að leyfið gildi í 10 ár.

Ég vil nefna eitt í því samhengi og vísa til umræðu áðan um rannsóknarheimildir lögreglu, fregnir eru um að skammbyssueign hafi aukist og að þá þróun megi að einhverju leyti rekja til skipulagðra hópa sem skilgreindir eru sem brotahópar eða glæpahópar. Því er ástæða til að reyna að koma í veg fyrir vopnaeign og vopnaburð slíkra aðila. Í því samhengi er rétt að geta þess að skorður eru settar við því að fólk komi sér upp miklum vopnabúrum og hámarksfjöldi leyfðra skotvopna verður 20 skotvopn. Þó eru gefnar undanþágur ef um safn er að ræða.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um þau nýmæli að landsskrá skotvopna skuli vera tengd málaskrá lögreglu þannig að í málaskránni sjáist hvort aðili sem kærður er fyrir brot hafi leyfi samkvæmt lögunum. Enn fremur verður heimilt að veita leyfi fyrir hljóðdeyfi á stærri riffla með það að markmiði að vernda heyrn þeirra sem nota stóra riffla. Það er eitt af þeim atriðum sem breytt var við vinnslu málsins frá því að það kom fram upphaflega.

Þá er reynt að tryggja lögreglu upplýsingar um magnkaup á sprengiefni og íblöndurefni í sprengjur. Það er einnig nýtilkomið en sú breyting á frumvarpinu var sett inn eftir hryðjuverkaárásina í miðborg Óslóar í Noregi í júlí 2011 og í framhaldi af henni voru framin fjöldamorð eins og við þekkjum öll. Sérstaklega er verið að huga að níturkaupum en ammoníumnítrat er aðaluppistaðan í tilteknu sprengiefni sem notast var við í Noregi og hefur verið notað víðar. Hins vegar verður að huga að því að þorri fólks kaupir að sjálfsögðu áburð til að bera á garða og við sumarbústaði. Í slíkum tilvikum er að sjálfsögðu ekki um neitt misjafnt að ræða og mikilvægt að við gætum meðalhófs í þessu efni. Viðmiðunartalan varðandi áburðarkaup eru 500 kíló, hálft tonn.

Síðan má nefna ýmsa aðra þætti. Í frumvarpinu eru sett ákvæði um öryggi við skoteldum, að þeir þurfi að hafa tiltekna og strangari öryggisstaðla eða laga sig að strangari öryggisstöðlum en áður hefur verið. Hér erum við einfaldlega að taka upp reglur sem tengjast hinu Evrópska efnahagssvæði og við þurfum að laga okkur að því. Við erum búin að taka upp slíka skuldbindingu í hinni sameiginlegu EES-nefnd, það gerðum við í nóvember 2010 og erum að laga okkur að reglugerðunum með þessu frumvarpi.

Í V. kafla laganna er mælt fyrir um önnur vopn. Helsta breytingin sem lögð er til er að hefðbundnir bogar verði undanþegnir reglum laganna um framleiðslu, innflutning og vörslu. Það á ekki við um lásboga en þarna er aftur verið að reyna að koma til móts við íþróttamenn og skotfimi, einstaklingar sem stunda þá íþrótt með boga verða þá undanþegnir. Það er meginstefið í lögunum að reyna að koma til móts við slíkt.

Refsingar fyrir brot gegn vopnalöggjöfinni hafa verið hertar og varða nú allt að átta ára fangelsi ef um alvarlegt brot er að ræða.

Í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um svigrúm fyrir skotvopnaeigendur um að aðlaga sig að nýjum reglum er varða geymslu skotvopna en þarna eru skýrari reglur en verið hafa um örugga geymslu skotvopna.

Ég vil taka það fram að með frumvarpinu fylgir ítarleg greinargerð sem er aðgengileg öllum á netinu. Ég ætla ekki að hafa framsöguræðu mína lengri en vísa í þessa greinargerð. Ég legg áherslu á að málið fái síðan vandaða og ítarlega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis en lagt er til að málið gangi til hennar að lokinni þessari umræðu.



[17:25]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki með beina spurningu til hæstv. ráðherra heldur vil ég koma með smáathugasemd varðandi 19. gr. frumvarpsins. Þar er talað um þá sem eiga fleiri en 20 skotvopn. Sú undanþáguheimild sem talað er um í greininni er svolítið sérstök því að þar er sagt að um sé að ræða vopn sem hafi ótvírætt söfnunargildi svo sem vegna tengsla við sögu landsins. Ég veit ekki alveg hvaða vopn það geta verið en ég held hins vegar að taka verði mið af því í 19. gr. að það eru einstaklingar á Íslandi sem safna vopnum sem hafa söfnunargildi. Eðlilegt væri að gera frekar kröfu til þess hvernig búið er um þessi vopn í geymslu. Við verðum líka að gera greinarmun á glæpamönnum sem safna vopnum til að nota þau í illum tilgangi og þeim sem safna vopnum af áhuga eða einhverju þess háttar. Ég hvet nefndina til að skoða það mjög vandlega.

Sumt í þessu ágæta frumvarpi á nokkuð skylt við það mál sem við ræddum áðan sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir var 1. flutningsmaður að og varðar forvirkar rannsóknarheimildir. Ég tek undir með ráðherra þegar hann segir að markmiðið sé að herða refsingu, ég held að það sé til bóta. Ég er áhugasamur um að heyra hvernig menn ætla að leysa þetta með 500 kílóin og bændur, það verður skemmtilegt að fylgjast með því, en ég skil hins vegar hugsunina, hún er mjög góð.

Ég vildi vekja athygli á 19. gr. og hvetja allsherjar- og menntamálanefnd til að reyna að útfæra greinina með þeim hætti að þeir sem eru sannarlega safnarar og safna byssum verði ekki settir út á kant eða þá eignir þeirra hreinlega gerðar upptækar eða eitthvað slíkt, því að mér finnst ákvæðið um undanþágu ekki vera nógu skýrt.



[17:27]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar ágætu ábendingar. Ég held varðandi áburðinn, bændurna, hálfa tonnið og túlkun þeirra laga muni það ekki reynast erfitt, en ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um markmiðið.

Varðandi söfnin er, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, heimilt að veita undanþágu frá slíku.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Lögreglustjóri getur þó heimilað einstaklingi eða safni að eignast fleiri skotvopn og skotfæri fyrir þau, enda sé um að ræða vopn sem hafa ótvírætt söfnunargildi, svo sem vegna tengsla við sögu landsins. “

Ekki skilyrðislaust að það þurfi að vera tengsl þarna á milli en „svo sem“ við sögu landsins.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er eðlilegt að nefndin skoði þetta. Markmið okkar, mitt og hv. þingmanns, eru hin sömu. Ef hægt er að tryggja þetta með öðru og skýrara orðalagi finnst mér sjálfsagt að styðja slíkt.



[17:29]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka forseta fyrir að hleypa mér í ræðustól og þakka sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Ég ætla að í þessu máli sé pólitískur samhljómur. Við viljum hafa strangar reglur um skotvopn og að þeir sem fara með slík vopn fari með þau af ýtrustu varúð og umhverfið sé þannig sem og lög og reglur að misnotkun á þessum hættulegu verkfærum sé lágmörkuð.

Ég tek hins vegar undir þau orðaskipti sem hér voru á milli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og hæstv. ráðherra um 19. gr. Það tengist því sem ég tel mikilvægt í þessu máli; að á sama tíma og við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir að misfarið sé með skotvopn og að glæpamenn komist yfir vopn, skulum við líka hafa í huga að almenna reglan er sú að það fólk sem alla jafna fer með skotvopn — sem er fjöldi fólks, svo sem veiðimenn, íþróttamenn og aðrir — fer með þau af virðingu og með þeim hætti sem við viljum. Ég tel því mikilvægt að við tökum á öllu því sem snýr að glæpamönnum, svo það sé sagt, af fyllstu hörku til að vernda almenning í landinu en við skulum passa okkur á að fara ekki þannig fram að við séum fyrst og fremst að taka á þeim sem eru heiðarlegir og gera hlutina rétt.

Ég tel að það sé mjög auðvelt, þótt það útheimti vinnu, samráð og samvinnu, að ganga þannig fram að við náum báðum þessum markmiðum. Ég hef góð orð hæstv. ráðherra fyrir því að málið verði unnið þannig í nefndinni að þeir annmarkar sem eru á því, en málið hefur tekið breytingum eftir samráð, verði sniðnir af og að um niðurstöðuna geti orðið breið pólitísk samstaða. Ég trúi því og treysti að það sé vilji hæstv. ráðherra, sömuleiðis þeirra hv. þingmanna sem fara með málið, að vinna það þannig. Þá mun ég styðja það alla leið og af fremsta megni.

Ég tel mikilvægt að girða fyrir misbeitingu á skotvopnum eins og við mögulega getum, girða fyrir að glæpamenn komist yfir skotvopn, en við skulum samt sem áður ekki ganga þannig fram að við gerum því fólki sem á skotvopn og fer vel með þau algjörlega ómögulegt að eiga þau. Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að um skotvopn gilda strangar reglur og stundum eru reglurnar óþarflega íþyngjandi fyrir þá sem fara með skotvopn á þann hátt sem við viljum sjá.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra og hv. þingmenn séu sammála því að vinna málið í góðri samvinnu við þau samtök sem best þekkja til og hlakka til að taka þátt í þeirri vinnu.



[17:33]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir framlag hans til umræðunnar. Ég heyri að við erum öll á einu máli sem höfum tekið til máls í þessari umræðu. Markmiðið er ekki að þrengja að íþróttamönnum eða fólki sem stundar skotveiðar, fólki sem hefur ekkert misjafnt á samviskunni. Markmiðið er að koma í veg fyrir vopnaeign fólks sem hefur eitthvað óhreint í pokahorninu, það er hugsunin. Verið er að þrengja og skerpa á reglum sem þar gilda og refsingum að sama skapi þannig að hægt sé að beita þeim í slíkum tilvikum, það er meginhugsunin.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði og ég hef sagt fyrr við þessa umræðu, það er mikilvægt að nefndin fari vel yfir þetta. Mikið samráðsferli hefur átt sér stað en það kunna að vera brotalamir enn sem við þurfum að íhuga. Ég treysti því að nefndin geri það þannig að við getum öll vel við unað.



[17:35]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og er honum sammála. Ég vildi bara spyrja að einu svo að það sé skýrt. Við vitum að gallinn við glæpamenn er að þeir fara ekki að lögum. Þó svo að við búum til ofsalega fínan lagabálk skiptir það engu máli því að það hvarflar ekki að þeim að fara eftir þeim lögum frekar en öðrum. Þess vegna eru þeir glæpamenn.

Ég held að það skipti máli að hér komi fram að það sem við erum að gera er að tryggja að hér séu í gildi lög sem geri það að verkum að þegar við náum glæpamönnunum séu til staðar refsingar og annað slíkt til að hægt sé að stöðva þá. Er það ekki réttur skilningur, virðulegi forseti?



[17:35]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hárréttur skilningur, þetta er hugsunin að baki lögunum.



[17:36]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Gott.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.