141. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2012.
kosningar til Alþingis, 1. umræða.
frv. VBj o.fl., 55. mál (persónukjör þvert á flokka). — Þskj. 55.

[17:54]
Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Persónukjör, sem frumvarpið sem ég mæli nú fyrir fjallar um, er lýðræðisbót vegna þess að það veitir kjósendum meiri völd í kjörklefanum. Við persónukjör hafa kjósendur meiri áhrif á hverjar og hverjir veljast til þeirra starfa sem kosið er um en þeir hafa í dag. Möguleikar íslenskra kjósenda til að hafa áhrif á hvaða einstaklingar ná kjöri í kosningum eru minni en almennt tíðkast í löndunum í kringum okkur ef frá eru taldar kosningar til þings í Noregi.

Sumir gera lítinn greinarmun á prófkjörum og persónukjöri og segja hið síðarnefnda framlengja prófkjör fram á kjördag. Í mínum huga gera tvö veigamikil atriði það að verkum að ekki er hægt að leggja þetta tvennt að jöfnu. Í fyrsta lagi tel ég persónukjör vera réttindi sem beri að tryggja kjósanda í lýðræðisríki. Þess vegna er ekki forsvaranlegt að setja það í hendur stjórnmálaflokkanna að ákveða með hvaða hætti þessi réttindi eru veitt, þ.e. hvert er fyrirkomulag prófkjara. Í annan stað er stjórnmálaflokkunum það í sjálfsvald sett hvort þeir halda yfirleitt prófkjör eða ekki. Jafnvel þó að skráð sé í reglur flokkanna að halda skuli prófkjör liggur í augum uppi að tiltölulega auðvelt er að breyta því. Þeir sem ekki eru í flokknum, þ.e. óflokksbundnir, sem eru reyndar meiri hluti kjósenda, hefðu ekkert um það að segja.

Við þetta má bæta að í flestum tilfellum er þátttaka í prófkjörum bundin við þá sem skráðir eru í flokk eða lýsa yfir stuðningi við tiltekinn flokk. Þar með eru réttindi þeirra sem vilja vera óflokksbundnir eða halda pólitískum skoðunum fyrir sig minni en hinna að þessu leyti.

Vissulega eru margar aðferðir til við persónukjör. Í Finnlandi hefur kjósandinn einn kross sem hann notar til að merkja við eitt nafn og um leið gefur hann flokki frambjóðandans atkvæði sitt. Í Svíþjóð hefur kjósandinn ekki eins mikil áhrif en nokkur þó. Þar getur kjósandinn einnig notað einn kross, annaðhvort til að merkja við lista sem hefur verið raðað eða til að merkja við eitt nafn og lyfta þannig einum frambjóðanda upp, ef svo má að orði komast, en listinn fær náttúrlega atkvæðið líka. Frambjóðandi sem fær 8% atkvæða flokks síns sérstaklega merkt við sig nær kjöri hvar sem hún eða hann var á hinum raðaða lista.

Það fyrirkomulag sem lagt er til í þessu frumvarpi gengur lengra að því leyti að kjósandinn getur greitt frambjóðendum á fleiri en einum lista atkvæði sitt, þ.e. að hann getur valið frambjóðendur þvert á flokka. Samkvæmt frumvarpinu hefur kjósandinn um þrjá kosti að velja. Hann getur merkt við listabókstaf, enda fellir hann sig þá við þá röð sem fram hefur verið sett á röðuðum lista. Hann getur merkt við einn frambjóðanda, og nýtist þá atkvæðið þeim lista sem frambjóðandinn sem atkvæðið hlýtur á sæti á. Í þriðja lagi getur hann skipt atkvæði sínu á svo marga frambjóðendur sem fjöldi þingmanna í viðkomandi kjördæmi segir til um og þannig kosið einstaklinga af hvaða lista sem vera skal. Kjósi menn með þeirri aðferð skiptast atkvæði milli lista í þeim hlutföllum sem kjósandinn hefur ákveðið.

Í greinargerð með frumvarpinu er því lýst hvernig atkvæði reiknast listum og frambjóðendum. Setjum svo að atkvæði greidd lista skiptist þannig að 3.000 séu greidd listanum einum, en ekki merkt við frambjóðendur, en 3.300 atkvæði hafi verið greidd frambjóðendum listans persónulega. Samtalan er 6.300 atkvæði sem ráða því hversu mörg þingsæti listinn hlýtur. Niðurstaðan gæti verið sú að hún gæfi tvö þingsæti. Þrjú þúsund atkvæði greidd listanum skiptust sem persónuleg atkvæði á fjóra efstu menn listans. Þeir hinir sömu gætu hafa fengið einhver hinna 3.300 persónulegu atkvæða að auki. Hafi hins vegar frambjóðandi neðar á listanum fengið fleiri persónuleg atkvæði en samanlögð atkvæði einhvers þessara fjögurra efstu, þá flyst hann ofar og gæti hlotið kosningu.

Lýsingin verður nokkuð flóknari þegar kemur að því að atkvæði skiptist á milli flokka. Ég ætla samt að reyna að lýsa því aðeins. Dæmi er tekið af kjósanda sem kýs að skipta atkvæði sínu í tíu staði, sem er hámark þar sem þingmenn kjördæmisins væru fimm ef það dæmi er tekið. Kjósandinn hefur ákveðið að dreifa atkvæði sínu á milli lista. Listarnir hljóta þá þau brot úr atkvæði. Í því dæmi sem tekið er merkir kjósandinn við einn frambjóðanda á listum A og B sem hljóta þá 1/10 úr atkvæði hvor. Hann merkir við þrjá frambjóðendur á listum C og D sem fá þá 3/10 úr atkvæði hvor. Loks merkir kjósandinn við tvo af lista F sem fær 2/10 úr atkvæði. Samtals gerir þetta einn heilan og kjósandinn hefur jafnframt kosið tíu einstaklinga.

Ég ætla að víkja stuttlega að áhrifum persónukjörs á fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, um áhrif persónukjörs á endurnýjun á kjörnum fulltrúum og loks um persónukjör á kynjahlutföll kjörinna fulltrúa. Þetta eru atriði sem oft eru talin mótrök gegn því að taka upp persónukjör. Það liggur í augum uppi að flóknara verður að halda utan um fjármál flokka ef persónukjör er innleitt en ef stjórnmálaflokkar stilla upp á framboðslista á flokksskrifstofum. Mér þykir þó fráleitt að halda að erfiðara sé að hafa skikk í þeim efnum við persónukjör en við prófkjör eins og þau tíðkast hér á landi. Nýlega hafa styrkir til stjórnmálaflokka og skil frambjóðenda í prófkjörum á upplýsingum um fjármál verið í fréttum og til umræðu. Eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna þarf að vera í lagi, það á við hvort heldur persónukjör er leyft eða ekki. Persónukjör breytir í raun ekki nokkru þar um.

Því er haldið fram að endurnýjun verði minni og auðveldara sé fyrir þá sem fyrir eru að ná kjöri ef um persónukjör er að ræða en ef flokkarnir stilla upp. Rannsóknir hafa sýnt að sitjandi þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa meiri möguleika til að ná kjöri en nýliðar hvert sem kosningakerfið er. Þó hefur verið sýnt fram á að meiri endurnýjun á sér stað þegar listar eru bornir fram, þ.e. í hlutfallskosningum, en í einmenningskjördæmum. Einnig hefur verið sýnt fram á að endurnýjun er meiri í stærri kjördæmum en minni. Engar rannsóknir sem ég hef rekist á sýna að persónukjör hafi einhver sérstaklega neikvæð áhrif í þessum efnum. Eina leiðin til að tryggja endurnýjun er væntanlega sú að setja hámark á þann tíma sem fólk má gegna stöðum eða embættum sem kosið er til.

Loks um kynjahlutföll. Vangaveltur hafa verið uppi um hvort persónukjör hafi áhrif á hlut kvenna á þjóðþingum eða í sveitarstjórnum. Undirliggjandi tónn í þeim vangaveltum er oft að konur eigi frekar á brattann að sækja í persónukjöri en þegar flokkar ráða alfarið röð á listum. Réttilega er bent á að núverandi stjórnarflokkar hafi lagt mikla áherslu á sem jöfnust kynjahlutföll og sett sér reglur þar um og því megi alls ekki spilla. En það er nauðsynlegt í þessum efnum sem öðrum að halda sig við staðreyndir. Engar rannsóknir liggja fyrir á því hvort persónukjör hefur áhrif á hlut kvenna í kosningum til þings eða sveitarstjórna og því er í raun ekki til ákveðið svar við þessari spurningu. Bent hefur verið á að hlutur kvenna á þjóðþingum á Norðurlöndunum er mikill í samanburði við aðrar þjóðir og þar er persónukjör við lýði. Áhrif kjósandans á hverjir ná kjöri eru mikil í Finnlandi og nokkur bæði í Svíþjóð og Danmörku. Á þjóðþingi Írlands, þar sem persónukjör vegur þungt, er hlutur kvenna vissulega lítill en talið er að það megi frekar rekja til annarra þátta í írsku þjóðfélagi en kosningafyrirkomulagsins. Kjör Mary Robinson sem forseta Írlands hefur einmitt verið notað sem kennslubókardæmi um hvernig atkvæði nýtast í írska kosningakerfinu þar sem vald kjósandans í kjörklefanum er mjög mikið.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að spá fyrir um hvernig kjósendur muni nýta sér þann möguleika að kjósa fólk af hinum ólíku framboðslistum. Stjórnmálaflokkar standa auðvitað fyrir ákveðna lífssýn og frambjóðendur þeirra eru eða ættu að minnsta kosti að vera merkisberar hennar. En við þurfum að átta okkur á því að persónukjör er ekki fyrir stjórnmálamennina eða stjórnmálaflokkana, persónukjör er fyrir kjósendur. Einhverjir þeirra kunna að vilja velja fólk til starfa fremur en stjórnmálaflokka. Við eigum að gera þeim það kleift með því að afgreiða þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er í efnisatriðum samhljóða frumvarpi sem Vilmundur Gylfason flutti á Alþingi í febrúar árið 1983 eða fyrir rétt tæpum 30 árum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og miklar breytingar orðið í mörgum ef ekki flestum efnum. Ekkert hefur þó bifast í þeim efnum sem þetta frumvarp lýtur að, enda virðist það eiga við marga þá sem hafa starfað og starfa í þessum sal að þeir óttast mjög breytingar og þá ekki síst þær sem snerta þá sjálfa.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.



[18:06]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er lagt hér fram enn og aftur og hef ekki miklu við það að bæta. Þetta er auðvitað eitthvað sem mikið hefur verið kallað eftir í kjölfar hrunsins og ég rekst á þessa ósk á hverjum einasta degi. Þá kemur fólk til mín og segir: Mikið vildi ég óska þess að hægt væri að kjósa fólk en ekki flokka, út af því að það treystir bara einfaldlega sumum en ekki öllum innan flokkakerfisins. Ég held einmitt að þetta væri mjög falleg viðurkenning á manninum sem lagði þetta frumvarp fram fyrst hér á Alþingi fyrir hartnær 30 árum, viðurkenning á hans sýn, því að sá ágæti maður hafði ótrúlega sýn sem því miður hefur ekki enn náð kjölfestu hér inni en þetta er skref í rétta átt. Ég skora á Alþingi að samþykkja þessa tillögu í febrúar 2013.



[18:07]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp um persónukjör þvert á flokka sem ég styð að sjálfsögðu, er einn flutningsmanna. Ég ætla ekki að halda um þetta langa ræðu enda kannski ekki miklu við að bæta eftir ágæta ræðu 1. flutningsmanns. Ég vil minna á að í stjórnarsáttmálanum — sem ég á náttúrlega enga aðkomu að — sem er gerður á milli stjórnarflokkanna, er grein um að leggja skuli fram frumvarp um persónukjör. Það var gert, ef ég man rétt, haustið 2009 en þótti of skammt til kosninga til sveitarstjórna 2010, enda stóð heldur ekkert í stjórnarsáttmálanum um að samþykkja skyldi frumvarpið, það stóð bara að það ætti að leggja það fram. Ég vil nú eiginlega þakka 1. flutningsmanni þess fyrir að standa við þennan þátt stjórnarsáttmálans þrisvar í viðbót.



[18:09]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og snýr það að því að auka persónukjör.

Ég vil benda á að minn flokkur er sennilega fremstur allra flokka í prófkjörum. Í hvert skipti sem ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram hef ég þurft að höfða til tíu þúsund kjósenda og ná athygli þeirra og ég tel það vera mjög lýðræðislegt. Ég er mjög ánægður með að minn flokkur skuli standa svona framarlega í þessu. Aðrir flokkar hafa minna prófkjör, sumir hafa mjög lítið prófkjör, það eru bara níu manns einhvers staðar sem taka ákvörðun um að stilla upp lista, þannig að mér finnst frumvarpið til bóta.

Þeir sem hafa tekið þátt í prófkjörum vita að þar er barátta á milli einstaklinga og hún getur oft skilið eftir sig sár. Ég held að það sé ekki gott að flytja prófkjörin fram á kosningadaginn. Það væri miklu sniðugra að skoða þann möguleika að allir flokkar hefðu sameiginlegt prófkjör, segjum fjórum mánuðum fyrir kosningar, og þar berjist einstaklingarnir um athyglina innan hvers flokks og þar mætti kjósa líka, eins og hér er bent á, milli flokka ef menn hafa áhuga á einum í einum flokki og öðrum í hinum flokknum, en samanlagt eitt atkvæði. Þá mundu menn að sjálfsögðu reyna að hafa áhrif á þann flokk sem þeir ætla sér að kjósa seinna meir eða hafa mestan áhuga á að kjósa ef listinn verður þannig.

Það sem þessi hugmynd gengur út á er það að nýtt fólk á erfitt uppdráttar vegna þess að ekkert er sagt um það hvernig þessir listar eru upphaflega settir fram. Það getur bara verið gert í reykfylltum bakherbergjum einhvers staðar, að listinn er búinn til upphaflega. Svo hafa kjósendur val um það að raða innan þess hóps. En nýtt fólk, sem vill helga stjórnmálunum krafta sína, á erfitt með að komast inn með þessum hætti.

Ég legg til að fólk sem gengur í flokk og vill taka þátt í stjórnmálum, velji sér fyrst flokk og geti svo boðið sig fram, hver og einn einasti. Það er það sem við þurfum að opna fyrir að meira lýðræði sé í því hvernig fólk kemst upp í gegnum prófkjörin og getur komist inn á þing með þeim hætti. Ég ætla því að stinga upp á því við hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar að skoða þann möguleika að haldið verði sameiginlegt prófkjör allra flokka þar sem bara persónurnar eru valdar. Síðan kæmu venjulegar þingkosningar þar sem kjósendur eru í raun búnir að velja eða raða fólki á lista. Ég held að það yrði öllu skynsamlegra.

Ég má til með það, herra forseti, í þessu samhengi að nefna umræður undanfarið um bókhald og fjármál frambjóðenda. Ég verð að segja eins og er að þetta lítur út eins og núverandi þingmenn séu að verja hagsmuni sína, passa að það komi nú ekki fleiri inn, vegna þess að það er aldeilis fráhrindandi ef fólk ætlar að bjóða sig fram og er hótað með því að það þurfi að skila bókhaldi og öllu slíku í ljósi þess hvað það kostar að búa til bókhald. Það er ekki nóg að menn þurfi að standa straum af prófkjöri og öðru slíku og öllum kostnaði við það að bjóða sig fram, svo ná menn ekki kjöri og þá þurfa þeir að borga svona 200–300 þús. kr. í viðbót til þess að koma með endurskoðað bókhald.

Ég er nú ekki hrifinn af því að ríkið sé að taka þátt í að greiða kostnað, en fyrst ríkið gerir þessar kröfur til frambjóðenda finnst mér að það eigi líka að borga það, að ríkið eigi að borga bókhaldið og jafnvel að bjóða fram þá þjónustu, Ríkisendurskoðun hafi bara deild hjá sér þar sem maður getur hent öllum reikningunum inn og þeir ganga frá bókhaldinu. Mér finnst ekki lýðræðislegt að leggja kvaðir á frambjóðendur sem vilja helga þjóð sinni krafta sína, því að það getur verið að þeir komist ekki áfram. Ég bara sting þessu að fólki og mér finnst þessi umræða undanfarið vera virkilega þess eðlis að hún styrki þá þingmenn sem standa í þessari pontu, hún styrkir þá vegna þess að hún fælir annað fólk frá. Ég skora á allt fært fólk, klárt fólk, í landinu, sem hefur dugnað og metnað og menntun og önnur skilyrði, að bjóða sig fram, að finna sér fyrst flokk, ganga í hann og bjóða svo fram til þings, því að við þurfum að hafa sem mest framboð.



[18:14]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er í hópi þeirra þingmanna sem hafa haft efasemdir um gagnsemi þess að auka persónukjör. Það er ekki vegna þess að ég sé á móti breytingum eða óttist um eigin hag eða hafi einhverja hagsmuni til eða frá í slíku, nákvæmlega ekkert slíkt vakir fyrir mér eða hefur áhrif þar á. Reyndar verð ég að segja að mér þykir hálfhvimleitt þegar verið er að leggja upp með það að þingmenn sem hafi aðrar skoðanir en þeir sem mæla fyrir málum hafi eitthvað annað í raun og veru fram að leggja en málefnalega afstöðu til þess máls sem verið er að taka til umræðu.

Ástæðan fyrir því að ég er frekar efins um persónukjörið er að ég hef aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um persónupólitík. Ég er þeirrar skoðunar og segi enn og aftur, það hefur ekkert að gera með neina hagsmuni, fortíðarhyggju eða það að vera á móti breytingum, að persónukjör ýti í eðli sínu undir persónupólitík. Við þekkjum það í sjálfu sér á Íslandi.

Saga er til um það hér að áður en hið hefðbundna flokkakerfi myndaðist í landinu var kosið á einstaklingsgrunni ef svo má segja. Það sem gerðist var að inni í þinginu mynduðust klíkur, flokkar og hópar. Flokkamyndunin var ákveðið svar við þeirri stöðnun og þeirri læsingu sem átti sér stað meðal annars vegna þessa í þinginu. Ekki er alveg víst að það breyti mjög til hins betra, reyndar efast ég um það, stjórnmálalífi okkar Íslendinga að fara þá leið.

Ef ég man rétt, virðulegi forseti, var umræða um það í írskum stjórnmálum eftir efnahagsófarir þeirra og var eitt af því sem bent var á að vegna þess fyrirkomulags sem þar er meðal annars um persónukjör hafi stjórnmálamennirnir verið svo uppteknir af eigin frama í kosningum og stjórnmálum að þeir hafi ekki gefið nægan gaum að því sem var að gerast. Þá gætu talsmenn þess fyrirkomulags sem hér er verið að leggja til eðlilega spurt: En hvað með það sem hér var? Hvað með íslenska stjórnmálamenn í aðdraganda hruns? Lærdómurinn er þessi: Það er ekki trygging fyrir því að betur verði fylgst með eða öðruvísi gengið um valdið hvort sem hafðar eru listakosningar með því lagi sem við höfum eða persónukjör eins og við sjáum svo sem og er auðvitað til víða. En ég held að sá galli sé að líklegra verði að það ýti undir persónupólitík. Ég er ekki hrifinn af því. Ég tel einmitt að með flokkafyrirkomulaginu ýtum við stjórnmálunum meira í átt að spurningunni um meginsjónarmið, lífsskoðanir og stefnu, en í persónukjörinu sé meira ýtt undir persónuleika einstakra stjórnmálamanna, ímynd þeirra og það ýti stjórnmálalífinu meira í þá áttina.

Prófkjör eru ekki gallalaust fyrirbæri. Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti einmitt réttilega á að þau hafa galla. Fyrir dyrum standa fjölmörg prófkjör næstu vikurnar og mánuðina. Ég tel að lýðræðislegasta leiðin til að stilla upp á lista sé að þeir sem fylgja viðkomandi stjórnmálaflokki að málum, það séu þeir en ekki aðrir sem stilli upp þeirri sveit sem býður sig fram til Alþingis. Það séu þá þau sjónarmið ein að baki að stilla fram þeim einstaklingum sem mest fylgi hafa og sem bestir þykja til þess fallnir að sitja á þingi. Ég tel að það sé nægjanlegt aðgengi fyrir þá sem vilja hafa áhrif á það hvernig stjórnmálaflokkur stillir upp í kosningum. Það er opin og greið leið til að taka þátt fyrir þá sem vilja hafa áhrif. Það vantar ekkert upp á það. Reyndar er það svo og það er þekkt, þó að ég mæli ekki með því, að menn taki meira að segja þátt í prófkjöri fleiri flokka en bara eins eða tveggja, ég mæli ekki með því en sú leið er til.

Síðan er ég líka þeirrar skoðunar að það muni breyta ásýnd kosningabaráttu hjá okkur ef þessi leið væri farin. Ef farin væri sú leið að kosningabaráttan sé ekki bara barátta stjórnmálaflokkanna um hug og hjörtu kjósenda heldur séu það líka einstaklingarnir að berjast um það í hvaða sæti þeir lenda, hvar í röðinni þeir lenda, þá tel ég einsýnt að það muni hafa töluverð og mótandi áhrif á kosningabaráttu, eðli hennar og uppbyggingu. Enn og aftur, virðulegi forseti, ég er ekki viss um að það verði af hinu betra að kastljósið beinist að einstaklingunum, kostum þeirra og göllum, fremur en meginsjónarmiðum og málflutningi stjórnmálaflokkanna.

Það er ekki þannig að við Íslendingar höfum fundið upp hið eina rétta kosningakerfi. Það er alveg eðlilegt og sjálfsagt mál að velta því upp hvernig við stöndum að því. Við höfum verið að breyta á undanförnum áratugum, ekki í neinum stórum stökkum, kosningakerfi okkar, aðlaga það breyttri búsetu í landinu o.s.frv. Þegar prófkjörin komu inn breyttu þau, tel ég, til hins betra og færðu vald frá forustumönnum flokkanna til flokksmanna. Ég held að það hafi verið af hinu betra. Ég held að það hafi ekki verið neitt sérstaklega eftirsóknarvert að það væri ákveðið, eins og kallað er stundum í reykfylltum bakherbergjum, hverjir það væru sem ættu að skipa sæti á framboðslistum, það væri ákvörðun fárra en ekki margra.

En prófkjörin eru ekki fullkomin. Af því að hér var einmitt rætt um fjárhagslega hlið þeirra þá er það alveg rétt að eftir því sem kjósendum og fólki hefur fjölgað í landinu og kjördæmin eru stærri og samvinna hefur aukist, þá hefur kostnaður við að hafa samband við kjósendur líka aukist.

Vandinn er sá að fyrir þá sem fyrir eru á fleti, þeir sem eru á þingi eða eru þekktir einstaklingar, oft og tíðum úr stétt fjölmiðlamanna, þurfa líka á því að halda að kynna sig, þeir hafa ræðustól þingsins eða eru starfandi í fjölmiðlum. En of harðar reglur, of miklar takmarkanir á kostnaði við prófkjör geta komið harðast niður á þeim sem eru að hefja sinn stjórnmálaferil. En, virðulegi forseti, þær breytingar sem hafa verið gerðar, og það skiptir verulega miklu máli, gera þá ríku kröfu að framlög séu birt, að fyrir liggi hverjir styðja einstaka stjórnmálamenn. Það var grundvallarbreyting sem skiptir verulega miklu. Hún hefði mátt koma fyrr. Eins að sett séu ákveðin takmörk fyrir því hversu há fjárframlög mega vera frá einstökum aðilum til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka.

Ég minnist þess að Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í umræðum um þessi mál, í aðdraganda lagabreytingarinnar 2007, að lögaðilum yrði ekki heimilað að styðja stjórnmálaflokka. Með öðrum orðum, fyrirtæki mættu ekki láta fé af hendi rakna til stjórnmálaflokka eða til stjórnmálamanna í framboði. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekki verið galin hugmynd og segi við stjórnmálaflokkana og stjórnmálamennina: Það eru ykkar flokksmenn, einstaklingarnir sem einir mega láta fé af hendi rakna og þar með draga úr þeirri hættu að fyrirtæki væru að reyna að kaupa sér aðgang að stjórnmálaflokkum eða stjórnmálamönnum.

Virðulegi forseti. Þess vegna er ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, frekar andvígur því að fara í þá átt sem hér er lagt til, áttina að auknu persónukjöri Ég tek eftir því að í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Í máli innanríkisráðherra hefur komið fram að ekki verði lagt fram frumvarp um persónukjör á þessu þingi. Þingmenn hafa því ákveðið að leggja fram frumvarp þetta, sem er ólíkt stjórnarfrumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi að því leyti að með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að kjósendur geti valið frambjóðendur þvert á flokka.“

Þeir sem að þessu standa eru þingmenn annaðhvort úr Samfylkingunni eða Hreyfingunni, nema hv. þm. Þráinn Bertelsson sem er í Vinstri grænum. Ég rek augun í þetta sem segir mér að ekki hafi náðst samstaða milli stjórnarflokkanna um einhverjar svona breytingar. Og ég verð að segja að ef við ætlum okkur að gera breytingar á kosningalöggjöfinni skiptir máli að góð samstaða sé um slíkar breytingar. Eins og ég segi, ég rek augun í það sem kemur fram í greinargerðinni og bregður kannski ákveðnu ljósi á baksvið þessa máls.



[18:25]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki sammála þingmanninum um öll efnisatriði þessa máls. Ég tel að persónukjör séu af hinu góða því að þau auka völd og valkosti kjósenda og þá sérstaklega þvert á flokka.

Mig langar hins vegar aðeins að taka undir með honum í umræðu um fjármögnun á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum fyrir prófkjör. Mér þótti mjög vænt um að heyra hann tala um þá hugmynd að banna algerlega styrki frá lögaðilum til stjórnmálahreyfinga. Lögaðilar hafa ekki kosningarrétt og lögaðilar hafa ekki heldur skoðanir en lögaðilar geta haft hagsmuni og mér finnst það bjóða hættunni heim að lögaðilar styrki stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka.

Mér finnst ríkið líka leggja of mikið fjármagn í stjórnmálaflokka. Því velti ég fyrir mér hvort þingmaðurinn sé sammála mér um það að við þurfum að finna leiðir til að koma skilaboðum stjórnmálaflokka á framfæri sem kosta minna og þurfa minna fjármagn þannig að ekki þurfi að leita í digra sjóði fyrirtækja og ekki þurfi að fjármagna kosningabaráttu með ríkisfé. Og þar með væri aðstöðumunur minni og stærri munur gamalla og nýrra framboða jafnaður að einhverju leyti.



[18:27]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi persónukjörið. Við erum þá bara ósammála um það, ég og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir. Ég er þeirrar skoðunar og hef áhyggjur af því að persónukjör ýti undir persónupólitík og tel að það sé ekki æskilegt en um það má auðvitað deila.

Hvað varðar fjármál flokkanna þá var það svo að þær hugmyndir komu fram frá sjálfstæðismönnum. Þær hlutu ekki brautargengi eða hljómgrunn og þess vegna sér þess ekki stað í lögum að banna lögaðilum að styrkja stjórnarflokkana en ég held að það sé þess virði að skoða það.

Það sem skiptir miklu í því sem hv. þingmaður bendir réttilega á er aðstöðumunurinn á milli nýrra framboða og þeirra sem á fleti eru fyrir. Ég hef af því áhyggjur. Það er ekki eðlilegt að þeir sem koma nýir, stofna flokka eða hreyfingar, og bjóða sig fram til þings standi frammi fyrir því að þeir þurfi í það minnsta að ná, ef ég man þessa reglu rétt, tökum á 5% fylgi til að fá greitt frá ríkinu þannig að ef lagt er af stað og ekki næst það fylgi þá standa viðkomandi flokkar eða hreyfingar uppi með þann kostnað.

Síðan er það hitt að þeir sem eru fyrir, stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á þinginu, eru betur fjármagnaðir og fara betur fjármagnaðir inn í kosningabaráttuna. Og fjármagn skiptir máli í kosningabaráttu. Þetta er til þess fallið að skekkja lýðræðið.

Ég bendi á grein sem birt var í Morgunblaðinu eftir Sigríði Hallgrímsdóttur þar sem rifjuð var upp grein eftir hv. fyrrverandi þingmann, Eyjólf Konráð Jónsson, þar sem hann viðraði einmitt áhyggjur sínar af því að ef of langt yrði gengið í átt að því að ríkið styrkti flokkana þá væri lýðræðinu nokkur hætta búin.



[18:29]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Mér þótti gaman að heyra þetta svar frá þingmanninum. Það er reyndar þannig í nýjustu gerð kosningalaganna að öll framboð sem bjóða fram á landsvísu fá greiðslu úr ríkissjóði upp að lágmarki 3 millj. kr. þótt þau nái ekki kjöri gegn framlögðum reikningum. Þau geta því nokkuð örugg eytt 3 milljónum samkvæmt nýjustu lagabreytingu.

Mig langar að velta upp hvaða leiðir þingmaðurinn sér til að koma í veg fyrir þann gífurlega kostnað sem stjórnmálaþátttaka felur í sér. Ég hef lagt til að stjórnmálaflokkar auglýsi ekki í ljósvakamiðlum. Það eitt er gríðarlega kostnaðarsamt, en það sem mér finnst eiginlega meiri galli á því er að sú umræða sem þar fer fram er oft gífurlega yfirborðskennd. Hún er ekki sprottin upp úr grasrót flokksins, hún snýst ekki um hugsjónir, hún er búin til á auglýsingastofu. Ég hef starfað við að búa til kynningarefni og auglýsingarefni og ég veit hvernig það er. Það á ekkert skylt við hugsjónir, hugsunarstarf eða lífsskoðanir. Það er búið til eitthvað sem hljómar vel.

Hvað finnst þingmanninum um það að takmarka auglýsingar í ljósvakamiðlum?



[18:31]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur reyndar verið þannig að flokkarnir hafa oft og tíðum náð samkomulagi fyrir kosningar um takmarkanir á auglýsingakostnaði, sérstaklega í ljósvakamiðlum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, þær eru mjög dýrar. Þess vegna er ágætt sem Ríkisútvarpið hefur gert að bjóða flokkunum ákveðinn tíma til ráðstöfunar sem flokkarnir geta nýtt að sinni vild og það má auðvitað skoða að gera meira af slíku. Það er meðal annars hlutverk Ríkisútvarpsins sem við rekum fyrir almannafé að tryggja að lýðræðið sé virkt og hluti af því er að tryggja að öll sjónarmið, líka sjónarmið nýrra framboða og minni flokka fái að heyrast og fái eðlilegan aðgang að kjósendum.

Því miður sé ég enga lausn á því hvernig eigi að draga úr kostnaði við stjórnmálaþátttöku í nútímaríkjum. Þetta er ekki bara vandamál hjá okkur Íslendingum, þetta er alþekkt í öllum lýðræðisríkjum. Vandinn er að það að koma skilaboðum til fólks er bæði flókið, erfitt og kostnaðarsamt. Og eftir því sem kjósendur eru fleiri því dýrara er það.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður bendir á. Af því að það er svo erfitt að koma skilaboðunum áleiðis er reynt að einfalda þau og stundum um of þannig að umræðan bíður stóran skaða af. Því miður á ég engin góð svör við þessu önnur en þau að ég held að í okkar fámenna samfélagi sé það þó þannig að við höfum betri tækifæri til að eiga innihaldsríkar umræður um stjórnmál, bæði í fjölmiðlum, greinaskrifum og svo hér á Alþingi en kannski er mögulegt í milljóna, tugmilljóna, jafnvel hundrað milljóna manna samfélögum. Við eigum að nýta okkur það vegna þess að það er nefnilega ekki alltaf galli að vera fámenn þjóð. Það getur verið stór kostur. Það var einmitt í tiltölulega fámennu borgríki á Grikklandi þar sem vagga lýðræðisins var.



[18:33]
Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið til máls um þetta efni. Ég kem fyrst og fremst að því sem kom fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég hef aldrei viljað gera mikið úr þeim særindum sem verða af því að einn vinnur annan eða kjósendur taka einn fram yfir annan í prófkjörum. Ég held að það yrði ekki breyting á því þótt kosið yrði á milli manna eða valið á milli manna á listum á kjördag. Það verða líka særindi í pólitík ef uppstillingarnefnd tekur einn fram yfir annan. Það vilja fleiri komast að en geta og sama hvort um er að ræða prófkjör, uppstillingu eða ekki. Við komumst aldrei hjá því að einhverjum finnst hann eða hún skilin út undan af einhverjum ástæðum.

Ef ég kem inn á ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar þá erum við náttúrlega einfaldlega ósammála í þeim efnum. Hann heldur því fram að kjör af því tagi sem hér er talað fyrir breytist meira yfir í persónupólitík en þá pólitík sem við þekkjum. Prófkjörin eru náttúrlega líka persónupólitík og ég sé ekki að gallinn sé meiri í því kerfi sem hér er mælt fyrir.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við það yfirlæti sem gjarnan kemur fram þegar minnst er á að þingmenn eru almennt íhaldssamir. Það er bara staðreynd, þeir eru það og eru almennt íhaldssamir á það kerfi sem við búum í. Það er ekkert öðruvísi með þingmenn, virðulegi forseti, en annað fólk, flestir eru svolítið íhaldssamir á það umhverfi sem þeir þekkja og lifa í. Það er ekki þar með sagt að þingmenn séu með þeirri íhaldssemi að verja einhverja hagsmuni, verja sig eða hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Þegar bent er á að við í þessum sal séum íhaldssöm á að breyta miklu í kringum okkur vil ég gera athugasemdir við að þá sé verið að ýja að því að stjórnmálamenn séu að verja sinn hag á einhvern hátt og séu með eitthvað óhreint í pokahorninu.

Við hv. þm. Illugi Gunnarsson erum hjartanlega sammála um að prófkjörin voru til batnaðar og breyttu pólitíkinni mikið til batnaðar, um það erum við sammála.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil þó segja að þetta frumvarp er lagt fram af okkur tólf þingmönnum og mér finnst það líka lýsa þessari óskaplegu ímyndun sem oft ríkir hér að segja að það þýði að eitthvað mikið sé á seyði af því að það eru „bara“ þingmenn Samfylkingar og Hreyfingar á málinu (Gripið fram í: Vinstri grænna.) og þar með þurfi að lesa einhvern draugagang út úr því. Ég vil taka fram að svo er ekki, virðulegi forseti.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.