141. löggjafarþing — 20. fundur
 17. október 2012.
störf þingsins.

[15:02]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur að undanförnu fjallað um meðferð kynferðisbrotamála á Íslandi og er ljóst af þeirri umfjöllun að brýn þörf er á úrbótum í þeim málaflokki. Kynferðisbrotum á Íslandi hefur fjölgað verulega á undanförnum fimm árum en fjöldi sakfellinga hefur staðið í stað. Tíðni kynferðisbrota hér á landi er með því hæsta sem gerist á Norðurlöndunum.

Það er mikilvægt að fram komi að ánægja var meðal þeirra aðila sem við töluðum við á fundum okkar með vinnu starfsfólks lögreglu og saksóknara en ljóst er að þau embætti anna ekki þessum málum sem skyldi og kynferðisafbrotamálin mæta afgangi þegar önnur alvarleg ofbeldisbrot koma inn á borð lögreglunnar.

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar og ríkissaksóknari hafa sett sér viðmið um að rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála taki að jafnaði ekki lengri tíma en 1–2 mánuði en reyndin er sú að rannsókn slíkra mála tekur 12–24 mánuði. Ég tel að við getum ekki boðið þolendum kynferðisbrota upp á þennan langa málsmeðferðartíma og hann er í einhverjum tilvikum farinn að spilla málum og draga úr líkum á því að þau endi fyrir dómi.

Ég vil einnig draga fram þau áhrif sem klámvæðingin hefur á þennan málaflokk. Við áttum í morgun fund með Gail Dines, prófessor frá Bandaríkjunum, sem talaði á ráðstefnu innanríkisráðuneytisins í gær. Það sem stendur upp úr eftir þann fund er sú niðurstaða að klámefni á vefnum er orðið áhrifaríkasta form kynfræðslu í samfélagi okkar gagnvart börnum og ungmennum. Klámið verður sífellt grófara og líkist æ meir svæsnum pyndingum. Þeir aðilar sem hafa mest áhrif á kynferðislegt uppeldi og sjálfsmynd barna og ungmenna hér á landi og á Vesturlöndum eru framleiðendur klámefnis í Los Angeles í Bandaríkjunum. Ljóst er að klám er þegar farið að hafa áhrif á gerendur í kynferðisbrotamálum hér á landi, þar með talið ungmenni á aldrinum 12–18 ára.

Ég vona að allsherjar- og menntamálanefnd muni freista þess að ná þverpólitískri (Forseti hringir.) samstöðu um aðgerðir til að bregðast við þeirri stöðu til að stemma stigu við (Forseti hringir.) klámvæðingunni á sama tíma og við freistum þess að meðferð kynferðisbrotamála fái aukinn forgang í réttarkerfinu.



[15:04]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni Ríkisendurskoðunar hafa verið til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ljóst er af þeirri umræðu þar að ekki ríkir mikið traust hjá meiri hluta nefndarinnar til embættisins eins og er, sem er mjög vont bæði fyrir þingið og starfsmenn þeirrar stofnunar. En í tilefni af því er tvennt sem mig langar til að nefna sem gæti skipt máli til að koma þessum hlutum hugsanlega í lag.

Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja hvað líði vinnu við endurskoðun á lögum um Ríkisendurskoðun. Ég held að hún sé búin að vera í gangi í einhvern tíma og væri fróðlegt að vita hvernig sú vinna gengur og hvort þingmenn fái þá endurskoðun á sitt borð innan ekki of langs tíma.

Í öðru lagi langar mig til að beina því til forseta þingsins að það er eiginlega orðið bráðnauðsynlegt að setjast niður og ræða hvernig á að haga samskiptum þingsins við Ríkisendurskoðun. Nú eru þrjár nefndir að vasast í málefnum embættisins, þ.e. forsætisnefnd, fjárlaganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er líklegt að allar hafi nefndirnar hlutverki að gegna en það þarf að fastsetja hver á að leika hvaða hlutverk. Ég vona að forseti efni til fundar um hlutverkaskipan innan skamms.



[15:06]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Sem formaður nefndar um endurskoðun á lögum um Ríkisendurskoðun vil ég segja og svara hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að störf nefndarinnar ganga samkvæmt áætlun. Vonandi verður hægt að leggja fram drög í byrjun nóvember og þá verður viðkomandi þingnefndum falið að fara yfir þau og vera í samráði við nefndina við afgreiðslu málsins. Hlustað verður eftir þeim hvatningaróskum sem hv. þingmaður bar fram.

Hæstv. forseti. Ég bað um orðið undir þessum dagskrárlið út af öðru tilefni og það er vegna aðgengis að kjörstöðum. Þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum næstkomandi laugardag. Árið 2005 var gerð könnun á aðgengi að kjörstöðum úti um allt land hjá öllum sveitarstjórnum. Atkvæðagreiðslur fara í flestum tilfellum fram í skólum landsins og mikilvægt er, ekki bara fyrir nemendur heldur líka aðra, að aðgengi sé fyrir alla, sama hvort það er í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn, sveitarstjórnarkosningum eða alþingiskosningum.

Í þeirri könnun sem var gerð 2005 kom í ljós að það voru frekast til minni sveitarfélög sem ekki höfðu aðgengismálin í lagi. Ég vil því hvetja öll sveitarfélög og kjörstjórnir að fara yfir þessa þætti og gera þá bráðabirgðaráðstafanir til að aðgengi sé fyrir alla, fólk með fötlun og aldraða til að nýta kosningarrétt sinn, og þá til framtíðar að gera öllum kleift að taka þátt í lýðræðislegu starfi og að þessir þættir séu í lagi, ekki bara fyrir nemendur heldur líka þá er sækja þurfa kjörstaðina.



[15:08]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Húsnæðiskostnaður fjölskyldnanna er sífelldur vandi. Margt hefur verið gott gert eftir hrun en vandinn er ekki bara hruntengdur heldur kerfislægur á ýmsan hátt. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, bendir á það í Fréttablaðinu í dag að frá aldamótum, fyrir hrun og eftir hrun, hafa vextir af nýjum húsnæðislánum verið tæplega þrefalt hærri á Íslandi en að meðaltali á evrusvæðinu. Munurinn er upp á 7,8 prósentustig, samtals 117 milljarðar sem jafngildir um 17% ráðstöfunartekna á meðalfjölskyldu.

Helsta skýringin er auðvitað óstöðugur sveifluhvatagjaldmiðill hér á landi og þeir sem vilja halda í hann þurfa að skýra fyrir okkur hvaða kosti hann hefur svo mikilvæga að afsaki þennan krónuskatt úr heimilisbókhaldinu fyrir utan allan annan kostnað sem við höfðum af þeim gjaldmiðli.

Ólafur Darri bendir hins vegar á að sjálft húsnæðiskerfið geti átt hlut að máli. Hagfræðingurinn segir, með leyfi forseta, „að frá árinu 2004 hefur álagið sem Íbúðalánasjóður leggur á lánin fjórfaldast og er nú 1,4 prósentustig eða sem nemur um þriðjungi af vöxtunum! Fyrir lántakanda sem skuldar 20 milljónir jafngildir þetta álag 280 þúsund krónum í aukavexti á ári.“

Ólafur Darri bendir á að meðan við bíðum eftir evrunni geti verið ráðlegt að líta í kringum sig og nefnir danska kerfið sem þrífst við lægri vexti og gæti hjálpað til að hætta við verðtryggingu á húsnæðislánunum. Ég hvet hv. þingmenn, einkum þá sem sitja í velferðarnefnd til að kynna sér þetta og vitna í afar viðeigandi lokaorð Ólafs Darra, með leyfi forseta:

„Er ekki líklegra að við náum árangri ef við hættum upphrópunum í vaxtamálum og eilífri leit að töfralausnum og förum þess í stað að skoða hvað við getum lært af þeim sem hvað bestum árangri hafa náð í að byggja upp lánamarkað sem tryggir húskaupendum hagstæðustu kjörin?“



[15:10]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á ríkisstjórnarfundi í ágúst sl. ræddi hæstv. menntamálaráðherra stöðu framhaldsskólanna og fyrirsjáanlegan rekstrarvanda nokkurra þeirra á yfirstandandi skólaári. Á þeim fundi var ítrekuð sú stefna stjórnvalda að öll ungmenni sem uppfylla skilyrði fái inngöngu í framhaldsskólana. Skólum verði ekki gert að fækka nemendum og segja upp starfsfólki vegna rekstrarvanda á árinu 2013.

Í framhaldinu var lagt til við samningu fjáraukalagafrumvarps að veittar yrðu 140 millj. kr. til að mæta þeim skólum sem verst eru settir í ár og unnið er að breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013. Opnun framhaldsskólanna fyrir atvinnuleitendum hefur borið góðan árangur og stjórnendur og starfsfólk framhaldsskólanna hafa unnið afar vel úr erfiðri stöðu sem skólunum var komið í ásamt öllum öðrum ríkisstofnunum eftir efnahagsáfallið. Stofnanirnar allar og starfsmenn þeirra hafa haldið uppi góðri þjónustu ásamt því að glíma við afleiðingar hagstjórnarmistaka áranna fyrir hrun. Af fagmennsku hafa starfsmenn sinnt skjólstæðingum sínum afar vel við vægast sagt krefjandi aðstæður og fyrir það ber að þakka.

Því verður að líta það alvarlegum augum ef álitamál á milli einstakra framhaldsskóla og ráðuneytis vegna tæknilegra atriða er varða reiknilíkan verður til þess að hótað sé að 200 nemendur á því svæði sem einna verst hefur orðið úti eftir efnahagshrunið fái ekki inngöngu í framhaldsskóla svæðisins. Slíkar upphrópanir hljóta að hafa slæm áhrif á nemendur, starfsfólk skólans og samfélagið í heild og verður að reka aftur til föðurhúsanna hið snarasta. Krefjast verður þess að menntamálaráðuneytið og stjórnendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja finni lausn á álitamálunum og frá menntamálaráðuneytinu, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hæstv. ríkisstjórn komi skýr skilaboð um að ungmennum á Suðurnesjum verði ekki frekar en öðrum ungmennum á landinu meinuð skólavist á næsta skólaári, enda væri það í hróplegu ósamræmi við stefnu stjórnvalda og kæmi aldrei til greina.



[15:13]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Marðar Árnasonar að velferðarnefnd þurfi að halda áfram að fjalla um málefni Íbúðalánasjóðs. Nefndin hefur verið að funda með Íbúðalánasjóði en það er hins vegar sláandi að sjá fyrirsögn núna á vefmiðlum um að stjórnvöld hafi tvær vikur til að bjarga sjóðnum, tvær vikur, annars verði hann ófær um að standa við skuldbindingar sínar.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér erum við ekki að tala um neina smáupphæðir. Ef Íbúðalánasjóður getur ekki staðið í skilum þá erum við að tala um skuldbindingar, sem hingað til hefur verið litið á að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir, sem eru 700–800 milljarðar. Það eru gífurlegar upphæðir, fleiri hundruð milljarðar sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir gagnvart Íbúðalánasjóði.

Hér er bent á að eiginfjárhlutfall sjóðsins sé komið í 1,4% en ætti að vera 5% að lágmarki og stjórnvöld þurfa náttúrlega að svara því skýrt hvort þau ætli ekki að leggja sjóðnum til aukafjármagn.

Hvað varðar hins vegar umræðuna um vaxtaálagið hjá Íbúðalánasjóði eða þau vaxtakjör sem þar er verið að bjóða, þá held ég að mjög brýnt sé að forsvarsmenn og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar skoði frekar ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, líkt og við framsóknarmenn leggjum til að verði gert í frumvarpi okkar um að setja þak á verðtrygginguna og leita leiða til að lækka vexti. Það held ég að sé algert lykilatriði því að þeir sem hafa fyrst og fremst verið að fjármagna Íbúðalánasjóð eru lífeyrissjóðirnir. Og ef maður skoðar vaxtamuninn á milli Íslands og nágrannalanda okkar virðist hann einmitt liggja sirka á þessum 3,5% sem hafa verið viðmiðið varðandi ávöxtun lífeyrissjóðanna, 3,5%–4%. Það er því mjög brýnt að það verði skoðað samhliða.



[15:15]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðuna um ríkisendurskoðanda. Hér kom formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, og ákallaði forseta þingsins hvað það varðar hvernig samskiptum við ríkisendurskoðanda skuli háttað hjá þinginu. Í mínum huga er þetta alveg skýrt. Stjórnskipun ríkisins liggur fyrir og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þinginu ber að hafa samskipti við þessa stofnun. Hér er verið að persónugera þau vandamál sem hafa legið fyrir undanfarnar vikur vegna þess að dráttur varð á skýrslu þrátt fyrir að þingmenn liðinna átta til tíu ára hafi samþykkt fjárlög á hverju einasta ári er lúta að því kerfi sem deilan stendur um.

Hér er boðað og kallað eftir því hvenær og hvernig eigi að breyta lögum um ríkisendurskoðanda. Ég vil benda á, frú forseti, að það að leysa vandamál dagsins í dag þýðir ekki að breyta þurfi lögum í framtíðinni. Við störfum eftir þeim lögum sem Ríkisendurskoðun byggir á. Þannig ber að leysa málið. En hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur kosið að koma fram í fjölmiðlum og lýsa yfir fullkomnu vantrausti á ríkisendurskoðanda sjálfan.

Það minnir mig á það að alþingismenn og Alþingi sjálft ber skyldur, frú forseti, því að hér höfum við tvær samliggjandi eftirlitsstofnanir Alþingis, umboðsmann Alþingis og ríkisendurskoðanda. Ríkisendurskoðandi fer yfir fjárlögin en umboðsmaður Alþingis yfir ágalla á lögum. Ég vil minna á það, og kalla eftir úrbótum, að Alþingi sjálft og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur ekki afgreitt frá sér, eins og ber samkvæmt lögum, undanfarnar þrjár skýrslur umboðsmanns Alþingis, ársskýrslu 2008, 2009 og 2010. Heitir þetta ekki að kasta steinum úr glerhúsi?



[15:17]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég óska eftir því að eiga orðastað við hv. þm Björn Val Gíslason, formann fjárlaganefndar. Fyrir þremur árum ákvað ríkisstjórnin án rökstuðnings að hætta fjárveitingum til refaveiða þrátt fyrir að sýnt hefði verið fram á að tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts af hlutdeild sveitarfélaganna væru hærri en heildarútgjöld ríkisins vegna refaveiðanna.

Þegar fjárlög voru samþykkt það ár ákvað fjárlaganefnd hins vegar að breyta tillögu hæstv. umhverfisráðherra og setti inn fjármagn til refaveiða. Ári síðar, þ.e. fyrir tveimur árum, kom hæstv. umhverfisráðherra með sömu tillögu þess efnis að hætt yrði fjárveitingum til refaveiða. Fjárlaganefnd sem þá var ákvað að breyta því ekki.

Nú sjáum við að refastofninn hefur á síðustu 30 árum tífaldast að stofnstærð. Fuglalíf er víða orðið mjög lítið og það er orðið mjög lítið af mófugli, til að mynda á Ströndum, Hornströndum og í fleiri héruðum. Við erum líka að fá af því fréttir norðan úr landi og af Norðvesturlandi að refur sé farinn að ganga í lifandi fé sem var fast í fönn vegna óveðurs þar í síðasta mánuði. Það er alveg ljóst að gríðarlegt tjón er að verða af þessum völdum.

Sveitarfélög sem hafa sent inn umsagnir um fjárlagafrumvarpið hafa mörg hver verið að biðla til fjárlaganefndar um að breyta um kúrs, hefja á ný fjárveitingar til refaveiða, til þessa málaflokks. Þetta höfum við líka orðið vör við í kjördæmaviku á fundum með sveitarstjórnum vítt og breitt um landið þar sem þingmenn eru hvattir til að taka þessi mál upp og beita sér fyrir því að fjárveitingar verði hafnar á ný til refaveiða þannig að halda megi stofnstærð refsins innan eðlilegra marka.

Mig langar að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason hver skoðun hans sé á þessum málum, hvort þingheimur og þjóðin geti treyst því að fjárlaganefnd sé að skoða þetta mál og (Forseti hringir.) hvort hann eigi von á því að fjárveiting til refaveiða verði lögð fram við 2. umr. fjárlaga síðar í haust.



[15:20]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið til umræðu lengur en ég hef setið á þingi. Ég hef verið í samskiptum við forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna þessa máls að undanförnu með það í huga að reyna að leysa þetta til frambúðar. Í þeim samtölum sem ég hef þar átt hefur komið fram að undan þessu hefur verið kvartað í allmörg ár og síðast held ég að framlög til þessa málaflokks hafi verið lækkuð talsvert í fjárlögum 2008. Þar áttu sér stað einhver samtöl milli sveitarstjórnarmanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og stjórnvalda hins vegar. Síðan gerist það í kjölfar efnahagshrunsins að niðurskurður til þessara mála varð allnokkur.

Það er fullur vilji til þess af minni hálfu í það minnsta, og ég held að einnig sé einhugur um það í fjárlaganefnd, að við þurfum að bregðast við þessum þáttum með einhverjum hætti. Eins og réttilega kom fram hjá hv. þingmanni og fyrirspyrjanda er mikil áhersla lögð á þetta af hendi sveitarfélaga og þeirra sem málið varðar. Það er vaxandi kostnaður af þessum veiðum og örugglega meiri en oft áður í kjölfar þeirra atburða sem gerðust í haust.

Ég reikna með því og hef um það gögn að kostnaður við þessar veiðar gæti numið eitthvað á annað hundrað milljónum á næsta ári, 120–130 millj. kr., sem er gríðarlegur kostnaður því oft er þetta kostnaður sem lendir á fámennum sveitarfélögum, sveitarfélögum sem hafa ekki úr miklu að moða.

Ég get einfaldlega svarað þessu á þann veg að þessi mál eru til umræðu í fjárlaganefnd og ég held að fullur vilji sé til þess hjá fjárlaganefnd að finna leiðir til að bregðast við þessu. Tillögur í þá veru verða að bíða 2. umr. fjárlaga en viljinn er svo sannarlega fyrir hendi.



[15:22]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Skúla Helgasonar sem talaði fyrir því að við í þinginu mundum bæta umgjörð þannig að meðferð kynferðisbrotamála verði betri en nú er, meðal annars með því að auka fjármagn til lögreglunnar. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því og lögðum fram löggæsluáætlun síðasta vor sem ætti þá að varpa ljósi á það hvar vandinn liggur og hvar setja þurfi inn aukið fjármagn. Auk þess höfum við lagt það fram í fjárlögum á liðnum árum.

Ég ætlaði líka að vitna til Greiningar Íslandsbanka, eða Morgunkorns hans, þar sem fjallað er um tekjur af erlendum ferðamönnum. Þar er sagt að á þriðja ársfjórðungi hafi þeir verslað hér fyrir 32,4 milljarða og að hreinn afgangur sé um 18 milljarðar kr. miðað við 16,8 milljarða á sama tíma í fyrra. Það er því ljóst, eins og stendur í Morgunkorninu, að ferðaþjónustan er að skila umtalsverðum og vaxandi gjaldeyristekjum til landsins þótt þær virðist ekki hafa dugað til þess að blása nægum vindi í segl krónunnar á nýliðnum ársfjórðungi.

Nú vil ég rifja upp tillögur ríkisstjórnarinnar, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, í þessum málaflokki þar sem lagt er til að hækka virðisaukaskatt á gistingu í ferðaþjónustunni rúmlega þrefalt og hafa þar með áhrif á það að þessi vaxtarbroddur í atvinnugreininni á Íslandi minnki þannig að tekjur af þessum hluta innstreymis gjaldeyristekna lækki, verði alla vega ekki meiri en hér er, eins og við þurfum virkilega á því að halda og krónan líka. Við framsóknarmenn höfum talað gegn þessu. Við höfum lagt mikla áherslu á að menn töluðu um þetta og vörpuðu skýru ljósi á þetta.

Ég vil nota þetta tækifæri, frú forseti, til að minna á að formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, (Forseti hringir.) verður með fund um þetta mál með aðilum í ferðaþjónustunni í hádeginu á morgun á Kaffi Sólon. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því (Forseti hringir.) að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara er sú leið að minnka kökuna en ekki auka tekjur samfélagsins.



[15:24]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Grafalvarlegar fréttir berast úr framhaldsskólum landsins. Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni frétt sem var í Fréttablaðinu dag um stöðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Ég verð að segja að það var hreint ótrúlegt að hlusta á hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi formann fjárlaganefndar þar á undan kalla það upphrópanir að þarna svari skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja því til aðspurður hvaða afleiðingar það hefði ef farið yrði eftir fjárlagafrumvarpi hæstv. fyrrverandi ráðherra. Hann metur það þannig að miðað við fjárveitingar þurfi að vísa 200 nemendum frá. Hann metur það þannig að skilaboðin hafi verið einföld á fundi í menntamálaráðuneytinu í gær: Það verður ekki bætt meiru við. Þetta kallar hv. þm. Oddný Harðardóttir upphrópanir.

Ég vona svo sannarlega að úr þessu verði greitt. Ég átti samtal áðan við hæstv. menntamálaráðherra sem ég treysti til að standa við þau orð að engum nemanda verði vísað frá í þessum skóla. Það er alveg rétt að það er mjög vont fyrir svæðið, Suðurnesin, sem hefur fengið högg eftir högg, ekki síst heimatilbúin högg frá hæstv. ríkisstjórn, að fá svona fréttir framan í sig. Ég vona svo sannarlega að komið verði í veg fyrir það með öllum ráðum. En þá verður maður að velta fyrir sér af hverju hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra lagði þá ekki til raunhæfa fjárveitingu í fjárlagafrumvarpinu í stað þess að væna menn um upphrópanir.

Mig langar líka aðeins, út af orðum hv. þm. Skúla Helgasonar í upphafi, sem var að tala um kynferðisbrotamál og fund allsherjar- og menntamálanefndar um þau mál — og það er mjög gott að þetta sé tekið til skoðunar. Ég vil benda hv. þingmanni á að kynferðisafbrot eru rannsökuð víðar en bara hér í Reykjavík. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur til dæmis náð mjög góðum árangri í að upplýsa og fá sakfellingu á (Forseti hringir.) kynferðisafbrotum í því umdæmi. Miðað við 3% sakfellingartöluna, sem hv. þingmaður nefndi, (Forseti hringir.) þá get ég bent á að hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum er þessi tala 17%.



[15:27]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna og annarra á minnisblöðum sem ég hef fengið frá hæstv. fjármálaráðherra út af Byr og SpKef. Eins og menn vita hefur mikið þurft til til að fá upplýsingar þar. Flest svörin eru útúrsnúningar og ekki svarað en hér eru þó hlutir sem ég tel að þingheimur verði að skoða.

Það segir, með leyfi forseta, þegar spurt er um hóp sem hélt utan um vinnu í tengslum við Sparisjóðinn og SpKef:

„Fjármálaráðuneytið stýrði vinnu hópsins og greiddi þóknun til þeirra utanaðkomandi sérfræðinga sem leitað var til. Ekki var hins vegar haldið sérstaklega um greiðslur til sérfræðinganna vegna vinnu sem tengdist Byr sparisjóði eða Sparisjóðnum í Keflavík. En umræddir sérfræðingar unnu á sama tíma fleiri verkefni fyrir ráðuneytið.“

Ég vek athygli á því að hér eru bara sendir inn reikningar og ekki tilgreint fyrir hvað. Hér eru í það minnsta tugir milljóna undir, jafnvel hundruð milljóna.

Hér segir líka, með leyfi forseta:

„Vinnuhópurinn skilaði ekki sérstökum minnisblöðum til fjármálaráðuneytisins vegna vinnu hans og eru þau vinnugögn sem hópurinn aflaði sér í fórum þeirra sem sátu umrædda fundi en ekki í skjalavistunarkerfi ráðuneytisins.“

Virðulegi forseti. Um er að ræða vinnuhóp sem vinnur í mörg ár og undir eru tugir milljarða og ekki er til stafkrókur í ráðuneytinu um hvað hann var að gera og öll gögn eru hjá þeim sem voru í nefndinni þó svo að þeir séu allir ráðuneytisfólk.

Einnig vil ég vekja athygli á því að nú hefur það verið upplýst að þrátt fyrir að það hafi verið skylda Fjármálaeftirlitsins í fjögur ár að fylgjast með slitastjórnum hefur það ekki verið gert. Laun hafa hækkað úr 2,4 millj. kr. á mánuði í 5,6 millj. kr. og það hefur ekki verið neitt eftirlit af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Það var upplýst á nefndarfundi í morgun.

Á sama hátt hefur ekkert verið fylgst með því hver viðskipti þessara slitastjórnarmanna hafa verið við eigin fyrirtæki og hafa engar athugasemdir komið frá ríkisstjórn, Fjármálaeftirlitinu eða Seðlabankanum út af þessum launagreiðslum. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir gríðarlega miklar athugasemdir frá hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) var það upplýst að engar athugasemdir hafa komið frá þeim.



[15:30]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög dapurlegt að fylgjast með þeirri aðför sem hefur átt sér stað gagnvart Ríkisendurskoðun á liðnum vikum. Eitt er auðvitað að vera óánægður með efnistök stofnunarinnar í einstökum verkum en að bregðast við eins og gert hefur verið og setja Ríkisendurskoðun í raun og veru í frost er tilraun til þöggunar. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það sem verst er í þessu sambandi er að þannig er komið í veg fyrir að Ríkisendurskoðun geti sinnt eðlilega sínu lögbundna hlutverki. (Gripið fram í.) Í lögum um Ríkisendurskoðun segir að hún skuli endurskoða ríkisreikning og enn fremur að hún skuli annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Augljóst er að það getur hún ekki gert ef hún fær ekki í hendur fjáraukalög til að fylgjast með því sem gerst hefur frá því að fjárlög voru samþykkt og þar til fjáraukalög eru síðan lögð fyrir Alþingi.

Þetta er mjög alvarlegt. Við skulum gá að því að Ríkisendurskoðun hefur mjög sérstaka stöðu í stjórnsýslunni. Hún starfar á vegum Alþingis og er engum háð í störfum sínum. Þessi breyting á starfsemi Ríkisendurskoðunar á sínum tíma var gerð að gefnu tilefni, áður hafði Ríkisendurskoðun verið hluti af framkvæmdarvaldinu en með þessum hætti var verið að efla eftirlitshlutverk hennar og ekki síður eftirlitshlutverk Alþingis, sjálfstæði þess og stjórnsýslulega stöðu vegna þess að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi. Nú er verið að veikja þá stöðu, ekki einungis Ríkisendurskoðunar heldur líka stöðu Alþingis. Þá sjáum við loksins heildarsamhengið. Þetta er enn eitt dæmið sem við höfum séð á undanförnum missirum um ofríki framkvæmdarvaldsins þar sem brugðist er við gagnvart öllum þeim sem ekki sitja og standa eins og framkvæmdarvaldið vill á hverjum tíma. Nú dynja höggin á Ríkisendurskoðun, en hver verður næst? (Forseti hringir.) Verður það kannski umboðsmaður Alþingis?



[15:32]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil ræða áfram það mál sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi um stöðu Íbúðalánasjóðs. Í morgun kom frétt frá Bloomberg um að greiðslufall blasi við Íbúðalánasjóði. Því var reyndar mótmælt í yfirlýsingu frá Íbúðalánasjóði.

Íbúðalánasjóður býr við ákveðinn kerfisvanda, hann fjármagnar sig með sölu ríkisskuldabréfa, þ.e. skuldabréfa með ríkisábyrgð, til mjög langs tíma á föstum vöxtum. Hann hefur ekki uppgreiðslumöguleika á þeim lánum og það er veila sem hefði átt að vera búið að laga fyrir löngu, að minnsta kosti eftir að hún kom í ljós, sem var eftir hrun. Það vantar enn.

Síðan er hann í þeirri stöðu að núna er hann að tapa markaðshlutdeild. Sífellt fleiri taka óverðtryggð lán hjá bönkunum en þó að Íbúðalánasjóður hafi heimild til að lána óverðtryggt hefur hann ekki enn þá nýtt þá heimild þannig að í síðasta mánuði voru uppgreiðslurnar eiginlega svipaðar og útlánin. Þá þarf hann líka að ráðstafa öllum afborgunum og slíku. Vandi Íbúðalánasjóðs er sá að hann er með feiknamikið fé sem hann kemur ekki í ávöxtun og ekki í sambærilega ávöxtun og á þeim bréfum sem hann selur.

Nú er spurningin hvað ríkisstjórnin hefur gert. Það er beðið eftir niðurstöðu nefndar sem á að koma með úrlausnir. Hvað hyggst hv. fjárlaganefnd gera? Þeirri spurningu beini ég til formanns nefndarinnar, Björns Vals Gíslasonar: Hvað þarf að gera í fjárlaganefnd? Þarf að auka fjárveitingar umtalsvert? Hafa menn tekið utan um allan vandann?



[15:34]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrirspurnina. Ég held að við deilum báðir áhyggjum af Íbúðalánasjóði. Að minnsta kosti réði ég orð hans þannig að það væri áhyggjuefni hvernig fyrir honum væri komið. Íbúðalánasjóður hefur eins og allir aðrir orðið fyrir verulegum áföllum í kjölfar hrunsins og síðan var honum einnig ætlað aukið hlutverk til að bregðast við vaxandi skuldum heimilanna og einstaklinga í landinu, skuldara. Stjórnvöld ætluðu Íbúðalánasjóði annað og meira hlutverk en öðrum lánastofnunum.

Allt þetta og margt fleira hefur orðið til þess að Íbúðalánasjóður hefur orðið fyrir meiri skakkaföllum en menn bjuggust við í upphafi og leitt til þess að ríkissjóður hefur þurft að leggja honum til fé. Það er væntanlega það sem hv. þingmaður er að spyrja hér um.

En svo að það komi líka fram þá segir meðal annars í tilkynningu frá Moody's sem Bloomberg-fréttaveitan sendi á alla þingmenn í morgun að hætta sé á því að Íbúðalánasjóður lendi í greiðslufalli ef íslensk stjórnvöld grípa ekki til einhverra aðgerða eða leggja honum til fé. Það kemur jafnframt fram hjá þeim fulltrúa Moody's sem fjallar um þetta mál að gengið sé út frá því og reiknað með því að íslensk stjórnvöld geri það og styðji við sjóðinn eins og við höfum hingað til gert. Við höfum verið nokkuð sammála um það, ef ég man rétt, í þeim afgreiðslum sem við höfum farið með í gegnum þingið, bæði í fjárlögum og fjáraukalögum undanfarinna ára.

Til að svara fyrirspurn þingmannsins á ég ekki von á öðru en að við stöndum áfram vörð um Íbúðalánasjóð eins og mögulegt er og komum honum í gegnum þessar hremmingar sem vissulega eru honum erfiðar og okkur öllum. Við munum standa þétt við bakið á honum eins og við höfum gert hingað til.